Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um grunnskóla

2008 nr. 91 12. júní


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júlí 2008. Breytt með: L. 34/2009 (tóku gildi 8. apríl 2009). L. 35/2009 (tóku gildi 8. apríl 2009). L. 38/2009 (tóku gildi 8. apríl 2009). L. 91/2011 (tóku gildi 1. júlí 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 180/2011 (tóku gildi 30. des. 2011). L. 56/2014 (tóku gildi 4. júní 2014). L. 72/2015 (tóku gildi 21. júlí 2015). L. 91/2015 (tóku gildi 5. ágúst 2015 nema 1. og 4.–7. gr. sem tóku gildi 1. júlí 2015). L. 115/2015 (tóku gildi 16. des. 2015). L. 76/2016 (tóku gildi 29. júní 2016; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 11. gr.). L. 78/2016 (tóku gildi 1. júlí 2016). L. 90/2018 (tóku gildi 15. júlí 2018; EES-samningurinn: XI. viðauki reglugerð 2016/679). L. 50/2019 (tóku gildi 26. júní 2019). L. 71/2019 (tóku gildi 5. júlí 2019). L. 153/2020 (tóku gildi 6. jan. 2021). L. 87/2021 (tóku gildi 1. jan. 2022). L. 89/2021 (tóku gildi 8. júlí 2021). L. 102/2021 (tóku gildi 13. júlí 2021). L. 107/2021 (tóku gildi 1. jan. 2022; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 43. gr.). L. 79/2022 (tóku gildi 14. júlí 2022). L. 91/2023 (tóku gildi 1. apríl 2024 nema brbákv. I, 3. mgr. brbákv. II og brbákv. IV sem tóku gildi 16. des. 2023). L. 107/2023 (tóku gildi 11. jan. 2024).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við mennta- og barnamálaráðherra eða mennta- og barnamálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Gildissvið, hlutverk grunnskóla og skólaskylda.
1. gr. Gildissvið.
Lög þessi taka til grunnskóla á vegum sveitarfélaga, til sjálfstætt rekinna grunnskóla …1) og til viðurkennds náms á grunnskólastigi. Skólar sem bjóða nám á grunnskólastigi nefnast grunnskólar.
   1)L. 76/2016, 1. gr.
2. gr. Markmið.
Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Þá skal grunnskóli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð, [farsæld]1) og menntun hvers og eins.
Grunnskóli skal stuðla að víðsýni hjá nemendum og efla færni þeirra í íslensku máli, skilning þeirra á íslensku samfélagi, sögu þess og sérkennum, högum fólks og á skyldum einstaklingsins við samfélagið, umhverfið og umheiminn. Nemendum skal veitt tækifæri til að nýta sköpunarkraft sinn og að afla sér þekkingar og leikni í stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal leggja grundvöll að frumkvæði og sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.
Grunnskóli skal stuðla að góðu samstarfi heimilis og skóla með það að markmiði að tryggja farsælt skólastarf, almenna velferð og öryggi nemenda.
   1)L. 107/2023, 13. gr.
3. gr. Skólaskylda.
Skólaskylda á grunnskólastigi er að jafnaði í tíu ár, en getur verið skemmri, sbr. 32. gr. Öllum börnum, að jafnaði á aldrinum 6–16 ára, er skylt að sækja grunnskóla.
Foreldrar gæta hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri. Foreldrar samkvæmt lögum þessum teljast þeir sem fara með forsjá barns í skilningi barnalaga.

II. kafli. Stjórnskipan grunnskóla.
4. gr. Yfirstjórn.
[Ráðherra]1) fer með yfirstjórn þeirra málefna sem lög þessi taka til, setur grunnskólum aðalnámskrá, leggur grunnskólum til námsgögn, hefur eftirlit með gæðum skólastarfs, …2) styður þróunarstarf í skólum og hefur úrskurðarvald í ágreiningsmálum eftir því sem lög þessi kveða á um. [Ráðuneyti]1) hefur eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lög þessi, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og aðalnámskrá grunnskóla kveða á um. Ráðherra skal á þriggja ára fresti leggja fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd skólastarfs í grunnskólum landsins sem byggist m.a. á skýrslum sveitarfélaga um skólahald skv. 37. gr.
[Ráðherra annast söfnun, greiningu og miðlun upplýsinga um grunnskóla. Í því skyni er ráðherra heimilt að krefja skóla og rekstraraðila þeirra um upplýsingar og gögn sem ráðherra telur nauðsynleg til að sinna hlutverki sínu samkvæmt þessari grein á tilteknu formi og innan tiltekinna tímamarka. Er þeim skylt að verða við slíkri kröfu án þess að taka gjald fyrir.]2)
   1)L. 91/2011, 1. gr. 2)L. 91/2023, 9. gr.
5. gr. Sveitarfélög.
Rekstur almennra grunnskóla er á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga. Sveitarfélög bera ábyrgð á heildarskipan skólahalds í grunnskólum sveitarfélagsins, þróun einstakra skóla, húsnæði og búnaði grunnskóla, sérúrræðum grunnskóla, [skólaþjónustu],1) mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd grunnskólastarfs í sveitarfélaginu. Sveitarfélög setja almenna stefnu um grunnskólahald í sveitarfélaginu og kynna fyrir íbúum þess. [Nemendum skal veitt tækifæri til að taka þátt í gerð stefnu um grunnskólahald.]2) Sveitarstjórn skal koma á samstarfi leikskóla og grunnskóla annars vegar og grunnskóla og framhaldsskóla hins vegar.
[Sveitarfélögum ber að tryggja að þjónusta grunnskóla sé samfelld og samþætt í þágu velferðar og farsældar barna.]2)
Sveitarfélögum er skylt að sjá til þess að skólaskyld börn skv. 3. gr., sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, og börn sem hefur verið ráðstafað í fóstur til fósturforeldra, sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, njóti skólavistar eftir því sem nánar segir í lögum þessum. [Áður en barni er ráðstafað í fóstur skal [barnaverndarþjónusta]3) kanna aðstæður í samráði við skólayfirvöld á viðkomandi stað og leggja mat á möguleika viðkomandi grunnskóla til að koma til móts við þarfir barnsins.]4)
Liggi ekki fyrir ákvörðun stjórnvalds um lögheimili barns kveður sveitarstjórn á um skólaskyldu þess, enda búi barnið í sveitarfélaginu og leitað hafi verið eftir innritun þess í skóla, sbr. 19. gr. Synjun sveitarstjórnar er kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr. Í úrskurði getur [ráðuneytið]5) lagt fyrir sveitarfélag að tryggja barni skólavist innan sveitarfélagsins.
Sveitarstjórn í sveitarfélagi þar sem barn á lögheimili getur samið við annað sveitarfélag um að veita barninu skólavist þannig að viðtökusveitarfélag hafi sömu skyldur gagnvart skólavist þess og ætti það lögheimili þar.
[Ráðherra setur reglugerð6) um framkvæmd þessarar greinar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga …7) og önnur stjórnvöld þar sem m.a. skal kveðið á um skólagöngu fósturbarna, bæði fagleg og fjárhagsleg málefni og samstarf aðila. Úrskurðarnefnd skipuð fulltrúum frá ráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og [Barna- og fjölskyldustofu]7) sker úr um ágreiningsmál.]4)
   1)L. 76/2016, 1. gr. 2)L. 107/2023, 14. gr. 3)L. 107/2021, 44. gr. 4)L. 91/2011, 2. gr. 5)L. 126/2011, 492. gr. 6)Rg. 547/2012, sbr. 976/2018. 7)L. 87/2021, 8. gr.
6. gr. Skólanefnd.
Í hverju sveitarfélagi skal í umboði sveitarstjórnar vera skólanefnd sem fer með málefni grunnskóla eftir því sem lög og reglugerðir ákveða og sveitarstjórn eða sveitarstjórnir kunna að fela henni.
Meginhlutverk skólanefndar er sem hér segir:
   a. að sjá til þess að öll skólaskyld börn sem rétt eiga á skólavist í sveitarfélaginu njóti lögboðinnar fræðslu,
   b. að staðfesta starfsáætlun skóla ár hvert og skólanámskrá einstakra skóla,
   c. að fylgjast með framkvæmd náms og kennslu í sveitarfélaginu og gerð skólanámskrár og gera tillögur til skólastjóra og/eða sveitarstjórnar um umbætur í skólastarfi,
   d. að fylgjast með og stuðla að því að nemendum og skólum sé tryggður aðgangur að [skólaþjónustu],1)
   e. að sjá til þess að jafnan sé fyrir hendi viðeigandi húsnæði fyrir kennslu og annar aðbúnaður, þ.m.t. útivistar- og leiksvæði nemenda,
   f. að hafa eftirlit með að ákvæði laga og reglugerða séu uppfyllt og gera tillögur til sveitarstjórnar um úrbætur,
   g. að stuðla að tengslum og samstarfi leikskóla og grunnskóla annars vegar og grunnskóla og framhaldsskóla hins vegar,
   [h. að stuðla að samþættingu þjónustu sem veitt er á vegum skólakerfisins við aðra þjónustu sem er veitt í þágu barna.]2)
Skólanefnd skal kosin af hlutaðeigandi sveitarstjórn í upphafi hvers kjörtímabils. Um kosningu í skólanefnd og starfshætti fer samkvæmt sveitarstjórnarlögum og samþykktum viðkomandi sveitarfélags. Varamenn í skólanefndum skulu vera jafnmargir aðalmönnum og kosnir á sama hátt.
Skólastjórar, grunnskólakennarar og foreldrar í sveitarfélagi kjósa hver úr sínum hópi aðal- og varamann til setu á skólanefndarfundum með málfrelsi og tillögurétt.
3)
   1)L. 76/2016, 1. gr. 2)L. 107/2023, 15. gr. 3)L. 76/2016, 2. gr.
7. gr. Skólastjóri.
Við grunnskóla skal vera skólastjóri sem er forstöðumaður grunnskóla, stjórnar honum, veitir faglega forustu og ber ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn. Skólastjóri stuðlar að samstarfi allra aðila skólasamfélagsins. Skólastjóri boðar til kennarafunda svo oft sem þurfa þykir á starfstíma grunnskóla. Kennarafundi skulu sækja kennarar og aðrir sérfræðingar skólans. Skólastjóri boðar til starfsmannafunda svo oft sem þurfa þykir.
