Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um fjarskipti

2022 nr. 70 28. júní


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. september 2022 nema 4. mgr. 86. gr. sem tók gildi 13. júlí 2022. Um lagaskil sjá nánar 109. gr. EES-samningurinn: XI. viðauki tilskipun 2018/1972.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eða háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Gildissvið og markmið.
1. gr. Gildissvið.
Lög þessi gilda um fjarskipti, fjarskiptaþjónustu og fjarskiptanet.
Fjarskipti sem eingöngu eru boð eða sendingar innan húsakynna heimilis, fyrirtækis eða stofnunar, svo sem í sjúkrahúsum, gistihúsum, skólum og verksmiðjum, heyra ekki undir lög þessi.
Lög þessi gilda ekki um efni sem sent er á fjarskiptanetum.
2. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að tryggja aðgengileg, greið, hagkvæm, skilvirk og örugg fjarskipti hér á landi. Enn fremur er markmið þeirra að auka vernd og valmöguleika neytenda og stuðla að virkri samkeppni, hagkvæmum fjárfestingum og nýsköpun á fjarskiptamarkaði.
Íslenska ríkið skal stuðla að því, eftir því sem unnt er, að öllum landsmönnum og fyrirtækjum bjóðist aðgangur að fjarskiptaþjónustu og háhraðanetum, þ.m.t. föstum og þráðlausum netum, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum.

II. kafli. Umgjörð fjarskiptamála.
3. gr. Stjórn fjarskiptamála.
Ráðherra fer með yfirstjórn fjarskiptamála.
4. gr. Umsjón með fjarskiptum.
Fjarskiptastofa skal hafa umsjón með fjarskiptum innan lögsögu íslenska ríkisins, þar á meðal notkun fjarskiptatíðnirófs, og eftirlit með framkvæmd laga þessara.

III. kafli. Orðskýringar.
5. gr. Orðskýringar.
Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
   1. Aðgangur: Að veita öðru fyrirtæki aðgang að aðstöðu eða þjónustu samkvæmt skilgreindum skilyrðum, hvort sem um er að ræða einkaaðgang eða ekki, í því skyni að veita fjarskiptaþjónustu, þ.m.t. þegar hún er notuð við afhendingu þjónustu í upplýsingasamfélaginu eða útsendingu efnis. Hann tekur m.a. til:
   a. aðgangs að einstökum netþáttum og tengdri aðstöðu sem getur falið í sér tengingu búnaðar, hvort sem hún er föst eða þráðlaus, og tekur þetta einkum til aðgangs að heimtaug og aðstöðu og þjónustu sem nauðsynleg er til að veita þjónustu um heimtaugina,
   b. aðgangs að efnislegu grunnvirki, þ.m.t. byggingum, rörum og möstrum,
   c. aðgangs að viðeigandi hugbúnaðarkerfum, þ.m.t. að rekstrarstuðningskerfum, upplýsingakerfum eða gagnagrunnum fyrir forpantanir, útvegun, pantanir, beiðnir um viðhald og viðgerðir og gerð reikninga,
   d. aðgangs að númerafærslum eða kerfum þar sem jafngild virkni er í boði,
   e. aðgangs að föstum netum og farnetum, einkum fyrir reikiþjónustu,
   f. aðgangs að skilyrtum aðgangskerfum fyrir stafræna sjónvarpsþjónustu og
   g. aðgangs að sýndarnetsþjónustu.
   2. Aðgangspunktur: Efnislegur staður inni í eða fyrir utan byggingu sem er aðgengilegur fjarskiptafyrirtækjum þar sem tenging innanhússfjarskiptalagnar við háhraðanet er gerð aðgengileg.
   3. Afkastamikið háhraðanet: Fjarskiptanet sem samanstendur eingöngu af ljósleiðaraþáttum, a.m.k. að dreifipunkti við þjónustustað, eða fjarskiptanet með svipaða frammistöðu við venjuleg álagstímaskilyrði, með tilliti til tiltækrar flutningsgetu aðgreina og útgreina, þanþols, villutengdra breytna og biðtíma og breytinga á honum. Frammistaða nets getur talist vera svipuð þótt upplifun endanotanda sé breytileg vegna eðlislægs mismunar á eiginleikum miðilsins sem netið tengist að lokum við nettengipunkt.
   4. Almenn heimild: Fyrirkomulag sem komið er á fót til að tryggja rétt aðila til að bjóða fram fjarskiptanet eða fjarskiptaþjónustu og til að mæla fyrir um skyldur sem eru sértækar fyrir fjarskipti sem geta gilt um allar eða tilteknar gerðir fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu í samræmi við lög þessi.
   5. Almennt fjarskiptanet: Fjarskiptanet sem notað er að öllu eða mestu leyti til að veita almenna fjarskiptaþjónustu og styður við flutning á upplýsingum milli nettengipunkta.
   6. Almenn fjarskiptaþjónusta: Fjarskiptaþjónusta sem stendur einstaklingum og lögaðilum til boða.
   7. Alþjónusta: Afmarkaðir þættir fjarskipta af tilteknum lágmarksgæðum sem boðnir eru neytendum á viðráðanlegu verði í samræmi við ákvæði laga þessara.
   8. Efnislegt grunnvirki: Efnislegt grunnvirki eins og það er skilgreint í lögum um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta.
   9. Endabúnaður: Búnaður sem beint eða óbeint er tengdur við skilfleti almenns fjarskiptanets til þess að senda, vinna úr eða taka við upplýsingum. Hvort sem um er að ræða beina eða óbeina tengingu getur hún verið með þræði eða þráðlaus. Tenging telst óbein ef tæki er komið fyrir milli endabúnaðarins og skilflatar netsins. Með endabúnaði er enn fremur átt við búnað fyrir gervihnattajarðstöðvar.
   10. Endanotandi: Notandi sem ekki býður almenn fjarskiptanet eða veitir almenna fjarskiptaþjónustu.
   11. Farnet: Þráðlaust net þar sem endabúnaður endanotenda tengist með radíósamböndum við fjarskiptastöðvar. Fjarskiptaþjónusta um farnet helst óskert þótt samband sé fært frá einni fjarskiptastöð til annarrar og geta farnet því þjónað notendum á ferð.
   12. Fast net: Fjarskiptanet þar sem fjarskipti fara um þræði í fjarskiptastrengjum.
   13. Fjarskiptafyrirtæki: Fyrirtæki í skilningi 4. gr. samkeppnislaga sem hefur tilkynnt Fjarskiptastofu um rekstur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanets.
   14. Fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk: Fjarskiptafyrirtæki sem Fjarskiptastofa hefur skilgreint með umtalsverðan markaðsstyrk á grundvelli markaðsgreiningar.
   15. Fjarskiptanet: Merkjaflutningskerfi, óháð því hvort það byggist á miðlægum innviðum eða hefur miðlægt stjórnkerfi. Í fjarskiptaneti getur eftir atvikum verið skipti- eða beinibúnaður ásamt öðrum björgum, þar á meðal netþáttum sem ekki eru virkir, sem leyfa flutning á merkjum yfir þræði, með þráðlausri útbreiðslu eða með öðrum rafsegulfræðilegum aðferðum. Í fjarskiptanetum geta fjarskipti farið yfir föst net og þráðlaus net, svo sem farnet eða yfir gervitungl, einnig rafmagnsdreifinet að því marki sem þau eru notuð til flutnings merkja. Til fjarskiptaneta teljast einnig kerfi sem notuð eru til hljóð- og myndmiðlunar og kapalsjónvarpsnet án tillits til þeirra fjarskiptamerkja sem um þau fara.
   16. Fjarskiptavirki: Fjarskiptanet, efnislegt grunnvirki eða hvers konar tæki, tækjahlutar, lagnir, búnaður og annað sem sérstaklega er ætlað að koma á fjarskiptum eða reka þau hvort heldur er til sendingar eða móttöku.
   17. Fjarskiptaþjónusta: Þjónusta sem að jafnaði er veitt gegn þóknun yfir fjarskiptanet. Hér er undanskilin sú þjónusta þegar efni sem sent er um fjarskiptanet er meðhöndlað, t.d. með ritstýringu. Fjarskiptaþjónusta tekur til eftirfarandi þjónustu:
   a. netaðgangsþjónustu í skilningi laga þessara,
   b. fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga í skilningi laga þessara og
   c. þjónustu sem felst að öllu eða mestu leyti í því að flytja merki, svo sem flutningsþjónustu sem er notuð milli tækja og fyrir hljóð- eða myndmiðlun.
   18. Fjarskiptaþjónusta milli einstaklinga: Þjónusta sem að jafnaði er veitt gegn þóknun og gerir bein, gagnvirk upplýsingaskipti milli tiltekins fjölda einstaklinga yfir fjarskiptanet möguleg. Einstaklingarnir sem hefja eða taka þátt í fjarskiptunum ákvarða hverjir viðtakendur eru. Þetta tekur ekki til þjónustu þar sem gagnvirk fjarskipti milli einstaklinga eru aðeins minni háttar viðbótarþáttur sem er órjúfanlega tengdur annarri þjónustu.
   19. Fjarskiptaþjónusta milli einstaklinga sem er ótengd númerum: Fjarskiptaþjónusta milli einstaklinga sem tengist ekki númerum sem úthlutað er úr landsbundnu eða alþjóðlegu númeraskipulagi eða þar sem fjarskipti eru ekki möguleg við slík númer.
   20. Fjarskiptaþjónusta milli einstaklinga sem er tengd númerum: Fjarskiptaþjónusta milli einstaklinga sem tengist númerum sem úthlutað er opinberlega, þ.e. númeri eða númerum í landsbundnu eða alþjóðlegu númeraskipulagi eða sem gerir fjarskipti möguleg við aðila með slík númer.
   21. Fjarskipti: Hvers konar sending og móttaka tákna, merkja, skriftar, mynda og hljóða eða hvers konar boðmiðlun eftir þráðum eða með þráðlausri útbreiðslu eða öðrum rafsegulfræðilegum aðferðum.
   22. Heimtaug: Sú raunlæga leið sem ber fjarskiptamerki og tengir nettengipunkt við tengigrind eða sambærilegan búnað í föstu neti.
   23. Hugbúnaðarskil: Hugbúnaðarskil sem gerð eru aðgengileg af fjölmiðlaveitu eða þjónustuveitu til að tengjast búnaði fyrir stafræna hljóð- og myndmiðlun.
   24. Innanhússfjarskiptalögn: Efnislegt grunnvirki eða búnaður, þ.m.t. þættir í sameiginlegu eignarhaldi, sem er staðsettur hjá endanotanda og ætlaður er til að hýsa fastlínu og/eða þráðlaus staðarnet þar sem slík net geta veitt fjarskiptaþjónustu og tengja aðgangspunkt byggingar við nettengipunkt.
   25. Innanhússfjarskiptalögn sem er tilbúin fyrir tengingu við háhraðanet: Innanhússfjarskiptalögn sem ætluð er til að hýsa þætti háhraðaneta eða auðvelda afhendingu þeirra.
   26. Lagnir: Fjarskiptalagnir, svo sem rör, strengir og kaplar.
   27. Mikilvægir innviðir: Mikilvægir innviðir samkvæmt skilgreiningu laga um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða.
   28. Net- og upplýsingakerfi: Net- og upplýsingakerfi samkvæmt skilgreiningu laga um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða.
   29. Netaðgangsþjónusta: Almenn fjarskiptaþjónusta sem veitir aðgang að netinu og þar með tengingu við því sem næst alla endapunkta þess, án tillits til þeirrar nettækni og endabúnaðar sem notaður er.
   30. Nettengipunktur: Efnislegur tengipunktur þar sem endanotanda er veittur aðgangur að almennu fjarskiptaneti. Ef um er að ræða net þar sem skipting eða beining á sér stað er nettengipunkturinn auðkenndur með sérstöku vistfangi innan netsins sem hægt er að tengja númeri eða heiti endanotanda.
   31. Netþáttur: Hluti fjarskiptanets, svo sem strengir, beinar, skiptar, fjarskiptabúnaður, endabúnaður og hugbúnaður.
   32. Netöryggissveit: Netöryggissveit samkvæmt lögum um Fjarskiptastofu.
   33. Neyðarþjónusta: Þjónusta sem er viðurkennd sem slík af stjórnvöldum, sem veitir aðstoð tafarlaust og hratt við aðstæður þar sem bein hætta steðjar að lífi eða limum einstaklinga, lýðheilsu eða almannaöryggi, eignum í einkaeigu eða eigu hins opinbera eða umhverfinu, í samræmi við landslög.
   34. Neytandi: Einstaklingur sem notar eða óskar eftir almennri fjarskiptaþjónustu í öðrum tilgangi en sem tengist atvinnugrein hans, viðskiptum eða starfi.
   35. Notandi: Einstaklingur eða lögaðili sem notar eða óskar eftir almennri fjarskiptaþjónustu.
   36. Nothæf netaðgangsþjónusta: Virkni, gæði og tæknilegir eiginleikar sem netaðgangsþjónusta skal að lágmarki búa yfir þannig að þjónustan geti komið notendum að gagni í daglegu lífi.
   37. Númer og kóðar: Röð tákna sem eru notuð til að auðkenna einstaka notendur í fjarskiptanetum.
   38. Ósvæðisbundið númer: Númer úr landsbundna númeraskipulaginu sem ekki felur í sér svæðisnúmer, svo sem farsímanúmer, frínúmer og yfirgjaldsnúmer.
   39. Reikiþjónusta: Símtalsþjónusta, skilaboðaþjónusta og önnur gagnaflutningsþjónusta í farneti sem á upphaf eða lýkur hjá viðskiptavini sem ekki er í viðskiptasambandi við rekstraraðila þess farnets sem endabúnaður hans tengist í viðkomandi tilviki.
   40. Rekstraraðili: Lögaðili sem býður fram eða hefur heimild til að bjóða fram almennt fjarskiptanet eða tengda aðstöðu.
   41. Samhýsing: Aðgangur að rými og tækniþjónustu sem er nauðsynlegur til að koma viðeigandi búnaði aðgangsbeiðanda fyrir með góðu móti og tengja hann.
   42. Samræmd notkun tíðnirófs: Tíðniróf þar sem samræmdum skilyrðum að því er varðar tiltækileika og skilvirka notkun hefur verið komið á með tæknilegum framkvæmdarráðstöfunum í samræmi við 4. gr. ákvörðunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 676/2002/EB.
   43. Samtenging: Sérstök tegund aðgangs sem rekstraraðilar almennra fjarskiptaneta sameinast um að koma á með efnislegri og rökvísri tengingu almennra fjarskiptaneta sem eitt eða fleiri fyrirtæki nota til að gera notendum eins fjarskiptafyrirtækis kleift að hafa samskipti við notendur sama eða annars fyrirtækis eða nýta sér þjónustu sem önnur fyrirtæki veita, þar sem slík þjónusta er veitt af viðkomandi aðilum eða öðrum aðilum sem hafa aðgang að netinu.
   44. Símaþjónusta: Almenn fjarskiptaþjónusta sem gerir kleift að hefja og taka við, beint eða óbeint, innanlandssímtölum og/eða millilandasímtölum með númeri eða númerum úr landsbundnu eða alþjóðlegu númeraskipulagi.
   45. Símtal: Tenging sem komið er á með almennri fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga og leyfir tvíátta talfjarskipti.
   46. Skaðleg truflun: Truflun sem hætta er á að trufli virkni fjarleiðsöguþjónustu eða annarrar öryggisþjónustu eða sem á annan hátt dregur úr, hindrar eða truflar ítrekað þráðlausa fjarskiptaþjónustu sem er starfrækt í samræmi við gildandi reglur landsréttar eða reglur á alþjóðavettvangi eða á Evrópska efnahagssvæðinu.
   47. Skilyrt aðgangskerfi: Sérhver tækniráðstöfun, auðkenningarkerfi og/eða tilhögun þar sem aðgangur að lokaðri hljóð- og myndmiðlun er bundinn skilyrði um áskrift eða annars konar fyrirframheimild í hverju einstöku tilviki.
   48. Skipting tíðnirófsins: Útnefning tiltekins tíðnisviðs til notkunar fyrir eina eða fleiri gerðir þráðlausrar fjarskiptaþjónustu, eftir því sem við á, með tilgreindum skilyrðum.
   49. Staðsetningarupplýsingar: Í almennu farneti eru staðsetningarupplýsingar unnin gögn úr netgrunnvirki eða handtólum, sem gefa til kynna landfræðilega staðsetningu endabúnaðar endanotanda; í almennu föstu neti eru það gögn um vistfang tengipunktsins.
   50. Strengur: Fjarskiptastrengur sem inniheldur einn eða fleiri þræði sem notaðir eru til fjarskipta. Ljósleiðarastrengur er fjarskiptastrengur sem inniheldur einungis ljósleiðara.
   51. Svæðisbundin númer: Númer úr landsbundnu númeraskipulagi þar sem hluti af talnasamsetningunni er landfræðileg vísun sem er notuð til að beina símtölum á hinn eiginlega nettengipunkt.
   52. Tengd aðstaða: Tengd þjónusta, efnisleg grunnvirki og önnur aðstaða eða þættir í tengslum við fjarskiptanet eða fjarskiptaþjónustu sem gerir kleift að veita eða styður veitingu þjónustu um það net eða í tengslum við þá þjónustu, eða hefur möguleika á að gera það. Slík aðstaða getur samanstaðið af byggingum eða inngöngum að byggingum, lögnum í byggingum, loftnetum, turnum og öðrum burðarvirkjum, rörum, strengjum, möstrum, brunnum og skápum.
   53. Tengd þjónusta: Þjónusta í tengslum við fjarskiptanet eða fjarskiptaþjónustu sem gerir kleift að veita eða styður við veitingu þjónustu, sjálfsþjónustu eða sjálfvirkrar þjónustu um það net eða þjónustu eða hefur möguleika á að gera það. Slík þjónusta felur m.a. í sér númerafærslur eða kerfi þar sem jafngild virkni er í boði, skilyrt aðgangskerfi og rafræna dagskrárvísa auk annarrar þjónustu eins og auðkennis-, staðsetningar- og viðveruþjónustu.
   54. Tíðnisamnýting: Aðgangur tveggja eða fleiri notenda að sama tíðnisviði, samkvæmt skilgreindu samnýtingarfyrirkomulagi sem er heimilað á grundvelli almennrar heimildar, tíðniheimildar eða hvorrar tveggja, þar á meðal stjórnsýslufyrirmæla um sameiginleg afnot af leyfi sem hafa að markmiði að greiða fyrir sameiginlegri notkun tíðnisviðs, með fyrirvara um bindandi samkomulag milli allra viðkomandi aðila, í samræmi við samnýtingarreglur sem kveðið er á um í tíðniheimild, til að tryggja öllum notendum fyrirsjáanlegt og áreiðanlegt samnýtingarfyrirkomulag, með fyrirvara um beitingu samkeppnislaga.
   55. Yfirgjald: Gjald fyrir virðisaukandi þjónustu sem er hærra en almennt símtalagjald.
   56. Þráðlaus aðgangspunktur sem þekur lítið svæði: Þráðlaus lágaflsbúnaður til netaðgangs sem er lítill um sig og með lítið drægi, sem notar leyfisskylt tíðniróf eða tíðniróf sem ekki er leyfisskylt eða hvort tveggja og sem nota má sem hluta af almennu fjarskiptaneti og má vera búinn einu eða fleiri loftnetum sem hafa lítil sjónræn áhrif og sem veitir notendum þráðlausan aðgang að fjarskiptanetum óháð undirliggjandi netuppbyggingu, hvort sem um er að ræða farnet eða fast net.
   57. Þráðlaus fjarskiptabúnaður: Rafeindabúnaður sem hefur þann tilgang að gefa frá sér eða taka við hátíðnibylgjum fyrir þráðlaus fjarskipti eða staðarákvörðun eða rafeindabúnaður sem verður að bæta við aukabúnaði, svo sem loftneti, til að geta gefið frá sér eða tekið við hátíðnibylgjum fyrir þráðlaus fjarskipti eða staðarákvörðun.
   58. Þráðlaust net: Fjarskiptanet þar sem fjarskipti fara ekki fram yfir þráð, heldur t.d. með útvarpsbylgjum í lofti.
   59. Þráðlaust staðarnet: Þráðlaust lágaflsaðgangskerfi með lítið drægi sem notar samhæft tíðniróf án einkaréttinda og lítil hætta er á að valdi truflunum á öðrum sambærilegum kerfum sem aðrir nota.
   60. Þráður: Einangrað efni, t.d. úr kopar, gleri eða plasti, til flutnings á rafboðum eða ljósboðum til fjarskipta. Þráður sem flytur ljósboð nefnist ljósleiðari. Hver þráður er hluti af tilteknu föstu neti.
   61. Öryggi fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu: Geta fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu til að standast með tilteknu öryggisstigi allar aðgerðir sem stofna í hættu aðgengi, sannvottuðum uppruna, réttleika og leynd þessara kerfa og þjónustu, vistaðra eða sendra eða unninna gagna eða tengdrar þjónustu sem boðin er eða er aðgengileg um þessi fjarskiptanet eða fjarskiptaþjónustu.
   62. Öryggisatvik: Hver sá atburður sem hefur eða getur haft skaðleg áhrif á öryggi fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu.

IV. kafli. Heimild til fjarskiptastarfsemi.
6. gr. Almenn heimild.
Fjarskiptafyrirtæki hafa almenna heimild til að veita fjarskiptaþjónustu og/eða bjóða fram fjarskiptanet. Heimild þessi nær til lögaðila sem staðfestu hafa innan Evrópska efnahagssvæðisins og enn fremur í aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, eftir því sem ráðherra ákveður með reglugerð.
Fjarskiptafyrirtæki skal áður en starfsemi hefst tilkynna Fjarskiptastofu um fyrirhugaða fjarskiptaþjónustu eða rekstur fjarskiptaneta. Veita skal upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna skráningar á viðkomandi fjarskiptafyrirtæki og starfsemi þess. Í tilkynningu skal upplýsa um eftirfarandi:
   a. heiti fjarskiptafyrirtækis,
   b. rekstrarform og skráningarnúmer, kennitölu eða sambærilegar upplýsingar,
   c. heimilisfang höfuðstöðva á Evrópska efnahagssvæðinu og útibús/starfsstöðvar, eftir því sem við á,
   d. veffang,
   e. tengilið og samskiptaupplýsingar,
   f. stutta lýsingu á þjónustu sem ætlunin er að veita og fyrirhuguðu framboði á fjarskiptaneti,
   g. ríki Evrópska efnahagssvæðisins sem þjónusta nær til, og
   h. dagsetninguna þegar áætlað er að starfsemi hefjist.
Fjarskiptafyrirtæki sem aðeins veita fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga sem er ótengd númerum eru undanþegin tilkynningarskyldu skv. 2. mgr.
Fjarskiptastofa skal halda skrá yfir öll fjarskiptafyrirtæki sem hafa tilkynnt að þau muni starfa á grundvelli almennrar heimildar. Að beiðni fjarskiptafyrirtækis skal Fjarskiptastofa innan viku frá því að tilkynning barst stofnuninni gefa út staðfestingu þess að fyrirtækið hafi tilkynnt sig til skráningar.
Fjarskiptastofu er heimilt að setja nánari reglur um sniðmát tilkynninga skv. 2. mgr. og um staðfestingu skv. 4. mgr.
7. gr. Lágmarksréttindi sem fylgja almennri heimild.
Fjarskiptafyrirtæki sem hafa almenna heimild skv. 6. gr. eiga rétt á að reka fjarskiptanet eða fjarskiptaþjónustu og nota fjarskiptatíðniróf í samræmi við lög þessi. Þau eiga rétt á umfjöllun um umsóknir sínar um nauðsynleg réttindi í samræmi við 34. gr. og um nauðsynlegan afnotarétt af númeraforða í samræmi við 21. gr.
Almenn heimild veitir fjarskiptafyrirtæki rétt til að semja um samtengingu og þar sem það á við að fá aðgang að eða samtengingu við önnur fjarskiptafyrirtæki.
Almenn heimild veitir rétt til útnefningar til að veita alþjónustu í samræmi við lög þessi.
Fjarskiptastofa gefur út reglur1) um almenna heimild til að reka fjarskiptanet og fjarskiptaþjónustu til nánari fyllingar á réttindum og skyldum sem mælt er fyrir um í þessari grein og 8. og 9. gr.
   1)Rgl. 720/2023.
8. gr. Skilyrði almennrar heimildar.
Almenn heimild til reksturs fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu skal bundin eftirtöldum skilyrðum:
   a. greiðslu rekstrargjalds í samræmi við ákvæði laga um Fjarskiptastofu,
   b. að uppfylltar séu kröfur XIII. kafla er lúta að persónuvernd í fjarskiptum,
   c. veitingu upplýsinga vegna tilkynningar í samræmi við 6. gr. og önnur ákvæði laga,
   d. að til þess bærum stjórnvöldum sé kleift að hlera símtöl og afla annarra gagna í samræmi við ákvæði laga,
   e. að uppfylltar séu kröfur XIV. kafla um almannaviðvörunarkerfi, neyðarsamskipti og staðsetningu neyðarsímtala,
   f. að uppfylltar séu aðgangsskyldur aðrar en þær sem kveðið er á um í þessum kafla og gilda um fjarskiptafyrirtæki,
   g. að fylgt sé ráðstöfunum sem eiga að tryggja að farið sé eftir stöðlum eða tilmælum sem um getur í 24. gr., og
   h. að uppfylltar séu skyldur um gagnsæi og upplýsingagjöf samkvæmt lögum þessum sem miða að því að tryggja tengingu enda á milli í almennum fjarskiptanetum.
9. gr. Sérstök skilyrði.
Auk skilyrða skv. 8. gr. eru fjarskiptafyrirtæki sem reka fjarskiptanet bundin af eftirtöldum skilyrðum, eftir því sem við á:
   a. samtenging neta skal vera í samræmi við lög þessi,
   b. flutningsskyldur samkvæmt lögum um fjölmiðla skulu uppfylltar að því er varðar fjarskiptanet sem notuð eru fyrir hljóð- og myndmiðlun til almennings,
   c. kröfur um ráðstafanir til verndar lýðheilsu gegn rafsegulsviðum af völdum fjarskiptaneta samkvæmt lögum þessum skulu uppfylltar,
   d. kröfur um viðhald á heildstæði almennra fjarskiptaneta samkvæmt lögum þessum skulu uppfylltar, þ.m.t. að því er varðar skilyrði til að koma í veg fyrir rafsegultruflanir milli fjarskiptaneta eða fjarskiptaþjónustu,
   e. kröfur er stuðla eiga að öryggi almennra fjarskiptaneta gagnvart óheimilum aðgangi samkvæmt lögum þessum skulu uppfylltar,
   f. skilyrði fyrir notkun fjarskiptatíðnirófs samkvæmt lögum þessum skulu uppfyllt,
   g. þjónusta skal uppfylla kröfur laga þessara um rekstrarsamhæfni,
   h. tryggja skal aðgengi endanotenda að númerum úr landsbundna númeraskipulaginu, að almenna alþjóðlega frínúmerakerfinu og, þar sem það er tæknilega og efnahagslega hagkvæmt, úr númerakerfum annarra aðildarríkja í samræmi við ákvæði laga þessara,
   i. reglur um neytendavernd samkvæmt lögum þessum skulu uppfylltar, og
   j. takmarkanir með tilliti til sendingar á ólöglegu efni í samræmi við ákvæði laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu skulu virtar, svo og takmarkanir með tilliti til sendinga á skaðlegu efni í samræmi við ákvæði laga um fjölmiðla.
Fjarskiptafyrirtæki sem aðeins veita fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga sem er ótengd númerum eru undanþegin skilyrðum skv. g–j-lið 1. mgr.
10. gr. Aðskilnaður sérleyfisstarfsemi frá fjarskiptastarfsemi.
Fjarskiptafyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður sem reka almenn fjarskiptanet eða veita almenna fjarskiptaþjónustu og njóta einka- eða sérréttinda á öðru sviði en fjarskiptum skulu halda fjarskiptastarfsemi sinni fjárhagslega aðskilinni frá slíkri starfsemi eins og um óskyld fyrirtæki væri að ræða. Þess skal gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfisstarfsemi eða verndaðri starfsemi. Ákvæði þetta gildir án tillits til markaðsstyrks fyrirtækis.
11. gr. Breytingar á réttindum.
Þegar sérstaklega stendur á, svo sem vegna breytinga á löggjöf, er Fjarskiptastofu heimilt að breyta skilyrðum almennra heimilda og skilyrðum fyrir úthlutun réttinda.
Fyrirhugaðar breytingar skulu kynntar ásamt rökstuðningi fyrir hagsmunaaðilum, þ.m.t. notendum, með hæfilegum fyrirvara sem þó skal ekki vera styttri en 30 dagar.
Ef gildistími réttinda til notkunar á tíðnum eða númerum er framlengdur er Fjarskiptastofu heimilt að gera breytingar á skilyrðum réttindanna eða bæta við skilyrðum.

