Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir

2018 nr. 38 9. maí


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. október 2018. Breytt með: L. 90/2018 (tóku gildi 15. júlí 2018; EES-samningurinn: XI. viðauki reglugerð 2016/679). L. 71/2019 (tóku gildi 5. júlí 2019). L. 84/2020 (tóku gildi 21. júlí 2020). L. 88/2021 (tóku gildi 1. jan. 2022). L. 78/2022 (tóku gildi 14. júlí 2022). L. 125/2022 (tóku gildi 1. jan. 2023).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega er átt við félags- og vinnumarkaðsráðherra eða félags- og vinnumarkaðsráðuneyti sem fer með lög þessi að undanskildum ákvæðum sem varða ráðgjöf vegna barna með fjölþættan vanda og/eða miklar þroska- og geðraskanir og búsetu þeirra utan heimilis skv. 20. og 21. gr. og setningu reglugerðar skv. 3. mgr. 21. gr., sbr. og 6. tölul. 1. mgr. 40. gr., sem heyra undir mennta- og barnamálaráðherra. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Markmið og skilgreiningar.
1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Þjónustan skal miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði.
Þjónusta samkvæmt lögum þessum skal miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður viðkomandi, óskir og önnur atriði sem skipta máli, svo sem kyn, kynferði, aldur, þjóðernisuppruna, trúarbrögð o.fl.
Við framkvæmd laga þessara skal framfylgt þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja að fatlað fólk, þ.m.t. hagsmunasamtök þess, hafi áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni þess. Skal ákvarðanataka byggjast á viðeigandi aðlögun þar sem aðgerða er þörf svo að fatlað fólk fái notið réttinda sinna. Þegar fötluð börn og fjölskyldur þeirra eiga í hlut skal einnig framfylgja barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna lögum samkvæmt.
2. gr. Skilgreiningar.
Í lögum þessum hafa eftirfarandi hugtök svofellda merkingu:
   1. Fötlun: Afleiðing skerðinga og hindrana af ýmsum toga sem verða til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Skerðingar hlutaðeigandi einstaklings eru langvarandi og hindranirnar til þess fallnar að viðkomandi verði mismunað vegna líkamlegrar, geðrænnar eða vitsmunalegrar skerðingar eða skertrar skynjunar.
   2. Fatlað fólk: Fólk með langvarandi líkamlega, geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun sem verður fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra ef aðstoðar nýtur ekki við.
   3. Stuðningsþarfir: Þarfir einstaklings fyrir þjónustu eða aðstoð í daglegu lífi vegna fötlunar. Stuðningsþarfir eru einstaklingsbundnar en geta einnig tekið mið af þörfum fjölskyldu einstaklingsins. Við mat á stuðningsþörfum er stuðst við samræmdar aðferðir.
   4. Stoðþjónusta: Margháttuð aðstoð við athafnir daglegs lífs, veitt á grundvelli laga þessara, sem byggist m.a. á einstaklingsbundnum þörfum fólks með hliðsjón af óskum þess.
   5. Notendasamningar: Samningur við sveitarfélag sem felur í sér að notandi stjórnar þeirri aðstoð sem hann fær þannig að hann skipuleggur hana, ákveður hvenær og hvar hún er veitt og velur aðstoðarfólk. Notendasamningar geta verið í formi beingreiðslusamnings, þar sem notandi sér alfarið um starfsmannahald sjálfur, notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar eða þjónustufyrirkomulags þar sem notandi stýrir sjálfur þjónustu við sig þó að þeir sem aðstoði hann séu starfsmenn sveitarfélags.
   6. Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA): Aðstoð sem stjórnað er af notanda þjónustunnar með þeim hætti að hann skipuleggur aðstoðina, ákveður hvenær og hvar hún er veitt, velur aðstoðarfólk og hver annast umsýslu á grundvelli [rekstrarleyfis]1) þar að lútandi.
   7. Teymi fagfólks: Fagfólk sem hefur þekkingu á þörfum fatlaðs fólks og metur stuðnings- og þjónustuþörf þess með heildstæðum hætti og gagnreyndum matsaðferðum.
   8. Einstaklingsbundin þjónustuáætlun: Áætlun um framkvæmd fjölþættrar þjónustu þar sem tiltekin eru markmið áætlunarinnar og leiðir, hverjir séu samstarfsaðilar og hverjir beri ábyrgð á að koma áætluninni í framkvæmd í samræmi við markmið laga þessara, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim sem og almennra laga á sviði félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og menntunar.
   9. Þjónustu- og rekstraraðili: Sá sem ber ábyrgð á framkvæmd þjónustu við fatlað fólk á grundvelli [rekstrarleyfis]1)1) og samnings við sveitarfélag eða þjónustusvæði.
   10. Þjónustusvæði: Þegar fleiri en eitt sveitarfélag eiga samvinnu um að veita þjónustu við íbúa sína.
   11. Húsnæðisúrræði: Íbúðarhúsnæði sem gert hefur verið aðgengilegt fyrir tiltekna notkun eða skilgreint sérstaklega fyrir tiltekinn hóp fatlaðs fólks.
   12. Viðeigandi aðlögun: Nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og mannfrelsi.
   13. [Rekstrarleyfi]:1) Leyfi til handa þjónustu- og rekstraraðila sem hyggst veita þjónustu samkvæmt lögum þessum. Þegar þjónusta er veitt á grundvelli NPA-samnings nefnist [rekstrarleyfi]1) umsýsluleyfi og þjónustu- og rekstraraðilinn umsýsluaðili.
