Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð
2007 nr. 163 21. desember
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. janúar 2008. Breytt með:
L. 98/2009 (tóku gildi 1. okt. 2009 nema 69. og 70. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2010).
L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
L. 104/2013 (tóku gildi 26. sept. 2013).
L. 77/2014 (tóku gildi 12. júní 2014).
L. 90/2018 (tóku gildi 15. júlí 2018; EES-samningurinn: XI. viðauki reglugerð 2016/679).
L. 71/2019 (tóku gildi 5. júlí 2019).
L. 72/2019 (tóku gildi 5. júlí 2019 nema 9. gr. sem tók gildi 1. jan. 2021; EES-samningurinn: XX. viðauki tilskipun 2003/4/EB).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við forsætisráðherra eða forsætisráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Hlutverk og skipulag.
1. gr.
Hagstofa Íslands er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir [ráðherra]1) og vinnur að opinberri hagskýrslugerð samkvæmt lögum þessum. Hún er miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar í landinu og hefur forustu um tilhögun, samræmingu og framkvæmd hennar svo og um samskipti við alþjóðastofnanir um hagskýrslu- og tölfræðimál.
Með opinberri hagskýrslugerð er átt við starfsemi Hagstofunnar og annarra bærra ríkisstofnana sem lýtur að söfnun gagna til tölfræðilegrar úrvinnslu um landshagi Íslands og þjóðfélagsleg málefni, úrvinnslu gagnanna og miðlun tölfræðilegra upplýsinga til almennings, fyrirtækja, stofnana og stjórnvalda á grundvelli laga og í samræmi við fyrirmæli sett samkvæmt lögum þessum.
[Við Hagstofu Íslands skal starfrækja sjálfstæða rannsóknareiningu sem er aðskilin hagskýrslustarfseminni. Rannsóknareiningin skal fylgjast með afkomu þjóðarbúsins, semja þjóðhagsspár og áætlanir og birta opinberlega.]2)
1)L. 126/2011, 472. gr. 2)L. 98/2009, 47. gr., sbr. brbákv. s.l.
2. gr.
Hagstofan skal ákveða [hagskýrsluverkefni]1) og forgangsraða með hliðsjón af þörfum stjórnvalda fyrir tölfræðilegar upplýsingar til stefnumótunar og ákvarðana um þjóðfélagsmál, alþjóðlegum skuldbindingum ríkisins um gerð hagskýrslna og af þörfum og óskum almennings, aðila vinnumarkaðarins, atvinnurekstrar og rannsóknar- og menntastofnana fyrir tölfræðilegar upplýsingar. Í þessu skyni skal stofnunin hafa virkt samráð við þessa aðila.
Hagstofan skipuleggur starfsemi sína og einstök verkefni innan þess ramma sem ræðst af fjárveitingum á fjárlögum, öðrum framlögum og eigin tekjum, sbr. 14. gr.
1)L. 98/2009, 48. gr.
3. gr.
Hagstofan annast samræmingu opinberrar hagskýrslugerðar sem hún og aðrar ríkisstofnanir hafa með höndum skv. 1. gr. Samræming þessi tekur til verkefna og aðferða við hagskýrslugerðina, þar á meðal til notkunar staðla og flokkunarkerfa, skilyrða um gæði og birtingu svo og um meðferð gagna sem safnað er til tölfræðilegrar úrvinnslu.
Hagstofan skal efna til reglubundins samráðs milli þeirra ríkisstofnana sem leggja stund á opinbera hagskýrslugerð eða safna gögnum sem eru mikilvæg til þeirra nota.
4. gr.
Hagstofunni stýrir hagstofustjóri sem skipaður er af [ráðherra]1) til fimm ára í senn. Hagstofustjóri skal hafa lokið háskólaprófi í hagfræði, tölfræði, félagsfræði eða skyldum greinum og hafa þekkingu og reynslu af hagskýrslugerð eða notkun hagtalna.
