Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um vátryggingastarfsemi
2016 nr. 100 15. september
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. október 2016. EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 2009/138/EB. Breytt með:
L. 36/2018 (tóku gildi 23. maí 2018; EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 2014/51/ESB).
L. 46/2018 (tóku gildi 1. júlí 2018; um lagaskil sjá 19. gr.).
L. 141/2018 (tóku gildi 1. jan. 2019).
L. 26/2019 (tóku gildi 23. maí 2019).
L. 27/2019 (tóku gildi 23. maí 2019).
L. 91/2019 (tóku gildi 1. jan. 2020 nema 133. gr. sem tók gildi 16. júlí 2019).
L. 94/2019 (tóku gildi 1. jan. 2020 nema 46. gr. sem tekur gildi skv. fyrirmælum í 55. gr.; EES-samningurinn: XXII. viðauki tilskipun 2014/56/ESB, reglugerð 537/2014).
L. 45/2020 (tóku gildi 4. júní 2020; EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 2011/61/ESB, 2013/14/ESB).
L. 82/2021 (tóku gildi 7. júlí 2021; EES-samningurinn: IX. viðauki reglugerð 2017/2358, 2017/2359).
L. 115/2021 (tóku gildi 1. sept. 2021 nema 39. gr. sem tók gildi 1. nóv. 2021 og 5. mgr. 48. gr. sem tók gildi 28. febr. 2023; um lagaskil sjá 147. gr.; EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 2014/65/ESB, 2016/1034, reglugerð 600/2014, 2016/1033, 2017/565, 2017/567).
L. 38/2022 (tóku gildi 1. júlí 2022 nema 76. gr., a-liður 82. gr., d-liður 177. gr., d-liður 206. gr. og 65. gr. sem tóku gildi skv. fyrirmælum í 215. gr. EES-samningurinn: IX. viðauki reglugerð 575/2013, 2015/62, 2016/1014, 2017/2188, 2017/2395, 2019/630, 2019/876, 2020/873).
L. 50/2022 (tóku gildi 8. júlí 2022; EES-samningurinn: IX. viðauki reglugerð 2017/2294, 2019/1011, 2021/527, 2019/2115, 2018/1717, tilskipun 2014/51/ESB, XXII. viðauki tilskipun 2004/25/EB).
L. 80/2022 (tóku gildi 14. júlí 2022 nema b-liður 2. mgr. 170. gr., b-liður 1. mgr. 171. gr. hvað varðar samevrópska u-rýmisþjónustu og c-liður 1. mgr. 171. gr. sem tóku gildi 26. jan. 2023 og d-liður 258. gr. sem tók gildi 1. jan. 2023; EES-samningurinn: XIII. viðauki reglugerð 2027/97, 889/2002, tilskipun 2000/79/EB, 2009/12/EB).
L. 10/2023 (tóku gildi 29. mars 2023).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við fjármála- og efnahagsráðherra eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Markmið og gildissvið.
1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að vernda hagsmuni vátryggingartaka og vátryggðra ásamt því að tryggja stöðugleika á fjármálamarkaði.
2. gr. Gildissvið.
Lög þessi gilda um starfsemi innlendra vátryggingafélaga og starfsemi erlendra vátryggingafélaga hér á landi. Einungis vátryggingafélög með tilskilin starfsleyfi hafa heimild til þess að stunda vátryggingastarfsemi hér á landi. Með vátryggingastarfsemi í lögum þessum er átt við frumtryggingastarfsemi á sviði skaðatrygginga og líftrygginga og hvers konar endurtryggingastarfsemi.
Lög þessi gilda um félagasamstæður þegar móðurfélagið er vátryggingafélag. Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að ákvæði laga þessara um félagasamstæður skuli eiga við um tengsl félags sem er ekki vátryggingafélag og vátryggingafélaga þegar litið væri á hið fyrrnefnda sem móðurfélag samkvæmt lögum þessum ef það ræki vátryggingastarfsemi.
Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að lög þessi taki til félaga sem teljast ekki félagasamstæður þegar veruleg innbyrðis tengsl eru á milli þeirra. Félögin skulu þá tilnefna eitt þeirra sem móðurfélag.
Við mat á því hvort um yfirráð í félagi sé að ræða skal leggja saman réttindi móðurfélags og dótturfélags eða dótturfélaga.
3. gr. Takmarkanir á gildissviði.
Lög þessi gilda ekki um eftirlaunasjóði, lífeyrissjóði og sjúkrasjóði einstakra atvinnustétta, starfshópa og fyrirtækja né um Tryggingastofnun ríkisins, Sjúkratryggingar Íslands, Atvinnuleysistryggingasjóð og hliðstæðar stofnanir sem reknar eru samkvæmt sérlögum.
Lög þessi gilda ekki um endurtryggingastarfsemi sem er í höndum ríkis, eða tryggð til fulls af ríkinu, þegar starfsemin, af ástæðum sem varða mikilvæga hagsmuni almennings, veitir endurtryggingarvernd sem að öðrum kosti væri ófáanleg eða illfáanleg.
Ákvæði XV., XVI., XVII., XX. og XXI. kafla auk 2., 5. og 6. tölul. 1. mgr. 24. gr., [2.–5. mgr.]1) 27. gr., 3.–8. mgr. 29. gr., 31. gr., 32. gr., 39. gr., 40. gr., lokamálsliðar 3. mgr. 42. gr., 43.–47. gr., 1. og 2. mgr. 48. gr., 49. gr., 52. gr., 54.–57. gr., d-liðar 2. mgr. 71. gr., 73. gr., 76.–82. gr., 86. gr., 87. gr. og 115.–120. gr. laga þessara eiga hvorki við um [Náttúruhamfaratryggingu Íslands]2) né vátryggingafélög sem eftirfarandi skilyrði eiga við um:
1. Árleg bókfærð iðgjöld eru undir jafnvirði 5 milljóna evra í íslenskum krónum.
2. Fjárhæð vátryggingaskuldar er undir jafnvirði 25 milljóna evra í íslenskum krónum.
3. Vátryggingaskuld samstæðunnar er undir jafnvirði 25 milljóna evra í íslenskum krónum ef félagið er hluti af samstæðu.
4. Eru hvorki með starfsemi í ábyrgðartryggingum né greiðslu- og efndavátryggingum, nema slík áhætta flokkist sem hliðaráhætta í samræmi við 3. mgr. 20. gr.
5. Bókfærð iðgjöld í endurtryggingum nema ekki meira en 10% af bókfærðum iðgjöldum félagsins í heild og ekki hærri fjárhæð en jafnvirði 0,5 milljóna evra í íslenskum krónum. Þá má vátryggingaskuld vegna þeirrar starfsemi ekki nema meira en 10% af vátryggingaskuld félagsins í heild og ekki hærri fjárhæð en jafnvirði 2,5 milljóna evra í íslenskum krónum.
Vátryggingafélög sem hættu fyrir 10. desember 2007 að taka að sér nýja vátryggingaráhættu og unnu eingöngu að afgreiðslu eldri endurtryggingarsamninga eru undanskilin sömu ákvæðum og vísað er til í 3. mgr.
[Seðlabanki Íslands]3) getur sett reglur4) um kröfur til vátryggingafélags, sem fellur undir undanþáguákvæði 3. mgr., sem hafa það markmið að vernda vátryggingartaka og vátryggða. [Reglurnar geta m.a. falið í sér ákvæði um gjaldþolskröfur, stjórnarhætti og upplýsingagjöf til Fjármálaeftirlitsins.]1)
Ef vátryggingafélag fer umfram fjárhæðarmörk 3. mgr. þrjú ár í röð telst félagið ekki lengur undanþegið ákvæðum málsgreinarinnar.
Ef vátryggingafélag hefur ekki fallið undir 3. mgr. en skilyrði málsgreinarinnar hafa átt við um félagið þrjú ár í röð og ekki er búist við að það fari umfram eitthvert þessara fjárhæðarmarka á næstu fimm árum telst það falla undir undanþáguákvæði 3. mgr.
Lög þessi gilda að öllu leyti um vátryggingafélag sem sækir um starfsleyfi nema sýnt sé fram á að skilyrði 3. mgr. eigi við fyrstu fimm starfsár félagsins samkvæmt rekstraráætlun. Berist ósk um slíkt frá vátryggingafélagi getur Fjármálaeftirlitið ákveðið að lögin gildi um starfsemi þess þótt skilyrði 3. mgr. eigi við um félagið.
1)L. 36/2018, 1. gr. 2)L. 46/2018, 20. gr. 3)L. 91/2019, 120. gr. 4)Rgl. 1090/2018.
II. kafli. Mörk við aðra starfsemi.
4. gr. Mörk við aðra starfsemi.
Vátryggingafélag má ekki reka aðra starfsemi en vátryggingastarfsemi nema annað leiði af ákvæðum 5. gr.
Vátryggingafélag telst reka aðra starfsemi en vátryggingastarfsemi ef félagið hefur yfirráð, eitt sér eða ásamt öðru vátryggingafélagi, í félagi sem rekur aðra starfsemi en vátryggingastarfsemi. Þegar um félagasamstæðu er að ræða eða vátryggingafélag í beinum eða óbeinum rekstrarlegum tengslum við önnur félög og móðurfélagið er ekki vátryggingafélag skal í þessu sambandi litið á vátryggingafélögin sem eitt félag.
Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. er vátryggingafélagi heimilt að reka viðskiptabanka eða aðra fjármálastarfsemi í sérstöku félagi, enda sé starfsemin háð starfsleyfi og eftirliti opinberra aðila.
Vátryggingafélag má ekki taka á sig ábyrgðir sem ekki eru vátryggingar. Því er óheimilt að taka á sig skuldbindingar sem ekki eru í tengslum við eðlilegan rekstur vátryggingafélags.
5. gr. Leyfileg hliðarstarfsemi.
Vátryggingafélagi er heimilt að reka eftirfarandi hliðarstarfsemi:
1. Umboð fyrir vátryggingafélög sem leyfi hafa til að starfa hér á landi og fyrir önnur félög sem lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins eða annarra opinberra aðila.
2. Að byggja, eiga og reka fasteignir sem lið í fjárfestingu til ávöxtunar á fjármunum félagsins til lengri tíma samkvæmt reglum sem stjórn setur.
3. Að kaupa og selja skuldabréf og aðra fjármálagerninga og lánveitingar samkvæmt reglum sem stjórn setur. Ákvæði þetta tekur ekki til fjármálagerninga sem skráðir eru á skipulegum [markaði]1) sem fjárfest er í til ávöxtunar á fjármunum félagsins. Fjárfestingar samkvæmt þessum tölulið takmarkast af ákvæði 2. mgr. 4. gr.
4. Tjónsuppgjör og tjónavarnastarfsemi.
5. Rekstur og umsjón með sjóðum er tengjast eða eru hliðstæðir vátryggingastarfsemi.
6. Aðra umsýslu í beinu framhaldi af og í eðlilegum tengslum við vátryggingastarfsemi.
Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að starfsemi skv. 5. tölul. 1. mgr. skuli rekin af sjálfstæðu félagi. Starfsemi skv. 6. tölul. 1. mgr. er háð leyfi Fjármálaeftirlitsins.
1)L. 115/2021, 148. gr.
III. kafli. Skilgreining hugtaka.
6. gr. Skilgreiningar.
Í lögum þessum merkir:
1. Aðildarríki: Ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES), aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) eða Færeyjar.
2. Aðildarríki þar sem frumvátryggingaráhætta er:
a. Í eignatryggingum: Ríkið þar sem hin vátryggða eign er þegar mannvirki eru vátryggð eða mannvirki ásamt lausafé er vátryggt í sama vátryggingarsamningi.
b. Í ökutækjatryggingum: Ríkið þar sem ökutæki er skráð.
c. Í ferðatryggingum: Ríkið þar sem vátrygging er keypt enda sé gildistími hennar ekki lengri en fjórir mánuðir.
d. Í öðrum vátryggingum: Ríkið þar sem vátryggingartaki hefur aðsetur að jafnaði eða, þegar um lögaðila er að ræða, það aðildarríki þar sem aðsetrið er sem helst tengist vátryggingarsamningnum sem gerður er.
3. Aðildarríki þar sem þjónusta er veitt: Aðildarríki þar sem vátryggingafélag eða útibú í öðru aðildarríki vátryggir áhættu sem þar er, sbr. 2. tölul., án þess að hafa þar starfsstöð.
4. Ábyrgðarsjóður vegna ökutækjatrygginga: Stofnun sem greiðir bætur, a.m.k. upp að mörkum vátryggingarfjárhæða, vegna líkamstjóns eða tjóns á eignum sem óþekkt eða óvátryggð ökutæki valda.
5. Áhættumál (e. risk measure): Stærðfræðilegt hugtak, fall sem úthlutar fjárhæð á tiltekna líkindadreifingu og er vaxandi sem fall af áhættunni sem liggur til grundvallar líkindadreifingunni.
6. Áhættuvarnir (e. risk-mitigation techniques): Aðferðir sem gera vátryggingafélagi kleift að flytja hluta áhættu sinnar eða alla áhættu til annars aðila.
7. Áhættuvirði (e. Value-at-Risk (VaR)): Tölfræðileg aðferð til að mæla tapsáhættu. Áhættuvirði miðað við 99,5% öryggisstig til eins árs þýðir lágmarkstap sem 99,5% líkur eru á að verði ekki á næsta ári, þ.e. einungis 0,5% líkur eru á að slíkt tap verði.
8. Bundið endurtryggingafélag (e. captive reinsurance undertaking): Endurtryggingafélag sem er í eigu fyrirtækis, þó ekki vátryggingafélags eða samstæðu vátryggingafélaga, eða í eigu fyrirtækis, annars en fjármálafyrirtækis, sem hefur að markmiði að endurtryggja einungis áhættu fyrirtækis eða fyrirtækja sem það tilheyrir eða áhættu fyrirtækis eða fyrirtækja samstæðunnar sem bundna endurtryggingafélagið á aðild að.
9. Bundið frumtryggingafélag (e. captive insurance undertaking): Frumtryggingafélag sem er í eigu fyrirtækis, þó ekki vátryggingafélags eða samstæðu vátryggingafélaga, eða í eigu fyrirtækis, annars en fjármálafyrirtækis, sem hefur að markmiði að frumtryggja einungis áhættu fyrirtækis eða fyrirtækja sem það tilheyrir eða áhættu fyrirtækis eða fyrirtækja samstæðunnar sem bundna frumtryggingafélagið á aðild að.
10. Dótturfélag: Félag sem móðurfélag hefur yfirráð yfir; félag undir yfirráðum dótturfélags telst einnig vera dótturfélag móðurfélagsins.
11. Eftirlitsstjórnvald: Aðili sem samkvæmt lögum hlutaðeigandi ríkis fer með eftirlit með vátryggingafélögum og vátryggingastarfsemi, hér á landi Fjármálaeftirlitið.
12. Endurtryggingafélag: Vátryggingafélag sem fengið hefur starfsleyfi til endurtryggingastarfsemi skv. 22. gr.
13. Endurtryggingafélag frá ríki utan aðildarríkja: Endurtryggingafélag með höfuðstöðvar í öðru ríki en aðildarríki og sem væri starfsleyfisskylt skv. 22. gr. ef höfuðstöðvar þess væru í aðildarríki.
14. Endurtryggingastarfsemi: Starfsemi sem felst í því að taka á sig áhættu sem vátryggingafélag eða annað endurtryggingafélag hefur látið frá sér. Ef um er að ræða samtök vátryggjenda undir nafninu Lloyd's merkir endurtryggingastarfsemi einnig starfsemi sem felst í því að taka á sig áhættu sem félagi í Lloyd's eða vátryggingafélag eða endurtryggingafélag sem hvorugt er aðili að Lloyd's hafa látið frá sér.
15. Félag með sérstakan tilgang: Félag um starfsemi, hvert svo sem félagaformið er, annað en starfandi vátryggingafélag, sem yfirtekur áhættu frá vátryggingafélögum og [fjármagnar sig gagnvart slíkri áhættu með]1) útgáfu skuldabréfa eða með einhverju öðru fjármögnunarfyrirkomulagi þar sem endurgreiðsluréttur þeirra sem keypt hafa skuldabréfin eða tekið þátt í fjármögnun víkur fyrir endurtryggingaskuldbindingum félagsins.
16. Fjölþættingaráhrif: Áhrif til að minnka áhættu vátryggingafélaga og samstæðna vegna fjölþættingar í starfsemi. Áhrifin stafa af því að óhagstæð útkoma eins áhættuþáttar mildast af hagstæðari útkomu annars áhættuþáttar þar sem ekki er full fylgni á milli viðkomandi áhættuþátta.
17. Frumtryggingafélag: Félag sem hefur með höndum þá starfsemi að vátryggja áhættu einstaklinga og lögaðila, aðra en endurtryggingaráhættu, og hefur hlotið til þess starfsleyfi skv. VI. kafla.
18. Frumtryggingafélag frá ríki utan aðildarríkja: Frumtryggingafélag með höfuðstöðvar í öðru ríki en aðildarríki sem væri starfsleyfisskylt skv. VI. kafla ef höfuðstöðvar þess væru í aðildarríki.
19. Frumtryggingastarfsemi: Sú starfsemi að vátryggja vátryggingaráhættu annarra en vátryggingafélaga.
20. Gistiríki: Aðildarríki þar sem vátryggingafélag með höfuðstöðvar í öðru aðildarríki hefur útibú eða veitir þjónustu án starfsstöðvar.
21. Heimaríki: Aðildarríki þar sem höfuðstöðvar vátryggingafélags eða annars eftirlitsskylds aðila eru og starfsleyfi er gefið út.
22. Hlutdeild: Eignarhald á minnst 20% atkvæðisréttar eða eigin fjár félags beint eða með yfirráðarétti.
23. Kröfuáhætta (útlánaáhætta, e. credit risk): Hætta á tapi eða óhagstæðum breytingum á fjárhagslegri stöðu sem stafa af sveiflum í lánshæfi útgefanda verðbréfa, mótaðila og annarra sem vátryggingafélög eiga kröfu á. Undir kröfuáhættu fellur mótaðilaáhætta, vikáhætta og samþjöppun markaðsáhættu.
24. Landsskrifstofa alþjóðlegra bifreiðatrygginga: Samtök vátryggingaraðila sem stofnuð eru samkvæmt tilmælum Evrópuráðsins nr. 5 frá 25. janúar 1949 og taka til vátryggingafélaga sem hafa fengið starfsleyfi í viðkomandi ríki til að hafa með höndum vátryggingagreinina „ábyrgðartryggingar ökutækja“.
25. Lausafjáráhætta (e. liquidity risk): Hætta á að vátryggingafélag hafi ekki yfir nægu lausu fé að ráða eða geti ekki selt eignir í tæka tíð til að mæta skuldbindingum þegar við á.
26. Markaðsáhætta (e. market risk): Hætta á tapi eða óhagstæðum breytingum á fjárhagslegri stöðu sem stafa beint eða óbeint af sveiflum á virði eða flökti markaðsvirðis eigna, skuldbindinga og fjármálagerninga.
27. Miðlægur mótaðili (e. qualifying central counterparty): Lögaðili sem gengur á milli aðila að samningum sem eru með viðskipti á einum eða fleiri fjármálamörkuðum og verður þar með kaupandi gagnvart seljanda og seljandi gagnvart kaupanda. Viðurkenndur miðlægur mótaðili er aðili sem fengið hefur starfsleyfi eftirlitsstjórnvalds.
28. Móðurfélag: Félag sem hefur yfirráð yfir öðru félagi.
29. Náin tengsl: Þegar tveir eða fleiri aðilar, einstaklingar eða lögaðilar, tengjast í gegnum yfirráð eða hlutdeild, eða aðstæður þar sem tveir eða fleiri aðilar, einstaklingar eða lögaðilar, eru varanlega tengdir einum og sama aðilanum yfirráðatengslum.
30. Rekstraráhætta (e. operational risk): Hætta á tapi vegna ófullnægjandi eða gallaðra innri kerfa eða ferla, háttsemi starfsmanna eða ytri þátta.
[31. Samstarf: Samstarf skal m.a. vera talið á milli aðila ef þeir hafa gert með sér samkomulag um að einn eða fleiri saman nái virkum eignarhlut í félagi, hvort sem samkomulagið er formlegt eða óformlegt, skriflegt, munnlegt eða með öðrum hætti. Samstarf skal alltaf talið vera fyrir hendi þegar um eftirfarandi tengsl er að ræða, nema sýnt sé fram á hið gagnstæða:
a. Hjón, aðilar í skráðri sambúð og börn hjóna eða aðila í skráðri sambúð. Foreldrar og börn teljast enn fremur aðilar í samstarfi.
b. Tengsl milli aðila sem fela í sér bein eða óbein yfirráð annars aðilans yfir hinum eða ef tvö eða fleiri félög eru beint eða óbeint undir yfirráðum sama aðila. Taka skal tillit til tengsla aðila skv. a-, c- og d-lið.
c. Félög sem aðili á með beinum eða óbeinum hætti verulegan eignarhlut í, þ.e. aðili á með beinum eða óbeinum hætti a.m.k. 20% hluta atkvæðisréttar í viðkomandi félagi. Félag, móðurfélag þess, dótturfélög og systurfélög teljast í samstarfi. Taka skal tillit til tengsla aðila skv. a-, b- og d-lið.
d. Tengsl á milli félags og stjórnarmanna þess og félags og framkvæmdastjóra þess.]1)
[32.]1) Samþjöppunaráhætta (e. concentration risk): Allar áhættuskuldbindingar sem eru nógu stórar til að tap af þeim ógni gjaldþoli eða fjárhagslegri stöðu vátryggingafélags.
[33.]1) Skipulegur [markaður]:2) Markaður með fjármálagerninga samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir. Markaður í ríki utan EES þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
a. vera viðurkenndur hér á landi og uppfylla skilyrði laga um kauphallir,
b. fjármálagerningar sem notaðir eru í viðskiptum á markaðnum séu af sambærilegum gæðum og fjármálagerningar á skipulegum [markaði]2) hér á landi.
[34.]1) Starfsstöð vátryggingafélags: Höfuðstöðvar eða útibú vátryggingafélags.
[35.]1) Starfssvið (e. function): Framkvæmd tiltekins verkefnis innan stjórnkerfis vátryggingafélags. Í stjórnkerfi vátryggingafélags eru starfssvið áhættustýringar, regluvörslu, innri endurskoðunar og tryggingastærðfræðings og teljast þau lykilstarfssvið.
[36.]1) Stóráhætta (e. large risk): Greinaflokkar vátrygginga sem tengjast atvinnurekstri og stærri fyrirtækjum sérstaklega. Greinaflokkar skv. 1. mgr. 20. gr., 4., 5., 6., 7., 11., 12., 14. og 15. tölul., teljast stóráhætta; einnig teljast skaðatryggingar stórfyrirtækja í greinaflokkum skv. 3., 8., 9., 10., 13. og 16. tölul. til stóráhættu.
[37.]1) Takmörkuð endurtrygging (e. finite reinsurance): Endurtrygging þar sem beint mögulegt hámarkstap, mælt sem yfirfærð fjárhagsleg hámarksáhætta og er leitt af yfirfærslu verulegrar vátryggingaráhættu sem tengist bæði vátryggingaratburði og tímasetningu yfirfærslu vátryggingaráhættunnar, er hærra en iðgjaldið á gildistíma samningsins sem svarar til takmarkaðrar en þó verulegrar fjárhæðar, ásamt a.m.k. öðru hvoru eftirfarandi atriða:
a. skýru og efnislegu mati á tímavirði fjárhæða (e. time value of money),
b. samningsbundnum ákvæðum um að ná, til lengri tíma litið, árangri aðila við að ná þeirri yfirfærslu á áhættu sem að er stefnt.
[38.]1) Utanaðkomandi lánshæfismatsstofnun (ECAI): Fyrirtæki sem hefur fengið starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu til að framkvæma lánshæfismat eða seðlabanki sem metur lánshæfi og er undanþeginn slíku starfsleyfi.
[39.]1) Útibú: Útibú eða umboð vátryggingafélags sem er staðsett í öðru aðildarríki en heimaríki.
[40.]1) Útvistun (e. outsourcing): Fyrirkomulag sem komið er á milli vátryggingafélags annars vegar og þjónustuaðila hins vegar þar sem þjónustuaðilinn framkvæmir verkefni, veitir þjónustu eða stundar tiltekna starfsemi sem vátryggingafélagið sjálft mundi annars sjá um. Þjónustuaðilinn vinnur verkið sjálfur eða með endurútvistun. Þrátt fyrir útvistun ber vátryggingafélagið ábyrgð á því að farið sé að lögum þessum.
[41.]1) Vátryggingaráhætta (e. underwriting risk): Hætta á tapi eða óhagstæðum breytingum á virði vátryggingaskuldbindinga vegna ófullnægjandi verðlagningar eða vátryggingaskuldar.
[42.]1) Vátryggingafélag: Frumtryggingafélag eða endurtryggingafélag.
[43.]1) Vátryggingaskuld: Skuldbinding vátryggingafélags vegna gerðra vátryggingarsamninga.
[44.]1) Viðskipti innan samstæðu: Hvers konar millifærslur, þar sem vátryggingafélög innan samstæðu eru, beint eða óbeint, um efndir háð öðrum fyrirtækjum innan samstæðunnar eða einstaklingum eða lögaðilum sem mynda náin tengsl við fyrirtæki innan samstæðunnar, hvort sem þær eru samkvæmt samningi eða ekki og hvort sem þær eru gegn greiðslu eða ekki.
[45.]1) Virkur eignarhlutur: Bein eða óbein eignarhlutdeild í félagi sem nemur 10% eða meira af hlutafé eða atkvæðisrétti eða önnur hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi félags.
[46.]1) Yfirráð: Það teljast yfirráð þegar eitt eða fleiri eftirtalinna tilvika eiga við:
a. að félag (móðurfélag) ráði yfir meiri hluta atkvæða í öðru félagi, eða
b. eigi eignarhluti í öðru félagi og hafi rétt til að tilnefna eða víkja frá meiri hluta stjórnarmanna eða stjórnenda, eða
c. eigi eignarhluti í öðru félagi og hafi rétt til að hafa afgerandi áhrif á starfsemi þess á grundvelli samþykkta félagsins eða samninga við það, eða
d. eigi eignarhluti í öðru félagi og ráði meiri hluta í félaginu á grundvelli samnings við aðra hluthafa eða aðra eignaraðila, eða
e. eigi eignarhluti í öðru félagi og hafi ráðandi stöðu í því, eða
f. hliðstæð tengsl einstaklinga eða lögaðila við félag sem Fjármálaeftirlitið metur að leiði til raunverulegra áhrifa á starfsemi þess.
Fjárhæðir í evrum sem tilgreindar eru í þessum lögum umreiknast í starfrækslugjaldmiðil vátryggingafélags miðað við [miðgengi]1) evru gagnvart umræddum gjaldmiðli í lok dags 31. október næstliðins árs.
1)L. 82/2021, 1. gr. 2)L. 115/2021, 148. gr.
IV. kafli. Starfshættir.
7. gr. Rekstrarform.
Eftirtalin félög mega reka vátryggingastarfsemi hér á landi:
1. Hlutafélög sem hlotið hafa starfsleyfi hér á landi skv. VI. kafla.
2. Vátryggingafélög sem hlotið hafa starfsleyfi í öðru aðildarríki, sbr. 124. og 126. gr.
3. Evrópufélög samkvæmt lögum um Evrópufélög sem hlotið hafa starfsleyfi í aðildarríki, sbr. 124. og 126. gr.
4. Vátryggingafélög með höfuðstöðvar í öðru ríki en aðildarríki sem fá leyfi til að reka útibú hér á landi, sbr. 131. gr.
Um vátryggingafélög skv. 1. tölul. 1. mgr. gilda ákvæði laga um hlutafélög og um Evrópufélög skv. 3. tölul. 1. mgr. gilda ákvæði laga um Evrópufélög nema annað leiði af ákvæðum laga þessara.
Bundið frum- eða endurtryggingafélag skal vera hlutafélag.
Félög sem stofnuð eru með sérlögum til að reka vátryggingastarfsemi mega reka þessa starfsemi í lögmæltu félagsformi enda búi þau við sömu rekstrarskilyrði og önnur félög og uppfylli ákvæði II. kafla.
8. gr. Takmörkun á milligöngu vegna frumtryggingastarfsemi.
Enginn má í atvinnuskyni stuðla að því að áhætta sem er hér á landi, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 6. gr., sé frumtryggð annars staðar en hjá vátryggingafélagi sem hefur hlotið starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins eða starfsleyfi í öðru aðildarríki.
9. gr. Kröfur um góða viðskiptahætti.
Vátryggingastarfsemi og heimil hliðarstarfsemi skv. 5. gr. skal rekin í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í vátryggingaviðskiptum og með hag vátryggingartaka og vátryggðra fyrir augum.
Vátryggingafélag skal fylgja viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja. Í því skyni skal vátryggingafélagið m.a. birta árlega yfirlýsingu um stjórnarhætti fyrirtækisins í sérstökum kafla í ársreikningi eða ársskýrslu og gera grein fyrir stjórnarháttum sínum á vef félagsins og birta þar yfirlýsingu um stjórnarhætti sína.
Vátryggingafélag skal tilgreina á vef nöfn og hlutfallslegt eignarhald allra þeirra sem eiga 5% eða stærri hlut í félaginu.
10. gr. Eftirlit með viðskiptaháttum vátryggingafélaga.
Fjármálaeftirlitið skal, eftir því sem kostur er, fylgjast með vátryggingaskilmálum sem í boði eru hér á landi og gæta þess að þeir séu í samræmi við lög og heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Telji Fjármálaeftirlitið að svo sé ekki skal það gera kröfu um að slíkum ákvæðum verði breytt eða þau verði afnumin.
[Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með viðskiptaháttum vátryggingafélaga sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi, sölustarfsemi þeirra og tjónsuppgjöri og skal gera þær kannanir sem það telur nauðsynlegar vegna þess hjá vátryggingafélögum. Fjármálaeftirlitið hefur jafnframt eftirlit með viðskiptaháttum erlendra vátryggingafélaga sem eru með starfsemi hér á landi.]1)
Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi sé ekki í samræmi við ákvæði 9. gr. getur það gefið fyrirmæli um að ráðin verði bót á því sem úrskeiðis hefur farið.
[Seðlabanki Íslands]2) setur reglur3) um hvað teljast eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir í vátryggingaviðskiptum samkvæmt lögum þessum. Í reglunum skal m.a. kveðið á um almenn samskipti vátryggingafélaga við viðskiptavini sína, upplýsingagjöf til viðskiptavina og meðhöndlun kvartana.
1)L. 82/2021, 2. gr. 2)L. 91/2019, 120. gr. 3)Rgl. 353/2022.
11. gr. Kynningarstarfsemi.
Aðrir en þeir sem leyfi hafa til vátryggingastarfsemi mega ekki bera heiti sem bendir til eða gefur í skyn að þar sé rekin vátryggingastarfsemi og láta nokkuð frá sér fara opinberlega, í prentuðu máli eða á annan hátt, sem skilja má á þann veg að félagið reki vátryggingastarfsemi.
Nafn vátryggingafélags skal koma skýrt fram í öllu útsendu efni þess, þar á meðal vátryggingaskilmálum, vátryggingabeiðnum, auglýsingum og öðru markaðsefni.
Öll kynning og markaðssetning vátryggingafélags hér á landi skal vera óheimil öðrum en þeim sem hafa leyfi til að stunda vátryggingastarfsemi hér á landi.
Einungis vátryggingafélögum sem hafa heimild til að starfa hér á landi samkvæmt lögum þessum er heimilt að selja lögbundnar vátryggingar.
V. kafli. Stofnun vátryggingafélags.
12. gr. Stofnun vátryggingafélags.
Að öðru leyti en greinir í þessum kafla gilda ákvæði II. kafla laga um hlutafélög um stofnun vátryggingafélags.
13. gr. Stofnsamningur.
Í stofnsamningi vátryggingafélags skal eftirfarandi koma fram auk þess sem áskilið er í lögum um hlutafélög:
1. Hvort gert skuli samkomulag við stofnendur eða aðra sem hefur í för með sér verulegar fjárskuldbindingar fyrir félagið.
2. Hvort félagið skuli bera kostnað við stofnunina og, ef svo er, hversu hár sá kostnaður megi vera. Kostnaður þessi má ekki fara yfir 5% af skráðu hlutafé þegar frá eru talin opinber útgjöld og kostnaður við matsgerð, sbr. 14. gr. Fjármálaeftirlitið getur veitt undanþágu frá hámarki stofnkostnaðar. Ekki má greiða stofnendum þóknun vegna stofnunarinnar.
