Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um einkaleyfi

1991 nr. 17 20. mars


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. janúar 1992, sjá þó 75. gr. Breytt með: L. 92/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992 nema 103. gr. sem tók gildi 9. jan. 1992). L. 67/1993 (tóku gildi 1. jan. 1994; EES-samningurinn: XVII. viðauki tilskipun 89/104/EBE). L. 36/1996 (tóku gildi 1. júní 1996 nema 22. gr. sem tók gildi 2. jan. 1998; EES-samningurinn: XVII. viðauki reglugerð 1768/92). L. 91/1996 (tóku gildi 25. júní 1996). L. 132/1997 (tóku gildi 2. jan. 1998; EES-samningurinn: XVII. viðauki reglugerð 1610/96). L. 82/1998 (tóku gildi 1. okt. 1998). L. 28/2002 (tóku gildi 11. apríl 2002). L. 72/2003 (tóku gildi 10. apríl 2003). L. 22/2004 (tóku gildi 11. maí 2004; EES-samningurinn: XVII. viðauki tilskipun 98/44/EB). L. 53/2004 (tóku gildi 14. júní 2004 nema a–m-liður og o–r-liður 9. gr. og 10. gr. sem tóku gildi 1. nóv. 2004 skv. augl. B 826/2004 og 5. og 7. gr. og n-liður 9. gr. sem tóku gildi 13. des. 2007 skv. augl. B 1019/2007). L. 54/2004 (tóku gildi 14. júní 2004). L. 12/2005 (tóku gildi 22. mars 2005; EES-samningurinn: II. viðauki tilskipun 2001/83/EB). L. 127/2005 (tóku gildi 30. des. 2005). L. 108/2006 (tóku gildi 1. nóv. 2006 skv. augl. C 1/2006). L. 167/2007 (tóku gildi 1. jan. 2008). L. 98/2009 (tóku gildi 1. okt. 2009 nema 69. og 70. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2010). L. 25/2011 (tóku gildi 6. apríl 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 40/2018 (tóku gildi 1. júní 2018; um lagaskil sjá 13. gr.). L. 32/2019 (tóku gildi 1. júlí 2019). L. 57/2021 (tóku gildi 1. júlí 2021).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eða háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr.
Rétt til að fá einkaleyfi fyrir uppfinningu samkvæmt lögum þessum hefur uppfinningamaður eða sá sem hefur öðlast rétt hans. Einkaleyfi er veitt eftir umsókn fyrir uppfinningu sem hagnýta má í atvinnulífi. Leyfið veitir einkarétt til að hagnýta uppfinninguna í atvinnuskyni. [Uppfinningar á öllum tæknisviðum eru einkaleyfishæfar.]1)
Helstu nýjungar, sem ekki verða taldar til uppfinninga, eru þær sem eingöngu varða:
   1. Uppgötvanir, vísindakenningar og stærðfræðiaðferðir.
   2. Listræn verk.
   3. Skipulag, reglur eða aðferðir við hugarstarfsemi, leiki eða atvinnustarfsemi eða forrit fyrir tölvur.
   4. Miðlun upplýsinga.
[Óheimilt er að veita einkaleyfi fyrir uppfinningum sem taka til aðferða við handlækningar, endurhæfingu eða sjúkdómsgreiningu á mönnum eða dýrum. Þetta er þó ekki því til fyrirstöðu að veita megi einkaleyfi fyrir tækjum og afurðum til nota við þessar aðferðir, þar á meðal fyrir efnum og efnablöndum.
Einkaleyfi er ekki veitt fyrir plöntu- eða dýraafbrigðum. Einkaleyfi er þó unnt að veita fyrir uppfinningum sem taka til plantna eða dýra ef útfærsla uppfinningar er ekki takmörkuð af tæknilegum ástæðum við tiltekið plöntu- eða dýraafbrigði. Með plöntuafbrigði í þessum lögum er átt við plöntuafbrigði eins og það er skilgreint í lögum um yrkisrétt, nr. 58/2000.
Einkaleyfi er ekki veitt fyrir aðferð, sem er aðallega líffræðileg, við að framleiða plöntur eða dýr. Með aðferð, sem er aðallega líffræðileg, er í lögum þessum átt við aðferð sem í heild byggist á náttúrulegum fyrirbærum eins og víxlun eða vali. Þó má veita einkaleyfi fyrir aðferð á sviði örverufræði eða öðrum tæknilegum aðferðum og afurðum slíkra aðferða. Með aðferð á sviði örverufræði er átt við sérhverja aðferð sem notast við örveruefni eða framleiðir örveruefni.
Uppfinning getur verið einkaleyfishæf þó að hún varði afurð sem samanstendur af eða hefur að geyma líffræðilegt efni, eða varðar aðferð við framleiðslu, vinnslu eða notkun líffræðilegs efnis. Líffræðilegt efni, sem hefur verið einangrað úr náttúrunni eða orðið til með tæknilegri aðferð, getur talist til uppfinningar, jafnvel þó að það fyrirfinnist í náttúrunni. Með líffræðilegu efni í lögum þessum er átt við efni sem hefur að geyma erfðaupplýsingar og getur fjölgað sér sjálft eða unnt er að fjölga í líffræðikerfi.]1)
   1)L. 22/2004, 1. gr.
[1. gr. a.
Mannslíkaminn á ýmsum myndunar- eða þroskastigum og hreinar uppgötvanir á einhverjum hluta hans, svo sem kirnaröðum eða hlutum kirnaraða gena, geta ekki talist til einkaleyfishæfra uppfinninga.
Þrátt fyrir 1. mgr. getur hluti mannslíkama, sem er einangraður frá honum eða framleiddur á annan hátt með tæknilegri aðferð, þar með talin kirnaröð eða hluti kirnaraðar gens, talist einkaleyfishæf uppfinning þó að bygging slíks hluta sé eins og bygging náttúrulegs hluta.]1)
   1)L. 22/2004, 2. gr.
[1. gr. b.
Einkaleyfi er ekki veitt fyrir uppfinningu ef hagnýting hennar í atvinnuskyni stríðir gegn allsherjarreglu eða siðgæði.
Hagnýting uppfinningar telst ekki stríða gegn allsherjarreglu eða siðgæði af þeirri ástæðu einni að hún sé bönnuð með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.
Ákvæði 1. mgr. leiðir m.a. til þess að ekki er heimilt að veita einkaleyfi fyrir:
   1. aðferðum til að einrækta menn,
   2. aðferðum til að breyta erfðaeiginleikum kynfrumna manna,
   3. notkun fósturvísa í iðnaði eða í viðskiptalegum tilgangi og
   4. aðferðum til að breyta erfðaeiginleikum dýra sem eru líklegar til að valda þeim þjáningu án þess að verulegur læknisfræðilegur ávinningur sé af þeim fyrir menn eða dýr, sem og dýrum sem verða til með þessum aðferðum.]1)
   1)L. 22/2004, 2. gr.
2. gr.
Einkaleyfi verður einungis veitt fyrir uppfinningum sem eru nýjar með tilliti til þess sem þekkt er fyrir umsóknardag og eru að auki frábrugðnar því í verulegum atriðum.
Það telst þekkt sem almennur aðgangur er að í rituðu máli, fyrirlestrum, með hagnýtingu eða á annan hátt. Einnig telst efni einkaleyfisumsóknar, sem lögð hefur verið inn hér á landi fyrir umsóknardag annarrar umsóknar, þekkt ef aðgangur verður almennur að fyrri umsókninni samkvæmt reglum 22. gr. Skilyrðið í 1. mgr. um að uppfinningin sé í verulegum atriðum frábrugðin því sem þekkt er gildir þó ekki gagnvart efni slíkrar umsóknar.
Umsóknir, sem um er fjallað í III. kafla, skulu í sérstökum tilvikum hafa sömu áhrif hér á landi og um er rætt í 2. mgr., sbr. 29. og 38. gr.
Skilyrði í 1. mgr. um að uppfinningar skuli vera nýjar er ekki því til fyrirstöðu að veitt verði einkaleyfi fyrir þekktu efni eða efnablöndum til notkunar við aðferðir þær sem nefndar eru í 3. mgr. 1. gr. svo fremi sem efnið eða efnablöndurnar eru ekki þekktar við einhverjar þessara aðferða.
[Þá eru skilyrði 1. mgr. ekki því til fyrirstöðu að veitt verði einkaleyfi fyrir þekktu efni eða efnablöndum til tiltekinnar notkunar við aðferðir þær sem nefndar eru í 3. mgr. 1. gr. svo framarlega sem slík notkun er ekki þekkt.]1)
Einkaleyfi má veita fyrir uppfinningu þótt hún hafi orðið almenningi aðgengileg innan sex mánaða fyrir umsóknardag þegar það má rekja til:
   1. augljósrar misbeitingar gagnvart umsækjanda eða einhvers sem hann sækir rétt sinn til eða
   2. að umsækjandi eða einhver, sem hann sækir rétt sinn til, hafi sýnt uppfinninguna á opinberri eða opinberlega viðurkenndri alþjóðlegri sýningu samkvæmt sáttmála um alþjóðlegar sýningar sem gerður var í París 22. nóvember 1928.
   1)L. 53/2004, 1. gr. Breytingin gildir um einkaleyfisumsóknir þar sem umsóknardagur hefur verið ákvarðaður fyrir 14. júní 2004, sem og einkaleyfi sem veitt voru fyrir 14. júní 2004, sbr. 11. gr. s.l.
3. gr.
Einkaréttur sá, sem menn öðlast með einkaleyfi, felur það í sér að aðrir en einkaleyfishafi mega ekki án samþykkis hans hagnýta sér uppfinninguna með því að:
   1. framleiða, bjóða til sölu, setja á markað, nota eða flytja inn eða hafa í fórum sínum í þeim tilgangi tæki eða aðrar afurðir sem veitt hefur verið einkaleyfi fyrir eða
   2. nota aðferð sem nýtur einkaleyfisverndar, eða bjóða hana til notkunar hér á landi, ef sá sem býður fram aðferðina veit að hana má ekki nota án samþykkis einkaleyfishafa eða slíkt má vera ljóst af aðstæðum eða
   3. bjóða, setja á markað eða nota afurð, sem framleidd er með aðferð sem vernduð er með einkaleyfi, eða flytja inn, eiga eða hafa slíka afurð í fórum sínum í ofangreindum tilgangi.
Í einkaréttinum felst einnig að aðrir en einkaleyfishafi mega ekki án hans samþykkis hagnýta sér uppfinninguna með því að afhenda eða bjóða þeim sem ekki hafa heimild til að nota uppfinninguna tilföng til að nota hana hér á landi. Þetta á við ef tilföngin varða verulegan þátt uppfinningar og sá sem lætur þau af hendi eða tilboðsgjafinn veit að þau henta og eru ætluð til slíkra nota eða slíkt er ljóst af aðstæðum. Sé tilfang almenn verslunarvara gildir þetta þó því aðeins að sá sem afhendir eða býðst til að afhenda það hvetji móttakandann til að hafa þann verknað í frammi sem nefndur er í 1. mgr. Við beitingu ákvæða 1. og 2. málsl. þessarar málsgreinar verður að líta svo á að þeir, sem fara að með þeim hætti sem nefndur er í 1., 3. og 4. tölul. 3. mgr., hafi ekki rétt til að notfæra sér uppfinninguna.
Einkaréttur tekur ekki til:
   1. athafna sem ekki tengjast atvinnustarfsemi,
   2. [hagnýtingar á framleiðsluafurð sem nýtur einkaleyfisverndar og sett er á markað á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum af einkaleyfishafa eða með samþykki hans],1)
   3. tilrauna með efni uppfinningar, [m.a. rannsókna og prófana og annarra tengdra ráðstafana sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að sækja um markaðsleyfi fyrir t.d. samheitalyf og endurbætt lyfjaform],2)
   4. tilreiðslu lyfja í lyfjabúð samkvæmt forskrift frá lækni í einstökum tilvikum eða ráðstöfunar lyfs sem þannig er tilreitt.
   1)L. 108/2006, 32. gr. 2)L. 12/2005, 1. gr.
[3. gr. a.
Einkaleyfi á líffræðilegu efni, sem vegna uppfinningarinnar hefur tiltekna eiginleika, nær til sérhvers líffræðilegs efnis sem leitt er af því efni með fjölgun eða fjölföldun í sama eða breyttu formi og hefur sömu eiginleika.
Einkaleyfi á aðferð við að framleiða líffræðilegt efni, sem vegna uppfinningarinnar hefur tiltekna eiginleika, nær til líffræðilegs efnis sem er framleitt beint með þeirri aðferð, svo og til sérhvers annars líffræðilegs efnis sem leitt er af líffræðilega efninu, sem var framleitt beint, með fjölgun eða fjölföldun í sama eða breyttu formi, og hefur sömu eiginleika.
Einkaleyfi á afurð, sem hefur að geyma eða samanstendur af erfðaupplýsingum, nær til allra efna sem afurðin er hluti af og innihalda erfðaupplýsingarnar sem gegna þar hlutverki sínu, sbr. þó 1. gr. a.
Einkaleyfi skv. 1.–3. mgr. nær þó ekki til líffræðilegs efnis sem fengið er með fjölgun eða fjölföldun líffræðilegs efnis sem hefur verið [markaðssett á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum]1) af einkaleyfishafa eða með hans samþykki ef fjölgunin eða fjölföldunin er nauðsynlegur liður í þeirri notkun sem líffræðilega efnið var markaðssett fyrir, að því tilskildu að efnið, sem fæst, verði ekki notað til frekari fjölgunar eða fjölföldunar.]2)
   1)L. 108/2006, 33. gr. 2)L. 22/2004, 3. gr.
[3. gr. b.
Þrátt fyrir ákvæði 1.–3. mgr. 3. gr. a má líta á sölu eða önnur viðskipti við bændur, af hálfu einkaleyfishafa eða með hans samþykki, með efnivið til fjölgunar plantna til notkunar í landbúnaði sem samþykki fyrir því að þeir noti sjálfir uppskeru sína til fjölgunar eða fjölföldunar á eigin landi. Umfang og skilyrði fyrir þessari undanþágu skulu samræmast ákvæðum laga um yrkisrétt, nr. 58/2000, með síðari breytingum, og reglugerð á grundvelli þeirra.
Þrátt fyrir ákvæði 1.–3. mgr. 3. gr. a má líta á sölu eða önnur viðskipti við bændur, af hálfu einkaleyfishafa eða með hans samþykki, með búfé til undaneldis eða annan efnivið til fjölgunar dýra sem samþykki fyrir því að þeir hafi leyfi til að nota í landbúnaði búféð sem verndað er. Þetta felur m.a. í sér að bændur geta notað dýr eða annan efnivið til fjölgunar dýra í landbúnaðarstarfsemi sinni en mega ekki selja dýrin eða efniviðinn sem lið í fjölgunarstarfsemi í atvinnuskyni eða með slíkt að markmiði. [Ráðherra]1) setur reglugerð um umfang og skilyrði fyrir nýtingu bænda á slíkum uppfinningum sem njóta einkaleyfisverndar.]2)
   1)L. 126/2011, 151. gr. 2)L. 22/2004, 3. gr.
4. gr.
Hagnýti einhver sér uppfinningu í atvinnuskyni hér á landi þegar annar leggur inn einkaleyfisumsókn um hana má hinn fyrrnefndi halda þeirri hagnýtingu áfram með sem líkustum hætti þrátt fyrir veitt einkaleyfi, svo fremi að hún sé ekki augljós misbeiting gagnvart umsækjanda eða einhverjum sem hann sækir rétt sinn til. Á sama hátt er hagnýting heimil þeim sem gert hafði verulegar ráðstafanir til að hagnýta uppfinninguna í atvinnuskyni hér á landi.
Aðilaskipti að rétti skv. l. mgr. geta aðeins orðið í tengslum við aðilaskipti að þeim atvinnurekstri sem rétturinn á uppruna sinn í eða starfsemi þar sem notkun hans var áformuð.
5. gr.
Einkaleyfi hindrar ekki að vernduð uppfinning sé hagnýtt af öðrum en einkaleyfishafa við notkun erlends ökutækis, skips eða loftfars þegar viðkomandi samgöngutæki er statt hér um stundarsakir eða af tilviljun.
[Ráðherra]1) getur ákveðið að þrátt fyrir veitt einkaleyfi megi flytja inn varahluti og annað tilheyrandi loftförum og nota hér við viðgerðir á loftförum sem skráð eru í öðru ríki ef það ríki veitir íslenskum loftförum sams konar réttindi.
   1)L. 98/2009, 12. gr.
6. gr.
Nú er sótt um einkaleyfi fyrir uppfinningu sem umsækjandi eða einhver, sem hann sækir rétt sinn til, hefur á síðustu 12 mánuðum fyrir umsóknardag lýst í annarri umsókn um einkaleyfi hér á landi eða í annarri umsókn um einkaleyfi, uppfinningarskírteini eða í umsókn um smáeinkaleyfi í öðru landi sem er aðili að Parísarsáttmálanum frá 20. mars 1883 um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar. Skal þá litið svo á að seinni umsóknin hafi verið lögð inn samtímis hinni fyrri að því er varðar efni 1., 2. og 4. mgr. 2. gr. svo og 4. gr., enda leggi umsækjandi fram kröfu þar að lútandi. [[Ráðherra]1) getur ákveðið að umsóknir, sem lagðar eru inn í ríkjum sem ekki eru aðilar að Parísarsáttmálanum, geti orðið grundvöllur forgangsréttar samkvæmt þessari grein.]2)
3)
   1)L. 98/2009, 12. gr. 2)L. 36/1996, 1. gr. 3)L. 36/1996, 2. gr.

