Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða
2020 nr. 74 3. júlí
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. júlí 2020; birt í Stjtíð. 10. júlí 2020; komu til framkvæmda 1. nóvember 2020. Breytt með:
L. 18/2023 (tóku gildi 12. apríl 2023).
L. 45/2023 (tóku gildi 1. jan. 2024 nema 8. gr. og b-liður 9. gr. sem tóku gildi 21. júní 2023; um lagaskil sjá nánar 11. gr.).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við félags- og vinnumarkaðsráðherra eða félags- og vinnumarkaðsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Markmið og gildissvið.
1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að styrkja framfærslu aldraðra einstaklinga sem búsettir eru hér á landi og eiga engin eða takmörkuð lífeyrisréttindi í almannatryggingum.
2. gr. Gildissvið.
Lög þessi taka til einstaklinga sem eru 67 ára eða eldri, hafa fasta búsetu og skráð lögheimili hér á landi og sem dvelja varanlega á Íslandi.
Ef um erlendan ríkisborgara er að ræða er það skilyrði að hann hafi ótímabundið dvalarleyfi hér á landi eða rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga.
Heimilt er að veita undanþágu frá skilyrði 2. mgr. hafi erlendi ríkisborgarinn dvalarleyfi hér á landi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis eða hann uppfyllir skilyrði 84. eða 85. gr. laga um útlendinga, enda hafi hann verið búsettur hér á landi, sbr. 1. mgr., samfellt í a.m.k. tvö ár þegar sótt er um félagslegan viðbótarstuðning og sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.
II. kafli. Viðbótarstuðningur.
3. gr. Viðbótarstuðningur og fjárhæðir.
Þeir sem uppfylla skilyrði laga þessara geta fengið greiddan félagslegan viðbótarstuðning sér til framfærslu í samræmi við nánari ákvæði laga þessara.
Hámarksfjárhæð mánaðarlegs viðbótarstuðnings skal nema 90% af fjárhæð fulls ellilífeyris eins og hann er ákveðinn hverju sinni í lögum um almannatryggingar.
Ef um einhleypan umsækjanda er að ræða, sem býr einn og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, er til viðbótar stuðningi skv. 1. mgr. heimilt að greiða 90% af mánaðarlegri fjárhæð fullrar heimilisuppbótar eins og hún er ákveðin hverju sinni í lögum um félagslega aðstoð.
4. gr. Tæming annarra réttinda.
Sá sem sækir um viðbótarstuðning samkvæmt lögum þessum skal áður hafa sótt um og tekið út að fullu öll réttindi sem hann kann að eiga eða hafa áunnið sér. Þetta á m.a. við um launatengd réttindi, greiðslur almannatrygginga og félagslega aðstoð ríkisins sem og atvinnutengdar og iðgjaldatengdar lífeyrisgreiðslur hjá íslenskum og erlendum aðilum.
5. gr. Frítekjumark og áhrif annarra tekna.
Allar tekjur greiðsluþega skulu koma til frádráttar fjárhæð mánaðarlegs viðbótarstuðnings skv. 3. gr. Þó skal greiðsluþegi hafa 25.000 kr. almennt frítekjumark á mánuði vegna annarra tekna en bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.
Með tekjum skv. 1. mgr. er átt við allar tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt, að undanskilinni fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, þ.m.t. bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um sjúkratryggingar, lögum um slysatryggingar almannatrygginga, lögum um atvinnuleysistryggingar, greiðslur frá lífeyrissjóðum samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og séreignarlífeyri hverju nafni sem nefnist. Sama á við um sambærilegar tekjur sem aflað er eða greiddar eru erlendis og eru ekki taldar fram til skatts hér á landi.
Fjármagnstekjur skulu teljast til tekna við útreikning viðbótarstuðnings. Þegar um hjón eða sambýlisfólk er að ræða skiptast fjármagnstekjur til helminga milli þeirra við útreikninginn og skiptir ekki máli hvort þeirra er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.
Hafi umsækjandi þegar fengið greidda fjárhagsaðstoð sveitarfélags á sama tímabili sem greitt er fyrir aftur í tímann skv. 4. mgr. 9. gr. skal viðbótarstuðningurinn nema mismuninum fyrir það tímabil. Sama á við um þann mánuð er greiðslur hefjast.
6. gr. Útreikningur fjárhæðar viðbótarstuðnings.
Heimilt er að greiða viðbótarstuðning samkvæmt lögum þessum þegar hámarksfjárhæð viðbótarstuðnings skv. 3. gr. nemur hærri fjárhæð en heildarfjárhæð mánaðarlegra tekna greiðsluþega skv. 5. gr. að teknu tilliti til frítekjumarks. Viðbótarstuðningur samkvæmt lögum þessum nemur mismuninum á hámarksfjárhæð viðbótarstuðnings skv. 3. gr. og heildarfjárhæð tekna greiðsluþega skv. 5. gr.
Við útreikning viðbótarstuðnings skal miðað við nýjustu tekjuupplýsingar sem völ er á, sbr. einnig 11. og 12. gr.
Fjárhæð mánaðarlegs viðbótarstuðnings, sem reiknuð hefur verið í samræmi við 1. mgr., skal ákvörðuð á ný verði breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem liggja til grundvallar við útreikning á fjárhæðinni, enda nemi breytingin að lágmarki 10% af áður reiknaðri fjárhæð viðbótarstuðningsins skv. 1. mgr.
7. gr. Eignir.
Ekki kemur til greiðslu viðbótarstuðnings samkvæmt lögum þessum nemi eignir umsækjanda í peningum eða verðbréfum hærri fjárhæð en 4.000.000 kr.
8. gr. Dvöl erlendis.
Greiðsla viðbótarstuðnings fellur niður þegar greiðsluþegi dvelur eða hyggst dvelja erlendis lengur en 90 daga samfellt eða lengur en 90 daga á hverju 12 mánaða greiðslutímabili.
Sé dvölinni ætlað að vara lengur en í 90 daga samfellt fellur greiðslan niður frá og með næsta mánuði eftir þann mánuð er dvöl erlendis hófst. Í öðrum tilvikum fellur greiðslan niður frá og með næsta mánuði eftir þann mánuð er dvöl erlendis hafði varað í 90 daga eða þegar dvöl erlendis nemur 90 dögum samtals á greiðslutímabilinu.
Greiðsluþega er skylt að tilkynna Tryggingastofnun ríkisins um fyrirhugaða dvöl erlendis fyrir brottför sem og um komu til landsins, sbr. einnig 11. gr. Sé upplýsingaskyldu ekki sinnt af hálfu greiðsluþega eða maka hans gilda ákvæði 10. gr. eftir því sem við á.
III. kafli. Framkvæmd.
9. gr. Greiðslutímabil.
Viðbótarstuðningur greiðist eftir á fyrir einn mánuð í senn. Heimilt er að ákvarða viðbótarstuðning til allt að 12 mánaða í einu. Sækja þarf um viðbótargreiðslur að nýju að loknu hverju greiðslutímabili.
Greiðslur hefjast frá og með mánuðinum eftir að skilyrði greiðslna teljast uppfyllt. Greiðslur stöðvast frá og með næsta mánuði eftir þann mánuð er skilyrði greiðslna teljast ekki lengur uppfyllt.
Hafi fjárhæð viðbótarstuðningsins tekið breytingum í samræmi við 2. mgr. 6. gr. á greiðslutímabilinu greiðist breytt fjárhæð frá og með næsta mánuði eftir að breytingin hefur tekið gildi.
Ekki er heimilt að greiða viðbótarstuðning lengra aftur í tímann frá því að umsókn var lögð fram en sem nemur þremur mánuðum. Ekki eru greiddir vextir ef um greiðslur aftur í tímann er að ræða.
Dvelji greiðsluþegi í einn mánuð eða lengur á stofnun, sbr. [1. mgr. 38. gr.]1) laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, fellur greiðsla viðbótarstuðnings niður frá og með næsta mánuði eftir að dvölin hófst. Sama gildir um afplánun í fangelsi, gæsluvarðhald eða þegar greiðsluþegi hefur á annan hátt verið úrskurðaður til dvalar á stofnun, sbr. [1. mgr. 39. gr.]1) laga um almannatryggingar.
1)L. 18/2023, 23. gr.
10. gr. Endurkröfur.
Hafi greiðsla viðbótarstuðnings átt sér stað án þess að skilyrðum laga þessara sé fullnægt skal Tryggingastofnun endurkrefja greiðsluþega um hina ofgreiddu fjárhæð.
Þegar um endurkröfu er að ræða skv. 1. mgr. má draga hina ofgreiddu fjárhæð frá viðbótarstuðningi sem greiðsluþegi kann síðar að fá ákvarðaðan. Þó er ekki heimilt að draga frá viðbótarstuðningi skv. 1. málsl. hærri fjárhæð en sem nemur 20% af mánaðarlegum greiðslum nema um annað sé samið.
Heimilt er að draga hina ofgreiddu fjárhæð frá bótum eða öðrum greiðslum sem greiðsluþegi kann að njóta samkvæmt lögum um almannatryggingar eða lögum um félagslega aðstoð og fer þá um meðferð endurkröfu skv. [34. gr.]1) laga um almannatryggingar, nr. 100/2007.