Sé stofnað til félagsins með það fyrir augum að yfirtaka vátryggingastarfsemi eða vátryggingastofn annars vátryggingafélags skal þess getið í stofnsamningi og það tekið fram hvort samningsdrög um yfirfærslu vátryggingastofns hafi verið gerð og umfjöllun Fjármálaeftirlitsins liggi fyrir, sbr. 34.–36. gr.
Skjöl, sem hafa að geyma mikilvæg efnisatriði sem ekki koma fram í stofnsamningi, skulu fest við hann og teljast hluti stofnsamningsins.
14. gr. Greiðsla hlutafjár.
Hlutir skulu greiddir í reiðufé.
Fjármálaeftirlitið getur veitt heimild til að greiðsla fari fram með öðrum hætti, enda liggi fyrir matsgerð sem Fjármálaeftirlitið samþykkir.
Telji Fjármálaeftirlitið ástæðu til að ætla að verðmæti framlaga hafi breyst frá því að matsgerð var framkvæmd og stofnfundur er haldinn getur það krafist yfirlýsingar matsmanna um verðmæti eða nýrrar matsgerðar.
15. gr. Samþykktir vátryggingafélags.
Auk þeirra ákvæða sem lög um hlutafélög gera ráð fyrir um samþykktir hlutafélags skulu eftirtalin atriði koma fram í samþykktum vátryggingafélags:
1. Ráðstöfun tekjuafgangs og hvernig mæta skal halla.
2. Úthlutun arðs.
16. gr. Breytingar á samþykktum.
Breytingar á samþykktum vátryggingafélags ber að senda Fjármálaeftirlitinu innan viku frá samþykkt þeirra. Hafi Fjármálaeftirlitið athugasemdir skulu þær gerðar innan tveggja mánaða.
VI. kafli. Starfsleyfi.
17. gr. Starfsleyfisveitandi.
Fjármálaeftirlitið veitir starfsleyfi samkvæmt lögum þessum. Vátryggingafélagi er heimilt að hefja starfsemi þegar það hefur fengið starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins.
Fjármálaeftirlitið skal hafa samráð við eftirlitsstjórnvöld í viðkomandi aðildarríki við mat á umsókn um starfsleyfi vátryggingafélags sem er:
a. dótturfélag fjármálafyrirtækis eða vátryggingafélags með starfsleyfi í öðru aðildarríki,
b. dótturfélag móðurfélags fjármálafyrirtækis eða vátryggingafélags með starfsleyfi í öðru aðildarríki,
c. undir yfirráðum aðila, einstaklings eða lögaðila, sem hefur ráðandi stöðu í fjármálafyrirtæki eða vátryggingafélagi í öðru aðildarríki.
Samráð skv. 2. mgr. skal sérstaklega haft um hæfi hluthafa og stjórnenda, sbr. 3. mgr. 40. gr., 6. mgr. 41. gr. og 61. gr. Jafnframt skal hafa samráð um eftirlit með því að starfsskilyrði séu uppfyllt.
18. gr. Skilyrði fyrir starfsleyfi.
Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg. Vátryggingafélag skal uppfylla eftirfarandi skilyrði til að fá útgefið starfsleyfi:
1. Tilgangur þess skal takmarkaður við vátryggingastarfsemi.
2. Áætlun um starfsemi þess skv. 24. gr. skal liggja fyrir.
3. Viðurkenndir gjaldþolsliðir til að mæta neðstu mörkum lágmarksfjármagns skv. 112. gr. skulu vera til staðar.
4. Gögn skulu staðfesta að það sé með hæfa gjaldþolsliði til að hafa stöðuga gjaldþolskröfu skv. 96. gr. og stöðugt lágmarksfjármagn skv. 111. gr., svo og gögn um að það sé með stjórnkerfi sem stenst kröfur skv. VIII. kafla.
5. Upplýsingar skulu liggja fyrir um nöfn og heimilisföng allra tjónauppgjörsfulltrúa ef sótt er um leyfi til starfsemi í ábyrgðartryggingum ökutækja skv. 10. tölul. 1. mgr. 20. gr. í öðrum aðildarríkjum.
Eftirfarandi gögn og upplýsingar skulu fylgja umsókn:
1. Heiti félagsins.
2. Staðfest endurrit stofnsamnings og fundargerðar stofnfundar úr fundargerðabók.
3. Skrá yfir stofnendur og hlutafé og staðfesting á því að það sé innborgað, hverjir eigi virkan eignarhlut í félaginu og hve mikinn og greinargerð um önnur náin tengsl félagsins.
4. Drög að samþykktum.
5. [Greinaflokkar vátrygginga eða vátryggingagreinar sem sótt er um leyfi fyrir, sbr. 20.–22. gr., eftir því sem við á.]1)
[6. Aðrar viðeigandi upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið ákveður.]1)
Ákvæði greinar þessarar eiga við um umsókn um starfsleyfi félags með sérstakan tilgang, [umsókn um starfsleyfi í frumtryggingum],1) umsókn um starfsleyfi í endurtryggingum og umsókn um starfsleyfi í takmörkuðum endurtryggingum, eftir því sem við getur átt.
1)L. 82/2021, 3. gr.
19. gr. Starfsleyfi félags með sérstakan tilgang.
Félag með sérstakan tilgang getur starfað hér á landi að fengnu starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins enda uppfylli slíkt félag skilyrði í reglugerð sem ráðherra setur. Í reglugerðinni skulu vera ákvæði um:
1. Gildissvið starfsleyfis.
2. Lögboðin skilyrði sem skulu vera í öllum útgefnum samningum.
3. Hæfi þeirra sem reka félag með sérstakan tilgang.
4. Kröfur um hæfi hluthafa eða virkra eigenda.
5. Stjórnunar- og bókhaldsaðferðir, kerfi fyrir innra eftirlit og kröfur um áhættustýringu.
6. Reikningsskil, varfærni og tölulegar upplýsingar.
7. Gjaldþolskröfur.
[[Seðlabanki Íslands]1) skal setja reglur2) sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar um meðferð máls þegar starfsleyfi er veitt fyrir félag með sérstakan tilgang. Í reglunum skulu einnig vera ákvæði um form á eyðublöðum vegna gagnaskila skv. 6. tölul. 1. mgr.
[Seðlabanki Íslands]1) getur sett reglur2) sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar um meðferð mála vegna samvinnu og upplýsingaskipta milli eftirlitsstjórnvalda í aðildarríkjum þegar félag með sérstakan tilgang gerir ráð fyrir áhættu vegna vátryggingafélags sem er í öðru aðildarríki en þar sem félag skv. 1. mgr. hefur starfsleyfi.]3)
1)L. 91/2019, 120. gr. 2)Rgl. 1091/2018. 3)L. 36/2018, 2. gr.
20. gr. Starfsleyfi í skaðatryggingum.
Starfsleyfi í skaðatryggingum er bundið við tiltekna greinaflokka vátrygginga eða vátryggingagreinar innan þeirra samkvæmt eftirfarandi skrá:
1. Slysatryggingar (slys, vinnuslys, atvinnusjúkdómar):
a. bætur með föstum fjárhæðum,
b. bætur eftir mati á afleiðingum tjóns,
c. bætur með föstum fjárhæðum / bætur eftir mati á afleiðingum tjóns,
d. slys á farþegum.
2. Sjúkratryggingar (veikindi, heilsutjón):
a. bætur með föstum fjárhæðum,
b. bætur eftir mati á afleiðingum tjóns,
c. bætur með föstum fjárhæðum / bætur eftir mati á afleiðingum tjóns.
3. Húftryggingar ökutækja. Eignatjón, þ.m.t. altjón á:
a. vélknúnum ökutækjum á landi öðrum en járnbrautum,
b. ökutækjum til notkunar á landi öðrum en vélknúnum ökutækjum.
4. Járnbrautatryggingar. Eignatjón, þ.m.t. altjón á járnbrautarvögnum.
5. Húftryggingar loftfara. Eignatjón, þ.m.t. altjón á loftförum.
6. Húftryggingar skipa og báta. Eignatjón, þ.m.t. altjón á:
a. sjóskipum,
b. vatnabátum,
c. fljóta- og síkjabátum.
7. Flutningatryggingar. Eignatjón, þ.m.t. altjón á vörum og farangri í flutningi án tillits til þess hvernig flutt er.
8. Eignatryggingar (bruni og náttúruöfl). Eignatjón, þ.m.t. altjón, annað en skv. 3., 4., 5., og 7. flokki vegna:
a. elds,
b. sprengingar,
c. óveðurs,
d. náttúruafla annarra en óveðurs,
e. kjarnorku,
f. landsigs.
9. Aðrar eignatryggingar. Eignatjón, þ.m.t. altjón, annað en skv. 3., 4., 5., 6. og 7. flokki og ekki talið í 8. flokki, þ.m.t. vegna hagls, frosts og atburða svo sem þjófnaðar o.fl.
10. Ábyrgðartryggingar ökutækja. Ábyrgð vegna notkunar ökutækja, þ.m.t. ábyrgð flutningsaðila.
11. Ábyrgðartryggingar loftfara. Ábyrgð vegna notkunar loftfara, þ.m.t. ábyrgð flutningsaðila.
12. Ábyrgðartryggingar skipa og báta. Ábyrgð vegna notkunar á sjó, vötnum, fljótum og síkjum, þ.m.t. ábyrgð stjórnanda.
13. Almennar ábyrgðartryggingar. Hvers konar ábyrgð önnur en skv. 10., 11. og 12. flokki.
14. Greiðsluvátryggingar:
a. almenn gjaldþrot,
b. útflutningslán,
c. afborgunarskilmálar,
d. veð,
e. landbúnaðarlán.
15. Efndavátryggingar:
a. beinar efndir,
b. óbeinar efndir.
16. Fjárhagslegar vátryggingar (fjárhagslegt tap):
a. atvinnuleysi,
b. tekjutap (almennt),
c. óveður,
d. ábatamissir,
e. viðvarandi útgjöld vegna almenns kostnaðar,
f. ófyrirsjáanleg viðskiptaútgjöld,
g. tap á markaðsverði,
h. tap á leigu eða hliðstæðum tekjum,
i. annað óbeint tap á viðskiptum,
j. fjárhagslegt tap, annað en í viðskiptum,
k. aðrar tegundir fjárhagslegs taps.
17. Réttaraðstoðartryggingar. Réttaraðstoð og kostnaður við málarekstur.
18. Ferðamannaaðstoð. Aðstoð til handa þeim sem lenda í erfiðleikum á ferðalagi fjarri heimili sínu eða föstu aðsetri.
Áhættu sem talin er í tilteknum greinaflokki má ekki telja í öðrum greinaflokki nema í tilvikum skv. 3. mgr.
Veita má starfsleyfi sameiginlega fyrir eftirtalda greinaflokka skaðatrygginga, sbr. 1. mgr.:
1. Slysa- og sjúkratryggingar skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr.
2. Ökutækja- og farmtryggingar skv. d-lið 1. tölul., 3., 7. og 10. tölul. 1. mgr.
3. Sjó- og farmtryggingar skv. d-lið 1. tölul., 4., 6., 7. og 12. tölul. 1. mgr.
4. Flug- og farmtryggingar skv. d-lið 1. tölul., 5., 7. og 11. tölul. 1. mgr.
5. Eignatryggingar skv. 8. og 9. tölul. 1. mgr.
6. Ábyrgðartryggingar skv. 10., 11., 12. og 13. tölul. 1. mgr.
7. Greiðslu- og efndavátryggingar skv. 14. og 15. tölul. 1. mgr.
8. Frumtryggingar skv. 1.–18. tölul. 1. mgr.
Vátryggingafélag sem fær starfsleyfi í greinaflokkum frumtrygginga skv. 1. og 2. mgr. (aðaláhætta) má fela í sér hliðargrein (aukaáhættu) án sérstaks leyfis þegar:
1. Aukaáhættan er í tengslum við aðaláhættu.
2. Aukaáhættan tengist þeim verðmætum sem vátryggð eru sem aðaláhætta.
3. Aukaáhættan er vátryggð samkvæmt vátryggingarsamningi um aðaláhættu.
Ekki er heimilt að telja áhættu í greinaflokkum skv. 14., 15. og 17. tölul. 1. mgr. sem hliðargrein í öðrum greinaflokkum að því undanskildu að telja má áhættu í greinaflokki skv. 17. tölul. 1. mgr. sem hliðargrein í greinaflokki skv. 18. tölul. 1. mgr. þegar skilyrði 1. tölul. 1. mgr. eru uppfyllt og aðaláhættan tengist einvörðungu aðstoð sem veitt er einstaklingum sem lenda í erfiðleikum á ferðalagi að heiman eða fjarri föstu aðsetri. Greinaflokkur skv. 17. tölul. 1. mgr. má vera hliðargrein þegar áhættan eða ágreiningurinn tengist notkun skipa og báta.
Kveða skal á um hvernig tryggja skuli hagsmuni vátryggingartaka í ágreiningsmáli við vátryggingafélagið sjálft í reglugerð1) um réttaraðstoðarvátryggingar.
1)Rg. 510/2017.
21. gr. Starfsleyfi í líf- og heilsutryggingum.
Starfsleyfi í líftryggingum og heilsutryggingum afmarkast við tiltekna greinaflokka frumtrygginga eða vátryggingagreinar innan þeirra samkvæmt eftirfarandi skrá:
1. Áhættu- og söfnunarlíftryggingar án fjárfestingaráhættu:
a. greiðslur í lifanda lífi frá tilteknum aldri,
b. greiðslur við andlát,
c. greiðslur í lifanda lífi frá tilteknum aldri eða við andlát fyrr,
d. líftryggingar með endurgreiðslu iðgjalda,
e. lífeyrisgreiðslur,
f. viðbótargreiðslur við líkamstjón, þar á meðal við starfsorkumissi,
g. viðbótargreiðslur við andlát vegna slyss,
h. viðbótargreiðslur við örorku vegna slyss eða sjúkdóms.
2. Hjóna- og barnalíftryggingar:
a. líftryggingar tengdar stofnun hjúskapar,
b. líftryggingar barna tengdar fæðingu.
3. Áhættu- og söfnunarlíftryggingar með fjárfestingaráhættu:
a. greiðslur í lifanda lífi frá tilteknum aldri,
b. greiðslur við andlát,
c. greiðslur í lifanda lífi frá tilteknum aldri eða við andlát fyrr,
d. líftryggingar með endurgreiðslu iðgjalda,
e. lífeyrisgreiðslur.
4. Varanlegar heilsutryggingar án uppsagnarréttar.
5. Aðrar líftryggingar sem fela í sér áhættu á grundvelli ævilengdar.
22. gr. Starfsleyfi í endurtryggingum.
Starfsleyfi í endurtryggingum, sbr. ákvæði 18. gr., er veitt vegna starfsemi í endurtryggingum skaðatrygginga, endurtryggingum líf- og heilsutrygginga eða hvers konar endurtryggingum samkvæmt umsókn.
23. gr. Starfsemi í takmörkuðum endurtryggingum.
[Seðlabanki Íslands]1) setur reglur um starfsemi í takmörkuðum endurtryggingum …2). Í reglunum skal kveðið á um hvernig vátryggingafélag með slíka starfsemi geti með viðeigandi hætti greint, mælt, stjórnað, takmarkað og skrásett þá áhættu sem fylgir slíkri starfsemi.
Vátryggingafélag sem gerir samning um takmarkaðar endurtryggingar skal með viðeigandi hætti greina, mæla, stjórna, takmarka og skrásetja þá áhættu sem fylgir slíkum samningi.
1)L. 91/2019, 120. gr. 2)L. 82/2021, 4. gr.
24. gr. Áætlun um starfsemi vátryggingafélags.
Í áætlun um fyrirhugaða starfsemi, sem fylgja skal umsókn um starfsleyfi, skal eftirfarandi koma fram:
1. Skýrsla um endurtryggingarvernd og hámark þess sem félagið hyggst bera í eigin áhættu í hverjum greinaflokki vátrygginga.
2. Eignir sem eiga að vera til staðar í félaginu til þess að kröfum um neðstu mörk lágmarksfjármagns skv. 112. gr. sé fullnægt.
3. Rökstutt mat á kostnaði við að koma starfseminni á fót og hvernig ætlað er að mæta þeim kostnaði.
4. Áætluð staða félagsins samkvæmt efnahagsreikningi í lok þriggja fyrstu reikningsáranna ásamt áætlun um árlegar tekjur og gjöld.
5. Áætlun um hvernig félagið hyggst fullnægja gjaldþolskröfu fyrstu þrjú heilu reikningsárin. Fram skal koma með hvaða reikniaðferð mat á gjaldþolskröfu er gert.
6. Áætlun um hvernig félagið hyggst fullnægja kröfu um lágmarksfjármagn fyrstu þrjú heilu reikningsárin. Fram skal koma með hvaða aðferð mat á lágmarksfjármagni er gert.
Í áætlun skaðatryggingafélaga til næstu þriggja ára skal koma fram mat á rekstrarkostnaði og umboðslaunum og mat á iðgjöldum og tjónum.
Í áætlun líftryggingafélaga til næstu þriggja ára skal koma fram áætlun um tekjur og útgjöld vegna frumtryggingar og keyptrar og seldrar endurtryggingar.
Sé sótt um leyfi fyrir greiðsluvátryggingum skv. 14. tölul. 1. mgr. 20. gr. skal auk gagna skv. 1. mgr. gera sérstaka grein fyrir því eftir hvaða reglum óuppgerðar skuldbindingar félagsins vegna vátryggingarsamninga í greiðsluvátryggingum, vátryggingaskuld, skuli metnar og þeim eignum sem ætlað er að mæta þeim.
Sé sótt um leyfi fyrir ferðamannaaðstoð skv. 18. tölul. 1. mgr. 20. gr. skal auk gagna skv. 1. mgr. tiltaka með hvaða hætti ferðamannaaðstoð verður veitt.
25. gr. Veiting starfsleyfis.
Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu starfsleyfis skal tilkynnt umsækjanda skriflega svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en sex mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna umsækjanda um það þegar umsókn telst fullnægjandi.
Í starfsleyfi skulu koma fram upplýsingar um þá vátryggingastarfsemi sem félagið má reka.
Veita má starfsleyfi fyrir einstaka greinaflokka frumtrygginga skv. 20. eða 21. gr. eða einstakar vátryggingagreinar innan þeirra, eða fyrir greinaflokka sameiginlega skv. 2. mgr. 20. gr. Starfsleyfi veitt í tilteknum greinaflokki frumtrygginga gildir einnig fyrir hliðargreinar í öðrum flokki ef skilyrði skv. 3. mgr. 20. gr. eru uppfyllt.
Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynningar um starfsleyfi vátryggingafélaga opinberlega.
Sé umsókn dótturfélags, sem beint eða óbeint er í eigu aðila með aðsetur utan aðildarríkja, til umfjöllunar hjá Fjármálaeftirlitinu getur það tekið sér lengri frest en tiltekinn er í 1. mgr.
[Fjármálaeftirlitið skal tilkynna Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni um veitt starfsleyfi hér á landi.]1)
1)L. 36/2018, 3. gr.
26. gr. Synjun starfsleyfis.
Fullnægi umsókn um starfsleyfi ekki skilyrðum laga þessara að mati Fjármálaeftirlitsins skal það synja um starfsleyfi.
Telji Fjármálaeftirlitið að skorti á hæfi stjórnar eða [framkvæmdastjóra]1) til að reka félagið eða að tryggja heilbrigðan og traustan rekstur þess svo að viðhlítandi sé eða hafi störf þeirra verið með þeim hætti að ætla megi að svo verði ekki má synja um starfsleyfi. Sama gildir teljist eigendur virkra eignarhluta í félaginu ekki geta tryggt á viðhlítandi hátt heilbrigðan og traustan rekstur. Ef félag er í nánum tengslum við aðra aðila skal einungis veita starfsleyfi ef þau tengsl hindra ekki eftirlit með starfsemi félagsins. Ef löggjöf ríkis utan aðildarríkja gildir um þá aðila sem vátryggingafélagið er í nánum tengslum við og hindrar eftirlit með starfsemi félagsins skal synja um starfsleyfi, svo og ef líklegt er að vandkvæði við framkvæmd þeirrar löggjafar geri eftirlit torvelt. Ef raunverulegar höfuðstöðvar félagsins eru ekki hér á landi skal synja um starfsleyfi.
Synjun Fjármálaeftirlitsins á umsókn skal rökstudd og tilkynnt umsækjanda innan sex mánaða frá móttöku fullnægjandi umsóknar skv. 18. gr.
1)L. 82/2021, 5. gr.
27. gr. Nýir greinaflokkar.
Vátryggingafélag, sem fengið hefur starfsleyfi hér á landi og hyggst taka upp nýjan greinaflokk vátrygginga eða vátryggingagrein eða hyggst breyta starfsemi sinni í verulegum atriðum, skal sækja um leyfi til Fjármálaeftirlitsins fyrir hinni nýju starfsemi og senda gögn eins og við á skv. 18.–22. gr. og sem nauðsynleg eru til að það geti metið umsóknina.
Uppfylli félagið skilyrði um gjaldþolskröfu skv. XVI. kafla og lágmarksfjármagn skv. 112. gr. að teknu tilliti til hinnar nýju starfsemi og sé að öðru leyti fallist á umsóknina veitir Fjármálaeftirlitið leyfi fyrir nýju starfseminni.
Vátryggingafélag með starfsemi í líftryggingum sem hyggst taka upp greinaflokka skv. 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 20. gr. skal, auk áætlunar um starfsemi skv. 24. gr., sýna fram á:
a. að skilyrði um neðstu mörk lágmarksfjármagns líftryggingafélaga og skaðatryggingafélaga séu uppfyllt, sbr. 112. gr.,
b. að til staðar séu viðurkenndir gjaldþolsliðir til að mæta lágmarksfjármagni líftryggingafélaga og skaðatryggingafélaga, sbr. 73. gr.
Vátryggingafélag með starfsemi í greinaflokkum skaðatrygginga skv. 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 20. gr. sem hyggst taka upp starfsemi í líftryggingum skal að auki sýna fram á eftirfarandi:
a. að skilyrði 112. gr. um neðstu mörk lágmarksfjármagns líftryggingafélaga og skaðatryggingafélaga séu uppfyllt,
b. að til staðar séu viðurkenndir gjaldþolsliðir til að mæta ígildi lágmarksfjármagns líftryggingafélaga og skaðatryggingafélaga, sbr. 73. gr.
Taki líftryggingafélag upp nýjan greinaflokk skulu iðgjöld vera nægjanleg miðað við sanngjarnar tryggingafræðilegar forsendur svo að líftryggingafélagið geti mætt öllum sínum skuldbindingum, sér í lagi vátryggingaskuld.
28. gr. Höfuðstöðvar.
Vátryggingafélag, sem fengið hefur starfsleyfi skv. 25. gr., skal hafa höfuðstöðvar hér á landi.
VII. kafli. Eftirlit.
29. gr. Eftirlitsferlið.
Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með vátryggingafélögum með höfuðstöðvar hér á landi og útibúum erlendra vátryggingafélaga hér á landi samkvæmt lögum þessum og lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi sem fellur undir lög þessi sé stunduð án tilskilinna leyfa getur það krafist gagna og upplýsinga hjá viðkomandi aðilum til að ganga úr skugga um hvort svo sé. Getur það krafist þess að slíkri starfsemi sé hætt þegar í stað. Jafnframt er því heimilt að birta opinberlega nöfn aðila sem taldir eru bjóða þjónustu án tilskilinna leyfa.
Fjármálaeftirlitið fylgist með og metur stefnu, ferla og verklag við skýrslugerð sem vátryggingafélög nota til að fara að lögum þessum, svo og reglugerðum og reglum sem af þeim leiða.
Fjármálaeftirlitið skal sér í lagi meta og hafa eftirlit með hvernig vátryggingafélög fullnægja:
a. kröfum til stjórnkerfis, þar á meðal um eigin áhættu- og gjaldþolsmat skv. VIII. kafla,
b. kröfum til vátryggingaskuldar skv. XIV. kafla,
c. kröfum til gjaldþols skv. XV. og XVI. kafla,
d. reglum um fjárfestingar skv. XVIII. kafla,
e. ákvæðum um gæði og fjárhæð gjaldþolsliða skv. XV. kafla,
f. kröfum XVI. kafla þegar vátryggingafélag notar eigið alhliða líkan eða hlutalíkan.
Fjármálaeftirlitið leggur mat á það hvort fjárhagsleg staða vátryggingafélags fari versnandi og fylgist með að brugðist sé við slíkri stöðu.
Fjármálaeftirlitið metur hvort aðferðir og venjur vátryggingafélags til að greina atburði eða breytingar á efnahagslegu ástandi sem geta haft óhagstæð áhrif á fjárhagslega stöðu þess séu fullnægjandi. Fjármálaeftirlitið metur einnig hæfi vátryggingafélags til að bregðast við slíkum atburðum og breytingum.
Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að vátryggingafélög bæti úr veikleikum eða annmörkum sem koma í ljós við eftirlit.
Eftirlit og mat samkvæmt þessari grein skal framkvæmt reglulega. Fjármálaeftirlitið skal ákvarða lágmarkstíðni slíks eftirlits og mats þar sem tekið er tillit til eðlis, stærðar og margbreytileika starfsemi viðkomandi vátryggingafélags.
30. gr. Gagnsæi og birting upplýsinga.
Fjármálaeftirlitið skal haga störfum sínum á gagnsæjan og ábyrgan hátt að virtri þagnarskyldu um trúnaðarupplýsingar.
Fjármálaeftirlitið skal hafa eftirfarandi upplýsingar aðgengilegar á vef sínum:
1. Lög, reglugerðir, reglur, ákvarðanir og aðrar réttarheimildir og leiðbeiningar sem varða vátryggingastarfsemi.
2. Viðmið og matsaðferðir sem eru lagðar til grundvallar við mat Fjármálaeftirlitsins, þ.m.t. mat skv. 6. mgr. 29. gr.
3. Samantekt um framkvæmd laga þessara.
4. Markmið eftirlits með vátryggingamarkaði ásamt tilgangi og starfsemi eftirlitsins.
Framsetning upplýsinga skal vera með þeim hætti að hægt sé að gera samanburð við framkvæmd eftirlitsstofnana annarra aðildarríkja.
[Fjármálaeftirlitið skal afhenda Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni árlega eftirfarandi upplýsingar:
1. Meðaltal viðbótargjaldþolskröfu á hvert vátryggingafélag og dreifingu viðbótargjaldþolskrafna sem Fjármálaeftirlitið hefur lagt á árið á undan sem skal mælt sem hlutfall af gjaldþolskröfum og sýnt aðskilið fyrir:
a. vátryggingafélög,
b. líftryggingafélög,
c. skaðatryggingafélög,
d. vátryggingafélög sem reka bæði líftrygginga- og skaðatryggingastarfsemi,
e. endurtryggingafélög.
2. Hlutfall viðbótargjaldþolskrafna sem lagðar eru á skv. 1. mgr. 32. gr., sundurgreint skv. 1. tölul. þessarar málsgreinar.
3. Fjölda vátryggingafélaga sem fá undanþágu frá reglubundnum gagnaskilum til Fjármálaeftirlitsins og fjölda vátryggingafélaga sem fá undanþágu frá því að skila lista yfir allar eignir skv. 6. og 7. mgr. 31. gr. ásamt umfangi gjaldþolskrafna, iðgjalda, vátryggingaskuldar og eigna, mældu, eftir því sem við á, sem hlutfall af heildarumfangi gjaldþolskrafna, iðgjalda, vátryggingaskuldar og eigna vátryggingafélaga hér á landi.]1)
Ráðherra skal setja reglugerð2) um það hvernig upplýsingar samkvæmt þessari grein skulu byggðar upp sem og um form, efnisyfirlit og hvenær gögnin skuli birt.
1)L. 36/2018, 4. gr. 2)Rg. 55/2022.
31. gr. Gagnaskil til Fjármálaeftirlitsins.
Vátryggingafélag skal afhenda Fjármálaeftirlitinu gögn og upplýsingar sem nauðsynlegar eru til eftirlits samkvæmt lögum þessum til að:
1. meta stjórnkerfi vátryggingafélags, starfsemi, matsreglur vegna gjaldþols, áhættu félagsins, áhættustýringu, uppbyggingu eigin fjár, eiginfjárþörf og eiginfjárstýringu,
2. taka ákvarðanir vegna eftirlits og starfa samkvæmt lögum þessum,
3. afla gagna um starfsemi í öðrum aðildarríkjum.
Vátryggingafélag skal hafa kerfi og skipulag til að standast kröfur um gagnaskil samkvæmt þessari grein ásamt skriflegri stefnu, staðfestri af stjórn, sem tryggir að gögn sem skila skal til Fjármálaeftirlitsins séu fullnægjandi.
Að undanskildum ákvæðum 2. mgr. 112. gr. um ársfjórðungslegan útreikning á lágmarksfjármagni er Fjármálaeftirlitinu heimilt að veita vátryggingafélagi undanþágu frá því að skila gögnum oftar en árlega þegar skil á slíkum upplýsingum yrðu of íþyngjandi að teknu tilliti til eðlis, stærðar og margbreytileika áhættu í starfsemi félagsins og ef upplýsingunum er skilað a.m.k. árlega.
Sé vátryggingafélag hluti af samstæðu er eingöngu heimilt að veita því undanþágu skv. 3. mgr. ef það getur sýnt Fjármálaeftirlitinu fram á að aukin tíðni reglulegra gagnaskila sé óþörf, að teknu tilliti til eðlis, stærðar og margbreytileika áhættu í starfsemi samstæðunnar.
Undanþágu skv. 3. og 4. mgr. er eingöngu heimilt að veita vátryggingafélögum sem samanlagt eru með undir 20% markaðshlutdeild í skaðatryggingum, reiknað á grundvelli bókfærðra iðgjalda, og í líftryggingum, reiknað á grundvelli vátryggingaskuldar. Vátryggingafélög með minnstu markaðshlutdeild skulu njóta forgangs þegar undanþága er veitt.
Fjármálaeftirlitið getur veitt undanþágu frá reglulegum gagnaskilum eða undanskilið vátryggingafélag frá því að skila lista yfir eignir þegar:
a. skil á slíkum upplýsingum eru of íþyngjandi að teknu tilliti til eðlis, stærðar og margbreytileika áhættu í starfsemi félagsins,
b. slíkar upplýsingar eru ekki nauðsynlegar fyrir skilvirkt eftirlit með vátryggingafélaginu,
c. undanþágan grefur ekki undan fjármálastöðugleika,
d. vátryggingafélagið getur skilað slíkum upplýsingum þegar um er beðið.
Sé vátryggingafélag hluti af samstæðu er eingöngu heimilt að veita því undanþágu skv. 3. mgr. ef Fjármálaeftirlitið telur að ekki sé þörf á aukinni tíðni reglulegra gagnaskila, að teknu tilliti til eðlis, stærðar og margbreytileika áhættu í starfsemi samstæðunnar.
Undanþágu skv. 6. og 7. mgr. skal einungis veita vátryggingafélögum sem samanlagt eru með undir 20% markaðshlutdeild í skaðatryggingum, reiknað á grundvelli bókfærðra iðgjalda, og í líftryggingum, reiknað á grundvelli vátryggingaskuldar. Vátryggingafélög með minnstu markaðshlutdeild skulu njóta forgangs þegar undanþága er veitt.
Við ákvörðun um hvort veita beri undanþágur með hliðsjón af eðli, stærð og margbreytileika í starfsemi vátryggingafélags skal Fjármálaeftirlitið m.a. taka mið af:
a. umfangi iðgjalda, vátryggingaskuldar og eigna vátryggingafélagsins,
b. óstöðugleika í fjárhæðum tjóna og líftryggingabóta,
c. markaðsáhættunni sem felst í fjárfestingum vátryggingafélagsins,
d. umfangi samþjöppunaráhættu,
e. fjölda vátryggingagreina þar sem vátryggingafélagið hefur starfsleyfi,
f. mögulegum áhrifum fjárfestinga vátryggingafélagsins á fjármálastöðugleika,
g. kerfi, uppbyggingu og stefnu vátryggingafélagsins skv. 2. mgr.,
h. stjórnkerfi vátryggingafélagsins,
i. fjárhæð gjaldþolsliða til að mæta gjaldþolskröfu og lágmarksfjármagni,
j. hvort vátryggingafélagið sé bundið vátryggingafélag sem eingöngu vátryggir áhættu sem tengist fyrirtækinu sem það tilheyrir.
