Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Myndlistarlög
2012 nr. 64 25. júní
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. janúar 2013.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við menningar- og viðskiptaráðherra eða menningar- og viðskiptaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Markmið og yfirstjórn.
1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að kveða á um skipan og fyrirkomulag myndlistarmálefna, að efla íslenska myndlist og búa henni hagfelld skilyrði.
Ráðherra fer með yfirstjórn myndlistarmála samkvæmt lögum þessum.
II. kafli. Listasafn Íslands.
2. gr. Hlutverk.
Listasafn Íslands er eign íslenska ríkisins og er höfuðsafn á sviði myndlistar. Safnið skal einkum leitast við að safna íslenskri myndlist, vera miðstöð varðveislu, rannsókna, heimildasöfnunar og miðlunar á íslenskri myndlist. Listasafn Íslands veitir öðrum listasöfnum ráðgjöf, stuðlar að samvinnu listasafna og vinnur að samræmdri safnastefnu á sviði myndlistar.
3. gr. Helstu verkefni.
Listasafn Íslands skal leitast við að koma upp metnaðarfullu safni íslenskrar myndlistar, skrá það, rannsaka, varðveita og miðla, innan lands og utan. Listasafn Íslands skal kosta kapps um að efla íslenska myndlist og stuðla að framþróun hennar.
Leitast skal við að safnkosturinn endurspegli sem best strauma og stefnur í íslenskri og alþjóðlegri myndlist á hverjum tíma. Listasafn Íslands skal afla heimilda og stuðla að öflun og miðlun þekkingar á íslenskri myndlist til almennings og sérfræðinga til fræði- og rannsóknastarfa. Safnið skal annast fræðslustarfsemi um innlenda og erlenda myndlist fyrir skóla, fjölmiðla og almenning.
4. gr. Safnstjóri.
Ráðherra skipar forstöðumann Listasafns Íslands, safnstjóra, til fimm ára í senn. Safnstjóri skal hafa háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfssviði safnsins.
Safnstjóri stjórnar starfsemi og rekstri safnsins og mótar listræna stefnu þess. Hann ræður aðra starfsmenn safnsins og er í fyrirsvari fyrir það.
Endurnýja má skipun safnstjóra einu sinni til næstu fimm ára.
5. gr. Innkaupanefnd.
Á vegum Listasafns Íslands starfar þriggja manna innkaupanefnd skipuð af ráðherra til þriggja ára í senn. Í nefndinni situr safnstjóri, einn fulltrúi tilnefndur af Sambandi íslenskra myndlistarmanna og einn án tilnefningar. Ráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna.
Innkaupanefndin ákveður kaup listaverka. Hún getur heimilað safnstjóra að ráðstafa allt að 20% af því fé sem árlega er ætlað til listaverkakaupa til kaupa á innlendum verkum.
Innkaupanefnd fjallar um gjafir sem Listasafni Íslands eru boðnar og metur hvort þær skuli þegnar. Gjöf skal fylgja gjafabréf. Safnið má aldrei selja eða á annan hátt láta af hendi listaverk, er það hefur þegið að gjöf, nema að fengnu samþykki gefanda.
Heimilt er að fenginni umsögn innkaupanefndar að selja listaverk úr eigu Listasafns Íslands í því skyni að kaupa annað verk eftir sama listamann er æskilegra þykir að sé í eigu safnsins.
6. gr. Lán listaverka.
Listasafni Íslands er heimilt að lána listaverk tímabundið til annarra safna eða stofnana, á sýningar eða til rannsókna. Höfundur á alltaf rétt á að fá verk sín lánuð á eigin sýningar.
Öll lán á listaverkum þurfa að uppfylla skilyrði Listasafns Íslands um útlán verka.
7. gr. Meðferð réttinda.
Listasafn Íslands öðlast þann rétt sem á hverjum tíma fylgir listaverki samkvæmt íslenskum höfundalögum við venjulegt, óskilorðsbundið afsal þess, þó með þeirri takmörkun um sölu eða aðra afhendingu sem leiðir af ákvæðum 5. og 6. gr.
