Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um loftferðir
2022 nr. 80 28. júní
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 14. júlí 2022 nema b-liður 2. mgr. 170. gr., b-liður 1. mgr. 171. gr. hvað varðar samevrópska u-rýmisþjónustu og c-liður 1. mgr. 171. gr. sem tóku gildi 26. jan. 2023 og d-liður 258. gr. sem tók gildi 1. jan. 2023; EES-samningurinn: XIII. viðauki reglugerð 2027/97, 889/2002, tilskipun 2000/79/EB, 2009/12/EB. Breytt með:
L. 67/2023 (tóku gildi 8. júlí 2023).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við innviðaráðherra eða innviðaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Markmið, gildissvið og orðskýringar.
1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að stuðla að og tryggja öruggar, greiðar og skilvirkar flugsamgöngur að teknu tilliti til neytendaverndar, umhverfissjónarmiða og þjóðréttarlegra skuldbindinga.
2. gr. Gildissvið.
Lög þessi gilda á íslensku yfirráðasvæði, þ.e. íslensku landsvæði, innsævi, landhelgi og lofthelgi, og um:
a. loftför skráð á Íslandi, og allt um borð í þeim, hvar sem þau eru stödd, nema samningar við önnur ríki eða lög þess ríkis sem loftfarið fer um leiði til annars,
b. óskráð loftför, þ.m.t. ómönnuð loftför, í för til og frá og á íslensku yfirráðasvæði,
c. loftför skráð í þriðja ríki, í för til og frá og á íslensku yfirráðasvæði,
d. hluti og tæki sem farið geta um loftið en eru ekki loftför, í för til og frá og á íslensku yfirráðasvæði,
e. þá einstaklinga og lögaðila, með aðalaðsetur eða höfuðstöðvar hér á landi eða utan íslensks yfirráðasvæðis, sem eru eftirlitsskyldir samkvæmt lögum þessum,
f. þá aðila og loftför sem falla undir samning um tilfærslu eftirlits að hluta eða öllu leyti frá lögbæru landsyfirvaldi erlends ríkis eða Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins til Samgöngustofu,
g. verkefni, eftirlit, réttindi og skyldur lögbærra stjórnvalda og Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði flugmála.
Tilvísun til loftfara, hluta og tækja og aðila skv. 1. mgr. tekur einnig til þeirrar þjónustu sem veitt er.
XVI. og XVII. kafli skulu gilda óháð 1. mgr.
Ráðherra ákveður að hve miklu leyti lög þessi og reglugerðir1) settar samkvæmt þeim gilda utan íslensks yfirráðasvæðis og um loftfar skráð í þriðja ríki sem starfrækt er af aðila sem er með höfuðstöðvar eða aðalaðsetur á Íslandi og lýtur eftirliti Samgöngustofu að hluta eða öllu leyti á grundvelli samnings við skráningarríki. Sama á við hvað varðar loftfar skráð hér á landi sem starfrækt er af aðila sem er með höfuðstöðvar eða aðalaðsetur í erlendu ríki og lýtur eftirliti erlends stjórnvalds að hluta eða öllu leyti á grundvelli samnings við Samgöngustofu.
1)Rg. 270/2024.
3. gr. Orðskýringar.
Merking orða og hugtaka í lögum þessum, að undanskildum XVII. kafla, er sem hér segir:
1. Almannaflug: Borgaralegt flug loftfars annað en flutningaflug, og sérstök starfræksla í ábataskyni, hvort sem er reglubundið eða óreglubundið.
2. Almenningsflug: Allt flug annað en ríkisflug, þ.m.t. almannaflug og starfræksla í ábataskyni.
3. Alþjóðlegar kröfur og ráðlagðar starfsvenjur: Alþjóðlegar kröfur og ráðlagðar starfsvenjur sem Alþjóðaflugmálastofnunin hefur samþykkt í samræmi við 37. gr. Chicago-samningsins.
4. Áframhaldandi lofthæfi: Allt ferlið sem tryggir að loftfar uppfylli ávallt, á þeim tíma sem það er starfrækt, gildandi kröfur um lofthæfi og sé öruggt í starfrækslu.
5. Búnaður til að fjarstýra ómönnuðu loftfari: Hvers konar mælar, búnaður, kerfi, tækjabúnaður, fylgihlutir, hugbúnaður eða aukabúnaður sem er nauðsynlegur fyrir örugga starfrækslu ómannaðs loftfars og er ekki hluti af eða hafður um borð í ómannaða loftfarinu.
6. EASA-loftfar: Loftfar sem fellur undir gildissvið EASA-reglugerðarinnar.
7. EASA-reglugerðin: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1139 frá 4. júlí 2018 um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins og um breytingu á reglugerðum (EB) nr. 2111/2005, (EB) nr. 1008/2008, (ESB) nr. 996/2010 og (ESB) nr. 376/2014 og tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2014/30/ESB og 2014/53/ESB og um niðurfellingu á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 552/2004 og (EB) nr. 216/2008 og reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3922/91 eins og hún er tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og bókun 1 um altæka aðlögun, með síðari breytingum.
8. EASA-ríki: Aðildarríki Evrópusambandsins og þau Evrópuríki sem taka þátt í starfsemi Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins (EASA) á grundvelli 129. gr. EASA-reglugerðarinnar.
9. Fjarflugmaður: Einstaklingur sem ber ábyrgð á öruggu flugi ómannaðs loftfars með því að stjórna stýrikerfi loftfarsins, annaðhvort handvirkt eða, ef ómannaða loftfarið flýgur sjálfvirkt, með því að fylgjast með stefnu þess og vera reiðubúinn að grípa inn í og breyta stefnunni hvenær sem er.
10. Flugleiðsöguþjónusta: Flugumferðarþjónusta, fjarskipta-, leiðsögu- og kögunarþjónusta, veðurþjónusta fyrir flugleiðsögu og upplýsingaþjónusta flugmála.
11. Flugrekandi/umráðandi loftfars: Einstaklingur eða lögaðili sem starfrækir eða hefur í hyggju að starfrækja loftfar.
12. Flugverji: Einstaklingur sem flugrekandi tilnefnir til að gegna skyldustörfum um borð í loftfari.
13. Flugvöllur: Tiltekið svæði á landi eða á vatni, á föstu eða fljótandi mannvirki á landi eða úti fyrir strönd, þ.m.t. allar byggingar, mannvirki og búnaður, sem ætlað er að nokkru eða öllu leyti til afnota við komur og brottfarir loftfara og hreyfingar þeirra á jörðu niðri.
14. Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins: Stofnun Evrópusambandsins, stofnuð á grundvelli EASA-reglugerðarinnar, sem Ísland á aðild að í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
15. Flutningaflug: Starfræksla loftfars sem felur í sér flutninga á farþegum, vörum eða pósti gegn greiðslu eða annars konar gjaldi.
16. Framleiðsluvara: Loftfar, hreyfill eða loftskrúfa.
17. Fyrirtæki: Einstaklingur eða lögaðili, hvort sem hann stundar viðskipti í ábataskyni eða ekki, eða hvers konar opinber stofnun, hvort heldur hún hefur réttarstöðu lögaðila eða ekki.
18. Geðvirk efni: Alkóhól, ópíumefni, kannabisefni, róandi lyf og svefnlyf, kókaín, önnur geðörvandi lyf, ofskynjunarlyf og rokgjörn leysiefni en að undanskildu koffíni og tóbaki.
19. Hindrun: Allir fastir, hvort heldur til bráðabirgða eða frambúðar, og hreyfanlegir hlutir, eða hlutar þeirra sem:
a. eru staðsettir á svæði ætluðu til hreyfinga loftfara á jörðu niðri, eða
b. ná hærra en skilgreindur flötur sem er ætlaður til að vernda loftför á flugi, eða
c. eru utan þessara skilgreindu flata og hafa verið metnir hættulegir flugumferð.
20. Hæfur aðili: Vottaður lögaðili eða einstaklingur sem Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins eða lögbært landsyfirvald kann að fela tiltekin verkefni sem tengjast vottun og eftirliti samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra, undir eftirliti og á ábyrgð Flugöryggisstofnunarinnar eða hins lögbæra landsyfirvalds.
21. Hættulegur varningur: Hlutir eða efni sem geta stofnað heilbrigði, öryggi, eignum eða umhverfinu í hættu og er að finna í skránni yfir hættulegan varning í tæknilegu fyrirmælunum eða eru flokkuð í samræmi við þessi fyrirmæli. Með tæknilegum fyrirmælum er átt við síðustu gildu útgáfu fyrirmæla Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um öruggan flutning hættulegs varnings með flugi, þar á meðal viðbótarefni og breytingar sem samþykktar hafa verið af stofnuninni.
22. Höfuðstöðvar: Aðalskrifstofa eða skráð skrifstofa fyrirtækis þar sem aðalfjármálastarfsemi og rekstrarstjórnun fer fram.
23. Loftfar: Sérhvert tæki sem haldist getur á flugi vegna verkana loftsins, annarra en loftpúðaáhrifa við yfirborð jarðar.
24. Lögbær stjórnvöld: Lögbært landsyfirvald í ríki og Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins, hvort um sig eða saman, eftir atvikum.
25. Lögbært landsyfirvald: Einn eða fleiri aðilar sem tilnefndir eru af ríki og hafa nauðsynlegar heimildir og er falin ábyrgð á vottun, eftirliti og framfylgd í samræmi við lög og reglugerðir. Lögbært landsyfirvald hér á landi er Samgöngustofa nema annað sé tekið fram.
26. Ómannað loftfar: Hvers kyns loftfar sem er starfrækt eða hannað fyrir flug með sjálfstýringu eða fjarstýribúnaði án flugmanns um borð og, ef við á, búnaðurinn til að fjarstýra því.
27. Óuppsettur búnaður: Hvers konar mælar, búnaður, kerfi, tækjabúnaður, fylgihlutir, hugbúnaður eða aukahlutir sem flugrekandi tekur með um borð í loftfar, sem telst ekki hlutur, og sem eru notaðir eða ætlaðir til notkunar við starfrækslu eða stjórn loftfars, og auka líkurnar á því að farþegar komist lífs af eða gæti haft áhrif á örugga starfrækslu loftfarsins.
28. Rekstraraðili flugvallar: Lögaðili eða einstaklingur sem starfrækir eða hefur í hyggju að starfrækja einn flugvöll eða fleiri.
29. Sérstök starfræksla: Öll starfræksla önnur en flutningaflug þar sem loftfarið er notað fyrir sérstaka starfsemi eins og landbúnað, byggingarstarfsemi, ljósmyndun, landmælingar, athuganir, eftirlit úr lofti, auglýsingaflug og viðhaldsprófunarflug.
30. Starfræksla loftfars í ábataskyni: Hvers konar starfræksla loftfars gegn greiðslu eða annars konar gjaldi fyrir almenning eða samkvæmt samningi milli flugrekanda/umráðanda loftfars og viðskiptavinar þar sem sá síðarnefndi stjórnar flugrekanda/umráðanda ekki með neinum hætti.
31. Viðhald: Hvert eftirtalinna atriða, eitt sér eða sambland þeirra: grannskoðun, viðgerð, skoðun, endurnýjun, breyting eða lagfæring á galla í loftfari eða íhlut, að undanskilinni fyrirflugsskoðun.
32. Vottorð: Hvers konar vottorð, samþykki, skírteini, heimild, staðfestingarvottorð eða annað skjal sem gefið er út í framhaldi af vottun sem staðfestir samræmi við viðeigandi kröfur.
33. Vottun: Hvers konar viðurkenning í samræmi við lög þessi sem byggist á viðeigandi mati á því hvort andlag vottunar uppfyllir viðeigandi kröfur með útgáfu viðeigandi vottorðs til staðfestingar á því.
34. Vottunarforskriftir: Tæknistaðlar, sem aðili má nota vegna vottunar og Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins hefur samþykkt, þar sem tilgreindar eru aðferðir til að staðfesta samræmi við stjórnvaldsfyrirmæli og kröfur í lögum.
35. Yfirlýsing: Hvers konar skrifleg yfirlýsing sem er gerð í samræmi við lög þessi og er á ábyrgð lögaðila eða einstaklings sem staðfestir að viðeigandi kröfur er varða andlag yfirlýsingarinnar séu uppfylltar.
II. kafli. Stjórn flugmála.
4. gr. Stjórnun og verkefni.
Ráðherra fer með yfirstjórn flugmála á íslensku yfirráðasvæði. Samgöngustofa, og eftir atvikum Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins, annast tiltekin verkefni og eftirlit í samræmi við lög þessi, lög um Samgöngustofu og samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið.
Eftirlitsstofnun EFTA fer með afmarkað vald vegna eftirlits með flugstarfsemi í samræmi við lög þessi, samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
5. gr. Lögbært landsyfirvald.
Samgöngustofa fer með verkefni samkvæmt lögum þessum og eftirlit með:
a. loftförum sem skráð eru hér á landi eða starfrækt á íslensku yfirráðasvæði, hlutum og tækjum sem farið geta um loftið en eru ekki loftför, þ.m.t. geimhlutum,
b. eigendum og flugrekendum/umráðendum loftfara, hluta og tækja sem farið geta um loftið en eru ekki loftför, þ.m.t. geimhluta, aðilum sem hefja á loft eða skjóta upp slíkum hlutum og tækjum, flugverjum og ef við á fjarflugmönnum,
c. einstaklingum sem eru handhafar vottorðs, skírteinis, annarra réttinda eða fullgildingar útgefnum af Samgöngustofu eða hafa gefið út yfirlýsingu til stofnunarinnar, auk vottorða sem gefin eru út af fluglæknasetrum eða læknum skv. VII. kafla,
d. handhöfum staðfestingarvottorða sem gefin eru út af aðila sem fellur undir e-lið,
e. aðilum sem hafa höfuðstöðvar hér á landi eða aðalaðsetur og eru handhafar vottorðs eða annarra réttinda sem eru útgefin af Samgöngustofu eða hafa gefið út yfirlýsingu til stofnunarinnar,
f. flugvöllum, rekstraraðilum flugvalla, aðilum sem veita flugafgreiðslu, aðilum sem veita hlaðstjórnunarþjónustu á flugvöllum og aðilum sem veita flugumferð þjónustu á íslensku yfirráðasvæði, sbr. þó d-lið 1. mgr. 7. gr.,
g. aðilum sem skylt er samkvæmt lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim að tilkynna sig fyrir fram, gefa út yfirlýsingu til Samgöngustofu eða sækja um útgáfu vottorðs, skráningu eða viðurkenningu til stofnunarinnar til að starfrækja, veita þjónustu eða setja vöru, sem fellur undir lög þessi, á markað á íslensku yfirráðasvæði,
h. aðilum sem sæta eftirliti stofnunarinnar á grundvelli tilfærslu eftirlits,
i. öryggi og opinberri markaðsgæslu vara, þ.m.t. ómannaðra loftfara sem ekki eru leikföng, búnaðar og kerfa og kerfishluta sem falla undir lög þessi,
j. vinnuumhverfi flugverja í áhöfn loftfara,
svo og önnur þau verkefni, stjórnsýslu og eftirlit sem lög þessi og reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim áskilja.
Aðilar skv. 1. mgr. eru einnig tilnefndir stjórnendur þar sem við á og starfsfólk og verktakar, þ.m.t. starfsfólk og verktakar eftirlitsskyldra aðila sem hafa á hendi starf sem mikilsvert er fyrir öryggi loftferða.
6. gr. Kröfur til lögbærs landsyfirvalds.
Samgöngustofa skal koma á og viðhalda virku stjórnunarkerfi og skjalfestum verklagsreglum sem taka til þeirra verkefna, stjórnsýslu og eftirlits sem stofnuninni er falið samkvæmt lögum þessum. Þá skal stofnunin koma á kerfisbundinni skráningu sem gefur möguleika á viðunandi geymslu, aðgengi og rekjanleika allra gagna sem verða til í starfsemi stofnunarinnar á því sviði sem lög þessi taka til.
Samgöngustofa skal gera ráðstafanir til að tryggja öryggi gagna og upplýsinga sem stofnunin aflar í þágu eftirlits og eftirlitsskyldir aðilar veita stofnuninni í trúnaði. Í því skyni skal stofnunin grípa til nauðsynlegra öryggisráðstafana.
Starfsfólk sem kemur að framkvæmd laga þessara og eftirliti skal búa yfir nauðsynlegri kunnáttu, reynslu og, ef við á, réttindum og hafa hlotið viðeigandi þjálfun til að vinna þau verkefni sem því eru falin.
Starfsfólk sem fer með beitingu valdheimilda á sviði eftirlits í umboði stofnunarinnar skal hafa skilríki útgefin af stofnuninni því til staðfestu. Samgöngustofa skal setja reglur um slík skilríki.
Samgöngustofu er heimilt að leggja til eftirlitsfólk í samlag eftirlitsfólks sem Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins veitir forstöðu og jafnframt óska eftir eftirlitsfólki frá samlaginu til starfa á vegum Samgöngustofu. Eftirlitsfólk á vegum samlagsins, sem Samgöngustofa kann að taka í þjónustu sína, skal vinna á ábyrgð og undir stjórn stofnunarinnar.
7. gr. Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins.
Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins fer með verkefni samkvæmt lögum þessum og eftirlit með:
a. hæfum aðilum og aðilum sem eru handhafar útgefinna vottorða af Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins eða hafa gefið út yfirlýsingar til stofnunarinnar, þ.m.t. um hönnun framleiðsluvara, hluta og óuppsetts búnaðar og búnaðar til að fjarstýra loftförum og öryggistengdum flugvallarbúnaði,
b. yfirlýsingum aðila varðandi samræmi hönnunar framleiðsluvöru, hluta og óuppsetts búnaðar og búnaðar til að fjarstýra loftförum,
c. aðilum sem hafa höfuðstöðvar í þriðja ríki og eru handhafar vottorðs sem Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins hefur gefið út eða hafa gefið út yfirlýsingar til stofnunarinnar,
d. aðilum sem sinna samevrópskri þjónustu við flugumferð og aðilum sem hanna, framleiða og viðhalda kerfum og kerfishlutum fyrir slíka þjónustu,
e. aðilum sem sæta eftirliti Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins á grundvelli tilfærslu eftirlits,
f. starfsemi, loftförum og flugverjum í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins skal annast fyrir hönd íslenska ríkisins störf og verkefni hönnunar-, framleiðslu- og skráningarríkis samkvæmt Chicago-samningnum að því er varðar framleiðsluvörur, hluti, óuppsettan búnað og búnað til að fjarstýra ómönnuðum loftförum sem falla undir gildissvið EASA-reglugerðarinnar er lúta að vottun hönnunar og upplýsingum um áframhaldandi lofthæfi.
Jafnframt veitir Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins Eftirlitsstofnun EFTA aðstoð við úttektir og vöktun á lögbæru landsyfirvaldi, veitir álit sitt hvað varðar tilkynningar og beiðnir lögbærra landsyfirvalda og annast önnur verkefni í samræmi við reglugerð1) sem ráðherra setur.
Aðilar skv. 1. mgr. eru einnig tilnefndir stjórnendur þar sem við á og starfsfólk og verktakar, þ.m.t. starfsfólk og verktakar eftirlitsskyldra aðila sem hafa á hendi starf sem mikilsvert er fyrir öryggi loftferða. Þriðja ríki samkvæmt þessu ákvæði merkir önnur ríki en EASA-ríki.
1)Rg. 270/2024.
8. gr. Eftirlit.
Lögbær stjórnvöld skulu vakta og meta öryggisframmistöðu þeirra aðila sem þau hafa eftirlit með. Eftirlit skal vera samfellt og skjalfest og grundvallast á forgangsatriðum sem eru ákveðin í ljósi áhættu fyrir almenningsflug eftir því sem við á. Annað eftirlit skal vera í samræmi við lög þessi og reglugerðir sem ráðherra setur.
9. gr. Ráð og nefndir.
Ráðherra skipar annars vegar flugverndarráð og hins vegar ráð um ráðstafanir til að greiða fyrir flugstarfsemi og samhæfingu opinberra aðila og annarra á því sviði. Nánar skal kveðið á um ráðin, hlutverk, verkefni og samsetningu fulltrúa hagsmunaaðila og opinberra aðila og skipunartíma í reglugerð1) sem ráðherra setur.
Samgöngustofa setur reglur um skipan, hlutverk og verkefni vinnuverndarráðs vegna flugstarfsemi og flugverndarnefnda á flugvöllum. Samgöngustofa skal tryggja eftir því sem við á að samræmingarnefnd flugvallar sé skipuð.
1)Rg. 173/2023.
10. gr. Söfnun, greining og skipti á upplýsingum og gögnum.
Lögbær stjórnvöld skulu greina, safna og skiptast á upplýsingum og gögnum er varða framkvæmd laga þessara og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra í þágu aukins flugöryggis.
Lögbær stjórnvöld skulu grípa til nauðsynlegra og skilvirkra aðgerða til að efla og stuðla að vitundarvakningu um öryggi í flugi og miðla öryggistengdum upplýsingum sem skipta máli vegna forvarna gegn slysum og atvikum í flugi.
Gögn sem geyma upplýsingar er varða 129. gr., þ.m.t. tilkynningar, kvartanir og nafn þess er kvartar og þess er kvörtun beinist gegn, eru undanþegin upplýsingarétti samkvæmt upplýsingalögum og stjórnsýslulögum.
11. gr. Vinnsla persónuupplýsinga og samstarf um samevrópsk gagnasöfn.
Samgöngustofu er heimil vinnsla persónuupplýsinga og upplýsinga er varða framkvæmd og eftirlit, þar á meðal upplýsinga um eftirlitsskylda aðila, upplýsinga um heilbrigði og fjárhagsleg málefni, upplýsinga um neyslu geðvirkra efna og refsiverða háttsemi og annarra upplýsinga sem hinn skráði lætur í té, stofnunin aflar, fær aðsendar eða verða til í starfsemi hennar í þeim tilgangi að sinna hlutverki sínu samkvæmt lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim. Um meðferð persónuupplýsinga fer samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Samgöngustofa tekur þátt í samstarfi um miðlæg samevrópsk gagnasöfn og skal flytja í þau viðeigandi upplýsingar og gögn er varða flugöryggi, vottun, eftirlit og framfylgd að því marki sem mælt er fyrir um slíka miðlun og flutning í reglugerð sem ráðherra setur. Skal rannsóknarnefnd samgönguslysa hafa aðgang að þessum upplýsingum til að sinna skyldum sínum.
Samgöngustofa, rannsóknarnefnd samgönguslysa og eftir atvikum aðrir aðilar sem skylt er að miðla upplýsingum í samevrópsku gagnasöfnin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja nauðsynlega vernd viðkvæmra öryggistengdra upplýsinga og persónuupplýsinga í gagnagrunnum og gagnasöfnum sínum og við miðlun og flutning slíkra upplýsinga í samevrópsku gagnasöfnin. Ávallt skal tryggja að persónulegar upplýsingar sem skráðar eru í samevrópsk gagnasöfn, þ.m.t. heilbrigðisupplýsingar, séu ekki geymdar lengur en þörf krefur.
12. gr. Upplýsingamiðlun til stofnana.
Samgöngustofu og öðrum stjórnvöldum hér á landi er skylt að láta Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins, Eftirlitsstofnun EFTA eða, eftir atvikum, öðrum stofnunum innan EASA-ríkjanna í té allar þær upplýsingar og gögn sem stofnunum þessum eru nauðsynleg til að þeim sé unnt að sinna eftirlitshlutverki sínu samkvæmt lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim og þjóðréttarlegum skuldbindingum.
Skyldan skv. 1. mgr. nær einnig til gagna sem háð eru þagnarskyldu á grundvelli annarra laga.
13. gr. Eftirlitsskyldur aðili með aðsetur í fleiri en einu ríki.
Ef eftirlitsskyldur aðili hefur höfuðstöðvar eða aðalaðsetur hér á landi en er með starfsemi í fleiri en einu ríki skal Samgöngustofu heimilt hafa samstarf um eftirlit við lögbær landsyfirvöld, eitt eða fleiri, í því ríki eða ríkjum þar sem aðili er með starfsemi. Sama á við hafi Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins tekið við verkefnum og eftirliti lögbærs landsyfirvalds.
14. gr. Tilfærsla eftirlits.
Samgöngustofu er heimilt, að undangengnu samráði við ráðherra, að færa til verkefni og eftirlit sem heyrir undir stofnunina með samningi við:
a. lögbært landsyfirvald erlends ríkis,
b. Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins,
c. hæfan aðila, enda sé hann vottaður og metinn hæfur til þeirra verkefna og eftirlits sem um ræðir skv. 15. gr.
Tilfærsla skv. 1. mgr. getur tekið til afmarkaðra verkefna, þ.m.t. vottunar og útgáfu vottorða, móttöku yfirlýsinga og eftirlits og framfylgdar til lengri eða skemmri tíma. Tilfærslu er almennt ekki ætlað að vera varanleg og er um afturkræfa ráðstöfun að ræða.
Með tilfærslu er Samgöngustofa leyst undan skyldum sínum að því marki sem þær færast til viðtakanda.
15. gr. Hæfur aðili.
Einstaklingur eða lögaðili sem sækist eftir vottun sem hæfur aðili skal vottaður af Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins, Samgöngustofu eða sameiginlega af tveimur eða fleiri lögbærum landsyfirvöldum EASA-ríkja eða Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins og einu eða fleiri lögbærum landsyfirvöldum EASA-ríkja.
Lögbærum stjórnvöldum skv. 1. mgr. er heimilt, eftir því sem við á, að breyta, takmarka, fella tímabundið úr gildi eða afturkalla vottorð ef aðili uppfyllir ekki lengur þær kröfur sem gerðar eru til vottunar.
Vottorð hæfs aðila útgefið skv. 1. mgr. hefur fullt gildi hér á landi. Gilt vottorð hæfs aðila er forsenda þess að aðili geti tekið að sér verkefni er tengjast vottun eða eftirliti sem fellur undir gildissvið EASA-reglugerðarinnar. Lögbærum stjórnvöldum er í sjálfsvald sett að hve miklu leyti þau vilja færa sér í nyt vottun hæfs aðila og þeirra réttinda sem honum kunna að hafa verið veitt af öðrum lögbærum landsyfirvöldum eða af Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins. Hæfur aðili skal taka og halda við ábyrgðartryggingu vegna þeirra verkefna sem hann tekst á hendur nema það lögbæra landsyfirvald sem felur honum verkefni undirgangist ábyrgðina.
16. gr. Viðurkenndur aðili.
Samgöngustofu, að undangengnu samráði við ráðherra, er heimilt að færa verkefni og eftirlit á sviði almannaflugs, vegna efnisatriða er falla utan gildissviðs EASA-reglugerðarinnar, sem undir stofnunina heyrir til aðila sem stofnunin viðurkennir. Um nánari afmörkun, skilyrði fyrir viðurkenningu, ábyrgð og réttaráhrif fer samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.
17. gr. Tilfærsla eftirlits að beiðni eftirlitsskylds fyrirtækis.
Fyrirtæki sem er með höfuðstöðvar hér á landi og er handhafi vottorðs eða býr yfir hæfi til að sækja um vottorð getur lagt fram beiðni þess efnis að verkefni og eftirlit Samgöngustofu færist til Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins ef það er með eða hyggst hafa verulegan hluta starfsstöðva, sem falla undir vottorðið, og starfsfólk í einu eða fleiri EASA-ríkjum. Tvö eða fleiri fyrirtæki sem eru hluti af sama fyrirtækjahópi, sem hvert og eitt hefur höfuðstöðvar í mismunandi EASA-ríkjum, geta einnig lagt fram beiðni enda séu fyrirtækin handhafar vottorðs eða hafi hæfi til að sækja um vottorð fyrir sams konar flugstarfsemi.
Ef Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins eða þau lögbæru landsyfirvöld sem málið varðar telja að beiðni skv. 1. mgr. kunni að hafa neikvæð áhrif á getu þeirra hvers um sig til að sinna verkefnum, eftirliti og framfylgd samkvæmt lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim, eða mundi á annan hátt hafa neikvæð áhrif á skilvirka starfsemi þess, skal beiðninni synjað.
Ef beiðni skv. 1. mgr. er samþykkt gilda ákvæði 2. og 3. mgr. 14. gr. eftir því sem við á.
18. gr. Landsáætlun og aðgerðaáætlun á sviði flugöryggis.
Ráðherra skal koma á og viðhalda landsáætlun um flugöryggi í samráði við hagsmunaaðila. Landsáætlun um flugöryggi skal vera í samræmi við umfang og margbreytileika flugstarfsemi hér á landi og Flugöryggisáætlun Evrópu og svæðisbundnar áherslur innan Norður-Atlantshafssvæðisins hvað Ísland varðar.
Landsáætlunin skal að lágmarki taka til þeirra þátta sem tengjast ábyrgð ríkisins á stjórnun öryggis í flugi sem byggist á alþjóðlegum kröfum og ráðlögðum starfsvenjum. Þá skal áætlunin tilgreina með hliðsjón af opinberri stefnu og markmiðum ríkisins á sviði flugmála stig öryggisframmistöðu og það stig sem stefnt er að á landsvísu.
Aðgerðaáætlun á sviði flugöryggis skal fylgja landsáætlun um flugöryggi eða vera hluti hennar. Aðgerðaáætlunin skal gerð í samráði við hagsmunaaðila og í henni skulu tilgreindar helstu öryggisáhættur sem áhrif hafa á öryggiskerfi á landsvísu, á grundvelli mats á viðeigandi öryggisupplýsingum, og gerð grein fyrir nauðsynlegum aðgerðum til að draga úr hverri þeirra. Þá skal aðgerðaáætlunin taka mið af svæðisbundnum áætlunum og skilgreina öryggisáhættur og aðgerðir sem tilgreindar eru í flugöryggisáætlun Evrópu og skipta máli fyrir Ísland. Ráðherra er heimilt að fela Samgöngustofu gerð, viðhald og framkvæmd áætlana.
19. gr. Viðbragðsáætlun vegna flugslysa.
Ráðherra skal koma á og viðhalda áætlun um viðbrögð við flugslysi á landsvísu vegna loftfars sem skráð er hér á landi eða vegna flugslyss sem verður á íslensku yfirráðasvæði eða á alþjóðlegu hafsvæði þar sem Ísland fer með leit og björgun í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar. Ráðherra er heimilt að fela öðrum aðilum gerð, samræmingarhlutverk, viðhald og framkvæmd áætlunar.
Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um skyldur stjórnvalda, flugrekenda og annarra aðila til að aðstoða farþega og aðstandendur þeirra í kjölfar slyss eða alvarlegs atviks í reglugerð.
20. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra skal setja reglugerð1) til að innleiða EASA-reglugerðina eins og hún er tekin upp í viðauka XIII við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um:
a. kröfur til lögbærs landsyfirvalds, þ.m.t. stjórnkerfis, tilfanga, aðstöðu og búnaðar, starfsfólks, þjálfunar, verklags, framkvæmdar og tilhögunar eftirlits, vöktunar og vottunar eftirlitsskyldra aðila, flokkunar og meðhöndlunar frávika og framfylgdarráðstafana; upplýsingaöryggi, skráahald og skýrslugjöf um starfsemi lögbærs landsyfirvalds,
b. verkefni, eftirlit og samstarf Samgöngustofu, Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnunar EFTA, þar á meðal miðlun upplýsinga og gagna; tilkynninga; tilhögun og afmörkun eftirlits; upplýsingaöryggi og varnir gegn hvers kyns hættu sem ógna kann öryggi upplýsingakerfa,
c. ráð sem ráðherra skipar skv. 9. gr.,
d. samevrópsk gagnasöfn og gagnagrunna, þar á meðal þær upplýsingar sem skylt er að skrá; afmörkun þeirra aðila sem skylt er að miðla upplýsingum til skráningar í gagnasöfnin; upplýsingaöryggi og vernd persónuupplýsinga, geymslutíma, rétt til aðgangs og takmarkanir á rétti til að leiðrétta eða eyða upplýsingum úr gagnasafni eða gagnagrunni,
e. þá aðstoð sem Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins veitir Eftirlitsstofnun EFTA, þar á meðal á sviði úttekta og vöktunar á lögbærum landsyfirvöldum, við meðhöndlun frávika og úrræði til framfylgdar,
f. þá aðstoð sem Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins veitir lögbærum landsyfirvöldum, þ.m.t. á sviði framkvæmdar samninga við þriðja ríki,
g. tilfærslu eftirlits og framsal eftirlits,
h. samlag evrópsks eftirlitsfólks, þ.m.t. kröfur er lúta að hæfni og reynslu eftirlitsfólks til þátttöku; verklag við að óska eftir eða leggja samlagi til eftirlitsfólk,
i. þóknanir og gjöld Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins,
j. framkvæmd tilfærslu eftirlits, þar á meðal skilyrði fyrir tilfærslu verkefna og eftirlits og afmörkun og umfang þeirra verkefna og eftirlits sem heimilt er að færa; málsmeðferð, samráð og upplýsingagjöf; hæfnismat; ráðstafanir, samkomulag eða samning um tilfærslu verkefna og eftirlits, skráningu samnings um tilfærslu verkefna og eftirlits og önnur skilyrði sem uppfylla þarf og leiðir af alþjóðlegum kröfum,
k. kröfur til vottunar hæfra og viðurkenndra aðila, þ.m.t. hæfni, færni og óhlutdrægni, aðstöðu og búnaðar; ábyrgð hæfra og viðurkenndra aðila, gildissvið vottunar hæfra og viðurkenndra aðila og réttindi samfara vottun og eftirlits með þeim,
l. efnisþætti landsáætlunar um flugöryggi, efnisþætti aðgerðaáætlunar á sviði flugöryggis og efnisþætti viðbragðsáætlunar vegna flugslysa, mat á hverri öryggisáhættu; markmiðssetningu, samráð við hagsmunaaðila, birtingu og upplýsingamiðlun og samstarf við Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins, þ.m.t. tilkynningar til stofnunarinnar.
1)Rg. 270/2024.
III. kafli. Aðgangur að íslensku yfirráðasvæði.
21. gr. För um íslenskt yfirráðasvæði.
Loftfari er aðeins heimil för um íslenskt yfirráðasvæði að uppfylltu einhverju eftirtalinna skilyrða:
a. það hefur íslenskt þjóðerni og viðeigandi gilt lofthæfisvottorð, þjóðarlofthæfisvottorð, takmarkað lofthæfis- eða þjóðarlofthæfisvottorð, flugleyfi eða heimild í samræmi við VI. kafla,
b. það hefur þjóðerni EASA-ríkis sem hefur með samningi verið veittur réttur til loftferða um íslenskt yfirráðasvæði og hefur gilt lofthæfisvottorð, takmarkað lofthæfisvottorð eða flugleyfi,
c. það hefur þjóðerni ríkis sem er ekki EASA-ríki en hefur með samningi verið veittur réttur til loftferða um íslenskt yfirráðasvæði og hefur gilt lofthæfisvottorð,
d. það er ríkisloftfar erlends ríkis, loftfar skráð í erlendu ríki þar sem yfirlýstur tilgangur flugsins er í þágu erlends ríkis, ómannað ríkisloftfar erlends ríkis eða hlutur og tæki sem farið getur um loftið en er ekki loftfar sem telst vera í eigu eða undir yfirráðum erlends ríkis, með formlega heimild þess ráðherra sem fer með utanríkismál,
e. það er óskráð loftfar í tilteknum flokki eða af tiltekinni tegund og/eða undir tiltekinni hámarksflugtaksþyngd, sem ráðherra ákvarðar, og er ekki starfrækt í ábataskyni og uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru í reglugerð sem ráðherra setur til skráningar flugrekanda/umráðanda, búnaðar og starfrækslu,
f. það hefur heimild ráðherra eða Samgöngustofu til farar um íslenskt yfirráðasvæði.
Hlut og tæki sem farið getur um loftið en telst ekki loftfar, þ.m.t. geimhlut, er aðeins heimilt að hefja á loft eða skjóta upp frá íslensku yfirráðasvæði og/eða heimila endurkomu að fyrir liggi heimild ráðherra eða þess sem hann felur heimildarveitingu. Við meðferð umsóknar og eftirlit skal heimilt að krefjast viðeigandi upplýsinga og gagna skv. 2. mgr. 51. gr.
Sé fyrirhuguð ferð, flug- eða fallferill eða braut hlutar eða tækis í borgaralegri eigu sem ætlað er að fara um loftið en telst ekki vera loftfar, þ.m.t. geimhlutar, um íslenska lofthelgi og/eða það loftrými þar sem veitt er flugleiðsöguþjónusta í nafni íslenska ríkisins, skal Samgöngustofu og viðeigandi veitendum þjónustu við loftför skv. 1. mgr. 171. gr. tilkynnt fyrir fram um feril hlutar eða tækis.
Heimild skv. 1. og 2. mgr. má binda þeim skilyrðum sem nauðsynleg teljast og er hún afturkallanleg án fyrirvara.
Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um för loftfars og starfrækslu þess um og á íslensku yfirráðasvæði, sem og hluta og tækja sem farið geta um loftið en eru ekki loftför, um komu og brottför, framkvæmd heimildarveitinga og nánari afmörkun hvað útgáfu heimildar varðar og þær kröfur sem slíkir hlutir, tæki og loftför kunna að þurfa að uppfylla með tilliti til lofthæfis, búnaðar, umhverfissamræmis og mengunarvarna, flugöryggis, verndar, vátrygginga og ráðstafana til að tryggja öryggi á jörðu niðri og, ef við á, gagnvart annarri flugumferð.
22. gr. Vottun borgaralegra loftfara frá þriðju ríkjum til flugs.
Þriðja ríki samkvæmt þessu ákvæði merkir önnur ríki en EASA-ríki.
Borgaralegt loftfar skráð í þriðja ríki, eða skráð í EASA-ríki og starfrækt af flugrekanda/umráðanda í þriðja ríki og lýtur eftirliti þess ríkis samkvæmt samningi þeirra ríkja sem í hlut eiga, sem hyggst fljúga til, frá og á íslensku yfirráðasvæði, skal vottað af viðeigandi lögbæru stjórnvaldi með tilliti til flugöryggis, verndar og flugverja.
Vottorð skal gefið út að fenginni beiðni þegar umsækjandi hefur sýnt fram á hæfni og getu til að rækja skyldur sínar sem tengjast starfrækslu loftfarsins í samræmi við viðeigandi alþjóðlegar kröfur og ráðlagðar starfsvenjur og reglugerðir á grundvelli laga þessara sem ráðherra setur. Vottorð skal tilgreina réttindi og umfang starfrækslu.
Flugrekanda/umráðanda loftfars skv. 2. mgr. sem hyggst starfrækja annað flug en flutningaflug er heimilt að lýsa yfir hæfni og getu til að starfrækja flugið í samræmi við þær kröfur sem getið er í 3. mgr. og skal hann tilkynna viðeigandi lögbærum stjórnvöldum yfirlýsingu sína.
Ef eingöngu er um að ræða yfirflug borgaralegs loftfars, annars en ómannaðs loftfars, yfir íslenskt yfirráðasvæði er ekki þörf á vottorði eða yfirlýsingu skv. 2. og 4. mgr. enda sé loftfarið skráð í aðildarríki að Chicago-samningnum.
Ráðherra er heimilt að kveða á um undanþágu frá vottun eða yfirlýsingu skv. 2. og 4. mgr. í reglugerð enda sé slíku flugi ætlað að ráða bót á ófyrirsjáanlegri og brýnni þörf og flugrekandi/umráðandi tilkynnir lögbærum stjórnvöldum fyrir fram um fyrirhugað flug og sækir um vottun.
Grein þessi gildir ekki um loftför sem sæta banni eða eru skráð í ríkjum sem sæta banni við flugi, sbr. 228. gr.
Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um alþjóðlegar kröfur og ráðlagðar starfsvenjur sem fylgja ber við mat á umsóknum og málsmeðferð, úttektir og eftirlit lögbærra stjórnvalda og vöktun á flugrekendum/umráðendum, útgáfu heimilda til flugs, viðhald slíkra heimilda og þeirra takmarkana sem slíkar heimildir geta sætt, sem og niðurfellingu þeirra tímabundið eða afturköllun.
23. gr. Flugréttindi og heimild til flugs í ábataskyni.
Aðeins er heimilt að starfrækja flug í ábataskyni til, frá og á íslensku yfirráðasvæði að fyrir liggi heimild ráðherra eða þess sem hann felur að veita slíka heimild.
Undanþegnir áskilnaði 1. mgr. eru:
a. aðilar með útgefið flugrekstrarleyfi í EASA-ríki eða gilda útgefna yfirlýsingu um flugrekstur í ábataskyni enda falli fyrirhugað flug í ábataskyni undir þau réttindi sem viðkomandi EASA-ríki nýtur samkvæmt þeim samningi sem viðkomandi ríki varðar eða tví- eða fjölhliða samningum Íslands við önnur ríki, og
b. þeir aðilar sem falla undir c-lið 2. mgr. 84. gr.
Ef aðili skv. 1. mgr. eða a-lið 2. mgr. hyggst færa sér í nyt flugréttindi umfram þau réttindi sem samningar Íslands taka til skal jafnframt óska eftir heimild ráðherra eða þess sem hann felur heimildarveitingu til flugsins og eftir atvikum lögbærra landsyfirvalda í þriðju ríkjum.
Ef flugrekandi með höfuðstöðvar eða aðalaðsetur í erlendu ríki hyggur á flug til eða frá eða á íslensku yfirráðasvæði í ábataskyni, hyggst gera samning við annan flugrekanda um tómaleigu loftfars, starfrækslu flugs á sameiginlegu flugnúmeri eða starfrækslu loftfars sem er skráð í öðru erlendu ríki en því sem eftirlit hefur með flugrekandanum skal hann óska eftir heimild ráðherra eða þess sem hann felur heimildarveitingu áður en fyrirhugað flug hefst.
Heimild skv. 1., 3. og 4. mgr. má binda þeim skilyrðum sem nauðsynleg teljast og er hún afturkallanleg án fyrirvara.
24. gr. Erlend ríkisloftför.
Ráðherra samkvæmt þessari grein er sá ráðherra sem fer með utanríkismál.
Óheimil er för erlendra ríkisloftfara um íslenskt yfirráðasvæði, loftfara sem skráð eru í erlendu ríki þar sem yfirlýstur tilgangur flugsins er í þágu erlends ríkis, ómannaðra ríkisloftfara erlends ríkis og hluta og tækja sem farið geta um loftið en eru ekki loftför sem teljast vera í eigu eða undir yfirráðum erlends ríkis nema með heimild ráðherra eða þess sem hann felur heimildarveitinguna.
Ráðherra ákveður hvernig ferðum loftfara, hluta og tækja skv. 2. mgr. skuli háttað á íslensku yfirráðasvæði og veitir heimild til yfirflugs, viðkomu, komu og brottfarar. Ráðherra getur hvenær sem er ákveðið að afturkalla heimild sem og ákveðið að erlent ríkisloftfar, hlutur eða tæki skuli yfirgefa íslenskt yfirráðasvæði fyrirvaralaust.
Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um yfirflug, komur og ferðir erlendra ríkisloftfara, loftfara sem skráð eru í erlendu ríki þar sem yfirlýstur tilgangur flugsins er í þágu erlends ríkis og hluta og tækja sem farið geta um loftið en eru ekki loftför sem teljast vera í eigu eða undir yfirráðum erlends ríkis, svo sem um framkvæmd heimildarveitinga, leyfilegan búnað, hvaða starfsemi megi stunda og tilkynningarskyldu, svo og komur og dvöl flugverja ríkisloftfara og fjarflugmanna.
25. gr. Aðgengi að flugvelli.
Flugvelli og önnur mannvirki í þágu loftferða sem eru opin almenningi er erlendum loftförum einnig heimilt að nýta með sömu skilyrðum og íslenskum loftförum enda sé fyrir hendi samningur þess efnis við það erlenda ríki sem í hlut á.
Við komu til eða brottför frá landinu er skylt að nota landamærastöð. Samgöngustofa getur heimilað að vikið sé frá framangreindu skilyrði hvað varðar flug sem ekki er starfrækt í ábataskyni enda styðji sérstakar aðstæður veitingu slíkrar heimildar.
26. gr. Sérstök leyfi vegna viðburða.
Sérstaks fyrirframleyfis Samgöngustofu er þörf þegar:
a. halda á flugsýningu eða flugkeppni sem er auglýst og opin almenningi,
b. fyrirhugað er fallhlífarstökk, eitt stökk eða fleiri sem hluti sýningar/samkomu,
c. halda á sýningu/samkomu í nágrenni flugvallar sem opinn er almenningi þar sem skoteldum og flugeldavörum, þ.m.t. sérútbúnum skoteldum, er skotið upp og/eða þar sem leysigeisla eða ljósgeisla er beint út í loftið,
d. fyrirhugað er að dreifa/láta falla til jarðar hluti, efni eða annað sem valdið getur flugumferð, fólki eða mannvirkjum á jörðu niðri hættu,
e. fyrirhugað er að nota loftfar, eitt sér eða með öðrum, til að mynda texta eða merki sem sýnileg eru frá jörðu, með útblæstri reyks eða dreifingu annarra efna.
Samgöngustofu er heimilt að krefjast viðeigandi gagna og upplýsinga vegna umsóknar um leyfi hverju sinni, þ.m.t. áhættumats.
Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um frekari leyfisskyldu vegna viðburða í því skyni að vernda fólk og eignir auk þess að kveða nánar á um framangreindar heimildir, umsókn, skilyrði, þ.m.t. kröfur um ábyrgðartryggingar, fjárhæðir slíkra trygginga og skilmála og/eða áhættumat ef við á, öryggiskröfur og eftirlit.
IV. kafli. Almenn ákvæði.
27. gr. Gildi vottorða o.fl.
Hvers konar vottorð, réttindi, leyfi og fullgildingar, útgefin af lögbærum stjórnvöldum í samræmi við lög þessi og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra, skulu halda gildi sínu svo fremi sem:
a. eftirlitsskyldur aðili uppfylli ávallt þær kröfur sem gerðar eru til starfans og/eða starfseminnar og skilyrði til starfrækslu, ef við á, þ.m.t. kröfur er varða meðhöndlun frávika, og viðeigandi lögbært stjórnvald geti ákvarðað að svo sé,
b. þau hafi ekki verið lögð inn, felld tímabundið úr gildi og séu ekki útrunnin eða afturkölluð.
28. gr. Yfirlýsingar.
Hvers konar yfirlýsingar sem aðilar leggja fram í samræmi við lög þessi og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra skulu halda gildi sínu svo fremi að:
a. útgefandi yfirlýsingar uppfylli ávallt þær kröfur sem gerðar eru til starfseminnar og skilyrði til starfrækslu, ef við á, þ.m.t. kröfur er varða meðhöndlun frávika, og viðeigandi lögbært stjórnvald geti ákvarðað að svo sé,
b. yfirlýsing sé ekki útrunnin og hafi ekki verið afturkölluð eða afskráð,
c. lögbær stjórnvöld hafi ekki lagt bann við starfsemi útgefanda yfirlýsingar.
29. gr. Gagnkvæm viðurkenning.
Erlend vottorð, réttindi, leyfi, fullgilding og yfirlýsingar, sbr. 27. og 28. gr., skulu njóta gagnkvæmrar viðurkenningar hér á landi í samræmi við þá samninga sem Ísland er aðili að enda séu uppfyllt þau skilyrði sem viðkomandi samningur mælir fyrir um.
Lögbærum stjórnvöldum er heimilt að gefa út vottorð eða viðurkenna vottorð og önnur viðeigandi gögn sem staðfesta samræmi við lög þriðja ríkis, sem ekki telst EASA-ríki, ef kveðið er á um slíkt í lögum þessum, reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim eða samningum sem Ísland er aðili að.
Ef um er að ræða vottorð og önnur viðeigandi gögn sem staðfesta samræmi við lög þriðja ríkis, sem falla utan gildissviðs EASA-reglugerðarinnar, er Samgöngustofu heimilt að meta þau gild enda uppfylli viðkomandi vottorð og önnur gögn þær kröfur sem lög þessi og reglugerðir áskilja.
Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um viðurkenningu erlendra vottorða, réttinda, leyfa, fullgildinga og yfirlýsinga og skilyrði slíkrar viðurkenningar í reglugerð,1) þ.m.t. viðurkenningu erlendra vottorða sé um að ræða framsal eftirlits með vísan til 83. gr. bis við Chicago-samninginn.
1)Rg. 180/2014, sbr. 992/2016, 1081/2018, 468/2020, 623/2021 og 284/2024.
30. gr. Ábyrgðarskylda.
Eftirlitsskyldir aðilar skulu ávallt geta sýnt fram á að þeir uppfylli kröfur og skilyrði sem lög þessi og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra áskilja.
Eftirlitsskyldir aðilar skulu virða þau réttindi sem skilgreind eru í vottorðum sem útgefin eru af lögbærum stjórnvöldum og jafnframt fara að öllum skilyrðum og takmörkunum sem tengd eru handhöfn réttindanna.
31. gr. Sönnun kunnáttu eða hæfni.
Ef vafi leikur á að tilnefnt fyrirsvars- og ábyrgðarfólk eftirlitsskyldra aðila uppfylli viðeigandi kröfur til starfsins er lögbærum stjórnvöldum heimilt að krefjast þess að tilnefnt fyrirsvars- og ábyrgðarfólk eftirlitsskyldra aðila sanni kunnáttu sína og hæfni með próftöku eða annarri viðurkenndri aðferð samkvæmt ákvörðun viðkomandi stjórnvalds.
32. gr. Skylda til að fara að fyrirmælum.
Eftirlitsskyldum aðilum er skylt að fara eftir og framfylgja skyldubundnum fyrirmælum sem lögbær stjórnvöld gefa út, svo sem lofthæfisfyrirmælum, rekstrarfyrirmælum, fyrirmælum um áframhaldandi lofthæfi loftfara og fyrirmælum um ráðstafanir til að bregðast tafarlaust við öryggisvanda.
