Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


[Lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar]1)

2018 nr. 85 25. júní


   1)L. 63/2022, 11. gr.
Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. september 2018. Breytt með: L. 151/2020 (tóku gildi 6. jan. 2021). L. 63/2022 (tóku gildi 13. júlí 2022, sbr. þó 2. málsl. 12. gr.).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við forsætisráðherra eða forsætisráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Gildissvið, markmið og orðskýringar.
1. gr. Gildissvið.
Lög þessi gilda um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti, [þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu]1) á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, sbr. lög um jafna meðferð á vinnumarkaði.
Lög þessi taka ekki til mismunandi meðferðar einstaklinga á grundvelli ríkisfangs eða ríkisfangsleysis. Enn fremur ganga lög þessi ekki framar ákvæðum laga sem binda réttindi einstaklinga við búsetu þeirra hér á landi. Þá gilda lögin ekki á sviði einka- og fjölskyldulífs.
   1)L. 63/2022, 1. gr. Ákvæði um mismunandi meðferð á grundvelli aldurs, sbr. 1. mgr. 1. gr., taka gildi 1. júlí 2024 skv. 2. málsl. 12. gr. l. 63/2022.
2. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga óháð [þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr.]1) á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, sbr. lög um jafna meðferð á vinnumarkaði.
   1)L. 63/2022, 2. gr.
3. gr. Orðskýringar.
Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
   1. Jöfn meðferð: Þegar einstaklingum er hvorki mismunað beint né óbeint vegna [einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr.]1)
   2. Bein mismunun: Þegar einstaklingur fær óhagstæðari meðferð en annar einstaklingur fær, hefur fengið eða mundi fá við sambærilegar aðstæður vegna [einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr.]1)
   3. Óbein mismunun: Þegar að því er virðist hlutlaust skilyrði, viðmið eða ráðstöfun [kæmi]2) verr við einstaklinga vegna [einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr.]1) borið saman við aðra einstaklinga nema slíkt sé unnt að réttlæta á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði og aðferðirnar til að ná þessu markmiði [séu]2) viðeigandi og nauðsynlegar.
   4. [Áreitni: Hegðun sem tengist kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.]1)
   5. Sértækar aðgerðir: Sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að bæta stöðu einstaklinga á þeim sviðum þar sem á þá hallar, utan vinnumarkaðar, vegna [einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr.]1) í því skyni að stuðla að jafnri meðferð.
   [6. Lífsskoðun: Skoðun sem byggist á veraldlegum viðhorfum til lífsins, ákveðnum siðferðisgildum og siðferði ásamt skilgreindri siðfræði og þekkingarfræði.
   7. Fötlun: Afleiðing skerðinga og hindrana af ýmsum toga sem verða til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Skerðingar hlutaðeigandi einstaklings eru langvarandi og hindranirnar til þess fallnar að viðkomandi verði mismunað vegna líkamlegrar, geðrænnar eða vitsmunalegrar skerðingar eða skertrar skynjunar.
   8. Aldur: Lífaldur.
   9. Kynhneigð: Geta einstaklings til að laðast að eða verða ástfanginn af öðrum einstaklingi.
   10. Kynvitund: Upplifun einstaklings af eigin kyni og skilgreining hans á því.
   11. Kyneinkenni: Líffræðilegir þættir sem tengjast kyni, svo sem kynlitningar, hormónastarfsemi, kynkirtlar og kynfæri.
   12. Kyntjáning: Félagsleg tjáning einstaklings á kyni sínu.
   13. Fjölþætt mismunun: Þegar einstaklingi er mismunað á grundvelli fleiri en einnar mismununarástæðu sem nýtur verndar samkvæmt lögum þessum, lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði og lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Fjölþætt mismunun getur annaðhvort verið samtvinnuð þannig að tvær eða fleiri mismununarástæður skapi sérstakan grundvöll mismununar eða verið tvöföld/margföld þannig að mismununin sé vegna tveggja eða fleiri sjálfstæðra mismununarástæðna.]1)
   1)L. 63/2022, 3. gr. 2)L. 151/2020, 17. gr.

