Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um landgræðslu
2018 nr. 155 21. desember
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 10. janúar 2019. Breytt með:
L. 33/2019 (tóku gildi 24. maí 2019).
L. 66/2023 (tóku gildi 1. jan. 2024; um lagaskil sjá 6. gr. og brbákv.).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við matvælaráðherra eða matvælaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Markmið og orðskýringar.
1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að vernda, endurheimta og bæta þær auðlindir þjóðarinnar sem fólgnar eru í gróðri og jarðvegi og tryggja sjálfbæra nýtingu lands.
2. gr. Markmið um vernd og sjálfbæra nýtingu lands.
Til að stuðla að vernd og sjálfbærri nýtingu lands skal stefnt að því að:
a. nýting lands taki mið af ástandi þess og stuðli að viðgangi og virkni vistkerfa,
b. stöðva eyðingu jarðvegs og gróðurs,
c. komast hjá spjöllum á gróðri og jarðvegi,
d. hver sá sem veldur spjöllum á gróðri og jarðvegi bæti fyrir það tjón,
e. nýting lands verndi líffræðilega fjölbreytni og orku- og næringarforða og nauðsynlega jarðvegseiginleika fyrir virkni vistkerfisins,
f. auka þátttöku almennings og hagsmunaaðila í stefnumótun og aðgerðum sem varða gróður- og jarðvegsvernd,
g. auka þekkingu á mikilvægi jarðvegs og gróðurs og sjálfbærrar nýtingar lands,
h. fram fari reglubundin vöktun á gróðurlendi, jarðvegi og landnýtingu.
3. gr. Markmið um endurheimt og uppbyggingu vistkerfa á landi.
Til að efla vistkerfi landsins skal stefnt að því að:
a. byggja upp og endurheimta vistkerfi sem hafa raskast og líffræðilega fjölbreytni þeirra,
b. auka viðnámsþrótt og þanþol vistkerfa gagnvart náttúrulegum áföllum og náttúruvá,
c. auka kolefnisbindingu með endurheimt vistkerfa,
d. virkja almenning og hagsmunaaðila til þátttöku í endurheimt og uppbyggingu vistkerfa.
4. gr. Orðskýringar.
Merking eftirfarandi orða í lögum þessum er sem hér segir:
a. Ástand lands: Eiginleikar og samsetning gróðurs og jarðvegs í vistkerfum viðkomandi landsvæðis í samanburði við það sem telja má eðlilegt miðað við náttúrulegar aðstæður.
b. Endurheimt vistkerfa: Það ferli að koma vistkerfum, vistkerfisferlum, eiginleikum vistkerfa og vistkerfaþjónustu í það horf að vistkerfið nái að þróast án hnignunar.
c. Jarðvegsrof: Losun, flutningur og setmyndun yfirborðsefna af völdum rofs, t.d. vindrofs, vatnsrofs, skriðufalla og yfirborðshreyfingar af völdum ísnála og holklaka.
d. Jarðvegur: Hluti lífheimsins undir yfirborði jarðar þar sem efnabreytingar mynda moldarefni. Jarðvegurinn er jafnframt hluti vistkerfa og þjónar þeim á marga vegu, m.a. sem hlekkur í hringrásum næringarefna og vatns.
e. Landbótaáætlun: Tímasett aðgerðaáætlun um úrbætur á ástandi lands og í landnýtingu.
f. Landbrot: Jarðvegsrof og gróðureyðing sem stafar af ágangi vatna.
g. Landgræðsla: Samheiti yfir alla starfsemi og aðgerðir til að vernda og bæta gróður og jarðveg með ákveðin markmið að leiðarljósi.
h. Landgræðslusvæði: Land sem [Land og skógur]1) hefur umsjón með, hvort heldur sem er í eigu hins opinbera eða einkaaðila.
i. Varnarmannvirki: Varnargarðar og bakkavarnir.
j. Vistkerfaþjónusta: Ábati sem menn njóta af vistkerfum náttúrunnar, svo sem fæða, vatn, útivist og útsýni.
k. Vistkerfi: Safn lífvera sem hafast við í afmörkuðu rými af tiltekinni gerð, ásamt öllum verkunum og gagnverkunum meðal lífveranna og tengslum þeirra við lífræna jafnt sem ólífræna umhverfisþætti sem tilheyra kerfinu, svo sem loft, vatn, jarðveg og sólarljós.