33. gr. Samvinna.
Eftirlitsskyldur aðili skal greiða fyrir eftirliti, skoðunum og úttektum lögbærs stjórnvalds eða eftir atvikum hæfs aðila og vinna með eftirlitsaðila eins og þörf krefur til að valdheimildir lögbæra stjórnvaldsins geti nýst sem skyldi og séu árangursríkar og skilvirkar.
34. gr. Útvistuð starfsemi.
Eftirlitsskyldur aðili skal ávallt tryggja að þjónusta sem er útvistað eða aðkeypt vara uppfylli viðeigandi kröfur um vottun að svo miklu leyti sem slíkrar vottunar er krafist. Ef aðili útvistar hluta af starfsemi sinni til annars fyrirtækis, sem ekki hefur vottun fyrir þeirri starfsemi, skal fyrirtækið sem samið er við starfa innan ramma vottunar hins vottaða aðila. Eftirlitsskyldur aðili skal tryggja lögbæru stjórnvaldi aðgengi til eftirlits með því fyrirtæki sem samið er við.
35. gr. Aðferðir til að uppfylla skilyrði og kröfur.
Á afmörkuðum sviðum gefa lögbær stjórnvöld út viðurkenndar aðferðir til að uppfylla skilyrði og kröfur samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim sem nota má til að staðfesta samræmi. Hafi viðurkenndum aðferðum verið beitt til að uppfylla kröfur skal litið svo á að gildandi kröfur hafi verið uppfylltar.
Sé stuðst við aðrar aðferðir en viðurkenndar aðferðir skv. 1. mgr. til að uppfylla kröfur, til að staðfesta samræmi við kröfur eða skilyrði samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim, skal óska eftir fyrirframsamþykki viðeigandi lögbærs stjórnvalds áður en slíkar aðferðir eru nýttar.
Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um notkun viðurkenndra aðferða og annarra aðferða til að uppfylla kröfur auk leiðbeiningarefnis í reglugerð, þ.m.t. heimildir lögbærra stjórnvalda til að takmarka, afturkalla eða breyta viðurkenndum aðferðum og öðrum aðferðum til að uppfylla kröfur.
36. gr. Mælieiningar sem nota skal í flugi.
Við starfrækslu flugs í lofti sem og á jörðu niðri skal nota alþjóðlega SI-mælieiningakerfið og samræmdan heimstíma í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar.
Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um notkun SI-mælieiningakerfisins og notkun þeirra mælieininga sem ekki teljast SI-mælieiningar tímabundið eða samhliða notkun SI-mælieiningakerfisins, svo og um breytur, samhæfingu og framsetningu samræmds heimstíma.
37. gr. Tölfræðiupplýsingar.
Samgöngustofu er heimilt að krefja eftirlitsskylda aðila um gögn og upplýsingar sem hún þarfnast til að taka saman tölfræðilegar upplýsingar um flugstarfsemi og flugsamgöngur og er þeim skylt að veita henni upplýsingarnar á því formi sem hún óskar eða um er samið og innan þeirra tímamarka sem hún ákveður. Samgöngustofa skal jafnan upplýsa í hvaða tilgangi gagna er aflað, hvernig úrvinnslu verði háttað, gögn varðveitt, niðurstöður birtar og upplýsingum miðlað. Gagnasöfnun skal hagað á þann hátt að fyrirhöfn eftirlitsskyldra aðila við að láta í té gögn sé hófleg.
Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um söfnun, úrvinnslu og miðlun tölfræðiupplýsinga á sviði flugstarfsemi og flugsamgangna í reglugerð.
38. gr. Ráðstafanir til að tryggja greiðar flugsamgöngur.
Í því skyni að tryggja greiðar flugsamgöngur, auðvelt aðgengi, miðlun upplýsinga og lágmörkun hvers konar tafa og hindrana skulu stjórnvöld hafa samráð og samstarf sín á milli og við eftirlitsskylda aðila og hagaðila.
Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um:
a. komu og brottför loftfara, farþega, farms, flugvista og pósts, þ.m.t. meðhöndlun farþega, viðkomu- og skiptifarþega og farþega sem synjað er um landgöngu,
b. viðbrögð við neyð og hættuástandi og aðstoð við farþega og áhöfn,
c. sóttvarnir loftfara, sóttvarnaráðstafanir vegna flugsamgangna og ráðstafanir til að koma í veg fyrir aðflutning ágengra framandi tegunda,
d. aðstöðu, aðbúnað og þjónustu á flugvöllum og í flugstöðvum með tilliti til flæðis farþega, farms og pósts,
e. samræmingu og samþættingu aðgerða og ráðstafana stjórnvalda.
39. gr. Tilkynning frávika og útgáfa upplýsinga um flugmál.
Samgöngustofa skal, í samráði við ráðherra, annast tilkynningu frávika frá alþjóðlegum kröfum og ráðlögðum starfsvenjum sem fram koma í viðaukum við Chicago-samninginn til Alþjóðaflugmálastofnunarinnar og annast miðlun annarra upplýsinga til og frá stofnuninni eftir þörfum.
Samgöngustofa annast útgáfu flugmálahandbókar, upplýsingabréfs um flugmál og tilkynningar til flugliða og ber ábyrgð á að form og efni sé í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar, lög þessi og reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim. Framangreindum flugmálaupplýsingum skal miðlað gjaldfrjálst á rafrænu formi. Samgöngustofu er heimilt að fela öðrum aðila útgáfu.
V. kafli. Skráning loftfara o.fl.
40. gr. Skrár.
Samgöngustofa skal halda skrá um íslensk loftför, skrá um flugrekendur/umráðendur ómannaðra loftfara og skrá um hluti og tæki sem farið geta um loftið en eru ekki loftför, þ.m.t. geimhluti, sem skylt er að skrá.
Samgöngustofa skal miðla afmörkuðum upplýsingum úr skrám skv. 1. mgr., þar á meðal upplýsingum um loftför, eigendur og flugrekendur/umráðendur í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
41. gr. Þjóðerni.
Hafi loftfar verið skráð samkvæmt ákvæðum laga þessara hlýtur það íslenskt þjóðerni. Samgöngustofa gefur út númerað þjóðernis- og skrásetningarskírteini fyrir loftfarið. Loftfarið hefur íslenskt þjóðerni meðan skírteinið heldur gildi sínu.
Þegar loftfarið er skráð skal merkja það íslensku þjóðernismerki og skráningarmerki og gefa því skráningarnúmer. Þjóðernis- og skráningarmerki skal loftfarið bera meðan skrásetning þess er í gildi. Skráningarnúmeri má ekki breyta.
42. gr. Eignarhald og umráð.
Heimilt er að skrá hér á landi loftfar sem er í eigu:
a. íslenska ríkisins, sveitarfélaga eða opinberra stofnana hér á landi eða erlendra ríkja sem Ísland hefur samið við vegna þessa,
b. íslenskra ríkisborgara og ríkisborgara ríkja sem Ísland hefur samið við vegna þessa,
c. lögaðila sem hafa höfuðstöðvar eða aðalaðsetur hér á landi eða í ríki sem Ísland hefur samið við vegna þessa.
Ef loftfar er tómaleigt til lögaðila eða einstaklings sem hefur höfuðstöðvar eða aðalaðsetur hér á landi skv. 1. mgr. er Samgöngustofu heimilt að skrá loftfarið í nafni leigutaka enda séu önnur skilyrði fyrir skráningu loftfarsins fyrir hendi að mati stofnunarinnar. Heimilt er að skilyrða slíka skráningu við starfrækslu í almannaflugi enda sé fyrirhuguð starfræksla loftfarsins ekki í ábataskyni.
Samgöngustofa getur heimilað skráningu loftfars hér á landi þótt eigi sé fullnægt skilyrðum 1. og 2. mgr. enda sé eftirlit með loftfarinu fullnægjandi að mati stofnunarinnar og sérstakar ástæður mæli með því.
Loftfar sem skráð er erlendis verður eigi skráð hér á landi fyrr en það hefur verið tekið af erlendri skrá.
43. gr. Skráning loftfara.
Umsókn um skráningu loftfars skal hafa að geyma þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til skrásetningar og henni skulu fylgja skilríki fyrir því að umsækjandi sé eigandi loftfarsins og hver fari með umráð þess. Ef eignarréttur umsækjanda er bundinn skilyrðum eða takmörkunum sem geta leitt til þess að eignarrétturinn flytjist til annars aðila skal geta þess í umsókn.
Loftfar skal eigi skrá nema það hafi gilt tegundarvottorð, takmarkað tegundarvottorð eða flugleyfi sem Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins hefur gefið út eða Samgöngustofa metið gilt.
Þrátt fyrir 2. mgr. er heimilt að skrá loftför sem ekki eru EASA-loftför, heimasmíðuð loftför og létt loftför sem talin eru áhættulítil enda uppfylli slík loftför þær kröfur til lofthæfis sem lög þessi og reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim áskilja og að öðru leyti sé hægt að tryggja örugga starfrækslu þeirra.
Ef á loftfari hvíla skráð réttindi sem meta skal gild hér á landi samkvæmt þjóðréttarlegum skuldbindingum verður loftfarið eigi tekið á íslenska skrá nema rétthöfum hafi verið gerð full skil, þeir samþykki flutninginn eða réttindin séu niður fallin við nauðungarsölu.
Ef skilyrði eru til skrásetningar að mati Samgöngustofu skrásetur hún loftfar í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur og lætur því í té þjóðernis- og skrásetningarmerki og skráningarnúmer.
Ef hönnun borgaralegs ómannaðs loftfars er háð vottun skv. 56. gr. skal eiganda þess skylt að skrá ómannaða loftfarið í loftfaraskrá. Við skráningu skulu skráningarskyld ómönnuð loftför fá úthlutað einkvæmu stafrænu skrásetningarnúmeri. Að öðru leyti gildir 41. gr. um þjóðernis- og skrásetningarmerki ómannaða loftfarsins sem háð er vottun.
44. gr. Eigendaskipti.
Verði eigendaskipti á loftfari eftir skrásetningu, að nokkru eða öllu leyti, eigandi þess breytir ríkisfangi sínu eða gerð er breyting á loftfarinu sem máli skiptir um kennsl á því skal eigandi tafarlaust tilkynna Samgöngustofu breytinguna og leggja fram nauðsynlegar skýrslur og skilríki.
Verði eigendaskipti á loftfari að nokkru eða öllu leyti með samningi hvílir tilkynningarskylda einnig á afsalsgjafa. Fari eigendaskipti á loftfari fram fyrir nauðungarsölu, gjaldþrot eða opinber skipti hvílir slík skylda á þeim sem gefur út afsal og kaupanda.
Samgöngustofa skal að uppfylltum skilyrðum skrá breytingu og gæta ákvæða 43. gr. eftir því sem þörf er á.
45. gr. Tilkynning samninga.
Ef skráð loftfar er selt gegn afborgun og eignarréttarfyrirvara eða samningur gerður um kaup- eða fjármögnunarleigu skal tilkynna samninginn tafarlaust til Samgöngustofu. Tilkynningarskylda hvílir bæði á eiganda og umráðanda.
Samgöngustofa skal skrá málavexti og fá afrit viðkomandi samninga.
Ef loftfar sem skráð er hér á landi er látið í forræði leigutaka, eða annars sem notar það á eigin kostnað, er leigutaka eða þeim sem notar það skylt að afla samþykkis Samgöngustofu áður en notkun hefst.
46. gr. Loftfar tekið af skrá.
Loftfar skal taka af skrá þegar:
a. skráður eigandi krefst þess,
b. skilyrðum 42. gr. er eigi lengur fullnægt enda veiti Samgöngustofa eigi leyfi til að skráning loftfarsins haldist,
c. loftfar er rifið eða það hefur eyðilagst,
d. loftfar er horfið, enda séu þegar liðnir þrír mánuðir frá því að síðasta flug hófst, og eigi er vitað að það sé enn óskaddað.
Loftfar skal taka af skrá sé öðrum skilyrðum fullnægt sem ráðherra tilgreinir í reglugerð, skráður eigandi og/eða umráðandi loftfars er í skilum við Samgöngustofu vegna áfallinna og gjaldfallinna gjalda vegna loftfarsins og eftirlits vegna þess og um gjöldin hefur verið samið eða trygging sett fyrir greiðslu þeirra.
Hafi eitthvert þeirra tilvika fyrir borið sem nefnd eru í b–d-lið 1. mgr. skal eigandi loftfars tafarlaust tilkynna það Samgöngustofu enda hafi það eigi þegar verið gert skv. 44. gr.
Hafi loftfar eigi haft gilt vottorð um lofthæfi, takmarkað lofthæfis- eða þjóðarlofthæfisvottorð, flugleyfi eða heimild í þrjú ár má taka það af skrá enda afli eigandi eigi vottorðs, leyfis eða heimildar áður en liðinn er frestur sem Samgöngustofa setur.
Ef skráð eru réttindi í loftfari skal ekki taka það af loftfaraskrá nema rétthafi samþykki það. Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir samþykki rétthafa má fella loftfar af loftfaraskrá ef ákvæði b-, c- eða d-liðar 1. mgr. eiga við og fyrir liggur fullnægjandi staðfesting þess að loftfarið verði ekki lofthæft á ný eða verðmæti réttindanna eru óveruleg í ljósi þeirra atvika og hagsmuna sem í húfi eru.
47. gr. Beiðni um afskráningu og útflutning loftfars.
Samgöngustofu er heimilt að verða við beiðni um afskráningu loftfars og útflutning, enda sé það í samræmi við gildandi löggjöf á sviði flugöryggis, ef eftirtalin skilyrði eru uppfyllt:
a. beiðni er framvísað af þar til bærum aðila á grundvelli óafturkræfrar heimildar til að biðja um afskráningu og útflutning sem skráð er af Samgöngustofu,
b. þar til bær aðili vottar að fyrir liggi skriflegt samþykki handhafa skráðra tryggingarréttinda sem ganga framar tryggingarréttindum kröfuhafans til afskráningar loftfarsins eða að slík tryggingarréttindi séu niður fallin.
48. gr. Breyting á skráningu eða afskráning loftfars.
Ef loftfar er fellt af skrá skal eigandi þess tafarlaust senda Samgöngustofu þjóðernis- og skrásetningarskírteinið.
Ef færð er í skrána einhver breyting á þeim atriðum sem getur í skírteininu skal eigandi án tafar senda Samgöngustofu skírteinið og skráir hún breytingarnar á skírteinið eða gefur út nýtt skírteini í stað hins.
49. gr. Skráningarskylda flugrekanda/umráðanda ómannaðs loftfars.
Flugrekanda/umráðanda ómannaðs loftfars sem hefur höfuðstöðvar eða aðalaðsetur hér á landi er skylt að skrá upplýsingar um sig og loftfarið í skrá um flugrekendur/umráðendur ómannaðra loftfara sem Samgöngustofa heldur ef einn eða fleiri eftirtaldir liðir eiga við:
a. ómannað loftfar er starfrækt í opna flokknum:
1. ómannað loftfar hefur hámarksflugtaksmassa yfir 250 g, að meðtöldu eldsneyti/orkugjafa, farmþunga og búnaði sem er áfestur loftfarinu í upphafi flugs, eða getur yfirfært meira en 80 júl af hreyfiorku á manneskju ef um árekstur er að ræða,
2. ómannað loftfar er búið nema sem getur fangað persónuupplýsingar, nema um sé að ræða ómannað loftfar sem telst vera leikfang,
b. ómannað loftfar er starfrækt í sérstökum flokki óháð massa.
Flugrekandi/umráðandi ómannaðs loftfars skal ábyrgjast réttmæti þeirra upplýsinga sem hann skráir.
Við skráningu skal skráningarskyldur flugrekandi/umráðandi ómannaðs loftfars fá úthlutað einkvæmu stafrænu skráningarnúmeri. Merkja skal ómannað loftfar skv. 1. mgr. skráningarnúmeri flugrekanda/umráðanda og setja skráningarnúmer í viðbótarbúnað fyrir fjarauðkenningu, ef við á.
50. gr. Afskráning flugrekanda/umráðanda ómannaðs loftfars.
Flugrekanda/umráðanda ómannaðs loftfars sem fellur undir 49. gr. er heimilt að óska eftir afskráningu úr skrá yfir flugrekendur/umráðendur ómannaðra loftfara ef c- eða d-liður 1. mgr. 46. gr. á við eða ef fyrir liggur fullnægjandi staðfesting þess að loftfarið verði ekki flughæft á ný.
Verði breyting á umráðum ómannaðs loftfars sem fellur undir 49. gr. skal ákvæði 44. gr. gilda eftir því sem við á.
51. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir1) nánari ákvæði um:
a. þær skrár sem tilteknar eru í 40. gr. og miðlun og birtingu upplýsinga úr þeim skrám,
b. skilyrði til skráningar og afskráningar loftfara og útflutningsbeiðni,
c. upplýsingar sem skrá skal í loftfaraskrá, skráningarskírteini loftfara, þjóðernis- og skrásetningarmerki, kennispjald og útflutningsbeiðni,
d. merkingu loftfara, staðsetningu þeirra, einkennisplötu og eiginleika hennar og merkingar tækja og búnaðar,
e. flokkun ómannaðra loftfara, þ.m.t. undirflokkun með tilliti til hámarksflugtaksmassa, starfrækslu og skráningarskyldu,
f. skrá yfir flugrekendur/umráðendur ómannaðra loftfara, þ.m.t. um upplýsingar sem skylt er að skrá, skrásetningarnúmer, fjarauðkenningu flugrekenda/umráðenda, rýmisvitund, varðveislu upplýsinga, aðgengi og upplýsingaskipti og afskráningu flugrekanda/umráðanda.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð1) um hluti og tæki sem farið geta um loftið en eru ekki loftför og þá aðila sem starfrækja slíka hluti og tæki og hlutast til um för þeirra, þar á meðal um:
a. nánari afmörkun þeirra hluta og tækja sem háð eru skráningarskyldu, skráningu eigenda og/eða flugrekenda/umráðenda þeirra, skilyrði til skráningar, þ.m.t. með tilliti til eignarhalds, staðfesturéttar og stefnu stjórnvalda og skilyrði til afskráningar, þau atriði sem skráð eru og miðlun upplýsinga um skráningu og afskráningu,
b. skilyrði til útgáfu leyfis til að hefja á loft eða skjóta upp og/eða endurkomu hluta eða tækja og afturköllun leyfis, upplýsingar og gögn sem skal leggja fram og málsmeðferð,
c. kröfur sem gerðar eru til slíkra hluta og tækja og leyfishafa með tilliti til starfrækslu, notkunar, vöktunar, öryggis, verndar, truflana og mengunar í loftrýminu og utan þess,
d. ábyrgð og upplýsingaskyldu eiganda eða umráðanda hlutar eða tækis, leyfishafa og eftirlit,
e. skaðabótaábyrgð, skyldu til að vátryggja og/eða leggja fram ábyrgðaryfirlýsingu, bankaábyrgð eða tryggingu til greiðslu skaðabóta sem nægjanlegar teljast til að halda íslenska ríkinu skaðlausu komi til tjóns, sem og bæta tjón gagnvart þriðja manni, og lágmarksfjárhæðir slíkra vátrygginga eða annarra trygginga.
1)Rg. 270/2024.
VI. kafli. Hönnun, framleiðsla, lofthæfi og viðhald.
52. gr. Vottun hönnunar.
Hönnun framleiðsluvöru, að undanskildum ómönnuðum loftförum, hlutum og óuppsettum búnaði, breyting á hönnun framleiðsluvöru, hönnun viðgerðar og gögn er varða örugga starfrækslu í tengslum við tegundarhönnun eru háð vottun lögbærs stjórnvalds.
Falli vottun skv. 1. mgr. undir gildissvið EASA-reglugerðarinnar er Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins lögbært stjórnvald til útgáfu vottorðs. Falli vottun skv. 1. mgr. utan gildissviðs reglugerðarinnar er Samgöngustofa lögbært landsyfirvald við útgáfu vottorðs eða við mat á gildi erlends vottorðs.
53. gr. Tegundarvottorð o.fl.
Vottorð skv. 52. gr. skal gefa út þegar umsækjandi sýnir fram á að hönnun framleiðsluvöru, hluta eða óuppsetts búnaðar, breyting á hönnun, hönnun viðgerðar eða gögn um örugga starfrækslu sem tengjast tegundarhönnun eru í samræmi við viðeigandi vottunargrunn að mati lögbærs stjórnvalds og að hönnun vörunnar býr ekki yfir sérkennum eða eiginleikum sem samrýmast ekki umhverfissjónarmiðum eða gerir notkun hennar ótrygga.
Ef hönnun loftfars uppfyllir ekki að öllu leyti þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt vottunargrunni er heimilt að gefa út takmarkað tegundarvottorð enda sé sýnt fram á að hönnun loftfarsins samræmist vottunargrunni og sé fullnægjandi að því er varðar lofthæfi og umhverfissamræmi í ljósi áætlaðrar notkunar þess.
Samþykki gagna um örugga starfrækslu sem tengjast tegundarhönnun skal koma fram í tegundarvottorðinu eða takmarkaða tegundarvottorðinu eftir því sem við á. Ekki er þörf á aðskildu tegundarvottorði fyrir hönnun hreyfla og loftskrúfna sem vottuð eru sem hluti af hönnun loftfars. Þá er ekki þörf á aðskildu vottorði fyrir hönnun hluta sem eru vottaðir sem hluti af hönnun framleiðsluvöru.
Þrátt fyrir ákvæði 1.–3. mgr. er ráðherra heimilt að ákvarða í reglugerð að:
a. heimilt sé að meta án þess að gefa út vottorð hvort hönnun framleiðsluvara, hluta og óuppsetts búnaðar uppfylli viðeigandi kröfur enda séu skilyrði og kröfur til verklags, sem ráðherra kveður á um í reglugerð, að öðru leyti uppfylltar,
b. fyrirtæki sem ber ábyrgð á hönnun og framleiðslu á framleiðsluvörum, hlutum og óuppsettum búnaði sé heimilt að lýsa því yfir að hönnunin uppfylli þær kröfur sem ráðherra setur í reglugerð,
c. tilteknar framleiðsluvörur, hlutir og óuppsettur búnaður séu undanþegin kröfum um vottun.
Aðila sem hlotið hefur vottun skv. a- og b-lið 1. mgr. 54. gr. og hefur samþykki lögbærs stjórnvalds fyrir vottun skv. 1.–3. mgr. er heimilt að gefa út vottorð skv. 3. mgr. ef aðilinn hefur ákvarðað að hönnun eða gögn uppfylli nefnd skilyrði.
54. gr. Hönnun, framleiðsla, viðhald og stjórnun á áframhaldandi lofthæfi.
Eftirtalin starfsemi er háð vottun:
a. hönnun framleiðsluvara, hluta, óuppsetts búnaðar og búnaðar til að fjarstýra ómönnuðum loftförum,
b. framleiðsla framleiðsluvara, hluta, óuppsetts búnaðar og búnaðar til að fjarstýra ómönnuðum loftförum,
c. viðhald og stjórnun á áframhaldandi lofthæfi framleiðsluvara, hluta, óuppsetts búnaðar og búnaðar til að fjarstýra ómönnuðum loftförum.
Vottorð skal gefa út þegar umsækjandi uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til starfseminnar samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Í vottun skal tilgreina þau réttindi sem veitt eru umsækjanda, skilyrði vottunar, ef við á, og gildissvið. Heimilt er lögbæru stjórnvaldi að breyta vottorði til að bæta við eða fella niður réttindi.
Þrátt fyrir 1. mgr. skal ráðherra heimilt að ákvarða með reglugerð að í stað vottunar geti aðili gefið út yfirlýsingu þess efnis að starfsemin uppfylli viðeigandi kröfur eða hann hafi getu og tilföng til að uppfylla viðeigandi kröfur í samræmi við lög þessi og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra.
Þrátt fyrir 1. mgr., sbr. 3. mgr., er ráðherra heimilt að ákvarða í reglugerð að hönnun, framleiðsla, viðhald og stjórnun á áframhaldandi lofthæfi tiltekinna framleiðsluvara, hluta, óuppsetts búnaðar og búnaðar til að fjarstýra ómönnuðum loftförum sé undanþegin kröfu um vottun.
Þá er ráðherra heimilt að setja reglugerð um hvernig skuli sýna fram á að framleiðsluvara, hlutir og óuppsettur búnaður sem fyrirhugað er að framleiða án þess að starfsemi hafi hlotið vottun sé í samræmi við viðeigandi hönnunargögn, að tilteknum skilyrðum uppfylltum.
Lögbært stjórnvald við veitingu vottunar eða viðtöku yfirlýsingar skv. a-lið 1. mgr. er Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins. Sama á við um starfsemi skv. b- og c-lið 1. mgr. enda séu höfuðstöðvar fyrirtækis utan EASA-ríkjanna.
55. gr. Viðurkenning á vottun erlendra fyrirtækja.
Hafi fyrirtæki sem er með höfuðstöðvar í ríki utan EASA-ríkja og hefur með höndum starfsemi skv. a- og/eða b-lið 1. mgr. 54. gr. hlotið vottun af þar til bærum landsyfirvöldum er heimilt að viðurkenna vottunina enda sé slík vottun metin jafngild og öðrum skilyrðum sem ráðherra kveður á um í reglugerð fullnægt.
56. gr. Vottun ómannaðra borgaralegra loftfara.
Hönnun, framleiðsla og viðhald ómannaðra borgaralegra loftfara og hreyfla þeirra, loftskrúfna, hluta, óuppsetts búnaðar, viðbótarbúnaðar til fjarauðkenningar og búnaðar til að fjarstýra þeim skal vottað í samræmi við 52. og 54. gr. ef ómannaða loftfarið uppfyllir eitt af eftirfarandi skilyrðum:
a. stærðarmál þess eru 3 metrar eða meira og það er hannað til að fljúga yfir mannfjölda,
b. það er hannað til fólksflutninga,
c. það er hannað í þeim tilgangi að flytja hættulegan varning og þarf að vera afar traust til að lágmarka áhættu fyrir þriðju aðila ef slys ber að höndum,
d. það er ætlað til starfrækslu í sérstökum flokki og heimild Samgöngustofu til starfrækslu þess samkvæmt niðurstöðu áhættumats er á þá leið að áhættu af starfrækslu sé ekki hægt að lágmarka á fullnægjandi hátt án vottunar ómannaða loftfarsins.
57. gr. Vottun lofthæfis EASA-loftfara.
Sérhvert EASA-loftfar, að undanskildum ómönnuðum loftförum, skal vottað með tilliti til lofthæfis. Á grundvelli vottunar skal gefa út lofthæfisvottorð og, ef við á, hljóðstigsvottorð. Vottorðið skal gefa út þegar umsækjandi sýnir fram á að loftfarið sé í samræmi við þá hönnun sem vottuð er og að unnt sé að starfrækja loftfarið á öruggan hátt og í samræmi við umhverfissjónarmið enda staðfesti Samgöngustofa að svo sé.
Takmarkað lofthæfisvottorð og, ef við á, takmarkað hljóðstigsvottorð skal gefa út fyrir loftfar þar sem annaðhvort hefur verið gefin út yfirlýsing um hönnun í samræmi við a- og b-lið 4. mgr. 53. gr. eða hönnun loftfarsins hefur fengið útgefið takmarkað tegundarvottorð. Vottorðið skal gefa út þegar umsækjandi sýnir fram á að loftfarið sé í samræmi við þá hönnun sem vottuð er og að unnt sé að starfrækja loftfarið á öruggan hátt og í samræmi við umhverfissjónarmið enda geti Samgöngustofa staðfest að svo sé. Heimilt er, eins og nauðsynlegt þykir hverju sinni, að setja takmarkanir við starfrækslu loftfars sem hefur takmarkað lofthæfisvottorð.
Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er heimilt að gefa út flugleyfi og heimila starfrækslu loftfars sem ekki er með gilt lofthæfisvottorð eða gilt takmarkað lofthæfisvottorð. Í því tilviki skal slíkt flugleyfi gefið út að fenginni beiðni þegar umsækjandinn hefur sýnt fram á að unnt sé að fljúga loftfarinu á öruggan hátt við eðlilegar aðstæður. Flugleyfi skal háð viðeigandi takmörkunum.
58. gr. Þjóðarvottorð um lofthæfi.
Borgaralegt loftfar, sem er hvorki EASA-loftfar né ómannað loftfar, skal vottað með tilliti til lofthæfis og skal fá útgefið þjóðarvottorð um lofthæfi og, þegar á við, þjóðarvottorð um hljóðstig enda uppfylli loftfarið þær kröfur til lofthæfis, umhverfissamræmis, mengunar og starfrækslu sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur.
Þrátt fyrir 1. mgr. má gefa út heimild til flugs loftfars sem ekki fullnægir skilyrðum til útgáfu þjóðarlofthæfisvottorðs enda uppfylli loftfarið þær kröfur sem skilgreindar eru í reglugerð sem ráðherra setur. Slík heimild skal háð viðeigandi takmörkunum.
59. gr. Vottun ríkisloftfara.
Ríkisloftfar, sem er skráð sem slíkt í loftfaraskrá, hreyflar þess, loftskrúfur, hlutir, óuppsettur búnaður og búnaður til að fjarstýra því skal uppfylla kröfur um lofthæfi, umhverfissamræmi, mengun og starfrækslu sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur. Heimilt skal að gefa út þjóðarlofthæfisvottorð fyrir ríkisloftfar enda uppfylli loftfarið kröfur sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur.
Þrátt fyrir 1. mgr. má gefa út heimild til flugs loftfars sem ekki fullnægir skilyrðum til útgáfu þjóðarlofthæfisvottorðs enda uppfylli loftfarið kröfur sem skilgreindar eru í reglugerð sem ráðherra setur. Slík heimild skal háð viðeigandi takmörkunum.
60. gr. Vottun loftfara sem starfrækt eru af opinberum aðilum.
Loftfar sem starfrækt er af opinberum aðila til að sinna þjónustu í almannaþágu eða skyldum á ábyrgð ríkisins, hreyflar þess, loftskrúfur, hlutir, óuppsettur búnaður og búnaður til að fjarstýra loftfarinu skal uppfylla kröfur um lofthæfi, umhverfissamræmi, mengun og starfrækslu sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur. Heimilt er að gefa út þjóðarlofthæfisvottorð fyrir loftfar sem starfrækt er af opinberum aðilum enda uppfylli loftfarið kröfur sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur.
Þrátt fyrir 1. mgr. má gefa út heimild til flugs loftfars sem ekki fullnægir skilyrðum til útgáfu þjóðarlofthæfisvottorðs enda uppfylli loftfarið kröfur sem skilgreindar eru í reglugerð sem ráðherra setur. Slík heimild skal háð viðeigandi takmörkunum.
61. gr. Lofthæfi ómannaðra borgaralegra loftfara sem háð eru vottun.
Ómannað borgaralegt loftfar sem háð er vottun og búnaður til að fjarstýra því skal uppfylla kröfur um hollustuhætti, öryggi, lofthæfi, umhverfissamræmi, mengun og starfrækslu sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur.
Einungis má starfrækja ómannað loftfar sem háð er vottun ef það er í lofthæfu ástandi og nauðsynlegur búnaður, aðrir íhlutir og þjónusta fyrir fyrirhugaða starfrækslu er til taks og starfhæf.
62. gr. Almennt um lofthæfi loftfars.
Eigandi loftfars ber ábyrgð á áframhaldandi lofthæfi þess og skal tryggja að því verði ekki flogið nema:
a. loftfarið sé í lofthæfu ástandi,
b. neyðarbúnaður og öll rekstrartæki séu rétt ísett og nothæf eða skýrt auðkennd sem ónothæf,
c. vottorð um lofthæfi sé í gildi,
d. viðhald á loftfarinu sé í samræmi við viðhaldsáætlun,
e. loftfarið uppfylli viðeigandi kröfur um mengunarvarnir,
f. loftfarið sé vátryggt í samræmi við lög þessi og stjórnvaldsfyrirmæli.
Ábyrgð á lofthæfi flyst til leigutaka ef hann er tilgreindur á skrásetningarskírteini loftfars eða það er tekið fram í leigusamningi.
63. gr. Viðhald framleiðsluvara, hluta og óuppsetts búnaðar.
Starfsfólk með viðeigandi réttindi skal annast viðhald framleiðsluvara, hluta og óuppsetts búnaðar í samræmi við viðhaldsgögn. Að loknu viðhaldi skal gefa út viðhaldsvottorð.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er flugmanni sem jafnframt er eigandi loftfars heimilt að annast tiltekið viðhald þess og gefa að því loknu út viðhaldsvottorð fyrir loftfarið.
Viðhald skal fara fram samkvæmt þeim aðferðum, tækni, stöðlum og leiðbeiningum sem tilgreind eru í viðeigandi viðhaldsgögnum og með þeim verkfærum, búnaði og efnum sem þar eru tilgreind. Prófa skal og kvarða verkfæri og búnað til samræmis við viðurkennda staðla.
64. gr. Viðhaldsvottun.
Handhöfum vottunar skv. c-lið 1. mgr. 54. gr. er heimilt að veita handhöfum skírteinis flugvéltæknis og öðru starfsfólki með viðeigandi starfsréttindi heimild til að skrifa undir viðhaldsvottorð fyrir hönd hins vottaða fyrirtækis. Vottunarheimild skal takmarka eftir því sem nauðsynlegt þykir.
65. gr. Áframhaldandi lofthæfi.
Tryggja ber áframhaldandi lofthæfi loftfara. Skipuleggja skal viðhald allra loftfara í samræmi við viðhaldsáætlun. Viðhaldsáætlun skal háð reglulegri endurskoðun.
66. gr. Gildi lofthæfisvottorðs.
Lofthæfisvottorð skal gefið út með ótakmarkaðan gildistíma hvað varðar EASA-loftför en önnur vottorð um lofthæfi skulu hafa takmarkaðan gildistíma í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
Lofthæfisvottorð skal halda gildi sínu svo framarlega sem loftfarið og tilheyrandi hreyflar, loftskrúfur, hlutar og óuppsettur búnaður fær viðhald í samræmi við lög þessi og reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim.
Lofthæfisvottorð fellur úr gildi ef:
a. tegundarvottorð sem lá til grundvallar útgáfu þess er tímabundið fellt úr gildi eða afturkallað eða ef um er að ræða loftfar sem ekki hefur tegundarvottorð eða loftfarið er ekki lengur í samræmi við vottaða tegundarhönnun,
b. loftfarið hefur orðið fyrir spjöllum sem einsýnt er að skipta máli varðandi lofthæfi og fullnægjandi aðgerðir til að endurheimta lofthæfi hafa ekki verið viðhafðar,
c. loftfar uppfyllir ekki kröfur til áframhaldandi lofthæfis, ekki er fylgt skyldubundinni viðhaldsstjórn eða viðhald hefur ekki farið fram á loftfarinu,
d. gert hefur verið við loftfarið, því breytt eða hlutum, íhlutum og búnaði þess breytt án þess að viðhaldsvottorð hafi verið gefið út,
e. loftfar hefur verið starfrækt utan takmarkana í samþykktri flughandbók eða lofthæfisvottorði án þess að gerðar hafi verið viðeigandi ráðstafanir.
Verði lofthæfisvottorð ógilt getur Samgöngustofa krafist afhendingar þess. Ógildingin helst uns bætt hefur verið úr þeim ágöllum sem um ræðir.
Samgöngustofa getur kveðið á um að taka skuli upp leiðbeiningar um notkun loftfarsins í lofthæfisvottorð eða sérstakt skjal sem fylgir vottorðinu enda teljist það þá lofthæft þegar leiðbeiningunum er fylgt.
Óheimilt er að fljúga loftfari ef lofthæfisvottorð er ekki í gildi.
67. gr. Lofthæfisstaðfestingarvottorð.
Flugrekandi/umráðandi loftfars skal reglulega láta staðfesta lofthæfi loftfars og endurskoða skrár yfir áframhaldandi lofthæfi til að tryggja gildi lofthæfisvottorðs.
Lofthæfisstaðfestingarvottorð skal gefa út að lokinni fullnægjandi staðfestingu á lofthæfi. Lofthæfisstaðfestingarvottorð gildir í eitt ár.
Hvorki er hægt að gefa út lofthæfisstaðfestingarvottorð né heldur framlengja það ef eitthvað bendir til þess eða ástæða er til að ætla að loftfarið sé ekki lofthæft.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um útgáfu og gildi lofthæfisstaðfestingarvottorðs, aðstæður þegar heimilt er að framlengja lofthæfisstaðfestingarvottorð, þá aðila sem heimild hafa til að staðfesta lofthæfi, gefa út eða framlengja lofthæfisstaðfestingarvottorð, atvik er leiða til þess að vottorðið fellur úr gildi, ógildingu þess eða afturköllun.
Óheimilt er að fljúga loftfari ef lofthæfisstaðfestingarvottorð er útrunnið og hefur ekki verið framlengt, það hefur verið fellt tímabundið úr gildi eða afturkallað eða ef lofthæfisvottorð er fallið úr gildi skv. 3. mgr. 66. gr.
68. gr. Almenn undanþáguheimild.
Samgöngustofu er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum þessa kafla og reglugerðum settum samkvæmt lögum þessum enda sé ekki um að ræða loftfar eða starfsemi sem fellur undir gildissvið EASA-reglugerðarinnar og nauðsynlegt þykir að prófa kosti loftfars eða aðrar sérstakar ástæður eru fyrir hendi.
69. gr. Ómönnuð borgaraleg loftför sem fyrirhugað er að starfrækja í opnum eða sérstökum flokki.
Ómannað borgaralegt loftfar og búnaður til að fjarstýra því sem fyrirhugað er að starfrækja í opnum eða sérstökum flokki skal vera þannig úr garði gert, starfrækt, því haldið við og eftir því litið að ekki stafi hætta af fyrir heilsu eða öryggi manna eða dýra, umhverfi og mannvirki.
Framleiðendur, viðurkenndir fulltrúar, innflytjendur og dreifingaraðilar ómannaðra borgaralegra loftfara skulu tryggja að þau ómönnuðu loftför sem sett eru á markað uppfylli kröfur laga þessara og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra og laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu.
Áður en ómannað borgaralegt loftfar sem fyrirhugað er að starfrækja í opnum flokki er sett á markað skal framleiðandi útbúa viðeigandi tæknigögn og framkvæma eða láta fara fram samræmismat á því hvort loftfarið uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru. Á grundvelli samræmismats skal framleiðandi gefa út samræmisyfirlýsingu og festa CE-merki á loftfarið.
Óheimilt er að setja á markað eða bjóða á markaði ómannað loftfar, sem fyrirhugað er að starfrækja í opnum flokki á grundvelli samræmismats, og búnað til að fjarstýra því ef loftfarið hefur ekki CE-merkingu.
Framleiðendur skulu tryggja að ómönnuð loftför, búnaður til að fjarstýra þeim og fjarauðkennisbúnaður sé merktur og auðkenndur í samræmi við þær kröfur sem ráðherra kveður á um í reglugerð. Framleiðendur skulu einnig tryggja að ómönnuðu loftfari fylgi upplýsingar fyrir notendur um tilætlaða notkun, helstu eiginleika og öryggi á tungumáli sem ætla má að notendur skilji. Dreifingaraðila ber að gæta þess að með loftfarinu fylgi þau gögn og upplýsingar sem framleiðanda ber að láta fylgja vöru.
Ómannað borgaralegt loftfar sem fyrirhugað er að starfrækja í sérstökum flokki og búnaður til að fjarstýra því skal uppfylla þær kröfur til öryggis og starfrækslu sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur.
70. gr. Fyrirframætlað samræmi.
Ómannað borgaralegt loftfar, sem fyrirhugað er að starfrækja í opnum flokki, og búnaður til að fjarstýra því er álitið uppfylla viðeigandi kröfur um öryggi ef ástand þess er í samræmi við ákvæði samhæfðra evrópskra staðla eða hluta slíkra staðla sem staðfestir hafa verið af Staðlaráði Íslands sem íslenskir staðlar fyrir slíka vöru. Samgöngustofa birtir á vef sínum yfirlit yfir staðla fyrir ómönnuð loftför.
71. gr. Tilkynntir aðilar.
Ráðherra tilkynnir viðeigandi stjórnvöldum á Evrópska efnahagssvæðinu um þá aðila hér á landi sem hafa heimild til að annast samræmismat skv. 69. gr. Ráðherra annast einnig eftirlit með tilkynntum aðilum en getur falið Samgöngustofu að annast það fyrir sína hönd.
Tilkynntur aðili skal hafa faggildingu og faglega þekkingu til að sjá um samræmismat. Um faggildinguna fer samkvæmt lögum um faggildingu o.fl. og ákvæðum laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.
Sé tilkynntur aðili ekki opinber stofnun eða ríkisfyrirtæki skal hann hafa ábyrgðartryggingu sem nær til skaðabótaábyrgðar gagnvart öllum þeim sem hann kann að valda tjóni með starfsemi sinni.
72. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir1) nánari ákvæði um:
a. vottun hönnunar og framleiðslu framleiðsluvara, hluta, óuppsetts búnaðar, ómannaðra loftfara og búnaðar til að fjarstýra þeim; breytingu á hönnun framleiðsluvöru, hönnun viðgerðar og gögn er varða örugga starfrækslu í tengslum við tegundarhönnun, þar á meðal skilyrði vottunar; vottunargrunna; vottunarforskriftir; sérstök skilyrði (tækniforskriftir); staðla og kröfur er varða umhverfisvernd og umhverfissamræmi og verklagsreglur vottunar er varða framangreint,
b. skilyrði fyrir útgáfu, breytingum og takmörkunum á tegundarvottorði, takmörkuðu tegundarvottorði, viðbótartegundarvottorði, evrópskri tækniforskriftarheimild; breytingu og samþykki fyrir hönnun viðgerðar og samræmingu hönnunar og framleiðslu,
c. þær kröfur sem starfsemi skal uppfylla skv. 54. gr., svo sem varðandi skipulag og stjórnun, tilföng, aðstöðu og búnað, fjárhag, hæfni og þjálfun fyrirsvars- og ábyrgðarfólks og annarra í þjónustu aðila; verklag, tilkynningarkerfi og gæðastjórnun; upplýsingaöryggi og varnir gegn hvers kyns hættu sem ógna kann öryggi net- og upplýsingakerfa,
d. þær kröfur sem gerðar eru til umsækjenda skv. a- og b-lið 1. mgr. 54. gr. sem sækjast eftir vottun til þess að gefa út vottorð skv. 52. gr.,
e. kröfur til lofthæfis og áframhaldandi lofthæfis loftfara, umhverfisverndar og umhverfissamræmis loftfara, þ.m.t. ómannaðra loftfara og búnaðar til að fjarstýra þeim, útgáfu vottorða vegna lofthæfis og hljóðstigs og kröfur til einstakra flokka loftfara,
f. framkvæmd flugprófana, flokka reynsluflugs og réttindi flugliða í flugprófunum,
g. viðhald loftfara, þ.m.t. ómannaðra loftfara, stjórnun á áframhaldandi lofthæfi, vottun vegna viðhalds, viðhaldsvottorð, staðfestingu á lofthæfi loftfara, viðbótarlofthæfiskröfur og úrræði sem ætlað er að styðja við áframhaldandi lofthæfis- og öryggisumbætur og réttindi og skyldur viðhaldsvotta og annarra í þjónustu aðila sem sinna verkefnum tengdum viðhaldi eða áframhaldandi lofthæfi loftfara,
h. heimildir flugmanns til viðhalds og skilyrði og kröfur um hæfni flugmanns,
i. réttindi og skyldur handhafa vottorða og þeirra sem gefa út yfirlýsingar samkvæmt þessum kafla, þ.m.t. skilyrði áframhaldandi gildis vottorðs og yfirlýsingar; flokka vottorða og réttindi varðandi verksvið; útgáfu vottorðs, breytingar, takmörkun, tímabundna niðurfellingu eða afturköllun vottorðs eða brottfall yfirlýsingar,
j. skilyrði fyrir útgáfu heimildar til vottunar viðhalds, takmörkun á heimild, viðhald slíkrar heimildar, breytingu, tímabundna ógildingu eða afturköllun, sem og um skrár sem halda skal um útgefnar heimildir, starfsréttindi, skírteini og áritanir, þjálfun, lágmarksaldur og reynslu viðhaldsvotta,
k. viðhaldsáætlun loftfars, þ.m.t. efnisatriði, í hvaða tilvikum votta þarf viðhaldsáætlun loftfars og breytingar á viðhaldsáætlun, hverjir geta vottað og verklag við vottun,
l. skilgreiningu ómannaðra loftfara, flokka þeirra og heimildir til að bjóða á markaði ómönnuð loftför og búnað til að fjarstýra þeim,
m. kröfur sem gerðar eru til ómannaðra loftfara, búnaðar til að fjarstýra þeim, viðbótarbúnaðar fyrir beina fjarauðkenningu og rýmisvitundar, þ.m.t. umhverfiskröfur, svo og kröfur um virkni kerfa og stjórnun,
n. merkingar ómannaðra loftfara; skyldur framleiðenda, innflytjenda og dreifingaraðila, markaðseftirlit, samræmismat og framkvæmd þess, samræmismatsstofur, CE-merkið, samræmisyfirlýsingu og samræmismerkingu; upplýsingaskyldu, þau gögn og upplýsingar sem skulu fylgja ómönnuðu loftfari, þ.m.t. tungumálakröfur, aðgengi og framsetningu upplýsinga.
1)Rg. 380/2013, sbr. 967/2013, 347/2015, 123/2016, 885/2016, 1466/2020, 1344/2021 og 279/2024. Rg. 237/2014, sbr. 288/2015, 348/2015, 781/2015, 978/2015, 74/2016, 122/2016, 990/2016, 539/2018, 1084/2018, 624/2021, 1295/2022, 1301/2023 og 281/2024. Rg. 926/2015, sbr. 433/2016, 1042/2019 og 278/2024. Rg. 270/2024.
VII. kafli. Vottun einstaklinga og aðila sem annast þjálfun.
73. gr. Vottorð einstaklinga.
Einstaklingar sem sækja um eftirtalin vottorð skulu uppfylla kröfur um menntun og þjálfun, hæfni og færni, aldur, líkamlegt og andlegt hæfi, reglusemi og reynslu sem ráðherra kveður á um í reglugerð:1)
a. vottorð, þ.m.t. skírteini, og/eða áritanir flugmanna, fjarflugmanna, flugnema, flugvélstjóra, flugumferðarstjóra, nema í flugumferðarstjórn, flugumsjónarmanna, flugvéltækna og annarra sem votta viðhald eða áframhaldandi lofthæfi framleiðsluvara, hluta, óuppsetts búnaðar, ómannaðra loftfara og búnaðar til að fjarstýra loftförum,
b. staðfestingarvottorð öryggis- og þjónustuliða,
c. vottorð og/eða réttindi til að:
1. þjálfa eða annast mat eða prófun á hæfni/færni umsækjanda skv. a- og b-lið, þ.m.t. þjálfun sem veitt er í flughermisþjálfa,
2. taka þátt í heilbrigðismati á umsækjendum skv. a- og b-lið,
3. starfa á sviði rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu, þ.m.t. tæknifólk sem sinnir öryggistengdum verkefnum,
4. hafa á hendi störf er tengjast öryggi flugsamgangna.
Vottorð skv. 1. mgr. tekur til þeirra réttinda, áritana og takmarkana sem í því felast, t.d. útgáfu viðeigandi heilbrigðisvottorðs. Vottorð, þ.m.t. skírteini og öll réttindi sem veitt eru, skulu gefin út þegar umsækjandi hefur sýnt fram á að hann uppfylli kröfur sem gerðar eru í reglugerð1) sem ráðherra setur. Heimilt er að takmarka réttindi í vottorðinu eins og nauðsynlegt er og skal hvers konar takmarkana eða viðbóta við þau réttindi sem veitt eru getið skýrt í vottorðinu sjálfu eða viðbótarskjali.
Þrátt fyrir 1. mgr. er ráðherra heimilt að ákvarða með reglugerð1) að ekki sé krafist vottorðs á afmörkuðum sviðum enda sé tekið tillit til eðlis viðkomandi starfsemi og áhættunnar sem í henni felst.
1)Rg. 180/2014, sbr. 992/2016, 1081/2018, 468/2020, 623/2021 og 284/2024. Rg. 237/2014, sbr. 288/2015, 348/2015, 781/2015, 978/2015, 74/2016, 122/2016, 990/2016, 539/2018, 1084/2018, 624/2021, 1295/2022, 1301/2023 og 281/2024.
74. gr. Kröfur um aldur.
Ráðherra er heimilt að kveða á um aldurslágmark við útgáfu vottorðs, þ.m.t. skírteina einstaklinga og staðfestingarvottorða, í reglugerð. Aldurshámark flugmanna í flutningaflugi skal vera 60 ár en ráðherra er heimilt að kveða á um með reglugerð að framlengja megi þessi mörk til allt að 65 ára aldurs, að fullnægðum skilyrðum sem hann setur. Þá er ráðherra heimilt að framlengja aldurshámark flugmanna í flutningaflugi loftbelgja eða svifflugna til allt að 70 ára aldurs, að fullnægðum skilyrðum sem hann setur.
75. gr. Vottorð um heilbrigði.
Flugliðar, öryggis- og þjónustuliðar og flugumferðarstjórar skulu reglulega undirgangast mat á því hvort heilbrigði þeirra geri þeim kleift að gegna störfum sínum á öruggan hátt. Aðeins skal gefa út, framlengja eða endurnýja vottorð um heilbrigði ef umsækjandi uppfyllir þær kröfur sem felast í vottorði sem sótt er um. Umsækjanda um heilbrigðisvottorð skal skylt að undirgangast skoðanir og rannsóknir sem þörf er á til að hægt sé að leggja mat á heilbrigði hans.
