Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins
2006 nr. 25 12. apríl
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 3. maí 2006. Breytt með:
L. 164/2006 (tóku gildi 30. des. 2006; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 5. gr.).
L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eða umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
1. gr.
[Ráðherra]1) skal stofna hlutafélag um rekstur Rafmagnsveitna ríkisins og leggja til þess allar eignir þeirra og skuldir, réttindi og skuldbindingar. Ákvæði 2. mgr. 14. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, gildir ekki um innborgun hlutafjár. Þá gildir 2. mgr. 3. gr. laganna ekki um tölu stofnenda í hlutafélaginu og 1. mgr. 20. gr. sömu laga gildir ekki um tölu hluthafa.
Skal [ráðherra]1) annast undirbúning að stofnun hlutafélagsins í samráði við [þann ráðherra er fer með eignir ríkisins].1)
1)L. 126/2011, 418. gr.
2. gr.
Ákvæði laga um hlutafélög gilda um félagið ef ekki er kveðið á um annað í lögum þessum.
3. gr.
Öll hlutabréf í hlutafélaginu skulu vera eign ríkissjóðs. [[Ráðherra er fer með eignir ríkisins]1) fer með eignarhlut ríkisins í hlutafélaginu.]2)
Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum. Þeir skulu kosnir á aðalfundi ár hvert.
1)L. 126/2011, 418. gr. 2)L. 164/2006, 3. gr.
4. gr.
Tilgangur hlutafélagsins skal vera að framleiða, dreifa og eiga viðskipti með raforku og varmaorku í samræmi við ákvæði raforkulaga, nr. 65/2003, og orkulaga, nr. 58/1967, vegna hitaveitna, hvort heldur er í heildsölu eða smásölu, ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað félagsins.
Hlutafélaginu skal heimilt að gera hvers konar samninga við aðra aðila til þess að ná tilgangi sínum skv. 1. mgr. á sem hagkvæmastan hátt. Þá skal félaginu heimilt að standa að stofnun fyrirtækja og gerast eignaraðili að öðrum félögum.
Tilgangi og verkefnum hlutafélagsins skal nánar lýst í samþykktum þess. Samþykktum félagsins má breyta á hluthafafundi samkvæmt almennum reglum.
5. gr.
Hlutafélagið tekur við einkarétti Rafmagnsveitna ríkisins til starfrækslu hita- og/eða dreifiveitna á orkuveitusvæði Rafmagnsveitnanna.
Í samræmi við 1. gr. yfirtekur hlutafélagið allar virkjanir Rafmagnsveitna ríkisins og þau réttindi og skyldur sem Rafmagnsveiturnar hafa samkvæmt lögum eða stjórnvaldsákvörðunum vegna virkjunarframkvæmda og reksturs virkjana.
6. gr.
Stjórn hlutafélagsins setur gjaldskrá fyrir félagið í samræmi við ákvæði raforkulaga, nr. 65/2003, og orkulaga, nr. 58/1967, vegna hitaveitna.
7. gr.
Þegar starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins verður lögð niður, sbr. 1. gr., fer um réttindi og skyldur starfsmanna þeirra eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á. Félagið skal bjóða störf öllum starfsmönnum Rafmagnsveitna ríkisins.
Um biðlaunarétt starfsmanna Rafmagnsveitna ríkisins gilda ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
8. gr.
Starfsmaður sem hefur áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna skv. 24. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og ræðst til starfa hjá hlutafélaginu með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti í hálft starf eða meira getur ekki hafið töku lífeyris fyrr en hann lætur af því starfi.
9. gr.
Stofna skal hlutafélagið á stofnfundi sem haldinn skal eigi síðar en 15. júlí 2006. Allur kostnaður af stofnun hlutafélagsins og yfirtöku þess á rekstri Rafmagnsveitna ríkisins greiðist af hlutafélaginu.
10. gr.
Hlutafélagið skal taka til starfa 1. ágúst 2006 og yfirtaka allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Rafmagnsveitna ríkisins. Rafmagnsveitur ríkisins skulu lagðar niður frá og með þeim degi og fellur þá jafnframt niður umboð stjórnar fyrirtækisins.
[Þrátt fyrir tímamark yfirtöku skv. 1. mgr. skal hlutafélagið yfirtaka skattaréttarlegar skuldbindingar og réttindi Rafmagnsveitna ríkisins frá upphafi árs 2006. Skal upphafsefnahagsreikningur hlutafélagsins í skattalegu tilliti miðast við 1. janúar 2006 að gerðu endurmati eigna og fyrninga skv. II. kafla laga nr. 50/2005, um skattskyldu orkufyrirtækja, og hafi ekki í för með sér skattskyldu vegna hagnaðar af afhentum eða mótteknum eignum.]1)
1)L. 164/2006, 4. gr.
11. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi. …
Ákvæði til bráðabirgða.
Á stofnfundi skal kjósa stjórn félagsins og skal hún starfa þar til ný stjórn hefur verið kosin á fyrsta aðalfundi eftir að félagið hefur tekið til starfa. Hlutverk stjórnar fram að yfirtöku er að undirbúa yfirtöku á rekstri Rafmagnsveitna ríkisins, en eftir það að stjórna félaginu í samræmi við ákvæði laga.