Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um náms- og starfsráðgjafa

2009 nr. 35 3. apríl


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 8. apríl 2009. Breytt með: L. 77/2009 (tóku gildi 31. júlí 2009). L. 26/2010 (tóku gildi 1. júlí 2010; EES-samningurinn: VII. viðauki tilskipun 2005/36/EB). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við mennta- og barnamálaráðherra eða mennta- og barnamálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Starfsheitið náms- og starfsráðgjafi.
Rétt til að kalla sig náms- og starfsráðgjafa og starfa sem slíkur hefur sá einn sem til þess hefur leyfi [ráðherra],1) sbr. 2. mgr.
Leyfi skv. 1. mgr. skal veita umsækjanda sem lokið hefur námi í náms- og starfsráðgjöf frá háskóla sem hlotið hefur viðurkenningu [ráðherra]1) samkvæmt lögum nr. 63/2006.
   1)L. 126/2011, 506. gr.
2. gr. Matsnefnd.
Leiki vafi á hvort umsækjandi um leyfi til þess að nota starfsheitið náms- og starfsráðgjafi fullnægi þeim skilyrðum sem kveðið er á um í lögum þessum skal leita umsagnar matsnefndar sem [ráðherra]1) skipar til fjögurra ára í senn.
Matsnefnd skal skipuð þremur fulltrúum, einum frá félagi náms- og starfsráðgjafa, einum tilnefndum af samstarfsnefnd um háskólastigið og einum án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt.
Nánar skal kveðið á um starfshætti matsnefndar í reglugerð.
   1)L. 126/2011, 506. gr.
3. gr. Réttindi sem aflað er í ríki innan EES eða í aðildarríki EFTA.
[[Ráðherra]1) skal staðfesta leyfi til að nota starfsheitið náms- og starfsráðgjafi samkvæmt umsókn ríkisborgara frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða Færeyjum ef viðkomandi leggur fram vottorð um viðurkennd réttindi í ríki innan svæðisins eða Færeyjum í samræmi við skilyrði tilskipunar 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi.]2)
Samkvæmt umsókn frá ríkisborgara aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu skal ráðherra staðfesta leyfi til að nota starfsheitið náms- og starfsráðgjafi með sömu skilyrðum og tilgreind eru í 1. mgr., enda leggi viðkomandi fram vottorð um viðurkennd réttindi í aðildarríki samtakanna.
   1)L. 126/2011, 506. gr. 2)L. 26/2010, 12. gr.
4. gr. Leyfisveiting.
[Ráðherra]1) er heimilt að veita þeim sem eru í starfi þegar lög þessi öðlast gildi leyfi það sem um ræðir í 1. mgr. 1. gr. enda þótt þeir uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 1. gr. Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar matsnefndar.
[Ráðherra er heimilt að fela háskólum, sem hlotið hafa viðurkenningu á grundvelli laga um háskóla og sinna menntun náms- og starfsráðgjafa eftir samningi við ráðuneytið, að annast útgáfu leyfisbréfa samkvæmt lögum þessum. Ráðherra getur enn fremur veitt öðrum þar til bærum aðila slíka heimild.
Ráðherra er heimilt að setja nánari fyrirmæli um fyrirkomulag og útgáfu leyfisbréfa í reglugerð.]2)
   1)L. 126/2011, 506. gr. 2)L. 77/2009, 1. gr.
5. gr. Þagnarskylda.
Náms- og starfsráðgjafa er skylt að gæta þagmælsku um atriði sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli málsins. Þagnarskyldan helst þótt viðkomandi láti af starfi.
6. gr. Skyldur náms- og starfsráðgjafa.
Náms- og starfsráðgjafa ber að þekkja skyldur sínar samkvæmt lögum, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar er varða fagið.
Náms- og starfsráðgjafar bera ábyrgð á þeirri ráðgjöf sem þeir veita.
7. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra getur sett nánari ákvæði í reglugerð1) um framkvæmd laga þessara, m.a. reglur um skilyrði fyrir veitingu leyfis og hvernig staðið er að veitingu og afturköllun leyfis.
   1)Rg. 160/2010.
8. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
9. gr.