Safnið hefur rétt til opinberra sýninga á listaverkum á vegum safnsins en um lán verka á aðrar listsýningar gilda ákvæði 6. gr. Enn fremur hefur safnið rétt til eftirmyndunar eða annarrar eftirgerðar fyrir það sjálft, svo sem til skrásetningar í gagnagrunn safnsins, til kynningar á einstökum sýningum og til birtingar í sýningarskrám. Til annarrar eftirgerðar eða birtingar listaverka þarf samþykki höfundaréttarhafa í samræmi við höfundalög.
Höfundur á kröfu til þess að safnið heimili honum aðgang að verki hans til fjölföldunar og útgáfu en safnið á jafnan forgangsrétt til útgáfu þess að öðru jöfnu.
8. gr. Fjárhagur.
Kostnaður af rekstri Listasafns Íslands greiðist úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum. Listasafnið getur einnig haft tekjur af eigin starfsemi, styrkjum og öðrum framlögum.
9. gr. Gjaldtökuheimild.
Listasafni Íslands er heimilt að taka aðgangseyri. Þá er safninu heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sína, svo sem lán á listaverkum, ljósmyndun þeirra, afnot af ljósmyndum, hvers konar sérunnar skrár og úttak tölvugagna, sérfræðilega heimildaþjónustu og fjölföldun hvers konar til þess að standa straum af kostnaði. Safnið setur gjaldskrá um framangreinda gjaldtöku.
III. kafli. Myndlistarráð og myndlistarsjóður.
10. gr. Skipan myndlistarráðs.
Ráðherra skipar fimm manna myndlistarráð til þriggja ára í senn. Samband íslenskra myndlistarmanna tilnefnir tvo fulltrúa, Listfræðafélag Íslands tilnefnir einn og Listasafn Íslands tilnefnir einn. Ráðherra skipar einn fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður en varaformaður skal skipaður úr hópi ráðsmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
Óheimilt er að skipa sama mann aðalfulltrúa í myndlistarráði lengur en tvö samfelld starfstímabil.
11. gr. Hlutverk og starfsemi myndlistarráðs.
Hlutverk myndlistarráðs er að vera ráðherra og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni myndlistar. Hlutverk sitt samkvæmt lögum þessum rækir ráðið meðal annars með því að:
a. veita umsögn um þau mál sem ráðherra vísar til þess,
b. gera tillögu til ráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi myndlistarsjóðs til þriggja ára í senn,
c. úthluta árlega styrkjum úr myndlistarsjóði,
d. stuðla að kynningu á íslenskum myndlistarmönnum og myndsköpun þeirra hér á landi og erlendis,
e. efla alþjóðlegt samstarf íslenskra myndlistarmanna og stofnana,
f. sinna öðrum verkefnum sem falla undir hlutverk þess eða ráðherra kann að fela því.
Ráðherra er heimilt að fela myndlistarráði að reka sérstaka skrifstofu eða semja við til þess bæra aðila um framkvæmd verkefna sem unnin eru í þess þágu og til að annast almenna umsýslu vegna starfsemi ráðsins og myndlistarsjóðs.
12. gr. Myndlistarsjóður.
Alþingi veitir árlega fé í fjárlögum í myndlistarsjóð í því markmiði að efla íslenska myndlist með fjárhagslegum stuðningi og kosta önnur verkefni er falla undir hlutverk og starfsemi myndlistarráðs skv. 11. gr.
Myndlistarráð úthlutar styrkjum úr myndlistarsjóði. Ráðherra setur myndlistarsjóði reglur um auglýsingar, meðferð umsókna og afgreiðslu þeirra. Við mat á umsóknum er myndlistarráði heimilt að leita umsagnar fagaðila.
Kostnaður af starfsemi myndlistarráðs greiðist úr myndlistarsjóði. Ráðið ber ábyrgð á umsýslu og fjárreiðum myndlistarsjóðs.
IV. kafli. Listaverk í opinberum byggingum og á útisvæðum.
13. gr. Opinberar byggingar.
