Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um heimild til að staðfesta fjárfestingarsamning við Algalíf Iceland ehf. um smáþörungaverksmiðju á Reykjanesi

2014 nr. 58 27. maí


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 4. júní 2014.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eða háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Heimild.
Ráðherra er veitt heimild til að staðfesta fyrir hönd ríkisstjórnarinnar fjárfestingarsamning við Algalíf Iceland ehf. (félagið) sem undirritaður var 28. janúar 2014 með fyrirvara um heimild Alþingis.
Starfsemi félagsins skal vera í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli, nema að því leyti sem á annan veg er mælt fyrir í lögum þessum.
Fjárfestingarsamningur sá sem ráðherra undirritar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og veitt er heimild til að staðfesta samkvæmt lögum þessum skal birtur í B-deild Stjórnartíðinda.
2. gr. Verkefnið.
Verkefnið sem lög þessi taka til felur í sér að félagið rekur smáþörungaframleiðslu við Ásbrú á Reykjanesi, eins og nánar er kveðið á um í fjárfestingarsamningnum.
3. gr. Undanþágur frá lögum.
Félagið skal undanþegið ákvæðum 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, þar sem sett eru þau skilyrði að 4/5 hlutar hlutafjár hlutafélags séu eign íslenskra ríkisborgara, að meiri hluti atkvæða á hluthafafundum sé í höndum íslenskra ríkisborgara og að allir stjórnendur séu íslenskir ríkisborgarar.
Félagið skal undanþegið ákvæðum 2. mgr. 42. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, þar sem þess er krafist að meiri hluti stjórnarmanna og framkvæmdastjóri einkahlutafélags skuli vera búsettir á Íslandi, svo og sambærilegum ákvæðum er kunna síðar að verða leidd í lög.
4. gr. Skattlagning og gjaldtaka.
Félagið skal greiða skatta og önnur opinber gjöld sem almennt eru lögð á hér á landi, eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma, nema að því leyti sem á annan veg er fyrir mælt í lögum þessum.
Þrátt fyrir ákvæði í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og breytingar sem síðar kunna að verða á þeim lögum skal félagið greiða 18% tekjuskatt. Fastafjármunir sem tengjast félaginu teljast vera byggingar, vélar og almennir rekstrarfjármunir með föstu hlutfalli sem skulu flokkaðir skv. 37. og 38. gr. laga nr. 90/2003.
Félagið skal undanþegið stimpilgjöldum af öllum stimpilskyldum skjölum sem félagið gefur út eða stofnað er til í tengslum við uppbyggingu vegna fjárfestingarverkefnisins.
Almennt tryggingagjald sem félagið greiðir skal vera 50% lægra en það sem kveðið er á um í lögum um tryggingagjald eins og þau eru og verða á samningstímanum.
Hlutfall fasteignaskatts sem félagið greiðir skal vera 50% lægra en áskilið hámarkshlutfall skv. II. kafla laga nr. 4/1995. Sama regla skal gilda við breytingar sem síðar kunna að verða á þeim lögum.
Gjaldhlutfall gatnagerðargjalds sem félagið greiðir skal vera 30% lægra en samkvæmt almennri gjaldskrá Reykjanesbæjar.
Félagið skal undanþegið markaðsgjaldi samkvæmt lögum nr. 38/2010, um Íslandsstofu, með áorðnum breytingum, sem og öðrum ámóta eða efnislega svipuðum sköttum eða gjöldum sem kynnu að verða lögð á síðar, til viðbótar við eða í staðinn fyrir markaðsgjald.
Á því ári sem nýjar eignir eru teknar í notkun getur félagið valið að fyrna þær eignir með hlutfalli árlegrar fyrningar í stað heils árs fyrningar eins og annars er kveðið á um í 34. gr. laga nr. 90/2003. Þrátt fyrir ákvæði 42. gr. laga nr. 90/2003 er félaginu heimilt að fyrna eignir sínar þannig að ekki standi eftir niðurlagsverð.
Innflutningur eða innkaup innan lands af hálfu eða fyrir hönd félagsins á byggingarefnum, hráefnum og öllum öðrum framleiðsluaðföngum, sem nauðsynleg eru til reksturs verksmiðjunnar, vélum og búnaði og öðrum framleiðslutækjum og varahlutum í verksmiðjuna og til reksturs hennar, skulu undanþegin íslenskum aðflutningsgjöldum samkvæmt tollalögum, nr. 88/2005, og lögum nr. 97/1987, um vörugjald, svo og hvers kyns ámóta eða efnislega svipuðum sköttum og gjöldum sem kynnu að verða lögð á til viðbótar við eða í staðinn fyrir slík gjöld.
Ívilnanir, undanþágur, undantekningar og önnur ákvæði þessarar greinar skulu halda fullu gildi í 10 ár frá þeim tíma sem til viðkomandi skattskyldu eða gjaldskyldu er stofnað af hálfu félagsins, en þó aldrei lengur en í 13 ár frá gildistöku samningsins, þrátt fyrir síðari breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, lögum nr. 38/2010, um Íslandsstofu, tollalögum, nr. 88/2005, lögum nr. 97/1987, um vörugjald, lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, eða öðrum lögum eða afleiddum lögum sem annars kynnu að takmarka eða draga úr áhrifunum sem stefnt er að með ákvæðum greinarinnar.
Almenn ákvæði íslenskra laga um tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á og í gildi eru á hverjum tíma og varða skattframtal, framtalsfrest, álagningu, endurskoðun, endurálagningu, innheimtu, gjalddaga og greiðslu, sem og aðrar uppgjörsreglur varðandi tekjuskatt, virðisaukaskatt og útsvar, auk andmæla og ágreinings í tengslum við þau, skulu gilda um félagið.
Á gildistíma fjárfestingarsamningsins getur félagið valið að almenn ákvæði íslenskra skattalaga, eins og þau eru á hverjum tíma, gildi um það fremur en sérákvæði fjárfestingarsamningsins. Beiðni um slíka breytingu skal gerð með skriflegri tilkynningu sem lögð skal fram eigi síðar en 1. júní á almanaksári áður en breytingin á að taka gildi. Berist slík beiðni skulu ríkisstjórnin, eigandinn og félagið þegar ganga til samninga um breytinguna yfir í hið almenna skattkerfi. Ríkisstjórnin, eigandinn og félagið skulu koma sér saman um aðferðir við framkvæmd slíkrar breytingar. Eftir það skal félagið lúta almennum íslenskum skattalögum það sem eftir er af gildistíma fjárfestingarsamningsins.
5. gr. Framsal.
Heimilt er að semja um framsal eignarhluta í félaginu eða á réttindum og skyldum félagsins samkvæmt fjárfestingarsamningnum með tilteknum skilyrðum sem koma fram í honum.
6. gr. Lögsaga.
Uppbygging, túlkun og framkvæmd samninga, sem eru gerðir innan ramma þessara laga, skal lúta íslenskum lögum og lögsögu íslenskra dómstóla.
7. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.