Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um ökutækjatryggingar
2019 nr. 30 15. maí
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. janúar 2020. EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 2009/103/EB.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við fjármála- og efnahagsráðherra eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Markmið, gildissvið og orðskýringar.
1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að stuðla að traustri vátryggingarvernd vegfarenda og að ökutæki séu með lögmæltar ökutækjatryggingar.
2. gr. Gildissvið.
Lög þessi gilda um lögmæltar ökutækjatryggingar og skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem hlýst af notkun ökutækja.
Lögin gilda ekki í eftirfarandi tilvikum:
a. þegar ökutæki er notað í öðrum tilgangi en sem ökutæki,
b. þegar ökutæki tekur þátt í aksturskeppni á lokuðu svæði sem leyfi hefur fengist fyrir samkvæmt umferðarlögum.
3. gr. Orðskýringar.
Í lögum þessum merkir:
1. Aðildarríki: Ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjar.
2. Græna kortið: Alþjóðlegt vátryggingarskírteini útgefið af lögbærum aðila sem staðfestir að ábyrgðartrygging ökutækis sé í gildi.
3. Lögmæltar ökutækjatryggingar: Ábyrgðartrygging skv. 8. gr. og slysatrygging ökumanns og eiganda skv. 9. gr.
4. Tjónsuppgjörsmiðstöð: Lögaðili sem getur greitt bætur vegna tjóns af völdum vélknúins ökutækis við ákveðin skilyrði.
5. Umráðamaður: Aðili sem hefur umráð ökutækis með samþykki eiganda þess og er skráður þannig í ökutækjaskrá.
6. Upplýsingamiðstöð: Lögaðili sem aðstoðar við að afla nauðsynlegra upplýsinga vegna tjónamáls þegar tjónþoli er búsettur hér á landi, ökutækið vátryggt eða að öllu jöfnu staðsett hér á landi eða tjónið er hér á landi, að ákveðnum skilyrðum fullnægðum.
7. Ökutæki: Skráningarskylt ökutæki samkvæmt umferðarlögum.
II. kafli. Skaðabótaábyrgð vegna tjóns.
4. gr. Grundvöllur ábyrgðar.
Eigandi (umráðamaður) ökutækis skal bæta tjón sem hlýst af notkun þess þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á ökutækinu eða ógætni ökumanns.
Eigandi (umráðamaður) ökutækis sem notað er til dráttar er skaðabótaskyldur ef tjón hlýst af þegar það dregur annað ökutæki. Tjón á ökutæki sem er dregið af öðru ökutæki vegna björgunarstarfa er undanskilið bótaábyrgð skv. 1. málsl. ef sannanlegt samþykki eiganda (umráðamanns) liggur fyrir.
Þegar ökutæki dregur eftirvagn eða annað tæki er fest við það telst það vera ein heild og eigandi (umráðamaður) ökutækisins er ekki skaðabótaskyldur ef tjón verður á eftirvagninum eða tækinu.
Bætur fyrir líkamstjón eða vegna missis framfæranda má lækka eða fella niður ef sá sem varð fyrir tjóni eða lést var meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.
Bætur fyrir tjón á munum má lækka eða fella niður ef sá sem varð fyrir tjóni var meðvaldur að því af ásetningi eða gáleysi.
5. gr. Skipting tjóns.
Ef tjón hlýst af árekstri ökutækja skiptist tjónið á þau í réttu hlutfalli við sök þeirra sem hlut eiga að máli og með hliðsjón af atvikum öllum.
6. gr. Ábyrgð.
Eigandi ökutækis ber ábyrgð á því og er fébótaskyldur skv. 4. og 5. gr. Ef umráðamaður er skráður í ökutækjaskrá ber hann ábyrgðina og er fébótaskyldur skv. 4. og 5. gr. Fébótaskyldan færist þó yfir á þann sem notar ökutækið í algeru heimildarleysi.
