Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins

1997 nr. 1 10. janúar


Upphaflega l. 29/1963. Tóku gildi 1. janúar 1964. Breytt með: L. 23/1967 (tóku gildi 9. maí 1967). L. 49/1972 (tóku gildi 9. júní 1972 nema 2. gr. sem tók gildi 1. janúar 1973). L. 49/1973 (tóku gildi 24. maí 1973). L. 21/1975 (tóku gildi 11. júní 1975). L. 28/1978 (tóku gildi 18. maí 1978). L. 98/1980 (tóku gildi 2. janúar 1981 nema 2. gr. sem tók gildi 1. janúar 1981, 3. gr., 7. mgr. 6. gr. og 7. gr. sem tóku gildi 1. okt. 1980 og 6. mgr. 6. gr. sem tók gildi 1. ágúst 1980). L. 73/1982 (tóku gildi 10. júní 1982). L. 27/1983 (tóku gildi 14. apríl 1983). L. 47/1984 (tóku gildi 13. júní 1984). L. 61/1989 (tóku gildi 14. júní 1989). L. 7/1990 (tóku gildi 28. febr. 1990). L. 65/1990 (tóku gildi 31. maí 1990). L. 156/1995 (tóku gildi 11. janúar 1996). L. 98/1996 (tóku gildi 1. ágúst 1996).
Endurútgefin, sbr. 34. gr. l. 141/1996, sem l. 1/1997. Tóku gildi 1. maí 1997. Breytt með: L. 142/1997 (tóku gildi 30. des. 1997). L. 84/1998 (tóku gildi 1. jan. 1999). L. 41/2002 (tóku gildi 7. maí 2002). L. 43/2002 (tóku gildi 7. maí 2002). L. 141/2003 (tóku gildi 30. des. 2003). L. 142/2003 (tóku gildi 1. jan. 2004). L. 136/2004 (tóku gildi 1. jan. 2005). L. 47/2006 (tóku gildi 1. júlí 2006). L. 65/2006 (tóku gildi 27. júní 2006). L. 167/2006 (tóku gildi 1. jan. 2007). L. 62/2007 (tóku gildi 4. apríl 2007). L. 12/2009 (tóku gildi 25. apríl 2009). L. 48/2010 (tóku gildi 11. júní 2010). L. 65/2010 (tóku gildi 27. júní 2010). L. 154/2010 (tóku gildi 30. des. 2010). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 157/2011 (tóku gildi 30. des. 2011). L. 46/2016 (tóku gildi 1. jan. 2017). L. 127/2016 (tóku gildi 1. júní 2017 nema a-liður, 1. mgr. b-liðar, 1. mgr. c-liðar og f-liður 7. gr. og 9. gr. sem tóku gildi 31. des. 2016). L. 130/2016 (tóku gildi 1. júlí 2017). L. 28/2018 (tóku gildi 1. sept. 2018). L. 79/2019 (tóku gildi 6. júlí 2019; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í brbákv.). L. 153/2019 (tóku gildi 1. jan. 2020). L. 153/2020 (tóku gildi 6. jan. 2021).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við fjármála- og efnahagsráðherra eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr.
Sjóðurinn heitir Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík. Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri samkvæmt ákvæðum þessara laga.
[Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins starfar í þremur deildum, A-deild og séreignardeild, sem starfa á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og laga þessara þegar við á, og B-deild, sem starfar á grundvelli þessara laga auk laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða eftir því sem við á. Deildirnar skipta með sér rekstrarkostnaði í hlutfalli við umfang hverrar deildar í rekstri sjóðsins samkvæmt reglum sem stjórn sjóðsins setur.]1)
   1)L. 127/2016, 1. gr.
2. gr.
Sjóðfélagar samkvæmt lögum þessum eru þeir einstaklingar sem greiða iðgjald til sjóðsins, þeir sem njóta elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum og þeir einstaklingar sem með iðgjaldagreiðslum hafa áunnið sér rétt í sjóðnum en greiða ekki lengur iðgjald og hafa ekki hafið töku lífeyris úr sjóðnum.
3. gr.1)
   1)L. 127/2016, 2. gr.
4. gr.
Iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga og réttindaávinnsla til ársloka 1996 skulu varðveitt í B-deild sjóðsins.
Sjóðfélagar, sem greiddu iðgjald til sjóðsins eða áunnu sér réttindi án iðgjaldagreiðslu við árslok 1996, skulu eiga rétt til aðildar að B-deild lífeyrissjóðsins á meðan þeir gegna störfum hjá ríkinu, enda séu þeir skipaðir, settir eða ráðnir til a.m.k. eins árs eða ráðnir með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti og starf þeirra sé eigi minna en hálft starf. Sama á við um þá kennara og skólastjórnendur við grunnskóla sem voru í starfi við árslok 1996 á meðan þeir starfa við grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum, enda uppfylli ráðning þeirra sömu skilyrði um ráðningartíma og starfshlutfall.
Þeir sem starfa hjá grunnskólum við annað en kennslu eða skólastjórnun, þeir sem starfa hjá skólaskrifstofum og hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur og aðild áttu að sjóðnum við árslok 1996 skulu eiga sama rétt til aðildar að B-deild sjóðsins meðan þeir gegna þessum störfum.
Kjósi sjóðfélagi, sem 2. eða 3. mgr. tekur til, að greiða fremur iðgjald til A-deildar sjóðsins er honum það þó heimilt, enda hafi hann tilkynnt sjóðnum um þá ákvörðun sína fyrir 1. desember 1997. Fellur þá niður réttur hans til að greiða iðgjald til B-deildarinnar. Sjóðfélagi, sem þessi málsgrein eða 5. mgr. taka til og greiðir iðgjald til B-deildar sjóðsins eftir 1. desember 1997, getur einungis hafið greiðslu til A-deildar hans ef hann skiptir um starf, enda uppfylli hið nýja starf hans aðildarskilyrði að sjóðnum, eða ef iðgjaldagreiðslur hans hafa fallið niður af öðrum ástæðum í tólf mánuði eða lengur.
Launagreiðendur, sem fengið höfðu heimild fyrir árslok 1996 til að greiða iðgjald til sjóðsins fyrir starfsmenn sína, hafa áfram sömu heimild til að greiða iðgjald til B-deildar sjóðsins fyrir þá starfsmenn sína og aðra sjóðfélaga sem greiddu iðgjald til sjóðsins við árslok 1996. Hafi sjóðfélagi lokið iðgjaldagreiðslu fyrir árslok 1996 en áfram áunnið sér réttindi án iðgjaldagreiðslu vegna starfa hjá launagreiðanda sem um ræðir í þessari málsgrein skal hann halda sama rétti til réttindaávinnslu hjá B-deild sjóðsins. Kjósi sjóðfélagi, sem þessi málsgrein tekur til, að greiða fremur iðgjald til A-deildar sjóðsins er honum það þó heimilt að tilskildu samþykki launagreiðanda hans. Sjóðfélaginn þarf að hafa tilkynnt sjóðnum um þessa ákvörðun sína fyrir 1. desember 1997. Fellur þá niður heimild hans til að greiða iðgjald til B-deildarinnar.
Einstaklingur, sem fengið hefur heimild til áframhaldandi aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins fyrir árslok 1996 vegna niðurlagningar á stöðu eða starfi, hefur sömu heimild til að greiða iðgjald til B-deildar sjóðsins.
[Stjórn sjóðsins er með samþykki [ráðherra]1) heimilt að veita sjóðfélaga sem fær launalaust leyfi frá störfum til að starfa hjá alþjóðastofnun, sem Ísland á aðild að samkvæmt lögum eða fjölþjóðlegum samningum, rétt til að greiða áfram iðgjald til B-deildar sjóðsins á starfstíma hans hjá viðkomandi alþjóðastofnun, enda hafi hann átt aðild að B-deildinni er hann hóf störf erlendis og njóti ekki lífeyrisréttar hjá viðkomandi alþjóðastofnun. Stjórn sjóðsins skal ákveða viðmiðunarlaun fyrir starfið með hliðsjón af 6. mgr. 23. gr.]2)
   1)L. 126/2011, 228. gr. 2)L. 62/2007, 1. gr.
