Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um áhafnir skipa
2022 nr. 82 28. júní
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. janúar 2023 nema 1. tölul. 40. gr. sem tók gildi 14. júlí 2022; EES-samningurinn: XIII. viðauki tilskipun 1999/95/EB, 2005/45/EB, reglugerð 336/2006, tilskipun 2008/106/EB, XVIII. viðauki tilskipun 1999/63/EB, 2009/13/EB, 2013/54/ESB.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við innviðaráðherra eða innviðaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Gildissvið og markmið.
Lög þessi taka til allra íslenskra skipa.
Lög þessi taka til erlendra skipa sem notuð eru í atvinnuskyni á íslensku innsævi í 30 daga samfleytt eða samtals 90 daga á ársgrundvelli að því er varðar skírteinakröfur, lágmarksmönnun, vaktstöðu, vinnu- og hvíldartíma og vinnuskilyrði á meðan þau eru að störfum á þessu svæði. Auk þess taka lögin til áhafna þeirra erlendu skemmtibáta sem notaðir eru á íslensku innsævi á sama tímabili. Þó taka lögin ekki til skipa sem uppfylla kröfur SOLAS-alþjóðasamningsins og sigla undir fána erlends ríkis sem samþykkt hefur alþjóðasamninginn.
Markmið þessara laga er að tryggja öryggi áhafna, farþega og skipa og efla varnir gegn mengun sjávar. Þessu markmiði skal náð með því að gera tilteknar kröfur um menntun og þjálfun, aldur, siglingatíma, heilbrigði, sjón og heyrn þeirra sem starfa um borð og tryggja með því faglega hæfni áhafna miðað við stærð skips, verkefni og farsvið. Enn fremur skal því markmiði náð með því að kveða meðal annars á um skilyrði fyrir útgáfu skírteina, öryggismönnun eða lágmarksmönnun skipa, vaktstöður áhafnar, vinnu- og hvíldartíma, öryggisstjórnunarkerfi, vinnuskilyrði, ábyrgð útgerðar og skipstjóra og lögskráningu áhafnar. Loks er þessum lögum ætlað að stuðla að jöfnu aðgengi kynjanna að menntun, þjálfun og störfum um borð í íslenskum skipum.
Leiki vafi á því hverrar gerðar skip telst vera samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim sker Samgöngustofa úr um það.
2. gr. Orðskýringar.
Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1. Annar vélstjóri er sá vélstjóri sem gengur næst yfirvélstjóra og ber ábyrgð á vélum sem knýja skipið og rekstri og viðhaldi vél- og rafbúnaðar þess í forföllum yfirvélstjóra.
2. Ábyrgðarsvið tekur til menntunar og þjálfunar, skiptingar starfa og ábyrgðar um borð í flutninga- eða farþegaskipi og skiptist í stjórnunarsvið, rekstrarsvið og stoðsvið:
a. Á stjórnunarsviði starfa þau sem öðlast hafa skírteini samkvæmt lögum þessum og reglum STCW-alþjóðasamþykktarinnar sem skipstjóri, yfirvélstjóri, yfirstýrimaður og annar vélstjóri.
b. Á rekstrarsviði starfa þau sem öðlast hafa skírteini samkvæmt lögum þessum og reglum STCW-alþjóðasamþykktarinnar sem stýrimenn og vélstjórar undir stjórn yfirmanna á stjórnunarsviði.
c. Á stoðsviði starfa þau sem öðlast hafa skírteini samkvæmt lögum þessum og reglum STCW-alþjóðasamþykktarinnar og starfa hvorki á stjórnunar- né rekstrarsviði.
3. Áhöfn samanstendur af þeim skipverjum sem ráðnir eru til starfa um borð í skip, þ.m.t. skipstjóra.
4. Áritun er viðurkenning skírteina erlendra ríkisborgara til starfa á íslenskum skipum samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
5. Brúttótonn er mælieining fyrir heildarstærð skips eins og hún er ákvörðuð samkvæmt ákvæðum alþjóðasamþykktar um skipamælingar frá 23. júní 1969 og ákvæðum skipalaga. Skip sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd mælast samkvæmt ákvæðum alþjóðasamþykktar um skipamælingar frá 23. júní 1969. Skip sem eru styttri en 15 metrar að mestu lengd mælast samkvæmt ákvæðum reglugerðar um mælingu skipa með lengd allt að 24 metrum.
6. Farsvið er nánari landfræðileg skilgreining á því hafsvæði sem skipi er heimilt að sigla um að teknu tilliti til smíði, ástands og stærðar skips, búnaðar þess, mönnunar og umhverfisþátta.
7. Farþegabátur er hvert fljótandi far, skrásett sem farþegabátur, sem hefur heimild til að flytja að hámarki tólf farþega á sjó, ám eða vötnum, til og frá landinu, milli hafna innan lands og utan.
8. Farþegaskip er hvert það skip, skrásett sem farþegaskip, sem hefur heimild til að flytja fleiri en tólf farþega á sjó, ám eða vötnum, til og frá landinu, milli hafna innan lands og utan.
9. Fiskari er hver sá eða sú sem starfar eða er ráðinn eða ráðin til vinnu á fiskiskipi, þ.m.t. þau sem eru ráðin upp á aflahlut. Hafnsögumenn, löggæsluaðilar, aðrir aðilar í fastri þjónustu hins opinbera, starfsmenn í landi sem sinna störfum um borð í fiskiskipum eða eftirlitsmenn með fiskveiðum teljast ekki vera fiskarar.
10. Fiskiskip er hvert það skip, skrásett sem fiskiskip samkvæmt skipalögum, sem notað er í atvinnuskyni til að veiða fisk eða aðrar lífrænar auðlindir hafsins.
11. Fjarskiptamaður er lögmætur handhafi skírteinis sem er gefið út eða viðurkennt af Samgöngustofu samkvæmt ákvæðum alþjóðafjarskiptareglna og sem gegnir þeirri stöðu um borð í skipi.
12. Flutningaskip er hvert það skip, skrásett sem flutningaskip, sem siglir með varning til og frá landinu, milli hafna innan lands og utan.
13. Framhaldsskóli og fræðslustofnun er aðili sem annast fræðslu og hefur til þess viðurkenningu ráðuneytis sem fer með menntamál.
14. Frístundafiskiskip er hvert það skip, skrásett sem frístundafiskiskip samkvæmt skipalögum, sem í atvinnuskyni er leigt út til frístundaveiða.
15. Innanlandssigling er sigling innan íslenskrar fiskveiðilögsögu.
16. ISM-kóðinn er alþjóðlegur kóði um öryggisstjórnun skipa og mengunarvarnir sem samþykktur var af Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO) með ályktun IMO-þingsins A.741(18) frá 4. nóvember 1993, með áorðnum breytingum.
17. Lögskráning er lögformleg skráning skipverja um borð í skip í gegnum lögskráningarkerfi sjómanna.
18. Lögskráningarkerfi sjómanna er rafrænn gagnagrunnur sem heldur utan um lögskráningu sjómanna. Þar eru skráðar nauðsynlegar upplýsingar í tengslum við útgáfu skírteina sjómanna, þ.m.t. um menntun, þjálfun, siglingatíma og öryggisfræðslu. Auk þess geymir það upplýsingar um útgefin skírteini, haffæri skipa samkvæmt skipaskrá, lögskráningar á einstök skip, áhafnaskrá, kröfur um lágmarksmönnun skipa og frávik frá þeim, undanþágur, áhafnartryggingar, farþegaleyfi farþegaskipa í áætlunarsiglingum og farþegaskipa og farþegabáta í útsýnis-, skoðunar- og veiðiferðum.
19. MLC-alþjóðasamþykktin er samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) um vinnuskilyrði farmanna frá árinu 2006 með þeim breytingum sem íslenska ríkið hefur fullgilt.
20. Siglingatími er viðurkenndur starfstími um borð í skipi sem er í förum og krafist er vegna útgáfu skírteinis samkvæmt lögum þessum.