II. kafli. Einkaleyfisumsóknir og meðferð þeirra.
7. gr.
Lög þessi falla undir [ráðuneytið].1) [Á vegum ráðuneytisins er starfrækt skrifstofa hugverkaréttinda, Hugverkastofan, sem fer með framkvæmd laganna.]2) Með einkaleyfayfirvöldum í lögum þessum er átt við þá skrifstofu nema annað sé tekið fram.
[Ráðherra]1) skipar áfrýjunarnefnd í einkaleyfamálum. Nefndin úrskurðar í málum sem til hennar verður skotið og varða ákvarðanir einkaleyfayfirvalda, sbr. 25. gr. og 67. gr. þessara laga. Í reglugerð verður nánar kveðið á um nefndina.
   1)L. 126/2011, 151. gr. 2)L. 32/2019, 1. gr.
8. gr.
Umsókn um einkaleyfi skal skila skriflega til einkaleyfayfirvaldanna eða, ef um er að ræða tilvik sem greinir í III. kafla, til einkaleyfayfirvalda í erlendu ríki eða alþjóðastofnunar.
Einkaleyfisumsókn skal hafa að geyma lýsingu á uppfinningunni ásamt teikningum, sé þeirra þörf, og greinargóða skilgreiningu á því sem krafist er einkaleyfis fyrir (einkaleyfiskröfur). Lýsingin skal vera svo skýr að fagmaður geti á grundvelli hennar útfært uppfinninguna. [Ef uppfinningin varðar eða við hana þarf að nota líffræðilegt efni telst henni ekki nægilega vel lýst nema skilyrði 6. mgr. séu uppfyllt.]1)
Umsókn skal hafa að geyma ágrip af lýsingu og einkaleyfiskröfum. Ágripinu er eingöngu ætlað að veita tæknilegar upplýsingar um uppfinninguna en hefur ekki þýðingu í öðru sambandi.
[Nafn uppfinningamanns skal tilgreint í umsókn. Sé umsækjandi annar en uppfinningamaður skal koma fram í umsókn hvernig umsækjandi öðlaðist rétt til uppfinningar. Einkaleyfayfirvöld geta krafist gagna sem sanna rétt umsækjanda til uppfinningar.]1)
Umsækjandi skal greiða tilskilið umsóknargjald. Fyrir einkaleyfisumsókn skal einnig greiða tilskilið árgjald fyrir hvert gjaldár sem byrjar að líða áður en endanleg ákvörðun er tekin um umsókn. Gjaldár samkvæmt lögum þessum er 12 mánuðir og reiknast í fyrsta skipti frá umsóknardegi, en eftir það frá tilsvarandi degi á almanaksárinu.
[Ef við uppfinninguna þarf að nota líffræðilegt efni sem hvorki er aðgengilegt almenningi né unnt er að lýsa í umsókn þannig að fagmaður geti á grundvelli hennar útfært uppfinninguna skal sýni af líffræðilega efninu lagt inn til varðveislu í síðasta lagi á umsóknardegi. Sýnið skal þaðan í frá varðveita stöðugt þannig að hver sá sem heimild hefur samkvæmt lögum þessum geti fengið afhent sýni af líffræðilega efninu hér á landi. Í reglugerð skal kveðið á um hvar slík varðveisla sé heimil.
Ef varðveitt líffræðilegt efni verður óvirkt eða ekki er af öðrum ástæðum unnt að láta í té sýni af því má skipta um það með sýni af sama stofni innan tilskilins tíma og að öðru leyti í samræmi við ákvæði í reglugerð. Í slíkum tilvikum telst nýja varðveislan hefjast sama dag og hin fyrri.]1)
   1)L. 22/2004, 4. gr.
[8. gr. a.
[Hugverkastofan]1) ákvarðar umsóknardag umsóknar þegar:
   1. telja má af umsóknargögnum að umsóknin sé um einkaleyfi,
   2. af umsóknargögnum má ráða hver umsækjandi sé og hvar unnt sé að hafa samband við hann og
   3. a.m.k. eitt eftirtalinna atriða er í umsóknargögnum:
   a. lýsing uppfinningar,
   b. teikningar eða
   c. tilvísun til fyrri umsóknar.
Ef skilyrði 1. mgr. fyrir ákvörðun umsóknardags eru ekki uppfyllt skulu einkaleyfayfirvöld gefa umsækjanda tveggja mánaða frest til að bæta þar úr. Bæti umsækjandi úr þeim ágöllum innan frestsins miðast umsóknardagur við þann dag þegar lagfæringar bárust [Hugverkastofunni].1) Ef ekki er bætt úr ágöllum innan frestsins er litið svo á að umsókn hafi ekki verið lögð inn.
Í reglugerð, sem [ráðherra]2) skal setja, er kveðið nánar á um ákvörðun umsóknardags.]3)
   1)L. 32/2019, 1. gr. 2)L. 98/2009, 12. gr. 3)L. 53/2004, 2. gr. Ákvæðið gildir um einkaleyfisumsóknir þar sem umsóknardagur hefur verið ákvarðaður fyrir 14. júní 2004, sem og einkaleyfi sem veitt voru fyrir 14. júní 2004, sbr. 11. gr. s.l.
9. gr.
Að beiðni umsækjanda og gegn greiðslu tilskilinna gjalda skulu einkaleyfayfirvöld, í samræmi við nánari ákvæði í reglugerð, láta rannsaka nýnæmi uppfinningarinnar hjá alþjóðlegri nýnæmisrannsóknastofnun, sbr. ákvæði 5. mgr. 15. gr. alþjóðasamstarfssáttmálans um einkaleyfi (PCT) sem gerður var í Washington 19. júní 1970.
10. gr.
Í einni og sömu umsókn má ekki sækja um einkaleyfi fyrir tveimur eða fleiri óskyldum uppfinningum.
11. gr.
[Ef sótt er um einkaleyfi fyrir uppfinningu sem felst í eldri einkaleyfisumsókn og sú umsókn hefur ekki hlotið endanlega afgreiðslu getur umsækjandi óskað eftir að hluta umsóknina í fleiri sjálfstæðar umsóknir gegn greiðslu tilskilins gjalds. Að beiðni umsækjanda skal litið svo á að síðari umsóknir hafi verið lagðar inn samtímis því að grunngögn sem fólu í sér uppfinninguna bárust einkaleyfayfirvöldum.
Gegn tilskildu gjaldi er umsækjanda heimilt að fella efni úr umsókn sem ekki hefur hlotið endanlega afgreiðslu hafi efni nýrrar umsóknar orðið til vegna viðbótar við gögn frumumsóknar.
Í reglugerð skal nánar kveðið á um skilyrði fyrir hlutun umsókna og úrfellingu efnis úr umsókn.]1)
   1)L. 40/2018, 1. gr.
12. gr.
[Hafi umsækjandi ekki heimilisfesti hér á landi skal hann hafa [umboðsmann búsettan á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum]1) sem getur komið fram fyrir hans hönd í öllu því er varðar umsóknina. Nafn og heimilisfang umboðsmanns skal fært í einkaleyfaskrá.]2)
   1)L. 108/2006, 34. gr. 2)L. 28/2002, 1. gr.
13. gr.
[Umsókn um einkaleyfi má ekki breyta á þann hátt að sótt sé um einkaleyfi fyrir einhverju því sem ekki kom fram í umsókninni þegar hún var lögð inn.]1)
   1)L. 36/1996, 3. gr.
14. gr.1)
   1)L. 36/1996, 4. gr.
15. gr.
Hafi umsækjandi ekki farið að settum reglum um umsóknir eða einkaleyfayfirvöld telja af öðrum ástæðum að eitthvað sé því til fyrirstöðu að umsókn verði samþykkt skal umsækjanda tilkynnt það og honum gefinn kostur á að tala sínu máli eða bæta umsóknina innan ákveðins frests. Einkaleyfayfirvöld geta þó án samráðs við umsækjanda gert þær breytingar á ágripi umsóknarinnar sem þau telja nauðsynlegar.
Ef umsækjandi hvorki tjáir sig um málið né gerir nauðsynlegar ráðstafanir til að bæta umsóknina innan þess frests sem einkaleyfayfirvöld setja skal hún afskrifuð. Tekið skal fram í tilkynningu skv. 1. mgr. að svo verði gert.
Einkaleyfisumsókn verður þó tekin til meðferðar á ný ef umsækjandi tjáir sig um málið eða bætir umsóknina innan fjögurra mánaða frá því að hinn tiltekni frestur rann út, enda greiði hann tilskilið endurupptökugjald.
Ef árgjald skv. 8., 41. og 42. gr. er ekki greitt verður umsóknin afskrifuð án undanfarandi tilkynningar. Umsókn, sem hefur af þessum ástæðum verið afskrifuð, verður ekki tekin til meðferðar að nýju.
16. gr.
Telji einkaleyfayfirvöld, að fengnu svari umsækjanda, enn eitthvað mæla á móti því að umsóknin verði samþykkt og hafi umsækjandi haft möguleika á því að tjá sig um það atriði skal hafna umsókninni nema einkaleyfayfirvöld telji ástæðu til að gefa umsækjanda að nýju kost á að tala máli sínu eða bæta umsóknina skv. 1. mgr. 15. gr.
17. gr.
Staðhæfi einhver við einkaleyfayfirvöld að hann, en ekki umsækjandi, sé rétthafi uppfinningarinnar geta einkaleyfayfirvöld, ef þau telja vafa leika á í þessum efnum, beint þeim tilmælum til viðkomandi að hann höfði mál til staðfestingar kröfu sinni innan tiltekins frests. Ef viðkomandi verður ekki við tilmælunum geta einkaleyfayfirvöld litið fram hjá staðhæfingu hans við afgreiðslu einkaleyfisumsóknarinnar. Þessa skal getið í tilmælunum.
Ef höfðað er mál fyrir dómstólum um rétt til uppfinningar sem sótt er um einkaleyfi fyrir má fresta frekari meðferð einkaleyfisumsóknarinnar þar til málinu er endanlega lokið.
18. gr.
Færi einhver sönnur á að hann, en ekki umsækjandi, eigi réttinn til uppfinningar skulu einkaleyfayfirvöld skrá umsóknina á hans nafn, enda setji viðkomandi fram kröfu um það. Sá sem fær einkaleyfisumsókn skráða á sitt nafn með þessum hætti skal greiða umsóknargjald að nýju.
Komi fram krafa um yfirfærslu einkaleyfisumsóknar skv. 1. mgr. má ekki afskrifa, hafna eða samþykkja umsóknina fyrr en tekin hefur verið endanleg afstaða til kröfunnar.
19. gr.
[[Þegar umsókn er í samræmi við settar reglur og ekkert er því til fyrirstöðu að veita einkaleyfi skal [Hugverkastofan]1) óska eftir samþykki umsækjanda fyrir texta væntanlegs einkaleyfis. Þegar samþykki umsækjanda á texta væntanlegs einkaleyfis liggur fyrir er honum tilkynnt að unnt sé að veita einkaleyfi gegn tilskildu gjaldi fyrir útgáfu. Umsækjandi getur óskað eftir því að texti veitta einkaleyfisins sé á ensku. Verði einkaleyfi veitt með enskum texta skulu einkaleyfiskröfur fylgja í íslenskri þýðingu.]2)
Eftir að einkaleyfayfirvöld hafa sent tilkynningu skv. 1. mgr. er ekki heimilt að breyta einkaleyfiskröfum þannig að umfang verndar samkvæmt einkaleyfinu verði víðtækara.
Greiða skal útgáfugjald innan tveggja mánaða frá tilkynningu einkaleyfayfirvalda skv. 1. mgr. Sé gjaldið ekki greitt skal umsóknin afskrifuð. Umsóknin verður þó tekin til meðferðar að nýju ef umsækjandi greiðir útgáfugjaldið og tilskilið endurupptökugjald innan fjögurra mánaða frá því að frestur rann út.
Uppfinningamaður, sem sjálfur sækir um einkaleyfi, getur, innan þess frests sem um ræðir í 3. mgr., farið fram á að hann verði undanþeginn greiðslu á útgáfugjaldi. Einkaleyfayfirvöld geta orðið við slíkri beiðni ef telja má að umsækjandi eigi í verulegum erfiðleikum með að greiða gjaldið. Ef slíkri beiðni er synjað telst greiðsla, sem innt er af hendi innan tveggja mánaða frá synjun, vera greidd á réttum tíma.]3)
   1)L. 32/2019, 1. gr. 2)L. 40/2018, 2. gr. 3)L. 36/1996, 5. gr.
20. gr.
[Þegar skilyrðum 19. gr. er fullnægt skulu einkaleyfayfirvöld veita einkaleyfi og útbúa [einkaleyfisskjal].1) Jafnframt skal auglýsa veitingu einkaleyfisins.
Frá þeim tíma sem veiting einkaleyfis er auglýst skal vera hægt að fá hjá einkaleyfayfirvöldum eintök af lýsingu, einkaleyfiskröfum og ágripi þess. Þar skal koma fram hver sé uppfinningamaður og umsækjandi.
[Þegar einkaleyfi hefur verið veitt á ensku skal íslensk þýðing á kröfum samsvara enska textanum svo skýrt sé. Einkaleyfisverndin nær aðeins til þess sem tilgreint er í báðum textunum. Í málum varðandi takmörkun eða gildi einkaleyfis sem veitt hefur verið á ensku verður ákvörðun byggð á því tungumáli sem ráðandi var við meðferð umsóknar og kröfum á ensku.
Einkaleyfishafa er heimilt að leggja fram leiðrétta íslenska þýðingu á kröfum einkaleyfis gegn greiðslu tilskilins gjalds. Kemur sú þýðing í stað þeirrar sem áður var afhent. Þegar leiðrétting hefur verið afhent og tilskilið gjald greitt er einkaleyfið endurútgefið og auglýsing þess efnis birt í ELS-tíðindum.
Leiðrétt íslensk þýðing skv. 4. mgr. hefur ekki áhrif á áframhaldandi rétt til notkunar þess sem í góðri trú hefur hagnýtt uppfinninguna í samræmi við eldri þýðingu.]2)]3)
   1)L. 53/2004, 3. gr. 2)L. 40/2018, 3. gr. 3)L. 36/1996, 6. gr.
21. gr.
[Hver sem er getur borið upp við einkaleyfayfirvöld andmæli gegn veittu einkaleyfi. Andmæli skulu vera skrifleg og rökstudd og þurfa að berast einkaleyfayfirvöldum innan níu mánaða frá því að veiting einkaleyfis var auglýst.
[Andmælum skal fylgja tilskilið gjald. Berist andmæli gegn sama einkaleyfi frá fleiri en einum aðila er heimilt að sameina málin nema málsaðilar færi fram málefnaleg sjónarmið gegn þeirri ákvörðun.]1)
Andmæli geta aðeins byggst á því að einkaleyfi hafi verið veitt þrátt fyrir að:
   1. skilyrði 1. og 2. gr. hafi ekki verið uppfyllt,
   2. uppfinningu sé ekki lýst svo skýrt og greinilega að fagmaður geti á grundvelli lýsingarinnar útfært uppfinninguna,
   3. efni einkaleyfisins sé víðtækara en umsóknin í þeirri mynd sem hún var lögð inn.
[Andmælum sem uppfylla ekki kröfur 1.–3. mgr. skal vísað frá.
Hafi einkaleyfið sem andmælt er verið veitt á ensku getur [Hugverkastofan]2) krafist þess að einkaleyfishafi leggi fram íslenska þýðingu á einkaleyfinu. Berist þýðing ekki innan þess frests sem [Hugverkastofan]2) setur getur [Hugverkastofan]2) látið þýða einkaleyfið á kostnað einkaleyfishafa.]1)
Einkaleyfayfirvöld skulu auglýsa að andmæli hafi borist.]3)
   1)L. 40/2018, 4. gr. 2)L. 32/2019, 1. gr. 3)L. 36/1996, 7. gr. Ákvæði þetta á ekki við um einkaleyfi sem veitt voru fyrir gildistöku l. 36/1996, sbr. 31. gr. þeirra laga.
22. gr.
[Frá og með þeim degi, sem einkaleyfi er veitt, skulu umsóknargögnin vera öllum aðgengileg.
Þegar liðnir eru 18 mánuðir frá umsóknardegi eða þeim degi, sem krafist er forgangsréttar frá, sbr. 6. gr., skulu umsóknargögnin vera öllum aðgengileg, jafnvel þótt einkaleyfi hafi ekki verið veitt. Hafi verið tekin ákvörðun um að afskrifa eða hafna umsókninni má þó ekki veita aðgang að umsóknargögnunum nema umsækjandi krefjist endurupptöku, áfrýi ákvörðun um höfnun eða krefjist endurveitingar réttinda skv. 72. eða 73. gr.]1)
Ef umsækjandi óskar skulu gögn varðandi umsóknina gerð aðgengileg fyrr en lýst er í 1. og 2. mgr.
Þegar umsóknargögn verða aðgengileg skv. 2. eða 3. mgr. skal birta auglýsingu um það.
[Hafi skjal að geyma viðskiptaleyndarmál sem ekki varðar uppfinningu þá sem sótt er um einkaleyfi fyrir eða veitt hefur verið einkaleyfi fyrir geta einkaleyfayfirvöld, ef þess er óskað og sérstakar ástæður eru fyrir hendi, ákveðið að skjalið í heild eða að hluta verði ekki gert aðgengilegt almenningi. Hafi slík beiðni verið sett fram verður skjalið ekki gert aðgengilegt fyrr en tekin hefur verið ákvörðun þar að lútandi eða liðinn er áfrýjunarfrestur vegna þeirrar ákvörðunar. Áfrýjun hefur í för með sér frestun á framkvæmd ákvörðunar.]1)
[Ef sýni af líffræðilegu efni er varðveitt í samræmi við ákvæði 8. gr. getur hver sem er fengið afhent sýni í samræmi við ákvæði 1., 2. eða 3. mgr. Þetta þýðir þó ekki að sýni verði afhent neinum þeim sem samkvæmt reglugerð eða lagaákvæðum er óheimilt að meðhöndla varðveitt líffræðilegt efni. Sýni verður ekki heldur afhent neinum þeim sem vegna skaðlegra eiginleika líffræðilega efnisins er ekki talinn hæfur til að meðhöndla sýnið án verulegrar áhættu.
Þrátt fyrir ákvæði 6. mgr. getur umsækjandi farið fram á að sýni af líffræðilega efninu verði aðeins afhent óháðum sérfræðingum þar til einkaleyfi er veitt. Ef umsókn hefur verið hafnað, hún afskrifuð eða telja má hana afturkallaða getur umsækjandi, í 20 ár frá umsóknardegi, farið fram á að sýni af hinu líffræðilega efni verði aðeins afhent óháðum sérfræðingi. [Ráðherra]2) setur reglur um slíka beiðni, um frest til að setja fram slíka beiðni og hverjir geta talist óháðir sérfræðingar í skilningi ákvæðisins.]3)
Beiðni um afhendingu sýnis skal borin fram skriflega við einkaleyfayfirvöld og skal hún hafa að geyma yfirlýsingu um að fylgt verði þeim takmörkunum varðandi notkun sýnisins sem [ráðherra]2) ákveður. Ef afhenda á sýnið sérfræðingi skal hann gefa slíka yfirlýsingu í stað þess sem ber fram beiðnina.
   1)L. 36/1996, 8. gr. 2)L. 98/2009, 12. gr. 3)L. 22/2004, 5. gr.
23. gr.
[Einkaleyfayfirvöld skulu tilkynna einkaleyfishafa um fram komin andmæli og gefa honum kost á að tjá sig um þau.
Einkaleyfayfirvöldum er heimilt að taka andmælamál til meðferðar þó að einkaleyfi sé fallið eða muni falla úr gildi skv. 51. eða 54. gr., andmælin séu dregin til baka eða andmælandi falli frá eða glati hæfi sínu til að fara með slík mál.
Einkaleyfayfirvöld geta lýst einkaleyfi ógilt, ákveðið að það skuli standa óbreytt eða í breyttu formi. Fallist einkaleyfayfirvöld á að einkaleyfi verði breytt og fyrir liggur að einkaleyfishafi sé því sammála skal breyta einkaleyfisskjali í samræmi við áorðnar breytingar eftir að einkaleyfishafi hefur greitt tilskilið gjald fyrir endurútgáfu leyfisins. Hjá einkaleyfayfirvöldum skal vera hægt að fá eintök af endanlegri gerð einkaleyfisskjalsins.
Sé einkaleyfishafi ekki sammála því að einkaleyfi verði breytt eða hann greiðir ekki tilskilið gjald fyrir útgáfu nýs einkaleyfisskjals telst einkaleyfið fallið úr gildi.
Þegar fyrir liggur endanleg ákvörðun í andmælamáli skal úrskurðurinn auglýstur.]1)
   1)L. 36/1996, 9. gr.
24. gr.
[Umsækjandi getur skotið endanlegum ákvörðunum [Hugverkastofunnar]1) er varða einkaleyfisumsóknir til áfrýjunarnefndar. Ef einkaleyfi hefur verið lýst ógilt eða ef [Hugverkastofan]1) telur að einkaleyfi geti staðið í breyttri mynd eftir úrskurð í andmælamáli getur einkaleyfishafi skotið þeim ákvörðunum til áfrýjunarnefndar. Ef einkaleyfi skal standa óbreytt eða telji [Hugverkastofan]1) að einkaleyfi geti staðið í breyttri mynd þrátt fyrir löglega fram borin andmæli getur andmælandi skotið þeim ákvörðunum til áfrýjunarnefndar. Falli andmælandi frá málskoti sínu er eigi að síður heimilt að taka það til umfjöllunar ef sérstakar ástæður mæla með því.
Ef beiðni um endurupptöku skv. 3. mgr. 15. gr. eða 3. mgr. 19. gr. er hafnað eða orðið er við beiðni um yfirfærslu umsóknar skv. 18. gr. getur umsækjandi skotið slíkum ákvörðunum til áfrýjunarnefndar. Ef beiðni um yfirfærslu umsóknar er hafnað getur sá sem setti beiðnina fram skotið ákvörðuninni til áfrýjunarnefndar.
Ef beiðni skv. 5. og 8. mgr. 22. gr. er hafnað getur sá sem sett hefur slíka beiðni fram skotið ákvörðuninni til áfrýjunarnefndar.]2)
   1)L. 32/2019, 1. gr. 2)L. 36/1996, 10. gr.
25. gr.
[Þegar ákvörðun skv. 24. gr. er áfrýjað skal það tilkynnt áfrýjunarnefnd í síðasta lagi tveimur mánuðum eftir að einkaleyfayfirvöld tilkynna viðkomandi um ákvörðunina. Innan sama frests skal greiða tilskilið áfrýjunargjald. Sé það ekki gert skal vísa áfrýjuninni frá.]1)
Ákvarðanir áfrýjunarnefndar verða ekki bornar undir æðra stjórnvald.
[Dómsmál vegna þeirra ákvarðana [Hugverkastofunnar],2) sem skjóta má til áfrýjunarnefndar, verður ekki höfðað fyrr en fyrir liggur niðurstaða áfrýjunarnefndar, sbr. þó 52. og 53. gr. Dómsmál vegna þeirrar ákvörðunar áfrýjunarnefndar að hafna einkaleyfisumsókn eða lýsa einkaleyfi ógilt skal höfða innan tveggja mánaða frá því að viðkomandi var tilkynnt um ákvörðunina.]1)
Ákvæði 5. mgr. 22. gr. gilda einnig um gögn sem lögð hafa verið fyrir áfrýjunarnefnd.
   1)L. 36/1996, 11. gr. 2)L. 32/2019, 1. gr.
26. gr.
[Sé umsókn, sem almenningur hefur haft aðgang að, endanlega hafnað eða hún afskrifuð skal birta auglýsingu um það.]1)
   1)L. 36/1996, 12. gr.
27. gr.
Veitt einkaleyfi skulu færð inn í einkaleyfaskrá sem haldin er af einkaleyfayfirvöldum.

