Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
[Lög um starfsemi stjórnmálasamtaka]1)
2006 nr. 162 21. desember
1)L. 109/2021, 13. gr.
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. janúar 2007 en ákvæði laganna um prófkjör tóku gildi 1. júní 2007. Breytt með:
L. 99/2009 (tóku gildi 8. sept. 2009).
L. 119/2010 (tóku gildi 1. okt. 2010).
L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011).
L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
L. 139/2018 (tóku gildi 1. jan. 2019; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 15. gr.).
L. 109/2021 (tóku gildi 15. júlí 2021 nema e–k-liður 3. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2022).
L. 117/2021 (tóku gildi 16. júlí 2021).
L. 18/2022 (tóku gildi 18. mars 2022).
L. 62/2023 (tóku gildi 8. júlí 2023 nema III. kafli sem tók gildi 1. sept. 2023).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við dómsmálaráðherra eða dómsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Markmið.
[Markmið laga þessara er að auka traust á stjórnmálastarfsemi, tryggja starfsskilyrði og sjálfstæði stjórnmálasamtaka og efla lýðræði og gagnsæi stjórnmála. Markmið laganna er jafnframt að kveða á um almenn framlög til frambjóðenda í kjöri til embættis forseta Íslands, til Alþingis og til sveitarstjórna og opinber og almenn fjárframlög til stjórnmálasamtaka og stjórnmálastarfsemi og draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum þeirra.]1)
1)L. 109/2021, 1. gr.
2. gr. Skilgreiningar.
Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð og hugtök merkingu sem hér segir:
1. Stjórnmálasamtök: Flokkar eða samtök sem bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna.
[2. Flokkseiningar: Einingar eða félög sem starfa undir merkjum og með leyfi stjórnmálasamtaka, svo sem sérsambönd, svæðisfélög og kjördæmisráð.]1)
[3.]1) Prófkjör: Kosningar sem stjórnmálasamtök halda til að velja fulltrúa á framboðslista við kosningar til Alþingis eða sveitarstjórna.
[4.]1) [Frambjóðendur: Þátttakendur í persónukjöri í forsetakosningum, kosningum til Alþingis og kosningum til sveitarstjórna og þátttakendur í prófkjörum stjórnmálasamtaka.]2)
[5.]1) Framlög: Framlög til starfsemi stjórnmálasamtaka eða frambjóðenda eða kosningabaráttu, hvort heldur eru bein fjárframlög eða önnur gæði sem metin verða til fjár, án tillits til þess hvaðan þau koma eða hvers eðlis þau eru. Til framlaga í þessum skilningi teljast allir afslættir af [vörum og þjónustu sem veittir eru af markaðsverði og standa öðrum viðskiptamönnum ekki til boða],3) ívilnanir og eftirgjöf, þar með taldir afslættir af markaðsverði auglýsinga, eftirgjöf eftirstöðva skulda, óvenjuleg lánakjör o.s.frv., [sem og sala stjórnmálasamtaka á vörum og þjónustu á yfirverði].2) Ef afsláttur hefur verið veittur af markaðsverði skal mismunur markaðsverðs og raunverðs tilgreindur sem framlag í reikningum. Önnur framlög, svo sem endurgjaldslaust lán vinnuafls, aðstöðu eða búnaðar, skulu metin til peningaverðs á gangverði eða markaðsverði á hverjum tíma og tilgreind í reikningum á því verði.
[6.]1) [Tengdir aðilar:
a. Lögaðilar þar sem svo háttar til að annar aðili er í raun undir stjórn hins þar sem sá síðarnefndi á meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í þeim fyrrnefnda, sbr. einnig 2. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, 2. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, og 4. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, um skilgreiningu á móðurfélagi og dótturfélagi.
b. Lögaðilar þar sem svo háttar til að einstaklingur á meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í báðum eða öllum lögaðilunum.]3)
[7.]1) Endurskoðendur: Löggildir endurskoðendur samkvæmt ákvæðum laga um endurskoðendur.
[8.]1) Þingflokkar: Samtök þingmanna sem uppfylla skilyrði þingskapa til að teljast þingflokkur.
1)L. 109/2021, 2. gr. 2)L. 119/2010, 2. gr. 3)L. 139/2018, 2. gr.
[I. kafli A. Félagsaðild og vinnsla persónuupplýsinga.]1)
1)L. 109/2021, 3. gr.
[2. gr. a. Félagar og félagatal.
Þeir sem sannanlega sækja um aðild að stjórnmálasamtökum teljast félagar í þeim þegar umsókn þeirra hefur verið samþykkt. Stjórnmálasamtök skulu varðveita sönnunargögn um aðildarumsókn þar til aðild fellur niður. Aðild að stjórnmálasamtökum fellur niður við úrsögn, brottvísun eða andlát.
