Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um yrkisrétt
2000 nr. 58 19. maí
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 26. maí 2000. Breytt með:
L. 72/2003 (tóku gildi 10. apríl 2003).
L. 37/2004 (tóku gildi 26. maí 2004; EES-samningurinn: XVII. viðauki tilskipun 98/44/EB).
L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
L. 101/2020 (tóku gildi 23. júlí 2020).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við matvælaráðherra eða matvælaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr.
Aðili, sem hefur ræktað, eða uppgötvað og þróað, nýtt yrki (afbrigði eða stofn af plöntutegund) eða öðlast rétt hans, yrkishafi, getur samkvæmt lögum þessum öðlast einkarétt til hagnýtingar þess í atvinnuskyni. Réttur til yrkis (yrkisréttur) er veittur á grundvelli umsóknar til [Matvælastofnunar].1) [Matvælastofnun skal hafa aðgang að þekkingu á hugverkarétti og ræktun og kynbótum nytjaplantna.]1)
[Ráðherra]2) fer með framkvæmd laga þessara.
1)L. 101/2020, 11. gr. 2)L. 126/2011, 304. gr.
[1. gr. a.
Lög þessi taka til yrkja allra ættkvísla og tegunda plantna, þ.m.t. blendinga ættkvísla og tegunda.
Í lögum þessum er hugtakið yrki notað um plöntuhópa sömu tegundar eða undirtegundar samkvæmt nákvæmustu þekktu flokkun grasafræðinnar sem, óháð því hvort öllum skilyrðum fyrir vernd samkvæmt lögunum er fullnægt, er unnt:
a. að skilgreina með þeim einkennum sem birta tiltekna arfgerð eða samsetningu arfgerða,
b. að aðgreina frá öðrum flokkum plantna með að minnsta kosti einu af fyrrnefndum einkennum og
c. að líta á sem einingu með tilliti til möguleika til fjölgunar án þess að einkenni þeirra breytist.
Plöntuhópar samanstanda af heilum plöntum eða plöntuhlutum ef með hlutunum má rækta heilar plöntur, hvort tveggja í lögum þessum nefnt yrkishlutar.
Birting eiginleika skv. a-lið 2. mgr. getur verið stöðug eða breytileg milli sams konar stofnþátta yrkis að því tilskildu að breytileiki ráðist einnig af arfgerð eða samvali arfgerða.]1)
1)L. 37/2004, 1. gr.
2. gr.
[Yrkisrétt má veita ef yrki er:
1. greinilega sérstætt, þ.e. ef unnt er að greina það með skýrum hætti frá öðrum yrkjum sem þekkt eru á umsóknardegi, sbr. 2. mgr.,
2. nægilega einsleitt, þ.e. ef afgerandi einkenni þess eru nægilega einsleit með tilliti til þeirrar fjölbreytni sem búast má við miðað við fjölgunaraðferð hverju sinni,
3. stöðugt, þ.e. ef einkenni þess sem máli skipta eru óbreytt eftir endurtekna fjölgun eða ef um er að ræða sérstaka fjölgunarhringrás við lok hverrar slíkrar hringrásar,
4. nýtt, þ.e. ef efniviður til fjölgunar þess eða uppskera af því hefur ekki á umsóknardegi yrkisréttar, með samþykki yrkishafa, verið selt eða boðið til sölu á almennum markaði ellegar með öðrum hætti framselt til hagnýtingar í atvinnuskyni:
a. hér á landi lengur en eitt ár,
b. erlendis lengur en fjögur ár, þó í sex ár sé um tré eða vínvið að ræða.]1)
Yrki telst þekkt ef það hefur verið selt eða boðið til sölu á almennum markaði, er skráð á opinberum lista eða er almennt þekkt með öðrum hætti. Hafi yrki verið lýst í umsókn um yrkisrétt, einkaleyfisumsókn eða umsókn um skráningu á opinberum lista hér á landi eða í öðru ríki telst það þekkt frá umsóknardegi. Þetta gildir þó einungis hafi áðurnefndar umsóknir leitt til samþykktar.
1)L. 37/2004, 2. gr.
II. kafli. Umsókn.
3. gr.
Umsókn um skráningu í yrkisréttarskrá skal skila skriflega til [Matvælastofnunar].1)
Í yrkisumsókn skal vera lýsing á yrki og skal sérstaklega tekið fram hvað skilji það frá öðrum yrkjum. Í umsókn skal vera tillaga um heiti yrkis, nafn upphafsmanns yrkis og heimilisfang. Einnig skal þar greina nafn, kennitölu og heimilisfang umsækjanda.
