Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um skráningu raunverulegra eigenda

2019 nr. 82 27. júní


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 6. júlí 2019. EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 2015/849. Breytt með: L. 141/2019 (tóku gildi 1. jan. 2020). L. 143/2019 (tóku gildi 28. des. 2019). L. 96/2020 (tóku gildi 23. júlí 2020; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 15. gr.; EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 2018/843, 2018/1108, 2019/758 (gerðirnar hafa ekki verið teknar formlega upp í EES-samninginn)). L. 139/2022 (tóku gildi 10. jan. 2023).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við menningar- og viðskiptaráðherra eða menningar- og viðskiptaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að tryggja að ávallt séu til staðar réttar og áreiðanlegar upplýsingar um raunverulega eigendur aðila skv. 2. gr. svo að unnt sé að greina og koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Skrá skal upplýsingar um raunverulega eigendur aðila skv. 2. gr. í fyrirtækjaskrá sem starfrækt er af ríkisskattstjóra.
2. gr. Gildissvið.
Lög þessi gilda um lögaðila sem stunda atvinnurekstur hér á landi eða eru skráðir í fyrirtækjaskrá, þ.m.t. útibú erlendra hlutafélaga og einkahlutafélaga.
Lögin gilda um erlenda fjárvörslusjóði eða sambærilega aðila sem eiga viðskipti hér á landi, sbr. 5. gr.
Lögin gilda ekki um stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga né heldur um lögaðila sem skráðir eru á skipulegum markaði samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir.
Í vafatilvikum sker ríkisskattstjóri úr um það hvort aðili eða flokkur aðila heyrir undir lög þessi.
3. gr. Orðskýringar.
Í lögum þessum merkir:
   1. Raunverulegur eigandi: Raunverulegur eigandi samkvæmt skilgreiningu í 13. tölul. 3. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018.
   2. Skráningarskyldir aðilar: Aðilar sem falla undir gildissvið laganna skv. 2. gr.
   3. Stjórnvöld sem hafa með höndum eftirlit eða gegna réttarvörsluhlutverki samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka: Skattrannsóknarstjóri, ríkisskattstjóri, lögregla, héraðssaksóknari, [tollyfirvöld]1) og Fjármálaeftirlitið.
   4. Tegund eignarhalds: Beint eða óbeint eignarhald á hlutafé eða annars konar eignarheimildum, atkvæðavægi eða annars konar beint eða óbeint ákvörðunarvald, tilnefning stjórnarmanna eða annars konar bein eða óbein yfirráð eða stjórnun skráðs aðila skv. 2. gr.
   1)L. 141/2019, 44. gr.

II. kafli. Skráning upplýsinga um raunverulega eigendur.
4. gr. Upplýsingar um raunverulega eigendur.
Aðilar skv. 2. gr. skulu afla upplýsinga um raunverulega eigendur, þ.m.t. upplýsinga um réttindi raunverulegra eigenda sinna. Í undantekningartilfellum þar sem ekki er mögulegt að finna raunverulegan eiganda, t.d. vegna svo dreifðs eignarhalds að engir einstaklingar eiga eða stýra skráningarskyldum aðila í skilningi laga þessara, eða ef vafi leikur á um eignarhald, skal sá einstaklingur, einn eða fleiri, sem stjórnar starfsemi lögaðilans teljast raunverulegur eigandi. [Skráningarskyldum aðilum ber að grípa til viðeigandi ráðstafana til að tryggja að upplýsingar um raunverulega eigendur séu réttar. Ef tilefni er til skal kanna hvort breytingar hafi átt sér stað. Raunverulegum eiganda er skylt að veita skráningarskyldum aðila upplýsingar skv. 2. mgr. sé þess óskað.]1)
Skráningarskyldir aðilar skulu, með tilkynningu, veita ríkisskattstjóra upplýsingar um raunverulega eigendur eins og þeir eru skilgreindir í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Veita skal upplýsingar um:
   a. nafn,
   b. lögheimili,
   c. kennitölu eða fæðingardag ef kennitölu er ekki til að dreifa,
   d. ríkisfang,
   e. eignarhlut, tegund eignarhalds, dagsetningu eigendaskipta og
   f. gögn sem staðfesta veittar upplýsingar og sýna fram á að viðkomandi sé raunverulegur eigandi.
Tilkynna skal um raunverulega eigendur við nýskráningu í fyrirtækjaskrá.
Tilkynningar samkvæmt þessari grein skulu vera á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður og skal málsmeðferðin vera rafræn sé þess kostur.
Ríkisskattstjóri metur hvort veittar upplýsingar séu réttar og fullnægjandi og krefur eftir því sem við á skráningarskylda aðila um frekari upplýsingar eða aflar þeirra sjálfstætt.
