Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði
2003 nr. 12 11. mars
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 12. mars 2003. Breytt með:
L. 129/2004 (tóku gildi 31. des. 2005).
L. 151/2009 (tóku gildi 1. jan. 2010).
L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
L. 46/2018 (tóku gildi 1. júlí 2018; um lagaskil sjá 19. gr.).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eða háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
1. gr. Heimild.
[Ráðherra]1) er veitt heimild til að gera samninga fyrir hönd ríkisstjórnarinnar innan ramma þessara laga við Alcoa Incorporated, Fjarðaál sf. (félagið) og stofnendur þess, Alcoa á Íslandi ehf. og Reyðarál ehf. (eigendurnir), um að reisa og reka álverksmiðju og tengd mannvirki á Íslandi (verkefnið).
Samningarnir skulu kveða á um þær skuldbindingar af hálfu ríkisins, Alcoa Inc., félagsins og eigenda þess sem kunna að þykja nauðsynlegar og viðeigandi fyrir félagið, eigendurna og starfsemina, þ.m.t. framkvæmd á ákvæðum laga þessara. Í slíkum samningum skal ákveðið hversu lengi ákvæði þeirra skuli gilda og skulu þau eigi gilda skemur en í 20 ár frá stofnun Fjarðaáls sf.
Fjárfestingarsamningur sá sem [ráðherra]1) undirritar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar samkvæmt lögum þessum um meginatriði verkefnisins skal birtur í B-deild Stjórnartíðinda.
Starfsemi félagsins og eigendanna skal vera í samræmi við íslensk lög og reglugerðir eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.
1)L. 126/2011, 359. gr.
2. gr. Verkefnið.
Verkefnið, sem lög þessi taka til, felur í sér að félagið byggir álverksmiðju í Reyðarfirði í Fjarðabyggð til framleiðslu á áli og aðstöðu sem tengist slíkri framleiðslu og skyldri starfsemi, þ.m.t. bygging hafnarmannvirkja eins og nánar verður um samið í fjárfestingarsamningi sem gerður verður innan ramma þessara laga milli [ráðherra]1) og félagsins og hafnarsamningi milli hafnarsjóðs Fjarðabyggðar og félagsins. Álverksmiðjan er hönnuð til framleiðslu á allt að 322.000 tonnum af áli á ári.
1)L. 126/2011, 359. gr.
3. gr. Ábyrgðir ríkisstjórnarinnar.
Í tengslum við framkvæmd verkefnisins skv. 2. gr. er ríkisstjórninni heimilt að tryggja efndir af hálfu Fjarðabyggðar eins og þær eru ákveðnar í fjárfestingarsamningi, auk efnda hafnarsjóðs Fjarðabyggðar eins og kveðið er á um í hafnarsamningi.
4. gr. Undanþágur frá lögum.
Eigendurnir skulu undanþegnir ákvæðum 2. mgr. 42. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, um að minnst helmingur stjórnarmanna skuli vera búsettur hér á landi.
Félagið og eigendurnir skulu undanþegnir ákvæðum 2. og 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, sem setja þau skilyrði að eigendur sameignarfélags skuli allir vera íslenskir ríkisborgarar eða með lögheimili á Íslandi samfellt í a.m.k. fimm ár.
Félagið skal undanþegið ákvæðum laga nr. 48/1994, um brunatryggingar, eða ákvæðum síðari laga um sameiginlega skyldutryggingu húseigna, enda tryggi félagið eignir sínar með öðrum hætti sem telst venjulegur og viðtekinn er í álframleiðslu. Ákvæði [laga um Náttúruhamfaratryggingu Íslands]1) skulu ekki eiga við félagið. Félagið skal viðhalda [náttúruhamfaratryggingu]1) sem er venjuleg og viðtekin í álframleiðslu.