V. kafli. Skipulag tíðnirófsins og úthlutun tíðna.
12. gr. Skipulag tíðnirófsins.
Fjarskiptastofa skal í samræmi við alþjóðlegar samþykktir sem Ísland er aðili að stuðla að skilvirkri og hagkvæmri nýtingu tíðnirófsins og því að skaðlegar truflanir á viðtöku þráðlausra merkja verði sem minnstar.
Fjarskiptastofa skipuleggur notkun tíðnirófsins að teknu tilliti til þeirra ákvarðana um samræmda tíðninotkun sem gilda fyrir Evrópska efnahagssvæðið, þ.m.t. um samræmda tímasetningu á úthlutun tíðniréttinda. Fjarskiptastofu er heimilt að víkja frá ákvörðunum um samræmda tíðninotkun ef slík notkun hentar ekki íslenskum aðstæðum og það hefur ekki hamlandi eða skaðleg, truflandi áhrif á samræmda notkun tíðnisviðsins í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Slík ákvörðun skal vera rökstudd og tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA og sæta reglulegri endurskoðun.
Að teknu tilliti til þeirra ákvarðana um samræmda tíðninotkun sem gilda fyrir Evrópska efnahagssvæðið tekur Fjarskiptastofa ákvörðun um hvaða tíðniafnot séu heimil á grundvelli almennrar heimildar og hvaða tíðniafnot eru bundin sérstakri tíðniúthlutun vegna tiltekinna þarfa.
Fjarskiptastofa skal skipuleggja notkun mismunandi hluta tíðnirófsins, skrá skipulagið og birta það opinberlega og veita upplýsingar um skipulagið eftir þörfum. Stofnunin getur ákveðið að ákvarðanir alþjóðastofnana sem Ísland á aðild að varðandi skipulag og nýtingu tíðnirófsins verði bindandi hér á landi og skal þá vísað til þeirra í tíðniskipulaginu sem stofnunin birtir opinberlega.
Úthlutun tíðniréttinda skal byggjast á viðmiðum sem eru hlutlæg, gagnsæ, samkeppnishvetjandi, án mismununar og hófleg. Slík réttindi skulu að jafnaði vera bundin skilyrði um hlutleysi tækni og þjónustu nema hlutlægar ástæður mæli gegn því.
Ráðherra gefur út reglugerð um skipulagningu og úthlutun tíðna þar sem m.a. eru settar ítarlegri reglur um skipulag tíðnirófsins og umsjón Fjarskiptastofu með því, framkvæmd tíðniúthlutana, þau skilyrði sem hægt er að setja fyrir tíðniréttindum og um önnur atriði er varða nánari útfærslu á réttindum og skyldum tíðnirétthafa, svo og aðild að evrópskum stefnuhópi um fjarskiptatíðnirófið.
13. gr. Réttindi til að nota tíðnir.
Fjarskiptatíðnir innan íslensks yfirráðasvæðis eru auðlindir undir stjórn íslenska ríkisins. Úthlutun á tíðnum felur í sér tímabundna heimild til skilyrtra afnota sem hvorki leiðir til beins eignarréttar né varanlegs nýtingar- og ráðstöfunarréttar.
Þegar réttindi til notkunar ákveðinna tíðna falla ekki undir 1. mgr. 7. gr., sbr. og f-lið 1. mgr. 9. gr., skal Fjarskiptastofa að fenginni umsókn úthluta slíkum réttindum til fjarskiptafyrirtækja. Einnig má úthluta réttindum fyrir notkun tíðna til útvarpsstöðva að lokinni opinni og gagnsærri málsmeðferð án mismununar enda þjóni slík úthlutun markmiðum stjórnvalda. Að auki má úthluta réttindum fyrir notkun tíðna til aðila sem starfrækja þráðlausan fjarskiptabúnað til eigin nota. Réttindi samkvæmt þessari grein eru bundin við nafn og kennitölu.
Varanlegt framsal og lán eða leiga á tíðniréttindum til annarra fjarskiptafyrirtækja er heimil enda hafi slík ráðstöfun ekki skaðleg áhrif á samkeppni, sbr. 14. gr. Tilkynna skal til Fjarskiptastofu um slíka ráðstöfun með a.m.k. 30 daga fyrirvara áður en hún á að koma til framkvæmda og skal Fjarskiptastofa samþykkja varanlegt framsal, lán eða leigu á tíðniréttindum ef eftirtalin skilyrði eru uppfyllt:
   a. viðtakandi réttindanna er á skrá Fjarskiptastofu skv. 6. gr.,
   b. tilkynningu fylgir staðfesting frá viðtakanda réttindanna um að hann ábyrgist að uppfylla skilyrði og standa við skuldbindingar tíðnirétthafa sem mælt er fyrir um í tíðniheimildinni, og
   c. Fjarskiptastofa metur það líklegt að viðtakandi réttindanna geti staðið við skuldbindingar sem mælt er fyrir um í tíðniheimildinni.
Ákvörðun um synjun um framsal, lán eða leigu á tíðniréttindum skal vera tekin innan þriggja mánaða frá móttöku tilkynningar skv. 3. mgr.
Vanræki fyrirtæki tilkynningarskyldu skv. 3. mgr. getur Fjarskiptastofa tekið málið til athugunar og ákvörðunar þegar stofnunin fær vitneskju um viðkomandi framsal, lán eða leigu tíðniréttinda.
Fjarskiptastofa skal birta opinberlega upplýsingar um öll réttindi til notkunar á tíðnum og rétthafa þeirra, þ.m.t. þeirra tíðniréttinda sem hafa verið framseld, lánuð eða leigð. Tíðniheimildir sem veittar eru til eigin nota má undanskilja birtingu svo og upplýsingar um tíðniheimildir sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari vegna mikilvægra öryggis-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuna rétthafa.
14. gr. Áhrif tíðniréttinda á samkeppnisskilyrði.
Útgáfa tíðniréttinda skal stuðla að virkri samkeppni á markaði og koma í veg fyrir að handhöfn slíkra réttinda skapi samkeppnishindranir. Við úthlutun, breytingar, endurnýjun, framsal, lán eða leigu tíðniréttinda er Fjarskiptastofu m.a. heimilt að:
   a. takmarka stærð tíðnisviða sem afnotaréttur er veittur af til fyrirtækja eða, þegar aðstæður gefa nægilegt tilefni til, láta skilyrði fylgja slíkum afnotarétti, svo sem að veittur sé heildsöluaðgangur, landsbundin eða svæðisbundin reikiþjónusta á tilteknum tíðnisviðum eða tíðnisviðum með svipaða eiginleika,
   b. taka frá, ef það er viðeigandi og réttlætanlegt með tilliti til sérstakra aðstæðna á landsbundna markaðnum, tiltekinn hluta fjarskiptatíðnirófs eða tíðnisviða til úthlutunar til nýrra aðila,
   c. hafna því að veita nýjan afnotarétt af fjarskiptatíðnirófi eða heimila nýja notkun á fjarskiptatíðnirófi á tilteknum tíðnisviðum eða láta skilyrði fylgja veitingu nýs afnotaréttar af fjarskiptatíðnirófi eða heimild fyrir nýrri notkun fjarskiptatíðnirófs til að koma í veg fyrir röskun á samkeppni með úthlutun, framsali, láni, leigu eða uppsöfnun afnotaréttar,
   d. láta skilyrði fylgja sem banna framsal afnotaréttar af fjarskiptatíðnirófi sem fellur ekki undir samrunaeftirlit á grundvelli samkeppnislaga eða setja skilyrði fyrir slíku framsali,
   e. breyta fyrirliggjandi réttindum í samræmi við lög þessi þegar það er nauðsynlegt til að bæta röskun á samkeppni sem orðið hefur með framsali eða uppsöfnun á afnotarétti af fjarskiptatíðnirófi.
15. gr. Takmarkanir á úthlutun réttinda.
Fjarskiptastofa getur takmarkað fjölda úthlutana á réttindum til að nota ákveðnar tíðnir þegar það er nauðsynlegt til þess að:
   a. tryggja skilvirka notkun tíðna, þ.m.t. með því að horfa til þeirra skilmála sem gilda um tíðniafnotin og þess verðs sem greitt hefur verið fyrir þau,
   b. stuðla að útbreiðslu fjarskiptaþjónustu,
   c. tryggja tiltekin gæði þjónustunnar, eða
   d. stuðla að nýsköpun og markaðsþróun.
Óski Fjarskiptastofa eftir jafningjarýni evrópsks stefnuhóps um fjarskiptatíðnirófið skal stofnunin jafnframt rökstyðja að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt. Takmörkun á úthlutun tíðniréttinda þarf þá að:
   a. stuðla að þróun innri markaðarins, þjónustustarfsemi yfir landamæri sem og samkeppni, og hámarka ávinning neytenda, og
   b. tryggja stöðug og fyrirsjáanleg fjárfestingarskilyrði fyrir núverandi og væntanlega notendur tíðnirófs til að setja upp fjarskiptaþjónustu sem notar tíðniróf.
Gefi evrópskur stefnuhópur um fjarskiptatíðnirófið út álit um fyrirhugaða ákvörðun Fjarskiptastofu um takmörkun á úthlutun tíðniréttinda skal stofnunin taka ýtrasta tillit til þess.
Öllum hagsmunaaðilum, þ.m.t. notendum, skal gefið tækifæri til þess að tjá sig um takmarkanir á réttindum í opnu samráði áður en Fjarskiptastofa tekur ákvörðun sem skal birt ásamt rökstuðningi.
Eigi síðar en við upphaf opins samráðs við hagsmunaaðila og notendur um fyrirhugaða ákvörðun um takmörkun tíðniréttinda og val á aðferð við úthlutun þeirra skal Fjarskiptastofa tilkynna um hana til evrópsks stefnuhóps um fjarskiptatíðnirófið og jafnframt tiltaka hvort og þá hvenær sé óskað eftir jafningjarýni hópsins um hana. Í tilkynningunni eða í eftirfarandi rökstuðningi skal Fjarskiptastofa rökstyðja hvernig fyrirhuguð takmörkun uppfyllir skilyrði sem tilgreind eru í 1. og 2. mgr.
Við töku ákvarðana um að takmarka fjölda réttinda eða framlengja gildistíma réttinda á tíðnisviði þar sem fjöldi réttinda er takmarkaður skal leggja áherslu á hagsmuni notenda og að örva samkeppni auk þess sem tillit skal tekið til hvata og áhættu við fjárfestingar. Kynna skal aðferðina sem nota skal við úthlutun réttinda og auglýsa eftir umsóknum. Úthlutun takmarkaðra réttinda skal fara fram með opnum og hlutlægum hætti, að teknu tilliti til sjónarmiða um jafnræði og meðalhóf.
Fjarskiptastofa skal með reglulegu millibili endurskoða takmarkanir sem settar hafa verið, m.a. að beiðni þeirra fjarskiptafyrirtækja sem hlut eiga að máli. Ef hægt er að veita frekari réttindi til notkunar tíðna skal auglýst eftir umsóknum.
16. gr. Skilyrði fyrir notkun tíðna samkvæmt sérstakri tíðniheimild.
Í samræmi við reglur sem gilda um skilyrði sem sett eru fyrir tíðniafnotum samkvæmt almennri heimild, sbr. 7. gr., er Fjarskiptastofu jafnframt heimilt að binda tíðniréttindi samkvæmt sérstakri tíðniúthlutun skilyrðum sem stuðla að góðri, skilvirkri og markvissri notkun fjarskiptatíðnirófs. Skilyrðin skulu tilgreina viðeigandi þætti, þ.m.t. frestinn til að nýta afnotaréttinn, sem veita Fjarskiptastofu heimild til að afturkalla afnotaréttinn eða gera aðrar ráðstafanir ef ekki er farið eftir skilyrðunum. Helstu viðeigandi skilyrði eru:
   a. skylda til að veita þjónustu eða nota tiltekna tækni innan marka 5. mgr. 12. gr., þ.m.t. kröfur um útbreiðslu og þjónustugæði, eftir því sem við á,
   b. virk og skilvirk notkun fjarskiptatíðnirófs í samræmi við lög þessi,
   c. að búnaður og rekstur fjarskiptafyrirtækis lágmarki skaðlegar truflanir og rafsegulgeislun sem almenningur getur orðið fyrir,
   d. hámarksgildistími í samræmi við 18. gr. með fyrirvara um hvers kyns breytingar á landsbundnum áætlunum um skiptingu tíðni,
   e. varanlegt framsal, lán eða leiga réttinda að frumkvæði rétthafa og skilyrði fyrir slíku framsali í samræmi við lög þessi,
   f. greiðsla afnotagjalda í samræmi við lög um Fjarskiptastofu,
   g. hvers kyns skuldbindingar sem fyrirtæki, sem hafa fengið afnotarétt, hafa gengist undir innan ramma ferlisins við veitingu eða endurnýjun tíðniheimildar áður en heimildin var veitt eða, eftir atvikum, samkvæmt umsókn um afnotarétt,
   h. skyldur til tíðnisamnýtingar eða til að deila fjarskiptatíðnirófi eða heimila aðgang annarra notenda í tilgreindum landshlutum eða á landsvísu að fjarskiptatíðnirófi,
   i. skyldur samkvæmt viðeigandi alþjóðasamningum sem varða notkun fjarskiptatíðnirófs, eða
   j. skyldur sem snerta sérstaklega notkun á fjarskiptatíðni í tilraunaskyni.
Til að stuðla að markmiðum um útbreiðslu fjarskiptaþjónustu getur Fjarskiptastofa einnig bundið tíðniheimild eftirfarandi skilyrðum:
   a. samnýtingu óvirkra eða virkra grunnvirkja sem treysta á fjarskiptatíðniróf,
   b. viðskiptasamningum um aðgang að reikiþjónustu, eða
   c. sameiginlegri útbreiðslu grunnvirkja til að bjóða net eða þjónustu sem nýtir fjarskiptatíðniróf.
Fjarskiptastofa skal viðhafa opið samráð við hagsmunaaðila um inntak og útfærslu skilyrða fyrir notkun tíðniréttinda þegar ætlunin er að binda notkun tíðna skilyrðum samkvæmt þessari grein.
17. gr. Málsmeðferð við veitingu réttinda til að nota tíðnir og númer.
Fjarskiptastofa skal taka ákvörðun um réttindi til þess að nota tíðnir eins fljótt og unnt er eftir móttöku umsóknar. Ákvörðun skal liggja fyrir innan sex vikna ef tíðnir eru ætlaðar til ákveðinnar notkunar í tíðniskipulaginu.
Umsókn um réttindi til tíðninotkunar skal taka til afgreiðslu án tafar ef hún lýtur eingöngu að óverulegum hluta af skilgreindu tíðnisviði og úthlutun hefur þannig ekki teljandi áhrif á framboð þess eða neikvæð áhrif á samkeppni.
Ef Fjarskiptastofu berst umsókn um tíðnir til að veita fjarskiptaþjónustu eða til hljóð- og myndmiðlunar, sem ekki fellur undir 2. mgr., skal stofnunin kanna með auglýsingu hugsanlegan vilja annarra til að fá úthlutun á umræddu tíðnisviði. Komi í ljós áhugi á að fá úthlutun á viðkomandi tíðnisviði er heimilt að taka ákvörðun um að úthlutun fari fram með útboði eða uppboði skv. 6. eða 7. mgr., eftir því sem við á.
Krefjast má þess af umsækjendum um réttindi að þeir leggi fram fullnægjandi upplýsingar um eignaraðild, fjárhagsstöðu og fyrirhugaða starfsemi, svo og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar teljast til að leggja mat á umsóknir þeirra. Fjarskiptastofu er heimilt að setja sérstök skilyrði varðandi hæfi umsækjanda um tíðnir til að fá úthlutun, svo sem um fjárhagslega burði til uppbyggingar og reksturs fjarskiptanets sem ætlað er til að nota þær tíðnir sem sótt er um, tæknilega getu og reynslu umsækjanda til að reka fjarskiptaþjónustu og að umsækjandi hafi ekki brotið alvarlega eða ítrekað gegn ákvæðum laga þessara eða vanefnt verulega skilmála fyrri úthlutana tíðniréttinda.
Setja má skorður við úthlutun tíðna fyrir útvarp sem byggjast á menningarlegum sjónarmiðum, svo sem til þess að stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu. Einnig má setja skorður við úthlutun tíðna ef úthlutun getur orðið til þess að hindra virka samkeppni á fjölmiðlamarkaði.
Viðhafa má útboð við úthlutun réttinda til að nota tíðnir. Útboð skal að jafnaði vera opið en heimilt er að hafa útboð lokað að undangengnu opnu forvali. Fjarskiptastofa annast framkvæmd útboða og ákveður skilmála í útboðslýsingu. Útboðslýsing skal innihalda allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að bjóðanda sé unnt að leggja fram tilboð í réttindi. Í útboðslýsingu skulu m.a. koma fram upplýsingar um lágmarksþjónustusvæði, afmörkun þess tíðnisviðs sem boðið er út, hversu mörg réttindi eru í boði, gildistíma réttinda, hvort réttindin verða bundin við tiltekna þjónustu eða tækni, hæfi bjóðenda, aðra skilmála varðandi útboðið sjálft og um notkun og nýtingu á því tíðnisviði sem boðið er út. Skýrar upplýsingar skulu koma fram um mat á tilboðum. Óheimilt er að leggja fram frávikstilboð nema það sé sérstaklega heimilað í útboðslýsingu. Heimilt er að takmarka fjölda tilboða frá hverjum bjóðanda eða tengdum aðilum og einnig er heimilt að takmarka þátttöku aðila sem þegar hafa réttindi á sambærilegu tíðnisviði.
Ráðherra getur ákveðið að úthlutun fari fram samkvæmt uppboði. Í ákvörðun um uppboð skal koma fram hvort réttindi skuli bundin skilyrðum sem þjóna eiga samfélagslegum markmiðum, t.d. að ákveðin þjónusta verði boðin á tilteknu útbreiðslusvæði. Fjarskiptastofa ákveður skilmála uppboðs að öðru leyti. Fjarskiptastofa annast framkvæmd uppboða og úthlutun réttinda að loknu uppboði. Fjarskiptastofa getur falið öðrum hæfum aðila að annast tiltekna þætti í framkvæmd uppboðs. Í uppboðsskilmálum skal tilgreina nákvæmlega þær tíðnir sem boðnar eru upp, gildistíma réttinda, hvort réttindin verða bundin við tiltekna þjónustu eða tækni, greiðslufyrirkomulag, lágmarkskröfur sem gerðar eru til bjóðenda, aðra skilmála varðandi uppboðið sjálft og um notkun og nýtingu á því tíðnisviði sem boðið er upp. Í skilmálum er m.a. heimilt að mæla fyrir um þátttökugjald sem standa skal straum af kostnaði við undirbúning og framkvæmd uppboðs. Ákveða má lágmarksboð sem skal ekki vera hærra en sem svarar fimmtánföldu árlegu gjaldi fyrir viðkomandi tíðnir eins og það er ákveðið í lögum um Fjarskiptastofu. Ákveða má afslátt af lágmarksboði fyrir tíðniréttindi, til að mynda gegn kvöð um íþyngjandi skilyrði, svo sem um útbreiðslu og gæði þjónustu. Ákveða má brottvísun aðila frá uppboði og sektir ef ekki er staðið við tilboð eða brotið er gegn uppboðsskilmálum og geta þær numið allt að einföldu árlegu gjaldi fyrir þau réttindi sem boðið er í eða þeim mismun sem er á tilboði sem ekki er staðið við og þeirri greiðslu sem fæst fyrir réttindin í lok uppboðs. Áskilja má að trygging sé sett fyrir greiðslu tilboða og sekta. Heimilt er að takmarka fjölda tilboða frá hverjum bjóðanda eða tengdum aðilum og einnig er heimilt að takmarka þátttöku aðila sem þegar hafa réttindi á sambærilegu tíðnisviði.
Við úthlutun réttinda er Fjarskiptastofu heimilt að ákveða fyrir fram fjárhæð og fyrirkomulag dagsekta sem leggjast á fjarskiptafyrirtæki sem ekki uppfyllir þær skuldbindingar sem réttindin kveða á um. Dagsektir samkvæmt þessu ákvæði geta numið allt að 500.000 kr. á dag.
Ef ákveðið er að halda útboð eða uppboð við úthlutun tíðna er einnig heimilt að framlengja málsmeðferðarfrest skv. 1. mgr., þó ekki lengur en um átta mánuði.
Nánar skal kveðið á um málsmeðferð við veitingu réttinda til að nota tíðnir í reglugerð sem ráðherra setur. Í reglugerðinni skal m.a. kveða nánar á um framkvæmd og skilmála útboða og uppboða, framsal tíðniheimilda og sameiginlegt úthlutunarferli tíðniréttinda.
18. gr. Gildistími og endurnýjun tíðniréttinda.
Fjarskiptastofa ákvarðar hæfilegan gildistíma tíðniréttinda miðað við þau markmið um útbreiðslu og gæði fjarskiptaþjónustunnar sem stefnt er að með tíðniúthlutuninni, auk annarra íþyngjandi skilyrða sem tíðniréttindi kunna að vera bundin. Við mat á hæfilegum gildistíma tíðniréttinda skal jafnframt taka tillit til sjónarmiða um samkeppni og skilvirka nýtingu tíðnirófsins.
Við ákvörðun gildistíma tíðniréttinda á tíðnisviðum sem bundin eru ákvörðunum um samræmda tíðninotkun innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 2. mgr. 12. gr., skal enn fremur ríkja fyrirsjáanleiki um ráðstöfun tíðniréttindanna til 20 ára. Fjarskiptastofu er þó heimilt að ákvarða gildistíma slíkra tíðniréttinda til skemmri tíma, en þó að lágmarki til 15 ára. Í slíkum tilvikum skal gefa kost á mögulegri framlengingu á gildistíma tíðniréttindanna til fimm ára eða lengri tíma á grundvelli niðurstöðu markaðsmats tíðninotkunar skv. 5. mgr. Framkvæma skal slíkt markaðsmat eigi síðar en tveimur árum fyrir lok upphaflegs gildistíma viðkomandi tíðniréttinda.
Heimilt er að víkja frá ákvæði um lágmarksgildistíma tíðniréttinda skv. 2. mgr. þegar tíðniréttindin eru ætluð til:
   a. notkunar á afmörkuðum landsvæðum þar sem aðgangi að háhraðanetum er verulega ábótavant eða er ekki til staðar,
   b. sérstakra skammtímaverkefna,
   c. notkunar í tilraunaskyni,
   d. notkunar á fjarskiptatíðnirófi sem getur verið samhliða þráðlausri fjarskiptaþjónustu, eða
   e. annarrar notkunar á fjarskiptatíðnirófi en samræmingarákvörðun mælir fyrir um að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. 12. gr.
Að fenginni umsókn frá tíðnirétthafa tekur Fjarskiptastofa ákvörðun um endurnýjun tíðniréttinda á samræmdu fjarskiptatíðnirófi tímanlega áður en gildistími réttindanna rennur út eða eigi síðar en 12 mánuðum fyrir þann tíma, nema þar sem möguleikinn á endurnýjun hefur verið útilokaður við úthlutun. Fjarskiptastofa skal að jafnaði endurnýja tíðniheimild tíðnirétthafa enda mæli málefnalegar ástæður ekki gegn því, t.d. neikvæð áhrif á samkeppni á fjarskiptamarkaði eða á skipulag og nýtingu tíðnirófsins. Við endurnýjun tíðniréttinda getur Fjarskiptastofa endurskoðað skilyrði fyrir notkun viðkomandi tíðna, sbr. ákvæði 16. gr.
Fjarskiptastofa getur í fyrsta lagi fimm árum fyrir lok ákvarðaðs gildistíma tíðniréttinda, sem stofnunin telur að ekki séu málefnalegar ástæður til að framlengja, sbr. 4. mgr., framkvæmt mat á því hvaða áhrif samþykki eða synjun á endurnýjun réttindanna hafi fyrir fjarskiptamarkaðinn og neytendur. Að teknu tilliti til skemmri fyrirvara um framkvæmd slíks markaðsmats gildir hið sama áður en tekin er ákvörðun um hvort framlengja skuli gildistíma tíðniréttinda sem bundin eru ákvörðun um samræmda tíðninotkun og hefur verið úthlutað til skemmri tíma en 20 ára skv. 2. mgr. Markaðsmat tíðninotkunar skal framkvæma að undangengnu opnu samráði við markaðsaðila um forsendur þess. Meðal þeirra þátta sem horfa skal til við matið, eftir því sem við á, eru eftirfarandi atriði:
   a. virk og skilvirk notkun viðkomandi fjarskiptatíðnirófs,
   b. möguleg áhrif tíðninotkunar af því að þjóna almannahagsmunum,
   c. áhrif á samkeppnisstöðu á fjarskiptamarkaði,
   d. alþjóðlegar samþykktir og skuldbindingar um nýtingu tíðnirófsins, og
   e. skilvirkari nýting tíðnirófsins með tilliti til markaðsþróunar eða nýrrar tækni.
Nánar skal mælt fyrir um ástæður fyrir mögulegri synjun á endurnýjun tíðniréttinda og inntak og framkvæmd markaðsmats tíðninotkunar í reglugerð um skipulag og úthlutun tíðna.