Skólastjóri gerir tillögur til sveitarstjórnar um fyrirkomulag stjórnunar í grunnskóla með tilliti til þarfa viðkomandi skóla. Skólastjóri ákveður verksvið annarra stjórnenda skólans og skal einn þeirra vera staðgengill skólastjóra.
Hafi grunnskóli færri en 60 nemendur, og ef ekki er annar stjórnandi, ákveður skólastjóri í upphafi skólaárs hver af föstum kennurum skólans skuli annast skólastjórn í forföllum hans.
8. gr. Skólaráð.
Við grunnskóla skal starfa skólaráð sem er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans. Skólaráð fjallar um skólanámskrá skólans, árlega starfsáætlun, rekstraráætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið. Skólaráð skal fá til umsagnar áætlanir um fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær er tekin. Skólaráð fylgist almennt með öryggi, aðbúnaði og almennri velferð [og farsæld]1) nemenda. Skólanefnd, sbr. 6. gr., getur með samþykki sveitarstjórnar falið skólaráðum einstakra skóla ákveðin verkefni þessu til viðbótar.
[Skólaráð skal skipað níu einstaklingum til tveggja ára í senn, tveimur fulltrúum kennara ásamt einum fulltrúa annars starfsfólks í viðkomandi skóla, tveimur fulltrúum nemenda og tveimur fulltrúum foreldra auk skólastjóra sem stýrir starfi skólaráðs og ber ábyrgð á stofnun þess. Skólaráð velur að auki einn fulltrúa grenndarsamfélags til að sitja í ráðinu eða viðbótarfulltrúa úr hópi foreldra. Auk þess skal skólastjóri boða til sameiginlegs fundar skólaráðs og stjórnar nemendafélags að lágmarki einu sinni á ári. Heimilt er, með rökstuddri greinargerð, að sækja tímabundið um undanþágu frá ákvæði þessarar málsgreinar til ráðuneytis. …2) Í greinargerð þarf að koma fram með hvaða hætti verkefnum skólaráðs verður sinnt. Gildar ástæður þurfa að vera fyrir veitingu undanþágu, svo sem fámenni eða sérstaða.]3)
Ráðherra setur reglugerð4) um starfsemi skólaráða í samráði við samtök sveitarfélaga, kennara og foreldra.
   1)L. 107/2023, 16. gr. 2)L. 91/2023, 9. gr. 3)L. 91/2015, 10. gr. 4)Rg. 1157/2008.
9. gr. Foreldrafélag.
Við grunnskóla skal starfa foreldrafélag. Skólastjóri er ábyrgur fyrir stofnun þess og sér til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum. Hlutverk foreldrafélags er að styðja skólastarfið, stuðla að velferð [og farsæld]1) nemenda og efla tengsl heimila og skóla.
Foreldrafélag hvers skóla setur sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð.
   1)L. 107/2023, 17. gr.
10. gr. Nemendafélag.
Við grunnskóla skal starfa nemendafélag og er skólastjóri ábyrgur fyrir stofnun þess. Nemendafélag vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda og skal skólastjóri sjá til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum.
Nemendafélag hvers skóla setur sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð skv. 2. mgr. 8. gr.

III. kafli. Starfsfólk grunnskóla.
11. gr. Ráðning.
Um ráðningu skólastjóra og starfsfólks grunnskóla fer eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga og nánari fyrirmælum í samþykkt um stjórn sveitarfélags eftir því sem við á.
[Um skilyrði þess að hljóta ráðningu sem skólastjóri, kennari eða náms- og starfsráðgjafi í grunnskóla fer samkvæmt gildandi lögum þar um.]1)
Óheimilt er að ráða einstakling til starfa við grunnskóla sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Við ráðningu skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild skólastjóra til að afla upplýsinga úr sakaskrá.
   1)L. 35/2009, 9. gr.
12. gr. Starfsfólk.
Starfsfólk grunnskóla skal rækja starf sitt af fagmennsku, alúð og samviskusemi. Það skal gæta kurteisi, nærgætni og lipurðar í framkomu sinni gagnvart börnum, foreldrum þeirra og samstarfsfólki.
[Á starfsfólki grunnskóla hvílir þagnarskylda skv. X. kafla stjórnsýslulaga.]1) Þagnarskylda starfsfólks grunnskóla nær ekki til atvika sem ber að tilkynna um lögum samkvæmt. Skal skólastjóri brýna skyldur þessar fyrir starfsfólki og sérstaklega tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum.
[Starfsfólki grunnskóla ber að stuðla markvisst að velferð og farsæld nemenda. Starfsfólki ber að fylgjast með, taka eftir og greina vísbendingar um að þörfum nemanda sé ekki mætt með fullnægjandi hætti og bregðast við þeim á skilvirkan hátt. Starfsfólki grunnskóla ber að taka þátt í samstarfi í samræmi við ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, þ.m.t. eftir atvikum að taka sæti í stuðningsteymi.]2)
Að frumkvæði skólastjóra mótar hver skóli áætlun til ákveðins tíma um hvernig símenntun starfsfólks hans skuli hagað svo að hún sé í sem bestu samræmi við áherslur skólans, sveitarfélagsins og aðalnámskrár.
Kennarar og skólastjórar grunnskóla skulu eiga kost á reglulegri símenntun í þeim tilgangi að efla starfshæfni sína. Þeir skulu einnig eiga kost á námsleyfum.
   1)L. 71/2019, 5. gr. 2)L. 107/2023, 18. gr.

IV. kafli. Nemendur.
13. gr. Réttur nemenda.
Grunnskóli er vinnustaður nemenda. Allir nemendur grunnskóla eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan. Grunnskóli skal í hvívetna haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna. Nemendur eiga rétt á því að njóta bernsku sinnar í öllu starfi á vegum skólans. Þess skal gætt að vinnuálag í skóla sé hæfilegt þannig að nemendur fái nægjanlega hvíld frá skipulögðu starfi innan hvers skóladags og skólaárs, svo sem með samfelldu jóla- og páskaleyfi. [Nemendur eiga rétt á að tjá sig um mál sem þá varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Við meðferð og úrlausn máls sem varðar nemanda skal taka tillit til sjónarmiða og skoðana nemandans í samræmi við hagsmuni hans hverju sinni.]1)
Hver nemandi skal hafa umsjónarkennara. [Umsjónarkennari fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska, líðan og almennri velferð, leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar og ráðleggur þeim, stuðlar að því að efla samstarf skóla og heimila og veitir leiðbeiningar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.]1)
[Nemendur eiga rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar í grunnskóla af aðilum sem uppfylla skilyrði laga um náms- og starfsráðgjafa.]2)
[Allir nemendur grunnskóla og foreldrar þeirra skulu hafa aðgang að tengilið þjónustu í þágu farsældar barns eftir því sem þörf krefur. Tengiliður er starfsmaður skóla sem hefur viðeigandi þekkingu á þjónustu í þágu barna, sbr. ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.]1)
   1)L. 107/2023, 19. gr. 2)L. 35/2009, 9. gr.
14. gr. Ábyrgð nemenda.
Nemendur bera ábyrgð á eigin námi og á framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska.
Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks grunnskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.
Ef hegðun nemanda reynist verulega áfátt ber kennara hans að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans. Verði samt ekki breyting á til batnaðar skal kennari leita aðstoðar skólastjóra og sérfróðra ráðgjafa skólans sem leita leiða til úrbóta, eftir atvikum að teknu tilliti til hlutverks barnaverndaryfirvalda [og laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna].1)
Meðan mál skv. 3. mgr. er óútkljáð getur skólastjóri vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið, enda tilkynni hann foreldrum nemanda og skólanefnd tafarlaust þá ákvörðun. Um slíka ákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Skólanefnd er skylt innan hæfilegs tíma að tryggja nemanda, sem vikið hefur verið úr skóla, viðeigandi kennsluúrræði.
Ákvörðun skv. 4. mgr. er kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr. Hafi sveitarfélag ekki séð nemanda fyrir kennslu getur ráðuneytið í úrskurði sínum lagt fyrir sveitarfélag að tryggja nemanda nánar tiltekin kennsluúrræði innan tilskilins tíma.
Ráðherra mælir nánar fyrir um framkvæmd þessarar greinar í reglugerð.2)
   1)L. 107/2023, 20. gr. 2)Rg. 1040/2011, sbr. 975/2018.
15. gr. Skólaskylda.
Nemendum er skylt að sækja grunnskóla, sbr. 3. gr. Skólaskyldu er unnt að fullnægja í grunnskólum á vegum sveitarfélaga, í sjálfstætt reknum grunnskólum eða með öðrum viðurkenndum hætti samkvæmt lögum þessum.
Skólaskylda barns hefst að jafnaði við upphaf skólaárs á því almanaksári sem barnið verður sex ára. Foreldrar barns geta sótt um eða samþykkt að það hefji skólagöngu fyrr eða síðar. Skólastjóri getur veitt slíka heimild að fenginni umsögn [skólaþjónustu].1)
Skólastjóra er heimilt að veita nemanda undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein ef gild rök mæla með því. Enn fremur er skólastjóra heimilt að viðurkenna nám utan grunnskóla sem jafngildi grunnskólanáms.
Sæki foreldrar skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn í einstökum námsgreinum eða að öllu leyti er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu telji hann til þess gildar ástæður. Foreldrar skulu þá sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur.
Um ákvörðun um veitingu undanþágu eða synjun hennar, sbr. 3. og 4. mgr., gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Slík ákvörðun er kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr. Í úrskurði getur ráðherra mælt fyrir um að undanþága verði veitt í heild eða að hluta, jafnvel þó að af hálfu sveitarfélags hafi ekki verið fallist á slíka beiðni.
Setja skal viðmiðanir um undanþágur samkvæmt þessari grein í aðalnámskrá grunnskóla.
   1)L. 76/2016, 1. gr.
16. gr. Móttökuáætlun og nemendur með annað móðurmál en íslensku.
Kennsla í grunnskólum skal fara fram á íslensku. Heimilt er að nám fari fram á öðrum tungumálum en íslensku þegar það leiðir af eðli máls eða aðalnámskrá.
Grunnskólar taka á móti nemendum sem eru að hefja skólagöngu, eru að skipta um skóla eða hefja nám sitt hér á landi samkvæmt móttökuáætlun skóla eða sveitarfélags. Foreldrum skulu á þeim tímamótum veittar upplýsingar um skólagöngu barnsins og skólastarfið almennt og foreldrum með annað móðurmál en íslensku og heyrnarlausum foreldrum greint frá rétti þeirra til túlkaþjónustu.