21. Skemmtibátaskírteini er skjal sem er í gildi og er staðfesting á réttindum samkvæmt ákvæðum 11. gr. og reglugerða settra samkvæmt þeim.
22. Skemmtibátur er skip, skrásett sem skemmtiskip samkvæmt skipalögum, sem er ekki notað í atvinnuskyni og ætlað til skemmtisiglinga, óháð þeirri orku sem knýr skipið.
23. Skip er hvert það skip sem skráð er samkvæmt skipalögum.
24. Skipherra er sá eða sú sem fer með æðsta vald á varðskipi.
25. Skipstjóri er sá eða sú sem fer með æðsta vald á skipi.
26. Skipstjórnarmaður er hver sá eða sú sem fullnægt hefur þeim skilyrðum sem lög þessi kveða á um til að fá útgefið skírteini til skipstjórnar.
27. Skipverji er sá eða sú sem er ráðinn til starfa á skipi samkvæmt ákvæðum sjómannalaga.
28. Skírteini er staðfesting á réttindum samkvæmt ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Í skírteininu er tilgreint á hvaða ábyrgðarsviði handhafi þess má vinna, á skipi hvaða gerðar og stærðar og með hvaða vélarafli og vélbúnaði.
29. Skráningarlengd er sú lengd skips sem lögð er til grundvallar við stærðarmælingu þess samkvæmt reglum um mælingar skipa.
30. Smáskip eru skip sem eru 15 metrar að skráningarlengd eða styttri.
31. SOLAS-alþjóðasamningurinn er alþjóðasamningur um öryggi mannslífa á hafinu frá 1974 með þeim breytingum sem íslenska ríkið hefur fullgilt.
32. STCW-alþjóðasamþykktin er alþjóðasamþykkt Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna frá 1978 með þeim breytingum sem íslenska ríkið hefur fullgilt.
33. STCW-F-alþjóðasamþykktin er alþjóðasamþykkt Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar fiskiskips frá 1995 með þeim breytingum sem íslenska ríkið hefur fullgilt.
34. Strandsigling er sigling innan 50 sjómílna frá landi.
35. Stýrimaður er stýrimaður sem er lægra settur en yfirstýrimaður.
36. Undirvélstjóri er vélstjóri sem er lægra settur en yfirvélstjóri eða annar vélstjóri.
37. Útgerð er sú sem mannar skipið, ræður ferðum þess, ber kostnaðinn af þeim og nýtur arðsins af þeim.
38. Varðskip er skip, skrásett sem varðskip eða gæsluskip samkvæmt skipalögum, sem notað er til landhelgisgæslu og björgunarstarfa undir yfirstjórn Landhelgisgæslu Íslands.
39. Vélarafl er mesta samfellda heildarhámark ásafls allra aðalvéla skipsins í kílóvöttum (kW) eins og það er skráð í skráningarskírteini skipsins eða öðrum opinberum skjölum.
40. Vélavörður er sá eða sú sem hefur lokið vélstjórnarnámi samkvæmt reglugerð.
41. Vélstjórnarmaður er hver sá eða sú sem fullnægt hefur þeim skilyrðum sem lög þessi kveða á um til að fá útgefið skírteini til vélstjórnar.
42. WFC-alþjóðasamþykktin er samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um vinnu við fiskveiðar frá árinu 2007 með síðari breytingum.
43. Yfirstýrimaður er skipstjórnarmaður sem gengur næst skipstjóra og tekur við skipstjórn í forföllum hans.
44. Yfirvélstjóri er æðsti vélstjóri um borð og ber ábyrgð á vélum sem knýja skipið og rekstri og viðhaldi vél- og rafbúnaðar þess.
45. Þjónustusamningur er samningur milli útgerðar og þjónustuaðila í landi um viðhald vélbúnaðar skips sem er 15 metrar eða styttra að skráningarlengd og með vélarafl 250–750 kW og staðfestur er af Samgöngustofu.
46. Önnur skip eru hver þau skip sem ekki teljast vera farþegaskip, farþegabátar, flutningaskip, fiskiskip, skemmtibátar eða varðskip samkvæmt lögum þessum.
47. Öryggismönnun er ákvörðun Samgöngustofu um lágmarksfjölda í áhöfn farþegabáta eða farþega- og flutningaskipa skv. 15. gr.
3. gr. Menntun og þjálfun áhafna.
Framhaldsskólar og fræðslustofnanir annast menntun og þjálfun áhafna skipa. Um inntökuskilyrði, námskrá, nám, námstilhögun, námsmat og námsstig til öflunar tiltekinna skírteina fer samkvæmt lögum þessum, lögum um framhaldsskóla og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Samgöngustofa og viðeigandi starfsgreinaráð skulu veita umsögn um námskrár. Öryggisfræðslu sjómanna annast Slysavarnaskóli sjómanna og staðfestir ráðherra sem fer með samgöngumál námskrá skólans. Námskrár skulu uppfylla kröfur sem viðeigandi alþjóðasamþykktir gera.
Nám og kennsla í framhaldsskólum til atvinnuréttinda samkvæmt lögum þessum, sem og öryggisfræðsla, skal vera samkvæmt viðurkenndu gæðastjórnunarkerfi. Samgöngustofa hefur eftirlit með að námskrár, nám og kennsla í framhaldsskólum, sem er skilyrði skírteina samkvæmt lögum þessum, uppfylli kröfur viðeigandi alþjóðasamninga og skal á fimm ára fresti ganga úr skugga um að svo sé.
Auk framhaldsskóla getur Samgöngustofa veitt fræðslustofnunum, sem hafa starfsleyfi yfirvalda menntamála og teljast ekki framhaldsskólar, heimild til að bjóða upp á smáskipanám. Skulu þær uppfylla kröfur sem Samgöngustofa setur um kennsluaðstöðu, tækjabúnað, kennara, hæfi leiðbeinanda og námsmat. Samgöngustofa hefur eftirlit með að smáskipanám uppfylli kröfur námskrár. Námskröfur til smáskipanáms skulu tilgreindar í námskrá sem yfirvöld menntamála taka saman og birta að höfðu samráði við Samgöngustofu og ráðuneyti sem fer með samgöngumál.
II. kafli. Skírteini.
4. gr. Útgáfa skírteina.
Samgöngustofa gefur út skírteini og áritanir samkvæmt lögum þessum og skal útgáfa þeirra fara eftir viðurkenndu gæðastjórnunarkerfi. Samgöngustofu er heimilt að fela öðrum að gefa út skírteini að því marki sem alþjóðaskuldbindingar heimila. Samgöngustofa heldur skrá yfir útgefin skírteini og áritanir sem og yfir skírteini sem eru útrunnin, endurnýjuð, felld úr gildi, afturkölluð, ógilt eða tilkynnt sem týnd eða ónýt.
Sá einn eða sú ein sem er lögmætur handhafi skírteinis hefur rétt til að gegna því starfi sem skírteinið kveður á um. Skipverji skal alltaf geta framvísað skírteini samkvæmt lögum þessum þegar hann gegnir störfum.
5. gr. Skilyrði fyrir útgáfu skírteina.
Íslenskur ríkisborgari og hver ríkisborgari á Evrópska efnahagssvæðinu sem fullnægir skilyrðum um aldur, menntun og þjálfun, öryggisfræðslu, fjarskiptakunnáttu, siglingatíma, heilbrigði, sjón og heyrn á rétt á því að fá útgefið viðeigandi skírteini sér til handa og starfa samkvæmt því um borð í skipum. Þennan rétt á einnig ríkisborgari frá ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins sem lokið hefur menntun og þjálfun á Evrópska efnahagssvæðinu og hefur viðeigandi hæfnisskírteini því til staðfestingar.
Um heimild erlends ríkisborgara til að starfa á íslenskum skipum fer skv. 8. gr. Til að starfa sem skipstjóri skal viðkomandi hafa staðist námskeið um kunnáttu á íslenskum lögum og reglum er varða þau störf sem hann fær réttindi til að gegna.