VI. kafli. Númer og kóðar.
19. gr. Forræði yfir númerum og kóðum.
Númer og kóðar úr íslenska númeraskipulaginu eru auðlindir undir stjórn íslenska ríkisins. Úthlutun á númerum felur í sér tímabundna heimild til skilyrtra afnota sem hvorki leiðir til beins eignarréttar né varanlegs nýtingar- og ráðstöfunarréttar. Númer og kóðar eru réttindi sem skráð eru á nafn og kennitölu og eru eingöngu framseljanleg samkvæmt skilyrðum sem Fjarskiptastofa setur.
20. gr. Skipulag númera og kóða.
Fjarskiptastofa skal viðhalda skipulagi númera sem nota má fyrir hvers konar fjarskiptaþjónustu, þ.m.t. númerakóða fyrir net, og sjá til þess að forði númera og kóða sé ávallt nægur og standi fjarskiptafyrirtækjum til boða á jafnréttisgrundvelli. Fjarskiptastofa gerir ráðstafanir til að endanotendur geti tengst ósvæðisbundnum númerum án tillits til tækni og búnaðar fjarskiptafyrirtækis. Upplýsingar um númeraskipulag og allar breytingar á því skulu birtar opinberlega.
Fjarskiptastofa hefur eftirlit með sameiginlegum númeragrunni til uppflettingar á númerum og framkvæmdar á númeraflutningum. Högun númeragrunnsins, svo sem skráningar á kóðum og merkingar á númeraröðum, uppflettingar- og miðlunarmöguleikar og gerð sameiginlegra verkferla um númeraflutninga, er háð samþykki Fjarskiptastofu.
Fjarskiptastofa skal setja reglur1) um númer, númeraraðir og kóða þar sem m.a. er kveðið nánar á um:
   a. skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til að fá úthlutað númerum fyrir fjarskiptastarfsemi hér á landi,
   b. kröfur til hæfni rétthafa, annarra en fjarskiptafyrirtækja, til að fá úthlutað númerum og skilmála sem gilda um notkun slíkra númera,
   c. tilgreiningu á þjónustutegundum einstakra númeraraða,
   d. tilgreiningu á þjónustutegundum stuttnúmera,
   e. tilgreiningu á sérstakri númeraröð fyrir fjarskiptaþjónustu milli tækja innan Evrópska efnahagssvæðisins, auk skilyrða sem fylgja slíkri númeraúthlutun, þ.m.t. þjónustuflutning,
   f. tilgreiningu á lands- og svæðisbundnum númerum ef þörf krefur,
   g. framsal númeraraða og kóða, og
   h. meginreglur um gjaldskrá og hámarksverð sem geta átt við í tilgreindri númeraröð til að unnt sé að tryggja neytendavernd.
   1)Rgl. 960/2023.
21. gr. Málsmeðferð við úthlutun númera og kóða.
Fjarskiptastofa skal taka ákvörðun um réttindi til þess að nota númer eins fljótt og unnt er eftir móttöku umsóknar. Ákvörðun skal liggja fyrir innan þriggja vikna ef um er að ræða númer sem ætluð eru til ákveðinnar notkunar samkvæmt númeraskipulaginu. Um úthlutun númera fer samkvæmt verklagsreglum sem eru hlutlægar, gagnsæjar, hóflegar og án mismununar.
Krefjast má þess af umsækjendum um réttindi að þeir leggi fram fullnægjandi upplýsingar um eignaraðild, fjárhagsstöðu og fyrirhugaða starfsemi, svo og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar teljast til að leggja mat á umsóknir þeirra. Fjarskiptastofu er heimilt að setja skilyrði varðandi hæfi umsækjanda um númer til að fá úthlutun, svo sem um fjárhagslega burði til uppbyggingar og reksturs fjarskiptanets, tæknilega getu og reynslu umsækjanda til að reka fjarskiptaþjónustu og að umsækjandi hafi ekki brotið alvarlega eða ítrekað gegn ákvæðum laga þessara eða vanefnt verulega skilmála fyrri númeraúthlutana.
22. gr. Skilyrði fyrir notkun númera.
Fjarskiptastofa getur sett eftirfarandi skilyrði við úthlutun númera:
   a. að tilgreind sé sú þjónusta sem númerið skal nota fyrir, þ.m.t. hvers kyns kröfur sem tengjast veitingu þjónustunnar,
   b. að framboð þjónustunnar sé í samræmi við tiltekin lágmarksviðmið,
   c. að notkun númeranna sé skilvirk og hagkvæm,
   d. að boðið sé upp á númeraflutning,
   e. að veittar séu almennar símaskrárupplýsingar,
   f. að gildistími réttindanna sé takmarkaður og skuli vera með fyrirvara um breytingar á númeraskipulagi,
   g. að skilmálar númeraúthlutunar séu bindandi fyrir viðtakendur númera við framsal slíkra réttinda,
   h. að rétthafi greiði afnotagjöld,
   i. að efndar séu skuldbindingar sem gengist er undir í útboði eða uppboði,
   j. að tekið sé mið af kvöðum samkvæmt alþjóðlegum samþykktum um notkun númera, eða
   k. að leyfishafi bjóði notendum símaþjónustu gjaldfrjálsa númerabirtingu í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Fjarskiptastofa skal mæla fyrir um fyrirkomulag númerabirtingar í reglum.
23. gr. Ráðstafanir til að bregðast við misnotkun númera og svikastarfsemi.
Komi upp rökstuddur grunur um að númer sé misnotað í sviksamlegum tilgangi getur Fjarskiptastofa gefið fjarskiptafyrirtæki hér á landi fyrirmæli um að loka fyrir aðgang að slíku númeri og samtengiumferð þess ásamt því að krefja fjarskiptafyrirtækið um að halda eftir tekjum og/eða samtengigjöldum af slíkri ólögmætri þjónustu og annarri þjónustu sem henni tengist.

VII. kafli. Fjarskiptabúnaður.
24. gr. Búnaður fjarskiptaneta.
Tækjabúnaður fjarskiptaneta skal að jafnaði vera í samræmi við tæknistaðla sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Fjarskiptastofa getur í sérstökum tilvikum mælt fyrir um notkun annarra staðla svo og tilmæla frá Alþjóðafjarskiptasambandinu.
Tæknilegir eiginleikar í nettengipunktum skulu ávallt vera í samræmi við staðla.
Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um búnað fjarskiptaneta í reglugerð.
25. gr. Innanhússfjarskiptalagnir.
Innanhússfjarskiptalagnir í byggingum, þ.m.t. aðgangspunktur í fjarskiptainntaki, eru á ábyrgð eiganda byggingar. Staðsetning aðgangspunkts og allar innanhússfjarskiptalagnir skulu vera í samræmi við teikningar byggingar og/eða samþykkt húseigenda. Í fjöleignarhúsum skal, eins og kostur er, verja aðgangspunkt og innanhússfjarskiptalagnir óviðkomandi aðgangi. Fjarskiptafyrirtæki skal eiga rétt á aðgangi að aðgangspunkti til að tengja sig inn á innanhússfjarskiptalagnir byggingar og lagnir viðkomandi endanotanda, óháð því hvort um ræðir innanhússfjarskiptalögn sem er tilbúin fyrir tengingu við háhraðanet eða ekki. Fjarskiptastofa setur reglur um frágang aðgangspunkta og lagna í þeim tilgangi að tryggja vernd fjarskipta og skilgreina aðgangsheimild fjarskiptafyrirtækja.
Fjarskiptafyrirtæki hefur rétt til að tengja almennt fjarskiptanet sitt við aðgangspunkt á eigin kostnað.
26. gr. Grunnkröfur þráðlauss fjarskiptabúnaðar.
Þráðlaus fjarskiptabúnaður skal vera þannig gerður að:
   a. hann tryggi heilsuvernd og öryggi einstaklinga og húsdýra og friðhelgi eignarréttar,
   b. hann sé rafsegulsamhæfur,
   c. hann noti á skilvirkan hátt og styrki skilvirka notkun á fjarskiptatíðnirófi til þess að komast hjá skaðlegri truflun.
Þráðlaus fjarskiptabúnaður innan tiltekinna flokka eða tegunda skal vera þannig gerður að hann sé í samræmi við eftirfarandi grunnkröfur:
   a. hann sé samvirkur við aukabúnað, einkum samræmd hleðslutæki,
   b. hann sé samvirkur um net við annan þráðlausan fjarskiptabúnað,
   c. hann sé hægt að tengja við skilfleti viðeigandi tegundar á sameiginlegum innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins,
   d. hann valdi hvorki skaða á fjarskiptanetinu eða virkni þess né því að netbúnaður sé misnotaður og valdi með því óviðunandi skerðingu á þjónustu,
   e. í honum séu innbyggðar öryggisráðstafanir til að sjá til þess að persónuupplýsingar og friðhelgi einkalífs notandans njóti verndar,
   f. hann sé gerður fyrir sérstakar aðgerðir sem tryggja vörn gegn svikum,
   g. hann sé gerður fyrir sérstakar aðgerðir sem tryggja aðgang að neyðarþjónustu,
   h. hann sé gerður fyrir sérstakar aðgerðir sem auðvelda fötluðu fólki að nota hann, og
   i. hann sé búinn þeim eiginleikum að aðeins sé hægt að setja inn á hann hugbúnað sem sýnt hefur verið fram á að virki fyrir búnaðinn.
27. gr. Þráðlaus sendibúnaður.
Sendibúnað fyrir þráðlaus fjarskipti má aðeins hafa undir höndum, setja upp eða nota að fengnu leyfi Fjarskiptastofu. Þó má starfrækja þráðlausan búnað án sérstaks leyfis þegar hann er eingöngu notaður við fjarskiptaþjónustu á tilteknu tíðnisviði. Fjarskiptastofa gefur út leyfisbréf fyrir notkun þráðlauss sendibúnaðar og skal leyfisbréfið að jafnaði vera tímabundið. Binda má leyfið skilyrðum, svo sem um sendiafl, staðsetningu, bandbreidd, útbreiðslusvæði og tengingu við almenn fjarskiptanet. Leyfisbréf skulu gefin út á nafn eiganda búnaðarins og eru þau ekki framseljanleg. Leyfishafi sem selur þráðlausan búnað, sem hann hefur fengið leyfisbréf fyrir, eða afhendir hann öðrum varanlega ber ábyrgð á því að tilkynna Fjarskiptastofu um nýjan eiganda. Fjarskiptastofa skal þegar í stað gera ráðstafanir til að stöðva starfrækslu þráðlausra senda, þ.m.t. útvarpssenda, sem ekki er leyfisbréf fyrir og ekki eru undanþegnir leyfisskyldu. Óheimilt er að hindra eftirlitsmenn Fjarskiptastofu í slíkum aðgerðum, enda hafi þeir framvísað starfsskírteini sínu. Ekki þarf leyfisbréf fyrir lágaflsbúnaði sem vinnur á samræmdum tíðnisviðum sem Fjarskiptastofa hefur tilkynnt að nota megi fyrir slíkan búnað. Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um leyfisveitingar fyrir þráðlausan búnað í reglugerð.
Seljendum leyfisskylds þráðlauss búnaðar ber að tilkynna Fjarskiptastofu hver sé kaupandi búnaðarins á því formi og með þeim hætti sem stofnunin samþykkir.
Þrátt fyrir leyfisskyldu vegna þráðlauss sendibúnaðar skv. 1. mgr. er Fjarskiptastofu heimilt að ákveða að þráðlaus sendibúnaður til tiltekinnar notkunar skuli eingöngu vera háður tilkynningarskyldu til stofnunarinnar. Heimild til notkunar slíks búnaðar er þá bundin því að Fjarskiptastofa geri ekki athugasemd við staðsetningu búnaðarins eða eiginleika hans og virkni. Óheimilt er að nota tilkynningarskyldan sendibúnað sem ekki hefur verið tilkynntur. Fjarskiptastofa getur sett reglur um tilkynningu þráðlauss sendibúnaðar, þ.m.t. um þær kröfur sem gerðar eru til tíðnirétthafa á þeim tíðnisviðum sem slíkur búnaður notar.
Fjarskiptastofa gefur út skírteini sem heimila einstaklingum að starfrækja ákveðnar tegundir þráðlauss sendibúnaðar. Ekki er gerð krafa um sérstaka þjálfun þeirra sem starfrækja þráðlausan sendibúnað nema í þeim tilfellum að búnaðurinn gegni öryggishlutverki eða þegar sendiafl er umfram 100 W. Heimilt er að gefa út skírteini talstöðvavarðar sem heimilar handhafa að starfrækja fjarskiptabúnað í skipum. Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um útgáfu skírteinis talstöðvavarðar og hæfniskröfur í reglugerð. Fjarskiptastofa getur veitt útlendingum sem dvelja hér á landi í takmarkaðan tíma undanþágu til að starfrækja þráðlausan sendibúnað, enda hafi þeir til þess réttindi í sínu heimalandi. Fjarskiptastofa getur sett nánari reglur um heimildir einstaklinga til að starfrækja þráðlausan sendibúnað.
Fjarskiptastofa gefur út leyfi til radíóáhugamanna að fengnum umsóknum þeirra og umsögn hagsmunasamtaka áhugamanna. Ráðherra setur reglugerð um starfsemi radíóáhugamanna.
28. gr. Fjarskiptabúnaður í farartækjum.
Íslensk skip, loftför og önnur farartæki skulu búin fjarskiptabúnaði sem uppfyllir kröfur samkvæmt alþjóðlegum samþykktum og regluverki á sviði fjarskipta og samgangna.
Fjarskiptabúnað í erlendum skipum, loftförum eða öðrum farartækjum sem eru innan íslenskrar land- eða lofthelgi má aðeins nota í samræmi við íslensk lög og reglugerðir.
Fjarskiptastofa getur bannað notkun fjarskiptabúnaðar í erlendum farartækjum í íslenskri lögsögu ef notkunin telst andstæð íslenskum reglum.
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. getur Fjarskiptastofa heimilað notkun búnaðar sem viðurkenndur er til notkunar á alþjóðavettvangi.
Ráðherra skal setja frekari reglur um fjarskiptabúnað og fjarskiptaþjónustu í farartækjum.
29. gr. Takmörkun fjarskipta vegna truflana eða sérstakra aðgerða.
Fjarskiptastofa getur látið innsigla fjarskiptavirki og rafföng eða hluta þeirra eða bannað notkun þeirra og eftir atvikum fyrirskipað að þau skuli afhent til geymslu undir innsigli ef fjarskiptavirkin eða rafföngin valda skaðlegum truflunum á fjarskiptum eða ef hætta er á því að þau valdi skaðlegum truflunum eða hætta er á að öryggi fjarskipta sé raskað.
Ef fyrir liggur rökstuddur grunur um að rafföng, tæki, raflagnir, loftnet eða því um líkt valdi skaðlegri truflun á rekstri fjarskiptavirkis er Fjarskiptastofu heimilt að beina fyrirmælum til eiganda slíks hlutar um að hann grípi án tafar til viðeigandi úrbóta á eigin kostnað, taki t.d. niður, færi eða fjarlægi viðkomandi hlut sem veldur skaðlegri truflun.
Vanræki eigandi að framfylgja fyrirmælum um úrbætur getur Fjarskiptastofa látið vinna verkið á kostnað eiganda. Krafa um kostnað vegna þessa er aðfararhæf skv. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989.
Ef þörf krefur er lögreglu skylt að aðstoða Fjarskiptastofu við þær aðgerðir er greinir í 1. og 2. mgr.
Að fenginni beiðni frá Fangelsismálastofnun getur Fjarskiptastofa veitt heimild fyrir truflun þráðlausra fjarskipta innan sérstaklega afmarkaðs svæðis vegna framkvæmdar á öryggis- og refsigæslu. Áður en slík heimild er veitt skal stofnunin leita álits fjarskiptafyrirtækja sem veita þráðlausa fjarskiptaþjónustu á viðkomandi svæði.
30. gr. Samræmi búnaðar.
Óheimilt er að setja á markað eða bjóða á markaði annan þráðlausan fjarskiptabúnað en þann sem uppfyllir grunnkröfur 26. gr. og hefur CE-merkingu, á grundvelli samræmismats, því til staðfestingar.
Óheimilt er að taka þráðlausan fjarskiptabúnað í notkun nema notkun hans sé í samræmi við fyrirhugaðan tilgang hans og hann uppfylli grunnkröfur 26. gr. og hafi CE-merkingu, á grundvelli samræmismats, því til staðfestingar.
Innflutningur einstaklinga eða lögaðila á endabúnaði til eigin nota eða í öðrum tilgangi telst markaðssetning í þessu sambandi.
Aðili sem hyggst setja á markað þráðlausan fjarskiptabúnað á tíðnisviðum þar sem notkun hefur ekki verið samræmd á Evrópska efnahagssvæðinu skal tilkynna Fjarskiptastofu um þessa fyrirætlun með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Einnig skal senda stofnuninni upplýsingar um eiginleika búnaðarins, þ.m.t. tíðnisvið hans, bil milli rása, mótunaraðferð og hátíðniafl. Telji Fjarskiptastofa hættu á því að búnaðurinn geti truflað aðra þjónustu á viðkomandi tíðnisviði getur stofnunin bannað sölu og notkun hans.
31. gr. Skyldur framleiðenda, innflytjenda og dreifingaraðila.
Framleiðendur þráðlauss búnaðar skulu tryggja að þráðlaus fjarskiptabúnaður sem þeir setja á markað fullnægi grunnkröfum 26. gr. og hafi CE-merkingu, á grundvelli samræmismats, því til staðfestingar. Framleiðendur bera ábyrgð á að framkvæmt sé samræmismat fyrir þráðlausa fjarskiptabúnaðinn, hvort sem er hjá faggiltri samræmismatsstofu eða, eftir atvikum, á grundvelli sjálfsmats. Þá skal framleiðandi þráðlauss fjarskiptabúnaðar sem settur er á markað hér á landi tryggja að honum fylgi upplýsingar fyrir notendur á íslensku um tilætlaða notkun, helstu eiginleika og öryggismál. Þá skulu fylgja upplýsingar um framleiðslunúmer, nafn framleiðanda og skráð viðskiptaheiti hans eða vörumerki. ESB-samræmisyfirlýsing og tæknigögn skulu einnig fylgja þráðlausa fjarskiptabúnaðinum. Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um að upplýsingar skv. 3. málsl. megi vera á ensku eða Norðurlandamáli öðru en finnsku enda megi ætla að notendahópur viðkomandi vöru skilji hið erlenda mál vegna menntunar, starfa eða annarrar sérhæfingar. Framleiðandi þráðlauss fjarskiptabúnaðar getur kært niðurstöðu faggiltrar samræmismatsstofu um ósamræmi búnaðar til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála.
Einungis er heimilt að setja á markað þráðlausan fjarskiptabúnað sem uppfyllir grunnkröfur 26. gr. og hefur CE-merkingu, á grundvelli samræmismats, því til staðfestingar. Skulu innflytjendur ganga úr skugga um að búnaðinum fylgi þau gögn sem framleiðanda ber að láta fylgja, sbr. 1. mgr. og reglugerð sem ráðherra setur. Þá skulu innflytjendur skrá nafn sitt og skráð viðskiptaheiti á þráðlausa fjarskiptabúnaðinn eða, ef slíkt er ekki hægt, á umbúðir hans.
Dreifingaraðilar skulu gæta þess þegar þeir bjóða fram þráðlausan fjarskiptabúnað á markaði að hann sé í samræmi við grunnkröfur og hafi CE-merkingu því til staðfestingar. Dreifingaraðila ber að gæta þess að með búnaðinum fylgi þau gögn sem framleiðanda ber að láta fylgja, sbr. 1. mgr. og reglugerð sem ráðherra setur.
32. gr. Eftirlit með markaðssetningu á þráðlausum fjarskiptabúnaði og samræmi hans.
Fjarskiptastofa fer með eftirlit með markaðssetningu á þráðlausum fjarskiptabúnaði og aðilum sem koma að markaðssetningu á honum. Skal stofnunin að eigin frumkvæði eða eftir ábendingu taka til meðferðar mál er varða markaðssetningu á þráðlausum fjarskiptabúnaði og skyldum aðila í tengslum við slíkan búnað. Í því skyni getur stofnunin, hvenær sem er og án sérstakrar heimildar, krafist þess að fá aðgang að sölustöðum slíks búnaðar.
Ef þráðlaus fjarskiptabúnaður, sem uppfyllir ekki grunnkröfur 26. gr. og reglugerðar sem ráðherra setur, er settur á markað, fluttur inn eða honum dreift, getur Fjarskiptastofa krafist þess að sala hans og/eða notkun verði þegar í stað stöðvuð, búnaðurinn verði kyrrsettur eða haldlagður og að viðkomandi aðilar grípi til aðgerða til úrbóta. Fjarskiptastofa getur einnig, að undangengnu mati, takmarkað að þráðlaus fjarskiptabúnaður sé settur á markað, fluttur inn eða honum dreift af ástæðum sem tengjast almannaöryggi, almannaheilbrigði og öðrum almannahagsmunum. Getur stofnunin jafnframt krafist aðgerða af hálfu viðkomandi aðila til úrbóta í slíkum tilvikum.
Fjarskiptastofa getur gert kröfu um að aðilar sem koma að markaðssetningu þráðlauss búnaðar afhendi stofnuninni sundurliðaðar upplýsingar og teikningar af búnaði sem settur hefur verið á markað eða ráðgert er að setja á markað. Með slíkar upplýsingar skal farið sem trúnaðarmál.
33. gr. Reglugerð um eftirlit með markaðssetningu og samræmi þráðlauss fjarskiptabúnaðar.
Ráðherra skal setja reglugerð1) um eftirlit með markaðssetningu og samræmiskröfum sem gerðar eru til þráðlauss fjarskiptabúnaðar. Í reglugerðinni skal m.a. kveða á um kröfur sem gerðar eru til þráðlauss fjarskiptabúnaðar, heimildir til að bjóða þráðlausan búnað fram á markaði og notkun hans, frekari skyldur framleiðenda, innflytjenda og dreifingaraðila þráðlauss fjarskiptabúnaðar, samræmi þráðlauss fjarskiptabúnaðar, framkvæmd samræmismats og samræmismatsstofur, CE-merkingu, eftirlit með markaðssetningu og samstarf yfirvalda.
   1)Rg. 944/2019, sbr. 945/2023.