Móttökuáætlun vegna nemenda með annað móðurmál en íslensku skal taka mið af bakgrunni þeirra, [stuðningsþörfum],1) tungumálafærni og færni á öðrum námssviðum. Tryggja skal að þessir nemendur og foreldrar þeirra fái ráðgjöf og aðgang að upplýsingum um grunnskólastarf.
Nemendur með annað móðurmál en íslensku eiga rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Með kennslunni er stefnt að virku tvítyngi þessara nemenda og að þeir geti stundað nám í grunnskólum og tekið virkan þátt í íslensku samfélagi. Grunnskólum er heimilt að viðurkenna kunnáttu í móðurmáli nemenda með annað móðurmál en íslensku sem hluta af skyldunámi er komi í stað skyldunáms í erlendu tungumáli.
   1)L. 107/2023, 21. gr.
17. gr. [Stuðningur við nemendur.]1)
Nemendur eiga rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis.
Nemendur sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, …1) nemendur með leshömlun, langveikir nemendur og aðrir nemendur með heilsutengdar [stuðningsþarfir]1) eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi í samræmi við metnar [stuðningsþarfir].1)
Nemendur sem að mati læknis geta ekki sótt skóla vegna slyss eða langvarandi veikinda eiga rétt til sjúkrakennslu annaðhvort á heimili sínu eða á sjúkrastofnun. Sjúkrakennsla er á ábyrgð viðkomandi sveitarfélags.
Telji foreldrar barns, skólastjórar, kennarar eða aðrir sérfræðingar að það fái ekki notið kennslu við sitt hæfi í almennum grunnskóla geta foreldrar sótt um skólavist fyrir barnið í sérúrræði innan grunnskóla eða í sérskóla.
Verði ágreiningur um fyrirkomulag skólavistar barns skal við úrlausn hans gæta ákvæða stjórnsýslulaga. Skal ákvörðun tekin með hliðsjón af áliti sérfræðinga og með heildarhagsmuni barnsins að leiðarljósi. Ákvörðun er kæranleg samkvæmt fyrirmælum 47. gr.
Ráðherra setur í reglugerð2) nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar og málsmeðferð. Þegar ráðuneytið kveður upp úrskurð í málum sem því berast á grundvelli þessarar greinar er því heimilt að mæla nánar fyrir um fyrirkomulag skólavistar nemanda og skyldur sveitarfélags í því efni.
   1)L. 107/2023, 22. gr. 2)Rg. 585/2010, sbr. 148/2015 og 974/2018.
[17. gr. a. Stuðningur við nemendur sem eiga langveikt eða deyjandi foreldri.
Grunnskólabörnum, sem eiga langveikt eða deyjandi foreldri eða missa foreldri, skal tryggður viðeigandi stuðningur og ráðgjöf innan grunnskólans í samvinnu við heilbrigðisstofnun þar sem foreldrið er til meðferðar eða þá heilsugæslu sem hefur móttekið tilkynningu um andlát foreldris, félagsmálanefnd í því sveitarfélagi þar sem barn á lögheimili og foreldra eða aðra þá sem annast barnið. Gefa skal barni kost á að tjá sig í samræmi við aldur þess og þroska og taka skal réttmætt tillit til skoðana þess.
Söfnun og meðferð upplýsinga samkvæmt ákvæði þessu skal vera í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Ráðherra kveður nánar á um framkvæmd þessa í reglugerð.]1)
   1)L. 50/2019, 8. gr.
[17. gr. b. Málstjóri, stuðningsteymi og stuðningsáætlun.
Um rétt nemenda, sem hafa þörf fyrir fjölþætta þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi til lengri tíma, til málstjóra, stuðningsteymis og stuðningsáætlunar fer samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.]1)
   1)L. 107/2023, 23. gr.

V. kafli. Foreldrar.
18. gr. Foreldrar og meðferð upplýsinga.
Foreldrar skulu gæta hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri. Foreldrar eiga rétt á að velja grunnskóla innan sveitarfélags fyrir börn sín samkvæmt reglum sveitarfélagsins. Jafnframt skulu þeir eiga rétt á upplýsingum um skólastarfið og skólagöngu barna sinna.
Foreldrum er skylt að veita grunnskóla upplýsingar um barn sitt sem nauðsynlegar eru fyrir skólastarfið og velferð barnsins. Um persónuupplýsingar sem þannig er aflað eða fylgt hafa barni úr leikskóla er krafist fullrar þagnarskyldu og málsmeðferðar í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og [vinnslu]1) persónuupplýsinga. Foreldrum skal gerð grein fyrir þessum upplýsingum. Meðferð upplýsinga skal vera á hendi skólastjóra eða annarra sérfræðinga á vegum sveitarfélagsins samkvæmt nánari ákvörðun þess. Ráðherra setur reglugerð2) um meðferð, eyðingu og miðlun upplýsinga og um rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín. [Um rétt foreldris sem ekki fer með forsjá barns til upplýsinga um barn sitt samkvæmt þessum lögum fer samkvæmt fyrirmælum 52. gr. barnalaga, nr. 76/2003.]3)
Foreldrar skulu hafa samráð við skólann um skólagöngu barna sinna, fylgjast með og styðja við skólagöngu þeirra og námsframvindu og stuðla að því að börnin mæti úthvíld í skólann og fylgi skólareglum. Þeir skulu fá tækifæri til að taka þátt í námi barnsins, svo og í skólastarfinu almennt.
Eigi í hlut foreldrar sem ekki tala íslensku eða nota táknmál skal skóli leitast við að tryggja túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla samkvæmt þessari grein.
   1)L. 90/2018, 54. gr. 2)Rg. 897/2009, sbr. 657/2011. 3)L. 38/2009, 2. gr.
19. gr. Ábyrgð foreldra.
Foreldrar bera ábyrgð á námi barna sinna og ber þeim að fylgjast með námsframvindu þeirra í samvinnu við þau og kennara þeirra. Foreldrar skólaskylds barns bera ábyrgð á að það innritist í skóla þegar það kemst á skólaskyldualdur og sæki skóla. Verði misbrestur á skólasókn skólaskylds barns, án þess að veikindi eða aðrar gildar ástæður hamli, skal skólastjóri leita lausna og taka ákvörðun um úrbætur. Jafnframt skal hann tilkynna [barnaverndarþjónustu]1) um málið. Skólastjóri skal fara að ákvæðum stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Ákvörðun er kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr.
Í úrskurði getur [ráðuneyti]2) lagt fyrir sveitarfélag að tryggja nemanda tiltekin kennsluúrræði, þ.m.t. að veita honum aðgang að tilteknum skóla innan sveitarfélagsins.
   1)L. 107/2023, 24. gr. 2)L. 91/2011, 1. gr.

VI. kafli. Skólahúsnæði og aðstaða í grunnskólum.
20. gr. [Skólahúsnæði.]1)
Gerð skólamannvirkja er undirbúin af sveitarstjórn í samráði við skólanefnd og skólaráð. Stofnkostnaður grunnskóla á vegum sveitarfélaga greiðist af viðkomandi sveitarfélagi. Sveitarfélög annast einnig og kosta viðhald skólahúsnæðis og endurnýjun og viðhald búnaðar þess. Gert skal sérstaklega ráð fyrir rými fyrir [skólaþjónustu]2) við börn með [stuðningsþarfir]3) og vinnuaðstöðu starfsfólks.
[Í öllum grunnskólum skal gera ráð fyrir skólasafni eða tryggja með öðrum hætti aðgang nemenda að þjónustu slíks safns sem skal vera upplýsingamiðstöð fyrir nemendur og kennara. Það skal búið bókum og nýsigögnum auk annars safnkosts sem tengist námsgreinum og námssviðum aðalnámskrár grunnskóla.]1)
Grunnskólahúsnæði og skólalóðir skulu uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í lögum þessum, lögum um vinnuvernd og aðalnámskrá grunnskóla. Húsnæði og allur aðbúnaður skal taka mið af því að tryggja öryggi og vellíðan nemenda og starfsfólks, svo sem hvað varðar hentugan húsbúnað, hljóðvist, lýsingu og loftræstingu.
Við hönnun, byggingu og endurnýjun skólahúsnæðis skulu sveitarfélög hafa samráð við hagsmunaaðila skólasamfélagsins og aðila í grenndarsamfélagi.
Ráðherra setur reglugerð4) um húsnæði og búnað grunnskóla í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem nánar skal kveðið á um aðstöðu, búnað, slysavarnir og öryggismál í grunnskólahúsnæði og á skólalóðum.
   1)L. 91/2011, 4. gr. 2)L. 76/2016, 1. gr. 3)L. 107/2023, 25. gr. 4)Rg. 657/2009, sbr. 599/2014 og 972/2018.
21. gr. Umsjón skólamannvirkja.
Skólastjóri skal sjá um daglega umsjón skólamannvirkja samkvæmt nánari ákvörðun sveitarstjórnar.
Sveitarstjórn getur í samráði við skólastjóra ráðstafað skólahúsnæði öllu eða hluta þess til annarrar starfsemi svo fremi sem það raskar ekki lögbundinni notkun húsnæðisins.
22. gr. Skólaakstur.
Sveitarfélög bera ábyrgð á skipulagi skólaaksturs þar sem hann á við og standa straum af kostnaðinum. Ráðherra setur nánari reglur1) um tilhögun skólaaksturs í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Skólaakstur skal vera nemendum að kostnaðarlausu.
   1)Rgl. 656/2009, sbr. 882/2009, sbr. 605/2012.
23. gr. Skólamálsverðir.
Í grunnskóla skulu nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið. Sveitarfélögum er heimilt að taka gjald fyrir skólamáltíðir samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem þau setja.
Gjaldskrárákvarðanir samkvæmt þessari grein eru kæranlegar eftir fyrirmælum 47. gr.

VII. kafli. Inntak náms, námsskipan, námsframboð, námsmat og starfstími.
24. gr. Aðalnámskrá.
