Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi
2021 nr. 51 21. maí
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 9. júní 2021.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við dómsmálaráðherra eða dómsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Gildissvið.
Lög þessi gilda um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.
Með Schengen-upplýsingakerfinu á Íslandi er átt við rafrænt gagnasafn sem starfrækt er hér á landi og tengt sameiginlegu upplýsingakerfi á Schengen-svæðinu.
2. gr. Orðskýringar.
Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1. Andlitsmynd: Stafræn mynd af andliti sem er í upplausn og gæðum sem þykja fullnægjandi til að hana megi nota til sjálfvirkrar lífkennaauðkenningar.
2. Brottför af frjálsum vilja: Einstaklingur yfirgefur landið sjálfviljugur samkvæmt fyrirmælum eða ákvörðun á grundvelli laga um útlendinga.
3. Brottvísun: Ákvörðun stjórnvalds um að útlendingi sem dvelst hérlendis skuli vísað úr landi til heimalands eða annars ríkis þar sem hann getur sýnt fram á löglega heimild til dvalar og honum getur verið bönnuð endurkoma í tiltekinn tíma eða að fullu og öllu, sbr. lög um útlendinga.
4. DNA-snið: Bókstafs- eða talnakóði sem sýnir eiginleikasafn til kennslagreiningar í sýni úr þeim hluta mannlegs DNA sem kóðar ekki og greining hefur verið gerð á, einkum hina sérstöku sameindabyggingu á ýmsum DNA-gensetum.
5. Dvalarleyfi:
a. Öll dvalarleyfi sem gefin eru út af Schengen-ríki á samræmdu formi.
b. Öll önnur skjöl sem gefin eru út af Schengen-ríki til útlendinga, sem hvorki eru borgarar ríkis sem tilheyrir Evrópska efnahagssvæðinu né ríkis sem fellur undir stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu, og heimila dvöl á eða endurkomu á yfirráðasvæði þess að undanskildum bráðabirgðaleyfum sem gefin eru út á meðan fyrsta umsókn um dvalarleyfi skv. a-lið eða umsókn um alþjóðlega vernd er til meðferðar.
6. Endurkomubann: Fylgir ákvörðun um brottvísun og er ákvörðun eða úrlausn stjórnvalds eða dómstóls sem bannar komu til eða dvöl á yfirráðasvæði Schengen-ríkja í tiltekinn tíma.
7. Fingrafaragögn: Gögn um fingraför og lófaför sem gera kleift að gera nákvæman og óyggjandi samanburð varðandi deili á einstaklingi.
8. Flagg: Yfirlýsing um óvirkni skráningar hér á landi sem setja má gagnvart skráningu annars ríkis vegna handtöku, týndra einstaklinga, einstaklinga í viðkvæmri stöðu og eftirlits með leynd, beinna afskipta, leitar eða líkamsrannsóknar.
9. Frávísun: Ákvörðun stjórnvalds um að vísa útlendingi frá landinu til heimalands eða annars ríkis þar sem hann getur sýnt fram á löglega heimild til dvalar, sbr. lög um útlendinga.
10. Hryðjuverk: Brot skv. 100. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
11. Langtímavegabréfsáritun: Vegabréfsáritun skv. 21. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016.
12. Lífkennaupplýsingar: Persónuupplýsingar sem fást með sérstakri tæknivinnslu og tengjast líkamlegum eða lífeðlisfræðilegum eiginleikum einstaklings og gera kleift að greina eða staðfesta deili á einstaklingi með ótvíræðum hætti, svo sem ljósmyndir, andlitsmyndir, fingrafaragögn og DNA-snið.
13. Ríkisborgari þriðja ríkis: Útlendingur sem er ekki íslenskur ríkisborgari eða borgari ríkis sem tilheyrir Evrópska efnahagssvæðinu eða fellur undir stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu.
14. Schengen-ríki: Ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu, sbr. lög um útlendinga.
15. Skráning: Röð gagna sem færð eru í upplýsingakerfið og gera lögbærum yfirvöldum kleift að bera kennsl á einstakling eða hlut með það að markmiði að grípa til sértækra aðgerða.
16. Skráningarríki: Schengen-ríki sem færir skráningu í upplýsingakerfið.
17. Smellur: Samsvörun sem hefur verið staðfest af notanda eða þar til bærum yfirvöldum til samræmis við gildandi landslög þegar viðkomandi samsvörun byggist á samanburði lífkennaupplýsinga og frekari aðgerða er óskað. Samsvörun fæst þegar leit í kerfinu hefur leitt í ljós skráningu annars Schengen-ríkis í kerfið og gögn varðandi skráninguna samsvara að hluta eða öllu leyti leitargögnum.
18. Viðbótargögn: Gögn, sem eru vistuð í upplýsingakerfinu og tengjast skráningum í því, sem skulu vera aðgengileg lögbærum yfirvöldum fyrirvaralaust þegar einstaklingur, sem gögn hafa verið skráð um í kerfið, finnst í kjölfar leitar í kerfinu.
19. Viðbótarupplýsingar: Upplýsingar sem ekki teljast hluti af skráningargögnum en tengjast skráningum í upplýsingakerfinu og skipst verður á fyrir milligöngu SIRENE-skrifstofa:
a. í því skyni að gera ríkislögreglustjóra kleift að hafa samráð við og upplýsa önnur Schengen-ríki þegar skráning er færð inn,
b. þegar smellur hefur fengist svo unnt sé að grípa til viðeigandi aðgerða,
c. þegar ekki er unnt að grípa til þeirra aðgerða sem mælt er fyrir um,
d. í tengslum við gæði gagna í upplýsingakerfinu,
e. í tengslum við samrýmanleika og forgang skráninga,
f. í tengslum við rétt til aðgangs að upplýsingum í kerfinu.
3. gr. Ábyrgð á upplýsingakerfinu.
Ríkislögreglustjóri rekur upplýsingakerfið og ber ábyrgð á því. Hann hefur umsjón með skráningu í það og sendingu annarra gagna í samræmi við ákvæði laga þessara.
Við skráningu í kerfið skal þess gætt að upplýsingar séu réttar og áreiðanlegar og að fullnægt sé skilyrðum laganna fyrir skráningu.
Ríkislögreglustjóri hefur umsjón með því að kerfið sé fullnýtt til uppflettinga og skráninga í samræmi við ákvæði laganna.
4. gr. Starfsemi upplýsingakerfisins.
Ríkislögreglustjóri og sá sem á hans vegum annast tölvuþjónustu skulu skipulega og kerfisbundið tryggja öryggi upplýsingakerfisins þannig að óviðkomandi fái ekki aðgang að því eða geti haft áhrif á skráningu í það. Á sama hátt skal ríkislögreglustjóri tryggja að kerfið starfi greiðlega og án truflana og að það sé aðgengilegt þeim sem við það starfa, bæði þeim stjórnvöldum sem eru beinlínutengd kerfinu og þeim stjórnvöldum sem hafa aðgang að skráðum upplýsingum í kerfinu samkvæmt beiðni þegar þau sinna ákveðnum verkefnum.
5. gr. Starfsemi SIRENE-skrifstofu.
Ríkislögreglustjóri skal starfrækja miðlæga upplýsinga- og þjónustumiðstöð, SIRENE-skrifstofu. SIRENE-skrifstofan skal meðal annars annast sendingu viðbótarupplýsinga til annarra SIRENE-skrifstofa, miðla viðbótarupplýsingum í tengslum við smelli, greiða fyrir aðgerðum á grundvelli skráninga um einstaklinga eða hluti í kjölfar smella, samhæfa og sannprófa gæði upplýsinga sem skráðar eru í upplýsingakerfið og annast miðlun upplýsinga innan lands til lögbærra yfirvalda samkvæmt lögum þessum.
SIRENE-skrifstofan skal starfa allan sólarhringinn, alla daga vikunnar.
Tryggja skal að allar nauðsynlegar viðbótarupplýsingar séu aðgengilegar og sendar á skilvirkan og öruggan hátt. Beiðni um viðbótarupplýsingar skal svarað svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en 12 klukkustundum frá móttöku hennar, nema beiðni varði hryðjuverk, skráningu einstaklinga til handtöku og afhendingar eða framsals, eða skráningu barns skv. a-lið 3. mgr. 10. gr., en í slíkum tilvikum skal beiðni svarað án tafar.
SIRENE-skrifstofan skal útbúa og gera aðgengilegar fyrir lögbær yfirvöld nauðsynlegar upplýsingar um kerfið, þar á meðal notkunarleiðbeiningar, og annast menntun og þjálfun notenda kerfisins.
6. gr. Markmið með skráningu í upplýsingakerfið.
Skráning í upplýsingakerfið skal miða að því að tryggja öryggi á Íslandi og Schengen-svæðinu í heild, þ.m.t. almannaöryggi, allsherjarreglu og öryggi ríkisins. Í upplýsingakerfið skal aðeins skrá upplýsingar sem um getur í lögum þessum enda sé skráning þeirra nauðsynleg með hliðsjón af tilgangi skráningar og nægjanlega brýnt tilefni sé til skráningar.
II. kafli. Skráning einstaklinga í upplýsingakerfið.
7. gr. Skráning upplýsinga um einstaklinga.
Í upplýsingakerfið má skrá eftirfarandi upplýsingar þegar einstaklingur er skráður í kerfið:
a. kenninöfn, eiginnöfn, nöfn við fæðingu, fyrri nöfn og tökuheiti,
b. sérstök varanleg líkamleg einkenni,
c. fæðingarstað, fæðingardag og fæðingarár,
d. kyn,
e. ríkisfang eða ríkisföng,
f. hvort viðkomandi er vopnaður, ofbeldishneigður eða á flótta,
g. hvort viðkomandi telst í sjálfsvígshættu,
h. hvort af viðkomandi stafar lýðheilsuógn,
i. hvort viðkomandi hefur tengsl við hryðjuverk eða hryðjuverkasamtök,
j. ástæðu fyrir skráningu,
k. yfirvald sem biður um skráninguna,
l. tilvísun til ákvörðunar sem varð tilefni skráningar,
m. aðgerðir sem farið er fram á,
n. tengingu við aðrar skráningar í upplýsingakerfinu í samræmi við 40. gr.,
o. tegund afbrots,
p. kennitölu eða einkvæmt auðkenni viðkomandi ef um er að ræða Íslending, borgara ríkis sem tilheyrir Evrópska efnahagssvæðinu eða ríkis sem fellur undir stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu,
q. á hvaða grundvelli skráning skv. 10. gr. er gerð,
r. tegund persónuskilríkja viðkomandi, hvaða ríki gaf persónuskilríki út, númer persónuskilríkja og útgáfudagsetningu,
s. ljósmyndir og andlitsmyndir,
t. fingrafaragögn og
u. afrit af persónuskilríkjum viðkomandi, í lit ef mögulegt er.
Skilyrði fyrir skráningu upplýsinga um einstakling í upplýsingakerfið er að mál sé til meðferðar hjá íslenskum yfirvöldum sem gefur tilefni til skráningar. Þá skal ganga úr skugga um að grundvöllur skráningar í upplýsingakerfið sé fullnægjandi og í samræmi við ákvæði laga þessara. Hið sama á við þegar skráning er framlengd. Ef einstaklingur er eftirlýstur vegna hryðjuverka telst slíkt fullnægjandi grundvöllur til skráningar. Í undantekningartilvikum, með vísan til almannaöryggis og allsherjarreglu, er þó heimilt að víkja frá skráningu ef líklegt þykir að skráning hindri eða hafi áhrif á rannsókn eða saksókn máls.