Í tengslum við skráningu og viðhald skráningar samkvæmt lögum þessum er einstaklingum og lögaðilum skylt að láta ríkisskattstjóra í té án tafar allar upplýsingar og gögn sem nauðsynleg eru til að tryggja rétta skráningu samkvæmt þessari grein og 5. gr. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða annan aðila sem hann getur veitt upplýsingar um og varða athuganir og eftirlit samkvæmt lögum þessum. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum. Þetta gildir þó ekki um upplýsingar sem lögmaður öðlast við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar hann veitir ráðgjöf um hvort höfða eigi mál eða komast hjá máli, eða upplýsingar sem hann öðlast fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls, ef upplýsingarnar hafa bein tengsl við málið. Vegna starfa sinna getur ríkisskattstjóri gert vettvangskannanir eða óskað upplýsinga á hvern þann hátt sem hagkvæmt þykir og svo oft sem talin er þörf fyrir.
   1)L. 96/2020, 14. gr.
5. gr. Upplýsingar um fjárvörslusjóði og sambærilega aðila.
Einstaklingar og lögaðilar sem sinna fjárvörslu eða öðrum störfum fyrir fjárvörslusjóði eða sambærilega aðila, sbr. 2. mgr. 2. gr., skulu veita ríkisskattstjóra upplýsingar um eftirfarandi:
   a. fjárvörsluaðila,
   b. stofnaðila,
   c. ábyrgðaraðila, ef við á,
   d. rétthafa eða hóp þeirra,
   e. aðra einstaklinga sem hafa yfirráð, beint eða óbeint, yfir fjárvörslusjóði eða sambærilegri ráðstöfun og
   f. gögn sem staðfesta veittar upplýsingar.
Tilkynna skal um upplýsingar skv. 1. mgr. þegar sótt er um útgáfu kennitölu samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá. Hafi skráning átt sér stað án þess að umræddar upplýsingar hafi verið veittar skal úr því bætt að frumkvæði skráðs aðila skv. 1. mgr.
Hafi upplýsingar skv. 1. mgr. verið skráðar í gagnagrunn annars aðildarríkis er ríkisskattstjóra heimilt að telja þá skráningu fullgilda og ber skráðum aðila að afla staðfestingar um að skráning sé til staðar.
Í vafatilvikum sker ríkisskattstjóri úr um hvort aðilar falli undir 1. mgr., sbr. 2. mgr. 2. gr.
Um form tilkynninga, mat á tilkynntum upplýsingum og upplýsingagjöf til ríkisskattstjóra fer að öðru leyti skv. 4.–6. mgr. 4. gr.
6. gr. Tilkynningar um breytingu á áður skráðum upplýsingum.
Skráningarskyldum aðilum er skylt að tilkynna ríkisskattstjóra innan tveggja vikna um allar breytingar sem varða skráningu skv. 4. eða 5. gr.
Tilkynningar skv. 1. mgr. skulu vera á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður og skal málsmeðferðin vera rafræn sé þess kostur.
Tilkynningarskyldir aðilar og eftirlitsaðilar samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka skulu innan tveggja vikna tilkynna ríkisskattstjóra verði þeir í störfum sínum varir við misræmi milli upplýsinga um raunverulega eigendur í fyrirtækjaskrá og upplýsinga sem þeir búa yfir.
Ríkisskattstjóri skal án tafar rannsaka tilkynningar skv. 3. mgr. og grípa til viðeigandi ráðstafana. Ráðstafanir geta m.a. falist í því að merkja tímabundið í fyrirtækjaskrá að raunverulegt eignarhald sæti skoðun og gera breytingar á skráningu reynist hún vera röng.
7. gr. Aðgangur að upplýsingum um raunverulega eigendur.
Upplýsingar um raunverulega eigendur skv. 4. gr. skulu vera aðgengilegar:
   a. skrifstofu fjármálagreininga lögreglu,
   b. eftirlitsaðilum og öðrum stjórnvöldum sem gegna réttarvörsluhlutverki samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,
   c. skattyfirvöldum vegna skatteftirlits, upplýsingaskipta milli landa og skattrannsókna,
   d. tilkynningarskyldum aðilum samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka þegar þeir framkvæma áreiðanleikakönnun og
   e. almenningi.
Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, eftirlitsaðilar og stjórnvöld sem gegna réttarvörsluhlutverki og skattyfirvöld skv. a–c-lið 1. mgr. skulu tímanlega hafa óheftan aðgang að öllum skráðum upplýsingum og gögnum um raunverulega eigendur án þess að hlutaðeigandi aðilum sé gert viðvart.
Tilkynningarskyldir aðilar skv. d-lið 1. mgr. skulu tímanlega hafa aðgang að nauðsynlegum upplýsingum og gögnum.