Ráðherra setur grunnskólum aðalnámskrá1) sem er endurskoðuð reglulega. Í henni er m.a. kveðið nánar á um uppeldishlutverk grunnskólans og meginstefnu í kennslu og kennsluskipan í samræmi við hlutverk grunnskólans, sbr. 2. gr. Í aðalnámskrá skal m.a. leggja áherslu á:
   a. sjálfsvitund, siðgæðisvitund, félagsvitund og vitund nemenda um borgaralega ábyrgð og skyldur,
   b. líkamlega og andlega velferð, heilbrigða lífshætti og ábyrga umgengni við líf og umhverfi,
   c. þjálfun í íslensku í öllu námi,
   d. leikræna og listræna tjáningu,
   e. hæfni nemenda til að skilja orsakasamhengi og draga rökréttar ályktanir,
   f. skilning og frjótt og skapandi starf, nýsköpun og frumkvöðlanám,
   g. jafnvægi milli bóklegs og verklegs náms,
   h. leik barna sem náms- og þroskaleið,
   i. nám sem nýtist nemendum í daglegu lífi og við frekara nám og starf,
   j. [undirbúning nemenda undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi, óháð kyni],2)
   k. margvíslegar leiðir við öflun þekkingar með notkun tæknimiðla, upplýsingatækni og safna- og heimildavinnu,
   l. náms- og starfsfræðslu og kynningu á atvinnulífi og námsleiðum til undirbúnings náms- og starfsvali.
[Við gerð aðalnámskrár skal farsæld nemenda höfð að leiðarljósi. Nemendum skal veitt tækifæri til að taka þátt í gerð aðalnámskrár.]3)
Í aðalnámskrá og við skipulagningu náms og kennslu og við gerð og val námsgagna skal þess sérstaklega gætt að allir nemendur fái jöfn tækifæri til náms og eigi þess kost að velja sér viðfangsefni og nálgun í eigin námi.
Markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, kynhneigðar, búsetu, stéttar, trúarbragða, heilsufars, fötlunar eða stöðu að öðru leyti.
Í öllu skólastarfi skal stuðla að heilbrigðum lífsháttum og taka mið af persónugerð, þroska, hæfileikum, getu og áhugasviðum hvers og eins.
   1)Augl. 760/2011. Augl. 364/2013. Augl. 838/2015. Augl. 894/2016. Augl. 706/2019. Augl. 1238/2021. Augl. 896/2023. 2)L. 153/2020, 23. gr. 3)L. 107/2023, 26. gr.
25. gr. Markmið náms.
Í aðalnámskrá skal kveðið á um meginmarkmið náms og kennslu, uppbyggingu og skipan náms, svo og hlutfallslega skiptingu tíma milli námssviða og námsgreina í grunnskóla. Þess skal gætt að námið verði sem heildstæðast, en hver grunnskóli ákveði hvort námsgreinar og námssvið eru kennd aðgreind eða samþætt. Í aðalnámskrá skal skilgreina þekkingar- og hæfniþætti á hverju námssviði. Nemendur skulu eiga þess kost að uppfylla námsmarkmið einstakra námsgreina og námssviða með mismunandi hætti. Í aðalnámskrá skal setja árangursviðmið um það hvenær nemandi telst hafa lokið einstökum námsgreinum eða námssviðum. Einnig skal setja viðmið vegna nemenda sem ljúka grunnskólanámi á skemmri tíma en tíu árum. Í aðalnámskrá skal gera grein fyrir samstarfi grunnskóla við leikskóla og framhaldsskóla og hvernig skuli staðið að aðlögun og flutningi milli skólastiga.
Í aðalnámskrá skal setja ákvæði um inntak og skipulag náms í íslensku, íslensku sem öðru tungumáli eða íslensku táknmáli, stærðfræði, ensku, dönsku eða öðru Norðurlandamáli, list- og verkgreinum, náttúrugreinum, skólaíþróttum, samfélagsgreinum, jafnréttismálum, trúarbragðafræði, lífsleikni og upplýsinga- og tæknimennt.
26. gr. Val í námi.
Frá upphafi grunnskóla skulu nemendur eiga val í námi sínu, svo sem um viðfangsefni, námsaðferðir og námsgreinar, í samræmi við viðmið í aðalnámskrá grunnskóla og skipulag skóla. Markmiðið með því er að gera nemendur ábyrga fyrir eigin námi og skapa sveigjanleika í skólastarfi. Hluti náms getur einnig verið fjarnám og netnám.
[Á unglingastigi, þ.e. í 8.–10. bekk, skulu nemendur velja námsgreinar og námssvið í allt að fimmtung námstímans samkvæmt nánari viðmiðunum sem settar eru í aðalnámskrá grunnskóla. Skólum er heimilt að skipuleggja mismunandi hlutfall valtíma eftir árgöngum í 8.–10. bekk og binda valið að hluta tilteknum námssviðum.]1)
Heimilt er að meta skipulagt nám sem stundað er utan grunnskóla, t.d. við tónlistarskóla, sem hluta af grunnskólanámi samkvæmt nánari útfærslu í aðalnámskrá grunnskóla. Stundi nemandi slíkt nám er viðkomandi sveitarstjórn ekki skylt að standa straum af kostnaði sem af því leiðir þótt námið njóti viðurkenningar í stað skyldunáms. Jafnframt er heimilt að meta tímabundna þátttöku í atvinnulífi, félagslífi, íþróttum eða skipulögðu sjálfboðastarfi sem nám, enda falli það að markmiðum skólastarfs.
Grunnskólanemendur eiga rétt á að stunda nám í einstökum námsgreinum á framhaldsskólastigi meðan þeir eru í grunnskóla enda hafi þeir sýnt fullnægjandi færni.2) Skólastjóri í grunnskóla veitir nemanda heimild til slíks náms utan skólans samkvæmt viðmiðum sem sett skulu í aðalnámskrá. Ákvörðun skólastjóra samkvæmt þessari málsgrein lýtur ákvæðum stjórnsýslulaga.
Heimilt er að kæra synjun um mat á námi eða beitingu heimildar samkvæmt þessari grein eftir fyrirmælum 47. gr. Í úrskurði getur [ráðuneytið]3) lagt fyrir skólastjóra grunnskóla að veita nemanda heimild til náms á framhaldsskólastigi skv. 4. mgr.
   1)L. 91/2011, 5. gr. 2)Sjá einnig l. 91/2011, brbákv. 3)L. 126/2011, 492. gr.
27. gr. Námsmat.
Mat á árangri og framförum nemenda er reglubundinn þáttur í skólastarfi. Tilgangur þess er að fylgjast með því hvernig nemendum tekst að mæta markmiðum aðalnámskrár og ná námsmarkmiðum sínum, örva nemendur til framfara og meta hverjir þurfa á sérstakri aðstoð að halda. Nánari ákvæði um námsmat skulu sett í aðalnámskrá grunnskóla.
Óheimilt er að veita upplýsingar um vitnisburði einstakra nemenda öðrum en þeim sjálfum og foreldrum þeirra. Þó er heimilt að veita þessar upplýsingar vegna flutnings nemenda milli skóla og innritunar í framhaldsskóla, enda sé krafist fullrar þagnarskyldu og málsmeðferðar í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og [vinnslu]1) persónuupplýsinga.
Nemendur og foreldrar þeirra eiga rétt á upplýsingum um niðurstöður mats, matsaðferðir og matstæki, þar með talið að skoða metin verkefni og prófúrlausnir. Þeir eiga jafnframt rétt á munnlegum skýringum á námsmati og að niðurstaða námsmats sæti endurskoðun innan grunnskólans. Slík endurskoðun telst ekki ígildi stjórnsýslukæru í skilningi stjórnsýslulaga.
Ráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð2) um meðferð niðurstöðu námsmats í grunnskólum og miðlun upplýsinga um námsmat vegna flutnings nemenda milli skóla og innritunar í framhaldsskóla og um rétt foreldra til þess að fá vitneskju um slíkar upplýsingar.
   1)L. 90/2018, 54. gr. 2)Rg. 897/2009, sbr. 657/2011.
28. gr. Starfstími.
Starfstími nemenda í grunnskóla skal á hverju skólaári vera að lágmarki níu mánuðir. Skóladagar nemenda skulu eigi vera færri en 180. Skipting milli kennsludaga og annarra skóladaga nemenda er á ábyrgð skólastjóra að höfðu samráði við skólaráð og að fenginni staðfestingu skólanefndar.
Vikulegur kennslutími hvers nemanda í grunnskóla skal að lágmarki vera:
   a. 1.200 mínútur í 1.–4. bekk,
   b. 1.400 mínútur í 5.–7. bekk,
   c. 1.480 mínútur í 8.–10. bekk.
Skólastjóri ákveður nánari útfærslu vikulegs kennslutíma í samráði við skólaráð, [svo og nánari útfærslu á samþættingu skóla og frístundastarfs ef um slíkt er að ræða].1) Við ákvörðun daglegs og vikulegs starfstíma nemenda í grunnskóla skal þess gætt að hann sé samfelldur með eðlilegum hléum og fari ekki fram yfir hæfilegt vinnuálag miðað við aldur nemenda og þroska.
Heimilt er að víkja frá vikulegum lágmarkskennslutíma skv. 2. mgr. tímabundið, en nemendum skal þá tryggð viðbótarkennsla sem nemur frávikinu innan sama skólaárs.
[Sveitarstjórnum er heimilt að samræma tiltekna leyfisdaga innan skólaársins fyrir alla skóla í sveitarfélaginu, að höfðu samráði við hagsmunaaðila.]2)
   1)L. 76/2016, 3. gr. 2)L. 91/2011, 6. gr.
29. gr. Skólanámskrá og starfsáætlun.
Í hverjum grunnskóla skal gefa út skólanámskrá og starfsáætlun. Skólastjóri er ábyrgur fyrir gerð þeirra og skal semja þær í samráði við kennara [og nemendur].1) Skólanámskrá er nánari útfærsla á aðalnámskrá grunnskóla um markmið, inntak náms og námsmat, starfshætti og mat á árangri og gæðum skólastarfs. Skólanámskrá tekur mið af sérstöðu grunnskóla og aðstæðum og skal endurskoða reglulega.
Í árlegri starfsáætlun er m.a. gerð grein fyrir skóladagatali, þ.m.t. lengd jólaleyfis, páskaleyfis og annarra vetrarleyfa, starfsáætlun nemenda, skólareglum, stoðþjónustu, félagslífi og öðru því sem varðar starfsemi skólans ár hvert. Starfsáætlun skóla skal árlega lögð fyrir skólanefnd til staðfestingar sem staðfestir gildistöku hennar þegar ljóst er að hún hafi verið unnin í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá, kjarasamninga og ákvarðanir sveitarstjórnar um fyrirkomulag skólahalds.
Skólastjóri er ábyrgur fyrir útfærslu þessara ákvæða og einnig fyrir umfjöllun í skólanum og í skólaráði og að gera skólanefnd grein fyrir því með hvaða hætti áætlanir hafi staðist. Starfsáætlun og skólanámskrá skulu vera aðgengilegar öllum aðilum skólasamfélagsins.