Stjórnmálasamtökum er heimilt að halda félagatal með persónuupplýsingum um félaga sína í þeim tilgangi að leggja á félagsgjöld, staðfesta kjörgengi innan samtakanna, upplýsa um atriði í starfi þeirra og uppfæra skráningu félaga. Samtökin eru ábyrgðaraðili vinnslu persónuupplýsinga sem skráðar eru í félagatal og er heimilt að vinna með þær innan samtakanna í framangreindum tilgangi.
Í félagatal er heimilt að skrá nöfn, kennitölur, aldur og kyn félaga, dagsetningar upphafs og loka aðildar þeirra að samtökunum, greiðsluupplýsingar og tengiliðaupplýsingar sem þeir hafa veitt samtökunum. Heimilt er að uppfæra þær með upplýsingum úr skrám sem eru aðgengilegar opinberlega. Þá er heimilt að vinna í félagatali með upplýsingar um greiðslu félagsgjalda, störf félaga á vegum samtakanna, aðild þeirra að flokkseiningum og opinberar upplýsingar um önnur félagsstörf þeirra.
Falli aðild að stjórnmálasamtökum niður skal innan tveggja ára eyða öllum upplýsingum um viðkomandi félaga úr félagatali.]1)
1)L. 109/2021, 3. gr.
[2. gr. b. Vinnsla persónuupplýsinga um almenning.
Um aðgang stjórnmálasamtaka að kjörskrá fer eftir [kosningalögum].1) Að öðru leyti er stjórnmálasamtökum heimilt að beina efni og auglýsingum í tengslum við stjórnmálabaráttu til almennings að gættum eftirtöldum skilyrðum:
1. Skilyrðum laga um skráningu einstaklinga um notkun úrtaks úr þjóðskrá til markaðssetningar.
2. Skilyrðum laga um fjarskipti um óumbeðin fjarskipti með notkun sjálfvirkra uppkallskerfa, símbréfa eða tölvupósts, þ.m.t. hvers konar rafrænna skilaboða.
3. Skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þá er stjórnmálasamtökum að auki óheimilt að nýta persónusnið til að beina að einstaklingum efni og auglýsingum í tengslum við stjórnmálabaráttu sem fela í sér hvatningu um að nýta ekki kosningarréttinn. Skal þess að öðru leyti gætt að nýting persónusniðs samrýmist lýðræðislegum gildum.]2)
1)L. 18/2022, 10. gr. 2)L. 109/2021, 3. gr.
[2. gr. c. Eftirlit.
Persónuvernd annast eftirlit með framkvæmd ákvæða þessa kafla um vinnslu persónuupplýsinga.]1)
1)L. 109/2021, 3. gr.
[I. kafli B. Gagnsæi í stjórnmálabaráttu.]1)
1)L. 109/2021, 3. gr.
[2. gr. d. Bann við nafnlausum áróðri.
Stjórnmálasamtökum, kjörnum fulltrúum þeirra og frambjóðendum, sem og frambjóðendum í persónukjöri, er óheimilt að fjármagna, birta eða taka þátt í birtingu efnis eða auglýsinga í tengslum við stjórnmálabaráttu nema fram komi við birtingu að efnið sé birt að tilstuðlan eða með þátttöku þeirra.
Frá þeim degi er kjördagur hefur formlega verið auglýstur vegna kosninga til Alþingis, til sveitarstjórna eða til embættis forseta Íslands, svo og vegna boðaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu, skulu auglýsingar og annað kostað efni, sem ætlað er að hafa áhrif á úrslit kosninga, vera merkt auglýsanda eða ábyrgðarmanni.]1)
1)L. 109/2021, 3. gr.
[I. kafli C. Skráning stjórnmálasamtaka.]1)
1)L. 109/2021, 3. gr.
[2. gr. e. Skráning stjórnmálasamtaka.
Ríkisskattstjóri skráir stjórnmálasamtök samkvæmt lögum þessum og starfrækir stjórnmálasamtakaskrá í því skyni.
Stjórnmálasamtakaskrá skal birt almenningi á vef [ríkisskattstjóra]1) ásamt upplýsingum sem fylgja umsókn um skráningu skv. 1. mgr. 2. gr. g. [og upplýsingum um breytingar á skráningu skv. 1. mgr. 2. gr. i].1) Við birtingu á vef er heimilt að undanskilja birtingu kennitalna, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. g.]2)
2)L. 62/2023, 44. gr. 2)L. 109/2021, 3. gr.
[2. gr. f. Skilyrði skráningar.
