Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um skipting fasteignaveðslána

1937 nr. 39 13. júní


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 6. júlí 1937.

1. gr.
Þegar skipta á jörð í tvö eða fleiri sjálfstæð býli milli eigenda, eða byggja á nýbýli úr landi jarðar, skal, ef óskað er, meta hvernig heildarfasteignarmatsverð fasteignarinnar skiptist á hin einstöku býli.
2. gr.
Við matsgerð þessa skal ekki meta þau mannvirki, er unnin hafa verið á jörðinni eftir að mats var óskað.
3. gr.
Mat það, sem um ræðir í 1. og 2. gr., skal framkvæmt af úttektarmönnum hlutaðeigandi hrepps. Matskostnað greiða eigendur í hlutfalli við verðmæti hvers býlis, eftir því sem metið er, og skal um matskostnað farið eftir lögum nr. 64 14. nóvember 1917,1) um laun hreppstjóra og aukatekjur.
   1)l. 32/1965.
4. gr.
Nú hefir mat farið fram samkvæmt fyrirmælum 1.–3. gr., og er þá peningastofnunum skylt, sé þess óskað af eigendum býlanna, að skipta fasteignaveðslánum, er á fasteigninni hvíla, hlutfallslega jafnt á hin einstöku býli, eftir verðmæti þeirra, samkvæmt mati því, er að ofan getur, enda skal, að dómi hlutaðeigandi lánsstofnunar, trygging fyrir fasteignaveðslánum þessum ekki lakari en áður, og veðhæfi eignarinnar og veðréttur í engu lakari en áður en skipti fóru fram.
5. gr.
Kostnað þann, er leiðir af skiptingu lánanna, svo sem þinglestur, greiða lántakendur, en engin afföll skal þeim reikna af hinum nýju lánum.
6. gr.
Ákvæði laga, er koma í bága við lög þessi, eru úr gildi felld.