Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta

2019 nr. 125 29. október


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. janúar 2020. EES-samningurinn: XI. viðauki tilskipun 2014/61/ESB. Breytt með: L. 131/2020 (tóku gildi 17. des. 2020; EES-samningurinn: XVII. viðauki tilskipun 2016/943). L. 75/2021 (tóku gildi 1. júlí 2021).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eða háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að stuðla að og hvetja til hagkvæmrar uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta með því að auðvelda sameiginlega nýtingu á núverandi efnislegum grunnvirkjum og með því að hvetja til skilvirkari uppbyggingar á nýjum efnislegum grunnvirkjum þannig að útbreiðsla slíkra neta sé möguleg með lægri kostnaði.
2. gr. Orðskýringar.
Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
   1. Efnislegt grunnvirki: Netþáttur sem er ætlað að hýsa aðra netþætti án þess að verða sjálfur að virkum þætti í netinu, svo sem rör, möstur, lagnir, brunnar til að sinna eftirliti, mannop, tengikassar, byggingar eða inngangar að byggingum, loftnetsbúnaður, turnar og súlur. Hins vegar eru kaplar, þar á meðal svartur ljósleiðari, sem og netþættir sem eru notaðir til að afhenda neysluvatn, eins og það er skilgreint í íslenskum reglum um neysluvatn, ekki efnisleg grunnvirki í skilningi þessara laga.
   2. Fjarskiptafyrirtæki: Einstaklingur eða lögaðili sem hefur tilkynnt [Fjarskiptastofu]1) um fyrirhugaðan rekstur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanets.
   3. Fjarskiptanet: Sendikerfi og þar sem það á við skiptistöðvar, beinar og önnur úrræði sem gera mögulegt að miðla merkjum eftir þræði, þráðlaust, með ljósbylgjum, rafdreifikerfi, háspennulínum eða með öðrum rafsegulaðferðum, þ.m.t. net fyrir hljóð- og sjónvarp og kapalsjónvarp.
   4. Fjarskiptaþjónusta: Þjónusta sem að nokkru eða öllu leyti felst í því að beina merkjum um fjarskiptanet, þ.m.t. tölvupóstþjónusta og netaðgangur.
   5. Háhraðafjarskiptanet: Fjarskiptanet sem getur veitt háhraðaaðgangsþjónustu með a.m.k. 30 megabita hraða á sekúndu.
   6. Rekstraraðili nets: Fyrirtæki sem býður fram eða hefur heimild til að bjóða fram almenn fjarskiptanet sem og fyrirtæki sem býður fram efnisleg grunnvirki sem er ætlað að veita:
   a. þjónustu í tengslum við framleiðslu, flutning eða dreifingu:
   1. gass,
   2. rafmagns, þ.m.t. er götulýsing,
   3. upphitunar,
   4. vatns, þ.m.t. er losun eða hreinsun skólps, og frárennsliskerfa,
   b. flutningaþjónustu, þ.m.t. eru járnbrautir, vegir, hafnir og flugvellir.
   1)L. 75/2021, 32. gr.

II. kafli. Aðgangur að upplýsingum og réttur til vettvangsskoðunar.
3. gr. Aðgangur fjarskiptafyrirtækja að lágmarksupplýsingum.
Fjarskiptafyrirtæki getur farið þess á leit með skriflegri beiðni að rekstraraðili nets geri aðgengilegar lágmarksupplýsingar um fyrirliggjandi efnisleg grunnvirki og yfirstandandi eða áætlaðar framkvæmdir sem tengjast efnislegum grunnvirkjum rekstraraðila nets sem leyfi hefur fengist fyrir eða leyfisbeiðni bíður umfjöllunar vegna. Sama á við ef fyrirhugað er að leggja fram fyrstu umsókn til byggingar- eða skipulagsyfirvalda fyrir leyfisveitingu innan næstu sex mánaða.
Eftirfarandi lágmarksupplýsingar varðandi fyrirliggjandi efnisleg grunnvirki þurfa að koma fram:
   a. staðsetning og lagnaleiðir,
   b. tegund grunnvirkis og núverandi notkun þess og
   c. tengiliður.
Eftirfarandi lágmarksupplýsingar um yfirstandandi eða áætlaðar framkvæmdir þurfa að koma fram:
   a. staðsetning og tegund framkvæmda,
   b. netþættir sem um ræðir,
   c. áætluð dagsetning fyrir upphaf framkvæmda og tímalengd þeirra og
   d. tengiliður.
