Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð

2019 nr. 89 27. júní


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 10. júlí 2019; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 8. gr. Breytt með: L. 129/2022 (tóku gildi 1. jan. 2023 nema a-liður 31. gr. sem tók gildi 1. mars 2023 og 37. og 60. gr. sem tóku gildi 31. des. 2022; koma til framkvæmda skv. fyrirmælum í 68. gr., sbr. einnig brbákv. í s.l.). L. 100/2023 (tóku gildi 1. jan. 2024 nema 31., 32. og 38. gr. sem tóku gildi 30. des. 2023; koma til framkvæmda skv. fyrirmælum í 39. gr.).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við matvælaráðherra eða matvælaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Gjaldskylda.
Skyldu til greiðslu gjalds vegna fiskeldis í sjó ber rekstrarleyfishafi fiskeldisstöðvar samkvæmt lögum um fiskeldi.
Til gjaldstofns telst ekki eldisframleiðsla sem stunduð er í afluktum náttúrulegum lónum við strendur eða ferskvatni.
2. gr. Fjárhæð gjalds.
Rekstrarleyfishafi fiskeldisstöðvar í sjó skal greiða gjald í ríkissjóð. Fiskistofa skal ákvarða og birta fjárhæð gjaldsins með auglýsingu eigi síðar en 1. desember hvert ár til að öðlast gildi fyrir komandi almanaksár.
Fjárhæð gjalds á hvert kílógramm slátraðs lax skal miðast við [nýjasta 12 mánaða meðaltal alþjóðlegs markaðsverðs á atlantshafslaxi]1) næst fyrir ákvörðunardag skv. 1. mgr. og nema því hlutfalli af þeim stofni sem hér segir:
   a. [4,3%]2) þegar verð er 4,8 evrur á kílógramm eða hærra,
   b. 2% þegar verð er 4,3 evrur á kílógramm eða hærra en þó lægra en 4,8 evrur á kílógramm,
   c. 0,5% þegar verð er lægra en 4,3 evrur á kílógramm.
Fjárhæð gjalds á hvert kílógramm slátraðs regnbogasilungs skal nema helmingi af gjaldi skv. 2. mgr.
Fjárhæð gjalds á hvert kílógramm af slátruðum ófrjóum laxi og laxi sem alinn er í sjó með lokuðum eldisbúnaði skal nema helmingi af gjaldi skv. 2. mgr.
Með alþjóðlegu markaðsverði í 2. mgr. er átt við verð á slægðum atlantshafslaxi með haus. Við umreikning úr evrum í íslenskar krónur skal miða við miðgengi í hverjum mánuði fyrir sig.
   1)L. 129/2022, 60. gr. 2)L. 100/2023, 31. gr.
3. gr. Gjaldstofn, framtalsskylda og söfnun upplýsinga.
Stofn til álagningar gjalds samkvæmt lögum þessum er þyngd afurða við slátrun, upp úr sjó, miðað við slægðan fisk.
Rekstrarleyfishafa er skylt að skila sérstakri greinargerð um alla slátrun eldisfisks frá fiskeldisstöð á því formi og með þeim hætti sem Fiskistofa ákveður. Skila skal greinargerðinni eigi síðar en 1. febrúar vegna tímabilsins 1. júlí til 31. desember og 1. ágúst vegna tímabilsins 1. janúar til 30. júní. Heimilt er að ákveða að skil á skýrslum skuli vera með rafrænum hætti og málsmeðferð rafræn eftir því sem við á.
Sé upplýsingum ekki skilað eða ef upplýsingar sem látnar eru í té reynast ófullnægjandi eða ótrúverðugar skal skora á viðkomandi að bæta úr. Verði ekki brugðist við áskorun innan hæfilegs frests eða skýringar reynast ótrúverðugar skal áætla framleiðslumagn rekstrarleyfishafa og skal miða við að það skuli vera svo ríflegt að ekki sé hætta á því að það sé lægra en það er í raun og veru og ákvarða gjaldstofn í samræmi við þá áætlun.