Upplýsingar um einstakling verða ekki skráðar í kerfið nema eftirfarandi lágmarksupplýsingar liggi fyrir: nafn, fæðingardagur og fæðingarár, ástæða fyrir skráningu og aðgerðir sem farið er fram á. Aðrar upplýsingar sem taldar eru upp í 1. mgr. skal skrá í kerfið ef þær liggja fyrir. Upplýsingar um sérstök varanleg líkamleg einkenni skal þó einungis skrá ef nauðsyn þykir til að bera kennsl á viðkomandi.
Heimilt er að skrá einungis fingrafaragögn einstaklings í kerfið skv. 15. gr.
Áður en upplýsingar um einstakling skv. 1. mgr. eru skráðar í kerfið skal ganga úr skugga um að sami einstaklingur sé ekki þegar skráður í kerfið. Í þeim tilgangi skal kanna fingrafaragögn ef þau liggja fyrir.
Einungis er heimilt að skrá eina skráningu varðandi hvern einstakling í kerfið. Heimilt er þó, þegar nauðsyn þykir, að bæta við nýrri skráningu varðandi sama einstakling, að því tilskildu að sú skráning sé ekki ósamrýmanleg skráningu um viðkomandi einstakling sem þegar er í kerfinu. Sé ný skráning ósamrýmanleg þeirri sem þegar er í kerfinu ber SIRENE-skrifstofunni að hafa samráð við skráningarríki með skiptum á viðbótarupplýsingum til að ná samkomulagi áður en ný skráning fer fram, nema mikilvægir þjóðarhagsmunir séu í húfi.
Skráning um ríkisborgara þriðja ríkis sem nýtur réttarins til frjálsrar farar samkvæmt tilskipun nr. 2004/38/EB skal taka mið af réttindum hans skv. XI. kafla laga um útlendinga, nr. 80/2016.
Um skráningu upplýsinga um ríkisborgara þriðja ríkis vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun gilda ákvæði III. kafla.
Um skráningu upplýsinga um ríkisborgara þriðja ríkis vegna synjunar um komu og dvöl gilda ákvæði IV. kafla.
8. gr. Flöggun skráningar.
Ef aðgerð sem grípa ber til á grundvelli skráningar skv. 9., 10. og 13. gr. er talin andstæð landslögum, alþjóðlegum skuldbindingum eða grundvallarþjóðarhagsmunum má SIRENE-skrifstofan óska eftir því að flagg verði sett gagnvart viðkomandi skráningu í þeim tilgangi að aðgerð sem gripið verður til á grundvelli skráningar fari ekki fram á yfirráðasvæði Íslands. Ef um er að ræða skráningu skv. 9. gr. getur skráningarríki þó, þrátt fyrir flöggun SIRENE-skrifstofu, óskað þess að upplýsinga verði aflað um dvalarstað viðkomandi einstaklings er skráning varðar.
Þegar skráðar eru upplýsingar um einstakling skv. 9. gr. skal sjálfkrafa tilkynna nýja skráningu með sendingu viðbótarupplýsinga til þess að gera Schengen-ríki kleift að óska eftir flöggun gagnvart slíkri skráningu.
Ef um er að ræða sérstaklega áríðandi og alvarlegt tilvik getur skráningarríki farið þess á leit við SIRENE-skrifstofuna að hún dragi flagg til baka og aðgerð verði framkvæmd. Ef SIRENE-skrifstofan sér það sér fært skal hún gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að unnt sé að framkvæma aðgerðina sem beðið var um án tafar.
Þegar skráning varðar handtöku og afhendingu einstaklings til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar og ríkissaksóknari hefur synjað um að framkvæma hana skal fara fram á það við skráningarríkið að það bæti flaggi við skráninguna sem kemur í veg fyrir að skráningunni verði fylgt eftir með handtöku. SIRENE-skrifstofan getur einnig farið fram á að flaggi verði bætt við skráninguna ef lögregla eða saksóknari hefur látið viðkomandi lausan í afhendingarferlinu.
Að fyrirmælum ríkissaksóknara getur SIRENE-skrifstofan einnig krafist þess, annaðhvort á grundvelli almennra fyrirmæla eða í einstöku tilviki, að skráningarríkið setji flagg gagnvart skráningu vegna handtöku með afhendingu í huga ef augljóst er að synja verður um framkvæmd handtökuskipunarinnar.
9. gr. Skráning um einstaklinga vegna eftirlýsingar til handtöku og afhendingar eða framsals.
Heimilt er að skrá upplýsingar um einstaklinga í upplýsingakerfið vegna beiðni um að eftirlýstur einstaklingur verði handtekinn og afhentur á grundvelli handtökuskipunar eða framseldur. Slíkar skráningar skulu gerðar á grundvelli beiðni lögreglu nema um sé að ræða evrópska eða norræna handtökuskipun, sbr. lög um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar.
Skráning vegna eftirlýsingar til handtöku og afhendingar skal tengd viðbótargögnum með afriti af upphaflegri handtökuskipun. Heimilt er að tengja afrit af fleiri en einni handtökuskipun í kerfið. Öðrum upplýsingum sem tengjast evrópskri eða norrænni handtökuskipun, sbr. lög um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar, skal miðlað sem viðbótarupplýsingum.
Að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum, í tengslum við yfirstandandi aðgerð, er SIRENE-skrifstofunni heimilt að gera skráningu í kerfinu tímabundið óaðgengilega ábyrgum yfirvöldum í öðrum löndum sem taka þátt í aðgerð ef:
a. tilgangi aðgerða verður ekki náð með öðrum hætti,
b. samþykkis hefur verið aflað fyrir fram frá ríkissaksóknara hér á landi,
c. öllum þátttökuríkjum í aðgerð hefur verið tilkynnt um ákvörðunina með miðlun viðbótargagna.
Skráning skal að jafnaði ekki vera óaðgengileg lengur en í 48 klukkustundir. Ef nauðsyn þykir er heimilt að framlengja þann tíma um aðrar 48 klukkustundir.
Heimilt er að skrá og tengja eftirfarandi hluti við skráningu um einstakling í kerfinu skv. 1. og 2. mgr. ef skýr vísbending er um að hlutirnir tengist viðkomandi: vélknúin ökutæki, eftirvagna með eigin þunga yfir 750 kg, hjólhýsi, báta, gáma, loftför, skotvopn og óútfyllt skilríki sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið eða eru fölsuð. Um tengingu skráningar fer eftir 40. gr.
Eftirfarandi upplýsingum skal miðlað til annarra Schengen-ríkja með viðbótarupplýsingum í tengslum við skráningu vegna eftirlýsingar til handtöku og framsals:
a. um yfirvald sem gaf út beiðni um handtöku,
b. um hvort fyrir liggi handtökuskipun eða fullnustuhæfur dómur um afplánun fangelsisrefsingar,
c. um eðli og heimfærslu afbrots til refsilaga,
d. lýsingu á málsatvikum, þar á meðal um stað, stund og hlut viðkomandi í afbrotinu,
e. um afleiðingar afbrots eins og mögulegt er og
f. öllum öðrum gagnlegum eða nauðsynlegum upplýsingum til að geta gripið til aðgerða á grundvelli skráningar.
Þegar handtaka eftirlýsts einstaklings til afhendingar eða framsals getur ekki farið fram hér á landi, annaðhvort vegna ástæðna sem greinir í 8. gr. um flöggun eða vegna þess að rannsókn máls er ekki lokið, ber SIRENE-skrifstofunni að miðla upplýsingum um dvalarstað viðkomandi.
10. gr. Skráning um horfna einstaklinga eða viðkvæma einstaklinga sem þarf að koma í veg fyrir að ferðist.
Heimilt er, á grundvelli ákvörðunar þar til bærra yfirvalda, að skrá upplýsingar um horfna einstaklinga.
Heimilt er, á grundvelli ákvörðunar þar til bærra yfirvalda, að skrá upplýsingar um horfna einstaklinga sem þarf að vernda vegna öryggis þeirra eða annarra.
Heimilt er einnig, í eftirfarandi tilvikum, á grundvelli ákvörðunar þar til bærra yfirvalda, að skrá upplýsingar um börn og viðkvæma einstaklinga í kerfið sem þarf að koma í veg fyrir að ferðist:
a. börn sem eiga á hættu að vera numin á brott af foreldri, fjölskyldumeðlim eða forráðamanni,
b. börn sem eru í augljósri hættu á að vera flutt á brott eða fari frá landinu og verði fórnarlömb mansals, þvinguð í hjónaband, fórnarlömb limlestingar á kynfærum kvenna eða annars konar kynbundins ofbeldis, verði fórnarlömb eða þátttakendur í hryðjuverkum, aðilar að vopnuðum átökum eða þátttakendur í fjandsamlegum aðgerðum og
c. viðkvæma einstaklinga sem náð hafa lögaldri, öryggis þeirra sjálfra vegna, sakir raunverulegrar og augljósrar hættu á að viðkomandi verði numinn á brott eða fari frá landinu og verði fórnarlamb mansals eða kynbundins ofbeldis.
Við skráningu í kerfið skv. 1.–3. mgr. þarf að koma skýrt fram á hvaða grundvelli skráning er gerð, sbr. q-lið 1. mgr. 7. gr.
Skráningar skv. 3. mgr. ber að yfirfara reglulega og endurmeta þörfina á að halda þeim í kerfinu, sbr. 45. gr.
Heimilt er að skrá og tengja eftirfarandi hluti við skráningu um einstakling í kerfinu skv. 1.–3. mgr. ef skýr vísbending er um að hlutirnir tengist viðkomandi: vélknúin ökutæki, eftirvagna með eigin þunga yfir 750 kg, hjólhýsi, báta, gáma, loftför og óútfyllt skilríki sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið eða eru fölsuð. Um tengingu skráningar fer eftir 40. gr.
11. gr. Aðgerðir á grundvelli skráningar um horfna einstaklinga eða viðkvæma einstaklinga sem þarf að koma í veg fyrir að ferðist.
Ef einstaklingur sem skráður hefur verið í upplýsingakerfið á grundvelli 10. gr. finnst hér á landi ber að miðla upplýsingum um viðkomandi til skráningarríkisins. Upplýsingum um staðsetningu verður ekki miðlað til annarra en þar til bærra yfirvalda, án samþykkis viðkomandi, ef hann er skráður horfinn í kerfinu og hefur náð 18 ára aldri. Í slíkum tilvikum er þó heimilt að greina þeim sem tilkynnti um hvarfið frá því að skráningu hafi verið eytt vegna þess að viðkomandi hafi fundist.
Ef vernda þarf einstakling skv. 2. eða 3. mgr. 10. gr., skal hafa samráð við þar til bær yfirvöld hér á landi og í ríkinu sem skráði viðkomandi í kerfið til að ákvarða til hvaða aðgerða verður gripið. Samráð skal haft með miðlun viðbótarupplýsinga. Til samræmis við gildandi lög er heimilt að færa viðkomandi á öruggan stað til að koma í veg fyrir að hann ferðist.