   1)L. 88/2021, 25. gr.
3. gr. Réttur til þjónustu.
Fatlað fólk skal eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skal veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði félagsþjónustu, húsnæðismála, menntunar, vinnumarkaðar, öldrunarþjónustu og heilbrigðisþjónustu.
Opinberum aðilum ber að tryggja að sú þjónusta sem veitt er skv. 1. mgr. sé samfelld og samþætt í þágu einstakra notenda. Einstaklingur sem hefur notið þjónustu samkvæmt lögum þessum á rétt á að njóta hennar áfram nema verulegar breytingar verði á stuðningsþörfum hans.
Reynist þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustu eða þörf fyrir stuðning meiri eða sérhæfðari en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skal veita viðbótarþjónustu samkvæmt lögum þessum. Þjónusta samkvæmt lögum þessum kemur til viðbótar þeirri þjónustu sem veitt er á grundvelli annarra laga en ekki í stað hennar. Að jafnaði skal einstaklingur nýta sér almenna þjónustu, allt að 15 klukkustundum á viku, sbr. 26. og 27. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.
Fatlaður einstaklingur á rétt á þjónustu þar sem hann kýs að búa og á lögheimili. Einstaklingur sem nýtur þjónustu samkvæmt lögum þessum og hyggst flytja milli sveitarfélaga getur sótt um þjónustu í því sveitarfélagi sem hann ætlar að flytja til þó að hann hafi eigi skráð þar lögheimili sitt. Skal sveitarfélag þá taka umsókn til meðferðar og tryggja, í samvinnu við umsækjanda og eftir atvikum sveitarfélag sem flutt er frá, samfellu í þjónustunni við flutningana.
Sveitarfélag þar sem fatlaður einstaklingur á lögheimili tekur ákvarðanir um þjónustu við hann samkvæmt lögum þessum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum.
Sveitarfélag sem hefur samvinnu við önnur sveitarfélög um myndun þjónustusvæðis getur falið öðru sveitarfélagi eða sérstökum lögaðila að taka ákvarðanir um þjónustu við fatlaðan einstakling fyrir sína hönd.

II. kafli. Stjórn og skipulag.
4. gr. Yfirstjórn og eftirlit ráðherra.
Ráðherra fer með yfirstjórn málefna fatlaðs fólks samkvæmt lögum þessum. Ráðherra ber ábyrgð á opinberri stefnumótun í málaflokknum sem skal gerð í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, hagsmunasamtök fatlaðs fólks og aðildarfélög þeirra. Þá skal fatlað fólk eiga aðkomu að stefnumótun í málefnum sem varðar það.
Ráðherra hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara, þar á meðal að þjónusta, starfsemi og rekstur sveitarfélaga og annarra aðila samkvæmt lögunum sé í samræmi við markmið þeirra, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og skuldbindingar á sviði mannréttindamála. Þá hefur ráðherra eftirlit með að réttindi fatlaðs fólks séu tryggð. [Ráðherra getur að eigin frumkvæði eða í kjölfar áminningar Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála ákveðið að taka til umfjöllunar stjórnsýslu sveitarfélags samkvæmt lögum þessum.]1) Réttur aðila máls til að kæra ákvörðun hefur ekki áhrif á þessa heimild. Telji ráðuneytið rétt að gera athugasemd getur það:
   1. gefið út leiðbeiningar um túlkun laga þessara og stjórnsýslu sveitarfélagsins á þessu sviði,
   2. gefið út álit um lögmæti athafna eða athafnaleysis sveitarfélagsins eða annars er eftirlit beinist að,
   3.1)
Markmið eftirlitsins er jafnframt að safna og miðla upplýsingum til að tryggja sambærilega þjónustu við fatlaða einstaklinga í ljósi ólíkra þarfa. Enn fremur skal ráðherra hafa umsjón með gerð þjónustu- og gæðaviðmiða í samvinnu við [Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála],2) Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
1)
   1)L. 88/2021, 25. gr. 2)L. 78/2022, 7. gr.
[4. gr. a Stofnanir ríkisins.
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála hefur eftirlit með gæðum þjónustu sem er veitt á grundvelli laga þessara og laga um stofnunina.
Barna- og fjölskyldustofa styður við þjónustu sem er veitt í þágu barna á grundvelli laga þessara og laga um stofnunina.]1)
   1)L. 78/2022, 8. gr.
5. gr. Ábyrgð og samvinna sveitarfélaga.
Sveitarfélög bera ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þ.m.t. gæðum þjónustunnar, hvort sem hún er veitt af hálfu starfsmanna sveitarfélags eða af einkaaðilum samkvæmt samningi þar um, sbr. 7. gr., sem og kostnaði vegna hennar samkvæmt lögum þessum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum. Enn fremur skulu sveitarfélögin hafa innra eftirlit með framkvæmd þjónustunnar, þar á meðal með framkvæmd samninga sem sveitarfélögin gera við þjónustu- eða rekstraraðila um þjónustuna, sbr. 7. gr.
Um samvinnu sveitarfélaga vegna verkefna samkvæmt lögum þessum fer eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í stað staðfestingar ráðuneytis sveitarstjórnarmála á samningi skal fá staðfestingu ráðuneytis sem fer með málefni fatlaðs fólks, sem skal kynnt hinu fyrrnefnda.
6. gr. Samningar við einkaaðila.