Heimilt er að takmarka vottorð um heilbrigði. Skrá skal takmarkanir í vottorðið sem fara skal eftir þegar réttindi skírteinis eða staðfestingarvottorðs eru nýtt.
Vottorð um heilbrigði skal gefa út áður en viðkomandi skírteini eða staðfestingarvottorð er gefið út. Fyrir einflug skal flugnemi vera handhafi viðeigandi heilbrigðisvottorðs fyrir þá tegund skírteinis sem fyrirhugað er að fá útgefið. Nemi í flugumferðarstjórn skal vera handhafi heilbrigðisvottorðs áður en skírteini flugumferðarstjóranema er gefið út.
76. gr. Synjun útgáfu.
Samgöngustofu er heimilt að synja einstaklingi um útgáfu vottorðs eða annarra réttinda skv. 73. gr. hafi viðkomandi verið dæmdur til fangelsisvistar fyrir refsivert brot og ástæða er til að ætla að hann misfari með skírteinið, vottorðið eða réttindin.
77. gr. Sérstakar skyldur handhafa vottorða og annarra réttinda.
Handhafi vottorðs, þ.m.t. heilbrigðisvottorðs, áritunar og annarra réttinda sem Samgöngustofa hefur gefið út eða metið gild, skal:
a. ekki nýta réttindi sín sé honum kunnugt um skerta líkamlega eða andlega getu sem gæti gert hann óhæfan til að nýta réttindin af öryggi,
b. ekki nýta réttindi sín undir áhrifum geðvirkra efna, og
c. svo fljótt sem verða má tilkynna stofnuninni um atriði sem máli skipta þegar meta skal hvort hann fullnægir áfram skilyrðum til þeirra starfa sem vottorð, áritanir og önnur réttindi lúta að.
Handhöfum vottorða er skylt hvenær sem er að gangast undir þá rannsókn og þau próf sem Samgöngustofa telur nauðsynleg til að viðhalda vottorði.
78. gr. Erlend vottorð.
Samgöngustofu er heimilt að fullgilda, umbreyta eða viðurkenna erlent vottorð aðila, þ.m.t. skírteini, áritanir og önnur réttindi og heilbrigðisvottorð sem gefin eru út af þriðja ríki eða fyrir þess hönd enda séu þau skilyrði uppfyllt sem ráðherra kveður á um í reglugerð eða kveðið er á um í samningi Íslands við hið erlenda ríki sem í hlut á.
79. gr. Starfsemi háð vottun.
Eftirtalin starfsemi er háð vottun samkvæmt lögum þessum:
a. bókleg kennsla og verkleg þjálfun til:
1. útgáfu skírteinis flugmanns, fjarflugmanns, flugvélstjóra, flugumferðarstjóra, flugvéltæknis og annarra sem votta viðhald eða áframhaldandi lofthæfi framleiðsluvara, hluta, óuppsetts búnaðar og búnaðar til að fjarstýra loftförum,
2. útgáfu staðfestingarvottorðs öryggis- og þjónustuliða,
3. annarra réttinda á sviði rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu og rekstrar flugvalla og á öðrum sviðum er lúta að flugöryggi í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur,
b. starfræksla og notkun flughermisþjálfa,
c. starfræksla fluglæknaseturs.
Starfsemi sem háð er vottun skv. 1. mgr. tekur einnig til endurmenntunar og síþjálfunar, hvers konar áritana og réttinda sem bundin eru við handhöfn viðkomandi vottorðs og réttinda sem og takmarkaðra heimilda sem gefnar eru út til nemenda.
Vottorð skal gefa út þegar umsækjandi sýnir fram á að hann uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til starfseminnar. Lögbæru stjórnvaldi er heimilt að breyta þessum vottorðum til að bæta við eða fella niður réttindi.
Þrátt fyrir 1. mgr. er ráðherra heimilt að ákvarða með reglugerð að:
a. í stað vottunar geti aðili gefið út yfirlýsingu þess efnis að starfsemi viðkomandi uppfylli viðeigandi kröfur og hann hafi getu og tilföng til að uppfylla þær kröfur í samræmi við lög þessi og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra,
b. undanþiggja starfsemi vottun með tilliti til eðlis viðkomandi starfsemi og áhættu sem í henni felst.
Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins er lögbært stjórnvald sem veitir vottun eða yfirlýsingu viðtöku frá fyrirtækjum skv. 1. mgr. enda séu höfuðstöðvar fyrirtækis eða aðalstarfsstöð í þriðja ríki utan EASA-ríkjanna.
Óheimilt er aðilum sem háðir eru vottun eða útgáfu yfirlýsingar fyrir starfsemi sinni skv. 1. mgr. og 73. gr. að taka til starfa og neyta þeirra réttinda sem háð er vottun eða útgáfu yfirlýsingar nema þeir hafi hlotið vottun lögbærra stjórnvalda eða yfirlýsingu hafi verið veitt viðtaka án athugasemda.
80. gr. Vottun flughermisþjálfa.
Votta skal flughermisþjálfa sem notaðir eru til þjálfunar, prófunar og við mat á hæfni og færni.
Vottorð skal gefa út þegar umsækjandi sýnir fram á að flughermisþjálfinn uppfyllir þær kröfur og vottunarforskriftir sem ráðherra mælir fyrir um í reglugerð. Í vottorði skal tilgreina virkni flughermisþjálfa.
Ráðherra er heimilt að ákvarða í reglugerð að:
a. í stað vottunar skv. 1. mgr. sé aðila sem starfrækir og notar flughermisþjálfa skv. b-lið 1. mgr. 79. gr. skylt að gefa út yfirlýsingu þess efnis að flughermisþjálfinn uppfylli viðeigandi kröfur samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra,
b. vottun flughermisþjálfa teljist hluti vottunar fyrirtækis sem starfrækir flughermisþjálfa,
c. við tilteknar aðstæður séu flughermisþjálfar undanþegnir kröfu um vottun vegna eðlis viðkomandi starfsemi og áhættu sem í henni felst.
Lögbæru stjórnvaldi er heimilt að takmarka, ógilda tímabundið eða afturkalla vottorð ef ekki er sýnt fram á að flughermisþjálfinn sé í samræmi við forsendur vottunar eða ef fyrirtækið sem starfrækir flughermisþjálfann uppfyllir ekki þær kröfur sem ráðherra setur í reglugerð. Að öðru leyti fer með takmörkun, tímabundna ógildingu eða afturköllun vottorðs og afturköllun eða afskráningu yfirlýsingar skv. 236. gr.
Lögbært stjórnvald samkvæmt þessari grein er Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins enda séu höfuðstöðvar eða aðalstarfsstöð fyrirtækis sem starfrækir flughermisþjálfa í þriðja ríki utan EASA-ríkjanna eða flughermisþjálfi staðsettur utan EASA-ríkja.
81. gr. Tilkynningarskylda lækna.
Lækni sem er vottaður til mats á heilbrigði skv. 73. og 79. gr. er skylt að tilkynna Samgöngustofu eftirtaldar breytingar sem geta haft áhrif á gildi heilbrigðisvottorðs:
a. breytingar hafa orðið á þeim forsendum sem útgáfa heilbrigðisvottorðs byggðist á, þ.m.t. efni yfirlýsinga í umsókn,
b. kröfur og skilyrði fyrir útgáfu heilbrigðisvottorðs eru ekki lengur uppfyllt,
c. læknir uppfyllir ekki lengur kröfur til vottunar eða útgáfu yfirlýsingar,
d. læknir sætir rannsókn heilbrigðisyfirvalda vegna starfs síns.
Verði læknir þess vís að flugliði sé haldinn slíkri heilsubilun að hætta stafi af starfa hans í loftfari ber lækninum að vara hann við og tilkynna Samgöngustofu tafarlaust vitneskju sína.
Læknir sem kemst að því eða fær grun um að flugliði og öryggis- og þjónustuliði hafi atvinnusjúkdóm, atvinnutengdan sjúkdóm eða hafi orðið fyrir öðrum skaðlegum áhrifum vegna starfa sinna skal án ástæðulausrar tafar tilkynna það til Samgöngustofu.
82. gr. Heilbrigðisskrár og heilbrigðisskýrslur.
Læknum sem hafa starfsstöð hér á landi skal skylt að framsenda allar heilbrigðisskrár og heilbrigðisskýrslur og aðrar viðeigandi upplýsingar til Samgöngustofu sé þess óskað í þágu heilbrigðisvottunar einstaklings og/eða eftirlits Samgöngustofu.
83. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir1) nánari ákvæði um:
a. bóklega þekkingu og verklega færni, þ.m.t. tungumálakunnáttu, reynslu, þjálfun, prófanir og reglubundið mat á hæfni/færni, svo og skilyrði fyrir veitingu réttinda þeirra sem þjálfa eða annast mat eða prófun á hæfni/færni,
b. lágmarksaldur við útgáfu, endurnýjun eða framlengingu skírteinis, vottorðs eða annarra réttinda, sbr. 74. gr.,
c. skilyrði fyrir útgáfu og gildistíma, takmarkanir, tímabundna ógildingu og afturköllun vottorðs, áritunar og annarra réttinda,
d. líkamlegt og andlegt heilbrigði fyrir hverja tegund heilbrigðisvottorðs og yfirlýsingar um heilbrigði sem og þau atriði sem skert geta heilbrigði með vísan til tegundar heilbrigðisvottorðs og yfirlýsingar um heilbrigði,
e. skilyrði fyrir útgáfu og gildistíma, takmarkanir, tímabundna ógildingu og afturköllun heilbrigðisvottorðs eða yfirlýsingar um heilbrigði,
f. fullgildingu, umbreytingu eða viðurkenningu erlendra vottorða, áritana og annarra réttinda,
g. skipulag, ábyrgðarskiptingu og verklag við útgáfu vottorða eða þegar yfirlýsingu er veitt viðtaka.
Ráðherra er með reglugerð1) heimilt að kveða nánar á um skilyrði fyrir vottun, útgáfu yfirlýsingar og starfrækslu:
a. flughermisþjálfa og þjálfunar í flughermisþjálfa,
b. fyrirtækja sem sjá um þjálfun, þ.m.t. um þann búnað sem nýttur er til þjálfunar og prófunar og vottun hans,
c. fluglæknasetra, þ.m.t. um vottun fluglækna og annarra lækna sem meta heilbrigði, þ.m.t. skilyrði til útgáfu heimilda til útgáfu vottorða, og
d. eftirlitsskyldra aðila við upplýsinga- og skýrslugjöf og við eftirlit með upplýsingaöryggi og vörnum gegn áhættu sem kynni að ógna öryggi upplýsingakerfa.
Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð1) á um að aðeins handhöfum vottorða, þ.m.t. tiltekinna skírteina, áritana eða réttinda, sem útgefin eru í samræmi við lög þessi og reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim, verði falin tiltekin störf um borð í loftförum, við stjórn loftferða eða veitingu þjónustu í þágu flugöryggis og/eða til verndar á íslensku yfirráðasvæði.
1)Rg. 180/2014, sbr. 992/2016, 1081/2018, 468/2020, 623/2021 og 284/2024. Rg. 237/2014, sbr. 288/2015, 348/2015, 781/2015, 978/2015, 74/2016, 122/2016, 990/2016, 539/2018, 1084/2018, 624/2021, 1295/2022, 1301/2023 og 281/2024. Rg. 270/2024.
VIII. kafli. Flugrekstrarleyfi.
84. gr. Flugrekstrarleyfi.
Leyfi Samgöngustofu þarf til að starfrækja loftfar í ábataskyni á íslensku yfirráðasvæði. Aðeins handhöfum flugrekstrarleyfis er heimilt að flytja farþega, farm og/eða póst í ábataskyni til, frá og á íslensku yfirráðasvæði.
Þrátt fyrir 1. mgr. er ráðherra heimilt að ákvarða í reglugerð1) að:
a. nánar tiltekin flugstarfsemi skuli háð vottun lögbærs stjórnvalds eða útgáfu yfirlýsingar af hálfu eiganda eða flugrekanda/umráðanda loftfars um hæfni sína og getu til að rækja skyldur sem tengjast starfrækslu loftfars þótt hún sé ekki í ábataskyni,
b. nánar tiltekin starfræksla loftfars í ábataskyni, að undanskildu flutningaflugi, skuli háð útgáfu yfirlýsingar af hálfu flugrekanda/umráðanda loftfars eða rekstraraðila um hæfni sína og getu til að rækja skyldur sem tengjast starfrækslu loftfars eða rekstri,
c. tiltekin starfræksla loftfars í ábataskyni skuli undanþegin kröfum um flugrekstrarleyfi enda taki slíkur rekstur aðeins til loftfars sem ekki er vélknúið og/eða vélknúins loftfars sem er mjög létt og loftfars sem eingöngu er notað til staðbundins flugs.
Um skilyrði fyrir starfrækslu skv. a- og b-lið 2. mgr. fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum þessa kafla.
1)Rg. 237/2014, sbr. 288/2015, 348/2015, 781/2015, 978/2015, 74/2016, 122/2016, 990/2016, 539/2018, 1084/2018, 624/2021, 1295/2022, 1301/2023 og 281/2024.
85. gr. Skilyrði flugrekstrarleyfis.
Skilyrði fyrir útgáfu flugrekstrarleyfis eru eftirfarandi:
a. að höfuðstöðvar fyrirtækis umsækjanda séu hér á landi,
b. að umsækjandi sé handhafi gilds flugrekandaskírteinis sem gefið er út af Samgöngustofu, lögbæru landsyfirvaldi í ríki sem Ísland hefur samið við vegna þessa eða af Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins,
c. að umsækjandi hafi yfir einu eða fleiri loftförum að ráða í gegnum eignarhald eða tómaleigu,
d. að aðalstarfsemi umsækjanda sé eingöngu bundin við rekstur flugþjónustu eða í tengslum við hvers konar aðra atvinnustarfsemi tengda loftförum eða viðgerðum eða viðhaldi á þeim,
e. að íslenska ríkið og/eða íslenskir ríkisborgarar eigi 51% eða meira af fyrirtækinu og fari með stjórn þess í raun, hvort sem er beint eða óbeint, fyrir tilstilli eins eða fleiri aðila.
f. að umsækjandi uppfylli önnur skilyrði um fjármögnun rekstrar, stjórnun, skipulag, vátryggingar og góðan orðstír í samræmi við lög þessi og reglugerð sem ráðherra setur.
Erlend ríki sem hafa vikið frá sambærilegu skilyrði með samningi við Ísland og ríkisborgarar þeirra eru undanþegnir kröfu um íslenskt ríkisfang skv. e-lið 1. mgr.
86. gr. Tilkynningar.
Handhafi flugrekstrarleyfis skal tilkynna viðeigandi lögbæru stjórnvaldi fyrir fram um hvers konar fyrirhugaða sameiningu eða yfirtöku og innan 14 daga um hvers konar breytingar á eignarhaldi sem nema meira en 10% af heildarhlutafjáreign flugrekanda eða móðurfyrirtækis þess eða endanlegs eignarhaldsfélags.
87. gr. Flugrekandaskírteini.
Gefa skal út flugrekandaskírteini þegar umsækjandi sýnir fram á að hann uppfylli þær kröfur sem settar eru fram í lögum þessum og reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra.
Flugrekandaskírteini skal tilgreina þau réttindi sem handhafa þess eru veitt. Lögbæru landsyfirvaldi er heimilt að ákvarða sérstakar rekstrarforskriftir sem skulu vera hluti flugrekandaskírteinis.
Allar breytingar sem hafa áhrif á gildissvið flugrekandaskírteinis, leyfða starfrækslu og/eða rekstrarforskriftir eða öryggisstefnu flugrekanda eða breytingar á tilnefndu fyrirsvars- og ábyrgðarfólki rekstrar skulu samþykktar fyrir fram af lögbæru landsyfirvaldi. Við allar breytingar sem falla ekki undir upphaflegt áhættumat skal leggja fram uppfært áhættumat og breyttar staðlaðar verklagsreglur.
Séu breytingar gerðar á flugrekandaskírteini skal, eftir því sem við á, gera samsvarandi breytingar á flugrekstrarleyfi.
88. gr. Tóma- og þjónustuleiga loftfara.
Samningur þar sem flugrekandi/umráðandi er leigutaki loftfars samkvæmt samningi um tómaleigu loftfars er háður fyrirframsamþykki lögbærs landsyfirvalds með tilliti til flugöryggis. Sama á við um þjónustuleigu loftfars sem skráð er í þriðja ríki.
Lögbæru landsyfirvaldi er heimilt að setja skilyrði fyrir samþykki sínu skv. 1. mgr.
89. gr. Sérstök starfræksla.
Starfræksla loftfars við tiltekin skilyrði eða aðstæður sem teljast áhættusamar, svo sem flutningur hættulegs varnings eða notkun tiltekins tækjabúnaðar í flugi eða í sérstökum tilgangi, er háð fyrirframsamþykki lögbærs landsyfirvalds.
Umfang starfsemi flugrekanda sem hefur samþykki fyrir sérstakri starfrækslu skal tilgreint í rekstrarforskriftum flugrekandaskírteinis.
90. gr. Samstarf lögbærra stjórnvalda.
Sé lögbært landsyfirvald flugrekandaskírteinis annað en það stjórnvald sem gefur út flugrekstrarleyfi skal það fyrrnefnda upplýsa hið síðarnefnda um hvers konar breytingar sem til stendur að gera á skírteininu.
Samgöngustofu er heimilt að skiptast á upplýsingum við önnur lögbær landsyfirvöld er varða mat og afturköllun flugrekandaskírteinis og flugrekstrarleyfis, þ.m.t. upplýsingum er lúta að fjárhag, vátryggingum og skipulagi sem kann að hafa áhrif á öryggi eða gjaldfærni aðila og öðrum upplýsingum sem geta gagnast lögbærum landsyfirvöldum við eftirlit með flugöryggi. Sé um að ræða trúnaðarupplýsingar eða aðrar viðkvæmar upplýsingar skal Samgöngustofa grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja öryggi þeirra.
Ákvæðið tekur eftir því sem við á einnig til aðstæðna þar sem verkefni og eftirlit lögbærs landsyfirvalds hefur verið fært til Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins.
91. gr. Útleiga loftfara til almannaflugs.
Leyfi Samgöngustofu þarf til útleigu loftfara í ábataskyni án flugliða til almannaflugs á íslensku yfirráðasvæði. Undanþegin leyfisskyldu eru kaupleigu- og fjármögnunarfyrirtæki og flugrekendur með höfuðstöðvar innan EASA-ríkjanna með útgefið flugrekstrarleyfi til flutningaflugs og/eða sérstakrar starfrækslu.
Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um skilyrði fyrir leyfisveitingu, þ.m.t. stjórnun, fjármögnun, tilföng, þjónustu, viðhald loftfara, framkvæmd útleigu og kröfur til leigutaka.
92. gr. Starfræksla loftfara opinberra aðila.
Starfræksla loftfara opinberra aðila sem sinna þjónustu í almannaþágu eða skyldum á ábyrgð ríkisins sem tekur til eftirtalinna þjónustuþátta, eins eða fleiri, skal vera í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur:
a. lög- og tollgæslu,
b. landamæraeftirlits,
c. leitar og björgunar,
d. slökkvistarfa,
e. landamæragæslu,
f. strandgæslu eða svipaðrar starfsemi,
g. þjónustu undir stjórn, eftirliti og á ábyrgð ríkisins.
93. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir1) nánari ákvæði um:
a. starfrækslu í ábataskyni, þ.m.t. þær kröfur sem starfsemi skal uppfylla, svo sem varðandi skipulag, eignarhald og stjórnun; fjármögnun og fjárhag; tilföng flugrekanda, m.a. loftför, aðstöðu og búnað; hæfni og þjálfun fyrirsvars- og ábyrgðarfólks og annarra í þjónustu aðila,
b. réttindi og skyldur handhafa flugrekandaskírteinis og flugrekstrarleyfis, þ.m.t. skilyrði þess að banna, takmarka eða skilyrða flugrekstur í þágu flugöryggis eða vegna umhverfissjónarmiða,
c. handbækur, verklag, kerfi flugrekanda, svo sem stjórnunar-, tilkynningar-, öryggisstjórnunar- og gæðakerfi, skráahald, aðgengi að gögnum og miðlun upplýsinga til lögbærs landsyfirvalds eða lögbærra stjórnvalda,
d. áætlanir, þ.m.t. vegna þjálfunar, flugöryggis, verndar, viðbragðs og upplýsingaöryggis og varnir gegn hvers kyns áhættu sem ógna kann öryggi net- og upplýsingakerfa og annarra kerfa,
e. sértækar kröfur þegar flugrekandi/umráðandi gerir samninga um sameiginleg flugnúmer og leigu loftfars (þjónustu- og tómaleigu) og þegar starfrækt eru loftför sem skráð eru í þriðja ríki,
f. markaðsaðgang og frelsi til að ákvarða flutningsmagn, tíðni og verð flugþjónustu,
g. sértækar kröfur til áhættumikillar starfrækslu,
h. réttindi og skyldur opinberra aðila sem sinna opinberri þjónustu í almannaþágu eða skyldum á ábyrgð ríkisins, sbr. 92. gr.,
i. starfrækslu ómannaðra loftfara, hvort sem slík loftför eru starfrækt í ábataskyni eða ekki; áhættumat og viðmið, þ.m.t. sérstök skilyrði fyrir starfrækslu ómannaðra loftfara, m.a. vegna almannaöryggis, verndar umhverfis, friðhelgi einkalífs og persónuupplýsinga.
1)Rg. 237/2014, sbr. 288/2015, 348/2015, 781/2015, 978/2015, 74/2016, 122/2016, 990/2016, 539/2018, 1084/2018, 624/2021, 1295/2022, 1301/2023 og 281/2024. Rg. 270/2024.
IX. kafli. Starfræksla loftfara.
94. gr. Fyrirflugsskoðun og undirbúningur flugs.
Flugstjóri skal tryggja að fyrir hvert flug eða röð samfelldra fluga fari fram fyrirflugsskoðun á loftfarinu til að ákvarða hvort það sé nothæft fyrir fyrirhugað flug.
Flugstjóri skal fullvissa sig um að loftfarið sé lofthæft, skráð á viðeigandi hátt, að vottorð og skírteini þess efnis séu um borð, að massi loftfarsins og þungamiðja séu á þann veg að flugið geti farið fram innan þeirra takmarkana sem mælt er fyrir um í lofthæfisskjölum, að öllum handfarangri, lestarfarangri og farmi sé rétt hlaðið og hann vel skorðaður, að loftfarið sé tilhlýðilega búið og mannað og að ekki verði farið út fyrir starfrækslutakmarkanir og afkastagetu loftfarsins skv. 95. og 96. gr. í flugi og að flug sé að öðru leyti undirbúið og framkvæmt í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
95. gr. Starfrækslumörk loftfars.
Loftfar skal ávallt starfrækt í samræmi við vottorð um lofthæfi, flugleyfi eða heimildir og hljóðstigsvottorð og innan starfrækslu- og massamarka.
Þrátt fyrir 1. mgr. geta lögbær landsyfirvöld í ríki þar sem fyrirhugað er að lenda loftfari heimilað undanþágu frá massamörkum hljóðstigsvottorðs.
96. gr. Afkastageta loftfara.
Ekki má hefja flug eða halda því áfram nema áætluð afköst loftfars, að teknu tilliti til allra þátta sem hafa veruleg áhrif á afkastagetu þess, geri kleift að öll stig flugs séu innan gildandi vegalengda/svæða og hindranabila með fyrirhuguðum starfrækslumassa.
97. gr. Lágmarksbúnaður.
Loftfar skal búið búnaði, kerfum, mælum og tækjum, þ.m.t. fjarskipta- og leiðsögutækjum, auk neyðar- og björgunarbúnaðar, í samræmi við lofthæfisvottun þess, fyrirhugað flug og þær aðstæður sem fljúga skal við samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.
98. gr. Mönnun.
Flugrekandi/umráðandi loftfars er ábyrgur fyrir því að framfylgt sé ákvæðum laga þessara um flugverja.
Ákvarða skal fjölda og samsetningu flugverja loftfars að teknu tillit til:
a. vottunartakmarkana loftfarsins,
b. útfærslu loftfarsins,
c. tegundar og tímalengdar starfrækslu.
Óheimilt er að starfrækja loftfar sem ekki er mannað í samræmi við flughandbók eða vottun loftfars.
Þrátt fyrir 3. mgr. getur Samgöngustofa heimilað notkun loftfars í æfingaskyni eða öðrum tilgangi enda standi sérstakar ástæður til þess að heimila slíka notkun.
99. gr. Fartíma- og vinnutímamörk og hvíld.
Flugrekandi/umráðandi loftfars skal tilnefna heimahöfn fyrir hvern flugverja.
Flugrekandi/umráðandi loftfars skal sjá til þess að fartíma- og vinnutímamörk flugverja og áætlun um hvíldartíma sé í samræmi við lög þessi og reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli þeirra.
100. gr. Flug samkvæmt sjónflugs- og blindflugsreglum.
Ef fyrirhugað er flug samkvæmt sjónflugsreglum verða veðurskilyrði á áætlaðri flugleið að vera þannig að mögulegt sé að fljúga í samræmi við slíkar reglur.
Ef fyrirhugað er flug samkvæmt blindflugsreglum skal velja ákvörðunarflugvöll og varaflugvöll eða varaflugvelli, eftir því sem við á, þar sem loftfarið getur lent, að teknu tilliti til þeirra veðurskilyrða sem spáð er. Einnig skal ganga úr skugga um að flugleiðsöguþjónusta sé tiltæk, hver aðstaðan á jörðu niðri er og hvort ríkið sem í hlut á samþykki blindflug þar sem ákvörðunarstaður og/eða varaflugvöllur er staðsettur.
101. gr. Skjöl, handbækur og upplýsingar um borð.
Öll gögn sem eru nauðsynleg til að flugverjar geti sinnt störfum um borð í loftfari verða að vera uppfærð og tiltæk um borð í loftfarinu, að teknu tilliti til gildandi reglna um flugumferð, flugreglna, flughæðar og starfrækslusviðs.
Gögn skv. 1. mgr. skulu geymd fyrir hvert flug, þau höfð tiltæk og varin í lágmarkstíma fyrir óheimilum breytingum í samræmi við tegund starfrækslunnar.
Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um þau skjöl, handbækur og upplýsingar sem skulu vera um borð í loftfari í hverri flugferð og þau gögn og upplýsingar sem skulu geymd á jörðu niðri þegar flug hefst og því lýkur á sama flugvelli eða innan sama svæðis.
Í erlendu loftfari á íslensku yfirráðasvæði skulu vera samsvarandi vottorð og skírteini frá viðkomandi erlendu ríki eða ríkjum sem rétt hafa til flugs um íslenskt yfirráðasvæði.
Sá sem hefur hagsmuna að gæta að lögum hefur rétt til að kynna sér efni dagbóka og annarra loftfarsskjala.
102. gr. Aðgæsluskylda, geðvirk efni og rafeindatæki.
Flugrekandi/umráðandi skal gera viðeigandi ráðstafanir til að varna því að nokkur aðhafist af gáleysi eða kæruleysi varðandi nokkuð það sem:
a. stofnar loftfari eða einstaklingum um borð eða á jörðu niðri í hættu,
b. veldur því eða lætur viðgangast að loftfar stofni fólki eða eignum í hættu.
Flugrekandi/umráðandi skal gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að enginn undir áhrifum geðvirkra efna fari inn í eða dvelji í loftfarinu, að því marki að það stofni öryggi loftfarsins eða fólki um borð í hættu. Í því skyni skal flugrekandi meðal annars móta og innleiða stefnu um forvarnir og skimun fyrir misnotkun geðvirkra efna af hálfu þeirra sem hann hefur í þjónustu sinni um borð og þeirra sem veita öryggisþjónustu vegna loftferða.
Flugrekandi/umráðandi skal ekki heimila neinum um borð í flugvél að nota handrafeindatæki sem gætu haft truflandi áhrif á nothæfi kerfa og búnaðar loftfarsins og skal hann gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að þau séu ekki notuð.
103. gr. Starfræksla ómannaðs loftfars.
Flugrekandi/umráðandi ómannaðs loftfars ber ábyrgð á starfrækslu þess og skal gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja öryggi þess ásamt öryggi fólks, dýra og mannvirkja á jörðu niðri og annarra loftrýmisnotenda. Sérstaka aðgæsluskyldu hefur flugrekandi/umráðandi ómannaðs loftfars og fjarflugmaður gagnvart friðhelgi einkalífs.
Flugrekandi/umráðandi ómannaðs loftfars verður að tryggja að loftfarið sé búið nauðsynlegum búnaði fyrir öryggi fyrirhugaðs flugs, að teknu tilliti til þess hvers eðlis starfrækslan er og afkastagetu þess, til flugreglna og til reglna um það loftrými sem flogið er um.
Allir sem taka þátt í starfrækslu ómannaðs loftfars, þ.m.t. fjarflugmaður, skulu búa yfir tilskilinni þekkingu og nauðsynlegri færni til að tryggja örugga starfrækslu í samræmi við þá áhættu sem tengist tegund starfrækslu.
104. gr. Örugg starfræksla.
Flugrekandi/umráðandi skal setja verklagsreglur og gefa út fyrirmæli um örugga starfrækslu fyrir hverja tegund loftfars þar sem kemur fram hver skyldu- og ábyrgðarstörf þeirra sem starfa í þjónustu hans á jörðu niðri eru og flugverja við hvers konar starf á jörðu niðri eða í lofti.
Flugrekandi/umráðandi skal tryggja að öllum sem starfa í hans þágu sé ljóst að þeim ber að fara að lögum, reglugerðum og verklagsreglum þeirra ríkja þar sem starfsemin fer fram og lúta að framkvæmd skyldustarfa þeirra.
105. gr. Starfræksla loftfars við sérstök skilyrði.
Starfræksla loftfars við tiltekin skilyrði er háð fyrirframheimild Samgöngustofu í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur. Samgöngustofu er jafnframt heimilt að setja slíkum heimildum skilyrði ef þörf krefur í þágu flugöryggis.
106. gr. Flugstjóri.
Flugrekandi/umráðandi skal tilnefna einn af flugliðum sem flugstjóra, enda uppfylli hann þær kröfur sem ráðherra mælir fyrir um í reglugerð hvað varðar nám, þekkingu og reynslu.
Flugstjóri fer með æðsta vald í loftfari.
Flugstjóri hefur undir sinni forsjá loftfar, áhöfn, farþega og farm. Honum er heimilt, þegar hann telur það nauðsynlegt, að setja flugverja um stundarsakir til annarrar þjónustu en þeirrar sem þeir eru ráðnir til.
Flugstjóra er heimilt, þegar nauðsyn ber til, að synja viðtöku í loftfar eða vísa úr því flugverjum, farþegum, farangri eða farmi.
Flugstjóri ber ábyrgð á að lögmæltar dagbækur og önnur flugskjöl séu í loftfari og skráð sé í bækur þessar og skjöl eins og lög þessi og reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim kveða á um.
107. gr. Upplýsingagjöf og aðstoð við farþega.
Flugstjóri skal tryggja að fyrir flug eða, ef við á, meðan á flugi stendur fái farþegar upplýsingar um staðsetningu og notkun öryggis- og neyðarbúnaðar.
Farþegum er skylt að fara eftir fyrirmælum flugstjóra eða annarra flugverja er varða öryggi um borð og góða hegðun og reglu í loftfari.
Farþegar sem þarfnast sérstakra skilyrða, aðstoðar og/eða búnaðar þegar þeir ferðast með flugi skulu fluttir við skilyrði sem miða að því að tryggja öryggi loftfarsins og allra um borð samkvæmt verklagsreglum sem flugrekandi/umráðandi setur.
108. gr. Valdheimildir flugstjóra.
Flugstjóra er heimilt að þröngva einstaklingi með valdi til hlýðni við sig ef fyrir hendi er rökstuddur grunur um að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru og/eða verknað sem stofnar eða getur stofnað öryggi loftfarsins, manna eða eigna í hættu, enda sé það nauðsynlegt til að vernda öryggi loftfarsins, manna eða eigna eða til að halda uppi góðri hegðun og reglu í loftfari eða til að tryggja öryggi meints brotamanns svo að hægt sé að afhenda hann stjórnvöldum eða koma honum frá borði. Í því skyni er flugstjóra meðal annars heimilt að skerða frelsi þess eða þeirra sem ógna öryggi eða góðri hegðun og reglu um borð. Frelsisskerðingu skal ekki beitt lengur en þörf krefur nema sá sem beittur er slíkum ráðstöfunum veiti samþykki sitt.
Ef loftfar er í hættu statt eða annars konar neyðarástand er fyrir hendi eða yfirvofandi er flugstjóra heimilt að beita hverri þeirri aðferð sem nauðsynleg er til að koma á reglu og gera allt sem honum er unnt til bjargar loftfari, fólki og farmi sem í því er.
Við beitingu ráðstafana skv. 1. og 2. mgr. er hverjum flugverja skylt, án þess að á hann sé skorað, að veita flugstjóra aðstoð. Flugstjóri getur jafnframt óskað eftir aðstoð farþega. Ef rökstudd ástæða er til að ætla að nauðsynlegt sé að vernda öryggi loftfars, fólks eða eigna er sérhverjum flugverja og farþega heimilt að grípa til ráðstafana til að varna vá og tjóni.
Ef nauðsyn ber til að yfirgefa loftfarið skal flugstjóri eftir því sem frekast er unnt sjá svo um að flugskjölum sé komið á óhultan stað.
109. gr. Viðbrögð við lögbroti o.fl.
Ef lögbrot er framið um borð í loftfari ber flugstjóra að gera þær ráðstafanir sem hann getur og nauðsynlegar eru til að afla vitneskju um málið og sem eigi má að meinalausu fresta.
Flugstjóri skal eins og kostur er sjá um að hinn grunaði komist eigi undan og er flugstjóra heimilt, ef nauðsyn ber til, að setja hann í gæslu uns hann verður afhentur lögreglu á Íslandi eða þar til bærum yfirvöldum erlendis.
Flugstjóra er heimilt að taka í sína umsjá hluti sem ætla má að séu sönnunargögn uns þeir verða afhentir lögreglu eða yfirvöldum.
110. gr. Vernd viðkvæmra upplýsinga er varða öryggi.
Flugrekandi/umráðandi skal gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja starfhæfi flugrita, þ.e. ferð- og hljóðrita, og gagnatengla og vernd viðkvæmra upplýsinga.
Ráðherra er heimilt að ákvarða með reglugerð hvaða loftför skuli útbúin flugrita og gagnatengli, hvaða fjarskipti, gögn og upplýsingar skuli tekin upp og hvernig og að hvaða marki skuli skrá og varðveita gögn og upptökur. Jafnframt skal ráðherra heimilt að kveða á um kröfur til öryggis, verndar, geymslu og notkunar upptaka og gagna og aðgengis að slíkum gögnum í þágu aukins flugöryggis.
111. gr. Flutningur hættulegs varnings.
Ekki má flytja hluti eða efni sem stofnað geta heilbrigði, öryggi, eignum eða umhverfinu í verulega hættu, svo sem hættulegan varning, með loftfari nema framfylgja öryggisreglum og fyrirmælum til að draga úr þeirri áhættu samfara flutningi.
Flugrekandi/umráðandi skal koma á og viðhalda verklagi í rekstrarhandbók vegna flutnings hættulegs varnings. Enn fremur skal flugrekandi/umráðandi koma á og viðhalda þjálfunaráætlun á sviði flutnings hættulegs varnings fyrir starfsfólk í samræmi við tæknileg fyrirmæli Alþjóðaflugmálastofnunarinnar.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um flutning hættulegs varnings, þar á meðal hvenær þörf er á sérstakri heimild, vottun eða yfirlýsingu lögbærra stjórnvalda fyrir flutningi hættulegs varnings, hvaða hættulega varning er óheimilt að flytja, takmarkanir á flutningsmagni, ef við á, skyldu flugrekanda/umráðanda til að setja sér verklag um flutning hættulegs varnings og geymslu, fyrirmæli til flugverja og þjálfun starfsfólks, frágang, pökkun og merkingu varnings, flutningsskjöl og hleðslu og tilkynningar og upplýsingaskyldu til stjórnvalda vegna flutnings hættulegs varnings.
112. gr. [Flutningur hergagna og hervopna með loftförum.]1)
[För loftfara með hergögn og hervopn um íslenska lofthelgi er óheimil nema með heimild ráðherra eða þess sem hann felur heimildarveitinguna.
Loftförum skráðum hér á landi er óheimilt að flytja hergögn og hervopn nema með leyfi skv. 6. gr. a vopnalaga, nr. 16/1998.]1)
Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er ríkisloftförum sem skráð eru hér á landi, óskráðum ómönnuðum ríkisloftförum og loftförum opinberra aðila sem sinna þjónustu í almannaþágu eða skyldum á ábyrgð íslenska ríkisins í ríkisflugi heimil för og flutningur hergagna og hervopna um íslenskt yfirráðasvæði, sbr. þó 111. gr.
[Ráðherra er heimilt, að höfðu samráði við ráðherra sem fara með varnarmál og vopnamál, að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar.]1)
1)L. 67/2023, 29. gr.
113. gr. Vopnaðir verðir.
Óheimil er för loftfara með vopnaða verði í almenningsflugi um íslenskt yfirráðasvæði nema með heimild ráðherra eða þess sem hann felur heimildarveitinguna enda liggi fyrir jákvæð umsögn þess ráðherra sem fer með varnarmál, sbr. 2. mgr. 112. gr., og ríkislögreglustjóra. Sama á við um erlend ríkisloftför.
Óheimil er för loftfara sem skráð eru hér á landi með vopnaða verði nema með heimild ráðherra skv. 1. mgr.
114. gr. Upplýsingar um farþega.
Flugrekendur með útgefið flugrekstrarleyfi innan EASA-ríkja í flutningaflugi til og frá Íslandi og flugrekendur með staðfestu í þriðja ríki sem fljúga frá Íslandi skulu gera farþegum kleift að gefa upp nafn og samskiptaupplýsingar þeirra einstaklinga sem hafa skal samband við ef slys ber að höndum. Slíkar upplýsingar skal einungis heimilt að nota ef slys ber að höndum og óheimilt er að miðla þeim til þriðja aðila eða nota í viðskiptalegum tilgangi.
Í kjölfar slyss skal nafn einstaklings sem var um borð ekki birt opinberlega fyrr en tengdur einstaklingur, sbr. 1. mgr., hefur verið upplýstur. Jafnframt skal nafn farþega ekki birt opinberlega hreyfi tengdur einstaklingur, sbr. 1. mgr., andmælum við slíkri opinberri birtingu.
115. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir1) nánari ákvæði um:
a. örugga starfrækslu; undirbúning flugs og verklag í flugi, þ.m.t. stjórnunarkerfi flugrekanda/umráðanda, verklagsreglur og handbækur og tæki, gögn og skjöl sem skulu vera um borð í loftfari og afkastagetu og starfrækslulágmörk loftfara,
b. kröfur um lista eða skjal yfir lágmarksbúnað þar sem kveðið er á um starfrækslu loftfars við tilgreind skilyrði, nauðsynlegan öryggistengdan búnað loftfars og annað sem lýtur að öryggi loftfars,
c. almennar og sértækar kröfur um lágmarksbúnað með tilliti til gerðar loftfars og fyrirhugaðs flugs, þ.m.t. mælitæki og búnað, fjarskipta- og leiðsögutæki og öryggis-, neyðar- og björgunarbúnað,
d. fyrirflugsskoðun og starfrækslu og verklag í flugi,
e. mönnun og samsetningu flugverja í áhöfn,
f. utanumhald, varðveislu og skráningu far-, vinnu- og hvíldartíma; skilgreiningu heimahafnar og skráningu, áætlanir um flugtímaforskriftir og þreytuáhættustjórnun, þ.m.t. málsmeðferð, hvíldaraðstöðu og svefnaðstöðu um borð,
g. kröfur til sérhæfðra flugverja, þ.m.t. kröfur til lágmarksaldurs, líkamlegs og andlegs heilbrigðis, þjálfunar og mats á því hvort þeir séu færir um að sinna þeim skyldustörfum sem þeim eru falin í samræmi við verklagsreglur flugrekanda/umráðanda,
h. þjálfun flugliða, öryggis- og þjónustuliða og sérhæfðra flugverja og fyrirkomulag þjálfunar,
i. starfsskyldur flugverja, verklag og leiðbeiningar,
j. varðveislu skráa, skjala og gagna er varða loftfarið,
k. upplýsingaöryggi og varnir gegn hvers kyns hættu sem kann að ógna öryggi upplýsingakerfa,
l. meðhöndlun gagna og upptaka úr búnaði, kerfum og gagnatengingum loftfars, þ.m.t. kröfur til búnaðar, kerfa og gagnatenginga, notkunar, geymslutíma og varðveislu,
m. kröfur um súrefnisbirgðir og notkun súrefnis,
n. gæðakröfur varðandi eldsneyti, meðferð, geymslu og afhendingu eldsneytis og verklag við eldsneytisáfyllingu,
o. veitingu áfengis um borð og meðferð rafeindatækja um borð,
p. kröfur er snúa að flutningi farþega, t.d. um öryggisbúnað flugfarþega, og verklag þar að lútandi,
q. sértækar kröfur vegna flutnings farms og pósts, meðhöndlunar og eftirlits, þ.m.t. flutnings hættulegs varnings, hergagna, hervopna, m.a. um skilyrði fyrir vottun, heimild eða undanþágu,
r. sérstakar heimildir til starfrækslu loftfars við tiltekin skilyrði,
s. vopnaða verði, kröfur til hæfni og þjálfunar, fyrirkomulag við vopnaburð, framkvæmd og eftirlit og skilyrði fyrir heimild,
t. sérstök skilyrði/kröfur er varða starfrækslu ómannaðra loftfara, svo sem vegna sjónarmiða um almannaöryggi og verndun einkalífs og persónuupplýsinga.
1)Rg. 237/2014, sbr. 288/2015, 348/2015, 781/2015, 978/2015, 74/2016, 122/2016, 990/2016, 539/2018, 1084/2018, 624/2021, 1295/2022, 1301/2023 og 281/2024. Rg. 270/2024.
X. kafli. Vinnuumhverfi flugverja.
116. gr. Gildissvið kaflans.
Ákvæði þessa kafla gilda um alla flugverja, þ.m.t. sérhæfða flugverja, sem starfa um borð í loftfari flugrekanda/umráðanda sem er handhafi vottorðs eða leyfis eða hefur gefið út yfirlýsingu til starfrækslu loftfars í ábataskyni og fellur undir a- eða c-lið 2. mgr. 84. gr., og um opinbera aðila sem sinna þjónustu í almannaþágu eða skyldum á ábyrgð ríkisins, þ.m.t. starfrækslu loftfara sem ekki eru rekin í ábataskyni, og aðila sem sinna verklegri þjálfun flugmanna skv. 79. gr. Nefnast framangreindir aðilar annars vegar flugverjar og hins vegar flugrekendur í kaflanum.
Með ákvæðum þessa kafla er leitast við að tryggja öryggi og heilsusamlegt vinnuumhverfi og að flugrekendur og flugverjar geti í sameiningu leyst úr öryggis- og heilbrigðisvanda um borð í loftförum.
117. gr. Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi flugverja.
Flugrekandi skal stuðla að góðum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi um borð í loftförum og að virkt eftirlit sé með því að vinnuumhverfi þar fullnægi kröfum laga og reglugerða. Í því skyni skal flugrekandi gera nauðsynlegar ráðstafanir er lúta að öryggi og heilsuvernd flugverja, þ.m.t. ráðstafanir í forvarnaskyni, og annast fræðslu og þjálfun, svo og nauðsynlega skipulagningu og viðbúnað. Flugrekandi skal vera vakandi fyrir því að laga þessar ráðstafanir að breyttum kringumstæðum og hafa umbætur að markmiði.
Flugverjar skulu taka þátt í samstarfi er miðar að auknu öryggi og betri aðbúnaði og hollustuháttum um borð í loftfari og einnig stuðla að því að þeim ráðstöfunum sem gerðar eru til að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti sé framfylgt.
118. gr. Öryggistrúnaðarmaður og öryggisnefnd.
Hjá flugrekanda þar sem starfa allt að fjórir flugverjar skulu úrbætur á vinnuumhverfi gerðar í nánu samstarfi flugrekanda og flugverja.
Hjá flugrekanda þar sem starfa fimm flugverjar eða fleiri skulu flugverjar tilnefna eða kjósa öryggistrúnaðarmann til að vera fulltrúi þeirra í málum sem varða vinnuumhverfi um borð í loftförum. Öryggistrúnaðarmaður skal hafa rétt til þess að fara fram á viðeigandi ráðstafanir og til að leggja fram tillögur þar að lútandi til að draga úr hættu sem flugverjum er búin og/eða komast fyrir orsakir hennar.
Hjá flugrekanda þar sem starfa fimm flugverjar eða fleiri skal stofna öryggisnefnd vinnuverndar. Í öryggisnefnd vinnuverndar skulu eiga sæti tveir fulltrúar flugverja, þar af annar fulltrúi flugliða að jafnaði, og tveir fulltrúar flugrekanda. Skipuleggur nefndin aðgerðir varðandi bætt vinnuumhverfi um borð í loftförum og annast fræðslu starfsmanna um þessi efni. Sé starfandi öryggisnefnd með víðtækara starfssvið innan fyrirtækis er heimilt að flytja málefni vinnuverndar undir slíka nefnd enda sé tryggt að fulltrúar flugverja og flugrekanda eigi þess kost að sækja fundi nefndarinnar.
Öryggistrúnaðarmaður flugverja og fulltrúar flugverja í öryggisnefnd vinnuverndar skulu njóta þeirrar verndar trúnaðarmanns sem kveðið er á um í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.
119. gr. Skyldur flugrekanda.
Flugrekandi skal stuðla að samstarfi þeirra sem valdir eða kjörnir eru til þess að fjalla um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi um borð í loftförum og þeirra sem annast vernd og forvarnir fyrir hans hönd. Enn fremur skal hann sjá til þess að þeir sem eru valdir eða kjörnir til að fjalla um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað og þeir sem sitja í öryggisnefnd vinnuverndar fyrir hans hönd fái hæfilegan tíma til þess að gegna skyldum sínum við eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi, fái tækifæri til þess að afla sér nauðsynlegrar þekkingar og menntunar varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi um borð í loftförum og hafi aðgang að þeim gögnum og upplýsingum er varða störf flugverja, svo sem áhættumati, verndarráðstöfunum, tilkynningum um vinnuslys, skýrslum og öðru tilsvarandi.
Flugrekandi ber kostnað vegna starfs að bættum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi og bætir þeim sem að því vinna tekjutap sem af kann að hljótast.
Flugrekandi skal án ástæðulausrar tafar tilkynna til Samgöngustofu öll vinnuslys þar sem flugverji við störf um borð í loftfari deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri sólarhringa auk þess dags sem slysið var. Sama á við um slys þar sem líkur eru á að flugverji hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni.
120. gr. Skyldur flugverja.
Flugverji skal hlýða skipunum yfirmanna sinna í störfum sínum, bera umhyggju fyrir loftfari, fólki og farmi sem í því er og rækja starfsskyldur sínar af samviskusemi.
Sérhver flugverji er ábyrgur fyrir því að gæta eigin öryggis og heilsu eftir því sem hann hefur tök á, svo og annarra einstaklinga sem aðgerðir hans eða aðgerðaleysi í loftfari snertir í samræmi við þjálfun hans og fyrirmæli þau er flugrekandi hefur gefið honum.
Flugverji sem verður var við ágalla eða vanbúnað sem leitt gæti til skerts öryggis vinnuumhverfis eða lakari aðbúnaðar eða hollustuhátta skal umsvifalaust tilkynna það öryggistrúnaðarmanni, fulltrúum í öryggisnefnd eða flugrekanda.
121. gr. Fartíma- og vinnutímamörk, hvíld og orlof.
Hámarksvinnustundir flugverja á hverju almanaksári, þ.m.t. bakvaktir, skulu vera 2.000 klukkustundir og þar af takmarkast fartími við 900 klukkustundir. Vinnustundir skulu dreifast eins jafnt yfir árið og kostur er.
Frídagar þar sem flugverjar eru lausir við alla vinnuskyldu og bakvaktir skulu tilkynntir fyrir fram. Frídagar skulu vera a.m.k. sjö staðardagar í hverjum almanaksmánuði og að minnsta kosti 96 staðardagar á hverju almanaksári sem geta falið í sér hvíldartímabil, í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
122. gr. Heilsuvernd og heilsufarsskoðanir.
Flugrekandi skal gera og fylgja eftir áætlun um heilsuvernd, þar á meðal áætlun um forvarnir.
Flugrekandi skal gera einstaklingum í þjónustu sinni ljósa slysa- og sjúkdómshættu sem kann að vera bundin við starf þeirra.
Flugverjar skulu eiga kost á heilsufarsskoðun á kostnað flugrekanda áður en þeir eru ráðnir til starfa og með reglulegu millibili þaðan í frá meðan þeir eru í starfi.
Flugverjar sem eiga við heilsufarsvanda að stríða sem rekja má til þess að þeir vinna einnig næturvinnu skulu þegar þess er kostur eiga rétt á að vera færðir í dagvinnustörf í lofti eða á jörðu niðri, sem hentar þeim betur.
Ef flugverji veikist eða slasast fjarri heimahöfn og fjarvistin er vegna starfs hans ber flugrekanda að greiða allan kostnað við læknishjálp, sjúkrahúsvist og flutning sjúklings til heimahafnar.
123. gr. Rannsókn vinnuslysa, eftirlit o.fl.