Skilyrði fyrir skráningu í stjórnmálasamtakaskrá er að tilgangur samtaka sé að bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórnar, samþykktir samtaka séu í samræmi við 2. gr. h og að önnur tilskilin gögn fylgi umsókn, sbr. 2. gr. g.]1)
1)L. 109/2021, 3. gr.
[2. gr. g. Umsókn um skráningu.
Samtök sem óska skráningar í stjórnmálasamtakaskrá skulu senda ríkisskattstjóra umsókn um skráningu. Með umsókn skulu fylgja upplýsingar um:
1. Heiti samtaka og heimilisfang.
2. Samþykktir samtaka.
3. Yfirlit yfir flokkseiningar og hlutverk þeirra.
4. Nöfn og kennitölur stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra sem geta skuldbundið samtökin, auk takmarkana á þeim rétti ef einhverjar eru.
Meiri hluti stjórnar skal undirrita umsókn og lýsa því yfir að þær upplýsingar sem fram koma í umsókninni séu réttar og þeir sem þar eru tilgreindir hafi rétt til að skuldbinda samtökin að lögum.]1)
1)L. 109/2021, 3. gr.
[2. gr. h. Samþykktir.
Í samþykktum skráðra stjórnmálasamtaka, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. g, skal m.a. kveðið á um eftirtalin atriði:
1. Heiti samtakanna, heimilisfang og aðalstarfsstöð.
2. Tilgang.
3. Skipulag samtakanna.
4. Hlutverk stjórnar, fjölda stjórnarmanna, skipan þeirra og starfstíma.
5. Hverjir rita firma samtakanna.
6. Reglur um inngöngu í samtökin og úrsögn úr samtökunum.
7. Kjörtímabil endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja, sbr. 2. mgr. 8. gr.
8. Hvernig skal staðið að breytingum á samþykktum.
9. Reglur um slit samtakanna.
10. Hvernig fara á með eignir samtakanna séu þau lögð niður eða þeim slitið.]1)
1)L. 109/2021, 3. gr.
[2. gr. i. Tilkynning um breytingu og afskráningu.
Breytingu á samþykktum skráðra stjórnmálasamtaka ber að tilkynna til stjórnmálasamtakaskrár innan þriggja mánaða frá breytingunni. Sama gildir ef breyting verður á hlutverki, fjölda og heiti flokkseininga.
Breytt samþykkt í heild sinni skal fylgja tilkynningu um breytingu á henni. Sömu reglur gilda um meðferð tilkynningar um breytingu og um tilkynningu þegar stjórnmálasamtök voru upphaflega skráð.
Þegar stjórnmálasamtökum er slitið eða þau óska ekki lengur eftir því að vera skráð í stjórnmálasamtakaskrá skulu þau senda stjórnmálasamtakaskrá tilkynningu þess efnis. Falla þá niður öll þau réttindi og þær skyldur sem af skráningu leiddi lögum samkvæmt.]1)
1)L. 109/2021, 3. gr.
[2. gr. j. Eftirlitsúrræði.
Ef skilyrði skráningar samkvæmt þessum kafla eru ekki lengur fyrir hendi eða stjórnmálasamtök vanrækja skyldur sínar samkvæmt lögum þessum skal ríkisskattstjóri veita stjórnmálasamtökunum skriflega viðvörun og setja þeim frest til að bæta úr því sem áfátt er. Skal fresturinn ekki vera skemmri en einn mánuður. Ef ekki er bætt úr því innan frestsins getur ríkisskattstjóri ákveðið að fella skráningu stjórnmálasamtaka úr gildi.
Ákvörðun ríkisskattstjóra skv. 1. mgr. er kæranleg til ráðherra. Um meðferð kæru til ráðherra fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.]1)
1)L. 109/2021, 3. gr.
[I. kafli D. Framboð stjórnmálasamtaka.]1)
1)L. 109/2021, 3. gr.
[2. gr. k. [Listabókstafur og heiti stjórnmálasamtaka í kosningum til Alþingis.]1)
Að afloknum kosningum til Alþingis skal ráðuneytið taka saman skrá um listabókstafi og heiti stjórnmálasamtaka sem buðu fram lista við kosningarnar. Skal skráin birt í B-deild Stjórnartíðinda eigi síðar en átta vikum eftir hverjar almennar alþingiskosningar.