Almenningur skv. e-lið 1. mgr. skal hafa aðgang að upplýsingum um nafn raunverulegs eiganda, fæðingarmánuð og -ár, búsetuland, ríkisfang og umfang og tegund eignarhalds.
8. gr. Aðgangur að upplýsingum um fjárvörslusjóði og sambærilega aðila.
Upplýsingar um fjárvörslusjóði og sambærilega aðila skv. 5. gr. skulu vera aðgengilegar:
   a. skrifstofu fjármálagreininga lögreglu,
   b. eftirlitsaðilum og öðrum stjórnvöldum sem gegna réttarvörslu samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,
   c. skattyfirvöldum vegna skatteftirlits, upplýsingaskipta milli landa og skattrannsókna,
   d. tilkynningarskyldum aðilum samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka þegar þeir framkvæma áreiðanleikakönnun,
   e. hverjum þeim einstaklingi og lögaðila sem sýnir fram á lögvarða hagsmuni og
   f. hverjum þeim einstaklingi og lögaðila sem með skriflegum hætti óskar eftir upplýsingum um fjárvörslusjóð eða sambærilegan aðila sem fer með eða er eigandi ráðandi eignarhluta í félagi eða öðrum lögaðila, beint eða óbeint, þó ekki aðilum skv. 1. mgr. 2. gr.
Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, eftirlitsaðilar og stjórnvöld sem gegna réttarvörslu og skattyfirvöld skv. a–c-lið 1. mgr. skulu tímanlega hafa óheftan aðgang að öllum skráðum upplýsingum og gögnum um raunverulega eigendur án þess að hlutaðeigandi aðilum sé gert viðvart.
Tilkynningarskyldir aðilar skv. d-lið 1. mgr. skulu tímanlega hafa aðgang að nauðsynlegum upplýsingum og gögnum.
Veita skal aðilum skv. e- og f-lið 1. mgr. aðgang að upplýsingum um nafn rétthafa, fæðingarmánuð og -ár, búsetuland, ríkisfang og umfang og tegund eignarhalds.
9. gr. Takmarkaður aðgangur að upplýsingum um raunverulega eigendur.
Ríkisskattstjóra er heimilt að takmarka aðgang að upplýsingum um eignarhald barna og annarra ólögráða einstaklinga sem skráðar hafa verið skv. 7. og 8. gr. Beiðni um slíkar upplýsingar þarf að rökstyðja sérstaklega. Takmörkun samkvæmt þessari grein gildir ekki um aðila skv. a–d-lið 1. mgr. 7. gr. og a–d-lið 1. mgr. 8. gr.
10. gr. Gjaldtaka.
Ráðherra setur gjaldskrá um gjaldtöku fyrir aðgang að upplýsingum um raunverulega eigendur. Gjald samkvæmt þessari grein skal ekki vera hærra en raunkostnaður við að standa straum af kostnaði við afhendingu upplýsinganna.
11. gr. Varðveisla upplýsinga og gagna.
Aðilar skv. 2. gr. skulu varðveita upplýsingar og gögn skv. 4. og 5. gr. í fimm ár eftir að raunverulegu eignarhaldi lýkur. Að þeim tíma liðnum skal gögnunum eytt.
Ríkisskattstjóri getur kveðið á um að gögn séu varðveitt umfram tímamörk skv. 1. mgr. ef tilefni er til, þó ekki lengur en í fimm ár til viðbótar.
12. gr. Vinnsla persónuupplýsinga.
Vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt lögum þessum skal samræmast lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og eingöngu vera í þeim tilgangi að tryggja að til staðar séu upplýsingar um raunverulegt eignarhald aðila skv. 2. gr. Önnur vinnsla persónuupplýsinga er óheimil á grundvelli þessara laga.
Vinnsla og varðveisla gagna og upplýsinga samkvæmt lögum þessum telst til almannahagsmuna.
III. kafli. Viðurlög.
13. gr. Úrbætur.
Komi í ljós að skráningarskyldur aðili fylgir ekki lögum þessum eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra skal ríkisskattstjóri krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.
14. gr. Dagsektir.
Ríkisskattstjóri getur lagt dagsektir á skráningarskyldan aðila veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar eða sinni ekki kröfum um úrbætur innan hæfilegs frests. Greiðast dagsektir þar til farið hefur verið að kröfum ríkisskattstjóra. Dagsektirnar geta numið frá 10 þús. kr. til 500 þús. kr. á dag og er heimilt að ákveða þær sem hlutfall af tilteknum stærðum í rekstri skráningarskylds aðila. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila.
Dagsektir skulu ákveðnar með úrskurði ríkisskattstjóra.
Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt aðilar verði síðar við kröfum ríkisskattstjóra.