Sé umsækjandi annar en upphafsmaður skal hann sýna fram á heimild sína til að sækja um yrkisrétt.
Ef umsækjandi er ekki búsettur eða með aðsetur hér á landi eða í einhverju ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið [eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu]2) skal hann hafa umboðsaðila sem búsettur er eða hefur aðsetur hér á landi.
[Matvælastofnun]1) getur krafist þess að umsækjandi veiti innan tilskilins frests nauðsynlegar upplýsingar til meðferðar á umsókn. Enn fremur getur [stofnunin]1) krafist þess að umsækjandi leggi innan tilskilins frests fram gögn og efni til rannsóknar skv. 9. gr.
Umsækjandi skal greiða umsóknargjald 30.000 kr.
1)L. 101/2020, 12. gr. 2)L. 72/2003, 34. gr.
4. gr.
Umsókn, sem telst fullnægjandi, skal þegar við móttöku færð í dagbók [Matvælastofnunar]1) og afrit umsóknar sent umsækjanda með áritun um færslu í dagbókina.
Dagbókin skal vera aðgengileg almenningi, þó ekki upplýsingar um línur sem mynda blendingsyrki og lýsing á þeim hafi umsækjandi óskað þess að þeim verði haldið leyndum.
1)L. 101/2020, 12. gr.
5. gr.
Veiti umsækjandi ekki þær upplýsingar eða leggi fram þau gögn og efni sem [Matvælastofnun]1) hefur krafist skv. 5. mgr. 3. gr. innan tilskilins frests getur [stofnunin]1) fellt umsókn úr dagbók.
1)L. 101/2020, 12. gr.
6. gr.
Frá umsóknardegi hefur umsækjandi rétt til verndar yrkisins fram yfir aðra sem síðar sækja um vernd á sama yrki.
Óski umsækjandi þess getur [Matvælastofnun]1) litið svo á að umsóknin hafi verið móttekin samtímis fyrstu umsókn um rétt til yrkis í einhverju aðildarríki Alþjóðasambandsins um vernd nýrra yrkja (UPOV) hafi hún verið lögð inn á síðustu tólf mánuðum fyrir umsóknardag hérlendis. [Tímabilið reiknast frá innlagnardegi fyrstu umsóknar og skal ekki telja umsóknardag til þess tímabils.]2) Slík beiðni skal koma fram í umsókn og skal leggja fram sönnun fyrir móttöku fyrstu umsóknarinnar innan þriggja mánaða frá umsóknardegi hérlendis. [Yrkishafi hefur frest í tvö ár frá því að forgangsréttartímabilinu lýkur eða sama tíma frá höfnun eða afturköllun umsóknar hafi henni verið hafnað eða hún afturkölluð til að láta [Matvælastofnun]1) í té nauðsynlegar upplýsingar, skjöl eða efni sem þörf er á við rannsókn á umsókninni, sbr. III. kafla.]2)
1)L. 101/2020, 12. gr. 2)L. 37/2004, 3. gr.
7. gr.
Svo fljótt sem unnt er eftir að umsókn hefur verið færð í dagbók skal [Matvælastofnun]1) láta fara fram bráðabirgðarannsókn á því hvort yrki fullnægi skilyrðum verndar.
Telji [stofnunin]1) eftir þá rannsókn að skilyrðunum sé fullnægt birtir hún tilkynningu um umsóknina í Lögbirtingablaði með áskorun til þeirra er hugsanlega eiga hagsmuna að gæta um að andmæla skráningu yrkisins innan tilskilins frests.
Telji [stofnunin]1) hins vegar skilyrðum ekki fullnægt skal umsækjanda veittur frestur til athugasemda. Ef athugasemdir hans breyta fyrri niðurstöðu skal tilkynning um umsóknina birt í Lögbirtingablaði.
1)L. 101/2020, 12. gr.
8. gr.
Ákveði [Matvælastofnun]1) á grundvelli andmæla að afskrifa umsókn úr dagbók og hætta við rannsókn skal birta tilkynningu um það í Lögbirtingablaði.
[Matvælastofnun]1) úrskurðar ekki í málum er varða rétt umsækjanda til yrkis. [Stofnunin]1) skal benda aðilum á að bera megi ágreining undir dómstóla. Sé [stofnuninni]1) tilkynnt um málshöfðun skal árita umsóknina þar að lútandi.