VIII. kafli. Aðgangur og samtenging.
34. gr. Aðgangur að landi og mannvirkjum.
Ef nauðsynlegt er fyrir fjarskiptafyrirtæki að leggja fjarskiptavirki um land annars aðila, yfir það eða í jörðu, yfir hús eða önnur mannvirki á landinu, á þeim, gegnum þau eða undir þau, þá er eiganda viðkomandi fasteignar skylt að heimila slíkt, enda komi fullar bætur fyrir sannanlegt tjón; tímabundið rask og skerðingu á mögulegri nýtingu fasteignar, sé það raunin. Hafa skal samráð við eigendur eða umráðamenn slíkra fasteigna og mannvirkja um hvar lagnir eru lagðar og skal þess gætt að sem minnst sé raskað hagsmunum eigandans. Ágreiningi um fyrirhugaða lagningu fjarskiptavirkis má vísa til Fjarskiptastofu, sem að fengum sjónarmiðum málsaðila skal úrskurða um legu slíkra lagna. Starfsmenn við fjarskiptavirki skulu gæta þess að valda eigendum og íbúum ekki meiri óþægindum en brýnustu nauðsyn ber til.
Framkvæmdaaðili skal vinna teikningu að fyrirhugaðri framkvæmd skv. 1. mgr. og kynna hana hlutaðeigandi landeigendum og öðrum rétthöfum sem rétt geta átt til eignarnámsbóta. Nú finnast ekki upplýsingar um dvalarstað allra eigenda og skal framkvæmdaaðila þá heimilt að auglýsa áformaða framkvæmd í Lögbirtingablaði og telst það þá nægjanleg birting gagnvart þeim sem hagsmuni kunna að eiga og ekki finnast upplýsingar um í fasteigna- eða jarðaskrá.
Ef tjón verður á landi aðila, mannvirkjum eða öðrum eignum við lagningu fjarskiptavirkja eða viðhald þeirra, og ekki verður úr bætt, eða lagning fjarskiptavirkja leiðir til takmörkunar á afnotamöguleikum viðkomandi eignar, þá skal eigandi fjarskiptavirkis bæta tjónið. Náist ekki samkomulag um bótafjárhæð skal um ákvörðun bóta fara að lögum um framkvæmd eignarnáms. Leiði framkvæmd til varanlegrar skerðingar á réttindum landeiganda eða annars rétthafa sem rétt getur átt til eignarnámsbóta skal um ákvörðun bóta fara að lögum um framkvæmd eignarnáms.
Þegar þar til bærir opinberir aðilar hafa til meðferðar umsókn um aðgang að eign skal viðhafa einfalda, skilvirka og gagnsæja málsmeðferð sem er öllum aðgengileg, án mismununar og án tafar, og taka í öllum tilvikum ákvörðun innan sex mánaða frá umsókn, nema ef um er að ræða eignarnám.
Ef opinber aðili fer með eignarhald eða yfirráð yfir fjarskiptafyrirtæki skal ákvörðun um aðgang að eign samkvæmt ákvæði þessu tekin í stofnun eða annarri einingu sem er aðskilin frá starfsemi sem tengist eignarhaldi eða yfirráðum yfir fjarskiptastarfsemi.
Ef fjarskiptafyrirtæki er nauðsynlegt að tryggja sér land, lóð eða aðra eign í sambandi við lagningu eða rekstur almennra fjarskiptavirkja og samningum um kaup verður ekki við komið má ráðherra heimila, að fenginni umsögn Fjarskiptastofu, að eign eða hluti hennar sé tekinn eignarnámi gegn endurgjaldi sem meta skal samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Samþykki ráðherra fyrir eignarnámi skal m.a. háð því að eignarnemi setji tryggingu fyrir greiðslu áætlaðra eignarnámsbóta og kostnaðar við matið. Ef eignarnámsbætur fást ekki greiddar hjá eignarnema skal ríkissjóður ábyrgjast greiðslu þeirra.
35. gr. Aðgangur að aðstöðu.
Ef rekstraraðili hefur nýtt rétt til að koma sér upp aðstöðu á, yfir eða undir eignum annars aðila, eða nýtir sér reglur um eignarnám eða afnot af eign, getur Fjarskiptastofa fyrirskipað samhýsingu eða samnýtingu netþátta eða tengdrar aðstöðu í því skyni að vernda umhverfið, almannaheilbrigði eða almannaöryggi eða til að uppfylla markmið um skipulag sveitarfélaga.
Áður en ákvörðun er tekin um samhýsingu eða samnýtingu skv. 1. mgr. skal fara fram opið samráð um málið. Ákvörðun skal eingöngu ná til tilgreindra svæða þar sem slík samnýting er talin nauðsynleg til að ná þeim markmiðum sem kveðið er á um í 1. mgr.
Ákvörðun skv. 1. mgr. getur náð til samnýtingar aðstöðu eða eigna, þ.m.t. lands, bygginga eða inngangs að byggingum, lagnaleiða í byggingum, loftneta, turna og annarra burðarvirkja, röra, mastra, brunna og skápa, eða falið í sér ráðstafanir til samræmingar við opinberar framkvæmdir.
Fjarskiptastofu er heimilt að setja reglur um kostnaðarskiptingu við samnýtingu aðstöðu, eigna eða framkvæmda samkvæmt þessari grein.
36. gr. Réttur til samtengingar og aðgangs.
Fjarskiptafyrirtæki skulu eiga rétt á og þeim ber skylda til að semja um samtengingu almennra fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu með það fyrir augum að veita almenna fjarskiptaþjónustu og tryggja framboð og rekstrarsamhæfi þjónustunnar hvarvetna á Evrópska efnahagssvæðinu.
Fjarskiptafyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu sem óska eftir að semja um aðgang eða samtengingu þurfa ekki að vera skráð hjá Fjarskiptastofu ef þau reka hvorki fjarskiptanet né fjarskiptaþjónustu hér á landi.
Rekstraraðilar skulu bjóða öðrum fyrirtækjum aðgang og samtengingu með skilmálum og skilyrðum sem samrýmast þeim skyldum sem Fjarskiptastofa leggur á skv. 38., 39. og 46. gr.
Í samtengisamningi og samningi um aðgang að fjarskiptanetum skal geta um þá stýringu fjarskiptaumferðar sem aðilar áskilja sér rétt til að viðhafa í almennum fjarskiptanetum og skal stýringin uppfylla skilyrði um nauðsyn og meðalhóf. Slíka samninga um samtengingu og aðgang skal senda Fjarskiptastofu eigi síðar en viku eftir undirritun þeirra.
37. gr. Almennt hlutverk Fjarskiptastofu varðandi aðgang og samtengingu.
Fjarskiptastofa skal leitast við að tryggja aðgang, samtengingu og samhæfni fjarskiptaþjónustu á fullnægjandi og hagkvæman hátt.
Fjarskiptastofa skal gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir takmarkanir sem hindra fyrirtæki í að gera samtengisamninga sín á milli.
Fjarskiptastofa skal veita leiðsögn og birta upplýsingar um verklag varðandi samninga um aðgang og samtengingu.
38. gr. Kvaðir án undangenginnar markaðsgreiningar.
Fjarskiptastofa getur lagt kvaðir á fjarskiptafyrirtæki og aðra aðila eftir því sem nánar er tiltekið í ákvæði þessu, án tillits til þess hvort viðkomandi fyrirtæki hafi verið útnefnt sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk skv. 45. gr.
Fjarskiptastofa getur í rökstuddum tilvikum og eftir því sem þurfa þykir lagt eftirfarandi kvaðir á fjarskiptafyrirtæki í þeim tilgangi að tryggja tengingu endanotenda:
   a. kvaðir á fjarskiptafyrirtæki sem stjórna aðgangi endanotenda og eru taldar nauðsynlegar til að tryggja tengingu enda á milli, þ.m.t. kvöð um að samtengja fjarskiptanet,
   b. kvaðir á fyrirtæki sem stjórna aðgangi endanotenda um að gera þjónustu sína rekstrarsamhæfða,
   c. kvaðir á viðkomandi veitendur fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga, sem er ótengd númerum og hefur verulega útbreiðslu og fjölda notenda, um að gera þjónustu sína rekstrarsamhæfða ef tengingu enda á milli er ógnað vegna skorts á rekstrarsamhæfi en kveða skal nánar á um skilyrði fyrir beitingu slíkra úrræða í reglugerð,
   d. kvaðir um að veita aðgang að hugbúnaðarskilum og rafrænum dagskrárvísum með skilmálum sem eru réttlátir, sanngjarnir og án mismununar til að tryggja aðgang endanotenda að stafrænni hljóð- og myndmiðlun og tengdri viðbótarþjónustu.
Fjarskiptastofa getur að fenginni réttmætri beiðni lagt kvaðir á fjarskiptafyrirtæki eða aðra eigendur aðstöðu um að veita aðgang að lögnum og tengdri aðstöðu í byggingum eða að fyrsta samantektar- eða dreifipunkti ef sá punktur er staðsettur utan byggingar. Skilyrði fyrir því að leggja á slíkar kvaðir er að tvöföldun slíkra netþátta sé efnahagslega óhagstæð eða ómöguleg í framkvæmd. Kvaðir geta falist í skyldu til að veita aðgang að viðkomandi netþáttum og tengdri aðstöðu, skyldu til gagnsæis og jafnræðis og um skiptingu kostnaðar vegna aðgangs að teknu tilliti til áhættuþátta þar sem það á við.
Komist Fjarskiptastofa að þeirri niðurstöðu, eftir atvikum með tilliti til þeirra kvaða sem leiðir af viðkomandi markaðsgreiningu, að kvaðir sem lagðar eru á í samræmi við 3. mgr. taki ekki nægjanlega á miklum og varanlegum efnahagslegum eða áþreifanlegum hindrunum í vegi fyrir tvöföldun netþátta þannig að samkeppni sé hamlað getur stofnunin látið kvaðir um aðgang ná lengra en til fyrsta samantektar- eða dreifipunkts eða að þeim punkti næst endanotendum sem getur hýst nægilegan fjölda tenginga til að hagkvæmt sé að fá aðgang að netinu á þeim stað. Ef réttlætanlegt þykir af tæknilegum eða efnahagslegum ástæðum geta kvaðir náð til virkra netþátta og sýndaraðgangs.
Kvaðir skv. 4. mgr. skal ekki leggja á fyrirtæki sem uppfylla skilyrði 59. gr. og bjóða fram aðra raunhæfa leið til að ná til endanotenda með því að veita fyrirtækjum aðgang að afkastamiklu háhraðaneti með réttmætum og sanngjörnum skilmálum og skilyrðum sem eru án mismununar, en það er þó heimilt ef viðkomandi fjarskiptanet er fjármagnað með opinberu fé. Fjarskiptastofa getur undanþegið önnur fyrirtæki kvöðum skv. 4. mgr. ef þau bjóða aðgang að afkastamiklu háhraðaneti með réttmætum og sanngjörnum skilmálum og skilyrðum sem eru án mismununar. Kvöðum skv. 4. mgr. skal ekki beitt ef þær geta hamlað útbreiðslu nýrra fjarskiptaneta.
Fjarskiptastofa getur lagt kvaðir á fjarskiptafyrirtæki sem bjóða þráðlausa fjarskiptaþjónustu um að þau veiti aðgang að óvirkum netþáttum eða bjóði svæðisbundna reikiþjónustu ef nauðsynlegt er að tryggja svæðisbundinn aðgang að þráðlausri þjónustu og að ekki sé til staðar önnur svipuð og raunhæf leið til að veita endanotendum aðgang. Aðeins má beita slíkum kvöðum ef skýrt er kveðið á um þann möguleika í viðkomandi tíðniheimildum með vísan til óyfirstíganlegra efnahagslegra eða áþreifanlegra hindrana í vegi markaðsdrifinnar útbreiðslu. Komi til ágreinings um aðgang getur Fjarskiptastofa m.a. lagt þá skyldu á fjarskiptafyrirtæki sem óskar aðgangs að það heimili aðgangsveitanda tíðnisamnýtingu á viðkomandi svæði.
Kvaðir samkvæmt þessari grein skulu vera hlutlægar, gagnsæjar, hóflegar og án mismununar. Meta skal árangur kvaða og taka ákvörðun um að viðhalda, afturkalla eða breyta þeim innan fimm ára frá gildistöku þeirra. Viðhafa skal samráð skv. 24. og 28. gr. laga um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021, áður en ákvörðun er tekin eða hún endurskoðuð.
Kveða skal nánar á um beitingu kvaða samkvæmt þessu ákvæði í reglugerð.
39. gr. Kerfi og búnaður til hljóð- og myndmiðlunar.
Fjarskiptastofu er heimilt að setja reglur um skilyrt aðgangskerfi fyrir stafræna hljóð- og myndmiðlun og tengda þjónustu, svo sem hugbúnaðarskil og rafræna dagskrárvísa. Í reglunum skal kveðið á um aðgang fjölmiðlaveitna að slíkum kerfum og þjónustu og þá tæknilegu eiginleika sem kerfin og þjónustan skulu uppfylla.
Endabúnaður fyrir stafræna myndmiðlun, keyptur eða leigður, skal uppfylla kröfur um samvirkni í samræmi við reglur sem Fjarskiptastofa setur um:
   a. sameiginlegt brenglunaralgrím og gjaldfrjálsa viðtöku, og
   b. samvirkni hliðrænna og stafrænna sjónvarpstækja.
Óheimilt er að framleiða eða markaðssetja búnað eða hugbúnað sem er hannaður eða aðlagaður til að sniðganga réttindi þjónustuveitanda sem veitir þjónustu um skilyrt aðgangskerfi.
40. gr. Aðgangur að þráðlausum staðarnetum.
Heimilt er að veita aðgang að almennum fjarskiptanetum í gegnum þráðlaus staðarnet og nota til þess tíðnisvið sem ætlað er til slíkrar notkunar samkvæmt almennri heimild án sérstakrar tíðniúthlutunar.
Ef veiting slíks aðgangs er ekki í atvinnuskyni er veitandi þjónustunnar hvorki bundinn af skilyrðum almennrar heimildar skv. IV. kafla né ákvæðum varðandi réttindi endanotenda og er ekki skylt að samtengja net sitt skv. 36. gr.
Fjarskiptafyrirtæki er heimilt að veita aðgang að almennum fjarskiptanetum sínum í gegnum þráðlaus staðarnet sem kunna að vera staðsett í húsnæði endanotanda, með fyrirvara um að farið sé að viðeigandi skilyrðum almennrar heimildar og að upplýst samþykki endanotanda sé fengið fyrir fram.
Fjarskiptafyrirtæki er óheimilt að takmarka einhliða eða koma í veg fyrir að endanotendur:
   a. hafi aðgang að þráðlausum staðarnetum að eigin vali sem þriðju aðilar bjóða, eða
   b. heimili öðrum endanotendum gagnkvæman, eða almennan, aðgang að almennum fjarskiptanetum sínum í gegnum þráðlaus staðarnet, þ.m.t. að frumkvæði þriðju aðila sem safna saman þráðlausum staðarnetum mismunandi endanotenda og gera þau aðgengileg almenningi.
Endanotendum er heimilt að veita öðrum endanotendum aðgang, gagnkvæman eða annars konar, að þráðlausum staðarnetum sínum, þ.m.t. að frumkvæði þriðju aðila sem safna saman þráðlausum staðarnetum mismunandi endanotenda og gera þau aðgengileg almenningi.
Heimilt er að veita aðgang að þráðlausum staðarnetum af hálfu:
   a. opinberra aðila eða í almenningsrýmum nálægt athafnasvæði opinberra aðila þegar aðgangurinn er viðbótarþjónusta við þá opinberu þjónustu sem veitt er á svæðinu, og
   b. frjálsra félagasamtaka eða opinberra aðila sem safna saman þráðlausum staðarnetum mismunandi endanotenda og gera þau gagnkvæmt eða almennt aðgengileg, þ.m.t. þráðlausu staðarneti sem almenningi er veittur aðgangur að í samræmi við a-lið.
41. gr. Útbreiðsla og starfræksla þráðlausra aðgangspunkta sem þekja lítið svæði.
Ekki þarf sérstakt leyfi Fjarskiptastofu til uppsetningar á þráðlausum aðgangspunktum sem þekja lítið svæði. Notkun tíðna í slíkum sendum getur þó eftir atvikum verið háð heimild skv. V. kafla.
Opinber stjórnvöld skulu veita aðgang að efnislegum grunnvirkjum, sem þau hafa yfirráð yfir og henta tæknilega til að hýsa þráðlausa aðgangspunkta sem þekja lítið svæði eða eru nauðsynlegir til að tengja þá við grunnnet, þ.m.t. ljósastaurum, götuskiltum, umferðarljósum, auglýsingaskiltum og stöðvum fyrir almenningssamgöngur. Opinber stjórnvöld skulu sinna öllum réttmætum beiðnum um aðgang með sanngjörnum, réttmætum, gagnsæjum skilyrðum og skilmálum, án mismununar. Beiðni um slíkan aðgang skal afgreiða innan fjögurra mánaða frá því að hún er sett fram.
Ráðherra skal setja reglugerð1) þar sem tilgreindar eru kröfur um eðlisfræðilega og tæknilega eiginleika, svo sem hámarksstærð, þyngd og, eftir því sem við á, sendiafl sem þráðlausir aðgangspunktar sem þekja lítið svæði þurfa að uppfylla.
Fjarskiptastofa skal beita sér fyrir því að reglur sem gilda um útbreiðslu þráðlausra aðgangspunkta sem þekja lítið svæði séu samræmdar á landsvísu og birtar opinberlega á vef stofnunarinnar.
Fjarskiptastofa skal veita hverjum sem þess óskar upplýsingar um reglur sem gilda um uppsetningu og starfrækslu fjarskiptasenda sem falla undir þessa grein.
   1)Rg. 422/2023.
42. gr. Samskipti fjarskiptafyrirtækja.
Fjarskiptafyrirtæki sem öðlast upplýsingar frá öðru fyrirtæki við gerð samninga um aðgang eða samtengingu eða að loknum samningum skulu eingöngu nota upplýsingarnar í þeim tilgangi sem þær voru veittar og skulu á öllum stigum halda trúnað. Óheimilt er að afhenda upplýsingarnar öðrum, þar á meðal öðrum deildum fyrirtækis, dótturfyrirtækjum eða samstarfsaðilum.