Lækka má eða fella niður dagsektir hafi utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik valdið því að umbeðnar upplýsingar voru ekki lagðar fram eða kröfum um úrbætur ekki sinnt.
Dagsektir sem ákvarðaðar eru samkvæmt þessari grein eru aðfararhæfar.
Innheimtar dagsektir renna til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtuna.
15. gr. Stjórnvaldssektir.
Ríkisskattstjóri getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglugerðum settum á grundvelli þeirra:
   1. 4. gr. um að veita ríkisskattstjóra ekki upplýsingar eða veita rangar eða villandi upplýsingar,
   2. 1.–3. mgr. 5. gr. um að veita ríkisskattstjóra rangar eða villandi upplýsingar,
   3. 1. og 3. mgr. 6. gr. um að uppfæra ekki upplýsingar innan tveggja vikna,
   4. 11. gr. um varðveislu gagna.
Við ákvörðun sekta samkvæmt ákvæði þessu skal m.a. tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t. eftirfarandi:
   a. alvarleika brots,
   b. hvað brotið hefur staðið lengi,
   c. ábyrgðar hins brotlega hjá lögaðilanum,
   d. fjárhagsstöðu hins brotlega,
   e. ávinnings af broti eða taps sem forðað er með broti,
   f. hvort brot hafi leitt til taps þriðja aðila,
   g. hvers konar mögulegra kerfislegra áhrifa brotsins,
   h. samstarfsvilja hins brotlega,
   i. fyrri brota og
   j. hvort um ítrekað brot er að ræða.
Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar með úrskurði ríkisskattstjóra og eru þær aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun ríkisskattstjóra skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 5 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 80 millj. kr. en geta þó verið hærri eða allt að 10% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 10% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu.
Þegar brot á lögum þessum er framið í starfsemi lögaðila, og í þágu hans, má leggja stjórnvaldssekt á lögaðilann án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðila. Hafi fyrirsvarsmaður eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má einnig leggja stjórnvaldssekt á lögaðilann ef brotið var í þágu hans.
Ef einstaklingur eða lögaðili brýtur gegn lögum þessum eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra og fyrir liggur að hann hafi hlotið fjárhagslegan ávinning af broti er heimilt að ákvarða hinum brotlega sektarfjárhæð sem getur, þrátt fyrir 5. mgr., numið allt að tvöfaldri fjárhæð fjárhagslegs ávinnings hins brotlega.
16. gr. Frestur til að leggja á stjórnvaldssektir.
Heimild ríkisskattstjóra til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar eftirlitsaðili tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.
17. gr. Heimild til afskráningar og slita skráningarskylds aðila.
Sinni skráningarskyldur aðili ekki kröfu ríkisskattstjóra um úrbætur skv. 13. gr. innan þriggja mánaða frá því að þess var krafist má fella skráningu hans niður.
Áður en skráning aðila er felld niður skal senda þeim sem eru eða ætla má að séu í fyrirsvari fyrir aðilann samkvæmt skráningu aðvörun þess efnis að aðili verði afskráður úr fyrirtækjaskrá verði úrbætur ekki gerðar innan þess frests sem ríkisskattstjóri setur.
Berist ekkert eða ófullnægjandi svar innan tilskilins frests skal aðvörun um afskráningu send til fyrirsvarsmanna aðilans og annarra sem hagsmuna eiga að gæta og jafnframt birt í Lögbirtingablaðinu. Berist ekki fullnægjandi svar eða athugasemdir innan þess frests sem þar er tiltekinn má fella skráningu aðila niður.
Innan árs frá afskráningu geta raunverulegir eigendur, lánardrottnar eða ríkisskattstjóri gert þá kröfu að bú aðilans verði tekið til skipta í samræmi við 6.–8. mgr. Jafnframt má ríkisskattstjóri breyta skráningu þannig að afskráður aðili sé skráður á nýjan leik enda berist beiðni þar að lútandi innan árs frá afskráningu samkvæmt þessari grein og sérstakar aðstæður réttlæti endurskráningu. Ekki má ráðstafa heiti aðilans á þessum tíma.
Þótt aðili hafi verið felldur af skrá samkvæmt þessari grein breytir það í engu persónulegri ábyrgð sem stjórnar- eða félagsmenn kunna að bera vegna skuldbindinga aðilans.
Þegar héraðsdómara hefur borist krafa um skipti skv. 4. mgr. skal hann fara með hana eftir fyrirmælum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. um meðferð kröfu lánardrottins um að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Héraðsdómari skal kveða upp úrskurð um hvort orðið verði við kröfu um að bú aðilans verði tekið til skipta. Sé krafan tekin til greina skal farið með búið eftir fyrirmælum laga um skipti á dánarbúum o.fl. um meðferð dánarbús þar sem erfingjar taka ekki á sig ábyrgð á skuldbindingum hins látna að öðru leyti en því að eigendur njóta ekki þeirrar stöðu sem erfingjar njóta við slík skipti fyrr en leitt er í ljós eftir lok kröfulýsingarfrests að eignir búsins muni hrökkva fyrir skuldum.