Sé um að ræða barn skal ávallt hafa hagsmuni þess að leiðarljósi. Ákvarðanir um aðgerðir er varða barn skal taka í samráði við barnaverndaryfirvöld og innan 12 klukkustunda frá því að barnið fannst.
12. gr. Skráning um einstaklinga vegna rannsóknar og meðferðar sakamáls.
Heimilt er að skrá upplýsingar um einstaklinga í upplýsingakerfið vegna eftirgrennslanar um búsetu eða dvalarstað:
a. vitnis,
b. sakbornings sem hefur verið ákærður og færa þarf fyrir dóm,
c. sakbornings sem birta á dóm í sakamáli eða önnur skjöl í tengslum við meðferð sakamáls eða
d. einstaklings sem boða á til afplánunar fangelsisrefsingar.
Heimilt er að skrá og tengja eftirfarandi hluti við skráningu um einstakling í kerfinu skv. 1. mgr. ef skýr vísbending er um að hlutirnir tengist viðkomandi: vélknúin ökutæki, eftirvagna með eigin þunga yfir 750 kg, hjólhýsi, báta, gáma, loftför og óútfyllt skilríki sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið eða eru fölsuð. Um tengingu skráningar fer eftir 40. gr.
Upplýsingar sem óskað er eftir á grundvelli 1. mgr. skulu veittar skráningarríki, sem um þær biður, með miðlun viðbótarupplýsinga.
13. gr. Skráning um einstaklinga vegna eftirlits með leynd, beinna afskipta, leitar eða líkamsrannsóknar.
Heimilt er að skrá upplýsingar um einstaklinga í kerfið til að fram fari eftirlit með leynd, bein afskipti, leit eða líkamsrannsókn, sbr. 14. gr., í þeim tilgangi að koma í veg fyrir, koma upp um, rannsaka eða sækja til saka fyrir refsiverð brot, framfylgja ákvörðun um refsingu og koma í veg fyrir ógnir við almannaöryggi í einum eða fleiri eftirfarandi aðstæðum:
a. þegar skýr vísbending er um að viðkomandi fremji eða muni fremja einhver þau brot sem um getur í 3. mgr. 8. gr. laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar, nr. 51/2016,
b. þegar skráðar upplýsingar eru nauðsynlegar til þess að framfylgja úrskurði um refsivist eða öryggisráðstöfun gagnvart einstaklingi sem hefur verið sakfelldur fyrir einhver þau brot sem um getur í 3. mgr. 8. gr. laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar, nr. 51/2016,
c. þegar heildarmat á einstaklingi, einkum á grundvelli fyrri refsiverðra brota, gefur ástæðu til að ætla að viðkomandi muni fremja þau brot sem um getur í 3. mgr. 8. gr. laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar, nr. 51/2016.
Í þágu þjóðaröryggis er heimilt að skrá upplýsingar um einstaklinga í kerfið til að fram fari eftirlit með leynd, bein afskipti, leit eða líkamsrannsókn, sbr. 14. gr., að beiðni lögreglu, þegar ótvíræð vísbending er um að skráning sé nauðsynleg til að koma í veg fyrir að alvarleg ógn stafi af viðkomandi eða til þess að koma í veg fyrir alvarlegar ógnir við innra eða ytra þjóðaröryggi. Tilkynna ber öðrum Schengen-ríkjum um skráninguna.
Heimilt er að skrá og tengja eftirfarandi hluti, sem um getur í 35. gr., við skráningu um einstakling í kerfinu skv. 1. og 2. mgr. ef skýr vísbending er um að hlutirnir tengist viðkomandi eða tilvikunum sem um ræðir í a–c-lið 1. mgr.: vélknúin ökutæki, eftirvagna með eigin þunga yfir 750 kg, hjólhýsi, báta, gáma, loftför, skotvopn, skilríki sem um getur í h- og i-lið 35. gr. og aðra greiðslumiðla en reiðufé. Um tengingu skráningar fer eftir 40. gr.
14. gr. Aðgerðir á grundvelli skráningar um einstaklinga vegna eftirlits með leynd, beinna afskipta, leitar eða líkamsrannsóknar.
Til að bregðast við skráningu vegna eftirlits með leynd, beinna afskipta af einstaklingi, leitar eða líkamsrannsóknar skal safna og miðla eftirfarandi upplýsingum með viðbótarupplýsingum eftir því sem unnt er:
a. um að viðkomandi eða einhver þeirra hluta sem greinir í 3. mgr. 13. gr. hafi fundist,
b. um stað, tímasetningu og tilefni eftirlits eða afskipta,
c. um ferðaleið og áfangastað,
d. um samferðamenn viðkomandi eða farþega ökutækis, báts eða loftfars, eða samferðamenn handhafa óútfylltra skilríkja eða útgefinna persónuskilríkja, sem leiða má líkur að að tengist viðkomandi,
e. um auðkenni og lýsingar á viðkomandi sem notast við óútfyllt skilríki eða útgefin persónuskilríki sem skráð eru í kerfið,
f. um hlutina sem um getur í 35. gr.,
g. um hlutina sem viðkomandi er með meðferðis, þar á meðal ferðaskilríki, og
h. um kringumstæður þess að viðkomandi eða hlutirnir skv. a- og f-lið fundust.
Heimilt er að óska frekari upplýsinga en þeirra sem greinir í 1. mgr. en einungis má fara fram á að fá persónuupplýsingar þegar nauðsyn krefur vegna viðkomandi skráningar og þess afbrots sem er grundvöllur skráningar. Vinnsla persónuupplýsinga skal ávallt vera samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.
Um skráningu upplýsinga skv. 1. og 2. mgr. fer samkvæmt íslenskum lögum.
Við framkvæmd eftirlits með leynd ber að afla allra gagna sem mögulegt er við venjubundna starfsemi lögreglu og upptalin eru í 1. mgr., þó einungis þannig að eftirlitið haldist með leynd og viðkomandi verði ekki var við eftirlitið. Um framkvæmd eftirlits með leynd fer að öðru leyti eftir gildandi lögum.
Við bein afskipti skal afla upplýsinga eða beina spurningum til viðkomandi einstaklings á grundvelli skráningar skv. 1. mgr. eða á grundvelli upplýsinga sem óskað er eftir skv. 2. mgr. Um bein afskipti lögreglu fer eftir gildandi lögum.
Við framkvæmd leitar er heimilt að leita á einstaklingum, í ökutækjum, bátum, loftförum, gámum og hlutum sem viðkomandi eru með meðferðis. Um framkvæmd leitar og líkamsrannsóknar fer eftir gildandi lögum.
15. gr. Skráning um óþekkta eftirlýsta einstaklinga til að bera kennsl á þá.
Heimilt er að skrá í upplýsingakerfið heil fingraför eða lófaför eða hluta fingrafara og lófafara óþekktra eftirlýstra einstaklinga sem fundist hafa á vettvangi hryðjuverka eða annarra alvarlegra afbrota sem eru til rannsóknar. Slík fingrafaragögn skulu þó einungis skráð ef sterkar líkur eru á að þau tilheyri þeim sem framdi brotið og ekki er hægt að staðfesta auðkenni viðkomandi með leit í innlendum og alþjóðlegum gagnagrunnum.
16. gr. Aðgerðir á grundvelli skráningar um eftirlýsta óþekkta einstaklinga til að bera kennsl á þá.
Ef smellur fæst á grundvelli upplýsinga sem skráðar eru skv. 15. gr. skal auðkenni viðkomandi staðfest til samræmis við lög um meðferð sakamála. Upplýsingum um auðkenni og dvalarstað viðkomandi skal miðlað til skráningarríkisins með viðbótarupplýsingum.
17. gr. Að greina á milli tveggja einstaklinga með svipuð auðkenni.
Komi í ljós við nýja skráningu um einstakling í kerfið að fyrir er skráning um einstakling sem svarar til sömu lýsingar skal SIRENE-skrifstofan, með miðlun viðbótarupplýsinga, hafa samband við hitt skráningarríkið innan 12 klukkustunda til að sannreyna hvort um er að ræða tvær skráningar vegna sama einstaklings.
Ef niðurstaða er sú eftir athugun skv. 1. mgr. að um sama einstakling er að ræða í báðum tilvikum skal beita málsmeðferð skv. 6. mgr. 7. gr. Leiði athugun skv. 1. mgr. í ljós að um er að ræða tvo mismunandi einstaklinga skal bæta við skráningu nauðsynlegum upplýsingum til að koma í veg fyrir að röng kennsl séu borin á fólk.
18. gr. Viðbótargögn til að bregðast við misnotkun auðkenna.
Sé hætta á að upp geti komið ruglingur vegna einstaklings sem skráður er í kerfið og annars einstaklings sem hefur orðið fyrir því að auðkenni hans var misnotað, má samkvæmt samþykki þess síðarnefnda bæta við skráningu hans til að koma í veg fyrir neikvæðar afleiðingar þess að röng kennsl séu borin á fólk. Þeim einstaklingi er ávallt heimilt að afturkalla samþykki sitt varðandi vinnslu persónuupplýsinga sinna.
Einungis er heimilt að nota upplýsingar um einstakling sem hefur orðið fyrir því að auðkenni hans var misnotað í eftirfarandi tilgangi:
a. til að greina á milli þess einstaklings sem orðið hefur fyrir því að auðkenni hans var misnotað og þess sem skráður er í upplýsingakerfið,
b. til að gera einstaklingi sem hefur orðið fyrir því að auðkenni hans var misnotað kleift að sanna á sér deili og að auðkenni viðkomandi hafi verið misnotað.
Heimilt er að skrá eftirfarandi upplýsingar í kerfið um einstaklinga sem hafa orðið fyrir því að auðkenni þeirra var misnotað, að fengnu samþykki viðkomandi, sbr. 1. mgr.:
a. kenninöfn, eiginnöfn, nöfn við fæðingu, fyrri nöfn og tökuheiti sem mögulega eru skráð sér,
b. sérstök varanleg líkamleg einkenni,
c. fæðingarstað, fæðingardag og fæðingarár,
d. kyn,
e. ljósmyndir og andlitsmyndir,
f. fingraför, lófaför eða hvort tveggja,
g. ríkisfang eða ríkisföng,
h. tegund persónuskilríkja viðkomandi, hvaða ríki gaf persónuskilríki út, númer persónuskilríkja og útgáfudagsetningu,
i. heimilisfang viðkomandi og
j. nafn föður og móður viðkomandi.
III. kafli. Skráning vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun ríkisborgara þriðja ríkis.
19. gr. Skráning vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun ríkisborgara þriðja ríkis.
Til að tryggja að ákvörðun um brottvísun eða frávísun verði framfylgt ber að skrá í upplýsingakerfið upplýsingar um ríkisborgara þriðja ríkis sem sætt hefur slíkri ákvörðun. Upplýsingar vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun skulu skráðar í kerfið án tafar eftir töku hennar.