Auk ábyrgðar skv. 1. mgr. fer um bótaábyrgð eftir almennum skaðabótareglum.
7. gr. Undanþága.
Ákvæði 4.–6. gr. gilda ekki um létt bifhjól í flokki I samkvæmt umferðarlögum.
III. kafli. Vátryggingarskylda.
8. gr. Ábyrgðartrygging ökutækis.
Greiðsla á bótakröfu vegna tjóns sem hlýst af notkun ökutækis skal vera tryggð með ábyrgðartryggingu hjá:
a. vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi útgefið hér á landi til að taka að sér ábyrgðartryggingu ökutækja eða
b. vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi í aðildarríki, enda hafi Fjármálaeftirlitinu verið tilkynnt á lögformlegan hátt að það taki að sér ábyrgðartryggingu ökutækja hér á landi.
Ábyrgðartrygging skal gilda í aðildarríkjum á grundvelli eins og sama iðgjalds. Vátryggingin skal veita þá vátryggingarvernd í hverju aðildarríki sem kveðið er á um í löggjöf viðkomandi ríkis eða þá vátryggingarvernd sem mælt er fyrir um í íslenskri löggjöf þegar sú vernd er víðtækari. Vátryggingin skal gilda allt samningstímabilið þótt vátryggt ökutæki sé staðsett í öðru aðildarríki á því tímabili.
Vátryggingafélög sem taka að sér ábyrgðartryggingu ökutækja hér á landi, sbr. 1. mgr., skulu vera aðilar að og taka þátt í starfsemi tjónsuppgjörsmiðstöðvar skv. 17. gr. og upplýsingamiðstöðvar skv. 18. gr.
Vátryggingafélag sem hyggst taka að sér ábyrgðartryggingu ökutækja hér á landi skal tilkynna það til Samgöngustofu.
Ábyrgðartrygging ökutækja skal tryggja bætur vegna líkamstjóns eða vegna missis framfæranda allt að 3.740 millj. kr. og vegna tjóns á munum allt að 433 millj. kr. sem hlýst af hverjum einstökum tjónsatburði.
Ráðherra er heimilt, að fengnum tillögum Fjármálaeftirlitsins, að breyta vátryggingarfjárhæðum skv. 5. mgr. Ákvörðun ráðherra um breytingu fjárhæða skal birt með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.
9. gr. Slysatrygging ökumanns og eiganda.
Auk ábyrgðartryggingar skv. 8. gr. skal hver ökumaður sem stjórnar ökutæki tryggður sérstakri slysatryggingu, enda hafi hann ekki notað ökutækið í algeru heimildarleysi, sbr. 1. mgr. 6. gr. Vátryggingin skal tryggja bætur fyrir líkamstjón af völdum slyss sem ökumaður verður fyrir við stjórn ökutækisins, enda verði slysið rakið til notkunar ökutækis, sbr. 4. gr.
Slasist vátryggingartaki sem farþegi í eigin ökutæki eða af völdum þess skal hann eiga rétt til bóta úr vátryggingu þessari, enda verði líkamstjónið rakið til notkunar ökutækis, sbr. 4. gr.
Vátryggingin skal tryggja hverjum tjónþola bætur allt að 280 millj. kr. vegna hvers einstaks tjónsatburðar. Vátryggt skal hjá sama vátryggingafélagi og ábyrgðartryggir ökutækið. Um ákvörðun bótafjárhæðar fer eftir I. kafla skaðabótalaga.
Ráðherra er heimilt, að fengnum tillögum Fjármálaeftirlitsins, að breyta vátryggingarfjárhæðum skv. 3. mgr. Ákvörðun ráðherra um breytingu fjárhæða skal birt með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.
Ef tjónþoli á rétt á skaðabótum vegna slyssins eftir lögum þessum eða öðrum skaðabótareglum lækka bætur úr þessari vátryggingu sem því nemur.