Skráning aðilans í fyrirtækjaskrá skal standa óbreytt eftir að héraðsdómari hefur kveðið upp úrskurð um að bú aðilans verði tekið til skipta.
18. gr. Málshöfðunarfrestur.
Nú vill aðili ekki una ákvörðun skv. 14., 15. eða 17. gr. og getur hann þá höfðað mál til ógildingar hennar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar né heimild til aðfarar samkvæmt henni.
Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila var tilkynnt um hana og óski hann jafnframt eftir að málið hljóti flýtimeðferð er ekki heimilt að innheimta dagsektir eða stjórnvaldssektir fyrr en dómur hefur fallið. Þrátt fyrir málshöfðun til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.
Ákvörðunum samkvæmt lögum þessum verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.

IV. kafli. Önnur ákvæði.
19. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um:
   a. upplýsingar um raunverulega eigendur skv. 4. og 5. gr.,
   b. einkenni fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila skv. 2. mgr. 2. gr.,
   c. nánari skilgreiningu á gildissviði laganna skv. 2. gr.,
   d. aðgang að upplýsingum um raunverulega eigendur skv. 7. og 8. gr. og
   e. álagningu dagsekta og stjórnvaldssekta skv. III. kafla.
20. gr. Innleiðing á tilskipun.
Lög þessi fela í sér innleiðingu á ákvæðum 30. og 31. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849 frá 20. maí 2015 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis eða til fjármögnunar hryðjuverkastarfsemi, um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012, og um niðurfellingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/60/EB og tilskipun ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar 2006/70/EB, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 249/2018, frá 5. desember 2018, um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn (Fjármálaþjónusta), sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 17 frá 28. febrúar 2019, bls. 3–5.
21. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
22. gr. Breytingar á öðrum lögum.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Aðilar skv. 1. mgr. 2. gr. sem þegar eru skráðir í fyrirtækjaskrá skulu veita upplýsingar skv. 2. mgr. 4. gr. eigi síðar en [1. mars]1) 2020.
   1)L. 143/2019, 1. gr.
[II.
Ef skráningarskyldur aðili sem fellur undir ákvæði til bráðabirgða I hefur ekki fullnægt skyldu samkvæmt lögum þessum um að tilkynna um raunverulegan eiganda eða eigendur til fyrirtækjaskrár er ríkisskattstjóra heimilt að krefjast skipta á aðilanum fyrir héraðsdómi, eða eftir atvikum slita á aðilanum í samræmi við ákvæði til bráðabirgða III, að undangenginni málsmeðferð samkvæmt ákvæði þessu. Ákvæði 13. gr. gildir ekki um aðdraganda og meðferð máls samkvæmt ákvæði þessu eða samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III.
Ríkisskattstjóri skal skora á skráningarskyldan aðila að fullnægja skráningarskyldu samkvæmt lögum þessum með eftirgreindum hætti. Í fyrsta lagi skal ríkisskattstjóri senda áskorun til fyrirsvarsmanns aðila á lögheimili hans sem skráð er á tiltekið heimilisfang í þjóðskrá. Með fyrirsvarsmanni er hér átt við þann sem samkvæmt skráningu í fyrirtækjaskrá er stjórnarmaður aðilans ef um eins manns stjórn er að ræða eða formaður stjórnar eða framkvæmdastjóri eða prókúruhafi eða sá sem skráður er í forsvari fyrir aðilann í fyrirtækjaskrá hvað sem líður annars stöðu viðkomandi hjá aðilanum. Nægilegt er að beina áskorun með framangreindum hætti til einhvers þeirra síðastnefndu og telst henni þá hafa verið komið á framfæri við aðilann. Ef enginn er skráður sem fyrirsvarsmaður aðila í framangreindum skilningi eða enginn skráðra fyrirsvarsmanna hefur skráð lögheimili í þjóðskrá er ekki nauðsynlegt að senda áskorun skv. 2.–4. málsl. Í annan stað skal áskorun birt í Lögbirtingablaði þar sem greina skal heiti og kennitölur þeirra skráningarskyldu aðila sem hún beinist að. Í þriðja lagi skal áskorun birt í fjölmiðli þar sem vísað skal til birtingar í Lögbirtingablaði. Í áskorun sem komið er á framfæri á framangreindan hátt skal gefinn tveggja vikna frestur til að fullnægja skráningarskyldu samkvæmt lögum þessum og miðast upphaf frestsins í öllum tilfellum við birtingardag áskorunar í Lögbirtingablaði. Áður en frestinum lýkur getur fyrirsvarsmaður aðila, í skilningi þessarar málsgreinar, þó óskað eftir því að fresturinn verði framlengdur allt að tveimur vikum og ber ríkisskattstjóra að verða við því ef hann telur lögmætar ástæður réttlæta frekari drátt á að skráningarskyldu sé sinnt.