Umsækjandi um skip- og vélstjórnarskírteini skal hafa náð 18 ára aldri.
Umsækjandi skal hafa lokið tilteknu stigi skip- eða vélstjórnarnáms samkvæmt prófskírteini framhaldsskóla eða fræðslustofnunar, sbr. 3. gr.
Umsækjandi skal uppfylla kröfur í reglugerð um tiltekinn siglingatíma. Hann skal færa sönnur á siglingatíma sem hann telur sig hafa að baki, þ.e. lögskráðan siglingatíma og útfyllta og áritaða sjóferðabók.
Umsækjandi um skírteini skipstjórnarmanns skal uppfylla kröfur til þess að öðlast og viðhalda skírteini fjarskiptamanns.
Handhafar farþega- og flutningaskipaskírteina eiga rétt til útgáfu sambærilegra skírteina til starfa á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum enda séu viðeigandi skilyrði uppfyllt.
6. gr. Heilbrigðisvottorð.
Umsækjandi um skírteini skipstjórnarmanns eða vélstjórnarmanns skal vera svo heill heilsu að hann geti rækt störf sín af öryggi. Skal umsækjandi leggja fram vottorð læknis um að hann uppfylli skilyrði um sjón og heyrn sem og aðrar heilbrigðiskröfur samkvæmt reglugerð.
Þeir sem bera ábyrgð á því að meta heilbrigði umsækjanda til skírteinis til starfa á farþega- og flutningaskipi skv. 1. mgr. skulu vera læknar sem eru viðurkenndir af Samgöngustofu.
7. gr. Gildistími og endurnýjun skírteina.
Skírteini sem gefin eru út samkvæmt lögum þessum skulu gilda í fimm ár frá útgáfudegi. Samgöngustofu er heimilt að gefa út skírteini til skemmri tíma ef skilyrðum um útgáfu skírteina til fimm ára er ekki fullnægt. Heimilt er vegna sérstakra aðstæðna að gefa út bráðabirgðaskírteini sem gildir í allt að 60 daga.
Skírteini til skipstjórnar og vélstjórnar á skipum öðrum en skemmtibátum skulu endurnýjuð til fimm ára í senn. Skírteini sem ekki falla undir alþjóðasamþykktir skulu endurnýjuð til tíu ára í senn. Við endurnýjun skírteina skal umsækjandi hafa viðeigandi fjarskiptaskírteini og fullnægja sömu heilbrigðiskröfum og kröfum til öryggisfræðslu og þarf til að öðlast skírteini. Auk þess skal umsækjandi:
1. hafa að baki siglingatíma í stöðu sem skírteini veitir honum rétt til í að minnsta kosti tólf mánuði á síðustu fimm árum,
2. hafa verið í starfi sem samsvarar viðkomandi skírteini og telst að minnsta kosti sambærilegt við siglingatíma sem krafist er skv. 1. tölul.,
3. standast viðurkennt próf,
4. ljúka á fullnægjandi hátt viðurkenndu endurmenntunarnámskeiði, eða
5. hafa siglingatíma sem yfirmaður í a.m.k. þrjá mánuði í næstu lægri stöðu sem hann á tilkall til samkvæmt skírteini sínu.
Uppfylli umsækjandi allar kröfur til skírteinis aðrar en um siglingatíma skv. 2. mgr. á hann rétt á skírteini í næsta réttindaflokki fyrir neðan.
Endurmenntunarnámskeið samkvæmt þessari grein skulu samþykkt af Samgöngustofu og skal á þeim meðal annars farið yfir nýlegar breytingar á alþjóðareglum um öryggi mannslífa á sjó og varnir gegn mengun sjávar.
8. gr. Áritun erlendra skírteina.
Samgöngustofa áritar erlend skírteini í samræmi við lög þessi og reglugerðir settar samkvæmt þeim. Skírteini gefin út af ríki sem er ekki aðili að STCW- eða STCW-F-alþjóðasamþykktunum eða af ríki sem er aðili að þeim en hefur ekki fullnægt kröfum þeirra skulu ekki árituð. Samgöngustofu er heimilt að veita í allt að þrjá mánuði lögmætum handhöfum erlendra skírteina leyfi til að gegna tilteknu starfi á tilteknu skipi, þar sem krafist er skírteinis, ef lögð eru fram vottorð eða skírteini sem eru í gildi á meðan eða þar til Samgöngustofa hefur sannreynt viðkomandi gögn og viðurkennt erlenda skírteinið enda geti viðkomandi skilið fyrirmæli yfirmanna skipsins og stjórnað verkum í þeirra umboði.
9. gr. Afturköllun skírteinis.
Samgöngustofu er heimilt að afturkalla skírteini ef lögmætur handhafi þess fullnægir ekki lengur skilyrðum laga þessara eða reglna settra samkvæmt þeim til að vera skírteinishafi. Þá er stofnuninni heimilt að afturkalla skírteini hafi það verið gefið út á röngum forsendum eða fyrir mistök.
10. gr. Undanþágur.
Í undantekningartilfellum og þegar einstaklinga með tilskilin skírteini vantar til starfa getur Samgöngustofa, telji hún að öryggi mannslífa, eigna eða umhverfis verði ekki stefnt í hættu, veitt einstaklingi undanþágu til að gegna stöðu á tilteknu skipi þótt hann hafi ekki tilskilin réttindi. Undanþágu í umrædda stöðu má þó ekki veita lengur en til sex mánaða enda sé viðkomandi að mati Samgöngustofu hæfur til að annast starfið á öruggan hátt.
Undanþáguna má aðeins veita þeim sem hefur skírteini til að gegna næstu lægri stöðu eða hefur lokið tilskildu námi til öflunar skírteinis í þá stöðu sem sótt er um undanþágu fyrir. Ef ekki er krafist skírteinis í næstu lægri stöðu má veita þeim undanþágu sem að mati Samgöngustofu hefur til þess þekkingu og reynslu. Við mat á tímalengd undanþágu skal til að mynda horft til forsendna þess að undanþága er veitt, hvort hún er tilkomin vegna skorts á einstaklingum með tilskilin réttindi eða hvort einstakling skortir tiltekinn siglingatíma til að öðlast tilskilin réttindi, hvort umsækjandi sé í námi til öflunar réttinda og framvindu náms. Undanþágu má ekki veita til að gegna stöðu skipstjóra eða yfirvélstjóra nema í neyðartilvikum og þá aðeins í sem skemmstan tíma.
Undanþágu má ekki veita sem fer gegn ákvæðum alþjóðasamþykktanna.
11. gr. Skemmtibátar.
Sá eða sú sem er lögmætur handhafi skemmtibátaskírteinis til stjórnunar skráningarskylds skemmtibáts hefur rétt til að annast stjórn hans. Handhafar aukinna skipstjórnarréttinda hafa sama rétt. Samgöngustofu er heimilt að gefa út skírteini að uppfylltum skilyrðum um aldur, menntun og þjálfun, öryggisfræðslu, fjarskiptakunnáttu, siglingatíma, heilbrigði, farsvið, sjón og heyrn.
Þau sem stjórna skemmtibátum sem skrásettir eru erlendis en falla undir gildissvið þessara laga skulu uppfylla kröfur þessarar greinar eða vera handhafar annars sambærilegs erlends skírteinis að mati Samgöngustofu.
12. gr. Frístundafiskiskip.
Sá eða sú sem er lögmætur handhafi skemmtibátaskírteinis til strand- eða úthafssiglinga eða handhafi annars sambærilegs erlends skírteinis að mati Samgöngustofu hefur rétt til að annast stjórn frístundafiskiskips enda hafi viðkomandi jafnframt fengið fullnægjandi kennslu á skipið, m.a. á björgunarbúnað þess, fjarskiptatæki, siglingakort og helstu undirstöðuatriði siglingafræði og siglingareglna.