IX. kafli. Markaðir, markaðsgreiningar og kvaðir.
43. gr. Skilgreining markaða o.fl.
Fjarskiptastofa skal skilgreina þjónustu- eða vörumarkaði og landfræðilega markaði í samræmi við meginreglur samkeppnisréttar og skuldbindingar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Haft skal samráð við Samkeppniseftirlitið þegar við á.
Við skilgreiningu markaða skal Fjarskiptastofa taka ýtrasta tillit til tilmæla Eftirlitsstofnunar EFTA um viðkomandi þjónustumarkaði og viðmiðunarreglna Eftirlitsstofnunar EFTA um markaðsgreiningar og mat á umtalsverðum markaðsstyrk að teknu tilliti til innlendra aðstæðna, sérstaklega viðkomandi landfræðilegs markaðar, þar sem hliðsjón er m.a. höfð af eðli samkeppni í innviðum á tilteknu svæði í samræmi við ákvæði samkeppnislaga. Fjarskiptastofa skal, ef við á, taka tillit til niðurstaðna úr landfræðilegri könnun sem framkvæmd er í samræmi við 11. gr. laga um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021.
Ráðherra skal setja reglugerð1) um nánari skilgreiningu markaða samkvæmt ákvæði þessu, um framkvæmd markaðsgreiningar skv. 44. gr., um mælikvarða sem nota skal við mat á því hvort fyrirtæki, eitt eða fleiri saman, hafi umtalsverðan markaðsstyrk skv. 45. gr. og um kvaðir og aðrar skyldur og réttindi skv. 46.–61. gr.
   1)Rg. 556/2023.
44. gr. Framkvæmd markaðsgreiningar.
Fjarskiptastofa skal með hliðsjón af 43. gr. greina viðkomandi markaði með hliðsjón af skuldbindingum samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þegar við á skal gera greininguna í samstarfi við Samkeppniseftirlitið. Greining skal leiða í ljós hvort aðstæður á viðkomandi markaði réttlæti að kvaðir verði lagðar á. Við greiningu skal taka ýtrasta tillit til viðmiðunarreglna Eftirlitsstofnunar EFTA um markaðsgreiningar og mat á umtalsverðum markaðsstyrk.
Aðstæður á markaði geta talist réttlæta að lagðar séu á kvaðir samkvæmt þessum kafla ef öll eftirfarandi viðmið eru uppfyllt:
   a. miklar og varanlegar kerfislægar aðgangshindranir, eða aðgangshindranir í lögum og reglugerðum, eru til staðar,
   b. markaðsgerðin stefnir ekki í átt að virkri samkeppni innan þess tímaramma sem á við, með hliðsjón af stöðu samkeppni í grunnvirkjum og öðrum upptökum samkeppni sem liggja að baki aðgangshindrununum, og
   c. samkeppnislög ein og sér nægja ekki til að bregðast við þeim markaðsbresti sem auðkenndur hefur verið.
Þegar Fjarskiptastofa framkvæmir greiningu á markaði sem er að finna í tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA um viðkomandi markaði skal líta svo á að ákvæði a–c-liðar 2. mgr. hafi verið uppfyllt nema Fjarskiptastofa komist að þeirri niðurstöðu að eitt eða fleiri af þessum viðmiðum séu ekki uppfyllt við viðkomandi landsbundnar aðstæður.
Við framkvæmd markaðsgreiningar skal Fjarskiptastofa með framsýnum hætti leggja mat á það hvernig þróun viðkomandi markaða yrði ef ekki væru til staðar kvaðir samkvæmt þessum kafla og taka tillit til allra eftirfarandi þátta:
   a. markaðsþróunar sem hefur áhrif á líkur þess að viðkomandi markaður stefni í átt að virkri samkeppni,
   b. alls samkeppnislegs aðhalds á viðkomandi heildsölu- og smásölustigi,
   c. annarra reglna eða ráðstafana sem hafa áhrif á viðkomandi markað eða tengdan smásölumarkað, og
   d. kvaða sem komið er á á öðrum viðkomandi mörkuðum á grundvelli þessarar greinar.
Leiði markaðsgreiningin á grundvelli 1.–4. mgr. í ljós að skilyrði á viðkomandi markaði réttlæti ekki álagningu kvaða eða skilyrði skv. 6. mgr. eru ekki fyrir hendi, skal hvorki leggja á né viðhalda kvöðum á grundvelli 46. gr. Hafi kvaðir verið lagðar á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði ber að fella þær úr gildi.
Telji Fjarskiptastofa á grundvelli markaðsgreiningar sem framkvæmd er í samræmi við 1.–4. mgr. að álagning kvaða sé réttlætanleg, skal stofnunin auðkenna fyrirtæki sem hvert um sig eða í sameiningu hafa umtalsverðan markaðsstyrk, sbr. 45. gr., og leggja á, viðhalda eða breyta viðeigandi kvöðum í samræmi við 46. gr., ef stofnun telur að án kvaða muni útkoman fyrir endanotanda ekki hafa í för með sér skilvirka samkeppni.
Við framkvæmd markaðsgreiningar á markaði á heildsölustigi skal leggja mat á samkeppnisstöðu á tengdum smásölumörkuðum.
Fjarskiptastofa skal framkvæma markaðsgreiningu og hafa tilkynnt fyrirhugaðar aðgerðir til Eftirlitsstofnunar EFTA sem byggjast á greiningunni innan eftirtalinna tímamarka:
   a. innan fimm ára frá fyrri ákvörðun um viðkomandi markað eða innan sex ára ef Eftirlitsstofnun EFTA hefur ekki andmælt rökstuddri tillögu Fjarskiptastofu um árs framlengingu en slíka tillögu þarf að setja fram eigi síðar en fjórum mánuðum fyrir lok fimm ára tímabilsins,
   b. innan þriggja ára frá útgáfu endurskoðaðra tilmæla Eftirlitsstofnunar EFTA um viðkomandi markaði að því er varðar markaði þar sem markaðsgreining hefur ekki áður farið fram, eða
   c. innan sex mánaða frá lokum frests skv. a- eða b-lið í tilvikum þar sem Fjarskiptastofa hefur ekki lokið eða telur sig ekki geta lokið greiningu innan tímamarka og hefur óskað eftir aðstoð evrópsks hóps eftirlitsaðila á sviði fjarskipta við að ljúka greiningu.
45. gr. Umtalsverður markaðsstyrkur.
Fyrirtæki telst hafa umtalsverðan markaðsstyrk ef það eitt sér eða með öðrum hefur þann efnahagslega styrkleika á ákveðnum markaði að geta hindrað virka samkeppni og það getur að verulega leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda.
Þegar fyrirtæki eitt sér eða með öðrum hefur umtalsverðan markaðsstyrk á tilteknum markaði getur það einnig talist hafa umtalsverðan markaðsstyrk á tengdum markaði ef tengsl milli markaðanna eru slík að fyrirtæki getur beitt markaðsstyrk sínum á öðrum markaðnum til að auka markaðsstyrk sinn á hinum.
46. gr. Kvaðir á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk.
Fjarskiptastofu er heimilt að leggja kvaðir á fjarskiptafyrirtæki í samræmi við ákvæði þessa kafla.
Ef fjarskiptafyrirtæki telst, í kjölfar markaðsgreiningar, hafa umtalsverðan markaðsstyrk á tilteknum markaði skal Fjarskiptastofa leggja á kvaðir skv. 47.–52. gr., 55. og 59. gr. eins og við á. Velja skal þá aðferð sem veldur minnstri röskun til að fást við vandamál sem auðkennd eru í markaðsgreiningu.
Ef umtalsverður markaðsstyrkur fjarskiptafyrirtækis á tilteknum markaði er talinn valda umtalsverðum markaðsstyrk á tengdum markaði skv. 2. mgr. 45. gr. má aðeins leggja á kvaðir um gagnsæi, jafnræði, aðskilið bókhald og eftirlit með gjaldskrá á hinum síðarnefnda tengda markaði.
Ef Fjarskiptastofa hefur í hyggju, í undantekningartilvikum, að leggja aðrar kvaðir á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk varðandi aðgang eða samtengingu en þær sem settar eru fram í 47.–52. gr., 55. og 59. gr. skal stofnunin leita samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA.
Kvaðir sem lagðar eru á samkvæmt þessari grein skulu vera:
   a. í samræmi við eðli vandamálsins sem tilgreint er í markaðsgreiningu og taka, eftir því sem við á, tillit til millilandaeftirspurnar,
   b. hóflegar og hafa hliðsjón, þar sem hægt er, af kostnaði og ávinningi,
   c. réttlætanlegar í ljósi markmiða laga þessara, og
   d. lagðar á að viðhöfðu samráði í samræmi við 24. og 28. gr. laga um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021.
Fjarskiptastofa skal tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um ákvarðanir um að leggja á, breyta eða afturkalla kvaðir á fyrirtæki í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 28. gr. laga um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021.
Fjarskiptastofa skal fylgjast með markaðsþróun, svo sem í tengslum við viðskiptasamninga, þ.m.t. samninga um sameiginlegar fjárfestingar, sem hafa áhrif á samkeppnishæfni, með tilliti til kvaða á markaðnum. Ef þessi þróun er ekki nægilega mikilvæg til að þörf sé á annarri markaðsgreiningu skal Fjarskiptastofa meta án tafar hvort nauðsynlegt sé að endurskoða kvaðir sem lagðar hafa verið á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk og breyta fyrri ákvörðunum, þ.m.t. með því að afturkalla kvaðir eða leggja nýjar kvaðir á til að tryggja að slíkar kvaðir uppfylli áfram skilyrði 5. mgr. Slíkar breytingar skulu aðeins gerðar að loknu samráði í samræmi við 24. og 28. gr. laga um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021.
47. gr. Aðgangur að mannvirkjum.
Fjarskiptastofa getur lagt kvaðir á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk um að verða við réttmætum beiðnum um aðgang að og notkun á mannvirkjum, þar á meðal byggingum eða inngöngum að byggingum, lagnaleiðum í byggingum, loftnetum, turnum og öðrum burðarvirkjum, staurum, möstrum, rörum, brunnum og skápum, ef markaðsgreining bendir til þess að synjun aðgangs eða setning óréttmætra skilyrða fyrir aðgangi hindri sjálfbæra samkeppni og gangi gegn hagsmunum endanotenda.
Leggja má kvaðir á fyrirtæki um að veita aðgang samkvæmt þessari grein í samræmi við markaðsgreiningu, að því tilskildu að kvöðin sé hófleg og nauðsynleg til að uppfylla markmið laga þessara.
48. gr. Aðgangur að netum og þjónustu.
Fjarskiptastofa getur mælt fyrir um að fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk verði við réttmætum beiðnum um aðgang að og notkun á tilteknum netþáttum og tengdri aðstöðu ef talið er að synjun um aðgang eða óréttmætir skilmálar og skilyrði, sem hafa svipuð áhrif, muni hamla því að til verði sjálfbær samkeppnismarkaður á smásölustigi og verði ekki til hagsbóta fyrir endanotendur.
Meðal annars má krefjast af fjarskiptafyrirtækjum að þau:
   a. veiti aðgang að einstökum hlutum neta eða tengdri aðstöðu, þ.m.t. aðgreindan aðgang að heimtaugum og heimtaugagreinum,
   b. veiti aðgang að tilteknum virkum netþáttum eða sýndarnetþáttum og sýndarnetþjónustu,
   c. semji í góðri trú við fyrirtæki sem óska eftir aðgangi,
   d. afturkalli ekki aðgang að aðstöðu sem þegar hefur verið veittur,
   e. bjóði ákveðna þjónustu í heildsölu sem þriðji aðili endurselur,
   f. heimili opinn aðgang að tæknisniðflötum, samskiptareglum eða annarri tækni sem er nauðsynleg til þess að tryggja rekstrarsamhæfi þjónustu eða sýndarnetþjónustu,
   g. hýsi eða samnýti tengda aðstöðu með öðrum hætti,
   h. bjóði þjónustu sem tryggir rekstrarsamhæfi enda á milli til notenda, eða reikiþjónustu í farnetum,
   i. bjóði aðgang að rekstrarkerfum eða hliðstæðum hugbúnaði til þess að tryggja samkeppni í framboði þjónustu,
   j. samtengi net eða netaðstöðu, eða
   k. veiti aðgang að tengdri þjónustu eins og auðkennis-, staðsetningar- og viðveruþjónustu.
Heimilt er að bæta við kvaðir samkvæmt ákvæði þessu skilyrðum sem taka til sanngirni, réttmæti og tímasetningar.
Áður en tekin er ákvörðun um beitingu kvaða skv. 1. og 2. mgr. skal leggja mat á hvort annars konar aðgangur að heildsöluaðföngum, annaðhvort á sama eða tengdum heildsölumarkaði, geti verið nægjanlegur til að takast á við viðkomandi samkeppnisvandamál með tilliti til:
   a. þess hvort tæknilega og fjárhagslega raunhæft er að nota eða setja upp eigin aðstöðu í samkeppni með hliðsjón af markaðsþróun og eðli og gerð samtengingar eða aðgangs sem um ræðir, þ.m.t. hvort raunhæft er að notast við aðliggjandi aðgang, svo sem með aðgengi að rörum,
   b. væntanlegrar tækniþróunar sem hefur áhrif á kerfishönnun og -stjórnun,
   c. þarfar á að tryggja tæknilegt hlutleysi til að gera aðilum kleift að hanna og stjórna sínum eigin netum,
   d. þess hvort gerlegt er að veita þann aðgang sem í boði er, miðað við þá getu sem er fyrir hendi,
   e. upphaflegrar fjárfestingar eiganda aðstöðunnar, að teknu tilliti til fjárfestinga opinberra aðila og áhættunnar sem fylgir fjárfestingunni, einkum að því er varðar fjárfestingar í og áhættu sem tengist afkastamiklum háhraðanetum,
   f. nauðsynjar þess að standa vörð um samkeppni þegar til lengri tíma er litið með áherslu á efnahagslega skilvirka samkeppni sem byggist á grunnvirkjum og framsæknum viðskiptalíkönum sem styðja sjálfbæra samkeppni, eins og þeim sem byggjast á sameiginlegri fjárfestingu í netum,
   g. hvers kyns viðeigandi hugverkaréttinda, eftir því sem við á, og
   h. framboðs samevrópskrar þjónustu.
Áður en tekin er ákvörðun um beitingu þessarar greinar skal meta hvort kvaðir um aðgang að mannvirkjum skv. 47. gr. geti dugað sem hófleg leið til að stuðla að samkeppni og tryggja hagsmuni endanotenda.
Þegar kvaðir eru lagðar á fyrirtæki um að veita aðgang í samræmi við þessa grein er heimilt að mæla fyrir um tæknileg eða rekstrarleg skilyrði sem veitandi og/eða notandi slíks aðgangs þarf að uppfylla ef það er nauðsynlegt til að tryggja að netið starfi eðlilega. Skuldbindingar um að fylgja tilteknum tæknistöðlum eða forskriftum skulu vera í samræmi við staðla og forskriftir sem mælt er fyrir um í samræmi við 24. gr.
49. gr. Gagnsæi.
Fjarskiptastofa getur lagt kvaðir um gagnsæi á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk, í tengslum við samtengingu eða aðgang, sem fela það í sér að fyrirtæki birti opinberlega tilteknar upplýsingar, svo sem bókhaldsupplýsingar, verð, tækniforskriftir, upplýsingar um eiginleika neta og væntanlega þróun þeirra, auk skilmála og skilyrða fyrir framboði og notkun, þ.m.t. skilyrði varðandi breytingar á aðgangi að eða notkun á þjónustu og hugbúnaði, m.a. að því er varðar flutning úr eldri fjarskiptanetum. Fjarskiptastofu er heimilt að tilgreina nákvæmlega hvaða upplýsingar skal gera aðgengilegar, hversu nákvæmar þær þurfa að vera og með hvaða hætti þær skulu birtar.
Þegar fjarskiptafyrirtæki er gert að gæta jafnræðis getur Fjarskiptastofa skyldað það til að gefa út viðmiðunartilboð sem skal vera nægilega sundurgreint til að tryggja að fyrirtæki séu ekki krafin um að greiða fyrir aðstöðu sem ekki er nauðsynleg fyrir þjónustuna sem óskað er eftir. Tilboðið skal innihalda lýsingu á framboði aðgangs og þjónustu, sundurliðað samkvæmt þörfum markaðarins, og tengdum skilmálum og skilyrðum, þ.m.t. verði. Fjarskiptastofa getur mælt fyrir um breytingar á viðmiðunartilboðum.
Fjarskiptastofu er heimilt að setja reglur sem kveða nánar á um innihald viðmiðunartilboða, að teknu tilliti til viðmiðunarreglna evrópsks hóps eftirlitsaðila á sviði fjarskipta um lágmarksviðmiðanir fyrir viðmiðunartilboð.
50. gr. Jafnræði.
Fjarskiptastofa getur lagt þær kvaðir á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk að það gæti jafnræðis með tilliti til samtengingar eða aðgangs. Kvaðir um jafnræði skulu einkum tryggja að fyrirtæki beiti sambærilegum skilyrðum við sambærilegar aðstæður gagnvart öðrum veitendum sambærilegrar þjónustu og láti öðrum í té þjónustu og upplýsingar með sömu skilyrðum og af sömu gæðum og það veitir vegna eigin þjónustu eða þjónustu dótturfyrirtækja sinna eða samstarfsaðila. Kvaðir um jafnræði geta falið í sér skyldu fyrirtækis til að bjóða öllum fyrirtækjum vörur og þjónustu sem tengjast aðgangi, þ.m.t. sjálfu sér, með sömu tímamörkum, skilmálum og skilyrðum, m.a. þeim sem tengjast verði og þjónustustigi, og um sömu kerfi og ferli til að tryggja jafnan aðgang.
51. gr. Bókhaldslegur aðskilnaður.
Fjarskiptastofa getur lagt kvaðir á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk um bókhaldslegan aðskilnað milli starfsemi sem tengist samtengingu eða aðgangi og annarrar starfsemi þannig að hægt verði að skipta öllum tekjum og kostnaði niður á rekstrareiningar sem tengja má mismunandi þjónustu. Að auki getur stofnunin krafist þess af fyrirtæki sem er lóðrétt samþætt að heildsöluverð þess og verð innan fyrirtækisins sé gagnsætt, m.a. til að tryggja jafnræði og koma í veg fyrir óréttmætar niðurgreiðslur. Fjarskiptastofa getur ákveðið hvaða bókhaldsaðferðir skal nota.
Til að tryggja gagnsæi og jafnræði getur Fjarskiptastofa krafist þess að fá afhent bókhaldsgögn, þ.m.t. upplýsingar um tekjur frá þriðja aðila. Stofnuninni er heimilt að birta upplýsingar varðandi bókhald viðkomandi fyrirtækja ef það stuðlar að opnum og frjálsum samkeppnismarkaði, að teknu tilliti til reglna um leynd viðskiptaupplýsinga.
52. gr. Eftirlit með gjaldskrá.
Þegar markaðsgreining gefur til kynna að skortur á virkri samkeppni hafi í för með sér að fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk geti viðhaldið óhóflega háum gjöldum eða geti beitt verðþrýstingi endanotendum til tjóns getur Fjarskiptastofa lagt kvaðir á fjarskiptafyrirtæki varðandi endurheimt kostnaðar og eftirlit með gjaldskrá, svo sem kvaðir um kostnaðarviðmiðun gjaldskrár og kvaðir um kostnaðarbókhald á ákveðnum tegundum samtengingar eða aðgangs.
Við ákvarðanir samkvæmt ákvæði þessu skal taka tillit til þarfarinnar á því að stuðla að samkeppni og þeim langtímahagsmunum endanotenda sem tengjast útbreiðslu nýrra fjarskiptaneta, sér í lagi afkastamikilla háhraðaneta. Taka skal tillit til og hvetja til fjárfestinga. Gera skal ráð fyrir hæfilegri arðsemi af fjárfestingum að teknu tilliti til áhættu. Enn fremur skal taka mið af hagræði af fyrirsjáanlegu og stöðugu heildsöluverði.
Taka skal til athugunar hvort hægt er að sleppa kvöðum samkvæmt ákvæði þessu ef samkeppnisþrýstingur er þegar til staðar varðandi smásöluverð og kvaðir um gagnsæi, jafnræði, bókhaldslegan aðskilnað og aðgang, sér í lagi hvers kyns efnahagslegt hermipróf sem beitt er skv. 50. gr., tryggja skilvirkan aðgang án mismununar.
Aðferðir við endurheimt kostnaðar eða aðferðafræði við verðlagningu skulu stuðla að útbreiðslu nýrra og öflugri neta, skilvirkni og sjálfbærri samkeppni og vera til sem mestra hagsbóta fyrir endanotendur. Í þessu tilliti er heimilt að taka tillit til þess verðs sem er í boði á sambærilegum samkeppnismörkuðum.
Sönnunarbyrði fyrir því að gjöld byggist á raunverulegum kostnaði, þ.m.t. sanngjörnum hagnaðarhlut af fjárfestingu, hvílir á hlutaðeigandi fyrirtæki. Fjarskiptastofa getur krafið fyrirtæki um fullan rökstuðning fyrir verði sínu og krafist þess að verðið sé leiðrétt þegar það á við. Stofnunin getur jafnframt krafist þess að fjarskiptafyrirtæki geri kostnaðarlíkan til útreiknings á verði. Fjarskiptastofa getur við útreikninga á kostnaði tekið mið af rekstri sambærilegrar þjónustu sem telst rekin af hagkvæmni og notað kostnaðargreiningaraðferðir sem eru óháðar aðferðum fjarskiptafyrirtækisins.
Ef kvöð felur í sér gerð kostnaðarbókhaldskerfis skal tryggja opinn aðgang að lýsingu á kostnaðarbókhaldskerfinu þar sem fram koma a.m.k. helstu flokkar kostnaðar og reglur sem notaðar eru við skiptingu kostnaðar. Óháður þar til bær aðili skal sannreyna að farið sé að reglum um kostnaðarbókhaldskerfið og árlega skal birta yfirlýsingu um hvort farið er eftir reglunum.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð1) um útfærslu bókhaldslegs aðskilnaðar í rekstri fjarskiptafyrirtækja skv. 51. gr., þ.m.t. skiptingu eftir netum og þjónustu, og um nánara fyrirkomulag kostnaðargreiningar samkvæmt þessari grein, m.a. um aðferðir við eignamat, afskriftir, ávöxtunarkröfu og gerð kostnaðarlíkana.
   1)Rg. 555/2023.
53. gr. Verð fyrir lúkningu símtala.
Fjarskiptafyrirtæki sem veita lúkningu símtala skulu ekki taka hærra gjald fyrir en nemur hámarksverði fyrir lúkningu sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu. Ef í gildi eru viðskiptasamningar við einstök ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, er kveða á um hámarksverð fyrir lúkningu, skal tekið mið af þeim.
Ráðherra setur reglugerð1) um hámarksverð fyrir lúkningu símtala þar sem m.a. er heimilt að kveða á um:
   a. hámarksverð í heildsölu fyrir lúkningu símtala í farnetum,
   b. hámarksverð í heildsölu fyrir lúkningu símtala í föstum netum,
   c. viðmiðunargengi og uppgjörsaðferðir sem fjarskiptafyrirtækjum er skylt að nota við myntbreytingar eftir því sem við á, og
   d. sérreglur um lúkningu og hámarksverð sem gilda vegna sérstakra viðskiptasamninga.
Ef ekkert hámarksverð er í gildi á Evrópska efnahagssvæðinu er Fjarskiptastofu heimilt að gera markaðsgreiningu á mörkuðum fyrir lúkningu símtala til að meta hvort nauðsynlegt sé að leggja á kvaðir.
Fjarskiptastofa skal tryggja að farið sé að ákvæðum um hámarksverð og getur krafist þess að fjarskiptafyrirtæki breyti verði ef verð þeirra er hærra en hámarksverð.
   1)Rg. 1589/2022.
54. gr. Hámarksverð fyrir reikiþjónustu og millilandafjarskipti.
Fjarskiptafyrirtæki sem veita reikiþjónustu hér á landi skulu sjá til þess að heild- og smásöluverð fyrir reikiþjónustu, sem á sér upphaf eða lýkur í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, sé ekki hærra en hámarksverð sem þar gildir. Ef í gildi eru viðskiptasamningar við einstök ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, er kveða á um hámarksverð fyrir símtöl í reikiþjónustu, skal tekið mið af þeim.
Ráðherra setur reglugerð1) um reikiþjónustu í almennum farnetum þar sem m.a. er heimilt að kveða á um eftirfarandi:
   a. hámarksverð í heildsölu fyrir símtöl í reikiþjónustu,
   b. hámarksverð í smásölu fyrir símtöl í reikiþjónustu,
   c. hámarksverð í heild- og smásölu fyrir SMS-þjónustu, MMS-þjónustu og aðra gagnaflutningsþjónustu í farnetum,
   d. gjaldskrá sem er ekki hærri en samræmist hámarksgjaldi samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 717/2007 um reikiþjónustu á almennum farsímanetum og samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2120, um ráðstafanir varðandi opinn Netaðgang o.fl., að því er varðar millilandasímtöl innan Evrópska efnahagssvæðisins,
   e. gagnsæi smásölugjaldskrár og gjaldskrár skv. d-lið,
   f. viðmiðunargengi og uppgjörsaðferðir sem fjarskiptafyrirtækjum er skylt að nota við myntbreytingar vegna reikiþjónustu í farnetum,
   g. skyldur fjarskiptafyrirtækja til þess að verða við óskum reikiviðskiptavina um skipti milli reikigjaldskráa,
   h. upplýsingaskyldu fjarskiptafyrirtækja um viðeigandi reikigjöld,
   i. reglur um tímamælingar og gjaldfærslur símtala í reikiþjónustu,
   j. gjaldtöku fyrir móttöku talhólfsskilaboða í reikiþjónustu,
   k. skyldu fjarskiptafyrirtækja til að veita reikiviðskiptavinum sínum persónubundnar upplýsingar um verð og annað tengt gagnaflutningi í reikiþjónustu,
   l. skyldu fjarskiptafyrirtækja til að gera reikiviðskiptavinum sínum kleift að fylgjast með gagnaflutningsnotkun sinni á grundvelli verðs og magns og veita þeim kost á að velja efstu mörk fyrir slíka þjónustu yfir ákveðið tímabil, og
   m. sérreglur um reikiþjónustu og hámarksverð gagnvart einstökum ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins vegna viðskiptasamninga um reikiþjónustu.
Fjarskiptafyrirtæki sem veita fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga sem er tengd númerum, hvort sem fjarskiptin eiga sér stað um föst net eða farnet, skulu ekki taka hærra smásöluverð fyrir slík magnmæld fjarskipti milli landa en það hámarksverð sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu. Ef í gildi eru viðskiptasamningar við einstök ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins skal tekið mið af þeim hámarksverðum sem þar er kveðið á um.
Ráðherra setur reglugerð um hámarksverð fyrir fjarskipti sem tilgreind eru í 3. mgr. þar sem m.a. er heimilt að kveða á um:
   a. hámarksmínútuverð í smásölu,
   b. hámarksverð fyrir SMS í smásölu,
   c. val neytenda á áskriftarleiðum,
   d. viðmiðunargengi og uppgjörsaðferðir sem fjarskiptafyrirtækjum er skylt að nota við myntbreytingar,
   e. undanþágur og skilyrði fyrir þeim, og
   f. sérreglur um fjarskipti milli landa og hámarksverð sem gilda vegna sérstakra viðskiptasamninga.
Fjarskiptastofa skal hafa eftirlit með framfylgni við ákvæði um hámarksverð og getur krafist þess að fjarskiptafyrirtæki breyti verði ef verðlagning þeirra er hærri en sem nemur hámarksverði.
   1)Rg. 1588/2022.
55. gr. Ný afkastamikil háhraðanet.
Fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk geta boðið fram skuldbindingu um sameiginlega fjárfestingu í uppbyggingu nýrra afkastamikilla háhraðaneta. Skuldbinding skal uppfylla eftirfarandi skilyrði:
   a. nýtt afkastamikið háhraðanet skal vera opið öllum fjarskiptafyrirtækjum hvenær sem er á meðan netið er starfrækt,
   b. skuldbinding skal gera öðrum meðfjárfestum kleift að keppa með skilvirkum og sjálfbærum hætti til langs tíma á fráliggjandi mörkuðum þar sem fyrirtækið sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk er virkt, og
   c. umsækjendum um aðgang, sem taka ekki þátt í sameiginlegu fjárfestingunni, skal gefast kostur á aðgangi með viðunandi hætti.
Ef Fjarskiptastofa kemst að þeirri niðurstöðu, að undangenginni málsmeðferð skv. 58. gr., að skuldbinding uppfylli skilyrði 1. mgr. og a.m.k. einn meðfjárfestir hefur gert samning við viðkomandi fyrirtæki, skal gera skuldbindinguna bindandi og ekki leggja á neinar viðbótarkvaðir í samræmi við 46. gr. varðandi þá hluta afkastamikilla háhraðaneta sem skuldbindingin nær til.
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er Fjarskiptastofu heimilt, í rökstuddum tilvikum, að leggja á, viðhalda eða aðlaga kvaðir í samræmi við 46.–52. gr. að því er varðar ný afkastamikil háhraðanet sem falla undir 2. mgr. til þess að takast á við veruleg samkeppnisvandamál á tilteknum mörkuðum þar sem staðfest er að vegna sértækra eiginleika þessara markaða sé ekki hægt að takast á við þessi samkeppnisvandamál með öðrum hætti.
Fjarskiptastofa skal fylgjast með því að farið sé að skilyrðunum sem sett eru fram í 1. mgr. með viðvarandi hætti og getur krafist þess að viðkomandi fyrirtæki láti í té árlegar yfirlýsingar varðandi reglufylgni. Fjarskiptastofa getur skorið úr ágreiningi sem kemur upp á milli aðila samnings um sameiginlega fjárfestingu.
Ráðherra setur reglugerð þar sem nánar er kveðið á um skilyrði varðandi skuldbindingar og málsmeðferð samkvæmt ákvæði þessu, þar á meðal ný skilyrði.
56. gr. Aðskilin starfsemi.
Ef Fjarskiptastofa kemst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi tekist að tryggja virka samkeppni með álagningu kvaða skv. 47.–52. gr., og að fyrir hendi séu mikil og viðvarandi samkeppnisvandamál eða markaðsbrestir í tengslum við heildsöluframboð aðgangs á tilteknum mörkuðum, getur stofnunin í undantekningartilvikum, í samræmi við 4. mgr. 46. gr., lagt þá kvöð á lóðrétt samþætt fyrirtæki að setja starfsemi sem tengist framboði viðeigandi aðgangsneta í heildsölu undir sjálfstætt starfandi rekstrareiningu.
Aðskilin rekstrareining skv. 1. mgr. skal afhenda öllum fyrirtækjum, þ.m.t. öðrum rekstrareiningum innan samstæðunnar, vörur og þjónustu í tengslum við aðgang með sömu tímamörkum, skilmálum og skilyrðum, að meðtöldum þeim sem varða verðlagningu og þjónustustig, og um sömu kerfi og ferli.
Ef Fjarskiptastofa áformar að leggja á markaðsaðila kvöð varðandi aðskilda starfsemi skal fyrirhuguð ákvörðun borin undir Eftirlitsstofnun EFTA. Með slíku erindi skal leggja fram:
   a. gögn sem réttlæta niðurstöður eins og um getur í 1. mgr.,
   b. rökstutt mat sem bendir til engrar eða lítillar virkrar og varanlegrar samkeppni í grunnvirkjum innan hæfilegs frests,
   c. greiningu á væntanlegum áhrifum ákvörðunar á hagsmunaaðila og markaðinn, og
   d. greiningu á ástæðum þess að þessi ráðstöfun væri skilvirkust til að ráða bót á þeim samkeppnisvandamálum eða markaðsbrestum sem komið hafa í ljós.
Í drögum að ákvörðun skulu koma fram eftirfarandi þættir:
   a. nákvæmar upplýsingar um eðli og umfang aðgreiningar þar sem einkum er tilgreind réttarstaða rekstrareiningarinnar,
   b. lýsing á eignum aðskildu rekstrareiningarinnar og vörum eða þjónustu sem sú eining mun veita,
   c. fyrirkomulag stjórnunarhátta í því skyni að tryggja sjálfstæði starfsfólks sem ráðið er til starfa hjá aðskildu rekstrareiningunni og samsvarandi hvatakerfi,
   d. reglur til að tryggja að farið sé að skuldbindingunum,
   e. reglur til að tryggja gagnsæjar verklagsreglur, einkum gagnvart öðrum hagsmunaaðilum, og
   f. vöktunaráætlun til að tryggja að farið sé að kröfum, þ.m.t. um útgáfu ársskýrslu.
Ef Eftirlitsstofnun EFTA samþykkir áform um aðskilnað skal Fjarskiptastofa framkvæma greiningu á mörkuðum sem tengjast viðkomandi aðgangsneti. Á grundvelli greiningarinnar skal leggja á, viðhalda, breyta eða afturkalla kvaðir á viðkomandi markaði. Heimilt er að leggja kvaðir skv. 4. mgr. 46. gr. og/eða 47.–52. gr. á fyrirtæki sem gert hefur verið að aðskilja þætti í starfsemi sinni samkvæmt ákvæði þessu ef fyrirtækið hefur umtalsverðan markaðsstyrk á tilteknum markaði.
57. gr. Aðgreining lóðrétt samþætts fyrirtækis að eigin frumkvæði.
Fjarskiptafyrirtæki sem hefur verið útnefnt með umtalsverðan markaðsstyrk á einum eða fleiri mikilvægum mörkuðum skal upplýsa Fjarskiptastofu með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara ef það hyggst yfirfæra aðgangsnet sín eða umtalsverðan hluta þeirra til aðskilins lögaðila í annarri eigu eða stofna sérstaka rekstrareiningu í því skyni að veita öllum smásölubirgjum, þ.m.t. eigin smásöludeildum, fullkomlega jafngildan aðgang. Fyrirtæki skulu einnig upplýsa stofnunina um hvers konar breytingu sem verður á þeirri fyrirætlun ásamt lokaniðurstöðu aðskilnaðarferlisins.
Fjarskiptafyrirtæki geta einnig boðið skuldbindingar að því er varðar aðgangsskilyrði sem gilda um net þeirra, eftir að aðskilnaðurinn kemur til framkvæmda, með það fyrir augum að tryggja skilvirkan aðgang án mismununar fyrir þriðju aðila. Boð um skuldbindingu skal innihalda nægilegar upplýsingar, þ.m.t. varðandi tímasetningu og tímalengd.
Fjarskiptastofa skal meta áhrif fyrirhugaðrar aðgreiningar ásamt skuldbindingunum sem boðnar eru, eftir atvikum, á þær kvaðir sem kunna að gilda á viðkomandi markaði. Í þeim tilgangi skal gera greiningu á þeim mörkuðum sem tengjast viðkomandi aðgangsneti.
Á grundvelli mats samkvæmt ákvæði þessu skal Fjarskiptastofa leggja á, viðhalda, breyta eða afturkalla kvaðir á viðkomandi markaði og beita 59. gr. ef við á. Stofnunin getur ákveðið að gera skuldbindingarnar skv. 2. mgr. bindandi í heild sinni eða að hluta.
Fjarskiptastofa skal fylgjast með framkvæmd þeirra skuldbindinga sem gerðar eru bindandi skv. 4. mgr. og taka til athugunar framlengingu þeirra þegar tímabilið sem þær eru upphaflega boðnar á er runnið út.
58. gr. Skuldbindingarferli.
Fjarskiptafyrirtæki sem teljast hafa umtalsverðan markaðsstyrk geta boðið Fjarskiptastofu skuldbindingar varðandi aðgangsskilyrði, sameiginlega fjárfestingu eða hvort tveggja, sem gildir um net þeirra að því er varðar m.a.:
   a. samvinnufyrirkomulag sem varðar mat á viðeigandi og hóflegum skuldbindingum skv. 46. gr.,
   b. sameiginlega fjárfestingu í afkastamiklum háhraðanetum skv. 55. gr., eða
   c. skilvirkan aðgang þriðju aðila án mismununar skv. 57. gr.
Boð um skuldbindingar skal vera nægilega ítarlegt og taka til tímasetningar, gildissviðs þeirra og tímalengdar.
Til að meta skuldbindingar sem fyrirtæki býður skv. 1. mgr. skal Fjarskiptastofa framkvæma markaðsprófun, einkum á skilmálunum sem í boði eru, með því að standa fyrir opnu samráði við hagsmunaaðila, einkum við þriðju aðila sem verða fyrir beinum áhrifum. Þetta á þó ekki við í tilvikum þar sem skuldbindingar sem fyrirtæki býður skv. 1. mgr. uppfylla greinilega ekki eitt eða fleiri nauðsynleg skilyrði eða viðmiðanir.
Að teknu tilliti til allra þeirra skoðana sem fram koma í samráðsferlinu skal Fjarskiptastofa tilkynna fyrirtækinu sem telst hafa umtalsverðan markaðsstyrk bráðabirgðaniðurstöður sínar um það hvort skuldbindingarnar sem boðnar eru uppfylli markmiðin, viðmiðanirnar og málsmeðferðarreglurnar sem settar eru fram í ákvæði þessu og, eftir því sem við á, í 46., 55. eða 57. gr., og við hvaða skilyrði stofnunin kann að íhuga að gera skuldbindingarnar bindandi. Fyrirtækið getur endurskoðað upphaflegt boð sitt í ljósi bráðabirgðaniðurstaðna Fjarskiptastofu með það fyrir augum að uppfylla viðmiðanir.
Fjarskiptastofa getur birt ákvörðun um að gera skuldbindingar bindandi samkvæmt ákvæði þessu í heild sinni eða að hluta. Í slíkri ákvörðun getur Fjarskiptastofa ákveðið gildistíma bindandi skuldbindinga.
Þegar Fjarskiptastofa hefur gert skuldbindingar bindandi samkvæmt ákvæði þessu skal stofnunin meta afleiðingarnar af þeirri ákvörðun á markaðsþróun og hvaða kvaðir er viðeigandi að leggja á eða viðhalda á viðkomandi markaði.
Fjarskiptastofa skal hafa eftirlit með og tryggja að farið sé að skuldbindingum sem stofnunin hefur gert bindandi. Taka skal til athugunar að framlengja tímabilið sem skuldbindingar hafa verið gerðar bindandi þegar upphaflega tímabilinu lýkur.
59. gr. Heildsölufyrirtæki.
Ef Fjarskiptastofa útnefnir fjarskiptafyrirtæki sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk og það starfar ekki á neinum smásölumarkaði fjarskiptaþjónustu skal stofnunin taka til athugunar hvort fyrirtækið hafi eftirfarandi einkenni:
   a. öll fyrirtæki og rekstrareiningar innan fyrirtækisins, öll fyrirtæki sem eru undir stjórn en ekki nauðsynlega að öllu leyti í eigu sama endanlega eiganda, og hluthafar sem geta beitt stjórnunarvaldi yfir fyrirtækinu, hafi aðeins starfsemi, nú og fyrirhugaða í framtíðinni, á heildsölumörkuðum fyrir fjarskiptaþjónustu og hafi því ekki starfsemi á smásölumörkuðum fyrir fjarskiptaþjónustu sem veitt er endanotendum, og
   b. fyrirtækið er ekki bundið til að stunda viðskipti við eitt aðskilið fyrirtæki, sem starfar á fráliggjandi markaði og er virkt á smásölumarkaði fyrir fjarskiptaþjónustu sem veitt er endanotendum, vegna einkaréttarsamnings eða samnings sem í reynd jafngildir einkaréttarsamningi.
Komist Fjarskiptastofa að þeirri niðurstöðu að skilyrðin sem mælt er fyrir um í 1. mgr. séu uppfyllt getur stofnunin aðeins lagt á fyrirtækið kvaðir skv. 48. og 50. gr. og um réttláta og sanngjarna verðlagningu ef það er talið réttlætanlegt á grundvelli markaðsgreiningar.
Fjarskiptastofa skal endurskoða kvaðir sem lagðar eru á fyrirtæki í samræmi við ákvæði þetta hvenær sem er ef stofnunin kemst að þeirri niðurstöðu að skilyrðin sem mælt er fyrir um í 1. mgr. séu ekki lengur uppfyllt. Viðkomandi fyrirtæki skulu, án ástæðulausrar tafar, tilkynna Fjarskiptastofu um allar breytingar á aðstæðum sem tengjast skilyrðum skv. 1. mgr.
Fjarskiptastofa skal einnig endurskoða skyldur sem lagðar eru á fyrirtæki í samræmi við ákvæði þetta ef stofnunin kemst að þeirri niðurstöðu, á grundvelli upplýsinga um skilmála og skilyrði sem fyrirtækið býður viðskiptavinum sínum á fráliggjandi mörkuðum, að samkeppnisvandamál séu til staðar eða séu líkleg til að koma upp og skaða endanotendur og þörf geti verið á að leggja á kvaðir um gagnsæi, bókhaldslegan aðskilnað, aðgang að mannvirkjum eða eftirlit með gjaldskrá eða að gera breytingar á kvöðum sem lagðar hafa verið á í samræmi við 2. mgr.
60. gr. Flutningur úr eldri fjarskiptanetum.
Fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk skal tilkynna Fjarskiptastofu fyrir fram og tímanlega um það þegar fyrirhugað er að leggja niður eða skipta út hluta nets sem fellur undir kvaðir sem lagðar hafa verið á fyrirtækið samkvæmt ákvæðum þessara laga.
Fjarskiptastofa skal tryggja að ferlið við niðurlagningu eða útskipti hafi skýra tímaáætlun og skilyrði, þ.m.t. að tilkynnt sé um framkvæmdina með hæfilegum fyrirvara og, ef nauðsyn krefur, til að vernda samkeppni og réttindi endanotenda, að séð sé til þess að aðrir kostir verði tiltækir, a.m.k. af sambærilegum gæðum, sem veita aðgang að nýja netinu.
Fjarskiptastofa getur afturkallað kvaðir sem gilda varðandi netið sem leggja á niður eða skipta út þegar gengið hefur verið úr skugga um að aðgangsveitandinn:
   a. hafi komið á viðeigandi skilyrðum fyrir flutningnum, þ.m.t. að annar aðgangskostur sé tiltækur af a.m.k. sambærilegum gæðum og voru tiltæk í gegnum eldra netið sem gerir umsækjendum um aðgang kleift að ná til sömu endanotenda, og
   b. hafi fylgt skilyrðunum og ferlinu sem tilkynnt var í samræmi við þessa grein.
Slík afturköllun skal samþykkt í samræmi við málsmeðferðarreglurnar sem um getur í 24. og 28. gr. laga um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021.
61. gr. Eftirlit með smásöluþjónustu.
Ef Fjarskiptastofa kemst að þeirri niðurstöðu, í kjölfar markaðsgreiningar, að á tilteknum smásölumarkaði ríki ekki virk samkeppni og að kvaðir á heildsölustigi muni ekki leiða til þess að markmið laga þessara náist getur stofnunin lagt viðeigandi kvaðir á fyrirtæki sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk á smásölumarkaðnum.
Kvaðir sem lagðar eru á skv. 1. mgr. skulu byggjast á eðli vandamálsins sem greint hefur verið og vera hóflegar og málefnalegar í ljósi markmiða laga þessara. Kvaðirnar geta falið í sér kröfur um að fyrirtæki innheimti ekki óhófleg gjöld, hindri ekki markaðsaðgang eða takmarki samkeppni með skaðlegri undirverðlagningu, veiti tilteknum endanotendum ekki ótilhlýðilegan forgang eða setji saman óeðlilega þjónustupakka. Enn fremur er heimilt að kveða á um hámark á smásöluverði, ráðstafanir til að stjórna einstökum gjaldskrám eða ráðstafanir til að beina gjaldskrám í átt að kostnaðarverði eða verði á sambærilegum mörkuðum í þeim tilgangi að vernda hagsmuni endanotenda og á sama tíma efla virka samkeppni.
Fyrirtæki sem háð eru eftirliti með smásölugjaldskrá, eða öðru viðeigandi eftirliti með smásölu, skulu nota nauðsynleg og viðeigandi kostnaðarbókhaldskerfi. Fjarskiptastofu er heimilt að tilgreina þá framsetningu og aðferðafræði sem nota skal við bókhaldið. Óháður þar til bær aðili skal staðfesta að farið sé að reglum um kostnaðarbókhaldskerfi skv. 6. mgr. 52. gr. Fjarskiptastofa skal sjá til þess að árlega sé birt yfirlýsing um það hvort reglum kerfisins sé fylgt.