1)L. 66/2023, 7. gr.
II. kafli. Stjórn landgræðslumála og áætlanir.
5. gr. Stjórn landgræðslumála.
Ráðherra fer með yfirstjórn landgræðslumála samkvæmt lögum þessum.
Ríkið starfrækir stofnun sem nefnist [Land og skógur].1) Hlutverk stofnunarinnar er að hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara og annast daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til. Önnur helstu verkefni [Lands og skógar]1) eru:
a. að leiðbeina um vernd, endurheimt og sjálfbæra nýtingu lands,
b. að vinna að og hvetja til þátttöku í landgræðslu,
c. að vinna að þróun landgræðslu, m.a. með því að stunda rannsóknir og þróunarstarf,
d. að afla upplýsinga um landnýtingu og ástand lands og miðla þeim,
e. að hafa yfirsýn yfir og eftirlit með áætlunum og framkvæmdum í landgræðslu í landinu,
f. að hafa umsjón með landgræðslusvæðum.
…1)
1)L. 66/2023, 7. gr.
6. gr. [Landsáætlun um landgræðslu og skógrækt.
Ráðherra gefur eigi sjaldnar en á fimm ára fresti út landsáætlun um landgræðslu og skógrækt til tíu ára í senn. Í áætluninni skal kveðið á um framtíðarsýn og stefnu stjórnvalda í landgræðslu og skógrækt með hliðsjón af markmiðum laga þessara og laga um skóga og skógrækt. Áætlunin skal stuðla að framförum í mati á jarðvegsvernd og í landnýtingu, þ.m.t. skógrækt og vernd og endurheimt vistkerfa. Í áætluninni skal gera grein fyrir markmiðum stjórnvalda um hvernig nýting lands styður best við atvinnu og byggðir í landinu, hvernig gæði lands eru best varðveitt og hvernig efla má og endurheimta vistkerfi sem skert hafa verið og koma með tillögur um breytingar á nýtingu lands, t.d. friðun fyrir tiltekinni nýtingu þar sem það á við.
Jafnframt skal í áætluninni gerð grein fyrir:
a. forsendum fyrir vali á landi til landgræðslu og skógræktar með tilliti til náttúruverndar, matvælaframleiðslu, minjaverndar og landslags,
b. vernd og endurheimt vistkerfa,
c. ræktun skóga til uppbyggingar skógarauðlindar og umfangi og horfum hvað varðar nýtingu,
d. sjálfbærri nýtingu lands,
e. áhrifum skógræktar og landgræðslu á atvinnuþróun og byggð,
f. aðgengi fólks að skógum og landgræðslusvæðum til útivistar,
g. skógrækt og landgræðslu í samhengi við líffræðilega fjölbreytni,
h. skógrækt og landgræðslu í samhengi við loftslagsbreytingar,
i. öflun þekkingar á landgræðslu og skógrækt og miðlun hennar,
j. eftirliti með ástandi og nýtingu lands,
k. eldvörnum og öryggismálum,
l. fjölþættum ávinningi verndar og endurheimtar vistkerfa.
Jafnframt skal horft til þess að nýta betur fjármagn og mannafla og samþætta áætlunina við aðrar áætlanir ríkis og sveitarfélaga sem og alþjóðlegar skuldbindingar.
Ráðherra skipar fimm manna verkefnisstjórn sem hefur yfirumsjón með gerð áætlunarinnar og skilar tillögu til ráðherra. Verkefnisstjórnin skal skipuð einum fulltrúa tilnefndum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, forstöðumanni Lands og skógar og þremur án tilnefningar og skulu a.m.k. tveir þeirra hafa fagþekkingu á málefnasviði laga þessara og laga um skóga og skógrækt. Ráðherra skipar formann verkefnisstjórnar. Þá situr í verkefnisstjórn fulltrúi þeirrar skrifstofu ráðuneytisins sem fer með landgræðslu- og skógræktarmál.