1)L. 101/2020, 12. gr.
III. kafli. Rannsókn og skráning.
9. gr.
Áður en yrki getur öðlast vernd, sbr. þó 21. gr., skal [Matvælastofnun]1) ganga úr skugga um það, með sérstakri rannsókn ef þörf krefur, að yrkið fullnægi skilyrðum fyrir vernd, sbr. 2. gr., og hvort það búi yfir þeim sérstöku eiginleikum sem nefndir eru í umsókn.
Heimilt er að krefja umsækjanda um greiðslu vegna kostnaðar [stofnunarinnar]1) af rannsókn skv. 1. mgr. Slík greiðsla umsækjanda skal þó aldrei vera hærri en 30.000 kr.
1)L. 101/2020, 12. gr.
10. gr.
Teljist yrki fullnægja skilyrðum fyrir vernd skal [Matvælastofnun]1) skrá það í yrkisréttarskrá með samþykktu yrkisheiti, sbr. 11. gr.
[Matvælastofnun]1) getur hafnað að skrá yrki verði umsækjandi eigi innan tilskilins frests við áskorun [stofnunarinnar]1) um að gera tillögu um heiti yrkis eða tillögu um nýtt heiti þess telji [stofnunin]1) fyrirhugað heiti ekki fullnægja settum skilyrðum.
Hafi mál verið höfðað fyrir dómstólum, sbr. 2. mgr. 8. gr., skal færa athugasemd um það í yrkisréttarskrá.
1)L. 101/2020, 12. gr.
11. gr.
Yrki skal auðkenna með samþykktu yrkisheiti og skal heitið haldast og yrkið auðkennt með því, einnig þegar það nýtur ekki lengur verndar.
Ekki er heimilt að nota eingöngu tölustafi sem heiti nema það sé viðtekin venja við að auðkenna yrki af þeirri tegund er um ræðir. Heitið skal ekki vera villandi eða til þess fallið að valda ruglingi um einkenni eða gildi yrkisins, hvert það sé eða um það hver yrkishafinn sé. Það skal frábrugðið öllum heitum sem þegar auðkenna yrki af sömu eða náskyldri tegund.
Í tengslum við yrkisheitið má nota aukheiti.
Í sérstökum tilvikum getur [Matvælastofnun]1) að beiðni yrkishafa heimilað að yrki sé gefið annað heiti en upphaflega var samþykkt.
[Ráðherra]2) er heimilt að setja nánari reglur um yrkisheiti.
1)L. 101/2020, 12. gr. 2)L. 126/2011, 304. gr.
12. gr.
Þegar [Matvælastofnun]1) hefur skráð yrki gefur hún út yrkisréttarskjal sem afhent skal umsækjanda gegn greiðslu 3.000 kr. skráningargjalds. Skjalið gildir í eitt ár en framlengja má gildistíma þess um eitt ár í senn í allt að 25 árum.
Vernd samkvæmt yrkisréttarskjali framlengist með greiðslu árgjalds til [Matvælastofnunar].1) Árgjald fellur í gjalddaga á sama mánaðardegi og yrkisréttarskjal var gefið út á. Árgjald fyrir hvert ár frá 1. gjaldári til 10. gjaldárs er 3.000 kr. Gjald fyrir hvert ár frá 11. ári til 25. árs er 6.000 kr. Gjald fyrir hvert ár frá 26. ári til 30. árs er 9.000 kr.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur [ráðherra]2) sett reglur um lengri gildistíma yrkisréttarskjals tiltekinna tegunda og ættkvísla þannig að yrki njóti verndar allt að 30 árum.
Tilkynningu um skráningu yrkis skal birta í Lögbirtingablaði.
1)L. 101/2020, 12. gr. 2)L. 126/2011, 304. gr.
13. gr.
Eftir skráningu getur [Matvælastofnun]1) haft eftirlit með því að yrkishafi haldi yrkinu nægilega vel við. Innan þess frests sem [stofnunin]1) ákveður skal yrkishafi í þessu skyni láta henni í té nauðsynlegan efnivið til fjölgunar yrkis.
1)L. 101/2020, 12. gr.
14. gr.
