Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um ófrjósemisaðgerðir

2019 nr. 35 15. maí


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 24. maí 2019. Breytt með: L. 153/2020 (tóku gildi 6. jan. 2021).


1. gr. Markmið og gildissvið.
Markmið laga þessara er að tryggja einstaklingum sjálfsforræði til að taka ákvörðun um ófrjósemisaðgerð. Gæta skal mannréttinda og mannhelgi í hvívetna við framkvæmd laganna.
Ákvæði laga þessara taka ekki til tilvika þar sem um nauðsynlega læknismeðferð er að ræða enda þótt ófrjósemi hljótist af.
2. gr. Ófrjósemisaðgerð.
Ófrjósemisaðgerð samkvæmt lögum þessum er þegar sáðgöngum …1) eða eggjaleiðurum …1) er lokað til að binda enda á frjósemi.
   1)L. 153/2020, 18. gr.
3. gr. Heimild til ófrjósemisaðgerðar.
Ófrjósemisaðgerð er heimil að ósk einstaklings sem náð hefur 18 ára aldri.
Einungis er heimilt að framkvæma ófrjósemisaðgerð á einstaklingum sem eru ólögráða fyrir æsku sakir þegar ætla má að frjósemi viðkomandi hafi alvarleg áhrif á líf eða heilsu einstaklingsins og skal liggja fyrir staðfesting tveggja lækna um slíkt, auk samþykkis sérstaklega skipaðs lögráðamanns, sbr. 53. gr. lögræðislaga.
4. gr. Fræðsla.
Áður en ófrjósemisaðgerð er framkvæmd skal fræða viðkomandi um í hverju aðgerðin er fólgin, áhættu samfara henni sem og afleiðingar.
5. gr. Framkvæmd ófrjósemisaðgerðar.
Einungis læknar með sérfræðiviðurkenningu í almennum skurðlækningum, kvensjúkdómalækningum eða þvagfæraskurðlækningum mega framkvæma ófrjósemisaðgerð í samræmi við ákvæði laga þessara, laga um heilbrigðisþjónustu, laga um réttindi sjúklinga, laga um sjúkraskrár og annarra laga eftir því sem við á.
Ófrjósemisaðgerð skal framkvæmd á heilbrigðisstofnun eða starfsstofu læknis, sbr. 1. mgr., sem landlæknir hefur eftirlit með, sbr. lög um landlækni og lýðheilsu.
6. gr. Synjun um ófrjósemisaðgerð.
Heimilt er að bera synjun um framkvæmd ófrjósemisaðgerðar undir landlækni og er ákvörðun landlæknis endanleg á stjórnsýslustigi.
7. gr. Gjaldtaka.
Ófrjósemisaðgerðir skulu vera gjaldfrjálsar fyrir einstaklinga sem eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um sjúkratryggingar.
8. gr. Viðurlög.
Um brot gegn ákvæðum laga þessara fer samkvæmt almennum hegningarlögum og lögum um heilbrigðisstarfsmenn, eftir því sem við á.
9. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
10. gr. Breyting á öðrum lögum.