Árleg gagnaskil vátryggingafélags skulu berast Fjármálaeftirlitinu eigi síðar en 14 vikum eftir lok reikningsárs félagsins.
Ársfjórðungsleg gagnaskil vátryggingafélags skulu berast Fjármálaeftirlitinu eigi síðar en 5 vikum eftir lok ársfjórðungsins.
Ráðherra setur reglugerð1) sem tilgreinir nánar gögn skv. 1. mgr. og tímafresti gagnaskila. Jafnframt skal þar kveðið á um heimildir Fjármálaeftirlitsins til að veita undanþágu frá gagnaskilum að hluta þegar eðli, stærð og áhætta í starfsemi vátryggingafélags gefur tilefni til þess.
[Seðlabanki Íslands]2) setur reglur3) um form reglubundinna gagnaskila sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og [lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar].4)
1)Rg. 55/2022. 2)L. 91/2019, 120. gr. 3)Rgl. 1114/2021. 4)L. 36/2018, 5. gr.
32. gr. Viðbótargjaldþolskrafa.
Í kjölfar eftirlitsferlis skv. 29. gr. getur Fjármálaeftirlitið lagt viðbótargjaldþolskröfu á vátryggingafélag í eftirfarandi undantekningartilvikum:
1. Fjármálaeftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu að áhættusnið vátryggingafélagsins sé verulega frábrugðið forsendum sem liggja að baki gjaldþolskröfu, eins og hún er reiknuð með staðalreglunni, og krafa um að nota eigið líkan skv. 109. gr. á ekki við eða hefur ekki skilað árangri eða hlutalíkan eða alhliða líkan er í vinnslu í samræmi við 104. gr.
2. Fjármálaeftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu að áhættusnið vátryggingafélagsins sé verulega frábrugðið forsendum gjaldþolskröfunnar, eins og hún er reiknuð með alhliða líkani eða hlutalíkani, vegna þess að tilteknar mælanlegar áhættur eru metnar með ófullnægjandi hætti og aðlögun líkansins að því að endurspegla með betri hætti viðkomandi áhættusnið hefur ekki tekist innan viðunandi tíma.
3. Fjármálaeftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu að stjórnarhættir vátryggingafélags séu verulega frábrugðnir kröfum VIII. kafla og að frávikin komi í veg fyrir að félagið geti með viðeigandi hætti greint, fylgst með, stjórnað og gefið skýrslu um þær áhættur sem það stendur frammi fyrir eða gæti staðið frammi fyrir og ólíklegt er að notkun annarra úrræða bæti úr frávikunum innan viðunandi tíma.
Viðbótargjaldþolskrafa skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. skal reiknuð þannig að félagið uppfylli ákvæði 97. gr.
Viðbótargjaldþolskrafa skv. 3. tölul. 1. mgr. skal vera í samræmi við þá áhættu sem rekja má til þeirra ágalla sem urðu til þess að viðbótargjaldþolskrafa var ákveðin.
Hafi viðbótargjaldþolskrafa verið lögð á skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. skal Fjármálaeftirlitið krefjast þess að vátryggingafélagið geri það sem unnt er til að bæta úr þeim ágöllum sem leiddu til viðbótargjaldþolskröfunnar.
Viðbótargjaldþolskrafan leggst við hina ófullnægjandi gjaldþolskröfu.
Þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. skal gjaldþolskrafan sem notuð er við útreikning á áhættuálagi í samræmi við 76. gr. ekki fela í sér viðbótargjaldþolskröfu í samræmi við 3. tölul. 1. mgr.
Fjármálaeftirlitið skal endurskoða viðbótargjaldþolskröfu a.m.k. árlega og fella hana niður þegar vátryggingafélagið hefur ráðið bót á þeim frávikum sem leiddu til þess að krafan var sett.
Ráðherra skal setja reglugerð1) þar sem nánar er tilgreint við hvaða aðstæður viðbótargjaldþolskrafa er lögð á og hvernig staðið er að útreikningi hennar og um ferlið við að setja, reikna og fella niður viðbótargjaldþolskröfu.
1)Rg. 1077/2017. Rg. 55/2022.
33. gr. Eftirlit með útvistaðri starfsemi.
Vátryggingafélag sem útvistar starfssviði eða hluta af vátryggingastarfsemi sinni skal tryggja að eftirfarandi skilyrðum sé fullnægt:
1. Þjónustuaðilinn starfi með Fjármálaeftirlitinu vegna útvistaðrar starfsemi.
2. Vátryggingafélagið, endurskoðandi þess og Fjármálaeftirlitið hafi greiðan aðgang að gögnum sem tengjast hinni útvistuðu starfsemi.
3. Fjármálaeftirlitið hafi greiðan og nýtilegan aðgang að starfsstöð þjónustuaðilans.
Útvisti vátryggingafélag með starfsleyfi í öðru aðildarríki starfsemi til þjónustuaðila sem staðsettur er hér á landi skal eftirlitsstjórnvald heimaríkis vátryggingafélagsins eða fulltrúi þess geta framkvæmt vettvangsathugun á starfsstöð þjónustuaðilans. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að framkvæma slíka vettvangsathugun fyrir hönd eftirlitsstjórnvalds heimaríkisins.
Sé starfsemi vátryggingafélags með starfsleyfi hér á landi útvistað til þjónustuaðila með starfsstöð í öðru aðildarríki skal Fjármálaeftirlitið tilkynna viðeigandi stjórnvöldum í því aðildarríki telji það þörf á vettvangsathugun á starfsstöð þjónustuaðilans.
[Fjármálaeftirlitið getur óskað eftir aðstoð Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, skv. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1094/2010 um að koma á fót evrópskri eftirlitsstofnun (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) ef því er ekki heimilað að gera vettvangsathugun skv. 3. mgr. Sama gildir um eftirlitsstjórnvöld annarra aðildarríkja ef þeim er ekki heimilað að gera vettvangsathugun hjá vátryggingafélagi sem hefur útvistað starfsemi hér á landi, sbr. 2. mgr.
Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni er heimilt skv. 21. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1094/2010 um að koma á fót evrópskri eftirlitsstofnun (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) að taka þátt í vettvangsathugun vegna útvistaðrar starfsemi ef tvö eða fleiri eftirlitsstjórnvöld gera hana sameiginlega.]1)
1)L. 36/2018, 6. gr.
34. gr. Yfirfærsla vátryggingastofns.
Vátryggingafélag sem hefur höfuðstöðvar hér á landi getur flutt vátryggingastofn sinn að nokkru eða öllu leyti til annars félags sem hefur fengið starfsleyfi í aðildarríki. Félagið skal senda Fjármálaeftirlitinu umsókn um yfirfærsluna ásamt drögum að samkomulagi milli félaganna og þeim gögnum sem eftirlitið telur nauðsynleg. Fjármálaeftirlitið kannar umsóknina með hliðsjón af hag beggja félaganna og hvort ástæða sé til að ætla að færslan geti skaðað vátryggingartaka og vátryggða hjá félögunum og aðra sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta. Slík færsla er aðeins heimil ef [eftirlitsstjórnvald í]1) heimaríki móttökufélags staðfestir að tilskildum kröfum um gjaldþol sé fullnægt að lokinni yfirtöku stofnsins.
Fjármálaeftirlitið skal leita eftir samþykki eftirlitsstjórnvalds móttökufélagsins sem hefur þrjá mánuði til að gefa álit sitt. [Fjármálaeftirlitið skal einnig, ef við á, leita eftir samþykki eftirlitsstjórnvalds í því aðildarríki þar sem vátryggingarsamningar innan vátryggingastofnsins voru gerðir. Eftirlitsstjórnvaldið hefur þrjá mánuði til að gefa álit sitt. Komi ekki svar frá viðkomandi eftirlitsstjórnvaldi skal litið svo á að það sé samþykkt yfirfærslunni.]1)
Telji Fjármálaeftirlitið að synja beri um leyfi til yfirfærslunnar skal félögunum tilkynnt um það án tafar. Að öðrum kosti, og sé um að ræða vátryggingaráhættu hér á landi, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 6. gr., skal Fjármálaeftirlitið birta opinberlega tilkynningu vegna yfirfærslubeiðninnar og óska eftir skriflegum athugasemdum vátryggingartaka, vátryggðra og annarra sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta innan tiltekins frests sem eigi skal vera skemmri en einn mánuður.
Fjármálaeftirlitið veitir leyfi til yfirfærslunnar að liðnum fresti skv. 2. mgr. telji það, að teknu tilliti til þeirra athugasemda sem fram hafa komið, að orðið skuli við yfirfærslubeiðninni.
Réttindi og skyldur vátryggingartaka, vátryggðra og annarra samkvæmt vátryggingarsamningum halda sjálfkrafa gildi sínu við flutninginn. [Vátryggingartökum er heimilt að segja upp vátryggingarsamningum sem eru hluti af yfirfærðum stofni frá þeim degi þegar flutningur stofnsins á sér stað enda tilkynni þeir vátryggingafélagi um uppsögn sína skriflega innan mánaðar frá flutningsdegi.]1)
[Þegar vátryggingafélag með höfuðstöðvar í öðru aðildarríki, sem hefur stofnsett útibú eða veitir þjónustu hér á landi, hyggst yfirfæra vátryggingastofn sinn til annars félags, sem hefur starfsleyfi í aðildarríki, skal Fjármálaeftirlitið birta opinberlega tilkynningu vegna yfirfærslubeiðninnar skv. 3. mgr. ef vátryggingaráhættan er hér á landi.]2)
[Vátryggingafélag með höfuðstöðvar hér á landi getur móttekið vátryggingastofn annars félags. Slík yfirfærsla er einungis heimil ef Fjármálaeftirlitið staðfestir að tilskildum kröfum um gjaldþol sé fullnægt að lokinni yfirtöku stofnsins. Ef Fjármálaeftirlitinu berst tilkynning frá eftirlitsstjórnvaldi í öðru aðildarríki um yfirfærslu vátryggingastofns til vátryggingafélags með höfuðstöðvar hér á landi skal það veita eftirlitsstjórnvaldinu álit sitt innan þriggja mánaða frá því að beiðni um yfirfærslu barst. Móttökufélagið skal senda Fjármálaeftirlitinu allar upplýsingar sem eru nauðsynlegar vegna yfirfærslunnar að mati Fjármálaeftirlitsins.]1)
1)L. 82/2021, 6. gr. 2)L. 36/2018, 7. gr.
35. gr. Samruni.
Óski vátryggingafélög sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi eftir því að samruni eigi sér stað með yfirtöku eins eða fleiri vátryggingafélaga með slitum þeirra, þannig að allar eignir og skuldir verði yfirfærðar að öllu leyti án þess að til skiptameðferðar komi, skulu öll félögin senda Fjármálaeftirlitinu umsókn ásamt drögum að samkomulagi milli félaga um samrunann og með þeim gögnum sem eftirlitið telur nauðsynleg. Sama gildir óski tvö eða fleiri vátryggingafélög eftir því að samruni með stofnun nýs vátryggingafélags eigi sér stað með slitum án skiptameðferðar þannig að allar eignir og skuldir verði yfirfærðar til hins nýja félags. Skilyrði samruna er að leyfi til yfirfærslu vátryggingastofna sé veitt, sbr. 34. gr.
Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um félög skv. 5. gr. sem óska eftir að yfirfæra eignir og skuldir að öllu leyti án skiptameðferðar til vátryggingafélags.
Heimila má að samruni með yfirtöku eða með stofnun nýs félags geti farið fram þótt eitt eða fleiri félaga sem yfirtekin eru, eða lögð verða niður, fari í slitameðferð að því tilskildu að sá kostur sé bundinn við félög sem hafa ekki enn hafist handa við að úthluta eignum sínum til eigenda.
36. gr. Samkomulag um samruna.
Í drögum að samkomulagi um samruna, sem fylgja skulu umsókn, skal m.a. koma fram hvernig greiðslum er háttað fyrir hluti í félögum sem hætta vátryggingastarfsemi, hvenær hlutir sem kunna að vera notaðir sem greiðsla veiti rétt til arðs og annarra réttinda og hvaða réttindi eigendur hluta í félagi sem hættir starfsemi öðlast í því félagi sem tekur við eignum og skuldum, svo og aðrar ráðstafanir sem kunna að hafa í för með sér breytingar á réttindum eigenda. Einnig skal koma fram hvort stjórnarmenn eða [framkvæmdastjóri]1) skuli njóta sérstakra hlunninda og þá hverra.
Lögð skulu fram staðfest reikningsuppgjör sem sýna eignir og skuldir hvers félags á þeim degi þegar samruni er fyrirhugaður ásamt sameiginlegri upphafsstöðu eftir samrunann og má uppgjörið ekki vera meira en sex mánaða gamalt þegar ákvörðun er tekin um að samruni eigi sér stað. Fjármálaeftirlitið getur þó heimilað að miðað sé við ársuppgjör félaganna í lok síðasta reikningsárs.
Eigi samruni sér stað með stofnun nýs félags skulu drög að nýjum samþykktum þess einnig lögð fram. Sama gildir verði gerðar breytingar á samþykktum félaga, aðrar en breytingar á nafni.
Fjármálaeftirlitið veitir leyfi til samrunans. Starfsleyfi félags eða félaga, sem hætta vátryggingastarfsemi, skulu afturkölluð frá þeim degi er Fjármálaeftirlitið tiltekur og félagið eða félögin teljast ekki lengur til starfandi félaga.
1)L. 82/2021, 7. gr.
37. gr. Fjármálasamsteypur.
Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að fjármálasamsteypur fari að ákvæðum laga þessara. [Seðlabanki Íslands]1) setur nánari reglur2) um tilgreiningu á fjármálasamsteypum og eftirlit með þeim. [Seðlabanki Íslands]1) getur og sett almennar reglur um tilhögun innra eftirlits í fjármálasamsteypum. Fjármálaeftirlitið getur að ósk eftirlitsstjórnvalda í öðru ríki staðreynt upplýsingar frá aðilum hér á landi sem falla undir eftirlit með fjármálasamsteypum. Viðkomandi eftirlitsstjórnvöldum er heimilt að taka þátt í vinnu við að staðreyna slíkar upplýsingar. Um útreikning á gjaldþoli fyrir fjármálasamsteypur skulu gilda reglur sem [Seðlabanki Íslands]1) setur.
1)L. 91/2019, 120. gr. 2)Rgl. 1410/2021.
VIII. kafli. Stjórn. Áhættustýring og innra eftirlit.
38. gr. Ábyrgð stjórnar.
Stjórn vátryggingafélags ber ábyrgð á því að félagið fylgi lögum þessum og stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru samkvæmt þeim.
39. gr. Almennar kröfur til stjórnkerfis.
Vátryggingafélag skal hafa til staðar skilvirkt stjórnkerfi sem tryggir að því sé stjórnað á traustan og varfærinn hátt. Stjórnkerfið skal vera í samræmi við eðli, umfang og margbreytileika starfseminnar.
Stjórnkerfið skal að lágmarki fela í sér gagnsætt og viðeigandi stjórnskipulag með skýrri dreifingu og aðgreiningu ábyrgðar, ásamt skilvirkri miðlun upplýsinga. Kerfið skal tryggja að farið sé að kröfum þessa kafla.
Vátryggingafélag skal rýna stjórnkerfi sitt reglulega.
Stjórn vátryggingafélags skal a.m.k. setja skriflega stefnu um áhættustýringu, innra eftirlit, innri endurskoðun og, ef við á, útvistun. Stjórn skal tryggja innleiðingu framangreindra stefna. Þær skulu endurskoðaðar eigi sjaldnar en árlega með hliðsjón af öllum verulegum breytingum á stjórnkerfi og því sviði sem stefnurnar fjalla um.
Vátryggingafélag skal gera ráðstafanir, þ.m.t. viðbragðsáætlun, til að tryggja samfellu og reglufestu í starfseminni.
Fjármálaeftirlitið leggur mat á stjórnkerfi vátryggingafélaga og yfirvofandi áhættu sem félögin telja að geti haft áhrif á fjárhagslega stöðu þeirra. Telji Fjármálaeftirlitið stjórnkerfi vátryggingafélags óviðunandi samkvæmt kröfum þessa kafla skal það krefja viðkomandi vátryggingafélag um úrbætur.
40. gr. [Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri.]1)
Í vátryggingafélagi, sem fengið hefur starfsleyfi hér á landi, skal stjórn kjörin á aðalfundi samkvæmt ákvæðum samþykkta félagsins og vera skipuð þremur mönnum hið fæsta. Varamenn í stjórn vátryggingafélags skulu vera tveir hið minnsta.
Stjórn vátryggingafélags skal ekki taka þátt í ákvörðunum um einstök viðskipti nema umfang þeirra sé verulegt miðað við stærð félagsins. Einstakir stjórnarmenn skulu ekki hafa afskipti af ákvörðunum um einstök viðskipti.
Stjórnarmenn vátryggingafélags skulu ekki taka þátt í meðferð máls ef mál varðar:
a. viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta í,
b. viðskipti samkeppnisaðila þeirra aðila sem um ræðir í a-lið.
Hið sama skal gilda um viðskipti aðila sem [teljast í samstarfi við stjórnarmann].1)
Viðskiptaerindi stjórnarmanna, sem og [aðila sem þeir teljast í samstarfi við],1) skulu lögð fyrir stjórn vátryggingafélags til samþykktar eða synjunar. Stjórn vátryggingafélags er þó heimilt að setja almennar reglur um afgreiðslu slíkra mála þar sem fyrir fram er ákveðið hvaða viðskiptaerindi þurfi, eða þurfi ekki, sérstaka umfjöllun stjórnar áður en til afgreiðslu þeirra kemur.
Stjórnarmenn skulu vera búsettir í aðildarríki eða ríki sem er aðili að Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD). [Framkvæmdastjóri]1) skal vera búsettur í aðildarríki. [Ríkisborgarar aðildarríkja eru undanþegnir búsetuskilyrðum.]2) Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita [ríkisborgurum annarra ríkja]2) undanþágu frá búsetuskilyrðum.
Vátryggingafélag skal verja fullnægjandi fjármunum og mannafla til þess að kynna starfsemi félagsins fyrir stjórnarmanni og tryggja að hann hljóti viðeigandi þjálfun til stjórnarsetunnar.
Fái stjórnarmenn eða [framkvæmdastjóri]1) þóknun eða aðrar tekjur af vátryggingum, sem félagið yfirtekur eða lætur af hendi, vegna þátttöku í umboðs- eða miðlunarstarfsemi eða vegna fjárhagslegra hagsmuna í slíkri starfsemi skal Fjármálaeftirlitinu send tilkynning þar að lútandi.
Stjórn og [framkvæmdastjóri]1) skulu án tafar gera Fjármálaeftirlitinu viðvart hafi þeir vitneskju um málefni sem hafa úrslitaþýðingu fyrir áframhaldandi starfsemi félagsins.
1)L. 82/2021, 8. gr. 2)L. 10/2023, 2. gr.
41. gr. Kröfur um hæfi og hæfni.
[Vátryggingafélag skal tryggja að stjórnarmenn þess, framkvæmdastjóri og þeir sem bera ábyrgð á lykilstarfssviðum félagsins hafi gott orðspor ásamt þekkingu, hæfni og reynslu til að geta sinnt starfinu á tilhlýðilegan hátt.
Vátryggingafélag skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um skipan og breytingar á skipan stjórnar, framkvæmdastjóra og þeirra sem bera ábyrgð á lykilstarfssviðum félagsins. Framkvæmdastjóri, stjórnarmenn og þeir sem bera ábyrgð á lykilstarfssviðum þurfa á hverjum tíma að uppfylla hæfisskilyrði þessarar greinar ásamt 40. og 42. gr. og reglna settra skv. 5. mgr.]1)
Fjármálaeftirlitið getur á hverjum tíma tekið hæfi [framkvæmdastjóra],1) stjórnarmanna og þeirra sem bera ábyrgð á lykilstarfssviðum til sérstakrar skoðunar.
Ef stjórnarmaður, [framkvæmdastjóri]1) eða einhver sem ábyrgð ber á lykilstarfssviði vátryggingafélags lætur af störfum vegna þess að hann uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. skal þess sérstaklega getið í tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins, sbr. 2. mgr.
[Seðlabanki Íslands setur nánari reglur2) um hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra, þar á meðal um hvað felst í fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu, góðu orðspori og fjárhagslegu sjálfstæði, og um hvernig staðið skuli að hæfismati.]1)
Stjórnarmenn vátryggingafélags og [framkvæmdastjóri]1) skulu vera lögráða og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa á síðustu tíu árum hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., lögum um gjaldeyrismál og ákvæðum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, svo og sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
[Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera fjárhagslega sjálfstæðir og hafa þekkingu, hæfni og reynslu sem nýtist í starfinu, m.a. þekkingu á þeirri starfsemi sem vátryggingafélagið stundar. Starfsmönnum vátryggingafélags er ekki heimilt að sitja í stjórn viðkomandi vátryggingafélags.]1)
1)L. 82/2021, 9. gr. 2)Rgl. 285/2018.
42. gr. Önnur störf stjórnarmanna.
Stjórnarmenn vátryggingafélags mega ekki eiga sæti í stjórn annars eftirlitsskylds aðila eða félags í nánum tengslum við [hann]1) né vera starfsmenn, endurskoðendur eða tryggingastærðfræðingar annars eftirlitsskylds aðila eða tengdra félaga. Stjórnarmenn vátryggingafélags mega einungis sinna lögmannsstörfum fyrir annað vátryggingafélag sem ekki geta valdið hættu á hagsmunaárekstrum á milli félaganna tveggja eða á vátryggingamarkaði. Hyggist stjórnarmaður taka að sér lögmannsstörf fyrir annað vátryggingafélag skal hann fá skriflegt samþykki stjórnar vátryggingafélagsins sem hann er stjórnarmaður í fyrir því að hann megi taka að sér umrætt starf …1). Stjórnarmaður ber sönnunarbyrði um að lögmannsstarf sem hann tekur að sér fyrir annað vátryggingafélag brjóti ekki gegn ákvæði þessu. Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá stjórnarmanni í því skyni að meta hvort brotið hafi verið gegn ákvæðinu.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur stjórnarmaður eða starfsmaður vátryggingafélags tekið sæti í stjórn annars [eftirlitsskylds aðila eða félags í nánum tengslum við hann]1) ef um er að ræða [lögaðila]1) sem er að hluta eða öllu leyti í eigu vátryggingafélagsins eða [lögaðila]1) sem er að hluta eða öllu leyti í eigu félags með yfirráð í vátryggingafélaginu.
Stjórnarseta skv. 2. mgr. skal háð því að hún skapi ekki hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði að mati Fjármálaeftirlitsins. Í þessu sambandi skal m.a. horft til eignarhalds aðila og tengsla félagsins sem um ræðir við aðra aðila á fjármálamarkaði, svo og hvort tengslin geti skaðað heilbrigðan og traustan rekstur vátryggingafélagsins. Meiri hluti stjórnarmanna skal þó ávallt vera óháður félögum innan sömu félagasamstæðu.
Stjórnarformanni í vátryggingafélagi er óheimilt að taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem stjórn felur honum að vinna fyrir sig.
1)L. 82/2021, 10. gr.
43. gr. Aðalfundur vátryggingafélags.
Stjórn boðar til aðalfundar. Sé ekki boðað til aðalfundar í samræmi við lög, samþykktir eða ákvörðun aðalfundar boðar Fjármálaeftirlitið til hans að kröfu stjórnarmanns, [framkvæmdastjóra],1) endurskoðanda eða aðila sem atkvæðisbær er á aðalfundi. Fjármálaeftirlitið tilnefnir fundarstjóra og skal stjórnin afhenda honum skrá yfir þá sem atkvæðisbærir eru, gerðabók aðalfunda og endurskoðunarbók. Félagið greiðir kostnað við aðalfundinn.
1)L. 82/2021, 11. gr.
44. gr. Áhættustýring.
Í vátryggingafélagi skal vera skilvirkt kerfi áhættustýringar sem tekur til stefnu, vinnslu og aðferða við upplýsingagjöf sem nauðsynlegt er til að greina, mæla, stjórna og hafa eftirlit með og tilkynna stöðugt um yfirvofandi hættur sem geti haft áhrif á starfsemi félagsins og um víxltengsl á milli þeirra.
Vátryggingafélag skal skipuleggja starfssvið áhættustýringar með þeim hætti að það nái markmiðum sínum.
Áhættustýring skal vera skilvirk og vel samþætt skipulagi og ákvarðanatöku vátryggingafélags og höfð að leiðarljósi í starfi stjórnar, [framkvæmdastjóra]1) og þeirra sem bera ábyrgð á lykilstarfssviðum félagsins.
Áhættustýring skal ná yfir þá áhættuþætti sem notaðir eru í útreikningi á gjaldþolskröfu skv. 97. gr. sem og áhættuþætti sem ekki eru að öllu leyti hluti af þeim útreikningum.
Áhættustýring skal hið minnsta taka til eftirfarandi þátta:
a. áhættutöku vegna sölu vátrygginga og meðhöndlunar tjóna,
b. eigna- og skuldastýringar,
c. fjárfestingaráhættu, sérstaklega afleiðna,
d. lausafjáráhættu og samþjöppunaráhættu,
e. rekstraráhættu,
f. endurtrygginga og annarra áhættuvarna.
Í stefnu stjórnar um áhættustýringu skv. 39. gr. skal fjallað um hvern áhættuþátt skv. 5. mgr.
Vátryggingafélag skal sýna fram á að fjárfestingaráhætta þess sé í samræmi við lög þessi.
Noti vátryggingafélag lánshæfismat lánshæfismatsstofnunar við útreikning á vátryggingaskuld og gjaldþolskröfu skal það vera hluti af áhættustýringu félagsins að meta hvort lánshæfismatið eigi við með því að nota aðrar aðferðir við matið verði því við komið í því skyni að draga úr sjálfvirkum áhrifum utanaðkomandi mats.
[Seðlabanki Íslands]2) setur reglur3) um aðferðir sem fylgja skal við mat á lánshæfismati utanaðkomandi aðila, svo sem lánshæfismatsstofnana, sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og [lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar].4)
Noti vátryggingafélag eigið líkan að fullu eða að hluta sem Fjármálaeftirlitið hefur samþykkt skal áhættustýringin:
a. hanna eigið líkan og innleiða það,
b. prófa og sannreyna líkanið,
c. skrá upplýsingar um líkanið og allar breytingar á því,
d. greina líkanið og virkni þess og gefa skýrslu um það,
e. upplýsa stjórn félagsins um virkni líkansins, gera tillögur um umbætur og upplýsa um breytingar sem gerðar eru á líkaninu til að bæta þá veikleika sem fram hafa komið.
1)L. 82/2021, 12. gr. 2)L. 91/2019, 120. gr. 3)Rgl. 690/2018. 4)L. 36/2018, 5. gr.
45. gr. Eigið áhættu- og gjaldþolsmat.
Hluti af áhættustýringu hvers vátryggingafélags skal vera að gera eigið áhættu- og gjaldþolsmat um eftirfarandi atriði:
1. Heildargjaldþolsþörf félagsins þar sem tekið er tillit til áhættusniðs, samþykktra þolmarka og stefnu félagsins. Vátryggingafélag skal hafa til staðar ferla sem taka mið af eðli, umfangi og margbreytileika þeirrar áhættu sem tengist starfseminni og gera félaginu kleift að greina og meta með fullnægjandi hætti þá áhættuþætti sem geta orðið virkir til lengri eða skemmri tíma. Félagið skal lýsa þeim ferlum og aðferðum sem það notar við mat sitt.
2. Hvernig gjaldþolskröfum, kröfum um lágmarksfjármagn og kröfum til vátryggingaskuldar verður fullnægt.
3. Hvort og hversu mikið áhættusnið félagsins víki frá forsendum sem lagðar hafa verið til grundvallar gjaldþolskröfu, sbr. 97. gr., hvort sem byggt er á staðalreglunni eða eigin líkani. Sé eigið líkan notað skal einnig endurkvarða niðurstöður líkansins yfir í áhættumál og kvörðun gjaldþolskröfunnar.
Eigið áhættu- og gjaldþolsmat skal vera óaðskiljanlegur hluti af stefnu félagsins.
Vátryggingafélag skal gera reglulega mat skv. 1. mgr. og án tafar þegar mikil breyting verður á áhættusniði þess.
Niðurstaða eigin áhættu- og gjaldþolsmats er ekki lögbundin gjaldþolskrafa.
[Seðlabanki Íslands]1) setur nánari reglur um framkvæmd eigin áhættu- og gjaldþolsmats sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og [lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar].2)
1)L. 91/2019, 120. gr. 2)L. 36/2018, 5. gr.
46. gr. Innra eftirlit.
Vátryggingafélag skal hafa virkt innra eftirlitskerfi sem hefur a.m.k. stjórnunar- og reikningsskilaferla, skipulag og tilhlýðilega skýrslugjöf á öllum sviðum starfseminnar. Einnig skal vátryggingafélag hafa regluvörslu.
Starfssvið regluvörslu felur í sér ráðgjöf til stjórnar um fylgni við lög þessi, reglur og önnur stjórnvaldsfyrirmæli á grundvelli þeirra. Einnig skal meta áhrif lagabreytinga á starfsemi vátryggingafélagsins [ásamt því að greina og meta hlítingaráhættu].1)
1)L. 82/2021, 13. gr.
47. gr. Innri endurskoðun.
Vátryggingafélag skal hafa virka innri endurskoðun sem felur í sér mat á skilvirkni og gæðum innra eftirlitskerfis og annarra þátta stjórnkerfisins.
Innri endurskoðun skal vera hlutlæg og óháð rekstrareiningum vátryggingafélagsins.
Upplýsa skal stjórn um allar niðurstöður og ábendingar innri endurskoðunar sem tekur ákvörðun um aðgerðir og sér um að þeim sé framfylgt.
48. gr. Starfssvið tryggingastærðfræðings.
Vátryggingafélag skal hafa starfssvið tryggingastærðfræðings sem:
a. ber ábyrgð á útreikningi vátryggingaskuldar,
b. tryggir notkun á viðeigandi forsendum, aðferðum og undirliggjandi líkönum við útreikning á vátryggingaskuld,
c. metur gæði gagna sem notuð eru við útreikning á vátryggingaskuld og hvort þau séu fullnægjandi,
d. ber saman besta mat vátryggingaskuldar við reynslu,
e. upplýsir stjórn hvort vátryggingaskuld sé áreiðanleg og viðeigandi,
f. hefur umsjón með útreikningi á vátryggingaskuld þegar hún er reiknuð miðað við hvert tjónstilvik fyrir sig,
g. gefur álit á áhættutöku félagsins vegna vátrygginga,
h. gefur álit á endurtryggingarvernd félagsins,
i. starfar með starfssviði áhættustýringar til að áhættustýringarkerfi félagsins skv. 44. gr. sé skilvirkt, sér í lagi varðandi útreikning áhættu vegna gjaldþolskrafna og vegna eigin áhættu- og gjaldþolsmats.
Starfssviði tryggingastærðfræðings skal sinnt af aðilum sem hafa þekkingu á tryggingastærðfræði og fjármálastærðfræði í samræmi við eðli, umfang og margbreytileika þeirrar áhættu sem fylgir starfsemi vátryggingafélagsins og geta sýnt fram á að þeir hafi þá reynslu sem við á við notkun á þeim stöðlum sem tengjast faginu, svo og öðrum viðeigandi stöðlum.
Líftryggingafélag sem fellur undir undanþáguákvæði laga þessara skv. 3. mgr. 3. gr. skal sjá til þess að tryggingastærðfræðingur eða sérfræðingur með sambærilega þekkingu taki að sér eftirfarandi störf fyrir félagið:
1. Að fylgjast með því að farið sé eftir reiknigrundvelli iðgjalda, iðgjaldasjóðs og ágóðaúthlutunar.
2. Að fylgjast með því að fylgt sé settum reglum um ákvörðun endurkaupsverðs og fjárhæða gjaldfrjálsra líftrygginga og sjúkra- og heilsutrygginga sem reknar eru á tæknilegum grundvelli.
Tryggingastærðfræðingur líftryggingafélags skv. 3. mgr. getur krafist allra gagna og upplýsinga af félaginu til að hann geti innt starf sitt af hendi. Hann getur krafist þess að stjórnin sé kölluð saman og hefur að jafnaði rétt til þess að vera viðstaddur og tjá sig á fundum stjórnarinnar. Sé hann ekki sammála ákvörðun stjórnar hefur hann rétt til að láta skrá álit sitt í gerðabók félagsins.