Sveitarfélagi eða sveitarfélögum sem standa saman að þjónustusvæði er heimilt að gera samninga við félagasamtök, sjálfseignarstofnanir eða aðra einkaaðila á þjónustusvæði sínu um að annast þjónustu samkvæmt lögum þessum. Við gerð slíkra samninga skal tryggt að réttarstaða notenda verði ekki lakari en annars hefði verið. Mat á þjónustuþörf og ákvörðun um þjónustu skal þó alltaf vera á hendi sveitarfélagsins eða byggðasamlags. Óheimilt er að semja um veitingu þjónustu við aðra aðila en þá sem hafa fengið [rekstrarleyfi]1) skv. 7. gr. Óheimilt er að greiða arð af starfsemi einkaaðila sem taka að sér umsýslu NPA-samninga skv. 11. gr.
   1)L. 88/2021, 25. gr.
7. gr. [Rekstrarleyfi.]1)
Félagasamtök, sjálfseignarstofnanir og aðrir þjónustu- og rekstraraðilar sem hyggjast veita þjónustu samkvæmt lögum þessum skulu afla [rekstrarleyfis]1) [Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála].1) Sama á við um aðra starfsemi sem hefur þann megintilgang að veita fötluðu fólki sértæka aðstoð eða þjónustu, sbr. m.a. ákvæði 11. gr. …2)
[Um rekstrarleyfi og afturköllun þeirra fer samkvæmt ákvæðum laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.]3)
1)
[Sveitarfélag skal tilkynna Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála um samninga sem það gerir á grundvelli þessa ákvæðis. Ef um er að ræða þjónustu í þágu barna ber einnig að tilkynna um slíka samninga til Barna- og fjölskyldustofu.]1)
   1)L. 88/2021, 25. gr. 2)L. 84/2020, 1. gr. 3)L. 78/2022, 9. gr.

III. kafli. Þjónusta.
8. gr. Stoðþjónusta.
Fötluðu fólki skal standa til boða stoðþjónusta sem er nauðsynleg þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar þannig að það standi til jafns við aðra og komið verði í veg fyrir félagslega einangrun þess. Stoðþjónustu þessa skal veita í hverju sveitarfélagi með þeim hætti sem best hentar á hverjum stað. Skal hún miðast við eftirtaldar þarfir:
   1. Þarfir fatlaðra einstaklinga fyrir þjónustu sem felst í því að treysta möguleika þeirra til sjálfstæðs heimilishalds og samfélagslegrar þátttöku.
   2. Þarfir fatlaðra einstaklinga til hæfingar, endurhæfingar, menntunar og atvinnu, m.a. á grundvelli viðeigandi aðlögunar, svo að þeir geti séð sér farborða og tekið virkan þátt í samfélaginu til jafns við aðra.
   3. Þarfir fatlaðra einstaklinga fyrir sérhæfða ráðgjöf, félagslegan stuðning og félagslegt samneyti, þ.m.t. ástundun tómstunda og menningarlífs.
   4. Þarfir fatlaðra barna fyrir umönnun og þjálfun ásamt nauðsynlegri þjónustu við fjölskyldur þeirra svo að þær geti búið börnunum örugg og þroskavænleg uppeldisskilyrði.
   5. Þarfir fatlaðra foreldra vegna umönnunar og uppeldis barna sinna.
Sveitarfélag eða sveitarfélög sem starfa saman á þjónustusvæði skulu reka þjónustustofnanir til að veita þjónustu samkvæmt lögum þessum ef ekki er mögulegt að veita þjónustuna í almennum úrræðum með viðeigandi aðlögun. Þeim er heimilt að bæta við þjónustustofnunum, sameina þær eða leggja niður starfsemi þeirra. Sé það mat sveitarfélags að ekki sé þörf fyrir þjónustustofnun eða sérúrræði er heimilt að leggja starfsemina niður að fenginni umsögn ráðherra. Sveitarfélag skal afla umsagnar hagsmunasamtaka fatlaðs fólks og eftir atvikum notendaráðs í viðkomandi sveitarfélagi áður en ákvörðun er kynnt ráðherra sem skal innan fjögurra vikna meta hvort hann leggist gegn lokun.
Félagasamtök, sjálfseignarstofnun eða annar einkaaðili sem vill hefja eða taka við þjónustuþætti samkvæmt þessari grein skal áður afla [rekstrarleyfis]1) skv. 7. gr.
   1)L. 88/2021, 25. gr.
9. gr. Búseta.
Fatlað fólk á rétt á húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir og félagslegri þjónustu sem gerir því kleift að búa á eigin heimili og stuðlar að fullri aðlögun þess og þátttöku í samfélaginu. Um húsnæði fyrir fatlað fólk gilda ákvæði skipulags- og byggingarlaga, lög um húsnæðismál og lög um almennar íbúðir, eftir því sem við á.
Fatlað fólk á rétt á því að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra. Óheimilt er að binda þjónustu við fatlað fólk því skilyrði að það búi í tilteknu búsetuformi.
Ráðherra setur reglugerð um sérstök húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk, m.a. um fjölda samliggjandi íbúða, einkarými, viðbótarrými vegna fötlunar og sameiginleg rými.
10. gr. Notendasamningar.
Einstaklingi er heimilt að sækja um samning við sveitarfélag eða sveitarfélög sem standa saman að þjónustusvæði um þjónustuform og fyrirkomulag stuðnings eða aðstoðar.
Markmið notendasamninga er að auka val einstaklinga um þjónustuform og fyrirkomulag stuðnings eða aðstoðar, að undangengnu faglegu mati.