   1)L. 107/2023, 27. gr.
30. gr. [Skólabragur.
Öllum aðilum skólasamfélagsins ber að leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag.
Skólastjórum og kennurum ber að eiga samráð við foreldra um hegðun, líðan og samskipti barna þeirra. Foreldrum ber með sama hætti að eiga samráð við skólann um skólagöngu barna sinna. Sama á við um aðra forsjáraðila barna í viðkomandi skóla.
Grunnskólar skulu hafa heildstæða stefnu um það hvernig fyrirbyggja eigi að líkamlegt, andlegt eða félagslegt ofbeldi eigi sér stað í skólastarfi. Skólar skulu einnig hafa áætlun um framkvæmd tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum, um hvernig brugðist er við tilvikum um einelti, annað ofbeldi og félagslega einangrun. Áætlun skal m.a. framfylgt með því að hver skóli setji sér skólareglur. Í skólareglum skal m.a. kveðið á um almenna umgengni, samskipti, stundvísi, ástundun náms og heilbrigðar lífsvenjur. Þá skal í skólareglum koma fram hvernig skólinn hyggst bregðast við brotum á þeim.
Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í reglugerð1) sem sett er sameiginlega á grundvelli þessarar greinar og 14. gr. …2)]3)
   1)Rg. 1040/2011, sbr. 975/2018. 2)L. 102/2021, 1. gr. 3)L. 91/2011, 7. gr.
[30. gr. a. Fagráð eineltismála.
Ráðherra skipar fagráð eineltismála sem starfar á grunn- og framhaldsskólastigi. Fagráðið skal skipað þremur aðalmönnum og þremur varamönnum sem hafa þekkingu, menntun og reynslu sem nýtist við ráðgjöf og úrlausn mála. Ráðherra er heimilt að fela [Miðstöð menntunar og skólaþjónustu]1) eða öðrum aðilum að annast umsýslu fagráðsins.
Hlutverk fagráðs eineltismála er að:
   a. vera stuðningsaðili við skólasamfélagið, sem m.a. getur falist í almennri ráðgjöf, leiðbeiningum eða upplýsingagjöf,
   b. ná ásættanlegri úrlausn í eineltismálum og gefa út ráðgefandi álit þar að lútandi á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem ráðinu berast um hvert og eitt mál.
Fagráði eineltismála er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal viðkvæmra persónuupplýsinga skv. b-lið 3. tölul. 3. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, að því marki sem slík vinnsla telst nauðsynleg vegna starfsemi og hlutverks fagráðsins samkvæmt lögum þessum og reglum settum með stoð í þeim. Um vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt lögum þessum fer eftir lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Fagráði eineltismála ber að upplýsa málsaðila skriflega um fyrirhugaða upplýsingaöflun samkvæmt ákvæði þessu í samræmi við 2. mgr. 17. gr. sömu laga, sbr. 14. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679.
Um aðgang að gögnum hjá fagráði eineltismála fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga og upplýsingalaga. Fagráðið getur þó með rökstuddri ákvörðun takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef það telur þau geta skaðað hagsmuni barns eða samband þess við aðra. Fagráðið getur einnig ákveðið að aðilar og lögmenn þeirra geti kynnt sér skjöl og önnur gögn án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent.
Ráðherra setur reglur um starfsemi fagráðs eineltismála. Þar skal m.a. fjallað um hlutverk fagráðsins, starfshætti, hvernig málum er vísað til fagráðsins, meðferð upplýsinga og gagna, skipunartíma og þóknun. Haft skal samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um þann hluta sem snýr að grunnskólum.]2)
   1)L. 91/2023, 9. gr. 2)L. 102/2021, 2. gr.
31. gr. Kostnaður í skyldunámi.
Kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum skal veitt nemendum að kostnaðarlausu og er óheimilt að krefja nemendur eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu og samrýmist ákvæðum laga þessara og aðalnámskrá. Sama á við um nám grunnskólanemenda í framhaldsskólaáföngum, enda sé námið skilgreint sem hluti náms í grunnskóla. Þó er opinberum aðilum ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír.
Nú stundar grunnskólanemandi nám í framhaldsskóla sem skilgreint er sem hluti náms í grunnskóla, og fer þá um kostnað vegna kennslu á framhaldsskólastigi eftir ákvæðum laga um framhaldsskóla. Sveitarfélög greiða þá kostnað vegna námsgagna og innritunar og eftir atvikum efnisgjald. Um nánari framkvæmd og fyrirkomulag skal samið milli hlutaðeigandi grunn- og framhaldsskóla.
[Ráðuneyti er skylt að leggja grunnskólum til námsgögn í samræmi við meginmarkmið náms og kennslu á grunnskólastigi samkvæmt aðalnámskrá. Ráðherra er heimilt að fela [Miðstöð menntunar og skólaþjónustu]1) að annast þá skyldu.]2)
Óheimilt er að taka gjald af nemendum vegna ferðalaga sem flokkast undir vettvangsnám eða eru að öðru leyti hluti af skyldunámi nemenda. Þó er heimilt að taka gjald fyrir uppihald í námsferðum nemenda, að höfðu samráði við foreldra.
Ákvarðanir um gjaldtöku samkvæmt þessari grein eru kæranlegar samkvæmt fyrirmælum 47. gr.
   1)L. 91/2023, 9. gr. 2)L. 91/2015, 10. gr.
32. gr. Lok grunnskóla.
Er grunnskólanámi lýkur skal nemandi fá skírteini er votti að hann hafi lokið námi samkvæmt lögum þessum. Í skírteini skal skrá vitnisburð nemanda á lokaári í grunnskóla í því námi er hann lagði stund á.
Skólastjóri metur hvort nemandi hafi lokið grunnskólanámi og ber ábyrgð á útskrift hans úr grunnskóla. Heimilt er að útskrifa nemanda úr grunnskóla áður en tíu ára skyldunámi er lokið, enda uppfylli nemandi námskröfur grunnskóla í samræmi við lokamarkmið aðalnámskrár. Í aðalnámskrá grunnskóla skal nánar kveðið á um útfærslu þessarar greinar. Ákvörðun skólastjóra í þessu efni lýtur ákvæðum stjórnsýslulaga. Foreldri getur kært synjun um útskrift úr grunnskóla samkvæmt þessari grein eftir fyrirmælum 47. gr.
33. gr. [Tómstunda- og félagsstarf.]1)
Í öllum grunnskólum skal nemendum gefinn kostur á að taka þátt í tómstunda- og félagsstarfi. Tómstunda- og félagsstarf getur bæði verið liður í daglegu starfi og utan venjulegs skólatíma, [t.d. í félagsmiðstöð, í frístundastarfi eða skólahljómsveit].2)1) [Í tómstunda- og félagsstarfi skal velferð og farsæld barna höfð að leiðarljósi.]3)
[Starfsfólki sem sinnir tómstunda- og félagsstarfi ber að stuðla markvisst að velferð og farsæld barna. Starfsfólki ber að fylgjast með, taka eftir og greina vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt með fullnægjandi hætti og bregðast við þeim á skilvirkan hátt. Starfsfólki sem sinnir tómstunda- og félagsstarfi ber að taka þátt í samstarfi í samræmi við ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, þ.m.t. eftir atvikum að taka sæti í stuðningsteymi.]3)
Sveitarfélögum er heimilt að taka gjald fyrir [tómstunda- og félagsstarf]1) samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem þau setja. Gjaldskrárákvarðanir samkvæmt þessari grein eru kæranlegar samkvæmt fyrirmælum 47. gr.
   1)L. 76/2016, 4. gr. 2)L. 89/2021, 3. gr. 3)L. 107/2023, 28. gr.
[33. gr. a. Frístundaheimili.
Öllum börnum í yngri árgöngum grunnskóla skal gefinn kostur á þjónustu frístundaheimila. Frístundaheimili er frístundavettvangur barna með áherslu á val barna, frjálsan leik og fjölbreytileika í viðfangsefnum og umhverfi. Við skipulag þjónustu frístundaheimila skal tekið mið af þörfum, þroska og áhuga hvers og eins.
Sveitarfélög fara með faglegt forræði frístundaheimila, ákveða skipulag starfsemi þeirra og rekstrarform með samþættingu skóla- og frístundastarfs og þarfir barna að leiðarljósi.
Á frístundaheimilum gilda almenn ákvæði laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim um öryggi og velferð barna, réttindi og skyldur, tilkynningarskyldu og ráðningarbann á grundvelli sakavottorðs.
Ráðuneytið gefur út,1) að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, viðmið um gæði frístundastarfs, þ.m.t. um hlutverk og markmið, skipulag og starfsaðstæður, starfshætti, margbreytileika, stjórnun og menntun starfsfólks.
Sveitarfélög geta ákveðið að reka ekki frístundaheimili ef gildar ástæður eru fyrir hendi, t.d. staðbundnar aðstæður.
Sveitarfélögum er heimilt að taka gjald fyrir vistun barna á frístundaheimili samkvæmt gjaldskrá sem þau setja og birta opinberlega. Gjaldskrárákvarðanir samkvæmt þessari grein eru kæranlegar samkvæmt fyrirmælum 47. gr.]2)
   1)Augl. 291/2018. 2)L. 76/2016, 5. gr.
34. gr. Sprotasjóður skóla.
Sprotasjóður skal styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá. Til sjóðsins renna fjármunir sem veittir eru á fjárlögum hverju sinni. [Ráðuneyti]1) hefur umsjón með sjóðnum og setur reglugerð2) um styrkveitingar. Sjóðurinn er sameiginlegur fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
Í reglugerð er heimilt að fela stofnun á vegum ráðuneytisins eða öðrum þar til bærum aðila umsjón með sjóðnum og að annast úthlutanir úr honum.
   1)L. 91/2011, 1. gr. 2)Rg. 242/2009.

VIII. kafli. Mat og eftirlit með gæðum grunnskólastarfs.
35. gr. Markmið.
Markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í grunnskólum er að:
   a. veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks skóla, viðtökuskóla, foreldra og nemenda,
   b. tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár grunnskóla,
   c. auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum,
   d. tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum.
36. gr. Innra mat.
Hver grunnskóli metur með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs á grundvelli 35. gr. með virkri þátttöku starfsmanna, nemenda og foreldra eftir því sem við á.
Grunnskóli birtir opinberlega upplýsingar um innra mat sitt, tengsl þess við skólanámskrá og áætlanir um umbætur.