Samgöngustofa annast rannsókn vinnuslysa flugverja um borð í loftförum skráðum hér á landi í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig, að svo miklu leyti sem slík rannsókn fer ekki fram af hálfu rannsóknarnefndar samgönguslysa eða erlends ríkis. Samgöngustofu er heimilt að taka til rannsóknar að eigin frumkvæði vinnuslys eða atvik sem varða heilbrigði flugverja ef talið er að draga megi lærdóm af slíkri rannsókn sem stuðli að auknu heilbrigði og betri aðbúnaði flugverja.
Samgöngustofa skal halda skrá um vinnuslys, atvinnusjúkdóma og eitranir flugverja.
Við eftirlit með vinnuumhverfi flugverja, skráningu og rannsókn vinnuslysa er Samgöngustofu heimilt að eiga samstarf og samvinnu við önnur stjórnvöld, innlend sem erlend.
Samgöngustofa skal, þegar öryggi og heilbrigði flugverja krefst þess, hafa milligöngu um að viðkomandi flugrekendum standi til boða sérfræðiþjónusta við störf að bættum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi.
Öryggistrúnaðarmanni flugverja og fulltrúum flugverja í öryggisnefnd vinnuverndar er heimilt að skjóta málum til Samgöngustofu telji þeir að ráðstafanir sem gerðar hafa verið og úrræði sem flugrekandi notast við tryggi ekki aðbúnað, hollustu og öryggi um borð í loftförum svo viðunandi sé.
124. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir1) nánari ákvæði um:
a. aðbúnað, hollustuhætti og öryggi um borð í loftförum, þ.m.t. skipulag og framkvæmd ráðstafana er miða að auknu öryggi og heilbrigði um borð og bættu vinnuumhverfi,
b. samstarf og þátttöku flugverja, þ.m.t. störf öryggistrúnaðarmanns og öryggisnefndar vinnuverndar,
c. réttindi og skyldur flugrekenda og aðila sem sinna verklegri þjálfun flugmanna,
d. fartíma- og vinnutímamörk og reglur um hvíldartíma og frídaga, þ.m.t. hámarksflugvakt og lágmarkshvíldartíma og hámarks samanlagða fartíma yfir árið eða á hverju afmörkuðu tímabili,
e. heilsuvernd, heilsufarsskoðun og heilsuverndareftirlit og vernd sérstakra áhættuhópa, starfsaðferðir og heilsuvá,
f. rannsókn vinnuslysa um borð í loftförum, skrá flugrekanda um tilkynningarskyld vinnuslys, atvinnusjúkdóma og eitranir, hvenær flugrekanda skuli skylt að tilkynna Samgöngustofu um vinnuslys eða atvik þar sem líkur eru á að flugverji hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni, meðhöndlun tilkynninga, vinnslu og greiningu upplýsinga og meðhöndlun og vernd persónuupplýsinga,
g. gerð og notkun hlífðarbúnaðar, svo sem hentugan fatnað, öryggishjálma, hlífðarbúnað gegn hávaða og geislun, hlífðargleraugu, vinnuskó, rykgrímur, gasgrímur, annan búnað til að verjast loftmengun og annan búnað ótalinn,
h. aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum og aðgerðir gegn heilsuvá og sjúkdómum,
i. framkvæmd eftirlits með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi um borð í loftförum.
1)Rg. 270/2024.
XI. kafli. Tilkynning atvika í flugi.
125. gr. Tilkynningarskylda.
Öll atvik í flugi sem geta stofnað flugöryggi í umtalsverða hættu, þ.m.t. þau atvik sem tilkynna ber til rannsóknarnefndar samgönguslysa, sbr. lög um rannsókn samgönguslysa, skulu tilkynnt:
a. í gegnum tilkynningarkerfi þess fyrirtækis, sbr. 4. mgr., sem tilkynnandi vinnur hjá, semur við eða nýtir sér þjónustu hjá, eða
b. til Samgöngustofu, enda sé Samgöngustofa lögbært landsyfirvald viðkomandi fyrirtækis, sbr. 4. mgr. eða útgefandi vottunar hlutaðeigandi flugmanns, eða til Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins.
Tilkynningarskylda skv. 1. mgr. hvílir á:
a. flugstjóra eða, í þeim tilvikum þar sem flugstjóri getur ekki tilkynnt atvikið, flugverja sem er næstráðandi um borð í loftfari eða á flugrekanda/umráðanda,
b. fjarflugmanni eða flugrekanda/umráðanda ómannaðs loftfars,
c. einstaklingi sem kemur að hönnun, framleiðslu, vöktun á áframhaldandi lofthæfi, viðhaldi eða breytingu loftfars, hluta þess eða búnaðar,
d. einstaklingi sem skrifar undir lofthæfisstaðfestingarvottorð eða afhendingarvottorð fyrir loftfar, hluta þess eða búnað,
e. einstaklingi sem sinnir starfi þar sem krafist er að hann sé vottaður til starfa á sviði flugumferðarþjónustu eða til veitingar flugupplýsingaþjónustu,
f. einstaklingi sem sinnir öryggistengdu starfi á flugvelli,
g. einstaklingi sem sinnir starfi sem tengist uppsetningu, breytingu, viðhaldi, viðgerð, grannskoðun, flugeftirliti eða skoðun flugleiðsöguvirkja,
h. einstaklingi sem sinnir starfi sem tengist afgreiðslu loftfars á jörðu niðri, þ.m.t. eldsneytisáfyllingu, undirbúningi hleðsluskrár, hleðslu, afísun og drætti loftfars á flugvelli.
Einstaklingar skulu tilkynna atvik eins fljótt og verða má en ekki seinna en innan 72 klst. frá því að þeir urðu atviks varir nema sérstakar aðstæður komi í veg fyrir það. Fyrirtæki sem móttekur tilkynningu um atvik skal tilkynna lögbæru stjórnvaldi um atvikið eins fljótt og verða má en ekki seinna en innan 72 klst. frá því að það varð þess vart.
Fyrirtæki skulu koma á tilkynningarkerfi til að auðvelda söfnun upplýsinga um slík tilkynningarskyld atvik. Fyrirtæki samkvæmt þessum kafla merkir hvert það fyrirtæki sem afhendir flugtengdar framleiðsluvörur og/eða sem ræður til sín, semur við eða notar þjónustu einstaklinga sem skylt er að tilkynna atvik í samræmi við 2. mgr.
126. gr. Valfrjálsar tilkynningar.
Til að auðvelda söfnun upplýsinga um atvik sem ekki er skylt að tilkynna, annarra öryggistengdra upplýsinga sem tilkynnandi álítur að stofni flugöryggi raunverulega eða hugsanlega í hættu og um atvik sem tilkynnt eru af einstaklingum sem ekki eru tilkynningarskyldir skv. 125. gr. skulu fyrirtæki skv. 4. mgr. 125. gr. og lögbær stjórnvöld setja á stofn og viðhalda kerfi fyrir valfrjálsar tilkynningar.
Fyrirtæki skulu greina viðeigandi lögbæru stjórnvaldi tímanlega frá atviki og öllum upplýsingum tengdum því og öðrum öryggistengdum upplýsingum sem safnað hefur verið skv. 1. mgr. og geta falið í sér raunverulega eða hugsanlega áhættu fyrir flugöryggi.
127. gr. Gagnagrunnur, miðlægt samevrópskt gagnasafn og skráning upplýsinga.
Tilkynningar og upplýsingar um atvik sem safnað er af Samgöngustofu skal varðveita í sérstökum gagnagrunni til að auðvelda úrvinnslu upplýsinga með það að markmiði að efla flugöryggi. Óheimilt er að veita þriðja aðila aðgang að upplýsingunum eða tilkynningum. Þetta á þó ekki við um upplýsingar sem veittar eru:
a. erlendum ríkjum, stofnunum eða samtökum á grundvelli þjóðréttarlegra skuldbindinga ef tilgangurinn er að vinna að auknu flugöryggi,
b. rannsóknarnefnd samgönguslysa,
c. hagsmunaaðilum sem eru í þeirri stöðu að geta unnið að bættu flugöryggi.
Lögbær stjórnvöld skulu annast söfnun, mat, greiningu, úrvinnslu og varðveislu upplýsinga um atvik sem tilkynnt eru skv. 125. og 126. gr. hvað varðar þá einstaklinga og fyrirtæki sem falla undir eftirlit þeirra. Sama á við um endurgjöf vegna tilkynninga.
Samgöngustofa tekur þátt í samstarfi um miðlægt samevrópskt gagnasafn á sviði flugöryggis og skal stofnunin flytja í gagnasafnið upplýsingar og gögn er varða tilkynningu atvika og greiningu slíkra upplýsinga auk upplýsinga um flugslys og alvarleg flugatvik.
Við meðhöndlun og skráningu tilkynninga í gagnagrunn Samgöngustofu og hið samevrópska gagnasafn skal Samgöngustofa gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja nafnleynd tilkynnanda og einstaklinga sem tilgreindir eru í tilkynningu sem og upplýsingar, þ.m.t. heiti fyrirtækis eða fyrirtækja sem tengjast atvikinu, sem gætu afhjúpað deili á tilkynnanda eða þriðja aðila eða haft í för með sér að rekja megi þær upplýsingar út frá tilkynningunni um atvik. Sama á við hvað varðar tilkynningar um flugslys eða alvarleg flugatvik. Ekki skal skrá persónuupplýsingar í þann hluta gagnagrunns Samgöngustofu og miðlæga samevrópska gagnasafnsins sem þessi kafli tekur til.
128. gr. Vinnsla upplýsinga.
Fyrirtæki skv. 4. mgr. 125. gr. skulu greina upplýsingar um atvik í því skyni að greina áhættu. Á grundvelli greiningarinnar ákveða fyrirtæki, ef við á, aðgerðir til úrbóta og hrinda þeim í framkvæmd.
Fyrirtæki sem auðkennir í kjölfar greiningar skv. 1. mgr. raunverulega eða hugsanlega áhættu í tengslum við flugöryggi skal tilkynna viðeigandi lögbæru stjórnvaldi um bráðabirgðaniðurstöður greiningarinnar og hugsanlegar aðgerðir sem fyrirtækið hyggst grípa til. Fyrirtæki skulu tilkynna viðeigandi lögbæru stjórnvaldi um lokaniðurstöður greiningar um leið og þær liggja fyrir.
Fyrirtæki skulu meðhöndla tilkynningar með sama hætti og greint er í 4. mgr. 127. gr., eftir því sem við á. Fyrirtæki skulu geyma tilkynningar um atvik sem safnað er samkvæmt þessum kafla í sérstökum gagnagrunni, einum eða fleiri eftir því sem við á.
Lögbær stjórnvöld geta heimilað smærri fyrirtækjum að koma á einföldu fyrirkomulagi við söfnun, vinnslu og varðveislu upplýsinga.
129. gr. Sanngirnismenning.
Tilkynning atvika miðar að því að bæta flugöryggi með það að markmiði að koma í veg fyrir flugslys og flugatvik en ekki að upplýsa hver eigi sök eða beri ábyrgð. Óheimilt er að nota upplýsingar í öðrum tilgangi en þeim sem að framan greinir. Í því skyni að stuðla að sanngirnismenningu skulu tilkynningar meðhöndlaðar þannig að komið verði í veg fyrir að þær verði notaðar í öðrum tilgangi en að viðhalda öryggi og viðeigandi ráðstafanir gerðar til að tryggja nafnleynd og trúnað um nafn þess sem tilkynnir og þeirra einstaklinga sem tilgreindir eru í tilkynningu um atvik.
Fyrirtækjum skv. 4. mgr. 125. gr. er óheimilt að láta starfsfólk sitt eða einstaklinga í þjónustu sinni samkvæmt samningi, sem tilkynna um atvik eða eru tilgreindir í tilkynningu, sæta óréttmætri meðferð eða viðurlögum á grundvelli tilkynningar og/eða upplýsinga, nema 3. mgr. 130. gr. eigi við. Sama á við ef starfsfólk eða einstaklingar í þjónustu fyrirtækis samkvæmt samningi beina kvörtun til lögbærra stjórnvalda vegna meintra brota fyrirtækis. Til óréttmætrar meðferðar eða viðurlaga telst t.d. að rýra réttindi, segja upp samningi eða slíta honum eða láta hvern þann sem látið hefur lögbærum stjórnvöldum í té upplýsingar gjalda þess á annan hátt. Séu leiddar líkur að slíku skal gagnaðili sýna fram á að ákvörðun sé reist á öðrum forsendum en þeim að lögbærum stjórnvöldum hafi verið tilkynnt um atvik.
Fyrirtæki skulu í samráði við fulltrúa starfsmanna samþykkja innri reglur sem lýsa því hvernig fyrirtækið tryggir meginreglur um sanngirnismenningu innan þess. Samgöngustofu er heimilt að óska eftir því að fá að yfirfara slíkar reglur áður en þær verða endanlega samþykktar.
Telji starfsmaður eða einstaklingur í þjónustu fyrirtækis samkvæmt samningi að brotið hafi verið gegn 1.–3. mgr. þessarar greinar og 130. gr. getur hlutaðeigandi tilkynnt lögbærum stjórnvöldum um meint brot og upplýst Eftirlitsstofnun EFTA um það. Lögbær stjórnvöld skulu veita tilkynnanda ráðgjöf um úrræði.
130. gr. Vernd tilkynnanda.
Einstaklingur sem tilkynnir í samræmi við ákvæði þessa kafla tilkynningarskyld eða valfrjáls atvik verður ekki sóttur til saka eða beittur viðurlögum samkvæmt lögum þessum vegna brota á lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra.
Tilkynningu um atvik og upplýsingum úr slíkum tilkynningum, þ.m.t. nöfnum tilkynnanda eða einstaklinga sem tilgreindir eru í tilkynningum um atvik, skal ekki beitt sem sönnunargagni í sakamáli eða í einkamáli þar sem gerð er krafa um refsingu eða notaðar í máli sem kann að varða stjórnsýsluviðurlögum.
Sú vernd sem um getur í 1. og 2. mgr. gildir þó ekki ef um er að ræða:
a. vísvitandi misgerð,
b. greinilega, grófa og alvarlega vanrækslu í tengslum við augljósa áhættu og algera vanrækslu varðandi þá faglegu ábyrgð að grípa ekki til aðgerða sem augljóslega er þörf á við aðstæður sem valda einstaklingum eða eignum fyrirsjáanlegum skaða eða stofnar flugöryggi í alvarlega hættu.
131. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir1) nánari ákvæði um:
a. atvik sem skylt er að tilkynna, til hvaða aðila tilkynningarskyldan nær og að skyldan nái til fleiri aðila en taldir eru upp í 125. gr.,
b. valfrjálsar tilkynningar og útfærslu slíks tilkynningarkerfis,
c. eyðublöð, rafrænt form tilkynninga og tilkynningargátt,
d. greiningu atvika, áhættuflokkun og eftirfylgni og annað er máli skiptir til að rekja megi orsakir atvika,
e. vinnslu og greiningu upplýsinga,
f. meðhöndlun og vernd persónuupplýsinga,
g. gæðaeftirlit fyrirtækja og lögbærra stjórnvalda,
h. skýrslugjöf og miðlun upplýsinga í þágu aukins flugöryggis, þ.m.t. upplýsingamiðlun til annarra lögbærra landsyfirvalda og rannsakenda flugslysa og alvarlegra flugatvika, hagsmunaaðila og almennings,
i. gagnagrunna fyrirtækja, Samgöngustofu og miðlæga samevrópska gagnasafnsins, flutning upplýsinga milli gagnagrunna fyrirtækja til Samgöngustofu eða, ef við á, í miðlæga samevrópska gagnasafnið sem og um flutning upplýsinga milli gagnagrunns Samgöngustofu og miðlæga samevrópska gagnasafnsins,
j. aðgengi að upplýsingum úr gagnagrunnum fyrirtækja, Samgöngustofu og miðlæga samevrópska gagnasafninu og takmarkanir á miðlun upplýsinga.
1)Rg. 900/2017, sbr. 525/2023. Rg. 270/2024.
XII. kafli. Flugvellir.
132. gr. Vottun flugvalla.
Flugvöllur sem er opinn almenningi skal vottaður af Samgöngustofu með tilliti til fyrirhugaðrar notkunar. Sama á við um starfrækslu öryggistengds flugvallarbúnaðar sem notaður er eða ætlaður er til notkunar á flugvellinum.
Aðili sem starfrækir eða hyggst starfrækja flugvöll skv. 1. mgr. skal sækja um vottun. Heimilt er að sækja um vottun flugvallar sem ekki er opinn almenningi.
Flugvöllur skv. 1. mgr. skal einnig vottaður hvað varðar starfrækslu og flugafgreiðslu og hlaðstjórnunarþjónustu ef hann veitir þjónustu fyrir flutningaflug eða er ætlaður til notkunar fyrir flutningaflug og er með flugbraut lagða malbikuðu eða steyptu slitlagi sem er a.m.k. 800 metrar að lengd eða þjónar eingöngu þyrlum sem notast við ferla um blindaðflug eða blindbrottflug.
Vottorð flugvallar skal gefið út að fenginni beiðni þar að lútandi þegar umsækjandi hefur sýnt fram á að flugvöllurinn:
a. uppfylli þær kröfur sem ráðherra setur í reglugerð til hönnunar, viðhalds og starfrækslu og vottunargrunns flugvallar sem Samgöngustofa ákvarðar,
b. búi ekki yfir sérkennum eða eiginleikum sem gera notkun hans ótrygga.
Vottorðið skal taka til flugvallarins og öryggistengds flugvallarbúnaðar, sbr. þó 134. gr. Vottorð flugvallar telst innihalda vottunargrunn flugvallar, handbók flugvallar og öll önnur starfræksluskilyrði eða takmarkanir, ef við á. Samgöngustofu er heimilt að fara fram á hvers kyns skoðun, prófun, öryggismat eða æfingu í vottunarferli.
Óheimilt er að starfrækja flugvöll opinn almenningi sem ekki er vottaður.
133. gr. Vottun rekstraraðila flugvallar.
Rekstraraðili flugvallar ber ábyrgð á starfrækslu flugvallar. Rekstraraðili flugvallar sem fellur undir 132. gr. skal háður vottun. Vottorð rekstraraðila flugvallar skal gefið út að fenginni beiðni þar að lútandi þegar umsækjandi hefur sýnt fram á að hann uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til rekstraraðila flugvallar samkvæmt lögum þessum og reglugerð sem ráðherra setur.
Vottorð rekstraraðila flugvallar skal tilgreina réttindi og umfang heimilaðs rekstrar.
Heimilt skal að gefa út eitt vottorð fyrir vottun flugvallar skv. 132. gr. og rekstraraðila flugvallar skv. 1. mgr., ellegar tvö aðskilin vottorð, eitt fyrir flugvöllinn og annað fyrir rekstraraðila flugvallarins.
134. gr. Vottun öryggistengds flugvallarbúnaðar.
Öryggistengdur flugvallarbúnaður sem notaður er eða ætlaður er til notkunar á flugvöllum skv. 3. mgr. 132. gr. skal vottaður í samræmi við vottunarforskriftir. Vottorðið skal tilgreina virkni búnaðarins.
Þrátt fyrir 1. mgr. geta fyrirtæki sem taka þátt í hönnun, framleiðslu og viðhaldi á öryggistengdum flugvallarbúnaði, sem er notaður eða ætlaður til notkunar á flugvöllum sem falla undir 3. mgr. 132. gr., gefið út yfirlýsingu þess efnis að búnaðurinn samrýmist vottunarforskriftum.
Ráðherra er heimilt að ákvarða með reglugerð hvaða búnaður er háður kröfu um vottun eða yfirlýsingu og um aðstæður þar sem slíkrar vottunar eða yfirlýsingar er ekki þörf.
135. gr. Flugafgreiðsla og hlaðstjórnunarþjónusta.
Fyrirtæki sem bera ábyrgð á flugafgreiðslu og hlaðstjórnunarþjónustu á flugvöllum skv. 3. mgr. 132. gr. skulu gefa út yfirlýsingu um hæfni sína og getu til að rækja þær skyldur sem tengjast þjónustunni sem veitt er í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
Ráðherra er heimilt að ákvarða að þeir sem sinna flugafgreiðslu á öðrum flugvöllum en þeim sem falla undir 3. mgr. 132. gr. skuli einnig gefa út yfirlýsingu um hæfni sína og getu til að rækja þær skyldur sem tengjast þjónustunni.
Samgöngustofa skal staðfesta móttöku yfirlýsinga skv. 1. og 2. mgr. og ganga úr skugga um að yfirlýsingarnar innihaldi þær upplýsingar sem krafist er.
136. gr. Breytingar á vottun.
Allar breytingar sem hafa áhrif á skilmála vottorðs, vottunargrunn þess og öryggistengdan flugvallarbúnað eða hafa umtalsverð áhrif á stjórnunarkerfi rekstraraðila flugvallar eru háðar fyrirframsamþykki Samgöngustofu áður en þeim verður hrint í framkvæmd.
Ef rekstraraðili flugvallar hyggst gera breytingar á rekstri flugvallar, aðrar en þær sem krefjast fyrirframsamþykkis skv. 1. mgr., eða hætta rekstri flugvallar skal hann tilkynna fyrirætlun sína til Samgöngustofu eins fljótt og unnt er.
Þann dag sem rekstraraðili lokar flugvelli skal hann afhenda Samgöngustofu vottorð sín. Jafnframt skal rekstraraðili tryggja að viðeigandi ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir að loftför noti flugvöllinn af vangá.
137. gr. Stöðvun starfrækslu og lokun flugvallar.
Ef flugvöllur sem opinn er almenningi er starfræktur án vottunar eða ekki hefur verið sótt um vottun fyrir hann eða rekstraraðila hans getur Samgöngustofa krafist þess að viðeigandi ráðstafanir verði gerðar til að loka flugvellinum.
Sinni eigandi eða umráðandi lands, vatns, fasts eða fljótandi mannvirkis á landi eða úti fyrir strönd ekki þeirri kröfu að stöðva starfrækslu flugvallarins er Samgöngustofu heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir til þess á hans kostnað. Ef þörf krefur er lögreglu skylt að aðstoða Samgöngustofu við þær aðgerðir sem greinir í 1. mgr. Samgöngustofa á endurkröfu á eiganda/umráðanda vegna þess kostnaðar sem stofnunin hefur haft af framangreindum aðgerðum.
138. gr. Flugvallargögn.
Rekstraraðili flugvallar skal útbúa gögn er varða flugvöllinn og þá þjónustu sem boðið er upp á og skulu þau uppfærð reglulega og við hverja breytingu á innviðum, búnaði eða starfrækslu. Gögnin skulu vera nákvæm, læsileg, ítarleg og ótvíræð. Tryggja skal uppruna og viðeigandi stig heilleika gagnanna. Gögnin skulu tímanlega vera aðgengileg notendum og veitanda flugleiðsöguþjónustu.
139. gr. Flugvallarhandbók og þjálfunaráætlun.
Rekstraraðili flugvallar skal gefa út og viðhalda flugvallarhandbók og starfrækja flugvöllinn í samræmi við hana. Slík handbók skal hafa að geyma öll nauðsynleg fyrirmæli, upplýsingar og verklagsreglur um flugvöllinn, öryggistengdan flugvallarbúnað, stjórnunarkerfi, rekstur hans, viðhald og þjónustu.
Öryggisstjórnunarkerfi flugvallar skal vera hluti af flugvallarhandbók.
Rekstraraðili flugvallar skal gefa út og viðhalda þjálfunaráætlun fyrir alla sem tengjast öryggismálum flugvallar.
140. gr. Neyðaráætlun.
Rekstraraðili flugvallar skal koma á neyðaráætlun flugvallar sem tekur til þeirra neyðaraðstæðna sem skapast geta á flugvelli og í nágrenni hans. Áætlunin skal samrýmast neyðaráætlun viðkomandi sveitarfélags og viðbragðsáætlun almannavarna, eins og við á. Æfa skal neyðaráætlun reglulega til prófunar og betrumbóta.
141. gr. Björgunar- og slökkviþjónusta.
Björgunar- og slökkviþjónusta á flugvelli skal bregðast skjótt við flugatvikum eða slysum og skal a.m.k. fela í sér búnað, slökkviefni og nægilegan fjölda starfsfólks. Rekstraraðili flugvallar skal tryggja, beint eða fyrir tilstuðlan samninga við þriðja aðila, að veitt sé viðunandi þjónusta í tengslum við björgunar- og slökkvistarf á flugvelli til samræmis við auglýstan flokk björgunar- og slökkviþjónustu.
142. gr. Eldsneyti og knúningsorka.
Rekstraraðili flugvallar skal sannreyna að aðilar sem sjá um að geyma og sjá loftförum fyrir eldsneyti eða annars konar orku hafi í gildi verklagsreglur til að tryggja að loftförum sé útvegað ómengað eldsneyti eða ómenguð orka og af réttri tegund.
143. gr. Rekstrartakmarkanir vegna hávaða.
Í því skyni að bæta hljóðvist í nágrenni flugvalla er ráðherra eða þeim sem hann felur ábyrgð heimilt að kveða á um sérstakar ráðstafanir til að draga úr hávaða á flugvöllum. Fyrirhugaðar ráðstafanir skulu tilkynntar í samræmi við 234. gr.
144. gr. Verndun flugvallarumhverfis.
Rekstraraðili flugvallar skal vakta starfsemi og þróun sem gæti haft í för með sér óviðunandi öryggisáhættu fyrir flug í nágrenni við flugvöllinn. Vakta þarf svæði þar sem áhætta kann að skapast vegna starfsemi manna og skipulagningar landsvæðis, svo sem hvers konar byggingarstarfsemi eða breytingar á skipulagi landsvæðis, möguleika á því að hindranir valdi ókyrrð í lofti, notkun hættulegra, truflandi og villandi ljósa og leysigeisla, blindu frá stórum flötum sem valda miklu endurvarpi, uppbyggingu svæða sem gæti leitt til aukinnar virkni villtra lífvera í nágrenni við athafnasvæði flugvallarins og uppruna geislunar sem er ekki sýnileg eða tilfærslu færanlegra eða fastra hluta sem geta haft truflandi eða skaðleg áhrif á flug og/eða nothæfi fjarskipta-, leiðsögu- og kögunarkerfa í flugi.
Rekstraraðili skal grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að draga úr áhættu að því marki sem slíkt er á valdi hans og vekja athygli Samgöngustofu og hlutaðeigandi sveitarfélaga á áhættu.
145. gr. Samráð.
Rekstraraðili flugvallar skal hafa samráð við sveitarfélag eða sveitarfélög þar sem flugvöllur er staðsettur og eru í nágrenni við hann um vöktun og verndun flugvallarumhverfis skv. 144. gr.
Sveitarfélag eða ef við á sveitarfélög skv. 1. mgr. skulu hafa samráð við rekstraraðila flugvallar að því er varðar mannvirki og annað sem fyrirhugað er að reisa í nágrenni við flugvöll og kann að hafa áhrif á öryggi.
Rekstraraðili flugvallar skal tilkynna hlutaðeigandi sveitarfélögum og Samgöngustofu um allar hindranir sem hættulegar teljast flugumferð í nágrenni flugvallar.
146. gr. Skipulagsreglur flugvallar.
Ráðherra er heimilt að setja skipulagsreglur fyrir flugvöll sem opinn er almenningi.
Skipulagsreglur skulu innihalda upplýsingar um:
a. afmörkun flugvallarsvæðis, hindranaflata sem og annarra flata sem tengjast flugvellinum og áhrif kunna að hafa á öryggi flugvallar og flugumferðar þar sem nauðsynlegt er að setja takmarkanir á athafnir fólks og á hæð mannvirkja og annarra hluta, svo sem trjáa og stanga, eða takmörkun á meðferð mannvirkja eða hluta, t.d. að því er varðar veitukerfi eða atvinnurekstur, enda séu slíkar kvaðir nauðsynlegar í þágu almenns öryggis,
b. hnattstöðu og mestu hæð hindrana á aðflugs- og flugtakssvæðum, hringflugssvæði og annars staðar sem við á í nágrenni flugvallar,
c. skipulag, starfsemi og umferð innan flugvallarsvæðis.
Við frumathugun að gerð nýrra skipulagsreglna flugvallar skal haft samráð við hlutaðeigandi sveitarfélög með hæfilegum fyrirvara með það að markmiði að tryggja sem best samræmi milli skipulagsáætlana sveitarfélaga og skipulagsreglna flugvallar.
147. gr. Setning skipulagsreglna.
Ákveði ráðherra að setja skuli skipulagsreglur fyrir flugvöll skal hann skipa starfshóp með þátttöku Samgöngustofu, rekstraraðila flugvallarins og hlutaðeigandi sveitarfélaga sem annast gerð tillögu að reglunum. Ráðherra skipar formann starfshópsins án tilnefningar. Markmið starfshópsins skal vera að tillaga að skipulagsreglum tryggi flugöryggi með fullnægjandi hætti með sem minnstum takmörkunum á skipulag þeirra svæða í kringum flugvöllinn sem reglurnar taka til.
Starfshópurinn skal kynna tillögu að skipulagsreglum flugvallar í opnu samráði í a.m.k. sex vikur með áberandi hætti og skora á eigendur mannvirkja og aðra sem hlut eiga að máli að gera athugasemdir. Starfshópurinn skal taka rökstudda afstöðu til þeirra umsagna sem fram kunna að koma. Sé fyrirhugað að gera breytingar á þeirri tillögu sem lögð var fram til umsagnar skal gefa þeim sem í hlut eiga færi á því að kynna sér breytta tillögu áður en hún er lögð fyrir ráðherra. Skal frestur til athugasemda við breytta tillögu vera að lágmarki tvær vikur.
Að lokinni málsmeðferð skv. 2. mgr. sendir starfshópurinn ráðherra tillögu sína að skipulagsreglum ásamt greinargerð. Hyggist ráðherra víkja frá tillögu starfshópsins skal hann gefa starfshópnum tækifæri til umfjöllunar um þær breytingar og jafnframt kynna þær í opnu samráði eftir því sem tilefni er til.
Skipulagsreglur flugvallar taka gildi þegar þær hafa verið staðfestar af ráðherra og birtar. Staðfestar skipulagsreglur flugvallar skal birta í B-deild Stjórnartíðinda og á vefsíðu rekstraraðila flugvallar. Ef gildandi skipulagsreglum flugvallar er breytt skal beita sömu aðferð og við setningu nýrra.
Sveitarfélögum ber að gæta þess að skipulagsáætlanir þeirra og aðrar ákvarðanir á grundvelli skipulagslaga samræmist skipulagsreglum flugvalla frá því að skipulagsreglurnar taka gildi. Þá skulu skipulagsáætlanir sveitarfélaga að fullu samræmdar skipulagsreglum flugvallar innan fjögurra ára frá gildistöku reglnanna. Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. er sveitarstjórn þó heimilt að fresta endurskoðun skipulagsáætlunar í allt að átta ár, enda séu fyrir því gildar ástæður og fyrir liggi jákvæð umsögn rekstraraðila flugvallar.
Ráðherra setur reglugerð1) um málsmeðferð samkvæmt þessari grein þar sem meðal annars er kveðið á um fjölda fulltrúa og lausn ágreiningsmála í starfshópi skv. 1. mgr., auglýsingu tillögu að skipulagsreglum o.fl., að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.
1)Rg. 1144/2023.
148. gr. Frávik frá hæðartakmörkunum o.fl. við setningu skipulagsreglna.
Óheimilt er að víkja frá hæðartakmörkunum eða öðrum takmörkunum á eignarrétti, afnotum og nýtingu eigna sem kveðið er á um í skipulagsreglum flugvallar án samþykkis Samgöngustofu. Ef hindrun er fyrir hendi sem fer í bága við skipulagsreglur flugvallar þegar þær taka gildi skal fjarlægja hana, enda samþykki Samgöngustofa eigi að hún haldist.
Samgöngustofu er heimilt að setja skilyrði fyrir samþykki sínu skv. 1. mgr., svo sem um breytingar, merkingu eða lýsingu mannvirkja. Heimilt er að óska eftir sérstöku öryggismati vegna slíkra beiðna á kostnað umsækjanda.
Eigandi mannvirkis, hlutar eða annars sem jafna má til hindrunar sem Samgöngustofa samþykkir að haldist skal tryggja gæði gagna í samræmi við ákvæði laga þessara og bera ábyrgð og kostnað af því að framfylgja þeim skilyrðum sem Samgöngustofa kann að setja.
Samgöngustofa skal tilkynna hlutaðeigandi sveitarfélögum um ákvarðanir skv. 1. mgr.
149. gr. Framfylgni með skipulagsreglum flugvallar.
Sveitarstjórnum skal heimilt að beita valdheimildum sínum samkvæmt skipulagslögum og lögum um mannvirki til að tryggja framfylgni við skipulagsreglur flugvallar sem tekið hafa gildi. Þar sem eftirliti sveitarstjórna á grundvelli skipulagslaga og laga um mannvirki sleppir skal Samgöngustofa hlutast til um að skipulagsreglum flugvallar sé framfylgt.
Ef takmörkun samkvæmt skipulagsreglum er ekki hlítt án þess að fyrir liggi samþykki Samgöngustofu skv. 2. mgr. 148. gr. skal Samgöngustofa setja þeim er í hlut á frest til að ganga löglega frá málum. Sama gildir ef ekki er framfylgt skilyrðum fyrir samþykki skv. 148. gr. Ef frestur líður án þess að úr sé bætt er Samgöngustofu heimilt að framkvæma nauðsynlegar aðgerðir með atbeina lögreglu.
150. gr. Kvaðir og nauðsynlegar úrbætur í þágu flugöryggis.
Ráðherra er heimilt að leggja kvaðir í þágu flugöryggis á fasteign og mannvirki vegna flugvalla og flugleiðsögu, svo sem í því skyni að tryggja aðgengi, uppsetningu, starfrækslu og viðhald búnaðar, til merkingar eða til að lýsa upp hindrun.
Samgöngustofu er heimilt að krefjast þess að hindranir utan svæðis sem skipulagsreglur flugvallar taka yfir sem vegna hæðar eða annarra eiginleika teljast hættulegar flugumferð séu fjarlægðar eða ef við á merktar í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
Samgöngustofu er heimilt að kveða á um að merki, ljós, búnað, tæki eða fjarskipti sem telja má að flugumferð stafi hætta af megi ekki setja upp og nota eða, ef þörf krefur, nema þau brott eða færa í annað horf.
Telji Samgöngustofa verulega hættu stafa af hindrun eða öðru því sem 2. og 3. mgr. taka til er henni heimilt að bregðast við án tafar og með atbeina lögreglu ef þörf krefur.
Telji eigandi eða rétthafi að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna aðgerða Samgöngustofu skv. 2.–4. mgr. og geti fært á það sönnur skal tjón bætt eftir almennum reglum. Náist ekki samkomulag um bætur getur ráðherra beitt eignarnámi í samræmi við lög um framkvæmd eignarnáms.
151. gr. Skaðabætur og eignarnám.
Ef kvöð skv. 1. mgr. 150. gr. eða gildistaka skipulagsreglna flugvallar leiðir til verulegra takmarkana á eignarrétti, afnotum eða nýtingu, umfram það sem við á um sambærilegar eignir, á eigandi hennar eða réttindahafi kröfu til skaðabóta enda hafi kvöð eða forræðisskerðing í för með sér að eignin verði eigi hagnýtt til fulls miðað við stærð hennar, legu og allar aðstæður eða eigandi hennar verður fyrir fjárhagstjóni sem hann á að fá bætt samkvæmt almennum reglum.
Skaðabóta má krefjast úr hendi rekstraraðila flugvallar vegna gildistöku skipulagsreglna flugvallar. Mats skal óskað innan þess frests sem ákveðinn er í skipulagsreglum flugvallar. Frestur má eigi vera styttri en tvö ár frá birtingu skipulagsreglna. Ráðherra er heimilt að framlengja frest um sex mánuði. Ríkið ábyrgist að skaðabætur séu inntar af hendi. Skaðabætur skal ákveða eftir reglum laga um framkvæmd eignarnáms.
Ef nauðsynlegt er í tengslum við uppbyggingu nýs flugvallar sem opinn verður almenningi, vegna flugvallar sem þegar er í rekstri og opinn er almenningi eða vegna flugleiðsögubúnaðar að afla lands, lóðar eða annarrar eignar og samningum um kaup eða afnot verður ekki við komið má ráðherra heimila, að fenginni umsögn Samgöngustofu, að eign eða hluti hennar sé tekin eignarnámi gegn endurgjaldi sem meta skal samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Samþykki ráðherra fyrir eignarnámi skal meðal annars háð því að eignarnemi setji tryggingu fyrir greiðslu áætlaðra eignarnámsbóta og kostnaðar við matið. Ef eignarnámsbætur fást ekki greiddar hjá eignarnema skal ríkið ábyrgjast greiðslu þeirra.
152. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir1) nánari ákvæði um:
a. flokkun flugvalla með vísan til grunnvirkja, búnaðar og þjónustu,
b. eðliseiginleika, hönnun, grunnvirki og búnað flugvalla, hindranabil, aðflugs- og brottflugsleiðir flugvalla, stjórnun og starfrækslu flugvalla, þjónustu, afköst, rekstur og viðhald,
c. eiginleika öryggistengds flugvallarbúnaðar og starfrækslu og notkun,
d. vottun flugvalla og öryggistengds flugvallarbúnaðar, þ.m.t. ákvörðun vottunargrunns, tilvísun og birtingu vottunarforskrifta og ítarlegra tækniforskrifta, svo sem hönnun, viðhald og starfrækslu og meðhöndlun frávika og breytinga,
e. kröfur til flugvalla, svo sem hvað varðar öryggi, umhverfisvernd, flugvernd, villt dýr, fólk og ökutæki og samhæfingu og samþættingu við aðra aðila,
f. þær kröfur sem rekstraraðili flugvallar skal uppfylla til vottunar, svo sem varðandi skipulag og stjórnun, tilföng, aðstöðu og búnað; fjármögnun og fjárhag, bókhald og reikningsskil; hæfni og þjálfun fyrirsvars- og ábyrgðarfólks og annarra í þjónustu aðila; verklag, tilkynningarkerfi, gæðastjórnun, áætlanir, svo sem vegna þjálfunar, flugöryggis, verndar, viðhalds, viðbúnaðarástands og neyðar, meðhöndlunar hættulegs varnings og upplýsingaöryggis, og varnir gegn hvers kyns hættu sem ógna kann öryggi net- og upplýsingakerfa; kröfur til kerfa, skjalavörslu og skráahalds rekstraraðila flugvallar og aðgengi að gögnum,
g. veitingu þjónustu, þ.m.t. björgunar- og slökkviþjónustu, flugumferðarþjónustu, flugafgreiðslu og hlaðstjórnunarþjónustu á flugvelli, þ.m.t. þær kröfur sem gerðar eru til slíkrar þjónustu hvað varðar þjónustustig og gæði, m.a. með vísan til þeirra krafna og verklagsreglna sem rekstraraðili flugvallar setur,
h. kröfur til aðila sem veita þjónustu á flugvelli, svo sem varðandi skipulag og stjórnun, tilföng, aðstöðu og búnað, verklag og viðhald búnaðar, gæðastjórnun, skjalavörslu, hæfni og þjálfun þeirra sem eru í þjónustu aðila, mönnun og, ef við á, heilbrigði slíkra einstaklinga,
i. flugvallargögn, þ.m.t. uppdrætti og upplýsingar, gæði þeirra og samhæfingu við upplýsingaþjónustu flugmála,
j. sérstakar ráðstafanir til að bæta hljóðvist á flugvöllum og í nágrenni flugvalla, þ.m.t. aðferðafræði, ráðstafanir og takmarkanir,
k. samráð sveitarfélaga og rekstraraðila flugvallar,
l. hindranir og annað sem jafna má til hindrana, m.a. kröfur um sýnileika, lýsingu, gerð, viðhald og eftirlit með merkingum, áhættumat og viðmið óviðunandi áhættu,
m. notkun staða sem ekki teljast flugvellir til flugtaks og lendinga loftfara og til að hefja á loft eða skjóta á loft hlutum og tækjum sem farið geta um loftið en eru ekki loftför.
1)Rg. 75/2016, sbr. 1083/2018 og 283/2024. Rg. 270/2024.
XIII. kafli. Flugvernd.
153. gr. Vottun vegna flugverndar.
Eftirtaldir aðilar eru háðir vottun Samgöngustofu vegna flugverndar í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur:
a. rekstraraðili flugvallar hér á landi,
b. flugrekandi,
c. aðili sem beitir eða hyggst beita flugverndarráðstöfunum og starfrækir rekstur innan sem utan flugvallar og veitir þjónustu og/eða vörur til eða á flugvelli og/eða til flugrekenda/umráðenda loftfara,
d. aðili sem veitir þjálfun á sviði flugverndar,
e. matsaðilar á sviði flugverndar.
Vottorð skal gefa út þegar umsækjandi uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til starfseminnar samkvæmt lögum þessum og reglugerðum sem ráðherra setur. Í vottorði skal tilgreina þau réttindi sem veitt eru umsækjanda, skilyrði, ef við á, gildissvið og gildistíma. Samgöngustofu er heimilt að breyta vottorði til að bæta við eða fella niður réttindi.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er ráðherra heimilt að ákvarða í reglugerð að:
a. í stað vottunar geti aðili gefið út yfirlýsingu þess efnis að starfsemin uppfylli viðeigandi kröfur eða hann hafi getu og tilföng til að uppfylla viðeigandi kröfur í samræmi við lög þessi og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra.
b. tiltekinn flugvöllur og/eða aðgreindir hlutar flugvallar, á grundvelli sértæks áhættumats og að teknu tilliti til þeirrar flugumferðar sem um viðkomandi flugvöll fer, séu undanþegnir kröfu um vottun eða lúti öðrum viðeigandi kröfum.
Aðilum sem háðir eru vottun, tilnefningu eða útgáfu yfirlýsingar fyrir starfsemi sinni samkvæmt þessari grein eða 154. gr. er óheimilt að taka til starfa og neyta þeirra réttinda sem vottun, tilnefning eða útgáfa yfirlýsingar áskilur nema þeir hafi hlotið vottun eða tilnefningu Samgöngustofu, annars til þess bærs aðila, lögbærs landsyfirvalds eða að yfirlýsingu hafi verið veitt viðtaka af þar til bærum stjórnvöldum án athugasemda.
Samgöngustofu er heimilt að birta lista yfir vottaða og tilnefnda aðila vegna flugverndar og, ef við á, skrá þá í gagnagrunn Evrópusambandsins á sviði flugverndar.
154. gr. Flutningur farms og pósts frá þriðju ríkjum.
Flugrekandi/umráðandi loftfars sem hyggst flytja farm og/eða póst frá þriðja ríki með viðkomu, til umflutnings eða til flugvallar á íslensku yfirráðasvæði eða til ríkja sem Ísland hefur samið við vegna þessa skal óska tilnefningar þess lögbæra landsyfirvalds sem ábyrgð ber á tilnefningu og eftirliti með viðkomandi flugrekanda/umráðanda í samræmi við þau skilyrði í reglugerð sem ráðherra setur. Í tilnefningu skal tilgreina þau réttindi sem veitt eru umsækjanda, skilyrði vottunar, ef við á, gildissvið og gildistíma. Samgöngustofu er heimilt að breyta tilnefningu til að bæta við eða fella niður réttindi þeirra flugrekenda/umráðenda loftfars sem stofnunin tilnefnir.
Aðili sem er eða hyggst verða hluti af aðfangakeðju flugrekanda skv. 1. mgr. skal háður tilnefningu og vottun í samræmi við þau skilyrði sem ráðherra setur í reglugerð.
155. gr. Matsaðilar á sviði flugverndar.
Samgöngustofu er heimilt að veita matsaðilum á sviði flugverndar, sem hlotið hafa vottun stofnunarinnar eða annars lögbærs landsyfirvalds innan Evrópusambandsins, Sviss eða Noregs, heimild til að votta flugverndarráðstafanir annarra eftirlitsskyldra aðila í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
156. gr. Áhættumat og vástig vegna flugverndar.
Ríkislögreglustjóri ákvarðar vástig á hverjum tíma og annast, í samvinnu við Samgöngustofu, gerð áhættumats á sviði flugverndar. Um gerð og endurskoðun áhættumats á sviði flugverndar og samstarf opinberra aðila og eftirlitsskyldra aðila við gerð þess fer samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.
Upplýsingum um vástig og aðrar viðeigandi upplýsingar vegna flugverndar skal á hverjum tíma miðlað til eftirlitsskyldra aðila og annarra stjórnvalda eftir því sem þörf krefur.
157. gr. Aðgangsstýring að flugsvæði og haftasvæði flugverndar.
Aðgangur að flugsvæði flugvalla, haftasvæðum flugverndar og, ef við á, aðgreindum svæðum, er aðeins heimill einstaklingum og ökutækjum og vinnuvélum sem hafa til þess lögmætt erindi og gilda aðgangsheimild, sbr. þó b-lið 3. mgr. 153. gr.
Ákvörðun og afmörkun haftasvæða flugverndar, viðkvæmasta hluta haftasvæðis flugverndar og, ef við á, aðgreindra svæða skal háð fyrirframsamþykki Samgöngustofu. Mörk milli almenningssvæðis og flugsvæðis skulu vera þannig úr garði gerð að þau komi í veg fyrir óviðkomandi aðgang. Haftasvæði flugverndar og aðgreind svæði skulu merkt eða auðkennd eftir þörfum.
158. gr. Athugun á bakgrunni.
Einstaklingur skal undirgangast athugun á bakgrunni ef hann:
a. hyggst beita flugverndarráðstöfunum,
b. mun bera ábyrgð á framkvæmd flugverndarráðstafana,
c. þarf starfs síns vegna aðgang að haftasvæði flugverndar,
d. þarf starfs síns vegna aðgang að trúnaðarflokkuðum upplýsingum á sviði flugverndar, mikilvægum upplýsingum, upplýsingatæknikerfum og gögnum í þágu flugverndar,
e. hyggst sækja eða veita flugverndarþjálfun,
f. hyggst sinna eftirliti á sviði flugverndar.
Ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á athugun á bakgrunni einstaklinga og getur ákveðið að önnur lögregluembætti fari með framkvæmd athugunarinnar.
Athugun á bakgrunni skal framkvæmd í samræmi við umsókn einstaklings, tilgang og það stig aðgangs að upplýsingum sem sótt er um og í samræmi við þær kröfur sem ráðherra setur í reglugerð.
Lagt skal mat á öryggishæfi umsækjanda, áreiðanleika og hvort öryggi flugsamgangna og flugstarfsemi kunni að stafa hætta af umsækjanda. Athugun á bakgrunni skal að lágmarki fela í sér:
a. að sanna deili á einstaklingi,
b. að kanna menntun og fyrri störf, þ.m.t. hvers konar rof þar á, næstliðin fimm ár,
c. að kanna sakaferil í öllum ríkjum þar sem umsækjandi hefur haft búsetu, næstliðin fimm ár; við athugun á sakaferli skal meðal annars kanna hvort umsækjandi eigi afbrotaferil að baki, sé grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi eða bíði dóms.
Veiti umsækjandi villandi eða rangar upplýsingar í umsókn er lögreglu heimilt að veita neikvæða umsögn eða synja um umsögn.
159. gr. Framkvæmd athugunar á bakgrunni.
Í athugun á bakgrunni felst skoðun lögreglu á upplýsingum um einstakling sem veitt hefur heimild sína eða staðfestingu til framkvæmdarinnar. Upplýsingaöflun felur meðal annars í sér skoðun á:
a. skrám lögreglu, þ.m.t. málaskrá lögreglu,
b. sakaskrá og skrám dómstóla,
c. upplýsingakerfi Alþjóðalögreglunnar, Löggæslusamvinnustofnunar Evrópusambandsins eða annarra erlendra yfirvalda og stofnana,
d. upplýsingakerfum tollyfirvalda,
e. upplýsingakerfi þjóðskrár.
Ef um er að ræða herta athugun á bakgrunni felur upplýsingaöflun einnig í sér önnur gögn og viðeigandi upplýsingar sem eru tiltækar og má telja að skipt geti máli til að ákvarða hæfi umsækjanda.
Athugun á bakgrunni skal fara fram með reglulegu millibili. Aldrei má þó ganga lengra við könnun á bakgrunni og sakaferli en þörf krefur hverju sinni.
Lögreglu er heimilt að kalla umsækjanda til viðtals telji hún það nauðsynlegt til að upplýsa nánar um atriði sem koma fram í umsókn eða í upplýsingum skv. 1. mgr. Ef upplýsingar skv. 1. mgr. gefa ástæðu til að ætla að viðkomandi neyti geðvirkra efna er lögreglu heimilt að óska eftir því að umsækjandi undirgangist skimun á eigin kostnað, þ.m.t. blóð- og þvagrannsókn, enda teljist niðurstöður slíkrar rannsóknar geta haft áhrif á niðurstöðu athugunar lögreglu.
Synjun umsækjanda á því að veita persónulegar upplýsingar eða undirgangast skimun vegna geðvirkra efna að ósk lögreglu skal leiða til neikvæðrar umsagnar.
Neikvæð umsögn skal leiða til synjunar á umsókn og ef við á afturköllunar á gildandi áhafnarskírteini, aðgangsheimild og aðgangi að trúnaðarflokkuðum upplýsingum á sviði flugverndar.
Lögreglu er heimilt að vísa til upplýsinga um einstakling úr skrám skv. 1. mgr. máli sínu til stuðnings í neikvæðri umsögn enda sé þá rökstudd ástæða til að draga í efa hæfi einstaklingsins til að fara með málefni flugverndar lögum samkvæmt. Rökstuðning má takmarka að því leyti sem vísa þarf til trúnaðarflokkaðra gagna sem umsækjanda er ekki heimill aðgangur að. Að öðru leyti gilda ákvæði stjórnsýslulaga um málsmeðferðina.