Heimilt er að víkja frá skráningu í upplýsingakerfið skv. 1. mgr. ef:
a. Viðkomandi er í haldi og bíður framkvæmdar ákvörðunar. Ef viðkomandi er sleppt án framkvæmdar skal skrá upplýsingar vegna brottvísunar eða frávísunar án tafar í upplýsingakerfið.
b. Ákvörðun um brottvísun eða frávísun er tekin á ytri landamærum og kemur þegar til framkvæmda.
Ef veittur er frestur til brottfarar af frjálsum vilja í tengslum við ákvörðun um brottvísun eða frávísun skal fresturinn skráður í upplýsingakerfið þegar í stað. Hvers konar framlenging á frestinum skal einnig skráð í kerfið án tafar.
Allar upplýsingar um frestun réttaráhrifa eða frestun framkvæmdar ákvörðunar um brottvísun eða frávísun, þar á meðal um nýtingu kæruleiða, skulu skráðar í upplýsingakerfið í tengslum við skráningu skv. 1. mgr.
20. gr. Skráning upplýsinga um ríkisborgara þriðja ríkis vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun.
Í upplýsingakerfið má skrá eftirfarandi upplýsingar þegar ríkisborgari þriðja ríkis er skráður í kerfið á grundvelli 19. gr.:
a. kenninöfn, eiginnöfn, nöfn við fæðingu, fyrri nöfn og tökuheiti,
b. fæðingarstað, fæðingardag og fæðingarár,
c. kyn,
d. ríkisfang eða ríkisföng,
e. hvort viðkomandi er vopnaður, ofbeldishneigður eða á flótta,
f. hvort viðkomandi telst í sjálfsvígshættu,
g. hvort af viðkomandi stafar lýðheilsuógn,
h. hvort viðkomandi hefur tengsl við hryðjuverk eða hryðjuverkasamtök,
i. ástæðu fyrir skráningu,
j. yfirvald sem biður um skráninguna,
k. tilvísun til ákvörðunarinnar sem varð tilefni skráningar,
l. aðgerðir sem farið er fram á,
m. tengingu við aðrar skráningar í upplýsingakerfinu í samræmi við 40. gr.,
n. hvort ákvörðun um brottvísun eða frávísun er tekin í tengslum við ríkisborgara þriðja ríkis sem ógnar allsherjarreglu, almannaöryggi eða þjóðaröryggi,
o. tegund afbrots,
p. tegund persónuskilríkja viðkomandi, hvaða ríki gaf persónuskilríki út, númer persónuskilríkja og útgáfudagsetningu,
q. ljósmyndir og andlitsmyndir,
r. fingrafaragögn,
s. afrit af persónuskilríkjum viðkomandi, í lit ef mögulegt er,
t. síðasta dag frests til brottfarar af frjálsum vilja ef við á,
u. hvort réttaráhrifum hefur verið frestað, framkvæmd ákvörðunar um brottvísun eða frávísun hefur verið frestað eða ákvörðun kærð og
v. hvort ákvörðuninni fylgir endurkomubann, sem er grundvöllur skráningar vegna synjunar um komu og dvöl inn á Schengen-svæðið, skv. b-lið 1. mgr. 28. gr.
Áður en skráð er í upplýsingakerfið skv. 1. mgr. skal ákvarða hvort grundvöllur skráningar er fullnægjandi og í samræmi við ákvæði laga þessara. Hið sama á við þegar skráning er framlengd. Ef grundvöllur ákvörðunar um brottvísun eða frávísun er tengdur hryðjuverkum telst slíkt fullnægjandi grundvöllur til skráningar. Í undantekningartilvikum, með vísan til almannaöryggis og allsherjarreglu, er þó heimilt að víkja frá skráningu ef líklegt þykir að skráning hindri eða hafi áhrif á rannsókn eða saksókn máls.
Upplýsingar um einstakling verða ekki skráðar í kerfið skv. 1. mgr. nema eftirfarandi lágmarksupplýsingar liggi fyrir: nafn, fæðingardagur og fæðingarár, ástæða fyrir skráningu, tilvísun til ákvörðunar sem varð tilefni skráningar, aðgerðir sem farið er fram á, síðasti dagur frests til brottfarar af frjálsum vilja þar sem við á og hvort ákvörðun fylgir endurkomubann. Aðrar upplýsingar sem taldar eru upp í 1. mgr. skal skrá í kerfið ef þær liggja fyrir.
Áður en upplýsingar um einstakling eru skráðar í kerfið skv. 1. mgr. skal ganga úr skugga um að sami einstaklingur sé ekki þegar skráður í kerfið. Í þeim tilgangi skal kanna fingrafaragögn ef þau liggja fyrir.
Einungis er heimilt að skrá eina skráningu varðandi hvern einstakling í kerfið. Heimilt er þó, þegar nauðsyn þykir, að bæta við nýrri skráningu varðandi sama einstakling, að því tilskildu að sú skráning sé ekki ósamrýmanleg skráningu um viðkomandi einstakling sem þegar er í kerfinu. Sé ný skráning ósamrýmanleg þeirri sem þegar er í kerfinu ber SIRENE-skrifstofunni að hafa samráð við skráningarríki með skiptum á viðbótarupplýsingum, til að ná samkomulagi áður en skráning fer fram, nema mikilvægir þjóðarhagsmunir séu í húfi.
21. gr. Smellur á ytri landamærum við brottför og staðfesting á för af Schengen-svæðinu.
Eftirfarandi upplýsingum skal miðla sem viðbótarupplýsingum til skráningarríkis ef smellur fæst á skráningu vegna brottvísunar eða frávísunar ríkisborgara þriðja ríkis sem yfirgefur Schengen-svæðið um ytri landamæri Íslands:
a. að viðkomandi einstaklingur hafi verið auðkenndur,
b. staðsetningu og tímasetningu eftirlits,
c. að viðkomandi hafi yfirgefið Schengen-svæðið og
d. hvort viðkomandi hafi sætt framkvæmd ákvörðunar um brottvísun eða frávísun, ef við á.
Ef ríkisborgari þriðja ríkis sem skráður er í upplýsingakerfið hér á landi vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun fer frá landinu um ytri landamæri skal staðfesting þess efnis send Útlendingastofnun og ríkislögreglustjóra.
Skráningarríki skal eyða skráningu vegna brottvísunar eða frávísunar án tafar eftir móttöku staðfestingar skv. 1. og 2. mgr. Þar sem við á skal færa inn skráningu vegna synjunar um komu og dvöl, til samræmis við b-lið 1. mgr. 28. gr.
22. gr. Ákvörðun um brottvísun eða frávísun ekki framfylgt.
Ef smellur fæst á skráningu vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun ríkisborgara þriðja ríkis sem hefur ekki verið framfylgt ber að hafa samband við skráningarríki þegar í stað til að ákvarða til hvaða aðgerða skuli grípa.
23. gr. Smellur á ytri landamærum við komu.
Ef smellur fæst á skráningu vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun ríkisborgara þriðja ríkis sem er að koma inn á Schengen-svæðið um ytri landamæri skal tilkynna skráningarríki um það með miðlun viðbótarupplýsinga þegar í stað. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun um brottvísun fylgir endurkomubann ber skráningarríkinu að eyða skráningu vegna brottvísunar þegar í stað og færa inn skráningu vegna synjunar um komu og dvöl, til samræmis við b-lið 1. mgr. 28. gr. Ef endurkomubann fylgir ekki ákvörðun um brottvísun eða skráning í kerfinu varðar ákvörðun um frávísun skal tilkynna skráningarríkinu um komu viðkomandi svo umrætt ríki geti eytt skráningunni úr kerfinu án tafar.
Ákvörðun um komu viðkomandi hingað til lands skal tekin af lögreglu til samræmis við reglugerð um för yfir landamæri.
24. gr. Fyrirframsamráð áður en dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun er veitt eða framlengd.
Ef fyrirhugað er að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ríkisborgara þriðja ríkis, en viðkomandi er skráður í upplýsingakerfið skv. 20. gr. ásamt endurkomubanni, skal hafa samráð við skráningarríki áður en ákvörðun um að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun er tekin.
Bregðast skal við slíkri samráðsbeiðni innan 10 daga frá því að hún berst, en berist svar við beiðni ekki innan 10 daga ber að líta svo á að skráningarríkið hreyfi ekki andmælum við því að viðkomandi verði veitt eða framlengt verði dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun. Við ákvarðanatöku skal taka til greina ástæður þess að viðkomandi er skráður í upplýsingakerfið, þar á meðal hvort af viðkomandi stafar ógn við allsherjarreglu eða almannaöryggi. Samráð er haft með miðlun viðbótarupplýsinga.
Tilkynna ber skráningarríki um ákvörðun eftir að hún hefur verið tekin. Endanlegt ákvörðunarvald um að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun er hjá ríkinu sem metur slíka ákvörðun. Ef tilkynnt er um ákvörðun um að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ber skráningarríki að eyða skráningu í kerfinu vegna brottvísunar.
Ef fyrirhugað er að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ríkisborgara þriðja ríkis sem er skráður í upplýsingakerfið skv. 20. gr. án endurkomubanns, skal tilkynna skráningarríki um ákvörðun um að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun án tafar og ber skráningarríki þá að eyða skráningu í kerfinu vegna brottvísunar eða frávísunar án tafar.
25. gr. Fyrirframsamráð áður en ríkisborgari þriðja ríkis er skráður í upplýsingakerfið vegna brottvísunar eða frávísunar.
Ef ákvörðun hefur verið tekin um brottvísun eða frávísun ríkisborgara þriðja ríkis og til stendur að skrá upplýsingar vegna ákvörðunarinnar í upplýsingakerfið skv. 1. mgr. 20. gr., en viðkomandi er handhafi dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar sem er útgefin af öðru Schengen-ríki, ber að tilkynna ríkinu sem veitti dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun um ákvörðun um skráningu, þar á meðal um ástæður skráningar. Samráð er haft með miðlun viðbótarupplýsinga.
Með vísan til tilkynningar skv. 1. mgr. ber að meta hvort ástæða er til að afturkalla dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun. Meðal þess sem taka skal til greina við matið eru ástæður þess að til stendur að skrá viðkomandi einstakling í upplýsingakerfið og hvort af honum telst stafa ógn við allsherjarreglu eða almannaöryggi. Tilkynna skal ríkinu sem hyggst skrá einstakling í kerfið um ákvörðun um afturköllun dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar innan 14 daga frá tilkynningu um fyrirhugaða skráningu. Ef ákvörðun liggur ekki fyrir innan 14 daga er heimilt að fara fram á framlengingu í allt að 12 daga. Beiðni um framlengingu skal rökstudd.
Ef ríki ákveður að afturkalla ekki dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun skal ekki skrá viðkomandi í kerfið vegna brottvísunar eða frávísunar.
26. gr. Eftirásamráð þegar ríkisborgari þriðja ríkis hefur verið skráður í upplýsingakerfið vegna brottvísunar eða frávísunar.
Ef í ljós kemur að ríki hefur vegna brottvísunar eða frávísunar skráð í upplýsingakerfið ríkisborgara þriðja ríkis, sem annað Schengen-ríki hefur veitt dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun, ber ríkjunum að hafa samráð samkvæmt ákvæðum 25. gr. Ef ríki ákveður að afturkalla ekki dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ber skráningarríkinu að eyða skráningu í upplýsingakerfinu vegna brottvísunar eða frávísunar án tafar. Samráð er haft með miðlun viðbótarupplýsinga.