Einstaklingar eða barnafjölskyldur sem metnar hafa verið í þörf fyrir aðstoð eða stoðþjónustu geta sótt um að gera notendasamning þar sem fjallað er um framkvæmd stoðþjónustunnar. Heimilt er að samþætta þjónustu sem einstaklingur á rétt á samkvæmt öðrum lögum í slíkum samningi. Hlutaðeigandi sveitarfélag gerir slíka samninga við notendur á grundvelli reglna sem það setur. Við gerð notendasamninga skulu uppfyllt skilyrði laga og reglugerða um réttindi starfsmanna, m.a. hvað varðar aðbúnað þeirra á vinnustað, sbr. lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, og aðrar meginreglur íslensks vinnuréttar og kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Sveitarfélag getur rift notendasamningi verði misbrestur þar á.
11. gr. Notendastýrð persónuleg aðstoð.
Einstaklingur á rétt á notendastýrðri persónulegri aðstoð hafi hann mikla og viðvarandi þörf fyrir aðstoð og þjónustu, svo sem við athafnir daglegs lífs, heimilishald og þátttöku í félagslífi, námi og atvinnulífi.
Aðstoðin skal vera skipulögð á forsendum notandans og undir verkstýringu og verkstjórn hans. Ef notandinn á erfitt með að annast verkstjórn vegna fötlunar sinnar skal hann eiga rétt á aðstoð við hana, sbr. þó ákvæði 6. gr. Aðstoðin skal um leið vera heildstæð þar sem þjónustukerfi félags-, heilbrigðis- og menntamála samhæfa aðstoð sína í þágu þess sem nýtur hennar.
Umsýsluaðili NPA-samnings ber vinnuveitendaábyrgð gagnvart starfsfólki sínu og skal sjá til þess að uppfyllt séu ákvæði laga og reglugerða um réttindi starfsmanna sem aðstoða hann, m.a. hvað varðar aðbúnað á vinnustað þeirra, sbr. lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, og aðrar meginreglur íslensks vinnuréttar og kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Sveitarfélag getur afturkallað ákvörðun um umsýslusamning verði misbrestur þar á og hafi ekki verið bætt úr þrátt fyrir ábendingar þar að lútandi.
Ráðherra gefur út reglugerð1) og handbók um framkvæmd notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, m.a. um hlutverk og ábyrgð, skipulag og útfærslu, þ.m.t. viðmið um umfang þjónustu og lágmarksstuðningsþarfir, eftirlit og kostnaðarhlutdeild aðila í samráði við sveitarfélög og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Sveitarfélög bera ábyrgð á framkvæmd aðstoðarinnar og skulu setja nánari reglur þar um í samráði við notendaráð fatlaðs fólks eða samtök fatlaðs fólks.
   1)Rg. 1250/2018, sbr. 240/2019 og 375/2023.
12. gr. Einstaklingsbundnar þjónustuáætlanir og þjónustuteymi.
Fatlaður einstaklingur sem hefur þörf fyrir viðvarandi fjölþættan stuðning þjónustukerfa félags-, heilbrigðis- og menntamála á rétt á einstaklingsbundinni þjónustuáætlun.
Skulu viðkomandi aðilar mynda þverfaglegt þjónustuteymi undir forystu félagsþjónustunnar sem hefur það hlutverk að útfæra þjónustu við viðkomandi, hafa samráð um þjónustuna og tryggja samfellu og gæði hennar.

IV. kafli. Þjónusta við fötluð börn og fjölskyldur þeirra.
13. gr. Almennt.
Tryggja skal að fötluð börn fái nauðsynlega þjónustu svo að þau geti notið mannréttinda og mannhelgi til jafns við önnur börn, lifað sjálfstæðu lífi og tekið þátt í samfélaginu án aðgreiningar. Þá skulu fötluð börn hafa raunverulegan aðgang að og njóta menntunar, þjálfunar, starfsundirbúnings og tómstunda. Í öllum aðgerðum sem snerta fötluð börn skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu og stuðla að félagslegri aðlögun og þroska þess. Fötluð börn hafi rétt til að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós með tilliti til aldurs þeirra og þroska.
Fjölskyldur fatlaðra barna skulu fá nægilega þjónustu til þess að fötluð börn þeirra geti notið réttinda sinna til fulls og jafns við aðra.
14. gr. [Snemmtækur stuðningur, íhlutun og greining.
Þjónustuveitendum og þeim sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barna ber skylda til að bregðast við vísbendingum um að þörfum barns sé ekki mætt í samræmi við ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
Ef þjónustuveitandi telur að barn kunni að hafa stuðningsþarfir vegna fötlunar, sem ekki er mætt, og foreldrar viðkomandi barns kjósa að óska ekki eftir samþættingu þjónustu, sbr. 1. mgr., skal þjónustuveitandi taka saman upplýsingar um aðstæður barns sem varpa ljósi á vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt og stuðningsþarfir og miðla þeim til þeirra aðila innan sveitarfélags sem bera ábyrgð á skipulagi og þjónustu við fatlað fólk, sbr. 1. mgr. 5. gr.
Viðbrögð þjónustuveitenda samkvæmt þessari grein skulu miða að því að barn fái snemmtækan stuðning og íhlutun. Frumgreining og/eða annars konar mat á þörfum barns skal fara fram svo fljótt sem verða má. Mæta skal stuðningsþörfum barns þótt greining liggi ekki fyrir.]1)
   1)L. 78/2022, 10. gr.
15. gr. Stuðningsfjölskyldur.
Fjölskyldur fatlaðra barna eiga rétt á stuðningsfjölskyldu eftir því sem þörf krefur. Dvöl fatlaðs barns hjá stuðningsfjölskyldu skal bundin í samningi og miðast við ákveðið tímabil.
