Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um stjórnsýslu jafnréttismála

2020 nr. 151 29. desember


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 6. janúar 2021. Breytt með: L. 63/2022 (tóku gildi 13. júlí 2022, sbr. þó 2. málsl. 12. gr.).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við forsætisráðherra eða forsætisráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Gildissvið og yfirstjórn.
1. gr. Gildissvið.
Lög þessi gilda um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, þ.e. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, [lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar]1) og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Lög þessi gilda m.a. um störf Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála.
   1)L. 63/2022, 13. gr.
2. gr. Yfirstjórn.
Ráðherra fer með framkvæmd laga þessara nema annars sé sérstaklega getið.

II. kafli. Jafnréttisstofa.
3. gr. Jafnréttisstofa.
Jafnréttisstofa er sérstök stofnun sem heyrir undir yfirstjórn ráðherra. Hún annast stjórnsýslu á sviði jafnréttismála sem lög þessi taka til, sbr. 1. gr.
Ráðherra skipar framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu til fimm ára í senn. Framkvæmdastjóri annast daglega stjórn Jafnréttisstofu og ræður starfsfólk hennar.
4. gr. Hlutverk Jafnréttisstofu.
Verkefni sem Jafnréttisstofa annast á grundvelli laga um jafnréttismál, sbr. 1. gr., eru m.a. að:
   a. hafa eftirlit með framkvæmd laganna,
   b. sjá um fræðslu og upplýsingastarfsemi á sviði jafnréttismála,
   c. veita ráðgjöf og aðstoð á sviði jafnréttismála,
   d. koma á framfæri við ráðherra og önnur stjórnvöld ábendingum og tillögum um aðgerðir til að stuðla að auknu jafnrétti, t.d. um sértækar aðgerðir á sviði jafnréttismála,
   e. hvetja til virkrar þátttöku á sviði jafnréttismála, m.a. aukinnar aðkomu karla að kynjajafnréttisstarfi,
   f. fylgjast með þróun jafnréttismála í samfélaginu, svo sem með upplýsingaöflun og úttektum og hafa frumkvæði að því að gerðar verði skýrslur, kannanir eða rannsóknir á sviði jafnréttismála,
   g. vinna að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni í samstarfi við önnur stjórnvöld og samtök sem sinna slíkum forvörnum sérstaklega, sbr. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna,
   h. vinna gegn launamisrétti og annarri mismunun á vinnumarkaði; sérstök áhersla skal lögð á að vinna gegn launamisrétti á grundvelli kyns, sbr. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna,
   i. leita sátta í ágreiningsmálum sem Jafnréttisstofu berast og varða ákvæði laganna, ef Jafnréttisstofa telur tilefni til,
   j. vinna gegn neikvæðum kynjaímyndum og neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla sem og neikvæðum staðalímyndum byggðum á kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu,
   k. hafa umsjón með umsýslu jafnlaunavottunar og jafnlaunastaðfestingar, sbr. 9. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, annast eftirlit með jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu, sbr. 10. gr. sömu laga, og veita jafnlaunastaðfestingu, sbr. 8. gr. sömu laga,
   l. vinna önnur verkefni í samræmi við markmið laganna samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.
5. gr. Upplýsingaöflun og eftirlit.
Stofnunum, fyrirtækjum og félagasamtökum er skylt að veita Jafnréttisstofu hvers konar almennar upplýsingar sem nauðsynlegar eru starfsemi hennar á grundvelli laga um jafnréttismál skv. 1. gr.
Hafi Jafnréttisstofa rökstuddan grun um að stofnun, fyrirtæki eða félagasamtök hafi brotið gegn lögum um jafnréttismál, sbr. 1. gr., skal hún kanna hvort ástæða sé til að óska eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki málið til meðferðar. Hlutaðeigandi stofnun, fyrirtæki eða félagasamtökum er skylt að láta Jafnréttisstofu í té upplýsingar og gögn sem hún telur nauðsynleg til að upplýsa um málsatvik. Verði hlutaðeigandi ekki við þessari beiðni Jafnréttisstofu innan hæfilegs frests getur hún ákveðið að aðilinn skuli greiða dagsektir þar til upplýsingar og gögn hafa verið látin í té, sbr. 6. gr. Óski Jafnréttisstofa þess að kærunefnd jafnréttismála taki mál til meðferðar skal hlutaðeigandi aðila tilkynnt um það skriflega. Ákvæði þetta á þó eingöngu við um mál sem kunna að varða hagsmuni margra og hafa almennt gildi að mati Jafnréttisstofu.