27. gr. Samráð í kjölfar smells vegna skráningar ríkisborgara þriðja ríkis sem er handhafi dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar.
Ef smellur fæst á skráningu ríkisborgara þriðja ríkis vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun, en viðkomandi er handhafi dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar sem útgefin eru af öðru Schengen-ríki, ber ríkinu sem fékk smell að hafa samráð við ríkið sem veitti dvalarleyfið eða langtímavegabréfsáritun. Um samráð fer eftir 25. gr. Ríkinu sem veitti dvalarleyfið eða langtímavegabréfsáritunina ber að tilkynna ríkinu sem fékk smell um niðurstöðu að samráði loknu.
IV. kafli. Skráning vegna synjunar um komu og dvöl ríkisborgara þriðja ríkis á Schengen-svæðinu.
28. gr. Skilyrði fyrir skráningu vegna synjunar um komu og dvöl ríkisborgara þriðja ríkis á Schengen-svæðinu.
Í upplýsingakerfið ber að skrá upplýsingar um ríkisborgara þriðja ríkis vegna synjunar um komu og dvöl ef annað eftirfarandi skilyrða er uppfyllt:
a. ákvörðun hefur verið tekin, á grundvelli persónubundins mats í hverju tilviki fyrir sig, til samræmis við lög um útlendinga, um að synja eigi ríkisborgara þriðja ríkis um komu og dvöl á Schengen-svæðinu vegna þess að af viðkomandi telst stafa ógn við allsherjarreglu, þjóðaröryggi eða alþjóðasamskipti ríkisins eða annars ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu eða
b. endurkomubann hefur fylgt ákvörðun um brottvísun sem hefur verið tekin til samræmis við ákvæði laga um útlendinga.
Þau tilvik sem greinir í a-lið 1. mgr. eiga við ef:
a. viðkomandi hefur verið sakfelldur í aðildarríki fyrir afbrot sem varðar frjálsræðissviptingu í eitt ár eða meira,
b. rökstuddur grunur er um að viðkomandi hafi framið alvarlegt afbrot, hryðjuverk eða haldgóðar vísbendingar eru um að viðkomandi hafi ásetning til að fremja slík afbrot á Schengen-svæðinu eða
c. viðkomandi hefur gerst brotlegur eða gert tilraun til að brjóta gildandi lög um komu og dvöl á Schengen-svæðinu.
Skráning upplýsinga um ríkisborgara þriðja ríkis skv. 1. mgr. skal taka gildi í kerfinu um leið og viðkomandi hefur yfirgefið landið eða eins fljótt og auðið er eftir að ríkislögreglustjóri hefur fengið skýrar vísbendingar þess efnis að viðkomandi hafi yfirgefið landið.
29. gr. Skráning upplýsinga um ríkisborgara þriðja ríkis vegna synjunar um komu og dvöl á Schengen-svæðinu.
Í upplýsingakerfið má skrá eftirfarandi upplýsingar þegar ríkisborgari þriðja ríkis er skráður í kerfið á grundvelli 28. gr.:
a. kenninöfn, eiginnöfn, nöfn við fæðingu, fyrri nöfn og tökuheiti,
b. sérstök varanleg líkamleg einkenni,
c. fæðingarstað, fæðingardag og fæðingarár,
d. kyn,
e. ríkisfang eða ríkisföng,
f. hvort viðkomandi er vopnaður, ofbeldishneigður eða á flótta,
g. hvort viðkomandi telst í sjálfsvígshættu,
h. hvort af viðkomandi stafar lýðheilsuógn,
i. hvort viðkomandi hefur tengsl við hryðjuverk eða hryðjuverkasamtök,
j. ástæðu fyrir skráningu,
k. yfirvald sem biður um skráninguna,
l. tilvísun til ákvörðunarinnar sem varð tilefni skráningar,
m. aðgerðir sem farið er fram á,
n. tengingu við aðrar skráningar í upplýsingakerfinu í samræmi við 40. gr.,
o. hvort viðkomandi er fjölskyldumeðlimur borgara ríkis sem tilheyrir Evrópska efnahagssvæðinu eða annarra einstaklinga sem njóta réttarins til frjálsrar farar,
p. á hvaða grundvelli synjun um komu og dvöl er byggð,
q. tegund afbrots,
r. tegund persónuskilríkja viðkomandi, hvaða ríki gaf persónuskilríki út, númer persónuskilríkja og útgáfudagsetningu,
s. ljósmyndir og andlitsmyndir,
t. fingrafaragögn og
u. afrit af persónuskilríkjum viðkomandi, í lit ef mögulegt er.
Áður en skráð er í upplýsingakerfið skv. 1. mgr. skal ákvarða hvort grundvöllur skráningar er fullnægjandi og til samræmis við ákvæði laga þessara. Hið sama á við þegar skráning er framlengd. Ef grundvöllur synjunar um komu og dvöl skv. a-lið 1. mgr. 28. gr. er tengdur hryðjuverkum telst slíkt fullnægjandi grundvöllur til skráningar. Í undantekningartilvikum, með vísan til almannaöryggis og allsherjarreglu, er þó heimilt að víkja frá skráningu ef líklegt þykir að skráning hindri eða hafi með öðrum hætti áhrif á rannsókn eða saksókn málsins.
Upplýsingar um einstakling verða ekki skráðar í kerfið skv. 1. mgr. nema eftirfarandi lágmarksupplýsingar liggi fyrir: nafn, fæðingardagur og fæðingarár, ástæða fyrir skráningu, tilvísun til ákvörðunarinnar sem varð tilefni skráningar, aðgerðir sem farið er fram á og á hvaða grundvelli synjun um komu og dvöl er byggð. Aðrar upplýsingar sem taldar er upp í 1. mgr. skal skrá í kerfið, ef þær liggja fyrir. Upplýsingar um sérstök varanleg líkamleg einkenni skal þó einungis skrá ef nauðsyn þykir til að bera kennsl á viðkomandi ríkisborgara þriðja ríkis.
Áður en upplýsingar um einstakling eru skráðar í kerfið skv. 1. mgr. skal ganga úr skugga um að ekki sé þegar til staðar skráning í kerfinu varðandi sama einstakling. Í þeim tilgangi skal kanna fingrafaragögn ef þau liggja fyrir.
Einungis er heimilt að skrá eina skráningu varðandi hvern einstakling í kerfið. Heimilt er þó, þegar nauðsyn þykir, að bæta við nýrri skráningu varðandi sama einstakling, að því tilskildu að sú skráning sé ekki ósamrýmanleg skráningu um viðkomandi einstakling sem þegar er í kerfinu. Sé ný skráning ósamrýmanleg þeirri sem þegar er í kerfinu ber SIRENE-skrifstofunni að hafa samráð við skráningarríki með skiptum á viðbótarupplýsingum, til að ná samkomulagi áður en skráning fer fram, nema mikilvægir þjóðarhagsmunir séu í húfi.
30. gr. Skilyrði fyrir skráningu um ríkisborgara þriðja ríkis sem nýtur réttarins til frjálsrar farar á Schengen-svæðinu.
Skráning um ríkisborgara þriðja ríkis sem nýtur réttarins til frjálsrar farar samkvæmt tilskipun 2004/38/EB skal taka mið af réttindum hans skv. XI. kafla laga um útlendinga, nr. 80/2016.
Ef smellur fæst á skráningu skv. 28. gr. vegna ríkisborgara þriðja ríkis sem nýtur réttarins til frjálsrar farar skal SIRENE-skrifstofan þegar í stað hafa samband við skráningarríki með miðlun viðbótarupplýsinga til að komast að samkomulagi um aðgerðir sem grípa á til.
31. gr. Fyrirframsamráð áður en dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun eru veitt eða framlengd.
Ef fyrirhugað er að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ríkisborgara þriðja ríkis, en viðkomandi er skráður í upplýsingakerfið skv. 29. gr., skal samráð haft við skráningarríki áður en ákvörðun um að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun er tekin.
Bregðast skal við slíkri samráðsbeiðni innan 10 daga frá því að hún berst, en berist svar við beiðni ekki innan 10 daga ber að líta svo á að skráningarríkið hreyfi ekki andmælum við því að viðkomandi dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun verði veitt eða framlengd. Við ákvarðanatöku skal taka til greina ástæður þess að viðkomandi er skráður í upplýsingakerfið, þar á meðal hvort af viðkomandi telst stafa ógn við allsherjarreglu eða almannaöryggi. Samráð er haft með miðlun viðbótarupplýsinga.
Tilkynna ber skráningarríki um ákvörðun eftir að hún hefur verið tekin. Endanlegt ákvörðunarvald um að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun er hjá ríkinu sem metur slíka ákvörðun. Ef tilkynnt er um ákvörðun um að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ber skráningarríki að eyða skráningu í kerfinu vegna synjunar um komu og dvöl viðkomandi á Schengen-svæðinu.
32. gr. Fyrirframsamráð áður en ríkisborgari þriðja ríkis er skráður í upplýsingakerfið vegna synjunar um komu og dvöl.
Ef ákvörðun hefur verið tekin um að synja ríkisborgara þriðja ríkis um komu og dvöl og til stendur að skrá upplýsingar vegna ákvörðunarinnar í upplýsingakerfið skv. 1. mgr. 28. gr., en viðkomandi er handhafi dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar sem er útgefin af öðru Schengen-ríki, ber að tilkynna ríkinu sem veitti dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun um ákvörðun um skráningu, þar á meðal um ástæður skráningar. Samráð er haft með miðlun viðbótarupplýsinga.
Með vísan til tilkynningar skv. 1. mgr. ber að meta hvort ástæða er til að afturkalla dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun. Meðal þess sem taka skal til greina við matið eru ástæður þess að til stendur að skrá viðkomandi í upplýsingakerfið og hvort af viðkomandi telst stafa ógn við allsherjarreglu eða almannaöryggi. Tilkynna skal ríkinu sem hyggst skrá ríkisborgara þriðja ríkis í kerfið um ákvörðun um afturköllun dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar innan 14 daga frá tilkynningu um fyrirhugaða skráningu. Ef ákvörðun liggur ekki fyrir innan 14 daga er heimilt að fara fram á framlengingu í allt að 12 daga. Beiðni um framlengingu skal rökstudd.
Ef ríki ákveður að afturkalla ekki dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun skal ekki skrá viðkomandi í kerfið vegna synjunar um komu og dvöl.
33. gr. Eftirásamráð þegar ríkisborgari þriðja ríkis hefur verið skráður í upplýsingakerfið vegna synjunar um komu og dvöl.
Ef í ljós kemur að ríki hefur skráð ríkisborgara þriðja ríkis vegna synjunar um komu og dvöl í upplýsingakerfið sem annað Schengen-ríki hefur veitt dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ber ríkjunum að hafa samráð samkvæmt ákvæðum 32. gr. Ef ríki ákveður að afturkalla ekki dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ber hinu ríkinu að eyða skráningu í upplýsingakerfinu vegna synjunar um komu og dvöl án tafar. Samráð er haft með miðlun viðbótarupplýsinga.