Hyggist stjórnmálasamtök, sem ekki hafa skráðan listabókstaf skv. 1. mgr., bjóða fram lista við alþingiskosningar skulu þau sækja um úthlutun listabókstafs til ráðuneytisins eigi síðar en þremur sólarhringum áður en framboðsfrestur rennur út og óska eftir staðfestingu á heiti samtakanna. Umsókn skal fylgja yfirlýsing a.m.k. 300 kjósenda þar sem hver og einn mælir með heiti samtakanna og úthlutun listabókstafs. Yfirlýsingin skal dagsett og skal greina nafn meðmælenda, kennitölu og heimili. Ráðuneytið skal þegar tilkynna stjórnmálasamtökum, sem eru á skrá skv. 1. mgr., um beiðnina.
Yfirlýsingum kjósenda skv. 2. mgr. skal safna rafrænt eða á pappír. Ráðherra skal í reglugerð m.a. mæla fyrir um form og viðmót við söfnun yfirlýsinga, tegund rafrænnar auðkenningar meðmælenda, meðferð persónuupplýsinga og varðveislu og eyðingu upplýsinga. Þjóðskrá Íslands er heimilt að kanna hvort meðmælandi sé kosningarbær og samkeyra í því skyni meðmælendayfirlýsinguna við þjóðskrá að fullnægðum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Ráðuneytið staðfestir heiti nýrra stjórnmálasamtaka og ákveður bókstaf þeirra að fengnum óskum og með hliðsjón af listabókstöfum annarra stjórnmálasamtaka, sbr. skrá skv. 1. mgr. Heiti nýrra stjórnmálasamtaka skal ekki vera þannig að ætla megi að villst verði á því og heiti samtaka sem þegar eru á skrá um listabókstafi skv. 1. mgr. Telji ráðuneytið að svo sé skal það tilkynnt samtökunum og þeim gefinn hæfilegur frestur til að bæta úr. Sama á við óski samtök sem þegar eru á skrá um listabókstafi að breyta heiti sínu. Þegar ákvörðun ráðuneytisins um heiti og listabókstaf liggur fyrir skal nýi listabókstafurinn og heiti stjórnmálasamtaka fært í skrá ráðuneytisins skv. 1. mgr. og uppfærð skrá birt í B-deild Stjórnartíðinda. Tilkynna skal landskjörstjórn og yfirkjörstjórnum um skráð heiti stjórnmálasamtaka og nýja listabókstafi.]2)
1)L. 62/2023, 45. gr. 2)L. 109/2021, 3. gr.
[2. gr. l. Listabókstafur og heiti stjórnmálasamtaka í kosningum til sveitarstjórna.
Hyggist stjórnmálasamtök sem ekki hafa skráðan listabókstaf skv. 1. mgr. 2. gr. k bjóða fram lista í kosningum til sveitarstjórna skulu þau um leið og framboðslista er skilað til yfirkjörstjórnar leggja þar fram beiðni um úthlutun listabókstafs og staðfestingu á heiti framboðs.
Yfirkjörstjórn skal við ákvörðun listabókstafs hafa hliðsjón af listabókstöfum annarra stjórnmálasamtaka, sbr. skrá skv. 1. mgr. 2. gr. k. Heiti nýrra stjórnmálasamtaka skal ekki vera þannig að ætla megi að villst verði á því og heiti samtaka sem þegar eru á skrá um listabókstafi skv. 1. mgr. 2. gr. k. Telji yfirkjörstjórn að svo sé skal það tilkynnt samtökunum og þeim gefinn hæfilegur frestur til að bæta úr. Óski tvö eða fleiri framboð eftir úthlutun sama listabókstafs skal það framboð hafa forgang sem fyrr skilaði inn framboði sínu. Þeim lista sem ekki hlýtur umbeðinn listabókstaf skal þegar í stað gert kleift að óska eftir nýjum bókstaf. Komi ekki fram ný beiðni skal yfirkjörstjórn merkja þá í stafrófsröð eftir því sem þeir hafa borist henni og við á.]1)
1)L. 62/2023, 46. gr.
II. kafli. Framlög ríkis og sveitarfélaga til stjórnmálastarfsemi.
3. gr. Framlög til stjórnmálasamtaka úr ríkissjóði.
[Stjórnmálasamtök sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi í næstliðnum alþingiskosningum eiga rétt á 12 millj. kr. grunnrekstrarframlagi úr ríkissjóði á ári hverju. Ný stjórnmálasamtök sem fá mann kjörinn á Alþingi eiga rétt á greiðslu styrks fyrir kosningaárið hlutfallslega miðað við kjördag.