10. gr. Vátryggingarskylda.
Vátryggingarskylda skv. 8. og 9. gr. hvílir á eiganda ökutækisins. Heimilt er að semja um að umráðamaður ökutækis vátryggi það í sínu nafni og skal hann þá hafa val um hjá hvaða vátryggingafélagi hann vátryggir.
Eigi er skylt að vátryggja ökutæki í eigu ríkissjóðs.
Ráðherra getur veitt undanþágu frá því að ökutæki sem eru í eigu erlendra ríkja eða alþjóðastofnana hafi ökutækjatryggingu.
Ef ökutæki er ekki vátryggt skv. 2. og 3. mgr. ber ríkissjóður ábyrgð á sama hátt og vátryggingafélag sem tekið hefur að sér vátryggingu skv. 8. og 9. gr.
Vátryggingafélagi, sem hefur starfsleyfi skv. 10. tölul. 1. mgr. 20. gr. laga um vátryggingastarfsemi, er skylt að veita lögboðnar ökutækjatryggingar sérhverjum þeim vátryggingarskylda aðila sem undirgengst boðna vátryggingarskilmála.
11. gr. Undanþága frá vátryggingarskyldu.
Létt bifhjól í flokki I samkvæmt umferðarlögum eru undanþegin vátryggingarskyldu skv. 8.–10. gr.
Ökutæki sem eru eingöngu ætluð til aksturs utan vega eða í brautum og skráð eru sem torfærutæki eru undanþegin vátryggingarskyldu skv. 9. gr.
12. gr. Vátryggingariðgjald.
Lögboðið vátryggingariðgjald ökutækis ásamt vöxtum og kostnaði hvílir sem lögveð á ökutækinu og gengur fyrir öllum öðrum skuldbindingum sem á því hvíla í tvö ár frá gjalddaga nema gjöldum til ríkissjóðs. Á grundvelli slíks lögveðs má krefjast nauðungarsölu á ökutæki án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Lögveðið fellur ekki niður við eigendaskipti.
13. gr. Lok vátryggingar.
Hafi iðgjald, auk áfallins kostnaðar, eigi verið greitt innan 14 daga frá sendingu tilkynningar skv. 1. mgr. 33. gr. laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, eða að liðnum greiðslufresti skv. 2. mgr. 32. gr. sömu laga, fellur vátrygging ökutækis úr gildi. Vátryggingafélagið skal þá þegar senda tilkynningu um það til Samgöngustofu. Falli vátrygging úr gildi af annarri ástæðu en vanskilum skal félagið tilkynna það Samgöngustofu þegar eftir að vátryggingin er fallin úr gildi.
Auk tilkynningar til Samgöngustofu skv. 1. mgr. skal félagið gera eiganda ökutækis og umráðamanni, sé hann skráður, viðvart og kynna honum réttaráhrif slíkrar tilkynningar.
Vátryggingafélag skal hvorki senda tilkynningu skv. 1. mgr. né gera eiganda ökutækis eða umráðamanni viðvart skv. 2. mgr. ef það hefur vitneskju um að ökutæki hafi verið vátryggt hjá öðru félagi, það afskráð eða skráningarmerki þess lögð inn til vörslu Samgöngustofu eða þess sem hefur umboð til að taka við skráningarmerkjum. Framangreind tilvik teljast uppsögn vátryggingarsamnings og hafa sömu réttaráhrif og lok vátryggingar. Skráningarmerki skal ekki afhenda aftur nema ökutækið hafi verið vátryggt að nýju.
Þegar Samgöngustofa fær tilkynningu skv. 1. mgr. og í ljós kemur að ökutækið hefur ekki verið afskráð og ný vátrygging er ekki til staðar skal lögreglustjóri þar sem eigandi (umráðamaður) er skráður til heimilis hlutast til um að skráningarmerki séu tafarlaust fjarlægð af ökutækinu.
