Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um gjöld til holræsa, gangstétta og varanlegs slitlags á götum á Akureyri

1970 nr. 87 6. ágúst


Upphaflega l. 66/1917. Tóku gildi 14. nóvember 1917. Endurútgefin, sbr. 3. gr. l. 45/1970, sem l. 87/1970. Tóku gildi 9. september 1970. Breytt með: L. 17/1996 (tóku gildi 1. jan. 1997).


1. gr.
Þar sem bæjarstjórnin hefur lagt holræsi í götu á kostnað bæjarsjóðs, er hverjum húseiganda skylt að gera á sinn kostnað ræsi, er flytji allt skolp frá húsi hans út í göturæsið. Skulu þau ræsi ekki vera lakari að gerð en göturæsin og gerð undir umsjón veganefndar eða þess manns, er hún felur umsjónina, samkvæmt reglugerð, er bæjarstjórnin setur um tilhögun skolpræsa innan húss og utan. Skal í þeirri reglugerð ákveða, að regnvatn skuli leitt í göturæsin. Vanræki nokkur að gera þetta innan hæfilegs frests, sem bæjarstjórnin setur, getur bæjarstjórnin látið vinna verkið á kostnað húseiganda.
Fyrir öllum kröfum, sem bæjarstjórnin öðlast á hendur húseigendum og lóðareigendum, samkvæmt framansögðu, hefur bæjarsjóðurinn lögveð í húsinu eða lóðinni, og gengur sá veðréttur fyrir öllum veðskuldum eftir samningi.
2. gr.1)
   1)L. 17/1996, 7. gr.
3. gr.
Lögtaksréttur fylgir öllum kröfum samkvæmt lögum þessum.