X. kafli. Alþjónusta.
62. gr. Réttur til alþjónustu á viðráðanlegu verði.
Neytendum skal á lögheimili eða aðsetri samkvæmt skráningu hjá Þjóðskrá Íslands tryggður aðgangur á viðráðanlegu verði að nothæfri netaðgangsþjónustu og símaþjónustu með tilgreindum gæðum, þ.m.t. tengingu sem liggur að baki.
Þjónustutegundir innan alþjónustu eru ekki bundnar tiltekinni tækni.
Neytandi getur óskað eftir að tenging skv. 1. mgr. verði takmörkuð við stuðning við símaþjónustu.
Réttur til alþjónustu skv. 1. mgr. er ekki fortakslaus og getur verið háður takmörkunum vegna kostnaðar, landfræðilegra aðstæðna eða annars óhagræðis. Ágreiningur um synjun þjónustu skal borinn undir Fjarskiptastofu til ákvörðunar.
Réttur til alþjónustu á viðráðanlegu verði samkvæmt lögum þessum skal einnig ná til örfélaga í skilningi laga um ársreikninga á stöðum þar sem þau eru með heilsársstarfsemi.
Ráðherra skal í reglugerð1) kveða nánar á um þá þjónustu og aðgerðir sem neytendum skulu standa til boða í gegnum viðkomandi tengingu. Á meðal þess sem ráðherra getur kveðið á um í reglugerð eru nánari viðmið um virkni, gæði og tæknilega eiginleika sem netaðgangsþjónusta skal að lágmarki búa yfir.
   1)Rg. 1100/2022.
63. gr. Eftirlit með gjaldskrá innan alþjónustu og aðgengi að alþjónustu.
Upplýsingar um verð og viðskiptaskilmála vegna veitingar alþjónustu skulu birtar opinberlega, m.a. á vef fjarskiptafyrirtækis. Fjarskiptastofa skal fylgjast með þróun og verðlagi alþjónustu skv. 62. gr. í smásölu, einkum með tilliti til landsbundins verðlags og tekna neytenda.
Ef það er mat Fjarskiptastofu að smásöluverð fyrir alþjónustu skv. 62. gr. sé ekki viðráðanlegt fyrir tekjulága eða neytendur með sérstakar félagslegar þarfir séu útilokaðir frá aðgangi að þjónustunni getur stofnunin ákveðið að fjarskiptafyrirtæki sem veita alþjónustu bjóði upp á sérstaka gjaldskrá fyrir þessa tilteknu hópa eða grípi til annarra ráðstafana sem nauðsynlegar eru til að aðgengi að alþjónustu sé tryggt.
Ráðherra er heimilt í reglugerð1) að kveða nánar á um skilyrði og útfærslu ráðstafana samkvæmt ákvæði þessu.
   1)Rg. 1100/2022.
64. gr. Aðgengi að alþjónustu.
Ef markaðskönnun og viðbótarsannanir, ef þörf krefur, leiða í ljós að neytendur hafa ekki, vegna viðskiptasjónarmiða fjarskiptafyrirtækja, aðgang að alþjónustu eins og hún er skilgreind á hverjum tíma getur Fjarskiptastofa útnefnt fjarskiptafyrirtæki, eitt eða fleiri, með alþjónustuskyldur til að tryggja öllum landsmönnum fullnægjandi alþjónustu skv. 62. gr. Við útnefningu samkvæmt ákvæði þessu skal gæta jafnræðis, hlutleysis og gagnsæis. Kveða má á um skyldu til að veita þjónustu á ákveðnum svæðum eða eftir þjónustutegundum.
Við útnefningu skal jafnframt leitast við að lágmarka markaðsröskun, einkum veitingu þjónustu á verði eða með fyrirvara um aðra skilmála og skilyrði sem víkja frá eðlilegum viðskiptakjörum, en standa jafnframt vörð um almannahagsmuni.
Tilkynna ber Fjarskiptastofu um fyrirhugaða sölu aðgangsnets, eða umtalsverðs hluta þess, af hálfu fjarskiptafyrirtækis sem útnefnt hefur verið til veitingar alþjónustu samkvæmt ákvæði þessu með nægum fyrirvara, enda kunna breyttar aðstæður að kalla á endurmat ráðstafana stofnunarinnar.
Ráðherra getur í reglugerð1) kveðið nánar á um skilyrði og útfærslu ráðstafana samkvæmt ákvæði þessu.
   1)Rg. 1100/2022.
65. gr. Kostnaður við alþjónustu.
Ef fjarskiptafyrirtæki telur að alþjónusta sem því er gert skylt að veita, sbr. 1. mgr. 64. gr., sé rekin með tapi og því ósanngjörn byrði á fyrirtækinu getur það sótt um fjárframlög hjá Fjarskiptastofu til að því verði tryggt eðlilegt endurgjald fyrir þá starfsemi sem um ræðir.
Við útreikninga á hreinum kostnaði í tengslum við alþjónustuskyldu skal m.a. taka mið af öllum markaðsávinningi þess þjónustuveitanda sem veitir nothæfa netaðgangsþjónustu eða símaþjónustu af tilteknum gæðum.
Ef Fjarskiptastofu berst umsókn um fjárframlög skv. 1. mgr., og ekki verður talið að þjónustan verði tryggð með öðrum hagkvæmari hætti en jafnframt talið að þjónustan sé óhjákvæmileg og verði ekki aflögð, skal stofnunin ákvarða kostnað vegna alþjónustukvaða.
Fjarskiptastofa skal krefjast þess að alþjónustuveitandi upplýsi nákvæmlega hvert rekstrartapið af starfseminni er og hvernig það sundurliðast.
Fjarskiptastofa getur við mat á fjárframlögum krafist skýrslna löggiltra endurskoðenda eða falið slíkum aðila að gera úttekt á rekstrarafkomu á viðkomandi rekstrarsviði. Fjarskiptastofu er heimilt að krefjast aðgangs að bókhaldi fjarskiptafyrirtækisins við mat á kostnaði við alþjónustu.
Fjárframlög skulu að jafnaði miðuð við eitt ár í senn. Nú telur annar hvor aðila að forsendur fyrir ákvörðun fjárframlaga hafi breyst verulega og getur hvor um sig þá krafist endurskoðunar á framlaginu á gildistíma þess.
Ef hluti af starfsemi fjarskiptafyrirtækis er háður fjárframlögum samkvæmt ákvæði þessu skal sá þáttur starfseminnar vera bókhaldslega aðskilinn frá annarri starfsemi fjarskiptafyrirtækisins. Ef slíkur aðskilnaður er ekki fyrir hendi skal Fjarskiptastofa hafna umsókn fjarskiptafyrirtækis um fjárframlög.
Ráðherra getur í reglugerð1) kveðið nánar á um útreikninga á kostnaði við alþjónustu samkvæmt aðferðafræði um hreinan kostnað.
   1)Rg. 1100/2022.
66. gr. Fjármögnun alþjónustu.
Til að standa straum af greiðslu fjárframlaga samkvæmt þessum kafla skal innheimta jöfnunargjald sem rennur í ríkissjóð.
Skal jöfnunargjaldið lagt á fjarskiptafyrirtæki sem starfrækja almenn fjarskiptanet eða almenna fjarskiptaþjónustu í hlutfalli við bókfærða veltu þessarar starfsemi. Með bókfærðri veltu er átt við rekstrartekjur sem fjarskiptafyrirtæki hefur af umræddri starfsemi hér á landi.
Jöfnunargjald skal ákveðið með lögum. Skal fjárþörf vegna alþjónustu endurskoðuð árlega af Fjarskiptastofu og niðurstaða þeirrar endurskoðunar ásamt tillögu um breytt gjaldhlutfall, ef þörf þykir, lögð fyrir ráðherra. Verði útgjöld hærri en nemur jöfnunargjöldum á árinu skal gjaldfæra þann mismun á skuldbindingar næsta árs. Verði fjárhæð jöfnunargjalda hærri en nemur útgjöldum á gjaldárinu skal afgangur fluttur til næsta árs.
Jöfnunargjald má draga frá tekjum á því rekstrarári þegar stofn þess myndaðist.
Jöfnunargjald skal ekki leggja á fjarskiptafyrirtæki sem eru með bókfærða ársveltu undir 30 millj. kr.
Um álagningu og innheimtu jöfnunargjalds, þ.m.t. fyrirframgreiðslu, fer samkvæmt ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, en um viðurlög fer skv. XII. kafla þeirra laga.
Fjarskiptastofa skal árlega birta upplýsingar um útreikning kostnaðar vegna alþjónustukvaða og sundurliðaðan lista yfir einstakar greiðslur fyrirtækja á jöfnunargjaldi.

XI. kafli. Skilmálar, gjaldskrár, gæði og neytendavernd.
67. gr. Undanþága frá gildissviði og upplýsingaskylda.
Ákvæði 69.–77. gr. skulu ekki gilda um fjarskiptafyrirtæki sem veita fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga sem er ótengd númerum og teljast örfélög í skilningi laga um ársreikninga, nema þau veiti einnig aðra fjarskiptaþjónustu.
Fjarskiptafyrirtæki sem ákvæði 69.–77. gr. gilda ekki um skv. 1. mgr. skulu upplýsa endanotendur um að undanþága eigi við með sannanlegum hætti áður en gengið er til samninga um þjónustu.
68. gr. Jafnræði.
Fjarskiptafyrirtæki er óheimilt að gera ólíkar kröfur eða setja ólík skilyrði fyrir aðgangi að eða notkun á fjarskiptanetum eða fjarskiptaþjónustu fyrir endanotendur af ástæðum sem tengjast þjóðerni, búsetu eða staðfestu þeirra, nema slík meðferð sé rökstudd á hlutlægan hátt.
69. gr. Upplýsingakröfur vegna samninga.
Áður en neytandi er bundinn af samningi eða tilboði skal fjarskiptafyrirtæki sem býður fjarskiptaþjónustu veita á skýran og sannanlegan hátt eftirtaldar upplýsingar sem skulu vera óaðskiljanlegur hluti samnings:
   a. upplýsingar í samræmi við ákvæði II. og III. kafla laga um neytendasamninga, nr. 16/2016, og
   b. samantekt yfir meginefni samnings skv. 2. mgr.
Í samantekt yfir meginefni samnings um fjarskiptaþjónustu skal a.m.k. greina eftirtaldar upplýsingar:
   a. nafn, heimilisfang og tengiliðaupplýsingar þjónustuveitanda,
   b. megineinkenni þjónustu sem veita skal, svo sem gæðastig og tímann sem upphafleg tenging mun taka,
   c. verð fyrir að virkja þjónustu og áskriftar- eða notkunartengd gjöld, þar sem þjónusta er veitt gegn beinni greiðslu,
   d. gildistíma samnings og skilyrði fyrir endurnýjun og uppsögn,
   e. að hvaða marki vara og/eða þjónusta er hönnuð fyrir endanotendur með fötlun, og
   f. hvernig hefja megi mál til lausnar á deilum neytanda og fjarskiptafyrirtækis.
Ákvæði 1.–2. mgr. gilda ekki um flutningsþjónustu sem notuð er til að veita þjónustu tækis í tæki.
Ráðherra skal í reglugerð1) kveða nánar á um upplýsingakröfur vegna samninga, m.a. um megineinkenni þjónustu og um sniðmát samantektar yfir meginefni samnings. Heimilt er að gera greinarmun á kröfum um upplýsingaskyldu eftir eðli fjarskiptaþjónustu sem samningur lýtur að, svo sem netaðgangsþjónustu. Í reglugerð má kveða nánar á um hvernig upplýsingum skal miðlað samkvæmt ákvæði þessu þannig að þær teljist uppfylla kröfur 1. mgr. um veitingu á skýran og sannanlegan hátt, t.d. í tilviki endanotenda með fötlun.
   1)Rg. 1350/2022.
70. gr. Samanburður fjarskiptaþjónustu.
Fjarskiptastofa skal sjá til þess að starfrækt sé samanburðarþjónusta sem gerir endanotendum kleift, þeim að kostnaðarlausu, að bera saman og meta mismunandi netaðgangsþjónustu, fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga sem er tengd númerum og, eftir atvikum, fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga sem er ótengd númerum að því er varðar:
   a. verð og gjaldskrár fyrir veitta þjónustu og áskriftar- eða notkunartengd gjöld, og
   b. gæði þjónustunnar, þar sem boðið er upp á lágmarksþjónustugæði.
Samanburðarþjónustan skal vera óháð þeim fyrirtækjum sem kunna að selja fjarskiptaþjónustu.
Fjarskiptastofa setur reglur1) um framsetningu upplýsinga sem birtar skulu svo að endanotendur hafi aðgang að ítarlegum, samanburðarhæfum og auðskiljanlegum upplýsingum.
   1)Rgl. 1244/2022.
71. gr. Gæði fjarskiptaþjónustu og nethlutleysi.
Fjarskiptafyrirtæki skulu viðhafa ráðstafanir til að stuðla að vernd, virkni og gæðum fjarskiptaþjónustu. Fjarskiptastofu er heimilt að setja reglur um slíkar ráðstafanir þar sem nánar er mælt fyrir um:
   a. lágmarksgrunnþjónustu og mismunandi þjónustustig,
   b. tæknileg skilyrði þjónustunnar og lágmarksgæði hennar,
   c. kröfur um upplýsingagjöf af hálfu fjarskiptafyrirtækja, mæliaðferðir og prófanir á gæðum þjónustu,
   d. ákvæði í þjónustusamningum,
   e. leiðir er auðvelda mat á gæðum þjónustunnar og verðsamanburð,
   f. vernd og stjórnun almennra fjarskiptaneta,
   g. vernd notendatenginga, og
   h. ferli við meðhöndlun öryggisatvika og umbætur.
Notendur með netaðgangsþjónustu skulu eiga rétt á því að fá aðgang að upplýsingum og efni, miðla því, nota og bjóða fram þjónustu með því að nota búnað að eigin vali, óháð staðsetningu sinni eða fjarskiptafyrirtækis eða uppruna eða áfangastað upplýsinganna, efnisins og þjónustunnar. Ákvæði 1. málsl. gildir þó ekki um notkun eða aðgang að efni eða þjónustu sem brýtur gegn öðrum lögum eða dómi.
Fjarskiptafyrirtæki, sem veitir netaðgangsþjónustu, skal meðhöndla alla fjarskiptaumferð jafnt án mismununar, takmarkana eða truflunar og óháð sendanda eða móttakanda, því efni sem sótt er eða miðlað, þeirri þjónustu sem notuð er eða boðin fram og þeim búnaði sem er notaður.
Þrátt fyrir 3. mgr. er fjarskiptafyrirtæki heimilt að beita umferðarstýringu á fjarskiptaumferð ef stýringin er nauðsynleg, gagnsæ, hófleg og án mismununar.
Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd nethlutleysis, m.a. um eftirfarandi:
   a. leyfilegan tilgang umferðarstýringar,
   b. skilyrði fyrir beitingu umferðarstýringar,
   c. skilyrði fyrir framboði á sérþjónustu sem styðst við ákveðna nethögun,
   d. vernd persónuupplýsinga við beitingu umferðarstýringar,
   e. upplýsingagjöf fjarskiptafyrirtækja til notenda í viðskiptaskilmálum, og
   f. upplýsingagjöf fjarskiptafyrirtækja til Fjarskiptastofu og eftirlitsúrræði hennar, m.a. um úttektir á framkvæmd nethlutleysis.
72. gr. Gildistími, uppsögn og breytingar á samningum.
Óheimilt er í samningi að kveða á um lengri binditíma neytenda en sex mánuði. Eftir þann tíma er neytanda heimilt að segja upp samningi með eins mánaðar fyrirvara. Ákvæði 1. málsl. á þó ekki við um samninga sem neytandi gerir um uppsetningu á fjarskiptatengingu, einkum að því er tengingu við afkastamikil háhraðanet varðar.
Endanotandi skal eiga rétt á því að segja samningum fyrirvaralaust upp án greiðslu skaðabóta í eftirtöldum tilvikum:
   a. þegar hann fær tilkynningu um fyrirhugaða breytingu á samningsskilmálum og í henni felst ekki ávinningur, eða
   b. þegar marktækt eða endurtekið misræmi er á milli raunafkasta umsaminnar fjarskiptaþjónustu, annarrar en netaðgangsþjónustu, og afkasta sem gefin eru upp í samningi.
Í tilviki a-liðar 2. mgr. skal endanotanda veittur a.m.k. eins mánaðar fyrirvari áður en breytingarnar taka gildi og skal hann jafnframt upplýstur um rétt sinn samkvæmt þessari málsgrein vilji hann ekki samþykkja breytinguna.
Þegar samningur um fjarskiptaþjónustu með ákveðinn binditíma framlengist sjálfkrafa skal fjarskiptafyrirtæki upplýsa endanotanda með eins mánaðar fyrirvara um fyrirhuguð samningslok. Á sama tíma og/eða við breytingar á samningi skal endanotandi upplýstur um hvernig hann geti sagt upp þjónustunni og hvar hann geti fundið bestu upplýsingar um gjaldskrár.
Við lögmæta uppsögn endanotanda á samningi um fjarskiptaþjónustu getur aðeins komið til greiðslu skaðabóta ef endanotandi kýs að halda endabúnaði við samningslok. Bætur til fjarskiptafyrirtækis skulu að hámarki nema virði búnaðarins í réttu hlutfalli við tímalengd eins og samþykkt er við samningslok, eða því sem eftir stendur af þjónustugjaldi við samningslok, eftir því hvort nemur lægri fjárhæð. Fjarskiptafyrirtæki skal aflétta öllum skilyrðum fyrir notkun endabúnaðar á öðrum netum endurgjaldslaust í síðasta lagi þegar bótagreiðsla skv. 2. málsl. er innt af hendi.
73. gr. Birting skilmála og gjaldskrár.
Fjarskiptafyrirtæki skulu birta og hafa aðgengilega á vef sínum viðskiptaskilmála og gjaldskrá fyrir alla þjónustu sína. Notendum alþjónustu skal gert kleift að fylgjast með og stjórna útgjöldum vegna hennar.
Þar sem netaðgangs- eða símaþjónusta er gjaldfærð samkvæmt tímagjaldi eða neyslumagni skal fjarskiptafyrirtæki sjá til þess að neytanda sé gert kleift að fylgjast með og stjórna notkun sinni. Jafnframt skal fjarskiptafyrirtæki tilkynna neytanda áður en inniföldu tíma- eða neyslumagni þjónustuleiða er náð.
Í skilmálum um símaþjónustu og nothæfa netaðgangsþjónustu skal berum orðum koma fram að endanotanda sé ekki skylt að borga fyrir aðstöðu eða þjónustu sem ekki er nauðsynleg eða umbeðin vegna þjónustunnar sem óskað var eftir.
Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um kröfur samkvæmt ákvæði þessu, þar á meðal um gagnsæi vegna útgjaldastjórnunar.
74. gr. Reikningar o.fl.
Endanotendur símaþjónustu eiga rétt á að fá reikninga fyrir fjarskiptanotkun sína sundurliðaða og skulu neytendur að því er varðar alþjónustu eiga rétt á slíkum reikningum án þess að greiðsla komi fyrir. Þrátt fyrir 1. málsl. getur ráðherra í reglugerð skv. 4. mgr. kveðið á um undanþágu frá skyldu fjarskiptafyrirtækja til sundurliðunar reikninga í tilvikum þar sem gjaldtaka fyrir símaþjónustu er óháð notkun þjónustunnar.
Upplýsingar sem geta falið í sér viðkvæmar persónuupplýsingar, svo sem vegna símtala til félagsþjónustu og hjálparlína ýmiss konar, skulu ekki birtar á sundurliðun reikninga enda hafi þeir sem veita slíka ráðgjöf eða aðstoð tilkynnt fjarskiptafyrirtækjum um starfsemi sína fyrir fram. Við gerð sundurliðaðra reikninga skal hafa hliðsjón af lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Ef símtöl bera yfirgjald skal þjónustuaðili ávallt geta þess í upphafi símtals hver upphæð gjaldsins sé. Notandi skal eiga þess kost að læsa fyrir símtöl í númer með yfirgjaldi. Nánar skal kveðið á um símtöl og aðra virðisaukandi þjónustu með yfirgjaldi í reglugerð. Fjarskiptafyrirtæki er heimilt að senda notendum sérstakan reikning fyrir yfirgjaldsþjónustu. Fjarskiptastofu er heimilt að veita undanþágu frá upplýsingaskyldu um yfirgjald.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um meðferð upplýsinga sem nauðsynlegar eru fyrir gerð reikninga, um sundurliðun reikninga, lokun yfirgjaldsnúmera og málsmeðferð vegna kvartana.
75. gr. Vanskil.
Heimilt er að loka fyrir fjarskiptaþjónustu vegna vanskila, enda hafi endanotanda verið gefin skrifleg aðvörun a.m.k. mánuði fyrir lokun. Fyrsta mánuð eftir lokun skal þó vera mögulegt að móttaka símtöl. Óheimilt er að loka fyrir þjónustu vegna vanskila á yfirgjaldsþjónustu.
Ef gerð hefur verið tilraun til að komast hjá gjaldtöku á ólögmætan hátt eða reynt að koma gjaldskyldu yfir á óskyldan aðila er fjarskiptafyrirtæki heimilt að loka viðkomandi þjónustu án viðvörunar.
76. gr. Númeraflutningur og flutningur netaðgangsþjónustu milli fjarskiptafyrirtækja.
Endanotendum símaþjónustu skal vera unnt að halda símanúmerum sínum óháð því hvaða fjarskiptafyrirtæki veitir þjónustuna. Þetta gildir þó ekki um númeraflutning milli fastra neta og farneta.
Fjarskiptastofa skal tryggja að gjöld fyrir númeraflutning taki mið af kostnaði ásamt hæfilegri álagningu. Ekki er heimilt að leggja það gjald á endanotanda.
Við flutning á milli fjarskiptafyrirtækja sem veita síma- og netaðgangsþjónustu skal halda endanotanda upplýstum fyrir og meðan á flutningi stendur og tryggja samfellu í þjónustunni, nema það sé ekki tæknilega mögulegt. Fjarskiptafyrirtæki skulu vinna saman að flutningsferli í góðri trú. Móttakandi þjónustuveitandi skal tryggja að virkjun þjónustu fari fram eins skjótt og auðið er og í samræmi við samning um þjónustuna. Fráfarandi þjónustuveitandi skal veita sína þjónustu með sömu skilmálum þar til móttakandi þjónustuveitandi virkjar þjónustu sína við endanotanda. Þjónustutap meðan á flutningsferli stendur skal ekki vara lengur en í einn virkan dag. Lok flutningsferlis jafngildir uppsögn samnings við fráfarandi þjónustuveitanda. Mistakist flutningsferli símaþjónustu ber fjarskiptafyrirtæki að endurvirkja númer og tengda þjónustu endanotanda þar til flutningurinn tekst.
Fjarskiptafyrirtæki skal, að ósk neytanda sem flutt hefur símaþjónustu skv. 3. mgr., endurgreiða ónýtta inneign fyrirframgreiddrar þjónustu. Slík endurgreiðsla getur því aðeins verið háð þóknun ef kveðið er á um hana í samningi, hún er hófleg og í réttu hlutfalli við raunkostnað fyrirtækisins af flutningsferlinu.
Fjarskiptastofa setur nánari reglur1) um númera- og þjónustuflutning, þar á meðal um tímasetningar í því sambandi og bætur til endanotenda í tilvikum þar sem mistök verða í flutningsferli síma- eða netaðgangsþjónustu, misbeiting eða tafir verða í flutningsferli og vegna þjónustu sem ekki er veitt með umsömdum hætti. Fjarskiptastofa sker úr ágreiningi um framkvæmd númera- og þjónustuflutnings.
   1)Rgl. 1112/2022.
77. gr. Pakkatilboð.
Í samningi við neytanda um þjónustupakka, sem innihalda a.m.k. síma- eða netaðgangsþjónustu, með eða án endabúnaðar, skulu eftirfarandi kröfur gilda um alla þætti pakkans:
   a. upplýsingakröfur vegna samninga skv. 69. gr.,
   b. um gildistíma, breytingar á og uppsögn samninga skv. 72. gr., og
   c. um númeraflutning og flutning netaðgangsþjónustu milli þjónustuveitenda skv. 76. gr.
Ef neytandi á skv. 72. gr. rétt til uppsagnar fyrir lok samningstíma vegna vanefnda eða afhendingarskorts að því er varðar tiltekinn þátt þjónustupakka skal sá réttur teljast ná til pakkans í heild.
Gildistíma samnings neytanda við fjarskiptafyrirtæki um síma- eða netaðgangsþjónustu verður ekki breytt, að því er þá þjónustu varðar, með nýrri áskrift að viðbótarþjónustu eða endabúnaði nema neytandi samþykki slíka breytingu sérstaklega.
Ákvæði 1. og 3. mgr. skulu gilda um örfélög í skilningi laga um ársreikninga og samtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni nema þau afsali sér þeim rétti með skýrum hætti.