Ráðherra [er heimilt að setja reglugerð]1) um framkvæmd þjónustunnar á grundvelli ákvæðis þessa. Sveitarstjórnum er jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna …1)
   1)L. 88/2021, 25. gr.
16. gr. Frístundaþjónusta.
Sveitarfélög skulu bjóða fötluðum börnum og ungmennum upp á frístundaþjónustu eftir að reglubundnum skóladegi þeirra lýkur, og eftir atvikum áður en dagleg kennsla hefst, svo og á þeim dögum, öðrum en lögbundnum frídögum, þegar skólar starfa ekki. Þessi þjónusta tekur við af almennri frístundaþjónustu grunnskóla og henni lýkur þegar viðkomandi lýkur framhaldsskóla. Þjónustan skal vera einstaklingsmiðuð og á því formi sem best hentar viðkomandi. Veita skal þjónustu vegna fötlunar samhliða almennum frístundatilboðum, eins og mögulegt er. Þessi þjónusta skal að jafnaði taka mið af metnum stuðningsþörfum og vera hluti af einstaklingsbundinni þjónustuáætlun viðkomandi barns eða ungmennis.
Ráðherra [er heimilt að setja reglugerð]1) um framkvæmd þjónustu samkvæmt þessari grein að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Sveitarstjórn skal setja nánari reglur um þjónustuna …1)
   1)L. 88/2021, 25. gr.
17. gr. Skammtímadvöl.
Fötluð börn og ungmenni eiga rétt á skammtímadvöl utan heimilis þegar þörf krefur. Skammtímadvöl er ætlað að veita fötluðum einstaklingum tímabundna dvöl vegna mikilla umönnunarþarfa umfram jafnaldra. Foreldrar barns sem á rétt á skammtímadvöl geta fengið stuðning inn á heimili sitt í stað vistunar utan heimilis óski foreldrar þess. Heimilt er að veita fullorðnu fötluðu fólki sem býr í foreldrahúsum skammtímadvöl meðan beðið er eftir annarri þjónustu.
Ráðherra setur reglugerð1) um starfsemi og aðbúnað á skammtímadvalarstöðum í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
   1)Rg. 1037/2018, sbr. 376/2023.
18. gr. Sumardvöl.
Fötluð börn skulu eiga kost á að komast í sumardvöl að heiman eins og önnur börn. Sumardvöl er ætlað að gefa fötluðum börnum kost á að skipta um umhverfi og dveljast utan heimilis síns sér til ánægju og tilbreytingar. …1)
   1)L. 78/2022, 11. gr.
19. gr. [Málstjóri, stuðningsteymi og stuðningsáætlun.
Um rétt fatlaðra barna, sem hafa þörf fyrir fjölþætta þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi til lengri tíma, til málstjóra, stuðningsteymis og stuðningsáætlunar fer samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
Áður en fatlað barn, sem hefur þörf fyrir fjölþætta þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi, verður 18 ára skal stuðningsteymi gera áætlun þar sem fjallað er um þjónustu fyrir barnið eftir að það nær fullorðinsaldri, eftir atvikum í samstarfi við þjónustuteymi, sbr. 12. gr.]1)
   1)L. 78/2022, 12. gr.
20. gr. Ráðgjöf vegna barna með fjölþættan vanda og/eða miklar þroska- og geðraskanir.
Ráðuneytið skal skipa sérfræðingateymi vegna barna með fjölþættan vanda og barna sem vegna fötlunar sinnar þurfa annars konar og meiri þjónustu en unnt er að veita á heimili fjölskyldna þeirra. Teymið skal vera sveitarfélögum til ráðgjafar vegna þjónustu og úrræða. Teymið ákvarðar jafnframt hvort barn þarfnist úrræða samkvæmt lögum þessum, á grundvelli barnaverndarlaga eða hvorra tveggja laganna.
Teymi skv. 1. mgr. er heimilt að afla og vinna með nauðsynlegar upplýsingar um heilsu og stöðu barns, þ.m.t. niðurstöður greininga og mat á þörfum þess, sem og upplýsingar um aðstæður fjölskyldu þess. Tilgangur vinnslunnar er að teymið geti lagt heildstætt mat á stöðu og þjónustuþarfir barns, sinnt ráðgjafarhlutverki sínu gagnvart sveitarfélögum og tekið ákvörðun um hvaða úrræða barnið þarfnist, sbr. 3. málsl. 1. mgr.
21. gr. Búseta barna utan heimilis.
Sé niðurstaða sérfræðingateymis skv. 20. gr. að barn þurfi þjónustu samkvæmt lögum þessum og því sé fyrir bestu að það búi utan heimilis fjölskyldu þess skal eftir fremsta megni reyna að finna barninu annað heimili í nærsamfélagi þess og gera því kleift að viðhalda sambandi við upprunafjölskyldu sína.
Heimilt er að útbúa sérstakt húsnæði fyrir fötluð börn með miklar þroska- og geðraskanir, enda hafi að mati sérfræðingateymis skv. 20. gr. verið fullreynt að styðja barn á heimili fjölskyldu þess eða á öðru heimili í nærsamfélagi þess. Um nauðung sem beitt er í slíkum úrræðum gilda ákvæði laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.
Ráðherra skal, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks, setja reglugerð1) um vistun barna utan heimilis samkvæmt þessari grein.
   1)Rg. 1038/2018, sbr. 1639/2022.

V. kafli. Atvinnumál.
22. gr. Almennt.