Sá eða sú sem gerir út frístundafiskiskip ber ábyrgð á að stjórnendur frístundafiskiskipa hafi fullnægjandi réttindi á frístundafiskiskip og hafi auk þess fengið fullnægjandi kennslu á skipin áður en lagt er úr höfn og séu hæfir til þess að annast stjórn skipanna á öruggan hátt, með tilliti til öryggis mannslífa, eigna og umhverfis. Skal viðkomandi jafnframt vera í stöðugu fjarskiptasambandi við stjórnendur skipanna eftir að þau leggja úr höfn.
III. kafli. Lögskráning sjómanna.
13. gr. Lögskráningarkerfi sjómanna.
Samgöngustofa annast rekstur og viðhald lögskráningarkerfis sjómanna.
Lögskráning fer fram rafrænt. Samgöngustofa hefur umsjón með úthlutun aðgangs að lögskráningarkerfinu til lögskráningar á tiltekið skip að fenginni umsókn útgerðar skipsins samkvæmt skipaskrá. Útgerð er heimilt að fela skipstjóra eða öðrum starfsmönnum sínum að annast lögskráninguna. Útgerð getur jafnframt óskað eftir því við Samgöngustofu að lögskrá áhöfn skipsins.
Upplýsingar úr lögskráningarkerfi sjómanna skulu aðeins veittar þeim sem hafa lögvarða hagsmuni og skal fylgt ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga um veitingu upplýsinga.
14. gr. Lögskráningarskylda.
Óheimilt er skipstjóra að halda úr höfn nema allir skipverjar hafi verið lögskráðir á skipið, séu með gilt atvinnuskírteini eða undanþágu í þá stöðu sem þeir eru lögskráðir í, skipið sé með gilt haffærisskírteini, skipið sé mannað miðað við stærð þess, vélarafl, farsvið og útivist, staðfestingu á að skipverji hafi hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna eða á annan hátt og með gilda áhafnartryggingu fyrir alla um borð. Þetta gildir þó ekki í neyðartilvikum.
Þegar veru skipverja um borð lýkur skal skipstjóri sjá til þess að viðkomandi sé afskráður. Samgöngustofa skal afskrá sjómann þegar skip hefur ekki lengur haffæri, áhafnartrygging skipsins er útrunnin eða atvinnuskírteini hans útrunnið. Skal Samgöngustofa tilkynna viðkomandi um að hann hafi verið afskráður.
Ef útgerð vanrækir að hafa líf- og slysatryggingu í gildi er hún ábyrg fyrir viðkomandi bótagreiðslum. Reynist útgerð eigi fær um greiðslu slíkra bóta ber ríkissjóður fulla ábyrgð á greiðslu þeirra.
Lögskrá skal farþega eða aðra um borð í skipum öðrum en farþegaskipum og farþegabátum sem ekki teljast skipverjar.
IV. kafli. Mönnun og frávik.
15. gr. Öryggismönnun farþegaskipa, farþegabáta og flutningaskipa.
Manna skal sérhvert íslenskt farþegaskip, farþegabát og flutningaskip á öruggan hátt svo að unnt sé að sinna öllum þáttum sem tryggja öryggi áhafnar, farþega og skips. Farþegaskip, farþegabáta og flutningaskip skal manna þannig að unnt sé að fylgja öllum lögum og reglum um verndun umhverfis, einkum er varðar mengunarvarnir sjávar og lífríkis.
Við ákvörðun um fjölda skipverja og stöðuheiti á farþegaskipum og flutningaskipum skal taka fullt tillit til alþjóðlegra skuldbindinga samkvæmt STCW-alþjóðasamþykktinni og krafna þeirra um siglingatíma, aldur, heilbrigði, menntun og þjálfun, hæfni og próf. Við mönnun farþegaskipa og flutningaskipa skal tekið sérstakt tillit til skipulags vakta um borð og nauðsynlegs hvíldartíma skipverja í samræmi við MLC- og STCW-alþjóðasamþykktirnar.
Samgöngustofa ákveður mönnun farþegaskipa, farþegabáta og flutningaskipa að fenginni tillögu útgerðar.
Samgöngustofa gefur út öryggismönnunarskírteini fyrir farþegaskip og flutningaskip þar sem kveðið er á um lágmarksfjölda í áhöfn, samsetningu áhafnar og skírteini fyrir einstakar stöður. Þegar um er að ræða farþegaskip eða farþegabát sem er einungis í strandsiglingum skal, í stað þess að gefa út sérstakt öryggismönnunarskírteini, tilgreina lágmarksmönnun í því farþegaleyfi sem Samgöngustofa gefur út.
Farþegaflutningar í atvinnuskyni, þ.m.t. útsýnis-, skoðunar- og veiðiferðir ferðamanna, með skipum sem lög þessi gilda um eru háðir leyfi Samgöngustofu samkvæmt skipalögum.
16. gr. Lágmarksfjöldi skipstjórnarmanna á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum.
Á hverju fiskiskipi og öðru skipi skal vera skipstjóri.
Um fjölda stýrimanna á fiskiskipum og öðrum skipum fer sem hér segir:
a. Á skipi sem er 15 metrar að skráningarlengd og styttra er heimilt að vera án stýrimanns sé útivist 14 klst. á hverju 24 klst. tímabili eða styttri. Fari útivist skipsins yfir 14 klst. skal auk skipstjóra vera stýrimaður um borð. Þegar eigandi skips samkvæmt skipaskrá er lögskráður sem skipstjóri og er einn um borð þarf ekki stýrimann þótt útivist fari yfir 14 klst.
b. Á skipi sem er lengra en 15 metrar og styttra en 24 metrar að skráningarlengd skal vera stýrimaður ef útivera skips fer fram úr 14 klst. á hverju 24 klst. tímabili. Á skipi þar sem daglegur útivistartími er 14 klst. eða styttri er heimilt að vera án stýrimanns.
c. Á skipi sem er 24 metrar að skráningarlengd eða lengra en styttra en 45 metrar að skráningarlengd skal vera stýrimaður.
d. Á skipi sem er 45 metrar eða lengra að skráningarlengd skulu vera tveir stýrimenn.
Á hverju varðskipi skal vera skipherra. Um fjölda stýrimanna á varðskipum fer sem hér segir:
a. Á skipi sem er styttra en 24 metrar að skráningarlengd skal vera stýrimaður.
b. Á skipi sem er 24 metrar að skráningarlengd eða lengra en styttra en 45 metrar að skráningarlengd skulu vera tveir stýrimenn.
c. Á skipi sem er 45 metrar eða lengra að skráningarlengd skulu vera þrír stýrimenn.
Lágmarksfjöldi skipstjórnarmanna skal að öðru leyti taka mið af úthaldi skips og tryggja að ákvæðum 64. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, um vinnu- og hvíldartíma sjómanna á fiskiskipum sé fullnægt ásamt ákvæðum reglugerðar um sama efni.
17. gr. Lágmarksfjöldi vélstjórnarmanna á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum.
Um fjölda vélstjórnarmanna á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum fer sem hér segir:
a. Á skipi með vélarafl frá og með 250 kW til og með 750 kW skal vera:
1. Smáskipavélavörður, sé skipið 15 metrar að skráningarlengd eða styttra, enda sé útivist skipsins 14 klst. á hverju 24 klst. tímabili eða styttri. Fari útivist yfir 14 klst. skal jafnframt vera annar smáskipavélavörður. Smáskipavélavörður má vera hinn sami og skipstjórnarmaður hafi hann tilskilin réttindi til að gegna báðum stöðum. Þegar eigandi skips samkvæmt skipaskrá er lögskráður sem smáskipavélavörður og skipstjóri og er einn um borð þarf ekki annan smáskipavélavörð þótt útivist fari yfir 14 klst.