Þrátt fyrir ákvæði laga nr. 62/1973, um jöfnun flutningskostnaðar á sementi, skal ekki leggja flutningsjöfnunargjald á sement sem flutt er til landsins eða framleitt innan lands og notað er til byggingarframkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og álverksmiðju í Reyðarfirði. Flutningsjöfnunarsjóður greiðir ekki flutningskostnað á sementi til þeirra nota.
1)L. 46/2018, 20. gr.
5. gr. Fyrirtækjafyrirkomulag og eignarhald.
Í fjárfestingarsamningi er heimilt að semja um fyrirtækjafyrirkomulag dótturfélaga Alcoa Inc. á Íslandi og tilteknar takmarkanir í því efni. Jafnframt er heimilt að semja um tilteknar skyldur og kvaðir hvað varðar starfsemina og eignarhald á félaginu og félögum eigendanna, svo og framsal eignarréttar og hluta.
6. gr. Skattlagning.
Félagið og eigendurnir skulu greiða skatta og önnur opinber gjöld, sem almennt eru lögð á hér á landi, eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma, nema að því leyti sem á annan veg er mælt í lögum þessum:
1. Þrátt fyrir breytingar, sem síðar kunna að verða á [lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt],1) skulu eigendurnir greiða 18% tekjuskatt með eftirfarandi sérákvæðum:
a. Ef tekjuskattshlutfall á félög með takmarkaðri ábyrgð, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. [laga nr. 90/2003, um tekjuskatt],1) er lægra en 18% á þeim degi sem afhending raforku fer fram að fullu skal það hlutfall gilda um eigendurna. Verði tekjuskattshlutfallið hækkað að nýju skal það gilda um eigendurna en skal þó aldrei vera hærra en 18%.
b. Félaginu skal heimilt að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu níu almanaksárum með þeim skilyrðum sem fram koma í 8. tölul. 1. mgr. 31. gr. [laga nr. 90/2003, um tekjuskatt].1) Ef íslenskum fyrirtækjum verður heimilað að draga eftirstöðvar rekstrartapa fleiri ára frá skattskyldum tekjum þar til afhending raforku fer fram að fullu skal það sama gilda um félagið. Verði árunum fækkað síðar skal það sama gilda um félagið, þó þannig að því skal ávallt heimilt að draga frá skattskyldum tekjum eftirstöðvar rekstrartapa síðustu níu almanaksára.
c. Fastafjármunir vegna byggingar álverksmiðjunnar skulu teljast byggingar, vélar og tæki í ákveðnum hlutföllum sem samið verður um. Fastafjármunir, sem að öðru leyti er aflað vegna viðhalds eða endurbóta á álverksmiðjunni, skulu flokkaðir í samræmi við [33. og 37. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt].1) Fyrningu skal hagað í samræmi við 4. tölul. þessarar greinar.
2. …1)
3. Félagið skal undanþegið iðnaðarmálagjaldi samkvæmt lögum nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald, með áorðnum breytingum, og markaðsgjaldi samkvæmt lögum nr. 160/2002, um útflutningsaðstoð, sem og sköttum eða gjöldum sömu eða að verulegu leyti svipaðrar tegundar sem síðar kynnu að verða lögð á til viðbótar eða í staðinn fyrir iðnaðarmálagjald.
4. Á því ári þegar nýjar eignir eru teknar í notkun getur félagið valið að fyrna þær í hlutfalli við notkun á árinu í stað fullrar árlegrar fyrningar skv. [34. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt].1) Þrátt fyrir ákvæði [35. og 42. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt],1) skal félaginu heimilt að fyrna eignir sínar að fullu.
5. Í stað fasteignaskatts skv. II. kafla laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með áorðnum breytingum, sem og skatta eða gjalda sömu eða að verulegu leyti svipaðrar tegundar sem síðar kynnu að verða lögð á til viðbótar eða í staðinn fyrir fasteignaskatt, skal félagið greiða Fjarðabyggð fasteignaskatt sem skal vera 1% af 255 milljónum bandaríkjadala á meðalgengi fyrstu sex mánaða ársins 2007, sem er áætlað verðmæti lóðar, bygginga, athafnasvæðis og mannvirkja innan lóðar og hafnarsvæðis sem þarf vegna framleiðslugetu sem nemur allt að 322.000 tonna álframleiðslu á ári, sem breytist í samræmi við breytingar á byggingarvísitölu og tilteknar aðrar viðmiðanir sem nánar skal fjallað um í fjárfestingarsamningi.
