Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu
2019 nr. 121 22. október
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 24. október 2019 nema 3. gr. og 1.–3. tölul. 5. gr. sem tóku gildi 1. febr. 2020, sbr. augl. A 6/2020, og 4., 5. og 7. tölul. 5. gr. sem tóku ekki gildi; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 4. gr.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við utanríkisráðherra eða utanríkisráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
1. gr. Heimild til að staðfesta samning Íslands, Liechtensteins, Noregs og Bretlands.
Heimilt er að staðfesta fyrir Íslands hönd samning um fyrirkomulag milli Íslands, Furstadæmisins Liechtensteins, Konungsríkisins Noregs og Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og við lok aðildar þess að EES-samningnum og öðrum samningum sem gilda milli Bretlands og EFTA-ríkjanna innan EES í krafti aðildar Bretlands að Evrópusambandinu.
2. gr. Heimild til að staðfesta samning Íslands, Liechtensteins, Noregs og Bretlands.
Heimilt er að staðfesta fyrir Íslands hönd samning sem undirritaður var 2. apríl 2019 í London um fyrirkomulag milli Íslands, Furstadæmisins Liechtensteins, Konungsríkisins Noregs og Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands um réttindi borgara í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og við lok aðildar þess að EES-samningnum.
3. gr. Réttarstaða Bretlands og breskra ríkisborgara og lögaðila á aðlögunartímabili.
Með aðlögunartímabili samkvæmt lögum þessum er átt við tímabil sem ákvarðað er í samningi Bretlands og Evrópusambandsins, sem gerður er á grundvelli 50. gr. stofnsáttmála Evrópusambandsins, og felur í sér að Bretland skuldbindi sig til þess að framfylgja löggjöf og reglum Evrópusambandsins tímabundið eftir að aðild þess að Evrópusambandinu lýkur. Skal aðlögunartímabilið vara frá því að úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu tekur gildi og til þess tíma sem ákveðinn er í samningnum.
Á aðlögunartímabilinu skal við framkvæmd ákvæða laga, reglugerða eða annarra stjórnvaldsfyrirmæla, sem fela í sér innleiðingu skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið frá 2. maí 1992, líta á Bretland með sama hætti og önnur aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins. Jafnframt skal við framkvæmd laga, reglugerða eða annarra stjórnvaldsfyrirmæla, sem fela í sér innleiðingu skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt öðrum samningum við Evrópusambandið eða samningum sem bæði Ísland og Evrópusambandið eiga aðild að, líta á Bretland með sama hætti og aðildarríki Evrópusambandsins.
Breskir ríkisborgarar og lögaðilar skulu meðan aðlögunartímabilið varir njóta sömu réttinda og bera sömu skyldur og ríkisborgarar og lögaðilar frá aðildarríkjum Evrópusambandsins samkvæmt ákvæðum þeirra laga, reglugerða eða stjórnvaldsfyrirmæla sem vísað er til í 2. mgr.
4. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast 3. gr. gildi því aðeins að aðlögunartímabil samkvæmt samningi Bretlands og Evrópusambandsins komi til framkvæmda. Ráðherra skal tilkynna um upphaf og lok aðlögunartímabilsins með auglýsingu í A-deild Stjórnartíðinda.1)
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast 1.–3. tölul. 5. gr. gildi þegar annar hvor þeirra samninga sem vísað er til í 1. og 2. gr. taka gildi eða þeim er beitt gagnvart Íslandi. Taki samningur sem vísað er til í 1. gr. gildi eða ef honum er beitt gagnvart Íslandi skulu 1.–3. tölul. 5. gr. koma til framkvæmda þegar aðlögunartímabili er lokið. Taki samningur skv. 2. gr. gildi eða honum er beitt gagnvart Íslandi skulu 1.–3. tölul. 5. gr. koma til framkvæmda þegar sá samningur tekur gildi eða ef honum er beitt gagnvart Íslandi.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast 4., 5. og 7. tölul. 5. gr. gildi og koma til framkvæmda við úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu án samnings á grundvelli 50. gr. stofnsáttmála Evrópusambandsins. Ráðherra skal tilkynna um slíka úrsögn Bretlands með auglýsingu í A-deild Stjórnartíðinda.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. kemur i-liður 1. tölul. og 3. efnismgr. 2. tölul. 5. gr. til framkvæmda við úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu án samningsins á grundvelli 50. gr. stofnsáttmála Evrópusambandsins og ef fyrir liggur staðfest pólitískt samkomulag milli Íslands og Bretlands um tímabundið fyrirkomulag varðandi fólksflutninga sem mælir fyrir um gagnkvæm réttindi.
1)Augl. A 6/2020. Aðlögunartímabil skv. 3. gr. hófst 1. febr. 2020 og gilti til og með 31. des. 2020, sjá einnig augl. C 2/2020 um samning um ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.
5. gr. Breyting á öðrum lögum. …