37. gr. Ytra mat sveitarfélaga.
[Sveitarfélög sinna mati og eftirliti með gæðum skólastarfs, sbr. 5. og 6. gr., og láta ráðuneyti í té upplýsingar um framkvæmd skólahalds, innra mat skóla, ytra mat sveitarfélaga, framgang skólastefnu sinnar og áætlanir um umbætur. …1)]2)
Sveitarfélög skulu fylgja eftir innra og ytra mati þannig að slíkt mat leiði til umbóta í skólastarfi.
   1)L. 91/2023, 9. gr. 2)L. 91/2015, 10. gr.
38. gr. Ytra mat [ráðuneytisins].1)
[Ráðuneyti …2) annast greiningu og miðlun upplýsinga um skólahald í grunnskólum á grundvelli upplýsinga frá sveitarfélögum skv. 37. gr. og með sjálfstæðri gagnaöflun. …2)]3)
[Ráðuneyti]4) gerir áætlun til þriggja ára um kannanir og úttektir sem miða að því að veita upplýsingar um framkvæmd laga þessara og aðalnámskrár grunnskóla og aðra þætti skólastarfs. [Ráðuneyti]4) skipuleggur einnig þátttöku í alþjóðlegum mennta- og samanburðarrannsóknum.
Ráðherra setur reglugerð5) um innra og ytra mat og upplýsingaskyldu sveitarfélaga að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.
   1)L. 126/2011, 492. gr. 2)L. 91/2023, 9. gr. 3)L. 91/2015, 10. gr. 4)L. 91/2011, 1. gr. 5)Rg. 658/2009, sbr. 973/2018.
39. gr. Samræmt námsmat.
[Ráðuneyti]1) stendur fyrir samræmdu námsmati í grunnskólum, leggur grunnskólum í því skyni til samræmd könnunarpróf og annast framkvæmd samræmds námsmats.
[Samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði skulu lögð fyrir alla nemendur í 4. og 7. bekk grunnskóla. Nemendur á unglingastigi, þ.e. í 8.–10. bekk, skulu þreyta samræmd könnunarpróf í íslensku, stærðfræði og ensku. Önnur próf skal halda samkvæmt ákvörðun ráðherra.
Skólastjóra er heimilt ef gildar ástæður mæla með því og samþykki foreldra liggur fyrir að veita nemendum undanþágu frá því að þreyta könnunarpróf í einstökum greinum.
[Miðstöð menntunar og skólaþjónustu]2) eða annar til þess bær aðili, sem ráðherra ákveður, hefur umsjón með gerð og framkvæmd samræmds námsmats og prófa samkvæmt grein þessari. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um fyrirkomulag og framkvæmd samræmds námsmats, prófa og rannsókna í grunnskólum og undanþágur nemenda frá samræmdu námsmati samkvæmt þessari grein.]3)
   1)L. 91/2011, 1. gr. 2)L. 91/2023, 9. gr. 3)L. 91/2015, 10. gr.

IX. kafli. [Skólaþjónusta]1) og stoðkerfi grunnskóla.
   1)L. 76/2016, 1. gr.
40. gr. Skipulag og framkvæmd [skólaþjónustu].1)
Sveitarfélög skulu tryggja að [skólaþjónusta]1) sé veitt í grunnskólum, ákveða fyrirkomulag hennar og stuðla að því að hún fari fram innan grunnskóla. Í [skólaþjónustu]1) felst annars vegar stuðningur við nemendur og fjölskyldur þeirra og hins vegar stuðningur við starfsemi grunnskóla og starfsfólk þeirra. [Við framkvæmd skólaþjónustu skal leggja áherslu á að þjónusta sé samfelld og samþætt annarri þjónustu í þágu farsældar barna.]2)
Í grunnskólum skal frá upphafi skólagöngu nemenda unnið að forvarnastarfi með skimunum og athugunum á nemendum til að tryggja þeim kennslu og námsaðstoð við hæfi. Auk þess skal fara fram greining á nemendum sem eiga í sálrænum eða félagslegum erfiðleikum sem hafa áhrif á nám þeirra. Allar athuganir á vegum skóla sem varða einstaka nemendur skulu gerðar í samráði við og með samþykki foreldra og óheimilt er að taka gjald fyrir slíkar athuganir. Greina skal foreldrum frá niðurstöðum slíkra athugana.
Foreldrar nemenda geta óskað eftir greiningu samkvæmt þessari grein, auk þess sem skólastjóri, kennarar eða starfsmenn heilsugæslu geta lagt fram ósk um greiningu í samráði við og með samþykki þeirra. [Skólaþjónusta]1) sér um að greining fari fram, skilar tillögu til skólastjóra um hvernig við skuli bregðast, fylgist með úrbótum og metur árangur. [Upplýsa skal tengilið eða málstjóra um niðurstöður athugana ef þjónusta er samþætt á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Tekið skal mið af niðurstöðum athugana við gerð stuðningsáætlana.]2)
[Innan hvers skóla skal samræma störf þeirra sem sjá um málefni einstakra nemenda með stofnun nemendaverndarráðs. Jafnframt skal grunnskóli stuðla að almennu samstarfi við aðra þjónustuveitendur og samstarfi á vettvangi samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna.]2)
Sveitarfélög sem reka grunnskóla skulu hafa frumkvæði að samstarfi [skólaþjónustu],1) félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda og heilbrigðisþjónustu innan sveitarfélagsins vegna nemenda með [stuðningsþarfir]2) og langvinn veikindi. Sveitarfélög skulu einnig hafa frumkvæði að samstarfi [skólaþjónustu]1) við aðila sem annast sérhæfð greiningar- og meðferðarúrræði á vegum ríkisins vegna einstakra nemenda.
Við framkvæmd [skólaþjónustu]1) skulu sveitarfélög leggja áherslu á góð tengsl leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla með samfellu í skólastarfi að leiðarljósi.
Ráðherra setur reglugerð3) um [skólaþjónustu]1) og starfsemi nemendaverndarráða í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. [Heimilt er, með rökstuddri greinargerð, að sækja um tímabundna undanþágu frá einstökum ákvæðum í reglugerð um nemendaverndarráð til ráðuneytis. Gildar ástæður þurfa að vera fyrir veitingu undanþágu, svo sem fámenni eða sérstaða. Ráðherra er heimilt að fela Miðstöð menntunar og skólaþjónustu að veita undanþágur samkvæmt þessari grein.]2)
Sé foreldri synjað um beiðni um greiningu skv. 3. mgr. verður sú ákvörðun kærð samkvæmt fyrirmælum 47. gr. Ráðuneytið getur í úrskurði mælt fyrir um að tilteknum nemanda skuli veitt greining í samræmi við ákvæði þessarar greinar.
   1)L. 76/2016, 1. gr. 2)L. 107/2023, 29. gr. 3)Rg. 444/2019.
41. gr. Skólaheilsugæsla.
Um skólaheilsugæslu í grunnskólum fer eftir gildandi lögum um heilbrigðisþjónustu. Um skipulag og fyrirkomulag skólaheilsugæslu í grunnskóla skal haft samráð við skólanefnd og skólastjóra.
Skólastjóra ber að fylgjast með því að nemendur njóti skólaheilsugæslu í skólanum í samræmi við þá tilhögun sem ákveðin hefur verið skv. 1. mgr.
Sveitarfélög greiða stofnkostnað húsnæðis í skólum sem ætlað er fyrir skólaheilsugæslu og annast rekstur þess. Laun starfsmanna við skólaheilsugæslu og sérgreindur kostnaður við þessa starfsemi greiðist sem annar kostnaður við rekstur almennrar heilsugæslu á heilsugæslustöð og fer um ráðningu starfsmanna með sama hætti.
42. gr. Sérúrræði.
Sveitarfélög geta beitt sér fyrir sérúrræðum innan grunnskóla eða stofnað til reksturs sérskóla þegar almennt nám og kennsluhættir hæfa ekki þörfum eða hag nemenda. Slíkum úrræðum er ætlað að veita nemendum sérhæft umhverfi til náms í lengri eða skemmri tíma þar sem jafnframt skal lögð áhersla á að veita starfsfólki almennra grunnskóla stuðning og kennslufræðilega ráðgjöf.

X. kafli. [Sjálfstætt reknir grunnskólar.]1)
   1)L. 76/2016, 6. gr.
43. gr. [Sjálfstætt reknir grunnskólar.
Sjálfstætt reknir grunnskólar starfa samkvæmt lögum þessum en eru reknir af einkaaðila, almennt á grundvelli þjónustusamnings við viðkomandi sveitarfélag.
Innritun í sjálfstætt rekinn grunnskóla er háð frjálsu vali foreldra, fyrir hönd barna sinna, nema annað leiði af þjónustusamningi. Ef innritun í sjálfstætt rekinn grunnskóla er ekki háð frjálsu vali skal til viðbótar öðrum kröfum fullnægja skilyrðum 43. gr. e.]1)
   1)L. 76/2016, 6. gr.
[43. gr. a. Þjónustusamningur.
Sveitarfélag sem skóli starfar í skal gera þjónustusamning um rekstur skólans við rekstraraðila. Samningur felur í sér samþykki sveitarfélags fyrir stofnun skólans, staðfestingu á rétti til fjárframlaga skv. 43. gr. b og skuldbindingu sveitarfélags um að hafa eftirlit með starfi hans.
Ráðuneytið skal staðfesta þjónustusamning þegar fyrir liggur að öllum lögbundnum skilyrðum er fullnægt. Ekki má hefja skólastarf fyrr en sú staðfesting liggur fyrir. …1)
Sveitarfélag getur hafnað því að gera þjónustusamning eða takmarkað hann við tiltekinn nemendafjölda, t.d. ef fjárframlög til skólans kunna að hafa neikvæð áhrif á skólastarf sveitarfélagsins sjálfs og fjárveitingar til þess. Hafni sveitarfélag því að gera þjónustusamning fer um leyfi til starfsemi skólans eftir 46. gr.
Í þjónustusamningi skal að minnsta kosti fjalla um eftirtalin atriði:
   1. Skólanámskrá sem er í samræmi við aðalnámskrá.
   2. Mat og eftirlit með gæðum, sbr. 37. gr.
   3. Fjárhagsleg samskipti aðila, svo sem dreifingu fjárframlaga og þau fjármál sem tengjast nemendum með [stuðningsþarfir].2)
   4. Þjónustu við nemendur í samræmi við metnar [stuðningsþarfir].2)
   5. Gildi samnings, svo sem reynslutíma og uppsagnarfresti. Um hámarkstíma samninga gilda ekki ákvæði 100. gr. sveitarstjórnarlaga.
