Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Orkuveitu Reykjavíkur

2013 nr. 136 27. desember


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. janúar 2014. Breytt með: L. 29/2023 (tóku gildi 7. júní 2023).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eða umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Orkuveita Reykjavíkur er sameignarfyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar og Borgarbyggðar. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík, en heimilt er að starfrækja útibú á öðrum stöðum. Fyrirtækið er sjálfstæður lögaðili með sjálfstæðan fjárhag og reikningshald og sjálfstæða skattaðild. Eiganda er óheimilt að ganga úr fyrirtækinu án samþykkis sameigendanna. Eignaraðild getur breyst með sameiningu starfsemi, sbr. ákvæði 5. mgr. 2. gr., eða með samningi sameigenda.
2. gr.
Heimilt er Orkuveitu Reykjavíkur að eiga dótturfélög og eiga hlut í félögum.
Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélög stunda vinnslu, framleiðslu og sölu raforku og heits vatns og gufu og rekstur grunnkerfa, svo sem dreifiveitu rafmagns, hitaveitu, vatnsveitu, fráveitu og gagnaveitu, auk annarrar starfsemi sem hefur sambærilega stöðu. [Einnig hafa Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélög með höndum starfsemi sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað fyrirtækjanna, sem og iðnþróun og nýsköpun, enda tengist hún kjarnastarfsemi fyrirtækisins, þ.m.t. geymslu koldíoxíðs og annarra vatnsleysanlegra gastegunda í jörðu.]1)
Aðgreining starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur frá starfsemi dótturfélaga skal vera í samræmi við ákvæði laga hverju sinni. Við rekstur Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfisstarfsemi eða verndaðri starfsemi.
Orkuveitu Reykjavíkur er heimilt að framselja til dótturfélags einkaleyfi til starfrækslu hitaveitu, sérleyfi til raforkudreifingar og einkarétt til starfrækslu vatnsveitu og fráveitu, enda uppfylli dótturfélögin skilyrði laga til að fara með þau leyfi. Við slíkt framsal skulu tilheyrandi eignir og skuldir skiptast í réttum hlutföllum við hvern rekstrarþátt miðað við bókfært verð.
Heimilt er að sameina starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur eða dótturfélags þess við sambærilega starfsemi sem rekin er af sveitarfélögum eða öðrum opinberum aðilum eða fyrirtæki í opinberri eigu, sbr. XIV. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög.
   1)L. 29/2023, 1. gr.
3. gr.
Orkuveitu Reykjavíkur er heimilt að stofna til fjárhagslegra skuldbindinga til þarfa fyrirtækisins og gangast í ábyrgð fyrir greiðslum í sama skyni. Fjárhagslegar skuldbindingar sem njóta skulu ábyrgðar eigenda eru háðar samþykki þeirra, sbr. 2. mgr.
Hver eigandi Orkuveitu Reykjavíkur ber einfalda ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum fyrirtækisins sem veitt er eigendaábyrgð samkvæmt þessari grein og skal innbyrðis skipting ábyrgðar vera í réttu hlutfalli við eignarhluta hans í fyrirtækinu. Ábyrgð eigenda nær ekki til annarra skuldbindinga fyrirtækisins og getur hún ekki numið hærra hlutfalli en 80% af fjárþörf verkefnis sem veitt er eigendaábyrgð.
Orkuveita Reykjavíkur skal greiða eigendum sínum árlegt ábyrgðargjald af þeim fjárhagslegu skuldbindingum sem njóta eigendaábyrgðar. Ábyrgðargjald vegna lána til samkeppnisstarfsemi fyrirtækisins skal svara að fullu til þeirrar ívilnunar sem fyrirtækið nýtur, á grunni ábyrgðar eigenda, í formi hagstæðari lánskjara umfram þau kjör sem almennt bjóðast á markaði án ábyrgðar.
Ábyrgðargjald það sem Orkuveita Reykjavíkur greiðir skal ákveðið á grundvelli mats óháðs aðila á lánskjörum með og án eigendaábyrgðar og skal gjaldið reiknað af höfuðstól gjaldskyldra skuldbindinga.
Komi fram beiðni um greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti skulu ákvæði laga um gjaldþrotaskipti, eins og þau eru á hverjum tíma, eiga við um Orkuveitu Reykjavíkur með sama hætti og um félag með takmarkaða ábyrgð.
4. gr.