5. gr.
Sjóðfélagi, sem ekki greiddi iðgjald til lífeyrissjóðsins við árslok 1996, án þess þó að formlegu ráðningarsambandi hans og launagreiðanda sem tryggir starfsmenn sína hjá sjóðnum hafi verið slitið, hefur sama rétt til aðildar að B-deild sjóðsins og þeir einstaklingar sem falla undir 2., 3. og 5. mgr. 4. gr.
[Falli iðgjaldagreiðslur til B-deildar sjóðsins niður af öðrum ástæðum en segir í 1. mgr., t.d. vegna þess að viðkomandi sjóðfélagi hættir í starfi eða skiptir um starf, hefur sjóðfélagi áfram rétt til aðildar að B-deildinni, svo fremi hann hefji aftur starf sem veitir honum rétt til aðildar að deildinni eigi síðar en tólf mánuðum frá því að iðgjaldagreiðslur féllu niður. Ef iðgjaldagreiðslur til sjóðsins falla hins vegar niður lengur en tólf mánuði, eða réttindaávinnsla án iðgjaldagreiðslu fellur niður í jafnlangan tíma, á viðkomandi einstaklingur ekki framar rétt á aðild að B-deild sjóðsins.]1)
Sjóðfélagar, sem greiddu iðgjald til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eða áunnu sér réttindi hjá sjóðnum án iðgjaldagreiðslu á árinu 1996, þó svo að þeir hafi ekki verið í starfi sem veitti þeim rétt til aðildar að lífeyrissjóðnum í lok þess árs, eiga rétt til aðildar að B-deild sjóðsins hefji þeir störf sem um ræðir í 2. og 3. mgr. 4. gr. á árinu 1997, enda uppfylli ráðning þeirra skilyrði 2. mgr. 4. gr. um ráðningartíma og starfshlutfall. Sömu heimild til iðgjaldagreiðslu fyrir starfsmenn sína hafa þeir launagreiðendur sem falla undir 5. mgr. 4. gr.
   1)L. 43/2002, 1. gr.
6. gr.
Stjórn sjóðsins skal skipuð átta mönnum. [Ráðherra]1) skipar fjóra stjórnarmenn, stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja skipar tvo stjórnarmenn, stjórn Bandalags háskólamanna skipar einn stjórnarmann og stjórn Kennarasambands Íslands skipar einn stjórnarmann. Jafnframt skulu sömu aðilar skipa jafnmarga menn til vara. Skipunartími stjórnarmanna er þrjú ár. Stjórnin kýs formann úr sínum hópi til eins árs í senn.
   1)L. 126/2011, 228. gr.
7. gr.
Stjórn sjóðsins fer með yfirstjórn hans. Stjórnin skal fjalla um allar meiri háttar ákvarðanir varðandi stefnumótun sjóðsins og starfsemi. Hún skal sjá um að nægjanlegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna sjóðsins. Stjórnin skal móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Stjórn sjóðsins setur honum samþykktir í samræmi við ákvæði þessara laga og ákvæði annarra laga um lífeyrissjóði eftir því sem við á. Í samþykktum sjóðsins skal m.a. kveðið á um hvernig ávaxta skuli fé hans.
[Ráðherra]1) staðfestir hvort samþykktir sjóðsins og breytingar á þeim séu í samræmi við þessi lög og önnur lög um lífeyrissjóði að fenginni umsögn [Fjármálaeftirlitsins].2)
   1)L. 126/2011, 228. gr. 2)L. 84/1998, 11. gr.
8. gr.
Fyrir lok júní ár hvert skal stjórn lífeyrissjóðsins boða til ársfundar sjóðsins. Allir sjóðfélagar eiga rétt til fundarsetu á ársfundinum.
Á ársfundi verði eftir því sem við á gerð grein fyrir skýrslu stjórnar, ársreikningum, tryggingafræðilegum úttektum, fjárfestingarstefnu og breytingum á samþykktum sjóðsins.
9. gr.
Stjórn lífeyrissjóðsins ákveður hvernig haga skuli afgreiðslu sjóðsins.
Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. [Ársreikningur sjóðsins skal endurskoðaður af ríkisendurskoðanda.]1)
   1)L. 46/2016, 23. gr.
10. gr.
Stjórn lífeyrissjóðsins skal árlega láta fara fram tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðsins. Nánari reglur um framkvæmd athugunarinnar skal setja í samþykktir sjóðsins.
11. gr.
Óheimilt er að framselja eða veðsetja lífeyriskröfur samkvæmt lögum þessum, og ekki má leggja á þær löghald né gera í þeim fjárnám eða lögtak. Enginn skuldheimtumaður í dánarbúi eða þrotabúi hefur rétt til að skerða kröfurnar á nokkurn hátt, og eigi má halda lífeyrisfé eftir til greiðslu opinberra gjalda.

II. kafli. 1)
   1)L. 127/2016, 3. gr.

III. kafli. B-deild lífeyrissjóðsins.
22. gr.
B-deild sjóðsins greiðir sjóðfélögum ellilífeyri og örorkulífeyri og eftirlifandi maka þeirra og börnum, og eftir atvikum sambúðaraðila, lífeyri samkvæmt ákvæðum þeim sem hér fara á eftir. Auk ákvæða þessarar greinar gilda ákvæði 23.–34. gr. sérstaklega um deildina.
23. gr.
Sjóðfélagar greiða 4% af föstum launum sínum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót í iðgjald til sjóðsins. Launagreiðanda ber að halda iðgjöldum eftir af launum sjóðfélaga og greiða þau sjóðnum innan tveggja vikna frá útborgun launanna.
Sjóðfélagar bera eigi ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins nema með iðgjöldum sínum.
Launagreiðendur greiða [8%]1) af föstum launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót, er sjóðfélagi tekur hjá þeim, í iðgjöld til sjóðsins og skal greiða þau sjóðnum samtímis iðgjöldum sjóðfélaga.
Þegar sjóðfélagi hefur greitt iðgjöld til sjóðsins í 32 ár falla iðgjaldagreiðslur hans niður. Þó er sjóðfélaga, er gegnt hefur um lengri eða skemmri tíma hlutastarfi, heimilt að greiða áfram iðgjald til sjóðsins af föstum launum sínum fyrir dagvinnu allt að því marki að jafngildi iðgjaldagreiðslu af launum fyrir fullt starf í 32 ár. Launagreiðanda skal þá skylt að greiða iðgjald að sínum hluta, sbr. 3. mgr. þessarar greinar. Eftir að iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga falla niður samkvæmt þessari málsgrein eða 4. mgr. 24. gr. greiðir launagreiðandi hans [12%]1) af launum þeim sem tilgreind eru í 3. mgr. þessarar greinar í iðgjald til sjóðsins.
Launþegi, sem yngri er en 16 ára, greiðir eigi iðgjöld til sjóðsins, enda öðlast hann eigi réttindi sjóðfélaga fyrr en hann hefur náð nefndum aldri.
[Taki sjóðfélagi ekki laun samkvæmt samningum eða öðrum launaákvörðunum sem miðast við kjarasamninga opinberra starfsmanna, [sérákvæði í lögum],2) [ákvarðanir skv. 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins]3) eða kjarasamninga sem sveitarfélög gera á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna skal stjórn sjóðsins ákveða þau viðmiðunarlaun sem iðgjöld eru greidd af og miðað er við til greiðslu lífeyris og skulu þau ákveðin með hliðsjón af launaákvörðunum sem gilda um ríkisstarfsmenn eða starfsmenn sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og [samkvæmt sérákvæðum í lögum].2)]4)
   1)L. 167/2006, 5. gr. 2)L. 79/2019, 27. gr. 3)L. 130/2016, 8. gr. 4)L. 43/2002, 2. gr.
