Lagasafn. Íslensk lög 1. september 2025. Útgáfa 156b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um Nýsköpunarsjóðinn Kríu
2024 nr. 90 4. júlí
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. janúar 2025; um lagaskil sjá 13. gr. og brbákv. I og II.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra eða menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði.
1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að stuðla að árangursríku og alþjóðlega samkeppnishæfu fjármögnunarumhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki í því skyni að styðja við öflugt atvinnulíf á grunni hugvits og þekkingar og efla þannig vöxt, velsæld og samkeppnishæfni Íslands.
2. gr. Sérstakur sjóður.
Starfrækja skal sérstakan sjóð, Nýsköpunarsjóðinn Kríu, sem er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og heyrir stjórnarfarslega undir ráðherra.
Ráðherra er heimilt að fela þriðja aðila með samningi faglega umsýslu sjóðsins eða hluta af starfsemi hans.
3. gr. Hlutverk sjóðsins.
Hlutverk sjóðsins er að hvetja til og auka framboð fjármagns og fjármögnunarkosta til handa sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og auka viðnámsþrótt fjármögnunarumhverfisins, í samræmi við markmið laga þessara. Sjóðurinn hefur jafnframt það hlutverk að hvetja með fjárfestingum sínum einkafjárfesta til þátttöku í fjármögnun nýsköpunar.
Sjóðurinn skal vinna að markmiðum laga þessara með hliðsjón af stefnu ráðherranefndar um vísindi og nýsköpun.
Sjóðnum er heimilt að fjárfesta í sérhæfðum sjóðum eða sérhæfðum EES-sjóðum sem hafa þann tilgang að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og uppfylla skilyrði laga þessara og reglna settra á grundvelli þeirra.
Sjóðnum er jafnframt heimilt að veita breytanleg lán og fjárfesta beint í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum eða veita annars konar fjármögnun sem þekkt er í alþjóðlegu fjármögnunarumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja.
4. gr. Stjórn Nýsköpunarsjóðsins Kríu.
Ráðherra skipar fimm menn í stjórn Nýsköpunarsjóðsins Kríu til þriggja ára í senn. Stjórnin skal þannig skipuð: einn samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, einn samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands, einn samkvæmt tilnefningu þess ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins og tveir án tilnefningar. Skal annar þeirra skipaður formaður.
Stjórnarmenn skulu búa yfir nauðsynlegri hæfni til að fylgja eftir markmiðum sjóðsins, þar á meðal haldgóðri þekkingu á lánveitinga- og fjárfestingarstarfsemi, og hafa viðeigandi stjórnunarreynslu eða viðamikla reynslu úr umhverfi nýsköpunar.
Ráðherra ákveður þóknun stjórnarmanna.
5. gr. Hlutverk stjórnar.
Stjórnin hefur yfirumsjón með starfsemi Nýsköpunarsjóðsins Kríu. Meðal verkefna stjórnar er:
1. Að móta fjárfestingarstefnu sjóðsins með hliðsjón af stefnu stjórnvalda hverju sinni og stöðu nýsköpunarumhverfisins innan lands og alþjóðlega.
2. Gerð starfsreglna sem staðfestar skulu af ráðherra, þar á meðal gerð reglna um mat á fjárfestingartækifærum, auk reglna um mat á umsóknum um lánveitingar.
3. Að taka við umsóknum um þátttöku í sérhæfðum sjóðum og um lánveitingar ásamt því að meta slíkar umsóknir.
4. Ákvarðanataka um þátttöku sjóðsins í fjárfestingum, í sérhæfðum sjóðum og veitingu lána ásamt samningagerð varðandi slíka þátttöku.
5. Ávöxtun eigin fjár.
6. Yfirumsjón með rekstri sjóðsins og samþykkt rekstraráætlunar fyrir hvert starfsár.
7. Gerð ársreiknings og ársskýrslu um starfsemi, fjárfestingar og afkomu sjóðsins sem skila skal til ráðherra.
Stjórnarmenn sjóðsins skulu gæta að hæfi sínu samkvæmt stjórnsýslulögum.
