Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði

1977 nr. 18 11. maí


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 27. maí 1977. Breytt með: L. 45/1982 (tóku gildi 24. maí 1982). L. 95/1984 (tóku gildi 13. júní 1984). L. 28/1989 (tóku gildi 23. maí 1989). L. 64/1997 (tóku gildi 30. maí 1997). L. 129/2004 (tóku gildi 31. des. 2005). L. 151/2009 (tóku gildi 1. jan. 2010). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).


1. gr.
Ríkisstjórnin skal beita sér fyrir stofnun hlutafélags, er reisi og reki verksmiðju að Grundartanga í Hvalfirði til framleiðslu á kísiljárni og hafi með höndum þá framleiðslu og tengdan atvinnurekstur.
[Hlutafélaginu er enn fremur ætlað á eigin vegum, með þátttöku í öðrum félögum eða með stofnun dótturfyrirtækja, að tryggja vöxt fyrirtækisins með arðvænlegum fjárfestingum í öðrum greinum atvinnurekstrar.]1)
   1)L. 28/1989, 1. gr.
2. gr.
Til samvinnu um stofnun eða starfsemi hlutafélags samkvæmt 1. gr. skal ríkisstjórninni heimilt að kveðja hvers konar aðra aðila, sem áhuga hafa á málinu. …1)
   1)L. 64/1997, 1. gr.
3. gr.
Í sambandi við hlutafélag skv. 1. gr. er ríkisstjórninni heimilt:
   1. Að leggja fram [allt að jafnvirði 33 milljóna Bandaríkjadollara í íslenskum krónum]1)2). Einnig er henni heimilt að taka lán í sama skyni.
   2. Að kaupa eða láta kaupa jarðnæði við Grundartanga í Hvalfirði, er leigt verði félaginu, eftir því sem þarfir verksmiðju þess krefjast, sbr. 10. gr.
   3. Að láta byggja og reka höfn við Grundartanga í Hvalfirði, sem félagið hafi aðgang að, og kaupa eða láta kaupa nauðsynleg landsréttindi höfninni til handa, sbr. 10. gr.
   4. Að sjá um að leggja veg að hinu fyrirhugaða verksmiðju- og hafnarsvæði við Grundartanga.
   5. Að láta leggja raflínu að hinu fyrirhugaða verksmiðju- og hafnarsvæði við Grundartanga, til flutnings á rafmagni til byggingar verksmiðju félagsins og hafnarinnar og til almennra nota þar á staðnum.
   6. Að veita félaginu lán í sambandi við byggingu verksmiðjunnar, að fjárhæð allt að jafnvirði 24,2 milljóna norskra króna, með þeim kjörum, sem ríkisstjórnin ákveður, eða leggja fram sömu fjárhæð til aukningar á hlutafé þess, gegn samsvarandi lánum eða framlögum frá samstarfsaðilum hennar að tiltölu við hlutafjáreign þeirra. Ríkisstjórninni er heimilt að taka lán í þessu skyni.
   7. Að lækka stimpilgjöld og þinglýsingargjöld vegna stofnlána, sem félagið tekur í sambandi við byggingu verksmiðjunnar, [svo og stimpilgjald af hlutabréfum].3)
   8.3)
   1)L. 95/1984, 1. gr. 2)L. 64/1997, 2. gr. 3)L. 95/1984, 2. gr.
4. gr.
Íslenska ríkið og þeir aðilar, sem kvaddir eru til samstarfs skv. 2. gr., skulu vera fullgildir stofnendur hlutafélagsins, án tillits til ákvæðis 3. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 77/1921, um hlutafélög.1) Tala stofnenda skal og óháð ákvæðum 1. málsl. sömu málsgreinar. Rétt er að skrásetja félagið þegar er það hefur verið stofnað, án tillits til þess, hvernig þá stendur á um innborgun lofaðs hlutafjár.
Tala hluthafa í félaginu skal óháð takmörkunum í almennum hlutafélagalögum, svo og réttur hluthafa til að neyta atkvæðisréttar fyrir allt atkvæðisbært hlutafé sitt.
Hlutabréf í félaginu skulu hljóða á nafn.
   1)l. 2/1995.
5. gr.
Fulltrúar í stjórn hlutafélagsins skulu skipaðir eða kjörnir á aðalfundi til árs í senn, svo og varamenn þeirra.
Fulltrúar í stjórn félagsins mega vera erlendir ríkisborgarar og búsettir erlendis …1)
Stjórnarmenn þurfa ekki að eiga sjálfir hlut í félaginu.