2. Yfirvélstjóri og vélavörður, sé skipið lengra en 15 metrar að skráningarlengd, ef útivera skips fer fram úr 14 klst. á hverju 24 klst. tímabili. Á skipi þar sem daglegur útivistartími er 14 klst. á hverju 24. klst. tímabili eða styttri er heimilt að vera án vélavarðar.
b. Á skipi með vélarafl frá og með 751 kW til og með 1.800 kW skal vera yfirvélstjóri og annar vélstjóri.
c. Á skipi með vélarafl yfir 1.800 kW skal vera yfirvélstjóri, annar vélstjóri og undirvélstjóri.
Að uppfylltum skilyrðum samkvæmt reglugerð er ekki skylt að smáskipavélavörður sé í áhöfn skips sem er 15 metrar eða styttra að skráningarlengd ef gerður hefur verið samningur við þjónustuaðila um viðhald vélbúnaðar skipsins og sá samningur er staðfestur af Samgöngustofu. Ábyrgð á að viðhaldi samkvæmt slíkum samningi sé sinnt hvílir á útgerð.
Lágmarksfjöldi vélstjórnarmanna skal að öðru leyti taka mið af úthaldi skips og tryggja að ákvæðum 64. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, um vinnu- og hvíldartíma sjómanna á fiskiskipum sé fullnægt ásamt ákvæðum reglugerðar um sama efni.
18. gr. Frávik frá lágmarksmönnun.
Samgöngustofa hefur heimild til að ákveða frávik frá ákvæðum 16. og 17. gr. um lágmarksfjölda skipstjórnar- og vélstjórnarmanna á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum eftir því sem tilefni gefst til, svo sem vegna tæknibúnaðar, gerðar og/eða verkefnis skips þar sem meðal annars skal taka tillit til vinnuálags sem breytingin kann að hafa í för með sér.
Samgöngustofa skráir ákvarðanir sínar í lögskráningarkerfi sjómanna.
19. gr. Matsveinar og brytar.
Þegar útivist skips sem notað er í atvinnuskyni er lengri en 48 klst. skal vera matsveinn eða bryti um borð sem lokið hefur matsveina- eða matreiðslunámi. Ef ekki fæst matsveinn með tilskilin réttindi má ráða þann sem sótt hefur viðurkennt matreiðslunámskeið eða starfað sem matsveinn á skipum í tilskilinn tíma. Um starf bryta eða matsveins fer eftir ákvæðum sjómannalaga.
V. kafli. Vaktstaða og vinnu- og hvíldartími skipverja.
20. gr. Vaktstaða.
Skipstjóri skal tryggja að fyrirkomulag vakta sé á þann veg að ávallt sé staðin örugg vakt um borð, hvort sem skipið er á siglingu, á reki, á legu eða við akkeri. Skipstjóri farþega- og flutningaskips skal jafnframt tryggja að ávallt sé staðin örugg vakt um borð þegar skip er í höfn. Skal vaktafyrirkomulag samræmast ákvæðum sjómannalaga um vinnu- og hvíldartíma. Undir yfirumsjón skipstjóra eru stýrimenn ábyrgir fyrir öruggri siglingu skipsins á sinni vakt og ber þeim sérstaklega að varast árekstur og strand.
Yfirvélstjóri er ábyrgur fyrir öruggri vakt í vélarrúmi og skal tryggja að vélstjóri sé tiltækur til að gegna vakt í ómönnuðu vélarrúmi og standa þar vaktir ef þörf krefur.
Þau sem gegna starfi fjarskiptamanns eru á sinni vakt ábyrg fyrir samfelldri hlustun á viðeigandi tíðnum.
Vaktir skulu þannig skipulagðar að þau sem standa vakt séu ávallt vel hvíld svo að ekki dragi úr árvekni þeirra. Sérstaklega skal þessa gætt við fyrstu vakt og í upphafi sjóferðar.
21. gr. Vinnu- og hvíldartími á íslenskum skipum.
Miða skal við að mörk vinnu- eða hvíldartíma séu annaðhvort:
1. hámarksvinnutími sem ekki má vera lengri en 14 klst. á hverju 24 klst. tímabili og 72 klst. á hverju sjö daga tímabili, eða
2. lágmarkshvíldartími sem ekki má vera skemmri en 10 klst. á hverju 24 klst. tímabili og 77 klst. á hverju sjö daga tímabili. Hvíldartíma má ekki skipta á fleiri tímabil en tvö og skal annað vara að lágmarki í 6 klst. og ekki skulu líða meira en 14 klst. á milli tveggja hvíldartíma.
Vaktafyrirkomulag og heildarmönnun fiskiskipa skal ávallt hagað þannig að vinnu- og hvíldartími áhafnar sé í samræmi við 1. mgr. Þó á 1. mgr. ekki við um eiganda skips samkvæmt skipaskrá þegar hann er lögskráður sem skipstjóri og er einn um borð.
Heimilt er með reglugerð eða í kjarasamningum að víkja frá ákvæðum 1. mgr. vegna hlutlægra eða tæknilegra ástæðna eða ástæðna er varða skipulag vinnunnar enda sé slíkt í samræmi við almennar meginreglur um verndun öryggis og heilbrigðis sjómanna. Frávik samkvæmt kjarasamningum skulu tilkynnt til Samgöngustofu.
Skipstjóri getur ávallt krafist þess að skipverji vinni þann fjölda vinnustunda sem nauðsynlegur er fyrir öryggi skipsins, allra um borð, farms og annarra fjármuna sem á skipi eru eða til að koma til hjálpar öðrum skipum eða mönnum í sjávarháska.
22. gr. Vinnu- og hvíldartími á erlendum farþega- og flutningaskipum.
Ákvæði 21. gr. tekur einnig til erlendra skipa sem fara um íslenskar hafnir.
Samgöngustofu er heimilt að framkvæma skoðun um borð í erlendum skipum sem fara um íslenskar hafnir til að ganga úr skugga um fyrirkomulag vinnu- og hvíldartíma og skipulag vakta um borð. Um framkvæmd skoðana fer eftir ákvæðum laga og reglna um hafnarríkiseftirlit. Samgöngustofa skal, ef kvörtun berst sem augljóslega er ekki tilefnislaus eða ef hún fær sannanir um að fyrirkomulag vinnu- og hvíldartíma um borð er ekki í samræmi við lög þessi eða reglur settar samkvæmt þeim, tilkynna skráningarríki skipsins um niðurstöðu skoðunar sem gerð hefur verið. Samgöngustofu er óheimilt að veita skipstjóra eða eiganda skipsins sem um ræðir neinar upplýsingar um þann sem ber fram kvörtun.
Ef skoðun leiðir í ljós að aðbúnaður um borð stofnar öryggi og heilsu áhafnarinnar sannanlega í hættu skal Samgöngustofa gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að úrbætur verði gerðar, t.d. með því að leggja farbann á skipið. Slíkt farbann skal tilkynnt skipstjóra, eiganda eða útgerð skipsins, fánaríki og skráningarríki skipsins.
VI. kafli. Vinnuskilyrði og heilsa skipverja.
23. gr. Skráning og ráðning.
Fyrirtæki sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu skipverja skulu starfa í samræmi við viðurkennd gæðastjórnunarkerfi að fengnu leyfi frá Samgöngustofu.
Skráningar- og ráðningarþjónusta skal vera skilvirk, fullnægjandi, áreiðanleg og skipverjum að kostnaðarlausu til að skipverjar geti fundið störf um borð í skipi.
Samgöngustofa hefur eftirlit með að skráningar- og ráðningarþjónusta skipverja uppfylli kröfur samkvæmt alþjóðaskuldbindingum íslenska ríkisins.
24. gr. Orlof.
Um orlof skipverja fer eftir lögum um orlof. Orlof skal þó aldrei vera minna en 2,5 almanaksdagar fyrir hvern unninn mánuð á síðasta orlofsári nema kveðið sé á um annað viðmið í reglugerð sem tekur mið af sérstökum þörfum farmanna. Óheimilt er að semja um niðurfellingu launaðs lágmarksorlofs.
25. gr. Heimferð.