Ef skráningarskyldur aðili hefur ekki sinnt skráningarskyldu fyrir lok frests skv. 2. mgr. er ríkisskattstjóra heimilt án frekari tilkynninga eða aðvarana að taka ákvörðun um að krefjast skipta á honum fyrir héraðsdómi. Ákvæði III.–V., VII. og IX. kafla og 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gilda ekki um þá ákvörðun ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri skal birta í Lögbirtingablaði tilkynningu sem geymir heiti og kennitölur aðila sem hann hefur tekið ákvörðun um að krefjast skipta á samkvæmt framansögðu. Ákvörðun ríkisskattstjóra um að krefjast skipta samkvæmt þessari málsgrein getur einnig orðið grundvöllur að kröfu um slit samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III þar sem við á.
Eftir birtingu tilkynningar í Lögbirtingablaði skv. 3. mgr. er óheimilt að ráðstafa eignum og réttindum skráningarskylds aðila eða stofna til skuldbindinga á hendur honum nema telja megi ráðstöfun nauðsynlega til að forða aðilanum eða kröfuhöfum hans frá verulegu tjóni enda veiti ríkisskattstjóri þá fyrirframheimild til ráðstöfunar hverju sinni. Fyrir brot gegn þessari málsgrein er ríkisskattstjóra heimilt að leggja stjórnvaldssekt á hvern þann sem ábyrgð ber á broti samkvæmt ákvæðum 15. gr. Upplýsingar um skráningarskyldan aðila í fyrirtækjaskrá skulu bera með sér réttarstöðu hans samkvæmt ákvæðum þessarar málsgreinar.
Í kjölfar birtingar tilkynningar í Lögbirtingablaði skv. 3. mgr. sendir ríkisskattstjóri afrit af henni til allra innlendra fjármálafyrirtækja skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki skulu þegar í kjölfar móttöku tilkynningar ríkisskattstjóra læsa innlánsreikningum, greiðslureikningum og vörslureikningum, hverju nafni sem nefnast, í eigu skráningarskyldra aðila sem nefndir eru í tilkynningunni. Með læsingu falla niður allar ráðstöfunarheimildir yfir reikningi sem og viðkomandi eignum og fjármunum nema um sé að ræða ráðstöfun sem ríkisskattstjóri hefur veitt heimild fyrir skv. 4. mgr. Læsingu reiknings skal ekki aflétt nema að fenginni staðfestingu ríkisskattstjóra um að viðkomandi aðili hafi fullnægt skráningarskyldu samkvæmt lögum þessum eða að fenginni staðfestingu ríkisskattstjóra um að aðili hafi verið tekinn til slita eða skipta með endanlegum dómsúrskurði. Samhliða sendingu á afriti tilkynningar skv. 1. málsl. skal ríkisskattstjóri óska eftir upplýsingum frá innlendum fjármálafyrirtækjum skv. 1. málsl. um fjárhagsstöðu skráningarskyldra aðila sem nefndir eru í tilkynningunni og setja hlutaðeigandi fjármálafyrirtækjum hæfilegan frest til að láta þær upplýsingar í té sem skal að jafnaði ekki vera lengri en tvær vikur.
Sinni aðili ekki skráningarskyldu innan fjögurra vikna frá birtingu tilkynningar í Lögbirtingablaði skv. 3. mgr. skal ríkisskattstjóri krefjast skipta á aðila í samræmi við 6.–8. mgr. 17. gr. eða eftir atvikum slita á aðila eftir sérstökum málsmeðferðarreglum ákvæðis til bráðabirgða III. Ákvæði 17. gr. gilda að öðru leyti ekki um aðdraganda og meðferð máls samkvæmt ákvæði þessu eða ákvæði til bráðabirgða III.
Fram að dómsúrskurði um slit eða skipti er ríkisskattstjóra heimilt að afturkalla ákvörðun sína skv. 3. mgr., kröfu um skipti aðila eða kröfu um slit aðila samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III, enda hafi aðili fullnægt skráningarskyldu sinni.]1)
   1)L. 139/2022, 1. gr.
[III.