Ákvæði 236. og 237. gr. gilda eftir því sem við á um umsögn lögreglu.
Jákvæð umsögn lögreglu vegna athugunar á bakgrunni skal liggja fyrir áður en:
a. þjálfun á sviði flugverndar hefst,
b. áhafnarskírteini er gefið út af flugrekanda með höfuðstöðvar sínar eða aðalaðsetur hér á landi,
c. aðgangsheimild er gefin út af rekstraraðila flugvallar hér á landi, og
d. aðgangur er veittur að trúnaðarflokkuðum upplýsingum á sviði flugverndar.
160. gr. Skimun og leit.
Samgöngustofu er heimilt að veita aðila með gilt vottorð skv. 153. gr. heimild til að skima og leita á mönnum, í farangri, farmi, pósti, rekstrarvörum og öðrum varningi áður en aðgangur er veittur eða flutningur fer fram um borð í loftfar, haftasvæði flugverndar eða aðgreind svæði.
Handleit skal ætíð framkvæmd af einstaklingi af sama kyni nema sá sem undirgengst leit samþykki annað. Einstaklingum með hlutlausa kynskráningu skal boðið að velja hvort kona eða karl framkvæmir handleit á þeim. Líkamsleit skal aðeins framkvæmd af lögreglu. Skimun og leit skal framkvæmd af eins mikilli tillitssemi og unnt er og hún má aldrei verða víðtækari en nauðsynlegt er.
Synja skal þeim um aðgang að haftasvæði flugverndar, aðgreindu svæði og um brottför og komu sem neita að undirgangast skimun eða leit.
Heimilt er að vísa frá flugvallarsvæði þeim sem synjað er um aðgang að haftasvæði flugverndar, aðgreindu svæði eða um brottför eða komu.
161. gr. Vernd gagna og upplýsinga á sviði flugverndar.
Aðgangur einstaklings að gögnum og upplýsingum sem falla undir trúnaðarflokkaðar upplýsingar vegna flugverndar er háður gildri jákvæðri umsögn vegna athugunar á bakgrunni skv. 158. og 159. gr. eða gildri öryggisvottun í samræmi við ákvæði varnarmálalaga.
Samgöngustofa miðlar gögnum og upplýsingum á sviði flugverndar og ákvarðar aðgengi í samræmi við þarfir viðkomandi einstaklings og, ef við á, stig trúnaðarflokkunar enda uppfylli einstaklingur skilyrði 1. mgr., hefur hlotið fræðslu um meðferð upplýsinga og gagna á sviði flugverndar og, ef við á, trúnaðarflokkaðra upplýsinga og undirritað yfirlýsingu um trúnað og staðfest ábyrgð sína og skyldur til meðhöndlunar og varðveislu gagnanna og upplýsinganna.
Vernd, varðveisla, meðferð, merking og miðlun trúnaðarflokkaðra upplýsinga skal vera í samræmi við reglugerð sem ráðherra sem fer með varnarmál setur. Um vernd og meðhöndlun annarra upplýsinga og gagna er varða flugvernd fer eftir reglugerð sem ráðherra sem fer með samgöngumál setur.
162. gr. Bannaðir hlutir, efni, tæki og tól.
Óheimilt er að flytja hvers kyns hluti, efni, tæki eða tól inn á haftasvæði flugverndar eða um borð í loftfar ef af getur stafað ógn eða hætta fyrir öryggi flugsamgangna, flugs og/eða farþega nema þeir teljist nauðsynlegir fyrir starfrækslu loftfarsins vegna skyldustarfa um borð eða starfrækslu flugvallar.
163. gr. Vottun búnaðar, tækja og dýra.
Búnaður, tæki og dýr sem notuð eru við skimun, aðgangseftirlit og framkvæmd flugverndar skulu uppfylla þær kröfur um vottun og, ef við á, þá staðla sem ráðherra ákveður í reglugerð. Búnaður og tæki skulu starfrækt, staðsett, uppsett, viðhaldið og prófuð í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
164. gr. Tilkynningarskylda vegna flugverndar.
Hver sá sem verður þess áskynja að á flugsvæði flugvallar, í flugstöð eða um borð í loftfari er einstaklingur, hlutur eða efni, sem talið er að hætta geti stafað af, eða verður á annan hátt var við ólögmæt afskipti af flugi, tilraun til slíkra afskipta eða ásetning um slíkt skal þegar í stað tilkynna það til lögreglu eða eftir atvikum flugstjóra, flugrekanda eða rekstraraðila flugvallar.
Eftirlitsskyldir aðilar skulu án tafar gera Samgöngustofu viðvart um tilkynningar skv. 1. mgr. og greina frá atvikum.
165. gr. Hlutverk Samgöngustofu á sviði flugverndar.
Hlutverk Samgöngustofu á sviði flugverndar er meðal annars að:
a. viðhalda, í samráði við ráðherra, og annast innleiðingu flugverndaráætlunar Íslands þar sem ábyrgð varðandi framkvæmd sameiginlegra grunnkrafna á sviði flugverndar er skilgreind og ráðstöfunum um framkvæmd flugverndar er lýst, þ.m.t. gæða- og þjálfunaráætlunum á sviði flugverndar,
b. vera stjórnvöldum og eftirlitsskyldum aðilum til ráðgjafar um framkvæmd flugverndar, mat á áhættu og ógn gegn flugsamgöngum,
c. tryggja almenningi og eftirlitsskyldum aðilum viðeigandi upplýsingar á sviði flugverndar eftir því sem við á.
166. gr. Þagnarskylda.
Hver sá sem starfar að flugvernd, veitir þjálfun á sviði flugverndar eða sinnir störfum vegna flugsamgangna er bundinn þagnarskyldu um atvik sem honum verða kunn í starfi sínu eða vegna starfa sinna, hvort sem það er fyrir tilviljun eða ekki, og leynt eiga að fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna eða hagsmuna í þágu flugverndar. Samkvæmt þagnarskyldu er óheimilt að miðla eða notfæra sér í eigin þágu eða annarra upplýsingar um einkahagi manna, sem eðlilegt er að leynt fari, upplýsingar sem varða framkvæmd flugverndar og verklag, fyrirhugaðar aðgerðir vegna flugverndar og aðrar upplýsingar sem leynt skulu fara samkvæmt lögum, reglugerðum, fyrirmælum eða eðli máls.
Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
167. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir1) nánari ákvæði um:
a. hverjir teljist eftirlitsskyldir aðilar á sviði flugverndar, þ.m.t. aðilar með höfuðstöðvar sínar eða aðalaðsetur utan Íslands,
b. þær kröfur sem eftirlitsskyldir aðilar skulu uppfylla til vottunar, svo sem varðandi skipulag og stjórnun, tilföng, aðstöðu og búnað, hæfni og þjálfun fyrirsvars- og ábyrgðarfólks og annarra í þjónustu aðila, þ.m.t. viðmiðanir fyrir ráðningu, verklag, tilkynningarkerfi, gæðastjórnun og áætlanir, svo sem vegna þjálfunar, verndar, viðhalds, viðbúnaðarástands og neyðar, upplýsingaöryggi og varnir gegn hvers kyns hættu sem ógna kann öryggi net- og upplýsingakerfa,
c. kröfur til sjálfstæðra matsaðila og tilfærslu eftirlits og vottana til sjálfstæðra matsaðila á sviði flugverndar,
d. efni og útgáfu flugverndaráætlunar, þ.m.t. takmörkun á birtingu efnis að hluta eða í heild,
e. framkvæmd flugverndar, ábyrgð á framkvæmd, verklag, aðferðir og ráðstafanir til að vernda mannslíf, loftför, farm, póst, mannvirki, þ.m.t. leiðsögumannvirki, og sérstakar verndarráðstafanir,
f. aðferðir, framkvæmd skimunar, leitar og gæðaeftirlits, þ.m.t. staðla og kröfur til búnaðar og dýra sem notuð eru við skimun og leit eða aðrar flugverndarráðstafanir og prófanir á slíkum búnaði,
g. áhættumat og ákvörðun vástigs vegna flugverndar, kröfur til aðferða og verklags sé vástig hækkað,
h. viðmiðunarskrá yfir bannaða hluti, efni, tæki og tól og í hvaða tilvikum er heimilt að víkja frá banni skv. 162. gr., um meðferð, geymslu og eyðingu þeirra og miðlun upplýsinga þar að lútandi,
i. skipulag og skilgreiningu svæða innan flugvallar með tilliti til flugverndar, ákvörðun og afmörkun haftasvæða flugverndar utan flugvallar,
j. aðgangsstýringu að flugsvæði flugvallar og öðrum skilgreindum svæðum flugvallar, haftasvæðum flugverndar og afmörkun á hvað telst gild aðgangsheimild, skilyrði og kröfur til útgáfu aðgangsheimildar, form og efni, skilyrði til að breyta, takmarka, fella tímabundið niður eða afturkalla aðgangsheimild,
k. athugun á bakgrunni vegna flugverndar, form og efni umsókna, almenn og sértæk viðmið við mat á bakgrunni, áhrif dæmdra brota gegn lögum og reglugerðum og tímafresti þar að lútandi, áhrif opinna mála lögreglu og handhafa ákæruvalds með tilliti til réttarstöðu umsækjanda, áhrif niðurstöðu skimunar á geðvirkum efnum, frekari upplýsingaöflun, skráningu umsagnar lögreglu og eftirlit með einstaklingum, sem hlotið hafa jákvæða umsögn, í skrám lögreglu, endurmat á athugun á bakgrunni, afturköllun jákvæðrar umsagnar, miðlun niðurstöðu athugunar á bakgrunni til viðeigandi aðila og gagnkvæma viðurkenningu athugunar erlendra stjórnvalda á bakgrunni samkvæmt samningi þeirra við Ísland,
l. hæfnikröfur við ráðningu, þjálfun og vottun þeirra er starfa að flugvernd, kröfur til sí- og endurmenntunar, hæfnikröfur til þeirra og vottun er annast þjálfun á sviði flugverndar og hæfnikröfur til þeirra er annast eftirlit á sviði flugverndar,
m. flugverndarkröfur til loftfara, svo sem búnaðar, vöktunar og aðgengis,
n. jafngilda viðurkenningu krafna um flugvernd í þriðju ríkjum, gagnkvæma viðurkenningu á sviði flugverndar, verklag og réttaráhrif falli gagnkvæm viðurkenning niður eða sé afturkölluð,
o. vernd, miðlun og varðveislu upplýsinga og gagna á sviði flugverndar sem ekki eru trúnaðarflokkaðar,
p. eftirlit Samgöngustofu og Eftirlitsstofnunar EFTA með framkvæmd flugverndar og eftirlitsskyldum aðilum, athuganir og sannprófanir, og meðhöndlun frávika,
q. upplýsingamiðlun um flugvernd og samstarf og samvinnu á sviði flugverndar við erlend ríki og alþjóðlegar og svæðisbundnar stofnanir.
Ráðherra er heimilt að birta aðeins að hluta eða öllu leyti efni reglugerða skv. d- og e-lið 1. mgr. þeim einstaklingum sem starfs síns vegna þurfa að hafa vitneskju um efni hennar enda varði efni reglugerðarinnar beina flugverndarhagsmuni og öryggi og trúnaðarflokkun leiði af lögum, eðli máls eða þjóðréttarlegum skuldbindingum. Miðlun upplýsinga sem háðar eru trúnaðarflokkun skal tryggð með sannanlegum hætti.
Rekstraraðilum flugvalla og rekstraraðilum rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu er heimilt að setja reglur um aðgangsstýringu, útgáfu aðgangsheimilda og afmörkun haftasvæða vegna flugverndar og aðgreindra svæða og, ef við á, bannsvæða og svæða þar sem öll umferð er takmörkuð.
1)Rg. 750/2016, sbr. 287/2017, 515/2017, 1203/2017, 117/2018, 770/2018, 52/2019, 439/2019, 644/2019, 1053/2019, 491/2020, 844/2020, 1195/2020, 298/2021, 695/2021, 1297/2022, 453/2023 og 280/2024. Rg. 270/2024.
XIV. kafli. Loftrýmið og þjónusta við flugumferð.
168. gr. Öryggi flugumferðar.
Flugumferð skal veitt þjónusta til að tryggja flugöryggi og greiða fyrir almennri flugumferð, að teknu tilliti til öryggissjónarmiða og flutningsþarfar í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
169. gr. Umferð í lofti.
Loftför sem starfrækt eru á íslensku yfirráðasvæði eða á athafnasvæði flugvallar og loftför sem skráð eru í loftfaraskrá, hvar sem þau eru stödd, skulu á öllum stigum flugs fara að flugreglum sem ráðherra setur í reglugerð sem og þeim reglum og starfsaðferðum sem gilda um notkun loftrýmisins nema samningar við erlend ríki eða lög þess ríkis sem loftfarið fer um leiði til annars. Framangreind loftför skulu búin tilskildum tækjabúnaði og skal sá búnaður starfræktur á tilskilinn máta í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
Þrátt fyrir 1. mgr. er Samgöngustofu heimilt, að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni þar að lútandi, að undanþiggja einstaka aðila eða hóp aðila frá einstökum flugreglum.
Yfir úthöfum og í loftrými þar sem engu ríki hefur verið ákvarðaður fullveldisréttur gilda flugreglur í viðauka 2 við Chicago-samninginn án undantekninga.
170. gr. Tilnefning þjónustuveitanda.
Ráðherra skal tilnefna veitanda flugumferðarþjónustu sem veittur er einkaréttur til flugumferðarþjónustu innan tiltekins loftrýmisumdæmis á íslensku yfirráðasvæði og innan þess loftrýmis sem íslenska ríkið er skuldbundið til að veita flugumferðarþjónustu.
Heimilt er ráðherra að tilnefna þjónustuveitanda sem veittur er einkaréttur á íslensku yfirráðasvæði og innan þess loftrýmis sem íslenska ríkið er skuldbundið til að veita loftförum eftirfarandi þjónustu:
a. afhenda veðurfræðileg gögn, að hluta til eða í heild,
b. samræma upplýsingaþjónustu í öllum eða hluta þeirra u-rýmisloftrýma sem ákvörðuð hafa verið.
Tilnefndur aðili skal vera handhafi gilds vottorðs í samræmi við þá þjónustu sem tilnefning lýtur að og uppfylla þær kröfur sem lög þessi og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra tilgreina. Tilnefning skal vera tímabundin.
171. gr. Vottun starfsemi sem veitir flugumferð þjónustu.
Eftirtalin starfsemi, annaðhvort ein og sér eða samsett, sem veitt er á íslensku yfirráðasvæði er háð vottun samkvæmt lögum þessum:
a. eftirtalin þjónusta á sviði rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsögu:
1. fjarskiptaþjónusta,
2. flugumferðarþjónusta,
3. flæðistýring flugumferðar, staðbundin eða miðlæg,
4. flugferlahönnun,
5. kögunarþjónusta,
6. leiðsöguþjónusta,
7. loftrýmisstjórnun á úrlausnarstigi,
8. þjónusta netstjórnanda,
9. upplýsingaþjónusta flugmála,
10. veðurþjónusta,
11. gagnaþjónusta,
b. veiting samevrópskrar rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu og samevrópskrar u-rýmisþjónustu,
c. veiting u-rýmisþjónustu,
d. veiting samræmdrar upplýsingaþjónustu í u-rýmisloftrými.
Vottorð geta verið gefin út fyrir hvern þjónustuþátt skv. 1. mgr. eða fyrir fleiri saman. Í vottorði skal tilgreina réttindi og skyldur þjónustuveitanda sem og hvaða skilyrði og/eða takmarkanir gilda um þjónustuna.
Umsækjandi með höfuðstöðvar eða aðalaðsetur hér á landi skal sækja um vottun skv. 1. mgr. hjá Samgöngustofu, nema hvað varðar miðlæga flæðistýringu flugumferðar, þjónustu netstjórnanda og gagnaþjónustu skv. 3., 8. og 11. tölul. a-liðar 1. mgr. og veitingu samevrópskrar rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu og samevrópskrar u-rýmisþjónustu skv. b-lið 1. mgr. sem beint skal til Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins. Stofnunin er einnig lögbært stjórnvald hvað varðar þá veitendur þjónustu skv. c- og d-lið 1. mgr. sem hafa höfuðstöðvar eða aðalaðsetur utan EASA-ríkjanna, og hönnun, framleiðslu, viðhald og rekstur kerfa og kerfishluta fyrir veitingu samevrópskrar þjónustu við flugumferð skv. 172. og 173. gr.
Þrátt fyrir 1. mgr. skal þeim sem sjá um flugupplýsingaþjónustu heimilt að lýsa því yfir að þeir búi yfir getu og aðgengi að tilföngum til að leysa af hendi þau skyldustörf sem tengjast þjónustunni.
Ráðherra er heimilt að kveða á um tímabundna undanþágu frá vottun skv. a- og b-lið 1. mgr. fyrir rekstraraðila flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu í reglugerð enda séu höfuðstöðvar eða aðalaðsetur veitanda þjónustunnar utan yfirráðasvæðis EASA-ríkjanna og þjónustan taki aðeins til lítils hluta flugumferðar í takmörkuðum hluta þess loftrýmis sem íslenska ríkið ber ábyrgð á að veita þjónustu og öðrum skilyrðum sem ráðherra setur sé fullnægt.
Veiti flugrekandi/umráðandi ómannaðs loftfars sér sjálfur u-rýmisþjónustu skal hann vottaður skv. 1. mgr.
172. gr. Kerfi og kerfishlutar.
Kerfi og kerfishluta, sem miðla upplýsingum til loftfara og frá þeim og á jörðu niðri, skal hanna, framleiða, setja upp, viðhalda og verja gegn óheimilum aðgangi og starfrækja með tilhlýðilegum hætti til að tryggja fyrirhugaða notkun.
Ráðherra er heimilt að ákvarða í reglugerð að:
a. veitendum þeirrar þjónustu sem tiltekin er í 1. mgr. 171. gr. og veitt er borgaralegum loftförum sé skylt að lýsa því yfir að kerfin og kerfishlutarnir sem þeir taka í notkun uppfylli viðeigandi vottunarforskriftir sem tilteknar eru í reglugerð, eða
b. að kerfin og kerfishlutarnir séu háðir vottun í samræmi við vottunarforskriftir.
Þrátt fyrir 2. mgr. er fyrirtækjum sem hanna, framleiða eða viðhalda kerfi og kerfishluta heimilt að gefa út yfirlýsingu þess efnis að þessi kerfi og kerfishlutar samrýmist viðeigandi forskriftum og að þau henti til notkunar.
Séu kerfi- eða kerfishlutar háðir vottun samkvæmt þessari grein fer með slíka vottun skv. 2. mgr. 173. gr. eftir því sem við á.
173. gr. Hönnun, framleiðsla og viðhald kerfa eða kerfishluta.
Ráðherra er heimilt að ákvarða með reglugerð að fyrirtæki sem taka þátt í hönnun, framleiðslu eða viðhaldi á kerfum eða kerfishlutum fyrir veitingu þeirrar þjónustu sem háð er vottun skv. 1. mgr. 171. gr.:
a. gefi út yfirlýsingu þess efnis að þau hafi getu og úrræði til þess að rækja skyldur sínar í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, eða
b. séu handhafar vottorðs.
Vottorð skv. b-lið 1. mgr. skal gefið út að fenginni beiðni þar um enda hafi umsækjandi sýnt fram á að hann uppfylli þær kröfur sem ráðherra ákvarðar í reglugerð. Vottorðið skal tilgreina þau réttindi sem veitt eru. Lögbæru stjórnvaldi er heimilt að breyta vottorði til að auka eða minnka réttindi.
174. gr. Almennar kröfur til veitanda þjónustu fyrir flugumferð.
Veitandi þjónustu sem háð er vottun skv. 1. mgr. 171. gr. skal tryggja að hann sé fær um að veita þjónustuna á öruggan, skilvirkan, samfelldan og varanlegan hátt í samræmi við fyrirsjáanlega heildareftirspurn í tilteknu loftrými. Veitandinn skal meðal annars viðhalda fullnægjandi tækni- og rekstrarlegu hæfi og sérþekkingu, innleiða og viðhalda stjórnunarkerfi, útbúa og viðhalda rekstrarhandbókum og verklagsreglum um starfsemi sína og geta sýnt fram á að starfsaðferðir hans og verklagsreglur samrýmist þeim kröfum sem ráðherra setur í reglugerð. Þjónustuveitandi skal enn fremur sjá til þess að fyrir hendi sé viðunandi og fullnægjandi aðstaða fyrir starfsemina og að hann hafi yfir að ráða hæfu starfsfólki, þ.m.t. tæknifólki sem sinnir öryggistengdum verkefnum og hefur hlotið viðeigandi þjálfun til að sinna störfum sínum.
Veitandi þjónustu sem háð er vottun skv. 1. mgr. 171. gr. skal vera fær um að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar og gera viðeigandi ráðstafanir til að standa undir þeirri hugsanlegu bótaábyrgð sem tengist framkvæmd þjónustunnar. Þjónustuveitandi skal hafa og viðhalda viðbragðsáætlun í samræmi við þá þjónustu sem hann veitir til að bregðast við atburðum sem hafa í för með sér verulega skerðingu eða truflun á starfsemi hans.
Þjónusta veitenda skv. 1. mgr. 171. gr. og hönnun, framleiðsla, viðhald og rekstur kerfa og kerfishluta sem tengjast þjónustunni skal vera í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
175. gr. Opin og gagnsæ þjónusta.
Veitandi þjónustu sem háð er vottun skv. 1. mgr. 171. gr. skal veita þjónustu sína á opinn og gagnsæjan hátt. Hann skal birta skilyrði fyrir aðgangi að þjónustunni og breytingum þar á sem og koma á reglulegu samráðsferli með notendum þjónustunnar eftir þörfum, t.d. vegna sértækra breytinga á þjónustu, annaðhvort á einstaklingsmiðuðum eða á sameiginlegum grundvelli.
Veitanda þjónustu er óheimilt að mismuna þjónustunotendum á grundvelli þjóðernis eða annarra einkenna eða hópi notenda.
176. gr. Upptökur og varðveisla gagna.
Veitandi þjónustu sem háð er vottun skv. 1. mgr. 171. gr. skal taka upp hvers konar fjarskipti vegna þjónustu sinnar og skrá gögn sem berast vegna hennar. Ráðherra skal tilgreina nánar í reglugerð hvaða fjarskipti og gögn veitendur þjónustu skulu taka upp, skrá og varðveita. Óviðkomandi aðilum skal ekki veittur aðgangur að gögnum þessum nema samkvæmt sérstakri lagaheimild eða dómsúrskurði.
177. gr. Skipulag og hönnun loftrýmis.
Ráðherra fer með skipulag loftrýmis á íslensku yfirráðasvæði og í því loftrými þar sem Ísland er skuldbundið til að veita þjónustu á grundvelli þjóðréttarsamninga. Ráðherra til aðstoðar er Samgöngustofa sem undirbýr gerð loftrýmisskipulags.
Í loftrýmisskipulagi skal kveðið á um:
a. stefnu um skipulag loftrýmis,
b. afmörkun þjónustusvæða,
c. flokkun loftrýmis,
d. svæði sem skilgreind eru ótímabundið, þ.m.t. u-rýmisloftrými,
e. annað sem máli skiptir fyrir nýtingu loftrýmisins.
Við gerð loftrýmisskipulags skal meðal annars lýsa umhverfi og aðstæðum á skipulagssvæðinu og forsendum þeirrar stefnu sem það felur í sér og gera grein fyrir áhrifum þess og einstakra stefnumiða. Þá skal leitast við að taka tillit til öryggis, skilvirkni og umhverfissjónarmiða í samræmi við stefnu stjórnvalda, önnur lög og stjórnvaldsfyrirmæli þar sem flugtak, lending og/eða flug loftfara er háð takmörkunum eða banni.
Við gerð loftrýmisskipulags skal leita eftir sjónarmiðum og tillögum viðkomandi stjórnvalda, loftrýmisnotenda, almennings og annarra hagaðila um mótun stefnu. Sérstakt samráð skal haft við sveitarfélög, rekstraraðila flugvalla og rekstraraðila rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu.
Loftrýmisnotendum, stjórnvöldum og öðrum hagaðilum er heimilt að koma á framfæri tillögum til Samgöngustofu um breytingar á skipulagi og hönnun loftrýmis í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
Skipulag loftrýmis og allar breytingar á skipulagi og hönnun loftrýmis skal birta fyrir tilstilli upplýsingaþjónustu flugmála í flugmálahandbók, með upplýsingabréfi flugmála og/eða með tilkynningu til flugliða.
178. gr. Tímabundið skipulag.
Samgöngustofu er heimilt að kveða á um tímabundið skipulag loftrýmis skv. c–e-lið 2. mgr. 177. gr. enda vari slíkt skipulag ekki lengur en þörf krefur. Stofnuninni er heimilt að fela veitanda flugleiðsöguþjónustu, u-rýmisþjónustu og samevrópskri u-rýmisþjónustu umsýslu beiðna og úrlausn í rauntíma.
179. gr. Miðlun upplýsinga um loftrýmismál.
Samgöngustofa skal annast miðlun upplýsinga um loftrýmismál og milligöngu við önnur innlend stjórnvöld og opinbera aðila og veitendur þjónustu skv. 1. mgr. 171. gr. um beiðni almennings og hagaðila um nýtingu loftrýmisins, flug loftfara og lendingu eða flugtak í loftrými sem háð er takmörkunum eða banni samkvæmt loftrýmisskipulagi.
Samgöngustofa skal birta almennar og sértækar upplýsingar er varða umferð loftfara, hluta og tækja sem farið geta um loftið en eru ekki loftför og skipulag og hönnun loftrýmis og varða almenning almennt. Samgöngustofu er heimilt að hafa samstarf og samvinnu við önnur stjórnvöld og hagaðila um miðlun upplýsinga.
Ef veitandi samræmdrar upplýsingaþjónusta hefur verið tilnefndur í tilteknu u-rýmisloftrými skv. b-lið 2. mgr. 170. gr. skal Samgöngustofa tryggja honum aðgengi að þeim upplýsingum sem tilgreindar eru í reglugerð sem ráðherra setur.
180. gr. Fjarskipta-, leiðsögu- og kögunarþjónusta.
Veitandi fjarskipta-, leiðsögu- eða kögunarþjónustu skal tryggja að þjónustan sé aðgengileg, samfelld, nákvæm og heildstæð. Hann skal staðfesta gæði þjónustunnar og sýna fram á að búnaði sé reglulega viðhaldið og hann kvarðaður þegar þess er krafist.
Fjarskiptaþjónustu skal skila og viðhalda með fullnægjandi afköstum með tilliti til aðgengis, heilleika, samfellu og tíma upplýsinga. Hún skal vera skilvirk og varin gegn gagnabrenglun og truflun.
Leiðsöguþjónustu skal með fullnægjandi hætti ná og viðhalda afkastastigi með tilliti til leiðsögu, upplýsinga og staðsetningar og tímasetningar þegar hún er látin í té. Viðmiðin fyrir þessar upplýsingar eru hversu nákvæm, heilleg, aðgengileg og samfelld þjónustan er og hversu lögmætar heimildir hennar eru.
Með kögunarþjónustu skal ákvarða viðkomandi staðsetningu loftfars í lofti og annarra loftfara og, eftir atvikum, ökutækja á flugvallarsvæði með nægilega góðum árangri að því er varðar nákvæmni, heilleika, lögmæti heimilda, samfellu og líkur á rekjanleika.
181. gr. Veðurþjónusta.
Veitandi veðurþjónustu skal veita nauðsynlegar veðurupplýsingar í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur um flugveðurþjónustu.
Að því marki sem unnt er skulu veðurupplýsingar fyrir flug vera nákvæmar, ítarlegar, uppfærðar af nægilegum heilleika og ótvíræðar til að uppfylla þarfir loftrýmisnotenda. Veðurupplýsingar fyrir flug skulu byggjast á lögmætum heimildum. Gögn sem eru notuð sem grunnur fyrir veðurupplýsingar fyrir flug skulu vera af nægilegum gæðum, ítarleg og uppfærð.
Miðlun slíkra veðurupplýsinga í tengslum við flug til loftrýmisnotenda skal fara fram tímanlega og nota skal nægilega áreiðanlegan og hraðvirkan samskiptamiðil sem er varinn gegn truflun og gagnabrenglun.
182. gr. Upplýsingaþjónusta flugmála.
Veitandi upplýsingaþjónustu flugmála skal tryggja gæði þjónustunnar, þ.m.t. áreiðanleika, reglufestu og heilleika upplýsinga til notenda loftrýmis og veitenda flugstjórnarþjónustu.
Ráðherra er heimilt að ákvarða í reglugerð hvaða aðilum er skylt að veita upplýsingar og gögn til veitanda upplýsingaþjónustu flugmála og til hvaða upplýsinga skyldan nái.
183. gr. Flugmálaupplýsingar og gögn.
Flugmálaupplýsingar skulu vera nákvæmar, ítarlegar, uppfærðar og ótvíræðar, byggjast á lögmætum heimildum, vera af nægilegum heilleika sem og á nothæfu sniði fyrir notendur.
Gögn, sem notuð eru sem heimild fyrir flugmálaupplýsingar, skulu vera af nægilegum gæðum, ítarleg og uppfærð og látin í té tímanlega.
Gæði upplýsinga og gagna hvað varðar nákvæmni, upplausn og heilleika skulu vera í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar.
Miðlun flugmálaupplýsinga til loftrýmisnotenda skal fara fram tímanlega, nota skal nægilega áreiðanlegan og hraðvirkan samskiptamiðil sem er varinn gegn vísvitandi og óvísvitandi truflun og gagnabrenglun.
184. gr. Hönnun flugferla.
Flugferlar skulu vera tilhlýðilega hannaðir í samræmi við hönnunarviðmið til að tryggja örugga starfrækslu loftfara. Hönnun flugferla skal yfirfarin og staðfest áður en ferlarnir eru birtir og notaðir fyrir loftför.
185. gr. U-rýmisþjónusta og samræmd upplýsingaþjónusta.
Veitandi u-rýmisþjónustu skal veita þjónustu sína í samræmi við fyrirhugaða starfrækslu ómannaðra loftfara og það þjónustustig sem hefur verið ákvarðað í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
Samræmd upplýsingaþjónusta til veitenda u-rýmisþjónustu í u-rýmisloftrými, samhæfing verklags og miðlun upplýsinga og gagna milli flugumferðarþjónustu, veitanda u-rýmisþjónustu og samræmdrar upplýsingaþjónustu skal vera í samræmi við þær kröfur sem ráðherra kveður á um í reglugerð.
Heimilt skal ráðherra að kveða á um í reglugerð gjaldfrjálsa miðlun tiltekinna upplýsinga og gagna milli veitanda u-rýmisþjónustu, samræmdrar upplýsingaþjónustu og flugumferðarþjónustu til að tryggja öryggi þjónustunnar.
186. gr. Tilkynningarskylda um hindranir og truflanir vegna umferðar í lofti.
Sveitarfélög og skipulags- og byggingaryfirvöld skulu tilkynna Samgöngustofu um mannvirki, hluti eða annað sem jafna má til hindrunar sem er 50 metra há eða hærri og ætlað er að standa varanlega. Hindranir skulu merktar í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur skv. 152. gr.
Eigandi mannvirkis, hlutar eða annars sem jafna má við hindrun fyrir flugumferð skal tryggja gæði gagna í samræmi við ákvæði laga þessara.
Veitandi rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu skal tilkynna Samgöngustofu um hvers konar truflanir, merki, ljós eða annað sem telja má að flugumferð stafi hætta af.
187. gr. Frammistöðuáætlun á sviði flugleiðsögu.
Koma skal á og viðhalda áætlun um frammistöðu á sviði flugleiðsögu í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur. Frammistaða veitenda flugleiðsöguþjónustu skal háð eftirliti af hálfu lögbærra stjórnvalda. Ef reglubundin vöktun og eftirlit leiðir í ljós að markmiðum áætlunar er ekki náð á viðmiðunartímabili skal gripið til viðeigandi ráðstafana.
188. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir1) nánari ákvæði um:
a. flugreglur og búnað loftfara með tilliti til kerfishluta sem notaðir eru til þeirrar starfsemi sem háð er vottun skv. 1. mgr. 171. gr. og auðkenningu loftfara varðandi kögun,
b. afkastagetu, áreiðanleika þjónustu og þjónustustig þeirrar starfsemi sem háð er vottun skv. 1. mgr. 171. gr. og ákvörðun þess,
c. kröfur til þeirrar starfsemi sem háð er vottun skv. 1. mgr. 171. gr., þ.m.t. skilyrði fyrir vottun er varða skipulag og stjórnun; tilföng, aðstöðu, búnað og kerfi; fjármögnun og fjárhag, bókhald og reikningsskil; verklag, tilkynningarkerfi, gæðastjórnun, skráahald og aðgengi að gögnum, verndarkröfur sem gerðar eru til veitanda, búnaðar og mannvirkja; verklag við þjónustu og áætlanir, svo sem vegna þjálfunar, frammistöðu, verndar, viðbragðs og upplýsingaöryggis og varnir gegn hvers kyns áhættu sem ógna kann öryggi net- og upplýsingakerfa,
d. hæfni og þjálfun þeirra sem eru í þjónustu aðila, vinnutímamörk og lágmarkshvíldartíma flugumferðarstjóra,
e. hönnun, framleiðslu, starfrækslu og viðhald kerfa og kerfishluta, þ.m.t. skilyrði vottunar; markaðseftirlit, verklag, heilleika, afköst og áreiðanleika kerfa og kerfishluta,
f. notkun tíðna, truflanir og notkun hvers konar fjarskiptaþjónustu, samskiptakerfa og samskiptaaðferða vegna veitingar fjarskiptaþjónustu fyrir flug,
g. tilnefningu til einkaréttar skv. 170. gr., tilkynningar þar að lútandi, gildistíma tilnefningar, breytingar á tilnefningu og afturköllun,
h. starfræn loftrýmisumdæmi,
i. ákvörðun u-rýmisloftrýmis og þeirra þjónustuþátta sem veita skal í u-rýmisloftrými, þjónustustig og afkastagetu, skyldur flugrekenda/umráðenda ómannaðra loftfara til að veita tilteknar upplýsingar til veitanda u-rýmisþjónustu og flugumferðarþjónustu, gagnkvæmar skyldur þeirra sem teljast notendur eða veitendur þjónustu í u-rýmisloftrými, skyldur lögbærra yfirvalda til miðlunar upplýsinga og gagna til að greiða fyrir öryggi í u-rýmisloftrými,
j. samvinnu á þeim sviðum sem efni kaflans tekur til, þ.m.t. samstarf við erlend ríki og alþjóðlegar og svæðisbundnar stofnanir,
k. upptökur, vistun og geymslu fjarskipta og gagna; afspilun og skráningu á notkun,
l. skipulag og hönnun loftrýmis, þ.m.t. viðmið fyrir tæknilega hönnun og sameiginlegar verklagsreglur fyrir notkun loftrýmis, stjórnun loftrýmis og hönnun flugferla; kynningu breytinga og verklagsreglna sem geta haft áhrif á skipulag og hönnun loftrýmis; breytingar á skipulagi, meðhöndlun tillagna til breytinga, samráð og samþykki breytinga; ferli; birtingu og miðlun upplýsinga um skipulag loftrýmis og meðhöndlun undanþágna,
m. varðveislu flugmálaupplýsinga, gagnaskipti, gagnagæði og kröfur til gæða-, öryggis- og verndarstjórnunar, tækja, hugbúnaðar og gagnaverndar,
n. kröfur til hönnunarviðmiða flugferla, nákvæmni, tæknilega og rekstrarlega getu og hæfni veitanda þjónustunnar og flugprófanir,
o. frammistöðuáætlun á sviði flugleiðsöguþjónustu, þ.m.t. verklag, markmiðssetningu, upplýsingar og gögn sem rekstraraðilum flugleiðsöguþjónustu skal skylt að leggja fram, efni og framsetningu áætlunar, markmiða og frammistöðuviðmiðana, vöktun og eftirlit og viðeigandi ráðstafanir þegar frammistöðumarkmiðum er ekki náð.
1)Rg. 1126/2014, sbr. 884/2015 og 1298/2022. Rg. 720/2019, sbr. 282/2024. Rg. 270/2024.
XV. kafli. Aðgangur að markaði, þjónustugjöld o.fl.
189. gr. Úthlutun takmarkaðra flugréttinda.
Í þeim tilvikum þar sem samningur Íslands við erlent ríki hefur að geyma takmarkaðan rétt til markaðsaðgangs handa tilnefndum flugrekendum skal Samgöngustofa, að höfðu samráði við ráðherra, annast úthlutun þeirra flugréttinda sem samningurinn tekur til. Þeir flugrekendur sem óska tilnefningar skulu uppfylla þau skilyrði sem viðkomandi samningur áskilur auk þeirra almennu krafna og viðmiða sem ráðherra tiltekur í reglugerð.
Úthlutun markaðsaðgangs skal gerð á grundvelli jafnræðis og gagnsærrar málsmeðferðar. Upplýsingar og gögn sem flugrekendur afhenda í umsóknarferli skal farið með sem trúnaðarmál.
Ef forsendur til úthlutunar takmarkaðra flugréttinda breytast skal Samgöngustofa sérstaklega auglýsa á vefsvæði sínu þær flugleiðir sem ekki lengur lúta takmörkunum.
190. gr. Dreifing flugumferðar á milli flugvalla.
Ráðherra er heimilt, að höfðu samráði við hagaðila, að ákvarða hvernig flugumferð er dreift á milli flugvalla sem þjóna sömu borg eða borgarþyrpingu í samræmi við þau skilyrði sem ráðherra tiltekur í reglugerð enda sé gagnsæi og meðalhófs gætt. Fyrirhuguð breyting á tilhögun dreifingar flugumferðar skal tilkynnt Eftirlitsstofnun EFTA, sbr. 234. gr.
191. gr. Skyldur um opinbera þjónustu.
Ráðherra eða þeim sem hann felur ábyrgð er heimilt að leggja á skyldur um að veita opinbera þjónustu í áætlunarflugi milli flugvallar innan Evrópska efnahagssvæðisins og flugvallar sem þjónar jaðar- eða þróunarsvæði eða á flugleið á íslensku yfirráðasvæði þar sem flugumferð er lítil enda sé talið að slík flugleið skipti sköpum fyrir efnahags- og félagslega þróun á því svæði sem flugvöllurinn þjónar. Aðeins skal kveðið á um skyldur um að veita opinbera þjónustu að því marki sem slíkt er nauðsynlegt til að tryggja lágmarksþjónustu sem ella stæði ekki undir sér á viðskiptagrundvelli.
Aðgangur að flugleið sem á hefur verið lögð kvöð um opinbera þjónustu verður aðeins takmarkaður við einn flugrekanda í takmarkaðan tíma í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur. Að þeim tíma liðnum skal endurmeta stöðu flugleiðar.
Ráðherra eða þeim sem hann felur ábyrgð er heimilt að kveða á um skyldur til að veita opinbera flugafgreiðsluþjónustu á flugvöllum að uppfylltum tilteknum skilyrðum enda liggi fyrir samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA.
192. gr. Veiting flugafgreiðslu.
Á flugvöllum, sem eru opnir fyrir flugumferð í ábataskyni og þar sem fjöldi farþega og magn farms er yfir nánar tilgreindum mörkum, skal heimilt að gera hlutaðeigandi rekstraraðila flugvallar skylt að tryggja jafnt aðgengi að flugafgreiðslu í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur. Veita skal þeim aðilum sem veita flugafgreiðslu jafnan aðgang að rými á flugvelli, þ.m.t. þeim sem eru að hasla sér völl á þessu sviði, að því marki sem nauðsynlegt er svo að þeir geti sinnt starfsemi sinni. Ef skilyrði eru sett fyrir aðgengi skulu þau byggjast á viðmiðum sem eru viðeigandi, hlutlæg, gagnsæ og án mismununar. Sama á við um skilyrði fyrir aðgengi að búnaði flugvalla og gjaldtöku fyrir aðgengi, ef við á.
Ef flugvöllur sem opinn er fyrir flugumferð í ábataskyni er undir tilgreindum viðmiðunarmörkum, er varða fjölda farþega og magn farms, er rekstraraðila flugvallar heimilt, að fengnu samþykki Samgöngustofu og að þeim skilyrðum fullnægðum sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur, að takmarka fjölda þeirra aðila sem heimilt er að veita flugafgreiðslu á flugvellinum.
Rekstraraðila flugvallar er heimilt að afhenda þriðja aðila stjórn sérstakra mannvirkja á flugvelli, sem notuð eru við flugafgreiðslu, og getur hann skyldað þá sem sjá um flugafgreiðslu og flugvallarnotendur sem sjá um eigin afgreiðslu til að nota slík mannvirki. Þetta á við um mannvirki sem eru svo flókin eða kostnaðarsöm eða hafa svo mikil umhverfisáhrif að ekki er unnt að skipta þeim niður eða hafa fleiri en eitt slíkt mannvirki, t.d. stjórn farangursflokkunar, afísingar, vatnshreinsunar og eldsneytisdreifingar. Sé aðgengi að sérstökum mannvirkjum háð skilyrðum skal stuðst við sömu viðmið og reifuð eru í 1. mgr.
Rekstraraðila flugvallar er óheimilt að niðurgreiða flugafgreiðsluþjónustu sem hann veitir af tekjum sem til hans renna af annarri starfsemi. Sama gildir um aðra veitendur flugafgreiðslu sem veita þriðju aðilum þjónustu.
Samráð skal haft við notendur flugvallar um málefni flugafgreiðslu í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
Heimilt er að kæra til Samgöngustofu, án þess að það hafi áhrif á möguleika málsaðila til að vísa máli til dómstóla, ákvörðun rekstraraðila flugvallar um:
a. val á flugafgreiðsluaðila, sbr. 2. og 3. mgr. 191. gr.,
b. synjun um aðgang að og rými á flugvelli eða að búnaði flugvallar til að veita flugafgreiðslu,
c. notkun sérstakra mannvirkja,
d. afturköllun aðgangs skv. b- og/eða c-lið,
e. að hlutast ekki til um samráð í notendanefnd flugvallar, sbr. 5. mgr. og 194. gr.
193. gr. Tilnefning flugvalla með tilliti til afkastagetu hvað varðar afgreiðslutíma.
Ef talið er að hægt sé að draga úr álagi vegna takmarkaðrar afkastagetu flugvallar með valfrjálsu samráði um afgreiðslutíma meðal þeirra flugrekenda sem fljúga eða hyggjast fljúga til og frá flugvelli er ráðherra eða þeim sem hann felur ábyrgð heimilt að tilnefna flugvöll sem flugvöll með afgreiðslutíma samkvæmt samráði enda sé meginreglum um gagnsæi, hlutleysi og jafnræði framfylgt. Samráðsstjóri skal sinna þeim verkefnum og eftirliti sem ráðherra ákvarðar í reglugerð.
Aðeins skal tilnefna flugvöll sem flugvöll með skammtaðan afgreiðslutíma að uppfylltum ákvæðum 3.–5. mgr.
Taka skal til athugunar afkastagetu flugvallar ef um er að ræða flugvöll sem ekki hefur hlotið tilnefningu eða flugvöll sem er tilnefndur með afgreiðslutíma eftir samráði:
a. ef tilmæli hafa borist frá flugrekendum sem annast meira en helming af flugumferð um flugvöllinn, eða rekstraraðila flugvallar, þess efnis að afkastagetan sé ófullnægjandi fyrir núverandi og áætlaða flugumferð fyrir tiltekin tímabil, eða
b. að beiðni frá Eftirlitsstofnun EFTA, einkum þegar flugvöllur er aðeins aðgengilegur flugrekendum sem þegar hafa afgreiðslutíma eða þar sem flugrekendur og þá einkum nýir aðilar eiga í erfiðleikum að fá afgreiðslutíma á þeim flugvelli.
Sé það talið nauðsynlegt skal greining á afkastagetu unnin af rekstraraðila flugvallar eða öðrum hæfum aðila. Á grundvelli greiningarinnar skal víðtækt samráð haft um afkastagetu flugvallar við hagsmunaaðila.
Ef talið er að afkastagetu flugvallar sé verulega áfátt getur ráðherra eða þeim sem hann felur ábyrgð tilnefnt flugvöllinn sem flugvöll með skammtaðan afgreiðslutíma til skemmri eða lengri tíma í samræmi við þau skilyrði sem ráðherra setur í reglugerð. Sé flugvöllur tilnefndur sem flugvöllur með skammtaðan afgreiðslutíma skal honum skipaður samræmingarstjóri sem annast úthlutun afgreiðslutíma og skal hlutleysi hans og sjálfstæði tryggt. Einnig skal tryggt að samræmingarnefnd flugvallar með skammtaðan afgreiðslutíma sé skipuð. Samræmingarstjóri og samræmingarnefnd flugvallar skulu sinna þeim verkefnum og eftirliti sem ráðherra ákvarðar í reglugerð.
Samræmingarstjóri verður ekki gerður bótaskyldur vegna þeirra ráðstafana sem grípa þarf til og tengjast störfum hans nema ef um stórkostlegt gáleysi eða ásetning er að ræða.
Þegar afkastageta flugvallar sem er tilnefndur með skammtaðan afgreiðslutíma er talin nægileg og getur mætt raunverulegri eða áætlaðri flugumferð skal tilnefning hans afturkölluð.
194. gr. Notendanefnd.
Rekstraraðili flugvallar eða flugvallakerfis þar sem farþegar eru fleiri en ein milljón á ári skal setja á stofn notendanefnd sem er vettvangur skoðanaskipta milli hans og notenda um málefni flugvallar. Fjöldi fulltrúa notenda og samsetning notendanefndar skal ráðast af stærð og umsvifum flugvallar. Fundir notendanefndar flugvallar skulu haldnir eigi sjaldnar en einu sinni á ári.
Á notendanefndarfundi skal notendum veitt tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en teknar eru mikilvægar ákvarðanir um rekstur, þjónustu, gjaldtöku eða önnur atriði sem snerta mikilvæga hagsmuni þeirra.
195. gr. Gjaldtaka flugvalla og gagnsæi gjalda.
Rekstraraðila flugvallar er heimilt að innheimta gjöld til að standa undir rekstri flugvallar og fyrir þá aðstöðu, búnað og mannvirki sem starfsemi tengd flugsamgöngum nýtir á flugvellinum. Gjöld skulu lögð á flugvallarnotendur án mismununar. Gjaldskrá skal birt með tryggum hætti þar sem meðal annars er kveðið nánar á um fjárhæð gjalds, sundurliðun þess ef við á og innheimtu. Ráðherra er heimilt að kveða á um heimild rekstraraðila flugvallar til að innleiða sameiginlegt gjaldtökukerfi sem nær yfir kerfi flugvalla að þeim skilyrðum uppfylltum sem kveðið er á um í reglugerð.
Rekstraraðili flugvallar eða flugvallakerfis skal eigi sjaldnar en árlega leggja fram sundurliðun kostnaðar sem lagður er til grundvallar gjaldtöku. Aðgreina skal í bókhaldi einstaka kostnaðarliði sem lagðir eru til grundvallar gjaldi. Við sundurliðunina skal a.m.k. leggja til grundvallar:
a. þá þjónustu og innviði sem gjald er tekið fyrir,
b. aðferðina við útreikning gjalds,
c. heildarsamsetningu kostnaðar á flugvelli eða innan flugvallakerfis,
d. tekjur af mismunandi gjöldum og heildarkostnað að baki gjaldtöku,
e. fjármögnun ríkis, sveitarfélaga eða annarra opinberra aðila á þeirri þjónustu sem gjald er tekið fyrir,
f. spá um þróun á viðkomandi flugvelli eða flugvöllum varðandi gjaldtöku og flugumferð þar sem sundurliða skal áætlaðar fjárfestingar í innviðum ef þær eru hluti af kostnaðargrunni gjalda,
g. nýtingu stofninnviða og búnaðar yfir tiltekið tímabil, og
h. áætlun um framlegð einstakra fyrirhugaðra fjárfestinga og áhrif þeirra á afkastagetu flugvallarins og gæði þjónustu.
Flugrekendum sem nýta aðstöðu flugvallar hér á landi ber að upplýsa rekstraraðila flugvallar reglulega um áætlanir sínar, m.a. varðandi tíðni flugs á hverri flugleið, fjölda farþega, samsetningu flugvélaflotans, fyrirhuguð verkefni á flugvelli og þörf á aðstöðu á honum. Rekstraraðili flugvallar skal meðhöndla upplýsingar sem veittar eru samkvæmt þessari grein sem trúnaðarmál.
196. gr. Breytingar á gjaldtöku o.fl.
Ef rekstraraðili flugvallar vill leggja fram tillögu að ákvörðun um eftirtalin atriði skal slík tillaga lögð fyrir notendanefnd flugvallar með rökstuðningi a.m.k. fjórum mánuðum fyrir áætlaða gildistöku ákvörðunar nema í undantekningartilvikum sem réttlætanleg eru fyrir flugvallarnotendum:
a. hækkun gjalds,
b. breytingu á gjaldstofni,
c. nýtt gjald, eða
d. aðrar mikilvægar ráðstafanir sem snerta beint hagsmuni notenda.
Notendum skulu veittar fullnægjandi upplýsingar með áherslu á gagnsæi svo að þeir geti tekið upplýsta afstöðu til þeirra breytinga og nýmæla sem fyrirhuguð eru.
Notendanefnd skal leitast við að ná samkomulagi um fyrirhugaðar ákvarðanir. Rekstraraðili flugvallar skal tilkynna um endanlega ákvörðun sína að öllu jöfnu með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara fyrir gildistöku. Niðurstaða rekstraraðila flugvallar skal rökstudd að teknu tilliti til sjónarmiða flugvallarnotenda.