6. Félagið skal undanþegið gatnagerðargjaldi samkvæmt lögum nr. 17/1996, um gatnagerðargjald, vegna framleiðslugetu sem nemur allt að 322.000 tonnum á ári eða öðrum sköttum eða gjöldum í stað gatnagerðargjalds.
7. Með samningum, sem gerðir verða innan ramma laga þessara, má ákveða að Fjarðaál sf. skuli greiða umsamda fjárhæð til Fjarðabyggðar í stað byggingarleyfisgjalds samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, og umsamda fjárhæð til ríkissjóðs í stað skipulagsgjalds samkvæmt lögum nr. 73/1997.
8. Stimpilgjöld, sbr. lög nr. 36/1978, um stimpilgjald, skulu vera 0,15% af kaup- eða leigusamningum sem útgefnir eru eða gerðir af hálfu félagsins og eigenda þess og af fjárfestingarlánum sem félagið og eigendurnir kunna að taka í sambandi við byggingu álverksmiðjunnar og hafnarbúnaðar, sem og af öllum stimpilskyldum skjölum sem nauðsynleg eru í sambandi við stofnun félagsins. Lán, sem tekin eru til endurfjármögnunar fjárfestingarlána, sem og hlutabréf í félögum eigendanna, skulu undanþegin stimpilgjaldi.
9. Félagið og eigendurnir skulu undanþegnir ákvæðum 1. og 4. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.
10. Þrátt fyrir ákvæði [2. tölul. 70. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt],1) skal 5% tekjuskattur lagður á arð sem greiddur er hluthöfum í félögum eigendanna að því tilskildu að þeir séu búsettir í OECD-ríki og að 25% af hlutafé í félaginu séu í eigu hluthafans á skattári fyrir greiðslu arðs.
11. Ákvæði [laga nr. 90/2003, um tekjuskatt],1) um frádrátt vaxtakostnaðar, svo sem þau eru við undirritun samninganna, skulu haldast óbreytt á upphaflegum gildistíma samningsins.
12. Hafnarsjóði Fjarðabyggðar er heimilt að gera sérstakan samning um vörugjöld með öðrum hætti en fram kemur í hafnalögum, nr. 23/1994, með síðari breytingum, sbr. hafnareglugerð og hafnagjaldskrá sem settar eru á grundvelli þeirra.
Í fjárfestingarsamningi er heimilt að kveða á um að skattar eða gjöld verði ekki lögð á raforkunotkun félagsins og útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna, nema slíkir skattar og gjöld séu lögð með almennum hætti á öll önnur fyrirtæki hér á landi, þ.m.t. álfyrirtæki.
Í fjárfestingarsamningi er heimilt með tilliti til skattlagningar að semja um reglur og viðmiðanir er lúta að viðskiptum félagsins og eigendanna við Alcoa Inc. og fyrirtæki í eignatengslum við Alcoa Inc. Í því efni er m.a. heimilt að byggja á meginreglum verðlagningar óskyldra aðila samkvæmt reglum OECD.
Almenn ákvæði íslenskra laga um tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á og í gildi eru á hverjum tíma og varða skattframtal, framtalsfrest, álagningu, endurskoðun, endurálagningu, innheimtu, gjalddaga og greiðslu, sem og aðrar uppgjörsreglur varðandi tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á, auk andmæla og ágreinings í tengslum við þau, skulu gilda um félagið og eigendurna.