Opinberar byggingar ásamt umhverfi þeirra, svo og önnur útisvæði í opinberri eigu, skal fegra með listaverkum. Skal miða við að listaverkin séu þáttur í þeirri heildarmynd sem byggingu og umhverfi hennar er ætlað að skapa. Til opinberra bygginga teljast:
a. byggingar sem ríkissjóður fjármagnar að nokkru eða öllu leyti, sbr. lög nr. 84/2001, um skipan opinberra framkvæmda,
b. byggingar sem reistar eru á vegum ríkisstofnana sem hafa sjálfstæðan fjárhag og eru því ekki háðar beinni fjárveitingarákvörðun Alþingis um byggingarframkvæmdir,
c. byggingar sem reistar eru fyrir ríkið samkvæmt samningi um einkaframkvæmd,
d. framkvæmdir sem fela í sér gagngerar endurbætur á eldra húsnæði og ber að fara með þær framkvæmdir eins og um nýbyggingu sé að ræða,
e. húsnæði sem ríkið tekur á leigu til a.m.k. 10 ára.
Byggingar sveitarfélaga og stofnana þeirra geta enn fremur talist til opinberra bygginga enda séu umráð sveitarfélags yfir þeim með hliðstæðum hætti og greinir í 1. mgr. Til opinberra bygginga í skilningi laga þessara teljast hins vegar ekki byggingar sem eru reistar til bráðabirgða, skemmur og önnur mannvirki eða byggingar þar sem staðsetning takmarkar mjög aðgengi.
14. gr. Framlag til listaverka í nýbyggingum.
Verja skal að minnsta kosti 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka í henni og umhverfi hennar. Með listaverkum er átt við hvers konar fasta og lausa listmuni, svo sem veggskreytingar innan húss og utan, höggmyndir, málverk, myndvefnað og aðra listræna fegrun. Þá getur listaverk verið eiginlegur byggingarhluti, að hluta eða í heild, og órjúfanlegur hluti af byggingu eða umhverfi hennar.
15. gr. Undirbúningur.
Í greinargerð með frumathugun og áætlanagerð skv. II. og III. kafla laga um skipan opinberra framkvæmda skal auk þeirra atriða sem þar eru tilgreind gera grein fyrir áætlun um kostnað vegna listaverka. Slíkur kostnaður skal vera hluti af þeirri heildarkostnaðaráætlun sem lögð er til grundvallar við fjárlagagerð vegna framkvæmdanna.
16. gr. Ráðgjöf.
Við ákvarðanir um listaverk í opinberum nýbyggingum sem lög þessi taka til skulu arkitekt mannvirkisins og byggingarnefnd leita faglegrar ráðgjafar hjá stjórn listskreytingasjóðs sem skal tilnefna fulltrúa af sinni hálfu til að annast samráð og ráðgjöf. Hin endanlega ákvörðun um val listaverka er í höndum byggingarnefndar og/eða verkkaupa að fenginni hinni faglegu ráðgjöf sjóðstjórnar. Kostnaður við ráðgjöf og val á listaverki skal rúmast innan þeirra fjárveitinga sem áætlaðar voru til verksins á fjárlögum.
17. gr. Listskreytingasjóður.
Alþingi veitir árlega fé í listskreytingasjóð til listaverka í opinberum byggingum sem voru fullbyggðar fyrir 1. janúar 1999 ásamt umhverfi þeirra og annarra útisvæða á forræði ríkisins og sveitarfélaga svo og til listaverka í húsnæði sem ríkið tekur á leigu til a.m.k. 10 ára.
Úthlutun styrkja úr listskreytingasjóði til listaverka í eldri byggingum og leiguhúsnæði er í höndum stjórnar listskreytingasjóðs. Stjórnin metur í hverju tilviki hvort fyrirhuguð listaverk séu þess eðlis að hafa skuli samráð við arkitekt byggingar við val á þeim.
Sé bygging, umhverfi hennar eða útisvæði á forræði sveitarfélags skal koma framlag frá viðkomandi sveitarfélagi á móti úthlutun úr listskreytingasjóði.