Ef fyrirhuguð breyting á gjaldtöku sætir kæru til Samgöngustofu skal ákvörðun rekstraraðila flugvallar þar að lútandi ekki taka gildi fyrr en stofnunin hefur úrskurðað í málinu. Innan fjögurra vikna frá því að kæra berst skal Samgöngustofa úrskurða til bráðabirgða um gildistöku breytinga á flugvallargjöldum nema endanlegur úrskurður liggi fyrir innan sama frests. Bráðabirgðaúrskurður skal gilda í tiltekinn tíma og má endurnýja hann ef það er talið nauðsynlegt. Úrskurður Samgöngustofu er endanlegur á stjórnsýslustigi. Samgöngustofa getur ákveðið að sá aðili sem kæra beinist gegn greiði kæranda málskostnað við að hafa kæruna uppi enda sé úrskurður stofnunarinnar kæranda í hag. Ef kæra er bersýnilega tilefnislaus að mati Samgöngustofu getur stofnunin úrskurðað að kærandi skuli greiða gagnaðila þann málskostnað sem hann hefur orðið fyrir vegna málsins.
197. gr. Gjaldtaka vegna þjónustu sem veitt er flugumferð.
Veitandi flugleiðsöguþjónustu og samræmdrar upplýsingaþjónustu er heimilt að innheimta gjöld til að standa undir kostnaði við rekstur þjónustunnar, þar sem slík þjónusta er veitt, og fyrir notkun á þeim búnaði og mannvirkjum sem starfsemin nýtir. Gjaldtaka skal vera í samræmi við þau viðmið sem kveðið er á um í þjóðréttarlegum skuldbindingum. Ráðherra staðfestir gjaldskrá þjónustunnar.
Gjaldskrá skal birt með tryggum hætti þar sem meðal annars er kveðið nánar á um fjárhæð gjalds, sundurliðun þess, ef við á, og innheimtu.
Veitandi flugleiðsöguþjónustu skal a.m.k. árlega hafa samráð við notendur þjónustunnar og hagaðila um gjaldtöku vegna þjónustunnar.
198. gr. Stöðvun loftfars vegna ógreiddra gjalda.
Rekstraraðila flugvallar hér á landi sem opinn er almenningi og rekstraraðila flugleiðsöguþjónustu sem hefur höfuðstöðvar eða aðalaðsetur hér á landi er heimilt að leggja fram beiðni um stöðvun loftfars til sýslumanns uns lögmælt gjöld skv. 195. gr. og 197. gr. eru greidd, eða trygging sett fyrir greiðslu, enda séu öll eftirtalin skilyrði uppfyllt:
a. stofnað var til gjalda skv. 195. eða 197. gr. vegna þess loftfars sem stöðvunarbeiðni lýtur að og/eða vegna annarra loftfara sem sami flugrekandi hefur til umráða og starfrækir loftfarið sem beiðni beinist að,
b. stofnað var til gjalda skv. 195. eða 197. gr. að hámarki sjö mánuðum áður en beiðni um stöðvun er lögð fram,
c. flugrekanda og eiganda þess loftfars sem beiðni beinist að var með sannanlegum hætti send greiðsluáskorun og viðvörun um innheimtu kröfu eftir gjalddaga og veittur frestur, sem ekki skal vera skemmri en 15 dagar, til greiðslu og efndar kröfu, enda hafi framangreindir aðilar verið að staðaldri í reglulegum viðskiptum við gerðarbeiðanda.
Beiðni um stöðvun skal beina til sýslumanns í því umdæmi þar sem stöðvun fer eða mun fara fram. Ef ráðgert er að stöðvun fari fram utan hefðbundins opnunartíma sýslumanns skal gerðarbeiðandi tilkynna sýslumanni um fyrirhugaða beiðni um stöðvun með hæfilegum fyrirvara svo að hægt sé að gera ráðstafanir til að bregðast við beiðninni. Framkvæmd stöðvunar er ekki háð því að gerðarþoli sé viðstaddur eða að honum hafi fyrir fram verið tilkynnt um hana. Hafi stöðvun farið fram án þess að gerðarþoli eða maður sem að lögum er heimilt að koma fram fyrir hans hönd hafi haft tök á að vera viðstaddur skal sýslumaður tilkynna honum svo fljótt sem verða má um framkvæmd hennar.
Stöðvun fellur niður ef innt er af hendi sú greiðsla sem stöðvun loftfars varðar eða trygging sett fyrir greiðslu sem sýslumaður metur fullnægjandi auk þeirra atvika sem greind eru í 2. mgr. 21. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990. Skal þá þeim ráðstöfunum aflétt sem gerðar voru til að aftra för loftfarsins. Rekstraraðila flugvallar skal skylt að veita þann atbeina sem sýslumaður krefur til þess að stöðvun loftfars eða aflétting stöðvunar á flugvelli nái fram að ganga. Eiganda eða flugrekanda/umráðanda loftfars skal ætíð tryggt aðgengi að loftfari í því skyni að tryggja áframhaldandi lofthæfi þess.
Að öðru leyti fer um framkvæmd og skilyrði til stöðvunar eftir lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., að því undanskildu:
a. að öll samskipti, framlagning gagna við gerðina, færslur í gerðabók og varðveisla gagna fari samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur skv. 200. gr.,
b. að ekki sé skilyrði að draga muni mjög úr líkindum til að fullnusta takist eða að fullnusta verði verulega örðugri ef kyrrsetning fer ekki fram,
c. að ekki þurfi að setja tryggingu fyrir greiðslu bóta sem gerðarþoli kann að öðlast rétt til,
d. að dómsmál samkvæmt lögunum sé aðeins borið undir Héraðsdóm Reykjavíkur.
Um framkvæmd og skilyrði til nauðungarsölu loftfars sem sætir stöðvun fer samkvæmt lögum um nauðungarsölu að því undanskildu að dómsmál samkvæmt lögunum verða aðeins borin undir Héraðsdóm Reykjavíkur.
Gjöld skv. 195. gr. skulu tryggð með lögveði í loftförum eða loftfarshlutum eiganda eða umráðanda loftfars sem skráð er hér á landi. Gjöld skv. 197. gr. skulu tryggð með lögveði í því loftfari sem í hlut á og skráð er hér á landi eða loftfarshlutum. Gjöldin skulu jafnrétthá en eldri kröfur skulu ganga framar yngri. Þó skulu kröfur vegna björgunar, sbr. 225. gr. laga þessara og skv. 12. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012, með síðari breytingum, ganga framar öðrum kröfum í þeirri röð sem þeirra er getið.
199. gr. Tölvufarskráningarkerfi.
Kerfisseljandi tölvufarskráningarkerfis skal fara að hátternisreglum um starfrækslu tölvufarskráningarkerfa eins og mælt er fyrir um í reglugerð sem ráðherra setur.
Eftirlitsstofnun EFTA fer með eftirlit með að hátternisreglum skv. 1. mgr. sé framfylgt og hvort kerfisseljendur í þriðju ríkjum beiti flugrekendur innan EFTA-ríkjanna meðferð sem er í ósamræmi við þær eða hefur mismunun í för með sér.
Samkeppniseftirlitið fer með eftirlit með hvort kerfisseljendur í þriðju ríkjum beiti flugrekendur með höfuðstöðvar hér á landi meðferð sem er í ósamræmi við hátternisreglur skv. 1. mgr. eða hefur mismunun í för með sér.
200. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir1) nánari ákvæði um:
a. úthlutun takmarkaðra flugréttinda skv. 189. gr., skilyrði og viðmiðanir sem lagðar eru til grundvallar úthlutun og hvaða sjónarmið skuli leggja til grundvallar við val, tilnefningu flugrekanda, afturköllun eða sviptingu og umsóknarferli,
b. skyldur um opinbera þjónustu skv. 191. gr., þ.m.t. skilyrði til beitingar heimildar, mat á þörf, útboð, útfærslu slíkrar skyldu og kvaðir sem henni tengjast, ríkisaðstoð, tilkynningarskyldu og málsmeðferð,
c. frelsi til eigin flugafgreiðslu og flugafgreiðslu sem veitt er þriðja aðila, takmarkanir og undanþágur frá slíku frelsi, þ.m.t. viðmiðunarmörk flugvalla með tilliti til fjölda farþega, magn farms, skilyrði til takmörkunar á fjölda; þau tilvik þar sem bann við eigin afgreiðslu verður komið á; lágmarksfjölda fyrir hvern flokk flugafgreiðslu; kröfur til óhæðis; fyrirkomulag og sjónarmið við val á þjónustuaðila, þ.m.t. eignarhaldi, veitingu flugafgreiðslu og afmörkun á því hvaða þjónustuþættir falla undir val á þjónustuaðila,
d. fyrirmæli um aðskilnað í bókhaldi þeirra sem veita flugafgreiðslu frá annarri starfsemi,
e. eftirlit með aðgengi veitenda flugafgreiðslu að flugvelli,
f. heimild til að leggja skyldu á flugvallarnotendur um að nýta eingöngu sérstök mannvirki á flugvelli til flugafgreiðslu; nánari afmörkun á sérstökum mannvirkjum; framsal á stjórnun sérstakra mannvirkja og gjaldtöku vegna aðgengis að sérstökum mannvirkjum og búnaði flugvalla,
g. aðgengi til flugtaks og lendingar á flugvöllum, úthlutun afgreiðslutíma, breytur fyrir úthlutun afgreiðslutíma, hreyfanleika afgreiðslutíma, umsóknarferli úthlutunar, skilyrði til endurúthlutunar afgreiðslutíma, upplýsingar sem flugrekendum ber að veita; réttindi og skyldur flugrekenda með tilliti til afgreiðslutíma; kvaðir á úthlutun afgreiðslutíma vegna opinberrar þjónustu á flugleiðum; tilnefningu flugvallar, mat á afkastagetu; skipun samráðs- eða samræmingarstjóra og greiðslu kostnaðar vegna starfs þeirra, sjálfstæði og starfsskyldur; úrræði samræmingarstjóra ef afgreiðslutími er ekki nýttur; skipun og verkefni samræmingarnefndar; upplýsingamiðlun samræmingarstjóra til hagsmunaaðila ef við á og samræmingarnefndar; notkun staðla um upplýsingar um áætlanir; heimildir til framsals og/eða skipti á afgreiðslutíma og sáttaumleitun,
h. notendanefnd flugvallar, skipan nefndar, skipunartíma, verkefni og upplýsingaskyldu rekstraraðila flugvallar til notendanefndar og Samgöngustofu,
i. gjaldtöku á flugvöllum, gjaldtöku fyrir þjónustu sem veitt er flugumferð, þ.m.t. afmörkun þeirrar gjaldtöku sem lögin taka til; forsendur til útreiknings á kostnaði og tekjum, svo sem kostnaðargrunns, verðbólgu og annarra efnahagslegra forsendna, forsendur sem liggja til grundvallar útreikningi fyrirhugaðra gjalda, leyfilegar undanþágur frá gjaldtöku, hvatakerfi,
j. reglubundið samráð við hagsmunaaðila um gjaldtöku,
k. fyrirkomulag við setningu gjaldskrár og málsmeðferð, rökstuðning fyrir breytingu á gjöldum, sundurliðun gjalda, framsetningu og birtingu gjaldskrár, fyrirkomulag við innheimtu og eftirlit með gjaldtöku,
l. viðmið við mat á ágreiningi um gjaldtöku og málsmeðferð komi til ágreinings,
m. framkvæmd stöðvunar og samskipti sýslumanns við gerðarbeiðanda og gerðarþola, svo sem framlagningu gagna við gerðina og varðveislu þeirra, færslu sýslumanns í gerðabók og kynningu á efni hennar,
n. hátternisreglur fyrir notkun tölvufarskráningarkerfa, aðgengi, áreiðanleika og röðun upplýsinga, skilmála, bann við mismunun; eftirlit með starfsemi tölvufarskráningarkerfa; ráðstafanir til varnar jafnri samkeppni og vernd persónuupplýsinga.
1)Rg. 858/2014, sbr. 307/2020, 373/2021 og 468/2023.
XVI. kafli. Neytendavernd.
201. gr. Gildissvið.
Ákvæði þessa kafla gilda um:
a. íslenskt yfirráðasvæði og flug frá íslensku yfirráðasvæði,
b. flug frá þriðju ríkjum til flugvalla á íslensku yfirráðasvæði og til ríkja sem Ísland hefur samið við vegna þessa í samræmi við ákvæði slíkra samninga, enda sé flugrekandi með höfuðstöðvar á íslensku yfirráðasvæði eða innan yfirráðasvæðis ríkis sem Ísland hefur samið við.
Ákvæði kaflans gilda enn fremur um eftirfarandi enda sé flytjandi með höfuðstöðvar á íslensku yfirráðasvæði eða á yfirráðasvæði ríkis sem Ísland hefur samið við þar um:
a. innanlandsflug innan þeirra ríkja sem Ísland hefur samið við þar um,
b. millilandaflug milli þeirra ríkja sem Ísland hefur samið við þar um.
202. gr. Upplýsingaskylda.
Flugrekendur, umráðendur loftfars, umboðsaðilar og söluaðilar skulu veita greinargóðar og aðgengilegar upplýsingar um fyrirhugað flug, þ.m.t. um:
a. ferða- og samningsskilmála,
b. öryggisreglur,
c. takmarkanir á flutningi farþega, farangurs, hjálpartækja og farms, m.a. vegna stærðar loftfars eða eiginleika eða ástands þess sem flytja á,
d. endanlegt verð, gildandi fargjald og/eða farmgjald og sundurliðun allra gildandi skatta og kostnaðar sem lagður er á, svo sem aukagjalda og þóknana sem eru óhjákvæmilegar og fyrirsjáanlegar á þeim tíma sem gjöldin eru birt,
e. bótaábyrgð flytjanda skv. XVII. kafla og 204. gr., auk upplýsinga um rýmri bótarétt, ef við á, nafn eiginlegs og/eða samningsbundins flytjanda, sbr. 203. gr.
Upplýsingar um valkvæðar viðbætur og verð skulu veittar á skýran, gagnsæjan og ótvíræðan hátt við upphaf hvers bókunarferils og samþykki viðskiptavinar skal byggjast á vali hans.
Óheimilt er að mismuna viðskiptavinum við upplýsingagjöf eða aðgengi að farmiðum og farmiðaverði á grundvelli þjóðernis, búsetu eða staðsetningar söluaðila.
Flugrekendur skulu veita farþegum upplýsingar um að þeir geti leitað til viðurkennds úrskurðaraðila vegna ágreinings seljanda og neytanda, sbr. 208. gr. Upplýsingarnar skulu innihalda heimilisfang og vefsíðu úrskurðaraðilans og vera látnar í té á skýran, skiljanlegan og aðgengilegan hátt á vefsíðu seljanda og í almennum samningsskilmálum söluaðila ef við á.
203. gr. Nafn eiginlegs flugrekanda.
Þrátt fyrir 201. gr. gildir þessi grein einnig um flutning farþega með flugi frá flugvelli í þriðja ríki til flugvallar innan þeirra ríkja sem Ísland hefur samið við vegna þessa og frá brottfararstað í þriðja ríki til áfangastaðar í þriðja ríki enda hafi flug hafist innan ríkis sem Ísland hefur samið við vegna þessa.
Samningsbundinn flugrekandi skal upplýsa farþega um nafn eiginlegs flugrekanda við bókun hver sem aðferðin er við gerð bókunarinnar. Sé það óljóst þegar bókun er gerð skal samningsbundni flugrekandinn tryggja að farþegi sé upplýstur um nafn eða nöfn þeirra flugrekenda sem mögulega munu annast flugið. Um leið og upplýsingar um eiginlegan flugrekanda fást staðfestar, eða ef síðar er gerð breyting á eiginlegum flugrekanda eftir bókun, skal farþegi upplýstur eins fljótt og auðið er. Í öllum tilvikum skal farþegi upplýstur við innritun eða við för um borð í loftfarið þar sem innritunar er ekki krafist vegna tengiflugs.
Flugrekandi eða ferðasali, eftir atvikum, skal tryggja að samningsbundinn flugrekandi sé upplýstur um nafn hins eiginlega flugrekanda eða flugrekenda eins fljótt og auðið er, sérstaklega ef breyting verður á nafni eiginlegs flugrekanda.
Ef söluaðili hefur ekki fengið upplýsingar um nafn eiginlegs flugrekanda skal hann ekki gerður ábyrgur fyrir upplýsingaskyldu skv. 2. og 3. mgr.
Skylda samningsbundins flugrekanda til að upplýsa farþega um eiginlegan flugrekanda skal vera hluti af skilmálum farsamnings.
Sé eiginlegum flugrekanda óheimil starfræksla loftfars innan EASA-ríkjanna og kjósi farþegi að nýta ekki farmiða sinn, og flugið hefur ekki verið fellt niður, skal farþegi eiga rétt á endurgreiðslu úr hendi samningsbundins flytjanda eða breytingu á flugleið.
204. gr. Tjón vegna tafa, neitun um far og aflýsing flugs.
Flugrekanda er skylt að veita farþegum aðstoð og eftir atvikum greiða þeim bætur, í samræmi við þau skilyrði sem sett eru í reglugerð sem ráðherra setur, ef:
a. tjón hefur orðið vegna tafa á flutningi,
b. farþega er neitað um far,
c. flugi er aflýst,
d. flutningi er flýtt.
Flugrekanda er ekki skylt að greiða bætur til farþega vegna atvika sem tilgreind eru í 1. mgr. ef farþegi ferðast endurgjaldslaust eða á afsláttarverði sem ekki stendur almenningi til boða.
Hafi farþega þegar verið greiddar bætur vegna sömu atvika skulu slíkar bætur koma til frádráttar.
Um fyrningu bótakrafna samkvæmt ákvæðum þessa kafla fer eftir almennum reglum.
205. gr. Einstaklingar með fötlun eða hreyfihömlun.
Flugrekandi, umboðsmaður hans eða ferðasali skal ekki synja einstaklingi á grundvelli fötlunar eða hreyfihömlunar um:
a. farskráningu í flug sem starfrækt er í ábataskyni til, frá eða um flugvöll innan þeirra ríkja sem Ísland hefur samið við vegna þessa,
b. að fara um borð í loftfar á flugvelli innan þeirra ríkja sem Ísland hefur samið við vegna þessa enda hafi farþegi gilda farskráningu og farseðil.
Þrátt fyrir 1. mgr. er flugrekanda, umboðsmanni hans eða ferðasala heimilt að synja einstaklingi um farskráningu í flug eða að fara um borð í loftfar á grundvelli fötlunar eða hreyfihömlunar:
a. þar sem flugöryggiskröfur krefjast þess,
b. ef stærð loftfarsins eða dyr þess við för um borð í loftfarið og meðan á flutningi stendur koma í veg fyrir það.
Þegar synja þarf einstaklingi um flutning á grundvelli a- eða b-liðar 2. mgr. skal flugrekandi, umboðsmaður hans eða ferðasali gera viðhlítandi ráðstafanir til að leggja honum til viðunandi kost á flutningi. Einstaklingur með fötlun eða hreyfihömlun, sem hefur verið neitað að fara um borð á grundvelli fötlunar sinnar eða hreyfihömlunar skv. 2. mgr., og fylgdarmaður hans skulu eiga rétt á endurgreiðslu eða að flugleið þeirra verði breytt í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
Þar sem flugöryggiskröfur krefjast þess er flugrekanda, umboðsaðila hans eða söluaðila heimilt að krefjast þess að einstaklingur með fötlun eða hreyfihömlun sé í fylgd með öðrum einstaklingi sem er fær um að veita þá aðstoð sem viðkomandi einstaklingur þarfnast.
Beri flugrekandi, umboðsmaður hans eða ferðasali fyrir sig undanþágu skv. 2. mgr. eða kröfu skv. 4. mgr. skal viðkomandi einstaklingi tafarlaust greint frá ástæðum þess.
206. gr. Réttur til aðstoðar.
Rekstraraðili flugvallar skal veita einstaklingum með fötlun eða hreyfihömlun aðstoð á tilgreindum stöðum, einum eða fleiri, innan flugvallarsvæðis til þess að ferðast enda hafi einstaklingur óskað aðstoðar með þeim fyrirvara sem áskilinn er samkvæmt reglugerð.
Rekstraraðili flugvallar skal tryggja að einstaklingar með fötlun eða hreyfihömlun njóti aðstoðar endurgjaldslaust.
Rekstraraðila flugvallar er heimilt að innheimta gjald af notendum flugvallar til að fjármagna aðstoðina. Gjaldtakan skal ekki mismuna notendum flugvallar og vera ákvörðuð í samræmi við hlut hvers flugrekanda af komu- og brottfararfarþegum af heildarfjölda farþega á flugvelli. Gjaldið skal vera í samræmi við þá aðstoð sem veitt er, gagnsætt og sett af rekstraraðila flugvallar í samráði við notendur flugvallar.
Flugrekendur skulu veita einstaklingum með fötlun eða hreyfihömlun þá aðstoð sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur.
207. gr. Hlutverk Samgöngustofu á sviði neytendamála.
Samgöngustofa skal stuðla að og gæta hagsmuna neytenda í viðskiptum við flugrekendur, söluaðila og rekstraraðila flugvalla. Samgöngustofa skal tryggja að upplýsingar um réttindi flugfarþega, öryggi og aðstoð séu aðgengilegar, gera viðeigandi ráðstafanir til að einstaklingum með fötlun eða hreyfihömlun sé tryggt aðgengi og hvetja flugrekendur og rekstraraðila flugvalla til að veita einnig slíkar upplýsingar á aðgengilegu og nothæfu formi fyrir einstaklinga með fötlun.
Samgöngustofa fer með eftirlit með réttindum neytenda samkvæmt ákvæðum þessa kafla og skal grípa til viðeigandi aðgerða til að tryggja að réttindi farþega séu virt.
Samgöngustofu er heimilt að rannsaka, að eigin frumkvæði, að fenginni ábendingu eða í kjölfar kvörtunar, framfylgni við ákvæði kaflans og settra stjórnvaldsfyrirmæla.
Ef Samgöngustofa telur að framkvæmd flugrekenda eða rekstraraðila flugvalla á ákvæðum laga þessara eða stjórnvaldsfyrirmæla stríði gegn hagsmunum neytenda getur stofnunin vakið athygli ráðherra á því með áliti. Samgöngustofa skal í ársskýrslum sínum birta álit á því hvernig til hefur tekist í neytendamálum og gera grein fyrir aðgerðum og vinnu stofnunarinnar á sviði neytendamála. Álit Samgöngustofu um neytendamál skal birta almenningi á fullnægjandi hátt, t.d. með fréttatilkynningu til fjölmiðla, eftir að það hefur verið kynnt ráðherra.
208. gr. Úrlausn ágreiningsmála.
Farþegar og aðrir sem eiga hagsmuna að gæta geta skotið ágreiningi er varðar fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni samkvæmt ákvæðum þessa kafla til Samgöngustofu. Sá sem óskar eftir úrskurði Samgöngustofu skal greiða hæfilegt málskotsgjald. Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um fjárhæð málskotsgjaldsins og í hvaða tilvikum kvartandi getur fengið gjaldið endurgreitt.
Samgöngustofa skal leita álits viðkomandi flugrekanda eða rekstraraðila flugvallar á kvörtun, ganga úr skugga um að upplýsingar sem þar eru veittar eigi við rök að styðjast og freista þess að jafna ágreining aðila á skjótan og markvissan hátt.
Samgöngustofu er heimilt að ljúka málinu með sátt í samræmi við 247. gr. með samþykki málsaðila, enda séu sakir ekki miklar. Í sátt er heimilt að skuldbinda málsaðila til að bjóða neytendum sem brotið hefur verið á viðeigandi úrbætur.
Náist ekki samkomulag eða sátt skal Samgöngustofa skera úr ágreiningi með úrskurði. Úrskurðir skulu rökstuddir og birtir á vef Samgöngustofu. Úrskurður skal tilkynntur aðilum máls og þeim leiðbeint um réttaráhrif þeirra. Úrskurði Samgöngustofu verður ekki skotið til annarra stjórnvalda. Þegar úrskurður hefur verið kveðinn upp geta aðilar lagt ágreining sinn fyrir dómstól á venjulegan máta. Málshöfðun frestar ekki heimild til aðfarar skv. 6. mgr.
Vilji flugrekandi eða rekstraraðili flugvallar ekki una úrskurði skal hann tilkynna Samgöngustofu um það með skýrum og sannanlegum hætti innan 30 daga frá því að honum er tilkynnt um úrskurðinn. Flugrekandi eða rekstraraðili flugvallar getur óskað eftir endurupptöku úrskurðar skv. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og frestar það réttaráhrifum úrskurðar. Að liðnum fresti verður mál ekki endurupptekið að ósk aðila.
Úrskurðir Samgöngustofu eru aðfararhæfir þegar frestur skv. 5. mgr. er liðinn og tilkynning hefur ekki borist stofnuninni frá flugrekanda eða rekstraraðila flugvallar. Að ósk neytanda skal Samgöngustofa gefa út staðfestingu um að skilyrðum til aðfarar sé fullnægt.
209. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerðir1) nánari ákvæði um:
a. nánari afmörkun á því hverjir teljast flugrekendur, hvaða flug og atvik falla undir ákvæði kaflans og um landfræðilega afmörkun réttinda þar sem við á,
b. réttindi og skyldur flugrekanda, umboðsmanna hans og söluaðila; upplýsingagjöf og miðlun upplýsinga við bókun, á vef og á öllum stigum ferðar, þær upplýsingar sem veittar skulu og miðlun þeirra, þ.m.t. kröfur til aðgengileika og forms og tungumála,
c. skyldur einstaklinga sem bóka flug og flugfarþega,
d. réttindi farþega til aðstoðar, skaðabóta, úrbóta og ívilnana, skilyrði og afmörkun, forgang farþega undir nánar tilgreindum aldri til flutnings og breytingar á farmiðabókun,
e. rétt farþega til fyrirframgreiðslu skv. 214. gr.,
f. réttindi einstaklinga með fötlun eða hreyfihömlun og einstaklinga með sérþarfir til aðstoðar, skaðabóta, úrbóta og ívilnana, skilyrði og afmörkun réttinda og forgangs til flutnings, flutning þjónustudýra og hjálpar- og lækningatækja,
g. uppgjör skaðabóta, heimilan frádrátt frá bótum og endurkröfurétt,
h. aðstoð og upplýsingamiðlun rekstraraðila flugvallar til farþega og einstaklinga með fötlun eða hreyfihömlun, fyrirkomulag aðstoðar og gjaldtöku, þjálfun starfsfólks sem veitir þjónustuna, gæðakröfur til þjónustu og viðbúnaðaráætlun rekstraraðila flugvallar,
i. rétt Samgöngustofu til upplýsingaöflunar, prufukaup á vöru og þjónustu undir fölsku nafni eða auðkenni, vettvangsskoðun og haldlagningu gagna og heimildir til að stöðva brot, þar á meðal með bráðabirgðaákvörðun, um að gera sátt um stöðvun brots eða úrbætur fyrir neytendur og krefjast þess að látið sé af brotum auk birtingar slíkra ákvarðana eftir því sem við á,
j. fjárhæð málskotsgjalds og málsmeðferð, þ.m.t. getur ráðherra sett ákvæði um að Samgöngustofu sé heimilt að vísa frá kvörtunum þar sem virði krafna er undir eða yfir skilgreindum fjárhæðarmörkum og að Samgöngustofa geti tekið til meðferðar mál undir skilgreindum fjárhæðarmörkum ef það hefur almenna þýðingu fyrir neytendur,
k. upplýsingamiðlun til almennings og annarra lögbærra landsyfirvalda, gagnkvæma aðstoð slíkra aðila og samstarf og skýrslugerð innlendra stjórnvalda á sviði neytendaverndar.
1)Rg. 270/2024.
XVII. kafli. Bótaábyrgð í loftflutningum.
210. gr. Lögfesting Montreal-samningsins frá 1999.
Alþjóðasamningur um samræmingu tiltekinna reglna varðandi loftflutninga milli landa sem gerður var í Montreal 28. maí 1999 hefur lagagildi hér á landi með þeim viðbótum sem af ákvæðum kafla þessa leiðir og er birtur sem fylgiskjal með lögum þessum.
Greini á milli erlendra jafngildra texta samningsins og íslenskrar þýðingar skulu fyrrnefndir textar samningsins ganga framar íslensku þýðingunni.
Í samræmi við 1. og 55. gr. Montreal-samningsins skulu ákvæði þessa kafla og Montreal-samningsins ganga framar þeim alþjóðasamningum sem lögfestir eru samkvæmt lögum um gildistöku alþjóðasamnings um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa.
211. gr. Gildissvið.
Þrátt fyrir 1. gr. Montreal-samningsins skulu ákvæði hans gilda hvar sem flugið er starfrækt um bótaábyrgð flugrekanda sem hefur höfuðstöðvar sínar eða aðalaðsetur hér á landi og flugrekanda sem hefur höfuðstöðvar sínar eða aðalaðsetur í ríki sem Ísland hefur samið við vegna þessa, að því er varðar farþega og farangur.
Þrátt fyrir 1. gr. Montreal-samningsins skulu ákvæði hans gilda um flutninga í lofti innan íslensks yfirráðasvæðis hver sem flytjandinn er.
Fara skal með loftflutninga á vegum íslenska ríkisins, ríkisstofnana og annarra opinberra aðila samkvæmt ákvæðum Montreal-samningsins, hvar sem flugið er starfrækt.
212. gr. Sérstök yfirlýsing skv. 22. gr. Montreal-samningsins.
Viðbótarfjárhæðin sem flytjandi getur krafist að farþegi eða sendandi inni af hendi þegar gefin er út sérstök yfirlýsing um mikilvægi þess að fá farangur sinn eða farm afhentan á áfangastað, sbr. 2. og 3. mgr. 22. gr. Montreal-samningsins, skal tilgreind í gjaldskrá flytjanda. Hún skal miðuð við þann aukakostnað sem hlýst af því að flytja og tryggja viðkomandi farangur eða farm umfram takmarkanir á bótafjárhæðum í tilvitnuðum ákvæðum. Gjaldskráin skal vera aðgengileg farþegum og sendendum farms.
Með vísan til 24. gr. Montreal-samningsins skal ráðherra birta auglýsingu þegar fjárhæðir samningsins taka breytingum samkvæmt tilkynningu vörsluaðila Montreal-samningsins þar að lútandi.
213. gr. Uppgjör, útreikningar og fyrning.
Með sérstökum dráttarréttindum í Montreal-samningnum er átt við reiknieiningu sem skilgreind er af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og gengisskráningu Seðlabanka Íslands á þeim við sölu. Umreikningur í íslenskar krónur skal miðast við dómsuppsögudag en við uppgjörsdag ljúki máli án dóms. Bótafjárhæðir í tjónstilvikum sem valda örorku eða dauða skulu ákvarðaðar samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga. Vextir reiknast samkvæmt ákvæðum IV. kafla laga um vexti og verðtryggingu.
Réttur til skaðabóta samkvæmt þessum kafla fyrnist ef mál er eigi höfðað áður en tvö ár eru liðin frá því er loftfar kom á ákvörðunarstað eða tvö ár eru liðin frá þeim degi er loftfar skyldi koma þangað eða frá því að flutningur stöðvaðist.
214. gr. Fyrirframgreiðsla skaðabóta skv. 28. gr. Montreal-samningsins.
Með vísan til 28. gr. Montreal-samningsins skal flytjandi án tafar og ekki síðar en 15 dögum eftir að ljóst er hver hinn slasaði eða látni er inna af hendi fyrirframgreiðslu til að mæta bráðum fjárhagsþörfum og skal greiðslan taka mið af þeim skaða sem orðið hefur. Fyrirframgreiðsla vegna dauðsfalls farþega skal ekki vera lægri en sú upphæð sem ráðherra ákveður í reglugerð. Það að inna fyrirframgreiðslu þessa af hendi jafngildir þó ekki viðurkenningu á ábyrgð og kemur til frádráttar við endanlegt uppgjör bóta vegna slyssins. Fyrirframgreiðsla er þó ekki afturkræf nema í þeim tilvikum sem greinir í 20. gr. Montreal-samningsins, þ.e. að flytjandi sannar að farþegi hafi verið valdur eða samvaldur að slysinu eða að sá sem greiðsluna fékk hafi ekki átt lögvarið tilkall til hennar.
215. gr. Málshöfðun með vísan til 45. gr. Montreal-samningsins.
Ef mál er höfðað með vísan til 45. gr. Montreal-samningsins og aðeins einum flytjanda stefnt skal sá flytjandi eiga rétt til að krefjast samlagsaðildar annarra flytjenda að málinu enda sé sú krafa sett fram eigi síðar en í greinargerð. Skal þá höfða sakaukasök eða -sakir innan eins mánaðar frá því að krafa um samlagsaðild var sett fram að viðlagðri frávísun aðalsakar.
XVIII. kafli. Skaðabætur og vátryggingar.
216. gr. Skaði af notkun loftfars.
Ef af notkun loftfars hlýst skaði á mönnum eða eignum utan loftfarsins er eiganda þess eða, ef við á, flugrekanda/umráðanda þess, skylt að bæta skaðann.
Skaðabótaskylda skv. 1. mgr. fellur niður ef sannað er að sá sem fyrir skaða verður hefur valdið tjóninu af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.
Ef tjón verður á mönnum eða hlutum innan marka flugvallar sem opinn er almenningi skal ekki beita 1. mgr. heldur almennum skaðabótareglum.
217. gr. Árekstur loftfara.
Verði tjón á loftfari við árekstur loftfara skal beita almennum skaðabótareglum.
Verði skaði á mönnum eða eignum sem eru utan loftfarsins af árekstri loftfara skulu allir eigendur eða, ef við á, umráðendur loftfara samábyrgir gagnvart tjónþola.
218. gr. Bótaábyrgð samkvæmt almennum reglum.
Ákvæði 216. og 217. gr. takmarka að engu þann rétt til skaðabóta sem leiðir af almennum reglum.
219. gr. Vátryggingarskylda.
Flugrekandi/umráðandi loftfars skal taka og halda við vátryggingu til greiðslu skaðabóta sem kann að falla á hann vegna bótaábyrgðar í flugi og notkun loftfars vegna farþega, farangurs, farms og þriðju aðila. Vátryggja skal að lágmarki gegn þeim áhættum sem ráðherra tiltekur í reglugerð. Vátryggingarfjárhæðir skulu tryggja skaðabætur í samræmi við ábyrgð flugrekanda/umráðanda loftfars. Vátryggingarskylda tekur til alls flugs óháð því hver starfrækir loftfarið.
Veitendur flugleiðsöguþjónustu, veitendur þjónustu á sviði flæðistjórnunar flugumferðar, veitendur u-rýmisþjónustu og samræmdrar upplýsingaþjónustu og netstjórnandi skulu taka og halda við vátryggingu, til greiðslu skaðabóta, í samræmi við hugsanlegt tjón og skaða sem kann að leiða af þjónustunni sem þeir veita, að teknu tilliti til réttarstöðu hlutaðeigandi þjónustuveitanda og netstjórnanda og umfangs þeirrar vátryggingarverndar sem fáanleg er á markaði.
Óheimilt er að skerða bótarétt aðila utan loftfars sem fyrir tjóni verður með vátryggingarskilmálum sem lúta að sjálfsáhættu vátryggingartaka, eigin sök hans eða með ábyrgðarundanþágum og skulu slík ákvæði teljast ógild. Vátrygging skal meðal annars tryggja greiðslu kostnaðar við hreinsun á slysstað og brottnám flaks.
Ef vátrygging fellur úr gildi ber vátryggjandi ábyrgð á tjóni gagnvart þriðja aðila samkvæmt hljóðan vátryggingarskírteinis í fjórar vikur frá því það er tilkynnt lögbæru stjórnvaldi að vátryggingin sé niður fallin enda hafi loftfar eigi á þeim tíma verið tekið af skrá eða flugleyfi afturkallað eða vottorð veitanda skv. 2. mgr. fellt tímabundið úr gildi, er útrunnið eða það afturkallað.
Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um vátryggingarskyldu flugrekenda/umráðenda loftfara, undanþágu frá slíkri skyldu, vátryggingarskyldu veitanda flugleiðsöguþjónustu, veitenda þjónustu á sviði flæðistjórnunar flugumferðar, veitanda u-rýmisþjónustu og samræmdrar upplýsingaþjónustu og netstjórnanda, þær áhættur sem vátrygging skal taka til að lágmarki, vátryggingarfjárhæðir og skilmála og afleiðingar þess að vátryggingu er eigi haldið í gildi.
220. gr. Heimild vegna markaðsbrests.
Ef fyrir hendi er almennur ómöguleiki flugrekenda/umráðenda loftfara til að kaupa á markaði vátryggingar gegn sérstökum áhættum, svo sem tjóni af völdum hernaðaraðgerða, ólögmætum athöfnum gegn flugsamgöngum og áþekkum atburðum, þ.m.t. hryðjuverkum, er ráðherra heimilt að stuðla að stofnun félags eða þátttöku íslenska ríkisins í slíku félagi eða sjóði með öðrum ríkjum í því skyni að vátryggja eða endurvátryggja gegn slíkum áhættum.
XIX. kafli. Leit, aðstoð og björgun.
221. gr. Skylda til að veita aðstoð í neyð.
Stjórnendum loftfara, sjófarendum og vegfarendum á landi er skylt að veita loftfari í neyð liðsinni og aðstoð eftir megni til að bjarga mönnum úr hættu enda verði það gert án þess að björgunarmönnum, farartækjum þeirra, skipi eða loftfari sé stefnt í háska. Sama á við ef um er að ræða hluti og tæki sem farið geta um loftið en eru ekki loftför.
222. gr. Leit og björgun.
Á leitar- og björgunarsvæði Íslands, eins og það er skilgreint á hverjum tíma, er stjórnun leitar og aðstoð við loftför og björgun mannslífa í höndum lögreglu á landi og Landhelgisgæslu Íslands á hafi. Sama á við ef um er að ræða tæki eða hluti sem farið geta um loftið en eru ekki loftför. Landhelgisgæsla Íslands fer einnig með samhæfingu allra tiltækra björgunaraðila á og yfir hafi, þ.m.t. samstarf við erlend ríki og erlendar björgunarstjórnstöðvar. Lögreglu og Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að fela öðrum aðilum leit, aðstoð og björgun að hluta eða öllu leyti.
Lögregla og Landhelgisgæsla Íslands skulu veita erlendum ríkjum þá aðstoð og þær upplýsingar sem þau óska í tengslum við leit og björgun í samræmi við þjóðréttarskuldbindingar og, ef við á, fyrirmæli ráðherra sem fer með málefni leitar og björgunar.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa fer með yfirstjórn vettvangsrannsóknar vegna flugslyss og ber lögreglu, Landhelgisgæslu Íslands og öðrum aðilum sem kvaddir hafa verið til aðstoðar og björgunar að aðstoða hana í hvívetna.
Ráðherra sem fer með málefni leitar og björgunar er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um leit og björgun, kröfur til starfrækslu leitar- og björgunarstjórnstöðvar, þ.m.t. mönnun, kröfur um þjálfun og tungumálakunnáttu starfsfólks, verklag, aðföng, búnað og fjarskipti, viðbragðsáætlanir og æfingar auk samræmingar, samhæfingar og aðstoðar við erlend ríki og erlendar björgunarstjórnstöðvar, björgunaraðila og hagaðila og heimild slíkra aðila til leitar og björgunar á íslensku yfirráðasvæði.
223. gr. Kostnaður af björgunarstarfi og hreinsun.
Heimilt er að leggja kostnað, sem ríkissjóður hefur af leit að loftfari sem er saknað, að nokkru eða öllu leyti á eiganda eða flugrekanda/umráðanda loftfars enda komi þjóðréttarskuldbindingar ekki í veg fyrir slíkt. Sama gildir um kostnað af björgunarstarfi að því leyti sem hann greiðist ekki með björgunarlaunum.
Heimilt er lögreglu og Landhelgisgæslu Íslands í kjölfar flugslyss að skylda eiganda eða flugrekanda/umráðanda loftfars og eiganda hlutar og tækis sem fer um loftið en er ekki loftfar til að hlutast til um hreinsun á slysstað, brottflutning eða eyðingu ellegar merkingu staðsetningar flaks á viðeigandi kortum ef staðsetning þess getur valdið hættu og brottflutningur er ekki mögulegur. Telji eigandi eða flugrekandi/umráðandi að ill- eða ógerlegt sé að fjarlægja sokkið loftfar eða hlut og tæki sem fer um loftið en er ekki loftfar fer um umsókn hans og málsmeðferð samkvæmt lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda.
Sinni eigandi eða flugrekandi/umráðandi skv. 2. mgr. ekki kröfu innan tímafrests eða ekki er unnt að veita slíkan frest sökum aðstæðna er lögreglu og Landhelgisgæslu Íslands heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir til þess á hans kostnað. Á lögregla eða Landhelgisgæsla Íslands endurkröfu á eiganda eða flugrekanda/umráðanda vegna þess kostnaðar sem viðkomandi stofnun hefur haft af framangreindum aðgerðum og er hann aðfararhæfur án undangengins dóms eða sáttar.
224. gr. Björgunarlaun.
Ef einstaklingur bjargar eða stuðlar að björgun á loftfari, sem hlekkst hefur á eða er statt í háska, farangri eða farmi sem í því er eða nokkru því sem telst til slíks loftfars, farangurs eða farms, á hann, hvort heldur bjargað er í lofti, á láði eða legi, rétt til björgunarlauna samkvæmt ákvæðum siglingalaga nema um annað sé samið. Sama á við ef um er að ræða hluti og tæki sem farið geta um loftið en eru ekki loftför, þ.m.t. geimhluti.
Um rétt til björgunarlauna og, ef við á, sérstakrar þóknunar, og uppgjör þeirra fer samkvæmt ákvæðum siglingalaga.
225. gr. Lögveð vegna björgunar.
Eigandi bjargaðs farms ábyrgist einungis björgunarlaun og sérstaka þóknun með verðmæti þess sem bjargað var. Slík krafa er tryggð með veði í andlagi björgunar og gengur það fyrir öllum öðrum veðböndum enda sé andlag björgunar flutt til íslensks yfirráðasvæðis eða björgun fari fram á leitar- og björgunarsvæði Íslands eins og það er skilgreint á hverjum tíma. Veðkrafa sem stafar af síðari atburði gengur fyrir veðkröfu sem stafar af fyrri atburði. Kröfur sem eiga rætur að rekja til sama atburðar skulu jafnréttháar.
Áður en andlag björgunar er afhent eiganda/umráðanda þess skal björgunarmanni heimilt að krefjast tryggingar fyrir greiðslu skv. 224. gr.
Veðréttur skv. 1. mgr. fellur niður eftir þrjá mánuði ef hann er ekki þinglýstur og fjárhæð hans samþykkt eða, ef við á, skráður í alþjóðlegu réttindaskrána og fjárhæð samþykkt eða mál höfðað til staðfestu veðrétti. Mál má höfða þar sem björgunarstarfi lauk eða þar sem andlag lögveðs er staðsett.
Veðhafa skv. 1. mgr. skal óheimilt að ganga að veði hafi nægileg trygging, að meðtöldum vöxtum og innheimtukostnaði, verið boðin eða veitt.
XX. kafli. Valdheimildir, þvingunarúrræði og refsingar.
226. gr. Almennar eftirlitsheimildir.
Lögbærum stjórnvöldum er heimilt að:
a. óska eftir skýringum og krefja þá aðila sem stjórnvaldið hefur gefið vottorð, réttindi, leyfi og fullgildingu, eða þá sem hafa gefið út yfirlýsingu, um að láta þeim í té allar nauðsynlegar upplýsingar, hvort sem er munnlega eða skriflega, um allar staðreyndir, skjöl, hluti, verklag eða önnur viðfangsefni sem tengjast mati á því hvort eftirlitsskyldur aðili fari að lögum þessum og reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra,
b. fara inn á land, athafnasvæði og í mannvirki, þ.m.t. flugvelli, flugstöðvar og starfsstöðvar eftirlitsskyldra aðila, og í farartæki eftirlitsskyldra aðila,
c. gera úttekt á starfsstöðvum eftirlitsskyldra aðila, og er fyrirsvarsfólki aðila í því skyni skylt að veita þann aðgang og atbeina sem lögbær stjórnvöld krefjast,
d. rannsaka efni, skýrslur og gögn sem eftirlitsskyldir aðilar ráða yfir eða hafa aðgang að, þ.m.t. vottorð, skrár, verklagsreglur og annað tengt efni, og afrita eða gera útdrátt úr öllum viðeigandi skjölum, óháð því í hvaða miðli umræddar upplýsingar eru geymdar,
e. láta fara fram úttektir og skoðanir, þ.m.t. fyrirvaralausar skoðanir, sannprófanir á búnaði og tækjum, sannprófun á verklagi eða ráðstöfunum í þágu öryggis eða verndar,
f. gera prufukaup á vörum eða þjónustu, undir fölsku nafni ef nauðsyn krefur, til að koma upp um brot og til að afla sönnunargagna, þ.e. á grundvelli heimildar til þess að skoða, athuga, rannsaka, hluta sundur eða prófa vöru eða þjónustu,
g. grípa til ráðstafana eða fylgja málum eftir, eins og við á.
Í þeim tilgangi að ákvarða hvort handhafi vottorðs sem stjórnvaldið hefur gefið út eða yfirlýsingar sem lögð hefur verið fyrir stjórnvaldið framfylgi lögum þessum eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra skal lögbærum stjórnvöldum einnig vera heimilt að beita framangreindum heimildum gagnvart öðrum lögaðilum eða einstaklingum sem búast má við að hafi sannarlega aðgang að upplýsingum sem máli skipta vegna verkefna og eftirlits þess.
Valdheimildum skal beitt að teknu tilhlýðilegu tilliti til meðalhófs og lögmætra hagsmuna framangreindra aðila.
Samgöngustofu og eftir atvikum öðrum stjórnvöldum hér á landi skal að beiðni Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins skylt að aðstoða stofnunina við eftirlit á þess vegum.
227. gr. Loftför.
Samgöngustofu er heimilt að rannsaka loftfar, farm þess og flugverja og sannreyna þau skjöl sem loftfar og flugverjar hafa meðferðis, þ.m.t. gögn er varða vottun loftfars, viðhald o.fl. Sama gildir um ómannað loftfar og fjarflugmann þess.
Heimilt er að krefjast þess að loftfarið sé haft tiltækt til skoðunar og það affermt og prófflug og önnur próf fari fram, svo og að kalla flugverja loftfars, fjarflugmann og aðra starfsmenn eftirlitsskylds aðila, þ.m.t. starfsmenn viðhaldsstöðva eða viðhaldsaðila, til aðstoðar eins og þurfa þykir.
Rannsókn skal fara fram af þeirri nærgætni sem kostur er. Flugrekanda/umráðanda loftfars skal tilkynnt um niðurstöður rannsóknar.
Samgöngustofu er heimilt að leggja bann við för loftfars ef rannsókn loftfars og skjala sem loftfar og flugverjar/fjarflugmaður hafa meðferðis leiðir í ljós alvarleg frávik eða fyrirhugað er eða líklegt að loftfarinu verði flogið án þess að flugrekandi/umráðandi loftfars hafi lokið viðeigandi aðgerðum til úrbóta eða ef ástæða er til að ætla að loftfari verði flogið andstætt ákvæðum laga þessara eða öðrum lögum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim. Rekstraraðilum rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu, rekstraraðilum flugvallar og lögreglu er skylt að veita stofnuninni aðstoð til að framfylgja slíku banni.
Ákvæði þetta tekur jafnt til loftfara sem skráð eru hér á landi, loftfara sem starfrækt eru hér á landi án skráningar og erlendra loftfara.
Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um skilyrði banns við för loftfars og afléttingar þess, svo og verklag og upplýsingamiðlun í reglugerð.
228. gr. Takmörkun eða bann við flugi loftfara á grundvelli flugöryggis.
Á grundvelli flugöryggis skal Samgöngustofu heimilt að banna og/eða takmarka flug loftfara og hluta og tækja sem farið geta um loftið en eru ekki loftför á íslensku yfirráðasvæði, þ.m.t. tilteknar tegundir eða flokkar loftfara, hluta og tækja sem farið geta um loftið en eru ekki loftför og loftför skráð eða starfrækt frá tilteknum ríkjum eða af tilteknum flugrekendum/umráðendum. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um skilyrði þess að slíku banni sé komið á eða því aflétt, framkvæmd og málsmeðferð og miðlun upplýsinga.
Samgöngustofu er heimilt að banna flug yfir hljóðhraða á íslensku yfirráðasvæði.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð1) sem innleiðir reglugerð Evrópusambandsins sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn um gerð og birtingu skrár yfir loftför, flugrekendur og ríki sem sæta banni til flugs innan Evrópska efnahagssvæðisins á grundvelli flugöryggis. Heimilt er að vísa til erlends frumtexta reglugerðar Evrópusambandsins í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins í B-deild Stjórnartíðinda og telst það lögmæt birting.
1)Rg. 277/2008, sbr. 396/2008, 826/2008, 1185/2008, 464/2009, 181/2010, 675/2010, 424/2011, 202/2011, 1074/2011, 315/2012, 864/2012, 996/2012, 341/2013, 1253/2013, 579/2014, 1257/2014, 865/2015, 443/2016, 1037/2017, 573/2018, 1082/2018, 813/2019, 1041/2019, 1194/2020, 441/2021, 622/2021, 1343/2021, 1296/2022, 524/2023 og 366/2024.
229. gr. Eftirlit með öryggi vara.
Samgöngustofa skal að eigin frumkvæði eða eftir ábendingu taka til meðferðar mál er varða eftirlit með öryggi vara, þ.m.t. ómannaðra loftfara, búnaðar, kerfa og kerfishluta sem falla undir lög þessi.
