Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara
2011 nr. 166 23. desember
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. janúar 2012. Breytt með:
L. 127/2012 (tóku gildi 1. jan. 2013).
L. 140/2013 (tóku gildi 31. des. 2013 nema 1.–2., 4.–12., 16.–18., 23.–29., 31.–32., 34.–38. og 40.–48. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2014 og 21. gr. sem tók gildi 1. jan. 2016; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 49. gr.).
L. 125/2014 (tóku gildi 31. des. 2014 nema 6., 8., 13.–18., 21.–25. og 29. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2015; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 30. gr.).
L. 125/2015 (tóku gildi 1. jan. 2016 nema 2., 4.–5., 8., 24., 31., 37., 45., 48.–52., 54.–55. og 57.–58. gr. sem tóku gildi 31. des. 2015 og a–d-liður 1. gr., 6.–7., 13. og 15. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2017; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 59. gr.).
L. 126/2016 (tóku gildi 1. jan. 2017 nema 1., 2., c-liður 8., 9., 18., r-liður 19., 20., 22.–24., 28., 29., 41., 58., 60. og 61. gr. sem tóku gildi 31. des. 2016, s-liður 19. gr. sem tók gildi 1. apríl 2017 og 10. gr. sem tók gildi 1. sept. 2017; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 62. gr.).
L. 96/2017 (tóku gildi 31. des. 2017 nema 1., 11., 13., 14., 17.–27., 31.–35. og 38.–46. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2018; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 49. gr.).
L. 47/2018 (tóku gildi 26. maí 2018).
L. 138/2018 (tóku gildi 28. des. 2018 nema 1.–13., 17., 19., 23.–28. og 31. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2019; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 32. gr.).
L. 135/2019 (tóku gildi 1. jan. 2020 nema 16. gr. sem tók gildi 24. des. 2019; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 42. gr.).
L. 137/2019 (tóku gildi 31. des. 2019).
L. 133/2020 (tóku gildi 1. jan. 2021 nema 37. og 38. gr. sem tóku gildi 17. des. 2020; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 40. gr.).
L. 131/2021 (tóku gildi 1. jan. 2022 nema d-liður 20. gr. sem tók gildi 31. des. 2021; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 61. gr.).
L. 38/2022 (tóku gildi 1. júlí 2022 nema 76. gr., a-liður 82. gr., d-liður 177. gr., d-liður 206. gr. og 65. gr. sem tóku gildi skv. fyrirmælum í 215. gr. EES-samningurinn: IX. viðauki reglugerð 575/2013, 2015/62, 2016/1014, 2017/2188, 2017/2395, 2019/630, 2019/876, 2020/873).
L. 129/2022 (tóku gildi 1. jan. 2023 nema a-liður 31. gr. sem tók gildi 1. mars 2023 og 37. og 60. gr. sem tóku gildi 31. des. 2022; koma til framkvæmda skv. fyrirmælum í 68. gr., sbr. einnig brbákv. í s.l.).
L. 100/2023 (tóku gildi 1. jan. 2024 nema 31., 32. og 38. gr. sem tóku gildi 30. des. 2023; koma til framkvæmda skv. fyrirmælum í 39. gr.).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við félags- og vinnumarkaðsráðherra eða félags- og vinnumarkaðsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
1. gr. Gjald og gjaldskyldir aðilar.
[Lánastofnanir með starfsleyfi samkvæmt lögum]1) um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, [ÍL-sjóður],2) lífeyrissjóðir og vátryggingafélög skulu standa straum af kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara með greiðslu sérstaks gjalds í samræmi við ákvæði laga þessara. Hið sama á við um fjármálafyrirtæki sem er stýrt af skilanefnd, slitastjórn eða bráðabirgðastjórn samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki hefur starfsleyfi, takmarkað starfsleyfi eða starfsleyfi þess verið afturkallað, enda [hafi það eða hafi haft veitingu útlána sem fjármögnuð eru með endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi eða eignaleigu að meginstarfsemi].1)
Útibú erlendra lánastofnana hér á landi skulu jafnframt greiða gjald samkvæmt lögum þessum.
