Lagasafn.  Íslensk lög 1. september 2025.  Útgáfa 156b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd

2020 nr. 20 16. mars


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 19. mars 2020. EES-samningurinn: XIX. viðauki reglugerð 2017/2394.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við atvinnuvegaráðherra eða atvinnuvegaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði.

1. gr. Lögfesting.
Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2394 frá 12. desember 2017 um samvinnu milli landsyfirvalda sem bera ábyrgð á að framfylgja lögum um neytendavernd og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 2006/2004, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 58 frá 18. júlí 2019, bls. 216–241, skulu hafa lagagildi hér á landi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 172/2019, frá 14. júní 2019, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest.
2. gr. Gildissvið.
Lög þessi gilda um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd og heimildir þar til bærra stjórnvalda til rannsókna og framfylgdar í þágu neytenda.
3. gr. Stjórnsýsla.
Ráðherra fer með yfirstjórn samkvæmt lögum þessum.
Ráðherra er heimilt að tilnefna eitt eða fleiri lögbær yfirvöld, miðlæga tengiskrifstofu og stofnanir sem bera ábyrgð á beitingu laga þessara. Ráðherra getur með reglugerð veitt viðeigandi aðilum heimild til að gefa út utanaðkomandi viðvaranir samkvæmt lögunum.
4. gr. Reglugerð.
Reglugerðir eða tilskipanir Evrópusambandsins, sem teknar verða upp í EES-samninginn og fela í sér breytingar eða viðbætur við viðauka reglugerðar skv. 1. gr., er ráðherra heimilt að innleiða með reglugerð.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara og samvinnu yfirvalda sem bera ábyrgð á framkvæmd laga um neytendavernd.
5. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.