IV. kafli. Réttarstaða tjónþola. Óvátryggð og óþekkt ökutæki.
14. gr. Réttarstaða tjónþola.
Vátryggingafélag ber áfram ábyrgð á tjóni gagnvart þriðja manni sem verður þótt ábyrgðartrygging sé fallin úr gildi þar til fjórar vikur eru liðnar frá því að vátryggingafélag sendi Samgöngustofu tilkynningu skv. 1. mgr. 13. gr. eða skráningarmerki voru lögð inn til Samgöngustofu, sbr. 3. mgr. 13. gr.
Vátryggingafélag ber ekki ábyrgð á grundvelli slysatryggingar ökumanns og eiganda, sbr. 9. gr., eftir að tilkynning skv. 1. mgr. 13. gr. hefur verið send eða skráningarmerki lögð inn til Samgöngustofu, sbr. 3. mgr. 13. gr.
15. gr. Tjón af völdum óþekktra eða óvátryggðra ökutækja.
Tjónsuppgjörsmiðstöð skal greiða tjónþola bætur fyrir líkamsáverka eða missi framfæranda vegna slyss hér á landi ef ætla má að tjónið hafi hlotist af notkun óþekkts ökutækis. Séu greiddar bætur fyrir líkamstjón skal jafnframt greiða bætur fyrir munatjón vegna sama tjónsatviks.
Tjónsuppgjörsmiðstöð skal greiða tjónþola bætur vegna tjónsatviks sem hlotist hefur hér á landi af notkun ökutækis sem engin ábyrgðartrygging hefur verið keypt fyrir eða vátrygging þess hefur verið felld niður af vátryggingafélagi eða ekki haldið í gildi.
Bætur skv. 1. og 2. mgr. greiðast allt að þeirri vátryggingarfjárhæð sem er ákveðin í lögum þessum.
Bætur skv. 1. og 2. mgr. greiðast ekki ef tjónsuppgjörsmiðstöð sýnir fram á að tjónþoli hafi vitað að ökutæki sem tjón hlýst af, og sem hann af fúsum vilja hefur tekið sér far í, hafi verið óvátryggt er tjónsatvikið varð. Sama á við um tjón á munum sem fluttir eru með ökutæki hafi eigandi eða sendandi þeirra vitað að það hafi verið óvátryggt. Skaðabætur eftir ákvæðum þessum skal ekki heldur greiða til að fullnægja endurkröfu frá þriðja manni.
Tjónsuppgjörsmiðstöð bætir ekki tjón er ætla má að sé af völdum ökutækis sem undanþegið er vátryggingarskyldu og er í eigu ríkissjóðs Íslands, erlends ríkis eða alþjóðastofnunar. Ábyrgð á slíkum kröfum fer skv. 4. mgr. 10. gr.
Tjónsuppgjörsmiðstöð á endurkröfurétt samkvæmt almennum reglum íslensks réttar á hendur þeim sem bera skaðabótaábyrgð á tjóni af völdum óvátryggðs ökutækis, þ.m.t. eiganda og ökumanni. Sama á við hafi félagið greitt bætur fyrir tjón af völdum óþekkts ökutækis, ef síðar upplýsist um það. Í því tilviki á félagið einnig endurkröfurétt á hendur vátryggjanda ökutækisins. Ákvæði þessarar málsgreinar hagga ekki reglum um kröfur samkvæmt öðrum endurkröfuheimildum.
16. gr. Tímabundin notkun erlendra ökutækja.
Tjónsuppgjörsmiðstöð skal greiða skaðabætur vegna tjóns af völdum óvátryggðs erlends ökutækis sem um stundarsakir er notað hér á landi án þess að vera skráð hér.
V. kafli. Tjónsuppgjörsmiðstöð og upplýsingamiðstöð.
17. gr. Tjónsuppgjörsmiðstöð.