Árlega skal úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi stjórnmálasamtaka sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi eða hlotið hafa a.m.k. 2,5% atkvæða í næstliðnum alþingiskosningum samkvæmt ákvörðun í fjárlögum hverju sinni. Árleg heildarfjárveiting til stjórnmálasamtaka skal koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með hliðsjón af breytingum á vísitölum verðlags og launa. Heildarfjárhæðinni skal úthlutað til stjórnmálasamtaka í hlutfalli við atkvæðamagn fyrir 25. janúar ár hvert.]1)
[[Stjórnmálasamtök sem bjóða fram í þremur kjördæmum eða fleiri í kosningum til Alþingis geta að loknum kosningum sótt um sérstakan fjárstyrk úr ríkissjóði til að mæta útlögðum kostnaði við kosningabaráttu, að hámarki 750.000 kr. fyrir hvert kjördæmi sem boðið er fram í.]1) Umsóknum um fjárstyrk vegna kosningabaráttu skal beint til [ráðuneytisins]2) og skulu umsóknir berast eigi síðar en þremur mánuðum eftir að kosningar fóru fram. Umsóknum skal fylgja afrit reikninga fyrir kostnaði sem fjárstyrk er ætlað að mæta. [Ráðuneytið]3) getur sett nánari reglur um form umsókna og fylgigagna sem og um það hvaða kostnaður geti talist kostnaður við kosningabaráttu.
…4)]5)
1)L. 139/2018, 3. gr. 2)L. 126/2011, 444. gr. 3)L. 162/2010, 188. gr. 4)L. 109/2021, 4. gr. 5)L. 119/2010, 3. gr.
4. gr. Framlög til þingflokka úr ríkissjóði.
Árlega skal úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi þingflokka á Alþingi samkvæmt ákvörðun á fjárlögum hverju sinni. Greiða skal jafna fjárhæð fyrir hvern þingmann og nefnist hún eining. Að auki skal greiða eina einingu fyrir hvern þingflokk. Því til viðbótar skal úthluta fjárhæð sem svarar tólf einingum til þingflokka þeirra stjórnmálasamtaka sem eiga ekki aðild að ríkisstjórn og skiptast þær einingar hlutfallslega milli þeirra. Forsætisnefnd Alþingis getur sett nánari reglur um greiðslur samkvæmt þessari grein.
5. gr. Framlög til stjórnmálasamtaka frá sveitarfélögum.
[Sveitarfélögum er skylt að veita stjórnmálasamtökum sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða hlotið a.m.k. 5% atkvæða í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum árleg fjárframlög til starfsemi sinnar. Ákvörðun um slík framlög tekur sveitarstjórn samhliða samþykkt fjárhagsáætlunar ár hvert. Fjárhæðinni skal úthlutað ár hvert í hlutfalli við atkvæðamagn. …1)]2)
[Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga [setur]2) viðmiðunarreglur til að stuðla að samræmdri framkvæmd á greiðslum framlaga frá sveitarfélögum til stjórnmálasamtaka samkvæmt þessari grein. [Reglurnar skal taka til endurskoðunar árlega.]2) Á því ári sem sveitarstjórnarkosningar eru skal úthlutun framlaga fara fram á þann hátt að stjórnmálasamtök fái framlög fyrir síðari hluta þess árs í samræmi við kjörfylgi í nýafstöðnum kosningum.]3)
1)L. 109/2021, 5. gr. 2)L. 139/2018, 4. gr. 3)L. 119/2010, 4. gr.
[5. gr. a. Skilyrði úthlutunar.
Skilyrði úthlutunar á fé úr ríkissjóði og frá sveitarstjórnum er að viðkomandi stjórnmálasamtök séu skráð skv. I. kafla C, hafi áður uppfyllt upplýsingaskyldu sína við ríkisendurskoðanda skv. 8. og 9. gr. og að ríkisendurskoðandi hafi birt ársreikning þeirra.]1)
1)L. 109/2021, 6. gr.
III. kafli. Almenn framlög til stjórnmálastarfsemi.
6. gr. Móttaka framlaga.
Stjórnmálasamtökum og frambjóðendum er heimilt að taka á móti framlögum til starfsemi sinnar eða til kosningabaráttu með þeim takmörkunum sem leiðir af 2.–5. mgr. þessarar greinar og ákvæðum 7. gr.
Óheimilt er að veita viðtöku framlögum frá óþekktum gefendum. [Berist stjórnmálasamtökum eða frambjóðanda framlag frá óþekktum gefanda skal skila framlaginu í ríkissjóð enda hafi ekki gefist tækifæri til að hafna móttöku þess.]1)
Óheimilt er að veita viðtöku framlögum frá fyrirtækjum að meiri hluta í eigu, eða undir stjórn, ríkis eða sveitarfélaga.
Óheimilt er að veita viðtöku framlögum frá opinberum aðilum sem ekki rúmast innan ákvæða II. kafla.