III. kafli. Alþjóðlegar einkaleyfisumsóknir.
28. gr.
Með alþjóðlegri einkaleyfisumsókn er átt við umsókn samkvæmt ákvæðum samstarfssáttmálans um einkaleyfi sem undirritaður var í Washington 19. júní 1970.
Alþjóðleg einkaleyfisumsókn skal lögð inn hjá einkaleyfayfirvöldum eða alþjóðastofnun sem í samræmi við ákvæði sáttmálans og reglur, sem settar eru samkvæmt honum, hafa heimild til að veita viðtöku slíkum umsóknum (viðtökuyfirvöld). Alþjóðlega einkaleyfisumsókn er hægt að leggja inn hjá einkaleyfayfirvöldum hér á landi í samræmi við ákvæði reglugerðar sem [ráðherra]1) setur. Umsækjandi skal greiða einkaleyfayfirvöldum tilskilið umsóknargjald.
Ákvæði 29.–38. gr. eiga við um alþjóðlegar einkaleyfisumsóknir sem taka til Íslands.
   1)L. 98/2009, 12. gr.
29. gr.
Alþjóðleg einkaleyfisumsókn, sem fengið hefur alþjóðlegan umsóknardag samkvæmt ákvörðun viðtökuyfirvalda, hefur sömu áhrif og einkaleyfisumsókn lögð inn hér á landi sama dag. Ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. eiga þó því aðeins við að umsóknin hafi verið yfirfærð í samræmi við ákvæði 31. gr.
30. gr.
Alþjóðleg einkaleyfisumsókn telst afturkölluð að því er Ísland varðar í tilvikum sem nefnd eru í (i)- og (ii)-lið 1. mgr. 24. gr. samstarfssáttmálans um einkaleyfi.
31. gr.
[Óski umsækjandi eftir því að yfirfæra alþjóðlega einkaleyfisumsókn til Íslands skal hann innan [31 mánaðar]1) frá alþjóðlegum umsóknardegi eða forgangsréttardegi umsóknarinnar, sé forgangsréttar krafist, greiða tilskilin gjöld til einkaleyfayfirvalda. Enn fremur skal umsækjandi afhenda þýðingu á umsókninni að því marki sem ákveðið er í reglugerð.
1)
Hafi umsækjandi greitt þau gjöld, sem krafist er, innan þess frests sem um getur í 1. mgr. má leggja inn tilskilda þýðingu innan tveggja mánaða viðbótarfrests gegn því að greitt sé ákveðið viðbótargjald áður en sá frestur rennur út.]2)
Uppfylli umsækjandi ekki skilyrði þessarar greinar telst umsóknin hafa verið dregin til baka að því er varðar Ísland.
   1)L. 53/2004, 4. gr. Breytingin tekur til alþjóðlegra einkaleyfisumsókna þar sem þrjátíu mánaða frestur til yfirfærslu, talið frá umsóknardegi eða forgangsréttardegi, rennur út 14. júní 2004 eða síðar enda hafi þær ekki verið yfirfærðar á þeim tíma, sbr. 11. gr. s.l. 2)L. 28/2002, 2. gr.
32. gr.1)
   1)L. 28/2002, 3. gr.
33. gr.
[Þegar alþjóðleg einkaleyfisumsókn er yfirfærð í samræmi við ákvæði 31. gr. gilda ákvæði II. kafla um umsóknina og meðferð hennar ef ekki er kveðið á um annað í þessari grein eða 34.–37. gr. Umsóknina má þó því aðeins taka til meðferðar að liðinn sé frestur skv. 1. mgr. 31. gr. nema umsækjandi óski annars.]1)
Ákvæði 12. gr. tekur ekki gildi fyrr en einkaleyfayfirvöld geta tekið umsóknina til meðferðar.
[Þótt umsókn hafi ekki verið yfirfærð koma ákvæði 22. gr. til framkvæmda um leið og umsækjandi hefur uppfyllt skyldur sínar skv. 31. gr. með því að leggja inn þýðingu á umsókninni til einkaleyfayfirvalda.]2)
Við beitingu ákvæða 48., 56. og 60. gr. telst alþjóðleg einkaleyfisumsókn orðin öllum aðgengileg þegar hún hefur verið gerð aðgengileg samkvæmt ákvæðum 3. mgr. Ef einkaleyfisumsóknin uppfyllir skilyrði samstarfssáttmálans um form og innihald skal hún samþykkt að því leyti.
   1)L. 28/2002, 4. gr. 2)L. 36/1996, 14. gr.
34. gr.
[Einkaleyfi verður ekki veitt á grundvelli alþjóðlegrar einkaleyfisumsóknar eða henni hafnað fyrr en liðinn er frestur samkvæmt reglugerð nema umsækjandi hafi samþykkt að tekin verði ákvörðun um umsóknina innan þess frests.]1)
   1)L. 36/1996, 15. gr.
35. gr.
[Án samþykkis umsækjanda mega einkaleyfayfirvöld ekki veita einkaleyfi á grundvelli alþjóðlegrar einkaleyfisumsóknar né gera hana opinbera fyrr en umsóknin hefur verið gerð opinber af Alþjóðahugverkastofnuninni eða 20 mánuðir eru liðnir frá alþjóðlegum umsóknardegi eða forgangsréttardegi sé forgangsréttar krafist.]1)
   1)L. 36/1996, 16. gr.
36. gr.
Hafi hvorki verið gerð alþjóðleg nýnæmisrannsókn á hluta af alþjóðlegri einkaleyfisumsókn né alþjóðleg forathugun á einkaleyfishæfi þess hluta, af þeirri ástæðu að umsóknin er talin hafa að geyma tvær eða fleiri uppfinningar óskyldar hver annarri, og hafi umsækjandi ekki greitt viðbótargjald innan tilskilins frests í samræmi við ákvæði samstarfssáttmálans skulu einkaleyfayfirvöld rannsaka hvort matið var rétt. Reynist svo vera skal umræddur hluti umsóknarinnar teljast afturkallaður hjá einkaleyfayfirvöldum nema því aðeins að umsækjandi greiði tilskilið gjald innan tveggja mánaða frá því að einkaleyfayfirvöld tilkynntu honum um niðurstöðu rannsóknarinnar. Ef einkaleyfayfirvöld komast að þeirri niðurstöðu að matið hafi ekki verið rétt ber þeim að halda áfram málsmeðferð umsóknarinnar í heild sinni.
Umsækjandi getur áfrýjað ákvörðun skv. 1. mgr. þess efnis að umsókn varði tvær eða fleiri óskyldar uppfinningar. Ákvæði 1.–3. mgr. 25. gr. eiga hér við.
Ef úrskurður einkaleyfayfirvalda er staðfestur telst frestur til greiðslu skv. 2. málsl. 1. mgr. frá þeim degi sem endanlegur úrskurður lá fyrir.
37. gr.
Hafi ekki farið fram alþjóðleg forathugun á einkaleyfishæfi hluta alþjóðlegrar einkaleyfisumsóknar af þeirri ástæðu að umsækjandi hefur takmarkað einkaleyfiskröfurnar samkvæmt ábendingu alþjóðlegrar rannsóknarstofnunar skal líta svo á að umræddur hluti umsóknarinnar hafi verið afturkallaður hjá einkaleyfayfirvöldum nema umsækjandi greiði tilskilið gjald innan tveggja mánaða frá því að einkaleyfayfirvöld sendu honum tilkynningu þar að lútandi með vísun til takmörkunar á þeirri rannsókn sem fram fór.
38. gr.
Hafi viðtökuyfirvöld hafnað því að veita alþjóðlegri einkaleyfisumsókn alþjóðlegan umsóknardag eða tekið ákvörðun um að umsóknin eða beiðni þess efnis að umsóknin taki til Íslands teljist afturkölluð skulu einkaleyfayfirvöld að beiðni umsækjanda sannreyna hvort ákvörðunin hafi verið rétt. Sama gildir ef alþjóðaskrifstofan hefur úrskurðað að einkaleyfisumsóknin teljist afturkölluð.
Beiðni um endurmat skv. 1. mgr. skal koma á framfæri við alþjóðaskrifstofuna innan frests sem ákveðinn er í reglugerð. Innan sama frests, og að því marki sem kveðið er á um í reglugerð, ber umsækjanda að leggja fram þýðingu á umsókninni til einkaleyfayfirvalda og greiða að auki tilskilið umsóknargjald.
Telji einkaleyfayfirvöld að úrskurður viðtökuyfirvalda eða alþjóðaskrifstofunnar sé rangur skulu þau fara með umsóknina í samræmi við ákvæði II. kafla. Hafi viðtökuyfirvöld ekki ákvarðað alþjóðlegan umsóknardag telst hún vera lögð inn þann dag sem einkaleyfayfirvöld telja að hefði átt að ákvarða sem alþjóðlegan umsóknardag. Sé umsóknin í samræmi við ákvæði samstarfssáttmálans að því er varðar form og efni skal hún viðurkennd að því leyti.
Ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. gildir um umsókn sem tekin er til meðferðar skv. 3. mgr., svo fremi hún verði gerð almenningi aðgengileg samkvæmt ákvæðum 22. gr.