Komist tryggingastærðfræðingur líftryggingafélags skv. 3. mgr. að því í starfi sínu að félagið sem hann starfar fyrir fari ekki að settum reglum varðandi framangreind atriði skal hann tafarlaust tilkynna það Fjármálaeftirlitinu. Fjármálaeftirlitið getur krafið tryggingastærðfræðing líftryggingafélags um þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með iðgjaldagrundvelli, líftryggingaskuld og fjárhagsstöðu líftryggingafélags.
Sá einn má taka að sér störf fyrir líftryggingafélög skv. 3.–5. mgr. sem hlotið hefur viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins.
49. gr. Útvistun.
Vátryggingafélag sem útvistar starfssviði eða hluta af vátryggingarekstri sínum ber ábyrgð á því að farið sé að lögum þessum.
Útvistun mikilvægra verkefna og lykilstarfssviða skal ekki leiða til:
a. verulegrar skerðingar á gæðum stjórnkerfis félagsins,
b. óhóflegrar aukningar á rekstraráhættu félagsins,
c. takmörkunar á möguleikum Fjármálaeftirlitsins til að sinna eftirliti með því hvort vátryggingafélag uppfylli skyldur sínar,
d. skerðingar á samfelldri og fullnægjandi þjónustu við vátryggingartaka.
Vátryggingafélag skal upplýsa Fjármálaeftirlitið fyrir fram um útvistun mikilvægra verkefna og lykilstarfssviða, svo og um breytingar sem verða á þeirri útvistun.
[Seðlabanki Íslands]1) setur reglur um skilyrði útvistunar, sér í lagi til þjónustuaðila utan aðildarríkja, sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og [lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar].2)
1)L. 91/2019, 120. gr. 2)L. 36/2018, 5. gr.
50. gr. Reglugerð.
Ráðherra setur reglugerð1) sem útfærir frekar kröfur um:
a. áhættustýringu, sér í lagi hvað varðar eigna- og skuldastýringu og fjárfestingarstefnu vátryggingafélags,
b. stjórnarhætti,
c. innra eftirlit,
d. innri endurskoðun,
e. starfssvið tryggingastærðfræðings.
[Seðlabanki Íslands]2) setur reglur3) um kröfur um hæfi stjórnar, [framkvæmdastjóra]4) og þeirra sem bera ábyrgð á lykilstarfssviðum skv. 41. gr. og skilyrði útvistunar, sér í lagi til þjónustuaðila utan aðildarríkja, sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og [lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar].5)
[Seðlabanki Íslands]2) setur reglur um mat á heildargjaldþolsþörf vátryggingafélags í eigin áhættu- og gjaldþolsmati skv. 1. tölul. 1. mgr. 45. gr. sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og [lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar].5)
1)Rg. 1077/2017. Rg. 55/2022, sbr. 593/2023. 2)L. 91/2019, 120. gr. 3)Rgl. 285/2018. 4)L. 82/2021, 14. gr. 5)L. 36/2018, 5. gr.
51. gr. Kaupauki og starfslokasamningur.
Vátryggingafélagi er heimilt að veita kaupauka eða kaupaukagreiðslur. Við ákvörðun kaupauka skal taka tillit til heildarafkomu vátryggingafélags yfir lengri tíma, undirliggjandi áhættu og fjármagnskostnaðar þess. Samtala veitts kaupauka til starfsmanns má á ársgrundvelli ekki nema hærri fjárhæð en 25% af árslaunum viðkomandi án kaupauka.
Frekari útfærslu á greiðslu kaupauka og kaupaukagreiðslu setur ráðherra í reglugerð um starfskjarastefnu vátryggingafélags.
Hafi hagnaður verið af rekstri félagsins samfellt síðustu þrjú ár er heimilt að gera starfslokasamninga. Með starfslokasamningi í grein þessari er átt við hvers konar samninga sem gerðir eru á milli [framkvæmdastjóra]1) eða starfsmanns sem ber ábyrgð á lykilstarfssviði annars vegar og vátryggingafélags hins vegar og kunna að færa þeim sem lætur af störfum hlunnindi eða réttindi umfram hefðbundnar launagreiðslur í uppsagnarfresti. Slíkir samningar skulu vera í formi beinna launagreiðslna og ekki vara lengur en 12 mánuði eftir starfslok.
Sérstaklega skal gera grein fyrir starfslokasamningum í skýringum með ársreikningi. Ráðherra getur kveðið nánar á um skilyrði og framkvæmd starfslokasamninga í reglugerð.
1)L. 82/2021, 15. gr.
52. gr. Takmörkun arðgreiðslna.
Einungis er heimilt að úthluta sem arði hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs, yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum og óbundnu fé eftir að dregið hefur verið frá tap sem ekki hefur verið jafnað, svo og öðru óráðstöfuðu eigin fé, enda sé ljóst að félagið fullnægi gjaldþolskröfu og kröfu um lágmarksfjármagn.
IX. kafli. Opinber birting.
53. gr. Ársreikningar.
Reikningsár vátryggingafélags er almanaksárið. Ársreikningur skal gefa glögga mynd af fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu vátryggingafélags og skal saminn í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla, sbr. VIII. kafla laga um ársreikninga.
Ársreikningur ásamt skýrslu stjórnar skal vera aðgengilegur almenningi, t.d. á vef félagsins.
Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að upplýsingar, sem eru ekki staðlaðar í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla, séu settar fram með samræmdum hætti.
54. gr. Skýrsla um gjaldþol og fjárhagslega stöðu.
Vátryggingafélag skal eigi síðar en 14 vikum eftir lok reikningsárs birta opinberlega skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu. Í skýrslunni skal vera lýsing á:
1. Starfsemi og afkomu vátryggingafélagsins.
2. Stjórnkerfi vátryggingafélagsins og hversu vel það samræmist áhættusniði þess.
3. Áhættuskuldbindingum, samþjöppun, áhættuvörnum og næmni fyrir hverja tegund áhættu fyrir sig.
4. Grundvelli og aðferðum við mat á eignum, vátryggingaskuld og öðrum skuldbindingum ásamt skýringu á frávikum frá mati í reikningsskilum ef við á.
5. Fjármagnsstýringu sem inniheldur a.m.k. umfjöllun um:
a. uppbyggingu, fjárhæð og gæði gjaldþolsliða,
b. fjárhæðir gjaldþolskröfu og lágmarksfjármagns,
c. ef við á, útskýringu á muninum á forsendum eigin líkans sem notað er við útreikning gjaldþolskröfu og undirliggjandi forsendum staðalreglunnar,
d. ef við á, hversu mikið vantaði upp á að skilyrði um lágmarksfjármagn væri uppfyllt á uppgjörstímanum, jafnvel þó að leyst hafi verið úr því, ásamt útskýringum á uppruna fráviksins og afleiðingum; gera skal grein fyrir til hvaða aðgerða var gripið, sama á við um veruleg frávik frá gjaldþolskröfu á uppgjörstímanum.
Í lýsingu skv. 5. tölul. 1. mgr. skal vera greining á verulegum breytingum frá síðasta uppgjörstímabili og útskýring á meiri háttar mismun í samanburði við reikningsskil. Jafnframt skal greina frá með hvaða hætti hægt er að flytja fjármagn til eða frá félaginu og innan félagsins. Upplýsingar um gjaldþolskröfu skv. d-lið 5. tölul. 1. mgr. skulu gera greinarmun á gjaldþolskröfu eins og hún er metin skv. XVI. kafla og viðbótargjaldþolskröfu skv. 32. gr. og áhrifum sérstakra stika, ef við á, sem notaðir eru að kröfu Fjármálaeftirlitsins skv. 102. gr. Þá skal koma fram fyrirvari, ef við á, um að endanleg gjaldþolskrafa bíði staðfestingar Fjármálaeftirlitsins, sbr. ákvæði í XVI. kafla um aðkomu Fjármálaeftirlitsins að ákvörðun gjaldþolskröfu.
55. gr. Skýrsla um gjaldþol og fjárhagslega stöðu. Undanþáguákvæði og tilvísun til opinberrar birtingar upplýsinga.
Fjármálaeftirlitið getur veitt vátryggingafélagi undanþágu frá því að birta upplýsingar í skýrslu skv. 54. gr. ef samkeppnisaðilar mundu hafa óréttmætan ávinning af birtingu þeirra eða félagið er með skuldbindingar gagnvart vátryggingartökum eða öðrum mótaðilum sem varða leynd og trúnað. Vátryggingafélag þarf að greina ástæðu undanþágunnar í skýrslunni.
Vátryggingafélag hefur heimild til að nota eða vísa til opinberrar birtingar upplýsinga sem birtar eru á grundvelli lagaskyldu að því gefnu að þær upplýsingar jafngildi lágmarkskröfum skv. 1. mgr. 54. gr.
Ákvæði 1. mgr. á ekki við um birtingu upplýsinga skv. 5. tölul. 1. mgr. 54. gr.
56. gr. Skýrsla um gjaldþol og fjárhagslega stöðu. Uppfærslur og upplýsingar birtar að eigin frumkvæði.
Þegar meiri háttar atburðir hafa veruleg áhrif á opinberar upplýsingar skal vátryggingafélag birta opinberlega upplýsingar um eðli og áhrif þessara atburða. Þessir atburðir skulu hið minnsta teljast meiri háttar:
1. Vátryggingafélag stenst ekki kröfur um lágmarksfjármagn og Fjármálaeftirlitið telur að félagið geti ekki lagt fram raunhæfa fjármögnunaráætlun eða það fær ekki áætlun innan mánaðar.
2. Veruleg frávik eru frá því að gjaldþolskröfu sé fullnægt og Fjármálaeftirlitið fær ekki raunhæfa endurreisnaráætlun innan tveggja mánaða.
Í tilviki 1. tölul. 1. mgr. skal Fjármálaeftirlitið krefjast þess að vátryggingafélagið birti án tafar upplýsingar um þá fjárhæð sem upp á vantar með útskýringum á tilurð og afleiðingum þess að kröfu um lágmarksfjármagn er ekki fullnægt og með hvaða hætti brugðist er við því. Ef vátryggingafélagið fullnægir ekki kröfum um lágmarksfjármagn innan þriggja mánaða, þrátt fyrir að fjármögnunaráætlunin hafi upphaflega verið talin raunhæf, skal það upplýsa um það opinberlega í lok tímabilsins ásamt útskýringum á uppruna og afleiðingum og hvaða aðgerða ætlunin er að grípa til.
Í tilviki 2. tölul. 1. mgr. skal Fjármálaeftirlitið krefjast þess að vátryggingafélagið birti án tafar upplýsingar um þá fjárhæð sem upp á vantar, ásamt útskýringum á tilurð og afleiðingum þess að gjaldþolskröfu er ekki fullnægt og með hvaða hætti brugðist er við því. Ef vátryggingafélagið fullnægir ekki gjaldþolskröfu innan sex mánaða, þrátt fyrir að endurreisnaráætlunin hafi upphaflega verið talin raunhæf, skal það upplýsa um það opinberlega fyrir lok tímabilsins ásamt útskýringum á uppruna og afleiðingum og hvaða aðgerða ætlunin er að grípa til.
Vátryggingafélagi er heimilt að birta í skýrslunni að eigin frumkvæði frekari upplýsingar og útskýringar varðandi gjaldþol og fjárhagslega stöðu til viðbótar við kröfur í þessu ákvæði.
57. gr. Skýrsla um gjaldþol og fjárhagslega stöðu. Stefna og samþykki stjórnar.
Vátryggingafélag skal hafa til staðar kerfi og skipulag til að skýrsla um gjaldþol og fjárhagslega stöðu sé fullnægjandi. Einnig skal félagið hafa skriflega stefnu sem tryggir að upplýsingar í skýrslunni séu réttar á hverjum tíma.
Skýrsla um gjaldþol og fjárhagslega stöðu þarf að hljóta samþykki stjórnar vátryggingafélagsins áður en hún er birt.
Ráðherra setur reglugerð1) sem tilgreinir nánar hvaða upplýsingar eiga að koma fram í skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu og hvaða frestir gilda um birtingu skýrslunnar.
[Seðlabanki Íslands]2) setur reglur3) um ferli vátryggingafélaga við skýrslugerð um gjaldþol og fjárhagslega stöðu og á hvaða formi skýrslan skuli vera sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og [lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar].4)
1)Rg. 55/2022. 2)L. 91/2019, 120. gr. 3)Rgl. 1115/2021. 4)L. 36/2018, 5. gr.
X. kafli. Virkur eignarhlutur. Hlutabréf. Lánveitingar.
58. gr. Tilkynning til Fjármálaeftirlitsins.
Aðili sem hyggst eignast, einn sér eða í samstarfi við aðra, virkan eignarhlut í vátryggingafélagi með starfsleyfi gefið út hér á landi skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu fyrir fram um áform sín. Hið sama á við hyggist aðili, einn sér eða í samstarfi við aðra, auka svo við eignarhlut sinn að virkur eignarhlutur nái eða fari yfir 20%, 30% eða 50% eða nemi svo stórum hluta að vátryggingafélag verði talið dótturfélag hans.
Kaup á virkum eignarhlut geta ekki komið til framkvæmda fyrr en tímafrestur Fjármálaeftirlitsins skv. 1. málsl. 2. mgr. 59. gr., sbr. 60. gr., er liðinn eða Fjármálaeftirlitið hefur tilkynnt þeim sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut að hann sé hæfur til að fara með eignarhlutinn.
Í skriflegri tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins skulu fylgja eftirfarandi upplýsingar:
1. Nafn og heimili þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut.
2. Nafn þess vátryggingafélags sem fyrirhugað er að fjárfesta í.
3. Stærð þess hlutar eða atkvæðisréttar sem fyrirhugað er að fjárfesta í.
4. Áform um breytingar á verkefnum vátryggingafélags.
5. Fjármögnun fjárfestingarinnar.
6. Fjárhagsstaða þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut.
7. Fyrirhuguð viðskiptatengsl þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut við hlutaðeigandi vátryggingafélag.
8. Reynsla þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut af vátryggingastarfsemi og fjármálastarfsemi.
9. Eignarhald, stjórnarseta eða önnur þátttaka, þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut, í starfsemi lögaðila.
10. Refsingar sem sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut hefur verið dæmdur til að sæta og hvort viðkomandi sæti rannsókn sakamáls.
11. Náin tengsl þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut við aðra lögaðila.
12. Aðrar upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegar og birtir opinberlega upplýsingar um.
[Atkvæðisréttur skal ákvarðaður til samræmis við III. kafla laga um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu. Ekki skal telja með hlutafé eða atkvæðisrétt sem verðbréfafyrirtæki eða lánastofnun á vegna sölutryggingar í tengslum við útgáfu fjármálagerninga og/eða útboð fjármálagerninga skv. [f-lið [16. tölul.]1) 1. mgr. 4. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga],2) enda séu þessi réttindi ekki nýtt eða notuð á annan hátt til að hlutast til um stjórn útgefanda fjármálagerninganna og þeim ráðstafað innan árs frá öflun.]3)
1)L. 50/2022, 26. gr. 2)L. 115/2021, 148. gr. 3)L. 82/2021, 16. gr.
59. gr. Mat og tilkynning Fjármálaeftirlitsins.
Telji Fjármálaeftirlitið þann sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut ekki hæfan til þess að fara með eignarhlutinn skal það tilkynna viðkomandi um það og rökstyðja niðurstöðu sína fyrir viðkomandi. Telji Fjármálaeftirlitið vafa leika á hæfi þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut er því þó heimilt að setja skilyrði fyrir því að viðkomandi fjárfestingu sé ekki hafnað, m.a. að viðkomandi grípi til ráðstafana í því skyni að takmarka skaðleg áhrif af eignarhaldi hans, að eignarhaldið sé falið sérstöku eignarhaldsfélagi sem hafi ekki aðra starfsemi með höndum eða að hann tilnefni einstaklinga sem Fjármálaeftirlitið metur hæfa sem fulltrúa sína í stjórn. Skilyrði þessi skulu koma fram í staðfestingu Fjármálaeftirlitsins til þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut um að það setji sig ekki upp á móti fyrirhugaðri fjárfestingu.
Niðurstaða Fjármálaeftirlitsins skal vera skrifleg og tilkynnt þeim sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut eigi síðar en tveimur virkum dögum eftir að niðurstaðan lá fyrir. Liggi niðurstaða Fjármálaeftirlitsins ekki fyrir innan þess tímafrests sem kveðið er á um í 60. gr. skal litið svo á að Fjármálaeftirlitið hafi ekki athugasemdir við fyrirætlanir þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut í hlutaðeigandi vátryggingafélagi. Setji Fjármálaeftirlitið skilyrði fyrir því að sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut megi fara með eignarhlutinn, og þau koma fram í tilkynningu til hans, skal hann staðfesta að hann muni uppfylla skilyrði þess.
Hafi sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut eigi ráðist í þær fjárfestingar sem hann hafði tilkynnt Fjármálaeftirlitinu innan sex mánaða frá því að niðurstaða þess lá fyrir skal hann tilkynna því að nýju um fyrirhugaða fjárfestingu sína. Ákvæði 58., 60. og 61. gr. gilda um þá tilkynningu og viðbrögð Fjármálaeftirlitsins við henni.
Ef sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut er vátryggingafélag eða fjármálafyrirtæki með starfsleyfi í öðru aðildarríki eða móðurfélag slíks aðila eða einstaklingur eða lögaðili sem hefur yfirráð yfir slíkum aðila, og ef félagið sem þessi aðili hyggst öðlast virkan eignarhlut í yrði dótturfélag hans eða lyti yfirráðum hans í kjölfar öflunar þessa eignarhlutar, skal Fjármálaeftirlitið hafa samráð við viðeigandi eftirlitsstjórnvöld áður en niðurstaða þess er kunngerð.
Aðili sem fer með virkan eignarhlut skal á hverjum tíma teljast hæfur til að fara með virkan eignarhlut í vátryggingafélagi. Verði breytingar á upplýsingum skv. 58. gr. sem geta haft áhrif á mat Fjármálaeftirlitsins skv. 61. gr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að taka til endurskoðunar hæfi aðila til að fara með virkan eignarhlut í vátryggingafélagi.
60. gr. Staðfesting Fjármálaeftirlitsins.
Eigi síðar en tveimur virkum dögum eftir móttöku tilkynningar skv. 58. gr. skal Fjármálaeftirlitið staðfesta móttöku hennar. Í staðfestingu skal koma fram fyrir hvaða dag megi vænta niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins. Telji Fjármálaeftirlitið að afla þurfi ítarlegri upplýsinga en þeirra sem taldar eru upp í 3. mgr. 58. gr. frá þeim sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut getur það krafið viðkomandi um þær. Slík krafa skal sett fram eigi síðar en fimmtíu virkum dögum eftir staðfestingu tilkynningar og skal tilgreina sérstaklega þær upplýsingar sem óskað er eftir. Fjármálaeftirlitið hefur sextíu virka daga frá staðfestingu tilkynningar skv. 1. málsl. til þess að meta hvort það telur þann sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut hæfan til að fara með eignarhlutinn. Sé óskað eftir viðbótarupplýsingum frá viðkomandi, sbr. 3. málsl., bætist bið eftir upplýsingum við dagafjölda skv. 5. málsl., þó ekki umfram tuttugu virka daga.
Fjármálaeftirlitinu er heimilt að óska aftur eftir frekari upplýsingum. Slík beiðni lengir ekki framangreinda tímafresti. Ef sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut er staðsettur utan aðildarríkja, eða hann lýtur ekki opinberu fjármálaeftirliti innan aðildarríkja, bætist bið eftir upplýsingum við dagafjölda skv. 5. málsl. 1. mgr. en þó ekki umfram þrjátíu virka daga.
Sé sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut lögaðili skulu upplýsingar skv. 3. mgr. 58. gr. eiga við um lögaðilann sjálfan, stjórnarmenn hans, [framkvæmdastjóra]1) og þá einstaklinga og lögaðila sem eiga virkan eignarhlut í lögaðilanum. Skal þá enn fremur upplýst um endurskoðanda lögaðilans. Skulu upplýsingarnar studdar gögnum eftir því sem það á við.
Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágur frá skilum á upplýsingum skv. 3. mgr. 58. gr. hafi lögaðili ekki tök á að afla þeirra eða ef sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut lýtur opinberu fjármálaeftirliti í öðru ríki og unnt er að afla sambærilegra upplýsinga frá eftirlitsstjórnvaldi þess ríkis.
[[Seðlabanki Íslands]2) getur sett reglur sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar þar sem fram koma tæmandi upplýsingar um hvað eigi að koma fram í tilkynningu um fyrirhuguð kaup eða aukningu á virkum eignarhlut.
[Seðlabanki Íslands]2) skal setja reglur sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar sem tilgreina nánar þau atriði sem hafa skal til hliðsjónar við mat á hæfi skv. 61. gr.]3)
1)L. 82/2021, 17. gr. 2)L. 91/2019, 120. gr. 3)L. 36/2018, 9. gr.
61. gr. Viðmið.
Fjármálaeftirlitið leggur mat á hvort sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut sé hæfur til að eiga eignarhlutinn með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs vátryggingafélags. Við mat á hæfi viðkomandi skal höfð hliðsjón af eftirfarandi:
1. Orðspori þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut.
2. Orðspori og reynslu þess sem kemur til með að veita vátryggingafélaginu forstöðu komi til hinna fyrirhuguðu kaupa eða aukningar eignarhlutar.
3. Fjárhagslegu heilbrigði þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut í vátryggingafélaginu, einkum með tilliti til þess reksturs sem vátryggingafélagið hefur með höndum.
4. Hvort eignarhald þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut skapi hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði.
5. Stærð þess hlutar eða atkvæðisréttar sem sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut hyggst fjárfesta í.
6. Hvort ætla megi að eignarhald þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut muni torvelda eftirlit með hlutaðeigandi vátryggingafélagi. Við mat á því skal m.a. horft til fyrri samskipta þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut við Fjármálaeftirlitið eða önnur stjórnvöld, til þess hvort náin tengsl þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut við einstaklinga eða lögaðila geti að mati Fjármálaeftirlitsins hindrað það í eðlilegum eftirlitsaðgerðum og hvort lög og reglur, sem gilda um þann sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut, hindra eðlilegt eftirlit.
7. Hvort ætla megi að eignarhald þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut muni leiða til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka eða geti aukið líkur á að slíkt athæfi verði látið viðgangast innan hlutaðeigandi vátryggingafélags.
8. Hvort sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut hefur gefið Fjármálaeftirlitinu umbeðnar upplýsingar ásamt fylgigögnum og þær upplýsingar hafa reynst réttar.
62. gr. Aðili sendir ekki tilkynningu.
Nú tilkynnir aðili sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut Fjármálaeftirlitinu ekki um fyrirhuguð kaup sín eða aukningu á virkum eignarhlut, þrátt fyrir að honum sé það skylt skv. 58. gr., og fellur þá niður atkvæðisréttur sem fylgir þeim hlutum sem eru umfram það sem hann átti áður. Getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að hlutaðeigandi sendi inn tilkynningu í samræmi við ákvæði 58. gr. Um málsmeðferð fer að öðru leyti skv. 59.–61. gr. Geri Fjármálaeftirlitið ekki athugasemdir við að viðkomandi aðili eignist eða auki við virkan eignarhlut öðlast hann atkvæðisrétt í samræmi við eignarhlut sinn. Berist tilkynning hlutaðeigandi ekki innan fjögurra vikna frá því að Fjármálaeftirlitið krafðist tilkynningar getur það krafist þess að hann selji þann hluta eignarhlutarins sem er umfram það sem hann átti áður. Skal Fjármálaeftirlitið setja tímamörk í því skyni og skal fresturinn ekki vera skemmri en tveir mánuðir. Sé hlutur ekki seldur á tilskildum tíma er Fjármálaeftirlitinu heimilt að beita aðila dagsektum samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
63. gr. Óhæfur aðili eignast hlut.
Eignist aðili eða auki við virkan eignarhlut þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi komist að þeirri niðurstöðu að hann sé ekki hæfur til að eignast eða auka við hlut sinn fellur niður atkvæðisréttur aðila umfram lágmark þess hlutar sem telst virkur eignarhlutur. Viðkomandi aðila er skylt að selja þann hluta eignarhlutarins sem er umfram leyfileg mörk og niðurstaða Fjármálaeftirlitsins tók til. Skal Fjármálaeftirlitið setja tímamörk í því skyni og skal fresturinn ekki vera skemmri en tveir mánuðir. Sé hlutur ekki seldur á tilskildum tíma er Fjármálaeftirlitinu heimilt að beita aðila dagsektum samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Aðili öðlast fyrri atkvæðisrétt að sölu lokinni.
64. gr. Tilkynning eiganda um aðilaskipti.
Hyggist eigandi virks eignarhlutar draga svo úr hlutafjáreign sinni eða atkvæðisrétti að hann eigi ekki virkan eignarhlut eftir það skal hann tilkynna það Fjármálaeftirlitinu fyrir fram og einnig hver eignarhlutur hans muni verða. Fari eignarhluturinn niður fyrir 20%, 30%, 50% eða svo mikið að vátryggingafélagið hættir að vera dótturfélag hlutaðeigandi skal það einnig tilkynnt. Sama á við ef hlutfallslegur eignarhlutur eða atkvæðisréttur rýrnar vegna hlutafjáraukningar.
65. gr. Tilkynning vátryggingafélags um aðilaskipti.
Þegar tilkynning hefur borist vátryggingafélagi um aðilaskipti að hlutabréfum í félaginu sem valda því að hlutafjáreign fer yfir eða undir þau mörk sem tilgreind eru í 58. gr. skal stjórn þess tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það án ástæðulauss dráttar.
66. gr. Upplýsingaskylda og viðvarandi mat á hæfi eiganda virkra eignarhluta.
Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem eiga eða fara með eignarhlut í vátryggingafélagi í því skyni að meta hvort þeir teljast hæfir til að fara með virkan eignarhlut samkvæmt þessum kafla. Fjármálaeftirlitið getur krafist sömu upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem hafa selt eignarhlut eða haft milligöngu um viðskipti með eignarhlut. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.
Eigi sjaldnar en einu sinni á ári skal vátryggingafélag tilkynna Fjármálaeftirlitinu um þá hluthafa sem eiga virkan eignarhlut í því og um hlutafjáreign hvers þeirra.
Teljist einstaklingur eða lögaðili ekki lengur hæfur til þess að fara með virkan eignarhlut er heimilt að veita hæfilegan frest til úrbóta sé það unnt að mati Fjármálaeftirlitsins. Verði úrbótum ekki við komið eða líði frestur sem Fjármálaeftirlitið hefur veitt skv. 1. málsl. er aðilanum skylt að selja þann eignarhlut, sbr. 63. gr.
67. gr. Raunverulegur eigandi.
Leiki vafi á því að mati Fjármálaeftirlitsins hver sé, eða verði, raunverulegur eigandi virks eignarhlutar skal það tilkynna viðkomandi aðila og vátryggingafélaginu að það telji viðkomandi aðila ekki hæfan til þess að fara með eignarhlutinn.
68. gr. Ráðstafanir tengdar virkum eignarhlut.
Sé aðila sem á virkan eignarhlut í vátryggingafélagi svo farið eða fari hann þannig með hlut sinn að það skaði heilbrigðan og traustan rekstur þess að mati Fjármálaeftirlitsins skal það grípa til viðeigandi ráðstafana til að varna því. Viðeigandi ráðstafanir geta m.a. falist í að ákveða að hlut fylgi ekki atkvæðisréttur, að leggja fyrir hlutaðeigandi vátryggingafélag að grípa til ráðstafana sem draga úr skaðlegum áhrifum hluthafans, svo sem lögbanns, eða að leggja fyrir stjórn hlutaðeigandi vátryggingafélags að boða til hluthafafundar þar sem háttsemi hluthafans skal tekin fyrir. Skal fulltrúa Fjármálaeftirlitsins heimilt að sækja fundinn og taka þar til máls.
Við mat á því hvort gripið skuli til ráðstafana skv. 1. mgr. skal m.a. höfð hliðsjón af þeim atriðum sem greinir í 61. gr. Að auki skal höfð sérstök hliðsjón af því hvort staða eða háttsemi viðkomandi aðila sé til þess fallin að rýra traust almennings á hlutaðeigandi vátryggingafélagi verði hún opinber.
Fjármálaeftirlitinu er heimilt að grípa í senn til fleiri en einnar af ráðstöfunum skv. 1. mgr.
Telji Fjármálaeftirlitið að náin tengsl hindri eftirlit með starfsemi vátryggingafélags skal það fara fram á að tengslin verði strax rofin, nema það telji aðrar ráðstafanir fullnægjandi.
69. gr. Hlutabréf. Lánveitingar.
Vátryggingafélag má sjálft aldrei eiga meira en 10% eigin hlutafjár. Atkvæðisréttur fylgir ekki hlutabréfum sem vátryggingafélag á sjálft.
Vátryggingafélagi er óheimilt að veita lán sem tryggð eru með veði í hlutabréfum eða skuldabréfum útgefnum af því. Sama gildir um aðra samninga sé undirliggjandi áhætta á eigin bréf.
Megi greiða nýja hluti með skuldajöfnuði eða á annan hátt en með reiðufé við hækkun hlutafjár skulu reglur þar að lútandi koma fram í ákvörðun hluthafafundar um hækkunina og gildir ákvæði 14. gr. eftir því sem við getur átt. Ákvörðun um að innborgun nýrra hluta geti farið fram með skuldajöfnuði skal hljóta samþykki Fjármálaeftirlitsins.
Allar ákvarðanir um lækkun hlutafjár í vátryggingafélagi skulu tilkynntar fyrir fram til Fjármálaeftirlitsins. [Fjármálaeftirlitið skal samþykkja fyrir fram ákvarðanir sem hafa í för með sér lækkun á gjaldþolsliðum vátryggingafélags, þ.m.t. endurkaupaáætlanir á eigin hlutabréfum.]1)
1)L. 36/2018, 10. gr.
XI. kafli. Endurskoðun.
70. gr. Endurskoðun.
Ársreikningur vátryggingafélags skal endurskoðaður af endurskoðanda. Aðalfundur kýs endurskoðendur eða endurskoðunarfélag í samræmi við samþykktir félags. Sé vátryggingafélag hluti félagasamstæðu skal endurskoðandi vera sameiginlegur fyrir samstæðuna í heild. Ef um er að ræða félag af því tagi sem getið er í 2. mgr. 2. gr. getur Fjármálaeftirlitið gert kröfu um að a.m.k. einn endurskoðandi sé sameiginlegur fyrir öll félögin. …1)
…1)
Endurskoðendur félags eiga rétt á að sitja stjórnar- og félagsfundi í vátryggingafélagi og er þeim skylt að mæta á aðalfundi.
…2)
1)L. 38/2022, 164. gr. 2)L. 94/2019, 56. gr.
71. gr. Upplýsinga- og tilkynningarskylda endurskoðanda.
Endurskoðanda vátryggingafélags er skylt að veita Fjármálaeftirlitinu þær upplýsingar um framkvæmd og niðurstöður endurskoðunar sem það óskar.
Endurskoðanda er einnig skylt að gera Fjármálaeftirlitinu tafarlaust viðvart fái hann vitneskju um eftirfarandi atriði eða ákvarðanir í starfi sínu fyrir félagið eða þá sem vátryggingafélagið er í nánum tengslum við:
a. veruleg brot á þeirri löggjöf sem gildir um starfsemi félagsins,
b. málefni sem kunna að hafa úrslitaþýðingu fyrir áframhaldandi starfsemi félagsins,
c. neitun eða fyrirvara um að árita ársreikning félagsins,
d. að gjaldþolskröfu eða kröfu um lágmarksfjármagn er ekki fullnægt.
Endurskoðanda er jafnframt skylt að veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar skv. 1. og 2. mgr. vegna aðila sem vátryggingafélagið er í nánum tengslum við og endurskoðandi hefur orðið áskynja í störfum sínum.
Upplýsingar sem endurskoðandi veitir Fjármálaeftirlitinu samkvæmt ákvæðum þessarar greinar teljast ekki brot á lögbundinni eða samningsbundinni þagnarskyldu.
XII. kafli. Rekstur líftrygginga- og skaðatryggingastarfsemi.
72. gr. Mörk líftryggingafélaga og skaðatryggingafélaga.
Líftryggingastarfsemi má ekki reka með skaðatryggingastarfsemi. Þó má veita líftryggingafélagi starfsleyfi í slysa- og sjúkratryggingum. Einnig má veita skaðatryggingafélagi sem eingöngu er með starfsemi í slysa- og sjúkratryggingum starfsleyfi í líftryggingum sem telst þá líftryggingafélag samkvæmt þessum lögum. Gæta skal þess að rekstur líf- og skaðatryggingastarfsemi sé aðskilinn.