Ef vara skv. 1. mgr., sem er á markaði, uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum þessum og reglugerðum sem ráðherra setur getur Samgöngustofa krafist þess að markaðsaðili geri viðeigandi úrbætur. Ef ekki er orðið við þeirri kröfu skal Samgöngustofa gera allar viðeigandi ráðstafanir til að takmarka eða banna að varan sé boðin fram á markaði eða tryggja að hún sé afturkölluð eða tekin af markaði.
Af ástæðum er tengjast almannaöryggi, almannaheilbrigði og almannahagsmunum skal Samgöngustofu heimilt að krefjast þess að markaðsaðili grípi til allra viðeigandi aðgerða til að tryggja að áhætta stafi ekki af viðkomandi vöru þegar hún er sett á markað, taki vöruna af markaði eða innkalli hana innan hæfilegs frests miðað við eðli áhættunnar.
Samgöngustofa getur gert kröfu um að eigendur, flugrekendur/umráðendur, rekstraraðilar, framleiðendur, innflytjendur eða dreifingaraðilar afhendi stofnuninni allar upplýsingar er varða vörur skv. 1. mgr. sem settar hafa verið á markað eða ráðgert er að setja á markað. Með slíkar upplýsingar skal farið sem trúnaðarmál.
230. gr. Allsherjarregla og öryggi.
Lögbærum stjórnvöldum og lögreglu er heimilt að skipa loftfari að víkja af fyrirhugaðri flugleið og/eða lenda, leggja bann við flugtaki eða lendingu og viðhafa nauðsynlegar ráðstafanir til að takmarka eða hindra flug loftfara um tiltekið loftrými, enda miði slík aðgerð að því að halda uppi allsherjarreglu, tryggja öryggi og flugvernd eða vernda umhverfi, friðhelgi einkalífs og persónuupplýsingar.
Veitanda flugumferðarþjónustu, u-rýmisþjónustu, samræmdrar upplýsingaþjónustu og rekstraraðila flugvallar er skylt að veita lögbærum stjórnvöldum og lögreglu þá aðstoð sem þörf er á hverju sinni.
Sé loftfari skipað að lenda skal því lent svo skjótt sem kostur er. Ef skipun er ekki annars efnis skal loftfar, annað en ómannað loftfar, lenda á næsta flugvelli hér á landi sem er opinn almenningi og lenda má á. Ómönnuðu loftfari skal lent þar sem ekki skapast hætta á tjóni eða ónæði af lendingu þess.
Ef loftfar flýgur inn á svæði þar sem loftferðir eru bannaðar skal loftfarið tafarlaust fljúga út af svæðinu og tilkynna það lögbæru stjórnvaldi.
Fari stjórnandi loftfars eða fjarflugmaður ekki eftir fyrirmælum þessarar greinar er lögreglu heimilt að hindra áframhaldandi flug loftfarsins með viðeigandi ráðum.
Lögreglu er heimilt að leggja bann við flugtaki eða lendingu loftfars ef ástæða er til að ætla að loftfarið verði notað í því skyni að fremja brot gegn lögum þessum eða refsilögum.
Heimildir 1.–6. mgr. skulu einnig ná til hluta og tækja sem farið geta um loftið en eru ekki loftför.
231. gr. Flugsamgöngur á hættutímum.
Þegar brýna nauðsyn ber til, svo sem vegna almannaöryggis eða allsherjarreglu, getur ráðherra:
a. takmarkað eða bannað loftferðir almennt eða um hluta af íslensku yfirráðasvæði,
b. takmarkað aðgang að flugvöllum og flugstöðvum, umferð og dvöl loftfara og umgengni eða dvöl á slíkum svæðum.
Ef vástig eða almannavarnastig er hækkað vegna neyðar, yfirvofandi hættuástands eða ógnar er ráðherra heimilt að gefa út nauðsynleg fyrirmæli, hvort sem er almenn eða sértæk, til rekstraraðila flugvalla, rekstraraðila rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu, u-rýmisþjónustu og samræmdrar upplýsingaþjónustu, flugrekenda/umráðenda loftfara, þjónustuaðila og annarra sem hafa starfsemi við eða innan flugvallarsvæðis og í eða við flugstöðvar í því skyni að gæta allsherjarreglu, sóttvarna og öryggis. Slík fyrirmæli gilda aðeins meðan hækkað vástig eða almannavarnastig varir og mæli þau ekki fyrir um gildistíma falla þau niður innan 30 daga frá útgáfu þeirra ef þau eru ekki afturkölluð fyrr. Ef fyrirmæli eru verulega íþyngjandi og hafa í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir aðila og kostnaður er meiri en ávinningur aðila skal endurgjald metið samkvæmt samkomulagi eða á grundvelli mats samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms.
Í því skyni að tryggja viðbúnað á landsvísu skal ráðherra heimilt að beina því til eftirlitsskyldra aðila að veita aðstoð við skipulagningu viðbúnaðar og framkvæmd, þátttöku í æfingum og að tryggja öryggi og vernd þýðingarmikilla grunnvirkja, aðfangakeðju og samgangna. Ef veiting aðstoðar hefur í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir aðila sem veitir liðsinni og kostnaður er meiri en ávinningur aðila af þátttöku skal endurgjald metið samkvæmt samkomulagi eða á grundvelli mats samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms.
232. gr. Verndarráðstafanir.
Samgöngustofu er heimilt að grípa til hvers konar ráðstafana til að bregðast við byrjuðum eða yfirvofandi vanda er tengist öryggi í flugi ef:
a. vandinn felur í sér alvarlega áhættu á sviði flugöryggis og þörf er á tafarlausum aðgerðum til að bregðast við,
b. ekki er unnt að grípa til annarra viðunandi viðbragða á grundvelli laga þessara eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim,
c. gætt er meðalhófs og ekki gengið lengra en þörf krefur hverju sinni.
Ráðstafanir skv. 1. mgr. skulu gefnar út sem öryggisfyrirmæli skv. 233. gr.
233. gr. Rekstrar-, lofthæfis- og öryggisfyrirmæli.
Lögbærum stjórnvöldum er heimilt að gefa út rekstrar-, lofthæfis- og öryggisfyrirmæli um framleiðsluvörur, hluti, óuppsettan búnað og búnað til að fjarstýra loftförum, svo og vottorð útgefin af lögbæru stjórnvaldi eða fyrirmæli er varða þá aðila sem gefið hafa út yfirlýsingu til lögbærs stjórnvalds. Jafnframt er lögbærum stjórnvöldum heimilt að gefa út slík fyrirmæli um starfsemi og aðila sem lúta eftirliti samkvæmt lögum þessum, ef viðkomandi stofnun hefur ákvarðað að fyrir hendi séu óöruggar aðstæður sem krefjast tafarlausra aðgerða. Slík fyrirmæli geta varðað afmarkaða þætti eða starfsemi á viðkomandi sviði í heild. Samgöngustofu er heimilt að birta slík fyrirmæli á ensku ef þörf krefur.
Rekstrar-, lofthæfis- og öryggisfyrirmæli geta lotið að því að banna tiltekna starfrækslu, binda hana takmörkunum eða gera hana háða því að tiltekin skilyrði sem viðeigandi lögbært stjórnvald setur séu uppfyllt í þágu aukins flugöryggis. Í slíkum fyrirmælum skal greint frá ástæðu fyrir útgáfu þeirra, gildissviði og gildistíma og þeim ráðstöfunum sem hlutaðeigandi aðila ber að viðhafa eða afturkalla auk annarra upplýsinga eftir atvikum.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð1) þar sem kveðið er nánar á um útgáfu og birtingu rekstrar-, lofthæfis- og öryggisfyrirmæla, lágmarksupplýsingar sem skulu koma fram og tilkynningarskyldu slíkra fyrirmæla eftir atvikum til Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins, Eftirlitsstofnunar EFTA og annarra ríkja.
1)Rg. 270/2024.
234. gr. Aðgerðir sem ber að tilkynna.
Samgöngustofa skal án tafar tilkynna aðgerðir skv. 143., 190., 231.–233. og 2. mgr. 238. gr. og aðgerðir er varða atriði er falla undir gildissvið EASA-reglugerðarinnar til Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins, EASA-ríkjanna og Eftirlitsstofnunar EFTA.
Telji Eftirlitsstofnun EFTA, að fenginni umsögn Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins, ef við á, að ráðstafanir skv. 1. mgr. uppfylli ekki þau skilyrði sem tiltekin eru skulu ráðstafanirnar afturkallaðar af viðeigandi stjórnvaldi.
235. gr. Krafa um úrbætur o.fl.
Komi í ljós að eftirlitsskyldur aðili fylgi ekki lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra skulu lögbær stjórnvöld krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests eða þegar í stað í samræmi við alvarleika fráviks. Jafnframt geta lögbær stjórnvöld farið fram á að eftirlitsskyldur aðili grípi til frekari mótvægisaðgerða í því skyni að tryggja að farið sé eftir ákvæðum laga þessara og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim.
Telji Samgöngustofa háttsemi aðila andstæða ákvæðum laga þessara getur stofnunin krafist þess að háttseminni verði þegar í stað hætt. Jafnframt getur Samgöngustofa krafist þess að starfsemi aðila verði stöðvuð tímabundið í því skyni að koma í veg fyrir háttsemi sem talin er andstæð ákvæðum laga þessara. Ef þörf krefur er lögreglu skylt að aðstoða Samgöngustofu við þær aðgerðir.
236. gr. Breyting, takmörkun eða tímabundin niðurfelling eða afturköllun vottorðs o.fl.
Lögbærum stjórnvöldum er heimilt að breyta, takmarka, fella tímabundið úr gildi eða afturkalla vottorð, áritanir eða önnur réttindi ef viðeigandi lögbært stjórnvald telur að handhafi uppfylli ekki lengur skilyrði og kröfur sem gerðar eru til útgáfu þeirra, handhafi fer ekki lengur að lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra eða ef vafi leikur á að viðkomandi aðili geti fullnægt slíkum kröfum.
Lögbærum stjórnvöldum er heimilt að ógilda eða afskrá yfirlýsingu ef sá sem gaf út yfirlýsinguna uppfyllir ekki lengur þau skilyrði og þær kröfur sem gerðar eru til útgáfu hennar eða ef útgefandi hennar fer ekki lengur að lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra eða ef vafi leikur á að viðkomandi aðili geti fullnægt slíkum kröfum.
1. og 2. mgr. eiga enn fremur við ef handhafi vottorðs, réttinda eða yfirlýsingar er uppvís að því að framvísa fölsuðum gögnum eða beita blekkingum við útgáfu eða endurnýjun vottorðs, annarra réttinda eða yfirlýsingar eða ef sönnun er færð fyrir misnotkun eða svikum í tengslum við notkun vottorðs, réttinda eða yfirlýsingar eða ef handhafi vottorðs, réttinda eða yfirlýsingar hefur verið við störf undir áhrifum geðvirkra efna, sbr. 254. gr.
Ef vottorð, þ.m.t. heilbrigðisvottorð, áritanir eða önnur réttindi, er fellt úr gildi tímabundið eða afturkallað skal handhafi tafarlaust skila vottorðinu til viðkomandi lögbærs stjórnvalds.
Tímabundin niðurfelling vottorðs eða annarra réttinda fellur úr gildi þegar vottorð er afturkallað.
237. gr. Brot á lögum.
Ef handhafi vottorðs, annarra réttinda, leyfis eða útgefandi yfirlýsingar hefur gerst sekur um brot gegn lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra eða ef telja verður varhugavert með hliðsjón af eðli brotsins eða öðru framferði að handhafi eða útgefandi yfirlýsingar neyti réttinda samkvæmt vottorði, öðrum réttindum, leyfi eða yfirlýsingu er Samgöngustofu heimilt að fella tímabundið úr gildi eða afturkalla umrædd réttindi eða ógilda eða afskrá yfirlýsingu.
Ef brot er alvarlegt, stórfellt og/eða aðrar ríkar ástæður eru fyrir hendi er Samgöngustofu heimilt að fella tímabundið úr gildi eða afturkalla vottorð, önnur réttindi, leyfi eða yfirlýsingu fyrirvaralaust og án þess að handhafi eða útgefandi fái notið lögbundins andmælaréttar.
238. gr. Undanþágur.
Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum laga þessara og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra ef meginefni undanþágu varðar efnisatriði sem ekki fellur undir gildissvið EASA-reglugerðarinnar og afleiddra reglugerða sem innleiddar hafa verið í landsrétt og um er að ræða ófyrirséðar brýnar aðstæður eða þarfir vegna starfrækslu sem hefur áhrif á aðila, enda séu þau skilyrði sem greind eru í a–d-lið 2. mgr. uppfyllt.
Í samræmi við ákvæði EASA-reglugerðarinnar er Samgöngustofu heimilt að veita einstaklingum og lögaðilum undanþágu frá ákvæðum laga þessara og reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra, enda falli efnisatriði undanþágu undir EASA-reglugerðina eða afleiddar reglugerðir sem innleiddar hafa verið í landsrétt, vegna ófyrirséðra, brýnna aðstæðna eða þarfa vegna starfrækslu sem hefur áhrif á aðila, og undanþágan uppfyllir aðrar kröfur sem ráðherra setur í reglugerð, m.a. með tilliti til tímalengdar og endurtekningar, auk eftirfarandi skilyrða:
a. ekki er mögulegt að bregðast við þessum aðstæðum eða þörfum með viðunandi hætti í samræmi við gildandi kröfur,
b. öryggi, umhverfisvernd og samræmi við gildandi grunnkröfur er tryggt ef nauðsynlegt er að beita ráðstöfunum til að draga úr áhættu,
c. Samgöngustofa hefur, eins og mögulegt er, dregið úr hugsanlegri röskun á markaðsaðstæðum í kjölfar þess að undanþága er veitt,
d. umfang og tímalengd undanþágunnar takmarkast við það sem telst algerlega nauðsynlegt og henni er beitt á jafnréttisgrundvelli.
Ef kveðið er á um sérstaka heimild til að veita undanþágu frá grunnkröfum í EASA-reglugerðinni skal farið með slíkar heimildir og skilyrði í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.
Undanþágur skv. 2. mgr. skal tilkynna í samræmi við 234. gr.
239. gr. Valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA.
Eftirlitsstofnun EFTA getur tekið ákvörðun um að:
a. fella niður gagnkvæma viðurkenningu vottorða, annarra réttinda og yfirlýsinga, sbr. 29. gr., enda sé sannað að handhafi eða útgefandi uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim. Þegar Eftirlitsstofnun EFTA telur að gripið hafi verið til viðeigandi aðgerða til úrbóta og gerðar hafi verið viðeigandi verndarráðstafanir getur hún ákveðið að vottorð, réttindi eða yfirlýsing teljist aftur gild og viðurkennd,
b. beina því til ráðherra að komið verði á eftirlitsstuðningskerfi í samvinnu við Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins hér á landi enda liggi fyrir sönnun um alvarlega og viðvarandi vangetu lögbærs landsyfirvalds til þess að sinna með skilvirkum hætti tilteknum eða öllum verkefnum sem tengjast vottun, eftirliti og framfylgd í samræmi við lög þessi og reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim og ekki hefur verið orðið við óskum um umbætur á fullnægjandi hátt og ástand hefur skapast þar sem flugöryggi er talið stefnt í hættu.
240. gr. Réttur til að kæra ákvörðun Samgöngustofu.
Ákvarðanir Samgöngustofu sæta kæru til ráðherra samkvæmt lögum þessum nema annað sé sérstaklega tekið fram. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
241. gr. Málshöfðun fyrir innlendum dómstólum.
Ef aðili vill ekki una ákvörðun Samgöngustofu samkvæmt lögum þessum getur hann höfðað mál til ógildingar henni fyrir dómstólum innan sex mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.
Málshöfðun frestar hvorki réttaráhrifum ákvörðunar né heimild til aðfarar samkvæmt henni, ef við á.
Dómstólar hafa vald til þess að endurskoða alla þætti stjórnvaldsákvörðunar um álagningu stjórnsýsluviðurlaga skv. 245. og 246. gr. og þar sem efni standa til geta þeir fellt þau niður, hækkað eða lækkað, allt eftir dómkröfum aðila.
242. gr. Réttur til að kæra ákvarðanir Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins.
Aðilum er heimilt að kæra ákvörðun Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins sem beinist gegn þeim eða ákvörðun sem varðar þá óbeint þótt henni sé beint að öðrum aðila til kærunefndar stofnunarinnar, eins og nánar greinir í reglugerð sem ráðherra setur.
Kæra sem lögð er fram skv. 1. mgr. hefur ekki áhrif til frestunar réttaráhrifa. Forstjóra Flugöryggisstofnunarinnar er heimilt að fresta réttaráhrifum ákvörðunar sem kærð hefur verið telji hann að aðstæður leyfi það.
Áður en kærunefndin tekur kæru til athugunar skal hún gefa Flugöryggisstofnuninni kost á að endurskoða ákvörðun sína.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um þær ákvarðanir sem heimilt er að kæra, kæruaðild, endurskoðunarrétt Flugöryggisstofnunarinnar, kærunefnd, kærufresti, málsmeðferð, kærugjald, réttaráhrif kæru og niðurstöðu.
243. gr. Málshöfðun vegna ákvörðunar, athafna eða athafnaleysis Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins.
Mál til ógildingar á ákvörðun Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins vegna athafna eða athafnaleysis, vegna skaðabótaábyrgðar innan eða utan samninga eða á grundvelli gerðardómsákvæðis verða aðeins höfðuð gegn stofnuninni fyrir dómstól Evrópusambandsins.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um rétt aðila til málshöfðunar, grundvöll málshöfðunar, rétt ríkja, stofnana Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnunar EFTA til málshöfðunar og málsmeðferð.
244. gr. Málshöfðun fyrir EFTA-dómstólnum og aðfararhæfi.
Ákvörðunum Eftirlitsstofnunar EFTA má skjóta til EFTA-dómstólsins í samræmi við samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
Ákvarðanir Eftirlitsstofnunar EFTA samkvæmt lögum þessum eru aðfararhæfar, sem og dómar og úrskurðir EFTA-dómstólsins.
245. gr. Dagsektir.
Samgöngustofa getur ákveðið að leggja dagsektir á eftirlitsskyldan aðila samkvæmt lögum þessum sem:
a. veitir ekki umbeðnar upplýsingar eða aðgengi sem nauðsynlegt er til að stofnunin geti sinnt eftirliti sínu,
b. sinnir ekki kröfu um úrbætur innan hæfilegs frests,
c. brýtur gegn ákvörðun stofnunarinnar sem tekin hefur verið samkvæmt lögum þessum.
Tilkynna skal aðila um ákvörðun stofnunarinnar ásamt rökstuðningi við hana á sannanlegan hátt. Dagsektir leggjast á frá dagsetningu ákvörðunar eða, sé veittur frestur til að sinna úrbótum, frá þeim degi sem ákvörðun tiltekur þangað til farið hefur verið að kröfum Samgöngustofu. Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt aðili verði síðar við kröfu Samgöngustofu nema stofnunin samþykki lækkun eða niðurfellingu þeirra.
Dagsektir geta numið frá 10 þús. kr. til 1 millj. kr. fyrir hvern dag sem líður eða byrjar að líða án þess að orðið sé við kröfu. Við ákvörðun um fjárhæð dagsektar er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila. Innheimtar dagsektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Gjalddagi dagsekta er 15 dögum eftir dagsetningu ákvörðunar. Greiða skal dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar sé hún ógreidd 15 dögum eftir gjalddaga.
Ákvörðun um dagsektir má skjóta til ráðherra innan 30 daga frá því að hún er kynnt þeim sem hún beinist að. Ber Samgöngustofu að leiðbeina aðila sérstaklega um rétt til kæru. Ákvarðanir Samgöngustofu um að leggja á dagsektir eru aðfararhæfar að liðnum kærufresti. Málskot til ráðherra frestar aðför en úrskurðir ráðherra eru aðfararhæfir. Málshöfðun fyrir dómstólum frestar ekki aðför. Málshöfðun fyrir dómstólum er ekki háð því að mál hafi áður verið kært til ráðherra.
Ákvæði þetta tekur jafnt til eftirlitsskyldra aðila sem annarra aðila sem veitt geta upplýsingar í þágu eftirlits, sbr. 2. mgr. 226. gr.
246. gr. Stjórnvaldssektir.
Samgöngustofa getur lagt stjórnvaldssekt á eftirlitsskylda aðila, einstakling og lögaðila sem brjóta gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglugerðum og fyrirmælum sem sett eru á grundvelli þeirra um:
a. heimild til komu, brottfarar eða ferðar á íslensku yfirráðasvæði, sbr. 21.–23. gr., 2. mgr. 25. gr. og 189. gr.,
b. heimild til markaðsaðgangs skv. 189. og 191. gr.,
c. vottun eða yfirlýsingu vegna flugöryggis enda sé ekki um að ræða EASA-loftfar, sbr. 22. gr.,
d. leyfi eða heimild, sbr. 26., 111.–113. og 160. gr.,
e. skyldu til að fara að fyrirmælum, sbr. 32. gr., 230. gr., 2. mgr. 231. gr., 232. gr. og 233. gr.,
f. skyldu til skráningar ómannaðs loftfars, sbr. 56. gr.,
g. skyldu til skráningar flugrekanda/umráðanda ómannaðs loftfars, sbr. 49. gr.,
h. merkingu loftfars, sbr. 41. gr., 3. mgr. 49. gr. og 5. mgr. 69. gr.,
i. skyldur til að afla starfsemi/mannvirki/búnaði/loftfari vottunar eða gefa út yfirlýsingu, sbr. 54., 57.–61. gr., 2. mgr. 71. gr., 79., 80., 84., 88., 89., 91., 105., 132.–135., 153., 154., 158., 163., 169. og 171.–173. gr.,
j. skyldu einstaklinga sem sinna tilteknum störfum til vottunar, sbr. 63., 64., 73., 75., 79. og 155. gr.,
k. starfrækslu loftfars án gilds lofthæfisvottorðs eða vottorðs um áframhaldandi lofthæfi, sbr. 62. og 67. gr.,
l. markaðssetningu ómannaðs loftfars í opnum flokki eða sérstökum flokki sem ekki hefur CE-merkingu, sbr. 69. gr.,
m. starfrækslu loftfara, sbr. IX. kafla,
n. skyldur er varða vinnuumhverfi flugverja, sbr. 117.–122. gr.,
o. tilkynningarskyldu, sbr. 44., 45., 81., 86. og 125. gr., 2. mgr. 128. gr., 2. mgr. 164. gr. og 186. gr.,
p. skyldu til að vátryggja, sbr. 219. gr.,
q. neytendavernd, sbr. XVI. kafla,
r. flugreglur, sbr. 169. gr., og flug innan skilgreindra hafta-, hættu- og bannsvæða á meðan slíkar takmarkanir eru í gildi, sbr. 177. og 178. gr.,
s. að víkja frá hæðartakmörkunum eða öðrum takmörkunum, sbr. 149. gr.,
t. skyldu til að veita upplýsingar, sbr. 37. gr., 5. mgr. 69. gr. og 82. gr.,
u. meðhöndlun upplýsinga sem lúta trúnaði eða vernd, sbr. 114. og 161. gr. og 3. mgr. 195. gr.,
v. meðhöndlun tilkynninga skv. XI. kafla, sbr. 4. mgr. 127., 3. mgr. 128. og 1. mgr. 129. gr.,
w. brot gegn sanngirnismenningu, sbr. 2. mgr. 129. gr.,
x. skil útgefins vottorðs, sbr. 1. mgr. 48., 3. mgr. 136. og 4. mgr. 236. gr.,
y. þagnarskyldu, sbr. 166. gr.
Ákvörðun um stjórnvaldssekt skal tilkynnt á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að.
Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekið fyrirsvarsfólk lögaðilans, starfsfólk hans eða annan aðila sem starfar á vegum hans.
Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 25 þús. kr. til 8 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 75 þús. kr. til 100 millj. kr.
Ráðherra getur í reglugerð ákveðið fjárhæð stjórnvaldssekta fyrir brot á einstökum ákvæðum laga þessara innan þess ramma sem ákveðinn er í 4. mgr. og breytt upphæð dagsekta skv. 245. gr. í samræmi við verðlagsþróun. Hafi fjárhæð stjórnvaldssektar ekki verið ákveðin í reglugerð skal við ákvörðun hennar hafa hliðsjón af alvarleika brotsins, hvað það hafi staðið lengi yfir og hvort um ítrekað brot er að ræða. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna fyrirtækis, ef við á, og hvort hægt var að koma í veg fyrir lögbrotið með stjórnun og eftirliti. Loks ber að líta til þess hver fjárhagslegur styrkleiki hins eftirlitsskylda aðila er.
Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir dagsetningu ákvörðunar. Greiða skal dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar sé hún ógreidd 15 dögum eftir gjalddaga. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
Ákvörðun um stjórnvaldssekt má skjóta til ráðherra samkvæmt stjórnsýslulögum. Ber Samgöngustofu að leiðbeina aðila sérstaklega um rétt til kæru. Ákvarðanir Samgöngustofu um að leggja á stjórnvaldssekt eru aðfararhæfar að liðnum kærufresti. Málskot til ráðherra frestar aðför en úrskurðir ráðherra eru aðfararhæfir. Málshöfðun fyrir almennum dómstólum frestar ekki aðför og er ekki háð því að mál hafi áður verið kært til ráðherra.
Heimild Samgöngustofu til að leggja á stjórnvaldssekt samkvæmt lögum þessum fellur brott þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk. Frestur rofnar þegar Samgöngustofa tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að brotinu.
247. gr. Sátt.
Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara, reglugerðir settar samkvæmt þeim, fyrirmæli eða ákvörðun Samgöngustofu er stofnuninni heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Samgöngustofa setur nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.
Sátt samkvæmt ákvæði þessu er aðfararhæf 30 dögum eftir að málsaðilar hafa staðfest efni hennar með undirskrift sinni.
Heimilt er að kveða á um í sátt samkvæmt ákvæði þessu að greiða skuli dráttarvexti af fjárhæð sáttarinnar sé hún ógreidd 45 dögum eftir að málsaðilar hafa staðfest efni hennar með undirskrift sinni.
248. gr. Lögbannsheimild vegna hagsmuna neytenda.
Samgöngustofa getur leitað lögbanns til að vernda heildarhagsmuni neytenda, enda sé fullnægt öðrum skilyrðum lögbanns sem greind eru í lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
Samgöngustofa getur fengið lagt lögbann við athöfn ef hætta er á að heildarhagsmunir neytenda bíði alvarlegan skaða og engin önnur skilvirk leið er fyrir hendi til að stöðva brot gegn 202. og 203. gr. og reglugerðum sem settar eru skv. 209. gr. Við lögbannsgerð má eftir kröfu Samgöngustofu leggja fyrir:
a. þjónustuveitanda eða þann sem starfrækir netskilflöt að fjarlægja efni á netskilfleti eða setja upp skýra viðvörun sem neytendur sjá þegar þeir fara inn á netskilflötinn,
b. fjarskiptafyrirtæki að takmarka aðgang að netskilfleti,
c. þjónustuveitanda að fjarlægja, gera óvirkan eða takmarka aðgang að netskilfleti, eða
d. skráningaraðila eða skráningarmiðlun léna að loka, læsa eða endurskrá lén hjá Samgöngustofu.
Lagt verður fyrir þjónustuveitendur og fjarskiptafyrirtæki að leysa af hendi athafnir skv. 2. mgr. óháð því hvort þau beri ábyrgð á gögnum, miðlun gagna eða sjálfvirkri, millistigs- eða skammtímageymslu gagna.
Þegar sett er fram krafa um lögbann skal rétthafa léns og þeim sem talinn er brjóta gegn ákvæðum laga og reglugerða skv. 2. mgr. tryggð sambærileg réttarstaða og gerðarþola til hagsmunagæslu við fyrirtöku lögbannsgerðar eftir því sem við verður komið, auk tilkynningar um lögbannsgerð að henni lokinni skv. 14. og 18. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990.
Við mat á því hvort lögbann verði lagt á skal vega saman hagsmuni gerðarþola og heildarhagsmuni neytenda. Meðal annars skal litið til sjónarmiða um meðalhóf, tjáningarfrelsi og upplýsingarétt.
Um lögbann samkvæmt þessari grein fer að öðru leyti eftir lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
249. gr. Opinber birting viðurlaga.
Samgöngustofu skal heimilt að birta á vef sínum nöfn rekstraraðila flugvalla og flugrekenda/umráðenda loftfara sem tilkynnt hafa að þeir hyggist ekki fara að úrskurði stofnunarinnar skv. 208. gr. og nöfn þeirra aðila sem sætt hafa stjórnsýsluviðurlögum sem ákveðin eru skv. 245.–247. gr. auk upplýsinga um tegund og eðli brots.
Kveði dómstóll upp dóm um sýknu rekstraraðila flugvallar eða flugrekenda/umráðenda loftfara skv. 1. mgr. eða ef talið er að birting valdi einstaklingi óhóflegum skaða skal Samgöngustofa afmá nafn eða nöfn þeirra sem dómur varðar af vef sínum.
250. gr. Sektir og févíti sem Eftirlitsstofnun EFTA getur lagt á.
Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt, að tillögu Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins, að leggja á lögaðila eða einstakling, sem Flugöryggisstofnunin hefur gefið út vottorð fyrir eða sem hefur lagt fyrir stofnunina yfirlýsingu, annað hvort eða hvort tveggja:
a. fjársekt ef brotið er af ásetningi eða af gáleysi gegn ákvæðum laga þessara eða reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim,
b. févíti þegar einstaklingur eða lögaðili heldur áfram að brjóta gegn ákvæðum laga þessara eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim í því skyni að knýja viðkomandi til þess að fara að þessum ákvæðum.
Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt með ákvörðun að sekta fyrirtæki og samtök fyrirtækja ef þau af ásetningi eða af gáleysi brjóta gegn ákvæðum 199. gr. eða reglugerðum sem settar eru á grundvelli laga þessara vegna slíkra kerfa. Við ákvörðun sekta skal bæði taka tillit til þess hversu alvarlegt brotið er og hversu lengi það hefur staðið.
Ákvarðanir um sektir og févíti samkvæmt þessari grein eru aðfararhæfar og skulu álagðar sektir og févíti renna til Eftirlitsstofnunar EFTA að frádregnum kostnaði við innheimtu.
Ákvarðanir um sektir og févíti sæta endurskoðun EFTA-dómstólsins eins og nánar er kveðið á um í samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls og er dómstólnum heimilt að fella niður sekt eða févíti eða breyta fjárhæð.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem kveðið er nánar á um fjárhæð sekta og févítis, álagningu og ákvörðun þar að lútandi, innheimtu og málsmeðferð við ákvarðanatöku, þ.m.t. andmæla- og upplýsingarétt.
251. gr. Kæra til lögreglu.
Samgöngustofu er heimilt að kæra brot á lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim til lögreglu.
Varði meint brot bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Samgöngustofa hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Samgöngustofu að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Samgöngustofa á hvaða stigi málsins sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra til opinberrar rannsóknar. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
Varði brot á lögum þessum bæði refsiábyrgð fyrir einstakling og lögaðila metur Samgöngustofa, með tilliti til grófleika brots og réttarvörslusjónarmiða, hvort mál skuli kært til lögreglu að hluta eða í heild.
Með kæru Samgöngustofu skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gilda ekki um ákvörðun Samgöngustofu um að kæra mál til lögreglu.
Samgöngustofu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast brotum sem til rannsóknar eru hjá lögreglu og ákæruvaldi og taka þátt í aðgerðum lögreglu að öðru leyti.
Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Samgöngustofu í té upplýsingar og gögn sem þau hafa aflað og tengjast brotum sem til meðferðar eru hjá stofnuninni og taka þátt í aðgerðum hennar að öðru leyti.
Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Samgöngustofu til meðferðar og ákvörðunar.
252. gr. Réttur einstaklinga til að fella ekki á sig sök.
Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur sá sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Samgöngustofa skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.
Þau stjórnsýsluviðurlög sem 1. mgr. tekur til eru viðurlög vegna lögbrots eða brots gegn reglugerðum sem settar eru á grundvelli laga þessara og fela í sér stjórnvaldssektir eða afturköllun vottorðs og annarra réttinda.
253. gr. Refsingar.
Brot gegn lögum þessum og reglugerðum og fyrirmælum settum eða gefnum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að fimm árum, liggi ekki fyrir þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum eða annað sérstaklega tiltekið.
Brot gegn lögum þessum er varða sektum eða fangelsi varða refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
Hafi brot verið framið í því skyni að afla hinum brotlega eða öðrum óréttmæts ávinnings skal að jafnaði taka það til greina til þyngingar refsingunni.
Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum eða fangelsi. Um upptöku ávinnings af broti og hluta sem notaðir eru til að fremja brot fer eftir ákvæðum VII. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
Vörur sem ekki uppfylla þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum þessum, hafa verið starfræktar í heimildarleysi eða andstætt lögum þessum má gera upptækar, sbr. 69. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekinn fyrirsvarsmann lögaðilans, starfsmann hans eða annan aðila sem starfar á hans vegum. Hafi fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum með saknæmum hætti brotið gegn lögum þessum eða reglum sem settar eru á grundvelli þeirra í starfsemi lögaðilans má gera honum refsingu auk þess að gera lögaðilanum sekt.
254. gr. Geðvirk efni.
Enginn flugverji, fjarflugmaður, flugumferðarstjóri, flugnemi, nemi í flugumferðarstjórn eða annar einstaklingur má hafa með hendi starfa í loftfari, vera við stjórn loftfars, stjórna loftferðum eða veita öryggisþjónustu vegna loftferða sé hann vegna neyslu geðvirkra efna, vegna sjúkdóms, meiðsla, lyfjagjafar eða þreytu eða annarrar líkrar orsakar óhæfur til að rækja starfann tryggilega.
Ef vínandamagn í blóði er yfir 0,2‰ eða áfengi í líkama, sem leitt getur til slíks vínandamagns í blóði, eða magn vínanda í lofti sem hann andar frá sér nemur 0,1 milligrammi í lítra lofts, telst hlutaðeigandi undir áhrifum áfengis og ekki hæfur til þess starfa sem getur í 1. mgr. Það leysir viðkomandi ekki undan sök þótt hann haldi vínandamagn í blóði sínu eða í lofti minna. Ef önnur geðvirk efni en alkóhól mælast í lífsýni, m.a. efni sem falla undir lög um ávana- og fíkniefni og reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim lögum og/eða efni sem teljast valda vanhæfi samkvæmt reglugerð skv. 7. mgr., telst viðkomandi vera undir áhrifum geðvirkra efna og óhæfur til þess starfa sem um getur í 1. mgr.
Einstaklingum skv. 1. mgr. er óheimilt að neyta geðvirkra efna sem valda vanhæfi síðustu átta klukkustundirnar áður en störf eru hafin og við störf. Varðar það að jafnaði afturköllun vottorðs eða, ef við á, yfirlýsingar ekki skemur en í þrjá mánuði en fyrir fullt og allt ef sakir eru miklar eða brot ítrekað. Þá mega þeir ekki neyta geðvirkra efna sem valda vanhæfi næstu sex klukkustundir eftir að vinnu lauk enda hafi þeir ástæðu til að ætla að atferli þeirra við starfann sæti rannsókn.
Ef rökstuddur grunur vaknar um neyslu geðvirkra efna skal Samgöngustofu og lögreglu heimilt að framkvæma skimun fyrir neyslu geðvirkra efna hjá þeim sem um getur í 1. mgr. Viðkomandi einstaklingum er skylt að láta í té nauðsynleg lífsýni og hlíta rannsókn. Skimun skal framkvæma af þeirri nærgætni sem kostur er.
Í venjubundnu eftirliti er Samgöngustofu hvenær sem er heimilt að framkvæma skimun fyrir geðvirkum efnum.
Hafni einhver þeirra sem um getur í 1. mgr. skimun eða reynist eftir rannsókn vera undir áhrifum geðvirkra efna sem valda vanhæfi, sbr. 2., 3. og 7. mgr., skal þeim hinum sama ekki heimilt að halda áfram vinnu. Lögreglu er skylt að aðstoða Samgöngustofu við skimun ef þörf krefur.
Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um geðvirk efni og tilgreina nánar þau geðvirku efni sem valda vanhæfi, framkvæmd skimunar og skráningu upplýsinga um niðurstöður skimana í samevrópska miðlæga gagnagrunna í reglugerð.1)
1)Rg. 237/2014, sbr. 288/2015, 348/2015, 781/2015, 978/2015, 74/2016, 122/2016, 990/2016, 539/2018, 1084/2018, 624/2021 og 1295/2022.
255. gr. Aðgangsbrot.
Ef einstaklingur fer án gildrar aðgangsheimildar inn á skilgreint haftasvæði flugverndar, hvort sem er innan flugvallar eða utan, flugvallarsvæði þar sem aðgangur hefur verið takmarkaður eða bannaður eða um borð í loftfar, eða hefur viðveru innan framangreindra svæða eftir að hafa verið beðinn um að yfirgefa svæðið eða, ef við á, loftfarið varðar það sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum. Þó má beita fangelsi allt að einu ári ef miklar sakir eru, svo sem ef sá sem brot framdi var vopnaður eða beitti ofbeldi eða hótunum um ofbeldi eða brot var framið af fleirum saman.
Einstaklingi er óheimilt að taka sér far án gildrar heimildar eða gera tilraun til að ferðast án slíkrar heimildar sem laumufarþegi með loftfari í eða úr íslenskri lögsögu.
XXI. kafli. Lokaákvæði.
256. gr. Innleiðing.
Lög þessi fela í sér innleiðingu eftirtalinna gerða sem vísað er til í XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (flutningastarfsemi):
a. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 2027/97 frá 9. október 1997 um bótaábyrgð flugfélaga vegna slysa, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 34/1998 frá 30. apríl 1998, sem birt var 19. desember 1998 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 48, bls. 250–252,
b. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 889/2002 frá 13. maí 2002 um breytingu á reglugerð ráðsins (EB) nr. 2027/97 um bótaábyrgð flugfélaga vegna slysa, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 142/2002 frá 8. nóvember 2002, sem birt var 21. febrúar 2004 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 9, bls. 285–288,
c. tilskipunar ráðsins 2000/79/EB frá 27. nóvember 2000 um Evrópusamning um skipulag á vinnutíma farstarfsmanna í almenningsflugi sem gerður var milli Evrópusambands flugfélaga (AEA), Sambands félaga flutningaverkamanna í Evrópu (ETF), Evrópska flugliðasambandsins (ECA), Samtaka evrópskra svæðisflugfélaga (ERA) og Alþjóðasamtaka flutningafélaga (IACA), sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 122/2001 frá 28. september 2001, sem birt var 2. maí 2002 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 23, bls. 426–429,
d. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/12/EB frá 11. mars 2009 um flugvallargjöld, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 64/2012 frá 30. mars 2012, sem birt var 5. júlí 2012 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 38, bls. 16–21.
257. gr. Gildistaka o.fl.
Lög þessi öðlast þegar gildi. …
Reglugerðir sem settar eru á grundvelli laga um loftferðir, nr. 60/1998, halda gildi sínu að svo miklu leyti sem ákvæði þeirra brjóta ekki í bága við ákvæði þessara laga.1)
Þrátt fyrir 1. mgr. skal b-liður 2. mgr. 170. gr., b-liður 1. mgr. 171. gr. hvað varðar samevrópska u-rýmisþjónustu og c-liður 1. mgr. 171. gr. öðlast gildi frá og með 26. janúar 2023.
Þrátt fyrir 1. mgr. skal d-liður 258. gr. öðlast gildi frá og með 1. janúar 2023.
1)Sjá nú: Rg. 116/1965. Rg. 51/1976, sbr. 562/1987. Rg. 53/1976, sbr. 293/1979, 443/1979, 251/1984, 33/1993, 86/1995, 492/2002 og 711/2002. Rg. 443/1976, sbr. 433/1979 og 478/1982. Rg. 282/1980, sbr. 466/1991. Rg. 216/1982. Rg. 263/1986. Rg. 523/1989. Rg. 322/1990, sbr. 531/2002, 715/2002 og 32/2006. Rg. 292/1993. Rg. 185/1997. Rg. 450/1999. Rg. 680/1999, sbr. 678/2004. Rg. 326/2000, sjá og augl. 753/2000, 987/2000, 827/2003, 206/2005, 207/2005, 897/2006, 1153/2006, 199/2007, 319/2007, 411/2007, 426/2007, 686/2007, 1020/2007, 1021/2007, 1022/2007, 1281/2007, 238/2008, 791/2008, 349/2009, 728/2009, 729/2009, 973/2009, 91/2010, 188/2010, 859/2010, 92/2011, 194/2011, 313/2012 og 553/2012. Rg. 781/2001. Rg. 293/2002. Rg. 904/2005. Rg. 53/2006, sbr. 182/2010. Rg. 78/2006, sbr. 89/2007 og 625/2021. Rg. 780/2006, sbr. 779/2007. Rg. 464/2007, sbr. 1258/2011. Rg. 751/2007. Rg. 870/2007, sbr. 1124/2014. Rg. 1045/2007. Rg. 1046/2007. Rg. 400/2008, sbr. 600/2009 og 439/2012. Rg. 474/2008. Rg. 475/2008. Rg. 600/2008. Rg. 602/2008, sbr. 464/2012, 154/2014, 1036/2017 og 571/2018. Rg. 1043/2008, sbr. 360/2009 og 124/2016. Rg. 1264/2008. Rg. 97/2009. Rg. 108/2009, sbr. 465/2012. Rg. 518/2010. Rg. 652/2010. Rg. 693/2010, sbr. 1038/2017. Rg. 694/2010, sbr. 88/2012, 488/2014, 1076/2014, 18/2016, 1158/2016 og 333/2018. Rg. 695/2010, sbr. 1076/2014, 18/2016, 1158/2016 og 334/2018. Rg. 770/2010, sbr. 665/2015 og 659/2017. Rg. 772/2010, sbr. 211/2017 og 533/2017. Rg. 787/2010. Rg. 947/2010. Rg. 71/2011, sbr. 1084/2011. Rg. 48/2012, sbr. 1058/2019, 708/2020 og 443/2021. Rg. 438/2012, sbr. 651/2017 og 537/2018. Rg. 812/2012, sbr. 179/2013, 409/2013, 1144/2013 og 885/2016. Rg. 1025/2012. Rg. 1048/2012. Rg. 1185/2012. Rg. 962/2013, sbr. 991/2016. Rg. 694/2014. Rg. 732/2014, sbr. 572/2018. Rg. 733/2014. Rg. 1125/2014, sbr. 667/2015, 863/2015, 499/2020 og 442/2021. Rg. 1127/2014, sbr. 864/2015, 538/2018 og 1193/2020. Rg. 340/2015, sbr. 976/2015. Rg. 394/2015. Rg. 666/2015. Rg. 125/2016, sbr. 653/2017. Rg. 854/2016. Rg. 990/2017. Rg. 1085/2017. Rg. 370/2018. Rg. 1085/2018. Rg. 464/2019. Rg. 444/2020.
XXII. kafli. Breyting á öðrum lögum.
258.–274. gr. …
Fylgiskjal.
Samningur um samræmingu tiltekinna reglna varðandi loftflutninga milli landa (Montreal-samningurinn).
AÐILDARRÍKI SAMNINGS ÞESSA SEM
VIÐURKENNA mikilvægt framlag með samningnum um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa, sem var undirritaður í Varsjá 12. október 1929, hér eftir nefndur „Varsjársamningurinn“, og öðrum skyldum gerningum til þess að samræma reglur um einkamálarétt á sviði flugmála;
VIÐURKENNA nauðsyn þess að færa til nútímahorfs og steypa saman Varsjársamningnum og skyldum samningum;
VIÐURKENNA mikilvægi þess að tryggð sé vernd hagsmuna neytenda með tilliti til flutninga milli landa loftleiðis og nauðsyn réttlátra bóta sem eru byggðar á meginreglunni um endurheimt;
ÁRÉTTA að æskilegt er að þróun reksturs á sviði flutninga milli landa loftleiðis sé með skipulegum hætti og að flæði farþega, farangurs og farms sé jafnt í samræmi við meginreglur og markmið samþykktar um alþjóðleg flugmál sem var gerð í Chicago 7. desember 1944;
ERU FULLVISS um að sameiginlegar ráðstafanir ríkja til þess að samræma frekar og skrá skipulega tilteknar reglur um flutninga milli landa loftleiðis með nýjum samningi eru vísasta leiðin til þess að ná fram réttlátum jöfnuði með tilliti til ólíkra hagsmuna;
HAFA ORÐIÐ ÁSÁTT UM EFTIRFARANDI:
I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Gildissvið.
1. Samningur þessi gildir um allan flutning í loftfari á farþegum, farangri og farmi milli landa gegn greiðslu. Hann gildir jafnt um ókeypis flutninga með loftförum sem flugrekandi framkvæmir.
2. Í samningi þessum merkir flutningur milli landa flutning þar sem brottfarar- og ákvörðunarstaður, samkvæmt samningi milli viðkomandi aðila og hvort sem hlé verður á flutningi eða áframsending á sér stað eða ekki, eru annaðhvort innan landsvæða tveggja aðildarríkja eða innan landsvæðis eins aðildarríkis ef um er að ræða umsaminn viðkomustað innan landsvæðis annars ríkis, jafnvel þó að það ríki sé ekki aðildarríki. Flutningur milli tveggja staða innan landsvæðis eins samningsaðila, án þess að um umsaminn viðkomustað innan landsvæðis annars ríkis sé að ræða, er ekki flutningur milli landa í skilningi samnings þessa.
3. Flutningur, sem nokkrir flytjendur framkvæma hver á eftir öðrum, telst, að því er samning þennan varðar, einn óslitinn flutningur ef viðkomandi aðilar hafa litið svo á að um eitt verkefni sé að ræða, hvort sem samið hafði verið um það í einum samningi eða röð samninga, og slíkur flutningur telst vera milli landa jafnvel þótt framkvæma eigi einn samning eða röð samninga alfarið innan landsvæðis sama ríkis.
4. Samningur þessi gildir einnig um flutninga, sbr. V. kafla, með fyrirvara um þá skilmála sem þar er getið.
2. gr. Flutningar sem ríki framkvæma og flutningur póstsendinga.
1. Samningur þessi gildir um flutninga, sem ríki framkvæma eða lögformlegar opinberar stofnanir, að því tilskildu að þeir rúmist innan þeirra skilyrða sem mælt er fyrir um í 1. gr.
2. Að því er varðar flutning pósts skal viðkomandi flytjandi aðeins skaðabótaskyldur gagnvart hlutaðeigandi póststjórn í samræmi við gildandi reglur um tengsl flytjenda og póststjórna.
3. Ákvæði samnings þessa gilda ekki um flutning pósts nema að því leyti sem kveðið er á um í 2. mgr. þessarar greinar.
II. kafli. Skjalahald og skyldur aðila að því er varðar flutning farþega, farangurs og farms.
3. gr. Farþegar og farangur.
1. Þegar um ræðir farþegaflutninga skal afhenda einstaklingsbundinn eða sameiginlegan farseðil sem inniheldur upplýsingar um:
a. brottfarar- og ákvörðunarstað;
b. séu brottfarar- og ákvörðunarstaður innan landsvæðis eins aðildarríkis og einn eða fleiri umsamdir viðkomustaðir innan landsvæðis annars ríkis, að minnsta kosti einn slíkan viðkomustað.
2. Í stað þess að afhenda farseðil, sem um getur í 1. mgr., er heimilt að beita annarri aðferð sem gerir kleift að varðveita þær upplýsingar sem koma fram í 1. mgr. Ef slíkri annarri aðferð er beitt skal flytjandinn bjóða farþega að afhenda honum skriflega yfirlýsingu um þær upplýsingar sem eru varðveittar samkvæmt fyrrnefndri aðferð.
3. Flytjandi skal afhenda farþega farangursmiða fyrir hvern farangurshluta sem er innritaður.
4. Afhenda skal farþega skriflega tilkynningu þess efnis að samningur þessi gildi um og kunni að takmarka ábyrgð flytjenda að því er varðar líf- eða líkamstjón og ábyrgð vegna eyðileggingar eða hvarfs eða tjóns á farangri og vegna tafa.
5. Þótt ákvæðum málsgreinanna hér að framan sé eigi fylgt hefur það engin áhrif á tilvist eða gildi flutningssamningsins sem ákvæði samnings þessa gilda engu síður um, m.a. ákvæði um takmörkun ábyrgðar.
4. gr. Farmur.
1. Þegar farmur er fluttur skal afhenda fylgibréf.
2. Heimilt er að varðveita greinargerð um fyrirhugaðan flutning með öðrum hætti sem getur komið í stað þess að afhenda sendanda farmkvittun sem gerir kleift að bera kennsl á sendinguna og heimilar aðgang að þeim upplýsingum sem koma fram í þeirri greinargerð sem er varðveitt með öðrum hætti sem fyrr greinir.
5. gr. Efni fylgibréfs eða farmkvittunar.
Í fylgibréfi eða farmkvittun fyrir farmi komi eftirfarandi fram:
a. brottfarar- og ákvörðunarstaður;
b. ef brottfarar- og ákvörðunarstaður eru innan landsvæðis eins aðildarríkis, en einn eða fleiri umsamdir viðkomustaðir innan landsvæðis annars ríkis, að minnsta kosti einn slíkur viðkomustaður; og
c. þyngd sendingar.
6. gr. Farmgerðarskjal.
Heimilt er að krefjast þess, ef nauðsyn ber til, að sendandi fullnægi þeirri formkröfu tollyfirvalda, lögreglu og líkra opinberra yfirvalda að afhenda skjal þar sem fram kemur um hvers kyns farm er að ræða. Að því er varðar flytjandann hefur ákvæði þetta enga skyldu eða skuldbindingu í för með sér eða ábyrgð sem má rekja til hennar.