IV. kafli. Umfang einkaleyfis og gildistími.
39. gr.
Umfang einkaleyfisverndar ákvarðast af einkaleyfiskröfum. Skýringa á einkaleyfiskröfum má leita í lýsingu.
40. gr.
Veittu einkaleyfi er unnt að halda í gildi í 20 ár frá umsóknardegi. Greiða skal árgjald af einkaleyfi fyrir hvert gjaldár sem byrjar að líða eftir að leyfið er veitt. Verði einkaleyfi veitt áður en árgjöld fyrir umsóknina falla í gjalddaga, sbr. ákvæði 41. gr., skal eigandi einkaleyfisins einnig, um leið og árgjald fyrir einkaleyfið gjaldfellur í fyrsta skipti, greiða árgjöld fyrir þau gjaldár sem hafist hafa fyrir veitingu leyfisins.
[40. gr. a.
Einkaleyfishafi getur óskað eftir því við [Hugverkastofuna]1) að hún takmarki verndarsvið einkaleyfis með breytingum á einkaleyfiskröfum og, ef þurfa þykir, breytingu á lýsingu einkaleyfis [og/eða teikningum].2)
[Ekki er unnt að leggja inn beiðni skv. 1. mgr. ef andmælafrestur er ekki liðinn, endanleg niðurstaða vegna andmæla liggur ekki fyrir eða einkaleyfi er andlag fullnustugerðar, veðsetningar eða dómsmáls skv. 52. eða 53. gr.]2)
Fyrir beiðni um takmörkun skv. 1. mgr. skal einkaleyfishafi greiða tilskilið gjald.]3)
   1)L. 32/2019, 1. gr. 2)L. 40/2018, 5. gr. 3)L. 53/2004, 5. gr. Ákvæðið gildir um einkaleyfisumsóknir þar sem umsóknardagur hefur verið ákvarðaður fyrir gildistöku þess, sem og einkaleyfi sem veitt voru fyrir þann tíma, sbr. 11. gr. s.l.
[40. gr. b.
[Uppfylli beiðni skv. 40. gr. a ekki þar tilgreind skilyrði, önnur skilyrði laga þessara um einkaleyfishæfi eða takmörkunin fellur undir tilvik 2.– 4. tölul. 1. mgr. 52. gr. um ógildingu skal einkaleyfishafa gefinn kostur á að tjá sig um málið eða bæta úr ágöllum.]1) Ef einkaleyfishafi hvorki tjáir sig um málið né gerir nauðsynlegar ráðstafanir eða telji [Hugverkastofan],2) að fengnu svari einkaleyfishafa, enn eitthvað mæla á móti því að beiðnin verði samþykkt, og hafi einkaleyfishafi fengið tækifæri til að tjá sig um það atriði, skal beiðninni hafnað.
Telji [Hugverkastofan]2) ekkert því til fyrirstöðu að samþykkja beiðni einkaleyfishafa skv. 40. gr. a skal einkaleyfið takmarkað í samræmi við beiðnina. [Hugverkastofan]2) skal birta tilkynningu um ákvörðunina og útbúa nýtt einkaleyfisskjal að því tilskildu að einkaleyfishafi hafi greitt tilskilið gjald fyrir endurútgáfu. Frá þeim tíma skal einkaleyfið í breyttri mynd vera aðgengilegt almenningi.
[Takmörkun einkaleyfis skv. 2. mgr. hefur áhrif frá umsóknardegi og tekur gildi við birtingu tilkynningar um breytinguna.]1)
Einkaleyfishafa er skylt að upplýsa dómara í ógildingarmáli um framlagða beiðni um takmörkun á einkaleyfi.
Einkaleyfishafi getur skotið til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar ákvörðun [Hugverkastofunnar]2) um að hafna beiðni um takmörkun einkaleyfis.]3)
   1)L. 40/2018, 6. gr. 2)L. 32/2019, 1. gr. 3)L. 53/2004, 5. gr. Ákvæðið gildir um einkaleyfisumsóknir þar sem umsóknardagur hefur verið ákvarðaður fyrir gildistöku þess, sem og einkaleyfi sem veitt voru fyrir þann tíma, sbr. 11. gr. s.l.

V. kafli. Greiðsla árgjalda.
41. gr.
Árgjald fellur í gjalddaga síðasta dag fyrsta almanaksmánaðar í gjaldári. Árgjöld fyrir fyrstu tvö gjaldárin falla þó ekki í gjalddaga fyrr en árgjald fyrir þriðja gjaldár gjaldfellur. Heimilt er að greiða árgjald allt að þremur mánuðum fyrir gjalddaga. Ef dómstólar hnekkja úrskurði áfrýjunarnefndar um að hafna umsókn gjaldfellur árgjald, fyrir gjaldár sem hefst eftir að úrskurður áfrýjunarnefndar er kveðinn upp og þar til dómurinn öðlast réttargildi, ekki fyrr en tveir mánuðir eru liðnir frá síðastgreindum degi.
Þegar um er að ræða seinni umsókn skv. 11. gr. teljast árgjöld, fyrir gjaldár sem hefjast áður en hún er lögð inn eða innan tveggja mánaða frá þeim degi, undir engum kringumstæðum fallin í gjalddaga fyrr en tveir mánuðir eru liðnir frá umræddum degi. Þegar um er að ræða alþjóðlega umsókn sem yfirfærð hefur verið skv. 31. gr. teljast árgjöld, fyrir gjaldár sem hefjast fyrir yfirfærsludag eða fyrir þann dag sem umsókn hefur verið tekin til meðferðar skv. 38. gr. eða innan tveggja mánaða frá þeim degi, undir engum kringumstæðum fallin í gjalddaga fyrr en tveir mánuðir eru liðnir frá þeim degi.
Árgjald má, með tilskilinni hækkun, greiða innan sex mánaða frá gjalddaga.
[Heimilt er að tilkynna umsækjanda, einkaleyfishafa eða umboðsmanni að komið sé að greiðslu árgjalda. [Hugverkastofan]1) ber ekki ábyrgð á missi réttinda farist fyrir að senda slíka tilkynningu eða berist hún ekki viðtakanda.]2)
   1)L. 32/2019, 1. gr. 2)L. 40/2018, 7. gr.
42. gr.
Ef uppfinningamaður er umsækjandi eða eigandi einkaleyfis og teljist það verulegum erfiðleikum bundið fyrir hann að greiða árgjöld geta einkaleyfayfirvöld veitt honum greiðslufrest, enda komi fram beiðni um það í síðasta lagi þann dag sem árgjöldin falla í fyrsta sinn í gjalddaga. Greiðslufrest má veita þrjú ár í senn en þó ekki lengur en í þrjú ár frá veitingu einkaleyfis. Beiðni um lengingu frests skal í síðasta lagi bera fram þann dag sem veittur frestur rennur út.
Ef beiðni um greiðslufrest á árgjaldi eða lengingu hans er hafnað telst greiðsla, sem berst innan tveggja mánaða frá því, greidd á réttum tíma.
Árgjald, sem veittur hefur verið frestur til að greiða skv. 1. mgr., má greiða innan sex mánaða frá þeim tíma, er frestur rann út, með sömu hækkun og nefnd er í 3. mgr. 41. gr.

VI. kafli. Nytjaleyfi, framsal o.fl.
43. gr.
Hafi einkaleyfishafi veitt öðrum nytjaleyfi, þ.e. heimild til að hagnýta uppfinningu í atvinnuskyni, er nytjaleyfishafa óheimilt að framselja þann rétt til annarra nema um annað hafi verið samið.
44. gr.
[Ef aðilaskipti verða að einkaleyfi, nytjaleyfi er veitt eða einkaleyfi veðsett skulu slíkar breytingar færðar í einkaleyfaskrá sé þess óskað.
Ef færðar eru sönnur á að skráð nytjaleyfi eða veðsetning sé fallin niður skal afmá upplýsingarnar úr einkaleyfaskrá.]1)
Ákvæði 1. og 2. mgr. taka einnig til nauðungarleyfa og heimilda skv. 2. mgr. 53. gr.
[Upplýsingar skv. 1. og 2. mgr. skal birta í ELS-tíðindum.]1)
Málsókn vegna einkaleyfis má ætíð beina að þeim sem er skráður einkaleyfishafi í einkaleyfaskrá og tilkynningar frá einkaleyfayfirvöldum má senda honum.
   1)L. 40/2018, 8. gr.
45. gr.
Hafi einkaleyfð uppfinning ekki verið notuð hér á landi með eðlilegum hætti þegar liðin eru þrjú ár frá útgáfu einkaleyfis og fjögur ár frá umsóknardegi getur sá sem vill nota uppfinninguna hér á landi fengið nauðungarleyfi í því skyni nema gildar ástæður séu fyrir því að uppfinningin hafi ekki verið notuð.
Við beitingu ákvæða 1. mgr. getur [ráðherra]1) ákveðið ef fullnægt er skilyrðum um gagnkvæmni að notkun í öðru landi teljist jafngild notkun hér á landi.
   1)L. 98/2009, 12. gr.
46. gr.
[Þegar hagnýting einkaleyfðrar uppfinningar er háð einkaleyfi sem annar á getur eigandi fyrrnefnda einkaleyfisins fengið nauðungarleyfi til að hagnýta uppfinningu þá sem vernduð er með síðarnefnda einkaleyfinu teljist fyrrnefnda uppfinningin marka mikilvægt tæknilegt framfaraskref sem hefur verulega efnahagslega þýðingu.
Hafi verið veitt nauðungarleyfi skv. 1. mgr. til að hagnýta einkaleyfða uppfinningu á einkaleyfishafi þeirrar uppfinningar rétt á að fá nauðungarleyfi með sanngjörnum kjörum til að hagnýta hina uppfinninguna.]1)
   1)L. 36/1996, 17. gr.
[46. gr. a.
Yrkishafi, sem hvorki getur öðlast né hagnýtt yrkisrétt án þess að brjóta gegn eldra einkaleyfi, getur gegn sanngjörnu gjaldi farið fram á nauðungarleyfi til að hagnýta uppfinninguna ef leyfið er nauðsynlegt til að hagnýta það yrki sem ætlunin er að fá yrkisrétt á. Nauðungarleyfi skal aðeins veita ef yrkishafi sýnir fram á að yrkið feli í sér tæknilega mikilvægt framfaraspor og hafi verulegan ábata í för með sér í samanburði við uppfinninguna í einkaleyfinu.
Hafi einkaleyfishafi fengið nauðungarleyfi á grundvelli laga um yrkisrétt, nr. 58/2000, til að hagnýta verndað yrki hefur yrkishafinn rétt til að fá samhliða nauðungarleyfi með sanngjörnum skilmálum til að hagnýta uppfinninguna.]1)
   1)L. 22/2004, 6. gr.
47. gr.
Ef það telst nauðsynlegt vegna ríkra almannahagsmuna má veita þeim sem hagnýta vill í atvinnuskyni uppfinningu sem annar hefur einkaleyfi fyrir nauðungarleyfi til slíkrar hagnýtingar.
48. gr.
Nú hagnýtir einhver í atvinnuskyni hér á landi uppfinningu sem sótt hefur verið um einkaleyfi fyrir þegar umsóknin verður aðgengileg almenningi. Getur viðkomandi þá, ef mjög sérstakar ástæður mæla með því og umsóknin leiðir til einkaleyfis, fengið nauðungarleyfi til að hagnýta uppfinninguna. Það verður því aðeins veitt að viðkomandi hafi ekki vitað um umsóknina og þess verði heldur ekki með sanngirni af honum krafist að hann hafi getað aflað sér slíkrar vitneskju. Á sömu forsendum getur sá er gert hefur verulegar ráðstafanir til að hagnýta uppfinninguna í atvinnuskyni einnig öðlast slíkan rétt.
Nauðungarleyfi skv. 1. mgr. getur náð til tímans fyrir veitingu einkaleyfisins.
49. gr.
[Nauðungarleyfi verður eingöngu veitt þeim sem ekki hefur með samningi tekist að fá nytjaleyfi með sanngjörnum kjörum og ætla má að sé fær um að hagnýta uppfinninguna á sanngjarnan og viðunandi hátt og í samræmi við leyfið. [Í neyðartilvikum hér á landi eða þegar um annað alvarlegt hættuástand er að ræða má víkja frá skilyrðinu um undangengnar samningaumleitanir og skal einkaleyfishafa þá tilkynnt um notkunina eins fljótt og auðið er. Setja má nánari ákvæði í reglugerð.]1)
Nauðungarleyfi hindrar ekki að einkaleyfishafi sjálfur hagnýti uppfinninguna eða veiti öðrum nytjaleyfi.
Aðilaskipti að nauðungarleyfi eru aðeins heimil í tengslum við aðilaskipti að atvinnurekstri þeim sem leyfið er hagnýtt í eða til stóð að hagnýta það. Enn fremur gildir fyrir nauðungarleyfi sem veitt er skv. 1. mgr. 46. gr. að aðilaskipti að nauðungarleyfinu skulu fara fram um leið og aðilaskipti að því einkaleyfi sem háð er einkaleyfi í eigu annars aðila.
Nauðungarleyfi varðandi hálfleiðaratækni verður aðeins veitt til opinberrar hagnýtingar, sem ekki er viðskiptalegs eðlis, eða til að koma í veg fyrir athæfi sem dómstóll eða stjórnvald hefur talið samkeppnishamlandi.]2)
[Heimilt er að veita nauðungarleyfi vegna lyfja til útflutnings til þróunarríkja og ríkja sem stríða við alvarlegan heilbrigðisvanda í samræmi við ákvörðun aðalráðs Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar frá 30. ágúst 2003 um samninginn um hugverkarétt í viðskiptum og heilbrigði almennings. Sá sem óskar eftir nauðungarleyfi skal sýna fram á að hann hafi án árangurs reynt að öðlast heimild til framleiðslu frá einkaleyfishafa í þrjátíu daga. Framangreint skilyrði um samningaumleitanir á þó ekki við þegar um er að ræða neyðartilvik eða annað alvarlegt hættuástand. Nauðungarleyfi samkvæmt þessari málsgrein verða aðeins veitt að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum í reglugerð3) sem samræmast fyrrgreindri ákvörðun aðalráðsins, m.a. varðandi magn og merkingar lyfjanna.]1)
   1)L. 127/2005, 1. gr. 2)L. 36/1996, 18. gr. 3)Rg. 1011/2006.
50. gr.
[Héraðsdómur Reykjavíkur sker úr um hvort nauðungarleyfi skuli veitt, að hvaða marki hagnýta má uppfinninguna, hve hátt endurgjald skuli greitt einkaleyfishafa og önnur skilyrði nauðungarleyfis. Breytist aðstæður verulega getur dómstóllinn að kröfu annars hvors aðila fellt leyfið úr gildi eða ákveðið nýja skilmála.]1)
   1)L. 36/1996, 19. gr.