Óheimilt er að veita viðtöku framlögum frá erlendum ríkisborgurum, fyrirtækjum eða öðrum aðilum sem skráðir eru í öðrum löndum. Bann þetta tekur þó ekki til framlaga frá erlendum ríkisborgurum sem njóta kosningaréttar hér á landi skv. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna.
1)L. 119/2010, 5. gr.
7. gr. [Hámarksframlög og kostnaður vegna kosningabaráttu.]1)
[Stjórnmálasamtökum er óheimilt að taka á móti hærri framlögum frá lögaðilum en sem nemur 550.000 kr. á ári. Stjórnmálafélögum innan samstæðu stjórnmálasamtaka er þó heimilt að taka á móti framlögum frá lögaðilum umfram þá fjárhæð, samtals að hámarki 100.000 kr. Frambjóðendum er óheimilt að taka á móti hærri framlögum frá lögaðilum en sem nemur 400.000 kr. á ári. Undanþegnir hámarki framlaga eru afslættir af vörum og þjónustu sem veittir eru af markaðsverði og standa öðrum viðskiptamönnum almennt til boða og slíkir afslættir séu sérgreindir í reikningum. Lögaðilar sem inna af hendi framlög til stjórnmálasamtaka eða frambjóðenda skulu sérgreina heildarfjárhæð slíkra framlaga í ársreikningum sínum. Telja skal saman framlög tengdra aðila.]1)
[Stofnframlög, þ.e. framlög frá lögráða einstaklingum og lögaðilum sem eru veitt í beinum tengslum við stofnun stjórnmálasamtaka, mega að hámarki nema sem svarar til tvöföldu hámarksframlagi [skv. 1. málsl. 1. mgr.]1)]2)
[Stjórnmálasamtökum er heimilt að taka á móti framlögum frá lögráða einstaklingum sem nemur allt að 550.000 kr. á ári. Stjórnmálafélögum innan samstæðu stjórnmálasamtaka er þó heimilt að taka á móti framlögum frá einstaklingum umfram þetta, samtals að hámarki 100.000 kr. Frambjóðendum er heimilt að taka á móti framlögum frá lögráða einstaklingum sem nemur allt að 400.000 kr. á ári.]1)
Heildarkostnaður frambjóðenda [af kosningabaráttu í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna]2) má ekki vera hærri en sem nemur [2 millj. kr.],1) að viðbættu álagi sem hér segir:
Á kjörsvæði með fleiri en 50.000 íbúa, 18 ára og eldri, [140 kr.]1) fyrir hvern.
Á kjörsvæði með 40.000–49.999 íbúa, 18 ára og eldri, [185 kr.]1) fyrir hvern.
Á kjörsvæði með 20.000–39.999 íbúa, 18 ára og eldri, [230 kr.]1) fyrir hvern.
Á kjörsvæði með 10.000–19.999 íbúa, 18 ára og eldri, [275 kr.]1) fyrir hvern.
Á kjörsvæði með færri en 10.000 íbúa, 18 ára og eldri, [320 kr.]1) fyrir hvern.
[Heildarkostnaður frambjóðanda í forsetakosningum af kosningabaráttu má ekki vera hærri en sem nemur tvöfaldri þeirri fjárhæð sem tiltekin er í 4. mgr. á hvern íbúa á kjörskrá fyrir landið allt.]2)
1)L. 139/2018, 5. gr. 2)L. 119/2010, 6. gr.
IV. kafli. Reikningsskil og upplýsingaskylda stjórnmálasamtaka.
8. gr. Reikningsskil stjórnmálasamtaka.
Stjórnmálasamtök skulu halda samstæðureikning fyrir allar einingar sem undir þau falla, svo sem sérsambönd, kjördæmisráð, eignarhaldsfélög og tengdar sjálfseignarstofnanir. Heimilt er að halda flokkseiningum utan samstæðureikningsskila ef tekjur þeirra eru undir [550.000 kr.]1) á ári. Við gerð ársreikninga skal farið að efnisreglum laga um ársreikninga eins og við á. [Í ársreikningi skulu tekjur sundurliðaðar eftir uppruna þannig að greint sé á milli ríkisframlags, framlaga frá sveitarfélögum, framlaga frá lögaðilum, félagsgjalda og framlaga frá einstaklingum. Meðal meginflokka gjalda skal tilgreina kostnað vegna alþingiskosninga og sveitarstjórnarkosninga, eftir atvikum. Í skýringum skal kostnaður vegna alþingiskosninga og sveitarstjórnarkosninga sundurliðaður samkvæmt nánari leiðbeiningum ríkisendurskoðanda. Greina skal sérstaklega alla móttekna afslætti frá markaðsverði sem almennt standa öðrum viðskiptamönnum ekki til boða, virði framlaga sem veitt eru í öðrum gæðum en fjárframlögum sem og sölu á þjónustu, vöru eða eignum á yfirverði. Ríkisendurskoðandi gefur út frekari leiðbeiningar um reikningsskil stjórnmálasamtaka.]1)
Stjórnmálasamtök skulu fela endurskoðendum að endurskoða reikninga sína. Endurskoðendur skulu starfa eftir leiðbeiningum [ríkisendurskoðanda]2) og sannreyna að samstæðureikningurinn sé saminn í samræmi við ákvæði laga þessara og almennar reikningsskilareglur og staðfesta það álit með áritun á reikninginn. [Ríkisendurskoðandi]2) getur hvenær sem er kallað eftir öllum gögnum til að staðreyna [reikninga og]3) að framlög einstaklinga og lögaðila séu innan þeirra marka sem greinir í III. kafla.