7. gr. Lýsing fylgibréfs.
1. Sendandi skal fylla út fylgibréf í þremur frumeintökum.
2. Fyrsta eintakið skal merkt „handa flytjanda“ og skal sendandi undirrita það. Annað eintakið skal merkt „handa viðtakanda“ og skulu sendandi og flytjandi undirrita það. Flytjandinn skal undirrita þriðja eintakið og afhenda sendanda eftir að farmi hefur verið veitt viðtaka.
3. Heimilt er að prenta eða stimpla undirritun flytjanda og sendanda.
4. Útfylli flytjandinn fylgibréf, að beiðni sendanda, skal litið svo á að flytjandinn hafi gert það fyrir hönd sendanda, nema færðar séu sönnur á annað.
8. gr. Skjöl um böggla í mörgum stykkjum.
Ef um fleiri en eitt stykki er að ræða:
a. getur farmflytjandi krafist þess að sendandi fylli út aðskilin fylgibréf;
b. getur sendandi krafist þess að flytjandi afhendi aðskildar farmkvittanir þegar sá annar háttur er hafður á sem um getur í 2. mgr. 4. gr.
9. gr. Kröfum um skjalagerð ekki fullnægt.
Þrátt fyrir að ákvæðum 4.–8. gr. sé ekki fylgt hefur það engin áhrif á tilvist og gildi flutningssamnings sem ákvæði samnings þessa gilda engu síður um, m.a. ákvæði um takmörkun ábyrgðar.
10. gr. Ábyrgð á veittum upplýsingum í skjölum.
1. Sendandi er ábyrgur fyrir því að upplýsingar og yfirlýsingar um farm, sem hann færir inn í fylgibréf eða eru færðar inn fyrir hans hönd, séu réttar; það sama gildir um upplýsingar og yfirlýsingar um farm sem hann lætur flytjandanum í té eða eru látnar flytjanda í té fyrir hans hönd og færa á inn í farmkvittun eða greinargerð sem er varðveitt með öðrum hætti sem um getur í 2. mgr. 4. gr. Fyrrnefnd atriði gilda einnig þegar sá aðili, sem kemur fram fyrir hönd sendanda, er einnig umboðsmaður flytjandans.
2. Sendandi skal gera flytjanda skaðlausan vegna alls tjóns sem flytjandinn verður fyrir, eða annar aðili sem flytjandinn er ábyrgur gagnvart, sakir þess að upplýsingarnar og yfirlýsingarnar, sem sendandi lætur í té eða eru látnar í té fyrir hans hönd, eru ólögmætar, rangar eða ófullkomnar.
3. Flytjandinn skal, með fyrirvara um ákvæði 1. og 2. mgr. þessarar greinar, gera sendanda skaðlausan vegna alls tjóns sem sendandinn verður fyrir, eða annar aðili sem sendandinn er ábyrgur gagnvart, sakir þess að upplýsingarnar og yfirlýsingarnar, sem flytjandinn færir inn, eða eru færðar inn fyrir hans hönd, í farmkvittun eða greinargerð, sem er varðveitt með öðrum hætti sem um getur í 2. mgr. 4. gr., eru ólögmætar, rangar eða ófullkomnar.
11. gr. Sönnunargildi skjala.
1. Fylgibréf eða farmkvittun gildir að órannsökuðu máli sem sönnun fyrir því að samningur hafi verið gerður, því að við farmi hafi verið tekið og fyrir þeim flutningsskilyrðum sem þar um getur.
2. Yfirlýsingar í fylgibréfi eða farmkvittun um þyngd, mál og umbúðir farms sem og stykkjafjölda gilda að órannsökuðu máli sem sönnun fyrir þeim atriðum sem eru tilgreind. Yfirlýsingar um magn, rúmtak eða ástand vöru gilda hins vegar ekki sem sönnunargagn gegn flytjanda, nema að því leyti sem fram kemur í fylgibréfi eða farmkvittun að hann hafi, í viðurvist sendanda, gengið úr skugga um sannleiksgildi þeirra eða þær eiga skylt við sýnilegt ástand farmsins.
12. gr. Réttur til að ráðstafa farmi.
1. Sendandi hefur, með fyrirvara um þá skyldu að fullnægja öllum skuldbindingum sínum samkvæmt flutningssamningi, rétt til þess að ráðstafa farmi með því að fjarlægja hann í flughöfn sem er brottfarar- eða ákvörðunarstaður eða með því að stöðva flutning hans á leiðinni hvar sem lent er eða krefjast þess að hann verði afhentur á ákvörðunarstað eða á leiðinni öðrum aðila en þeim viðtakanda sem var upphaflega tilnefndur eða með því að krefjast þess að hann sé endursendur til flughafnar sem er brottfararstaður. Sendandi skal ekki fara með fyrrnefndan ráðstöfunarrétt þannig að flytjandinn eða aðrir sendendur verði fyrir tjóni og skal endurgreiða útlagðan kostnað sem hlýst af því að þessum rétti er beitt.
2. Sé ógerlegt að fara að fyrirmælum sendanda skal flytjandinn tilkynna honum það án tafar.
3. Fari flytjandinn að fyrirmælum sendanda um ráðstöfun farms án þess að krefjast þess að sá hluti fylgibréfs eða farmkvittunar fyrir farmi, sem þeim síðarnefnda er afhentur, sé lagður fram mun flytjandinn verða skaðabótaskyldur, með fyrirvara um rétt hans til bóta frá sendanda, fyrir öllu tjóni sem hver sá aðili, sem löglega hefur yfir að ráða fyrrnefndum hluta fylgibréfsins eða farmkvittunarinnar fyrir farmi, kann að verða fyrir af þeim sökum.
4. Réttur sendanda fellur niður um leið og réttur viðtakanda hefst skv. 13. gr. Neiti viðtakandi að taka við farmi eða ekki er unnt að ná sambandi við hann endurheimtir sendandi samt sem áður ráðstöfunarrétt sinn.
13. gr. Afhending farms.
1. Viðtakanda ber, nema sendandi hafi haldið fram rétti sínum skv. 12. gr., réttur til að gera kröfu, við komu farms til ákvörðunarstaðar, um að flytjandinn afhendi honum farminn gegn greiðslu tilhlýðilegra gjalda og eftir að hann hefur fullnægt flutningsskilyrðum.
2. Flytjanda ber skylda til þess að tilkynna viðtakanda án tafar um komu farms, nema samið sé um annað.
3. Viðurkenni flytjandi að farmur hafi glatast eða sé farmur ókominn sjö dögum eftir þann dag sem von var á honum getur viðtakandi haldið fram þeim rétti gagnvart flytjandanum sem flutningssamningurinn kveður á um.
14. gr. Réttur sendanda og viðtakanda nýttur.
Sendandi og viðtakandi geta hvor um sig nýtt sér allan þann rétt sem þeim ber skv. 12. og 13. gr., hvor í eigin nafni, hvort sem þeir gæta eigin hagsmuna eða hagsmuna annarra, að því tilskildu að þeir sinni þeim skyldum sem þeim ber samkvæmt flutningssamningi.
15. gr. Tengsl sendanda og viðtakanda eða gagnkvæm tengsl þriðju aðila.
1. Ákvæði 12., 13. og 14. gr. hafa hvorki áhrif á tengsl sendanda og viðtakanda þeirra á milli né gagnkvæm tengsl þriðju aðila sem sækja rétt sinn annaðhvort til sendanda eða viðtakanda.
2. Ákvæðum 12., 13. og 14. gr. má aðeins breyta með sérstöku ákvæði í fylgibréfi eða farmkvittun.
16. gr. Formkröfur tollyfirvalda, lögreglu eða annarra opinberra yfirvalda.
1. Sendanda er skylt að láta í té þær upplýsingar og framvísa þeim skjölum sem eru nauðsynleg til þess að uppfylla formkröfur tollyfirvalda, lögreglu og annarra opinberra yfirvalda áður en unnt er að afhenda viðtakanda farm. Sendandi er skaðabótaskyldur gagnvart flytjanda vegna tjóns sem hlýst af því að slíkar upplýsingar eða skjöl vantar eða þau eru ófullkomin eða ólögmæt, nema tjónið sé af völdum flytjandans, starfsmanna hans eða umboðsmanna.
2. Flytjanda ber ekki skylda til þess að kanna hvort fyrrnefndar upplýsingar eða skjöl séu rétt eða fullnægjandi.
III. kafli. Ábyrgð flytjanda og takmörk skaðabóta.
17. gr. Farþegi lætur lífið eða meiðist – tjón á farangri.
1. Flytjandi er skaðabótaskyldur, láti farþegi lífið eða verði fyrir líkamstjóni, aðeins ef slysið, sem olli líf- eða líkamstjóni, varð um borð í loftfari eða þegar farið var um borð eða frá borði.
2. Flytjandi er skaðabótaskyldur, eyðileggist innritaður farangur eða glatist eða skemmist, aðeins ef sá atburður, sem olli eyðileggingunni, hvarfinu eða skemmdunum, varð um borð í loftfarinu eða meðan innritaður farangur var í vörslu flytjandans. Flytjandinn er samt sem áður ekki skaðabótaskyldur ef og að því marki sem tjónið má rekja til innbyggðs annmarka, eiginleika eða ágalla farangurs. Flytjandinn er skaðabótaskyldur ef um er að ræða óinnritaðan farangur, þ.m.t. persónulega muni, sé tjónið vegna mistaka hans eða starfsmanna hans eða umboðsmanna.
3. Gangist flytjandi við því að innritaður farangur hafi glatast eða komi innritaður farangur ekki fram að tuttugu og einum degi liðnum frá þeim degi er hann hefði átt að koma fram getur farþegi haldið fram þeim rétti gagnvart flytjandanum sem flutningssamningurinn kveður á um.
4. „Farangur“ merkir í samningi þessum, nema annað sé tilgreint, bæði innritaðan og óinnritaðan farangur.
18. gr. Tjón á farmi.
1. Flytjandi er skaðabótaskyldur vegna tjóns, sem verður þegar farmur eyðileggst eða glatast eða skemmist, aðeins ef sá atburður, sem olli því tjóni sem þannig varð, átti sér stað meðan á flutningi loftleiðis stóð.
2. Flytjandinn er samt sem áður ekki skaðabótaskyldur færi hann sönnur á, og að því marki sem hann gerir svo, að eyðilegging eða hvarf eða tjón á farmi hafi orsakast af einni eða fleiri eftirtalinna ástæðna:
a. eðlislægum ágöllum, eiginleikum eða göllum farmsins;
b. gölluðum umbúðum farmsins sem aðrir en flytjandinn eða starfsmenn hans eða umboðsmenn hafa gengið frá;
c. stríði eða vopnuðum átökum;
d. aðgerðum opinberra yfirvalda í tengslum við komu, brottför eða umflutning farmsins.
3. Undir flutning loftleiðis, í skilningi 1. mgr. þessarar greinar, fellur sá tími sem farmur er í vörslu flytjanda.
4. Flutningur loftleiðis nær ekki til neins konar flutnings á landi, á sjó eða innlendum vatnaleiðum sem fer fram utan flughafnar. Ef hins vegar slíkur flutningur á sér stað samkvæmt samningi um flutning loftleiðis, í þeim tilgangi að hlaða, afhenda eða áframsenda farm, er litið svo á, nema færðar séu sönnur á annað, að tjón hafi orðið vegna atburðar sem átti sér stað meðan á flutningi loftleiðis stóð. Ákveði flytjandi, án samþykkis sendanda, að annar flutningsmáti sé viðhafður allan tímann meðan á flutningi stendur eða hluta þess tíma í stað þess sem samningur milli aðila gerði ráð fyrir að yrði flutningur loftleiðis er litið svo á að slíkur flutningur með öðrum hætti eigi sér stað meðan á flutningi loftleiðis stendur.
19. gr. Tafir.
Flytjandi ber ábyrgð á tjóni af völdum tafa á flutningi farþega, farangurs eða farms í lofti. Þó verður flytjandi ekki talinn bera ábyrgð á tjóni sem orsakast af töfum geti hann fært sönnur á að hann og starfsmenn hans og umboðsmenn hafi viðhaft allar þær aðgerðir, sem sanngjarnt getur talist að viðhafðar séu, í því skyni að afstýra tjóni eða það hafi verið ógerlegt fyrir hann eða þá að framkvæma slíkar aðgerðir.
20. gr. Hreinsun af áburði.
Færi flytjandi sönnur á að sá aðili, sem krefst skaðabóta, eða sá aðili, sem hann sækir rétt sinn til, hafi valdið tjóninu eða stuðlað að því með vanrækslu eða öðrum ólögmætum athöfnum eða athafnaleysi skal bera sakir af flytjandanum, að hluta til eða að fullu, með tilliti til ábyrgðar hans gagnvart krefjanda, að því marki sem slík vanræksla eða ólögmæt athöfn eða athafnaleysi olli tjóninu eða stuðlaði að því. Geri annar aðili en farþegi bótakröfu vegna líf- eða líkamstjóns farþega skal á sama hátt bera sakir af flytjandanum, að hluta til eða að fullu, með tilliti til ábyrgðar hans, að því marki sem hann færir sönnur á að vanræksla eða ólögmæt athöfn eða athafnaleysi farþegans olli tjóninu eða stuðlaði að því. Þessi grein gildir um öll ákvæði sem fjalla um ábyrgð í samningi þessum, þar á meðal 1. mgr. 21. gr.
21. gr. Bætur vegna líf- eða líkamstjóns.
1. Flytjandi getur ekki útilokað eða takmarkað ábyrgð sína vegna tjóns skv. 1. mgr. 17. gr. sem er 100.000 SDR eða minna vegna hvers farþega.
2. Flytjandi skal ekki skaðabótaskyldur vegna tjóns skv. 1. mgr. 17. gr., að því leyti sem það er meira en 100.000 SDR vegna hvers farþega, færi flytjandinn sönnur á það:
a. að tjónið varð ekki vegna vanrækslu eða annarrar ólögmætrar athafnar eða athafnaleysis flytjandans eða starfsmanna hans eða umboðsmanna;
b. að tjónið varð einvörðungu vegna vanrækslu eða annarrar ólögmætrar athafnar eða athafnaleysis þriðja aðila.
22. gr. Mörk ábyrgðar í tengslum við tafir, farangur og farm.
1. Þegar um ræðir tjón vegna tafa, eins og tilgreint er í 19. gr. og að því er varðar farþegaflutninga, skal ábyrgð viðkomandi flytjanda vegna hvers farþega takmörkuð við 4.150 SDR.
2. Þegar um ræðir flutning farangurs skal ábyrgð viðkomandi flytjanda vegna eyðileggingar, hvarfs, tjóns eða tafa takmörkuð við fjárhæð sem nemur 1.000 SDR vegna hvers farþega, nema farþegi hafi, þegar innritaður farangur var afhentur flytjandanum, gefið sérstaka yfirlýsingu um hagsmuni sína sem tengdir eru afhendingu á ákvörðunarstað og greitt aukagjald sé þess krafist. Ef svo ber undir ber flytjandanum að greiða fjárhæð sem er jafnhá uppgefinni fjárhæð eða lægri, nema hann færi sönnur á að fjárhæðin sé hærri en raunverulegir hagsmunir farþega sem tengjast afhendingu á ákvörðunarstað.
3. Þegar um ræðir flutning farms skal ábyrgð viðkomandi flytjanda vegna eyðileggingar, hvarfs, tjóns eða tafa takmörkuð við fjárhæð sem nemur 17 SDR fyrir hvert kílógramm, nema sendandi hafi, þegar böggull var afhentur flytjandanum, gefið sérstaka yfirlýsingu um hagsmuni sína sem tengjast afhendingu á ákvörðunarstað og greitt aukagjald sé þess krafist. Ef svo ber undir ber flytjandanum að greiða fjárhæð, sem er jafnhá uppgefinni fjárhæð eða lægri, nema hann færi sönnur á að fjárhæðin sé hærri en raunverulegir hagsmunir sendanda sem tengjast afhendingu á ákvörðunarstað.
4. Ef hluti farms eyðileggst, hverfur, skemmist eða tefst eða gripur í honum skal sá þungi, sem miðað er við þegar ákveðin er sú fjárhæð sem ábyrgð flytjandans er takmörkuð við, einungis vera heildarþungi þess bögguls, eins eða fleiri, sem um ræðir. Hafi eyðilegging, tjón á eða tafir hluta farms eða grips í honum engu að síður áhrif á verðgildi annarra böggla, sem sama fylgibréf eða sama farmkvittun gildir um, eða, hafi þau ekki verið gefin út, sama greinargerð, sem er varðveitt með öðrum hætti sem um getur í 2. mgr. 4. gr., skal einnig miða við heildarþunga slíks eða slíkra böggla þegar mörk ábyrgðar eru ákveðin.
5. Ákvæði 1. og 2. mgr. þessarar greinar gilda ekki ef sönnur eru færðar á að tjónið sé vegna athafnar eða athafnaleysis flytjandans, starfsmanna hans eða umboðsmanna sem er framið eða viðhaft í því skyni að valda tjóni eða sem rekja má til kæruleysis og að viðkomandi hefði mátt vita að tjón mundi sennilega hljótast af slíkri athöfn eða athafnaleysi; sá fyrirvari er þó á að þegar um ræðir slíka athöfn eða athafnaleysi starfsmanns eða umboðsmanns séu einnig færðar sönnur á að umræddur starfsmaður eða umboðsmaður hafi verið að verki á vettvangi starfs síns.
6. Þau mörk, sem mælt er fyrir um í 21. gr. og í þessari grein, skulu ekki koma í veg fyrir að dómstóllinn úrskurði aukinheldur, í samræmi við eigin lög, um kostnað vegna málflutnings og annan málskostnað, allan eða að hluta, sem stefnandi hefur lagt í, þ.m.t. vexti. Ákvæðið hér að framan gildir ekki ef dæmdar skaðabætur, að undanskildum kostnaði vegna málflutnings og öðrum málskostnaði, eru ekki hærri en sú fjárhæð sem flytjandinn hefur boðið stefnanda skriflega innan sex mánaða frá þeim degi er sá atburður varð sem leiddi til tjónsins eða áður en lögsókn er hafin, ef það gerist síðar.
23. gr. Umreikningur eininga gjaldmiðla.
1. Líta ber svo á að með þeim fjárhæðum sem gefnar eru upp í SDR í samningi þessum sé átt við sérstök dráttarréttindi samkvæmt skilgreiningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Umreikningur fjárhæða í innlenda gjaldmiðla skal, þegar um ræðir málarekstur fyrir dómstólum, fara fram miðað við verðgildi slíkra gjaldmiðla í sérstökum dráttarréttindum daginn sem dómur er kveðinn upp. Reikna ber út í SDR-verðgildi innlends gjaldmiðils aðildarríkis, sem á aðild að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, samkvæmt matsaðferðinni sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn beitir, daginn sem dómur er kveðinn upp, vegna meðferðar hans og yfirfærslu. Reikna ber út í SDR-verðgildi innlends gjaldmiðils aðildarríkis, sem ekki á aðild að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, með þeim hætti sem það aðildarríki ákveður.
2. Þau ríki, sem eiga ekki aðild að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ef löggjöf þeirra heimilar ekki að ákvæðum 1. mgr. þessarar greinar sé beitt, geta, engu síður, lýst því yfir, samhliða fullgildingu eða aðild eða hvenær sem er eftir það, að ábyrgð flytjanda, sem mælt er fyrir um í 21. gr., sé takmörkuð við 1.500.000 einingar gjaldmiðla vegna hvers farþega í málarekstri fyrir dómstóli á landsvæðum þeirra, 62.500 einingar gjaldmiðla vegna hvers farþega að því er varðar 1. mgr. 22. gr., 15.000 einingar gjaldmiðla vegna hvers farþega með tilliti til 2. mgr. 22 gr. og 250 einingar gjaldmiðla fyrir hvert kílógramm með tilliti til 3. mgr. 22. gr. Fyrrnefnd eining gjaldmiðils svarar til 65,5 milligramma gulls að hreinleika 900/1000. Heimilt er að umreikna þessar fjárhæðir í viðeigandi innlendan gjaldmiðil í rúnnuðum tölum. Umreikningur þessara fjárhæða í innlendan gjaldmiðil skal gerður samkvæmt lögum viðkomandi ríkis.
3. Útreikningurinn, sem um getur í lokamálslið 1. mgr. þessarar greinar, og umreikningurinn, sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar, skulu gerðir þannig að fram komi, í innlendum gjaldmiðli viðkomandi aðildarríkis og eins og frekast er unnt, hið sama raunverulega verðgildi, að því er varðar fjárhæðirnar í 21. og 22. gr., og myndi fást ef ákvæðum þriggja fyrstu málsliða 1. mgr. þessarar greinar yrði beitt. Aðildarríkin skulu tilkynna vörsluaðilanum um hvaða reikningsaðferð er beitt skv. 1. mgr. þessarar greinar eða um niðurstöðu umreikninganna í 2. mgr. þessarar greinar, eftir því sem við á, er þau afhenda skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki samnings þessa eða aðild að honum og í hvert sinn er breyting verður á hvorri sem er.
24. gr. Endurskoðun takmarka.
1. Vörsluaðili skal, á fimm ára fresti og með fyrirvara um ákvæði 25. gr. samnings þessa og 2. mgr. hér á eftir, endurskoða mörk ábyrgðar sem mælt er fyrir um í 21., 22. og 23. gr. og skal fyrsta endurskoðun fara fram í lok fimmta árs frá þeim degi er samningur þessi öðlaðist gildi eða, öðlist samningurinn ekki gildi innan fimm ára frá þeim degi er hann liggur fyrst frammi til undirritunar, áður en fyrsta árið, sem hann er í gildi, er á enda með skírskotun til verðbólgustuðuls sem svarar til uppsafnaðs verðbólguhraða síðan síðasta breyting var gerð eða, ef um fyrstu breytingu er að ræða, síðan samningurinn öðlaðist gildi. Mæling verðbólguhraða, sem nota á til þess að ákvarða verðbólgustuðulinn, skal vera vegið meðaltal árlegra hækkunar- eða lækkunarstiga neysluverðsvísitölu þeirra aðildarríkja sem eiga þá gjaldmiðla sem mynda sérstöku dráttarréttindin sem um getur í 1. mgr. 23. gr.
2. Leiði endurskoðunin, sem um getur í málsgreininni hér að framan, í ljós að verðbólgustuðullinn hafi farið yfir tíu af hundraði skal vörsluaðili tilkynna aðildarríkjum um að mörkum ábyrgðar verði breytt. Allar þess háttar breytingar skulu koma til framkvæmda sex mánuðum eftir að aðildarríkjunum er tilkynnt um þær. Bóki meiri hluti aðildarríkjanna andmæli sín innan þriggja mánaða eftir að þeim er tilkynnt um breytingar skulu þær ekki koma til framkvæmda og vörsluaðili vísa málinu til fundar aðildarríkjanna. Vörsluaðili skal án tafar tilkynna öllum aðildarríkjum um það þegar breytingar koma til framkvæmda.
3. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. þessarar greinar skal ávallt beita málsmeðferðinni, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. þessarar greinar, að því tilskildu þó að þriðjungur aðildarríkjanna láti í ljós ósk sína í þá veru og með því skilyrði að verðbólgustuðullinn, sem um getur í 1. mgr., hafi farið upp fyrir 30 af hundraði síðan síðasta breyting var gerð eða síðan samningur þessi öðlaðist gildi, sé ekki um fyrri breytingu að ræða. Endurskoðun, þar sem stuðst er við þá aðferð, sem er lýst í 1. mgr. þessarar greinar, mun síðar meir fara fram á fimm ára fresti, í fyrsta sinn í lok fimmta árs frá dagsetningu endurskoðunar samkvæmt þessari málsgrein.
25. gr. Skilmálar um takmörk.
Flytjanda er heimilt að fastsetja að í flutningssamningi sé fyrirvari um hærri mörk ábyrgðar en kveðið er á um í samningi þessum eða alls engin mörk ábyrgðar.
26. gr. Ógild samningsákvæði.
Öll samningsákvæði, þar sem tilhneiging er til þess að leysa flytjanda undan ábyrgð eða ákveða lægri mörk en mælt er fyrir um í samningi þessum, skulu ógild þó að í ógildingu allra slíkra samningsákvæða felist ekki ógilding alls samningsins sem ákvæði samnings þessa gilda eftir sem áður um.
27. gr. Frelsi til samningsgerðar.
Ekkert í samningi þessum skal koma í veg fyrir að flytjandi geti neitað að gera flutningssamninga, að hann geti afsalað sér vörnum samkvæmt samningi þessum eða að hann mæli fyrir um skilyrði sem ganga ekki gegn ákvæðum hans.
28. gr. Fyrirframgreiðslur.
Leiði flugslys til líf- eða líkamstjóns farþega skal viðkomandi flytjandi, kveði innlend lög í landi hans á um það, inna af hendi fyrirframgreiðslu án tafar til einstaklings eða einstaklinga, sem ber réttur til þess að krefjast skaðabóta, í því skyni að koma til móts við aðkallandi efnahagslegar þarfir slíkra einstaklinga. Í slíkum fyrirframgreiðslum felst ekki viðurkenning ábyrgðar og heimilt er að vega þær á móti fjárhæðum sem flytjandinn greiðir síðar sem skaðabætur.
29. gr. Grundvöllur bótakrafna.
Að því er varðar flutning farþega, farangurs og farms er einungis unnt að höfða skaðabótamál, án tillits til málsástæðna og hvort sem það er reist á samningi þessum eða flutningssamningi eða skaðabótarétti eða á öðru, með hliðsjón af skilyrðum og þeim mörkum ábyrgðar sem eru sett fram í samningi þessum, án tillits til þess hverjir hafa rétt til þess að höfða mál og hver réttur hvers og eins er. Með slíkri málshöfðun skal eigi unnt að fá dæmdar skaðabætur til fælingar eða aðrar bætur sem eru ekki eiginlegar skaðabætur.
30. gr. Starfsmenn, umboðsmenn – uppsöfnun krafna.
1. Sé mál höfðað gegn starfsmanni eða umboðsmanni flytjanda vegna tjóns, sem samningur þessi fjallar um, skal fyrrnefndum starfsmanni eða umboðsmanni heimilt að bera fyrir sig þær ábyrgðarleysisástæður og takmarkanir á ábyrgð sem flytjanda sjálfum er heimilt að bera fyrir sig samkvæmt samningi þessum geti hann sannað að hann hafi framkvæmt störf sín innan verksviðs síns.
2. Heildarfjárhæð, sem unnt er að fá flytjanda, starfsmenn hans eða umboðsmenn dæmda til þess að greiða í fyrrnefndu tilviki, skal vera innan fyrrnefndra marka.
3. Ákvæði 1. og 2. mgr. þessarar greinar gilda ekki nema með tilliti til flutnings farms ef sannað er að tjónið hafi orðið vegna athafnar eða athafnaleysis starfsmannanna eða umboðsmannanna sem er framið eða viðhaft í því skyni að valda tjóni eða sem rekja má til gáleysis og viðkomandi hefði mátt vita að tjón myndi sennilega hljótast af slíkri athöfn eða athafnaleysi.
31. gr. Kvörtun borin fram í tæka tíð.
1. Taki aðili, sem afhenda ber innritaðan farangur eða farm, við farangri eða farmi án þess að bera fram kvörtun gildir það að órannsökuðu máli sem sönnun fyrir því að hann hafi verið afhentur í góðu ástandi og í samræmi við farseðil eða greinargerð sem er varðveitt með öðrum hætti og um getur í 2. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 4. gr.
2. Verði tjón ber viðtakanda að bera fram kvörtun við flytjandann jafnskjótt og þess verður vart og eigi síðar en sjö dögum eftir að tekið er við innrituðum farangri og fjórtán dögum ef um farm er að ræða. Ef um töf er að ræða skal bera fram kvörtun áður en tuttugu og einn dagur er liðinn frá því að farangur eða farmur var til taks fyrir viðtakanda.
3. Kvartanir skal bera fram eða senda skriflega og áður en liðnir eru þeir tímafrestir sem að framan greinir.
4. Sé krafa ekki borin fram áður en liðnir eru þeir tímafrestir sem að framan greinir fær málshöfðun ekki staðist gegn flytjanda, nema hann hafi farið sviksamlega að ráði sínu.
32. gr. Andlát skaðabótaskylds aðila.
Falli skaðabótaskyldur aðili frá fær málshöfðun staðist, samkvæmt skilmálum samnings þessa, gegn þeim sem fer með dánarbú hans lögum samkvæmt.
33. gr. Lögsaga dómstóla.
1. Skaðabótamál skal höfða, að vali stefnanda, á landsvæði eins aðildarríkis samnings þessa, annaðhvort fyrir dómstóli þar sem flytjandinn á lögheimili eða þar sem hann hefur aðalskrifstofu sína eða útibú, sem gerði samninginn fyrir hans hönd, eða fyrir dómstóli á ákvörðunarstað.
2. Heimilt er, að því er varðar skaðabætur vegna líf- eða líkamstjóns farþega, að höfða mál fyrir einum þeirra dómstóla sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar eða á landsvæði aðildarríkis samnings þessa þar sem farþeginn hafði aðalaðsetur og fasta búsetu þegar slysið varð og þangað og þaðan sem flytjandinn framkvæmir farþegaflutninga í lofti, annaðhvort með sínum eigin loftförum eða loftförum annars flytjanda samkvæmt viðskiptasamningi, og þar sem fyrrnefndur flytjandi stjórnar starfsemi sinni á sviði farþegaflutninga í lofti frá starfsstöð sem hann leigir eða á sjálfur eða annar flytjandi sem hann hefur viðskiptasamning við.
3. Að því er varðar 2. mgr. merkir:
a. „viðskiptasamningur“ samning, sem ekki er umboðssamningur, gerður milli flytjenda og varðar sameiginlega þjónustu sem þeir veita á sviði farþegaflutninga í lofti;
b. „aðalaðsetur og föst búseta“ eitt fast og varanlegt heimili sem farþegi hefur þegar slys verður. Þjóðerni farþega skal ekki vera ákvörðunarástæða í þessu samhengi.
4. Leysa skal úr öllum réttarfarságreiningi samkvæmt lögum þess ríkis þar sem mál er höfðað.
34. gr. Gerðardómur.
1. Aðilum að samningi um flutning farms er heimilt, samkvæmt ákvæðum samnings þessa, að mæla fyrir um að deila, sem snýst um ábyrgð flytjanda samkvæmt samningi þessum, skuli lögð fyrir gerðardóm til úrlausnar. Slíkt samkomulag skal vera skriflegt.
2. Gerðardómsmeðferð skal, að vali kröfuhafa, fara fram innan einhverrar þeirrar lögsögu sem um getur í 33. gr.
3. Gerðardómsmaður eða gerðardómurinn skal beita ákvæðum samnings þessa.
4. Líta ber svo á að ákvæði 2. og 3. mgr. þessarar greinar séu hluti af sérhverju gerðardómsákvæði eða -samkomulagi og sérhver áskilnaður í slíku gerðardómsákvæði eða -samkomulagi, sem brýtur í bága við fyrrnefnd ákvæði, skal ógildur vera.
35. gr. Frestur til málshöfðunar.
1. Réttur til að höfða skaðabótamál fellur niður sé mál ekki höfðað innan tveggja ára frá komu loftfars til ákvörðunarstaðar eða frá þeim degi er loftfarið skyldi koma þangað eða frá þeim degi er flutningur stöðvaðist.
2. Beita ber lögum þess ríkis, þar sem skaðabótamál er höfðað, þegar ákveða á aðferð til þess að reikna út fyrrnefndan frest.
36. gr. Gagnfær flutningur.
1. Ef fleiri flytjendur en einn eiga hver á eftir öðrum að framkvæma flutning, sem fellur undir skilgreininguna sem er sett fram í 3. mgr. 1. gr., skal hver flytjandi fylgja reglunum, sem eru settar fram í samningi þessum, er hann tekur við farþegum, farangri eða farmi og skal litið á hann sem einn aðila að flutningssamningnum að því marki sem samningurinn varðar þann hluta flutningsins sem honum ber að framkvæma.
2. Ef um slíkan flutning er að ræða getur farþegi, eða þeir sem taka við rétti hans til skaðabóta, einungis beint kröfum sínum að þeim flytjanda sem annaðist flutninginn þegar slysið eða töfin varð, enda hafi sá flytjandi, sem annaðist upphafsáfanga flutningsins, eigi tekið á sig ábyrgð á flutningnum á leiðarenda með sérstökum samningi.
3. Að því er varðar farangur eða farm getur farþegi eða sendandi þó jafnan beint kröfum sínum að þeim flytjanda, sem annaðist upphafsáfanga flutningsins, og sá sem rétt á til afhendingar farangurs eða farms getur jafnan beint kröfum sínum að þeim flytjanda sem tók að sér lokaáfanga flutningsins og að auki geta aðilar beint kröfum sínum að þeim flytjanda sem annaðist flutninginn þegar eyðilegging, hvarf, tjón eða töf varð. Flytjendur þessir eru ábyrgir, sameiginlega eða hver fyrir sig, gagnvart farþega eða gagnvart sendanda eða viðtakanda.
37. gr. Endurkröfuréttur á hendur þriðju aðilum.
Ekkert í samningi þessum skal koma í veg fyrir að aðili, sem á rétt á skaðabótum samkvæmt ákvæðum hans, eigi endurkröfurétt á hendur hvaða þriðja aðila sem er.
IV. kafli. Fjölþátta flutningur.
38. gr. Fjölþátta flutningur.
1. Þegar um ræðir fjölþátta flutning, sem fer fram að nokkru leyti með loftfari og að nokkru leyti með öðru flutningstæki, skulu ákvæði samnings þessa, með fyrirvara um 4. mgr. 18. gr., einungis taka til þess hluta flutnings sem fer fram í lofti, að því tilskildu að sá flutningur í lofti, sem um er að ræða, fullnægi skilmálum 1. gr.
2. Þegar um ræðir fjölþátta flutninga skal ekkert í samningi þessum koma í veg fyrir að aðilar setji skilmála inn í viðeigandi skjal um flutning í lofti sem eiga við um aðrar tegundir flutnings, að því tilskildu að ákvæðum samnings þessa sé hlítt að því er varðar flutning í lofti.
V. kafli. Flutningur loftleiðis sem annar en samningsbundni flytjandinn framkvæmir.
39. gr. Samningsbundinn flytjandi – flytjandi í raun.
Ákvæði þessa kafla gilda þegar aðili (hér á eftir nefndur „samningsbundinn flytjandi“) gerir, sem ábyrgðaraðili, flutningssamning, samkvæmt ákvæðum samnings þessa, við farþega eða sendanda eða við aðila, sem er í fyrirsvari fyrir farþegann eða sendandann, og annar aðili (hér á eftir nefndur „flytjandi í raun“) framkvæmir allan eða hluta flutnings í umboði samningsbundna flytjandans en er ekki, að því er slíkan hluta varðar, flytjandi sem framkvæmir gagnfæran flutning í skilningi samnings þessa. Gera skal ráð fyrir að um slíkt umboð sé að ræða nema sannað sé hið gagnstæða.
40. gr. Ábyrgð samningsbundins flytjanda og flytjanda í raun hvors um sig.
Framkvæmi flytjandi í raun allan eða hluta flutnings, þ.e. flutning sem samningur þessi gildir um samkvæmt flutningssamningnum sem um getur í 39. gr., skulu ákvæði samnings þessa gilda um bæði samningsbundna flytjandann og flytjandann í raun, nema kveðið sé á um annað í þessum kafla, hinn fyrrnefnda að því er varðar allan flutninginn sem fjallað er um í flutningssamningnum og hinn síðarnefnda einungis að því er varðar þann flutning sem hann framkvæmir.
41. gr. Sameiginleg ábyrgð.
1. Líta ber svo á að athöfn eða athafnaleysi flytjanda í raun og starfsmanna hans og umboðsmanna sem er innan verksviðs þeirra sé einnig athöfn eða athafnaleysi samningsbundna flytjandans að því er varðar flutning sem flytjandinn í raun framkvæmir.
2. Líta ber svo á að athöfn eða athafnaleysi samningsbundins flytjanda og starfsmanna hans og umboðsmanna sem er innan verksviðs þeirra sé einnig athöfn eða athafnaleysi flytjandans í raun, að því er varðar flutning sem flytjandinn í raun framkvæmir. Engin slík athöfn eða athafnaleysi skal samt sem áður gera flytjandann í raun skaðabótaskyldan umfram þær fjárhæðir sem um getur í 21., 22., 23. og 24. gr. Allir sérsamningar þar sem samningsbundni flytjandinn tekst skyldur á herðar sem samningur þessi kveður ekki á um eða fellur frá réttindum eða vörnum sem samningur þessi heimilar eða sérhver yfirlýsing um hagsmuni sem tengjast afhendingu á ákvörðunarstað, sem fjallað er um í 22. gr., skulu ekki binda flytjanda í raun nema hann hafi samþykkt það sérstaklega.
42. gr. Viðtakandi kvartana og fyrirmæla.
Kvartanir, bornar fram við flytjanda, eða fyrirmæli honum gefin samkvæmt samningi þessum skulu hafa sömu þýðingu hvort sem þeim er beint til samningsbundna flytjandans eða flytjanda í raun. Fyrirmæli, sem um getur í 12. gr., skulu hins vegar því aðeins gild að þeim sé beint til samningsbundna flytjandans.
43. gr. Starfsmenn og umboðsmenn.
Að því er varðar flutning, sem flytjandi í raun framkvæmir, er öllum starfsmönnum eða umboðsmönnum hans eða samningsbundna flytjandans heimilt, ef þeir sanna að þeir hafi haldið sig innan verksviðs síns, að bera fyrir sig þær ábyrgðarleysisástæður og takmarkanir á ábyrgð sem þeim flytjanda, sem þeir eru starfsmenn eða umboðsmenn hjá, er heimilt að bera fyrir sig samkvæmt samningi þessum, nema sannað sé að þeir hafi hagað sér með þeim hætti sem kemur í veg fyrir að unnt sé að skírskota til marka ábyrgðar samkvæmt samningi þessum.
44. gr. Uppsöfnun skaðabóta.
Að því er varðar flutning, sem flytjandi í raun framkvæmir, skulu samanlagðar bætur frá honum, samningsbundna flytjandanum og frá starfsmönnum og umboðsmönnum þeirra, sem framkvæma störf sín innan verksviðs síns, ekki verða hærri en sem nemur hæstu fjárhæð sem annaðhvort samningsbundna flytjandanum eða flytjanda í raun yrði gert að inna af hendi samkvæmt samningi þessum, en engum aðila, sem um er getið, skal skylt að greiða fjárhæð yfir þeim mörkum sem um hann gilda.
45. gr. Viðtakandi krafna.
Stefnandi getur, að því er varðar flutning sem flytjandi í raun framkvæmir, beint bótakröfum sínum, að eigin vali, hvort sem er gegn flytjanda í raun eða samningsbundna flytjandanum, saman eða hvorum fyrir sig. Sé málið einvörðungu höfðað gegn öðrum fyrrnefndra flytjenda ber honum réttur til þess að krefjast þess að hinn flytjandinn komi einnig að meðferð þess fyrir rétti og fer slík málsmeðferð og áhrif slíkrar aðkomu eftir lögum þess ríkis þar sem mál er höfðað.
46. gr. Viðbótarlögsaga.
Höfða skal skaðabótamál, sem er fjallað um í 45. gr., að vali stefnanda á landsvæði einhvers aðildarríkis samnings þessa, annaðhvort fyrir dómstóli sem heimilt er að höfða mál fyrir gegn samningsbundna flytjandanum, eins og kveðið er á um í 33. gr., eða fyrir þeim dómstóli sem hefur lögsögu þar sem flytjandi í raun á lögheimili eða hefur aðalskrifstofu sína.
47. gr. Ógilding samningsákvæða.
Öll samningsákvæði, sem miða að því að leysa samningsbundna flytjandann eða flytjanda í raun undan ábyrgð samkvæmt þessum kafla eða að því að ákvarða lægri ábyrgðarmörk en þau sem gilda samkvæmt þessum kafla, skulu ógild, en í ógildingu sérhvers slíks ákvæðis felst ekki ógilding samningsins í heild sem ákvæði samnings þessa gilda um eftir sem áður.
48. gr. Innbyrðis tengsl samningsbundins flytjanda og flytjanda í raun.
Ekkert í þessum kafla hefur áhrif á réttindi og skyldur flytjendanna hvors gagnvart öðrum, þ.m.t. endurkröfurétt og rétt til skaðleysisbóta, með fyrirvara um ákvæði 45. gr.
VI. kafli. Önnur ákvæði.
49. gr. Tilskilið gildissvið.
Ógild skulu vera hvers konar ákvæði í flutningssamningi og hvers konar sérsamningar sem gerðir eru áður en tjón verður og miða að því að ganga fram hjá reglum samnings þessa varðandi þau lög sem fara skal eftir eða varðandi lögsögu.
50. gr. Vátrygging.
Aðildarríki samnings þessa skulu skylda flytjendur sína til þess að viðhalda fullnægjandi vátryggingu sem vegur upp ábyrgð þeirra samkvæmt samningi þessum. Aðildarríki samnings þessa getur krafið flytjanda, sem er með starfsemi á landsvæði þess, um að hann leggi fram gögn því til staðfestingar að hann viðhaldi fullnægjandi vátryggingu sem vegur upp ábyrgð hans samkvæmt samningi þessum.
51. gr. Flutningur við óvenjulegar aðstæður.
Ákvæði 3.–5. gr. og 7. og 8. gr. um skjalahald í flutningum gilda ekki þegar um ræðir flutning við óvenjulegar aðstæður utan venjulegs rekstrarsviðs flytjanda.
52. gr. Merking daga.
Orðið „dagar“ merkir í samningi þessum almanaksdaga en ekki virka daga.
VII. kafli. Lokaákvæði.
53. gr. Undirritun, fullgilding og gildistaka.
1. Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar í Montreal 28. maí 1999 af hálfu þátttökuríkja alþjóðlegu ráðstefnunnar um flugrétt sem var haldin í Montreal 10.–28. maí 1999. Samningurinn skal liggja frammi til undirritunar fyrir öll ríki í höfuðstöðvum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar í Montreal uns hann öðlast gildi samkvæmt ákvæðum 6. mgr. þessarar greinar.
2. Samningur þessi skal einnig liggja frammi til undirritunar af hálfu svæðisbundinna stofnana á sviði efnahagslegs samruna. Í samningi þessum merkir „svæðisbundin stofnun á sviði efnahagslegs samruna“ stofnun sem fullvalda ríki á tilteknu svæði koma á fót og er réttbær til þess að fara með tiltekin mál sem samningur þessi fjallar um og hefur fullt umboð til þess að undirrita samning þennan, fullgilda hann, staðfesta eða samþykkja eða gerast aðili að honum. Vísun til „aðildarríkis“ eða „aðildarríkja“ í samningi þessum annars staðar en í 2. mgr. 1. gr., b-lið 1. mgr. 3. gr., b-lið 5. gr., 23., 33. og 46. gr. og b-lið 57. gr. gildir jafnt um svæðisbundna stofnun á sviði efnahagslegs samruna. Að því er varðar 24. gr. gildir vísun til „meiri hluta aðildarríkjanna“ og „þriðjungs aðildarríkjanna“ ekki um svæðisbundna stofnun á sviði efnahagslegs samruna.
3. Samningur þessi er með fyrirvara um fullgildingu af hálfu ríkja og svæðisbundinna stofnana á sviði efnahagslegs samruna sem hafa undirritað hann.
4. Öllum ríkjum og svæðisbundnum stofnunum á sviði efnahagslegs samruna, sem undirrita ekki samning þennan, er heimilt að staðfesta eða samþykkja samning þennan eða gerast aðili að honum hvenær sem er.
5. Afhenda ber skjöl um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild Alþjóðaflugmálastofnuninni til vörslu sem er hér með tilnefnd vörsluaðili samningsins.
6. Samningur þessi tekur gildi milli þeirra ríkja, sem hafa afhent skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild til vörslu, á sextugasta degi eftir að þrítugasta skjalið þess efnis hefur verið afhent vörsluaðila. Skjal, sem stofnun á sviði efnahagslegs samruna afhendir til vörslu, er ekki meðtalið að því er varðar þessa málsgrein.
7. Samningur þessi tekur gildi, að því er varðar önnur ríki og aðrar stofnanir á sviði efnahagslegs samruna, sextíu dögum eftir þann dag er skjal um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild var afhent til vörslu.
8. Vörsluaðili skal tilkynna öllum undirritunaraðilum og aðildarríkjum án tafar um:
a. sérhverja undirritun samnings þessa og dagsetningu hennar;
b. sérhverja afhendingu skjals um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild og dagsetningu hennar;
c. dagsetningu gildistöku samnings þessa;
d. dagsetningu gildistöku breyttra marka ábyrgðar sem eru ákveðin samkvæmt samningi þessum;
e. sérhverja uppsögn skv. 54. gr.
54. gr. Uppsögn.
1. Öllum aðildarríkjum er heimilt að segja upp samningi þessum með skriflegri tilkynningu til vörsluaðila.
2. Uppsögn skal taka gildi eitt hundrað og áttatíu dögum eftir þann dag er vörsluaðili tekur við tilkynningu um uppsögn.
55. gr. Tengsl við aðra gerninga samkvæmt Varsjársamningnum.
Samningur þessi gengur framar öllum reglum sem gilda um flutninga milli landa loftleiðis:
1. milli aðildarríkja samnings þessa í krafti þess að þau séu almennt aðilar að:
a. samningnum um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa sem var undirritaður í Varsjá 12. október 1929 (hér á eftir nefndur Varsjársamningurinn);
b. bókuninni um breytingar á samningnum um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa, undirritaður í Varsjá 12. október 1929, sem var gerð í Haag 28. september 1955 (hér á eftir nefnd Haag-bókunin);
c. samningnum um samræmingu tiltekinna reglna um flutninga milli landa loftleiðis sem annar aðili en hinn samningsbundni flytjandi framkvæmir, sem er viðbót við Varsjársamninginn, sem undirritaður var í Gvadalajara 18. september 1961 (hér á eftir nefndur Gvadalajara-samningurinn);
d. bókuninni um breytingar á samningnum um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa, sem var undirritaður í Varsjá 12. október 1929, eins og henni var breytt með bókuninni sem var gerð í Haag 28. september 1955 og undirrituð var í Gvatemalaborg 8. mars 1971 (hér á eftir nefnd Gvatemalaborgarbókunin);
e. 1.–3. viðbótarbókun og 4. Montreal-bókun um breytingu á Varsjársamningnum, eins og honum var breytt með Haag-bókuninni, eða Varsjársamningnum, eins og honum var breytt með bæði Haag-bókuninni og Gvatemalaborgarbókuninni sem voru undirritaðar í Montreal 25. september 1975 (hér á eftir nefndar Montreal-bókanirnar); eða
2. innan landsvæðis hvaða einstaka aðildarríkis samnings þessa sem er í krafti þess að viðkomandi ríki sé aðili að einum eða fleiri gerningum sem um getur í a–e-lið hér að framan.
56. gr. Ríki þar sem fleiri en eitt réttarkerfi eiga við.
1. Ráði ríki yfir tveimur eða fleiri landsvæðum þar sem ólík réttarkerfi eiga við um málefni, sem samningur þessi fjallar um, er því heimilt að lýsa því yfir, við undirritun hans, fullgildingu, staðfestingu eða samþykki eða þegar það gerist aðili að honum, að samningur þessi skuli gilda á öllum landsvæðum þess eða einvörðungu á einu þeirra eða fleirum og er því enn fremur heimilt að gera breytingar á þeirri yfirlýsingu með því að senda aðra yfirlýsingu hvenær sem það kýs.
2. Tilkynna ber um hverja slíka yfirlýsingu til vörsluaðila og taka skýrt fram á hvaða landsvæðum samningurinn gildir.
3. Að því er varðar aðildarríki samnings þessa sem gefið hefur út slíka yfirlýsingu:
a. skal líta svo á að vísanir í 23. gr. til „innlendra gjaldmiðla“ eigi við gjaldmiðil viðkomandi landsvæðis þess ríkis; og
b. að vísanir í 28. gr. til „innlendra laga“ eigi við lög viðkomandi landsvæðis þess ríkis.
57. gr. Fyrirvarar.
Óheimilt er að gera fyrirvara við samning þennan með þeirri undantekningu að aðildarríki hans er hvenær sem er heimilt að lýsa því yfir, í tilkynningu til vörsluaðila, að samningur þessi gildi ekki um:
a. flutninga milli landa loftleiðis sem það aðildarríki framkvæmir og rekur sjálft milliliðalaust í öðrum tilgangi en viðskiptalegum eða í þeim tilgangi að gegna hlutverki sínu og skyldum sem fullvalda ríki; og/eða
b. flutning farþega, farms og farangurs fyrir hernaðaryfirvöld þess með loftfari, sem er skráð í því aðildarríki eða tekið á leigu af því, þar sem slík yfirvöld hafa tekið frá allt flutningsrými eða það hefur verið gert fyrir þeirra hönd.
ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.
GJÖRT í Montreal hinn 28. maí 1999 á arabísku, ensku, frönsku, kínversku, rússnesku og spænsku og eru allir textar jafngildir. Samningur þessi skal varðveittur í skjalasafni Alþjóðaflugmálastofnunarinnar og skal vörsluaðili senda öllum aðildarríkjum samnings þessa og öllum aðildarríkjum Varsjársamningsins, Haag-bókunarinnar, Gvadalajara-samningsins, Gvatemalaborgarbókunarinnar og Montreal-bókananna staðfest afrit af honum.