Verkefnisstjórn skal í upphafi taka saman lýsingu á verkefninu þar sem gerð er grein fyrir þeim áherslum sem fyrirhugað er að hafa við gerð landsáætlunarinnar, svo sem forsendum, viðfangsefni og fyrirhugaðri kynningu og samráði við mótun stefnunnar. Lýsing verkefnisstjórnar á gerð áætlunarinnar skal kynnt opinberlega og skal almenningi gefinn að lágmarki sex vikna frestur til að koma á framfæri athugasemdum.
Þegar drög að áætluninni liggja fyrir skal verkefnisstjórn kynna þau opinberlega ásamt umhverfismati áætlunarinnar, þegar við á. Jafnframt skal óska sérstaklega eftir umsögnum frá viðeigandi stofnunum, stjórnvöldum ríkis og sveitarfélaga, félagasamtökum og hagsmunaaðilum. Frestur til að skila umsögnum um drögin skal vera að lágmarki sex vikur. Áður en áætlunin tekur gildi skal hún kynnt þeirri nefnd Alþingis sem fer með málefni landgræðslu og skógræktar.
Land og skógur skal vinna svæðisáætlun fyrir hvern landshluta á grunni landsáætlunar samkvæmt grein þessari í samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila. Í svæðisáætlun skal tilgreina landgræðslu- og skógræktarsvæði og önnur svæði sem leggja skal áherslu á í landgræðslu og skógrækt og hvernig best er unnið að þeim markmiðum sem fram koma í landsáætlun að teknu tilliti til skipulagsáætlana og náttúruverndar. Land og skógur skal kynna drög að svæðisáætlun opinberlega og óska eftir umsögnum. Stofnunin skal í kjölfarið birta svæðisáætlun og skal hún endurskoðuð eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.]1)
1)L. 66/2023, 7. gr.
7. gr. …1)
1)L. 66/2023, 7. gr.
III. kafli. Stuðningur við landgræðslu.
8. gr. Stuðningur við landgræðslu.
[Landi og skógi]1) er heimilt að hvetja til og styðja verkefni á vegum einstaklinga, félagasamtaka, sveitarfélaga, fyrirtækja eða annarra í samræmi við markmið laga þessara.
Auglýsa skal á opinberum vettvangi eftir umsóknum um hvers kyns stuðning við landgræðslu. Í auglýsingunni skal koma fram hvaða reglur gilda um meðferð umsókna og til hvaða skilyrða verði litið við ákvörðun um styrk eða annað framlag.
Gera skal skriflega samninga um verkefni skv. 1. mgr. þar sem kveðið er á um gagnkvæmar skyldur og réttindi aðila. Þinglýsa skal slíkum samningum feli þeir í sér kvaðir á land eða aðrar fasteignir.
Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um stuðning við landgræðslu og form samninga.
1)L. 66/2023, 7. gr.
IV. kafli. Sjálfbær landnýting.
9. gr. Sjálfbær landnýting.
Nýting lands skal vera sjálfbær þannig að ekki sé gengið á auðlindir þess og þær endurheimtar eins og unnt er, og jafnframt að viðgangur og virkni vistkerfa haldist. Nýting lands skal byggjast á viðmiðum um sjálfbærni, sbr. 11. gr.
10. gr. Mat á nýtingu og ástandi lands.
[Land og skógur]1) leggur mat á hvers konar landnýting samræmist markmiðum laga þessara. Í þeim tilgangi skal stofnunin meta ástand lands, árangur af gróður- og jarðvegsvernd og eflingu og endurheimt vistkerfa með tilliti til mismunandi landnytja. Þessar upplýsingar skal stofnunin birta og gera aðgengilegar.
Umráðamönnum lands er skylt að heimila för um landareign vegna mats á nýtingu og ástandi lands skv. 1. mgr. enda valdi það ekki óþarfa ónæði eða tjóni fyrir landeiganda.
Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd þessarar greinar.
1)L. 66/2023, 7. gr.
11. gr. Leiðbeiningar og viðmið um sjálfbæra landnýtingu.