Í tengslum við eftirlit og athuganir einstakra mála er einstaklingum og lögaðilum skylt að láta Fiskistofu í té allar upplýsingar og gögn sem talin eru nauðsynleg. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða þau skipti annarra aðila við hann sem hann getur veitt upplýsingar um og varða athuganir og eftirlit Fiskistofu. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og gögn sem hér um ræðir.
4. gr. Álagning.
Fiskistofa leggur á gjald samkvæmt lögum þessum. Gjaldið skal lagt á tvisvar á ári, þ.e. 15. febrúar vegna tímabilsins 1. júlí til 31. desember og 15. ágúst vegna tímabilsins 1. janúar til 30. júní.
5. gr. Innheimta.
Innheimtumenn ríkissjóðs innheimta gjald samkvæmt lögum þessum og fer ríkisskattstjóri með samræmingar- og eftirlitshlutverk við innheimtu þess, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.
Eindagi er 14 dögum frá gjalddaga og skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er frá þeim tíma.
Kröfum um greiðslu gjalds samkvæmt lögum þessum fylgir lögveð ríkissjóðs í fasteignum og lausafé rekstrarleyfishafa í fjögur ár frá gjalddaga. Lögveðið nær einnig til dráttarvaxta og innheimtukostnaðar.
Fiskistofa skal birta opinberlega allar upplýsingar um álagðar fjárhæðir gjalds samkvæmt lögum þessum.
6. gr. Önnur ákvæði.
Gjald vegna fiskeldis í sjó telst rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.
Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
Rísi vafi um skýringu hugtaka samkvæmt lögum þessum skal byggt á skilgreiningum þeirra í lögum um fiskeldi.
7. gr. Fiskeldissjóður.
Fiskeldissjóður er sjálfstæður opinber sjóður sem hefur það hlutverk að styrkja uppbyggingu innviða þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað og þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum.
Fiskeldissjóður lýtur yfirstjórn þriggja manna sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn, einn samkvæmt tilnefningu forsætisráðherra, einn samkvæmt tilnefningu ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins og fjármál og einn án tilnefningar sem vera skal formaður.
Stjórn sjóðsins hefur yfirumsjón með rekstri hans í samræmi við lög þessi og reglugerð setta samkvæmt þeim. Stjórnin skilar ársreikningi og reglulegu yfirliti um störf sín til ráðherra og tekur ákvarðanir um úthlutanir og útgjöld. Ákvarðanir stjórnar eru endanlegar á stjórnsýslustigi. Ráðherra ákveður þóknun stjórnarmanna. Kostnaður af rekstri sjóðsins greiðist af tekjum hans.
Stjórn Fiskeldissjóðs skal árlega auglýsa opinberlega eftir umsóknum frá sveitarfélögum um styrki úr sjóðnum til verkefna sem eru til þess fallin að byggja upp innviði og þjónustu á þeim svæðum þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað.
Ráðstöfunarfé sjóðsins er fjárveiting hverju sinni af fjárlögum.
Ráðherra er heimilt með reglugerð1) að setja nánari ákvæði um starfsemi sjóðsins, þ.m.t. um málsmeðferð og úthlutun úr sjóðnum, að fenginni tillögu stjórnar.
Fiskeldissjóður skal vera undanþeginn skattskyldu skv. 4. gr., sbr. og 5. mgr. 71. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.
   1)Rg. 781/2021. Rg. 100/2022.
8. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi en koma til framkvæmda með álagningu gjalds á fisk sem slátrað er frá og með 1. janúar 2020. Ákvæði 4. mgr. 2. gr. kemur þó fyrst til framkvæmda með álagningu gjalds á fisk sem slátrað er frá og með 1. janúar 2029.
Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr. 2. gr. skal fjárhæð gjalds fyrir hvert kílógramm slátraðs lax og regnbogasilungs nema því hlutfalli reiknistofnsins sem hér segir: 1/7 árið 2020, 2/7 árið 2021, 3/7 árið 2022, 4/7 árið 2023, 5/7 árið 2024 og 6/7 árið 2025.
[II.
Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. skal Fiskistofa ákvarða og birta fjárhæð gjaldsins vegna ársins 2024 með auglýsingu1) fyrir 31. desember 2023.]2)
   1)Augl. 1620/2023. 2)L. 100/2023, 32. gr.