Ákvarðanir stjórnar sjóðsins samkvæmt lögum þessum eru endanlegar á stjórnsýslustigi.
6. gr. Forstjóri.
Forstjóri Nýsköpunarsjóðsins Kríu skal skipaður af ráðherra til fimm ára í senn að fenginni tillögu stjórnar. Forstjóri skal hafa menntun sem nýtist í starfi auk reynslu af stjórnun, fjármálum og rekstri.
Forstjóri ber ábyrgð á daglegri starfsemi sjóðsins og annast fjárreiður hans og rekstur, þar á meðal ráðningu starfsfólks.
Forstjóri annast framkvæmd ákvarðana stjórnar eftir því sem stjórn ákveður og í samráði við hana.
Forstjóri situr fundi stjórnar með málfrelsi og tillögurétt.
Um laun og önnur launakjör forstjóra fer skv. 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.
7. gr. Ársfundur.
Halda skal ársfund Nýsköpunarsjóðsins Kríu fyrir 31. maí ár hvert. Nánar skal kveðið á um ársfund í reglugerð.
8. gr. Önnur starfsemi sjóðsins.
Sjóðnum er heimilt að leita samstarfs við aðra aðila á sviði áhættufjárfestinga, taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um nýsköpunarfjárfestingar, styðja við frumkvöðlaumhverfið og efla tengsl og þekkingu á sviðinu.
Sjóðurinn skal safna og birta reglulega gögn tengd fjármögnunarumhverfi nýsköpunar.
Sjóðnum er heimilt að nýta sér afl atkvæða sinna í samræmi við hlutafjáreign sína og skal vera undanþeginn tekjuskatti.
9. gr. Rekstur.
Ráðstöfunarfé Nýsköpunarsjóðsins Kríu er:
1. Framlag úr ríkissjóði sem veitt er á fjárlögum hverju sinni.
2. Arður af innstæðum sjóðsins hjá fjármálastofnunum.
3. Afborganir og vextir af útlánum sjóðsins.
4. Andvirði hlutabréfa sjóðsins við sölu.
5. Aðrar tekjur.
Allur kostnaður af rekstri Nýsköpunarsjóðsins Kríu greiðist af fé sjóðsins.
10. gr. Endurskoðun reikninga.
Stjórn Nýsköpunarsjóðsins Kríu skal láta semja ársreikning í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál. Um endurskoðun sjóðsins gilda lög um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga.
11. gr. Þagnarskylda.
Stjórnarmenn og hverjir þeir sem taka að sér verkefni á grundvelli laga þessara eru bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Sá sem veitir viðtöku upplýsingum í tengslum við verkefni sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir.
12. gr. Reglugerð.
Ráðherra skal í reglugerð1) setja nánari ákvæði um framkvæmd
laga þessara, m.a. um verkefni sjóðsins, þar á meðal skilyrði fyrir
fjárfestingum, svo sem kröfur um hámark eignarhluta sjóðsins í sérhæfðum sjóðum
og hvernig staðið skuli að fjárfestingum að öðru leyti. Þá skal ráðherra í
reglugerð1) kveða á um undirbúning ákvarðana stjórnar, eigið fé
sjóðsins, ávöxtun eigin fjár sem er ekki bundið í fjárfestingum, afskriftir og
önnur atriði sem nauðsynleg eru til að sjóðurinn geti sinnt hlutverki sínu
skv. 3. gr.
1)Rg. 1597/2024.
13. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2025.
…
Embætti framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er lagt niður við gildistöku laga þessara.
14. gr. Breytingar á öðrum lögum. …
Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Öll störf hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins eru lögð niður við gildistöku laga þessara. Um réttindi og skyldur starfsmanna fer samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Störf hjá Nýsköpunarsjóðnum Kríu skulu auglýst laus til umsóknar í samræmi við 7. gr. sömu laga.
II.
Þrátt fyrir ákvæði 13. gr. er ráðherra heimilt að skipa forstjóra og stjórn Nýsköpunarsjóðsins Kríu fyrir 1. janúar 2025 og skulu forstjóri og stjórn hafa heimild til að undirbúa gildistöku laga þessara.