Ráðherra skal setja reglugerð með það að markmiði að tryggja sjálfbæra landnýtingu, sbr. 9. gr., með leiðbeiningum og viðmiðum þar að lútandi sem taki mið af ástandi lands, m.a. varðandi beit búfjár, umferð fólks og ökutækja, framkvæmdir og akuryrkju. [Land og skógur]1) gerir tillögur að slíkum leiðbeiningum og viðmiðum að höfðu samráði við hlutaðeigandi stofnanir, sveitarfélög og hagsmunaaðila eftir því sem við á hverju sinni. Ráðherra birtir opinberlega drög að leiðbeiningum og viðmiðum og skal frestur til að skila athugasemdum vera að lágmarki fjórar vikur.
1)L. 66/2023, 7. gr.
12. gr. Ósjálfbær landnýting og landbótaáætlun.
Leiði eftirlit [Lands og skógar]1) eða sveitarstjórnar með ástandi lands, samkvæmt lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl., í ljós að nýting þess samrýmist ekki lögum þessum eða viðmiðum um sjálfbæra landnýtingu skv. 11. gr. skal [Land og skógur]1) leiðbeina eiganda eða rétthafa lands um gerð landbótaáætlunar í samráði við hlutaðeigandi sveitarstjórn.
Telji [Land og skógur]1) að eigandi eða rétthafi lands sinni ekki gerð landbótaáætlunar eða að hlutaðeigandi aðili eða aðilar fylgi ekki ákvæðum hennar skal stofnunin óska eftir ítölu, sbr. ákvæði 17.–25. gr. laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986, eða fara fram á takmörkun umferðar, sbr. 25. gr. og 25. gr. a í lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013. Sé um að ræða aðra nýtingu lands en fyrrnefnd lög taka til er stofnuninni heimilt að beita þvingunarúrræðum, sbr. 24. gr.
Megi rekja ósjálfbæra landnýtingu til ágangs vegna lausagöngu búfjár skal [Land og skógur]1) óska eftir því við viðkomandi sveitarstjórn að hún, í samráði við stofnunina, ákveði að hlutaðeigandi umráðamönnum búfjár verði gert skylt að hafa það í vörslu allt árið eða tiltekinn hluta ársins, sbr. lög um búfjárhald.
Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um gerð landbótaáætlunar, þ.m.t. um efni hennar.
1)L. 66/2023, 7. gr.
13. gr. Framkvæmdir sem hafa áhrif á gróður og jarðveg.
Við hvers kyns leyfisskyldar framkvæmdir sem geta haft áhrif á gróður og jarðveg skal sýna sérstaka aðgát til að lágmarka rask og leitast við að endurheimta vistkerfi sem verða fyrir raski.
V. kafli. Vernd, endurheimt og efling vistkerfa.
14. gr. Stöðvun eyðingar og endurheimt vistkerfa.
[Land og skógur]1) skal vinna að því að draga úr eða stöðva eyðingu gróðurs og jarðvegs. Stofnunin skal jafnframt stuðla að endurheimt vistkerfa. Markmið og áherslur endurheimtar og eflingar vistkerfa samkvæmt þessari grein skal skilgreina í [landsáætlun um landgræðslu og skógrækt],1) sbr. 6. gr.
[Landi og skógi]1) er heimilt að gera samkomulag við landeiganda eða rétthafa lands um aðgerðir í samræmi við markmið laga þessara til að draga úr eða koma í veg fyrir jarðvegsrof, svo sem sandfok, sem ógnar eða veldur tjóni á landi eða mannvirkjum. Á samningstíma skulu umráð hins samningsbundna lands vera á hendi [Lands og skógar],1) nema um annað sé samið.
1)L. 66/2023, 7. gr.
VI. kafli. Varnir gegn landbroti.
15. gr. Forgangsröðun.
[Land og skógur]1) metur hvar þörf er á varnaraðgerðum til að draga úr eða koma í veg fyrir landbrot sem ógnar eða veldur tjóni á landi eða mannvirkjum. Við forgangsröðun verkefna skal líta til verðmætis þess lands eða mannvirkis sem landbrotið ógnar og kostnaðar vegna varnaraðgerða. Ræktað land, nytjalönd og svo annað gróðurlendi skal að jafnaði njóta forgangs við röðun verkefna.
1)L. 66/2023, 7. gr.
16. gr. Hlutverk landeiganda eða rétthafa lands og skráning.
