Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa

2022 nr. 45 22. júní


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 7. júlí 2022.

1. gr.
Reykjavíkurborg er heimilt að setja á fót nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa fyrir börn sem reknar voru í Reykjavík á síðustu öld.
Markmið könnunarinnar og meginverkefni nefndarinnar skulu vera eftirtalin:
   1. Að lýsa starfsemi vöggustofanna, hlutverki þeirra í barnaverndar- eða uppeldismálum og tildrögum þess að börn voru vistuð þar á því tímabili sem um ræðir.
   2. Að leitast við að staðreyna eins og kostur er hvort og þá í hvaða mæli börn sem vistuð voru á vöggustofunum hafi sætt illri meðferð eða ofbeldi meðan á dvölinni stóð.
   3. Að lýsa því hvernig eftirliti Reykjavíkurborgar og ríkisins með vöggustofunum var háttað.
   4. Að lýsa öðrum atriðum sem tengjast starfsemi vöggustofanna og nefndin telur þarfnast skoðunar, þar á meðal eins og kostur er afdrifum þeirra barna sem vistuð voru á vöggustofunum eftir að dvölinni lauk.
   5. Að leggja grundvöll að tillögum til Reykjavíkurborgar um frekari viðbrögð ef ástæða þykir til.
Nefndin skal skila skýrslu um störf sín til Reykjavíkurborgar.
2. gr.
Nefndin skal vera sjálfstæð og óháð í störfum sínum. Skal formaður hennar uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Nefndinni er heimilt að kalla eftir aðstoð sérfræðinga eða annarri aðstoð við einstaka þætti könnunarinnar.
Ef dómari er skipaður til setu í nefndinni skal honum veitt leyfi frá störfum dómsins meðan nefndin starfar. Opinber starfsmaður, sem skipaður er til setu í nefndinni eða starfar fyrir hana, á rétt á launalausu leyfi þann tíma sem nefndin starfar.
3. gr.
Nefndin skal hafa óheftan aðgang að öllum gögnum í vörslum stjórnvalda sem varða starfsemi þeirra vöggustofa sem lög þessi gilda um. Þar á meðal eru gögn sem hafa að geyma almennar og viðkvæmar persónuupplýsingar. Þá skulu stjórnvöld, sé þess óskað af hálfu nefndarinnar, taka saman skriflegar greinargerðir um einstaka þætti könnunarinnar.
Nefndinni er heimilt að taka skýrslur af einstaklingum sem dvöldu á vöggustofunum og hverjum þeim öðrum sem nefndin telur að búi yfir vitneskju sem komi að notum í starfi hennar enda veiti þeir samþykki sitt.
Læknum, öðru heilbrigðisstarfsfólki, starfsmönnum sveitarfélaga og opinberum starfsmönnum, sem ella væru bundnir þagnarskyldu, er skylt að veita nefndinni upplýsingar sem lúta að starfsemi vöggustofanna sé þess óskað, eftir atvikum með því að gefa nefndinni skýrslu. Hið sama gildir um þá sem látið hafa af störfum.
Þeim sem gefur skýrslu fyrir nefndinni er heimilt að skorast undan því að svara spurningu ef ætla má að í svari hans geti falist játning eða bending um að hann hafi framið refsiverðan verknað eða að það gæti orðið honum til mannorðsspjalla.
Sá sem vísvitandi gefur nefndinni rangar eða villandi upplýsingar skal sæta sektum eða fangelsi allt að fjórum mánuðum. Um slík mál fer samkvæmt lögum um meðferð sakamála.
4. gr.
Fundir nefndarinnar eru lokaðir.
Nefndarmenn og starfsmenn nefndar eru bundnir þagnarskyldu um hvaðeina er varðar einkalíf manna sem þeir fá upplýsingar um við störf nefndarinnar. Þagnarskylda um slík atriði helst þegar störfum nefndar er lokið.
5. gr.
Reykjavíkurborg ákveður skipan nefndarinnar, skipunartíma og þóknun og setur henni erindisbréf þar sem nánar er mælt fyrir um verkefni nefndarinnar. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr sveitarsjóði.
6. gr.
Upplýsingalög gilda ekki um störf nefndarinnar og gögn hennar. Upplýsingalög gilda þó um skýrslu nefndarinnar um störf hennar til Reykjavíkurborgar, sbr. 3. mgr. 1. gr. Þá gilda lög um opinber skjalasöfn ekki um aðgang að gögnum nefndarinnar á meðan hún starfar.
7. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.