Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur
2019 nr. 31 15. maí
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. september 2019. EES-samningurinn: IX. viðauki reglugerð 2015/751. Breytt með:
L. 91/2019 (tóku gildi 1. jan. 2020 nema 133. gr. sem tók gildi 16. júlí 2019).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við fjármála- og efnahagsráðherra eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
1. gr. Lögfesting.
Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/751 frá 29. apríl 2015 um milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur, með þeim aðlögunum sem leiðir af bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2019 frá 8. febrúar 2019, hefur lagagildi. Reglugerðin er birt á bls. 660 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 15 frá 21. febrúar 2019. Ákvörðunin er birt á bls. 11 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 17 frá 28. febrúar 2019.
2. gr. Eftirlit.
Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að farið sé að lögum þessum.
Neytendastofa hefur þó eftirlit með því að farið sé að 4. mgr. 10. gr. reglugerðar (ESB) 2015/751 um merkingar söluaðila um viðtöku korta. Um eftirlit Neytendastofu fer samkvæmt lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu eftir því sem við getur átt, þar á meðal varðandi kærurétt, öflun upplýsinga og gagna og þvingunarúrræði Neytendastofu.
3. gr. Stjórnvaldssekt.
Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssekt á einstakling og lögaðila sem af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn eftirtöldum greinum reglugerðar (ESB) 2015/751:
1. 3. gr. um milligjöld fyrir debetkortafærslur neytenda.
2. 4. gr. um milligjöld fyrir kreditkortafærslur neytenda.
3. 6. gr. um leyfisveitingu.
4. 7. gr. um aðgreiningu greiðslukortakerfa og vinnslueininga.
5. 8. gr. um kortasamstarf og val á greiðsluvörumerki eða greiðsluhugbúnaði.
6. 9. gr. um aðgreiningu gjalda.
7. 10. gr. um að taka við öllum kortum, að 4. mgr. frátalinni.
8. 11. gr. um reglur um stýringu.
9. 12. gr. um upplýsingar til viðtakanda greiðslu um einstakar kortatengdar greiðslur.
Stjórnvaldssekt sem Fjármálaeftirlitið leggur á einstakling getur numið frá 100 þús. kr. til 65 millj. kr. eða allt að tvöföldum ávinningi hans af broti ef sú fjárhæð er hærri. Stjórnvaldssekt sem Fjármálaeftirlitið leggur á lögaðila getur numið frá 500 þús. kr. til 800 millj. kr. eða allt að tvöföldum ávinningi hans af broti eða 10% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eftir því hver fjárhæðanna er hæst. Ef lögaðili er hluti af samstæðu og brot er framið til hagsbóta fyrir annan lögaðila í samstæðunni eða annar lögaðili í samstæðunni hefur notið hagnaðar af brotinu getur stjórnvaldssekt numið allt að 10% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi samstæðunnar ef sú fjárhæð er hærri.
Neytendastofa getur lagt allt að 10 millj. kr. stjórnvaldssekt á einstakling og lögaðila sem af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn 4. mgr. 10. gr. reglugerðar (ESB) 2015/751 um merkingar söluaðila um viðtöku korta.
Við ákvörðun sekta samkvæmt þessu ákvæði skal tekið tillit til allra atvika sem máli geta skipt, þ.m.t. alvarleika brots, hversu lengi brot hefur staðið og hvort brot er ítrekað, svo og samstarfsvilja hins brotlega.
Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun um álagningu skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
4. gr. Réttur til að fella ekki á sig sök.
Einstaklingi sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um brot sem varðar stjórnvaldssekt samkvæmt lögum þessum er óskylt að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni geti það haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið eða Neytendastofa, eftir því sem við á, skal leiðbeina honum um þennan rétt.
5. gr. Aðfararhæfi.
Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins eða Neytendastofu um stjórnvaldssekt er aðfararhæf.
Málskot til áfrýjunarnefndar neytendamála frestar aðför til fullnustu ákvörðun Neytendastofu um stjórnvaldssekt. Úrskurður nefndarinnar er aðfararhæfur.
6. gr. Frestur til að leggja á stjórnvaldssekt.
Heimild til að leggja á stjórnvaldssekt samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk. Tilkynning Fjármálaeftirlitsins eða Neytendastofu til málsaðila um rannsókn á meintu broti rýfur frestinn gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.
7. gr. Sátt.
Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt við málsaðila. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. [Seðlabanki Íslands]1) getur sett reglur um nánari framkvæmd ákvæðisins.
1)L. 91/2019, 134. gr.
8. gr. Reglugerð.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð1) um nánari framkvæmd laga þessara, þar á meðal áskilnaðar a-liðar 1. mgr. 7. gr. reglugerðar (ESB) 2015/751 um að greiðslukortakerfi og vinnslueiningar skuli vera óháðar með tilliti til reikningshalds, skipulags og ákvarðanatökuferlis.
1)Rg. 340/2020.
9. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. september 2019.
Ákvæði til bráðabirgða.
Ráðherra skal innan tveggja ára frá gildistöku laga þessara meta í samráði við Fjármálaeftirlitið, Neytendastofu, Samkeppniseftirlitið og Seðlabanka Íslands hvort tilefni sé til að leggja til lægra hámark á milligjöld vegna innlendra debetkortafærslna en 0,2%.