Verði landeigandi eða rétthafi lands var við landbrot eða telji hættu á landbroti yfirvofandi skal hann tilkynna það til [Lands og skógar].1) Stofnunin heldur skrá yfir landbrot eða hættu á því og metur hvar þörf á varnaraðgerðum er brýnust.
1)L. 66/2023, 7. gr.
17. gr. Samráð um varnarmannvirki og leyfisveitingar.
[Land og skógur]1) skal hafa samráð við landeiganda eða rétthafa mannvirkja eða lands sem varnarmannvirki er ætlað að verja, auk viðkomandi sveitarfélags. Sé um að ræða straumvatn skal hafa samráð við eigendur beggja bakka. Ef framkvæmd kann að hafa áhrif á veiði eða fiskrækt skal hún tilkynnt stjórn viðkomandi veiðifélags eða Fiskistofu ef ekki er starfandi veiðifélag, sbr. lög um lax- og silungsveiði og lög um fiskrækt. Fyrirhugaðar framkvæmdir við varnarmannvirki skulu tilkynntar til hlutaðeigandi sveitarstjórnar.
Vilji landeigandi, rétthafi lands eða veiðifélag gera athugasemd við fyrirhugaða framkvæmd skal hún vera skrifleg og berast stofnuninni innan fjögurra vikna frá dagsetningu tilkynningar.
1)L. 66/2023, 7. gr.
18. gr. Framkvæmdir við varnarmannvirki.
Þegar fyrirhugaðar eru umfangsmiklar framkvæmdir við varnarmannvirki skal Vegagerðin hafa umsjón með verkfræðilegum undirbúningi og framkvæmdum í samráði við [Land og skóg].1) [Landi og skógi]1) er þó heimilt að ákveða að stofnunin sé framkvæmdaraðili varnaraðgerða samkvæmt þessari grein, enda sé ekki um að ræða aðgerðir til varnar umferðarmannvirkjum.
1)L. 66/2023, 7. gr.
19. gr. Kostnaður við varnarmannvirki.
[Landi og skógi]1) er heimilt að styrkja, að hluta til eða öllu leyti, framkvæmdir við varnarmannvirki sem ætlað er að vernda land í eigu einkaaðila eða hins opinbera eða mannvirki í eigu einkaaðila. Auglýsa skal eftir umsóknum um slíka styrki á opinberum vettvangi þar sem fram koma skilyrði þau sem umsækjandi þarf að uppfylla til að geta hlotið styrk, sem og hámarksfjárhæð styrks.
Nú þarf með varnarmannvirkjum eða á annan hátt að stöðva landbrot sem stofnar í hættu mannvirkjum í eigu ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða fyrirtækja sem eru að hálfu eða meiri hluta í eigu ríkis eða sveitarfélaga og greiðir þá viðkomandi aðili allan kostnað. Á sama hátt greiðir viðkomandi aðili að fullu kostnað við framkvæmdir sem vinna þarf til þess að hindra landbrot eða ágang vatns sem rekja má til framkvæmda opinberra aðila, t.d. þar sem þrengt er að ám við vega- og brúargerð eða straumrennsli breytist vegna efnistöku úr farvegi og vegna miðlunarlóna við virkjanir.
Þegar varnarmannvirki er bæði ætlað að verja mannvirki skv. 2. mgr. og land skal kostnaður við framkvæmdirnar og undirbúning þeirra skiptast milli [Lands og skógar]1) og þess aðila skv. 2. mgr. sem viðkomandi mannvirki heyra undir, eftir nánara samkomulagi þeirra á milli. Ef upp kemur ágreiningur um skiptingu þessa kostnaðar skal ráðherra skera úr.
1)L. 66/2023, 7. gr.
VII. kafli. Samningar, afhending og sala landgræðslusvæða.
20. gr. Umsjón landgræðslusvæða.
Við umsjón landgræðslusvæða skal eftirfarandi haft að leiðarljósi:
a. vernd og endurheimt vistkerfa,
b. vettvangur fræðslu og rannsókna,
c. stuðningur við atvinnu, byggð og búsetu.