Á samningstímanum geta félagið og eigendurnir valið að almenn ákvæði íslenskra skattalaga, eins og þau eru á hverjum tíma, gildi. Beiðni um slíka breytingu skal gerð með skriflegri tilkynningu sem lögð skal fram eigi síðar en 1. júní árið áður en breytingarnar eiga að taka gildi.
1)L. 129/2004, 144. gr.
7. gr. Reikningsskilareglur.
Með samningum, sem gerðir eru samkvæmt lögum þessum, má ákveða sérstakar reikningsskilareglur fyrir félagið og eigendurna sem grundvallaðar eru á íslenskum lögum með þeim skýringum og breytingum sem taldar eru viðeigandi. Í þessum reikningsskilareglum er heimilt að hafa ákvæði þar sem félaginu er heimilað að skrá allar færslur og gefa út fjárhagsyfirlit í bandaríkjadölum í samræmi við almennt viðurkenndar reikningsskilareglur sem gefnar eru út af Alþjóðlega reikningsskilaráðinu. Slíkt fyrirkomulag má fela í sér undanþágur frá ákvæðum [laga um tekjuskatt].1)
1)L. 129/2004, 145. gr.
8. gr. Lögsaga og lausn deilumála.
Uppbygging, túlkun og framkvæmd samninga, sem gerðir verða innan ramma þessara laga, skulu lúta lögsögu íslenskra laga. Heimilt er þó að vísa ágreiningi til gerðardóms.
9. gr. Innflutningur og útflutningur.
Innflutningur og kaup félagsins eða einhvers fyrir þess hönd hérlendis á byggingarefnum, vélum og tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum fyrir álverksmiðjuna og tengd mannvirki, svo og til reksturs þeirra, skulu vera undanþegin tollum og vörugjöldum samkvæmt lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með áorðnum breytingum. Með samningum, sem gerðir eru innan ramma laga þessara, er heimilt að fella niður eða endurgreiða tolla og vörugjöld á vöru og þjónustu sem keypt er innan lands vegna byggingar álverksmiðjunnar.
10. gr. Framsal.
Heimilt er að semja um framsal félagsins og eigendanna á samningunum með tilteknum skilyrðum sem fram skulu koma í samningunum.
11. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
[Ákvæði til bráðabirgða.
Með vísan til 1. mgr. 6. gr. er heimilt að gera viðauka við fjárfestingarsamninginn um fyrirframgreiðslu félagsins á opinberum gjöldum á árunum 2010, 2011 og 2012 sem hér segir:
Þrátt fyrir ákvæði 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er [ráðherra er fer með tekjuöflun ríkisins]1) heimilt að kveða sérstaklega á um í reglugerð2) að félagið skuli greiða fyrir fram í þremur jöfnum greiðslum á árunum 2010, 2011 og 2012 upp í væntanlega álagningu á tekjuskatti og öðrum opinberum gjöldum á árunum 2013–2018. Af ástæðum er varða útreikning skal fjárhæð fyrirframgreiðslunnar taka mið af hlutfallslegri raforkunotkun félagsins eftir því sem kveðið verður nánar á um í fjárfestingarsamningnum.
Ef uppgjörsmynt félagsins er önnur en íslenskar krónur skal umreikna fyrirframgreiðsluna miðað við gengi uppgjörsmyntar félagsins á greiðsludegi. Þannig reiknuð fjárhæð í erlendri mynt skal ganga á móti álagningu á tekjuskatti og öðrum opinberum gjöldum félagsins, umreiknuð í íslenskar krónur á álagningardegi, á árunum 2013–2018. Fyrirframgreiðsla hvers árs sem slík tekur þannig engum öðrum breytingum en leiðir af gengisþróun frá greiðsludegi þar til hún gengur á móti álögðum opinberum gjöldum.
Í reglugerðinni skal nánar kveðið á um greiðsludagsetningar, uppgjör fyrirframgreiðslu við álagningu, endurgreiðslu o.fl.]3)
1)L. 126/2011, 359. gr. 2)Rg. 1018/2010, sbr. 1055/2010. 3)L. 151/2009, 4. gr.