Hagstofustjóri ræður aðra stjórnendur og starfslið Hagstofunnar. Hann er ábyrgur fyrir rekstri Hagstofunnar og skipuleggur starfsemi hennar í samræmi við ákvæði 1.–3. gr.
Hagstofustjóri ber faglega ábyrgð á hagskýrslugerð Hagstofunnar. Hann tekur ákvarðanir um aðferðir og starfshætti við hagskýrslugerðina, um notkun flokkunarkerfa og staðla, um efni, tímasetningu og birtingu frétta, útgáfna og tölfræðilegra niðurstaðna og skýrslna stofnunarinnar.
1)L. 98/2009, 49. gr.
II. kafli. Söfnun upplýsinga.
5. gr.
Hagstofunni er heimilt að krefja stjórnvöld, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga í atvinnurekstri um gögn og upplýsingar sem hún þarfnast til hagskýrslugerðar sinnar samkvæmt lögum þessum og er þeim skylt að veita henni upplýsingarnar á því formi sem hún óskar eftir eða um semst og innan þeirra tímamarka sem hún ákveður. Hagstofan skal jafnan upplýsa í hvaða tilgangi gagna er aflað, hvernig úrvinnslu verði háttað, gögn varðveitt og niðurstöður birtar.
6. gr.
Hagstofan skal haga gagnasöfnun sinni á þann hátt að fyrirhöfn upplýsingagjafa við að láta í té gögn sé hófleg. Hún skal leitast við að afla gagna úr stjórnsýsluskrám og öðrum opinberum skrám og gagnasöfnum þegar því verður við komið. Stjórnvöld sem afla gagna og halda skrár eða gagnasöfn vegna starfsemi sinnar skulu veita Hagstofunni upplýsingar úr þeim sem hún óskar eftir vegna hagskýrslugerðar sinnar og án þess að gjald komi fyrir.
Ríkisstofnanir og sveitarfélög sem afla eða hyggjast afla gagna til meiri háttar tölfræðilegrar úrvinnslu skulu upplýsa Hagstofuna um störf sín og áform á þessum vettvangi til að tryggja samræmi í verkefnum, aðferðum og vinnubrögðum og að gögnin nýtist sem best til hagskýrslugerðar. Hagstofan getur í slíkum verkum lagt fyrir hlutaðeigandi aðila að afla viðbótarupplýsinga til hagskýrslugerðar, enda sé tekið tillit til eðlilegra sjónarmiða um kostnað.
Ríkisstofnanir og sveitarfélög sem halda skrár vegna starfsemi sinnar eða hyggjast halda slíkar skrár skulu hafa samráð við Hagstofuna um gerð nýrra skráa og endurnýjun eða breytingar eldri skráa til að þær nýtist sem best til hagskýrslugerðar. Hagstofunni er heimilt að óska eftir breytingum á skrám í þessu skyni og skal orðið við þeim óskum eftir því sem við verður komið og að teknu tilliti til eðlilegra sjónarmiða um kostnað.
7. gr.
Fyrirtækjum og einstaklingum í atvinnurekstri er skylt að veita Hagstofunni umbeðnar upplýsingar um umsvif sín og rekstur. Við beina upplýsingaöflun frá aðilum í atvinnurekstri skal Hagstofan gæta þess að gagnasöfnunin sé sem auðveldust og hagkvæmust. Leitast skal við að rafrænni upplýsingatækni sé beitt eftir því sem unnt er, svo sem til útfyllingar gagnabeiðna, við gagnaskil og með tengingum við upplýsingakerfi fyrirtækja.
8. gr.
Hagstofan skal afla nauðsynlegra hagskýrslugagna um einstaklinga og heimili úr opinberum skrám og á grundvelli stjórnsýslugagna eftir því sem kostur er. Hagstofunni er að öðru leyti heimilt að afla persónubundinna upplýsinga beint frá einstaklingum.
9. gr.