   6. Hámarksfjölda nemenda við skólann, en hann skal m.a. ákvarðaður að teknu tilliti til húsnæðis, starfsaðstæðna nemenda og starfsmanna, möguleika á að skipuleggja eftirlit með skólanum og fjárhagslegs rekstraröryggis.
   7. Hámarksfjölda nemenda við skólann sem sveitarfélagi ber að greiða kostnað af, sbr. 43. gr. b, en hann skal m.a. ákvarðaður með hliðsjón af fjárveitingum sem sveitarfélag ákveður.
   8. Innritun nemenda og gjaldtöku af nemendum. Sveitarfélag getur sett skilyrði um hámark gjaldtöku með hliðsjón af fjárframlögum þess til skólans.
   9. Fyrirkomulag skólaaksturs, ef við á.
   10. Slit á þjónustusamningi og vanefndaúrræði vegna brota á samningsskyldum.]3)
   1)L. 91/2023, 9. gr. 2)L. 107/2023, 30. gr. 3)L. 76/2016, 6. gr.
[43. gr. b. Fjárframlög úr sveitarsjóði.
Sjálfstætt rekinn grunnskóli sem gert hefur þjónustusamning skv. 43. gr. a á rétt á framlagi úr sveitarsjóði til starfsemi sinnar vegna nemenda sem hafa lögheimili í því sveitarfélagi sem skólinn starfar í. Skal framlagið nema að lágmarki 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda samkvæmt útreikningi Hagstofu Íslands. Gildir þetta hlutfall fyrir skóla með allt að 200 nemendur, en framlagið skal vera að lágmarki 70% fyrir hvern nemanda umfram þann fjölda.
Útreikningur Hagstofu Íslands skal liggja fyrir fimmta dag hvers mánaðar og byggjast á næsta mánuði á undan og taka mið af verðlagsbreytingum.
Sveitarfélög greiða framlög reglulega eftir því sem segir í þjónustusamningi. Greiðslurnar taka breytingum til hækkunar eða lækkunar eftir útreikningum Hagstofunnar.
Sveitarfélögum er heimilt að greiða sérstakt stofnframlag til sjálfstætt rekinna grunnskóla. Slík framlög verða eingöngu nýtt í þágu skólastarfsins.]1)
   1)L. 76/2016, 6. gr.
[43. gr. c. Almennar kröfur til einkaaðila sem reka grunnskóla.
Einkaaðili sem rekur grunnskóla skal:
   1. Vera lögaðili og starfa í formi sjálfseignarstofnunar, hlutafélags eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi. Yfir lögaðilanum skal vera stjórn sem er ábyrg fyrir rekstri skólans gagnvart viðkomandi sveitarfélagi og öðrum yfirvöldum. Um fjárhagslegar ábyrgðir stjórnarmanna fer eftir almennum reglum.
   2. Setja samþykktir um starfsemi sína sem birta skal opinberlega á vefsíðu skólans. Um samþykktirnar gilda almennar reglur en þar skal þó að minnsta kosti kveða á um helstu þætti í innra stjórnkerfi, um faglegt sjálfstæði skólastarfsins og um helstu þætti í verkaskiptingu stjórnar annars vegar og faglegra starfsmanna grunnskóla hins vegar.
   3. Tilgreina í samþykktum sínum að tilgangur hans sé rekstur grunnskóla. Tilgangurinn getur jafnframt falist í rekstri annarra viðurkenndra menntastofnana og tengdum verkefnum. Hið síðastnefnda má ekki vera verulegur þáttur í starfseminni.
   4. Tilgreina í samþykktum sínum að fjárframlög opinberra aðila verði einvörðungu nýtt í þágu skólastarfsins. Við slit á starfsemi lögaðilans gilda þó almennar reglur.
Ákvæði stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi og ákvæði um þagnarskyldu taka til stjórnarmanna.]1)
   1)L. 76/2016, 6. gr.
[43. gr. d. Almennar kröfur til skólahalds í sjálfstætt reknum grunnskóla.
Um rekstur og skólahald sjálfstætt rekins grunnskóla gildir eftirfarandi:
   1. Starfsemi grunnskólans, þ.m.t. skipulag og kennsluhættir, skal vera í fullu samræmi við ákvæði laga þessara, reglna sem settar eru á grundvelli þeirra og í samræmi við aðalnámskrá, nema undantekning sé gerð með lögum eða á grundvelli heimildar í lögum.
   2. Stjórn rekstraraðila gegnir þeim hlutverkum sem sveitarstjórn eru falin skv. 7. og 21. gr.
   3. Undanþága skv. 15. gr. skal tilkynnt skólanefnd sveitarfélags.
   4. Foreldrar taka sjálfir ákvörðun um innritun barns í skólann nema ákvæði 43. gr. e eigi við.
   5. Skólastjóri annast innritun nemenda nema í þjónustusamningi sé ákveðið að sveitarfélagið annist innritun.
   6. Gjald má taka fyrir skólavist óháð öðrum fyrirmælum laga þessara um kostnað nemenda í skyldunámi.
   7. Stjórn lögaðila skal setja almennar reglur um ákvarðanir skv. 5. og 6. tölul. og birta þær opinberlega á vefsíðu skólans.
   8. Meðferð og varðveisla gagna og upplýsinga sem lúta að skólastarfi sjálfstætt rekinna grunnskóla lúta sömu almennu lögum og við eiga um almenna grunnskóla sveitarfélaga, þ.m.t. gilda ákvæði stjórnsýslulaga, upplýsingalaga og laga um opinber skjalasöfn.
   9. Lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla gilda um grunnskóla sem hlotið hafa staðfestingu ráðherra samkvæmt lögum þessum.]1)
   1)L. 76/2016, 6. gr.
[43. gr. e. Sjálfstætt reknir grunnskólar sem ekki eru valfrjálsir.
Ef foreldrar eiga ekki frjálst val um það hvort þeir innrita börn sín í sjálfstætt rekinn grunnskóla vegna skipulags á grunnskólahaldi í sveitarfélagi ber sveitarfélagi að tryggja að nemendur í sjálfstætt reknum skóla njóti að öllu leyti sömu réttinda, sömu þjónustu og sambærilegrar stöðu og þegar sveitarfélag rekur skólann. Í þessu felst eftir atvikum eftirfarandi:
   1. Skylda til að kveða í þjónustusamningi á um viðeigandi fjárveitingar umfram það sem leiðir af 43. gr. b, m.a. til að tryggja gjaldfrjálsa skólavist og skólaþjónustu að því leyti sem sveitarfélagið kýs ekki að sinna slíkri þjónustu sjálft.
   2. Skylda til að tryggja í þjónustusamningi rétt sveitarfélags til að taka yfir nauðsynlega þætti í starfsemi rekstraraðilans, svo sem samninga við starfsfólk eða samninga um húsnæði eða gögn, málaskrár og annað sem tengist kennslu og telst hluti skólahaldsins, enda þurfi rekstraraðili að leggja niður eða hætta rekstri eða sveitarfélaginu hafi gefist réttmæt ástæða til að slíta samningi við hann.
   3. Skylda til að tryggja rétt sveitarfélags í samræmi við 2. tölul. þegar rekstraraðili gerir aðra samninga, svo sem við kröfuhafa, leigusala og starfsmenn.
Á sjálfstætt reknum grunnskóla hvílir jafnframt að tryggja nemendum skólans og foreldrum þeirra sömu stöðu og nemendur í grunnskóla sveitarfélagsins hefðu notið, þ.m.t. skylda til að hafa samstarf við önnur stjórnvöld. Skólanum ber um leið réttur til fjárframlaga, sbr. 1. tölul. 1. mgr., og getur sótt hann fyrir dómstólum eftir almennum reglum.
Sveitarstjórn skal kynna íbúum sveitarfélagsins áætlun um samninga eða skipulag skólahalds skv. 1. mgr. í samræmi við 1. mgr. 5. gr. og fyrirmæli sveitarstjórnarlaga um samráð við íbúa.]1)
   1)L. 76/2016, 6. gr.
[43. gr. f. Reglugerðarheimild.
Ráðherra skal setja reglugerð1) um framkvæmd 43. gr., 43. gr. a – 43. gr. e og 46. gr. í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og Hagstofu Íslands. Í reglugerð skal m.a. kveðið nánar á um skilyrði fyrir gerð þjónustusamnings, um form og efni þjónustusamnings, upplýsingar sem sveitarfélag skal afla sér um rekstraraðila þegar það gerir samning, skilyrði fyrir staðfestingu á þjónustusamningi, meðferð fjárframlaga til rekstraraðila skóla, upplýsingagjöf til sveitarfélaga og ráðuneytis, eftirlit með starfsemi, sérstakar skyldur sveitarfélaga og einkarekinna grunnskóla þegar nemendur eiga ekki val um innritun í sjálfstætt rekinn skóla, heimild um undanþágu frá ákvæðum laga og aðalnámskrár ef skólinn starfar samkvæmt viðurkenndri erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan, afturköllun staðfestingar ráðherra á þjónustusamningi og slit sveitarfélaga á þjónustusamningi vegna vanefnda á ákvæðum hans.]2)
   1)Rg. 1270/2016, sbr. 838/2017. Rg. 1150/2018. 2)L. 76/2016, 6. gr.

XI. kafli. [Þróunarskólar, samrekstur, heimakennsla, úrlausn ágreiningsmála o.fl.]1)
   1)L. 76/2016, 10. gr.
44. gr.1) Þróunarskólar.
Ráðherra getur veitt sveitarfélögum og sjálfstætt reknum grunnskólum heimild til að reka þróunarskóla eða gera tilraunir með ákveðna þætti skólastarfs með undanþágu frá ákvæðum laga þessara, reglugerða settra á grundvelli þeirra og aðalnámskrár grunnskóla. Slíkum tilraunum skulu ávallt sett eðlileg tímamörk og kveðið á um úttekt að tilraun lokinni.
Heimilt er að styrkja þróunarskóla og sérstakar nýjungar eftir því sem fjárlög heimila hverju sinni.
   1)Greinin var færð í XI. kafla skv. l. 76/2016, 6. gr.
45. gr.1) Samrekstur.