Í beiðni fjarskiptafyrirtækis skulu koma fram upplýsingar um það svæði þar sem fyrirhuguð uppbygging háhraðaneta á að eiga sér stað.
Rekstraraðili nets getur synjað beiðni skv. 1. mgr. um lágmarksupplýsingar um yfirstandandi eða áætlaðar framkvæmdir ef:
   a. hann hefur gert umbeðnar upplýsingar aðgengilegar öllum á stafrænu formi eða
   b. aðgangur að slíkum upplýsingum er tryggður fyrir milligöngu [Fjarskiptastofu].1)
Veita skal aðgang að lágmarksupplýsingum um fyrirliggjandi efnisleg grunnvirki skv. 2. mgr. innan tveggja mánaða frá viðtökudegi beiðni og innan tveggja vikna hvað varðar yfirstandandi eða áætlaðar framkvæmdir sem tengjast efnislegum grunnvirkjum, sbr. 3. mgr. Aðgang skal ávallt veita á grundvelli gagnsærra skilmála sem byggjast á jafnræði og meðalhófi.
   1)L. 75/2021, 32. gr.
4. gr. Upplýsingar og gögn undanþegin upplýsingarétti.
Heimilt er að undanþiggja upplýsingar og gögn frá upplýsingarétti ef það er nauðsynlegt í ljósi öryggis neta og áreiðanleika þeirra, þjóðaröryggis, lýðheilsu eða öryggis almennings, trúnaðarkvaða eða …1) viðskiptaleyndarmála. Ef efnislegt grunnvirki telst tæknilega óhentugt fyrir uppbyggingu á háhraðafjarskiptanetum, mannvirkið er lítils virði eða ef um er að ræða mikilvægt landsbundið grunnvirki er heimilt að undanþiggja slík mannvirki frá upplýsingarétti.
   1)L. 131/2020, 20. gr.
5. gr. Vettvangsskoðun.
Rekstraraðilar neta skulu verða við réttmætum beiðnum fjarskiptafyrirtækja um vettvangsskoðun á sérstökum þáttum efnislegra grunnvirkja þeirra, sbr. þó ákvæði 4. gr. Í slíkri beiðni skal tilgreint hvaða þætti netanna er um að ræða í tengslum við uppbyggingu á þáttum háhraðafjarskiptanets.
Verða skal við réttmætri beiðni um vettvangsskoðun innan mánaðar frá viðtökudegi beiðni. Aðgang skal ávallt veita á grundvelli gagnsærra skilmála sem byggjast á jafnræði og meðalhófi.
6. gr. Upplýsingaþjónusta.
[Fjarskiptastofa]1) skal rækja upplýsingaþjónustu og annast milligöngu við upplýsingaöflun skv. 3. gr. að beiðni fjarskiptafyrirtækja og jafnframt annast miðlun upplýsinga um þau skilyrði og málsmeðferð sem varðar leyfisveitingar fyrir mannvirkjagerð sem þörf er á til að byggja upp þætti fjarskiptaneta, þ.m.t. undanþágur sem gilda um slíka þætti og leyfi sem krafist er samkvæmt lögum.
Rekstraraðilum neta er skylt að bregðast við beiðnum [Fjarskiptastofu]1) um upplýsingar og gögn um fyrirliggjandi efnisleg grunnvirki og yfirstandandi eða áætlaðar framkvæmdir sem tengjast efnislegum grunnvirkjum, sbr. tímafresti þá sem getið er í 3. gr. Stofnuninni er heimilt að miðla upplýsingum sem þannig er aflað með stafrænum hætti að uppfylltum öðrum skilyrðum laga.
Fjarskiptafyrirtæki sem fá aðgang að upplýsingum skv. 3. og 5. gr. skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að virða trúnað um …2) viðskiptaleyndarmál.
   1)L. 75/2021, 32. gr. 2)L. 131/2020, 20. gr.

III. kafli. Aðgangur að efnislegu grunnvirki.
7. gr. Aðgangur að fyrirliggjandi efnislegu grunnvirki.
Rekstraraðilum neta er heimilt að bjóða fjarskiptafyrirtækjum aðgang að efnislegu grunnvirki sínu. Þá er fjarskiptafyrirtækjum heimilt að bjóða aðgang að efnislegu grunnvirki sínu í þeim tilgangi að byggja upp önnur net en fjarskiptanet.