   1)L. 64/1997, 3. gr.
6. gr.
Ríkisstjórninni er heimilt að gera samninga innan ramma þessara laga við þá aðila, sem kvaddir eru til samstarfs skv. 2. gr. að framan, og að kveða þar á um þær skuldbindingar af hálfu ríkisins og aðilanna, sem taldar eru nauðsynlegar og viðeigandi í sambandi við samvinnu þeirra um hlutafélagið og starfsemi þess, þar á meðal varðandi framkvæmd 7.–9. gr. að neðan. Gildistími ákvæða 7.–9. gr. skal vera eftir því sem ríkisstjórnin ákveður, og ekki skemmri en fimmtán ár frá stofnun hlutafélagsins.
Samningar þeir, er ríkisstjórnin gerir samkvæmt 1. mgr. um grundvallaratriði samstarfsins skulu birtir í B-deild Stjórnartíðinda.1)
Í samræmi við 1. mgr. er ríkisstjórninni heimilt að semja við samstarfsaðila sína í hlutafélaginu um gagnkvæmar skuldbindingar til að tryggja félaginu fjármagn til að ljúka byggingu á verksmiðju með tveimur 30–45 MW bræðsluofnum fyrir kísiljárn og hefjast handa um rekstur hennar, þ.e. það fjármagn, sem við kann að þurfa umfram stofnhlutafé og lán skv. 6. tölul. 3. gr. ásamt stofnlánum frá utanaðkomandi aðilum, er verði ekki lægri en jafnvirði 320 milljóna norskra króna að samanlögðum höfuðstól. Er ríkisstjórninni heimilt að taka lán í þessu skyni og endurlána félaginu með kjörum, sem hún ákveður, eða að taka ábyrgð á lánum, sem félaginu eru útveguð, gegn sams konar aðgerðum af hálfu samstarfsaðilanna eftir réttu hlutfalli við hlutafjáreign hvers um sig.
   1)Augl. B 452/1997.
7. gr.
Hlutafélagi skv. 1. gr. ber að greiða tekjuskatt …1) og önnur opinber gjöld, sem almennt eru á lögð hér á landi, eftir þeim reglum, sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma, nema að því leyti, sem mælt er á annan veg í lögum þessum.
Verði lagareglum um tekjuskatt …1) eða önnur opinber gjöld breytt frá því, sem nú er, skal hlutafélagið jafnan eiga sama rétt og aðrir íslenskir aðilar, sem hafa hliðstætt rekstrarform og stunda hliðstæða starfsemi, til að njóta þeirra hlunninda, sem um er að ræða eftir hinum breyttu reglum, og því ekki íþyngt með álögum umfram þessa aðila.
Eftirfarandi reglur skulu gilda gagnvart hlutafélaginu að því er varðar skatta á nettótekjur og aðra skatta, sem að neðan greinir, án tillits til breytinga, sem verða kunna á almennum lögum um þá skatta:
   1. Félaginu skal jafnan heimilt að halda varasjóð myndaðan af skattfrjálsum framlögum að því marki, sem um ræðir í 2. mgr. 17. gr. gildandi laga um tekjuskatt …1) (nr. 68/1971, sbr. lög nr. 7/1972), og eftir þeim reglum, er gilda um slíkan varasjóð samkvæmt þeim lögum.
   2. Félaginu skal jafnan heimilt að draga frá hreinum tekjum sínum á ári hverju sem svarar allt að 10% af nafnverði hlutafjár þess með sama hætti og um getur í 1. mgr. 17. gr. gildandi tekjuskattslaga.2) Má sá frádráttur vera fyrir fjárhæðum, er félagið borgar út jafnóðum sem arð á því ári, og/eða fjárhæðum, er félagið leggur til hliðar á árinu í sjóð til fjárfestingar og rekstrarþarfa. Úr sjóði þeim, sem lagður er til hliðar samkvæmt ákvæði þessu, má síðar úthluta arði og greiða hann, án þess að slíkt skerði rétt félagsins til frádráttar vegna útborgaðs arðs á því ári, er greiðsla fer fram.
   3. Félaginu skal jafnan heimilt að auka hlutafé sitt með útgáfu jöfnunarhlutabréfa án þess að nafnverð þeirra teljist til skattskyldra tekna hjá hluthöfum þess, innan þeirra marka, sem um ræðir í 2. mgr. D-liðs 1. mgr. 7. gr. gildandi tekjuskattslaga.