Hvers konar atvinnu- og hæfingartengd þjónusta sem ætluð er fötluðu fólki telst til vinnumarkaðsaðgerða. Vinnumálastofnun annast skipulag og vinnumarkaðsaðgerðir fyrir fatlað fólk, þar á meðal vinnumiðlun, mat á vinnufærni og mat á þörf fyrir vinnumarkaðsúrræði, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir. Skipulag, framkvæmd og rekstur vinnustaða fyrir verndaða vinnu, hæfingu og virkniþjálfun er á ábyrgð sveitarfélaga, nema annað sé sérstaklega ákveðið með samkomulagi ríkis og Vinnumálastofnunar.
Kostnaður vegna þjónustu Vinnumálastofnunar og vinnumarkaðsúrræða á vegum hennar greiðist úr ríkissjóði, þar á meðal sérstakur stuðningur við atvinnuleitendur og eftirfylgni, svo sem kostnaður vegna vinnusamninga öryrkja, en kostnaður vegna vinnustaða fyrir verndaða vinnu, hæfingu og virkniþjálfun greiðist af sveitarfélögum, þar á meðal stoðþjónusta skv. 8. gr.
Fatlað fólk skal eiga forgang að störfum hjá ríki og sveitarfélögum ef hæfni þess til starfsins er meiri eða jöfn hæfni annarra sem um starfið sækja.
23. gr. Samþætting þjónustu.
Þjónusta samkvæmt lögum þessum skal samþætt vinnumarkaðsaðgerðum skv. 22. gr. þannig að tryggt sé að fatlað fólk geti tekið virkan þátt í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum.
Til þess að tryggja samfellu á milli vinnumarkaðsaðgerða Vinnumálastofnunar og þjónustu sveitarfélaga samkvæmt lögum þessum skulu ráðgjafar sveitarfélaga eða þjónustusvæða, sem þau mynda, leita eftir samstarfi og samráði á grundvelli samstarfssamninga við Vinnumálastofnun um atvinnumál fatlaðs fólks, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir.
24. gr. Vernduð vinna, hæfing og dagþjónusta.
Fatlað fólk skal eiga kost á atvinnu- og hæfingartengdri þjónustu sem stuðlar að aukinni hæfni til starfa og þátttöku í daglegu lífi til jafns við aðra.
Sveitarfélög skulu starfrækja vinnustaði fyrir verndaða vinnu, hæfingu og dagþjónustu fyrir fatlað fólk þar sem því stendur til boða þroska-, iðju- og starfsþjálfun.
Starfsþjálfun skal einnig standa til boða á vinnumarkaði með viðeigandi stuðningi samkvæmt lögum um vinnumarkaðsaðgerðir.
25. gr. Styrkir.
Sveitarfélögum er heimilt að veita fötluðu fólki styrki eða fyrirgreiðslu vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar sem hér segir:
   1. Styrk til verkfæra- og tækjakaupa eða aðra fyrirgreiðslu vegna heimavinnu eða sjálfstæðrar starfsemi að endurhæfingu lokinni.
   2. Styrk til greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga.
Ráðherra [getur sett reglugerð]1) um framkvæmd styrkveitinganna á grundvelli ákvæðis þessa, svo sem skilyrði sem uppfylla þarf til að njóta aðstoðarinnar og viðmiðunarreglur um fjárhæð styrkja. Sveitarstjórnum er jafnframt heimilt að setja sér nánari reglur um styrkina á grundvelli ákvæðisins og [reglugerðarinnar].1) Kostnaður vegna styrkja skv. 1. mgr. greiðist af sveitarfélögum.
   1)L. 88/2021, 25. gr.

VI. kafli. Stjórnendur og starfsfólk.
26. gr. Hæfi starfsmanna.
Sveitarfélög skulu hafa á að skipa þroskaþjálfum til að starfa að verkefnum samkvæmt lögum þessum. Þar sem þörf krefur skal ráða félagsráðgjafa, iðjuþjálfa, sálfræðinga og aðra sérfræðinga til starfa, og starfsfólk sem talar íslenskt táknmál. Starfsfólki skal gefast kostur á að viðhalda og bæta við þekkingu sína.
Óheimilt er að ráða í störf sem unnin eru í þágu þjónustu við fatlað fólk hjá sveitarfélögum, byggðasamlögum, ríki eða einkaaðilum, hvar sem hún er veitt, þá sem hafa hlotið refsidóma vegna brota á ákvæðum XXII. kafla, 211. gr. eða 218. gr. almennra hegningarlaga. Hafi umsækjandi verið dæmdur til refsingar fyrir brot á öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga skal meta áhrif þess á hæfi viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins. Sama gildir um verktaka og undirverktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum samkvæmt lögum þessum hjá sveitarfélögum, byggðasamlögum, ríki eða einkaaðilum sem veita fötluðu fólki þjónustu.
Stjórnendur hjá sveitarfélögum, byggðasamlögum, ríki og einkaaðilum sem fara með þjónustu samkvæmt lögum þessum eiga rétt á upplýsingum úr sakaskrá um það hvort tiltekinn umsækjandi um starf á þeirra vegum hafi hlotið dóm vegna brota á ákvæðum XXII. og XXIII. kafla almennra hegningarlaga eða annarra ákvæða sömu laga að fengnu samþykki hans.
27. gr. Skyldur starfsmanna.