Að fenginni skriflegri beiðni er rekstraraðilum neta skylt að verða við öllum réttmætum beiðnum fjarskiptafyrirtækja um aðgang að efnislegu grunnvirki sínu, enda séu skilmálar, þ.m.t. verð, sanngjarnir og eðlilegir. Í beiðni skal tilgreina að hvaða þáttum fyrirliggjandi efnislegs grunnvirkis aðgangs er óskað, þ.m.t. tilgreind tímamörk.
Nú synjar rekstraraðili nets beiðni um aðgang skv. 2. mgr. og skal þá synjun byggjast á hlutlægum, gagnsæjum og hóflegum viðmiðunum, svo sem:
   a. tæknilegu hæfi hins efnislega grunnvirkis,
   b. tiltæku rými til að hýsa þá þætti háhraðafjarskiptaneta, þ.m.t. framtíðarþörf rekstraraðila netsins fyrir rými, sem sýnt er fram á með fullnægjandi hætti,
   c. athugunarefnum er varða öryggi og lýðheilsu,
   d. áreiðanleika og öryggi allra neta, einkum í tengslum við mikilvæg landsbundin grunnvirki,
   e. hættu á að skipulagða fjarskiptaþjónustan valdi alvarlegri truflun á annarri þjónustustarfsemi sem notar sama efnislega grunnvirki,
   f. aðgengi að öðrum raunhæfum leiðum að efnislegu netgrunnvirki í heildsölu sem rekstraraðili nets býður fram og hentar til að bjóða fram háhraðafjarskiptanet, að því tilskildu að slíkur aðgangur sé falur samkvæmt sanngjörnum og eðlilegum skilmálum og skilyrðum.
Synjun skal liggja fyrir innan tveggja mánaða frá viðtökudegi fullbúinnar beiðni. Hægt er að vísa synjun til ákvörðunar [Fjarskiptastofu],1) sbr. 10. gr.
Ef ekki næst samkomulag um skilmála og skilyrði aðgangs, þ.m.t. verð, innan tveggja mánaða frá viðtökudegi beiðni um aðgang getur hvor aðili um sig vísað málinu til ákvörðunar [Fjarskiptastofu],1) sbr. 10. gr.
   1)L. 75/2021, 32. gr.
8. gr. Samhæfing mannvirkjagerðar.
Rekstraraðilum neta er heimilt að gera samninga við fjarskiptafyrirtæki um samhæfingu í mannvirkjagerð með uppbyggingu háhraðafjarskiptaneta í huga.
Allir rekstraraðilar neta, sem standa með beinum eða óbeinum hætti að mannvirkjagerð sem er að öllu leyti eða að hluta til fjármögnuð úr opinberum sjóðum, skulu verða við öllum réttmætum beiðnum fjarskiptafyrirtækja um samhæfingu í mannvirkjagerð, með skilmálum sem eru gagnsæir og án mismununar, með uppbyggingu á þáttum háhraðafjarskiptaneta í huga. Við slíkri beiðni skal orðið, enda:
   a. hafi hún ekki í för með sér neinn viðbótarkostnað, þ.m.t. vegna viðbótartafa, fyrir þá mannvirkjagerð sem fyrirhuguð var í upphafi,
   b. hindri hún ekki stjórnun á samhæfingu mannvirkjagerðarinnar og
   c. hafi hún verið lögð fram eins fljótt og auðið er og a.m.k. einum mánuði áður en endanlegt verkefni er lagt fyrir byggingar- eða skipulagsyfirvöld með tilliti til leyfisveitingar.
Ef ekki næst samkomulag um samhæfingu, þ.m.t. verð, innan eins mánaðar frá viðtökudegi formlegrar beiðni er aðilum heimilt að vísa málinu til [Fjarskiptastofu]1) til ákvörðunar, sbr. 10. gr.
   1)L. 75/2021, 32. gr.
9. gr. Undanþegin mannvirki.
Heimilt er að undanþiggja tiltekin mannvirki frá skyldum skv. 8. gr. Á þetta við um mannvirki sem litla þýðingu hafa, t.d. með tilliti til verðgildis, stærðar eða endingar, eða ef um er að ræða mikilvægt landsbundið grunnvirki.