18. gr. Stjórn listskreytingasjóðs.
Ráðherra skipar fimm manna stjórn listskreytingasjóðs til þriggja ára í senn. Samband íslenskra myndlistarmanna tilnefnir tvo fulltrúa, Arkitektafélag Íslands tilnefnir einn og samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir tilnefnir einn. Ráðherra skipar einn fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður en varaformaður skal skipaður úr hópi stjórnarmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
Óheimilt er að skipa sama mann aðalfulltrúa í stjórn listskreytingasjóðs lengur en tvö samfelld starfstímabil.
Hlutverk stjórnar er að veita ráðgjöf um listaverk í nýbyggingum sem lög þessi taka til, sbr. 16. gr., annast umsýslu fjárins og veita styrki úr listskreytingasjóði til listaverka í opinberum byggingum sem voru fullbyggðar fyrir 1. janúar 1999, sbr. 17. gr. Stjórn listskreytingasjóðs er heimilt að eiga frumkvæði að gerð og uppsetningu listaverka.
Ráðherra er heimilt að fela stjórn listskreytingasjóðs að reka sérstaka skrifstofu eða semja við til þess bæra aðila um framkvæmd verkefna sem unnin eru í þágu hennar til að annast almenna umsýslu vegna starfsemi stjórnarinnar og listskreytingasjóðs, sbr. 17. gr.
Kostnaður af starfsemi stjórnar greiðist úr listskreytingasjóði. Stjórnin ber ábyrgð á umsýslu og fjárreiðum listskreytingasjóðs.
19. gr. Samkeppni.
Að öðru jöfnu skal fara fram opinber samkeppni, í samræmi við venjur og reglur sem um slíkt gilda á hverjum tíma, um meiri háttar verkefni á sviði listskreytinga opinberra bygginga, hvort sem um er að ræða nýbyggingar eða byggingar sem voru fullbyggðar fyrir 1. janúar 1999. Slík samkeppni skal opin erlendum listamönnum enda njóti íslenskir listamenn sömu réttinda í þeirra löndum.
Stjórn listskreytingasjóðs er heimilt að veita styrk úr listskreytingasjóði vegna kostnaðar við undirbúning umsóknar um framlag til listaverka skv. 17. gr., þ.m.t. kostnaðar við samkeppni.
20. gr. Meðferð listaverka.
Listaverk sem hefur notið framlags samkvæmt lögum þessum telst í opinberri eigu. Verk sem hafa notið styrks úr listskreytingasjóði skulu vera aðgengileg almenningi.
Óheimilt er að flytja listaverk varanlega úr byggingu eða frá henni nema með samþykki stjórnar listskreytingasjóðs. Jafnframt er óheimilt að selja listaverk sem notið hefur framlags nema með samþykki stjórnarinnar. Sé listaverk selt skal semja um endurgreiðslu á framlagi samkvæmt lögum þessum.
Öll listaverk sem njóta styrks úr listskreytingasjóði samkvæmt lögum þessum skulu merkt greinilega og halda skal skrá um þau.
V. kafli. Önnur ákvæði.
21. gr. Málsmeðferð.
Ákvarðanir um styrkveitingar skv. 12. og 17. gr. eru endanlegar á stjórnsýslustigi og sæta ekki kæru til ráðherra.
22. gr. Setning reglugerða.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð1) nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga í heild eða einstakra kafla þeirra að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga að því er varðar verkefni á sveitarstjórnarstigi.
1)Rg. 171/2014. Rg. 552/2014.
23. gr. Gildistaka.
Lög þessi taka gildi 1. janúar 2013. …
Ákvæði til bráðabirgða.
Fram til 1. janúar 2013 er ráðherra heimilt að undirbúa gildistöku laga þessara, meðal annars með því að óska eftir tilnefningum og skipa innkaupanefnd Listasafns Íslands, sbr. 5. gr., myndlistarráð, sbr. 10. gr., og stjórn listskreytingasjóðs, sbr. 18. gr.