Skipverji sem hefur verið á sama skipi eða hjá sömu útgerð samfleytt í níu mánuði á rétt á ókeypis heimferð, kostaðri af útgerð, í eftirfarandi tilvikum:
1. ef ráðningarsamningur fellur úr gildi á meðan skipverji er um borð,
2. þegar ráðningarsamningi er rift af hálfu útgerðar,
3. þegar ráðningarsamningi er rift af hálfu skipverja ef gild ástæða liggur að baki,
4. þegar skipverji getur ekki lengur gegnt skyldum sínum samkvæmt ráðningarsamningi eða ekki er hægt að ætlast til þess að hann geti gegnt þeim sökum sérstakra kringumstæðna.
Skipverji verður ekki krafinn um greiðslu heimferðar fyrir fram og heimferðarkostnaður verður ekki dreginn af launum eða öðrum réttindum nema í þeim tilvikum þegar skipverji hefur brotið alvarlega gegn skyldum sínum í starfi.
Útgerð skips, bæði íslenskra skipa og erlendra skipa sem fara um íslenskar hafnir, skal leggja fram tryggingu til að sjá til þess að skipverji njóti viðeigandi heimferðar í samræmi við 1. mgr. Vanræki útgerð að gera slíkar ráðstafanir gerir Samgöngustofa ráðstafanir um heimferð skipverja. Samgöngustofa gerir ekki ráðstafanir um heimferð skipverja erlendra skipa sem fara um íslenskar hafnir nema erlenda ríkið hafi ekki eða hyggist ekki gera ráðstafanir um heimferð skipverja.
Þegar þær aðstæður eru fyrir hendi sem um getur í 3. mgr., eða Samgöngustofa hefur gert ráðstafanir í tengslum við heimferð í öðrum tilvikum, getur Samgöngustofa lagt farbann á skipið þar til trygging hefur verið lögð fram eða endurgreiðsla vegna heimferðar hefur farið fram. Slíkt farbann skal tilkynnt skipstjóra, eiganda eða útgerð skipsins og fánaríki og skráningarríki skipsins þegar við á. Eigandi eða útgerð skipsins getur kært farbann til ráðherra og fer um framkvæmd farbanns að öðru leyti samkvæmt skipalögum.
26. gr. Heilsuvernd, læknishjálp, velferð, tryggingavernd og önnur vinnuskilyrði.
Ef skipverji af einhverjum ástæðum nýtur hvorki velferðarréttinda hérlendis né í því landi sem skipverji nýtur réttinda, sem eru áþekk þeim sem tryggð eru hérlendis með lögum, ber útgerð skips að tryggja skipverja slík réttindi, svo sem með kaupum á tryggingum.
Vinnu á skipum skal haga og framkvæma þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta.
Fylgja skal viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Samgöngustofu, að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi.
27. gr. Heilbrigðiskröfur.
Allir skipverjar skulu vera svo heilir heilsu að þeir geti rækt störf sín af öryggi. Útgerð skal gera kröfu um að skipverjar á skipum leggi fram vottorð um að þeir uppfylli skilyrði um sjón og heyrn og aðrar heilbrigðiskröfur, sbr. þó 4. mgr.
Skipverjar á farþega- og flutningaskipum skulu leggja fram vottorð um að þeir uppfylli skilyrði um sjón og heyrn sem og aðrar heilbrigðiskröfur samkvæmt reglugerð.
Skipverjar á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum sem eru 24 metrar eða lengri að skráningarlengd eða halda út í þrjá daga eða lengur skulu leggja fram vottorð um að þeir uppfylli skilyrði um sjón og heyrn og aðrar heilbrigðiskröfur samkvæmt reglugerð.
Skipverjum á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum sem eru styttri en 24 metrar að skráningarlengd og halda út skemur en þrjá daga ber ekki að leggja fram vottorð samkvæmt þessari grein.
Vottorð samkvæmt þessari grein skal gilda í tvö ár. Ef skipverji er yngri en 18 ára skal gildistíminn vera eitt ár. Renni gildistími heilbrigðisvottorðs út meðan á ferð stendur heldur það gildi sínu til loka ferðar.
VII. kafli. Ábyrgð og öryggisstjórnun.
28. gr. Ábyrgð útgerðar og skipstjóra.
Útgerð og skipstjóri viðkomandi skips bera ábyrgð á því að ákvæðum þessara laga sé framfylgt við útgerð skips. Þeim ber að sjá til þess að eftirfarandi atriða sé gætt:
1. að öll þau sem ráðin eru um borð í skip séu lögmætir handhafar skírteina fyrir þá stöðu sem þau gegna og að skírteini skipverja sé varðveitt um borð og að öll um borð séu lögskráð sem og að öll þau sem eru lögskráð séu um borð,
2. að uppfærð og aðgengileg skrá sé haldin yfir alla skipverja og stöður þeirra um borð,
3. að mönnun skipa sé fullnægjandi með tilliti til útivistar,
4. að öllum nýráðnum skipverjum sé, áður en þeir hefja skyldustörf, kunnugt um skyldur sínar,
5. að skipverjar séu kunnugir starfsaðferðum um borð, tækjum, búnaði, verklagsreglum og neyðaráætlunum sem og sérstökum skilyrðum í tengslum við venjubundin skyldustörf og hlutverk á neyðarstundu,
6. að skipverjar geti með góðu móti unnið saman á neyðarstund og þegar mengunarhætta steðjar að,
7. að skipverjar geti tjáð sig sín á milli um grundvallaröryggismál og skilji upplýsingar um öryggisþætti, þ.m.t. tákn, merki og hljóðviðvörunarmerki, og að tryggt sé að allir nýráðnir skipverjar fái nauðsynlegar upplýsingar á tungumáli sem þeir skilja,
8. að um borð í skipum sé skilvirkt kerfi fyrir kvartanir skipverja vegna meintra brota gegn kröfum laga þessara og alþjóðasamþykkta, þ.m.t. gegn réttindum skipverja.
Skipstjóri skal tryggja að skjalfest sé að skilyrði skv. 4., 5., 7. og 8. tölul. 1. mgr. séu uppfyllt.
29. gr. Alþjóðlegt öryggisstjórnunarkerfi.
Á flutningaskipum sem eru 500 brúttótonn eða stærri og á farþegaskipum sem lög þessi taka til skal fylgt ákvæðum A-hluta ISM-kóðans um öryggisstjórnun skipa og mengunarvarnir. Skal Samgöngustofa eða viðurkenndur aðili gefa út samræmisskjal og öryggisstjórnunarskírteini í samræmi við ISM-kóðann.
Samgöngustofu er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum 6., 7., 9., 11. og 12. gr. kóðans enda séu teknar upp ráðstafanir sem veiti sambærilega vernd og kveðið er á um í kóðanum.
Ákvæði þessarar greinar gilda ekki um:
1. skip sem eru nýtt eingöngu í þágu hins opinbera en ekki í atvinnuskyni,
2. skip sem ekki eru knúin áfram með vélrænum hætti og tréskip með frumstæðu byggingarlagi nema þau séu eða verði mönnuð og látin flytja fleiri en tólf farþega í atvinnuskyni,
3. farþegaskip og farþegabáta í flokki C og D nema þau séu ekjufarþegaskip.
VIII. kafli. Eftirlit, gjöld og viðurlög.
30. gr. Eftirlit.
Samgöngustofa og Landhelgisgæsla Íslands hafa eftirlit með að lögum þessum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra sé fylgt.
Samgöngustofu, Landhelgisgæslu Íslands og öðrum eftirlitsaðilum er heimilt að nota lögskráningarkerfi sjómanna til eftirlits. Þá er heimilt að miðla upplýsingum með rafrænum hætti til vaktstöðvar siglinga vegna verkefna hennar og til lögreglu, Landhelgisgæslu Íslands og rannsóknarnefndar samgönguslysa þegar sakamál, mannshvarf eða samgönguslys eru rannsökuð.
Starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að fara um borð í íslensk skip á hafi sem í höfn og kanna lögmæti lögskráningar og skilríki um réttindi yfirmanna sem og hvort öðrum ákvæðum 28. gr. sé framfylgt.
31. gr. Þjónustugjöld.
Samgöngustofu er heimilt að innheimta þjónustugjöld vegna laga þessara í samræmi við 13. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012. Þjónustugjöld Samgöngustofu eru aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar, sbr. 15. gr. sömu laga.
Samgöngustofu er heimilt að innheimta gjald fyrir aðgang að lögskráningarkerfinu, lögskráningu, afskráningu sjómanns og skráningu frests vegna öryggisfræðslu sjómanns. Við ákvörðun gjalda skal leggja til grundvallar kostnað vegna launa starfsmanna og rekstrarkostnað vegna viðhalds og vistunar lögskráningarkerfisins.
Jafnframt er Samgöngustofu heimilt að innheimta gjald fyrir útgáfu skírteina og sjóferðabóka, áritun erlendra skírteina, veitingu undanþága og útgáfu öryggismönnunarskírteina samkvæmt lögum þessum. Skulu þau gjöld standa undir kostnaði Samgöngustofu sem af þjónustu hlýst. Jafnframt skal greiða gjald vegna kostnaðar sem til fellur vegna próftöku og námskeiða samkvæmt lögum þessum. Gjöld skulu ákveðin í gjaldskrá stofnunarinnar.
32. gr. Stjórnvaldssektir.
Landhelgisgæsla Íslands getur lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn eða uppfyllir ekki skilyrði eftirfarandi ákvæða og reglna sem settar eru samkvæmt þeim:
a. 1. mgr. 11. gr. um skírteini og menntun til að stjórna íslenskum skemmtibát,
b. 2. mgr. 11. gr. um skírteini og menntun til að stjórna erlendum skemmtibát,
c. 2. mgr. 12. gr. um ábyrgð rekstraraðila á að stjórnendur frístundafiskiskipa hafi fullnægjandi réttindi og hafi fengið fullnægjandi kennslu til að stjórna frístundafiskiskipi,
d. 1. mgr. 14. gr. um skyldur skipstjóra varðandi lögskráningu skipverja áður en haldið er úr höfn og kröfur um mönnun og tryggingar,
e. 1.–3. mgr. 20. gr. um vaktstöðu, þ.m.t. fyrir að fela öðrum en réttindahafa að bera ábyrgð á siglingavakt,
f. 1. mgr. 27. gr. um skyldu útgerðar til að tryggja að skipverji framvísi heilbrigðisvottorði,
g. 1.–3. tölul. 1. mgr. 28. gr. um ábyrgð útgerðar og skipstjóra.
Samgöngustofa getur lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn eða uppfyllir ekki skilyrði 2. mgr. 17. gr. um ábyrgð útgerðar á að viðhaldi vélbúnaðar skips sé sinnt og reglna sem settar eru samkvæmt þeim.
Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100–500 þús. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 200 þús. kr. til 2 millj. kr.
Við ákvörðun um fjárhæð sekta skal meðal annars taka tillit til þess hve lengi brot hefur staðið yfir, samstarfsvilja hins brotlega, hvort brot var framið af ásetningi eða gáleysi og hvort um ítrekað brot er að ræða. Landhelgisgæslu Íslands og Samgöngustofu er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili hagnast á broti. Skal upphæð stjórnvaldssektar þá ákveðin sem allt að tvöfalt margfeldi af þeim hagnaði sem aðili hefur aflað sér með broti gegn lögum þessum, þó innan ramma 3. mgr.
Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
Ákvörðun um stjórnvaldssekt er aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar. Stjórnvaldssektir renna í ríkissjóð, að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu.
Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
Aðili máls getur skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til ráðherra sem fer með samgöngumál innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málskot til ráðherra frestar aðför. Úrskurðir ráðherra um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfir.
33. gr. Bráðabirgðasvipting réttinda og önnur stjórnsýsluviðurlög.
Samgöngustofu er heimilt að svipta einstakling starfsréttindum til bráðabirgða fyrir grun um meiri háttar brot gegn ákvæðum laga þessara þar til fyrir liggur hvort einstaklingur verður látinn sæta refsingu á grundvelli 34. gr.
Bráðabirgðasvipting samkvæmt ákvæði þessu skal dragast frá endanlegum sviptingartíma samkvæmt dómi.
Bera má slíka ákvörðun Samgöngustofu undir dómstóla samkvæmt lögum um meðferð sakamála og skal stofnunin leiðbeina viðkomandi um þann rétt.
Að öðru leyti fer um stjórnsýsluviðurlög sem Samgöngustofu er heimilt að beita samkvæmt lögum um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála.
34. gr. Refsingar.
Brot gegn lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Tilraun og hlutdeild í brotum er refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
Ef brot skv. 1. mgr. er framið í starfsemi lögaðila má gera lögaðilanum fésekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
Svipta skal skírteinishafa rétti til starfa þess sem skírteinið veitir ef hann gerist sekur um vítavert brot gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim eða ef telja verður með hliðsjón af eðli brotsins eða annars framferðis hans sem skírteinishafa varhugavert að hann neyti réttinda samkvæmt skírteininu.
Svipting starfsréttinda skal vera um ákveðinn tíma, eigi skemur en þrjá mánuði og ævilangt ef sakir eru miklar eða brot ítrekað.
35. gr. Kæra til lögreglu.
Samgöngustofu og Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að kæra brot á lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim til lögreglu.
Varði meint brot bæði stjórnvaldssektum og refsingu skal meta hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá Landhelgisgæslu Íslands eða Samgöngustofu. Ef brot eru meiri háttar ber að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt er heimilt á hvaða stigi málsins sem er að vísa máli vegna brota á lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra til lögreglu.
Varði brot á lögum þessum refsiábyrgð fyrir bæði einstakling og lögaðila skal meta, með tilliti til grófleika brots og réttarvörslusjónarmiða, hvort báðir skuli kærðir til lögreglu eða einungis annar. Kæra til lögreglu útilokar ekki að öðrum aðila verði gerð stjórnvaldssekt vegna sama brots.
Með kæru skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun um að kæra mál til lögreglu.
Eftirlitsaðilum samkvæmt lögum þessum er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem þeir hafa aflað og tengjast brotum sem til rannsóknar eru hjá lögreglu og ákæruvaldi og taka þátt í aðgerðum lögreglu að öðru leyti
Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Landhelgisgæslu Íslands eða Samgöngustofu til meðferðar og ákvörðunar.
36. gr. Réttur einstaklinga til að fella ekki á sig sök.
Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssektar eða kæru til lögreglu vegna brota gegn ákvæðum þessara laga eða stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra hefur sá eða sú sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur eða sek um brot rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Samgöngustofa og Landhelgisgæsla Íslands skulu leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.
IX. kafli. Ýmis ákvæði.
37. gr. Reglugerð.
Ráðherra skal setja í reglugerð1) nánari ákvæði um:
1. Útgáfu skírteina og áritana og um menntun og þjálfun til grundvallar réttindum miðað við stærð skips, vélarafl, farsvið og próf skv. 4. gr.
2. Skilyrði þess að fá útgefið skírteini og um námskeið fyrir erlenda ríkisborgara til að gegna stöðu skipstjóra á íslenskum skipum, þ.m.t. gildistíma og endurnýjun öryggisfræðslunámskeiða, gildistíma og endurnýjun fjarskiptaskírteina og tiltekinn siglingatíma til útgáfu skírteinis skv. 5. gr.
3. Heilbrigðiskröfur umsækjanda um réttindi, læknisvottorð og gildistíma þeirra og viðurkenningu sjómannalækna skv. 6. gr.
4. Gildistíma og endurnýjun skírteina og um próf eða endurmenntunarnámskeið vegna endurnýjunar skírteina skv. 7. gr.
5. Áritun erlendra skírteina skv. 8. gr.