   4. Félagið skal greiða árlegt landsútsvar, er nemi 0,5% hið mesta af rekstrarútgjöldum þess næstliðið almanaksár samkvæmt ákvæðum skattalaga (þar með taldar fyrningar og vöru- og efnisnotkun), þó ekki af hærri upphæð en sem nemi brúttótekjum félagsins á árinu. Verður landsútsvarið lagt á atvinnurekstur félagsins sem heild og kemur í stað aðstöðugjalds á þann rekstur skv. V. kafla laga nr. 8/1972, um tekjustofna sveitarfélaga,3) og annarra gjalda, er leysa kynnu aðstöðugjaldið af hólmi.
   1)L. 129/2004, 41. gr. 2)l. 90/2003. 3)l. 4/1995.
8. gr.
Um skattskyldu erlendra aðila, sem kvaddir eru til samvinnu samkvæmt 2. gr. laganna og eiga hlut í félaginu eða láta því í té tæknilega aðstoð eða aðstoð við sölu á afurðum þess, skal fara eftir ákvæðum þeirra tvísköttunarsamninga, sem í gildi eru milli Íslands og heimaríkja þessara aðila. Í þeim tilvikum, sem slíkum tvísköttunarsamningum er ekki til að dreifa, er ríkisstjórninni heimilt að beita í þessu efni ákvæðum þeirra tvísköttunarsamninga, sem í gildi eru á hverjum tíma milli Íslands og Noregs eða Íslands og Bandaríkjanna, eftir því sem hún ákveður nánar. Jafnframt skulu eftirfarandi reglur gilda gagnvart ofangreindum aðilum, án tillits til breytinga á íslenskum skattalögum:
   1. Tekjuskattur erlendra hluthafa í félaginu vegna arðs af hlutareign þeirra, sem skattskyldur er samkvæmt gildandi tekjuskattslögum eða síðari lögum um tekjuskatt, skal vera 5% — fimm af hundraði, nema lög eða milliríkjasamningar kveði á um lægra gjald, enda eigi viðkomandi hluthafi ekki minna en sem svarar 10% af útistandandi hlutafé félagsins. Ber félaginu að halda skatti þessum eftir við útborgun arðsins og skila honum til hlutaðeigandi yfirvalda á greiðsluárinu. Í þessu sambandi ber að meðhöndla úthlutun á verðmætum til hluthafa við slit á félaginu eða sölu á hlutabréfum sem innlausn á hlutabréfum, og skal ágóði til hluthafanna, sem um er að ræða, metinn sem tekjur af innlausninni og skattlagður sem arður.
   2. Þeir erlendu aðilar, sem að ofan greinir, skulu ekki taldir hafa fasta starfsstöð á Íslandi vegna umgetinna tengsla sinna við félagið, og greiðslur til þeirra í formi þjónustugjalda, sölulauna, umboðslauna, leyfisgjalda og vaxta skulu ekki háð sköttun á Íslandi.
9. gr.
Innflutningur af hálfu hlutafélagsins á byggingarefni, vélum og búnaði og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum til verksmiðju félagsins og rekstrar hennar og tengdra mannvirkja skal undanþeginn aðflutningsgjöldum og söluskatti á innflutning. Ríkisstjórninni er heimilt að fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld og/eða söluskatt af vöru eða þjónustu, sem keypt er innanlands vegna byggingar verksmiðjunnar, í þeim tilgangi að efla aðstöðu innlendra aðila til samkeppni um verkefni í sambandi við bygginguna.
Innflutningur af hálfu hlutafélagsins á hráefnum og rekstrarvörum, sem beinlínis eru notaðar í framleiðslu á útflutningsvörum frá verksmiðjunni, skal undanþeginn tollum á innflutning og útflutning og söluskatti á Íslandi, svo og sala til útlanda á framleiðsluvörum félagsins.
Rafmagn til rekstrar verksmiðjunnar skal undanþegið söluskatti og öðrum gjöldum í sambandi við sölu eða notkun raforku.
10. gr.
Höfn1) við verksmiðjusvæðið að Grundartanga, sbr. 3. tölul. 3. gr., skal vera í eigu sérstaks hafnarsjóðs, sem sveitarfélög í nágrenninu stofna til samkvæmt ákvæðum hafnalaga, og tryggi hafnarsjóðurinn hlutafélaginu viðeigandi afnot hafnarinnar með kjörum, sem ríkisstjórnin samþykkir.