Ef ríkisskattstjóri hefur tekið ákvörðun um að krefjast skipta á skráningarskyldum aðila skv. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II, og sú ákvörðun hefur ekki verið afturkölluð í samræmi við 7. mgr. sama ákvæðis, þá er ríkisskattstjóra heimilt að krefjast slita á aðilanum fyrir héraðsdómi í samræmi við reglur ákvæðis þessa án tillits til 6.–8. mgr. 17. gr., enda uppfylli aðilinn bæði eftirfarandi skilyrði:
   1. Heildarverðmæti þekktra eigna aðilans er minna en 350.000 kr. Til þekktra eigna í skilningi þessa töluliðar teljast fasteignir, ökutæki og skip sem eru skráð í fasteigna-, skipa- og ökutækjaskrám sem og innstæður og hlutabréfa- og verðbréfaeign sem skráð er hjá innlendum fjármálafyrirtækjum skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Til þekktra eigna samkvæmt þessum tölulið teljast einnig aðrar eignir sem aðilinn eða annar sem á lögvarinna hagsmuna að gæta sýnir fram á að tilheyri aðilanum með viðhlítandi gögnum sem unnt er að sannreyna.
   2. Heildarfjárhæð þekktra skulda aðilans er lægri en 2.000.000 kr. Til þekktra skulda í skilningi þessa töluliðar teljast skuldir aðilans sem skráðar eru hjá innlendum fjármálafyrirtækjum skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sem og skuldir við ríkissjóð, þó að frátöldum álögðum fésektum skv. 120. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, og dagsektum skv. 1. mgr. 14. gr. laga þessara. Til þekktra skulda samkvæmt þessum tölulið teljast einnig aðrar skuldir sem aðilinn eða annar sem á lögvarinna hagsmuna að gæta sýnir fram á að hvíli á aðilanum með viðhlítandi gögnum sem unnt er að sannreyna.
Kröfu ríkisskattstjóra um slit aðila samkvæmt ákvæði þessu skal beint til héraðsdómstóls í því umdæmi þar sem aðilinn yrði sóttur í einkamáli á heimilisvarnarþingi sínu. Ef varnarþing aðila verður ekki ráðið af skráningu hans í fyrirtækjaskrá skal kröfu beint til Héraðsdóms Reykjavíkur. Í kröfu skal greina frá heiti og kennitölu aðila, heimilisfangi hans, sé það skráð í fyrirtækjaskrá, og greina jafnframt frá því í stuttu máli hvers er krafist og við hver atvik, rök og lagaákvæði krafan er studd. Kröfunni skal fylgja staðfesting ríkisskattstjóra um að eignir og skuldir hlutaðeigandi aðila séu undir mörkum skv. 1. mgr. og skal efni hennar talið rétt þar til annað er leitt í ljós. Ekki þarf að láta önnur gögn um fjárhagsstöðu viðkomandi aðila fylgja kröfunni. Kröfuna og fylgigögn með henni má senda héraðsdómi rafrænt. Ríkisskattstjóra er heimilt að krefjast í einu lagi slita á fleiri en einum aðila skv. 1. mgr.
Að framkominni kröfu ríkisskattstjóra um slit aðila skv. 2. mgr. skal héraðsdómari birta áskorun í Lögbirtingablaði þar sem heiti og kennitala viðkomandi aðila skulu tiltekin og fyrirsvarsmanni hans, kröfuhöfum og öðrum sem telja sig eiga lögvarinna hagsmuna að gæta gefinn kostur á því að mæta til þinghalds þar sem krafan verður tekin fyrir. Í áskorun skal jafnframt tekið fram að fyrirhugað sé að framkomin krafa um slit sæti meðferð samkvæmt ákvæði þessu nema mótmæli komi fram. Heimilt er að skora með þessum hætti á fleiri en einn aðila í einni og sömu tilkynningunni og tiltaka í henni stað og stund reglulegs þinghalds héraðsdóms þar sem kröfur um slit viðkomandi aðila verði teknar fyrir.
Komi fram mótmæli í þinghaldi gegn kröfu ríkisskattstjóra um slit skv. 3. mgr. frá fyrirsvarsmanni aðila eða öðrum sem á lögvarinna hagsmuna að gæta skal farið með kröfuna eftir því sem greinir í 6.–8. mgr. 17. gr. enda leggi sá sem hefur uppi mótmæli fram skiptatryggingu innan frests sem héraðsdómari setur. Ef mótmæli lúta að því að skilyrði fyrir slitum skv. 1. mgr. séu ekki uppfyllt og sýnt er að þau mótmæli eigi við rök að styðjast skal skiptatrygging þó sett af ríkisskattstjóra. Sé kröfu ríkisskattstjóra beint í skiptameðferð skv. 6.–8. mgr. 17. gr. vegna framkominna mótmæla skal ríkisskattstjóra vera heimilt að leggja fram nýja kröfu ásamt fylgigögnum sem koma þá í stað kröfu og fylgigagna skv. 2. mgr. Héraðsdómari leysir úr ágreiningi vegna mótmæla eða annarra atriða er varða meðferð máls á grundvelli ákvæðis þessa með úrskurði sem kæra má til Landsréttar eftir sömu reglum og gilda um kæru í almennu einkamáli.
