Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Orkusjóð

2020 nr. 76 10. júlí


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 14. júlí 2020.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eða umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Orkusjóður.
Starfrækja skal sjóð í eigu íslenska ríkisins sem nefnist Orkusjóður. Ríkið ber ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins og heyrir hann stjórnarfarslega undir ráðherra.
2. gr. Hlutverk.
Hlutverk Orkusjóðs er að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkuauðlinda landsins með styrkjum eða lánum, einkum til aðgerða er miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka nýtingu á innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum.
Orkusjóður styður jafnframt við verkefni sem stuðla að orkuöryggi og samkeppnishæfni á sviði orkumála og orkutengd verkefni á grundvelli orkustefnu, nýsköpunarstefnu, byggðastefnu og stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum.
3. gr. Stjórn.
Ráðherra skipar þrjá einstaklinga í stjórn Orkusjóðs til fjögurra ára, þar af skal einn skipaður formaður.
Stjórn Orkusjóðs skal hafa yfirumsjón með umsýslu sjóðsins í samræmi við hlutverk hans.
Orkustofnun annast daglega umsýslu Orkusjóðs undir yfirstjórn stjórnar sjóðsins.
4. gr. Fjármögnun verkefna.
Stjórn Orkusjóðs gerir tillögur til ráðherra um lánveitingar og framlög úr Orkusjóði í samræmi við áherslur og stefnumótun stjórnvalda sem og fjárhags- og greiðsluáætlun sjóðsins.
Orkusjóði er ekki heimilt að veita Orkustofnun styrki eða lán af fé sjóðsins.
5. gr. Eftirlit.
Þeir sem hljóta styrk eða lán frá Orkusjóði skulu gera grein fyrir framvindu verkefna og ráðstöfun fjár samkvæmt nánari reglum stjórnar Orkusjóðs.
Ríkisendurskoðun annast árlega endurskoðun reikninga Orkusjóðs.
6. gr. Tekjur.
Tekjur Orkusjóðs eru framlag úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun Alþingis á fjárlögum hverju sinni og vextir af fé sjóðsins.
7. gr. Kostnaður af rekstri.
Kostnaður af rekstri Orkusjóðs greiðist af tekjum hans eða eigin fé.
8. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra skal setja í reglugerð nánari fyrirmæli um skilyrði fyrir framlögum úr Orkusjóði, undirbúning úthlutunar, lánveitingar, þ.m.t. vexti og önnur útlánakjör, greiðslur, eftirlit með framkvæmdum sem Orkusjóður veitir fé til og heimildir til að fella niður endurgreiðsluskyldu lántaka. Stjórn Orkusjóðs getur sett nánari reglur og skilyrði um tilfærslu fjármuna milli einstakra verkefna ef nauðsyn krefur.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi og skipulag Orkusjóðs og framkvæmd laga þessara.
9. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.