34. gr. Samráð í kjölfar smells vegna skráningar ríkisborgara þriðja ríkis sem er handhafi dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar.
Ef smellur fæst á skráningu ríkisborgara þriðja ríkis vegna synjunar um komu og dvöl á Schengen-svæðinu, sem er handhafi dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar sem gefin eru út í öðru Schengen-ríki, ber að hafa samráð við ríkið sem veitti dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun og skráningarríkið eftir atvikum. Um samráð fer eftir 32. gr. Samráð er haft með miðlun viðbótarupplýsinga.
V. kafli. Skráning hluta í upplýsingakerfið.
35. gr. Skráning upplýsinga um hluti vegna eftirlits með leynd, beinna afskipta, leitar eða líkamsrannsóknar.
Upplýsingar um eftirfarandi hluti skal skrá í kerfið vegna eftirlits með leynd, beinna afskipta, leitar eða líkamsrannsóknar:
a. vélknúin ökutæki,
b. eftirvagna með eigin þunga yfir 750 kg,
c. hjólhýsi,
d. báta,
e. gáma,
f. loftför,
g. skotvopn,
h. óútfyllt skilríki sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið eða eru fölsuð,
i. persónuskilríki svo sem vegabréf, kennivottorð, dvalarleyfi, ferðaskilríki og ökuskírteini sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið, verið ógilt eða eru fölsuð,
j. aðra greiðslumiðla en reiðufé.
36. gr. Skráning upplýsinga um hluti vegna haldlagningar eða sem sönnunargögn í sakamáli.
Upplýsingar um eftirfarandi hluti sem leitað er í þeim tilgangi að leggja á þá hald eða nota sem sönnunargagn í sakamáli skal skrá í kerfið:
a. vélknúin ökutæki,
b. eftirvagna með eigin þunga yfir 750 kg,
c. hjólhýsi,
d. búnað til iðnaðar,
e. báta,
f. bátsvélar,
g. gáma,
h. loftför,
i. hreyfla loftfara,
j. skotvopn,
k. óútfyllt skilríki sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið eða eru fölsuð,
l. persónuskilríki svo sem vegabréf, kennivottorð, dvalarleyfi, ferðaskilríki og ökuskírteini sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið, verið ógilt eða eru fölsuð,
m. skráningarskírteini ökutækja og númeraplötur ökutækja sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið, verið ógilt eða líkja eftir slíku skjali eða númeraplötu en eru fölsuð,
n. skráða peningaseðla og falska peningaseðla,
o. hluti tengda upplýsingatækni,
p. íhluti vélknúinna ökutækja sem hægt er að bera kennsl á,
q. íhluti búnaðar til iðnaðar sem hægt er að bera kennsl á.
Ef upplýsingar eru fyrirliggjandi við skráningu skv. k-, l- og m-lið 1. mgr., hvort um er að ræða stolin, ólöglega seld, horfin, ógild eða fölsuð skilríki eða skjöl, ber að greina frá því í skráningunni.
Ef lýst er eftir hlut vegna hryðjuverka telst það fullnægjandi grundvöllur til skráningar.
37. gr. Aðgerðir á grundvelli skráninga um hluti.
Ef hlutur sem finnst við leit reynist vera skráður skal hann gerður upptækur í samræmi við landslög og skráningarríki tilkynnt um fundinn með miðlun viðbótarupplýsinga svo hægt sé að komast að samkomulagi um frekari aðgerðir sem grípa ber til. Í þessum tilgangi er einnig heimilt að miðla persónuupplýsingum til samræmis við lög þessi.
Um leit skv. 1. mgr. og frekari aðgerðir fer eftir íslenskum lögum.
VI. kafli. Sérreglur um skráningu lífkennaupplýsinga.
38. gr. Skráning ljósmynda, andlitsmynda, fingrafaragagna og DNA-sniða.
Aðeins skal skrá ljósmyndir, andlitsmyndir og fingrafaragögn í upplýsingakerfið sem uppfylla hið minnsta lágmarksstaðla um gæði gagna og tækniforskriftir. Fyrir skráningu gagnanna skal fara fram gæðakönnun til þess að ganga úr skugga um hvort lágmarksstöðlum um gæði gagna og tækniforskriftum sé fylgt.
Fingrafaragögn sem skráð eru í upplýsingakerfið mega samanstanda af einu til tíu fingraförum af flötum fingrum og einu til tíu veltiförum. Einnig má skrá allt að tvö lófaför.
Aðeins er heimilt að bæta DNA-sniði við skráningu í upplýsingakerfinu skv. 2. mgr. 10. gr. og að undanfarinni gæðakönnun til að ganga úr skugga um að lágmarksstöðlum um gæði gagna og tækniforskriftum hafi verið fylgt og einungis þegar ljósmyndir, andlitsmyndir eða fingrafaragögn eru ekki til eða henta ekki til auðkenningar. Heimilt er að bæta DNA-sniði eldri ættingja í beinan legg, afkomenda eða systkina einstaklings við skráningu ef skyldmennið veitir samþykki fyrir. DNA-snið sem bætt er við skráningu skal einungis innihalda lágmarksupplýsingar sem eru nauðsynlegar til að bera kennsl á týndan einstakling.
39. gr. Notkun ljósmynda, andlitsmynda, fingrafaragagna og DNA-sniða til auðkenningar eða leitar.
Ef skráning inniheldur ljósmyndir, andlitsmyndir, fingrafaragögn og DNA-snið skal nota slíkar upplýsingar til að staðfesta auðkenni einstaklings sem fundist hefur við leit í upplýsingakerfinu.
Til þess að bera kennsl á einstakling er í öllum tilvikum heimilt að leita í fingrafaragögnum í upplýsingakerfinu. Þó skal leita í fingrafaragögnum til þess að bera kennsl á einstakling þegar ekki er hægt að staðfesta hver hann er með öðrum hætti.
Heimilt er að leita í fingrafaragögnum í upplýsingakerfinu sem skráð hafa verið skv. 9., 10., 13., 15., 19. og 28. gr. með heilum fingraförum eða lófaförum eða hluta fingrafara eða lófafara og fundist hafa á vettvangi hryðjuverka eða annarra alvarlegra afbrota sem eru til rannsóknar og sterkar líkur eru á því að fingrafaragögnin tilheyri þeim sem framdi brotið. Samtímis skal fara fram leit í fingrafaragrunni lögreglunnar hér á landi.
Heimilt er að nota ljósmyndir og andlitsmyndir sem bætt hefur verið við skráningu í upplýsingakerfinu til að bera kennsl á einstaklinga við för yfir landamæri.
VII. kafli. Tenging skráninga í upplýsingakerfinu og viðbótarupplýsingar.
40. gr. Tenging skráninga í upplýsingakerfinu.
Heimilt er að tengja saman skráningar sem Schengen-ríki hefur fært inn í upplýsingakerfið. Með slíkri tengingu er komið á venslum milli tveggja eða fleiri skráninga. Tengja skal saman skráningar þegar þess er þörf vegna starfseminnar.
Myndun tengingar hefur ekki áhrif á þá tilteknu aðgerð sem mælt er fyrir um að gripið skuli til á grundvelli hverrar og einnar hinna tengdu skráninga eða varðveislutímabil hverrar tengdrar skráningar.
Myndun tengingar hefur ekki áhrif á réttinn til aðgangs samkvæmt lögum þessum. Yfirvöld, sem ekki hafa rétt til aðgangs að tilteknum tegundum skráninga, skulu ekki geta séð tengingu við skráningu sem þau hafa ekki aðgang að.
Ef tenging tveggja eða fleiri skráninga af hálfu annars ríkis er talin andstæð íslenskum lögum eða alþjóðlegum skuldbindingum Íslands er heimilt að loka fyrir aðgang að tengingu innan lands eða aðgangi þar til bærra yfirvalda sem staðsett eru utan yfirráðasvæðis Íslands.
41. gr. Miðlun og notkun viðbótarupplýsinga.
SIRENE-skrifstofan veitir þar til bærum yfirvöldum í öðru Schengen-ríki nauðsynlegar viðbótarupplýsingar í tengslum við skráningu í upplýsingakerfið, sem og þegar hlutir eða einstaklingar, sem skráðir hafa verið í kerfið, finnast. Beiðni um viðbótarupplýsingar ber að svara svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en 12 klukkustundum frá því að hún berst, sbr. 3. mgr. 5. gr. Viðbótarupplýsingar verða ekki nýttar í öðrum tilgangi en þær voru sendar í nema samþykkis um annað sé aflað fyrir fram frá ríkinu sem sendi gögnin.
Ef ekki er unnt að framkvæma umbeðna aðgerð eftir smell í kerfinu ber að tilkynna skráningarríki þegar í stað um slíkt með miðlun viðbótarupplýsinga.
VIII. kafli. Aðgangur að upplýsingakerfinu, endurskoðun og eyðing skráninga.
42. gr. Beinlínuaðgangur að upplýsingakerfinu.
Eftirtalin stjórnvöld skulu vera beinlínutengd við upplýsingakerfið til að sinna þessum verkefnum:
a. ríkissaksóknari og héraðssaksóknari við meðferð sakamála,
b. lögreglan við landamæraeftirlit og aðra löggæslu, þar á meðal við framkvæmd öryggiseftirlits með ríkisborgara þriðja ríkis sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi,
c. Landhelgisgæslan við löggæslu á hafi,
d. Útlendingastofnun við afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritun, þ.m.t. við ógildingu, afturköllun eða framlengingu vegabréfsáritana, við afgreiðslu landgöngu- eða dvalarleyfa, vegna ákvarðana um frávísanir og brottvísanir og til að sinna öðrum skyldum samkvæmt lögum um útlendinga að því marki sem nauðsynlegt er til að bregðast við upplýsingum sem skráðar eru á grundvelli laga þessara,
e. ráðuneyti sem fer með utanríkismál við afgreiðslu og útgáfu vegabréfsáritana,
f. Samgöngustofa við:
1. skráningu ökutækja í þeim tilgangi að kanna hvort ökutæki sem óskað er skráningar á hafi verið stolið, selt ólöglega eða horfið; aðgangurinn takmarkast þó við upplýsingar um ökutæki á grundvelli a-liðar 1. mgr. 36. gr., eftirvagna á grundvelli b-liðar 1. mgr. 36. gr., hjólhýsi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 36. gr., skráningarskírteini ökutækja og númeraplötur ökutækja á grundvelli m-liðar 1. mgr. 36. gr. og íhluti vélknúinna ökutækja á grundvelli p-liðar 1. mgr. 36. gr.,
2. skráningu og við að tryggja eftirlit með bátum, þ.m.t. bátsvélum, og loftförum, þ.m.t. hreyflum loftfara, í þeim tilgangi að kanna hvort framangreindum hlutum hafi verið stolið, þeir seldir ólöglega, þeir horfið eða þeirra verið leitað sem sönnunargagna í sakamáli; aðgangurinn takmarkast við upplýsingar um báta, bátsvélar, loftför og hreyfla loftfara,
g. tollgæslan við tollgæslu, eftirlit á landamærum og þegar hún annast eða aðstoðar við löggæslu.