Um heimildir Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga til gjaldtöku vegna dreifingar á raforku og reksturs vatnsveitu, hitaveitu og fráveitu fer samkvæmt gildandi lögum á hverju sviði. Að öðru leyti setja stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og stjórnir dótturfélaga gjaldskrár vegna sölu á vörum og þjónustu fyrirtækjanna.
Við það skal miðað að Orkuveita Reykjavíkur skili eðlilegri arðsemi miðað við það fjármagn sem á hverjum tíma er bundið í fyrirtækinu. Ákvörðun um ráðstöfun afkomu skal tekin á aðalfundi.
5. gr.
Um skipan í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga skal kveðið á í sameignarsamningi eigenda eða samþykktum viðkomandi fyrirtækja.
Eigendur Orkuveitu Reykjavíkur skulu gera með sér sameignarsamning þar sem fram komi frekari ákvæði um fyrirtækið. Þar skal m.a. kveðið á um:
   a. skipan stjórnar,
   b. aðalfund og aðra fundi eigenda, þ.m.t. boðun, umfjöllunarefni, rétt til setu og meðferð eignarhluta í fyrirtækinu,
   c. stjórnarfundi og verkefni stjórnar,
   d. ráðningu forstjóra og annars starfsliðs,
   e. prókúruumboð,
   f. heimildir stjórnar og forstjóra til að skuldbinda fyrirtækið,
   g. hlutverk og ábyrgð eigendanna og hvernig þátttaka þeirra í ákvörðunum um mikilvæg málefni og stefnumörkun skuli tryggð,
   h. breytingar á sameignarsamningi.
6. gr.
Ráðherra setur reglugerð um starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur. Þar skal m.a. kveða á um orkuöflun, orkuveitu, orkusölu og viðbrögð við misnotkun.
7. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2014.
Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð bera áfram, hvert um sig gagnvart kröfuhöfum, ótakmarkaða ábyrgð á þeim skuldbindingum sem sveitarfélögin stofnuðu til fyrir stofnun sameignarfyrirtækisins Orkuveitu Reykjavíkur 1. janúar 2002, sbr. lög nr. 139/2001, með síðari breytingum.
II.
Ábyrgðir eigenda á fjárhagslegum skuldbindingum, í samræmi við ákvæði laga nr. 139/2001, svo og skuldbindingum samkvæmt langtímarafmagnssamningum Orkuveitu Reykjavíkur við stóriðjufyrirtæki, sem stofnað var til fyrir gildistöku laga nr. 144/2010, halda gildi sínu eins og til þeirra var stofnað þar til þær eru að fullu efndar. Greiða ber árlega ábyrgðargjald, sbr. 3 gr., af þeim fjárhagslegu skuldbindingum, svo og þar sem um er að ræða ábyrgð á skuldbindingum samkvæmt rafmagnssamningum Orkuveitu Reykjavíkur við stóriðjufyrirtæki, frá og með gildistöku laga nr. 144/2010.
III.
Þrátt fyrir skilyrði 52. og 54. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal uppskipting rekstrarþátta á milli sameignarfyrirtækisins Orkuveitu Reykjavíkur og einstakra dótturfélaga hennar, í samræmi við kröfur raforkulaga, nr. 65/2003, með síðari breytingum, ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir Orkuveitu Reykjavíkur, dótturfélög hennar og eigendur. Eignir og skuldir skulu færast yfir á skattalega bókfærðu verði. Við skiptingu skulu skattalegar skyldur og skattaleg réttindi, þ.m.t. yfirfæranlegt rekstrartap, skiptast á milli félaganna í sama hlutfalli og bókfært verð eigna að frádregnum skuldum sem flytjast til þeirra.
IV.
Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 55. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er þeim hlutafélögum sem verða til við uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur samkvæmt raforkulögum, nr. 65/2003, og uppfylla skilyrði til samsköttunar heimilt að nýta yfirfæranlegt tap fyrri ára sem beinlínis stafar af sömu þáttum í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur frá því fyrir samsköttun, svo fremi sem önnur skilyrði sem fram koma í lögum nr. 90/2003 séu uppfyllt.
V.
Skjöl er varða eignaryfirfærslu á þeim fasteignum sem færast yfir til nýrra rekstrarfélaga á grundvelli laga þessara eru ekki gjaldskyld á grundvelli laga nr. 36/1978, um stimpilgjald, eða annarra laga um stimpilgjald sem síðar kunna að verða lögfest.