Tjónsuppgjörsmiðstöð getur greitt bætur vegna tjóns af völdum ökutækis ef:
a. tjónþoli er búsettur hér á landi,
b. ökutækið er vátryggt og að öllu jöfnu staðsett í öðru aðildarríki, eða ökutækið er óþekkt, eða ekki er unnt að hafa uppi á því vátryggingafélagi sem vátryggði ökutækið og
c. tjónið varð í öðru aðildarríki eða í ríki sem er aðili að tilhöguninni um græna kortið.
Tjónsuppgjörsmiðstöð getur greitt bætur vegna tjóns af völdum ökutækja sem vátryggð eru hér á landi ef:
a. tjónþoli er búsettur í öðru aðildarríki,
b. ökutækið er að jafnaði staðsett í öðru aðildarríki en þar sem tjónþoli er búsettur og
c. tjónið varð í öðru aðildarríki en þar sem tjónþoli er búsettur eða öðru ríki sem er aðili að tilhöguninni um græna kortið.
18. gr. Upplýsingamiðstöð.
Upplýsingamiðstöð aðstoðar við að afla grundvallarupplýsinga sem eru nauðsynlegar við meðferð tjónamáls ef tjónþoli er búsettur hér á landi, ökutækið er vátryggt eða að öllu jöfnu staðsett hér á landi, eða tjónið varð hér á landi. Þetta gildir þó því aðeins að:
a. tjónþoli sé búsettur í aðildarríki,
b. ökutækið sé vátryggt og að öllu jöfnu staðsett í aðildarríki,
c. tjónið hafi orðið í aðildarríki eða öðru ríki sem er aðili að tilhöguninni um græna kortið.
VI. kafli. Greiðsluskylda og endurkröfuréttur.
19. gr. Greiðsluskylda og endurkröfuréttur.
Vátryggingafélag er greiðsluskylt gagnvart tjónþola vegna bótakrafna skv. 1. mgr. 8. gr.
Nú hefur vátryggingafélag greitt bætur skv. 8. gr. og á þá félagið endurkröfurétt á hendur hverjum þeim sem valdið hefur tjóni af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Lækka má endurkröfu með hliðsjón af sök tjónvalds, efnahag hans, fjárhæð tjónsins eða öðrum atvikum. Ef vátryggingafélag greiðir bætur eftir að vátrygging er fallin niður skv. 14. gr. á það endurkröfu á hendur hverjum þeim sem valdið hefur tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.
Óheimilt er að kaupa vátryggingu gegn endurkröfu vátryggingafélags.
20. gr. Endurkröfunefnd.
Ráðherra skipar nefnd þriggja manna sem ákveður hvort beita skuli endurkröfurétti vegna stórkostlegs gáleysis eða ásetnings þess sem ábyrgð ber á tjóni sem vátryggingafélag hefur bætt samkvæmt lögum þessum. Um sérstakt hæfi nefndarmanna fer eftir II. kafla stjórnsýslulaga. Skal einn nefndarmaður skipaður eftir tilnefningu vátryggingafélaga þeirra sem viðurkenningu hafa skv. 8. gr., einn eftir sameiginlegri tilnefningu Félags íslenskra bifreiðaeigenda og Samtaka verslunar og þjónustu og einn án tilnefningar og er hann formaður nefndarinnar. Ef tilnefningaraðilar koma sér ekki saman um tilnefningu skipar ráðherra án tilnefningar. Skipunartími nefndarinnar skal vera þrjú ár.
Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði en vátryggingafélög skulu endurgreiða þann kostnað.
VII. kafli. Bótakröfur.
21. gr. Meðferð skaðabótamála.
Nú er bótakrafa skv. 4. og 5. gr. höfð uppi í sakamáli og skal þá tilkynna því vátryggingafélagi sem hefur ábyrgðartryggt ökutækið um kröfuna. Hefur félagið þá sama rétt og sökunautur sjálfur til að koma að vörnum í skaðabótamálinu enda er þá áfellisdómur bindandi fyrir vátryggingafélagið og aðfararhæfur gagnvart því.