Við skráningu skotvopna og veitingu skotvopnaleyfa skal lögreglan einnig hafa aðgang að upplýsingum skráðum á grundvelli 9., 13. og 36. gr. í þeim tilgangi að kanna hvort einstaklingur sem sækir um skotvopnaleyfi er eftirlýstur til handtöku og afhendingar eða framsals eða skráður í kerfið svo að fram fari eftirlit með leynd, bein afskipti, leit eða líkamsrannsókn eða hvort skotvopnsins sem óskað er skráningar á eða óskað er leyfis fyrir er leitað í þeim tilgangi að leggja á það hald eða nota sem sönnunargagn í sakamáli.
Til að starfa við upplýsingakerfið skv. 1. og 2. mgr. verður viðkomandi starfsmaður að fá sérstaka heimild ríkislögreglustjóra, enda fullnægi hann hæfis- og öryggiskröfum sem skilgreindar eru í reglugerð. Viðkomandi starfsmaður skal einungis hafa þann aðgang að kerfinu sem honum er nauðsynlegur til að gegna starfi sínu.
43. gr. Aðgangur að upplýsingakerfinu eftir beiðni.
Ráðuneytið skal eftir beiðni hafa aðgang að upplýsingum úr upplýsingakerfinu að því marki sem því er nauðsynlegt við beitingu heimilda sem æðra stjórnvald.
44. gr. Þagnarskylda.
Hverjum sem í starfi sínu fær vitneskju um atriði sem skráð eru í upplýsingakerfið er skylt að gæta þess að skráðar upplýsingar berist ekki til óviðkomandi. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
Þagnarskylda nær einnig til verktaka en heimilt er að fela verktaka ákveðin afmörkuð verkefni tengd Schengen-upplýsingakerfinu. Ríkislögreglustjóri hefur eftirlit með því að verktaki starfi til samræmis við ákvæði laga þessara, þar á meðal varðandi öryggi, þagnarskyldu og persónuvernd.
45. gr. Vistunartími og endurskoðun skráningar um einstaklinga.
Upplýsingar um einstaklinga sem skráðar eru í upplýsingakerfið skal ekki geyma lengur en þörf krefur með hliðsjón af tilgangi skráningar. Það stjórnvald sem biður um skráningu eða skráir í upplýsingakerfið er ábyrgt fyrir því að uppfæra, afturkalla eða endurnýja skráningu, allt eftir því sem við á hverju sinni.
Endurmeta skal nauðsyn skráningar einstaklinga skv. II. kafla sem hér segir:
a. upplýsingar skv. 9. gr. og 1. og 2. mgr. 10. gr. innan fimm ára frá skráningu,
b. upplýsingar skv. 12. og 15. gr. innan þriggja ára frá skráningu og
c. upplýsingar skv. 3. mgr. 10. gr. og 13. gr. innan eins árs frá skráningu.
Endurmeta skal nauðsyn skráningar skv. III. og IV. kafla innan þriggja ára frá skráningu. Ef ákvörðun sem skráning er byggð á kveður á um lengri gildistíma en þrjú ár skal endurskoða skráninguna innan fimm ára.
Þegar tekin er ákvörðun um að skráningu upplýsinga skuli geyma í upplýsingakerfinu gildir 2. og 3. mgr. um endurmat skráningar á ný. Skrásetja skal allar ákvarðanir um framlengingu skráninga skv. 2. og 3. mgr. sjálfvirkt og halda tölfræði um hversu margar skráningar hafa verið framlengdar.
Skráningum sem ekki er tekin ákvörðun um að framlengja skal sjálfkrafa eytt úr upplýsingakerfinu að tímanum liðnum sem greinir í 2., 3. og 4. mgr.
Um leið og ljóst þykir að skráning um einstakling hefur þjónað tilgangi sínum og ætti því að eyða skal tilkynna stjórnvaldinu sem óskaði eftir skráningu um það þegar í stað. Umrætt stjórnvald hefur 15 daga frá móttöku tilkynningarinnar til að svara því að skráningunni hafi verið eða muni verða eytt eða greina frá ástæðum fyrir því að skráningin verði varðveitt. Ef ekkert svar berst innan 15 daga tímabilsins skal SIRENE-skrifstofan eyða skráningunni. SIRENE-skrifstofan skal tilkynna Persónuvernd um hvers kyns endurtekin vandamál sem hún rekst á þegar hún aðhefst samkvæmt þessari málsgrein.
46. gr. Vistunartími og endurskoðun skráningar um hluti.
Upplýsingar um hluti sem skráðar eru í upplýsingakerfið skal ekki geyma lengur en þörf krefur með hliðsjón af tilgangi skráningar. Það stjórnvald sem skráir eða biður um skráningu í upplýsingakerfið er ábyrgt fyrir því að uppfæra, afturkalla eða endurnýja skráningu, allt eftir því sem við á hverju sinni.
Endurmeta skal nauðsyn skráningar um hluti í upplýsingakerfið sem skráðir eru skv. 35. og 36. gr. innan 10 ára frá skráningu.
Upplýsingar um hluti sem skráðir eru í kerfið á grundvelli 9., 10., 12. og 13. gr. og tengjast skráningu um einstaklinga skal yfirfara og endurmeta skv. 45. gr. Slíkar skráningar má einungis geyma í kerfinu jafn lengi og skráningu um einstaklinginn.
Þegar tekin er ákvörðun um að skráningu upplýsinga skuli geyma í upplýsingakerfinu gildir 2. mgr. um endurmat skráningar á ný.
47. gr. Eyðing skráningar.
Upplýsingum um einstaklinga sem skráðar eru í kerfið skv. 9. gr. skal eytt þegar búið er að afhenda eða framselja viðkomandi til lögbærra yfirvalda í skráningarríki eða ef ákvörðun sem er grundvöllur skráningar hefur verið afturkölluð af viðkomandi yfirvaldi.
Upplýsingum um einstaklinga sem skráðar eru í kerfið skv. 1. og 2. mgr. 10. gr. skal eytt ef aðgerð á grundvelli skráningar hefur átt sér stað þar sem viðkomandi hefur fundist, verndarráðstafanir hafa verið gerðar eða ákvörðun um að eyða skráningu hefur verið tekin hjá lögbæru yfirvaldi skráningarríkis. Þó er heimilt að halda skráningu í upplýsingakerfinu um einstakling sem hefur verið vistaður á stofnun af þar til bæru yfirvaldi þar til viðkomandi hefur verið sendur aftur til heimalands.
Upplýsingum um börn sem skráð eru í kerfið skv. a- og b-lið 3. mgr. 10. gr. skal eytt ef lausn fæst í máli viðkomandi barns eða ef ákvörðun um að eyða skráningu hefur verið tekin hjá lögbæru yfirvaldi skráningarríkis.
Upplýsingum um einstaklinga sem skráðar eru í kerfið skv. c-lið 3. mgr. 10. gr. skal eytt ef verndarráðstafanir hafa verið gerðar eða ákvörðun um að eyða skráningu hefur verið tekin hjá lögbæru yfirvaldi skráningarríkis.
Upplýsingum um einstaklinga sem skráðar eru í kerfið skv. 12. gr. skal eytt þegar búið er að miðla upplýsingum um dvalarstað viðkomandi til lögbærra yfirvalda í skráningarríki eða ákvörðun um að eyða skráningu hefur verið tekin hjá lögbæru yfirvaldi skráningarríkis. Ef ekki er hægt að bregðast við upplýsingum um dvalarstað viðkomandi ber SIRENE-skrifstofunni að tilkynna skráningarríki um það með það að markmiði að leysa vandann.
Upplýsingum um einstaklinga sem skráðar eru í kerfið skv. 13. gr. skal eytt ef ákvörðun um að eyða skráningu hefur verið tekin hjá lögbæru yfirvaldi skráningarríkis.
Upplýsingum um einstaklinga sem skráðar eru í kerfið skv. 15. gr. skal eytt ef búið er að staðfesta auðkenni viðkomandi eða ákvörðun um að eyða skráningu hefur verið tekin hjá lögbæru yfirvaldi skráningarríkis.
Þar sem ekki er sérstaklega kveðið á um annað í III. kafla skal upplýsingum sem skráðar eru í kerfið skv. 19. gr. eytt þegar ákvörðun, sem var grundvöllur skráningar, hefur verið afturkölluð eða ógilt af þar til bæru yfirvaldi eða þar sem við á í framhaldi af samráðsferli sem kveðið er á um í 21.–27. gr. Hið sama á við ef viðkomandi ríkisborgari þriðja ríkis getur sýnt fram á að hann hafi yfirgefið Schengen-svæðið til samræmis við umrædda ákvörðun um brottvísun eða frávísun. Skráningu vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun ríkisborgara þriðja ríkis sem hlotið hefur ríkisborgararétt Schengen-ríkis, ríkis sem tilheyrir Evrópska efnahagssvæðinu eða ríkis sem fellur undir stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu, skal eytt um leið og upplýsingar um ríkisborgararéttinn berast skráningarríki.
Upplýsingum vegna synjunar um komu og dvöl ríkisborgara þriðja ríkis á Schengen-svæðinu skv. 28. gr. skal eytt þegar ákvörðun sem var grundvöllur skráningar hefur verið afturkölluð eða ógilt af þar til bæru yfirvaldi eða þar sem við á í framhaldi af samráðsferli sem kveðið er á um í 30.–34 gr. Skráningu vegna synjunar um komu og dvöl ríkisborgara þriðja ríkis á Schengen-svæðinu sem hlotið hefur ríkisborgararétt Schengen-ríkis, ríkis sem tilheyrir Evrópska efnahagssvæðinu eða ríkis sem fellur undir stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu, skal eytt um leið og upplýsingar um ríkisborgararéttinn berast skráningarríki.
Upplýsingum um hluti sem skráðir eru í kerfið skv. 36. gr. skal eytt ef hlutur hefur verið gerður upptækur, gripið hefur verið til annarra sambærilegra aðgerða eftir skipti á nauðsynlegum viðbótarupplýsingum, eða viðkomandi hlutur er orðinn viðfangsefni annars sakamáls, eða ákvörðun um að eyða skráningu hefur verið tekin hjá lögbæru yfirvaldi skráningarríkis.
Í þeim tilvikum þegar upplýsingar um hlut eru skráðar í kerfið og tengdar skráningu um einstakling skal upplýsingum um hlut eytt á sama tíma og upplýsingum um einstakling er eytt.
Upplýsingum samkvæmt ákvæði þessu skal einnig eytt þegar skráning rennur út í samræmi við 45. gr.
IX. kafli. Vinnsla persónuupplýsinga og persónuvernd.
48. gr. Skráning og vinnsla persónuupplýsinga.
Um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi á grundvelli laga þessara gilda lög um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Um aðra skráningu og vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli laga þessara fer samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
49. gr. Nýting skráðra upplýsinga.
Upplýsingar sem skráðar eru í upplýsingakerfið verða ekki nýttar á annan veg en leiðir af tilgangi skráningar samkvæmt ákvæðum laga þessara. Þá verður aðgangur að kerfinu ekki veittur öðrum en þeim sem greinir í 42. gr. til að sinna þeim verkefnum sem þar eru skilgreind.