VII. kafli. Brottfall einkaleyfis o.fl.
51. gr.
Sé árgjald ekki greitt samkvæmt reglum í 40., 41. og 42. gr. fellur einkaleyfið úr gildi frá og með byrjun þess gjaldárs sem ekki er greitt fyrir.
52. gr.
Ógilda má einkaleyfi [í heild eða að hluta með dómi ef]:1)
   1. það hefur verið veitt án þess að skilyrðum 1. og 2. gr. hafi verið fullnægt,
   2. það varðar uppfinningu sem ekki er lýst svo greinilega að fagmaður geti á grundvelli lýsingarinnar útfært uppfinninguna,
   3. það tekur til einhvers sem ekki kom fram í umsókn þegar hún var lögð inn eða
   4. [verndarsvið einkaleyfisins hefur verið rýmkað eftir að einkaleyfayfirvöld tilkynntu umsækjanda skv. 19. gr. að unnt væri að veita einkaleyfi.]2)
Einkaleyfi verður þó ekki dæmt ógilt í heild sinni af þeirri ástæðu að einkaleyfishafinn hafi einungis átt rétt til einkaleyfisins að hluta.
Að frátöldu tilviki því, er greinir í 4. mgr., getur hver sem er höfðað mál samkvæmt grein þessari.
Mál, sem reist er á því að annar hafi öðlast einkaleyfi en sá sem skv. 1. gr. á rétt til þess, getur sá einn höfðað er telur sig eiga rétt til einkaleyfisins. Mál skal höfðað innan eins árs frá því að viðkomandi fékk vitneskju um útgáfu einkaleyfisins og önnur þau atvik sem málsóknin er reist á. Hafi einkaleyfishafi verið í góðri trú þegar einkaleyfið var veitt eða þegar hann eignaðist það verður mál undir engum kringumstæðum höfðað eftir að þrjú ár eru liðin frá útgáfu einkaleyfisins.
[Áhrif þess að einkaleyfi er ógilt í heild eða að hluta með dómi skal miða við umsóknardag.]3)
   1)L. 53/2004, 6. gr. Breytingin gildir um einkaleyfisumsóknir þar sem umsóknardagur hefur verið ákvarðaður fyrir 14. júní 2004, sem og einkaleyfi sem veitt voru fyrir 14. júní 2004, sbr. 11. gr. s.l. 2)L. 36/1996, 20. gr. 3)L. 40/2018, 9. gr.
53. gr.
Hafi einkaleyfi verið veitt öðrum en þeim sem skv. 1. gr. á rétt til leyfisins skal rétturinn til þess yfirfærður til rétthafa með dómi ef hann krefst þess. Um málshöfðunarfresti fer samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 52. gr.
Hafi maður, sem misst hefur einkaleyfi með dómi, í góðri trú hagnýtt uppfinningu í atvinnuskyni hérlendis eða gert verulegar ráðstafanir til þess er honum heimilt gegn sanngjörnu gjaldi og að öðru leyti með sanngjörnum skilmálum að halda þeirri hagnýtingu áfram með sem líkustum hætti eða hefja fyrirhugaða hagnýtingu innan sömu marka. Handhafi skráðs nytjaleyfis hefur einnig sama rétt á sömu forsendum.
Aðilaskipti að rétti skv. 2. mgr. geta einungis orðið í tengslum við aðilaskipti að þeim atvinnurekstri þar sem rétturinn er hagnýttur eða þar sem til stóð að beita honum.
54. gr.
Falli einkaleyfishafi frá einkaleyfi sínu með skriflegri yfirlýsingu til einkaleyfayfirvalda skulu þau lýsa einkaleyfið niður fallið [í heild].1) [Niðurfelling einkaleyfisins hefur áhrif frá birtingu tilkynningar.]1)
Nú er byrjuð málsókn um yfirfærslu á rétti til einkaleyfis og má þá ekki lýsa einkaleyfið niður fallið fyrr en úrlausn er fengin í málinu.
   1)L. 53/2004, 7. gr. Ákvæðið gildir um einkaleyfisumsóknir þar sem umsóknardagur hefur verið ákvarðaður fyrir gildistöku hennar, sem og einkaleyfi sem veitt voru fyrir þann tíma, sbr. 11. gr. s.l.
55. gr.
Þegar einkaleyfi fellur úr gildi eða það er lýst niður fallið, það dæmt ógilt eða réttur til þess yfirfærður skulu einkaleyfayfirvöld gefa út tilkynningu um það.

VIII. kafli. Skylda til að veita upplýsingar um einkaleyfi.
56. gr.
[Beri umsækjandi um einkaleyfi fyrir sig umsókn sína gagnvart öðrum áður en hún er gerð almenningi aðgengileg er honum skylt að veita þeim aðgang að umsóknargögnunum sé þess krafist. Hafi sýni af líffræðilegu efni verið lagt inn til varðveislu í tengslum við umsóknina, sbr. 6. mgr. 8. gr., á viðkomandi aðili einnig rétt á því að fá afhent sýni af líffræðilega efninu. Ákvæði 2. og 3. málsl. 6. mgr. 22. gr. ásamt 7. og 8. mgr. sömu greinar eiga hér við.]1)
Gefi maður til kynna með því að snúa sér beint til annars eða með auglýsingu, með áritun á vöru eða umbúðir hennar eða með öðrum hætti að sótt hafi verið um einkaleyfi eða það veitt, án þess þó jafnframt að tilgreina númer einkaleyfisins eða umsóknarinnar, er honum skylt að veita þeim sem þess krefst þær upplýsingar án ástæðulausrar tafar. Ef upplýsingar eru til þess fallnar að gefa í skyn að um einkaleyfi hafi verið sótt eða það veitt, án þess að slíkt sé skýrt tekið fram, er skylt, sé þess krafist, að veita án ástæðulausrar tafar upplýsingar um hvort svo sé.
   1)L. 22/2004, 7. gr.

IX. kafli. Refsi- og bótaábyrgð o.fl.
57. gr.
Sá sem af ásetningi skerðir einkarétt þann er einkaleyfi veitir skal sæta sektum eða, ef sök er mikil, [fangelsi]1) allt að þremur mánuðum.
Nú er brot framið af félagi eða öðru fyrirtæki og er þá heimilt að dæma það í fésekt.
Sókn sakar á sá sem misgert er við.
   1)L. 82/1998, 198. gr.
58. gr.
Sá sem af ásetningi eða gáleysi skerðir einkaleyfisrétt skal greiða hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu uppfinningar og að auki skaðabætur fyrir annað það tjón sem skerðingin hefur haft í för með sér.
Skerði einhver einkaleyfisrétt án þess að um ásetning eða gáleysi hafi verið að ræða er hann, ef og að því marki sem það telst sanngjarnt, skyldur til að greiða endurgjald og skaðabætur samkvæmt ákvæðum 1. mgr.
59. gr.
Nú hefur einkaleyfisréttur verið skertur og getur þá dómstóll, sé þess krafist og að svo miklu leyti sem það telst sanngjarnt, mælt fyrir um ráðstafanir til að koma í veg fyrir misnotkun afurða, sem framleiddar hafa verið samkvæmt einkaleyfðri uppfinningu, eða misnotkun tækja, útbúnaðar eða annars sem hefði skerðingu einkaleyfisréttar í för með sér. Þannig má mæla fyrir um að hlut verði breytt á ákveðinn hátt, hann eyðilagður eða, þegar um er að ræða einkaleyfisverndaðan hlut, að hann verði afhentur gegn endurgjaldi þeim sem misgert var við. Þetta á þó ekki við gagnvart þeim sem í góðri trú hefur eignast viðkomandi hlut eða öðlast umráðarétt yfir honum og hefur ekki sjálfur framið einkaleyfisbrot.
Þegar mjög sérstæðar ástæður liggja til grundvallar getur dómstóll, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. og sé þess krafist, veitt eiganda afurða þeirra, tækja, útbúnaðar og annars, sem nefnt er í 1. mgr., heimild til umráða yfir þeim á gildistíma einkaleyfis eða hluta af honum gegn sanngjörnu endurgjaldi og að öðru leyti með sanngjörnum skilmálum.
60. gr.
[Hagnýti einhver uppfinningu í atvinnuskyni án heimildar eftir að umsóknargögn hafa verið gerð almenningi aðgengileg, og leiði umsóknin til veitingar einkaleyfis, verður ákvæðum um einkaleyfisskerðingu beitt eftir því sem við getur átt, að undanskildum ákvæðum 57. gr. Áður en einkaleyfi er veitt nær einkaleyfisverndin aðeins til þess sem leiða má bæði af einkaleyfiskröfum eins og þær voru þegar umsóknin var gerð almenningi aðgengileg og af einkaleyfinu eins og það var veitt eða því breytt skv. 3. mgr. 23. gr.
Aðili, sem hagnýtir sér uppfinningu, sbr. 1. mgr., er aðeins skyldur til greiðslu skaðabóta að því marki sem um ræðir í 2. mgr. 58. gr. fyrir tjón sem leiðir af skerðingu sem átt hefur sér stað áður en veiting einkaleyfis var auglýst skv. 20. gr.]1)
   1)L. 36/1996, 21. gr.
61. gr.
Í málum, er varða einkaleyfisskerðingu, verður einkaleyfi því aðeins lýst ógilt að kröfu þess efnis hafi verið beint að einkaleyfishafa, eftir atvikum eftir að honum var stefnt samkvæmt reglum 4. mgr. 63. gr. Verði einkaleyfið dæmt ógilt verður ákvæðum 57.–60. gr. ekki beitt.
62. gr.
Sá sem lætur undir höfuð leggjast að uppfylla skyldur sínar skv. 56. gr. eða gefur rangar upplýsingar skal sæta sektum ef ekki liggur þyngri refsing við broti hans samkvæmt öðrum lögum. Hann skal og bæta það tjón sem af háttsemi hans hefur hlotist, að því marki sem sanngjarnt verður talið.
Ákvæði 2. og 3. mgr. 57. gr. eiga hér einnig við.
63. gr.
[Sá sem höfðar mál til ógildingar einkaleyfi eða um yfirfærslu á rétti til einkaleyfis eða til að öðlast nauðungarleyfi skal tilkynna það einkaleyfayfirvöldum.]1) Samtímis skal hann með ábyrgðarbréfi tilkynna málshöfðunina öllum skráðum nytjaleyfishöfum sé heimilisfangs þeirra getið í einkaleyfaskránni. Nytjaleyfishafi, sem höfða vill mál vegna skerðingar á einkaleyfi, skal með sama hætti tilkynna það einkaleyfishafa, enda sé heimilisfangs hans getið í skránni.
Sanni stefnandi ekki á þingfestingardegi að tilkynningar skv. 1. mgr. hafi verið sendar getur dómstóllinn veitt honum frest svo að skilyrðum 1. mgr. verði fullnægt. Nýti stefnandi ekki frestinn í þessu skyni skal vísa máli hans frá dómi.
Nú höfðar einkaleyfishafi mál vegna einkaleyfisskerðingar og vilji stefndi gera kröfu um að einkaleyfið verði dæmt ógilt skal hann samkvæmt ákvæðum 1. mgr. tilkynna það einkaleyfayfirvöldum og skráðum nytjaleyfishöfum. Ákvæði 2. mgr. eiga hér einnig við og verður kröfunni um ógildingu einkaleyfis vísað frá dómi ef stefndi nýtir ekki frestinn.
Í málum um einkaleyfisskerðingu, sem nytjaleyfishafi höfðar, getur stefndi stefnt einkaleyfishafanum án tillits til varnarþings hans til að beina að honum kröfu um ógildingu einkaleyfisins.
   1)L. 36/1996, 22. gr.
64. gr.
Eftirgreind mál skal höfða fyrir [héraðsdómi]1) Reykjavíkur:
   1. mál um rétt til uppfinningar sem sótt hefur verið um einkaleyfi fyrir,
   2. mál um veitingu einkaleyfis, sbr. 3. mgr. 25. gr.,
   3. mál um ógildingu einkaleyfis eða um yfirfærslu á rétti til einkaleyfis, sbr. 52. og 53. gr., svo og mál um réttindi skv. 2. mgr. 53. gr.,
   4. mál um réttindi skv. 4. gr. og 2. mgr. 74. gr.,
   5. mál um einkaleyfisskerðingu,
   6. mál um aðilaskipti að einkaleyfi og mál um nytjaleyfi.
Umsækjendur og einkaleyfishafar, sem ekki eru heimilisfastir hér á landi, skulu taldir eiga varnarþing í Reykjavík í málum samkvæmt lögum þessum.
   1)L. 92/1991, 106. gr.
[64. gr. a.
Taki einkaleyfi til aðferðar við framleiðslu nýrrar afurðar ber að líta svo á að sama afurð, sem framleidd er af öðrum en einkaleyfishafa, hafi verið framleidd með einkaleyfðu aðferðinni, nema annað verði sannað.
Við sönnunarfærslu fyrir hinu gagnstæða skal virða réttmæta hagsmuni aðila til að vernda framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál.]1)
   1)L. 36/1996, 23. gr.
65. gr.
Endurrit dóma í málum skv. 50. gr. og 1. mgr. 64. gr. skal dómari að eigin frumkvæði láta einkaleyfayfirvöldum í té.