[Matvælastofnun]1) skal ógilda veitingu yrkisréttar ef í ljós kemur:
1. að yrki fullnægði ekki á skráningardegi skilyrðum 1. og 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. um að vera sérstætt og nýtt eða
2. að í þeim tilvikum er veiting yrkisréttar byggist að verulegu leyti á upplýsingum og skjölum sem yrkishafi lét í té hafi skilyrðum 2. og 3. tölul. 1. mgr. 2. gr., um að yrki væri nægilega einsleitt og stöðugt, ekki verið fullnægt á skráningardegi,
[3. að yrkisréttur hefur verið veittur þeim sem ekki á rétt til hans nema hann sé yfirfærður til þess sem á slíkan rétt.]2)
[Matvælastofnun]1) getur fellt yrki úr yrkisréttarskránni ef:
1. yrkishafi fer skriflega fram á það við [stofnunina],1)
2. árgjald hefur ekki verið greitt,
3. yrki fullnægir ekki lengur skilyrðum 2. og 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. um að vera nægilega einsleitt og stöðugt eða
4. yrkishafi verður ekki fyrir lok tilskilins frests við áskorun [stofnunarinnar]1) um að:
a. láta [stofnuninni]1) í té nauðsynlegan efnivið til fjölgunar þess vegna eftirlits eftir skráningu eða
b. gera tillögu um nýtt heiti yrkis hafi [stofnunin]1) eftir skráningu þess komist að þeirri niðurstöðu að samþykkt heiti sé ekki í samræmi við reglur [ráðherra].3)
Yrki skal fellt úr yrkisréttarskránni tveimur mánuðum eftir að yrkishafa hefur verið tilkynnt ákvörðun [Matvælastofnunar]1) á sannanlegan hátt nema hann höfði mál fyrir lok frestsins.
1)L. 101/2020, 12. gr. 2)L. 37/2004, 4. gr. 3)L. 126/2011, 304. gr.
15. gr.
Hafi yrki verið fellt úr yrkisréttarskrá verður það eigi skráð að nýju. [Matvælastofnun]1) skal birta tilkynningu þar um í Lögbirtingablaði og tilgreina ástæður.
1)L. 101/2020, 12. gr.
IV. kafli. Yrkisréttur.
16. gr.
[Yrkisréttur nær til þess yrkis sem skráð er samkvæmt lögum þessum. Yrkisréttur gildir einnig um:
a. yrki sem eru í öllum aðalatriðum komin af vernduðu yrki, enda sé hið verndaða yrki ekki sjálft komið af öðru í öllum aðalatriðum,
b. yrki sem ekki verða með vissu greind frá verndaða yrkinu skv. 2. gr.,
c. yrki sem ekki er unnt að framleiða nema með endurtekinni notkun verndaða yrkisins.
Yrki telst í skilningi a-liðar 1. mgr. komið af öðru yrki í öllum aðalatriðum þegar:
a. það er mestmegnis komið af upphafsyrkinu, eða af yrki sem sjálft er mestmegnis komið af upphafsyrkinu, og heldur þeim megineinkennum sem ráðast af arfgerð eða samsetningu arfgerða upphafsyrkisins,
b. það verður með vissu greint frá upphafsyrkinu skv. 2. gr.,
c. það samsvarar, að frátöldum þeim mismun sem felst í aðgerðinni við að fá það fram, upphafsyrkinu í þeim megineinkennum sem ráðast af arfgerð eða samsetningu arfgerða upphafsyrkisins.
Í reglugerð er heimilt að tilgreina mögulegar leiðir til að fá fram yrki skv. 1. og 2. mgr.]1)
1)L. 37/2004, 5. gr.
17. gr.
[Yrkisréttur felur í sér að aðrir en yrkishafi mega ekki án hans samþykkis nýta stofnþætti yrkis eða uppskeru af hinu verndaða yrki með eftirfarandi hætti:
a. framleiða eða fjölga,
b. undirbúa til fjölgunar,
c. bjóða til sölu,
d. markaðssetja eða selja,
e. flytja út,
f. flytja inn,
g. safna birgðum í þeim tilgangi sem greinir í a–f-lið.
Ákvæði 1. mgr. gildir aðeins um uppskeru af yrki sem fengist hefur með hagnýtingu á efniviði til fjölgunar þess hafi yrkishafi ekki:
a. heimilað þá hagnýtingu og
b. haft tök á að nýta réttindi sín skv. 1. mgr.