24. gr.
Hver sjóðfélagi, sem greitt hefur iðgjald til sjóðsins, á rétt á lífeyri frá næstu mánaðamótum eftir að hann verður 65 ára, enda hafi hann þá látið af þeim störfum sem veitt hafa honum aðild að sjóðnum.
Upphæð ellilífeyris er hundraðshluti af þeim föstu launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningum sem við starfslok fylgja stöðu þeirri fyrir fullt starf er sjóðfélagi gegndi síðast, [sbr. þó 6. mgr. 23. gr.]1) Hundraðshluti þessi fer eftir iðgjaldagreiðslutíma og starfshlutfalli sjóðfélagans og er 2% fyrir hvert ár í fullu starfi sem iðgjöld hafa verið greidd fyrir, en hlutfallslega lægri fyrir minna starfshlutfall. Fyrir hvert fullt ársstarf eftir að iðgjaldagreiðslu lýkur og þar til sjóðfélaginn öðlast rétt til að láta af störfum og fá ellilífeyri bætist við 1% af föstum árslaunum fyrir fullt starf en 2% fyrir hvert fullt ársstarf eftir að iðgjaldagreiðslu er lokið og hann hefur öðlast rétt til að fá lífeyri.
Eftir að taka lífeyris hefst skulu breytingar á lífeyrisgreiðslum ákveðnar til samræmis við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr. 2. mgr., og skal Hagstofa Íslands reikna þær mánaðarlega.
Þegar sjóðfélagi hefur náð því að samanlagður lífaldur og iðgjaldagreiðslutími sé 95 ár, hann er orðinn 60 ára og lætur af störfum á hann rétt á lífeyri úr sjóðnum. Sjóðfélagi, sem notfærir sér þessa reglu, skal greiða iðgjald til sjóðsins þar til 95 ára markinu er náð. Lífeyrisréttur hans skal vera 2% fyrir hvert ár í fullu starfi sem iðgjöld hafa verið greidd fyrir, en hlutfallslega lægri fyrir skemmra starfstímabil og minna starfshlutfall, en þó ekki meira en 64% að náðu 95 ára markinu. Iðgjaldagreiðsluskylda fellur niður þegar 95 ára markinu er náð. Sjóðfélagi, sem nær 95 ára markinu eftir að hann nær 64 ára aldri, getur ekki nýtt sér heimild samkvæmt þessari málsgrein.
Lífeyrisréttur hjá þeim sem njóta útreiknings skv. 4. mgr. skal aukast um 2% fyrir hvert ár í fullu starfi frá því að iðgjaldagreiðsluskyldu lýkur og þar til taka lífeyris hefst, en um hlutfallslega lægri hundraðshluta fyrir skemmra starfstímabil og minna starfshlutfall.
Hafi sjóðfélagi gegnt hærra launuðu starfi eða störfum í að minnsta kosti tíu ár fyrr á sjóðfélagatíma sínum í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins skal miða lífeyrinn við hæst launaða starfið, enda hafi hann gegnt því í að minnsta kosti tíu ár, ella skal miða það hærra launaða starf sem hann að viðbættum enn hærra launuðum störfum gegndi í að minnsta kosti tíu ár.
Heimilt er stjórn sjóðsins að greiða ellilífeyrisþegum á aldrinum 65 til 67 ára uppbót á lífeyri allt að einstaklingslífeyri almannatrygginga. Það er skilyrði fyrir slíkri uppbót, að sjóðfélaginn sé ekki lengur fullfær um að gegna starfi sínu. Til sönnunar því ber viðkomandi að leggja fram umsögn yfirmanns síns um starfshæfnina og vottorð [trúnaðarlæknis sjóðsins]2) um heilsufar.
Sjóðfélagi, sem gegnir starfi sem uppfyllir aðildarskilyrði að sjóðnum skv. 4. gr., á ekki auk launa jafnframt rétt til lífeyris meðan hann gegnir því starfi. Sama á við um þá sem fá greidd óskert laun, sem starfinu fylgja, eftir að þeir láta af störfum.
[Sjóðfélagi getur ákveðið að hefja töku hálfs ellilífeyris hvenær sem er eftir að 65 ára aldri er náð að því skilyrði uppfylltu að hann sé ekki í meira en hálfu starfi sem veitir aðild að sjóðnum eða hefði veitt rétt til aðildar að sjóðnum fyrir stofnun A-deildar sjóðsins.]3)
   1)L. 43/2002, 3. gr. 2)L. 142/2003, 1. gr. 3)L. 28/2018, 1. gr.
25. gr.
Vaktavinnufólk, það er þeir sjóðfélagar sem hafa vinnutíma sem hreyfist með reglubundnum hætti, skal fá rétt til sérstaks viðbótarlífeyris (ellilífeyris, örorkulífeyris eða makalífeyris) úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, enda sé þeim skylt að greiða iðgjald af vaktaálagsgreiðslum til sjóðsins.
Sama gildir um næturverði og það starfsfólk sem hefur vinnuskyldu eingöngu á nóttunni, það er á tímabilinu frá kl. 22.00–09.00, og skal þá álagsgreiðslan verða grundvöllur iðgjalda og lífeyrisréttinda.
Sjóðfélagi greiði 4% af vaktaálaginu í iðgjöld og launagreiðandi [8%].1)
Stjórn lífeyrissjóðsins ákveður á hverjum tíma hver skuli vera viðmiðunarmánaðarlaun þau sem lífeyririnn ákvarðast af og iðgjaldið er metið eftir.
Breyti stjórn lífeyrissjóðsins viðmiðunarmánaðarlaununum skal hún jafnframt ákveða hvort og þá hvernig skuli umreikna áunninn lífeyrisrétt fyrri ára.
Iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga af vaktaálagi skulu ár hvert metnar þannig til lífeyrisréttinda að reiknað sé hvað iðgjaldagreiðslur ársins samsvara margra mánaða iðgjaldagreiðslu af viðmiðunarlaunum.
Fyrir jafngildi hverrar tólf mánaða iðgjaldagreiðslu ávinnst réttur til ellilífeyris og örorkulífeyris sem nemur 2% af viðmiðunarlaunum og réttur til makalífeyris sem nemur 1% af viðmiðunarlaunum.
   1)L. 167/2006, 6. gr.
26. gr.
Hver sjóðfélagi, sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins, á rétt á örorkulífeyri ef hann verður fyrir orkutapi er [trúnaðarlæknir sjóðsins]1) metur 10% eða meira. Örorkumat þetta skal aðallega miðað við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna starfi því er hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd. Þrátt fyrir örorku á enginn rétt á örorkulífeyri meðan hann heldur fullum föstum launum fyrir starf það er hann gegndi, eða fær jafnhá laun fyrir annað starf sem veitir lífeyrissjóðsréttindi, og aldrei skal örorkulífeyrir vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar.
Hámark örorkulífeyris miðast við áunninn lífeyrisrétt skv. 24. gr. Hafi sjóðfélaginn greitt iðgjöld til sjóðsins undanfarin þrjú almanaksár og a.m.k. í sex mánuði á undanfarandi tólf mánuðum miðast hámark örorkulífeyris þó við áunninn lífeyrisrétt skv. 24. gr., að viðbættum einstaklingslífeyri almannatrygginga. Ef rekja má aðalorsök örorkunnar til starfs í þágu stöðu þeirrar sem öryrkinn gegndi skal þó reikna áunninn lífeyrisrétt eins og sjóðfélaginn hefði gegnt stöðu sinni til 65 ára aldurs, og skulu áunnin lífeyrisréttindi þá reiknast af launum í því starfi sem sjóðfélaginn gegndi síðast eins og þau eru á hverjum tíma.