Hafi skaðatryggingafélag fjárhagsleg, viðskiptaleg eða stjórnunarleg tengsl við líftryggingafélag skal gæta þess að fjárhagur vátryggingafélaganna raskist ekki vegna samninga á milli félaganna eða annarra samninga sem gætu haft áhrif á skiptingu útgjalda og tekna á milli þeirra.
73. gr. Aðskilnaður líf- og skaðatryggingastarfsemi.
Aðskilnaði líf- og skaðatryggingastarfsemi skv. 72. gr. skal haga þannig að líftryggingastarfsemi sé haldið aðskilinni frá skaðatryggingastarfsemi svo að hagsmunir vátryggingartaka skarist ekki. Hagnaður af líftryggingastarfsemi skal nýtast líftryggingartökum eins og félagið væri eingöngu með starfsemi í líftryggingum.
Til viðbótar við útreikning gjaldþolskröfu skv. 97. gr. og á lágmarksfjármagni skv. 112. gr. skal vátryggingafélag með heimild til starfsemi í líftryggingum og skaðatryggingum skv. 1. mgr. 72. gr. reikna eftirfarandi:
1. Ígildi lágmarksfjármagns, reiknað eingöngu út frá þeim hluta starfseminnar sem telst til líftrygginga.
2. Ígildi lágmarksfjármagns, reiknað eingöngu út frá þeim hluta starfseminnar sem telst til skaðatrygginga.
Ekki má mæta ígildi lágmarksfjármagns vegna líftryggingastarfsemi skv. 1. tölul. 2. mgr. með skaðatryggingastarfsemi og öfugt.
Sé lágmarkskröfum skv. 2. mgr. fullnægt má nota hvaða viðurkennda gjaldþolsliði sem er til að mæta gjaldþolskröfu skv. 97. gr. Tilkynna skal Fjármálaeftirlitinu um slíka ráðstöfun.
Við gerð ársreiknings og annarra uppgjöra skal þess gætt að niðurstöður líftryggingastarfsemi annars vegar og skaðatryggingastarfsemi hins vegar séu aðskildar. Öllum tekjum, sér í lagi iðgjöldum, greiðslum frá endurtryggjendum og fjárfestingartekjum skal skipt eftir uppruna. Einnig skal skipta útgjöldum, sér í lagi tjóna- og bótagreiðslum, hækkun á vátryggingaskuld, endurtryggingaiðgjöldum og rekstrarkostnaði eftir uppruna. Teljist liðir sameiginlegir með báðum þáttum starfseminnar skal þeim skipt með uppskiptingaraðferð sem Fjármálaeftirlitið samþykkir.
Vátryggingafélög skulu á grundvelli uppgjörsins gera grein fyrir hvernig viðurkenndir kjarnagjaldþolsliðir mæta ígildi lágmarksfjármagns í líftryggingastarfsemi annars vegar og skaðatryggingastarfsemi hins vegar skv. 2. mgr., sbr. XV. kafla um flokkun gjaldþolsliða.
Dugi viðurkenndir eiginfjárliðir ekki til að mæta ígildi lágmarksfjármagns í öðrum þætti starfseminnar í samræmi við 3. mgr. skulu ákvæði XIX. kafla um sérstakar ráðstafanir gilda um þann þátt starfseminnar óháð niðurstöðu í hinum þætti starfseminnar. Í þeim tilgangi er unnt að veita undanþágu frá 3. mgr. sem felur í sér heimild til að færa kjarnagjaldþolsliði frá einum þætti starfseminnar til annars.
XIII. kafli. Mat á efnahagsreikningi.
74. gr. Mat á eignum og skuldbindingum.
Eignir og skuldbindingar vátryggingafélags skulu metnar þannig í mati á gjaldþolsstöðu að virði þess endurspegli verð sem aðilar sem eru upplýstir og fúsir til viðskipta mundu komast að samkomulagi um í viðskiptum ótengdra aðila.
Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um samstæður.
Ráðherra skal setja reglugerð1) sem tilgreinir nánar þær aðferðir sem nota skal við mat á eignum og skuldbindingum vátryggingafélags og samstæðna.
1)Rg. 55/2022.
XIV. kafli. Vátryggingaskuld.
75. gr. Almenn ákvæði um fjárhagsskuldbindingar vegna vátryggingarsamninga.
Vátryggingafélag skal meta skuldbindingar sínar vegna gerðra vátryggingarsamninga. Slík fjárskuldbinding nefnist vátryggingaskuld.
Vátryggingaskuld skal á hverjum tíma vera sú fjárhæð sem vátryggingafélag þarf að greiða ef vátryggingaskuldbinding þess væri flutt til annars vátryggingafélags með skömmum fyrirvara.
Mat vátryggingaskuldar skal styðjast við og vera í samræmi við markaðsupplýsingar ásamt tiltækum upplýsingum um vátryggingaráhættu.
Vátryggingaskuld skal metin með varfærni og með áreiðanleika og hlutlægni að leiðarljósi.
76. gr. Útreikningur á vátryggingaskuld.
Vátryggingaskuld skal vera samtala besta mats á skuldbindingum og áhættuálagi.
Besta mat skuldbindinga er meðaltal framtíðarfjárstreymis vegið með líkindum að teknu tilliti til áhrifa tímasetninga greiðslna með viðeigandi áhættulausum vaxtaferli.
Útreikningur á besta mati skuldbindinga skal vera byggður á nýjum og áreiðanlegum upplýsingum, raunsæjum forsendum og viðeigandi tryggingastærðfræðilegum og tölfræðilegum aðferðum.
Áætlun um fjárstreymi sem notuð er við útreikning á besta mati skuldbindinga skal taka mið af öllum inn- og útborgunum sem leiðir af uppgjöri skuldbindinga vegna vátryggingarsamninga.
Besta mat vátryggingaskuldar skal reikna án endurheimtanlegra fjárhæða vegna endurtryggingarsamninga og samninga við félög með sérstakan tilgang. Áhrif slíkra samninga skal reikna sérstaklega skv. 82. gr.
Áhættuálag er sú fjárhæð sem ásamt besta mati er ætlað að tryggja að vátryggingaskuld samsvari þeirri fjárhæð sem gera má ráð fyrir að önnur vátryggingafélög áskilji til þess að taka að sér og standa við þær skuldbindingar sem vátryggingaskuld félagsins er ætlað að mæta.
Vátryggingafélag skal meta besta mat og áhættuálag skuldbindinga hvort í sínu lagi.
Þegar líkja má eftir vátryggingaskuldbindingum sem vátryggingaskuld er ætlað að mæta með fjármálagerningum sem hafa áreiðanlegt markaðsverð skal ákveða vátryggingaskuld fyrir það fjárstreymi á grundvelli markaðsverðs þessara fjármálagerninga. Í slíkum tilfellum þarf ekki að aðgreina besta mat og áhættuálag í útreikningi vátryggingaskuldar.
Áhættuálag skal reiknað sem fjármagnskostnaður við að leggja til eigið fé til jafns við þá gjaldþolskröfu sem nauðsynleg er til að standa undir vátryggingaskuldbindingum á uppgjörstíma þeirra.
Vextir sem nota skal við mat á fjármagnskostnaði við að leggja til viðurkennda gjaldþolsliði til að mæta fjárhæð skv. 6. mgr. skulu vera þeir sömu fyrir öll vátryggingafélög.
77. gr. Útreikningur á áhættulausum vaxtaferli.
Við ákvörðun á áhættulausum vaxtaferli sem vísað er til í 2. mgr. 76. gr. til tiltekins tíma skal taka mið af upplýsingum um viðeigandi fjármálagerninga með gjalddaga á þeim tiltekna tíma á djúpum, virkum og gagnsæjum markaði. Þegar slíkar upplýsingar eru ekki fyrir hendi skal ákvarða áhættulausan vaxtaferil með brúun eða framreikningi.
Sá hluti vaxtaferilsins sem er framreiknaður skal byggjast á upplýsingum fram að síðasta gjalddaga þar sem á markaði er dýpt, seljanleiki og gagnsæi. Þann vaxtaferil skal framreikna að endanlegum langtímavöxtum.
78. gr. Upplýsingar vegna mats á vátryggingaskuld.
[[Seðlabanki Íslands]1) setur reglur2) þar sem fram koma upplýsingar um áhættulausan vaxtaferil fyrir viðeigandi gjaldmiðla til að reikna besta mat vátryggingaskuldar vegna ársfjórðungslegra gagnaskila. Við setningu reglnanna er …3) heimilt að vísa til birtingar á framkvæmdarreglugerðum sem innihalda upplýsingarnar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins á ensku.
Fjármálaeftirlitið birtir upplýsingar skv. 1. mgr. á vef sínum.]4)
1)L. 91/2019, 120. gr. 2)Rgl. 480/2019. Rgl. 767/2019. Rgl. 1363/2019. Rgl. 322/2020. Rgl. 860/2020. Rgl. 964/2020. Rgl. 1501/2021. Rgl. 1500/2022. Rgl. 388/2023. Rgl. 1440/2023. 3)L. 91/2019, 121. gr. 4)L. 26/2019, 1. gr.
79. gr. Önnur atriði varðandi mat á vátryggingaskuld.
Auk þeirra atriða sem getið er í 76. gr. skal vátryggingafélag taka mið af eftirfarandi við mat vátryggingaskuldar:
1. Öllum útgjöldum sem á það falla vegna umsýslu við vátryggingaskuldbindingar.
2. Verðbólgu, þ.m.t. breytingum á uppgjörskostnaði og tjónagreiðslum.
3. Öllum greiðslum til vátryggingartaka og rétthafa, þ.m.t. valkvæðum bónusgreiðslum, sem vátryggingafélag gerir ráð fyrir að inna af hendi hvort sem þær eru tryggðar með samningsákvæðum eða ekki.
80. gr. Mat á fjárhagslegri ábyrgð og valkvæðum ákvæðum í vátryggingarsamningum.
Við mat á vátryggingaskuld skal taka mið af virði fjárhagslegrar ábyrgðar og valkvæðra ákvæða í vátryggingarsamningum.
Mat á líkindum þess að vátryggingartakar nýti valkvæð ákvæði, þ.m.t. um uppsögn og endurkaup samninga, skal vera raunsætt og byggt á reynslu og traustum upplýsingum. Matið skal einnig taka mið af áhrifum sem hugsanlegar breytingar á aðstæðum, fjárhagslegum eða öðrum, kunna að hafa á nýtingu valkvæðra ákvæða.
81. gr. Flokkun skuldbindinga.
Við útreikning á vátryggingaskuld skal vátryggingafélag aðgreina vátryggingaskuldbindingar sínar í einsleita áhættuflokka.
82. gr. Kröfur vegna samninga við endurtryggjendur og félög með sérstakan tilgang.
Mat vátryggingafélags á kröfum vegna samninga við endurtryggjendur og félög með sérstakan tilgang skal vera í samræmi við ákvæði 75.–81. gr.
Við matið skal taka mið af þeim tíma sem líður frá því að krafa stofnast til greiðslu hennar.
Endanlegt mat skal reiknað með hliðsjón af hugsanlegu tapi vegna vanefnda mótaðila. Matið byggist á líkindum þess að greiðslufall verði hjá mótaðila og væntu tapi á endurkröfu sem slíkt hefði í för með sér.
83. gr. Áreiðanleiki upplýsinga og nálgun við mat vátryggingaskuldar.
Vátryggingafélag skal hafa innri ferla og verklag til að tryggja að gögn sem notuð eru við mat vátryggingaskuldar séu viðeigandi, heildstæð og nákvæm.
Ef sérstakar aðstæður verða þess valdandi að vátryggingafélag hefur ekki fullnægjandi gögn til að beita áreiðanlegum tryggingastærðfræðilegum aðferðum á hluta skuldbindinga sinna vegna vátrygginga eða kröfur vegna endurtryggingarsamninga eða samninga við félög með sérstakan tilgang skal því heimilt að nota nálgunaraðferðir við matið, þ.m.t. mat hvers einstaks tjónsatburðar í besta mati vátryggingaskuldar.
84. gr. Áhrif reynslu á útreikninga.
Vátryggingafélag skal hafa verkferla og aðferðir sem tryggja að besta mat vátryggingaskuldar, og forsendur þeirra útreikninga sem notaðir eru við matið, sé reglulega yfirfarið og borið saman við reynslu.
Sé kerfisbundinn munur á besta mati á vátryggingaskuld og reynslu vátryggingafélags skal gera viðeigandi breytingar á þeim tryggingastærðfræðilegu aðferðum sem notaðar eru og, ef við á, þeim forsendum sem lagðar eru til grundvallar matinu.
85. gr. Eftirlit með vátryggingaskuld.
Vátryggingafélag skal geta sýnt Fjármálaeftirlitinu fram á að fjárhæð vátryggingaskuldar þess sé hæfilega ákvörðuð og að aðferðir við ákvörðun hennar séu nothæfar og viðeigandi og að þau tölfræðilegu gögn sem við er stuðst séu fullnægjandi.
86. gr. Hækkun vátryggingaskuldar.
Uppfylli mat vátryggingafélags á vátryggingaskuld þess ekki ákvæði 75.–84. gr. getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að það hækki vátryggingaskuldina svo að skilyrðin verði uppfyllt.
87. gr. Reglugerð.
Ráðherra setur reglugerð1) sem útfærir eftirfarandi þætti nánar:
1. Tölfræðilegar og tryggingastærðfræðilegar aðferðir til að reikna besta mat í samræmi við 2. mgr. 76. gr.
2. [Aðferðir við að reikna áhættulausan vaxtaferil til núvirðingar á besta mati vátryggingaskuldar skv. 2. mgr. 76. gr., þ.m.t. skilyrði þess að nota aðlögun á áhættulausum vaxtaferli vegna samræmingar, útreikninga á aðlögun vegna samræmingar og aðlögun á áhættulausum vaxtaferli vegna óstöðugleika.2)]3)
3. Við hvaða aðstæður þurfi ekki að reikna besta mat og áhættuálag hvort í sínu lagi og hvaða aðferðir skuli notaðar í þeim tilvikum.
4. Aðferðir og forsendur sem notaðar eru í útreikningi áhættuálags, þar á meðal hvaða viðurkenndu gjaldþolsliðir geta mætt vátryggingaskuldbindingum og ákvörðun vaxta við útreikning fjármagnskostnaðar.
5. Vátryggingagreinar sem skuldbindingum er skipt í við útreikning vátryggingaskuldar skv. 81. gr.
6. Staðla sem vátryggingafélag þarf að fylgja til þess að gögn sem eru notuð við útreikning vátryggingaskuldar séu viðeigandi, heildstæð og nákvæm og þær sérstöku aðstæður sem gera að verkum að leyfilegt er að nota nálganir, svo sem mat hvers einstaks tjónstilviks.
7. Aðferðir við útreikning á mótaðilaáhættu í mati á kröfum á endurtryggjendur og félög með sérstakan tilgang skv. 82. gr.
8. Þegar nauðsyn krefur, einfaldari aðferðir við útreikning vátryggingaskuldar, sem tryggja að tryggingastærðfræðilegar og tölfræðilegar aðferðir skv. 1. og 4. tölul. séu í samræmi við eðli, stærð og margbreytileika áhættunnar sem vátryggingafélög bera.
[9. Málsmeðferð sem fylgja skal við samþykki á umsókn um aðlögun vegna samræmingar.]3)
1)Rg. 55/2022. 2)Rg. 1077/2017. 3)L. 26/2019, 2. gr.
XV. kafli. Gjaldþol.
88. gr. Gjaldþol.
Gjaldþol vátryggingafélags er samtala kjarnagjaldþols, sbr. 89. gr., og stuðningsgjaldþols, sbr. 90. gr.
89. gr. Kjarnagjaldþol.
Kjarnagjaldþol er annars vegar sá hluti eigna sem er umfram samtölu skuldbindinga skv. XIII. kafla og vátryggingaskuldar skv. XIV. kafla og hins vegar víkjandi skuldir.
Frá umframsamtölu skv. 1. mgr. dregst eigin hlutafjáreign vátryggingafélagsins.
90. gr. Stuðningsgjaldþol.
Til stuðningsgjaldþols teljast liðir, aðrir en kjarnagjaldþolsliðir, sem nýst geta til að mæta tapi.
Eftirtaldir liðir geta talist til stuðningsgjaldþols fullnægi þeir ekki kröfum um að teljast til kjarnagjaldþols:
a. óinnborgað hlutafé,
b. loforð um lánveitingu og ábyrgðir,
c. aðrar lagalega bindandi kröfur sem eru í eigu vátryggingafélags.
Hafi stuðningsgjaldþolsliður verið greiddur eða innkallaður telst hann til eignar og er þá ekki lengur hluti stuðningsgjaldþols félagsins.
Fjárhæð stuðningsgjaldþolsliðar er háð samþykki Fjármálaeftirlitsins.
91. gr. Flokkun gjaldþols og einkenni.
Gjaldþol flokkast í þrjá gjaldþolsþætti. Flokkunin er háð því hvort um kjarnagjaldþolsliði eða stuðningsgjaldþolsliði er að ræða og að hvaða marki þeir búa yfir eftirtöldum eiginleikum:
1. Gjaldþolsliðurinn er tiltækur eða hægt er að innkalla hann til að mæta tapi að fullu, hvort sem er vegna áframhaldandi starfsemi eða vegna slitameðferðar, þ.e. stöðugt aðgengi.
2. Við slitameðferð er unnt að nýta heildarfjárhæð gjaldþolsliðarins til að mæta tapi og liðurinn verður ekki greiddur til baka fyrr en öllum öðrum skuldbindingum, þar á meðal skuldbindingum gagnvart vátryggingartökum og vátryggðum vegna vátryggingarsamninga, hefur verið mætt.
Við mat á því hvort gjaldþolsliðir hafi eða muni hafa einkenni skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. skal taka tillit til gildistíma og þá sér í lagi hvort gjaldþolsliðurinn sé afmarkaður við tiltekna lokadagsetningu. Hafi gjaldþolsliður afmarkaðan gildistíma skal litið til þess hvort gildistími hans sé í samræmi við gildistíma vátryggingaskuldbindinga. Auk þess skal taka til skoðunar hvort gjaldþolsliðurinn hafi:
a. kröfur eða hvata til að innleysa nafnverðsfjárhæð,
b. skuldbindandi afgjöld,
c. aðrar kvaðir.
92. gr. Meginskilyrði flokkunar í gjaldþolsþætti.
Kjarnagjaldþolsliðir flokkast í gjaldþolsþátt 1 þegar þeir hafa í meginatriðum einkenni skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 91. gr. að teknu tilliti til þeirra eiginleika sem tilgreindir eru í 2. mgr. 91. gr.
Kjarnagjaldþolsliðir flokkast í gjaldþolsþátt 2 þegar þeir hafa í meginatriðum einkenni skv. 2. tölul. 1. mgr. 91. gr. að teknu tilliti til þeirra eiginleika sem nefndir eru í 2. mgr. 91. gr.
Stuðningsgjaldþolsliðir flokkast í gjaldþolsþátt 2 þegar þeir hafa í meginatriðum einkenni skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 91. gr. að teknu tilliti til þeirra eiginleika sem nefndir eru í 2. mgr. 91. gr.
Allir stuðningsgjaldþolsliðir sem falla ekki undir 3. mgr. teljast til gjaldþolsþáttar 3.
Að auki skal eftirfarandi gilda um flokkun gjaldþols:
1. Óráðstöfuð ágóðaskuld líftryggingafélags sem telst til eigin fjár skal flokkast í gjaldþolsþátt 1.
2. Loforð um lánveitingu og ábyrgðir sem eru í vörslu óháðs vörsluaðila til hags fyrir kröfuhafa vátryggingakrafna og sem gefnar eru út af viðskiptabanka, sparisjóði eða lánafyrirtæki samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki flokkast í gjaldþolsþátt 2.
93. gr. Flokkun í gjaldþolsþætti.
Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að vátryggingafélög flokki gjaldþolsliði skv. 92. gr. Í þeim tilgangi skal vátryggingafélag þar sem við á vísa til lista af gjaldþolsliðum sem tilgreindir eru í reglugerð sem ráðherra setur. Ef gjaldþolsliður er ekki á þeim lista skal vátryggingafélag meta hann og flokka í samræmi við 92. gr. Slík flokkun er háð samþykki Fjármálaeftirlitsins.
94. gr. Mörk gjaldþolsþátta.
Hæfir gjaldþolsliðir til að mæta gjaldþolskröfu skv. 96. gr. skulu vera samtala gjaldþolsþátta 1–3.
Hæfir gjaldþolsliðir til að mæta lágmarksfjármagni skv. 111. gr. skulu vera samtala gjaldþolsþáttar 1 og 2.
95. gr. Reglugerð.
Ráðherra setur reglugerð1) um eftirfarandi þætti:
1. Viðmið sem Fjármálaeftirlitið leggur til grundvallar við mat á hvort heimilt er að nota stuðningsgjaldþolslið í samræmi við 90. gr.
2. Meðhöndlun eignarhlutar í fjármálafyrirtækjum við ákvörðun gjaldþols, hvort sem um er að ræða beinan eignarhlut eða víkjandi kröfur á fjármálafyrirtæki.
3. Ferli sem Fjármálaeftirlitið skal fylgja við afgreiðslu umsókna um notkun gjaldþolsliða.
4. Lista yfir viðurkennda gjaldþolsliði sem uppfylla skilyrði 92. gr. þar sem forsendur flokkunar koma fram fyrir hvern viðurkenndan gjaldþolslið.
5. Aðferðir sem Fjármálaeftirlitið skal nota til að samþykkja flokkun á gjaldþolsliðum sem ekki eru á listanum skv. 4. tölul.
6. Sértæka aðlögun á mörkum sem ætlað er að endurspegla takmarkaða möguleika á færslu gjaldþolsliða sem eingöngu er heimilt að nota til að mæta tapi sem stafar af tilgreindum hluta skuldbindinga félagsins eða vegna tiltekinnar áhættu, þ.e. á vörðum sjóðum.
7. Takmarkanir á notkun gjaldþolsþátta 2 og 3 til að mæta gjaldþolskröfu og lágmarksfjármagni.
1)Rg. 55/2022.
XVI. kafli. Gjaldþolskrafa.
96. gr. Gjaldþolskrafa. Almenn ákvæði.
Vátryggingafélag skal eiga hæfa gjaldþolsliði til að mæta gjaldþolskröfu. Gjaldþolskrafa skal annaðhvort reiknuð eftir staðalreglu eða eigin líkani samkvæmt ákvæðum þessa kafla.
97. gr. Útreikningur á gjaldþolskröfu.
Við útreikning gjaldþolskröfu skal miða við áframhaldandi starfsemi félagsins. Gjaldþolskrafa skal vera mælikvarði yfir alla mælanlega áhættu vátryggingafélags. Gjaldþolskrafan skal taka til þegar gerðra samninga sem og væntanlegrar útgáfu nýrra vátryggingarsamninga næstu 12 mánuði. Í útreikningum vegna núverandi starfsemi skal gjaldþolskrafa aðeins taka mið af óvæntu tapi. Gjaldþolskrafa skal vera í samræmi við áhættuvirði kjarnagjaldþols vátryggingafélags miðað við 99,5% öryggisstig til eins árs.
Gjaldþolskrafa skal hið minnsta taka til eftirfarandi áhættuþátta:
a. skaðatryggingaráhættu,
b. líftryggingaráhættu,
c. heilsutryggingaráhættu,
d. markaðsáhættu,
e. kröfuáhættu,
f. rekstraráhættu.
Rekstraráhætta skv. f-lið 2. mgr. skal fela í sér lagalega áhættu og undanskilja áhættu vegna stefnumótunar og orðspors.
Við útreikning á gjaldsþolskröfu skal taka mið af áhrifum áhættuvarna að því tilskildu að kröfuáhætta og önnur áhætta sem rekja má til varnanna komi fram í útreikningi gjaldþolskröfu með viðeigandi hætti.
98. gr. Tíðni útreiknings gjaldþolskröfu.
Vátryggingafélag skal reikna gjaldþolskröfu eigi sjaldnar en einu sinni á ári og tilkynna Fjármálaeftirlitinu um niðurstöðu. Viðurkenndir gjaldþolsliðir vátryggingafélags skulu nema hið minnsta síðustu tilkynntri gjaldþolskröfu. Vátryggingafélag skal fylgjast með stöðu viðurkenndra gjaldþolsliða og gjaldþolskröfu. Breytist áhættusnið vátryggingafélags verulega frá forsendum sem byggt var á við útreikning á gjaldþolskröfu sem síðast var tilkynnt ber félaginu að endurreikna gjaldþolskröfu án tafar og tilkynna til Fjármálaeftirlitsins.
Hafi Fjármálaeftirlitið vísbendingar um að áhættusnið vátryggingafélags hafi breyst verulega frá þeim degi þegar gjaldþolskrafa var síðast tilkynnt getur það gert viðkomandi félagi að endurreikna gjaldþolskröfu.
99. gr. Uppbygging staðalreglu.
Gjaldþolskrafa reiknuð á grundvelli staðalreglu er samtala eftirtalinna liða:
a. grunngjaldþolskröfu skv. 100. gr.,
b. gjaldþolskröfu vegna rekstraráhættu,
c. aðlögunar vegna þess hluta vátryggingaskuldar sem nota má til að mæta tapi og frestuðum sköttum.
100. gr. Samsetning grunngjaldþolskröfu.
Reikna skal grunngjaldþolskröfu á grundvelli áhættueininga sem ná hið minnsta til skaðatryggingaráhættu, líftryggingaráhættu, heilsutryggingaráhættu, markaðsáhættu og mótaðilaáhættu.
Gjaldþolskrafan skal reiknuð sérstaklega fyrir hverja áhættueiningu. Miða skal við 99,5% áhættuvirði yfir eins árs tímabil. Þegar gjaldþolskröfur yfir eins árs tímabil vegna einstakra áhættueininga eru lagðar saman skal taka tillit til fjölþættingaráhrifa.
Að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins getur vátryggingafélag notað stika sem endurspegla áhættusnið þess við útreikning á gjaldþolskröfu vegna vátryggingaráhættu.
101. gr. Samræmdar útreikningsforsendur staðalreglunnar.
[Seðlabanki Íslands]1) gefur út reglur2) um samsvörun lánshæfismats utanaðkomandi lánshæfismatsstofnunar við lánshæfisþrep sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og [lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar].3)
Til að tryggja samræmd skilyrði við notkun staðalreglunnar og til að greiða fyrir útreikningi á markaðsáhættueiningu sem vísað er til í 100. gr., mótaðilaáhættu skv. 100. gr., [heilsutryggingaráhættu skv. 100. gr.],4) áhættuvörnum skv. 4. mgr. 97. gr. og útreikningi á vátryggingaskuld gefur [Seðlabanki Íslands]1) út reglur2) sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og [lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar]3) þar sem eftirfarandi kemur fram:
1. Listi yfir héraðsstjórnir og sveitarstjórnir á EES-svæðinu sem litið skal á sem sambærilega áhættu og viðeigandi ríki hvað varðar sérstaka tekjuöflunarmöguleika og stjórnsýslufyrirkomulag sem minnka áhættu á greiðslufalli.
2. Hlutabréfavísitala sem notuð er vegna samhverfrar aðlögunar við útreikning hlutabréfaáhættu.
3. Ákvæði um tengingu gjaldmiðla við evru til að skýra útreikning gjaldmiðlaáhættu.
[4. Staðalfrávik fyrir iðgjalda- og sjóðsáhættu í tengslum við tilgreindar, landsbundnar ráðstafanir löggjafans sem heimila að greiðslum krafna vegna heilsutryggingaráhættu sé skipt milli vátrygginga- og endurtryggingafélaga.]4)
1)L. 91/2019, 120. gr. 2)Rgl. 1113/2021. Rgl. 1441/2023. 3)L. 36/2018, 5. gr. 4)L. 82/2021, 18. gr.
102. gr. Veruleg frávik frá forsendum staðalreglunnar.
Þegar ekki á við að reikna gjaldþolskröfu með staðalreglunni sökum þess að áhættusnið vátryggingafélags víkur verulega frá þeim forsendum sem liggja að baki staðalreglunni getur Fjármálaeftirlitið gert rökstudda kröfu um að í staðinn fyrir tiltekna stika í staðalreglunni noti félag stika sem eiga sérstaklega við um félagið við útreikning á vátryggingaráhættu, sbr. 3. mgr. 100 gr. Þessir stikar skulu ákvarðaðir þannig að tryggt sé að ákvæði 1. mgr. 97. gr. séu uppfyllt.
103. gr. Reglugerð.
Ráðherra setur reglugerð1) sem tilgreinir nánar eftirfarandi atriði varðandi útreikning á gjaldþolskröfu með staðalreglu:
1. Uppbyggingu staðalreglunnar.
2. Undiráhættueiningar sem eru nauðsynlegar til að útfæra nánar þær áhættueiningar sem tilgreindar eru í 1. mgr. 100. gr. auk þess hvernig staðið skuli að uppfærslu á útreikningi áhættueininga og undiráhættueininga.
3. Aðferðir, forsendur og staðalstika sem notaðir eru við útreikning á hverri áhættueiningu og undiráhættueiningu í grunngjaldþolskröfu.
4. Stika sem lýsa fylgni á milli áhættuþátta og verklag við uppfærslu þeirra.
5. Aðferðir og forsendur sem notaðar eru til að meta breytingar á áhættusniði vátryggingafélags þegar áhættuvarnir eru notaðar og hvaða áhrif það hefur á gjaldþolskröfu.
6. Aðferðir og stika sem notaðir eru til að meta mótaðilaáhættu vegna áhættuskuldbindinga gagnvart viðurkenndum miðlægum mótaðilum.
7. Aðferðir og stika sem notaðir eru við mat á gjaldþolskröfu vegna rekstraráhættu.
8. Aðferðir og aðlaganir sem nota skal til að endurspegla takmarkaða möguleika vátryggingafélags til áhættudreifingar með tilliti til varinna sjóða.
9. Aðferð sem nota skal til að reikna út aðlögun gjaldþolskröfu sem myndast af völdum svigrúms í vátryggingaskuld eða vegna frestaðra skatta til að draga úr tapi.
10. Stika í áhættueiningum staðalreglu vegna líftryggingaráhættu, heilsutryggingaráhættu og skaðatryggingaráhættu sem skipta má út fyrir eigin stika vátryggingafélags skv. 3. mgr. 100. gr.
11. Staðlaðar aðferðir sem vátryggingafélag á að nota til að reikna út eigin stika skv. 10. tölul. og þau skilyrði sem Fjármálaeftirlitið skal setja um að gögn notuð við útreikninga séu fullnægjandi, nákvæm og viðeigandi áður en samþykki um notkun þeirra er gefið.
12. Einfaldaða útreikninga sem nota má á tilteknar áhættueiningar og undiráhættueiningar, auk þeirra skilyrða sem vátryggingafélög, þar á meðal bundin vátryggingafélög, skulu uppfylla til að fá heimild til að nota slíkar einfaldanir.
13. Aðferðir sem notaðar eru við mat á tengdum félögum, sér í lagi þegar gjaldþolskrafa vegna hlutabréfaáhættu sem er undireining markaðsáhættu er reiknuð. Taka skal tillit til líkinda á minna flökti í virði slíkra tengdra félaga sem stafa af stefnumarkandi eðli þessara fjárfestinga og þeirra áhrifa sem vátryggingafélagið getur haft á rekstur hins tengda félags.
14. Hvernig nota eigi mat utanaðkomandi lánshæfismatsstofnunar (ECAI) við útreikning gjaldþolskröfu samkvæmt staðalreglu og hvernig matið er yfirfært á kvarða sem gefur til kynna lánshæfisþrep.
[15. Málsmeðferðarreglur sem fylgja skal við beitingu á umbreytingarráðstöfuninni fyrir undireiningu hlutabréfaáhættu sem byggist á líftíma.]2)
Ráðherra setur reglugerð1) um ferli sem skal fylgja við samþykkt eigin stika vátryggingafélags sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og [lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar].3)
[Seðlabanki Íslands]4) setur reglur, þar sem tilgreind eru mörk eigna sem fela í sér áhættu sem ekki er tekið nægilegt tillit til í staðalreglunni, sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og [lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar].3)
1)Rg. 55/2022. 2)L. 82/2021, 19. gr. 3)L. 36/2018, 5. gr. 4)L. 91/2019, 120. gr.