Útlán hjá dótturfélagi gjaldskylds aðila skulu teljast með útlánum hjá móðurfélagi enda sé dótturfélagið ekki gjaldskyldur aðili.
Lánasjóður sveitarfélaga og Byggðastofnun skulu undanskilin gjaldskyldu samkvæmt lögum þessum.
[Gjaldið rennur í ríkissjóð.]3)
1)L. 38/2022, 159. gr. 2)L. 137/2019, 19. gr. 3)L. 47/2018, 41. gr.
2. gr. Skýrsla um álagningu næsta árs.
Fyrir 1. júlí ár hvert skal umboðsmaður skuldara gefa ráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta almanaksárs [og áætlaðan kostnað vegna fjárhagsaðstoðar til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta].1) Í skýrslunni skulu jafnframt koma fram upplýsingar um það hlutfall sem gjaldskyldir aðilar skulu greiða af álagningarstofni skv. 5. gr., auk þess sem lagt skal mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú almanaksár.
Skýrslu umboðsmanns skuldara til ráðherra skal fylgja álit samráðsnefndar gjaldskyldra aðila skv. 3. gr. ásamt afstöðu stofnunarinnar til þess álits. Til að samráðsnefndin geti gefið álit sitt skal umboðsmaður skuldara eigi síðar en 1. júní ár hvert láta henni í té drög að skýrslu. Samráðsnefndin skal skila umboðsmanni skuldara áliti um skýrsluna eigi síðar en 14. júní ár hvert.
Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta gjalds skal ráðherra, telji hann þörf á breytingum, leggja frumvarp fyrir Alþingi þar sem lögð er til breyting gjalds skv. 5. gr. sem ráðherra telur nauðsynlega í ljósi fyrirliggjandi gagna.
1)L. 140/2013, 16. gr.
3. gr. Samráðsnefnd gjaldskyldra aðila.
Ráðherra skipar fjögurra manna samráðsnefnd gjaldskyldra aðila samkvæmt tilnefningum til þriggja ára í senn. [ÍL-sjóður]1) skal tilnefna einn fulltrúa, Landssamtök lífeyrissjóða einn fulltrúa og Samtök fjármálafyrirtækja tvo. Nefndin velur sér formann og skal tilkynna ráðherra og umboðsmanni skuldara um formann nefndarinnar og aðsetur.
Hlutverk samráðsnefndarinnar er að fjalla um skýrslu umboðsmanns skuldara skv. 2. gr. og skila áliti um skýrsluna til umboðsmanns skuldara.
[ÍL-sjóður],1) Landssamtök lífeyrissjóða og Samtök fjármálafyrirtækja skulu bera kostnað af starfi samráðsnefndarinnar.
1)L. 137/2019, 19. gr.
4. gr. Álagningarstofn.
Álagningarstofn gjalds skv. 1. mgr. 5. gr. eru öll útlán viðkomandi gjaldskylds aðila í lok árs miðað við ársreikning, samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu, fyrir almanaksárið á undan því ári sem skýrsla umboðsmanns skuldara skv. 2. gr. er unnin. Þegar um er að ræða fjármálafyrirtæki skv. 2. málsl. 1. mgr. 1. gr. skal í stað ársreiknings miða við upplýsingar Fjármálaeftirlitsins sem það hefur aflað á grundvelli 1. mgr. 101. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Með útlánum er átt við bókfært virði útlána og annarra krafna, þ.m.t. eignarleigusamninga, sem tilgreindar eru undir eignaliðnum útlán í efnahagsreikningi lánastofnana og [ÍL-sjóðs]1) og undir eignaliðunum veðlán og önnur útlán í efnahagsreikningi lífeyrissjóða og vátryggingafélaga.