1)L. 139/2018, 6. gr. 2)L. 139/2018, 7. gr. 3)L. 119/2010, 7. gr.
9. gr. Upplýsingaskylda um reikninga stjórnmálasamtaka.
[Stjórnmálasamtök skulu fyrir 1. nóvember ár hvert skila ríkisendurskoðanda reikningum sínum fyrir síðastliðið ár, sbr. 8. gr., árituðum af endurskoðendum. Ríkisendurskoðandi skal í kjölfarið, eins fljótt og unnt er, birta ársreikning stjórnmálasamtaka. Auk þess skal ríkisendurskoðandi birta nöfn allra lögaðila sem veita framlög til stjórnmálastarfsemi sem og fjárhæð þeirra. Einnig skal birta nöfn einstaklinga sem veitt hafa framlög sem eru metin á meira en 300.000 kr.]1)
1)L. 139/2018, 8. gr.
V. kafli. Reikningsskil og upplýsingaskylda í persónukjöri.
10. gr. Reikningsskil frambjóðenda í persónukjöri.
[Frambjóðendur skulu gera uppgjör fyrir kosningabaráttu sína þar sem greint er frá öllum framlögum og útgjöldum vegna hennar í samræmi við almennar reikningsskilareglur og skal uppgjörið áritað af endurskoðanda eða bókhaldsfróðum skoðunarmanni. [Tekjur skulu sundurliðaðar eftir uppruna þannig að greint sé á milli ríkisframlags, framlaga frá sveitarfélögum, framlaga frá lögaðilum, félagsgjalda og framlaga frá einstaklingum og einnig greint frá helstu stærðum í efnahagsreikningi. Greina skal sérstaklega alla móttekna afslætti frá markaðsverði sem almennt standa öðrum viðskiptamönnum ekki til boða, virði framlaga sem veitt eru í öðrum gæðum en fjárframlögum sem og sölu á þjónustu, vöru eða eignum á yfirverði.]1) Miða skal uppgjörstímabil við það tímamark þegar kosningabarátta frambjóðanda hefst. Þegar um prófkjör er að ræða skal miða uppgjörstímabil við það tímamark þegar prófkjör er auglýst nema kosningabarátta frambjóðanda hafi hafist fyrr. Þegar um forsetakjör er að ræða skal miða uppgjörstímabil við það tímamark þegar framboði er skilað til [landskjörstjórnar]2) nema kosningabarátta frambjóðanda hafi hafist fyrr. Miða skal lok uppgjörstímabils við það tímamark þegar reikningum er skilað til [ríkisendurskoðanda]3) skv. 11. gr. [Ríkisendurskoðandi]3) gefur út leiðbeiningar um uppgjör fyrir kosningabaráttu og um upplýsingaskyldu um uppgjörið.
[Ríkisendurskoðandi]3) getur hvenær sem er kallað eftir öllum gögnum til að staðreyna að kostnaður við kosningabaráttu og framlög einstaklinga og lögaðila til frambjóðanda séu innan þeirra marka sem greinir í III. kafla.
Frambjóðendur eru undanþegnir uppgjörsskyldu ef heildartekjur eða heildarkostnaður við kosningabaráttu er ekki umfram [550.000 kr.]1)]4)
1)L. 139/2018, 9. gr. 2)L. 18/2022, 11. gr. 3)L. 139/2018, 7. gr. 4)L. 119/2010, 9. gr.
11. gr. Upplýsingaskylda um reikninga yfir kosningabaráttu.
[Frambjóðendur skulu skila [ríkisendurskoðanda]1) árituðum reikningum sínum eigi síðar en þremur mánuðum frá því að kosning fór fram. [Ríkisendurskoðandi]1) skal í kjölfarið, eins fljótt og unnt er, birta [áritaðan reikning frambjóðenda].2) …2) Birta skal nöfn allra lögaðila sem veita framlög til kosningabaráttu frambjóðandans sem og fjárhæð þeirra. Einnig skal birta nöfn einstaklinga sem veitt hafa framlög sem eru metin á meira en [300.000 kr.]2) til kosningabaráttu frambjóðandans.