104. gr. Almenn ákvæði um samþykki eigin alhliða líkana og hlutalíkana.
Við útreikning á gjaldþolskröfu er vátryggingafélagi heimilt að nota að fullu eða að hluta eigin líkön sem samþykkt hafa verið af Fjármálaeftirlitinu.
Vátryggingafélagi er heimilt að nota eigin hlutalíkön í útreikningi á einu eða fleiri eftirfarandi atriða:
a. einni eða fleiri áhættueiningum eða undireiningum grunngjaldþolskröfu,
b. gjaldþolskröfu vegna rekstraráhættu,
c. aðlögun vegna getu vátryggingaskuldar eða frestaðra skatta til að draga úr tapi.
Að auki má nota hlutalíkön fyrir eina eða fleiri af helstu rekstrareiningum félagsins þvert á áhættueiningar.
Fjármálaeftirlitið veitir heimild til þess að nota eigið líkan og skal afgreiða umsókn um það innan sex mánaða frá móttöku fullgildrar umsóknar. Aðeins má samþykkja umsókn vátryggingafélags ef kerfi þess til að greina, mæla, fylgjast með, stýra og skrá áhættu eru viðunandi og eigið líkan stenst kröfur um notkun, tölfræðileg gæði, kvörðun, dreifingu hagnaðar og taps, staðfestingu og skjölun. Ráðherra setur reglugerð sem skilgreinir kröfurnar.
Þrátt fyrir að notkun eigin líkans hafi verið samþykkt getur Fjármálaeftirlitið krafið vátryggingafélag um að áætla gjaldþolskröfu samkvæmt staðalreglunni.
105. gr. Sérstök ákvæði um samþykki eigin hlutalíkana.
Fjármálaeftirlitið skal einungis veita leyfi fyrir hlutalíkani ef það uppfyllir skilyrði 104. gr. auk eftirfarandi skilyrða:
1. Félagið getur rökstutt að umfang líkansins sé takmarkað.
2. Gjaldþolskrafa sem af því leiðir endurspeglar betur áhættu félagsins en staðalregla.
3. Hönnun líkansins er í samræmi við þær meginreglur um gjaldþolskröfu sem settar eru fram í 99.–101. gr. þannig að líkanið sé að fullu samrýmanlegt staðalreglu.
106. gr. Hlutverk stjórnar vegna eigin líkana.
Stjórn vátryggingafélags ákveður hvort umsókn um að nota eigið líkan skv. 104. gr. sé send til Fjármálaeftirlitsins. Sama á við um umsókn til að fá meiri háttar breytingar á líkaninu samþykktar.
Stjórn ber ábyrgð á að innleiða kerfi sem tryggir að eigin líkön virki alltaf með viðunandi hætti.
107. gr. Staðalregla tekin upp að nýju.
Að fengnu samþykki til að nota eigið líkan til útreiknings gjaldþolskröfu skv. 104. gr. getur vátryggingafélag ekki notað staðalreglu aftur til að reikna gjaldþolskröfu, hvorki að hluta né að öllu leyti, nema slíkt sé rökstutt og samþykkt af Fjármálaeftirlitinu.
108. gr. Skilyrði eigin líkans ekki uppfyllt.
Uppfylli vátryggingafélag sem fengið hefur samþykki frá Fjármálaeftirlitinu til að nota eigið líkan ekki skilyrði þar að lútandi skal það án tafar afhenda Fjármálaeftirlitinu áætlun sem sýnir að skilyrðin verði uppfyllt innan hæfilegs tíma eða veita upplýsingar sem sýna fram á að áhrif vegna þessa séu óveruleg.
Takist vátryggingafélagi ekki að uppfylla skilyrði 1. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að krefja það um að reikna út gjaldþolskröfu í samræmi við staðalreglu.
109. gr. Veruleg frávik frá forsendum staðalreglunnar.
Þegar ekki á við að reikna gjaldþolskröfu samkvæmt staðalreglu vegna þess að áhættusnið vátryggingafélags víkur verulega frá forsendum staðalreglu getur Fjármálaeftirlitið með rökstuðningi farið fram á að viðkomandi félag noti eigið líkan til útreiknings á gjaldþolskröfu í heild eða vegna tilgreindra áhættueininga.
110. gr. Reglugerð.
Ráðherra setur reglugerð1) um eftirfarandi:
1. Hvaða skilyrði og prófanir eigin líkönum er ætlað að uppfylla.
2. Hvernig skilyrði og prófanir skv. 1. tölul. eiga við um hlutalíkön í ljósi takmarkaðs umfangs þeirra.
3. Hvernig líkanið sé samrýmanlegt staðalreglunni, þ.e. hvernig niðurstaða þess hluta gjaldþolskröfunnar sem reiknaður er með staðalreglunni og niðurstaða hlutalíkansins eru samþættar í heildargjaldþolskröfu.
4. Ferlið sem Fjármálaeftirlitið skal fylgja við:
a. samþykki fyrir eigin líkönum vátryggingafélags,
b. samþykki fyrir umfangsmiklum breytingum á eigin líkönum vátryggingafélags og breytingum á stefnu félagsins um breytingar á líkani.
1)Rg. 55/2022.
XVII. kafli. Lágmarksfjármagn.
111. gr. Almennt ákvæði um lágmarksfjármagn.
Kjarnagjaldþolsfjárliðir vátryggingafélags skulu að lágmarki nema því lágmarksfjármagni sem ákveðið er skv. 112. gr.
112. gr. Ákvörðun lágmarksfjármagns.
Lágmarksfjármagn vátryggingafélags skal:
1. Samsvara 85% af áhættuvirði kjarnagjaldþolsliða til eins árs.
2. Ekki vera lægra en 25% af gjaldþolskröfu og ekki hærra en 45%. Viðbótargjaldþolskröfu skal bætt við gjaldþolskröfuna áður en framangreind hlutföll eru reiknuð, sé hún til staðar.
[3. Ekki vera lægra en jafnvirði 3,7 milljóna evra í íslenskum krónum hjá skaðatryggingafélagi með starfsleyfi í greinaflokkum skv. 10.–15. tölul. 1. mgr. 20. gr.
4. Ekki vera lægra en jafnvirði 2,5 milljóna evra í íslenskum krónum hjá skaðatryggingafélagi með starfsleyfi í greinaflokkum skv. 1. mgr. 20. gr., öðrum en greinaflokkum skv. 10.–15. tölul.]1)
5. Ekki vera lægra en jafnvirði 3,7 milljóna evra í íslenskum krónum hjá líftryggingafélagi.
6. Ekki vera lægra en jafnvirði 3,6 milljóna evra í íslenskum krónum hjá endurtryggingafélagi.
7. Ekki vera lægra en jafnvirði 1,2 milljóna evra í íslenskum krónum hjá bundnu endurtryggingafélagi.
Vátryggingafélag skal ákvarða lágmarksfjármagn a.m.k. ársfjórðungslega og tilkynna niðurstöðuna til Fjármálaeftirlitsins. Að jafnaði er ekki þörf á að reikna gjaldþolskröfu ársfjórðungslega til að ákvarða mörkin í 2. tölul. 1. mgr. Ráði hlutföllin fjárhæð lágmarksfjármagns skal vátryggingafélag veita Fjármálaeftirlitinu fullnægjandi upplýsingar um ástæður þess.
Ráðherra setur reglugerð2) sem útfærir nánar hvernig lágmarksfjármagn er ákvarðað.
1)L. 82/2021, 20. gr. 2)Rg. 55/2022.
XVIII. kafli. Fjárfestingar.
113. gr. Varfærnisreglan.
Vátryggingafélag skal sjá til þess að eignasamsetning þess sé í samræmi við varfærnisregluna skv. 2.–4. mgr.
Vátryggingafélagi er einungis heimilt að hafa í eignasafni sínu eignir og fjármálagerninga þar sem félagið getur greint, mælt, fylgst með, stjórnað og meðhöndlað og brugðist við áhættu með viðeigandi hætti. Taka skal tillit til heildargjaldþolsþarfar félagsins í samræmi við 1. tölul. 1. mgr. 45. gr. Samsetning eigna vátryggingafélags, einkum þeirra sem mæta lágmarksfjármagni og gjaldþolskröfu, skal vera með þeim hætti að öryggi, gæði, seljanleiki og arðsemi þeirra sé tryggð. Einnig skal staðsetning eigna vera þannig að aðgengi að þeim sé tryggt. Eignir sem notaðar eru til að mæta vátryggingaskuld skulu þar að auki vera í samræmi við eðli og líftíma vátryggingaskuldbindinga. Þeim eignum skal ráðstafað í samræmi við hagsmuni vátryggingartaka og vátryggðra með hliðsjón af skilmálum vátryggingarsamninga. Sé hætta á hagsmunaárekstrum skal vátryggingafélag eða annar aðili sem sér um eignasafn þess ganga úr skugga um að samsetning eigna sé í samræmi við hagsmuni vátryggingartaka og vátryggðra. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda einnig um eignir sem mæta eiga skuldbindingum vegna líftrygginga með fjárfestingaráhættu líftryggingartaka.
Þegar skuldbinding samkvæmt líftryggingarsamningi er með beinum hætti háð verðgildi eininga í verðbréfasjóði samkvæmt skilgreiningu [laga um verðbréfasjóði]1) eða verðgildi eininga í sjóði sem er í vörslu vátryggingafélagsins skal skuldbindingunni mætt með einingum sem samsvara, eins og mögulegt er, þeim einingum sem samningurinn kveður á um eða þegar slíkar einingar eru ekki til með sömu eignum og að baki liggja. Þegar skuldbinding samkvæmt líftryggingarsamningi er með beinum hætti háð gengi hlutabréfa eða annarri viðmiðun en fram kemur í 1. málsl. skal vátryggingaskuld vegna þessarar skuldbindingar mætt, eins og mögulegt er, annaðhvort með einingum sem taldar eru samsvara eignum sem vísað er til í samningnum eða, þegar einingar af því tagi eru ekki fáanlegar, með hæfilega öruggum og seljanlegum eignum sem samsvara eins vel og hægt er því sem samningurinn tekur mið af. Þegar bætur fela í sér ábyrgð á arðsemi fjárfestinga eða eru tryggðar með öðrum hætti skulu eignir sem mæta samsvarandi viðbótarvátryggingaskuld lúta ákvæðum 4. mgr.
Auk ákvæða 2. mgr. gilda ákvæði þessarar málsgreinar um aðrar eignir en þær sem fjallað er um í 3. mgr. Notkun afleiðusamninga er aðeins möguleg svo framarlega sem þeir draga úr áhættu eða eru liður í að auka hagkvæmni fjárfestingarstjórnunar. Eignum sem ekki eru tækar til skráningar á skipulegum [markaði]2) skal haldið innan marka sem ákvarðast af varfærni. Eignum skal dreift með viðeigandi hætti til að forðast að vátryggingafélagið reiði sig um of á tiltekna eign, útgefanda eða hóp fyrirtækja eða landsvæði og óhóflega uppsöfnun áhættu í eignasafninu í heild. Fjárfestingar í eignum útgefnum af sama útgefanda eða af útgefendum sem tilheyra sömu samstæðu skulu ekki fela í sér óhóflega áhættusamþjöppun fyrir vátryggingafélagið.
1)L. 45/2020, 120. gr. 2)L. 115/2021, 148. gr.
114. gr. Reglugerð.
Ráðherra setur reglugerð1) um eftirfarandi:
1. Greiningu, mælingu, eftirlit og stýringu áhættu sem tengist fjárfestingum skv. 113. gr.
2. Greiningu, mælingu, eftirlit og stýringu vegna sérstakrar áhættu sem tilkomin er vegna fjárfestingar í afleiðum og eignum skv. 113. gr.
3. Skilyrði sem fyrirtæki sem gefa út viðskiptasamninga í verðbréfun þurfa að uppfylla svo að vátryggingafélagi sé heimilt að fjárfesta í slíkum samningum sem gefnir eru út eftir 1. janúar 2011, þar á meðal skilyrði sem tryggja að bakhjarl útgefanda eða upphaflegur lánveitandi haldi eftir á hverjum tíma a.m.k. 5% verðmæta í eigin hlut.
4. Skilyrði sem vátryggingafélag sem fjárfestir í viðskiptasamningum skv. 3. tölul. þarf að uppfylla.
5. Við hvaða aðstæður hægt er að leggja á viðbótargjaldþolskröfu ef skilyrði 3. og 4. tölul. eru ekki uppfyllt og hvernig sú viðbótargjaldþolskrafa skuli reiknuð.
1)Rg. 55/2022, sbr. 593/2023.
XIX. kafli. Sérstakar ráðstafanir.
115. gr. Verklagsreglur vegna versnandi fjárhagsstöðu.
Vátryggingafélag skal hafa verklagsreglur sem gera því kleift að greina versnandi fjárhagsstöðu og skal það gera Fjármálaeftirlitinu viðvart án tafar ef hætta er talin á að gjaldþolskröfu eða kröfu um lágmarksfjármagn verði ekki fullnægt.
116. gr. Ráðstafanir vegna ófullnægjandi vátryggingaskuldar.
Fjármálaeftirlitið getur takmarkað eða bannað ráðstöfun vátryggingafélags á fjármunum og eignum þess uppfylli það ekki skilyrði XIV. kafla um vátryggingaskuld. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna eftirlitsstjórnvöldum gistiríkis vátryggingafélagsins, ef við á, um hina fyrirhuguðu ráðstöfun. Fjármálaeftirlitið tilgreinir hvaða eignum vátryggingafélaginu er óheimilt að ráðstafa.
117. gr. Ráðstafanir ef vátryggingafélag fullnægir ekki gjaldþolskröfu.
Fullnægi vátryggingafélag ekki gjaldþolskröfu eða telji það hættu á að slíkt gerist innan þriggja mánaða skal það tilkynna Fjármálaeftirlitinu um stöðuna.
Vátryggingafélagið skal innan tveggja mánaða gera áætlun um endurreisn fjárhags þar sem fram kemur hvenær og með hvaða hætti gjaldþolskröfunni verður fullnægt. Áætlunin skal lögð fyrir Fjármálaeftirlitið sem leggur mat á hvort hún telst fullnægjandi.
Áætlun skv. 2. mgr. skal miðast við að endurreisn fjárhags taki ekki lengri tíma en sex mánuði og skal tilgreina hvernig aukið er við viðurkennda gjaldþolsliði eða áhætta félagsins minnkuð þannig að gjaldþolskröfu verði fullnægt. Fjármálaeftirlitið getur framlengt frestinn um þrjá mánuði ef það telur þess þörf.
Við mjög óvenjulegar og óhagstæðar aðstæður sem hafa áhrif á verulegan fjölda vátryggingafélaga miðað við markaðshlutdeild í heild eða í tiltekinni vátryggingagrein getur Fjármálaeftirlitið heimilað að endurreisn fjárhags taki lengri tíma eða allt að sjö ár til viðbótar við frest skv. 3. mgr. þar sem tekið er tillit til allra þeirra þátta sem geta haft áhrif, þar á meðal meðallíftíma vátryggingaskuldar. [Eftirlitsstofnun EFTA tekur ákvörðun að beiðni Fjármálaeftirlitsins um það hvort aðstæður teljist mjög óvenjulegar eða óhagstæðar. Eftirlitsstofnun EFTA skal í samráði við Fjármálaeftirlitið meta hvort aðstæðurnar séu enn fyrir hendi og Eftirlitsstofnun EFTA lýsir því yfir í samráði við Fjármálaeftirlitið þegar aðstæður teljast ekki lengur mjög óvenjulegar eða óhagstæðar.]1)
Óvenjulegar og óhagstæðar aðstæður skv. 4. mgr. teljast vera við eitt eða fleiri eftirfarandi tilvika:
a. ófyrirsjáanlegt hrun á fjármálamörkuðum,
b. viðvarandi lága vexti,
c. hamfarir sem hafa víðtæk áhrif.
Vátryggingafélag sem starfar eftir áætlun til lengri tíma skv. 4. mgr. skal á þriggja mánaða fresti senda áfangaskýrslu til Fjármálaeftirlitsins þar sem gerð er grein fyrir aðgerðum félagsins og þeim árangri sem náðst hefur.
Viðbótarfrestur skv. 4. mgr. fellur niður ef áfangaskýrsla skv. 6. mgr. sýnir að mati Fjármálaeftirlitsins ófullnægjandi árangur við að fullnægja gjaldþolskröfu, endurreisa fjárhag eða takmarka áhættu.
[Ef Fjármálaeftirlitið telur að fjárhagsstaða vátryggingafélags sem fær frest til að endurreisa fjárhag við mjög óvenjulegar og óhagstæðar aðstæður muni versna enn frekar getur það takmarkað eða bannað ráðstöfun vátryggingafélags á fjármunum og eignum þess. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna eftirlitsstjórnvöldum aðildarríkja þar sem vátryggingafélagið hefur útibú eða starfsemi um aðgerðir sem það grípur til eftir því sem við á. Fái Fjármálaeftirlitið slíka tilkynningu um útibú eða starfsemi vátryggingafélags hér á landi frá eftirlitsstjórnvöldum annarra aðildarríkja skal það grípa til sömu aðgerða hér á landi gagnvart félaginu. Fjármálaeftirlitið skal tilgreina þær eignir sem falla undir slíkar aðgerðir.]1)
1)L. 36/2018, 11. gr.
118. gr. Ráðstafanir ef vátryggingafélag fullnægir ekki kröfu um lágmarksfjármagn.
Fullnægi vátryggingafélag sem fengið hefur starfsleyfi hér á landi ekki kröfum um lágmarksfjármagn eða telji það hættu á að slíkt gerist innan þriggja mánaða skal félagið án tafar tilkynna Fjármálaeftirlitinu um stöðuna.
Vátryggingafélagið skal innan mánaðar gera áætlun um fjármögnun til skamms tíma um það hvenær og á hvaða hátt markinu verði náð og skal áætlunin lögð fyrir Fjármálaeftirlitið sem ákveður hvort þær ráðstafanir sem gera á teljist fullnægjandi. Slík áætlun skal miðast við að endurfjármögnun taki ekki lengri tíma en þrjá mánuði og í henni skal gerð grein fyrir hvernig aukið er við viðurkennda gjaldþolsliði eða dregið úr áhættu félagsins þannig að kröfu um lágmarksfjármagn verði fullnægt.
Fjármálaeftirlitið getur takmarkað eða bannað ráðstöfun vátryggingafélags, sem fengið hefur starfsleyfi hér á landi, á fjármunum sínum og eignum sé það liður í endurfjármögnun félagsins. Fjármálaeftirlitið skal þá tilgreina hvaða eignum vátryggingafélaginu er óheimilt að ráðstafa. Jafnframt getur Fjármálaeftirlitið takmarkað eða bannað útgáfu nýrra vátryggingaskírteina og gripið til annarra aðgerða sem það telur nauðsynlegar. Ákvörðun þessa efnis skal tilkynna eftirlitsstjórnvöldum gistiríkja eftir því sem við á. Sé Fjármálaeftirlitið eftirlitsstjórnvald gistiríkis skal það grípa til sömu aðgerða og eftirlitsstjórnvald heimaríkis óski það þess.
119. gr. Heimildir Fjármálaeftirlitsins vegna versnandi fjárhagslegrar stöðu.
Þrátt fyrir ákvæði 117. og 118. gr. getur Fjármálaeftirlitið, þegar fyrirséð er að fjárhagsstaða vátryggingafélags muni enn versna, gripið til frekari aðgerða sem það telur nauðsynlegar til að verja hagsmuni vátryggingartaka.
Aðgerðir Fjármálaeftirlitsins skulu endurspegla hversu alvarlegt ástandið er og hversu lengi það varir.
120. gr. Áætlanir um endurreisn fjárhags og endurfjármögnun.
Áætlanir skv. 117. og 118. gr. skulu að lágmarki fela í sér:
a. áætlaðan rekstrarkostnað, m.a. almennan kostnað vegna daglegs reksturs og umboðslauna,
b. sundurliðaða áætlun um tekjur og gjöld í frumtryggingum, endurtryggingum sem félagið kann að taka að sér og endurtryggingum sem félagið kaupir,
c. áætlaðan efnahagsreikning,
d. greinargerð um fjármagn sem ætlað er að mæta vátryggingaskuld, gjaldþolskröfu og lágmarksfjármagni,
e. endurtryggingastefnu félagsins.
Hafi Fjármálaeftirlitið farið fram á áætlun um endurreisn fjárhags skv. 2. mgr. 117. gr. eða áætlun um endurfjármögnun skv. 2. mgr. 118. gr. skal það ekki heimila félaginu að taka við vátryggingastofni frá öðru félagi ef það telur hagsmunum vátryggingartaka ógnað.
121. gr. Reglugerð.
Ráðherra setur reglugerð1) sem tilgreinir nánar við hvað skuli miðað þegar lengri frestur til endurreisnar fjárhags skv. 4. mgr. 117. gr. er ákveðinn.
[Seðlabanki Íslands]2) setur nánari reglur um endurreisn fjárhags skv. 117. og 118. gr. að teknu tilliti til heimilda 119. gr. sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og [lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar].3) Þess skal gætt að komið sé í veg fyrir sveiflumagnandi áhrif.
1)Rg. 55/2022. 2)L. 91/2019, 120. gr. 3)L. 36/2018, 5. gr.
122. gr. Afturköllun starfsleyfis.
Sinni vátryggingafélag ekki tilmælum Fjármálaeftirlitsins um ráðstafanir til að meta á fullnægjandi hátt vátryggingaskuld sína eða tryggja örugga ávöxtun fjármuna sem ætlað er að mæta henni [eða það]1) brýtur verulega lög, [reglugerðir eða reglur]1) um starfsemi vátryggingafélaga eða samþykktir sem það starfar eftir skal Fjármálaeftirlitið setja félaginu ákveðinn frest til að gera nauðsynlegar úrbætur.
Hafi fullnægjandi ráðstafanir ekki verið gerðar innan settra tímamarka getur Fjármálaeftirlitið afturkallað starfsleyfi félagsins. Fjármálaeftirlitið getur þó veitt frekari frest telji það líkur benda til að þær ráðstafanir sem félagið hefur þegar gert muni innan skamms tíma hafa í för með sér tilskildar úrbætur.
Fjármálaeftirlitið getur afturkallað starfsleyfi nýti félag ekki leyfið innan tólf mánaða frá útgáfu þess eða hafi starfsemi legið niðri í sex mánuði eða meira.
Fjármálaeftirlitið skal afturkalla starfsleyfi vátryggingafélags sem fullnægir ekki kröfum um lágmarksfjármagn telji það áætlun um endurreisn fjárhags augljóslega ófullnægjandi eða félagið framfylgir ekki áætluninni innan þriggja mánaða frá því að í ljós kemur að félagið stenst ekki kröfu um lágmarksfjármagn.
Fjármálaeftirlitið skal afturkalla starfsleyfi vátryggingafélags uppfylli félagið ekki lengur skilyrði starfsleyfis eða vanræki gróflega skyldur sínar samkvæmt lögum og reglugerðum um starfsemi vátryggingafélaga þannig að hagsmunum vátryggingartaka og vátryggðra sé stefnt í hættu.
Afturköllun starfsleyfis skal ávallt studd ítarlegum rökum og tilkynnt hlutaðeigandi félagi skriflega.
Afturkalli Fjármálaeftirlitið starfsleyfi skal það tilkynna eftirlitsstjórnvöldum aðildarríkja um það. [Fjármálaeftirlitið skal einnig tilkynna Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni um afturköllun starfsleyfis.]2)
Með hagsmuni vátryggingartaka og vátryggðra fyrir augum og í samráði við önnur hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvöld skal Fjármálaeftirlitið takmarka, eftir því sem nauðsyn krefur, frjálsa ráðstöfun eigna félagsins þegar vátryggingaskuld er vanmetin, skilyrðum um gjaldþol er ekki fullnægt og hætta er á versnandi fjárhagsstöðu félagsins sé ekki gripið til ráðstafana.
Fjármálaeftirlitið skal tilkynna stjórn vátryggingafélags um afturköllun starfsleyfis, birta tilkynninguna í Lögbirtingablaði og auglýsa í fjölmiðlum.
1)L. 82/2021, 21. gr. 2)L. 36/2018, 12. gr.
XX. kafli. Stofnun útibúa og frjálst flæði þjónustu.
123. gr. Vátryggingafélag með höfuðstöðvar hér á landi. Stofnun útibús í öðru aðildarríki.
Frumtryggingafélag sem fengið hefur starfsleyfi hér á landi og óskar eftir að starfrækja útibú í öðru aðildarríki skal tilkynna það Fjármálaeftirlitinu og leggja fram eftirfarandi upplýsingar og gögn:
1. Upplýsingar um í hvaða aðildarríki útibúið verður starfrækt.
2. Áætlun um starfsemi og skipulag útibúsins ásamt skrá yfir þá greinaflokka vátrygginga og vátryggingagreinar sem félagið hyggst reka.
3. Nafn þess aðila sem er í fyrirsvari fyrir útibúið og hefur heimild til að skuldbinda félagið gagnvart þriðja aðila og koma fram á þess vegum gagnvart stjórnvöldum í aðildarríkinu.
4. Yfirlýsingu um að félagið sé aðili að landsskrifstofu alþjóðlegra bifreiðatrygginga og, ef við á, að félagið sé aðili að ábyrgðarsjóði vegna ökutækjatrygginga í viðkomandi aðildarríki þegar fyrirhugað er að reka starfsemi skv. 10. tölul. 1. mgr. 20. gr.
Breytingar á gögnum skv. 1. mgr. skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu skriflega og eftirlitsstjórnvöldum í því ríki þar sem útibúið hefur starfsemi með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara.
Geri Fjármálaeftirlitið ekki athugasemdir við fyrirhugaða starfsemi, fjárhagsstöðu eða hæfi og hæfni stjórnenda eða hins skipaða fulltrúa útibúsins skal Fjármálaeftirlitið, innan þriggja mánaða frá því að öll gögn hafa borist, senda eftirlitsstjórnvöldum gistiríkis gögnin ásamt vottorði um að félagið uppfylli skilyrði um gjaldþolskröfu og lágmarksfjármagn. Jafnframt skal senda félaginu tilkynningu um að gögnin hafi verið send.
Fjármálaeftirlitið getur hafnað því að senda gögn skv. 1. og 2. mgr. hafi það ástæðu til að draga í efa að rekstrarleg uppbygging eða fjárhagsstaða fyrirhugaðrar starfsemi sé viðhlítandi. Tilkynning um að gögnin verði ekki send eftirlitsstjórnvöldum viðkomandi aðildarríkis skal send félaginu innan þriggja mánaða og ástæður þess tilgreindar skriflega. Vátryggingafélag getur borið synjun Fjármálaeftirlitsins undir dómstóla.
Þegar tilkynning hefur borist frá eftirlitsstjórnvöldum gistiríkis um að skilyrði þess ríkis séu uppfyllt til að félagið megi hefja þar rekstur útibús getur félagið stofnsett útibúið og hafið starfsemi. Berist ekki slík tilkynning má hefja rekstur útibús tveimur mánuðum eftir að eftirlitsstjórnvöld gistiríkis fengu gögn skv. 1. mgr. frá Fjármálaeftirlitinu.
124. gr. Vátryggingafélag með höfuðstöðvar í öðru aðildarríki. Stofnun útibús hér á landi.
Vátryggingafélag með höfuðstöðvar í öðru aðildarríki sem hlotið hefur starfsleyfi hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvalda getur stofnsett útibú hér á landi enda sé því heimilt að reka vátryggingastarfsemi í sömu greinaflokkum vátrygginga og vátryggingagreinum í heimaríki sínu.
Óski frumtryggingafélag skv. 1. mgr. eftir að stofna útibú hér á landi skv. 7. gr. skal Fjármálaeftirlitið afla eftirfarandi upplýsinga og gagna hjá eftirlitsstjórnvöldum heimaríkis þess:
1. Áætlunar um fyrirhugaða starfsemi og skipulag útibúsins hér á landi og staðfestingar á að félagið hafi starfsleyfi í þeim greinaflokkum vátrygginga og vátryggingagreinum sem fyrirhugað er að reka hér á landi.
2. Heimilisfangs útibúsins þar sem skipaður fulltrúi félagsins hefur aðsetur og gagna er aflað um starfsemina og öll gögn eru send til.
3. Nafns skipaðs fulltrúa útibúsins sem hefur heimild til að skuldbinda félagið gagnvart þriðja aðila og kemur fram fyrir þess hönd gagnvart dómstólum hér á landi.
4. Staðfestingar á aðild að viðeigandi ábyrgðarsjóði og á þátttöku í starfsemi tjónsuppgjörsmiðstöðvar og upplýsingamiðstöðvar samkvæmt umferðarlögum sé sótt um leyfi skv. 10. tölul. 1. mgr. 20. gr. Jafnframt skal upplýst um tjónsuppgjörsfulltrúa í hverju aðildarríki utan Íslands.
5. Vottorðs eftirlitsstjórnvalda um að skilyrði um gjaldþolskröfu og lágmarksfjármagn vegna starfsemi félagsins í heild séu uppfyllt og athugasemda vegna fyrirhugaðrar starfsemi ef einhverjar eru.
Áður en útibú frumtryggingafélags hefur starfsemi hér á landi skal Fjármálaeftirlitið upplýsa eftirlitsstjórnvöld heimaríkis um almenn skilyrði, ef einhver eru, sem eiga að gilda hér á landi um vátryggingastarfsemi útibúsins ásamt ákvæðum er varða almannaheill.
Fjármálaeftirlitið skal tilkynna vátryggingafélaginu, með milligöngu eftirlitsstjórnvalds í heimaríki þess, að því sé heimilt að setja á stofn útibúið innan tveggja mánaða. Frumtryggingafélagið skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu allar breytingar á upplýsingum og gögnum skv. 1.–4. tölul. 2. mgr. með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara.
125. gr. Vátryggingafélag með höfuðstöðvar hér á landi. Þjónusta í öðru aðildarríki án starfsstöðvar.
Hyggist frumtryggingafélag sem fengið hefur starfsleyfi hér á landi veita þjónustu í öðru aðildarríki án þess að hafa þar starfsstöð skal félagið tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það ásamt upplýsingum um í hvaða greinaflokkum vátrygginga eða vátryggingagreinum fyrirhugað er að veita þjónustu. Fjármálaeftirlitið skal innan mánaðar senda eftirlitsstjórnvöldum hlutaðeigandi aðildarríkis eftirtalin gögn og skal félaginu jafnframt tilkynnt að upplýsingarnar hafi verið sendar:
1. Vottorð um að félagið fullnægi gjaldþolskröfu og kröfu um lágmarksfjármagn vegna starfsemi félagsins í heild.
2. Skrá yfir þá greinaflokka vátrygginga og vátryggingagreinar sem félagið hefur leyfi til að reka.
3. Skrá yfir greinaflokka vátrygginga og vátryggingagreinar sem félagið hyggst reka í aðildarríkinu.
4. Yfirlýsingu um að félagið sé aðili að landsskrifstofu og, ef við á, að sérstökum ábyrgðarsjóði í viðkomandi aðildarríki þegar fyrirhugað er að veita þjónustu skv. 10. tölul. 1. mgr. 20. gr. ásamt nafni og heimilisfangi sérstaks fulltrúa sem annast tjónsuppgjör í þeirri grein.
Allar breytingar sem félagið hyggst gera á tilkynntum upplýsingum skulu vera í samræmi við ákvæði 1. mgr.
Sendi Fjármálaeftirlitið upplýsingarnar ekki innan mánaðar skal það greina félaginu frá ástæðum þess innan sömu tímamarka. Synjun Fjármálaeftirlitsins eða athafnaleysi er unnt að bera undir dómstóla.
Vátryggingafélag má veita þjónustu frá þeim tíma er það hefur fengið tilkynningu um að upplýsingar skv. 1. mgr. hafi verið sendar.
126. gr. Vátryggingafélag með höfuðstöðvar í öðru aðildarríki. Þjónusta hér á landi án starfsstöðvar.
Vátryggingafélag með höfuðstöðvar í öðru aðildarríki sem hlotið hefur starfsleyfi hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvalda getur veitt þjónustu hér á landi án starfsstöðvar enda sé því heimilt að reka vátryggingastarfsemi í sömu greinaflokkum vátrygginga og vátryggingagreinum í heimaríki sínu.
