Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um vandaða starfshætti í vísindum
2019 nr. 70 24. júní
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 5. júlí 2019. Breytt með:
L. 137/2022 (tóku gildi 1. apríl 2023).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eða háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að stuðla að því að rannsóknir í vísindum fari fram í samræmi við vandaða starfshætti í vísindum og auka þannig trúverðugleika vísindastarfs og rannsókna í samfélaginu.
2. gr. Gildissvið.
Lög þessi gilda um allar rannsóknir og fræðastörf hér á landi. Þá getur nefnd um vandaða starfshætti í vísindum skv. 5. gr. fjallað um mál ef þau eru með rík tengsl við Ísland. Nemendur í grunn- og meistaranámi á háskólastigi eru undanskildir ákvæðum laganna enda starfi þeir undir eftirliti leiðbeinanda. Rannsóknir doktorsnema og nýdoktora heyra undir gildissvið laganna.
3. gr. Almennar kröfur.
Þau sem sinna rannsóknum skulu sýna aðgát við störf sín og tryggja að þær fari fram í samræmi við vandaða starfshætti í vísindum. Það gildir um alla þætti rannsókna og alla rannsóknartengda starfsemi.
Fyrirtæki og stofnanir bera ábyrgð á að efla vitund um vandaða starfshætti og framfylgja þeim í rannsóknum á sínum vegum. Stofnunum og fyrirtækjum þar sem rannsóknir fara fram er skylt að fræða starfsfólk sitt og nemendur um vandaða starfshætti í vísindum.
4. gr. Eftirlit fyrirtækja og stofnana.
Komi fram vísbendingar um að við rannsóknir hafi verið brotið gegn viðurkenndum siðferðisviðmiðum bera stofnanir og fyrirtæki ábyrgð á að tekið sé á málum með viðeigandi hætti. Ber þeim að rannsaka slíkt, t.d. með sérstökum siðanefndum eða öðru formlegu verklagi.
Tilkynna ber nefnd um vandaða starfshætti í vísindum skv. 5. gr. um öll slík mál og meðferð þeirra.
Heimilt er enn fremur að leita leiðsagnar nefndarinnar eða óska eftir áliti hennar, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 7. gr.
Fyrirtæki og stofnanir skulu aðstoða nefndina við að upplýsa mál sem þar eru tekin fyrir, þ.m.t. með því að leggja fyrir hana nauðsynleg gögn.
5. gr. Skipun nefndar um vandaða starfshætti í vísindum.
Ráðherra skipar óháða nefnd um vandaða starfshætti í vísindum til fjögurra ára í senn. Þess skal gætt við skipun í nefndina að þar sé fyrir hendi þekking á vísindasiðfræði, lögfræði og ólíkum rannsóknasviðum, þ.m.t. rannsóknum í atvinnulífinu. Ráðherra leitar eftir tilnefningum frá háskólum og öðrum aðilum rannsóknasamfélagsins og hefur samráð við [Vísinda- og nýsköpunarráð]1) áður en gengið er frá skipun.
Í nefndinni skulu sitja sjö aðalmenn og sjö varamenn. Ráðherra skipar formann án tilnefningar.
Ráðherra ákveður nefndarmönnum þóknun og sér nefndinni fyrir skrifstofuaðstöðu og starfsfólki.
Nefndin getur kallað sérfræðinga sér til ráðgjafar í einstökum málum.
1)L. 137/2022, 8. gr.
6. gr. Hlutverk nefndar um vandaða starfshætti í vísindum.
Hlutverk nefndar um vandaða starfshætti í vísindum er að upplýsa stjórnvöld, almenning og vísindasamfélagið um vandaða starfshætti í vísindum og um vísindasiðfræði og hafa eftirlit með því að siðferðileg viðmið séu í heiðri höfði í vísindasamfélaginu.
Nefndin skal vera stjórnvöldum og öðrum sem til hennar leita til ráðgjafar og veita umsagnir og ráð um stefnumótun, þ.m.t. lagasetningu. Hún skal beita sér fyrir umræðum um málefnið innan lands og fylgjast með og taka þátt í alþjóðastarfi á sínu sviði.