Verði kröfu ríkisskattstjóra ekki beint í skiptameðferð skv. 6.–8. mgr. 17. gr. skal farið með kröfuna eftir því sem greinir í 6. mgr. ákvæðis þessa en ríkisskattstjóra verður þá ekki gert að setja skiptatryggingu.
Héraðsdómari skal taka kröfu ríkisskattstjóra um slit aðila vegna vanrækslu á að fullnægja skráningarskyldu samkvæmt lögum þessum til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi málatilbúnaðar ríkisskattstjóra og skal úrskurður kveðinn upp eins skjótt og verða má. Afrit úrskurðar héraðsdóms skal sent rafrænt til ríkisskattstjóra. Þegar í kjölfarið skal ríkisskattstjóri birta tilkynningu í Lögbirtingablaði með heiti og kennitölum aðila sem slitið hefur verið með dómsúrskurði samkvæmt framansögðu. Ekki er þörf á frekari birtingu dómsniðurstöðu um slit.
Úrskurður héraðsdómara skv. 6. mgr. er kæranlegur til Landsréttar. Kæra skal lögð fram innan tveggja vikna frá birtingardegi tilkynningar í Lögbirtingablaði um slit þess aðila sem í hlut á skv. 6. mgr. Að öðru leyti gilda um kæru og meðferð hennar í héraði og fyrir Landsrétti sömu reglur og um kæru í almennu einkamáli. Einnig getur sá sem á lögvarinna hagsmuna að gæta óskað eftir endurupptöku slita sem hafa farið fram samkvæmt ákvæði þessu enda leggi hann fram staðfestingu ríkisskattstjóra um að skráningarskyldu samkvæmt lögum þessum hafi verið fullnægt. Beiðni um endurupptöku skal afhent héraðsdómi innan fjögurra vikna frá birtingardegi tilkynningar skv. 6. mgr. Ef beiðni um endurupptöku er tekin til greina falla réttaráhrif slita niður og rakna þá við réttindi og skyldur skráningarskylds aðila eins og honum hafi aldrei verið slitið. Hlutaðeigandi skráningarskyldur aðili skal þó bera ábyrgð á kostnaði vegna slita sem fellur til eftir úrskurð um slit og fram að endurupptöku þeirra, á sama hátt og á við um áður áfallinn kostnað vegna kröfu um slit.
Kostnaður vegna slita skráningarskylds aðila sem slitið hefur verið með dómsúrskurði skv. 6. mgr. skal greiðast af andvirði eigna hans en að öðru leyti greiðist hann úr ríkissjóði. Þær eignir sem eftir standa renna í ríkissjóð enda séu frestir skv. 7. mgr. runnir út eða kröfum í kærumáli fyrir æðra dómi eða um endurupptöku úrskurðar hafi verið endanlega hafnað. Á grundvelli 1. og 2. málsl. og að uppfylltum framangreindum skilyrðum öðlast ríkisskattstjóri fyrir hönd ríkissjóðs fulla ráðstöfunarheimild yfir eignum skráningarskylds aðila sem slitið hefur verið og er innlendum fjármálafyrirtækjum skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, skylt að kröfu ríkisskattstjóra að afhenda honum allar eignir á innlánsreikningum, greiðslureikningum og vörslureikningum sem áður tilheyrðu viðkomandi skráningarskyldum aðila. Hliðstæð skylda hvílir jafnframt á öðrum en fjármálafyrirtækjum sem fara með vörslur eigna skráningarskylds aðila sem hefur verið slitið. Afhending eigna til ríkisskattstjóra í samræmi við fyrirmæli þessa ákvæðis getur ekki bakað þeim sem afhendir ríkisskattstjóra eignir skaðabótaábyrgð eða refsiábyrgð að lögum.
Í tengslum við framkvæmd þessa ákvæðis og ákvæðis til bráðabirgða II er einstaklingum og lögaðilum, þar á meðal fjármálafyrirtækjum og opinberum aðilum, skylt að láta ríkisskattstjóra í té, án tafar og án endurgjalds og á því formi sem óskað er, allar upplýsingar og gögn um eignarhald og fjárhag skráningarskyldra aðila sem nauðsynleg eru vegna framkvæmdar ákvæðanna. Ákvæði annarra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu víkja fyrir ákvæði þessu og ákvæði til bráðabirgða II. Upplýsingar og gögn sem ríkisskattstjóri aflar með heimild í framangreindum ákvæðum eru háð sérstakri þagnarskyldu skv. 1. mgr. 117. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og 20. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/ 2019.]1)
   1)L. 139/2022, 1. gr.