Heimilt er að kveða á um í reglugerð að í sérstökum tilvikum geti ákvæði 1. mgr. einnig átt við um afurðir sem fengnar eru beint úr uppskeru annarra en yrkishafa. Það á þó aðeins við að afurðirnar hafi verið fengnar með óheimilli notkun á hinu verndaða yrki, enda hafi rétthafinn ekki með góðu móti átt þess kost að neyta réttar síns. Að svo miklu leyti sem ákvæði 1. mgr. gilda um afurðir sem fengnar eru beint úr uppskeru hins verndaða yrkis skulu þær einnig teljast til uppskeru samkvæmt lögum þessum.
Beiting yrkisréttar má ekki brjóta í bága við ákvæði sem sett hafa verið á grundvelli almannaheilla, siðferðis eða almannaöryggis, til verndar heilsu og lífi manna, dýra og plantna, vegna umhverfisverndar, verndar hugverkaréttar í iðnaði eða viðskiptum, eða til að tryggja samkeppni í verslun eða landbúnaðarframleiðslu. Ákvæði þessarar málsgreinar skerða ekki rétt bænda sem kveðið er á um í 18. gr. a.]1)
1)L. 37/2004, 6. gr.
[17. gr. a.
Yrkishafi getur bundið samþykki sitt fyrir nýtingu yrkis skilyrðum, þar á meðal um greiðslu hæfilegs nytjaleyfisgjalds.
Sá sem í atvinnuskyni fjölgar yrki, selur efnivið til fjölgunar þess eða nýtir yrki með öðrum hætti skal veita yrkishafa nauðsynlegar upplýsingar vegna innheimtu nytjaleyfisgjalds.
Þau skilyrði sem yrkishafi setur skv. 1. mgr., m.a. um gjaldtöku, skulu aðeins eiga við um þá notkun og það framboð sem getur í 1. mgr. 17. gr. Skilyrðin skulu vera sanngjörn og allir framleiðendur njóta sambærilegra kjara.]1)
1)L. 37/2004, 7. gr.
18. gr.
Undanþegin yrkisrétti er:
1. notkun í einkaþágu sem tengist ekki viðskiptum,
2. notkun í tilraunum,
3. [notkun til kynbóta, þ.e. til að þróa ný yrki og, nema þegar ákvæði 1. og 2. mgr. 16. gr. eiga við, notkun sem um getur í 1. mgr. 17. gr. þegar um slík ný yrki er að ræða],1)
4. notkun á efniviði …1) yrkis sem yrkishafi, eða einhver í umboði hans, hefur markaðssett á Evrópska efnahagssvæðinu [eða í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu],2) svo fremi notkunin feli ekki í sér:
a. frekari fjölgun yrkisins eða
b. útflutning á efniviði til fjölgunar yrkisins til lands þar sem yrkisvernd nær ekki til þeirrar ættkvíslar eða tegundar sem yrkið er af, nema um sé að ræða útflutning til neyslu.
[Efniviður skv. 1. mgr. merkir:
a. hvers kyns efnivið til fjölgunar, þ.m.t. heilar plöntur og plöntuhluta,
b. uppskeru,
c. allar afurðir sem unnar eru beint úr uppskeru.]1)
1)L. 37/2004, 8. gr. 2)L. 72/2003, 35. gr.
[18. gr. a.
Til að vernda landbúnaðarframleiðslu er bændum heimilt, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 17. gr., að nota uppskeru af eigin landi til ræktunar á yrkjum af tilgreindum tegundum á eigin landi enda sé ekki um að ræða blendingsyrki eða samsett yrki. Með eigin landi er bæði átt við eignarland og land sem bændur hafa umráð yfir til búsetu og landbúnaðar og annars konar ræktunar samkvæmt samningum við landeigendur.
[Ráðherra]1) ákveður í reglugerð hvaða tegundir falla undir ákvæði 1. mgr. og með hvaða skilyrðum.
Óheimilt er að krefja bændur um nytjaleyfisgjald fyrir nýtingu yrkis skv. 1. mgr. ef framleiðsla þeirra á nytjajurtum skv. 2. mgr. fer fram á landi sem ekki getur gefið af sér meira en 92 tonna uppskeru af korntegundum en magn annarra nytjajurta miðast við sömu stærð lands. Öðrum bændum er skylt að greiða yrkishafa nytjaleyfisgjald en [ráðherra]1) getur ákveðið að það skuli vera lægra en greitt er á sama svæði fyrir hagnýtingu fjölgunarefnis af sama yrki.
[Ráðherra]1) setur í reglugerð nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.]2)
1)L. 126/2011, 304. gr. 2)L. 37/2004, 9. gr.
19. gr.
