Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um ákvörðun leigumála og söluverðs lóða og landa Reykjavíkurkaupstaðar
1943 nr. 86 16. desember
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 31. desember 1943. Breytt með: L. 68/1978 (tóku gildi 1. júní 1978).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við innviðaráðherra eða innviðaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
1. gr.
Þegar Reykjavíkurkaupstaður lætur lóðir sínar og lönd á leigu, þar á meðal erfðafestuleigu, skal bæjarstjórnin eða bæjarráð í umboði hennar ákveða leiguskilmálana.
Á sama hátt ræður hafnarstjórn leigumála um lóðir Reykjavíkurhafnar.
2. gr.
[Ársleiga eftir lóðir, sem leigðar eru til íbúðarhúsabygginga til 75 ára, skal ákveðin samkvæmt reglugerð, er borgarstjórn setur og ráðuneytið staðfestir. Leiga eftir þessar lóðir skal tryggð með lögveðsrétti í þeim byggingum, sem á lóðinni standa, í tvö ár eftir gjalddaga og með forgangsrétti fyrir öðrum veðskuldum. Leiga eftir aðrar lóðir og lönd skal ákveðin af borgarstjórn og hafnarstjórn.]1)
1)L. 68/1978, 1. gr.
3. gr.
Ef bæjarstjórn eða hafnarstjórn selja lóðir eða lóðarspildur bæjarsjóðs eða hafnarsjóðs, fer um ákvörðun söluverðs með sama hætti og fyrir er mælt í 1. gr.
4. gr.
Nú er bæjarstjórn (bæjarráð) eða hafnarstjórn ekki á einu máli um ákvörðun ársleigu eða söluverðs lóðar, og skal þá leigan eða söluverðið ákveðið með mati dómkvaddra manna eftir almennum reglum um dómkvaðningu.
5. gr.
Lóðarleigjanda, er ekki vill hlíta ákvörðun bæjarstjórnar (bæjarráðs) eða hafnarstjórnar um ákvörðun lóðarleigu eða mati samkvæmt 4. gr., er heimilt að krefjast yfirmats um leiguna, er framkvæmd skal af dómkvöddum mönnum. Um greiðslu matskostnaðar fer þá samkvæmt ákvæðum 6. gr. síðustu málsgreinar laga um framkvæmd eignarnáms, nr. 61 14. nóvember 1917.1)
1)Nú l. 11/1973.
6. gr.
Er næsta matstímabili lóðarleigu samkvæmt gildandi leigusamningum lýkur, eftir að lög þessi öðlast gildi, skal lóðarleigan ákveðin svo sem segir í lögum þessum.