Um meðferð bótakröfu í einkamáli fer eftir 44. gr. laga um vátryggingarsamninga.
22. gr. Bætur hærri en vátryggingarfjárhæð.
Ef bætur vegna tjóns eru ákveðnar hærri en vátryggingarfjárhæðinni nemur skal skipta henni að tiltölu á milli þeirra sem kröfur eiga vegna tjónsins. Þetta ákvæði gildir einnig þótt vátryggingarfjárhæðin sé hærri en lögboðið er.
Ef einhver þeirra sem bótarétt eiga skv. 1. mgr. hefur eigi tilkynnt félaginu um kröfu sína innan sex mánaða frá tjónsatburði má vátryggingafélagið vítalaust greiða vátryggingarfjárhæðina að fullu öðrum þeim er bótarétt eiga.
23. gr. Fyrning bótakrafna.
Bótakröfur samkvæmt lögum þessum, aðrar en kröfur um bætur fyrir líkamstjón, bæði á hendur þeim sem ábyrgð ber og vátryggingafélagi, svo og endurkröfur vátryggingafélags, fyrnast á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Kröfur þessar fyrnast þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði.
Kröfur um bætur fyrir líkamstjón fyrnast á tíu árum frá tjónsatburði.
VIII. kafli. Ýmis ákvæði.
24. gr. Eftirlit.
Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara að því er varðar eftirlitsskylda aðila samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
25. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra skal setja reglugerð1) um nánari framkvæmd laga þessara, þar á meðal um:
a. starfshætti endurkröfunefndar skv. 20. gr., þar á meðal hvernig vátryggingafélög senda nefndinni gögn um bótakröfur,
b. framkvæmd vátryggingarskyldu skv. 10. gr., þar á meðal skyldu vátryggingafélaga til að taka þátt í gagnkvæmu ábyrgðarkerfi vegna tjóna af völdum óvátryggðra og óþekktra ökutækja og skyldu vátryggingafélaga til að gefa út vottorð með upplýsingum um skaðabótakröfur vegna tjóns sem varða vátryggt ökutæki eða að ekki sé um slíkar kröfur að ræða.
Ráðherra getur sett reglugerðir um:
a. þátttöku vátryggingafélaga í tjónsuppgjörsmiðstöð skv. 17. gr. og upplýsingamiðstöð skv. 18. gr.,
b. undanþágur frá vátryggingarskyldu samkvæmt lögum þessum vegna tiltekinna ökutækja skv. 10. gr.,
c. greiðslu bóta vegna tjóna er ökutæki, sem undanþegin eru vátryggingarskyldu skv. 2. og 3. mgr. 10. gr., valda erlendis,
d. greiðslu bóta frá tjónsuppgjörsmiðstöð og um starfsemi hennar skv. 17. gr.; hann getur enn fremur kveðið á um nánari reglur um meðferð bótakrafna hjá vátryggingafélögum og tjónsuppgjörsfulltrúum vátryggingafélaga,
e. starfsemi upplýsingamiðstöðvar skv. 18. gr., þar á meðal hvaða upplýsingar falla undir 1. málsl. 18. gr., um skyldu vátryggingafélaga og tjónsuppgjörsfulltrúa til að láta upplýsingamiðstöð og upplýsingaskrifstofum í öðrum aðildarríkjum í té upplýsingar,
f. heimild til að víkja frá ákvæðum laganna um fébótaábyrgð og vátryggingu vegna akstursíþrótta og aksturskeppni.
1)Rg. 1244/2019.
26. gr. Innleiðing.
Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/103/EB frá 16. september 2009 um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og um að fylgja því eftir að vátrygging vegna slíkrar ábyrgðar sé tekin, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 117/2011 frá 21. október 2011.
27. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020.
…