Sé örorka sjóðfélagans á milli 10% og 50% er örorkulífeyrir hans sami hundraðshluti af hámarksörorkulífeyri eins og örorkan er metin. Sé örorkan metin 50% til 75% er örorkulífeyririnn 50% af hámarkinu að viðbættum 2% af því fyrir hvert 1% sem örorkan er metin umfram 50%. Sé örorkan metin 75% eða meiri greiðist hámarksörorkulífeyrir að frádregnum örorkulífeyri almannatrygginga. Þegar öryrki, sem metinn er undir 75%, nær 65 ára aldri fær hann greiddan ellilífeyri samkvæmt ákvæðum 24. gr. Frá sama tíma fellur niður örorkulífeyrir hans. Þó skal hann halda til 67 ára aldurs þeim hluta hans sem miðaður er við lífeyri almannatrygginga.
Skylt er öryrkja, sem sækir um örorkulífeyri úr sjóðnum eða nýtur hans, að láta stjórn sjóðsins í té allar þær upplýsingar um heilsufar sitt sem nauðsynlegar eru til að dæma um rétt hans til örorkulífeyris.
Stjórn sjóðsins er heimilt að lækka eða fella niður örorkulífeyri þeirra öryrkja sem fá starfsorku sína aftur að nokkru eða öllu leyti.
Sömuleiðis ber stjórn sjóðsins að hækka örorkulífeyrinn ef örorkan vex til muna og án sjálfskaparvíta frá því sem hún var metin við fyrri ákvarðanir, enda hafi öryrkinn á þeim tíma, sem örorkan óx, ekki verið í þjónustu annarra en þeirra aðila sem tryggja starfsfólk sitt í sjóðnum.
   1)L. 142/2003, 1. gr.
27. gr.
Nú andast sjóðfélagi og lætur hann eftir sig maka á lífi, og á þá hinn eftirlifandi maki rétt til lífeyris úr sjóðnum [eftir að iðgjaldagreiðslum til sjóðsins er lokið].1)
Upphæð makalífeyris er helmingur af áunnum ellilífeyrisrétti hins látna sjóðfélaga. [Makalífeyrir hækkar síðan um 20% af launum þeim er hann miðast við ef hinn látni sjóðfélagi hefur verið í fullu starfi við starfslok eða við töku hálfs ellilífeyris, sbr. 9. mgr. 24. gr., en hækkunin verður hlutfallslega lægri ef sjóðfélaginn hefur verið í lægra starfshlutfalli við starfslok eða þegar taka á hálfum ellilífeyri hófst.]2) Viðbótarlífeyrir þessi greiðist þó einungis ef hinn látni sjóðfélagi hefur uppfyllt eitt af þremur eftirgreindum skilyrðum:
   1. Hann hafi verið í starfi er veitti honum aðild að sjóðnum við andlátið.
   2. Hann hafi hafið töku lífeyris fyrir andlátið og upphaf lífeyristöku hans hafi verið í beinu framhaldi af starfi sem veitti honum aðild að sjóðnum.
   3. Hann hafi greitt iðgjöld til sjóðsins sem nema iðgjaldagreiðslum af fullu starfi í 15 ár eða meira og ekki greitt iðgjald til annars sjóðs eftir að greiðslum til þessa sjóðs lauk.
Nú hefur sjóðfélagi gengið í hjónaband eftir að hann var orðinn 60 ára, eða á þeim tíma er hann naut lífeyris úr sjóðnum eða hann var lagstur banaleguna, og úrskurðar þá stjórn sjóðsins hvort eftirlifandi maki hans skuli njóta lífeyris úr sjóðnum eða eigi.
Réttur til lífeyris samkvæmt þessari grein fellur niður ef hinn eftirlifandi maki gengur í hjónaband að nýju, en kemur aftur í gildi sé hinu síðara hjónabandi slitið, enda veiti hið síðara hjónaband eigi rétt til lífeyris úr sjóðnum. Veiti síðara hjónabandið einnig rétt til lífeyris má eftirlifandi maki velja um hvort hann tekur lífeyrinn eftir fyrri eða síðari makann.
Hafi hjúskap lokið vegna skilnaðar skal útreikningur makalífeyris miðast við þann tíma er hinn látni sjóðfélagi hafði átt aðild að sjóðnum þegar hjúskap var slitið. Viðbótarlífeyrir skv. 2. mgr. greiðist ekki í því tilviki.
Þegar sjóðfélagi, sem verið hefur tvígiftur, deyr og lætur eftir sig maka og fyrrverandi maka á lífi skiptist makalífeyririnn á milli þeirra þannig að réttur fyrrverandi maka ákvarðast samkvæmt reglu 5. mgr. en réttur maka telst frá þeim degi er hinum fyrra hjúskap var slitið. Hliðstæð regla gildir séu rétthafar makalífeyris fleiri en tveir.
Hafi sjóðfélagi verið utan hjónabands við andlátið, en einstæð móðir hans, ógift systir hans eða annar ógiftur aðili hefur sannanlega annast heimili hans um árabil fyrir andlát hans, þó eigi skemur en fimm ár, og er þá stjórn sjóðsins heimilt að greiða hlutaðeigandi makalífeyri, svo sem um ekkju eða ekkil væri að ræða. Á sama hátt er sjóðstjórn heimilt að greiða [sambúðarmaka]3) lífeyri ef sjóðfélagi lætur eftir sig barn innan 18 ára aldurs sem hann hefur átt með hinu eftirlifandi. Einnig er sjóðstjórn heimilt að greiða [sambúðarmaka]3) lífeyri í 24 mánuði þótt ekki sé fullnægt skilyrðum 1. málsl. um sambúðartíma, eða ef [sambúðarmaki]3) er 50% öryrki eða meira.
   1)L. 43/2002, 4. gr. 2)L. 28/2018, 2. gr. 3)L. 153/2020, 25. gr.
28. gr.
Nú frestar sjóðfélagi að taka ellilífeyri og tekur jafnframt við öðru starfi hjá stofnun er veitir aðgang að sjóðnum, lægra launuðu en því er hann gegndi áður, og skal þá reikna lífeyri eftir því starfinu sem hærra var launað.
Sama regla gildir þegar sjóðfélagi verður af heilsufarsástæðum að láta af stöðu sinni, en tekur við öðru léttara og lægra launuðu starfi er veitir aðgang að sjóðnum. Þegar svo stendur á sem í þessari málsgrein ræðir um er sjóðfélaga heimilt að kaupa sér réttindi í sjóðnum fyrir þann tíma sem úr hefur fallið. Stjórn sjóðsins getur krafist vottorðs [trúnaðarlæknis sjóðsins]1) til sönnunar því að sjóðfélaginn verði að láta af stöðu sinni vegna heilsubrests.
Þegar lífeyrisgreiðslur skulu miðast við hærra launað starf en lokastarf skv. 1. eða 2. mgr. eða skv. 6. mgr. 24. gr. skal við ákvörðun um lífeyri miða við meðalhækkanir á launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu skv. 3. mgr. 24. gr. frá þeim tíma er starfsmaður lætur af sínu hærra launaða starfi og þar til taka lífeyris hefst.
Hafi starfsmaður látið af hinu hærra launaða starfi fyrir árslok 1996 skal þó miða breytingar á lífeyri við breytingar á þeim launum er starfinu fylgdu fram til ársloka 1996. Eftir það skal farið eftir reglu 3. mgr.
   1)L. 142/2003, 1. gr.
29. gr.
[Börn eða kjörbörn sem sjóðfélagi lætur eftir sig er hann andast og yngri eru en 18 ára skulu fá lífeyri úr sjóðnum eftir að iðgjaldagreiðslum til sjóðsins er lokið þar til þau eru fullra 18 ára að aldri. Sama gildir um börn eða kjörbörn sem sá maður lætur eftir sig er naut elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum er hann andaðist.]1)
Ef barnið á foreldri eða kjörforeldri á lífi, er sér um framfærslu þess, er samanlagður lífeyrir þess frá almannatryggingum og úr þessum sjóði 50% hærri en barnalífeyrir almannatrygginga. Að öðrum kosti er lífeyririnn tvöfaldur barnalífeyrir almannatrygginga.
