Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Tækniþróunarsjóð

2021 nr. 26 23. apríl


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júlí 2021.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eða háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Hlutverk.
Tækniþróunarsjóður er sérstakur sjóður sem heyrir undir ráðherra. Fagleg umsýsla Tækniþróunarsjóðs skal falin óháðum aðila samkvæmt samningi.
Hlutverk Tækniþróunarsjóðs er að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Tækniþróunarsjóði er heimilt að fjármagna nýsköpunarverkefni í samræmi við meginstefnu Vísinda- og tækniráðs með því að:
   a. styrkja tækniþróun og tengdar rannsóknir í þágu nýsköpunar atvinnulífsins, m.a. í samstarfi við stofnanir, háskóla, fyrirtæki og erlenda sjóði,
   b. styrkja uppbyggingu sprotafyrirtækja,
   c. fjármagna átaksverkefni og markáætlanir á einstökum tæknisviðum til að treysta tæknilegar undirstöður atvinnuvega, einstakar greinar þeirra eða þvert á greinaskiptingu þeirra,
   d. styrkja lítil verkefni á vegum einstaklinga og smáfyrirtækja sem eru líkleg til að verða atvinnu- og tekjuskapandi og arðbær þrátt fyrir áhættu í upphafi,
   e. greiða kostnað við greiningu á stöðu nýsköpunar og gerð áætlana til styrktar henni.
2. gr. Tekjur.
Tekjur Tækniþróunarsjóðs eru:
   a. fjárveitingar í fjárlögum,
   b. framlög frá innlendum og erlendum samstarfsaðilum,
   c. önnur framlög.
3. gr. Stjórn.
Í stjórn Tækniþróunarsjóðs sitja sex menn sem ráðherra skipar til tveggja ára, þ.m.t. formaður og varaformaður. Stjórnarmönnum er einungis heimilt að sitja tvö tímabil í senn. Tveir skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, einn samkvæmt tilnefningu tækninefndar Vísinda- og tækniráðs, einn sem tilnefndur er af ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála, einn samkvæmt tilnefningu Samtaka iðnaðarins og ráðherra skipar einn án tilnefningar.
Varamenn skulu tilnefndir með sama hætti. Ráðherra velur formann og varaformann sjóðstjórnar úr hópi stjórnarmanna.
4. gr. Hlutverk stjórnar og fagráða.
Stjórn Tækniþróunarsjóðs ákveður áherslur sjóðsins samkvæmt skilgreindu hlutverki hans, sbr. 1. gr. Stjórnin tekur ákvarðanir um fjárveitingar úr sjóðnum að fengnum umsögnum fagráða sem tækninefnd Vísinda- og tækniráðs skipar til tveggja ára í senn. Fagráðin eru ráðgefandi um fagleg málefni við úthlutanir úr Tækniþróunarsjóði. Jafnframt eru fagráðin ráðgefandi fyrir Vísinda- og tækniráð og undirnefndir þess eftir því sem óskað er.
Stjórnin leitar ráðgjafar umfram það sem fagráð sjóðsins geta veitt ef þurfa þykir. Þeir sem skipaðir eru í fagráð skulu hafa víðtæka reynslu af tækniþróun og nýsköpun. Þeir skulu hvorki sitja í Vísinda- og tækniráði né í stjórn Tækniþróunarsjóðs. Í alþjóðlegum samstarfsverkefnum rannsókna- og þróunarsjóða er heimilt að byggja á niðurstöðum fagráða sem skipuð eru af samstarfsaðilum.
Ef til atkvæðagreiðslu kemur innan stjórnar Tækniþróunarsjóðs og atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.
Kostnaður við mat á umsóknum og rekstur Tækniþróunarsjóðs skal greiddur af árlegu ráðstöfunarfé hans.
Ákvarðanir sem teknar eru um að veita styrki úr Tækniþróunarsjóði eru endanlegar á stjórnsýslustigi.
5. gr. Úthlutunarreglur.
Úthlutunarstefna Tækniþróunarsjóðs skal fylgja áherslum Vísinda- og tækniráðs. Stjórn Tækniþróunarsjóðs setur reglur um umsóknir, mat þeirra og málsmeðferð. Þar skulu koma fram skilyrði umsókna og áherslur Vísinda- og tækniráðs.
6. gr. Reglugerð.
Ráðherra getur með reglugerð mælt nánar fyrir um starfsemi og rekstur Tækniþróunarsjóðs og framkvæmd laga þessara.
7. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2021.
8. gr. Breyting á öðrum lögum.