[IX. kafli a. Viðbótarvernd.]1)
   1)L. 36/1996, 24. gr.
[65. gr. a.
[Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 469/2009 frá 6. maí 2009 um vottorð um viðbótarvernd fyrir lyf, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 31 frá 18. maí 2017, bls. 542–551, og 36. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1901/2006 frá 12. desember 2006 um lyf fyrir börn, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 31 frá 18. maí 2017, bls. 521–539, hafa lagagildi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2017 frá 5. maí 2017. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1610/96 frá 23. júlí 1996 um útgáfu viðbótarvottorðs um vernd plöntuvarnarefna, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 48 frá 20. nóvember 1997, bls. 98–103, hefur lagagildi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/97 frá 31. júlí 1997. Ákvæði reglugerðanna taka einnig til ríkisborgara og lögaðila aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, svo og Færeyinga og lögaðila í Færeyjum.]1)
[Umsóknir um viðbótarvernd og umsóknir um framlengingu á slíkri vernd skal leggja inn skriflega hjá [Hugverkastofunni].2)]1) Umsækjandi skal greiða tilskilið umsóknargjald.
Fyrir viðbótarvernd skal greiða tiltekið árgjald fyrir hvert gjaldár sem hefst eftir að einkaleyfið fellur úr gildi. Um árgjöld gilda að öðru leyti sömu reglur og um árgjöld af einkaleyfum.
[Þrátt fyrir að í gildi sé viðbótarvernd skv. 1. mgr. er í eftirfarandi tilvikum heimilt án samþykkis rétthafa að:
   a. framleiða og/eða framkvæma nauðsynlegar aðgerðir til framleiðslu efnis sem eingöngu er ætlað til útflutnings út fyrir Evrópska efnahagssvæðið þar sem efni eða lyf sem inniheldur efnið nýtur ekki lengur verndar eða hefur ekki notið verndar og merkja þá framleiðslu með kennimerki sem nánar er kveðið á um í reglugerð, eða
   b. framleiða og/eða framkvæma nauðsynlegar aðgerðir til framleiðslu efnis eða lyfs sem inniheldur það efni í fyrsta lagi sex mánuðum áður en viðbótarvernd skv. 1. mgr. fellur úr gildi, í þeim tilgangi eingöngu að geyma það hér á landi svo mögulegt verði að setja efnið eða lyf sem inniheldur það efni á markað eftir að viðbótarvernd fellur úr gildi.
Framleiðandi skal tilkynna Hugverkastofunni um framleiðslu skv. a- og b-lið 4. mgr. eigi síðar en þremur mánuðum áður en hún skal hefjast og jafnframt skal framleiðandi veita handhafa viðbótarvottorðs upplýsingar um fyrirhugaða framleiðslu eins og nánar er afmarkað í reglugerð.
Framleiðandi skal greiða Hugverkastofunni tilskilið gjald fyrir meðhöndlun tilkynningar skv. 5. mgr.]3)
Nánari reglur um umsóknir um viðbótarvernd, meðferð þeirra og rannsókn, skráningu viðbótarverndar, [undanþágur frá vernd viðbótarvottorða]3) og fleira skulu settar í reglugerð.4)
Viðurlagaákvæði 57. og 62. gr. eiga einnig við um viðbótarvernd.]5)
   1)L. 40/2018, 10. gr. 2)L. 32/2019, 1. gr. 3)L. 57/2021, 1. gr. 4)Rg. 477/2012, sbr. 224/2022. 5)L. 36/1996, 24. gr.

X. kafli. Ýmis ákvæði.
66. gr.
[[Hugverkastofan]1) getur farið fram á að einkaleyfishafi, sem hefur ekki heimilisfesti hér á landi, tilnefni [umboðsmann búsettan á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum]2) sem hefur fyrir hans hönd heimild til að taka við stefnu og öðrum tilkynningum er einkaleyfið varða. Nafn og heimilisfang umboðsmanns skal fært í einkaleyfaskrá.]3)
   1)L. 32/2019, 1. gr. 2)L. 108/2006, 36. gr. 3)L. 28/2002, 5. gr.
67. gr.
[Umsækjandi, einkaleyfishafi eða sá sem krafist hefur ógildingar á einkaleyfi getur skotið til áfrýjunarnefndar öðrum endanlegum ákvörðunum [Hugverkastofunnar]1) en getið er í 24. gr. í síðasta lagi tveimur mánuðum eftir að honum var tilkynnt um ákvörðunina. Sama gildir um ákvarðanir skv. 42. gr. eða 1. og 2. mgr. 72. gr., svo og 73. gr. Aðrir, sem hagsmuna eiga að gæta, geta með sama hætti skotið umræddum ákvörðunum til áfrýjunarnefndar í síðasta lagi tveimur mánuðum eftir að hún var birt.]2)
Innan sama frests skal greiða tilskilið áfrýjunargjald. Sé það ekki gert skal vísa áfrýjuninni frá.
   1)L. 32/2019, 1. gr. 2)L. 36/1996, 25. gr.
68. gr.
[Í reglugerð,1) sem [ráðherra]2) setur, skal kveðið á um gjöld samkvæmt lögum þessum og þóknun fyrir þá þjónustu sem [Hugverkastofan]3) veitir.
Gjöld, þar á meðal umsóknar- og árgjöld, skulu standa undir kostnaði við rekstur [Hugverkastofunnar]3) vegna einkaleyfa og við þjónustu sem veitt er, m.a. fyrir landsbundnar, evrópskar og alþjóðlegar umsóknir um einkaleyfi, könnun [Hugverkastofunnar]3) á form- og efnisskilyrðum umsókna, þjónustu vegna rannsókna einkaleyfisumsókna, útgáfu og framsendingu forgangsréttarskjala, útgáfu einkaleyfa og viðbótarvottorða, endurveitingu réttinda og endurupptöku, meðferð skv. 21. gr., birtingu í ELS-tíðindum, breytingar á einkaleyfaskrá og útskriftir úr skránni og önnur þjónustuverkefni.
Gjaldskrá þjónustugjalda skal m.a. taka mið af launum og launatengdum gjöldum, þjálfun og endurmenntun, aðkeyptri sérfræðiþjónustu, húsnæði, starfsaðstöðu, búnaði og tækjum og alþjóðlegri samvinnu.
Gjöld samkvæmt lögum þessum renna til [Hugverkastofunnar]3) og innheimtir hún gjöldin.]4)
   1)Rg. 639/1995, sbr. 288/1996, 200/1997 og 758/1997. Rg. 1050/2020. 2)L. 126/2011, 151. gr. 3)L. 32/2019, 1. gr. 4)L. 25/2011, 1. gr.
69. gr.
[[Ráðherra]1) setur nánari reglur2) um einkaleyfisumsóknir og meðferð þeirra, um meðferð andmælamála, um skipulag og færslu einkaleyfaskrár, um útgáfu og efni einkaleyfatíðinda, um skipulag og starfshætti [Hugverkastofunnar]3) og áfrýjunarnefndar, svo og almennt um framkvæmd laga þessara.]4) Þar má m.a. kveða á um að dagbækur [Hugverkastofunnar]3) um innkomnar umsóknir skuli vera öllum aðgengilegar.
[Ráðherra]1) getur ákveðið, að ósk yfirvalda í öðru landi, að einkaleyfayfirvöld hér á landi veiti hinu erlenda yfirvaldi upplýsingar um meðferð á innlögðum einkaleyfisumsóknum. Einnig getur [ráðherra]1) ákveðið að einkaleyfayfirvöld hér á landi geti við mat á einkaleyfishæfi umsóknar lagt til grundvallar rannsókn á einkaleyfishæfi uppfinningar sem fram hefur farið hjá einkaleyfayfirvöldum í öðru landi eða hjá alþjóðlegri stofnun.
[Ráðherra]1) getur enn fremur ákveðið að umsækjandi hér á landi, sem lagt hefur inn sambærilega umsókn um einkaleyfi í öðru landi, skuli, að kröfu einkaleyfayfirvalda hér á landi, innan ákveðins frests láta í té upplýsingar sem honum hafa verið veittar af einkaleyfayfirvöldum í viðkomandi landi um niðurstöður rannsóknar á einkaleyfishæfi uppfinningar ásamt afriti af bréfaskriftum þeirra á milli. Upplýsinga verður þó ekki krafist vegna alþjóðlegrar umsóknar sem fjallað er um í III. kafla laganna ef fram hefur farið alþjóðleg forathugun á einkaleyfishæfi hennar og skýrsla um rannsóknina hefur verið látin einkaleyfayfirvöldum í té.
   1)L. 98/2009, 12. gr. 2)Rg. 275/2008. Rg. 477/2012, sbr. 938/2013 og 655/2018. 3)L. 32/2019, 1. gr. 4)L. 36/1996, 26. gr.
[69. gr. a.
Allar auglýsingar og tilkynningar af hálfu [Hugverkastofunnar],1) sem kveðið er á um í lögum þessum og birtar skulu almenningi, eru birtar í ELS-tíðindum sem [Hugverkastofan]1) gefur út.
Heimilt er að gefa ELS-tíðindi út og dreifa þeim á rafrænan hátt, þar á meðal á netinu.]2)
   1)L. 32/2019, 1. gr. 2)L. 54/2004, 3. gr.
70. gr.
Ef nauðsyn krefur vegna neyðarástands af völdum náttúruhamfara, stríðs eða yfirvofandi stríðshættu getur [ráðherra]1) ákveðið að réttur til að hagnýta uppfinningu falli til ríkisins eða annars aðila sem ráðherra ákveður. Fullt endurgjald skal koma fyrir slíka yfirtöku. Náist ekki samkomulag um endurgjald skal það ákveðið með mati samkvæmt lögum nr. 11/1973.
Ef réttur til að hagnýta uppfinningu er yfirtekinn á grundvelli ákvörðunar skv. 1. mgr. af öðrum en ríkinu og sá aðili greiðir ekki endurgjald það sem þar um ræðir er ríkinu skylt að kröfu þess, sem rétt á til endurgjaldsins, að greiða það samstundis.
   1)L. 98/2009, 12. gr.
71. gr.
[Hugverkastofunni]1) er heimilt að taka að sér verkefni við öflun eða úrvinnslu gagna er hún varðveitir eða hefur aðgang að og eru orðin almenningi aðgengileg. Nánar skal kveðið á um slíka upplýsingaþjónustu og gjaldtöku fyrir hana í reglugerð.
   1)L. 32/2019, 1. gr.
72. gr.
Nú glatar einkaleyfisumsækjandi [eða einkaleyfishafi],1) að frátöldum þeim tilvikum sem nefnd eru í 2. mgr., rétti af þeirri ástæðu að hann eða umboðsmaður hans hefur ekki gert ráðstafanir hjá einkaleyfayfirvöldum innan þess frests sem settur er í lögum þessum eða á grundvelli þeirra og hafi hlutaðeigandi gert allt sem með sanngirni má af honum krefjast til að virða frestinn og geri hann viðeigandi ráðstafanir innan tveggja mánaða frá brottfalli hindrunar er töfinni olli, en þó aldrei síðar en einu ári frá lokum frestsins, skulu einkaleyfayfirvöld endurveita honum réttinn. [Til þess að rétturinn verði endurveittur þarf, innan sama frests, að leggja fram skriflega beiðni þar að lútandi, greiða tilskilin gjöld og gera þær ráðstafanir sem tilgreindur frestur kvað á um.]2)
[Ákvæði 1. mgr. eiga við um forgangsrétt skv. 1. mgr. 6. gr. ef beiðni um endurveitingu er lögð fram innan tveggja mánaða frá lokum frests skv. 1. mgr. 6. gr. Ákvæði 1. mgr. gilda ekki um frest til málshöfðunar skv. 3. mgr. 25. gr.]1)
[Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga við um yfirfærslu alþjóðlegrar einkaleyfisumsóknar skv. 31. gr. Ákvæðin eiga einnig við um slíkar umsóknir þegar umsækjandi hefur glatað rétti af þeirri ástæðu að frestir hafa ekki verið virtir gagnvart viðtökuyfirvöldum, yfirvöldum sem framkvæma alþjóðlega nýnæmisrannsókn eða forathugun á einkaleyfishæfi eða Alþjóðahugverkastofnuninni (WIPO).]1)
   1)L. 53/2004, 8. gr. Breytingin gildir um einkaleyfisumsóknir þar sem umsóknardagur hefur verið ákvarðaður fyrir 14. júní 2004, sem og einkaleyfi sem veitt voru fyrir 14. júní 2004, sbr. 11. gr. s.l. 2)L. 40/2018, 11. gr.
73. gr.
Nú hefur umsækjandi í þeim tilvikum, er greinir í 31. gr. og 38. gr., sent gögn eða gjöld í pósti, en sendingin ekki komið fram á réttum tíma, og hafi viðeigandi gögnum eða gjaldi verið komið til einkaleyfayfirvalda innan tveggja mánaða frá því að umsækjanda varð ljóst eða hann mátti vita að frestur var liðinn eða í síðasta lagi einu ári eftir að frestur var liðinn skulu einkaleyfayfirvöld endurveita réttindin ef:
   1. póstsamgöngur hafa legið niðri síðustu 10 daga fyrir lok frestsins vegna stríðs, byltingar, uppþots, verkfalls, náttúruhamfara eða af öðrum svipuðum ástæðum á þeim stað þar sem sendandi dvelst eða hefur starfsemi sína og gögnin eða gjöldin eru send einkaleyfayfirvöldum innan fimm daga frá því að póstsamgöngur hófust að nýju eða
   2. gögnin eða gjaldið hafa verið send í ábyrgðarpósti til einkaleyfayfirvalda í síðasta lagi fimm dögum fyrir lok frestsins. Ákvæðið á þó aðeins við ef ábyrgðarsendingin var send í flugpósti nema slíkt sé ekki mögulegt eða ef sendandi hefur haft ástæðu til að ætla að hún kæmist til skila í síðasta lagi tveimur dögum frá sendingardegi.
Óski umsækjandi eftir endurveitingu réttinda skv. 1. mgr. skal hann innan þar tilgreinds frests senda einkaleyfayfirvöldum skriflega beiðni þar að lútandi.
74. gr.
Það skal auglýst ef orðið er við beiðni um endurveitingu skv. 72. eða 73. gr. og umsókn, sem hefur verið afskrifuð eða hafnað eftir að hún var gerð almenningi aðgengileg, er tekin til áframhaldandi meðferðar eða niðurfallið einkaleyfi öðlast gildi að nýju á grundvelli endurveitingarinnar.
Hafi maður í góðri trú byrjað að hagnýta uppfinningu hér á landi í atvinnuskyni, eða gert verulegar ráðstafanir til þess eftir að liðinn er tilskilinn frestur til endurupptöku umsóknar sem hefur verið afskrifuð eða hafnað, ellegar eftir að tilkynnt hefur verið að einkaleyfi sé fallið úr gildi, en þó áður en auglýsing skv. 1. mgr. hefur verið gefin út, þá getur hlutaðeigandi haldið hagnýtingu áfram með sama hætti og áður var.
Aðilaskipti að rétti skv. 2. mgr. geta einungis orðið í tengslum við aðilaskipti að þeim atvinnurekstri þar sem rétturinn er hagnýttur eða þar sem til stóð að beita honum.