[Matvælastofnun]1) skal samkvæmt beiðni kanna hvort þau skilyrði sem yrkishafi hefur sett fyrir samþykki sínu skv. [1. mgr. 17. gr. a samræmist 3. mgr. sömu greinar].2)
1)L. 101/2020, 12. gr. 2)L. 37/2004, 10. gr.
20. gr.
[Hafi yrkishafi ekki tryggt nægilegt framboð af efniviði til fjölgunar verndaðs yrkis hér á landi á sanngjörnum kjörum og í þeim mæli og með þeim hætti sem nauðsynlegt er til að tryggja matvælaframleiðslu í landinu og aðra mikilvæga almannahagsmuni getur sá sem vill hagnýta yrkið farið fram á nauðungarleyfi, fyrir dómstólum, svo framarlega sem ekki eru haldbær rök fyrir vanrækslu yrkishafa.
Einkaleyfishafi sem ekki getur nýtt uppfinningu sína án þess að brjóta á eldri yrkisrétti getur gegn sanngjörnu gjaldi farið fram á nauðungarleyfi til að hagnýta verndaða yrkið. Nauðungarleyfi skal aðeins veita ef einkaleyfishafi sýnir fram á að uppfinningin sem tekur til yrkisins sé tæknilega mikilvægt framfaraspor og hafi verulegan ábata í för með sér í samanburði við verndaða yrkið.
Hafi yrkishafi fengið nauðungarleyfi til að nýta einkaleyfisverndaða uppfinningu skv. 1. mgr. 46. gr. a laga um einkaleyfi, nr. 17/1991, hefur einkaleyfishafi rétt á að fá nauðungarleyfi með sanngjörnum skilmálum til að hagnýta verndaða yrkið.
Ákvæði 49. og 50. gr. laga um einkaleyfi, nr. 17/1991, gilda eftir því sem við á um nauðungarleyfi samkvæmt þessari grein. Dómstóll getur skyldað yrkishafa til að leggja fram nauðsynlegan efnivið til fjölgunar yrkisins til nauðungarleyfishafa.]1)
1)L. 37/2004, 11. gr.
21. gr.
Frá umsóknardegi til skráningar í yrkisréttarskrá getur yrkishafi sett skilyrði skv. [1. mgr. 17. gr. a],1) enda tilkynni hann [Matvælastofnun]2) það. Tímabil verndar skv. 12. gr. gildir þá frá skráningu þeirrar tilkynningar í dagbók [Matvælastofnunar].2) Ákvæði 11. og 20. gr. gilda á sama hátt á umsóknartíma.
Ef ræktandi greiðir nytjaleyfisgjald áður en umsókn er afgreidd skal gjaldið lagt inn á geymslufjárreikning á nafni yrkishafa. Fjárhæðin verður laus sé yrkið skráð. Ef umsókn er hafnað skal hún endurgreidd með vöxtum.
Sé umsókn um vernd yrkis dregin til baka eða henni hafnað eru afnot yrkisins öllum frjáls til fjölgunar. Ræktandi, sem hefur notað yrkið á umsóknartímanum, fær sömu stöðu og við notkun óverndaðs yrkis.
1)L. 37/2004, 12. gr. 2)L. 101/2020, 12. gr.
V. kafli. [Viðurlög o.fl.]1)
1)L. 101/2020, 14. gr.
22. gr. …1)
1)L. 101/2020, 13. gr.
23. gr. …1)
1)L. 101/2020, 13. gr.
24. gr.
[Hafi yrkishafi hvorki búsetu eða aðsetur hér á landi, í ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu er unnt að beina erindum til umboðsmanns hans.]1) Náist ekki til yrkishafa eða umboðsmanns hans skal fara eftir lögum um meðferð einkamála og lögum um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, eftir því sem við á.
1)L. 72/2003, 36. gr.
25. gr.
Sá sem af ásetningi skerðir yrkisrétt samkvæmt lögum þessum eða reglum á grundvelli þeirra skal sæta sektum.
Nú er brotið framið af lögaðila og er þá heimilt að dæma hann í fésekt.
26. gr.
Sá sem af ásetningi eða gáleysi skerðir yrkisrétt skal greiða hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu yrkis og að auki skaðabætur fyrir annað tjón sem skerðingin hefur haft í för með sér.
VI. kafli. Gildistaka o.fl.
27. gr.
[Ráðherra]1) getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
1)L. 126/2011, 304. gr.
28. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.