6. Undanþágur og röð réttindaflokka og hver sé næsta lægri staða skv. 10. gr.
7. Skemmtibáta og frístundafiskiskip sem hefur að geyma meðal annars ákvæði um skilyrði skipstjórnarskírteinis er varðar aldur, menntun og þjálfun, öryggisfræðslu, heilbrigðiskröfur og læknisvottorð, fjarskiptakunnáttu, siglingatíma, bóklegt og verklegt próf og útgáfu skírteina, gildistíma og endurnýjun þeirra; auk þess ákvæði um gerð og stærð þeirra, afl, farsvið og öryggiskröfur sem gerðar eru til stjórnenda þeirra skv. 11. og 12. gr.
8. Nánari framkvæmd lögskráningar og skilyrði hennar, hvernig standa skuli að rafrænni lögskráningu í gegnum lögskráningarkerfið og notkun rafrænna skilríkja í þeim efnum, frest til þess að ljúka öryggisfræðslunámskeiði sjómanna til að fást lögskráður, hvernig standa skuli að aðgangi að gögnum og upplýsingum úr lögskráningarkerfinu til þeirra sem hafa lögvarða hagsmuni og um eftirlit með framkvæmd lögskráningar skv. 13. og 14. gr. Í reglugerð má veita undanþágu frá ákvæðum um lögskráningarskyldu áhafna tiltekinna skipa, svo sem til hafnsögubáta, dráttarbáta, björgunarskipa og frístundafiskiskipa.
9. Öryggismönnun farþegabáta og farþega- og flutningaskipa sem og um öryggismönnunarskírteini, lágmarksmönnun fiskiskipa og annarra skipa og frávik frá þeim skv. 15.–18. gr.
10. Þjónustusamninga skv. 17. gr., þ.e. um gildistíma og brottfall, skilyrði til þeirra, t.d. ef skip er selt, þjónustuaðili hættir starfsemi eða flytur starfsemina annað en þjónustusamningur gerir ráð fyrir.
11. Matsveina og bryta, skilyrði til að gegna þeim störfum og hlutverk þeirra skv. 19. gr.
12. Vaktir, vaktafyrirkomulag og vinnu- og hvíldartíma þeirra sem standa vaktir skv. 20. gr.
13. Vinnu- og hvíldartíma áhafna skipa skv. 21. og 22. gr.
14. Skráningar- og ráðningarþjónustu fiskara og farmanna og eftirlit með þeim skv. 23. gr.
15. Orlof skipverja skv. 24. gr.
16. Heimferðir, þ.m.t. um ákvörðunarstað heimferðar, flutningsmáta, innifalda kostnaðarliði og aðrar ráðstafanir, svo sem ráðstafanir Samgöngustofu um heimferð og farbann, auk skyldu útgerðar til að leggja fram tryggingu og um vanrækslu slíkrar skyldu skv. 25. gr.
17. Velferðarréttindi skipverja, þ.e. um heilsuvernd, læknishjálp, velferð og tryggingavernd skv. 26. gr.
18. Heilbrigðiskröfur skv. 27. gr.
19. Ábyrgð útgerðar og skipstjóra skv. 28. gr.
20. Alþjóðlegt öryggisstjórnunarkerfi skv. 29. gr.
Ráðherra er jafnframt heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara sem og um:
1. Menntun og þjálfun áhafnar skv. 5. gr., skírteini áhafnar skv. 6. gr. og öryggismönnun farþegaskipa skv. 16. gr. á skipum sem stunda einungis siglingar við Íslandsstrendur á tilteknu farsviði og á tilteknu tímabili,
2. Frávik frá III. kafla að því er varðar lögskráningu skipverja á skip sem halda út í styttri ferðir eða sigla á fleiri en einu skipi sama dag.
3. Hvaða kröfur skuli uppfylltar skv. 2. og 3. mgr. 26. gr. varðandi:
a. skipulag, tilhögun og framkvæmd vinnu, svo sem um öryggis- og heilbrigðisráðstafanir er varða störf, starfsaðferðir, vinnslu- og framleiðsluaðferðir, hita, kulda, sýkingar af smitnæmum sjúkdómum eða heilsutjón vegna rangrar stöðu við vinnu, rangra hreyfinga eða of mikils álags eða hvernig dregið verði úr áhrifum andlega eða líkamlega einhæfra starfa og starfa sem unnin eru með fyrir fram ákveðnum hraða og um aðrar þær ráðstafanir sem þýðingu kynnu að hafa í þessu sambandi,
b. bann gegn sérlega hættulegum störfum, framleiðslu-, starfs- og vinnsluaðferðum,
c. að settar skuli upp á vinnustað greinilegar aðvaranir og/eða vinnusvæði girt eða afmörkuð með öðrum hætti,
d. gerð og notkun hlífðarbúnaðar, svo sem um hentugan fatnað, öryggishjálma, hlífðarbúnað gegn hávaða og geislun, hlífðargleraugu, vinnuskó, rykgrímur, gasgrímur, annan búnað til þess að verjast loftmengun og annan búnað ótalinn; starfsmenn eru skyldir til þess að nota slíkan öryggisbúnað þegar þeir þarfnast hans við vinnu sína að mati Samgöngustofu,
e. vinnuvernd, þ.m.t. um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundið áreiti og ofbeldi.
4. Fresti til framlagningar vottorða skv. 27. gr. í brýnum tilvikum.
Ákvæði reglugerða samkvæmt þessari grein skulu að lágmarki uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins, m.a. samkvæmt alþjóðasamþykktunum og EES-gerðum.
1)Rg. 140/2022.
38. gr. Innleiðing.
Lög þessi eru sett til innleiðingar á eftirfarandi Evrópugerðum með áorðnum breytingum:
1. Tilskipun ráðsins 1999/63/EB frá 21. júní 1999 um samning um skipulag á vinnutíma sjómanna á kaupskipum milli Samtaka skipaeigenda í Evrópubandalaginu (ECSA) og Samtaka félaga flutningaverkamanna í Evrópusambandinu (FST).
2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/95/EB frá 13. desember 1999 um framkvæmd ákvæða um vinnutíma sjómanna á skipum sem fara um hafnir í bandalaginu.
3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/45/EB frá 7. september 2005 um gagnkvæma viðurkenningu á skírteinum sjómanna sem aðildarríkin gefa út og um breytingu á tilskipun 2001/25/EB.
4. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 336/2006 frá 15. febrúar 2006 um að hrinda í framkvæmd ákvæðum alþjóðlega kóðans um öryggisstjórnun skipa innan Bandalagsins og um niðurfellingu á reglugerð ráðsins (EB) nr. 3051/95.
5. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/106/EB frá 19. nóvember 2008 um lágmarksþjálfun sjómanna (endurútgefin).
6. Tilskipun ráðsins 2009/13/EB frá 16. febrúar 2009 um framkvæmd samnings sem Samtök skipaeigenda í Evrópubandalaginu (ECSA) og Samband félaga flutningaverkamanna í Evrópu (ETF) hafa gert með sér um samþykktina um vinnuskilyrði farmanna, 2006, og um breytingu á tilskipun 1999/63/EB.
7. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/54/ESB frá 20. nóvember 2013 um tilteknar skyldur fánaaðildarríkis til að fara að og framfylgja samþykktinni um vinnuskilyrði farmanna, 2006.
39. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2023 nema 1. tölul. 40. gr. sem öðlast þegar gildi.
…
40. gr. Breyting á öðrum lögum. …
Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Ákvarðanir undanþágunefndar og mönnunarnefndar skipa, samkvæmt lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, nr. 30/2007, skulu halda gildi sínu.
II.
Þrátt fyrir ákvæði a-liðar 2. mgr. 16. gr. er hásetum, sem hafa að baki siglingatíma í tólf mánuði á síðastliðnum þremur árum, heimilt til 1. júlí 2024 að gegna stöðu stýrimanns sé útivist skips styttri en 19 tímar.