[X. kafli a. Evrópsk einkaleyfi.]1)
   1)L. 53/2004, 9. gr.
[75. gr.
Evrópskt einkaleyfi merkir einkaleyfi sem veitt er af Evrópsku einkaleyfastofunni (EPO) í samræmi við evrópska einkaleyfasamninginn (EPC) frá 5. október 1973. Evrópsk einkaleyfisumsókn merkir umsókn í samræmi við ákvæði evrópska einkaleyfasamningsins.
Evrópskt einkaleyfi getur tekið til Íslands.
Umsókn um evrópskt einkaleyfi skal lögð inn hjá Evrópsku einkaleyfastofunni eða [Hugverkastofunni]1) sem tekur við umsóknum hér á landi. [Hugverkastofan]1) framsendir umsóknina til Evrópsku einkaleyfastofunnar í samræmi við nánari reglur sem [ráðherra]2) setur í reglugerð. Hlutunarumsókn fyrir evrópskt einkaleyfi skv. 76. gr. evrópska einkaleyfasamningsins verður þó einungis lögð inn hjá Evrópsku einkaleyfastofunni.
Ákvæði þessa kafla gilda um evrópsk einkaleyfi og evrópskar einkaleyfisumsóknir sem taka til Íslands.]3)
   1)L. 32/2019, 1. gr. 2)L. 98/2009, 12. gr. 3)L. 53/2004, 9. gr.
[76. gr.
Evrópskt einkaleyfi telst veitt þegar Evrópska einkaleyfastofan birtir tilkynningu um veitinguna. Evrópskt einkaleyfi, sem öðlast hefur gildi hér á landi, hefur sömu áhrif og einkaleyfi sem veitt er af [Hugverkastofunni]1) og gilda um það sömu reglur nema kveðið sé á um annað í lögum þessum.]2)
   1)L. 32/2019, 1. gr. 2)L. 53/2004, 9. gr.
[77. gr.
Evrópskt einkaleyfi öðlast aðeins gildi hér á landi ef umsækjandi, innan tilskilins frests samkvæmt reglugerð frá þeim degi sem Evrópska einkaleyfastofan hefur birt tilkynningu um veitingu einkaleyfis eða tekið ákvörðun um að staðfesta einkaleyfið í breyttri útgáfu, uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
   1. leggur inn hjá [Hugverkastofunni]1) íslenska þýðingu á einkaleyfiskröfum ásamt íslenskri eða enskri þýðingu á öðrum hlutum einkaleyfisins hafi evrópskt einkaleyfi verið veitt eða staðfest í breyttri útgáfu á þýsku eða frönsku,
   2. greiðir [Hugverkastofunni]1) tilskilið gjald fyrir útgáfu.
Einkaleyfisgögn, hvort sem þau liggja fyrir í rafrænu formi eða á pappír, eru öllum aðgengileg. Gögnin verða þó aldrei aðgengileg fyrr en Evrópska einkaleyfastofan hefur birt einkaleyfisumsóknina.
Þegar gögn skv. 1. mgr. hafa verið afhent, gjald greitt og Evrópska einkaleyfastofan hefur birt tilkynningu um veitingu einkaleyfis, eða ákvörðun sína um að staðfesta evrópska einkaleyfið í breyttri útgáfu, skal [Hugverkastofan]1) birta auglýsingu þess efnis. Eintak af einkaleyfinu skal þegar að því loknu vera fáanlegt hjá [Hugverkastofunni].1)]2)
   1)L. 32/2019, 1. gr. 2)L. 53/2004, 9. gr.
[78. gr.
Ákvæði 1. mgr. 72. gr. um endurveitingu réttinda eiga einnig við um fresti varðandi þýðingar og greiðslu gjalda skv. 1. mgr. 77. gr.
[Hugverkastofan]1) skal birta auglýsingu ef orðið er við beiðni um endurveitingu réttinda.
Hafi einhver í góðri trú byrjað að hagnýta uppfinningu hér á landi í atvinnuskyni, eða gert verulegar ráðstafanir til þess eftir að liðinn er frestur skv. 1. mgr. 77. gr. en áður en auglýsing um endurveitingu er birt, eiga ákvæði 2. og 3. mgr. 74. gr. við um rétt til hagnýtingar.]2)
   1)L. 32/2019, 1. gr. 2)L. 53/2004, 9. gr.
[79. gr.
Ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 52. gr. um ógildingu eiga einnig við um evrópskt einkaleyfi svo framarlega sem verndarsvið einkaleyfis hefur verið rýmkað eftir að einkaleyfið var veitt skv. 76. gr.]1)
   1)L. 53/2004, 9. gr.
[80. gr.
Ákvörðun Evrópsku einkaleyfastofunnar um að takmarka, fella niður eða ógilda evrópskt einkaleyfi hefur sömu áhrif á evrópska einkaleyfið hér á landi. …1)
[Til þess að ákvörðun Evrópsku einkaleyfastofunnar skv. 1. mgr. taki gildi hér á landi þarf einkaleyfishafi að uppfylla skilyrði 1. mgr. 77. gr. að nýju. [Hugverkastofan]2) skal birta auglýsingu þess efnis þegar gögn hafa verið afhent og gjald fyrir breytta útgáfu greitt.]1)]3)
   1)L. 40/2018, 12. gr. 2)L. 32/2019, 1. gr. 3)L. 53/2004, 9. gr.
[81. gr.
Árgjald af evrópsku einkaleyfi skal greiða til [Hugverkastofunnar]1) fyrir hvert gjaldár sem byrjar að líða eftir að Evrópska einkaleyfastofan hefur birt tilkynningu um ákvörðun sína um að veita evrópskt einkaleyfi.
Sé árgjald ekki greitt skv. 1. mgr., sbr. 41. gr., fellur einkaleyfið úr gildi. Árgjald fyrir fyrsta gjaldár eftir veitingu fellur þó ekki í gjalddaga fyrr en fjórum mánuðum eftir að einkaleyfið var veitt.]2)
   1)L. 32/2019, 1. gr. 2)L. 53/2004, 9. gr.
[82. gr.
Frá því að Evrópska einkaleyfastofan ákvarðar umsóknardag hefur umsókn áhrif hér á landi eins og um landsbundna umsókn væri að ræða. Hafi umsækjandi krafist forgangsréttar í samræmi við evrópska einkaleyfasamninginn gildir sá forgangsréttur einnig hér á landi.
Evrópsk einkaleyfisumsókn, sem birt hefur verið skv. 93. gr. evrópska einkaleyfasamningsins, telst þekkt, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 2. gr., og er lögð að jöfnu við umsóknir sem birtar eru skv. 22. gr. Það sama gildir um alþjóðlega einkaleyfisumsókn skv. 3. mgr. 153. gr. evrópska einkaleyfasamningsins ef Evrópska einkaleyfastofan leggur birtingu hennar að jöfnu við birtingu skv. 93. gr. evrópska einkaleyfasamningsins.]1)
   1)L. 53/2004, 9. gr.
[83. gr.
Ef umsækjandi afhendir [Hugverkastofunni]1) íslenska þýðingu á umsóknarkröfum eins og þær voru birtar af hálfu Evrópsku einkaleyfastofunnar skal þýðingin gerð aðgengileg almenningi. [Hugverkastofan]1) skal birta tilkynningu þess efnis í ELS-tíðindum.
Eftir að slík tilkynning hefur verið birt og umsókn hefur leitt til veitingar evrópsks einkaleyfis hér á landi er unnt að beita ákvæðum er varða brot á einkaleyfisrétti. Í slíkum tilvikum nær einkaleyfisverndin þó aðeins til þess sem fram kemur bæði í umsóknarkröfum, eins og þær voru birtar, og kröfum einkaleyfis eins og það var veitt eða því breytt. Ákvæði 57. gr. eiga ekki við í framangreindum tilvikum heldur er aðeins skylt að greiða bætur fyrir tjón skv. 2. mgr. 58. gr.]2)
   1)L. 32/2019, 1. gr. 2)L. 53/2004, 9. gr.
[84. gr.
Hafi umsækjandi dregið til baka evrópska einkaleyfisumsókn eða tilnefningu Íslands í slíkri umsókn, eða líta ber svo á samkvæmt evrópska einkaleyfasamningnum, og hafi umsókn ekki verið tekin til frekari meðferðar skv. 121. gr. evrópska einkaleyfasamningsins, hefur það sömu áhrif og þegar umsóknin er dregin til baka hér á landi.
Höfnun evrópskrar einkaleyfisumsóknar hefur sömu áhrif og höfnun umsóknar hér á landi.]1)
   1)L. 53/2004, 9. gr.
[85. gr.
Samræmist þýðingar skv. 77. og 83. gr. ekki textanum á því tungumáli sem notað var við málsmeðferð hjá Evrópsku einkaleyfastofunni tekur einkaleyfisverndin aðeins til þess sem tilgreint er í báðum textunum.
Í ógildingarmálum skal texti á tungumáli málsmeðferðar hjá Evrópsku einkaleyfastofunni ráða.]1)
   1)L. 53/2004, 9. gr.
[86. gr.
Afhendi einkaleyfishafi eða umsækjandi [Hugverkastofunni]1) leiðrétta þýðingu á einkaleyfi skv. 77. gr. og greiði tilskilið gjald fyrir útgáfu leiðréttrar þýðingar skal sú þýðing koma í stað þeirrar sem áður var afhent. Þegar leiðrétting hefur verið afhent og gjald greitt birtir [Hugverkastofan]1) auglýsingu þess efnis svo framarlega sem upphaflega þýðingin er aðgengileg. Þegar auglýsing hefur verið birt skal eintak af leiðréttu þýðingunni vera aðgengilegt almenningi og fáanlegt hjá [Hugverkastofunni].1)
Afhendi umsækjandi leiðrétta þýðingu á umsókn skv. 83. gr. birtir [Hugverkastofan]1) auglýsingu þess efnis og hefur hina leiðréttu þýðingu aðgengilega almenningi. Eftir birtingu auglýsingar kemur hin leiðrétta þýðing í stað hinnar upphaflegu.
Sá sem hefur í góðri trú notað uppfinninguna í atvinnuskyni hér á landi, eða hefur gert verulegar ráðstafanir til þess þegar hin leiðrétta þýðing hlýtur gildi, og notkunin braut ekki á rétti umsækjanda eða einkaleyfishafa samkvæmt fyrri þýðingu, hefur rétt til hagnýtingar í samræmi við 2. og 3. mgr. 74. gr.]2)
   1)L. 32/2019, 1. gr. 2)L. 53/2004, 9. gr.
[87. gr.
Ákvörðun Evrópsku einkaleyfastofunnar um að endurveita einkaleyfishafa eða umsækjanda réttindi, sem hann hefur glatað þar eð hann virti ekki tilskilinn frest, gildir einnig hér á landi.
Sá sem í góðri trú byrjar að hagnýta uppfinningu í atvinnuskyni hér á landi, eða hefur gert verulegar ráðstafanir til þess eftir að réttindamissir hefur átt sér stað en áður en Evrópska einkaleyfastofan hefur endurveitt réttindin og birt tilkynningu þess efnis, hefur rétt til hagnýtingar í samræmi við 2. og 3. mgr. 74. gr.]1)
   1)L. 53/2004, 9. gr.
[87. gr. a.
Sá sem í góðri trú byrjar að hagnýta uppfinningu, sem lýst er í birtri evrópskri einkaleyfisumsókn eða einkaleyfi, í atvinnuskyni hér á landi, eða hefur gert verulegar ráðstafanir til þess eftir að ákvörðun áfrýjunarnefndar Evrópsku einkaleyfastofunnar liggur fyrir en áður en úrskurður æðri áfrýjunarnefndar Evrópsku einkaleyfastofunnar skv. 112. gr. a í evrópska einkaleyfasamningnum er birtur, hefur rétt skv. 2. og 3. mgr. 74. gr.]1)
   1)L. 53/2004, 9. gr. Ákvæðið gildir um einkaleyfisumsóknir þar sem umsóknardagur hefur verið ákvarðaður fyrir gildistöku þess, sem og einkaleyfi sem veitt voru fyrir þann tíma, sbr. 11. gr. s.l.
[88. gr.
Teljist evrópsk einkaleyfisumsókn, sem lögð hefur verið inn hjá einkaleyfayfirvöldum aðildarríkis, dregin til baka vegna þess að hún var ekki framsend Evrópsku einkaleyfastofunni innan tilskilins frests skal [Hugverkastofan],1) ef umsækjandi krefst þess, líta svo á að henni hafi verið breytt í landsbundna umsókn hér á landi svo framarlega sem:
   1. krafan er sett fram við einkaleyfayfirvöld, þar sem umsóknin var lögð inn, innan þriggja mánaða eftir að umsækjanda var tilkynnt að hún teldist dregin til baka,
   2. krafan berst [Hugverkastofunni]1) innan tuttugu mánaða frá umsóknardegi eða, ef forgangsréttar er krafist, frá forgangsréttardegi og
   3. umsækjandi greiðir, innan frests sem ákveðinn er af [ráðherra],2) umsóknargjald og afhendir íslenska þýðingu af umsókninni í samræmi við ákvæði reglugerðar.
Ef umsókn uppfyllir formkröfur Evrópsku einkaleyfastofunnar skal hún tekin gild að því leyti.]3)
   1)L. 32/2019, 1. gr. 2)L. 98/2009, 12. gr. 3)L. 53/2004, 9. gr.
[89. gr.
Ákvæði 9., breyttrar 60. og 131. gr. evrópska einkaleyfasamningsins, svo og ákvæði bókunar með samningnum um lögsögu og um viðurkenningu dómsúrskurða varðandi rétt til að fá veitt evrópskt einkaleyfi (bókun um viðurkenningu), skulu hafa lagagildi hér á landi. Ákvæðin skulu fylgja lögunum og teljast hluti þeirra.]1)
   1)L. 53/2004, 9. gr.
[89. gr. a.
Ákvæði laga þessara er lúta að varðveislu líffræðilegs efnis eiga ekki við um evrópskt einkaleyfi.]1)
   1)L. 53/2004, 9. gr.
[90. gr.
[Ráðherra]1) skal í reglugerð setja nánari ákvæði um framkvæmd þessa kafla.]2)
   1)L. 98/2009, 12. gr. 2)L. 53/2004, 9. gr.