Hyggist frumtryggingafélag veita þjónustu hér á landi án starfsstöðvar skal Fjármálaeftirlitið afla eftirfarandi upplýsinga og gagna hjá eftirlitsstjórnvöldum heimaríkis:
1. Vottorðs um að félagið fullnægi gjaldþolskröfu og kröfu um lágmarksfjármagn vegna starfsemi félagsins í heild.
2. Skrár yfir þá greinaflokka vátrygginga og vátryggingagreinar sem félagið hefur leyfi til að reka.
3. Skrár yfir þær tegundir áhættu sem félagið hyggst vátryggja hér á landi.
4. Staðfestingar á aðild að viðeigandi ábyrgðarsjóði og á þátttöku í starfsemi tjónsuppgjörsmiðstöðvar og upplýsingamiðstöðvar samkvæmt umferðarlögum sé sótt um leyfi skv. 10. tölul. 1. mgr. 20. gr. Jafnframt skal upplýst um tjónsuppgjörsfulltrúa í hverju aðildarríki utan Íslands.
Félagið má veita þjónustu hér á landi þegar Fjármálaeftirlitið hefur tilkynnt að öll gögn skv. 2. mgr. hafi borist eftirlitinu.
Allar breytingar varðandi 2.–4. tölul. 2. mgr. skal félagið tilkynna Fjármálaeftirlitinu með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara.
Félag sem veitir þjónustu án starfsstöðvar skv. 10. tölul. 1. mgr. 20. gr. skal sjá til þess að þeir sem eiga kröfu á bótum vegna tjóns hér á landi séu ekki lakar settir en aðrir vegna þess að starfsstöð er ekki fyrir hendi. Fulltrúi skv. 4. tölul. 2. mgr. skal afla allra nauðsynlegra gagna vegna tjóns og hafa allar heimildir til að greiða bætur og koma fram fyrir hönd félagsins hér á landi. Honum skal einnig skylt að veita lögbærum aðilum hér á landi upplýsingar um hvort lögmæltar ökutækjatryggingar séu fyrir hendi og um gildistíma.
127. gr. Vátryggingafélag fer ekki að lögum. Upplýsingaskylda Fjármálaeftirlitsins.
Fjármálaeftirlitið skal krefjast þess að vátryggingafélag sem hefur höfuðstöðvar í öðru aðildarríki og hefur útibú eða veitir þjónustu hér á landi og fer ekki að [þeim lögum sem um starfsemina gilda]1) bæti úr þeim annmörkum.
Fjármálaeftirlitið skal veita eftirlitsstjórnvöldum hlutaðeigandi heimaríkja upplýsingar um starfsemi útibúa vátryggingafélaga hér á landi og um brot þeirra gegn [þeim lögum sem um starfsemina gilda].1) Sama gildir um vátryggingafélög sem veita þjónustu hér á landi.
Fjármálaeftirlitið getur gripið til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar eru til að tryggja hagsmuni vátryggingartaka og vátryggðra uppfylli félagið ekki tilskilin skilyrði um gjaldþol eða vátryggingaskuld. Það skal þegar þörf krefur gera ráðstafanir til að banna félaginu frjálsa ráðstöfun eigna sem eru hér á landi eða takmarka hana í samræmi við ákvæði laga þessara og að höfðu samráði við eftirlitsstjórnvöld heimaríkis ef kostur er.
Fjármálaeftirlitið getur bannað vátryggingafélagi sem hér rekur útibú eða veitir þjónustu að starfa áfram ef það með grófum hætti [eða ítrekað]1) brýtur ákvæði laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim eða ákvæði annarra laga sem eiga við um starfsemi vátryggingafélaga og ekki hefur verið unnt með kröfum eða aðgerðum samkvæmt þessum lögum að fá úr því bætt sem úrskeiðis hefur farið.
Fái Fjármálaeftirlitið upplýsingar frá eftirlitsstofnun annars aðildarríkis um að vátryggingafélag, sem hefur höfuðstöðvar hér á landi og hefur útibú eða veitir þjónustu í því aðildarríki, fari ekki að lögum þar skal það grípa til viðeigandi ráðstafana og tilkynna eftirlitsstofnuninni um þær ráðstafanir.
[Fjármálaeftirlitið getur óskað eftir aðstoð Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, skv. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1094/2010 um að koma á fót evrópskri eftirlitsstofnun (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) ef eftirlitsstjórnvöld annarra aðildarríkja vinna ekki með því vegna annmarka á að útibú hér á landi fari að lögum þessum. Sama gildir um eftirlitsstjórnvöld annarra aðildarríkja ef Fjármálaeftirlitið vinnur ekki með þeim vegna útibúa þar.
Fjármálaeftirlitið skal tilkynna Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni og Eftirlitsstofnun EFTA um synjun á stofnun útibús hér á landi skv. 124. gr. og starfsemi hér á landi skv. 126. gr. Einnig skal Fjármálaeftirlitið tilkynna til hvaða ráðstafana hefur verið gripið skv. 3. og 4. mgr.]2)
1)L. 82/2021, 22. gr. 2)L. 36/2018, 13. gr.
128. gr. Vátryggingafélag með höfuðstöðvar í öðru aðildarríki. Starfsemi hér á landi. Vettvangsathugun.
Eftirlitsstjórnvöldum aðildarríkja eða fulltrúum sem þau tilnefna er heimilt, eftir að hafa tilkynnt það Fjármálaeftirlitinu, að gera vettvangskannanir hjá vátryggingafélagi, sem þau hafa veitt starfsleyfi og hér rekur starfsemi, sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að framfylgja lögmæltu eftirliti með starfsemi útibúa aðildarríkja hér á landi. Fjármálaeftirlitið hefur heimild til að taka þátt í þessum könnunum.
[Eftirlitsstjórnvöld aðildarríkja geta óskað eftir aðstoð Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, skv. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1094/2010 um að koma á fót evrópskri eftirlitsstofnun (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) ef þeim er ekki heimilað að gera vettvangsathugun hér á landi skv. 1. mgr. Sama gildir um Fjármálaeftirlitið ef það fær ekki að taka þátt í vettvangsathugun eftirlitsstjórnvalda annarra aðildarríkja hér á landi eða fær ekki að gera vettvangsathugun hjá útibúi vátryggingafélags í öðru aðildarríki.
Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni er heimilt skv. 21. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1094/2010 um að koma á fót evrópskri eftirlitsstofnun (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) að taka þátt í vettvangsathugun skv. 1. mgr. hér á landi ef tvö eða fleiri eftirlitsstjórnvöld gera hana sameiginlega.]1)
1)L. 36/2018, 14. gr.
129. gr. Vátryggingafélag með höfuðstöðvar í öðru aðildarríki. Afturköllun starfsleyfis.
Afturkalli eftirlitsstjórnvöld heimaríkis starfsleyfi félags sem hefur útibú eða veitir þjónustu hér á landi skal Fjármálaeftirlitið að fenginni tilkynningu þar um gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að félagið stofni til frekari vátryggingarsamninga hér á landi. Skal haft samstarf við hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvöld í því skyni að tryggja hagsmuni vátryggingartaka og vátryggðra svo sem kostur er og eiga ákvæði 127. gr. um takmörkun eða bann við frjálsri ráðstöfun eigna við þegar nauðsyn krefur.
130. gr. Vátryggingafélag sem hefur starfsleyfi hér á landi. Starfsemi utan aðildarríkja.
Hafi frumtryggingafélag sem hefur fengið starfsleyfi hér á landi í hyggju að hefja starfsemi utan aðildarríkja skal slíkt tilkynnt Fjármálaeftirlitinu fyrir fram ásamt lýsingu á fyrirhugaðri starfsemi og öðrum upplýsingum sem Fjármálaeftirlitið óskar eftir og telur nauðsynlegar.
[Fjármálaeftirlitið skal tilkynna Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni um örðugleika sem koma upp vegna fyrirhugaðrar starfsemi vátryggingafélags utan aðildarríkja.]1)
Ákvæði 123. og 125. gr. gilda einnig um frumtryggingafélög með höfuðstöðvar utan aðildarríkja sem fengið hafa leyfi hér á landi til að reka útibú en hafa í hyggju að hefja starfsemi í öðru aðildarríki. Fjármálaeftirlitið getur tekið sér lengri fresti til afgreiðslu mála en þar eru tilgreindir. Samráð skal haft við eftirlitsstjórnvöld viðkomandi aðildarríkja áður en tekin er afstaða til umsóknarinnar.
[Fjármálaeftirlitið skal tilkynna Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni um fyrirhugaða starfsemi vátryggingafélags, sem hefur höfuðstöðvar utan aðildarríkja og útibú hér á landi, í öðrum aðildarríkjum. Einnig skal Fjármálaeftirlitið tilkynna það ef félag með höfuðstöðvar utan aðildarríkja eignast hlut í vátryggingafélagi og félagið verður af þeim orsökum talið útibú hér á landi.]1)
1)L. 36/2018, 15. gr.
XXI. kafli. Vátryggingafélag með höfuðstöðvar utan aðildarríkja. Stofnun útibús hér á landi.
131. gr. Skilyrði fyrir stofnun útibús hér á landi.
Vátryggingafélag með höfuðstöðvar utan aðildarríkis sem leyfi hefur til að reka vátryggingastarfsemi í heimalandi sínu getur fengið leyfi Fjármálaeftirlitsins til að reka starfsemi í útibúi hér á landi í samræmi við lög þessi enda hafi íslensk vátryggingafélög ekki lakari rétt í heimalandi þeirra.
Áður en starfsleyfi er veitt hér á landi skal Fjármálaeftirlitið hafa samráð við eftirlitsstjórnvöld í öðrum aðildarríkjum um leyfisveitinguna.
Umsókn um starfsleyfi útibús vátryggingafélags með höfuðstöðvar utan aðildarríkja hér á landi skal send Fjármálaeftirlitinu og gögn skv. VI. kafla skulu fylgja umsókn eftir því sem við getur átt og nauðsynlegt er til þess að það geti metið umsóknina.
Vátryggingafélag skal standast eftirfarandi skilyrði til að fá starfsleyfi:
1. Vera skráð hér á landi og hafa aðalumboðsmann sem Fjármálaeftirlitið samþykkir.
2. Hafa starfsstöð hér á landi og hafa bókhaldsgögn og önnur gögn um starfsemi útibúsins varðveitt í útibúinu sjálfu.
3. Hafa fjárhagslegan styrk er miðast við starfsemi þess hér, eftir því sem við á, þó þannig að eignir þess hér á landi nemi aldrei minna en helmingi lágmarksfjármagns skv. 112. gr. og geymslufé lagt fram hér á landi sem samsvarar fjórðungi lágmarksfjármagns skv. 112. gr. Geymsluféð skal einungis notað til að tryggja að útibúið geti staðið við skuldbindingar sínar vegna gerðra vátryggingarsamninga hér á landi. Einstakir vátryggðir, eða aðrir rétthafar samkvæmt vátryggingarsamningi, geta ekki gert kröfu um fullnustu greiðslu nema að því marki sem það, að mati Fjármálaeftirlitsins, skerðir ekki rétt annarra vátryggðra eða rétthafa til fullnustu á vátryggingaskuldbindingum félagsins. Geymsluféð skal teljast til viðurkenndra gjaldþolsliða til að mæta lágmarksfjármagni.
4. Gjaldþolskröfu og kröfu um lágmarksfjármagn.
5. Upplýsa um nöfn og heimilisföng tjónsuppgjörsfulltrúa í öðrum aðildarríkjum ef sótt er um leyfi til starfsemi í ábyrgðartryggingum ökutækja skv. 10. tölul. 1. mgr. 20. gr.
6. Áætlun um starfsemi skv. 132. gr. skal liggja fyrir.
7. Kröfur um stjórnarhætti skv. VIII. kafla.
Ákveða má með samningum við eitt eða fleiri ríki utan aðildarríkja að beita öðrum ákvæðum um eftirlit með starfsemi útibúsins en segir í lögum þessum að því tilskildu að hinum vátryggðu sé tryggð nægileg og sambærileg vernd. Ekki má í slíkum samningum veita útibúum félaga með höfuðstöðvar utan aðildarríkja rýmri skilyrði en útibúum vátryggingafélaga með höfuðstöðvar þar.
132. gr. Áætlun um starfsemi útibús.
Vátryggingafélag sem hefur höfuðstöðvar utan aðildarríkja og hyggst stofna hér útibú skal leggja fram áætlun með umsókn um starfsleyfi. Í áætluninni skal eftirfarandi koma fram:
1. Hvaða vátryggingarvernd útibúið ætlar að veita.
2. Endurtryggingarvernd útibúsins í meginatriðum.
3. Áætlun um gjaldþolskröfu útibúsins á grundvelli efnahagsreiknings ásamt reikningsaðferðum sem liggja til grundvallar matinu.
4. Áætlun um lágmarksfjármagn útibúsins á grundvelli efnahagsreiknings ásamt reikningsaðferðum sem liggja til grundvallar matinu. Félagið skal hafa eignir sem mæta eiga lágmarksfjármagni hér á landi og eignir umfram lágmarksfjármagn sem mæta eiga gjaldþolskröfu hér á landi eða í öðru aðildarríki.
5. Áætlun um gjaldþolsliði útibúsins að teknu tilliti til gjaldþolskröfu og lágmarksfjármagns.
6. Að félagið standist kröfur um vátryggingaskuld og viðurkennda gjaldþolsliði skv. XIV.–XVI. kafla. Mat á eignum og skuldbindingum öðrum en vátryggingaskuld skal vera í samræmi við XIII. kafla.
7. Áætlun um kostnað við að setja á stofn útibúið, hvernig ætlað er að mæta þeim kostnaði og ef sótt er um starfsleyfi fyrir ferðamannaaðstoð skv. 18. tölul. 1. mgr. 20. gr. skal tiltaka með hvaða hætti ferðamannaaðstoð verður veitt.
8. Upplýsingar um stjórnarhætti útibúsins.
Að auki skal fyrir þrjú fyrstu rekstrarár útibúsins koma fram mat á efnahagsreikningi og rekstrarkostnaði og áætlun um fjármagn sem á að fullnægja kröfum um vátryggingaskuld, lágmarksfjármagn og gjaldþolskröfu.
Í áætlun skaðatryggingafélaga til næstu þriggja ára skal koma fram mat á rekstrarkostnaði, umboðslaunum og mat á iðgjöldum og tjónum.
Í áætlun líftryggingafélaga til næstu þriggja ára skal koma fram áætlun um tekjur og útgjöld vegna frumtryggingar og keyptrar og seldrar endurtryggingar.
Ákvæði 73. gr. um aðskilnað líf- og skaðatryggingastarfsemi gilda um starfsemi útibúa skv. 1. mgr.
[Seðlabanki Íslands]1) getur sett nánari reglur um starfsemi útibúa vátryggingafélags með höfuðstöðvar utan aðildarríkis hér á landi.
1)L. 91/2019, 120. gr.
133. gr. Flutningur vátryggingastofns.
Fjármálaeftirlitið getur heimilað flutning vátryggingastofns frá útibúi vátryggingafélags með höfuðstöðvar utan aðildarríkja sem fengið hefur starfsleyfi hér á landi og óskar eftir að flytja vátryggingastofn sinn hér að nokkru eða öllu leyti til annars félags með starfsstöð í öðru aðildarríki staðfesti eftirlitsstjórnvöld heimaríkis þess félags sem tekur við stofninum að gjaldþolskrafa og krafa um lágmarksfjármagn séu uppfylltar að teknu tilliti til hins yfirfærða stofns. Þegar vátryggingaráhættan er hér á landi þarf ávallt samþykki Fjármálaeftirlitsins til að flutningurinn geti átt sér stað.
Ákvæði 34. gr. gilda um opinberar tilkynningar vegna vátryggingastofns sem fluttur er þegar vátryggingaráhættan er hér á landi.
Um réttindi og skyldur vátryggingartaka, vátryggðra og annarra samkvæmt vátryggingarsamningum frumtryggingafélaga fer skv. 5. mgr. 34. gr. og lögum um vátryggingarsamninga.
Fjármálaeftirlitið skal veita álit sitt innan þriggja mánaða frá því að beiðni um flutninginn barst, ella skal litið svo á að afstaða þess til flutningsins sé jákvæð.
134. gr. Aðstöðujöfnun vátryggingafélags með starfsemi í fleiri en einu aðildarríki.
Vátryggingafélag með höfuðstöðvar utan aðildarríkja sem rekur útibú í fleiri en einu aðildarríki getur sótt um eftirfarandi ívilnanir sem gilda þá um öll útibúin:
1. Gjaldþolskrafa skv. XVI. kafla sé reiknuð með hliðsjón af allri starfsemi félagsins á Evrópska efnahagssvæðinu.
2. Geymslufé skv. 3. tölul. 4. mgr. 131. gr. sé aðeins varðveitt í einu aðildarríki þar sem vátryggingafélagið hefur starfsemi.
3. Eignir sem mæta eiga lágmarksfjármagni séu varðveittar í einhverjum af þeim aðildarríkjum þar sem vátryggingafélagið hefur starfsemi.
Umsókn skv. 1. mgr. skal send Fjármálaeftirlitinu. Í umsókn skal koma fram hvaða eftirlitsstjórnvald muni bera ábyrgð á eftirliti með gjaldþolsstöðu allra útibúa félagsins á Evrópska efnahagssvæðinu og skulu ástæður þess tilgreindar. Geymslufé skv. 3. tölul. 4. mgr. 131. gr. skal staðsett í því aðildarríki. Uppfylli félagið skilyrði þessarar greinar skal líta á viðkomandi eftirlitsstjórnvöld eins og eftirlitsstjórnvald í aðildarríki.
Ívilnun er ekki veitt nema öll hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvöld veiti samþykki sitt.
Ívilnunin tekur gildi þegar eftirlitsstjórnvaldið sem hefur eftirlit með gjaldþolsstöðunni staðfestir það við önnur eftirlitsstjórnvöld. Sé eftirlitsstjórnvaldið annað en Fjármálaeftirlitið veitir það hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvaldi viðeigandi upplýsingar.
135. gr. Aðalumboðsmaður.
Aðalumboðsmaður útibús vátryggingafélags sem hefur höfuðstöðvar utan aðildarríkja og stofnar hér útibú kemur fram fyrir hönd útibúsins í málefnum er varða starfsemina og hefur heimild til að skuldbinda félagið vegna starfsemi þess hér á landi. Umboðsmaðurinn skal vera búsettur hér á landi, vera lögráða, hafa [gott orðspor]1) og má ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaður gjaldþrota eða í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot, opinber gjöld eða lögum um vátryggingastarfsemi.
Aðalumboðsmaður skal án tafar tilkynna Fjármálaeftirlitinu skriflega geri eftirlitsstjórnvöld þar sem félagið hefur höfuðstöðvar athugasemdir við starfsemi þess, hafi greiðslustöðvun verið ákveðin, ákvörðun verið tekin um að slíta félaginu eða bú þess tekið til gjaldþrotaskipta.
1)L. 141/2018, 39. gr.
136. gr. Tilkynning til Fjármálaeftirlitsins.
Vátryggingafélag sem rekur hér útibú skal tilkynna til Fjármálaeftirlitsins allar verulegar breytingar á starfseminni, skipan stjórnar og ábyrgðaraðilum lykilstarfssviða. Sé gerð ný rekstraráætlun skv. 24. gr. skal hún einnig send Fjármálaeftirlitinu.
Öll gögn sem send eru Fjármálaeftirlitinu skulu vera á íslensku eða öðru tungumáli sem Fjármálaeftirlitið samþykkir.
137. gr. Úrræði Fjármálaeftirlitsins.
Brjóti félagið lög og reglugerðir um vátryggingastarfsemi eða vanræki skyldur sínar samkvæmt þeim þannig að hagsmunum vátryggingartaka og vátryggðra sé stefnt í hættu skal Fjármálaeftirlitið veita félaginu tiltekinn frest til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til úrbóta. Hafi fullnægjandi ráðstafanir ekki verið gerðar innan þess frests og telji Fjármálaeftirlitið að hagsmunir vátryggingartaka og vátryggðra séu í hættu getur eftirlitið útnefnt nýjan aðalumboðsmann til að ljúka viðskiptum og uppgjöri vegna starfseminnar hér á landi. Hefur hann í því skyni leyfi til ráðstöfunar á eignum félagsins hér á landi að því marki er Fjármálaeftirlitið heimilar.
Ákvæði 34.–36. gr. og XIX. kafla gilda eftir því sem við getur átt um útibúið.
138. gr. Afturköllun starfsleyfis félags með höfuðstöðvar utan aðildarríkis.
Fjármálaeftirlitið getur afturkallað starfsleyfi félags með höfuðstöðvar utan aðildarríkis uppfylli það ekki lengur skilyrði fyrir starfsleyfinu eða vanræki gróflega skyldur sínar samkvæmt lögum þessum.
Þegar starfsleyfi félags er afturkallað tekur Fjármálaeftirlitið ákvörðun um hvort þess skuli freistað að yfirfæra vátryggingastofninn til eins eða fleiri vátryggingafélaga sem reka vátryggingastarfsemi hér á landi eða hvort félagið skuli á annan hátt reyna að ljúka skuldbindingum sínum vegna vátryggingarsamninga sem gerðir hafa verið. Þegar rekin er líftryggingastarfsemi getur Fjármálaeftirlitið ákveðið að líftryggingastofninum verði komið undir sérstaka stjórn, sbr. 156. gr.
Við afturköllun á starfsleyfi félags getur Fjármálaeftirlitið takmarkað eða bannað félaginu yfirráð yfir fjármunum sínum og eignum.
Afturkalli Fjármálaeftirlitið starfsleyfi útibús vátryggingafélags sem hefur útibú í fleiri en einu aðildarríki skal það tilkynna viðeigandi eftirlitsstjórnvöldum um afturköllunina. Fjármálaeftirlitinu ber að afturkalla starfsleyfi útibús fái það tilkynningu frá öðru eftirlitsstjórnvaldi um að það hafi afturkallað starfsleyfi útibús sama vátryggingafélags.
Sé ástæða afturköllunar ófullnægjandi gjaldþolsstaða allra útibúa félagsins í aðildarríkjum skal heimild til aðstöðujöfnunar skv. 134. gr. afturkölluð.
139. gr. Uppgjör vátryggingafélags sem misst hefur starfsleyfi.
Tilkynni félag að það óski eftir að hætta starfsemi hér á landi skal það því aðeins gert að Fjármálaeftirlitið álíti að starfsstöðin þurfi ekki að starfa áfram vegna skuldbindinga sem á henni hvíla. Sama gildir sé enginn aðalumboðsmaður félagsins hér á landi og enginn hafi verið útnefndur innan frests sem Fjármálaeftirlitið hefur sett. Getur eftirlitið þá útnefnt aðalumboðsmann í samræmi við ákvæði 137. gr.
Leysa má út geymslufé sem lagt er til hliðar skv. 131. gr. þá fyrst er starfsleyfi félagsins hefur verið afturkallað og félagið getur sannað að staðið hafi verið við allar skuldbindingar félagsins hér á landi eða að fullnægjandi trygging fyrir skuldbindingum hafi að mati Fjármálaeftirlitsins verið lögð fram.
XXII. kafli. Samtryggingar innan Evrópska efnahagssvæðisins.
140. gr. Skilyrði samtryggingar.
Starfsemi telst vera í samtryggingum innan Evrópska efnahagssvæðisins ef áhættan fellur undir 3.–16. tölul. 1. mgr. 20. gr. og uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
1. Áhættan telst stóráhætta.
2. Áhættan er vátryggð með einum vátryggingarsamningi með heildariðgjaldi og á vátryggingartímanum vátryggja tveir eða fleiri frumtryggjendur áhættuna, hver um sig sem samtryggjandi. Einn frumtryggjandi skal teljast leiðandi frumtryggingafélag.
3. Áhættan er í aðildarríki.
4. Leiðandi frumtryggingafélag skal koma fram eins og það beri fulla ábyrgð á frumtryggingu áhættunnar til þess að hún teljist vátryggð.
5. A.m.k. einn af samtryggjendum sem tekur þátt í samningnum skal hafa höfuðstöðvar eða útibú staðsett í öðru aðildarríki en því sem frumtryggingafélagið hefur starfsleyfi í.
6. Leiðandi frumtryggingafélag skal hafa forustu í samtryggingunni og ákveður m.a. iðgjöld og skilmála vátryggingarinnar.
Ákvæði XX. kafla um stofnun útibúa og frjálst flæði þjónustu eiga við ef leiðandi frumtryggingafélag er staðsett hér á landi.
141. gr. Vátryggingaskuld.
Samtryggjendur ákveða fjárhæð vátryggingaskuldar í samræmi við reglur sem gilda í heimaríkjum þeirra eða þar sem slíkar reglur eru ekki til staðar í samræmi við viðteknar venjur í aðildarríkinu.
Vátryggingaskuldin skal þó aldrei vera lægri en ákvörðun leiðandi frumtryggingafélags samkvæmt reglum heimaríkis þess.
142. gr. Tölulegar upplýsingar.
Þátttakendur í samtryggingu skulu halda tölulega skrá um umfang samtryggingarinnar innan Evrópska efnahagssvæðisins og tilgreina þau aðildarríki sem samtryggingin snertir.
143. gr. Meðhöndlun samtryggingasamninga í slitameðferð.
Sé frumtryggingafélagi slitið skal skuldbindingum vegna þátttöku í samtryggingum innan Evrópska efnahagssvæðisins mætt með sama hætti og öðrum frumtryggingaskuldbindingum án tillits til þjóðernis vátryggingartaka og vátryggðra.
144. gr. Skipti á upplýsingum á milli eftirlitsstjórnvalda.
Fjármálaeftirlitið skal veita öðrum eftirlitsstjórnvöldum í aðildarríkjum allar nauðsynlegar upplýsingar vegna samtrygginga.
XXIII. kafli. Endurskipulagningarráðstafanir.
145. gr. Endurskipulagning fjárhags.
Með endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélags er átt við ráðstöfun sem felur í sér íhlutun dómstóls og er ætlað að tryggja eða endurreisa fjárhagslega stöðu vátryggingafélags og hafa áhrif á réttindi aðila annarra en vátryggingafélagsins sjálfs. Til slíkra ráðstafana teljast greiðslustöðvun og nauðasamningar.
Að öðru leyti en mælt er fyrir í lögum þessum gilda lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, um heimild vátryggingafélags til greiðslustöðvunar og til að leita nauðasamnings. Dómstóll skal sjá til þess að Fjármálaeftirlitinu verði tilkynnt þegar í stað um framkomna beiðni vátryggingafélags um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings.
Endurskipulagning á fjárhag vátryggingafélags kemur ekki í veg fyrir að slitameðferð hefjist.
Úrskurður dómstóls í öðru aðildarríki um endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélags með höfuðstöðvar í því aðildarríki tekur til útibúa vátryggingafélagsins hér á landi.
146. gr. Upplýsingar til eftirlitsstjórnvalda.
Dómstóll skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu þegar í stað um úrskurð um greiðslustöðvun vátryggingafélags eða heimild þess til að leita nauðasamnings. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna eftirlitsstjórnvöldum annarra aðildarríkja svo skjótt sem kostur er um slíkan úrskurð.
147. gr. Birting úrskurðar.
Úrskurður um endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélags skal birtur í Lögbirtingablaði. Einnig skal birta útdrátt um úrskurðinn í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Í úrskurði skal koma fram hver úrskurðaði, á grundvelli hvaða laga og hver er tilnefndur aðstoðarmaður við greiðslustöðvun eða umsjónarmaður með nauðasamningum samkvæmt lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
Úrskurður um endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélags gildir frá úrskurðardegi þrátt fyrir ákvæði um birtingu í 1. mgr. og gildir að fullu gagnvart lánardrottnum, nema dómstóll kveði á um annað.
Ef endurskipulagning fjárhags vátryggingafélags hefur einungis áhrif á rétt hluthafa eða starfsmanna í vátryggingafélaginu, í þeirri stöðu sem þeir gegna sem slíkir, gilda 1. og 2. mgr. ekki, nema kveðið sé á um annað í lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
Fjármálaeftirlitið hefur heimild til að birta úrskurði um endurskipulagningu frá eftirlitsstjórnvöldum annarra aðildarríkja, sbr. 146. gr.
148. gr. Tilkynningar til þekktra lánardrottna.
Tilkynna skal lánardrottnum úrskurð um heimild vátryggingafélags til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings í samræmi við ákvæði 13. og 44. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
Lánardrottni sem á lögheimili eða hefur fasta búsetu eða höfuðstöðvar í öðru aðildarríki er heimilt að lýsa kröfu skv. 45. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. á tungumáli þess ríkis.
Í tilkynningu skv. 1. mgr. til vátryggingartaka, vátryggðra og annarra sem eiga kröfu á vátryggingafélag vegna vátryggingarsamninga og eiga lögheimili eða hafa fasta búsetu eða höfuðstöðvar í öðru aðildarríki skal sérstaklega tekið fram hver áhrif úrskurður um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings hafi á vátryggingarsamning og upplýsingar um réttindi og skyldur þeirra. Skal tilkynningin vera á tungumáli þess ríkis þar sem viðkomandi á lögheimili eða hefur fasta búsetu eða höfuðstöðvar.
149. gr. Framkvæmd endurskipulagningar fjárhags.
Um framkvæmd endurskipulagningar fjárhags gilda lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, nema á annan veg sé mælt fyrir í ákvæði þessu.
Vinnusamningur skal fara eftir lögum þess ríkis sem um vinnusamninginn og vinnusambandið gilda.
Samningur um notkun eða kaup fasteignar skal fara eftir lögum þess ríkis þar sem fasteignin er staðsett.
Réttur vátryggingafélags vegna fasteignar, skips eða [loftfars]1) skal fara eftir lögum þess ríkis þar sem opinber skráning hefur farið fram.
Heimild vátryggingafélags til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings skal ekki hafa áhrif á rétt veðhafa vegna eignarréttinda sem eru í öðru aðildarríki þegar heimildin er veitt. Íslensk lög gilda þó um réttindi og skyldur aðila sem lúta opinberu eftirliti hérlendis.
Hafi vátryggingafélag keypt eign með eignarréttarfyrirvara hefur heimild vátryggingafélagsins til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings ekki áhrif á réttindi seljanda sem byggjast á fyrirvaranum ef eign er í öðru aðildarríki. Heimild vátryggingafélagsins til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings hefur ekki áhrif á sölu vátryggingafélags á eign hafi afhending þegar farið fram og eignin verið í öðru aðildarríki þegar heimildin var veitt.
[Með fyrirvara um 5. mgr. skulu áhrif endurskipulagningar fjárhags vátryggingafélags á réttindi og skyldur aðila að skipulegum verðbréfamarkaði ráðast af lögum þess ríkis sem um markaðinn gilda.]2)
Þrátt fyrir ákvæði [5.–7. mgr.]2) er heimilt að beita ákvæðum III. kafla laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936, um ógilda löggerninga, nema lög gistiríkis heimili ekki slíkt.
Hafi vátryggingafélag selt fasteign, skip eða [loftfar]1) sem háð er opinberri skráningu eða framseljanleg verðbréf eða önnur verðbréf á skipulegum [markaði]3) eftir að heimild hefur verið fengin til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings skulu lög þess ríkis þar sem eign er eða þar sem hin opinbera skráning hefur farið fram gilda um lögmæti löggerningsins.
Um áhrif heimildar vátryggingafélags til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings á málshöfðun vegna eignar eða annarra réttinda sem vátryggingafélag hefur látið af hendi fer eftir lögum þess aðildarríkis þar sem málið var höfðað.
Úrræði þau sem aðstoðarmaður skuldara við greiðslustöðvun og umsjónarmaður með nauðasamningi geta beitt samkvæmt íslenskum lögum hafa þeir jafnframt í öðrum aðildarríkjum. Við beitingu slíkra úrræða í öðru aðildarríki skal þó fara eftir lögum þess aðildarríkis eftir því sem við á.
1)L. 80/2022, 269. gr. 2)L. 82/2021, 23. gr. 3)L. 115/2021, 148. gr.
XXIV. kafli. Slitameðferð vátryggingafélags.
150. gr. Ákvörðun um slitameðferð.
Fjármálaeftirlitið tekur ákvörðun um að hefja slitameðferð vátryggingafélags, þar á meðal útibús þess í öðru aðildarríki. Ákvörðunin er óháð því hvort beiðni hafi verið lögð fram um endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélags eða úrskurður upp kveðinn um það.
Fjármálaeftirlitið skal, svo skjótt sem kostur er, gera eftirlitsyfirvöldum aðildarríkja kunnugt um þá ákvörðun að hefja slitameðferð og um áhrif slíkra ráðstafana.
151. gr. Skilyrði og upphaf slitameðferðar.