Að beiðni kæranda skal Jafnréttisstofa fylgja því eftir að fyrirmælum um tilteknar úrbætur í úrskurði kærunefndar jafnréttismála sé framfylgt á viðunandi hátt. Í því skyni getur Jafnréttisstofa beint fyrirmælum til hlutaðeigandi um að grípa til tiltekinna úrbóta til samræmis við úrskurðinn innan hæfilegs frests að viðlögðum dagsektum, sbr. 6. gr., þar til farið verður að fyrirmælunum.
6. gr. Dagsektir.
Verði aðili ekki við beiðni Jafnréttisstofu um gögn eða upplýsingar eða hlýðir ekki fyrirmælum stofnunarinnar skv. 2. og 3. mgr. 5. gr. laga þessara, eða skv. 3. mgr. 5. gr. eða 1. mgr. 10. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, getur Jafnréttisstofa lagt dagsektir á hlutaðeigandi þar til viðeigandi úrbætur hafa verið gerðar.
Dagsektir geta numið allt að 50.000 kr. á dag frá þeim degi sem þær eru ákvarðaðar og fram að þeim degi sem skyldunni er fullnægt að mati Jafnréttisstofu. Við ákvörðun fjárhæðar dagsektar skal m.a. líta til fjölda starfsmanna viðkomandi fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka, hversu umfangsmikill viðkomandi rekstur er og eðlis og alvarleika máls.
Jafnréttisstofa leggur dagsektir á aðila með sérstakri ákvörðun. Aðila sem ákvörðun um dagsektir beinist að skal gefinn kostur á að koma að skriflegum andmælum innan hæfilegs frests áður en Jafnréttisstofa tekur ákvörðun um dagsektir. Ákvörðun um dagsektir skal sannanlega tilkynnt þeim sem hún beinist að.
Ákvörðun um dagsektir skv. 3. mgr. 5. gr. fellur niður sé úrskurður kærunefndar jafnréttismála borinn undir dómstóla.
Heimilt er að kæra ákvörðun Jafnréttisstofu um dagsektir til ráðherra. Kæra til ráðherra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar um dagsektir, sbr. þó 7. mgr. þessa ákvæðis.
Ákvarðanir Jafnréttisstofu um dagsektir eru aðfararhæfar og renna dagsektir í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.
Kæra til ráðherra eða málshöfðun fyrir dómstólum frestar aðför.

III. kafli. Kærunefnd jafnréttismála.
7. gr. Skipun.
Ráðherra skipar samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar þrjá fulltrúa í kærunefnd jafnréttismála til þriggja ára í senn, þar af bæði formann og varaformann. Skulu þeir allir hafa lokið embættis- eða meistaraprófi í lögfræði og a.m.k. tveir þeirra, þar á meðal formaður, hafa sérþekkingu á sviði jafnréttismála. A.m.k. einn þeirra skal hafa sérþekkingu á jafnrétti kynjanna og einn á jafnrétti í víðtækari merkingu. Formaður og varaformaður, sem jafnframt er aðalmaður, skulu uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara. Jafn margir varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
Kærunefnd jafnréttismála er heimilt að kalla sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila ef hún telur þörf á.
8. gr. Hlutverk, málskostnaður, varnaraðild o.fl.
Kærunefnd jafnréttismála tekur til meðferðar kærur sem til hennar er beint eftir því sem mælt er fyrir um í lögum um jafnréttismál, sbr. 1. gr., og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði þeirra laga hafi verið brotin. Komist kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn lögunum er henni heimilt í úrskurði sínum að beina fyrirmælum um tilteknar úrbætur til hlutaðeigandi aðila.
Kærunefndin er sjálfstæð og óháð í störfum sínum og sæta úrskurðir hennar ekki kæru til æðra stjórnvalds.
Úrskurðir kærunefndar eru bindandi gagnvart málsaðilum. Málsaðilum er heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla. Beri málsaðili úrskurð kærunefndar jafnréttismála undir dómstóla innan átta vikna frá birtingu úrskurðar frestast réttaráhrif úrskurðarins. Málsaðili hefur heimild til að óska eftir flýtimeðferð fyrir dómstólum. Ef beiðni um flýtimeðferð er synjað skal mál höfðað eins fljótt og unnt er eftir að synjun kemur fram og eigi síðar en innan þrjátíu daga frá synjun dómara. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan þrjátíu daga frá synjun dómara um flýtimeðferð. Sé mál höfðað vegna úrskurðar nefndarinnar er henni heimilt að fresta afgreiðslu sambærilegra mála sem eru til meðferðar hjá henni þar til dómur gengur í málinu.
Kærunefnd jafnréttismála getur ákveðið að sá sem kæra beinist gegn greiði kæranda málskostnað við að hafa kæruna uppi fyrir kærunefnd jafnréttismála enda sé úrskurður nefndarinnar kæranda í hag.
Ef úrskurður kærunefndar jafnréttismála er kæranda í hag en gagnaðili vill ekki una honum og höfðar mál til ógildingar úrskurðinum fyrir dómstólum skal kærunefnd jafnréttismála og kæranda stefnt til varnar. Kærandi skal fá greiddan málskostnað úr ríkissjóði fyrir héraðsdómi, Landsrétti og Hæstarétti.
Ef kæra er bersýnilega tilefnislaus að mati kærunefndar jafnréttismála getur nefndin úrskurðað að kærandi skuli greiða gagnaðila málskostnað sem hann hefur orðið fyrir vegna málsins. Aðför má gera án undangengins dóms til fullnustu kröfu um málskostnað.
Kostnaður við starfsemi kærunefndar jafnréttismála greiðist úr ríkissjóði.
9. gr. Aðild, kærufrestur og málsmeðferð.
Einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök sem telja að ákvæði laga um jafnréttismál, sbr. 1. gr., hafi verið brotin gagnvart sér geta í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna sinna, eftir því sem við á, leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála.
Jafnréttisstofa getur óskað eftir að kærunefnd jafnréttismála taki mál til meðferðar, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 5. gr.
Erindi skulu berast nefndinni skriflega innan sex mánaða frá því að vitneskja um ætlað brot á lögum um jafnréttismál, sbr. 1. gr., lá fyrir, frá því að ástandi sem talið er brot á hlutaðeigandi lögum lauk eða frá því að sá er málið varðar fékk vitneskju um ætlað brot. Sé leitað rökstuðnings á grundvelli ákvæða stjórnsýslulaga tekur fresturinn að líða þegar sá rökstuðningur liggur fyrir. Kærunefnd jafnréttismála getur þegar sérstaklega stendur á ákveðið að taka erindi til meðferðar þótt framangreindur frestur sé liðinn, þó aldrei ef liðið er meira en eitt ár.
Kærunefnd jafnréttismála getur að höfðu samráði við kæranda sent mál til sáttameðferðar hjá Jafnréttisstofu.
Kærunefnd jafnréttismála skal kveða upp úrskurð eins fljótt og auðið er og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að gagnaöflun er lokið.
Málsmeðferð fyrir kærunefnd jafnréttismála skal að jafnaði vera skrifleg en þó getur nefndin kallað málsaðila eða fulltrúa þeirra á sinn fund telji nefndin ástæðu til. Að öðru leyti fer um málsmeðferð hjá kærunefnd jafnréttismála samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og nánari reglum sem ráðherra er heimilt að setja að fenginni umsögn kærunefndar jafnréttismála.
10. gr. Upplýsingaöflun.
Kærunefnd jafnréttismála skal tryggja að aðili máls eigi þess kost að tjá sig um efni máls áður en kærunefndin kveður upp úrskurð enda telji hún að hvorki afstaða hans né rök fyrir henni liggi fyrir í gögnum málsins.
Kærunefnd jafnréttismála getur, að kröfu gagnaðila, krafið aðila um gögn sem hún telur að geti haft áhrif á úrlausn máls.
Kærunefnd jafnréttismála getur krafist frekari gagna frá málsaðilum telji hún mál ekki nægjanlega upplýst.
Ef lögð eru fyrir kærunefnd jafnréttismála gögn sem varða laun, önnur starfskjör eða réttindi einstaklinga sem ekki eiga aðild að viðkomandi kærumáli skal kærunefnd jafnréttismála tilkynna hlutaðeigandi að þessar upplýsingar hafi verið veittar henni. Fara skal með slíkar upplýsingar sem trúnaðarmál.
Ef kærunefnd jafnréttismála hefur til umfjöllunar mál sem varðar ráðningu, setningu eða skipun í starf getur hún aflað frekari upplýsinga um málið frá þeim einstaklingi sem hlaut starfið, telji hún ástæðu til, í því skyni að upplýsa málið nægjanlega í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.
Þegar ætla má að mál geti haft stefnumarkandi áhrif á vinnumarkaðinn í heild skal kærunefnd jafnréttismála leita umsagnar frá heildarsamtökum launafólks og atvinnurekenda áður en úrskurður er kveðinn upp.
11. gr. Birting úrskurða. Ársskýrsla.
Kærunefnd jafnréttismála skal birta úrskurði sína með aðgengilegum og skipulegum hætti að jafnaði tveimur vikum eftir uppkvaðningu. Hvorki nafn kæranda né annarra einstaklinga skal tilgreint í opinberri birtingu úrskurða. Þá skal jafnframt fella út persónulegar upplýsingar, svo sem um launakjör og þess háttar. Nafn kærða skal að jafnaði birt í úrskurði.
Nefndin skal árlega skila ráðherra skýrslu um störf sín sem birtir hana með aðgengilegum hætti. Í skýrslunni skulu koma fram helstu niðurstöður og ályktanir sem draga má af úrskurðum nefndarinnar.

IV. kafli. Ýmis ákvæði.
12. gr. Skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála.
Ráðherra skal gefa út skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála einu sinni á kjörtímabili. Í skýrslu ráðherra skal m.a. koma fram mat á stöðu og árangri verkefna í gildandi þingsályktun um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum, sbr. 26. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, auk umfjöllunar um stöðu og þróun jafnréttismála á helstu sviðum samfélagsins. Skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála skal fylgja með tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum.
13. gr. Áætlanir sveitarfélaga um jafnréttismál.
Sveitarstjórnir skulu að afloknum sveitarstjórnarkosningum sjá til þess að innan hvers sveitarfélags verði gerð áætlun fyrir nýtt kjörtímabil um markmið og aðgerðir til að koma í veg fyrir mismunun, sbr. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um jafna meðferð á vinnumarkaði og [lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar],1) þar sem m.a. komi fram hvernig unnið skuli að kynja- og jafnréttissjónarmiðum á öllum sviðum. Áætlun skal taka til markmiða og aðgerða til að stuðla að jafnrétti og jafnri meðferð við ráðstöfun fjármagns, í þjónustu sveitarfélagsins og starfsmannamálum, m.a. hvernig starfsfólki skuli tryggð þau réttindi sem kveðið er á um í 6.–14. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Hún skal lögð fram til samþykktar í viðkomandi sveitarstjórn eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar, framvinda hennar rædd árlega í sveitarstjórn eftir það og hún endurskoðuð eftir þörfum.
Sveitarstjórn skal fela byggðaráði eða annarri fastanefnd sveitarfélags að fara með jafnréttismál sveitarfélagsins og hafa, með stuðningi starfsfólks, umsjón með undirbúningi áætlunar og framkvæmd hennar.
Sveitarstjórn er ekki jafnframt skylt að gera jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína skv. 5. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
Jafnréttisstofa hefur eftirlit með framkvæmd þessa ákvæðis og veitir sveitarfélögum stuðning við framkvæmd þess.
   1)L. 63/2022, 13. gr.
14. gr. Jafnréttisráðgjafar.
Ráðherra er heimilt að ráða jafnréttisráðgjafa sem vinnur tímabundið að jafnréttismálum á tilteknu sviði og/eða á tilteknu landsvæði.
15. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð1) um nánari framkvæmd laga þessara, svo sem um starfsemi og skipulag Jafnréttisstofu, þar á meðal um beitingu dagsekta sem Jafnréttisstofa ákveður, sbr. 6. gr., og um störf kærunefndar jafnréttismála og skrifstofuhald, þ.m.t. um erindi til nefndarinnar, starfshætti, málsmeðferð og birtingu úrskurða.
   1)Rg. 408/2021.
16. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
17. gr. Breyting á öðrum lögum.
Ákvæði til bráðabirgða.
Við gildistöku laga þessara fellur niður umboð skipaðra fulltrúa í kærunefnd jafnréttismála og skal ráðherra skipa, samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar, þrjá fulltrúa í kærunefnd jafnréttismála, sbr. 7. gr., sem taka við verkefnum fráfarandi nefndar.
Þrátt fyrir 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. skal ráðherra, í fyrsta skipti sem nefndin er skipuð samkvæmt lögum þessum, skipa tvo fulltrúa í kærunefnd jafnréttismála til þriggja ára, aðra en formann og varaformann, en formann skal ráðherra skipa til fjögurra ára og varaformann til tveggja ára. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.