XII. kafli. Öryggi upplýsinga, fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu. Netöryggissveit.
78. gr. Skipulag net- og upplýsingaöryggis og umgjörð áhættustýringar.
Fjarskiptafyrirtæki sem veitir almenna fjarskiptaþjónustu eða rekur almenn fjarskiptanet skal setja sér skjalfesta öryggisstefnu og ferla til að meta, stýra og lágmarka hættu sem steðjað getur að starfseminni.
Fjarskiptafyrirtæki sem veitir almenna fjarskiptaþjónustu eða rekur almenn fjarskiptanet ber eftir fremsta megni að verja upplýsingar sem fara um fjarskiptanet gegn því að þær glatist, skemmist eða breytist fyrir slysni eða að óviðkomandi fái aðgang að þeim. Á grundvelli öryggisstefnu skal reglubundið framkvæma áhættumat með tilliti til öryggis upplýsinga og byggt á því ákvarða og endurmeta öryggisráðstafanir.
Fjarskiptafyrirtæki sem veitir almenna fjarskiptaþjónustu eða rekur almenn fjarskiptanet skal hafa skjalfesta viðbragðsáætlun og áætlun um samfelldan og órofinn rekstur og fjarskiptaþjónustu til að tryggja takmörkun á tjóni ef alvarleg röskun verður á starfsemi þess. Verkferlum og viðbrögðum við öryggisatvikum skv. 80. gr. skulu gerð skil í öryggisstefnu, þar á meðal skráningu atvika.
Öryggisskipulag, ráðstafanir og áhættustýring samkvæmt ákvæði þessu skal taka mið af alþjóðlegum stöðlum og alþjóðlegum viðmiðum um bestu framkvæmd. Skal það ná til tæknilegra og skipulagslegra ráðstafana, eftir því sem við kann að eiga, og varða að lágmarki:
   a. öryggi fjarskiptaneta, fjarskiptabúnaðar, kerfa, aðstöðu og aðfanga,
   b. meðhöndlun öryggisatvika,
   c. samfellda virkni og rekstur fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu, og
   d. innra eftirlit í formi úttekta og prófana.
Fjarskiptafyrirtæki sem veitir almenna fjarskiptaþjónustu eða rekur almenn fjarskiptanet ber að viðhafa virkt kerfi innra eftirlits til að tryggja að umgjörð áhættustýringar og viðbúnaðar í starfsemi þess uppfylli kröfur laga þessara. Ef við á skal fjarskiptafyrirtæki sem notar fjarskiptanet annarra fjarskiptafyrirtækja viðhafa samráð við þau um öryggisskipulag, ráðstafanir og áhættustýringu samkvæmt ákvæði þessu.
Fjarskiptafyrirtæki sem útvistar starfsemi sem nauðsynleg er fyrir virkni, vernd eða stjórnun fjarskipta skal gera um það skriflegan þjónustusamning við þjónustuveitanda. Í þjónustusamningi skal með skýrum hætti afmarka hlutverk og skyldur beggja aðila, tilgreina útvistaða starfsemi og tryggja aðgang Fjarskiptastofu að viðeigandi upplýsingum frá þjónustuveitanda vegna eftirlits á grundvelli laga þessara.
Fjarskiptafyrirtæki sem útvistar út fyrir íslenska lögsögu starfsemi sem nauðsynleg er fyrir virkni, vernd eða stjórnun fjarskipta á Íslandi, skal grípa til viðeigandi ráðstafana eins fljótt og mögulegt er ef hætta er talin á að útvistunin ógni rekstrarsamfellu eða fjarskiptaleynd og varðar almannahagsmuni eða þjóðaröryggi. Ef slík útvistun veldur rofi á rekstrarsamfellu eða fjarskiptaleynd sem varðar almannahagsmuni eða þjóðaröryggi skal fjarskiptafyrirtæki bregðast við án tafar í því skyni að tryggja áframhaldandi starfsemi og takmörkun á tjóni, eftir atvikum með því að færa starfsemina undir íslenska lögsögu. Fjarskiptafyrirtæki skal tilkynna Fjarskiptastofu án tafar um nýjar upplýsingar eða annað sem tengist áfallaþoli fjarskiptaneta eða fjarskiptaþjónustu og varðar almannahagsmuni eða þjóðaröryggi.
Fjarskiptastofa getur farið fram á að fjarskiptafyrirtæki framkvæmi sértækt áhættumat á einstökum rekstrar- og kerfisþáttum fjarskiptaneta eða fjarskiptaþjónustu eða sérstökum ógnum sem geta steðjað að upplýsingum, fjarskiptanetum og fjarskiptaþjónustu. Skal fjarskiptafyrirtæki, eftir atvikum, setja sér sértækar öryggisráðstafanir á grundvelli niðurstöðu slíks mats sem m.a. byggjast á alþjóðlegum viðmiðum um bestu framkvæmd.
Við mat á öryggisskipulagi, ráðstöfunum og áhættustýringu fjarskiptafyrirtækis samkvæmt ákvæði þessu skal Fjarskiptastofa m.a. horfa til hagsmuna notenda fjarskiptaþjónustu af því að hún haldist órofin, almannahagsmuna og þjóðaröryggis.
Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um skyldur fjarskiptafyrirtækja samkvæmt ákvæði þessu, þar á meðal um afkastagetu og flæði umferðar um almenn fjarskiptanet, viðbúnaðaræfingar og eftirlitsúrræði Fjarskiptastofu.
Ráðherra getur í reglugerð, að fengnum umsögnum Fjarskiptastofu og ríkislögreglustjóra, kveðið á um að kerfi og búnaður í fjarskiptanetum sem teljast mikilvæg með tilliti til almannahagsmuna eða þjóðaröryggis skuli vera staðsett í íslenskri lögsögu, að því gefnu að búnaðurinn og kerfin sem um ræðir séu nauðsynleg fyrir virkni eða stjórnun fjarskipta innan landsins. Í reglugerð skv. 1. málsl. getur ráðherra einnig kveðið á um að rekstur slíks búnaðar og kerfa skuli fara fram í íslenskri lögsögu, þ.m.t. umsjón og eftirlit með virkni og ástandi fjarskiptaneta.
79. gr. Úttektir og bindandi fyrirmæli.
Fjarskiptastofu er heimilt að gera úttektir og prófanir á því hvort fjarskiptafyrirtæki uppfylli kröfur laga þessara er varða net- og upplýsingaöryggi, virkni og áhættustýringu fjarskiptaþjónustu og almennra fjarskiptaneta. Fjarskiptastofa getur jafnframt gert kröfu um að til þess bær utanaðkomandi aðili geri úttektir og prófanir og kveðið á um framvísun skjalfestra niðurstaðna hlutaðeigandi. Útlagður kostnaður vegna úttekta og prófana skal greiddur af viðkomandi fjarskiptafyrirtæki.
Fjarskiptastofu er enn fremur heimilt að framkvæma mat á heildstæði, öryggi og virkni almennra fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu með tilliti til áhættu, í heild eða að hluta.
Ef fjarskiptafyrirtæki uppfyllir ekki kröfur 78. gr. að mati Fjarskiptastofu skal stofnunin krefjast þess að úr verði bætt innan hæfilegs frests. Vanræki fjarskiptafyrirtæki að fara að fyrirmælum Fjarskiptastofu um úrbætur á alvarlegum veikleikum getur stofnunin látið vinna verkið á kostnað hlutaðeigandi. Krafa um kostnað vegna þessa er aðfararhæf skv. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989.
80. gr. Tilkynningar vegna öryggisatvika.
Fjarskiptafyrirtæki sem rekur almennt fjarskiptanet eða veitir almenna fjarskiptaþjónustu skal án tafar tilkynna til netöryggissveitar Fjarskiptastofu öll alvarleg öryggisatvik sem ógna öryggi eða virkni almennra fjarskiptaneta eða almennrar fjarskiptaþjónustu.
Við mat á alvarleika öryggisatviks skv. 1. mgr. skal einkum horft til:
   a. fjölda notenda sem öryggisatvik hefur áhrif á,
   b. hversu lengi öryggisatvik stendur yfir,
   c. landfræðilegrar útbreiðslu og umfangs áhrifa öryggisatviks,
   d. að hvaða marki virkni netsins eða veiting þjónustunnar verður fyrir áhrifum, og
   e. umfangs áhrifa öryggisatviksins á efnahagslega og samfélagslega starfsemi.
Tilkynna skal til Fjarskiptastofu án tafar ef hætta er á að öryggi eða leynd upplýsinga á fjarskiptanetum verði rofin eða ef til rofs hefur komið.
Í tilkynningu samkvæmt ákvæði þessu skal m.a. upplýst um mögulegt útvistunarfyrirkomulag og hugsanleg smitáhrif, jafnvel yfir landamæri. Umfang tilkynningar ræðst að öðru leyti af efni og aðstæðum.
Netöryggissveit skal tryggja að upplýsingar um öryggisatvik séu aðgengilegar vegna framkvæmdar eftirlits á grundvelli 79. gr.
Fjarskiptastofa getur sett reglur um nánari útfærslu og framkvæmd tilkynningarskyldu samkvæmt ákvæði þessu.
81. gr. Upplýsingagjöf.
Ef sérstök eða umfangsmikil ógn steðjar að fjarskiptaneti eða fjarskiptaþjónustu skulu fjarskiptafyrirtæki upplýsa þá notendur sem geta orðið fyrir áhrifum af þeirri ógn. Þau skulu jafnframt upplýsa um mögulegar öryggisráðstafanir og úrræði sem hægt er að grípa til. Ef við á skulu þau veita upplýsingar um hina meintu ógn. Ef hætta er á að öryggi eða leynd fjarskipta á tilteknu neti verði rofin skal þjónustuveitandi upplýsa notendur um hættuna. Upplýsingagjöfin skal vera án endurgjalds.
Ef almenningsvitundar er þörf til að koma í veg fyrir eða takast á við öryggisatvik og þegar upplýsingagjöf um öryggisatvik er af öðrum ástæðum nauðsynleg í þágu almannahagsmuna er Fjarskiptastofu heimilt að upplýsa almenning um öryggisatvikið eða kveða á um að fjarskiptafyrirtæki geri slíkt. Þá er stofnuninni heimilt að tilkynna almenningi um veikleika og almennar hættur ef það er nauðsynlegt í þágu almannahagsmuna. Eftir atvikum skal samráð viðhaft um slíkar tilkynningar við lögreglu.
Fjarskiptastofa skal, ef þörf krefur, upplýsa eftirlitsstjórnvöld í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og Netöryggisstofnun Evrópu um öryggisatvik. Árlega skal Fjarskiptastofa senda yfirlitsskýrslu til Eftirlitsstofnunar EFTA og Netöryggisstofnunar Evrópu um tilkynnt öryggisatvik skv. 80. gr. og meðhöndlun þeirra.
82. gr. Viðbúnaður og hlutverk netöryggissveitar.
Netöryggissveit skal aðstoða fjarskiptafyrirtæki við forvarnir, leiðbeina þeim og styðja við skjót viðbrögð gegn aðsteðjandi hættu. Við útbreitt öryggisatvik samhæfir netöryggissveitin aðgerðir viðeigandi aðila gegn aðsteðjandi hættu til að lágmarka tjón og reisa við eða lagfæra óvirk kerfi.
Netöryggissveitin skal greina og meðhöndla ógnir og öryggisatvik í netum og þjónustu fjarskiptafyrirtækja og fyrirbyggja og draga úr hættu á öryggisatvikum eins og kostur er og sporna við og lágmarka tjón aðila sem af slíku kann að hljótast.
Fjarskiptafyrirtækjum er skylt að bregðast án tafar við tilmælum netöryggissveitar um aðgerðir gegn bráðri aðsteðjandi netógn, hvort sem sú ógn steðjar að öryggi neta og þjónustu eins eða fleiri fjarskiptafyrirtækja. Hið sama á við í tilviki mjög alvarlegrar áhættu eða atvika sem steðja að net- og upplýsingakerfum mikilvægra innviða eða opinberra stofnana, almannahagsmunum eða þjóðaröryggi.
Netöryggissveitin skal leitast við að greina netógnir og öryggisatvik á sviði fjarskipta á frumstigi og skal hún senda út snemmviðvaranir í þeim tilgangi að styðja við skjót viðbrögð gegn aðsteðjandi ógn. Skal netöryggissveit tilkynna og miðla upplýsingum til viðeigandi hagsmunaaðila um ógnir og öryggisatvik. Netöryggissveitin veitir ráðgjöf um varnir og viðbúnað og kemur upplýsingum á framfæri við almenning ef þurfa þykir, eftir atvikum í samráði við önnur stjórnvöld.
Netöryggissveitin skal setja á laggirnar samstarfshóp með fjarskiptafyrirtækjum fyrir tæknilegt samráð og upplýsingaskipti á sviði net- og upplýsingaöryggis, m.a. til að greina ógnir og öryggisatvik sem og til að samræma viðbrögð.
Netöryggissveitinni er heimilt að tilkynna ríkislögreglustjóra um alvarleg eða útbreidd öryggisatvik og skal, eftir því sem við kann að eiga, hafa samstarf við embættið um varnir og viðbrögð. Netöryggissveitin skal án tafar hvetja fjarskiptafyrirtæki til að tilkynna lögreglu um öryggisatvik leiki grunur á refsiverðri háttsemi.
83. gr. Samningar netöryggissveitar og fjarskiptafyrirtækja.
Ef Fjarskiptastofa metur það nauðsynlegt skulu fjarskiptafyrirtæki og netöryggissveitin gera með sér samning um uppsetningu og rekstur tæknilegrar vöktunarþjónustu fyrir net- og upplýsingakerfi fjarskiptafyrirtækisins í þeim tilgangi að greina hættur og ummerki um árásir, spillikóða og aðrar vísbendingar um aðstæður sem gætu skapað hættu fyrir öryggi fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu fjarskiptafyrirtækisins.
Samningar skv. 1. mgr. skulu a.m.k. innihalda ákvæði er varða:
   a. búnað og netkerfi sem tengist vöktun netöryggissveitar,
   b. tæknilegar lausnir sem beitt er við vöktun, og
   c. tegund og vinnslu þeirra gagna, þ.m.t. persónuupplýsinga, sem safnað er, meðferð þeirra, vistun og eyðingu.
Fjarskiptafyrirtæki er skylt að hýsa og samtengjast endurgjaldslaust þeim búnaði netöryggissveitar sem Fjarskiptastofa metur nauðsynlegan skv. 1. mgr. vegna tæknilegrar vöktunarþjónustu og vegna upplýsinga um almenna netumferð skv. 4. mgr. Netöryggissveitinni er heimilt að taka við upplýsingum á grundvelli samnings um vöktunarþjónustu án dómsúrskurðar.
Hvorki er heimilt að persónugreina netumferð né skima einstaka netpakka eða flæði sem netöryggissveitin kann að nema í almennum netkerfum fjarskiptafyrirtækja. Netöryggissveitinni er þó heimilt að taka við upplýsingum um almenna netumferð án dómsúrskurðar, þ.m.t. á samtengipunktum og í útlandagáttum, enda séu þær upplýsingar ópersónugreinanlegar.
84. gr. Aðgangur að upplýsingum, þagnarskylda og vinnsla persónuupplýsinga.
Um aðgang netöryggissveitar að gögnum og upplýsingum, um sérstaka þagnarskyldu og undanþágur frá slíkri skyldu og um meðferð persónuupplýsinga skal fara eftir ákvæðum 17. og 19.–21. gr. laga um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, nr. 78/2019.
85. gr. Reglugerðarheimild er varðar netöryggissveit.
Ráðherra setur, að viðhöfðu samráði við Fjarskiptastofu og að fenginni umsögn frá Persónuvernd og ríkislögreglustjóra, nánari fyrirmæli í reglugerð um starfsemi netöryggissveitar samkvæmt lögum þessum. Í henni skal m.a. fjalla um meðferð tilkynninga og flokkunarkerfi fyrir atvik, áhættu, upplýsingar og framsetningu tilmæla, svo og samstarf við lögreglu.
86. gr. Vernd fjarskiptavirkja.
Þar sem fjarskiptavirki eru má ekki reisa mannvirki, setja upp tæki, leggja lagnir, gera jarðrask eða aðrar ráðstafanir er af geta hlotist skemmdir á fjarskiptavirkjum eða truflanir á rekstri þeirra nema áður hafi verið aflað upplýsinga um legu þeirra og samráð verið haft við eiganda fjarskiptavirkisins um tilhögun framkvæmdanna.
Ef nauðsynlegt reynist vegna verklegra framkvæmda að flytja til eða breyta legu fjarskiptavirkja ber sá sem slíka framkvæmd annast allan kostnað sem af því kann að leiða, beinan og óbeinan, nema annað hafi orðið að samkomulagi.
Ef jarðrask eða aðrar framkvæmdir hafa leitt til skemmda á fjarskiptavirkjum eða truflana á rekstri þeirra skal sá sem þeim hefur valdið þegar í stað tilkynna það til eiganda fjarskiptavirkisins. Er tjónvaldi jafnframt skylt að bæta allt tjón sem af skemmdunum leiðir, bæði beint og óbeint, þar á meðal viðskiptatap, nema hann sýni fram á að ekki hafi verið komist hjá tjóni þó að fyllsta aðgæsla hafi verið sýnd. Bótaábyrgð skv. 2. málsl. gildir ekki um lagnir sem lagðar eru á minna en 20 cm dýpi innan lóðarmarka fasteigna.
Þar sem fjarskiptastrengir liggja í sjó skulu sjófarendur sýna aðgæslu og gæta varúðar. Bannað er að veiða með veiðarfærum sem fest eru í botni eða eru dregin eftir honum, svo sem netum, botnvörpum og þess háttar, á svæðum þar sem fjarskiptastrengir liggja. Svæði þetta skal vera mílufjórðungsbelti hvorum megin við fjarskiptastrenginn. Þá er skipum einnig bannað að leggjast við akkeri innan sömu fjarlægða frá fjarskiptastrengjum. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá banni við veiðum samkvæmt þessari málsgrein, í sérstökum tilvikum, ef um er að ræða veiðarfæri sem ekki eru talin líkleg til að raska öryggi fjarskiptastrengja á viðkomandi svæði að teknu tilliti til aðstæðna. Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um skilyrði fyrir undanþágum samkvæmt þessari málsgrein í reglugerð.1) Ef tjón verður á fjarskiptastreng í sjó, sem valdið er af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, skal sá sem tjóni hefur valdið bæta beint og óbeint fjártjón sem af því hlýst nema hann sýni fram á að hann hafi gert allar nauðsynlegar varúðarráðstafanir til þess að komast hjá tjóni.
Þegar skip er innan eða utan landhelgi við lagningu eða viðgerð á fjarskiptastrengjum og ber til sýnis alþjóðamerki eða önnur merki er gefa það til kynna skulu önnur skip sem sjá eða eiga að geta séð þessi merki halda sig eigi skemmra en mílufjórðung frá skipinu. Net og önnur veiðarfæri skal hafa í sömu fjarlægð. Fiskiskip skulu þó hafa 12 stunda frest til þess að fjarlægja veiðarfæri sem liggja í sjó.
Ef dufl hefur verið lagt út vegna lagningar eða viðgerðar á fjarskiptastreng skulu skip halda sig og veiðarfærum sínum eigi skemmra en mílufjórðung frá duflinu.
Ef skip hefur orðið að sleppa akkeri eða leggja net eða önnur veiðarfæri í sölurnar til þess að komast hjá því að skemma fjarskiptastrengi á það kröfu um skaðabætur frá eiganda strengjanna, enda hafi stjórnendur skipsins ekki stofnað til hættunnar af gáleysi.
Ef unnt er skulu skipverjar þegar skjalfesta skýrslu um tjónið sem staðfest skal af stjórnanda skipsins. Að auki skal eiganda fjarskiptastrengsins eða forsvarsmanni eiganda tilkynnt um atburðinn eins fljótt og kostur er.
   1)Rg. 845/2022.
87. gr. Öryggishagsmunir vegna uppbyggingar fjarskiptaneta.
Við þróun, uppbyggingu og rekstur fjarskiptaneta í íslenskri lögsögu skal grípa til ráðstafana til að bregðast við áhættuþáttum er varða brýna almanna- og öryggishagsmuni.
Telji Fjarskiptastofa hættu á að farnet á landsvísu séu eða geti orðið mjög háð búnaði frá einum framleiðanda þegar litið er á búnað allra fjarskiptafyrirtækja í heild sinni á landsvísu er stofnuninni, á grundvelli öryggishagsmuna, heimilt að binda leyfi skv. 27. gr. skilyrðum er stuðla að fjölbreytni í gerð búnaðar, setja slík skilyrði í reglum um tilkynningu þráðlauss sendibúnaðar skv. 3. mgr. 27. gr., eða grípa til annarra viðeigandi ráðstafana.
Að fengnum umsögnum ráðherra sem fara með utanríkis- og varnarmál, almannavarnir og löggæslu getur ráðherra kveðið á um í reglugerð að búnaður í tilteknum hlutum innlendra fjarskiptaneta, sem teljast viðkvæmir með tilliti til almannahagsmuna eða þjóðaröryggis, skuli í heild eða að ákveðnu hlutfalli vera frá framleiðanda í ríki sem Ísland á öryggissamstarf við eða ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í reglugerð skv. 1. málsl. getur ráðherra jafnframt heimilað notkun búnaðar frá öðrum ríkjum, hafi hann verið samþykktur til sambærilegra nota af ríkjum sem Ísland á öryggissamstarf við.
Umsögn skv. 3. mgr. er undanþegin upplýsingarétti almennings og aðila máls samkvæmt upplýsinga- og stjórnsýslulögum. Ráðherra sem veitir umsögn getur aflétt trúnaði af umsögn teljist öryggishagsmunir ekki lengur standa afhendingu eða birtingu í vegi.