Sama rétt öðlast börn og kjörbörn þeirra sjóðfélaga er njóta elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum, þó svo að barnalífeyrir úr þessum sjóði til barna eða kjörbarna örorkulífeyrisþega skal vera jafnmargir hundraðshlutar af fullum barnalífeyri eins og örorkulífeyrir hans er margir hundraðshlutar af hámarksörorkulífeyri.
Fósturbörn, er sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti, njóta sama réttar og börnum og kjörbörnum er veittur hér að framan.
   1)L. 43/2002, 5. gr.
30. gr.
Nú lætur sjóðfélagi af öðrum ástæðum en elli eða örorku af stöðu þeirri er veitti honum aðgang að sjóðnum og fellur þá niður réttur hans og skylda til að greiða framvegis iðgjöld til sjóðsins. Ellilífeyrir hans, örorkulífeyrir og lífeyrir eftirlátins maka miðast þá við starfstíma hans og laun þau er hann hafði er hann lét af stöðu þeirri er veitti aðgang að sjóðnum, en tekur sömu breytingum og lífeyrir annarra eftir að taka lífeyris hefst. Eigi sjóðfélagi réttindi hjá sjóðnum vegna þriggja ára eða lengri greiðslutíma reiknast lífeyrir þó samkvæmt reglum 3. og 4. mgr. 28. gr. Hafi hann gegnt stöðunni skemur en 32 ár skal lífeyrir barna hans ákveðinn þannig að full upphæð skv. 29. gr. skal margfölduð með hlutfallinu á milli þess ellilífeyris sem hann hefur öðlast rétt til og þess ellilífeyris sem hann hefði öðlast rétt til ef hann hefði gegnt starfinu í 32 ár.
[Sé staða eða starfi sjóðfélagans lagður niður á hann rétt á að vera áfram í sjóðnum og greiða iðgjöld í sama hlutfalli og heildariðgjöld hvers sjóðfélaga eru á hverjum tíma. Iðgjöld skulu miðuð við þau laun er sjóðfélagi hafði er staða hans var lögð niður en iðgjaldsstofninn skal breytast í samræmi við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr. 3. mgr. 24. gr.]1)
   1)L. 167/2006, 7. gr.
31. gr.
Nú flyst starfsmaður, er verið hefur í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, í starf sem veitir aðgang að öðrum lífeyrissjóði, sem stofnaður er með lögum, og má þá endurgreiða með vöxtum öll iðgjöld sem greidd hafa verið í sjóðinn hans vegna. Það er skilyrði fyrir þessari endurgreiðslu að hún gangi til kaupa á lífeyrisréttindum fyrir viðkomandi mann í þeim sjóði er hann flyst til. Þó má aldrei endurgreiða hærri upphæð en þarf til þess að kaupa réttindi í hinum nýja sjóði er svari til þess starfstíma er sjóðfélaginn hafði öðlast.
Sjóðstjórninni er heimilt að nota sömu endurgreiðslureglu þegar sjóðfélagi flyst í annan sjóð sem viðurkenndur er af [ráðuneytinu],1) eða kaupir sér lífeyri hjá tryggingafélagi eða stofnun sem starfar eftir reglum er [ráðuneytið]1) samþykkir, enda gildi þar sömu reglur um endurkaup og greiðslu lífeyris eins og ákveðnar eru í þessum lögum.
Á tilsvarandi hátt er sjóðstjórninni heimilt, að fengnu samþykki [ráðherra],1) að veita viðtöku, vegna manns er gerist sjóðfélagi í þessum sjóði, fé því er kann að vera endurgreitt hans vegna úr sjóði, tryggingafélagi eða stofnun, sem að framan greinir, og veita honum réttindi í samræmi við það.
Einnig getur stjórnin, þegar sérstaklega stendur á, og með samþykki [ráðherra],1) heimilað réttindakaup aftur í tímann þó að ekki sé um að ræða yfirfærslu á réttindum annars staðar frá. Það skal meðal annars sett sem skilyrði fyrir slíkum réttindakaupum að mælt sé með þeim af forstöðumanni þeirrar stofnunar er starfsmaðurinn vinnur hjá, að gengið sé frá réttindakaupunum innan árs frá því starfsmaðurinn var ráðinn og að starfsmaðurinn sé eldri en 35 ára þegar hann öðlast aðgang að sjóðnum.
Heimilt er að endurgreiða iðgjald til erlendra ríkisborgara sem flytjast úr landi, enda sé slíkt ekki óheimilt samkvæmt milliríkjasamningum sem Ísland á aðild að.
   1)L. 126/2011, 228. gr.
32. gr.
Ríkissjóður ábyrgist greiðslu lífeyris samkvæmt lögum þessum, og greiðist hann með 1/12 árslífeyrisins fyrir fram á hverjum mánuði.
33. gr.
Nú verður hækkun á áður úrskurðuðum elli-, örorku- og makalífeyri vegna almennrar hækkunar á launum opinberra starfsmanna og endurgreiðir þá ríkissjóður og aðrir þeir launagreiðendur, sem tryggja starfsmenn sína í sjóðnum, þá hækkun er þannig verður á lífeyrisgreiðslum. Hafi sjóðfélagi greitt iðgjald til sjóðsins vegna starfa hjá fleiri en einum launagreiðanda skal skipting á skuldbindingum milli launagreiðenda reiknast samkvæmt þeim launum sem áunninn réttur er reiknaður eftir og í hlutfalli við réttindaávinning hjá hverjum launagreiðanda.
Hafi innan árs, áður en taka lífeyris hefst, verið gerðar breytingar á föstum launum fyrir dagvinnu hjá tilteknum sjóðfélaga, og þessar breytingar eru umfram almennar breytingar á launum opinberra starfsmanna, skal reikna skuldbindingar launagreiðenda skv. 1. mgr. út frá launum eins og þau voru fyrir þessa hækkun.
Stjórn sjóðsins er heimilt, að fengnu samþykki [ráðuneytisins],1) að taka við skuldabréfi til greiðslu á áföllnum skuldbindingum …2) skv. 1. mgr. þessarar greinar, enda sé skuldin tryggð með fullnægjandi hætti. Skuldbindingin sem gerð er upp skal byggð á tryggingafræðilegu mati miðað við uppgjörsdag. Launagreiðandi, sem gert hefur upp skuldbindingu sína með útgáfu skuldabréfs samkvæmt þessari málsgrein, ber ekki frekari ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins [skv. 1. mgr.]2) vegna þess tímabils og þeirra starfsmanna sem uppgjörið tekur til.
[Stjórn sjóðsins er heimilt að fengnu samþykki [ráðherra]1) að semja um iðgjaldagreiðslur frá launagreiðendum umfram iðgjald þeirra skv. 23. gr. til þess að mæta framtíðarskuldbindingum, sbr. 1. mgr. Iðgjald hvers launagreiðanda samkvæmt þessu skal miða við að núvirði framtíðariðgjalda hans til B-deildar samsvari framtíðarskuldbindingunum eins og þær eru samkvæmt tryggingafræðilegu mati. Á sama hátt er stjórn sjóðsins heimilt að fengnu samþykki [ráðherra]1) að taka við skuldabréfi til greiðslu á framtíðarskuldbindingum skv. 1. mgr. vegna sjóðfélaga sem eiga aðild að sjóðnum samkvæmt heimild í 2. mgr. 30. gr., enda sé skuldin tryggð með fullnægjandi hætti. Uppgjör þetta skal miða við tryggingafræðilegt mat á framtíðarskuldbindingunum miðað við uppgjörsdag. Launagreiðandi, sem gerir upp framtíðarskuldbindingar sínar samkvæmt þessari málsgrein, ber ekki frekari ábyrgð á skuldbindingum B-deildar sjóðsins skv. 1. mgr. vegna þess tímabils og þeirra starfsmanna sem uppgjörið tekur til.