Við tölfræðilega úrvinnslu og hagskýrslugerð er Hagstofunni heimilt að tengja saman eigin skrár og skrár frá öðrum aðilum með upplýsingum um einstaklinga eða lögaðila á grundvelli kennitölu eða annars auðkennis.
III. kafli. Trúnaður í hagskýrslugerð.
10. gr.
Þagnarskylda ríkir um allar upplýsingar sem Hagstofan safnar til hagskýrslugerðar og snerta tilgreinda einstaklinga eða lögaðila. Slíkar upplýsingar teljast trúnaðargögn og skulu þær einvörðungu notaðar til hagskýrslugerðar. [Óheimilt er að afhenda þær öðrum stjórnvöldum, ákvæði annarra laga um aðgang stjórnvalda að gögnum víkja fyrir þessu ákvæði og þær lúta ekki aðgangi samkvæmt upplýsingalögum.]1) Sama gildir um upplýsingar um einstaklinga og lögaðila í opinberum skrám sem Hagstofan nýtir til hagskýrslugerðar og upplýsingar sem verða til við samtengingu skráa skv. 9. gr. Þegar um stjórnsýsluupplýsingar er að ræða er Hagstofunni þó heimilt að veita hlutaðeigandi stjórnvaldi upplýsingar úr gögnum sem það hefur áður tekið þátt í að safna eða látið henni í té.
Við birtingu og miðlun hagskýrslna skal svo sem frekast er unnt komið í veg fyrir að rekja megi upplýsingar til tilgreindra einstaklinga eða lögaðila. Þetta gildir ekki hafi hlutaðeigandi einstaklingur eða lögaðili samþykkt þess háttar birtingu eða ef um er að ræða opinberar upplýsingar sem ekki þurfa að fara leynt.
1)L. 104/2013, 1. gr.
11. gr.
[Á starfsfólki Hagstofunnar hvílir þagnarskylda skv. X. kafla stjórnsýslulaga.]1)
1)L. 71/2019, 5. gr.
[11. gr. a.
Brjóti starfsmenn Hagstofu Íslands gegn þagnarskylduákvæðum 10. og 11. gr. fer um refsiábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi. Þegar um er að ræða upplýsingar sem falla undir 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, varðar brot sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt sérlögum eða öðrum lögum.]1)
1)L. 104/2013, 2. gr.
12. gr.
Hagstofunni er skylt að varðveita öll tölfræðigögn um einstaklinga og lögaðila tryggilega og beita viðeigandi ráðstöfunum til að tryggja öryggi gagna.
Trúnaðargögnum til hagskýrslugerðar skal eytt að lokinni hagnýtingu þeirra nema ástæða þyki til að varðveita þau til frekari rannsókna innan eða utan Hagstofunnar, en þá skal afmá persónuauðkenni þeirra eða dylja.
[Ákvæði laga um skilaskyldu til Þjóðskjalasafns, sbr. lög um opinber skjalasöfn, gilda ekki um trúnaðargögn til hagskýrslugerðar og þeim skal ekki komið fyrir til geymslu þar.]1)
Hagstofan skal setja sérstakar reglur um öryggi og varðveislu trúnaðargagna, þar á meðal um varðveislu eða eyðingu pappírsgagna, hvort eða hvenær skuli eyða tölvugögnum og afmá eða dylja auðkenni þess háttar gagna.
1)L. 72/2019, 21. gr.
13. gr.
Hagstofan skal stuðla að því að gögn hennar nýtist til tölfræðilegra vísindarannsókna. Í því skyni er henni heimilt að veita viðurkenndum eða trúverðugum rannsóknaraðilum aðgang að gögnum eða afhenda gögn úr gagnasafni með almennum upplýsingum um einstaklinga eða fyrirtæki. Afhending eða hagnýting slíkra gagna skal háð þeim skilyrðum að auðkenni einstaklinga eða fyrirtækja hafi verið afmáð eða dulin og ráðstafanir verið gerðar eftir því sem unnt er til þess að upplýsingar verði ekki raktar til þekkjanlegra einstaklinga eða lögaðila.