[Sveitarfélögum er heimilt að hafa með sér samvinnu um rekstur grunnskóla. Um hana fer eftir sveitarstjórnarlögum. Samningur um samvinnu skal staðfestur af ráðherra að fenginni umsögn ráðherra sveitarstjórnarmála. …2)
Í samningi um stofnun byggðasamlags skal sérstaklega kveðið á um hvernig fari með hlutverk skólanefndar. Stjórn byggðasamlagsins fer með það hlutverk komi ekki annað fram. Þá skal þar kveða á um heimild til samninga við einkaaðila um grunnskólahald eftir ákvæðum laga þessara.
Í samningi um að eitt sveitarfélag taki að sér rekstur grunnskóla fyrir annað sveitarfélag skal taka mið af 5. gr. Sæki umtalsverður hluti barna úr sveitarfélagi skóla í öðru sveitarfélagi á þeim grundvelli er viðkomandi sveitarfélögum heimilt að kveða svo á um í samþykktum um stjórn sveitarfélaganna að í skólanefnd viðtökusveitarfélags eigi sæti, með málfrelsi og tillögurétt, fulltrúi sem kjörinn er af sveitarstjórn lögheimilissveitarfélags umræddra barna. Þá skal í samningi kveða á um heimild til samninga við einkaaðila um grunnskólahaldið eftir ákvæðum laga þessara.
Sveitarfélögum er heimilt að reka saman grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla undir stjórn eins skólastjóra að fenginni umsögn skólanefnda. Skal stjórnandi slíkrar stofnunar hafa leyfisbréf til kennslu á leik- eða grunnskólastigi. Sveitarstjórn getur ákveðið að skólaráð og foreldraráð samkvæmt lögum um leikskóla starfi sameiginlega í einu ráði. Ákvæði þetta gildir einnig um skóla sem reknir eru á grundvelli 1. mgr. Hinn samrekni skóli starfar að öðru leyti samkvæmt lögum um viðkomandi skólastig.]3)
   1)Greinin var færð í XI. kafla skv. l. 76/2016, 6. gr. 2)L. 91/2023, 9. gr. 3)L. 76/2016, 7. gr.
46. gr.1) Undanþágur.
Ráðherra er heimilt að viðurkenna grunnskóla eða námsbraut innan almenns grunnskóla sem starfar samkvæmt viðurkenndri erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan. …2)
Foreldrar, sem óska eftir undanþágu frá 3. gr. til að geta kennt börnum sínum heima, að hluta eða öllu leyti, skulu sækja um slíka heimild til síns sveitarfélags. Skólastjóri getur veitt undanþágu að höfðu samráði við skólanefnd og [skólaþjónustu].3) Börn sem hljóta heimakennslu eru undanþegin skólaskyldu skv. 3. gr., en skulu lúta eftirliti og reglulegu mati og þreyta könnunarpróf samkvæmt lögum þessum. …2)
Ákvörðun sveitarstjórnar skv. 2. mgr. er kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr. [Ráðuneyti]4) getur í úrskurði sínum lagt fyrir sveitarfélag að veita foreldrum barns heimild skv. 2. mgr.
[Hafi sveitarfélag hafnað því að gera þjónustusamning við sjálfstætt rekinn grunnskóla getur ráðherra þrátt fyrir það veitt honum heimild til starfa samkvæmt lögum þessum að fenginni umsögn viðkomandi sveitarfélags. Í heimild ráðherra felst ekki réttur skólans til opinbers fjár. Um skólann gilda reglur laga þessara að undanskildum ákvæðum 43. gr. a, 43. gr. b og 43. gr. e. Ráðherra skal setja starfsemi skólans skilyrði í samræmi við ákvæði 43. gr. a og hafa eftirlit með starfsemi hans.]5)
[Ráðherra setur reglugerð6) um skilyrði til heimakennslu á grunnskólastigi og viðurkenningu grunnskóla samkvæmt þessari grein.]7) Sveitarfélög skulu tilkynna ráðuneytinu um veitingu heimildar samkvæmt þessari grein.
   1)Greinin var færð í XI. kafla skv. l. 76/2016, 6. gr. 2)L. 91/2023, 9. gr. 3)L. 76/2016, 1. gr. 4)L. 91/2011, 1. gr. 5)L. 76/2016, 8. gr. 6)Rg. 531/2009, sbr. 971/2018. Rg. 699/2012, sbr. 1270/2016 og 1149/2018. 7)L. 91/2011, 10. gr.
47. gr. Kæruheimild.
[Ákvarðanir um réttindi og skyldur nemenda sem teknar eru á grundvelli laga þessara eru kæranlegar til ráðherra. Kæruheimildin nær einnig til sambærilegra ákvarðana um réttindi og skyldur nemenda á vegum sjálfstætt rekinna skóla.
Ákvarðanir um námsmat sæta ekki kæru.]1)
   1)L. 76/2016, 9. gr.
[47. gr. a. Vinnsla persónuupplýsinga.
Grunnskólum, skólaþjónustu og þeim aðilum sem hafa lögbundið hlutverk samkvæmt lögum þessum er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem nauðsynlegt er til að veita nemendum í grunnskóla lögbundna þjónustu. Heimil er vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar nemenda, svo sem vegna skimana, greininga, vottorða og námsmats og í tengslum við framkvæmd samræmdra könnunarprófa.
Grunnskólum, skólaþjónustu og þeim aðilum sem hafa lögbundið hlutverk samkvæmt lögum þessum er heimilt að afla og miðla persónuupplýsingum frá og til stofnana og fagaðila sem veita nemendum lögbundna þjónustu, þ.m.t. Ráðgjafar- og greiningarstöðvar, félagsþjónustu sveitarfélaga, félagsmiðstöðva, frístundaheimila, leikskóla, stofnana og fagaðila sem tilgreindir eru í reglugerð sem ráðherra setur, enda sé slík miðlun nauðsynleg til þess að þessir aðilar geti gegnt hlutverki sínu.
Grunnskólum, skólaþjónustu og þeim aðilum sem hafa lögbundið hlutverk samkvæmt lögum þessum ber að upplýsa foreldra og forsjáraðila í skilningi barnalaga um vinnsluna í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
[Sé þjónusta samþætt á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna fer um vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt ákvæðum þeirra laga, einkum 23. gr.]1)
Við lok grunnskólanáms skulu grunnskólar bjóða nemendum, foreldrum og forsjáraðilum í skilningi barnalaga miðlun upplýsinga um nemendur sem unnar hafa verið eða aflað hefur verið á grundvelli þessarar greinar til framhaldsskóla. Samþykki nemenda, foreldra og forsjáraðila er skilyrði miðlunar og skal hún vera í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Ráðherra setur reglugerð um vinnslu persónuupplýsinga. Í henni skulu koma fram nánari skilyrði um vinnsluna, svo sem hvaða persónuupplýsingar heimilt er að vinna með og í hvaða tilgangi vinnsla þeirra er heimil, verklag við vinnslu persónuupplýsinga, auk tilgreiningar þeirra fagaðila og stofnana sem er heimil vinnslan.]2)
   1)L. 107/2023, 31. gr. 2)L. 89/2021, 4. gr.

XII. kafli. Gildistaka.
48. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2008.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Grunnskólar sem þegar eru starfandi á grundvelli 56. gr. laga nr. 66/1995, um grunnskóla, sbr. 22. gr. laga nr. 98/2006, eiga rétt á framlagi úr sveitarsjóði samkvæmt lögum þessum án sérstakrar viðurkenningar ráðherra. Sveitarfélagi er þó heimilt að takmarka framlag úr sveitarsjóði við hámarksfjölda nemenda.
Eignarhlutur ríkisins í skólahúsnæði grunnskóla, sem var í eigu ríkisins í heild eða hluta, skal afskrifaður í 15 jöfnum áföngum á árunum 1996–2010 og eignfærður hjá þeim sveitarfélögum sem bera ábyrgð á rekstri skóla og annast viðhald skólahúsnæðis. Sé húsnæði, sem áður var nýtt í tengslum við skólastarf, ekki lengur nýtt í slíku skyni skal eignarhlutur ríkisins vera óskertur.
II.
Sveitarfélög skulu greiða upphæð er svarar til 1,3% af dagvinnulaunum kennara og skólastjóra í sveitarfélaginu í sérstakan sjóð er Samband íslenskra sveitarfélaga annast rekstur á og varðveitir. Úr sjóði þessum skulu greidd laun kennara og skólastjóra við grunnskóla vegna námsleyfa allt að einu ári. Sjóðurinn ráðstafar einnig þeim fjármunum sem ríkið veitir til símenntunar kennara og skólastjóra. Samband íslenskra sveitarfélaga skipar fimm menn í stjórn sjóðsins, tvo tilnefnda af Kennarasambandi Íslands og þrjá af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Stjórn sjóðsins setur sér starfsreglur og birtir þær.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að ákveða að framlög vegna námsleyfa kennara og skólastjórnenda renni í sérstakan sjóð sem sveitarfélög og viðsemjendur þeirra hafa samið um í kjarasamningum. Jafnframt má ákveða að fjármunum sem ákveðnir eru í fjárlögum til símenntunar kennara og skólastjóra verði ráðstafað með sama hætti.
Nú hafa sveitarfélög og viðsemjendur þeirra komið á fót sjóði, sbr. 2. mgr., og skal ráðherra þá birta auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda um að hann komi í stað sjóðs skv. 1. mgr.
[Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. mgr. skal framlag samkvæmt þeirri málsgrein, á árinu 2015, 44,6 millj. kr., greitt af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, f.h. sveitarfélaga. Framlagið skal innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. janúar 2015.]1)
[Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. mgr. skal framlag samkvæmt þeirri málsgrein, á fjárlagaárunum 2016, 2017 og 2018, greitt af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fyrir hönd sveitarfélaga. Í samræmi við samkomulag um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms frá 13. apríl 2016 verður framlagið innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. janúar.]2)
   1)L. 72/2015, 3. gr. 2)L. 78/2016, 3. gr.
III.
Reglugerðir, auglýsingar og önnur fyrirmæli sett samkvæmt lögum nr. 66/1995, með síðari breytingum, skulu halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þau stangast ekki á við lög þessi þar til nýjar reglugerðir, auglýsingar eða önnur fyrirmæli hafa öðlast gildi.1)
   1)Sjá nú: Rgl. 220/1999.
IV.
Skólanefndir sem kosnar hafa verið samkvæmt lögum nr. 66/1995, um grunnskóla, halda umboði sínu.
V.1)
   1)L. 34/2009, 1. gr.
[VI.
Þrátt fyrir 39. gr. er ekki skylt að leggja fyrir samræmd könnunarpróf til og með 31. desember 2024.]1)
   1)L. 79/2022, 1. gr.