Sjóðnum er heimilt að taka við sérstöku iðgjaldi sem ríkissjóður og aðrir launagreiðendur, sem greiða til B-deildar sjóðsins, ákveða að greiða sem hluta af endurgreiðslu sinni skv. 1. mgr. Iðgjald þetta skal ákveðið þannig að það ásamt iðgjaldi til deildarinnar skv. 1. og 3. mgr. 23. gr. sé jafnhátt og iðgjald til A-deildar sjóðsins eins og það er ákveðið [í samþykktum sjóðsins og ákvæði til bráðabirgða XI].3) Tekjur sjóðsins af sérstöku iðgjaldi ár hvert skulu dragast frá endurgreiðslum launagreiðenda vegna hækkana á lífeyri skv. 1. mgr. eða óuppgerðum skuldbindingum þeirra vegna.]2)
   1)L. 126/2011, 228. gr. 2)L. 142/1997, 2. gr. 3)L. 127/2016, 4. gr.
34. gr.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 33. gr. skal ríkissjóður endurgreiða þá hækkun sem þar er kveðið á um vegna kennara og skólastjórnenda grunnskóla sem aðild eiga að B-deild sjóðsins. Til frádráttar endurgreiðslu ríkissjóðs samkvæmt sama ákvæði komi tekjur af viðbótariðgjaldi skv. 2. mgr. þessarar greinar. [[Ráðherra]1) getur einnig ákveðið að stofnanir sem fá framlög í fjárlögum greiði til B-deildar sjóðsins viðbótariðgjald, 9,5% af iðgjaldsstofni, og skulu tekjur sjóðsins af viðbótariðgjaldinu ár hvert dragast frá endurgreiðslu ríkissjóðs vegna hækkana á lífeyri skv. 1. mgr. 33. gr.]2)
Til viðbótar iðgjaldi launagreiðenda skv. 23. gr. skulu launagreiðendur greiða [7,5%]3) iðgjald til B-deildar sjóðsins af föstum launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót kennara og skólastjórnenda grunnskóla sem eru sjóðfélagar, ávinna sér lífeyrisréttindi hjá B-deild sjóðsins og starfa við skóla sem reknir eru af sveitarfélögum samkvæmt lögum um grunnskóla.
[Stjórn sjóðsins er að fengnu samþykki [ráðherra]1) heimilt að semja um iðgjald frá launagreiðendum til viðbótar við iðgjald þeirra skv. 23. gr. til lúkningar á nýjum skuldbindingum skv. 1. mgr. 33. gr. Launagreiðandi, sem greiðir viðbótariðgjald samkvæmt þessari grein, ber ekki frekari ábyrgð á skuldbindingum B-deildar sjóðsins vegna þess tímabils og þeirra starfsmanna sem viðbótariðgjald er greitt fyrir.]2)
   1)L. 126/2011, 228. gr. 2)L. 142/1997, 3. gr. 3)L. 62/2007, 2. gr. Hlutfallið skal vera 7,5% frá 1. janúar 2007 skv. l. 62/2007, brbákv.

IV. kafli. [Lagaskil og sérákvæði.]1)
   1)L. 41/2002, 2. gr.
35. gr.
Sjóðfélagar, sem hefja töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi og þeir sem fá lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum við gildistöku laga þessara, geta, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 24. gr. laganna og 1. mgr. 34. gr. laga nr. 141/1996, valið hvort lífeyrisgreiðslur til þeirra breytist til samræmis við breytingar sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf sem þeir gegndu síðast, eða eftir atvikum við breytingar á launum fyrir hærra launað starf samkvæmt ákvæðum 6. mgr. 24. gr. og 1. eða 2. mgr. 28. gr. laganna, eða hvort þær skuli breytast samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 24. gr. laganna. Setja skal nánari ákvæði í samþykktir sjóðsins um með hvaða hætti vali sjóðfélaga samkvæmt þessu verði háttað og innan hvaða tímamarka þeir skuli tilkynna sjóðnum um þessa ákvörðun.
[Kjósi sjóðfélagi að lífeyrir taki breytingum sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf er hann gegndi skv. 1. mgr. og laun fyrir það starf eru ekki tæk til viðmiðunar á iðgjaldagreiðslum til deildarinnar, sbr. 6. mgr. 23. gr. laganna, skal stjórn sjóðsins ákveða þau viðmiðunarlaun sem greiðslur lífeyris taka mið af og skulu þau ákveðin með hliðsjón af launaákvörðunum sem gilda um ríkisstarfsmenn eða starfsmenn sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og [samkvæmt sérákvæðum í lögum]1) [eða 39. gr. a laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins].2)]3)
   1)L. 79/2019, 28. gr. 2)L. 130/2016, 8. gr. 3)L. 43/2002, 6. gr.
36. gr.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 30. gr. skal reikna lífeyri þeirra sjóðfélaga, sem greitt hafa skemur en þrjú ár til sjóðsins, þegar þeir hefja iðgjaldagreiðslu til A-deildar þannig að miðað verði við meðalhækkanir á launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu frá því að starfsmaður hættir iðgjaldagreiðslu til B-deildar sjóðsins og þar til taka lífeyris hefst samkvæmt reglum 3. mgr. 28. gr. og 3. mgr. 24. gr., enda sé samanlagður iðgjaldagreiðslutími til A-deildar og B-deildar a.m.k. þrjú ár.
37. gr.
[Sjóðfélagar eiga ekki rétt til töku ellilífeyris úr B-deild sjóðsins á meðan þeir gegna störfum sem veitt hefðu rétt til aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins fyrir stofnun A-deildar sjóðsins, þ.e. eru skipaðir, settir eða ráðnir til a.m.k. eins árs eða ráðnir með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti og starfið er eigi minna en hálft starf.]1)
Að öðru leyti skal setja ákvæði í samþykktir sjóðsins til að koma í veg fyrir niðurfall réttinda eða tvítryggingu réttinda þegar sjóðfélagi [á réttindi í B-deild og A-deild sjóðsins].1)
   1)L. 48/2010, 1. gr.
38. gr.
Hafi sjóðfélagi, sem er látinn við gildistöku laga þessara, verið giftur oftar en einu sinni og látið eftir sig maka og fyrrverandi maka ákvarðast réttur til lífeyris milli fleiri en eins rétthafa makalífeyris eftir eldri lögum. Heimilt er þó að skipta rétti til makalífeyris milli fyrrverandi maka og síðari sambúðaraðila eftir gildistöku laga þessara samkvæmt ákvæðum 6. mgr. 27. gr.
[39. gr.
Lögreglumanni, sem leystur er frá embætti sínu þegar hann er fullra 65 ára, skal reiknaður ellilífeyrir [samkvæmt reglum samþykkta A-deildar]1) eða 24. gr. eftir því sem við á hverju sinni en þó þannig að lífeyrir skal reiknaður eins og hann hefði starfað til 70 ára aldurs.
Við útreikning viðbótarréttinda til 70 ára aldurs fyrir virkan sjóðfélaga í A-deild samkvæmt þessari grein skal miðað við meðalstigaávinning vegna lögreglustarfa síðustu þrjú heilu almanaksárin fyrir töku lífeyris. Á sama hátt skal við útreikning viðbótarréttinda til 70 ára aldurs fyrir virkan sjóðfélaga í B-deild samkvæmt þessari grein miða við meðalstarfshlutfall síðustu þrjú heilu almanaksárin fyrir töku lífeyris.
Ákvæði [samþykkta]1) um hækkun lífeyris sjóðfélaga A-deildar vegna frestunar á töku lífeyris tekur ekki til þeirra sem taka lífeyri skv. 1. mgr.
Ákvæði 25. gr. um rétt vaktavinnufólks til viðbótarlífeyris falla ekki undir útreikning viðbótarréttinda skv. 1. mgr.]2)
   1)L. 127/2016, 5. gr. 2)L. 41/2002, 1. gr.
[40. gr.