Fjármálaeftirlitið hefur heimild til að taka ákvörðun um upphaf slitameðferðar:
1. Hafi það afturkallað starfsleyfi vátryggingafélagsins.
2. Samkvæmt ósk stjórnar félagsins ef skylt er að slíta því samkvæmt samþykktum þess.
3. Samkvæmt ósk stjórnar félagsins ef það getur ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar þess muni líða hjá innan skamms tíma.
4. Samkvæmt ósk stjórnar félagsins og að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins ef ákveðið hefur verið að slíta því á hluthafafundi enda hafi tillaga um slit verið samþykkt þar með minnst 2/3 hlutum greiddra atkvæða og af hluthöfum sem ráða yfir minnst 2/3 hlutum þess hlutafjár sem farið var með atkvæði fyrir á fundi.
Hafi Fjármálaeftirlitið tekið ákvörðun um að hefja slitameðferð vátryggingafélags, sbr. 150. gr., skal starfsleyfi þess afturkallað í samræmi við ákvæði 122. gr.
152. gr. Skipun slitastjórnar.
Verði ákveðið að vátryggingafélag skuli tekið til slitameðferðar skal
Fjármálaeftirlitið skipa [allt að]1) þriggja manna slitastjórn til að sjá um slitameðferð félagsins. Slitastjórn tekur við öllum heimildum stjórnar og jafnframt falla niður heimildir hennar. Auk þess verður réttur hluthafa til að taka ákvarðanir um málefni félagsins á grundvelli eignarhluta sinna óvirkur. Slitastjórn skal þegar kalla saman hluthafafund og kynna hluthöfum hvernig komið er. Slitastjórn skal svo fljótt sem verða má gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fá yfirsýn yfir fjárhag félagsins.
Á meðan slitastjórn ræður yfir félaginu gilda sömu takmarkanir á heimildum til að beita fullnustuaðgerðum og öðrum þvingunarúrræðum gagnvart því og ef það hefði fengið heimild til greiðslustöðvunar. Skal slitastjórn því aðeins gera ráðstafanir um meiri háttar hagsmuni félagsins að brýna nauðsyn beri til.
Laun slitastjórnar og kostnaður hennar skal greiðast af eignum hlutaðeigandi vátryggingafélags sem krafa utan skuldaraðar. Sama á við um kostnað vegna meðferðar kröfu Fjármálaeftirlitsins um gjaldþrotaskipti. Fjármálaeftirlitið og slitastjórn eru undanþegin ákvæðum 2. mgr. 67. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., um að leggja fram tryggingu tiltekinnar fjárhæðar fyrir kostnaði.
1)L. 27/2019, 1. gr.
153. gr. Félagsslit og áframhaldandi rekstur.
Fjármálaeftirlitið skal í samráði við slitastjórn taka ákvörðun um hvort óska skuli gjaldþrotaskipta á félaginu eða hvort það skuli rekið áfram. Fjármálaeftirlitið getur takmarkað eða bannað ráðstöfun félags yfir fjármunum sínum og gert kröfu um að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta telji það líkur á að hagsmunum vátryggingartaka og vátryggðra sé að öðrum kosti stefnt í hættu.
Ef ákvörðun er tekin um að reka skuli félagið áfram skal Fjármálaeftirlitið, að höfðu samráði við slitastjórn, taka ákvörðun um hvort félagið skuli leitast við að flytja vátryggingastofn sinn til eins eða fleiri vátryggingafélaga eða hvort félagið skuli freista þess að ljúka uppgjöri vegna hans með öðrum hætti. Fjármálaeftirlitið getur þegar um líftryggingafélag er að ræða ákveðið að líftryggingastofninn sæti sérstakri meðferð skv. 156. gr.
Telji Fjármálaeftirlitið að hagsmuna vátryggingartaka og vátryggðra verði best gætt með því að reka félagið áfram og ljúka uppgjöri vátryggingastofns er slitastjórn félagsins undanþegin ákvæði 2. mgr. 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og 1. mgr. 105. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995.
Ef tekin er ákvörðun um að ljúka uppgjöri vátryggingastofns skal slitastjórn leggja áætlun fyrir Fjármálaeftirlitið til samþykktar um með hvaða hætti skuli ljúka uppgjörinu, þ.m.t. um uppgjör tjóna og áætluð tímamörk uppgjörs. [Seðlabanki Íslands]1) getur sett reglur um gerð og inntak slíkrar áætlunar og hvaða gögn skuli fylgja henni.
1)L. 91/2019, 120. gr.
154. gr. Eftirlit með áframhaldandi rekstri.
Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með rekstri vátryggingafélags sem er stýrt af slitastjórn, þrátt fyrir afturköllun starfsleyfis þess. Dótturfélag vátryggingafélags í slitameðferð sem heldur utan um eignir þess skal jafnframt heyra undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Eftirlitið nær m.a. til viðskiptahátta og þess hvort framganga félagsins gagnvart viðskiptavinum þess sé í samræmi við það sem almennt tíðkast hjá vátryggingafélögum með gilt starfsleyfi.
Viðskipti og ráðstöfun eigna vátryggingafélags sem stýrt er af slitastjórn eða viðskipti slitastjórnar við einstaka aðila sem sitja í slitastjórn, eða aðila í nánum tengslum við slíkan aðila, skulu fara að reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur. Fjármálaeftirlitið skal, að eigin frumkvæði eða á grundvelli ábendinga kröfuhafa, hafa eftirlit með slíkum viðskiptum.
Neitun á kröfu Fjármálaeftirlitsins um afhendingu gagna getur varðað brottrekstri úr slitastjórn.
Fjármálaeftirlitið getur vikið slitastjórn frá í heild eða að hluta í þeim tilvikum þegar viðkomandi slitastjórn telst ekki hafa unnið störf sín í samræmi við 2. og 3. mgr. eða eftir atvikum samkvæmt öðrum lagaákvæðum.
155. gr. Flutningur vátryggingastofns.
Ef tekin hefur verið ákvörðun um að hagsmuna vátryggingartaka og vátryggðra sé best gætt með flutningi vátryggingastofns að hluta eða öllu leyti til eins eða fleiri vátryggingafélaga skal birta opinberlega helstu efnisatriði samkomulags þar að lútandi.
Slitastjórn skal tilkynna vátryggingartökum, vátryggðum og öðrum sem kröfu eiga á vátryggingafélag vegna vátryggingarsamninga og eiga lögheimili eða hafa fasta búsetu eða höfuðstöðvar í öðru aðildarríki um fyrirhugaðan flutning vátryggingastofnsins. Sú tilkynning skal vera á tungumáli þess ríkis þar sem viðkomandi á lögheimili eða hefur fasta búsetu eða höfuðstöðvar.
Slitastjórn skal auglýsa eftir athugasemdum vátryggingartaka og vátryggðra er berast skulu innan mánaðar frá birtingu tilkynningar.
Að teknu tilliti til athugasemda skal slitastjórn taka ákvörðun í samráði við Fjármálaeftirlitið um hvort unnt sé að yfirfæra vátryggingastofna á þann hátt sem lagt er til.
156. gr. Sérstök meðferð líftryggingastofns.
Ef skipuð er slitastjórn í félagi sem stundar líftryggingastarfsemi og ákveðið er að líftryggingastofn þess skuli sæta sérstakri meðferð skal Fjármálaeftirlitið þegar í stað taka í sínar vörslur þær eignir sem mæta eiga líftryggingaskuldinni, láta endurreikna hana og leggja mat á verðmæti eigna. Ljúka skal greiðslu áfallinna og tilkynntra líftryggingakrafna samkvæmt reglum sem giltu áður en slitastjórn var skipuð. Líftryggingakröfur sem falla til útborgunar síðar má greiða út að því marki er Fjármálaeftirlitið telur forsvaranlegt með tilliti til eignastöðu. Endurkaup eru óheimil nema sem greiðsla á lánum gegn veði í líftryggingum hjá félaginu.
Þegar að loknu endurmati skv. 1. mgr. skal Fjármálaeftirlitið leita til annarra líftryggingafélaga um yfirtöku líftryggingastofns og líftryggingaskuldar. Fjármálaeftirlitið skal meta framkomin tilboð og velja það sem það telur hagkvæmast fyrir vátryggða. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna opinberlega um helstu atriði tilboðsins sem það hefur valið og skal jafnframt auglýst eftir athugasemdum frá vátryggingartökum og vátryggðum sem berast skulu skriflega innan eins mánaðar frá birtingu tilkynningarinnar. Að fengnum athugasemdum getur Fjármálaeftirlitið framselt stofninn félagi því er Fjármálaeftirlitið valdi ásamt eignum sem mæta eiga líftryggingaskuldinni, enda tekur viðtakandi þá við öllum skuldbindingum vegna líftrygginganna.
Þeir vátryggingartakar eða vátryggðir, sem athugasemdir hafa gert og ekki vilja samþykkja yfirfærsluna, eiga rétt á að fá endurgreitt verðmæti líftrygginga sinna að svo miklu leyti sem hlutfallsleg eign hrekkur til.
Berist ekki tilboð í líftryggingastofn eða komi ekki fram þau tilboð er Fjármálaeftirlitið vill mæla með skulu eignir hinna vátryggðu greiddar þeim í réttu hlutfalli við verðmæti líftrygginga þeirra.
157. gr. Birting ákvörðunar.
Slitastjórn skal birta ákvörðun um að hefja slitameðferð í Lögbirtingablaði. Jafnframt skal birta útdrátt úr ákvörðuninni um slit í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins sem og upplýsingar um þá löggjöf sem gildir um slitameðferðina. Einnig skal tilgreina þá aðila sem sitja í slitastjórn.
158. gr. Upplýsingagjöf til þekktra kröfuhafa.
Slitastjórn skal tilkynna öllum þekktum kröfuhöfum um slitameðferð vátryggingafélags.
Í tilkynningunni skal lýsa eftir kröfum á félagið eða veita tækifæri til þess að koma að athugasemdum við kröfur, gera grein fyrir tímafrestum til að koma kröfum á framfæri eða gera athugasemdir og hvort eða hverjar afleiðingar það hafi að tímafrestir séu ekki virtir. Í tilkynningu skal einnig koma fram hvaða aðili hefur umboð til að taka við kröfum eða athugasemdum um þær og tilteknar aðrar ráðstafanir sem um kann að vera að ræða. Þá skal koma fram í tilkynningunni hvort kröfuhafar sem eiga forgangskröfur eða njóta veðréttar þurfi að lýsa kröfum sínum.
Fyrirsögn tilkynningar skv. 1. mgr. skal bera með sér að um sé að ræða innköllun eða boð um að gera athugasemdir við kröfu og að virða þurfi tímafresti og skal hún vera á öllum opinberum tungumálum aðildarríkja. Tilkynning til kröfuhafa sem á lögheimili í öðru aðildarríki eða hefur þar fasta búsetu eða höfuðstöðvar skal vera á opinberu tungumáli þess ríkis eða einu af opinberum tungumálum þess ríkis.
Um tilkynningu til aðila sem byggja rétt sinn á vátryggingarsamningi fer skv. 2. og 3. mgr. eftir því sem við á og skal hún vera á opinberu tungumáli eða einu af opinberum tungumálum þess aðildarríkis þar sem viðkomandi á lögheimili eða hefur fasta búsetu eða höfuðstöðvar.
159. gr. Kröfulýsingar og athugasemdir við kröfur.
Í kröfulýsingu eða athugasemdum sem byggjast á 158. gr. skal tilgreina:
1. eðli og fjárhæð kröfu,
2. stofndag kröfu,
3. hvort krafa eigi að njóta forgangs, hafi veðrétt eða eignarréttarfyrirvara,
4. veðandlag kröfu, ef við á.
Kröfuhafa sem á lögheimili eða hefur fasta búsetu eða höfuðstöðvar í öðru aðildarríki skal heimilt að leggja fram kröfulýsingu eða athugasemdir við kröfu á opinberu tungumáli þess ríkis eða einu af opinberum tungumálum þess ríkis. Fyrirsögn kröfulýsingar eða skjals sem hefur að geyma athugasemdir við kröfur skal þó vera á íslensku.
Aðilar sem byggja rétt sinn á vátryggingarsamningi þurfa ekki að gera grein fyrir rétthæð þeirra krafna.
160. gr. Reglubundnar upplýsingar til kröfuhafa.
Slitastjórn skal reglulega veita kröfuhöfum upplýsingar með viðeigandi hætti um framvindu slitameðferðar.
Eftirlitsstjórnvöld í aðildarríkjum geta farið fram á upplýsingar um framvindu slitameðferðar frá Fjármálaeftirlitinu.
161. gr. Slitameðferð og gjaldþrotaskipti vátryggingafélags.
Vátryggingafélag verður ekki tekið til gjaldþrotaskipta nema að kröfu Fjármálaeftirlitsins. Að öðru leyti en mælt er fyrir um í lögum þessum skulu lög nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., gilda um gjaldþrotaskipti vátryggingafélags.
Vátryggingakröfur á hendur vátryggingafélagi skulu ganga næst á undan kröfum skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Vátryggingafélag skal ávallt geta sýnt fram á umfang þeirra krafna sem ganga á undan vátryggingakröfum.
Þegar vátryggingafélag er sett í slitameðferð eða kveðinn er upp úrskurður um gjaldþrotaskipti félagsins skal það ekki hafa áhrif á rétt veðhafa vegna eignarréttinda sem eru í öðru aðildarríki. Íslensk lög gilda þó um réttindi og skyldur aðila sem lúta opinberu eftirliti hérlendis.
Hafi vátryggingafélag keypt eign með eignarréttarfyrirvara skal það ekki hafa áhrif á réttindi seljanda sem byggjast á fyrirvaranum ef eign er í öðru aðildarríki þegar vátryggingafélag er sett í slitameðferð eða kveðinn upp úrskurður um gjaldþrotaskipti félagsins. Slitameðferð og gjaldþrot vátryggingafélags hefur ekki áhrif á sölu vátryggingafélags á eign hafi afhending þegar farið fram og eignin verið í öðru aðildarríki þegar slitameðferð hófst eða úrskurður um gjaldþrotaskipti var kveðinn upp.
[Með fyrirvara um 3. mgr. skulu áhrif upphafs slita- eða gjaldþrotaskiptameðferðar á vátryggingafélagi eða búi þess á réttindi og skyldur aðila að skipulegum verðbréfamarkaði ráðast af lögum þess ríkis sem um markaðinn gilda.]1)
Þrátt fyrir ákvæði [3.–5. mgr.]1) er heimilt að beita ákvæðum III. kafla laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936, eða ákvæðum XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, nema lög gistiríkis heimili ekki slíkt.
Hafi vátryggingafélag selt fasteign, skip eða [loftfar]2) sem háð er opinberri skráningu eða framseljanleg verðbréf eða önnur verðbréf skráð á skipulegum [markaði]3) eftir að vátryggingafélag var sett í slitameðferð eða kveðinn var upp úrskurður um gjaldþrotaskipti félags skulu lög þess ríkis þar sem eign er eða þar sem hin opinbera skráning hefur farið fram gilda um lögmæti löggerningsins.
Um áhrif þess að bú vátryggingafélags sé sett í slitameðferð eða kveðinn upp úrskurður um gjaldþrotaskipti á málshöfðun vegna eignar eða annarra réttinda sem vátryggingafélag hefur látið af hendi fer eftir lögum þess aðildarríkis þar sem málið var höfðað.
Ákvæði 2.–4. mgr. 149. gr. gilda um gjaldþrotaskipti og slitameðferð vátryggingafélags að breyttu breytanda.
Vátryggingafélag skal halda sérstaka skrá yfir eignir sem notaðar eru til að jafna þá vátryggingaskuld sem reiknuð er og ávöxtuð. Samsetningu eigna sem færðar eru í slíka skrá þegar slitameðferð eða gjaldþrotaskipti hefjast skal ekki breytt eftir það og ekki skal færa neinar breytingar í skrána aðrar en leiðréttingar á augljósum ritvillum nema með leyfi Fjármálaeftirlitsins. Eigi að síður skal slitastjórn eða skiptastjóri leggja ávöxtun téðra eigna við þær, sem og virði hreinna iðgjalda sem móttekin eru í tengslum við þá tilteknu vátryggingagrein, frá því að slitameðferð eða gjaldþrotaskipti hefjast og þar til vátryggingakröfur eru greiddar eða þar til vátryggingastofn hefur verið fluttur. Ef afraksturinn af sölu eigna er minni en virði þeirra, eins og það er metið í skránni, skal slitastjórn eða skiptastjóri gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir því með rökstuðningi.
1)L. 82/2021, 24. gr. 2)L. 80/2022, 269. gr. 3)L. 115/2021, 148. gr.
162. gr. Slitameðferð og gjaldþrotaskipti félags með líftryggingastarfsemi.
Ákvæði 161. gr. um slitameðferð og gjaldþrot vátryggingafélags gilda um slitameðferð og gjaldþrot félags með líftryggingastarfsemi nema kveðið sé á um annað í ákvæði þessu.
Ákvæði 156. gr. um sérstaka meðferð líftryggingastofnsins gilda verði ákveðið að slíta félagi með líftryggingastarfsemi og getur Fjármálaeftirlitið krafist allra gagna frá félaginu sem nauðsynleg eru til að unnt sé að ljúka uppgjöri hans og ráðstöfun. Auk opinberrar tilkynningar skv. 2. mgr. 156. gr. skal Fjármálaeftirlitið tilkynna vátryggingartökum, vátryggðum og öðrum sem kröfu eiga á vátryggingafélag vegna vátryggingarsamninga og eiga lögheimili eða hafa fasta búsetu eða höfuðstöðvar í öðru aðildarríki um fyrirhugaðan flutning vátryggingastofnsins. Slík tilkynning skal vera á tungumáli þess ríkis þar sem viðkomandi á lögheimili eða hefur fasta búsetu eða höfuðstöðvar.
Við slitameðferð eða gjaldþrotaskipti líftryggingafélags skal hvorki telja eignir sem mæta eiga líftryggingaskuldinni með eignum félagsins né líftryggingaskuldina með skuldum þess. Hafi ekki tekist að ljúka greiðslu líftryggingakröfu með eignum þeim sem mæta eiga líftryggingaskuldinni fer um líftryggingakröfuna á hendur félaginu skv. 2. mgr. 161. gr.
163. gr. Meðferð útibúa vátryggingafélaga með höfuðstöðvar utan aðildarríkja.
Þegar vátryggingafélag sem hefur höfuðstöðvar utan aðildarríkja hefur útibú í fleiri en einu aðildarríki skal líta á útibú þess hér á landi sem sjálfstæða einingu við endurskipulagningu fjárhags eða slit þess. Fjármálaeftirlitið skal leitast við að samræma endurskipulagningaraðgerðir og slitameðferð með viðeigandi eftirlitsstofnunum.
164. gr. Frjáls slit.
Þegar tekin er ákvörðun um frjáls slit samkvæmt samþykktum vátryggingafélags skal félagið leggja fyrir Fjármálaeftirlitið greinargerð um óuppgerðar vátryggingaskuldbindingar þess og á hvern hátt ætlunin sé að ljúka þeim.
Fjármálaeftirlitið skal meta og taka ákvörðun um hvort hagsmunum vátryggingartaka og vátryggðra telst best borgið með flutningi vátryggingastofns til annars eða annarra félaga og ef um líftryggingastofn er að ræða hvort stofninn skuli sæta sérstakri meðferð, sbr. 156. gr.
Um frjáls slit vátryggingafélags gilda ákvæði 157.–162. gr. eftir því sem við á.
XXV. kafli. Viðurlög.
165. gr. Stjórnvaldssektir.
Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn:
1. 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. varðandi leyfisskylda starfsemi.
2. 4.–5. gr. um starfsheimildir.
3. 8. gr. um takmörkun á milligöngu vegna frumtryggingastarfsemi.
4. 3. mgr. 10. gr. um fyrirmæli Fjármálaeftirlitsins um að ráðin verði bót á því sem úrskeiðis hefur farið.
5. 4. mgr. 10. gr., sbr. 9. gr., um að fara að reglum [Seðlabanka Íslands]1) um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti vátryggingafélaga.
6. 11. gr. um heimild til að bera heiti sem gefur vátryggingastarfsemi til kynna.
7. 16. gr. um að senda skuli breytingar á samþykktum vátryggingafélags til Fjármálaeftirlitsins innan viku frá samþykkt þeirra.
8. 1. mgr. 27. gr. um leyfisumsókn til Fjármálaeftirlitsins ef vátryggingafélag með starfsleyfi hér á landi hyggst taka upp nýjan greinaflokk vátrygginga eða vátryggingagrein eða breyta starfsemi sinni í verulegum atriðum.
9. 31. gr. um gagnaskil til Fjármálaeftirlitsins.
10. 35. og 36. gr. um samruna.
11. 6. mgr. 39. gr. um fyrirmæli Fjármálaeftirlitsins um úrbætur.
12. 2.–5. mgr. 40. gr. um viðskipti stjórnarmanna eða tengdra aðila við vátryggingafélagið.
13. 7. mgr. 40. gr. um tilkynningu um þóknun stjórnarmanna eða [framkvæmdastjóra].2)
14. 8. mgr. 40. gr. um tilkynningarskyldu vegna málefna sem geta haft úrslitaþýðingu fyrir áframhaldandi starfsemi félagsins.
15. 2. og 4. mgr. 41. gr. um tilkynningu um skipan og síðari breytingar á skipan stjórnar, [framkvæmdastjóra]2) og þeirra sem ábyrgð bera á lykilstarfssviðum.
16. 4. mgr. 42. gr. um takmarkanir á störfum stjórnarformanns.
17. 44. gr. um áhættustýringu.
18. 45. gr. um eigið áhættu- og gjaldþolsmat.
19. 48. gr. um hæfi aðila sem sinna starfssviði tryggingastærðfræðings.
20. 49. gr. um útvistun.
21. 52. gr. um takmörkun arðgreiðslna.
22. 53. gr. um ársreikninga.
23. 54. gr. um skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu.
24. 58. gr. um að tilkynna um virkan eignarhlut.
25. 63. gr. um að óhæfur aðili eignist virkan eignarhlut.
26. 64. gr. um tilkynningu eiganda um aðilaskipti.
27. 65. gr. um tilkynningu vátryggingafélags um aðilaskipti.
28. 66. gr. um upplýsingaskyldu.
29. 1. mgr. 69. gr. um hámark eigin hluta.
30. 2. mgr. 69. gr. um lánveitingu með veði í eigin hlutabréfum.
31. 70. og 71. gr. um hæfi og upplýsingaskyldu endurskoðanda.
32. 72. gr. um mörk líftryggingafélaga og skaðatryggingafélaga.
33. 75. gr. um vátryggingaskuld.
34. 90. gr. um notkun stuðningsgjaldþolsliðar.
35. 3. mgr. 100. gr. um samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir notkun eigin stika.
36. 104. gr. um samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir notkun eigin líkans.
37. 2. mgr. 112. gr. um ársfjórðungslega ákvörðun lágmarksfjármagns.
38. 123. gr. um heimild vátryggingafélags með starfsleyfi hér á landi til að opna útibú í öðru aðildarríki.
39. 124. og 126. gr. vegna starfsemi erlendra aðila hér á landi.
40. 125. gr. um heimild vátryggingafélags með starfsleyfi hér á landi til að veita þjónustu í öðru aðildarríki án starfsstöðvar.
41. 130. gr. um heimild vátryggingafélags með starfsleyfi hér á landi til að hefja starfsemi í ríki utan aðildarríkja.
42. 133. gr. um heimild til flutnings vátryggingastofns.
43. 139. gr. um uppgjör vátryggingafélags sem misst hefur starfsleyfi.
44. 1. mgr. 164. gr. um skil greinargerðar til Fjármálaeftirlitsins vegna ákvörðunar um frjáls slit.
Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 10 þús. kr. til 20 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 100 þús. kr. til 50 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. [Ákvarðanir um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar.]3) Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekinn fyrirsvarsmann lögaðilans, starfsmann hans eða annan aðila sem starfar á hans vegum. Hafi fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum með saknæmum hætti brotið gegn lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra í starfsemi lögaðilans má gera honum refsingu, auk þess að gera lögaðilanum sekt.
1)L. 91/2019, 122. gr. 2)L. 82/2021, 25. gr. 3)L. 91/2019, 123. gr.
166. gr. Sátt.
Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila, enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. [Seðlabanki Íslands]1) setur nánari reglur2) um framkvæmd ákvæðisins.
1)L. 91/2019, 120. gr. 2)Rg. 326/2019.
167. gr. Réttur einstaklinga.
Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.
168. gr. Fyrning stjórnvaldssektar.
Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.
169. gr. Sektir eða fangelsi.
Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn ákvæðum:
1. 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. varðandi leyfisskylda starfsemi.
2. 3. mgr. 10. gr. um að ekki sé farið að fyrirmælum Fjármálaeftirlitsins um að ráðin verði bót á því sem úrskeiðis hefur farið.
3. 4. mgr. 10. gr., sbr. 9. gr., um að fara að reglum [Seðlabanka Íslands]1) um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti vátryggingafélaga.
4. 5. mgr. 48. gr. um tilkynningarskyldu tryggingastærðfræðings til Fjármálaeftirlitsins.
5. 52. gr. um takmörkun arðgreiðslna.
6. 53. gr. um ársreikninga.
7. 58. gr. um að tilkynna ekki um virkan eignarhlut.
8. 63. gr. um að óhæfur aðili eignist virkan eignarhlut.
9. 66. gr. um upplýsingaskyldu.
10. 1. mgr. 69. gr. um hámark eigin hluta.
11. 2. mgr. 69. gr. um lánveitingu gegn veði í eigin hlutabréfum.
12. 70. og 71. gr. um hæfi og upplýsingaskyldu endurskoðanda.
13. 1. mgr. 117. gr. um tilkynningu vegna ónógs gjaldþols.
14. 1. og 2. mgr. 118. gr. um ráðstafanir vegna ónógs lágmarksfjármagns.
15. 139. gr. um uppgjör vátryggingafélags sem misst hefur starfsleyfi.
Þá varðar það sömu refsingu að gefa vísvitandi rangar eða villandi upplýsingar um hagi vátryggingafélags eða annað er það varðar, opinberlega eða til Fjármálaeftirlitsins, annarra opinberra aðila eða viðskiptamanna.
1)L. 91/2019, 122. gr.
170. gr.
Brot gegn lögum þessum er varða sektum eða fangelsi varða refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum eða fangelsi.
Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
171. gr. Ákvörðun kæru og afhending gagna.
Brot gegn lögum þessum sæta aðeins rannsókn sakamáls að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins til lögreglu.
Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Fjármálaeftirlitið hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Fjármálaeftirlitinu að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum eða ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Fjármálaeftirlitið á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til opinberrar rannsóknar. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
Með kæru Fjármálaeftirlitsins skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að kæra mál til lögreglu.
Fjármálaeftirlitinu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar og gögn sem hún hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Fjármálaeftirlitsins sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Fjármálaeftirlitsins til meðferðar og ákvörðunar.
XXVI. kafli. Önnur ákvæði.
172. gr. Fjárhæðir í evrum.
Fjárhæðir í evrum sem vísað er til í þessum lögum skulu uppfærðar á fimm ára fresti. Miða skal við breytingar á samræmdri vísitölu neysluverðs í Evrópusambandinu, grunnvísitölu frá 31. desember 2015. Nemi breytingar á vísitölunni lægri hlutfallstölu en 5% á tímabilinu skulu fjárhæðir haldast óbreyttar. Fjármálaeftirlitið skal birta uppfærðar fjárhæðir í íslenskum krónum.
173. gr. Innleiðing.
Með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 78/2011, frá 1. júlí 2011, sem birt var 6. október 2011 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54, eru með lögum þessum tekin upp ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/138/EB, um stofnun og rekstur vátryggingafélaga. Einnig eru tekin upp ákvæði tilskipunar 2014/51/ESB sem breytti tilskipun 2009/138/EB, að undanskildum ákvæðum er varða valdheimildir Evrópsku vátrygginga- og [lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar]1) (EIOPA) og ákvæðum um vátryggingasamstæður.
[Með lögum þessum eru tekin upp þau ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/51/ESB, sem breytti m.a. tilskipun 2009/138/EB og reglugerð (ESB) nr. 1094/2010, sem ekki hafa þegar verið lögleidd hér á landi.]2)
1)L. 36/2018, 5. gr. 2)L. 36/2018, 16. gr.
174. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. október 2016.
…
Lög nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, skulu þó gilda um vátryggingafélög sem lúta stjórn skilastjórnar við gildistöku laga þessara [að undanskilinni 3. mgr. 91. gr. a].1)
1)L. 36/2018, 17. gr.
Ákvæði til bráðabirgða.
Fullnægi vátryggingafélag kröfum um lágmarksgjaldþol samkvæmt ákvæðum 31.–34. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 56/2010, 31. desember 2015 án þess að hafa nægilega viðurkennda gjaldþolsliði til að mæta lágmarksfjármagni samkvæmt ákvæðum XVII. kafla þessara laga hefur félagið frest til 31. desember 2016 til þess að fullnægja kröfum skv. XVII. kafla. Mæti félagið ekki kröfunum innan þess tíma fellur starfsleyfi þess sjálfkrafa niður.
Fullnægi vátryggingafélag kröfum um lágmarksgjaldþol samkvæmt ákvæðum 31.–34. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 56/2010, 31. desember 2015 án þess að hafa nægilega viðurkennda gjaldþolsliði til að mæta gjaldþolskröfu samkvæmt ákvæðum XVI. kafla þessara laga hefur félagið frest til 31. desember 2017 til þess að fullnægja kröfunum. Vátryggingafélagið skal á þriggja mánaða fresti skila framvinduskýrslu til Fjármálaeftirlitsins þar sem fram kemur til hvaða aðgerða hefur verið gripið og hvaða árangur hefur náðst. Undanþága þessi fellur niður leiði framvinduskýrsla í ljós að ekki hefur náðst viðunandi árangur við að fullnægja gjaldþolskröfu.
Þrátt fyrir ákvæði 10. mgr. 31. gr. um skilafrest gagna til Fjármálaeftirlitsins skal frestur til að skila árlegum gögnum vegna áranna 2016–2018 vera eftirfarandi:
1. Gögnum vegna reikningsárs sem lýkur fyrir 31. desember 2016 skal skilað eigi síðar en 20 vikum eftir lok ársins.
2. Gögnum vegna reikningsársins 2017 skal skilað eigi síðar en 18 vikum eftir lok ársins.
3. Gögnum vegna reikningsársins 2018 skal skilað eigi síðar en 16 vikum eftir lok ársins.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 54. gr. skulu vátryggingafélög birta skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu með eftirfarandi hætti:
1. Skýrsla vegna ársins 2016 skal birt eigi síðar en 20 vikum eftir lok ársins.
2. Skýrsla vegna ársins 2017 skal birt eigi síðar en 18 vikum eftir lok ársins.
3. Skýrsla vegna ársins 2018 skal birt eigi síðar en 16 vikum eftir lok ársins.
Þrátt fyrir ákvæði 11. mgr. 31. gr. um skilafrest gagna til Fjármálaeftirlitsins skal frestur vegna áranna 2016–2018 til að skila ársfjórðungslegum gögnum vera eftirfarandi:
1. Gögnum vegna ársfjórðunga ársins 2016 skal skilað eigi síðar en 8 vikum eftir lok ársfjórðungs.
2. Gögnum vegna ársfjórðunga ársins 2017 skal skilað eigi síðar en 7 vikum eftir lok ársfjórðungs.
3. Gögnum vegna ársfjórðunga ársins 2018 skal skilað eigi síðar en 6 vikum eftir lok ársfjórðungs.
Þrátt fyrir ákvæði 92. gr. skulu kjarnagjaldþolsliðir flokkaðir sem gjaldþolsþáttur 1 í tíu ár frá gildistöku laga þessara með þeim skilyrðum að:
1. Liðirnir hafi verið útgefnir fyrir gildistöku laga þessara.
2. Unnt hafi verið að nota liðina fyrir gildistöku laga þessara til að fullnægja allt að 50% af lágmarksgjaldi skv. lögum nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi.
3. Liðirnir mundu ekki að öðru leyti flokkast sem gjaldþolsþáttur 1 eða 2 skv. 92. gr.
Þrátt fyrir ákvæði 92. gr. skulu kjarnagjaldþolsliðir flokkaðir sem gjaldþolsþáttur 2 í tíu ár frá gildistöku laga þessara með þeim skilyrðum að:
1. Liðirnir hafi verið útgefnir fyrir gildistöku laga þessara.
2. Unnt hafi verið að nota liðina fyrir gildistöku laga þessara til að fullnægja allt að 25% af lágmarksgjaldi samkvæmt lögum nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi.