Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um fjárhagslegar viðmiðanir

2021 nr. 7 8. febrúar


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 19. febrúar 2021. EES-samningurinn: IX. og XIX. viðauki reglugerð 2016/1011, IX. viðauki reglugerð 2019/2089. Breytt með: L. 134/2021 (tóku gildi 31. des. 2021; EES-samningurinn: IX. viðauki reglugerð 2021/168).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við fjármála- og efnahagsráðherra eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Lögfesting.
Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/1011 frá 8. júní 2016 um vísitölur sem notaðar eru sem viðmiðanir í fjármálagerningum og fjárhagslegum samningum eða til að mæla árangur fjárfestingarsjóða og um breytingu á tilskipunum 2008/48/EB og 2014/17/ESB og reglugerð (ESB) nr. 596/2014, með breytingum samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2089 frá 27. nóvember 2019 um breytingu á reglugerð (ESB) 2016/1011 að því er varðar viðmiðanir ESB vegna loftslagstengdra umbreytinga, viðmiðanir ESB sem eru lagaðar að Parísarsamningnum og upplýsingagjöf um sjálfbærni fyrir viðmiðanir [og 1. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/168 frá 10. febrúar 2021 um breytingu á reglugerð (ESB) 2016/1011 að því er varðar undanþágu fyrir tilteknar viðmiðanir fyrir stundargengi gjaldmiðla þriðju landa og tilnefningu viðmiðana í stað viðmiðana sem verður hætt með, og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012, og aðlögunum samkvæmt bókun 1 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest, og ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 190/2019 frá 10. júlí 2019 og nr. 388/2021 frá 10. desember 2021, hafa lagagildi hér á landi].1)
Reglugerð (ESB) 2016/1011 er birt á bls. 72 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 16 frá 12. mars 2020. Reglugerð (ESB) 2019/2089 er birt á bls. 658 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 26 frá 23. apríl 2020. [Reglugerð (ESB) 2021/168 er birt í C-deild Stjórnartíðinda.2)]1) Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 190/2019 er birt á bls. 5 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 73 frá 12. september 2019. [Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 388/2021 er birt í C-deild Stjórnartíðinda.2)]1)
   1)L. 134/2021, 1. gr. 2)Augl. C 44/2021.
2. gr. Eftirlit.
Fjármálaeftirlitið er lögbært yfirvald samkvæmt lögum þessum og hefur eftirlit með því að farið sé að þeim. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga þessara, laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.
Fjármálaeftirlitið getur beitt þeim heimildum sem greinir í 1. mgr. 41. gr. reglugerðar (ESB) 2016/1011 við framkvæmd laga þessara. Heimildir til öflunar upplýsinga og gagna samkvæmt ákvæðinu ná þó ekki til upplýsinga og gagna sem lögmaður öðlast við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál. Um beitingu heimildanna fer eftir ákvæðum laga um meðferð sakamála eftir því sem við getur átt.
3. gr. Úrbótakrafa vegna brots.
Komi í ljós að ákvæðum laga þessara er ekki fylgt skal Fjármálaeftirlitið krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.
4. gr. Stjórnvaldssektir.
Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssekt á hvern þann sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum reglugerðar (ESB) 2016/1011 með breytingum skv. 1. gr.:
   a. 4. gr. um kröfur um stjórnarhætti og hagsmunaárekstra,
   b. 5. gr. um kröfur að því er varðar eftirlitsstarfsemi,
   c. 6. gr. um kröfur að því er varðar eftirlitsramma,
   d. 7. gr. um kröfur að því er varðar ábyrgðarskyldu,
   e. 8. gr. um kröfur að því er varðar skráahald,
   f. 9. gr. um fyrirkomulag við meðhöndlun kvartana,
   g. 10. gr. um útvistun,
   h. 11. gr. um inntaksgögn,
   i. 12. gr. um aðferðafræði,
   j. 13. gr. um gagnsæi aðferðafræði,
   k. 14. gr. um tilkynningu um brot,
   l. 15. gr. um hátternisreglur,
   m. 16. gr. um kröfur um stjórnarhætti og eftirlit aðila sem leggja fram inntaksgögn og eru undir eftirliti,
   n. 19. gr. a um viðmiðanir ESB vegna loftslagstengdra umbreytinga og viðmiðanir ESB sem eru lagaðar að Parísarsamningnum,
   o. 19. gr. b um kröfur varðandi viðmiðanir ESB vegna loftslagstengdra umbreytinga,
   p. 19. gr. c um undanþágur fyrir viðmiðanir ESB sem eru lagaðar að Parísarsamningnum,
   q. 21. gr. um skyldubundna stjórnun mjög mikilvægrar viðmiðunar,
   r. 23. gr. um skyldubundið framlag til mjög mikilvægrar viðmiðunar,
   s. 24. gr. um mikilvægar viðmiðanir,
   t. 25. gr. um undanþágur frá sértækum kröfum fyrir mikilvægar viðmiðanir,
   u. 26. gr. um viðmiðanir sem eru ekki mikilvægar,
   v. 27. gr. um yfirlýsingu um viðmiðun,
   w. 28. gr. um breytingar á viðmiðun og það að hætta gerð viðmiðunar,
   x. 29. gr. um notkun viðmiðunar,
   y. 34. gr. um leyfi og skráningu stjórnanda.
Þá getur Fjármálaeftirlitið lagt stjórnvaldssekt á hvern þann sem hlítir ekki kröfu þess skv. 2. eða 3. gr., þó að teknu tilliti til 10. gr.
Stjórnvaldssekt sem lögð er á einstakling getur numið frá 100 þús. kr. til 70 millj. kr.
Stjórnvaldssekt sem lögð er á lögaðila getur numið frá 500 þús. kr. til 800 millj. kr., 10% af heildarársveltu lögaðilans samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi, 10% af heildarársveltu samstæðu sem lögaðilinn tilheyrir samkvæmt síðasta samþykkta samstæðureikningi eða, ef lögaðilinn er samtök, 1% af samanlagðri heildarársveltu aðila samtakanna, hver fjárhæð sem hæst reynist.
Þrátt fyrir 3. og 4. mgr. er heimilt að ákvarða einstaklingi eða lögaðila stjórnvaldssekt allt að þrefaldri þeirri fjárhæð sem nemur fjárhagslegum ávinningi af broti eða tapi sem hann forðast með broti.
Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
5. gr. Afturköllun leyfis eða skráningar.
Fjármálaeftirlitið getur afturkallað, tímabundið eða varanlega, leyfi eða skráningu stjórnanda sem brýtur alvarlega eða ítrekað af sér með þeim hætti sem greinir í 1. eða 2. mgr. 4. gr.
6. gr. Bann við stjórnunarstörfum.
Fjármálaeftirlitið getur tímabundið bannað einstaklingi sem brýtur af sér með þeim hætti sem greinir í 1. eða 2. mgr. 4. gr. að gegna stjórnunarstörfum hjá stjórnendum eða aðilum sem leggja fram inntaksgögn og eru undir eftirliti.
7. gr. Saknæmi.
Stjórnsýsluviðurlögum skv. 4.–6. gr. verður beitt óháð því hvort brot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
8. gr. Ákvörðun stjórnsýsluviðurlaga.
Við ákvörðun stjórnsýsluviðurlaga skv. 4.–6. gr., þar á meðal fjárhæðar stjórnvaldssekta, skal tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t. eftirfarandi eftir því sem við á:
   a. alvarleika brots og hvað það hefur staðið yfir lengi,
   b. hversu mikilvæg viðmiðun er fyrir fjármálastöðugleika og raunhagkerfið,
   c. ábyrgðar hins brotlega,
   d. fjárhagsstöðu hins brotlega, sér í lagi með hliðsjón af heildarársveltu lögaðila eða árstekjum einstaklings,
   e. ávinnings hins brotlega af broti eða taps sem hann forðast með broti,
   f. samstarfsvilja hins brotlega,
   g. fyrri brota og
   h. ráðstafana sem hinn brotlegi grípur til til að koma í veg fyrir að brotið verði endurtekið.
9. gr. Sátt.
Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt við málsaðila. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni.
Seðlabanki Íslands setur reglur um framkvæmd 1. mgr.
10. gr. Réttur grunaðs manns.
Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með ákvörðun um stjórnsýsluviðurlög skv. 4.–6. gr. hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.
11. gr. Frestur til að beita stjórnsýsluviðurlögum.
Heimild til að beita stjórnsýsluviðurlögum skv. 4.–6. gr. fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk. Tilkynning Fjármálaeftirlitsins til málsaðila um rannsókn á meintu broti rýfur frestinn gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.
12. gr. Birting ákvarðana.
Fjármálaeftirlitið skal birta ákvarðanir um ráðstafanir vegna brota á ákvæðum laga þessara til samræmis við 45. gr. reglugerðar (ESB) 2016/1011.
13. gr. Stjórnvaldsfyrirmæli.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð1) til að innleiða undirgerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í eftirtöldum ákvæðum reglugerðar (ESB) 2016/1011 með breytingum skv. 1. gr.:
   a. 2. mgr. 3. gr. um tilgreiningu á tæknilegum þáttum skilgreininga,
   b. 3. mgr. 3. gr. um skrá yfir opinber yfirvöld á Evrópska efnahagssvæðinu,
   c. 2. mgr. a 13. gr. um lágmarksinnihald útskýringar á því hvernig lykilþættir aðferðafræði endurspegli þætti varðandi umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti fyrir hverja viðmiðun eða fjölskyldu viðmiðana og staðlað snið sem skal nota,
   [d. 3. mgr. 18. gr. a um lista yfir viðmiðanir fyrir stundargengi gjaldmiðla sem falla ekki undir reglugerðina],2)
   [e.]2) 2. mgr. 19. gr. a um lágmarkskröfur um samræmingu aðferðafræði viðmiðana ESB vegna loftslagstengdra umbreytinga og viðmiðana ESB sem eru lagaðar að Parísarsamningnum,
   [f.]2) 1. mgr. 19. gr. c um geira sem skal undanskilja í viðmiðunum ESB sem eru lagaðar að Parísarsamningnum,
   [g.]2) 1. mgr. 20. gr. um skrá yfir mjög mikilvægar viðmiðanir,
   [h.]2) a-lið 6. mgr. 20. gr. um útreikning á nafnverði fjármálagerninga, grundvallarfjárhæð afleiða og verðmæti hreinnar eignar fjárfestingarsjóða sem vísa í viðmiðun til að ákvarða hvort slík viðmiðun sé mjög mikilvæg,
   [i.]2) b-lið 6. mgr. 20. gr. um endurskoðun reikniaðferðarinnar sem notuð er til að ákvarða viðmiðunarmörk vegna ákvörðunar um hvort viðmiðanir séu mjög mikilvægar,
   [j. 8. mgr. 23. gr. b um tilnefningu viðmiðana í stað annarra viðmiðana],2)
   [k.]2) 2. mgr. 24. gr. um endurskoðun reikniaðferðarinnar sem notuð er til að ákvarða viðmiðunarmörk vegna ákvörðunar um hvort viðmiðanir séu mikilvægar,
   [l.]2) 2. mgr. b 27. gr. um upplýsingagjöf um umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti og staðalsniðmát,
   [m.]2) 7. mgr. 33. gr. um ákvörðun á hlutlægum ástæðum til að samþykkja viðmiðun eða fjölskyldu viðmiðana sem eru gerðar í þriðja landi,
   [n.]2) 6. mgr. 51. gr. um ákvörðun um skilyrði til að meta hvort það að hætta gerð viðmiðunar eða breyta gildandi viðmiðun sé líklegt til að hafa í för með sér óviðráðanlegt atvik, hindra eða brjóta með öðrum hætti gegn skilmálum fjárhagslegs samnings eða fjármálagernings eða reglum fjárfestingarsjóðs sem vísar í slíka viðmiðun og
   [o.]2) 3. mgr. 54. gr. um framlengingu tímabilsins sem fyrirhugað er fyrir skráningu í stað leyfisveitingar tiltekinna stjórnenda,
   [p. 7. mgr. 54. gr. um framlengingu umbreytingartímabils vegna viðmiðana þriðju ríkja].2)
Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur3) til að innleiða undirgerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í eftirtöldum ákvæðum reglugerðar (ESB) 2016/1011:
   a. 5. mgr. 5. gr. um verklagsreglur og eiginleika eftirlitsstarfseminnar,
   b. 5. mgr. 11. gr. um hvernig tryggja eigi sannprófunarhæfni inntaksgagna og innri eftirlits- og sannprófunarferla þess sem leggur þau fram og að þeir séu viðeigandi,
   c. 3. mgr. 13. gr. um upplýsingar sem stjórnandi skal veita um viðmiðun og aðferðafræði,
   d. 6. mgr. 15. gr. um þætti hátternisreglna,
   e. 5. mgr. 16. gr. um kröfur varðandi stjórnarhætti, kerfi, eftirlit og stefnur,
   f. 8. mgr. 25. gr. um sniðmát fyrir yfirlýsingu um reglufylgni,
   g. 9. mgr. 25. gr. um forsendur sem lögbært yfirvald skal taka tillit til við ákvörðun um hvort beita ætti tilteknum viðbótarkröfum,
   h. 5. mgr. 26. gr. um sniðmát fyrir yfirlýsingu um reglufylgni,
   i. 3. mgr. 27. gr. um innihald yfirlýsingar um viðmiðun og í hvaða tilvikum þurfi að uppfæra slíka yfirlýsingu,
   j. 5. mgr. 30. gr. um lágmarksinnihald samstarfsfyrirkomulags lögbærra yfirvalda og Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar,
   k. 9. mgr. 32. gr. um form og inntak umsóknar um viðurkenningu stjórnanda frá þriðja landi og framsetningu upplýsinga sem leggja á fram með slíkri umsókn,
   l. 8. mgr. 34. gr. um upplýsingar sem á að leggja fram við umsókn um leyfi eða skráningu og
   m. 3. mgr. 47. gr. um málsmeðferðarreglur og form vegna upplýsingaskipta milli lögbærra yfirvalda og Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar.
   1)Rg. 162/2021, sbr. 1642/2021, 533/2022, 1412/2022 og 1601/2023. 2)L. 134/2021, 2. gr. 3)Rgl. 752/2021.
[14. gr. Höfuðstólsfærsla vaxta samkvæmt vaxtaviðmiðun.
Þrátt fyrir 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, má bæta vöxtum við höfuðstól oftar en á tólf mánaða fresti ef þess er þörf til að endurspegla virka vexti vaxtaviðmiðunar. Framangreind undanþága tekur til vaxtaviðmiðana vegna gjaldmiðla sem eru birtar af stjórnendum viðmiðana vegna viðkomandi gjaldmiðla.]1)
   1)L. 134/2021, 3. gr.
[15. gr.]1) Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
   1)L. 134/2021, 3. gr.
[16. gr.]1) Breyting á öðrum lögum.
   1)L. 134/2021, 3. gr.
[Ákvæði til bráðabirgða.
Ráðherra er heimilt að veita reglugerðum, sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í 8. mgr. 23. gr. b reglugerðar (ESB) 2016/1011 með breytingum skv. 1. gr. um tilnefningu viðmiðana í stað annarra viðmiðana, gildi hér á landi með reglugerð með vísan til birtingar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins á ensku, enda hafi íslensk útgáfa þeirra ekki verið birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins.]1)
   1)L. 134/2021, 4. gr.