Við upphaf lífeyristöku lögreglumanns sem fær reiknuð réttindi skv. 39. gr. skal reikna út kostnað vegna aukinna lífeyrisréttinda samkvæmt ákvæðum greinarinnar og skal ríkissjóður greiða lífeyrissjóðnum þá fjárhæð. Útreikningur þessara réttinda skal byggður á sömu tryggingafræðilegu forsendum og notaðar eru við mat á skuldbindingum sjóðsins. Með greiðslunni hefur ríkissjóður einnig gert að fullu upp skuldbindingar vegna lífeyrishækkana skv. 33. gr. vegna þeirra viðbótarréttinda sem reiknuð eru skv. 39. gr.]1)
   1)L. 41/2002, 1. gr.
[41. gr.
[Ráðherra]1) er heimilt að setja reglur2) um lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna sem falla undir samkomulag Norðurlandanna frá 1. júní 2001 um samræmingu lífeyrisréttinda samkvæmt lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna. Fela má Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins framkvæmd samkomulagsins. Kostnaður sem hlýst af framkvæmd þess greiðist úr ríkissjóði.
Heimilt er að ákveða í reglum, sbr. 1. mgr., að víkja megi frá skilyrðum laga þessara um upphaf lífeyristöku, enda teljist það nauðsynlegt við samhæfingu réttinda samkvæmt samkomulaginu. Með sama hætti má ákveða að upphæð ellilífeyris lækki svo að ekki aukist heildarskuldbindingar sjóðsins þegar ríkisstarfsmaður velur að hefja töku ellilífeyris fyrr en samkvæmt lögum þessum.
Reikna skal út aukinn kostnað við greiðslu lífeyris sem kann að leiða af framkvæmd samkomulagsins og skal ríkissjóður greiða lífeyrissjóðnum þá fjárhæð.
Útreikningar skulu byggðir á sömu tryggingafræðilegu forsendum og notaðar eru við mat á skuldbindingum sjóðsins.
Ágreiningi sem rísa kann út af beitingu samkomulagsins verður skotið til úrskurðar [ráðherra].1)]3)
   1)L. 126/2011, 228. gr. 2)Rg. 705/2008. 3)L. 62/2007, 3. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.1)
   1)L. 127/2016, 6. gr.
II.1)
   1)L. 127/2016, 6. gr.
III.
Eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku laga þessara skal stjórn sjóðsins ákveða nýja hækkunarprósentu skv. 4. mgr. 15. gr. laganna í samræmi við tillögur tryggingafræðinga, þó aldrei hærri en 0,8%.1) Við þá tillögugerð skal viðbótarkostnaður vegna tilfærslu sjóðfélaga úr B-deild sjóðsins í A-deild skv. 4. og 5. mgr. 4. gr. laganna útreiknaður og metinn til breytingar á annars ákveðinni prósentu.
   1)Rgl. 553/2003.
IV.
Þeir starfsmenn Ríkisspítala, sem aðild eiga að sjóðnum í árslok 1996 og eru í störfum sem flytjast til Sjúkrahúss Reykjavíkur og halda þeim áfram, skulu eiga rétt til áframhaldandi aðildar að B-deild sjóðsins með óslitinni réttindaávinnslu.
[V.
Þeim lögreglumönnum, sem þegar eru orðnir fullra 65 ára við gildistöku laganna en eru ekki enn orðnir 70 ára og hafa ekki fengið lausn frá embætti, skal reiknaður lífeyrir skv. 39. gr., enda hafi þeim verið veitt lausn frá embætti fyrir 1. maí 2003.
Ákvæði 39. gr. tekur einnig til þeirra lögreglumanna sem eru orðnir fullra 65 ára og hafa látið af embætti eftir 13. júlí 2001 og hafið töku lífeyris í framhaldi af því.]1)
   1)L. 41/2002, 3. gr.
[VI.
Þeir starfsmenn Lánasjóðs sveitarfélaga, sem aðild eiga að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins við gildistöku laga þessara og eru í störfum sem flytjast til Sambands íslenskra sveitarfélaga og halda þeim áfram, skulu eiga rétt til áframhaldandi aðildar að sjóðnum með óslitinni réttindaávinnslu meðan þeir gegna þar störfum.]1)
   1)L. 136/2004, 11. gr.
[VII.
Þeir starfsmenn ríkisins sem starfa í þjónustueiningum í málaflokki fatlaðs fólks og eiga aðild að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og eru í störfum sem flytjast til sveitarfélaga og halda þeim áfram skulu eiga rétt til áframhaldandi aðildar að sjóðnum með óslitinni réttindaávinnslu meðan þeir gegna þar störfum.
Sveitarfélög taka á sig skuldbindingar launagreiðenda frá aðilaskiptum en ríkissjóður fram að þeim tíma. Til viðbótar iðgjaldi launagreiðenda skv. 23. gr. laganna munu launagreiðendur greiða sérstakt iðgjald til B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins til að standa undir mismun á áföllnum skuldbindingum hvers árs og greiddum iðgjöldum.]1)
   1)L. 154/2010, 3. gr.
[VIII.
Frá og með 1. júní 2017 skal A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins starfa á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum, laga þessara eftir því sem við á og samþykkta er fyrir sjóðinn gilda. Stjórn sjóðsins skal aðlaga samþykktir sjóðsins ákvæðum laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lögum þessum eftir því sem við á og leggja þær þannig breyttar fyrir ráðherra til staðfestingar, sbr. 28. gr. laga nr. 129/1997, eigi síðar en 1. apríl 2017.]1)
   1)L. 127/2016, 7. gr.
[IX.
Ríkissjóður skal eigi síðar en 31. desember 2016 greiða 106,8 milljarða kr. framlag til A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem ætlað er til þess að standa undir lífeyrisauka til sjóðfélaga sem rétt eiga á honum skv. 2. og 3. mgr. Framlagið er ákvarðað á grundvelli tryggingafræðilegrar stöðu A-deildar í lok september 2016 og miðað er við lífslíkur byggðar á reynslu áranna 2010–2014. Greiðsla framlagsins er bundin því skilyrði að tekin verði upp í A-deild aldurstengd réttindaávinnsla og 67 ára lífeyristökualdur.
Lífeyrisauki er sá mismunur sem er á annars vegar réttindum sjóðfélaga samkvæmt jafnri réttindaávinnslu og 65 ára lífeyristökualdri og hins vegar réttindum sjóðfélaga samkvæmt aldurstengdri réttindaávinnslu og 67 ára lífeyristökualdri. Lífeyrisaukann skal reikna mánaðarlega til réttinda hjá sjóðfélaga. Þó er sjóðnum heimilt að færa lífeyrisauka til réttinda vegna ársins 2017 í lok þess árs.
Þeir sjóðfélagar sem eru virkir greiðendur á síðustu 12 mánuðum fyrir gildistöku nýrra samþykkta og starfa hjá ríki eða sveitarfélögum skulu ávinna sér rétt til lífeyrisauka á meðan þeir greiða til deildarinnar og starfa hjá áðurnefndum launagreiðendum, sbr. þó 5. mgr.
Þeir sjóðfélagar sem eru virkir greiðendur á síðustu 12 mánuðum fyrir gildistöku nýrra samþykkta og starfa hjá öðrum launagreiðendum en ríkisaðilum og sveitarfélögum eiga því aðeins rétt á lífeyrisauka að launagreiðandi þeirra hafi samþykkt að greiða sérstakt iðgjald fyrir sjóðfélaga í samræmi við 8. mgr.
Sjóðfélagi sem greiddi ekki iðgjald til A-deildar síðustu 12 mánuði fyrir gildistöku nýrra samþykkta, án þess þó að formlegu ráðningarsambandi hans og launagreiðanda sem tryggir starfsmenn sína hjá sjóðnum hafi verið slitið, hefur sama rétt til lífeyrisauka og þeir sem falla undir 3. og 4. mgr.