[Land og skógur]1) skal halda skrá yfir þau lönd sem flokkast sem landgræðslusvæði og skal jafnframt setja reglur um meðferð þeirra, svo sem um nýtingu og umferð almennings. Reglur fyrir landgræðslusvæði og afmörkun þeirra skulu staðfestar af ráðherra og auglýstar í B-deild Stjórnartíðinda.
1)L. 66/2023, 7. gr.
21. gr. Afhending landgræðslusvæða.
Þegar landgræðslusvæði, sem [Land og skógur]1) hefur umsjón með samkvæmt samkomulagi við landeiganda, er í það góðu ástandi að mati [Lands og skógar]1) að ekki er þörf á frekari aðgerðum af hálfu stofnunarinnar skal umsjón þess aftur falin landeiganda.
[Land og skógur]1) skal við afhendingu landgræðslusvæðis setja reglur um meðferð þess sem miða við sjálfbæra nýtingu þess, sbr. 11. gr. Reglum þessum skal þinglýst á viðkomandi landsvæði. Að öðru leyti gilda almenn ákvæði laga þessara um meðferð og nýtingu slíkra svæða.
[Landi og skógi]1) er heimilt að gera samning um stuðning við frekari landgræðsluverkefni á hinu afhenta landgræðslusvæði, sbr. 8. gr., óski landeigandi eftir því.
1)L. 66/2023, 7. gr.
22. gr. Sala á uppgræddu landi í eigu ríkisins og kaupréttur.
Hafi land verið tekið eignarnámi til uppgræðslu eða landi verið afsalað til [Lands og skógar]1) til uppgræðslu eða til að verjast sandágangi hefur eigandi þeirrar jarðar sem viðkomandi land tilheyrði áður kauprétt að því, sbr. 36. gr. a jarðalaga, nr. 81/2004. Land þetta skal þó ekki selt fyrr en ástand þess uppfyllir skilyrði 1. mgr. 21. gr.
[Land og skógur]1) skal fyrir sölu á uppgræddu landi í eigu ríkisins setja reglur um meðferð svæðisins þannig að meðferð landsins skuli ávallt vera sjálfbær. Þá skulu sett skilyrði um meðferð og nýtingu þess. Reglum þessum skal þinglýst á viðkomandi landsvæði.
Land skv. 1. mgr. má ekki selja sé það að hluta til eða að öllu leyti náttúruverndarsvæði samkvæmt náttúruverndarlögum.
1)L. 66/2023, 7. gr.
VIII. kafli. Ýmis ákvæði.
23. gr. Gjaldtaka.
[Landi og skógi]1) er heimilt að innheimta gjöld fyrir veitta þjónustu vegna bílastæða, salerna, tjaldsvæða og annarra sambærilegra innviða innan þeirra svæða sem stofnunin hefur umsjón með. Þá er [Landi og skógi]1) einnig heimilt að innheimta gjöld fyrir leiðsögn innan þessara svæða. Tekjum af gjöldunum er ætlað að mæta kostnaði við uppbyggingu, viðhald og rekstur innviða skv. 1. málsl. og eftirlit með gestum og leiðsögn innan svæðanna. Gjaldið skal vera í samræmi við gjaldskrá sem ráðherra setur í reglugerð.
1)L. 66/2023, 7. gr.
24. gr. Þvingunarúrræði.
Til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögum þessum er [Landi og skógi]1) heimilt að veita viðkomandi áminningu. Jafnframt skal veita hæfilegan frest til úrbóta ef þeirra er þörf. Ef aðili sinnir ekki fyrirmælum um úrbætur innan tiltekins frests getur [Land og skógur]1) ákveðið honum dagsektir þar til úr er bætt. Dagsektir renna í ríkissjóð og er hámark þeirra 500.000 kr. á dag.
1)L. 66/2023, 7. gr.
25. gr. Stjórnvaldssektir.
[Land og skógur]1) getur lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn ákvæði 12. gr. Slíkar sektir geta numið allt að 1.000.000 kr.
1)L. 66/2023, 7. gr.
26. gr. Eignarnám.
Ráðherra er heimilt að taka land eignarnámi ef það er nauðsynlegt með hliðsjón af markmiðum laga þessara. Um framkvæmd eignarnámsins fer eftir lögum um framkvæmd eignarnáms.
27. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi. …
28. gr. Breytingar á öðrum lögum. …