Hagstofunni er einnig heimilt að veita aðgang að gagnasafni með viðkvæmum persónuupplýsingum sé einhverju skilyrða [11. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga]1) fullnægt og hlutaðeigandi rannsóknaraðili heiti því að skila gögnunum eða eyða persónuauðkennum þeirra að rannsókn lokinni, en þó í síðasta lagi að tilteknum tíma liðnum. Hyggist rannsóknaraðili varðveita persónuauðkenni lengur skal hann tilkynna það Hagstofunni og óska eftir samþykki hennar fyrir frekari varðveislu.
Hagstofan skal setja nánari reglur um afhendingu og hagnýtingu gagna samkvæmt þessari grein og nánari skilyrði í því sambandi, svo sem um umsóknir þar að lútandi, tilgang rannsóknar og rannsóknaráætlun, samhengi gagnaþarfar og rannsóknar, varðveislu gagna og eyðingu gagna að rannsókn lokinni.
1)L. 90/2018, 54. gr.
IV. kafli. Ýmis ákvæði.
14. gr.
Hagstofunni er heimilt að afla sértekna og taka gjald fyrir sérþjónustu í hagskýrslugerð og þjónustu við rannsóknaraðila og aðra gagnabeiðendur svo og vegna hagnýtingar á upplýsingakerfum hennar og þjónustu í því sambandi.
15. gr.
Skirrist einhver við að veita Hagstofunni umbeðnar upplýsingar til hagskýrslugerðar samkvæmt lögum þessum er henni heimilt að gera hlutaðeigandi skylt að fullnægja upplýsingaskyldu sinni að viðlögðum dagsektum sem mega nema 10.000–50.000 kr. fyrir hvern dag. Dagsektir skulu ákveðnar með úrskurði og falla á fyrir hvern dag sem líður frá uppkvaðningu hans þar til upplýsingaskyldu er sinnt. Áfallnar dagsektir falla niður þegar Hagstofan telur að upplýsingaskyldu hafi verið fullnægt. Dagsektir renna í ríkissjóð og má án undangengins dóms gera aðför til fullnustu þeirra.
16. gr.
[Ráðherra]1) setur sérstakar verklagsreglur í hagskýrslugerð á grundvelli þessara laga og viðurkenndra reglna sem settar hafa verið á alþjóðavettvangi um opinbera hagskýrslugerð.
[Ráðherra]1) er heimilt að setja með reglugerð2) nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.
1)L. 98/2009, 49. gr. 2)Rg. 508/2012. Rg. 777/2016.
17. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008. …
Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Við gildistöku laga þessara halda þeir starfsmenn Hagstofu Íslands sem ráðnir hafa verið með ráðningarsamningi, sbr. 41. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við sömu lög, störfum sínum og starfskjörum.
Skrifstofustjórar við Hagstofu Íslands skulu við gildistöku laga þessara halda störfum sínum og starfskjörum, sbr. 23. gr. laga nr. 70/1996 og ákvæði til bráðabirgða við þau lög. Hagstofustjóra skal boðið að taka við starfi hagstofustjóra samkvæmt lögum þessum með óbreyttum starfskjörum.
Við ráðstöfun starfa samkvæmt þessari grein þarf ekki að gæta 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.
[II. …1)]2)
1)6. mgr. ákvæðisins. 2)L. 104/2013, 3. gr.
[III.
Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 12. gr. er Hagstofu Íslands heimilt að afhenda Þjóðskjalasafni Íslands trúnaðargögn sem safnað var vegna manntals sem fór fram á grundvelli laga nr. 76/1980, um manntal 31. janúar 1981. Um aðgang að gögnunum fer samkvæmt ákvæðum …1) laga um opinber skjalasöfn.]2)
1)L. 72/2019, 21. gr. 2)L. 77/2014, 50. gr.