Falli iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga niður af öðrum ástæðum en segir í 5. mgr. til lengri tíma en tólf mánaða fellur réttur hans til frekari lífeyrisauka niður. Sjóðfélagar sem greiddu ekki iðgjald til sjóðsins á tímabilinu júní 2016 til júní 2017 eiga rétt á greiðslum úr lífeyrisauka hefji þeir á ný greiðslur til sjóðsins eigi síðar en 12 mánuðum eftir gildistöku nýrra samþykkta. Sjóðnum er heimilt að framlengja tímabilið um tólf mánuði vegna náms, veikinda eða fæðingarorlofs sjóðfélaga.
Þeir sjóðfélagar Brúar lífeyrissjóðs sem rétt eiga á lífeyrisauka hjá Brú skulu eiga rétt á lífeyrisauka hjá A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins skipti þeir um starf og verði sjóðfélagar í A-deild að því tilskildu að ekki hafi liðið lengri tími en tólf mánuðir á milli starfa, sbr. þó einnig 4. mgr. Tilskilið er að sambærilegt ákvæði sé sett í samþykktir Brúar, að breyttu breytanda, og að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Brú lífeyrissjóður geri með sér samkomulag um kostnað við lífeyrisauka vegna sjóðfélaga sem færast milli sjóðanna.
Launagreiðendur sem ekki eru einkanlega fjármagnaðir með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum eða framlögum skulu greiða ríkissjóði til baka þann hluta af framlagi því sem ríkissjóður greiðir skv. 1. mgr. og fer til þess að greiða lífeyrisauka starfsmanna þessara launagreiðenda. Þessi endurgreiðsla fer fram þannig að launagreiðendur, aðrir en ríkisaðilar í B- og C-hluta ríkisreiknings, greiða sérstakt iðgjald sem standa á undir lífeyrisauka þessara starfsmanna. Iðgjald þetta skal endurskoða árlega í samræmi við tryggingafræðilega athugun og skal ákvörðun um hækkun þess eða lækkun liggja fyrir eigi síðar en 1. október fyrir komandi almanaksár. Ríkisaðilar í B- og C-hluta ríkisreiknings endurgreiða ríkissjóði árlega lífeyrisauka starfsmanna sinna á grundvelli útreiknings Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, enda séu þeir ekki einkanlega fjármagnaðir með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum eða framlögum.
Nánar skal kveðið á um framkvæmd þessa ákvæðis í samþykktum sjóðsins.]1)
   1)L. 127/2016, 7. gr.
[X.
Ríkissjóður skal fyrir 31. desember 2016 leggja til 8,4 milljarða kr. í sérstakan varúðarsjóð og skal höfuðstóll hans varðveittur og ávaxtaður af lífeyrissjóðnum. Varúðarsjóður skal aðgreindur frá öðrum fjármunum sem A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fer með og telst ekki með í reiknaðri hreinni eign til greiðslu lífeyris. Árleg ávöxtun varúðarsjóðs er lögð við höfuðstól hans.
Ráðherra skal skipa þrjá fulltrúa og BSRB, Bandalag háskólamanna og Kennarasamband Íslands þrjá fulltrúa í matshóp sem yfirfer tryggingafræðilega stöðu og ákveður hvort skilyrði fyrir ráðstöfun fjármuna úr varúðarsjóði eru uppfyllt. Komist matshópur ekki að niðurstöðu um nýtingu varúðarsjóðsins skulu aðilar velja sameiginlegan oddamann sem tekur þá sæti í matshópnum.
Leggja skal mat á stöðu lífeyrisaukasjóðs:
   a. Sé tryggingafræðileg staða lífeyrisaukasjóðs samkvæmt árlegu mati neikvæð um 10% eða meira í fimm ár eða hafi hún haldist neikvæð um a.m.k. 5% samfellt í meira en tíu ár skal leggja höfuðstól varúðarsjóðsins í heild eða að hluta við eignir lífeyrisaukasjóðs, í báðum tilvikum þar til að neikvæðu 5% viðmiði er náð, og fjármunirnir nýttir til að mæta skuldbindingum hans.
   b. Að tuttugu árum liðnum frá stofnun varúðarsjóðs skal leggja höfuðstól hans í heild eða að hluta við eignir lífeyrisaukasjóðs að því marki sem þörf er á til að tryggingafræðileg staða hans verði jákvæð um a.m.k. 2,5%. Það sem eftir kann að standa af höfuðstóli varúðarsjóðs skal endurgreiða ríkissjóði nema ríkið telji að sérstök rök séu fyrir því að ráðstafa eftirstöðvunum til lífeyrisaukasjóðs eða A-deildar.
   c. Komi í ljós að varúðarsjóðurinn geti ekki staðið við hlutverk sitt, þ.e. ef eign sjóðsins dugir ekki til að styðja þannig við lífeyrisaukasjóð að komist verði hjá skerðingu á greiðslum úr honum, skulu launagreiðendur taka upp viðræður við heildarsamtök opinberra starfsmanna um hvernig við því verði brugðist. Í þeim viðræðum skal lagt mat á hvort þær tryggingafræðilegu forsendur sem byggt er á við ákvörðun á framlagi í lífeyrisaukasjóð, svo sem forsendur varðandi útreikning á lífslíkum, hafi leitt til vanmats á fjárþörf sjóðsins. Verði það niðurstaðan skal brugðist við því þannig að markmið um jafn verðmæt réttindi sjóðfélaga séu tryggð.]1)
   1)L. 127/2016, 7. gr.
[XI.
Starfsmenn, sem eiga eða hefðu átt skylduaðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fyrir 1. júní 2017, skulu eiga rétt til aðildar að A-deild þar til samið hefur verið um lífeyrissjóðsaðild þeirra eða aðildin ákveðin af þar til bærum aðilum. Sama gildir um þá félagsmenn stéttarfélaga sem eiga eða hefðu átt rétt til aðildar að A-deild fyrir 1. júní 2017 án samþykkis einstakra launagreiðenda. Þá skal iðgjald launagreiðenda til A-deildar vegna sjóðfélaga vera 11,5% þar til um annað hefur verið samið í kjarasamningi.]1)
   1)L. 127/2016, 7. gr.
[XII.
Komi til þess í ljósi tryggingafræðilegrar stöðu A-deildar að rétt sé að skerða eða auka réttindi skulu slíkar breytingar ekki taka til þeirra sem eiga réttindi í A-deild og hafa náð 60 ára aldri fyrir gildistöku nýrra samþykkta. Ekki skal nýta höfuðstól varúðarsjóðs í þessu skyni heldur skal árlega gera upp fjárhagsleg áhrif með samningi A-deildar við ríkissjóð.
Ákvæði 1. mgr. tekur einnig til örorku- og makalífeyrisþega sem ekki hafa náð 60 ára aldri fyrir gildistöku nýrra samþykkta.]1)
   1)L. 127/2016, 7. gr.
[XIII.
Auk greiðslu ríkissjóðs á framlagi í lífeyrisaukasjóð greiðir hann eigi síðar en 31. desember 2016 10,418 milljarða kr. til A-deildar LSR til að koma áfallinni stöðu deildarinnar í jafnvægi. Greiðsla framlagsins er bundin því skilyrði að tekin verði upp í A-deild aldurstengd réttindaávinnsla og 67 ára lífeyristökualdur.]1)
   1)L. 127/2016, 7. gr.
[XIV.
Ríkissjóður ber sjálfskuldarábyrgð á öllum skuldbindingum útgefnum af Lánasjóði íslenskra námsmanna sem Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins tekur við sem greiðslu vegna framlaga samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða IX, X og XIII. Ábyrgð ríkissjóðs gildir uns viðkomandi skuldbinding er að fullu efnd. Um ábyrgð samkvæmt þessu ákvæði gilda ekki ákvæði laga nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir.]1)
   1)L. 127/2016, 7. gr.
[XV.
Þeir starfsmenn þjóðkirkjunnar sem eiga aðild að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eiga rétt til áframhaldandi aðildar að sjóðnum með óslitinni réttindaávinnslu meðan þeir gegna störfum hjá þjóðkirkjunni.]1)
   1)L. 153/2019, 21. gr.