XI. kafli. Gildistökuákvæði.
[91. gr.]1)
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1992.
[Einkaleyfi fyrir lækningalyfjum er hægt að veita eftir 1. júní 1996 á grundvelli umsókna sem lagðar eru inn eftir 1. janúar 1995.]2)
[Einkaleyfi fyrir nautna- eða næringarefnum er hægt að veita á grundvelli umsókna sem lagðar eru inn eftir 1. janúar 1992.]3)
Ákvæði III. kafla laganna taka ekki gildi fyrr en auglýsing hefur verið birt um að Ísland hafi gerst aðili að samstarfssáttmálanum.
[Ákvæði 8., 22. og 56. gr. laganna um varðveislu sýnis af líffræðilegu efni öðlast ekki gildi fyrr en slíkt verður ákveðið með reglugerð og verður einungis beitt varðandi umsóknir sem lagðar eru inn eftir að ákvæðin öðlast gildi.]4)
   1)L. 53/2004, 9. gr. 2)L. 36/1996, 27. gr. 3)L. 67/1993, 2. gr. 4)L. 22/2004, 8. gr.
[92. gr.]1)
Lögin gilda um einkaleyfi, sem veitt hafa verið eða veitt verða í samræmi við eldri lög, með þeim takmörkunum sem leiðir af eftirfarandi ákvæðum:
   1. Einkaleyfi, sem um ræðir í 1. málsl. þessarar greinar, verða einungis ógilt í samræmi við ákvæði 20. gr. laga nr. 12 20. júní 1923.
   2. Gildistími einkaleyfa, sem veitt eru 10 árum fyrir gildistöku þessara laga eða fyrr, ræðst af ákvæði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 12 20. júní 1923. Gildistími annarra einkaleyfa, sem veitt eru í samræmi við eldri lög, ræðst af lögum þessum en þó þannig að hann verði ekki styttri en 15 ár frá útgáfudegi.
   3. Ákvæði laga nr. 12 20. júní 1923 um viðbótareinkaleyfi gilda áfram um þau viðbótareinkaleyfi sem veitt hafa verið í samræmi við þau lög.
   1)L. 53/2004, 9. gr.
[93. gr.]1)
Hafi stofnast réttur til að hagnýta uppfinningu á grundvelli ákvæðis 1. mgr. 6. gr. laga nr. 12 20. júní 1923 áður en lög þessi taka gildi skal sá réttur haldast þótt skilyrði 4. gr. þessara laga séu ekki uppfyllt.
   1)L. 53/2004, 9. gr.
[94. gr.]1)
[Um meðferð og ákvarðanir varðandi einkaleyfishæfi umsókna, sem lagðar hafa verið inn fyrir 1. janúar 1992, fer eftir ákvæðum laga nr. 12 20. júní 1923 með þeim undantekningum sem leiða má af öðrum ákvæðum þessa kafla.]2)
   1)L. 53/2004, 9. gr. 2)L. 67/1993, 3. gr.
[95. gr.]1)
[Hafi umsókn, sem var til meðferðar hjá einkaleyfayfirvöldum fyrir 1. janúar 1992, ekki verið auglýst fyrir þann tíma í samræmi við 13. gr. laga nr. 12 20. júní 1923 gilda ákvæði þessara laga um meðferð umsóknarinnar.]2)
   1)L. 53/2004, 9. gr. 2)L. 67/1993, 4. gr.
[96. gr.]1)
Nú hagnýtir einhver við gildistöku laga þessara í atvinnuskyni hér á landi uppfinningu sem ekki hefur verið unnt að veita einkaleyfi fyrir samkvæmt ákvæðum 1. gr. laga nr. 12 20. júní 1923 eða gerir verulegar ráðstafanir til að hagnýta slíka uppfinningu. Honum er þá heimilt að halda þeirri hagnýtingu áfram í samræmi við 4. gr. þessara laga óháð því hvort hagnýtingin eða ráðstafanir þar að lútandi hófust eftir að umsókn um einkaleyfi fyrir viðkomandi uppfinningu var lögð inn og óháð því hvort einkaleyfi verður síðar veitt fyrir henni.
Nú hagnýtir einhver við gildistöku laga þessara í atvinnuskyni hér á landi uppfinningu, sem annar hefur einkaleyfi fyrir, án þess að sú hagnýting sé óheimil með tilliti til 5. gr. laga nr. 12 20. júní 1923, eða gerir verulegar ráðstafanir til slíkrar hagnýtingar. Honum er þá heimilt að halda þeirri hagnýtingu áfram innan sömu marka þrátt fyrir að hagnýtingin væri óheimil skv. 3. gr. þessara laga. Aðilaskipti að slíkum rétti geta einungis orðið í tengslum við aðilaskipti að þeim atvinnurekstri þar sem rétturinn er hagnýttur eða þar sem til stóð að beita honum.
   1)L. 53/2004, 9. gr.
[97. gr.]1)
Nú hefur uppfinning orðið kunnug almenningi fyrir gildistöku laga þessara vegna aðgerða af hálfu umsækjanda eða einhvers sem hann sækir rétt sinn til. Ef lögð er inn umsókn um einkaleyfi fyrir þeirri uppfinningu innan sex mánaða frá gildistöku laga þessara skulu einungis ákvæði 4. tölul. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 12 20. júní 1923 gilda við mat á því að hve miklu leyti hægt sé að veita einkaleyfi með tilliti til ofangreindra aðgerða eða að hve miklu leyti veitt einkaleyfi verði ógilt.
   1)L. 53/2004, 9. gr.
[98. gr.]1)
Árgjöld af einkaleyfum, sem veitt hafa verið eða veitt verða í samræmi við eldri lög, gjaldfalla í fyrsta sinn þegar einkaleyfisgjald samkvæmt núgildandi reglum, sbr. 8. gr. rg. nr. 59/1966, hefði næst átt að gjaldfalla eftir gildistöku laga þessara. Eftir það gjaldfalla þau í samræmi við ákvæði laga þessara.
Greiða skal árgjöld af umsóknum sem lagðar hafa verið inn fyrir gildistöku laga þessara. Árgjald fyrir slíkar umsóknir reiknast í fyrsta sinn frá þeim almanaksdegi eftir gildistöku laganna sem umsóknin var upphaflega lögð inn á. Árgjöld fyrir fyrstu tvö gjaldárin eftir gildistöku laganna falla þó ekki í gjalddaga fyrr en árgjald fyrir þriðja gjaldár gjaldfellur.
   1)L. 53/2004, 9. gr.
[Ákvæði til bráðabirgða.
Frá og með 2. júlí 2022 gildir heimild 4.–6. mgr. 65. gr. a jafnframt um viðbótarvottorð sem taka gildi 1. júlí 2021 eða síðar en sótt hefur verið um fyrir það tímamark.]1)
   1)L. 57/2021, 2. gr.

[Fylgiskjöl.]1)
   1)L. 53/2004, 10. gr.
[I. Ákvæði 9., 60. og 131. gr. Evrópska einkaleyfasamningsins.
9. gr. Ábyrgð.
Um samningsbundna ábyrgð Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar skulu þau lög gilda sem við eiga um hlutaðeigandi samning.
Um ábyrgð stofnunarinnar utan samninga vegna tjóns sem hún veldur eða starfsmenn Evrópsku einkaleyfastofunnar í starfi sínu gilda ákvæði laga sambandslýðveldisins Þýskalands. Ef útibúið í Haag eða undirskrifstofa eða starfsmenn þar valda tjóni gilda ákvæði laga þess samningsríkis þar sem útibúið eða undirskrifstofan hefur aðsetur.
Kveða skal á um persónulega ábyrgð starfsmanna Evrópsku einkaleyfastofunnar gagnvart stofnuninni í starfsreglum þeirra eða ráðningarskilmálum.
Þeir dómstólar, sem fara með lögsögu til að leysa úr deilum skv. 1. og 2. mgr., eru:
   a. að því er varðar deilur skv. 1. mgr., valdbærir dómstólar í sambandslýðveldinu Þýskalandi nema kveðið sé á um dómstóla annars ríkis í samningi milli aðilanna;
   b. að því er varðar deilur skv. 2. mgr., annaðhvort valdbærir dómstólar í sambandslýðveldinu Þýskalandi eða valdbærir dómstólar í ríkinu þar sem útibúið eða undirskrifstofan hefur aðsetur.
60. gr. Réttur til evrópsks einkaleyfis.
Rétt til evrópsks einkaleyfis á uppfinningamaðurinn eða sá sem hefur öðlast rétt hans. Ef uppfinningamaðurinn er launþegi ákvarðast rétturinn til evrópsks einkaleyfis af lögum ríkisins þar sem launþeginn starfar aðallega en ef ekki er unnt að ákvarða í hvaða ríki launþeginn starfar aðallega skal beita lögum ríkisins þar sem atvinnurekandinn hefur starfsstöð sem launþeginn tengist.
Hafi tveir eða fleiri einstaklingar komið fram með uppfinningu, óháðir hvor eða hver öðrum, skal sá eiga rétt til evrópsks einkaleyfis sem fyrst sækir um hann, að því gefnu að fyrsta umsókn hafi verið birt.
Í máli hjá Evrópsku einkaleyfastofunni skal litið svo á að umsækjanda sé heimilt að fara með réttinn til evrópsks einkaleyfis.
131. gr. Samstarf um framkvæmd og löggjöf.
Sé eigi kveðið á um annað í samningi þessum eða landslögum skulu Evrópska einkaleyfastofan og dómstólar eða yfirvöld í samningsríkjunum aðstoða hvert annað, þegar um er beðið, með upplýsingaskiptum eða með því að heimila skoðun gagna. Skilyrði, sem sett eru í 128. gr., gilda ekki um skoðunina þegar Evrópska einkaleyfastofan heimilar dómstólum, embættum saksóknara eða aðalhugverkastofum að skoða gögn.
Þegar dómstólar eða önnur valdbær yfirvöld í samningsríkjunum taka við bréflegum beiðnum um skýrslutöku frá Evrópsku einkaleyfastofunni skulu þau leita nauðsynlegra upplýsinga eða gera aðrar lagalegar ráðstafanir fyrir Evrópsku einkaleyfastofuna að svo miklu leyti sem þau fara með lögsögu.]1)
   1)L. 53/2004, 10. gr.
[II. Bókun um lögsögu og um viðurkenningu dómsúrskurða varðandi rétt til að fá veitt evrópskt einkaleyfi (bókun um viðurkenningu).
I. kafli. Lögsaga.
1. gr.
Dómstólar samningsríkja skulu, í samræmi við 2.–6. gr., hafa lögsögu til að skera úr um kröfur gegn umsækjanda þar sem tilkall er gert til réttar til að fá veitt evrópskt einkaleyfi gagnvart einu eða fleirum þeirra samningsríkja sem tilnefnd eru í umsókninni.
Í bókun þessari nær hugtakið dómstólar yfir þau yfirvöld sem að landslögum í samningsríki hafa lögsögu til að skera úr um kröfur þær er um getur í 1. mgr. Hverju samningsríki ber að tilkynna Evrópsku einkaleyfastofunni hver þau yfirvöld eru sem slík lögsaga er veitt og ber Evrópsku einkaleyfastofunni að veita öðrum samningsríkjum upplýsingar þar um.
Í bókun þessari á hugtakið samningsríki við hvert það samningsríki sem ekki hefur beitt 167. gr. samningsins til að útiloka að bókunin eigi við.
2. gr.
Nú hefur umsækjandi um evrópskt einkaleyfi aðsetur eða aðalstarfsstöð í einu samningsríkjanna og skal þá, með fyrirvara um 4. og 5. gr., mál gegn honum rekið fyrir dómstólum þess samningsríkis.
3. gr.
Nú hefur umsækjandi um evrópskt einkaleyfi aðsetur eða aðalstarfsstöð utan samningsríkjanna, en aðilinn, sem gerir tilkall til réttar til að fá veitt evrópskt einkaleyfi, hefur aðsetur eða aðalstarfsstöð í einu samningsríkjanna, og skulu þá, með fyrirvara um 4. og 5. gr., dómstólar þess ríkis einir hafa lögsögu.
4. gr.
Nú er sótt um evrópskt einkaleyfi á grundvelli uppfinningar sem launþegi hefur gert og skulu þá, með fyrirvara um 5. gr., dómstólar þess samningsríkis, þar sem landslög ákvarða réttinn til evrópsks einkaleyfis skv. 2. málsl. 1. mgr. 60. gr. samningsins, ef þeim er til að dreifa, einir hafa lögsögu í dómsmálum milli launþegans og atvinnurekanda hans.
5. gr.
Nú hafa málsaðilar í deilu um réttinn til að fá veitt evrópskt einkaleyfi gert með sér samning, annaðhvort skriflega eða munnlega með skriflegri staðfestingu, þess efnis að dómstóll eða dómstólar í tilteknu samningsríki eigi að skera úr þess háttar deilu og skal þá dómstóll eða dómstólar þess ríkis einir hafa lögsögu.
Séu málsaðilar launþegi og atvinnurekandi hans gildir 1. mgr. þó því aðeins að slíkur samningur sé heimill að landslögum þeim sem gilda um starfssamninginn þeirra á milli.
6. gr.
Í þeim málum sem hvorki falla undir ákvæði 2.–4. gr. né 1. mgr. 5. gr. hafa dómstólar sambandslýðveldisins Þýskalands einir lögsögu.
7. gr.
Þegar kröfur þær sem um getur í 1. gr. eru bornar upp fyrir dómstól í samningsríki skal hann að eigin frumkvæði úrskurða hvort honum beri lögsaga skv. 2.–6. gr. eða ekki.
8. gr.
Fari svo að mál sé höfðað á grundvelli sömu kröfu og milli sömu málsaðila fyrir dómstólum í fleiri en einu samningsríki ber dómstóli, þar sem málið er síðar upp borið, að eigin frumkvæði að afsala sér lögsögu til þess dómstóls þar sem það var borið upp fyrr.
Fari svo að brigður séu bornar á lögsögu dómstólsins, þar sem málið var fyrr upp borið, ber dómstólnum, þar sem það var borið upp síðar, að fresta málsmeðferð þar til fyrri dómstóllinn kveður upp fullnaðarúrskurð.

II. kafli. Viðurkenning.
9. gr.
Nú hefur verið kveðinn upp í einhverju samningsríki fullnaðarúrskurður um réttinn til að fá veitt evrópskt einkaleyfi gagnvart einu eða fleirum þeirra samningsríkja sem tilnefnd eru í umsókninni um evrópskt einkaleyfi og skal þá, með fyrirvara um 2. mgr. 11. gr., viðurkenna þann úrskurð án þess að til þurfi að koma nokkur sérstök málsmeðferð í öðrum samningsríkjum.
Málskot er óheimilt um réttmæti úrskurðar, sem viðurkenna ber, og lögsögu dómstólsins sem kvað hann upp.
10. gr.
1. mgr. 9. gr. á ekki við ef:
   a. umsækjandi um evrópskt einkaleyfi, sem hefur ekki haft uppi mótmæli gegn kröfu, sýnir fram á að málsskjalið, sem réttarhöldin voru hafin með, hafi ekki verið kynnt honum eins og vera ber og í tæka tíð fyrir hann til að hafa uppi varnir; eða
   b. umsækjandi sýnir fram á að úrskurðurinn fari í bága við annan úrskurð, kveðinn upp í samningsríki í máli milli sömu málsaðila, og hafi þau málaferli hafist fyrr en hin þar sem úrskurðurinn, sem ber að viðurkenna, var kveðinn upp.
11. gr.
Í samskiptum samningsríkja skulu ákvæði bókunar þessarar ganga framar hverjum þeim ákvæðum annarra samninga um lögsögu eða viðurkenningu dómsniðurstaðna sem kunna að vera gagnstæð þeim.
Bókun þessi skal engu breyta um framkvæmd nokkurra samninga milli samningsríkis og ríkis sem óbundið er af bókuninni.]1)
   1)L. 53/2004, 10. gr.