Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála

2023 nr. 30 22. maí


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 7. júní 2023.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við innviðaráðherra eða innviðaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að stuðla að öruggri uppbyggingu innviða og jákvæðri byggðaþróun með því að efla og samhæfa áætlanagerð á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna, byggðamála og sveitarstjórnarmála, þar sem sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi.
2. gr. Gildissvið.
Lög þessi gilda um stefnur á sviði húsnæðismála, samgangna og byggðamála og gerð þeirra ásamt aðgerðaáætlunum.
Um gerð og framlagningu landsskipulagsstefnu og fimm ára aðgerðaáætlunar ráðherra á sviði skipulagsmála gilda skipulagslög, sbr. þó 5. gr. um skipan húsnæðis- og skipulagsráðs.
Um gerð og framlagningu stefnu og fimm ára aðgerðaáætlunar á sviði sveitarstjórnarmála gilda sveitarstjórnarlög.
3. gr. Framlagning þingsályktunartillagna.
Ráðherra leggur fram á Alþingi á hverju kjörtímabili tillögur til þingsályktana um samgöngustefnu, húsnæðisstefnu og byggðastefnu til fimmtán ára á hverju sviði fyrir sig.
Samhliða framlagningu tillögu að stefnu skv. 1. mgr. og í sama skjali skal ráðherra einnig leggja fram tillögu að aðgerðaáætlun sem ráðast skal í á fyrstu fimm árum gildistíma stefnunnar þar sem gerð er grein fyrir áætluðum fjárveitingum eins og við á.
Ef forsendur breytast eða ef tilefni er til að öðru leyti leggur ráðherra fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um breytingu á stefnu og aðgerðaáætlun.
4. gr. Samhæfing stefna.
Tillögur til þingsályktana skv. 3. gr. skulu samhæfðar, styðja hver aðra og byggðar á heildstæðri stefnumörkun ráðherra fyrir hvern málaflokk. Við mótun tillagnanna skulu því sömu viðmið höfð að leiðarljósi en nánari markmiðssetning útfærð á hverju sviði fyrir sig.
5. gr. Ráð.
Ráðherra skipar þrjú ráð, samgönguráð, byggðamálaráð og húsnæðis- og skipulagsráð sem gera tillögur til ráðherra að stefnum og aðgerðaáætlunum hvert á sínu sviði, að fengnum áherslum ráðherra.
Ráðin skulu með virku samráði sín á milli gæta að því að tillögur þeirra uppfylli kröfur um samhæfingu stefna þannig að þær vinni saman og styðji við sameiginlega framtíðarsýn og áherslur ráðherra.
Ráðin skulu hvert um sig skipuð þremur fulltrúum, tveimur án tilnefningar og einum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Skipunartími fulltrúa takmarkast við embættistíma þess ráðherra sem skipar.
6. gr. Samráð.
Við undirbúning og mótun þingsályktunartillagna ráðherra skv. 3. gr. skal haft samráð við hagsmunaaðila og jafnframt skal almenningi gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og athugasemdum í opnu samráðsferli.
Til að efla byggðaþróun og auka samráð milli ráðuneyta skipar ráðherra stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál, sem í eiga sæti fulltrúar allra ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Stýrihópurinn er skipaður til þriggja ára eftir tilnefningu hvers ráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fulltrúi ráðherra fer með formennsku. Hlutverk stýrihópsins er að efla samhæfingu innan Stjórnarráðsins, tryggja aðkomu allra ráðuneyta að undirbúningi byggðastefnu og tryggja virkt samráð við sveitarstjórnarstigið.
7. gr. Upplýsingagjöf.
Ráðherra skal veita upplýsingar um framgang þeirra áætlana sem Alþingi hefur samþykkt samkvæmt lögum þessum með reglubundnum og aðgengilegum hætti. Skal þá m.a. greina frá stöðu mælikvarða áætlana, framgangi aðgerða og ráðstöfun fjárveitinga.
8. gr. Reglugerð.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um gerð, undirbúning og framkvæmd stefna og aðgerðaáætlana, störf ráða, samráð og upplýsingagjöf.
9. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
10. gr. Breytingar á öðrum lögum.