Hafi tveir eða fleiri gjaldskyldir aðilar sameinast er álagningarstofn gjalds hins sameinaða aðila samanlögð útlán þessara aðila fyrir almanaksárið á undan því ári sem skýrsla umboðsmanns skuldara skv. 2. gr. er unnin. Sama á við um samruna gjaldskylds aðila við annað félag eða einstaka rekstrarhluta þess eða yfirtöku félags á gjaldskyldum aðila.
Fjármálaeftirlitið skal veita umboðsmanni skuldara upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laga þessara.
1)L. 137/2019, 19. gr.
5. gr. Álagt gjald.
Gjaldskyldir aðilar skulu greiða gjald sem nemur [0,006436%]1) af álagningarstofni skv. 4. gr.
Gjaldskyldur aðili er undanþeginn greiðslu á því ári sem hann hefur starfsemi. Árið eftir að gjaldskyldur aðili hefur starfsemi skal miða álagningu við greiðslu á 500.000 kr. hafi hann veitt lán á almanaksárinu á undan.
1)L. 100/2023, 12. gr.
6. gr. Framkvæmd álagningar og innheimtu.
Álagning gjalds samkvæmt lögum þessum skal fara fram eigi síðar en 15. janúar ár hvert.
Sá sem annast innheimtu gjalds samkvæmt lögum þessum skal gera gjaldskyldum aðilum grein fyrir álagningunni með bréfi.
Gjaldið skal greitt ársþriðjungslega fyrir fram með þremur jafnháum greiðslum. Það greiðist þannig að gjalddagi 1. ársþriðjungs er 1. febrúar og eindagi 15. febrúar, gjalddagi 2. ársþriðjungs er 1. maí og eindagi 15. maí og gjalddagi 3. ársþriðjungs er 1. september og eindagi 15. september. Framangreind greiðsluskipting tekur þó ekki til álagðs gjalds sem nemur 500.000 kr. eða lægri fjárhæð og skal gjaldið greitt í einni greiðslu 1. febrúar með eindaga 15. febrúar.
Sé gjald greitt eftir eindaga hverrar greiðslu reiknast dráttarvextir á greiðsluna frá gjalddaga í samræmi við lög um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
Þeim sem annast innheimtu gjalds samkvæmt lögum þessum er heimilt að ákvarða álagningu gjalds að nýju gagnvart tilteknum gjaldskyldum aðilum reynist álagningarstofn eða aðrar forsendur fyrri álagningar ekki réttar.
Ráðherra ákveður með reglugerð1) hver skuli annast innheimtu gjalds samkvæmt lögum þessum.
1)Rg. 127/2012.
7. gr. Ráðstöfun rekstrarafgangs og rekstrartaps.
Verði rekstrarafgangur eða rekstrartap af starfsemi umboðsmanns skuldara skal tekið tillit til þess við ákvörðun á fjárhæð gjalds fyrir næsta almanaksár.
8. gr. Málshöfðun.
Ákvörðun sem tekin er á grundvelli laga þessara verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.
Vilji gjaldskyldur aðili ekki una ákvörðun sem tekin er á grundvelli laga þessara getur hann höfðað mál til ógildingar hennar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan 45 daga frá því að aðila var gerð grein fyrir álagningunni skv. 2. mgr. 6. gr. Málshöfðun frestar hvorki innheimtuaðgerðum né heimildum til aðfarar vegna krafnanna.
9. gr. Reglugerð um framkvæmd.
Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd laga þessara með reglugerð.
10. gr. Gildistaka o.fl.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2012 og skulu fyrst gilda um álagningu gjalds vegna rekstrarárs umboðsmanns skuldara 2012, sbr. einnig ákvæði til bráðabirgða.
11. gr. Breyting á öðrum lögum. …
Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir 10. gr. laganna gildir ákvæði 2. gr. ekki um álagningu gjalds fyrir árið 2012.