Starfsfólk sem sinnir þjónustu við fatlað fólk skal í öllum samskiptum við það gæta þess að sýna því fulla virðingu og hafa mannlega reisn fatlaðs fólks að leiðarljósi í öllum störfum sínum. Starfsfólk sem starfar í þjónustu við fatlað fólk skal standa vörð um hagsmuni þess og gæta þess að réttindi þess séu virt. Verði starfsfólk þess áskynja að réttindi fatlaðs einstaklings séu fyrir borð borin skal viðkomandi tilkynna það réttindagæslumanni í samræmi við lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.
28. gr. Þagnarskylda.
[Á þeim sem starfa samkvæmt lögum þessum af hálfu stjórnvalda hvílir þagnarskylda skv. X. kafla stjórnsýslulaga.]1)
   1)L. 71/2019, 5. gr.
29. gr. Meðferð persónuupplýsinga.
Meðferð persónuupplýsinga, sem unnið er með við framkvæmd laga þessara, skal samrýmast lögum um persónuvernd og [vinnslu]1) persónuupplýsinga. Þess skal gætt að aðgangur að upplýsingunum sé ekki umfram það sem nauðsyn krefur, sem og að öryggi þeirra sé tryggt.
   1)L. 90/2018, 54. gr.

VII. kafli. Málsmeðferð.
30. gr. Almennar reglur um málsmeðferð.
Farið skal að almennum reglum stjórnsýsluréttar við alla málsmeðferð samkvæmt lögum þessum nema ríkari kröfur séu gerðar í lögum þessum.
Þegar ákvörðun um þjónustu er tekin skal hún byggð á heildarsýn og einstaklingsbundnu mati á þörfum þess sem um hana sækir og skal ákvörðun tekin í samráði við umsækjanda. Sveitarfélög skulu tryggja að verklag og leiðbeiningar til starfsfólks miði að því að tryggja jafnræði í þjónustunni og að þjónustan sem veitt er sé nægjanleg miðað við þarfir umsækjanda. Þá skal hún veitt á því formi sem hann óskar, sé þess kostur.
31. gr. Umsókn um þjónustu.
Umsókn um þjónustu á grundvelli laga þessara skal send því sveitarfélagi þar sem viðkomandi á lögheimili eða því sveitarfélagi sem er leiðandi í samstarfi sveitarfélaga eða þeim lögaðila sem annast framkvæmd þjónustunnar á hlutaðeigandi þjónustusvæði þegar það á við.
Um meðferð umsókna skal fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaga sé ekki kveðið á um vandaðri málsmeðferð í lögum þessum.
Sveitarfélög skulu starfrækja teymi fagfólks sem metur heildstætt þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustu og hvernig veita megi þjónustu í samræmi við óskir hans. Teymið skal hafa samráð við einstaklinginn við matið og skal það byggjast á viðurkenndum og samræmdum matsaðferðum. Þegar við á skal teymið einnig greina hvort fötlun sé til komin vegna aldurstengdra ástæðna, eftir atvikum í samvinnu við færni- og heilsumatsnefndir.
[Barn á rétt á að tjá sig um mál sem það varðar. Við meðferð og úrlausn máls sem varðar barn skal taka réttmætt tillit til sjónarmiða og skoðana barnsins í samræmi við hagsmuni þess hverju sinni.]1)
   1)L. 78/2022, 13. gr.
32. gr. Frumkvæðisskylda.
Sveitarfélög skulu hafa frumkvæði að því að kynna sér aðstæður fatlaðs fólks og gera því grein fyrir rétti sínum samkvæmt lögum þessum og stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra. Sveitarfélag skal kynna umsækjanda þá þjónustu sem hann á rétt á og leiðbeina um réttarstöðu hans, m.a. ef hann á rétt á annarri þjónustu í stað þeirrar sem sótt er um eða til viðbótar henni.
33. gr. Rannsóknarskylda.
Það stjórnvald sem tekur ákvörðun um þjónustu við fatlaðan einstakling skal tryggja að hún sé studd nægjanlegum gögnum áður en ákvörðunin er tekin. Í því skyni skal sveitarfélag leiðbeina umsækjendum um hvaða gögn skuli leggja fram eða, eftir atvikum, afla sjálft gagna hjá öðrum opinberum aðilum að fenginni heimild umsækjanda.
34. gr. Ákvörðun um þjónustu.
Ákvörðun um að veita þjónustu skal taka svo fljótt sem kostur er. Sé ekki unnt að hefja þjónustu strax og umsókn er samþykkt skal tilkynna umsækjanda um ástæður þess og hvenær þjónustan verði veitt. Ef fyrirséð er að þjónusta sem sótt var um geti ekki hafist innan þriggja mánaða frá samþykkt umsóknar skal leiðbeina umsækjanda um þau úrræði sem hann hefur á biðtíma og aðra þjónustu sem er í boði. Þá skal veita honum aðra viðeigandi þjónustu á meðan beðið er eftir að þjónustan sem samþykkt hefur verið hefjist.
Ráðherra setur reglugerð1) um biðlista, forgangsröðun og úrræði á biðtíma í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Ef umsókn um þjónustu er hafnað eða hún aðeins samþykkt að hluta skal ákvörðun rökstudd skriflega. Skal þá gerð grein fyrir á hvaða gögnum, sjónarmiðum, lagarökum og reglum ákvörðun byggist. Einnig skal leiðbeint um leiðir til þess að fá ákvörðun endurskoðaða.
   1)Rg. 370/2016, sbr. 1039/2018. Rg. 1035/2018.
35. gr. Kæruheimild.