XIII. kafli. Friðhelgi einkalífs, fjarskiptaleynd, aðstoð við rannsókn sakamála o.fl.
88. gr. Leynd fjarskipta.
Óheimil er sérhver vinnsla fjarskipta, þ.m.t. geymsla, hlustun, upptaka eða hlerun, nema hún fari fram með upplýstu samþykki notanda eða samkvæmt heimild í lögum.
Notkun hvers konar kerfa og búnaðar, þ.m.t. hugbúnaðar, sem safnar og/eða geymir upplýsingar um athafnir eða samskipti notanda í endabúnaði hans, veitir aðgang að upplýsingum sem geymdar eru í endabúnaði hans eða fylgist með athöfnum hans er óheimil nema samkvæmt upplýstu samþykki notanda eða samkvæmt heimild í lögum. Þrátt fyrir þetta er notkun slíks búnaðar heimil til að fá aðgang að upplýsingum og/eða til tæknilegrar geymslu í lögmætum tilgangi og með vitund hlutaðeigandi notanda.
Öllum sem starfa við fjarskiptavirki, hvort sem um er að ræða starfsmenn fjarskiptafyrirtækja eða aðra, er skylt, bæði meðan þeir gegna starfi og eftir að þeir hafa látið af því, að halda leyndu fyrir óviðkomandi aðilum öllu því sem um fjarskiptavirkin fer, hvort sem um er að ræða efni skeyta eða samtala eða hvort fjarskipti hafa átt sér stað og á milli hverra. Enginn sem starfar við fjarskiptavirki, fjarskiptanet eða fjarskiptaþjónustu má skjóta undan skeytum, gögnum, myndum eða öðrum merkjum sem afhent eru til fjarskiptaflutnings eða liðsinna öðrum við þess konar athæfi.
Sá sem fyrir tilviljun, mistök eða án sérstakrar heimildar tekur við símskeytum, myndum eða öðrum fjarskiptamerkjum og táknum eða hlustar á símtöl má ekki skrá neitt slíkt hjá sér eða notfæra sér það á nokkurn hátt. Jafnframt ber honum að tilkynna sendanda að upplýsingar hafi ranglega borist sér. Skylt er að gæta fyllsta trúnaðar í slíkum tilfellum.
89. gr. Gögn um fjarskipti.
Gögnum um fjarskiptaumferð notenda sem geymd eru og fjarskiptafyrirtæki vinnur úr skal eyða eða gera nafnlaus þegar þeirra er ekki lengur þörf við afgreiðslu ákveðinnar fjarskiptasendingar.
Gögn um fjarskiptanotkun sem nauðsynleg eru til reikningsgerðar fyrir notendur og uppgjörs fyrir samtengingu má geyma þar til ekki er lengur hægt að vefengja reikning eða hann fyrnist.
Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. skulu fjarskiptafyrirtæki, í þágu rannsókna sakamála og almannaöryggis, varðveita lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð notenda í sex mánuði. Lágmarksskráningin skal tryggja að fjarskiptafyrirtæki geti upplýst hver af viðskiptavinum þess var notandi tiltekins símanúmers, IP-tölu eða notandanafns, jafnframt því að upplýsa um allar tengingar sem notandinn hefur gert, dagsetningar þeirra, hverjum var tengst og magn gagnaflutnings til viðkomandi notanda, svo og hvaða símanúmer tiltekinn viðskiptavinur var með á tilteknu tímabili. Fjarskiptafyrirtæki skal tryggja vörslu framangreindra gagna og er óheimilt að nota eða afhenda umræddar upplýsingar öðrum en lögreglu eða ákæruvaldi í samræmi við ákvæði 92. gr. Eyða ber umferðargögnunum að þessum tíma liðnum enda sé ekki þörf fyrir þau á grundvelli 2. mgr.
Með upplýstu samþykki notanda er fjarskiptafyrirtæki heimilt að vinna úr gögnum skv. 1. mgr. vegna markaðssetningar fjarskiptaþjónustu eða framboðs á virðisaukandi þjónustu að því leyti sem nauðsynlegt er fyrir slíka þjónustu eða markaðssetningu. Samþykki má afturkalla hvenær sem er.
Þjónustuveitandi skal upplýsa notendur fyrir fram um hvaða gögn um fjarskiptanotkun eru tekin til úrvinnslu og hversu lengi úrvinnsla mun standa.
Úrvinnslu gagna samkvæmt þessari grein skulu þeir einir sinna sem eru undir stjórn fjarskiptafyrirtækja og sjá um gerð reikninga eða stjórnun fjarskiptaumferðar, fyrirspurnir notenda, uppljóstrun misferlis, markaðssetningu fjarskiptaþjónustu eða virðisaukandi þjónustu og skal úrvinnslan einskorðast við það sem er nauðsynlegt í þágu slíkrar starfsemi.
90. gr. Upplýsingar um staðsetningu búnaðar.
Því aðeins má vinna úr upplýsingum um staðsetningu búnaðar í almennum fjarskiptanetum eða fjarskiptaþjónustu að ekki sé hægt að tengja þær við einstaka notendur eða að fengnu upplýstu samþykki þeirra, sbr. þó 98. gr.
91. gr. Hljóðritun símtala.
Sá aðili að símtali sem vill hljóðrita símtal skal í upphafi þess tilkynna viðmælanda sínum um fyrirætlun sína.
Aðili þarf þó ekki að tilkynna sérstaklega um upptöku símtals þegar ótvírætt má ætla að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritunina.
Þrátt fyrir 1. mgr. er opinberum stofnunum, eða fyrirtækjum sem veita þeim þjónustu, heimilt að hljóðrita samtöl sem þeim berast þegar slík hljóðritun er eðlilegur þáttur í starfsemi stjórnvalds og nauðsynleg vegna þjóðar- og almannaöryggis.
Um fyrirkomulag hljóðritunar og kynningu hennar fyrir almenningi og starfsmönnum stofnunar skal fara eftir skilyrðum sem Persónuvernd kann að setja.
Úrvinnsla hljóðritana samkvæmt þessari grein skal vera í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
92. gr. Rannsókn sakamála.
Fjarskiptafyrirtæki er skylt að verða við tilmælum lögreglu um aðstoð við rannsókn sakamáls, enda styðjist þau tilmæli við dómsúrskurð eða lagaheimild. Fjarskiptafyrirtæki skulu setja sér verklagsreglur um viðbrögð við beiðnum um aðgang lögreglu að persónuupplýsingum notenda.
Ekki má án undangengins dómsúrskurðar heimila óviðkomandi aðilum að sjá skeyti, önnur skjöl eða annála um sendingar sem um fjarskiptavirkin fara eða hlusta á fjarskiptasamtöl eða hljóðrita þau. Fjarskiptafyrirtæki er þó rétt og skylt að veita lögreglu, í þágu rannsóknar sakamáls, upplýsingar um hver sé skráður notandi ákveðins símanúmers og/eða notandi vistfangs (IP-tölu), svo og hvaða símanúmer tiltekinn viðskiptavinur var með á tilteknu tímabili. Fjarskiptafyrirtæki er skylt að verða við kröfu lögreglu um að gögn séu afhent á formi samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum. Um aðgang lögreglu að upplýsingum um fjarskipti skal að öðru leyti fara samkvæmt lögum um meðferð sakamála.
Í þágu rannsóknar máls er lögreglu heimilt að leggja fyrir fjarskiptafyrirtæki að varðveita þegar í stað stafræn gögn, þ.m.t. fjarskiptaumferðarupplýsingar. Fyrirmæli lögreglu geta eingöngu tekið til gagna sem þegar eru fyrir hendi. Í fyrirmælunum á að koma fram hvaða gögn eigi að varðveita og hve lengi en sá tími má þó ekki vera lengri en 90 dagar.
Starfsmenn fjarskiptafyrirtækis eru bundnir þagnarskyldu um allar aðgerðir sem gripið er til samkvæmt þessari grein. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi. Fjarskiptafyrirtæki skal óska eftir öryggisvottun lögreglu vegna þeirra starfsmanna fjarskiptafyrirtækis er annast tengingar á símhlustun fyrir lögreglu. Lögreglu er í því sambandi heimilt, að fengnu skriflegu samþykki viðkomandi starfsmanns fjarskiptafyrirtækis, að afla upplýsinga um bakgrunn og sakaferil hans, svo sem úr skrám lögreglu, sakaskrá eða öðrum opinberum skrám. Áður en lögregla lýkur athugun sinni skal þeim sem athugun beinist að gert kleift að koma sjónarmiðum sínum að. Hann á jafnframt rétt á rökstuðningi ákvarði lögregla að synja honum um öryggisvottun. Ákvörðun lögreglu um synjun öryggisvottunar sætir kæru til ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
Ráðherra getur sett reglugerð um skyldur fjarskiptafyrirtækja varðandi varðveislu upplýsinga og aðgang lögreglu að fjarskiptasendingum og upplýsingum samkvæmt þessari grein.
93. gr. Símaskrárupplýsingar.
Endanotandi númeratengdrar fjarskiptaþjónustu á rétt á að ákveða hvort persónuupplýsingar um hann séu skráðar í númera- og vistfangaskrá fjarskiptafyrirtækis sem nýtt er fyrir opinberar prentaðar eða rafrænar símaskrár eða fyrir upplýsingaþjónustu um símanúmer. Fjarskiptafyrirtæki sem úthluta númerum skulu upplýsa endanotendur um þennan rétt sinn, hvaða persónuupplýsingar um ræðir og um vinnslu þeirra.
Þær persónuupplýsingar sem fjarskiptafyrirtæki skal skrá í þessum tilgangi takmarkast við þær upplýsingar sem þarf til að bera kennsl á endanotanda nema endanotandinn hafi veitt upplýst samþykki til annars. Fjarskiptafyrirtæki ber að verða við kröfu endanotanda um að gefið sé til kynna í prentaðri eða rafrænni símaskrá eða í upplýsingaþjónustu um símanúmer að upplýsingar skráðar um hann megi ekki nota í tilgangi beinnar markaðssetningar eða um að heimilisfangi sé sleppt að einhverju eða öllu leyti. Áður en persónulegar upplýsingar um endanotanda eru skráðar í opinberar símaskrár eða notaðar fyrir upplýsingaþjónustu um símanúmer skal hann hafa aðgang að upplýsingunum. Óheimilt er að innheimta kostnað vegna réttar endanotanda samkvæmt þessari málsgrein og 1. mgr.
Fjarskiptastofa getur skyldað öll fjarskiptafyrirtæki sem úthluta endanotendum símanúmerum til að verða við beiðnum um að láta í té viðkomandi upplýsingar í númera- og vistfangaskrám þeirra í formi sem aðilar koma sér saman um, þ.m.t. tölvutæku formi, og með skilmálum sem eru sanngjarnir, tryggja jafnræði og byggjast á kostnaði ásamt hæfilegri álagningu. Óheimilt er að nota upplýsingarnar í öðrum tilgangi en að gefa út prentaðar eða rafrænar símaskrár eða fyrir upplýsingaþjónustu um símanúmer.
Fjarskiptastofa setur að öðru leyti reglur um skráningu endanotenda sem úthlutað hefur verið númerum í föstum netum og farnetum. Að því er varðar farsímakort sem ekki eru skráð á nafn er stofnuninni heimilt að setja reglur um skráningu þeirra í samstarfi við Neyðarlínuna, lögreglu og farsímafyrirtæki í því skyni að stuðla að auknu öryggi við notkun farsíma.
94. gr. Óumbeðin fjarskipti.
Notkun sjálfvirkra uppkallskerfa, símbréfa, tölvupósts og hvers konar rafrænna skilaboða fyrir beina markaðssetningu er einungis heimil þegar endanotandi hefur veitt upplýst samþykki sitt fyrir fram.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að nota tölvupóstfang fyrir beina markaðssetningu á eigin vörum eða þjónustu ef endanotendum er gefinn kostur á að andmæla slíkri notkun tölvupóstfanga þeim að kostnaðarlausu þegar skráning á sér stað og sömuleiðis í hvert sinn sem skilaboð eru send, hafi viðskiptavinurinn ekki þegar í upphafi hafnað slíkri notkun.
Að öðru leyti en mælt er fyrir í 1. og 2. mgr. eru óumbeðin fjarskipti í formi beinnar markaðssetningar óheimil til þeirra endanotenda sem óska ekki eftir að taka á móti þeim.
Þrátt fyrir ákvæði 1.–3. mgr. er heimilt að nota almenn tölvupóstföng fyrirtækja og stofnana, séu þau fyrir hendi, fyrir beina markaðssetningu á vörum og þjónustu.
Óheimilt er að senda tölvupóst sem þátt í beinni markaðssetningu þar sem nafn og heimilisfang þess sem stendur að markaðssetningu kemur ekki skýrt fram.
Þeir sem nota almenna tal- og farsímaþjónustu sem lið í markaðssetningu skulu virða merkingu í símaskrá sem gefur til kynna að viðkomandi notandi vilji ekki slíkar símhringingar í símanúmer sitt. Endanotandi á rétt á að fá vitneskju um hvaðan þær upplýsingar koma sem liggja úthringingu til grundvallar.

XIV. kafli. Neyðarsamskipti. Neyðar- og öryggisfjarskipti. Fjarskipti á hættutímum.
95. gr. Áreiðanleiki neyðar- og öryggisfjarskipta.
Ákvæði 78.–81. gr. gilda um öll fjarskiptanet sem notuð eru fyrir neyðar- og öryggisfjarskipti.
Ráðherra getur í reglugerð kveðið á um auknar kröfur til skipulags net- og upplýsingaöryggis og fyrirkomulag áhættustýringar neyðar- og öryggisfjarskipta sem og þeirra fjarskiptaneta sem notuð eru fyrir neyðar- og öryggisfjarskipti, m.a. um:
   a. hlutfallslegan uppitíma kerfisins á ársgrundvelli eftir mismunandi kerfiseiningum,
   b. viðmið um flokkun fjarskiptastaða út frá öryggissjónarmiðum,
   c. ráðstafanir til að tryggja öryggi í viðkomandi flokki, þ.m.t. varðandi varaleiðir og lágmarksvaraafl í rafgeymum eða vararafstöðvar eftir mismunandi flokkun fjarskiptastaðarins,
   d. kröfur til gerðar og tegundar fjarskiptabúnaðar ásamt kröfum sem gerðar eru til framleiðenda búnaðar,
   e. fyrirkomulag innra eftirlits,
   f. tilkynningar til Fjarskiptastofu um öryggisatvik,
   g. úttektir og prófanir af hálfu Fjarskiptastofu og aðgengi stofnunarinnar að upplýsingum,
   h. þátttöku í samhæfingu fjarskiptafélaga og Fjarskiptastofu er varðar öryggi og almannavarnir og
   i. skilyrði fyrir samstarfi rekstraraðila neyðar- og öryggisfjarskiptakerfis við önnur fjarskiptafyrirtæki um starfrækslu einstakra fjarskiptastaða, eða kerfishluta.
96. gr. Neyðarsamskipti.
Stuttnúmerið 112 skal notað fyrir neyðar- og öryggisþjónustu og er óheimilt að nota það í öðrum tilgangi. Óheimilt er að gjaldfæra símtöl í neyðarnúmerið 112, þ.m.t. öflun staðsetningarupplýsinga. Fjarskiptafyrirtækjum er skylt að flytja símtal í númerið 112, ásamt viðeigandi fjarskiptaumferðarupplýsingum, óháð fjarskiptanetum, samningum um reikiþjónustu milli fjarskiptafyrirtækja og inneign notanda.
97. gr. Ábendingalína vegna barna sem er saknað og hjálparsími fyrir börn.
Stuttnúmerið 116000 skal notað fyrir ábendingalínu vegna tilkynninga um börn sem er saknað og stuttnúmerið 116111 skal notað fyrir hjálparsíma barna. Óheimilt er að gjaldfæra símtöl í númerin 116000 og 116111, þ.m.t. öflun staðsetningarupplýsinga. Fjarskiptafyrirtækjum er skylt að flytja símtöl í númerin 116000 og 116111, ásamt viðeigandi fjarskiptaumferðarupplýsingum, óháð fjarskiptanetum, reikisamningum milli fjarskiptafyrirtækja og inneign notanda.
98. gr. Upplýsingar um staðsetningu búnaðar í neyðartilvikum.
Þrátt fyrir ákvæði 90. gr. skulu fjarskiptafyrirtæki án samþykkis notanda senda, án endurgjalds, upplýsingar um staðsetningu notanda, að því marki sem er tæknilega gerlegt, til aðila sem annast neyðarþjónustu og eru opinberlega viðurkenndir sem slíkir, þ.m.t. lögreglu, sjúkraflutningamanna og slökkviliðs. Notkun upplýsinganna er einungis heimil í þeim tilgangi að staðsetja neyðarsímtöl eða búnað notanda í tilvikum þar sem lögregla telur að líf hans eða annarra sé í bráðri hættu og upplýsingarnar eru nauðsynlegar til að afstýra hættunni.
99. gr. Almannaviðvörunarkerfi.
Fjarskiptafyrirtæki sem reka farnet eða veita farnetsþjónustu skulu að beiðni almannavarna, eða annarra þar til bærra opinberra viðbragðsaðila, senda viðvaranir um yfirvofandi eða yfirstandandi neyðarástand í farsíma eða annan nettengdan búnað án endurgjalds. Fjarskiptaumferð slíkra viðvarana skal njóta forgangs í almennum fjarskiptanetum.
100. gr. Fjarskipti á hættutímum og í neyðartilvikum.
Ráðherra getur samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar mælt fyrir um stöðvun eða takmörkun fjarskipta sem teljast hættuleg þjóðaröryggi eða almannaöryggi.
Í neyðartilvikum, svo sem við náttúruhamfarir, getur ráðherra að beiðni ríkislögreglustjóra mælt fyrir um takmörkun fjarskipta sem truflað geta neyðar- og öryggisfjarskipti. Á sama hátt skal heimilt að mæla fyrir um að tiltekin fjarskiptavirki skuli notuð í þágu björgunaraðgerða og að sett skuli upp ný fjarskiptavirki.
Við yfirvofandi eða yfirstandandi þjónusturof á fjarskiptum sem nær til stórs landsvæðis eða til umtalsverðs fjölda notenda, þannig að neyðarástand geti eða hafi skapast, getur ráðherra mælt fyrir um aðgerðir til að viðhalda rekstrarsamfellu þjónustunnar uns komist hefur verið hjá neyðarástandinu.
Komi endurgjald til greina vegna aðgerða sem gripið er til vegna 2. og 3. mgr. greiðist það úr ríkissjóði samkvæmt mati Fjarskiptastofu.

XV. kafli. Fyrirmæli og afturköllun réttinda. Stjórnvaldssektir og viðurlög.
101. gr. Fyrirmæli um úrbætur, afturköllun réttinda og heimild til rekstrarstöðvunar.
Fjarskiptafyrirtæki sem hafa réttindi til að nota tíðnir og númer skulu að beiðni Fjarskiptastofu veita stofnuninni upplýsingar samkvæmt lögum um Fjarskiptastofu sem nauðsynlegar eru til þess að ganga úr skugga um að farið sé eftir skilyrðum almennrar heimildar eða álagðra kvaða skv. VIII.–X. kafla.
Komist Fjarskiptastofa að þeirri niðurstöðu að fjarskiptafyrirtæki fari ekki að skilmálum almennrar heimildar, skilyrðum sem tengjast réttindum eða ákvörðunum stofnunarinnar skal hún tilkynna fjarskiptafyrirtækinu um þessa niðurstöðu og gefa fyrirtækinu tækifæri til þess að koma skoðun sinni á framfæri eða bæta úr annmörkum innan eins mánaðar frá dagsetningu tilkynningar eða skemmri tíma sem fyrirtækið samþykkir eða Fjarskiptastofa kveður á um þegar um endurtekið brot er að ræða eða lengri tíma sem Fjarskiptastofa samþykkir.
Láti fjarskiptafyrirtæki ekki af broti sínu innan settra tímamarka getur Fjarskiptastofa gripið til viðeigandi ráðstafana skv. 5. mgr. eða 102. gr. eða lagt á dagsektir í samræmi við 19. gr. laga um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021. Tilkynna skal fjarskiptafyrirtæki um ákvörðun stofnunarinnar ásamt rökstuðningi við hana og skal veita því hæfilegan frest til þess að bregðast við.
Við alvarleg og endurtekin brot á skilmálum almennrar heimildar eða skilyrðum sem tengjast réttindum eða ákvörðun Fjarskiptastofu, þegar ráðstafanir til að tryggja að farið verði að lögum hafa mistekist, getur Fjarskiptastofa stöðvað netrekstur eða þjónustu fjarskiptafyrirtækis, fellt niður skráningu eða afturkallað réttindi tímabundið eða varanlega.
Fjarskiptastofa getur, ef sannanir liggja fyrir um brot á skilmálum almennrar heimildar eða skilyrðum sem tengjast réttindum eða ákvörðunum Fjarskiptastofu sem leiðir til yfirvofandi hættu fyrir öryggi og heilsu almennings eða getur skapað alvarleg fjárhagsleg eða rekstrarleg vandamál fyrir önnur fjarskiptafyrirtæki eða notendur fjarskiptaneta eða fjarskiptaþjónustu, tekið bráðabirgðaákvarðanir til að bæta úr ástandinu áður en endanleg ákvörðun er tekin. Fjarskiptafyrirtækinu sem í hlut á skal að lokinni bráðabirgðaákvörðun veitt tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri og leggja til úrbætur. Þegar við á getur Fjarskiptastofa staðfest bráðabirgðaákvörðun sína.
102. gr. Framfylgdarheimildir vegna óumbeðinna fjarskipta.
Ef brotið er gegn 94. gr. gilda ákvæði 20. gr. a og 20. gr. b, 2. mgr. 21. gr. c, 22.–25. gr., 25. gr. a og 27. gr. laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, um málsmeðferð og heimildir Fjarskiptastofu til að framkvæma vettvangskönnun og prufukaup, grípa til aðgerða, leggja á sektir og dagsektir og krefjast lögbanns.
Ákvörðunum Fjarskiptastofu skv. 1. mgr. verður skotið til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála.
103. gr. Stjórnvaldssektir.
Fjarskiptastofa getur lagt stjórnvaldssektir á fjarskiptafyrirtæki, lögaðila eða einstaklinga sem brjóta gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglum settum á grundvelli þeirra:
   a. skilyrðum almennrar heimildar skv. 8. og. 9. gr.,
   b. skilyrðum fyrir notkun tíðna og númera skv. 16. og 22. gr.,
   c. réttindum og skyldum um aðgang að aðstöðu, netum eða þjónustu eða samtengingu og rekstrarsamhæfingu neta skv. 34.–36. og 38.–41. gr.,
   d. trúnaðarskyldum skv. 42. gr.,
   e. kvöðum sem lagðar hafa verið á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk skv. 46.–52., 56. og 61. gr.,
   f. skuldbindingum sem fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk hafa gengist undir í tengslum við sameiginlega fjárfestingu skv. 55. gr., aðskilnað starfsemi skv. 56. gr., kvaðir skv. 46. gr. og skuldbindingarferli skv. 58. gr.,
   g. tilkynningarskyldu heildsölufyrirtækis varðandi breytingar á aðstæðum skv. 3. mgr. 59. gr.,
   h. tilkynningarskyldu og öðrum réttindum og skyldum varðandi flutning úr eldri fjarskiptanetum skv. 60. gr.,
   i. ákvæðum um hámarksverð og önnur réttindi og skyldur er varða lúkningu símtala, reikiþjónustu og millilandafjarskipti skv. 53. og 54. gr.,
   j. skilyrðum um fjárhagslegan aðskilnað fjarskiptastarfsemi frá sérleyfisbundinni starfsemi skv. 10. gr.,
   k. ákvæðum sem varða rétt neytenda skv. 68., 69., 71.–74., 76. og 77. gr.,
   l. ákvæðum sem varða öryggi upplýsinga, fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu skv. 78., 80. og 1. mgr. 81. gr.,
   m. friðhelgi einkalífs, fjarskiptaleynd og aðstoð við rannsókn sakamála skv. XIII. kafla,
   n. reglum sem gilda um frágang innanhússfjarskiptalagna skv. 25. gr.,
   o. ákvæðum er varða búnað fjarskiptaneta skv. 24. gr., þráðlausan sendibúnað skv. 27. gr. og fjarskiptabúnað í farartækjum skv. 28. gr.,
   p. grunnkröfum þráðlauss fjarskiptabúnaðar skv. 26. gr., samræmi búnaðar skv. 30. gr., skyldum aðila sem koma að markaðssetningu skv. 31. gr. og reglum um eftirlit með markaðssetningu búnaðar skv. 33. gr.,
   q. vernd fjarskiptavirkja skv. 86. gr.,
   r. skyldu til að afhenda fullnægjandi og réttar upplýsingar um uppbyggingaráform skv. 11. gr. laga um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021, enda hafi þær verið afhentar fyrir stórkostlegt gáleysi eða af ásetningi, eða
   s. skyldu til að afhenda Fjarskiptastofu réttar, fullnægjandi og uppfærðar upplýsingar skv. 1. og 2. mgr. 15. gr. laga um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021.
Stjórnvaldssektir geta numið allt að 4% af heildarveltu síðasta rekstrarárs hjá hverju því fjarskiptafyrirtæki eða öðru fyrirtæki sem aðild á að broti. Hvað varðar einstaklinga geta sektir numið frá 10.000 kr. til 10 millj. kr. Við ákvörðun á fjárhæð sekta skal hafa hliðsjón af eðli og umfangi brota, hvað brot hafa staðið lengi og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ákvarðaðar stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar og renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Sé stjórnvaldssekt ekki greidd innan mánaðar frá ákvörðun Fjarskiptastofu skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi. Falla má frá sektarákvörðun teljist brot óverulegt eða af öðrum ástæðum sé ekki talin þörf á slíkum sektum til að stuðla að framgangi ákvæða laga þessara.
Ákvörðun Fjarskiptastofu um sektir má skjóta til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála.
Heimild Fjarskiptastofu til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk. Frestur skv. 1. málsl. rofnar þegar Fjarskiptastofa tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.
104. gr. Refsingar.
Brot sem framið er af ásetningi á ákvæðum í lögum þessum sem tilgreind eru í d-, e-, f-, m- og q-lið 1. mgr. 103. gr. og reglum settum á grundvelli þeirra varða sektum, en fangelsi allt að tveimur árum ef sakir eru miklar eða brot ítrekuð. Gáleysisbrot skulu eingöngu varða sektum.
Ef brot gegn ákvæðum í lögum þessum sem tilgreind eru í m-lið 1. mgr. 103. gr. er framið í ávinningsskyni, hvort sem er í eigin þágu eða annarra, má refsa með fangelsi allt að þremur árum.
Ef brot skv. 1. og 2. mgr. er framið í starfsemi lögaðila má gera lögaðilanum fésekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
Tilraun og hlutdeild í brotum skv. 1. og 2. mgr. er refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
Fjarskiptabúnað sem hefur verið starfræktur í heimildarleysi má gera upptækan í málum sem vísað er til lögreglu skv. 105. gr., sbr. 69. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
105. gr. Kæra mála til lögreglu.
Brot gegn lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Fjarskiptastofu eða brotaþola.
Ef brot eru meiri háttar er Fjarskiptastofu skylt að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Fjarskiptastofa á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til rannsóknar lögreglu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
Varði brot á lögum þessum bæði refsiábyrgð fyrir einstakling og lögaðila metur Fjarskiptastofa, með tilliti til grófleika brots og réttarvörslusjónarmiða, hvort mál skuli kært til lögreglu að hluta eða í heild.
Með kæru stjórnvalds skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gilda ekki um ákvörðun um að kæra mál til lögreglu.
Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent mál sem varðar brot á lögum þessum og gögn því tengd til Fjarskiptastofu til meðferðar og ákvörðunar.
106. gr. Réttur manna til að fella ekki á sig sök.
Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur sá sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjarskiptastofa skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

XVI. kafli. Gildistaka o.fl.
107. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð1) um nánari framkvæmd laga þessara.
   1)Rg. 944/2019, sbr. 945/2023. Rg. 1100/2022. Rg. 1350/2022. Rg. 1589/2022. Rg. 422/2023.
108. gr. Innleiðing.
Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1972 frá 11. desember 2018 um setningu evrópskra reglna um fjarskipti eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 275/2021 frá 24. september 2021, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XI. viðauka samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins.
109. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. september 2022.
Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. mgr. öðlast 4. mgr. 86. gr. þegar gildi.
Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. mgr. skulu fjarskiptafyrirtæki sem hafa verið tilkynnt til Fjarskiptastofu og skráð í tíð eldri laga um fjarskipti halda skráningu sinni við gildistöku laga þessara.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu ákvæði laga um fjarskipti, nr. 81/2003, um markaðsgreiningar og ákvarðanir um kvaðir, sem eru í vinnslu, en er ólokið við gildistöku laga þessara, enda hafi drög að viðkomandi markaðsgreiningu og/eða drög að fyrirhuguðum kvöðum verið birt til samráðs skv. 24. gr. laga um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021, fyrir gildistöku laga þessara, gilda til 31. desember 2022.
110. gr. Breytingar á öðrum lögum.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Reglur og reglugerðir samkvæmt lögum þessum skal setja svo fljótt sem kostur er. Þar til þær hafa verið staðfestar skulu þær reglur og reglugerðir sem nú gilda um þau mál er lög þessi taka til vera í fullu gildi, enda brjóti ákvæði þeirra eigi í bága við ákvæði laga þessara.1)
   1)Sjá nú: Rg. 53/2000. Rg. 734/2000. Rg. 866/2000, sbr. 700/2005. Rg. 532/2001. Rgl. 94/2002. Rg. 199/2002. Rg. 348/2004, sbr. 1306/2017. Rgl. 570/2006. Rgl. 1221/2007, sbr. rgl. 68/2020. Rgl. 1222/2007. Rgl. 1223/2007. Rgl. 629/2008, sbr. rgl. 1068/2008, rgl. 463/2010 og rgl. 636/2011. Rgl. 993/2009. Rgl. 220/2010. Rgl. 655/2010. Rg. 780/2010, sbr. 689/2016. Rg. 526/2011. Rg. 1047/2011. Rg. 50/2014, sbr. 248/2016. Rg. 405/2015. Rgl. 1111/2015, sbr. rgl. 421/2018. Rg. 1128/2018. Rg. 305/2019. Rg. 1227/2019, sbr. 34/2020. Rg. 480/2021.
II.
Öllum kvöðum, sem lagðar hafa verið á fjarskiptafyrirtæki skv. VII. kafla laga um fjarskipti, nr. 81/2003, og eru í gildi við gildistöku laga þessara, skal viðhaldið þar til endurskoðun kvaðanna hefur farið fram að lokinni markaðsgreiningu.
III.
Við úthlutun eða endurnýjun tíðniréttinda fram til 31. desember 2023 skal taka eftirfarandi gjöld:
   a. 3.500.000 kr. fyrir hvert úthlutað MHz af tíðnisviði á 880–915 og 925–960 MHz-tíðnisviðunum,
   b. 1.000.000 kr. fyrir hvert úthlutað MHz af tíðnisviði á 1710–1785/1805–1880 MHz og 1920–1980/2110–2170 MHz-tíðnisviðunum,
   c. 350.000 kr. fyrir hvert úthlutað MHz af tíðnisviði á 3,4–3,8 GHz-tíðnisviðinu.
Gjaldið miðast við að tíðniréttindin séu gefin út til 20 ára. Sé tíðniréttindum úthlutað til skemmri tíma skal greiða hlutfallslega í samræmi við það. Gjaldið greiðist í fjarskiptasjóð.