II. kafli. Stjórnsýsla.
4. gr. [Stjórnsýsla.
Um framkvæmd laga þessara, m.a. um yfirstjórn, hlutverk Jafnréttisstofu við eftirlit með framkvæmd laganna, þ.m.t. heimild til að beita dagsektum, og um kærunefnd jafnréttismála, þ.m.t. ákvæði um kæruheimild og um málsmeðferð fyrir kærunefndinni, fer samkvæmt lögum um stjórnsýslu jafnréttismála.]1)
   1)L. 151/2020, 17. gr.
5. gr.1)
   1)L. 151/2020, 17. gr.
6. gr.1)
   1)L. 151/2020, 17. gr.

III. kafli. Bann við mismunun.
7. gr. Almennt.
[Hvers kyns mismunun á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, hvort heldur bein eða óbein, vegna einhverra þeirra þátta sem getur um í 1. mgr. 1. gr. er óheimil, sbr. einnig lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Fjölþætt mismunun er einnig óheimil. Fyrirmæli um mismunun vegna einhverra þeirra þátta sem getur um í 1. mgr. 1. gr. teljast einnig mismunun samkvæmt lögum þessum sem og áreitni þegar hún tengist einhverjum þeim þáttum. Neitun um viðeigandi aðlögun skv. 7. gr. a telst jafnframt mismunun.
Ákvæði í samningi sem fela í sér mismunun vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. eru ógild.]1)
   1)L. 63/2022, 4. gr.
[7. gr. a. Viðeigandi aðlögun.
Fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og opinberir aðilar skulu gera nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sé þeirra þörf í sérstöku tilviki, til að gera fötluðum einstaklingi kleift að nýta sér eða fá notið samfélagsins utan vinnumarkaðar til jafns við aðra, enda séu þær ráðstafanir ekki of íþyngjandi eða umfram það sem eðlilegt má teljast.]1)
   1)L. 63/2022, 5. gr.
[7. gr. b. Frávik vegna aldurs.
Mismunandi meðferð vegna aldurs telst ekki brjóta gegn lögum þessum, séu færð fyrir henni málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði, þ.m.t. opinberri stefnu eða öðrum markmiðum stjórnvalda, enda gangi slíkar aðgerðir ekki lengra en nauðsynlegt er talið til að ná því markmiði sem stefnt er að.
Mismunandi meðferð á grundvelli ákvæða í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og samningum þar sem sérstök aldursviðmið eru tilgreind telst ekki mismunun ef unnt er að réttlæta aldursviðmið á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði og aðferðirnar til að ná því markmiði eru viðeigandi og nauðsynlegar.]1)
   1)L. 63/2022, 5. gr.
8. gr. Bann við mismunun í tengslum við félagslega vernd.
Hvers kyns mismunun vegna [einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr.]1) í tengslum við heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu er óheimil. Hið sama gildir um mismunun í tengslum við aðgang að almannatryggingakerfinu og öðrum félagslegum kerfum, svo sem atvinnuleysistryggingakerfinu og fæðingarorlofskerfinu.
   1)L. 63/2022, 6. gr.
9. gr. Bann við mismunun í tengslum við vörukaup og þjónustu.
Hvers kyns mismunun vegna [einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr.]1) í tengslum við aðgang að eða afhendingu á vöru er óheimil. Hið sama gildir um þjónustu og aðgang að þjónustu og jafnframt um húsnæði sem er í boði fyrir almenning. Ákvæði þetta gildir þó ekki um viðskipti á sviði einka- og fjölskyldulífs.
   1)L. 63/2022, 6. gr.
10. gr. [Bann við mismunun í skólum og öðrum menntastofnunum, á frístundaheimilum og í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi.]1)
[Í skólum, öðrum menntastofnunum, á frístundaheimilum og í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi er hvers kyns mismunun vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. óheimil.]1) Skylt er að gæta þessa í námi, kennslu, starfsháttum og daglegri umgengni við nemendur.
[Kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að ekki sé mismunað á grundvelli þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. og þau séu ekki til minnkunar eða lítilsvirðingar þeim sem hafa ákveðna lífsskoðun eða trú, eru á vissum aldri, af tilteknum kynþætti eða þjóðernisuppruna eða í ljósi fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar viðkomandi.]1)
   1)L. 63/2022, 7. gr.
11. gr. Auglýsingar.
[Auglýsandi og sá sem hannar eða birtir auglýsingu skulu sjá til þess að auglýsingin sé ekki til minnkunar eða lítilsvirðingar þeim sem hafa ákveðna lífsskoðun eða trú, eru á vissum aldri, af tilteknum kynþætti eða þjóðernisuppruna eða í ljósi fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar viðkomandi eða stríði á nokkurn hátt gegn jafnri meðferð óháð framangreindum þáttum, sbr. 1. mgr. 1. gr.]1) Óheimilt er að birta slíka auglýsingu í fjölmiðlum eða á öðrum opinberum vettvangi.
   1)L. 63/2022, 8. gr.
12. gr. Frávik vegna sértækra aðgerða.
Sértækar aðgerðir, sbr. 5. tölul. 3. gr., ganga ekki gegn lögum þessum.
13. gr. Vernd gegn órétti.
Óheimilt er að láta einstaklinga gjalda þess að kvartað hafi verið undan eða kærð mismunun vegna [einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr.]1) eða krafist leiðréttingar á grundvelli laga þessara.
Eigi ætlað brot skv. 1. mgr. sér stað meira en einu ári eftir að kvörtun, kæra eða krafa um leiðréttingu kom fram á grundvelli laga þessara verður þó ekki litið svo á að um brot skv. 1. mgr. hafi verið að ræða.
   1)L. 63/2022, 6. gr.
14. gr. Bann við afsali réttinda.
Óheimilt er að afsala sér þeim réttindum sem kveðið er á um í lögum þessum.
15. gr. Sönnunarbyrði.
Ef leiddar eru líkur að því að mismunun samkvæmt ákvæðum laga þessara hafi átt sér stað skal sá sem talinn er hafa mismunað sýna fram á að ástæður þær sem lágu til grundvallar meðferðinni tengist ekki [einhverjum þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr.]1)
   1)L. 63/2022, 9. gr.