Heimilt er að kæra stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögum þessum, þ.m.t. ákvarðanir teymis skv. 20. gr., til úrskurðarnefndar velferðarmála innan þriggja mánaða frá því að umsækjanda berst tilkynning um ákvörðunina. Nefndin úrskurðar um hvort málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög og hvort ákvörðun hafi verið efnislega í samræmi við lög þessi og reglur sveitarfélaga settar á grundvelli þeirra.
Umsækjandi, hlutaðeigandi sveitarfélag eða Samband íslenskra sveitarfélaga geta borið niðurstöðu úrskurðarnefndar undir dómstóla eftir almennum reglum. Að öðru leyti fer um málsmeðferð nefndarinnar samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála.

VIII. kafli. Samráð og stefnumörkun.
36. gr. Samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks.
Ráðherra skal skipa samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks, sem er samráðsvettvangur ríkisins, sveitarfélaga og hagsmunaaðila. Samráðsnefndin skal skipuð tveimur fulltrúum ráðuneytisins, einum fulltrúa frá ráðuneyti fjármála, tveimur fulltrúum sveitarfélaga og fjórum fulltrúum hagsmunasamtaka fatlaðs fólks. Ráðuneytið skal tryggja að fatlað fólk sé í meiri hluta í nefndinni.
Hlutverk samráðsnefndarinnar er að vera ráðgefandi fyrir ráðherra við stefnumörkun í málefnum fatlaðs fólks.
37. gr. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.
Ráðherra leggur fyrir Alþingi, innan árs frá alþingiskosningum, tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til fjögurra ára í senn. Þingsályktunartillagan skal unnin í samvinnu og virku samráði við sveitarfélög, hagsmunasamtök fatlaðs fólks og aðra hagsmunaaðila.

IX. kafli. Fjármögnun.
38. gr. Fjármögnun.
Sveitarfélög skulu fjármagna þjónustu við fatlað fólk og annan rekstrarkostnað samkvæmt lögum þessum að því leyti sem annað er ekki tekið fram eða leiðir af öðrum lögum. Jafnframt skulu sveitarfélög standa að uppbyggingu á þjónustustofnunum fyrir fatlað fólk með framlögum til stofnkostnaðar eftir því sem nauðsyn krefur.
Sveitarfélög skulu árlega gera fjárhagsáætlanir um útgjöld til málefna fatlaðs fólks í samræmi við þá þjónustu sem þeim ber að veita á grundvelli þessara laga.
Ráðuneytinu er heimilt að óska eftir því að sveitarfélög sendi ráðuneytinu fjárhagsáætlanir sínar skv. 2. mgr.
39. gr. Tekjur.
Tekjur, sem falla til vegna atvinnustarfsemi þjónustu- eða rekstraraðila sem nýtur framlaga frá sveitarfélögum eða úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, vegna framkvæmdar á þjónustu á grundvelli laga þessara skulu renna til greiðslu rekstrarkostnaðar starfseminnar. Opinber fjárframlög skulu taka mið af þessum tekjum og er umræddum aðilum skylt að veita allar þær bókhaldsupplýsingar sem þörf er á til þess að staðreyna megi tekjur og rekstrarkostnað.

X. kafli. Gildistaka og reglugerðarheimildir.
40. gr. Reglugerðarheimildir.
Ráðherra setur reglugerðir um nánari framkvæmd laga þessara, þar á meðal um:
   1.1)
   2.1)
   3. sérstök húsnæðisúrræði, sbr. 9. gr.,
   4. notendastýrða persónulega aðstoð, sbr. 11. gr.,2)
   5. starfsemi og aðbúnað á skammtímadvalarstöðum, sbr. 17. gr.,3)
   6. vistun barna utan heimilis, sbr. 21. gr.,4)
   7. biðlista, forgangsröðun og úrræði á biðtíma, sbr. 34. gr.5)
[Þá skal ráðherra gefa út handbók um framkvæmd notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, m.a. um hlutverk og ábyrgð, skipulag og útfærslu, eftirlit og kostnaðarhlutdeild aðila, sbr. 11. gr.]1)
   1)L. 88/2021, 25. gr. 2)Rg. 1250/2018, sbr. 375/2023. 3)Rg. 1037/2018, sbr. 376/2023. 4)Rg. 1038/2018, sbr. 1639/2022. 5)Rg. 370/2016, sbr. 1039/2018. Rg. 1035/2018.
41. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. október 2018.
42. gr. Breyting á öðrum lögum.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Til þess að auka val fatlaðs fólks um þjónustu og fyrirkomulag stuðnings skulu sveitarfélög vinna að innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar í samræmi við 11. gr. á tímabilinu 2018–[2024].1)
Á innleiðingartímabilinu veitir ríkissjóður framlag til eftirfarandi fjölda samninga um notendastýrða persónulega aðstoð sem skal ráðstafað í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem tiltekinni hlutdeild af fjárhæð samninga, á grundvelli umsókna frá sveitarfélögum:
   [Á árinu 2023 vegna allt að 145 samninga.
   Á árinu 2024 vegna allt að 172 samninga.]1)
Ákvæði þetta og fyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar auk þeirra álitaefna sem upp koma við framkvæmd laga þessara á tímabilinu skal endurskoða innan þriggja ára frá gildistöku þeirra í ljósi fenginnar reynslu.
Þeir samningar sem þegar hafa verið gerðir við gildistöku laga þessara halda gildi sínu.
   1)L. 125/2022, 1. gr.
II.
Fötluðu fólki sem býr nú á stofnunum eða herbergjasambýlum skulu bjóðast aðrir búsetukostir samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim í samræmi við 9. gr.