Ríkisstjórninni er heimilt að ákveða, að hafnarsjóðurinn verði eigandi að jarðnæði verksmiðjunnar við Grundartanga, sbr. 2. tölul. 3. gr., og leigi það hlutafélaginu með kjörum, sem ríkisstjórnin samþykkir.
   1)Rg. 214/1980.
11. gr.
Hlutafélaginu ber að gera varúðarráðstafanir til að varna tjóni á umhverfi verksmiðjunnar við Grundartanga af hennar völdum, og skulu hönnun verksmiðjunnar, bygging og rekstur í öllu vera í samræmi við núgildandi og síðari lög og reglugerðir hér á landi varðandi mengunarvarnir og náttúruvernd og öryggi, heilbrigði og hreinlæti á vinnustað, og þá staðla, sem settir eru samkvæmt þeim.
Áður en framleiðsla hefst skal gerð líffræðileg athugun á umhverfi verksmiðjunnar, þannig að fylgjast megi með áhrifum hennar á lífríkið. Ríkisstjórnin ákveður tilhögun athugunarinnar að fengnum tillögum Náttúruverndarráðs, og skal hlutafélagið greiða allan kostnað við framkvæmd hennar.
12. gr.
Við járnblendiverksmiðjuna starfi samstarfsnefnd skipuð þremur fulltrúum frá hvorum, stjórn verksmiðjunnar og starfsliði hennar, ásamt jafnmörgum varamönnum. Hlutverk samstarfsnefndar er að efla samvinnu fyrirtækisins og starfsliðs þess, vera báðum til ráðuneytis og gera tillögur um bættan aðbúnað, heilbrigði og öryggi starfsliðs og hagkvæmni í rekstri fyrirtækisins.
13. gr.
[Ráðherra er fer með málefni iðnaðar]1) fer með mál, sem snerta eignaraðild ríkisins í hlutafélaginu.
[[Ráðherra er fer með málefni iðnaðar]1) er eftir hlutafjárhækkun í félaginu á árinu 1997 heimilt þegar á því ári að selja eignarhlut ríkisins í félaginu, þó þannig að 12% heildarhlutafjár verði ekki seld fyrr en reynt hefur á kauprétt núverandi samstarfsaðila ríkisins að verksmiðjunni.]2)
   1)L. 126/2011, 74. gr. 2)L. 64/1997, 4. gr.
[Ákvæði til bráðabirgða.
Með vísan til 1. mgr. 7. gr. er heimilt að gera viðauka við aðalsamninginn um fyrirframgreiðslu hlutafélagsins á opinberum gjöldum á árunum 2010, 2011 og 2012 sem hér segir:
Þrátt fyrir ákvæði 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er [ráðherra er fer með tekjuöflun ríkisins]1) heimilt að kveða sérstaklega á um í reglugerð2) að hlutafélagið skuli greiða fyrir fram í þremur jöfnum greiðslum á árunum 2010, 2011 og 2012 upp í væntanlega álagningu á tekjuskatti og öðrum opinberum gjöldum á árunum 2013–2018. Af ástæðum er varða útreikning skal fjárhæð fyrirframgreiðslunnar taka mið af hlutfallslegri raforkunotkun hlutafélagsins eftir því sem kveðið verður nánar á um í viðauka við aðalsamninginn.
Ef uppgjörsmynt hlutafélagsins er önnur en íslenskar krónur skal umreikna fyrirframgreiðsluna miðað við gengi uppgjörsmyntar hlutafélagsins á greiðsludegi. Þannig reiknuð fjárhæð í erlendri mynt skal ganga á móti álagningu á tekjuskatti og öðrum opinberum gjöldum hlutafélagsins, umreiknuð í íslenskar krónur á álagningardegi, á árunum 2013–2018. Fyrirframgreiðsla hvers árs sem slík tekur þannig engum öðrum breytingum en leiðir af gengisþróun frá greiðsludegi þar til hún gengur á móti álögðum opinberum gjöldum.
Í reglugerðinni skal nánar kveðið á um greiðsludagsetningar, uppgjör fyrirframgreiðslu við álagningu, endurgreiðslu o.fl.]3)
   1)L. 126/2011, 74. gr. 2)Rg. 1018/2010, sbr. 1055/2010. 3)L. 151/2009, 2. gr.

Fylgiskjal.
Aðalsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og Elkem-Spigerverket a/s.1)
   1)Sjá Stjtíð. A 1977, bls. 73–91.