Ef uppgjör vegna kosningabaráttu sýnir jákvæða eða neikvæða fjárhagsstöðu skal frambjóðandi árlega skila nýju uppgjöri til [ríkisendurskoðanda]1) eða allt þar til umframfjármunum hefur verið ráðstafað eða skuld verið greidd.]3)
1)L. 139/2018, 7. gr. 2)L. 139/2018, 10. gr. 3)L. 119/2010, 10. gr.
VI. kafli. [Viðurlög og gildistaka.]1)
1)L. 109/2021, 9. gr.
[12. gr. …1)]2)
1)L. 109/2021, 7. gr. 2)L. 139/2018, 11. gr.
[13. gr.]1) Viðurlög.
[Hver sem tekur við framlögum, eða jafnvirði þeirra, sem óheimilt er að veita viðtöku skv. 6. gr. eða hærri framlögum en heimilt er skv. 7. gr. skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
Hver sem skilar ekki upplýsingum eða skýrslum samkvæmt ákvæðum laga þessara til [ríkisendurskoðanda]2) innan tilgreindra tímamarka skal sæta sektum. Sama gildir séu veittar upplýsingar ekki í samræmi við settar reglur.
[Stjórnmálasamtök, kjörnir fulltrúar þeirra og frambjóðendur, sem og frambjóðendur í persónukjöri, sem taka þátt í að fjármagna eða birta efni eða auglýsingar í tengslum við stjórnmálabaráttu án þess að fram komi við birtingu að efnið sé birt að tilstuðlan eða með þátttöku þeirra, sbr. [1. mgr. 2. gr. d],3) skulu sæta sektum.]4)
[Hver sem af ásetningi kostar nafnlausan áróður frá þeim degi er kjördagur hefur formlega verið auglýstur vegna kosninga til Alþingis, til sveitarstjórna eða til embættis forseta Íslands, svo og vegna boðaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu, sbr. 2. mgr. 2. gr. d, skal sæta sektum.]3)
Gera skal lögaðilum sekt fyrir brot á [1.–4. mgr.]3)
[Refsa skal fyrir brot á 1.–3. mgr. séu þau framin af ásetningi eða gáleysi.]3)
Tilraun og hlutdeild í brotum samkvæmt þessari grein er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.
Heimilt er að gera upptæk til ríkissjóðs framlög sem tekið er við án heimilda eða umfram heimildir samkvæmt lögum þessum eftir því sem segir í VII. kafla A almennra hegningarlaga.]5)
1)L. 139/2018, 11. gr. 2)L. 139/2018, 7. gr. 3)L. 109/2021, 8. gr. 4)L. 139/2018, 12. gr. 5)L. 119/2010, 11. gr.
[14. gr.]1) Gildistaka og brottfall lagaákvæða.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007. Ákvæði laganna um prófkjör taka þó ekki gildi fyrr en 1. júní 2007.
…
1)L. 139/2018, 11. gr.
VII. kafli. …
Ákvæði til bráðabirgða.
I.
[Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. a skulu þeir félagar í stjórnmálasamtökum sem fengu aðild að þeim fyrir gildistöku ákvæðisins halda félagsaðild sinni og vera skráðir í félagatal þar til aðild fellur niður við úrsögn, brottvísun eða andlát.]1)
1)L. 109/2021, 10. gr.
[II. …1)]2)
1)L. 117/2021, 1. gr. 2)L. 99/2009, 1. gr.
[III.
[Frá 1. janúar 2022 er flokkum eða samtökum sem falla undir gildissvið laga þessara og skráð eru í fyrirtækjaskrá við gildistöku þeirra heimilt að breyta skráningu sinni í stjórnmálasamtök. Jafnframt skal þá skrá þau í stjórnmálasamtakaskrá og skila þeim gögnum sem mælt er fyrir um í 2. gr. g.]1)]2)
1)L. 117/2021, 2. gr. 2)L. 109/2021, 12. gr.
[IV.
Þrátt fyrir 5. gr. a er ekki skilyrði fyrir úthlutun á fé úr ríkissjóði til stjórnmálasamtaka skv. 1. og 2. mgr. 3. gr. eða frá sveitarstjórnum skv. 5. gr. vegna ársins 2021 að viðkomandi stjórnmálasamtök hafi uppfyllt skilyrði I. kafla C um skráningu stjórnmálasamtaka.]1)
1)L. 117/2021, 3. gr.