Nefndin skráir viðurkennd siðferðisviðmið í rannsóknum og skilgreiningar á brotum gegn þeim. Viðmiðin skulu birt á vef nefndarinnar að fenginni umsögn [Vísinda- og nýsköpunarráðs]1) og staðfestingu ráðherra.
Nefndin veitir álit um hvort brotið hafi verið gegn þessum siðferðisviðmiðum. Álitsgerðum nefndarinnar skv. 7. gr. og úrlausnum skv. 8. gr. er ekki hægt að skjóta til æðra stjórnvalds.
1)L. 137/2022, 8. gr.
7. gr. Álitsgerðir nefndar um vandaða starfshætti í vísindum.
Taki nefnd um vandaða starfshætti í vísindum tiltekin mál til athugunar skal hún gefa rökstutt álit um hvort vönduðum starfsháttum hafi verið fylgt við rannsóknir.
Mál geta komið til kasta nefndarinnar með eftirtöldum hætti:
1. Stofnanir eða fyrirtæki geta óskað eftir áliti nefndarinnar í málum þar sem gildar ástæður eru fyrir því að ekki verði leyst úr þeim á vettvangi.
2. Sá sem ekki unir niðurstöðu stofnunar eða fyrirtækis og hefur hagsmuna að gæta getur óskað eftir áliti nefndarinnar.
3. Lögbundnar siðanefndir sem fjalla um rannsóknir geta vísað málum til nefndarinnar.
4. Nefndin getur að eigin frumkvæði eða samkvæmt ábendingu hafið athugun á því hvort brotið hafi verið gegn viðurkenndum siðferðisviðmiðum í rannsóknum, þ.m.t. utan stofnana eða fyrirtækja.
Álitsgerðir nefndarinnar geta varðað eftirfarandi atriði:
a. hvort vísinda- eða fræðimaður eða annar ábyrgðarmaður rannsóknar hafi brotið gegn viðurkenndum siðferðisviðmiðum,
b. hvort um sé að ræða kerfislægan vanda hjá stofnun, fyrirtæki eða viðkomandi rannsóknasamfélagi,
c. hvort leiðrétta beri eða afturkalla niðurstöður rannsókna,
d. hvort fram hafi komið við athugun nefndarinnar annars konar annmarkar í rannsókna- eða vísindastarfi sem brjóta gegn vönduðum starfsháttum þótt þeir falli ekki undir viðurkennd siðferðisviðmið.
8. gr. Frávísun og heimvísun.
Nefnd um vandaða starfshætti í vísindum getur vísað máli frá ef það fellur utan verksviðs hennar, ákvæði 2. mgr. 7. gr. eru ekki uppfyllt, mál er augljóslega ekki á rökum reist eða ef það varðar lítilvæga hagsmuni.
Nefndin getur beint því til stofnunar eða fyrirtækis að taka mál til úrlausnar.
9. gr. Málsmeðferð.
Reglur stjórnsýslulaga gilda um meðferð mála hjá nefnd um vandaða starfshætti í vísindum eftir því sem við á. Nefndinni er heimilt að gæta trúnaðar um það frá hverjum ábendingar um meint brot á viðurkenndum siðferðisviðmiðum hafi borist.
Nefndin setur sér málsmeðferðarreglur sem ráðherra staðfestir og eru birtar á vef nefndarinnar. Í reglunum skal mæla nánar fyrir um form álitsgerða, hverjum sé tilkynnt um niðurstöður og eftirfylgni nefndarinnar með álitsgerðum.
10. gr. Ársskýrsla.
Nefnd um vandaða starfshætti í vísindum skal árlega gefa út skýrslu um starf sitt. Persónugreinanlegar upplýsingar skulu fjarlægðar fyrir birtingu eftir því sem við á.
11. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi. Nefnd um vandaða starfshætti í vísindum er ekki heimilt að taka fyrir mál ef rannsókn er framkvæmd áður en siðferðisviðmið skv. 3. mgr. 6. gr. hafa verið birt.