IV. kafli. Ýmis ákvæði.
10. gr. Meðferð ágreiningsmála.
Ef ágreiningur kemur upp í tengslum við réttindi og skyldur rekstraraðila neta samkvæmt lögum þessum geta málsaðilar vísað deilunni til [Fjarskiptastofu]1) til úrlausnar, án þess að það hafi áhrif á möguleika málsaðila til að vísa málinu til dómstóla.
[Fjarskiptastofa]1) skal gefa út bindandi ákvörðun innan fjögurra mánaða frá viðtöku beiðni þar að lútandi vegna deilna um atriði skv. 7. gr., og innan tveggja mánaða vegna deilna um önnur atriði samkvæmt lögum þessum, nema ef um sérstakar aðstæður er að ræða. Að öðru leyti fer um málsmeðferð, þ.m.t. heimild til bráðabirgðaákvörðunar og kærurétt til úrskurðarnefndar póst- og fjarskiptamála, samkvæmt lögum um [Fjarskiptastofu].1)
Rekstraraðilar neta skulu sýna [Fjarskiptastofu]1) fulla samvinnu við lausn deilumála og veita stofnuninni allar umbeðnar upplýsingar innan settra tímamarka.
   1)L. 75/2021, 32. gr.
11. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara, þ.m.t. um:
   a. upplýsingaskyldu rekstraraðila neta, form, inntak og meðhöndlun aðgangsbeiðna og vettvangsrannsókn,
   b. upplýsingar og gögn undanþegin upplýsingarétti og um málsmeðferð við ákvörðun slíkra undanþágna,
   c. mannvirki og efnisleg grunnvirki undanþegin aðgangi og samhæfingu og um málsmeðferð við ákvörðun slíkra undanþágna,
   d. upplýsingamiðlun og viðmót stafrænnar upplýsingagáttar og viðeigandi ráðstafanir til að tryggja trúnað um upplýsingar er varða …1) viðskiptaleyndarmál og
   e. sjónarmið og viðmið um skiptingu kostnaðar vegna samhæfingar í mannvirkjagerð og verðs fyrir aðgang að fyrirliggjandi efnislegu grunnvirki.
   1)L. 131/2020, 20. gr.

V. kafli. Dagsektir og önnur ákvæði.
12. gr. Dagsektir.
Ef ekki er orðið við ósk um afhendingu upplýsinga og gagna skv. 3. gr., sbr. 2. mgr. 6. gr., eða vettvangsskoðun skv. 5. gr. eða farið að ákvörðun sem tekin hefur verið samkvæmt lögum þessum getur [Fjarskiptastofa]1) ákveðið að sá eða þeir sem ákvörðunin beinist að greiði dagsektir þar til farið verður að henni. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Dagsektir geta numið frá 50 þús. kr. til 500 þús. kr. á dag.
Ákvörðun um dagsektir má skjóta til úrskurðarnefndar póst- og fjarskiptamála innan fjórtán daga frá því að hún er kynnt þeim sem hún beinist að. Dagsektir reiknast ekki fyrr en frestur er liðinn. Ef ákvörðun er skotið til úrskurðarnefndar póst- og fjarskiptamála falla sektir ekki í gjalddaga fyrr en niðurstaða hennar liggur fyrir. Ákvarðanir [Fjarskiptastofu]1) og úrskurðarnefndar póst- og fjarskiptamála eru aðfararhæfar. Málskot til úrskurðarnefndar póst- og fjarskiptamála frestar aðför. Við aðför samkvæmt ákvörðun [Fjarskiptastofu]1) skal kveðja gerðarþola fyrir héraðsdóm og um málsmeðferð fer skv. 13. kafla laga um aðför.
Dagsektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu sektir ekki greiddar innan tveggja vikna frá ákvörðun [Fjarskiptastofu]1) eða niðurstöðu úrskurðarnefndar póst- og fjarskiptamála skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sekta. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
   1)L. 75/2021, 32. gr.
13. gr. Innleiðing á tilskipun.
Með lögum þessum er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/61/ESB frá 15. maí 2014 um ráðstafanir til að lækka kostnað við uppbyggingu á háhraða rafrænum fjarskiptanetum sem vísað er til í tölulið 5czn í XI. viðauka við EES-samninginn, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2018 frá 6. júlí 2018 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið), með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XI. viðauka samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins.
14. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020.
15. gr. Breyting á öðrum lögum.