IV. kafli. Viðurlög.
16. gr. Bætur fyrir fjártjón og miska.
Sá sem með saknæmum og ólögmætum hætti brýtur gegn lögum þessum er skaðabótaskyldur vegna fjártjóns og miska samkvæmt almennum reglum.
17. gr. Sektir.
[Brot gegn 7.–11. gr. og 13.–14. gr. eða reglugerðum settum samkvæmt þeim geta varðað sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.]1)
   1)L. 151/2020, 17. gr.

V. kafli. Önnur ákvæði.
18. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að setja ákvæði í reglugerð1) um nánari framkvæmd laga þessara, svo sem varðandi útfærslu á banni við mismunun í skólum og uppeldisstofnunum, starfsemi kærunefndar jafnréttismála eða starfsemi Jafnréttisstofu þegar kemur að eftirliti með lögum þessum.
   1)Rg. 220/2017, sbr. 414/2019.
19. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. september 2018.
Ákvæði til bráðabirgða.
[Innan árs frá gildistöku þessa ákvæðis skal ráðherra skipa starfshóp til að fjalla um mismunun vegna tengsla og um mögulegar tillögur til breytinga á lögum þessum og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði til að bregðast við þess háttar mismunun. Skal starfshópurinn skila niðurstöðu til ráðherra svo fljótt sem verða má eftir að hann tekur til starfa. Í starfshópnum skulu meðal annars eiga sæti fulltrúar frá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks, samtökum atvinnurekenda, heildarsamtökum launafólks og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.]1)
   1)L. 63/2022, 10. gr.