Upplýsingar úr kerfinu verða ekki afritaðar nema í tæknilegum tilgangi og þá einungis ef afrit er nauðsynlegt svo að stjórnvöld sem eru beinlínutengd kerfinu samkvæmt lögum þessum geti leitað í afritinu. Afrit skal ekki geymt lengur en í 48 klukkustundir. Óheimilt er að afrita upplýsingar sem annað ríki skráði í kerfið og færa inn í önnur íslensk tölvukerfi. Halda skal skrá um öll afrit sem tekin eru af kerfinu og afhenda Persónuvernd óski stofnunin eftir því.
Takmarkanir skv. 2. mgr. hafa þó ekki áhrif á rétt stjórnvalda til að vista í upplýsingakerfum sínum upplýsingar úr kerfinu vegna eigin skráninga eða skráninga sem tengjast aðgerðum sem gripið hefur verið til hér á landi.
Í neyðartilvikum, og einungis ef kerfið hefur verið óstarfhæft í meira en 24 klukkustundir, er stjórnvöldum sem gefa út vegabréfsáritanir heimilt að leita í afriti af kerfinu.
Með samþykki ríkis sem skráð hefur upplýsingar verður vikið frá 1. mgr. og þær nýttar í öðrum tilgangi en þær voru skráðar samkvæmt lögum þessum, þegar þannig stendur á:
a. til að koma í veg fyrir alvarlega og bráða ógn við almannaöryggi og allsherjarreglu,
b. mikilvægir öryggishagsmunir ríkisins mæla með því,
c. til að koma í veg fyrir alvarleg afbrot.
Notkun upplýsinga úr kerfinu sem ekki er í samræmi við 1.–5. mgr. er óheimil og varðar refsingu skv. 136. eða 139. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
50. gr. Gæði skráðra upplýsinga í kerfinu.
Tryggja ber að upplýsingar séu áreiðanlegar og þær skráðar, uppfærðar og geymdar í upplýsingakerfinu á lögmætan hátt.
Einungis skráningarríki hefur heimild til að breyta, bæta við, leiðrétta, uppfæra eða eyða upplýsingum sem það hefur skráð í kerfið.
Þegar skráðar hafa verið í upplýsingakerfið rangar, villandi eða ófullkomnar upplýsingar eða ef skráðar hafa verið upplýsingar án tilskilinnar heimildar skal SIRENE-skrifstofan eftir beiðni eða að eigin frumkvæði sjá til þess að þær verði leiðréttar, þær afmáðar eða við þær aukið. Hafi slíkum upplýsingum verið miðlað eða þær notaðar ber ríkislögreglustjóra eða, eftir atvikum, öðrum ábyrgum stjórnvöldum, eftir því sem frekast er unnt, að hindra að það hafi áhrif á hagsmuni hins skráða.
Nú hafa upplýsingar sem um ræðir í 3. mgr. verið skráðar í upplýsingakerfið af öðru ríki og skal þá SIRENE-skrifstofan tilkynna umræddu ríki, eins fljótt og auðið er með miðlun viðbótarupplýsinga og eigi síðar en tveimur dögum eftir að upplýsingar berast til vitundar ríkislögreglustjóra, um annmarka með ósk um viðeigandi breytingar.
Þegar ríkislögreglustjóra berst beiðni skv. 3. mgr. skal án tafar og eigi síðar en innan tveggja daga taka afstöðu til hennar.
Sendi SIRENE-skrifstofan beiðni um leiðréttingu eða eyðingu upplýsinga eða viðauka til annars Schengen-ríkis sem ekki bregst við eða fellst á beiðni innan tveggja mánaða ber ríkislögreglustjóra að leggja málið fyrir Persónuvernd og Evrópsku persónuverndarstofnunina.
51. gr. Réttur til aðgangs að skráðum upplýsingum, leiðrétting á ónákvæmum upplýsingum og eyðing upplýsinga sem vistaðar eru ólöglega.
Einstaklingar sem skráðir eru í upplýsingakerfið njóta réttar skv. III. kafla laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, og IV. kafla laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, nr. 75/2019.
Nú óskar einstaklingur eftir vitneskju um upplýsingar um sig sem skráðar eru af öðru ríki og skal þá gefa umræddu skráningarríki kost á að gera athugasemdir áður en fallist er á þá beiðni.
Um takmarkanir á rétti hins skráða til að fá vitneskju skv. 1. mgr. gilda ákvæði III. kafla laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og IV. kafla laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Um kærurétt hins skráða vegna synjunar gilda sömu lög.
Halda ber skrá um efnislegar og lagalegar ástæður þess að ákvörðun er tekin um að veita hinum skráða ekki aðgang að skráðum upplýsingum um sig skv. 3. mgr. og skal SIRENE-skrifstofan afhenda skrána til Persónuverndar óski stofnunin eftir því.
Ef kvörtun berst frá einstaklingi þess eðlis að viðkomandi sé ekki rétt viðfang skráningar skal miðla upplýsingum um kvörtun til annarra Schengen-ríkja í formi viðbótarupplýsinga. Reynist kvörtun einstaklings á rökum reist og viðkomandi hefur verið ranglega skráður í kerfið ber að upplýsa viðkomandi um niðurstöðuna og rétt hans samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.
Beiðni samkvæmt þessari grein skal beint til ríkislögreglustjóra sem skal án ástæðulauss dráttar taka afstöðu til hennar. Ákvörðun ríkislögreglustjóra skal vera rökstudd að því marki sem það er unnt án þess að greint verði frá nokkru sem leynt á að fara. Slíkri ákvörðun má skjóta til Persónuverndar skv. 54. gr.
52. gr. Tilgangur og varðveisla viðbótarupplýsinga.
SIRENE-skrifstofan skal geyma tilvísanir í ákvarðanir sem eru grundvöllur skráningar í upplýsingakerfið í þeim tilgangi að styrkja miðlun viðbótarupplýsinga.
Persónuupplýsingar sem geymdar eru hjá SIRENE-skrifstofunni í tengslum við upplýsingaskipti skal ekki varðveita lengur en nauðsynlegt er vegna tilgangs þeirra og skal þeim eytt eigi síðar en einu ári eftir að viðkomandi skráningu hefur verið eytt úr upplýsingakerfinu.
Takmarkanir skv. 2. mgr. hafa þó ekki áhrif á rétt stjórnvalda til að vista í upplýsingakerfum sínum upplýsingar úr kerfinu vegna eigin skráninga eða skráninga sem tengjast aðgerðum sem gripið hefur verið til hér á landi.
53. gr. Miðlun persónuupplýsinga til þriðja aðila.
Óheimilt er að miðla upplýsingum sem skráðar eru í upplýsingakerfið og viðbótarupplýsingum til þriðja ríkis eða alþjóðlegra stofnana.
Heimilt er þó að miðla kenninöfnum, eiginnöfnum, nöfnum við fæðingu, fyrri nöfnum, tökuheitum, fæðingarstað, fæðingardegi og fæðingarári, kyni, ríkisfangi eða ríkisföngum, tegundum persónuskilríkja viðkomandi, hvaða ríki gaf persónuskilríki út, númerum persónuskilríkja og útgáfudagsetningu, ljósmyndum, andlitsmyndum, fingrafaragögnum og afritum af persónuskilríkjum viðkomandi, í lit ef mögulegt er, sem skráðar hafa verið í kerfið skv. 1. mgr. 19. gr. í tengslum við ákvörðun um brottvísun eða frávísun ríkisborgara þriðja ríkis og tengdum viðbótarupplýsingum til þriðja ríkis. Slík miðlun fer þó einungis fram að fengnu samþykki skráningarríkis og í þeim tilgangi að bera kennsl á og gefa út persónuskilríki eða ferðaskilríki fyrir ríkisborgara þriðja ríkis sem dvelur ólöglega á Schengen-svæðinu í því skyni að framkvæma ákvörðun um brottvísun eða frávísun. Þá skal upplýsa viðkomandi ríkisborgara þriðja ríkis um að persónuupplýsingum hans og viðbótarupplýsingum kunni að vera deilt með yfirvöldum þriðja ríkis.
Miðlun upplýsinga til þriðja ríkis skv. 2. mgr. skal ekki hafa áhrif á rétt ríkisborgara þriðja ríkis sem umsækjanda um alþjóðlega vernd.
Ekki skal miðla upplýsingum til þriðja ríkis skv. 2. mgr. ef ákvörðun um brottvísun eða frávísun kemst ekki til framkvæmda að svo stöddu eða hefur verið frestað tímabundið, þar á meðal vegna kæru ákvörðunarinnar, með vísan til þess að slík brottvísun eða frávísun myndi brjóta í bága við meginregluna um að vísa einstaklingi ekki aftur þangað sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu.
54. gr. Kæruheimild.
Ákvarðanir ríkislögreglustjóra sem teknar eru á grundvelli 50. og 51. gr. má bera undir úrskurð Persónuverndar.
55. gr. Réttur til skaðabóta.
Nú verður maður fyrir tjóni og það verður rakið til skráningar eða notkunar á upplýsingum úr upplýsingakerfinu sem andstæð er reglum um kerfið og á hann þá rétt á skaðabótum úr ríkissjóði. Bæta skal bæði fjártjón og miska.
Greiða á bætur þótt upplýsingar hafi verið skráðar í öðru ríki ef þær hafa verið notaðar hér á landi. Bætur skal greiða án tillits til sakar, en þær má þó fella niður eða lækka ef tjónþoli hefur sjálfur stuðlað að því að upplýsingar væru skráðar eða notaðar.
56. gr. Eftirlit Persónuverndar.
Persónuvernd skal hafa eftirlit með því að skráning og meðferð persónuupplýsinga í upplýsingakerfinu sé í samræmi við lög þessi, lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og lög um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Persónuvernd skal einnig hafa eftirlit með því að öryggi upplýsingakerfisins sé tryggt þannig að óviðkomandi fái ekki aðgang að því eða geti haft áhrif á skráningu í það.
Persónuvernd hefur aðgang að skráðum upplýsingum og öðrum nauðsynlegum gögnum til að sinna eftirliti með upplýsingakerfinu skv. 1. mgr.
Nú gerir Persónuvernd athugasemdir við starfrækslu upplýsingakerfisins og skal hún þá koma þeim og fyrirmælum um úrbætur á framfæri við ríkislögreglustjóra og ráðuneytið. Telji Persónuvernd meðferð persónuupplýsinga í andstöðu við ákvæði laga þessara getur stofnunin mælt fyrir um að skráningu upplýsinga verði hætt eða hún sæti skilyrðum. Ríkislögreglustjóra ber að fara að athugasemdum og fyrirmælum Persónuverndar um úrbætur innan þess frests sem Persónuvernd ákveður.
X. kafli. Reglugerðarheimild og gildistaka.
57. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra skal setja nánari ákvæði í reglugerð um:
a. framkvæmd skráninga, sbr. 3. gr.,
b. öryggisþætti upplýsingakerfisins og innra eftirlit með því, sbr. 4. gr., og
c. hæfis- og öryggiskröfur sem starfsmenn verða að fullnægja til að starfa við upplýsingakerfið, sbr. 42. gr.
Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þ.m.t. til að skilgreina aðra verðmæta hluti en taldir eru upp í 1. mgr. 36. gr. sem hægt er að bera kennsl á og skal skrá í upplýsingakerfið.
58. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi. …