Ákvarðanir Tryggingastofnunar um endurkröfu á ofgreiddum viðbótarstuðningi eru aðfararhæfar, sbr. þó 14. gr.
1)L. 18/2023, 23. gr.
11. gr. Upplýsingaskylda.
Umsækjanda eða greiðsluþega er rétt og skylt að taka þátt í meðferð málsins, m.a. með því að koma til viðtals og veita Tryggingastofnun allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo að unnt sé að taka ákvörðun um viðbótarstuðning samkvæmt lögum þessum, fjárhæð hans og endurskoðun stuðningsins. Þá er skylt að tilkynna um allar breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á ákvörðun um stuðning og greiðslu hans.
Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um maka umsækjanda eða greiðsluþega eftir því sem við á.
12. gr. Upplýsingaskylda annarra aðila.
Skatturinn, Vinnumálastofnun, sjúkratryggingastofnunin, Þjóðskrá Íslands, [sýslumaður],1) Fangelsismálastofnun, Útlendingastofnun, ríkislögreglustjóri, Samgöngustofa, lífeyrissjóðir, sjúkrastofnanir, dvalar- og hjúkrunarheimili, sveitarfélög, Menntasjóður námsmanna, viðurkenndar menntastofnanir innan hins almenna menntakerfis og skólar á háskólastigi skulu láta Tryggingastofnun í té upplýsingar með rafrænum hætti eða á annan hátt að því marki sem slíkar upplýsingar eru nauðsynlegar til að unnt sé að framfylgja lögum þessum.
Upplýsingar og gögn sem Tryggingastofnun óskar eftir og unnt er að láta í té skulu veittar án endurgjalds og í því formi sem óskað er.
Tryggingastofnun ríkisins ber að upplýsa viðkomandi aðila um fyrirhugaða upplýsingaöflun skv. 1. mgr. í samræmi við 2. mgr. 17. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, sbr. 14. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679.
1)L. 45/2023, 12. gr.
13. gr. Eftirlit.
Tryggingastofnun skal reglubundið sannreyna réttmæti greiðslna viðbótarstuðnings og upplýsingar sem ákvörðun um greiðslu byggist á. Grundvöll greiðslna viðbótarstuðnings má endurskoða hvenær sem er og samhæfa greiðslur þeim breytingum sem orðið hafa á aðstæðum greiðsluþega.
Tryggingastofnun er heimilt í þágu eftirlits að óska eftir upplýsingum og gögnum frá þeim aðilum sem taldir eru upp í 12. gr. og nauðsynleg eru til að sannreyna réttmæti ákvarðana og greiðslna.
Leiki rökstuddur grunur á að heimild til greiðslna sé ekki fyrir hendi er heimilt að fresta greiðslum tímabundið meðan mál er rannsakað frekar og stöðva greiðslur komi í ljós að skilyrðum greiðslna er ekki fullnægt. Um endurkröfur ofgreiðslna fer skv. 10. gr.
Leiki rökstuddur grunur á að greiðslur eigi sér stað á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga frá greiðsluþega er heimilt að afla upplýsinga frá þriðja aðila sem ætla má að geti veitt upplýsingar er máli skipta í því skyni að leiðrétta greiðslur.
Komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að fá óréttmætar greiðslur skal greiðsluþegi endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi.
14. gr. Stjórnsýslukærur.
Úrskurðarnefnd velferðarmála skal kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga þessara.
Um kærur til úrskurðarnefndar velferðarmála og úrskurði nefndarinnar fer skv. 13. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007.
15. gr. Málsmeðferð.
Umsækjandi um viðbótarstuðning skal sækja um greiðslur í eigin persónu hjá Tryggingastofnun ríkisins og gildir hið sama um endurnýjun umsókna skv. 9. gr. Þó er Tryggingastofnun heimilt að taka við umsóknum með öðrum hætti sem stofnunin telur fullnægjandi hvað varðar staðfestingu á varanlegri dvöl og búsetu hér á landi.
Ákvæði V. og VI. kafla laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, gilda eftir því sem við á um framkvæmd laga þessara.
IV. kafli. Önnur ákvæði.
16. gr. Útgjöld.
Kostnaður vegna viðbótarstuðnings samkvæmt lögum þessum greiðist úr ríkissjóði í samræmi við ákvörðun Alþingis samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum hverju sinni.
17. gr. Framkvæmd.
Tryggingastofnun ríkisins skal annast framkvæmd laga þessara.
18. gr. Reglugerð.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð með nánari ákvæðum um greiðslur viðbótarstuðnings og um framkvæmd laga þessara.
19. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2020 og koma til framkvæmda 1. nóvember 2020.